• Lykilorð:
  • Dráttarvextir
  • Fyrning
  • Gjafsókn
  • Líkamstjón
  • Sönnun
  • Sönnunarbyrði
  • Vextir
  • Skaðabótamál, miski/örorka

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur fimmtudaginn 3. maí 2018 í máli nr. E-1596/2017:

Mariusz Raczkowski

(Guðbjörg Benjamínsdóttir lögmaður)

gegn

Vátryggingafélagi Íslands hf.

(Svanhvít Axelsdóttir lögmaður)

 

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 15. mars 2018, höfðaði Mariusz Raczkowski, [...], hinn 10. maí 2017 á hendur Vátryggingafélagi Íslands hf., [...]

            Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi greiði stefnanda 14.596.789 krónur með 4,5% vöxtum af 2.622.703 krónum frá 31. mars 2008 til 31. mars 2009, en af 14.596.789 krónum frá þeim degi til 19. nóvember 2009, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, af þeirri fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun stefnda þann 30. nóvember 2009 að fjárhæð 6.320.049 krónur, innborgun Sjúkratrygginga Íslands þann 25. janúar 2011 að fjárhæð 1.730.460 krónur og innborgun stefnda þann 18. ágúst 2017 að fjárhæð 134.770 krónur. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

            Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar. Í báðum tilvikum gerir stefndi kröfu um málskostnað úr hendi stefnanda.

           

I

Helstu málsatvik og ágreiningsefni

            Stefnandi, sem er pólskur ríkisborgari, varð fyrir vinnuslysi í starfi sínu sem verkamaður hjá Þórtaki ehf. þann 31. mars 2008, en hann var starfsmaður starfsmannaleigunnar Intjob (Framkvæmdaráðs ehf.) og hafði einungis starfað fáeina daga hjá Þórtaki ehf. Slysið varð í lyftuopi við Bjarkarvelli 5 í Hafnarfirði, þannig að stefnandi féll niður um nokkra metra í lyftuopi með þeim afleiðingum að hann ökklabrotnaði, eftir að timburvinnupallur sem hann stóð á féll undan honum. Ágreiningslaust er að slys stefnanda er skaðabótaskylt úr ábyrgðartryggingu Þórtaks ehf. hjá stefnda og er kröfu beint að stefnda á grundvelli 1. mgr. 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Þá er enginn ágreiningur um tjón stefnanda. Ágreiningurinn lýtur eingöngu að því hvort stefnda sé stætt á því að skerða bætur stefnanda um helming vegna eigin sakar.

            Timburvinnupallurinn sem stefnandi stóð á hvíldi á fjórum samsíða burðarbitum (þverstífum) sem festir voru í veggi lyftuopsins en til stóð að undirbúa uppsetningu á lyftubúnaði og hafði stefnandi sagað hluta burðarbitanna frá veggnum er pallurinn féll undan honum. Lögreglu var strax tilkynnt um slysið og Vinnueftirlit ríkisins kallað til. Í lögregluskýrslu er haft eftir Jens Magnúsi Magnússyni verkstjóra að stefnandi hafi átt að saga niður tvær þverstífur af fjórum þannig að endastífur stæðu eftir til að bera uppi borð sem unnt væri að standa á, en að verkstjórinn teldi að stefnandi hefði einnig sagað niður aðra endastífuna. Í skýrslu eftirlitsmanns vinnueftirlitsins, sem skoðaði aðstæður samdægurs, er orsök slyssins talin vera röng vinnubrögð sem hugsanlega megi rekja til misskilnings vegna tungumálaörðugleika. Skýrslunni fylgja ljósmyndir, sem sagðar eru sýna að fimm endar þriggja burðarbita pallsins hafi verið sagaðir af, frá veggjum lyftuopsins, en sjá sjötti hafi brotnað.      

            Stefndi hafnaði upphaflega bótaskyldu úr ábyrgðartryggingu með bréfi, dags. 28. maí 2009, með vísan til þess að tjón stefnanda yrði ekki rakið til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi vátryggingartaka eða starfsmanna hans eða annarra atvika eða aðstæðna sem vátryggingartaki bæri skaðabótaábyrgð á. Stefnandi skaut niðurstöðu stefnda til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum, sem hnekkti niðurstöðunni með áliti, dags. 25. ágúst 2009 og taldi vera fyrir hendi greiðsluskyldu úr ábyrgðartryggingu vegna slyssins. Tekið var fram í álitinu að miðað við takmarkaða starfsreynslu stefnanda og tungumálaörðugleika væri ekki tilefni til að skerða réttarstöðu stefnanda vegna eigin sakar. Með bréfi, dags. 1. september 2009, tilkynnti stefndi úrskurðarnefnd og lögmanni stefnanda að félagið hygðist ekki una áliti úrskurðarnefndar, enda væri það afstaða stefnda að ekki væri fyrir hendi bótaskylda úr ábyrgðartryggingu þar sem stefnandi hefði alfarið valdið tjóni sínu sjálfur. Í kjölfarið óskuðu stefnandi og stefndi þó sameiginlega eftir mati á afleiðingum slyssins.

            Afleiðingar slyssins voru metnar af læknunum Ragnari Jónssyni og Atla Þór Ólasyni. Komust læknarnir að þeirri niðurstöðu í matsgerð, dags. 5. október 2009, að tímabundið atvinnutjón skv. 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 væri 100% frá 31. mars 2008 til 31. ágúst 2009; að stefnandi ætti rétt til þjáningabóta skv. 3. gr. skaðabótalaga sem rúmliggjandi frá 31. mars 2008 til 3. apríl 2008, en sem batnandi án þess að vera rúmliggjandi frá 4. apríl 2008 til 31. mars 2009; að varanlegur miski samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga væri 25 stig; að varanleg örorka samkvæmt 5.–7. gr. skaðabótalaga væri 40% og að stöðugleikapunktur miðaðist við 31. mars 2009.

