• Lykilorð:
  • Lánssamningur
  • Verðtrygging

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur, mánudaginn 11. nóvember 2013, í máli nr. E-2492/2012:

Sveitarfélagið Skagafjörður

(Einar Hugi Bjarnason hrl.)

gegn

Lánasjóði sveitarfélaga ohf.

(Heiðar Örn Stefánsson hdl.)

 

Mál þetta, sem var dómtekið 14. október 2013, var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, 22. ágúst 2012, af Sveitarfélaginu Skagafirði, Skagfirðingabraut 21, Sauðárkróki, á hendur Lánasjóði sveitarfélaga ohf., Borgartúni 30, Reykjavík.

 

Kröfur aðila

 

Stefnandi gerir þær dómkröfur að viðurkennt verði með dómi að eftirstöðvar lánssamnings nr. 20/2007 hafi 16. mars 2012 verið:

Aðallega 95.699.579 krónur.

Til vara 103.833.739 krónur.

Til þrautavara 152.167.941 krónur.

Í öllum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda samkvæmt mati dómsins.

Af hálfu stefnda er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.

 

Atvik máls

 

Stefndi starfar á grundvelli laga nr. 136/2004, áður laga nr. 35/1966, um Lánasjóð sveitarfélaga og hefur markmið hans frá upphafi verið að tryggja íslenskum sveitarfélögum, stofnunum þeirra og fyrirtækjum, lánsfé á hagstæðum kjörum með veitingu lána eða ábyrgða. Með lögunum frá 2004 var lagaumhverfi Lánasjóðs sveitarfélaga breytt til samræmis við almenn starfsskilyrði fjármálafyrirtækja á fjármálamarkaði, eftir því sem fært þótti, meðal annars með niðurfellingu á ákvæðum um árleg framlög til hans úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og frá ríkissjóði. Var sjóðnum gert að starfa sem fjármálafyrirtæki á grundvelli starfsleyfis Fjármálaeftirlitsins og undir eftirliti þess. Starfsleyfið var gefið út í ágúst 2005. Með lögum nr. 150/2006 um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga var Lánasjóður sveitarfélaga ohf. stofnað. Fjármálaeftirlitið veitti Lánasjóði sveitarfélaga ohf. starfsleyfi sem lánafyrirtæki, 14. september 2007, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Tók þá stefndi við öllum eignum, skuldum og skuldbindingum Lánasjóðs sveitarfélaga og miðaðist stofnefnahagsreikningur við 1. janúar 2007. Stefnandi málsins varð til á árinu 1998, við sameiningu 11 sveitarfélaga í Skagafjarðarsýslu. Á vegum stefnanda er starfrækt einkahlutafélagið Skagafjarðarveitur ehf., sem stofnað var 14. maí 2002. Með tölvubréfi þáverandi sveitarstjóra stefnanda til þáverandi framkvæmda­stjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga, 13. apríl 2007, sótti sá fyrrnefndi, fyrir hönd stefnanda, um lán til stefnda að fjárhæð 220.000.000 króna. Tölvubréfinu var svarað með tölvubréfi s.d., þar sem fram kemur að umsóknin sé móttekin og verði lögð fyrir stjórn á fundi sem haldinn verði 16. apríl. Með tölvubréfi, 17. apríl 2007, var stefnanda tilkynnt að stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga hefði samþykkt lánveitingu til stefnanda að fjárhæð 220.000.000 króna. Með skjali, dagsettu 18. júní 2007, sem stafar frá fyrrgreindum framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga, var stefnanda, sem lántaka, gert tilboð í lánveitingu vegna hitaveituframkvæmda á vegum Skagafjarðarveitna ehf. Í tilboðinu kemur fram að fjárhæð lánsins sé að jafnvirði allt að 115.000.000 króna, í evrum og/eða Bandaríkjadölum. Lánstíminn sé 15 ár og lánið skuli endurgreiða með 20 jöfnum afborgunum á sex mánaða fresti, í fyrsta sinn um fimm árum eftir útborgun lánsins. Vextir séu