            Með kröfubréfi stefnanda, dags. 19. október 2009, var stefndi krafinn um óskertar bætur á grundvelli framangreindrar matsgerðar. Í kjölfarið féllst stefndi á bótaskyldu úr ábyrgðartryggingu vegna slyssins en bætur voru skertar um 50% vegna eigin sakar stefnanda. Gerðar voru upp bætur úr ábyrgðartryggingu þann 30. nóvember 2009 með greiðslu sem samtals nam 6.958.468 krónum (6.320.049 krónur auk vaxta, innheimtuþóknunar og virðisaukaskatts), en lögmaður stefnanda gerði við uppgjörið fyrirvara „um eigin sök og greiðslu frá Tryggingast. R.“.

            Til viðbótar er þess að geta að Sjúkratryggingar Íslands mátu hinn 24. janúar 2011 læknisfræðilega örorku stefnanda 25%, í samræmi við matsgerð Guðna Arinbjarnar læknis frá 25. maí 2010, og var stefnanda send greiðslukvittun samdægurs vegna eingreiðslu örorkubóta að fjárhæð 1.730.460 krónur.

            Undir rekstri málsins, 18. ágúst 2017, greiddi stefndi stefnanda alls 375.179 krónur (134.770 krónur auk vaxta, innheimtuþóknunar og virðisaukaskatts) til leiðréttingar á bótauppgjöri, en bætur frá Sjúkratryggingum Íslands munu hafa verið áætlaðar í fyrra uppgjöri.

 

II

Málsástæður stefnanda

            Stefnandi byggir á því að Þórtak ehf. beri skaðabótaábyrgð á slysi hans á grundvelli hinnar óskráðu meginreglu skaðabótaréttarins um vinnuveitandaábyrgð, sakarreglunnar og þeirra skráðu reglna er gildi um aðbúnað, öryggi og hollustu á vinnustöðum. Sé tjónið því bótaskylt úr ábyrgðartryggingu Þórtaks ehf. sem hafi verið í gildi hjá stefnda á tjónsdegi. Í ljósi sakar vinnuveitanda beri ekki að skerða bætur stefnanda um helming.

            Að mati Vinnueftirlits ríkisins hafi meginorsök slyssins verið að rekja til rangra vinnubragða sem hugsanlega hafi mátt rekja til misskilnings vegna tungumálaörðugleika.

            Stefnandi vísar til 13., 14. og 37. gr. laga nr. 46/1980, sbr. einnig 42. gr. sömu laga, um skyldur atvinnurekanda til að tryggja og haga vinnu þannig að gætt sé fyllsta öryggis, góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað. Fylgja skuli viðurkenndum stöðlum, ákvæðum laga og reglugerða, svo og fyrirmælum Vinnueftirlits ríkisins, að því er varði aðbúnað, hollustuhætti og öryggi. Þá skuli atvinnurekandi gera starfsmönnum sínum ljósa slysa- og sjúkdómshættu, sem kunni að vera bundin við starf þeirra. Atvinnurekandi skuli að auki sjá um að starfsmenn fái nauðsynlega kennslu og þjálfun í að framkvæma störf sín á þann hátt að ekki stafi hætta af.

            Jafnframt sé vísað til 1. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 367/2006 um notkun tækja þar sem segi að atvinnurekandi skuli sjá um að starfsmenn fái nauðsynlega kennslu og þjálfun við að framkvæma störf sín á þann hátt að ekki stafi hætta af. Gera verði þær kröfur til vinnuveitenda að þeir komi nauðsynlegum leiðbeiningum til starfsmanna sinna með þeim hætti að starfsmennirnir skilji í raun hvað átt sé við og hvað beri að varast. Þá sé einnig vísað til ákvæða 4. gr. II. viðauka reglugerðarinnar varðandi tímabundna vinnu starfsmanna við fallhættu, en þá beri að gera sérstaklega ríkar kröfur til vals á tækjum, persónuhlífum og fallvarnarbúnaði.

            Fullnægjandi eftirliti, kennslu og fyrirmælum hafi augljóslega verið ábótavant í tilviki stefnanda þar sem hann hafi ekki hlotið neina fræðslu um framkvæmd starfa sinna og um sérstaklega hættulegt verk hafi verið að ræða. Leggi stefnandi áherslu á að hann hafi verið óreyndur í byggingarvinnu og hafi einungis unnið í örfáa daga hjá Þórtaki ehf. Því sé alfarið hafnað, sem fram komi í höfnunarbréfi stefnda, dags. 28. maí 2009, að hann hafi verið vanur byggingarverkamaður. Þótt stefnandi hafi verið ráðinn í gegnum starfsmannaleigu breyti það ekki mikilvægi þess að verkstjóri kynni sér reynslu og þekkingu þeirra starfsmanna sem ráðnir séu til verka, sér í lagi þegar hætta fylgi verkum, líkt og í þessu tilviki.

            Fram komi í skýrslu Vinnueftirlits ríkisins að bæði verkstjóri og smiður Þórtaks ehf. hafi viðurkennt mikla erfiðleika í samskiptum við stefnanda sökum þess að hann skildi hvorki íslensku né ensku. Hér verði að hafa í huga að vinnuveitanda sé það í sjálfsvald sett hvort hann ráði til sín erlent starfsfólk. Ákveði vinnuveitandi á annað borð að ráða til sín slíkt starfsfólk verði hann að undirgangast þær lagaskyldur sem almennt hvíli á honum til þess að tryggja öryggi starfsmanna sinna. Væri það með öllu ótækt og óeðlilegt ef „veittur yrði afsláttur“ af þeirri kröfu þegar í hlut ætti erlent starfsfólk, sem hvorki skilji íslensku né ensku. Geti vinnuveitandi því ekki borið fyrir sig tungumálaörðugleika þegar fyrir liggi að brotið hafi verið gegn skráðum hátternisreglum um öryggi starfsmanna og séu skyldur vinnuveitanda raunar ríkari við slíkar aðstæður.

            Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum hafi fallist á fulla bótaskyldu í máli stefnanda. Nefndin hafi talið ljóst að rekja mætti slys stefnanda til rangra vinnubragða, ófullnægjandi verkstjórnar og mögulegs misskilnings vegna tungumálaörðugleika. Nefndin hafi tekið fram að mikilvægt væri að starfsmenn og verkstjórar hjá Þórtaki ehf. kynntu sér reynslu og þekkingu þeirra starfsmanna sem ráðnir væru til verka. Engu breyti þótt um sé að ræða starfsmenn starfsmannaleigu. Þá hafi verið tekið fram að ábyrgð á verkstjórn í þessu tilviki virtist hafa verið hjá Þórtaki ehf. og reyndum starfsmönnum fyrirtækisins. Fyrir liggi að tungumálaerfiðleikar hafi verið og að stefnandi hafi átt að vinna sem verkamaður á vinnusvæðinu, þ.e. hafi átt að aðstoða smiði á staðnum. Nefndin hafi því lagt til grundvallar að verkstjórn og aðstæðum á vettvangi hafi verið ábótavant og því sé greiðsluskylda fyrir hendi. Miðað við takmarkaða starfsreynslu stefnanda og tungumálaerfiðleika væri ekki tilefni til að skerða réttarstöðu stefnanda vegna eigin sakar. Taki stefnandi undir framangreinda niðurstöðu nefndarinnar.

            Með hliðsjón af framangreindu telji stefnandi það liggja í augum uppi að um saknæma háttsemi verkstjóra Þórtaks ehf. og yfirmanna stefnanda hafi verið að ræða, þar sem þeir hafi hvorki greint stefnanda fyllilega frá þeirri hættu sem í starfinu fælist né veitt honum fullnægjandi tilsögn um framkvæmd starfans.

            Á verkstjóra á vinnustað hvíli mikilvægar skyldur samkvæmt lögum nr. 46/1980. Samkvæmt 21. gr. laganna sé verkstjóri fulltrúi atvinnurekanda og beri honum að sjá til þess að allur búnaður sé góður og að öruggt skipulag sé ríkjandi á þeim vinnustað sem hann hafi umsjón með. Í 1. mgr. 23. gr. laganna sé einnig kveðið á um að verkstjóri skuli beita sér fyrir því að starfsskilyrði innan þess starfssviðs sem hann stjórnar séu fullnægjandi að því er varði aðbúnað, hollustuhætti og öryggi. Hann skuli sjá um að þeim ráðstöfunum sem gerðar séu til þess að auka öryggi og bæta aðbúnað og hollustuhætti sé framfylgt. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar skuli verkstjóri jafnframt tryggja að hættu sé afstýrt verði hann var við einhver þau atriði sem leitt geti til hættu á slysum eða sjúkdómum. Í tilviki stefnanda hafi verið nauðsynlegt að tryggja virka verkstjórn vegna tungumálaörðugleika og reynsluleysis stefnanda, en ekki verði betur séð en að verkstjóri á vettvangi hafi með öllu brugðist þeim skyldum sem á honum hvíldu samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum laga nr. 46/1980.

            Stefnandi hafni því með öllu að slysið hafi orðið vegna eigin sakar hans. Þegar metið sé hvort starfsmaður skuli bera hluta tjóns síns sjálfur vegna vanrækslu verði að taka tillit til skyldna vinnuveitandans, sem beri höfuðábyrgð á því vinnuumhverfi sem hann búi starfsmönnum sínum og því hvernig vinnan sé framkvæmd. Mat á saknæmisstigi tjónþola sé því ekki einangrað, heldur sé það vegið saman við saknæmisstig tjónvalds. Niðurstaða um hlutfall meðábyrgðar tjónþola hljóti því að vera háð framgöngu tjónvalds. Vinnuveitandi beri ábyrgð á því að ákvæði laga og stjórnvaldsreglna sem lúta að vinnustaðnum og vinnuumhverfi í víðasta skilningi, þar með taldar reglur sem lúta að öryggi starfsmanna, séu í heiðri höfð. Lög og reglur á sviði vinnuréttar feli það í sér að það sé vinnuveitandinn sem ráði skipulagi og framkvæmd starfa innan fyrirtækis hans. Um það hafi starfsmaður lítið að segja enda sé hann undir boðvaldi vinnuveitanda síns og óhlýðni við boð og bönn vinnuveitanda, m.a. fyrirmæli um starf, geti talist vera vanefnd á ráðningarsamningi af hálfu starfsmannsins og heimilað vinnuveitanda hans að grípa til úrræða gegn starfsmanninum. Í þessu samhengi vísi stefnandi m.a. til dóms EFTA-dómstólsins í máli nr. E-2/10 frá 10. desember 2010 þar sem sams konar sjónarmið komi fram.

            Í ljósi alls framangreinds telji stefnandi einsýnt að vinnuveitandi hans, Þórtak ehf., hafi brotið gróflega gegn skráðum hátternisreglum á starfssviðinu með ólögmætum og saknæmum hætti. Á grundvelli meginreglna skaðabótaréttar um vinnuveitandaábyrgð og sök telji stefnandi einsýnt að slys hans sé bótaskylt úr frjálsri ábyrgðartryggingu Þórtaks ehf. hjá stefnda.

Í endanlegri kröfugerð stefnanda er krafa hans sundurliðuð með eftirfarandi hætti:

 

1.         Bætur skv. 3. gr. skbl.:

(1.300 x (6850/3282)) x 3                                                                  8.140,- kr.

(700 x (6850/3282)) x 361                                                             527.421,- kr.

                                                                       

2.         Bætur skv. 4. gr. skbl.:

            4.000.000 x (6850/3282) x 25%                                                  2.087.142,- kr.

 

3.         Bætur skv. 5.–7. gr. skbl.:

            1.200.000 x 6611/3282 = 2.417.185  

            2.412.185 x 12,410 x 40%                                                         11.974.086,- kr.

                                                                        Samtals:                         14.596.789,- kr.

            Frádráttarliðir

            Greiðsla stefnda 30. nóvember 2009                                           6.320.049,- kr.

            Greiðsla frá Sjúkratryggingum Íslands 25. janúar 2011              1.730.460,- kr.

            Greiðsla stefnda þann 18. ágúst 2017                                             134.770,- kr.

 

ALLS:                                                                                                                6.411.510,- kr.

 

            Kröfugerð sína kveður stefnandi miðast við áðurnefnda matsgerð Ragnars Jónssonar og Atla Þórs Ólasonar um afleiðingar slyssins og sé tekið mið af skaðabótalögum nr. 50/1993 eins og þau hafi verið á slysdeginum.