sex mánaða EURIBOR-vextir að viðbættu 0,14% álagi fyrir evrur og sex mánaða LIBOR-vextir að viðbættu 0,18% álagi fyrir Bandaríkjadali. Þá kemur fram í tilboðinu að útborgun lánsins verði að jafnvirði 65.000.000 króna í júlí 2007 (evrur) og 50.000.000 króna í september 2007 (Bandaríkjadalir). Lánstilboðið var lagt fram og samþykkt á fundi Byggðaráðs Skagafjarðar, 19. júní 2007. Lánssamningur nr. 20/2007 var undirritaður af hálfu stefnanda 4. júlí 2007 og af hálfu stefnda 9. júlí sama ár. Samkvæmt grein 2.1 í samningnum lofar lántaki að taka að láni og lánveitandi lofar að lána andvirði 115.000.000 íslenskra króna í evrum og/eða Bandaríkjadölum til 15 ára. Í grein 2.2 er kveðið á um að lánið skuli borga út í tveimur hlutum, eigi síðar en fimm bankadögum eftir að beiðni lántaka um útborgun lánshluta berist lánveitanda, í samræmi við fyrirmynd í viðauka I við samninginn. Samkvæmt grein 2.3 var tilgangur lánsins að fjármagna hitaveitu­framkvæmdir. Fram kemur að lánið sé af endurlánafé frá Þróunarbanka Evrópuráðsins og að lántaki skuldbindi sig til að veita upplýsingar um þau verkefni sem fjármögnuð verði en þau þurfi að rúmast innan skilyrða Þróunarbankans, sbr. viðauka II með samningnum. Samkvæmt grein 3.1 skuldbatt stefnandi sig til að endurgreiða höfuðstól lánsins með 20 jöfnum afborgunum á sex mánaða fresti, í fyrsta sinn 16. mars 2012. Í grein 4.1 kemur fram að skuld í evrum beri vexti sem séu sex mánaða EURIBOR-vextir eins og þeir ákvarðist fyrir evrur hverju sinni, að viðbættu 0,14% álagi. Skuld í Bandaríkja­dölum beri vexti sem séu sex mánaða LIBOR-vextir eins og þeir ákvarðist fyrir Bandaríkjadali hverju sinni, að viðbættu 0,18% álagi. Í grein 4.2 kemur fram að vextir samkvæmt grein 4.1 séu breytilegir og skuli ákvarðast fyrir sex mánuði í senn, tveimur virkum dögum fyrir upphaf næsta vaxtatímabils. Vextir skuli greiðast eftir á, á sex mánaða fresti, 16. mars og 16. september ár hvert, í fyrsta sinn 16. september 2007, þar til höfuðstóll lánsins sé að fullu greiddur. Í viðauka II við lánssamninginn kemur fram að lánveiting samkvæmt lánssamningnum sé fjármögnuð með lántöku hjá Þróunarbanka Evrópuráðsins (CEB). Það sé skilyrði CEB að lánsféð verði notað til verkefna sem falli innan starfsramma Þróunarbankans og notkun þess fylgi reglum CEB að öðru leyti. Samkvæmt reglunum geti lán að hámarki verið helmingur fjárfestingarkostnaðar hvers verkefnis. Hámarkslán í hvert verkefni séu 5.000.000 evra. CEB taki ekki þátt í endurfjármögnun verkefna og lán skuli því tekin innan árs frá því að framkvæmdir hefjist við verkefni og skuli að hámarki 40% framkvæmdar lokið, þegar lán sé greitt út. Þá segir í viðaukanum að lánveitandi taki að láni hjá CEB ákveðna fjárhæð til endurlána og þurfi síðan að gefa skýrslu um notkun lánsfjárins og gera þá grein fyrir þeim verkefnum sem séu fjármögnuð með endurlánafé CEB. Lántaki sé því skuldbundinn til að veita lánveitanda upplýsingar um verkefni, sem falli undir skilyrði CEB. Af hálfu Lánasjóðs sveitarfélaga var stefnanda sent tölvubréf, 4. júlí 2007, þar sem fram kemur að útborgun 6. júlí verði 65.317.000 krónur, andvirði 775.000 evra, á genginu 84,28. Jafnframt kemur fram að stefnandi þurfi að senda útborgunarbeiðni í samræmi við viðauka I. Samkvæmt beiðni stefnanda, 4. júlí 2007, er, var með vísan í framan­greindan lánssamning, óskað eftir því að Lánasjóður sveitarfélaga greiddi lánið út með eftirfarandi hætti:

 

Lán í EUR/USD útborgað í ísl.kr.:

Greiðsludagur:                                  6. júlí 2007

Viðtakandi greiðslu:                          Skagafjarðaveitur ehf.

Reikningsnúmer                                0310-26-120

Viðtökubanki                                                Kaupþing banki

 

Hluti lánsins í evrum var greiddur út í samræmi við framangreint, 6. júlí 2007, sbr. framlagða staðfestingu þar um. Í staðfestingunni kemur fram að þann sama dag hafi Lánasjóður sveitarfélaga greitt inn á framangreindan bankareikning Skagafjarðar­veitna ehf. 65.317.000 krónur. Af hálfu Lánasjóðs sveitarfélaga var stefnanda sent tölvubréf, 30. ágúst 2007. Í bréfinu segir: „Kjör á USD verða LIBOR + 0,15% en ekki LIBOR + 0,18%, en um er að ræða endurlánafé frá Þróunarbanka Evrópuráðsins.“ Þá kemur fram í bréfinu að útborg­un seinni lánshluta verði með eftirfarandi hætti:

 

Lánsfjárhæð:                                     787.000 USD

Gengi USD/ISK:                                63,54

Útborguð fjárhæð:                             50.005.980 ISK

Útborgunardagur:                             4. september 2007

 

Þess var óskað að stefnandi sendi útborgunarbeiðni í samræmi við viðauka I. Fjármálastjóri stefnanda undir­ritaði aðra beiðni um útborgun láns, merkta sem viðauka I við lánssamninginn, 30. ágúst 2007. Í beiðninni kemur fram að stefnandi óski þess að lánið verði greitt út með eftirfarandi hætti:

 

Lán í USD útborgað í ísl.kr.:             50.005.980

Greiðsludagur:                                  04.09.2007

Viðtakandi greiðslu:                          000000-0000, Skagafjarðarveitur ehf.

Reikningsnúmer                                0310-26-120

Viðtökubanki                                                Kaupþing banki hf.

 

Framangreindur hluti lánsins var greiddur út, 4. september 2007, sbr. framlagða staðfestingu þar um. Skagafjarðarveitur ehf. greiddi vexti af láninu, sem verðtryggt var miðað við evru, á fyrsta vaxtagjalddaga, 17. september 2007, samkvæmt greiðslutilkynningu frá Lánasjóði sveitarfélaga. Eins og áður greinir fékk stefndi starfsleyfi frá Fjármálaeftirlitinu, 14. september 2007. Greiðslutilkynningar sem sendar voru vegna lánsins á gjalddögum komu, allt frá öðrum vaxtagjalddaga, frá stefnda og greiddu Skagafjarðarveitur ehf. af láninu til hans. Allt frá öðrum vaxtagjalddaga var í greiðslutilkynningum tekið fram að óskaði lántaki eftir að inna greiðslu af hendi í evrum skyldi hann tilkynna lánveitanda það með minnst fjögurra bankadaga fyrirvara og greiða þá kröfuna inn á gjaldeyrisreikning lánveitanda á gjalddaga. Stefnandi mun aldrei hafa óskað eftir því að inna greiðslur af hendi með þessum hætti og voru greiðsluseðlar því sendir stefnanda í íslenskum krónum, tveimur dögum fyrir gjalddaga, og fjárhæðin miðuð við gengi viðkomandi gjaldmiðils á þeim degi. Skagafjarðarveitur ehf. stóð í skilum með greiðslur samkvæmt ákvæðum lánssamningsins. Stefnandi sendi stefnda ábyrgðarbréf, 22. mars 2012, og lýsti þeirri skoðun að lánssamningur nr. 20/2007 innihéldi verðtryggingarákvæði sem væru í andstöðu við VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu eins og þau hefðu verið skýrð í dómum Hæstaréttar Íslands. Í bréfinu var þess farið á leit við stefnda að hann endurreiknaði lánið í samræmi við dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 600/2011 og léti í ljós afstöðu sína til endurgreiðslu þess sem ofgreitt hefði verið af lánssamningnum. Í svarbréfi stefnda, 17. apríl 2012, var því haldið fram að lánið væri í erlendum gjaldmiðlum og að ekkert í lögum nr. 38/2001 bannaði stefnanda að taka slíkt lán. Í ljósi þess gæti stefndi ekki fallist á kröfu stefnanda um endurgreiðslu.