Krafa um þjáningabætur byggi á 3. gr. skaðabótalaga. Séu þjáningabæturnar reiknaðar með hliðsjón af matsgerðinni. Samkvæmt því reiknast þjáningabætur í alls 364 daga, þar af þrjá daga þar sem stefnandi hafi verið rúmliggjandi. Séu fjárhæðir uppfærðar miðað við lánskjaravísitölu í október 2009, sbr. 15. gr. laganna.

Krafa um bætur vegna varanlegs miska byggi á 4. gr. skaðabótalaga og áðurgreindu mati um 25 stiga varanlegan miska. Fjárhæð bótanna taki mið af grunnfjárhæðinni, 4.000.000 króna, uppfærðri miðað við lánskjaravísitölu í október 2009, sbr. 15. gr. laganna.

            Krafa um bætur vegna varanlegrar örorku taki einnig mið af framangreindri matsgerð og 5.–7. gr. skaðabótalaga. Hafi varanleg örorka verið talin hæfilega metin 40% og miðist kröfugerð stefnanda við þá niðurstöðu. Við útreikning bóta sé tekið mið af aldursstuðlinum 12,410 samkvæmt lögunum, en á stöðugleikapunkti hafi stefnandi verið31 árs og 296 daga gamall.

            Við ákvörðun bóta vegna varanlegrar örorku sé ekki unnt að taka mið af tekjum stefnanda samkvæmt skattframtölum síðustu þrjú almanaksár fyrir slysið í samræmi við meginreglu 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga þar sem laun stefnanda hafi verið undir lágmarkslaunum á því tímabili. Sé því farin sú leið að miða við 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.

            Krafist sé 4,5% vaxta skv. 16. gr. skaðabótalaga vegna þjáningabóta og bóta vegna varanlegs miska frá slysdegi, þann 31. mars 2008, fram að stöðugleikatímapunkti, þann 31. mars 2009, en frá þeim degi einnig af bótum vegna varanlegrar örorku, skv. 16. gr. skaðabótalaga, fram til 19. nóvember 2009, en dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af þeirri fjárhæð frá þeim degi og fram til greiðsludags, allt að frádregnum framangreindum innborgunum 30. nóvember 2009 og 25. janúar 2011 [og 18. ágúst 2017; innsk. dómara]. Þess beri að geta að þann 19. nóvember 2009 hafi mánuður verið liðinn frá því að lögmaður stefnanda sendi kröfubréf til stefnda þar sem krafist hafi verið greiðslu samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð. Beri því að reikna dráttarvexti á kröfuna frá þeim degi, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

            Um lagarök sé vísað til skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum, auk almennra ólögfestra reglna skaðabótaréttar um sök og vinnuveitandaábyrgð. Jafnframt sé vísað til laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga. Einnig sé vísað til ákvæða laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, reglugerðar um notkun tækja nr. 367/2006 og reglugerðar nr. 920/2006 um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur aðili skv. lögum nr. 50/1988 og beri því nauðsyn til að tekið verði tillit til skattsins við ákvörðun málskostnaðar. Um vaxtakröfuna sé sérstaklega vísað til 16. gr. skaðabótalaga og um dráttarvaxtakröfuna til 1. mgr. 6. gr. og 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Um málskostnað sé vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 1. mgr. 130. gr. þeirra.

 

III

Málsástæður stefnda

            Sönnun og sönnunarreglur

            Stefndi bendir á að réttur stefnanda til bóta úr ábyrgðartryggingu vátryggingartaka hjá stefnda grundvallist samkvæmt skilmálum tryggingarinnar á sakarreglunni. Í málinu gildi því almennar sönnunarreglur skaðabótaréttar og leiði af þeim reglum að stefnandi beri alla sönnunarbyrðina fyrir því að hann eigi rétt til frekari bóta en hann hafi þegar fengið greiddar frá stefnda.

            Ágreiningsefni málsins

            Með því að stefndi hafi fallist á bótaskyldu sem nemi helmingi tjónsins, og fengið greiddar bætur í samræmi við það, sé ekki deilt um sök í málinu eða afleiðingar slyssins.

            Ágreiningur málsins snúi eingöngu að því hvort stefnandi hafi sýnt af sér saknæma háttsemi við vinnu sína sem heimili skerðingu bóta til hans á grundvelli reglna skaðabótaréttar um brottfall bótaréttar vegna eigin sakar.

            Aðalkrafa – sýkna

            Sýknukrafa stefnda byggist á því að með þegar greiddum skaðabótum hafi stefnandi fengið að fullu þær skaðabætur sem hann eigi rétt til úr ábyrgðartryggingu vátryggingartaka hjá stefnda vegna umstefnds slyss.  

            Sýknukrafan byggist nánar á því að stefnandi hafi sýnt af sér gáleysi við vinnu í umrætt sinn. Því sé heimilt að skipta sök í málinu og gera stefnanda að bera helming tjóns síns sjálfur á grundvelli reglna skaðabótaréttar um áhrif eigin sakar á bótarétt. Stefndi veki í því sambandi athygli á að í málinu dugi einfalt gáleysi til að skerða megi bætur vegna eigin sakar enda hafi umstefnt slys átt sér stað fyrir gildistöku 1. mgr. 23. gr. a í skaðabótalögum nr. 50/1993.

            Stefndi hafni því sem byggt sé á í stefnu að vátryggingartaki beri að öllu leyti ábyrgð á því að slysið hafi orðið. Þvert á móti telji stefndi málsgögn sýna glögglega að meginorsök slyssins hafi verið aðgæsluleysi stefnanda sjálfs og gáleysisleg hegðun hans. 

            Slysið hafi orðið með þeim hætti að stefnandi féll eftir að hann hafði sagað þverspýtur undan palli sem var í lyftuopi. Um hafi verið að ræða þverspýtur sem voru undirstaða undir pallinn og hafi stefnandi verið uppi á pallinum þegar hann sagaði, þ.e hann hafi sagað niður fyrir sig.

            Stefndi kveðst ekki telja að ágreiningur sé um að atvik er stefnandi féll og slasaðist séu með þessum hætti. Komi það enda glögglega fram í lýsingum stefnanda sjálfs í bréfi lögmanns hans til stefnda, dags. 11. mars 2009, á því hvernig slysið atvikaðist.

            Af sama bréfi megi sjá að stefnandi hafi gert sér fyllilega grein fyrir því að honum hafi ekki verið falið að vinna þetta verk, að saga þverspýturnar undan pallinum, og að hann hafi borið sig ranglega að með því að saga niður fyrir sig. Þá sé ekki annað að sjá en að stefnandi hafi fyllilega skilið það þegar honum var bannað að saga í lyftuopinu og hvað hafi falist í því er sögin hafi verið tekin af honum. Staðfesti stefnandi ennfremur í nefndu bréfi að hann hafi ekki farið eftir leiðbeiningum verkstjóra heldur útvegað sér nýja sög og haldið áfram að saga þverspýturnar undan pallinum. Stefndi telji að miða verði við lýsingu stefnanda sjálfs, eins og hún birtist í þessu bréfi, dags. 11. mars 2009, enda sé sú lýsing gefin um ári eftir slysið og því líklegri til að lýsa atvikum með réttum hætti en frásögn um níu árum síðar. Síðari lýsingar í málsgögnum, þar sem því sé haldið fram að stefnandi hafi bara verið að vinna verk sem honum hafi verið falið að vinna, honum hafi verið falið að vinna það með þessum hætti og ekki skilið fyrirmæli, séu því augljóslega ekki réttar og sé þeim hafnað sem röngum og ósönnuðum.

            Að mati stefnda liggi því fyrir með óyggjandi hætti, staðfest af stefnanda sjálfum, að slysið hafi fyrst og fremst orðið vegna athafna stefnanda sjálfs er hann vann umrætt verk og megi ljóst vera að þær athafnir hafi verið verulega gálausar. Af þeim sökum telji stefndi heimilt að skipta sök og gera stefnanda að bera helming tjóns síns sjálfur. Byggi það á dómvenju. Breyti engu í því sambandi hvort hegðun teljist stórfellt gáleysi eða hvort um almennt gáleysi sé að ræða, sakarskipting byggist í hvoru tilvikinu sem er á dómvenju en í tilviki stefnanda dugi einfalt gáleysi til sakarskiptingar. 

            Því sé mótmælt sem röngu og ósönnuðu, sem fullyrt sé í stefnu, að verkstjóri, eða aðrir starfsmenn vátryggingartaka, hafi gefið stefnanda fyrirmæli um að vinna þetta tiltekna verk og með þeim hætti sem stefnandi framkvæmdi það. Gögn sýni að svo hafi ekki verið og að verkstjóri, sem komið hafi að stefnanda við að saga niður fyrir sig í lyftuopinu, hafi bannað honum það og tekið af honum sögina því til áréttingar. Það eitt og sér hafi hlotið að vera stefnanda auðskilið, jafnvel þó einhverjir tungumálaerfiðleikar hefðu verið, sem stefndi telji þó vera ósannað. Þrátt fyrir það hafi stefnandi orðið sér úti um sög á ný og haldið verkinu áfram. Slysið hafi því átt sér stað af því að stefnandi hafi ekki orðið við fyrirmælum verkstjóra, heldur haldið áfram að saga. Það hafi endað með því að plankinn féll niður og stefnandi með.

            Jafnvel þó litið verði svo á að stefnanda hafi verið falið að saga þverspýturnar í lyftuopinu, þá breyti það engu um eigin sök stefnanda. Hafi honum verið falið þetta verk þá sé ljóst af bréfi lögmanns stefnanda, dags. 11. mars 2009, að hann hafi þá eingöngu átt að saga miðjuspýturnar og alls ekki með þeim hætti að saga niður fyrir sig, verandi uppi á pallinum. Slysið sé því að rekja til eigin athafna stefnanda sjálfs en ekki að neinu leyti til fyrirmæla frá einhverjum sem vátryggingartaki beri ábyrgð á.

            Þá sé því alfarið hafnað sem röngu og ósönnuðu að tungumálaerfiðleikar hafi átt einhvern þátt í því að slysið varð. Í samskiptum við stefnanda, um að hann ætti að aðstoða smiði sem voru að vinna í byggingunni, hafi ekki annað verið að sjá en að hann skildi það fyllilega. Í það minnsta hafi stefnandi ekkert gefið til kynna um að svo væri ekki.

            Hafi stefnandi eitthvað misskilið hvað hann átti að gera, hafi honum ekki getað dulist að þetta verk ætti hann ekki að vinna, og ekki eins og hann gerði, eftir að verkstjóri sem hafi komið að honum við verkið hafi gefið það skýrt til kynna, m.a. með því að taka af stefnanda sögina. Það hafi eingöngu verið að eigin ákvörðun sem stefnandi hafi orðið sér úti um aðra sög og haldið verkinu áfram, og ekki síst hvernig það verk hafi verið unnið. Á því beri vátryggingartaki ekki ábyrgð heldur eingöngu stefnandi sjálfur.

            Þá sé fullyrðingum í stefnu um að stefnandi hafi verið alls óvanur byggingarvinnu, og að það skipti máli um eigin sök, sömuleiðis mótmælt sem röngum og ósönnuðum. Stefndi bendi á að vátryggingartaki hafi fengið stefnanda til vinnu sem vanan byggingarverkamann og mátt treysta því að svo væri. Hafi svo ekki verið sé ekki við vátryggingartaka að sakast heldur hljóti stefnandi þá að hafa villt á sér heimildir. Þar fyrir utan telji stefndi það ekki skipta máli um það slys sem mál þetta snúist um.

            Ekki þurfi reynslu í byggingarvinnu til að sjá, eða mega sjá, að það að saga undirstöður undan palli, verandi á pallinum á sama tíma, geti auðveldlega haft í för með sér hættu á að falla niður og slasast. Megi hverjum fullorðnum einstaklingi, hvaða reynslu sem viðkomandi hafi, vera það ljóst og þurfi ekki sérstaka verkkunnáttu til. Stefnanda, sem hafi verið um þrítugt á slysdegi, hafi mátt vera slíkt ljóst og að slys gæti orðið.