 

Málsástæður stefnanda og tilvísun til réttarheimilda

 

Á því er byggt af hálfu stefnanda að lánsskuldbindingin samkvæmt samningi aðila nr. 20/2007 sé í íslenskum krónum og sé því óheimil samkvæmt ákvæðum 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Samkvæmt skýrum texta ákvæðanna sé óheimilt að verðtryggja skuldbindingar í íslenskum krónum miðað við gengi erlendra gjaldmiðla. Stefnandi byggi á því að gengisbinding lánssamningsins brjóti í bága við skýr fyrirmæli VI. kafla laga nr. 38/2001. Stefnandi vísi til þess að í lánssamningnum komi höfuðstóls­fjárhæð lánsins einungis fram í íslenskum krónum og að lánsfjárhæðin hafi verið greidd honum í íslenskum krónum en ekki í erlendum gjaldmiðli. Þá hafi lánið ætíð verið innheimt í íslenskum krónum og stefnandi hafi ávallt greitt af láninu í íslenskum krónum. Því blasi við að lánið sé í íslenskum krónum. Í samræmi við áralanga dómaframkvæmd í fjármunarétti sé það raunverulegt inntak viðkomandi lánssamnings sem skipti máli en ekki í hvaða búning samningurinn sé klæddur. Aðalatriðið sé að stefnandi hafi fengið afhentar íslenskar krónur, hann hafi greitt lánið til baka í íslenskum krónum og að engin erlend mynt hafi skipt um hendur. Stefnandi hafi aldrei óskað eftir því að fá lánaða erlenda mynt hjá stefnda. Gögn málsins beri með sér að stefnandi hafi óskað eftir því að lánið yrði í íslenskum krónum. Hafi stefndi ætlað að hafa samninginn í erlendri mynt hefði honum verið í lófa lagið að tilgreina hina erlendu mynt sem höfuðstólsfjárhæð. Þá hafi stefnda jafnframt verið í lófa lagið að greiða stefnanda höfuðstólsfjárhæðina í erlendum gjaldmiðlum inn á gjaldeyrisreikning, hefði staðið til að lána erlenda gjaldmiðla en ekki íslenskar krónur sem tækju mið af gengisbreytingu erlendra gjaldmiðla. Að minnsta kosti sé ljóst að stefndi beri sönnunarbyrði fyrir því að umrætt lán til stefnanda hafi verið veitt í erlendum gjaldmiðlum. Stefnandi vísi um framangreint til dóma Hæstaréttar Íslands frá 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010, frá 14. febrúar 2011 í málum nr. 603/2010 og 604/2010 og frá 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011. Í dómunum sé fjallað með ítarlegum og rökstuddum hætti um sams konar ágreiningsefni, það er, verðtryggingu sem miði skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla. Í tilgreindum málum hafi Hæstiréttur Íslands komist að þeirri niðurstöðu að slík verðtrygging sé ólögmæt samkvæmt ófrávíkjanlegum reglum um verðtryggingu í 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Við mat á því hvort lánin hafi verið gengistryggð hafi rétturinn, í framangreindum dómum, talið að einvörðungu skyldi horft til samnings aðila enda gæti niðurstaðan ekki ráðist af því hvort stefndi fjármagnaði lánafyrirgreiðslu sína á innlendum eða erlendum lánsfjármarkaði. Það geti því engu breytt um niðurstöðu þessa máls að fram komi í grein 2.3 í lánssamningi aðila, sbr. viðauka II við samninginn, að lánið sé af endurlánafé frá Þróunarbanka