            Þá hafni stefndi því alfarið sem röngu og ósönnuðu að fyllsta öryggis hafi ekki verið gætt og að eitthvað hafi verið athugavert við aðbúnað á vinnustaðnum, eins og stefnandi byggi á í stefnu. Enda, eins og stefnandi segi sjálfur, hafi slysið orðið vegna þess að stefnandi hafi ákveðið, þrátt fyrir að hafa verið bannað það, að saga þverbita undan pallinum sem hann var uppi á. Slysið hafi því ekki orðið vegna þess að eitthvað hafi verið athugavert við búnað eða skipulag á verkstað eða vegna brota gegn lögum og reglum sem vísað sé til í stefnu. Sé því hafnað að svo hafi verið og að það hafi haft áhrif á það sem gerðist.

            Því sé einnig alfarið hafnað sem röngu og ósönnuðu að einhverju hafi verið ábótavant við eftirlit, kennslu og fyrirmæli eins og haldið sé fram í stefnu. Þvert á móti segi stefnandi sjálfur að honum hafi verið bönnuð sú aðferð sem hann vildi nota en hann hafi ekki hlýtt því. Hafi stefnandi sjálfur því kosið að fara ekki eftir þeim fyrirmælum og leiðbeiningum sem hann hafi fengið um vinnuna. Á því beri hann sjálfur ábyrgð og sé ekki við vinnuveitanda að sakast um það. 

            Breyti engu um það þó e.t.v. hafi verið einhverjir erfiðleikar í samskiptum við stefnanda vegna tungumálaerfiðleika, enda sé ekki annað að sjá af lýsingum stefnanda sjálfs í bréfi lögmanns hans, dags. 11. mars 2009, en að hann hafi vel gert sér grein fyrir því að ekki væri ætlast til þess að hann sagaði þverbitana, hvað þá að hann sagaði þá undan sjálfum sér.

            Þurfi fullorðnir einstaklingar hvorki sérstaka verkstjórn né leiðbeiningar til að sjá, eða mega sjá, að slíkt sé til þess fallið að hafa hættu í för með sér. Stefndi áréttar að í gögnum málsins liggi fyrir að verkstjóri á staðnum hafi komið að stefnanda að saga niður fyrir sig á pallinum, bannað honum það og tekið af honum sögnina. Þó stefnandi hafi e.t.v. ekki skilið að öllu leyti það sem við hann var sagt hafi honum hlotið að vera ljóst, þegar sögin var tekin, að ekki væri ætlast til að hann héldi áfram að saga með þeim hætti sem hann gerði. Gögn málsins beri þannig skýrt með sér að ekkert hafi verið athugavert við verkstjórn. Þvert á móti hafi verkstjóri gert það sem í hans valdi hafi staðið til að afstýra því að stefnandi gæti orðið fyrir slysi. Það hafi hins vegar verið ákvörðun stefnanda að fara ekki eftir leiðbeiningum verkstjóra. Sé ekki við verkstjóra að sakast um það heldur sé það að öllu leyti á ábyrgð stefnanda sjálfs. Það sé því hreinlega rangt að slysið hafi orðið vegna ófullnægjandi verkstjórnar.

            Í stefnu sé bent á að vinnuveitandi ráði skipulagi og framkvæmd starfa innan fyrirtækis og að starfsmenn lúti boðvaldi hans. Sé látið að því liggja að það hafi skipt máli varðandi slysið. Stefndi hafni því að þetta skipti einhverju máli um það atvik sem hér sé til umfjöllunar, að því leyti að það sýni einhverja sök vátryggingartaka. Þvert á móti þá liggi fyrir að stefnandi hafi ekki farið eftir fyrirmælum um framkvæmd vinnunnar og brotið þannig gegn skyldum sínum. Á því beri stefnandi sjálfur alla ábyrgð.

            Stefndi telji, samkvæmt framanrituðu, öll skilyrði uppfyllt fyrir sakarskiptingu. Telji stefndi eðlilegt og sanngjarnt að stefnandi beri sjálfur helming tjónsins. Stefndi bendi einnig á, þó það sé ekki skilyrði sakarskiptingar í þessu máli, að hegðun stefnanda hafi falið í sér stórfellt gáleysi og því sé enn frekari ástæða til að láta hann sjálfan bera helming tjónsins. 

            Varakrafa – lækkun stefnukröfu

            Verði ekki fallist á sýknu byggi stefndi á því að þá beri að beita annarri sakarskiptingu, en ekki komi til álita að stefnandi eigi rétt á því að fá óskertar bætur. Vísi stefndi til sömu röksemda og sjónarmiða og rakin hafi verið fyrir sýknukröfu.

            Vaxtakröfur og málskostnaður

Hvað vaxtakröfu stefnanda varði þá séu vextir eldri en fjögurra ára fyrndir, sbr. 3. gr. laga nr. 150/2007. Komi til þess að fallist verði á frekari bætur, þá bendi stefndi á að vextir hafi þegar verið greiddir og beri að taka mið af því í útreikningi.

            Stefndi hafni sérstaklega dráttarvaxtakröfu stefnanda og telji engin efni til að slíkir vextir reiknist frá fyrri tíma en dómsuppsögu enda liggi fyrst þá fyrir hvort stefnandi eigi frekari kröfu á hendur stefnda. 

            Krafa stefnda um málskostnað byggi á 129.–130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Áréttar stefndi sérstaklega skýr fyrirmæli 1. mgr. 130. gr. um að sá sem tapar máli skuli dæmdur til að greiða gagnaðila sínum málskostnað. Þá bendir stefndi á að þær bætur sem stefndi hafi þegar greitt til stefnanda innihaldi lögfræðikostnað og virðisaukaskatt. Beri að taka tillit til þess við ákvörðun málskostnaðar til stefnanda komi til þess að kröfur hans verði að einhverju leyti teknar til greina.

 

IV

Niðurstaða

            Eins og fyrr kom fram er einungis deilt um það í málinu hvort stefnda sé stætt á því að skerða bætur stefnanda vegna slyssins um helming á grundvelli eigin sakar eða meðábyrgðar hans sem tjónþola. Slysið átti sér stað, áður en ákvæði 23. gr. a. um meðábyrgð starfsmanns vegna líkamstjóns í vinnuslysum var tekið upp í skaðabótalög nr. 50/1993 með lögum nr. 124/2009.

            Í skoðunarskýrslu starfsmanns Vinnueftirlits ríkisins, sem dagsett er á slysdegi, 31. mars 2008, kemur fram að slysstaður hafi verið skoðaður samdægurs kl. 9.10, aðeins 20 mínútum eftir að tilkynnt var um slysið. Skýrslunni fylgja ljósmyndir sem sýna hvar bitarnir undir pallinum gengu inn í veggi í lyftugöngunum. Í texta við myndirnar kemur fram að svo virðist sem annar endabitinn og annar af tveimur miðbitum hafi verið sagaðir frá vegg báðum megin, en að hinn miðbitinn hafi verið sagaður af öðrum megin en virðist hafa brotnað af hinum megin.

            Í sömu skýrslu kemur fram að rætt hafi verið við stefnanda með aðstoð túlks 11. apríl sama ár. Er þar haft eftir stefnanda að íslenskur smiður hafi sagt honum að fara í lyftuopið og saga niður burðarbitana í pallinum til að undirbúa uppsetningu á lyftubúnaði. Hafi stefnandi verið búinn að saga tvo planka, niður fyrir sig, þegar pallurinn féll.

            Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi aðilaskýrslu, en auk þess gáfu skýrslu sem vitni Jens Magnús Magnússon, sem var verkstjóri á verkstað umrætt sinn, og Hörður Sigurjónsson, sem starfaði þar sem smiður.

Stefnandi fullyrti fyrir dómi að hann hefði aðeins sagað miðjubitana tvo frá veggjum lyftuopsins og tók fram að vera kynni að einhver annar hefði verið búinn að saga endabitann frá.

            Verkstjórinn, Jens Magnús Magnússon, staðfesti fyrir dómi að það hefði verið í verkahring stefnanda að saga frá tvo miðjubita undan hverjum palli í lyftugöngunum, en skilja hafi átt eftir endabitana tvo. Samræmist það frásögn sem höfð er eftir honum í lögregluskýrslu, sem dagsett er á slysdegi, en þar kemur fram að stefnandi hafi átt að saga niður tvær þverstífur af fjórum, þ.e. miðjustífur, en að endastífur hafi átt að „standa eftir til að bera uppi borð sem á þeim voru til að hægt væri að standa á þeim“. Í lögregluskýrslunni kemur einnig fram ályktun, sem virðist vera höfð eftir verkstjóranum, um að stefnandi virtist einnig hafa sagað niður aðra endastífuna.

Fyrir dómi lýsti verkstjórinn því að verklagið ætti að vera þannig að sá sem ynni þetta verk ætti að standa á tröppu undir pallinum á meðan verkið væri unnið. Verkstjórinn sagðist sjálfur ekki hafa gefið stefnanda nein fyrirmæli, önnur en að fylgja fyrirmælum frá íslenskum smiðum. Verkstjórinn kvaðst síðan hafa komið að stefnanda þar sem hann stóð ofan á pallinum og var að saga bitana niður fyrir sig. Kvaðst verkstjórinn þá hafa tekið sögina af stefnanda og reynt að gera honum ljóst að það ætti ekki að fara þannig að. Kvaðst hann telja að stefnandi hafi ekki skilið það sem sagt var með orðum, enda skildi hann hvorki íslensku né ensku, en telja að honum hefði mátt vera ljóst af látbragði vitnisins að hann ætti ekki að fara að eins og hann gerði. Kvaðst vitnið svo hafa rætt við smiðina og beðið þá að fylgjast betur með stefnanda, en farið svo á skrifstofu sína og ekki fylgst meira með verkinu. Eftir slysið hefði hann frétt að stefnandi hefði útvegað sér aðra sög og haldið verkinu áfram með sama hætti.

            Hörður Sigurjónsson smiður kvaðst ekki hafa gefið stefnanda nein fyrirmæli um það hvernig ætti að vinna umrætt verk, enda væri það á hendi verkstjóra. Stefnandi hafi borið sig rangt að, staðið ofan á palli og sagað niður fyrir sig. Kvaðst vitnið minna að hann hefði reynt að ræða við stefnanda og stoppa hann af, án árangurs. Kvaðst vitnið þá hafa rætt við verkstjórann um að stoppa stefnanda af, svo þetta myndi ekki „enda með ósköpum“.

            Með framangreindum vitnisburði og lögregluskýrslu verður að leggja til grundvallar að stefnandi hafi fengið fyrirmæli um að vinna verk við að taka niður vinnupalla í lyftugöngunum. Þá verður lagt til grundvallar, með vísan til framburðar verkstjórans, að verkið hafi hann átt að vinna þannig að tveir miðjubitar yrðu sagaðir frá veggjum lyftuganganna. Í áðurnefndri lögregluskýrslu er beinlínis haft eftir verkstjóranum að endabitarnir hafi átt að standa eftir „til að bera uppi borð sem á þeim voru til að hægt væri að standa á þeim“. Rennir þetta stoðum undir það að stefnandi hafi mátt ætla að tveir bitar af fjórum myndu duga til að bera pallinn uppi, enda þótt tveir bitar yrðu sagaðir frá eða a.m.k. að hann hafi ekki mátt átta sig á því að brýn fallhætta hlytist af þeirri aðferð.

            Þó að stefnandi hafi haldið því fram frá upphafi að hann hafi aðeins sagað tvo burðarbita af fjórum frá veggjum lyftuopsins, sbr. það sem greinir í skýrslu vinnueftirlitsins, virðist ekki hafa verið gerður reki að því að kanna hvort einhver annar kynni áður að hafa verið búinn að saga frá bita í lyftuopinu. Virðist þó hafa verið fullt tilefni til þess í ljósi misræmis milli þess sem haft er eftir stefnanda í skýrslu vinnueftirlitsins og þess sem ljósmyndir og texti við þær í sömu skýrslu sýnir. Er rétt að stefndi beri hallann af skorti á sönnun um þetta atriði vegna skorts á fullnægjandi rannsókn.

            Þá verður að leggja til grundvallar, með vísan til framburðar vitna fyrir dómi, að starfsmönnum Þórtaks ehf. hafi verið kunnugt um að stefnandi skildi hvorki íslensku né ensku að neinu ráði, að hann var ófaglærður verkamaður sem leigður var til starfa af starfsmannaleigu og hafði nýverið hafið störf á verkstað. Ósannað er að stefnandi hafi fengið skýr fyrirmæli fyrirfram, á tungumáli sem hann skildi, um það hvernig hann ætti að fara að við verkið, t.d. um það að útvega sér tröppu, standa undir pallinum og saga upp fyrir sig, fremur en að standa ofan á pallinum og saga niður fyrir sig. Samkvæmt framburði vitnanna var þó a.m.k. einn starfsmaður á staðnum sem hefði getað túlkað í samskiptum við stefnanda.

            Þá var báðum framangreindum vitnum, samkvæmt framburði þeirra, kunnugt um það fyrir slysið að stefnandi væri að vinna verkið þannig að hann stæði ofan á pallinum og sagaði niður fyrir sig, en enginn starfsmaður Þórtaks ehf. virðist hafa aðhafst nægjanlega til að stöðva þá framkvæmd. Stefnandi kannaðist ekki við það fyrir dómi að sög hefði verið tekin af honum. Jafnvel þótt framburður verkstjórans um þau samskipti við stefnanda yrði lagður til grundvallar, þá má ljóst teljast af þeim framburði að verkstjórinn tryggði ekki nægjanlega að stefndi skildi fyrirmælin. Það að taka af honum sög og skilja hann svo eftir í lyftugöngunum, án þess að fyrri fyrirmæli um að vinna verk þar væru afturkölluð eða útskýra á tungumáli sem hann skildi hvernig rétt væri að vinna verkið, getur hlutlægt séð ekki talist vera skýr fyrirmæli. Má ætla að verkstjóra hefði t.d. verið í lófa lagið að fá stefnanda til að fylgja sér út úr lyftugöngunum og á fund þess starfsmanns sem gat túlkað fyrirmæli til stefnanda á tungumáli sem hann skildi.

            Að öllu framanrituðu virtu verður það sem fyrir liggur um háttsemi stefnanda í aðdraganda slyssins, jafnvel þótt hann kunni að hafa sýnt af sér nokkurt gáleysi, ekki talið þess eðlis að skerða eigi bótarétt hans á grundvelli óskráðra réttarreglna um meðábyrgð tjónþola. Verður ekki séð að stefnandi hafi framkvæmt verkið í trássi við fyrirmæli af einhvers konar þrákelkni, sem virðist meginstefið í málatilbúnaði stefnda, heldur þykir þvert á móti sýnt að skort hafi á verkstjórn hjá hinum vátryggða  atvinnurekanda, Þórtaki ehf., í andstöðu við almennar skyldur sem á atvinnurekendum og verkstjórum hvíla samkvæmt lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. Verður því bæði aðalkröfu stefnda um sýknu og varakröfu um lækkun miðað við lægra hlutfall eigin sakar hafnað. Það skal tekið fram að stefnandi hefur ekki gefið neinar bindandi málflutningsyfirlýsingar hér fyrir dómi sem leitt geta til annarrar niðurstöðu og það gera heldur ekki málsatvikalýsingar í bréfum lögmanna hans til stefnda áður en mál þetta var höfðað, sem að mestu fólu í sér endursagnir á málsatvikalýsingum annarra en stefnanda.

            Varakrafa stefnda um lækkun stefnufjárhæðar er ekki byggð á öðrum málsástæðum en sem varða hlutfall sakarskiptingar. Ekki er deilt um fjárhæð endanlegrar dómkröfu stefnanda og útreikning hennar.

            Fallist er á það með stefnanda að upphafstíma dráttarvaxta beri að miða við þann tíma er mánuður var liðinn frá því að lögmaður hans beindi kröfubréfi til stefnda, 19. október 2009, sbr. fyrri málslið 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Kröfur stefnanda um almenna vexti og dráttarvexti sem ná lengra aftur í tímann en fjögur ár fyrir málshöfðun eru aftur á móti fyrndar, sbr. 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Verða almennir vextir því ekki dæmdir og ekki dráttarvextir lengra aftur í tímann en í dómsorði greinir. 

            Samkvæmt framanrituðu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda stefnufjárhæðina með dráttarvöxtum og að teknu tilliti til innborgana eins og nánar greinir í dómsorði.

Eftir úrslitum málsins, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, verður stefnda gert að greiða málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn með þeirri fjárhæð sem í dómsorði greinir og rennur hann í ríkissjóð í samræmi við 4. mgr. 128. gr. sömu laga, en stefnandi hefur gjafsókn í málinu samkvæmt gjafsóknarleyfi, dags. 7. febrúar 2017. Ekki verður tekin afstaða til annarra þátta gjafsóknarkostnaðar en þóknunar lögmanns fyrir flutning málsins, sbr. 2. mgr. 127. gr. sömu laga. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Guðbjargar Benjamínsdóttur, sem þykir hæfilega ákveðinn með þeirri fjárhæð sem í dómsorði greinir. Hefur þá ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

            Hildur Briem héraðsdómari kveður upp dóm þennan. Við dómsuppsögu var gætt ákvæðis 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. Dómari og lögmenn voru sammála um að endurflutningur málsins væri óþarfur þrátt fyrir þann drátt sem varð á dómsuppsögu sem helgaðist af embættisönnum dómara og helgidögum um páska.

 

Dómsorð:

            Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefnanda, Mariusz Raczkowski, 14.596.789 krónur, með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 10. maí 2013 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun stefnda þann 30. nóvember 2009 að fjárhæð 6.320.049 krónur, innborgun Sjúkratrygginga Íslands þann 25. janúar 2011 að fjárhæð 1.730.460 krónur og innborgun stefnda þann 18. ágúst 2017 að fjárhæð 134.770 krónur.

            Stefndi greiði 1.160.250 krónur í málskostnað sem renna skal í ríkissjóð.

            Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Guðbjargar Benjamínsdóttur, 1.160.250 krónur.

 

                                                                 Hildur Briem