Evrópuráðsins. Hvar, hvernig og með hvaða hætti stefndi hafi kosið að leita fanga varðandi fjármögnun lánafyrirgreiðslna sinna, sé stefnanda með öllu óviðkomandi og geti ekki gert samning, sem sé tilgreindur í íslenskum krónum, að samningi í erlendri mynt. Stefnandi byggi á því að síðustu útsendu greiðsluseðlar vegna lánsins, 16. mars 2012, miði við að gengistrygging samningsins sé lögmæt. Á þeim sé staða lánsins vegna beggja lánshluta sögð vera, eftir greiðslu, 218.295.561 íslenskar krónur, 95.437.523 krónur + 122.858.038 krónur. Dómkröfur stefnanda í máli þessu séu viðurkenningarkröfur sem gangi út frá þeirri forsendu að gengisbinding samningsins sé andstæð lögum. Dómkröfurnar feli það í sér að viðurkennt verði með dómi að eftirstöðvar lánssamningsins hafi verið tiltekin fjárhæð, 16. mars 2012, sem sé síðasti greiddi gjalddagi lánsins. Settar séu fram aðal-, vara- og þrautavarakröfur í málinu, sem miði við tilteknar forsendur. Viðmiðunardagurinn sé 16. mars 2012 sem sé dagsetning síðustu útgefnu greiðsluseðla stefnda samkvæmt framangreindu. Á greiðsluseðlunum komi staða lánsins fram, bæði í hinum erlendu gjaldmiðlum og í íslenskum krónum, bæði fyrir og eftir greiðslu. Stefnandi byggi aðalkröfu í málinu á því að ákvæði lánssamnings nr. 20/2007, um gengistryggingu, sé ógilt en að önnur ákvæði samningsins haldi gildi sínu, þar með talin vaxtaákvæði og ákvæði um gjalddaga og vanskilaúrræði. Aðalkrafa stefnanda byggi jafnframt á því að við endurútreikning skuldbindingarinnar beri að miða við upphaflegan höfuðstól og áfallna vexti samkvæmt samningnum sjálfum. Fyrir liggi að báðir málsaðilar hafi byggt á röngum lagaskilningi um að gengistrygging höfuðstóls lánssamningsins hafi verið gild. Sá rangi lagaskilningur hafi verið fyrir hendi frá upphafi lánstíma og sé í raun enn, enda hafi stefndi hafnað því að gengistrygging samningsins sé í andstöðu við ákvæði laga nr. 38/2001 og stefnandi ávallt greitt í samræmi við útsenda greiðsluseðla stefnda. Hver einasta afborgun stefnanda af láninu, sem stefndi hafi veitt viðtöku athugasemdalaust, hafi því falið í sér fullnaðargreiðslu, sem stefnandi verði ekki endurkrafinn um. Útreikningur aðalkröfu stefnanda sé byggður á því að mismun, á raungreiðslum stefnanda samkvæmt útsendum greiðsluseðlum annars vegar og reiknuðum samnings­vöxtum af upphaflegum höfuðstól í íslenskum krónum hins vegar, sé ráðstafað inn á upphaflegan höfuðstól, sem hafi verið 115.000.000 króna. Um vaxtakjör vísist til samnings­ins. Mismunurinn samkvæmt framangreindu nemi samtals 19.539.141 krónu, sem dragist frá upphaflegri lánsfjárhæð í íslenskum krónum. Þar af leiði að eftir standi 95.460.859 krónur af höfuðstól lánsins, sem sé sú staða sem krafist sé viðurkenningar á í aðalkröfu. Um nánari forsendur að baki útreikningi kröfunnar vísist til framlagðra útreikninga. Í bókun um breytingar á dómkröfum stefnanda, 21. mars 2013, komi fram að í upphaflegri kröfugerð hafi við útreikning dómkrafna verið miðað við höfuðstól láns að fjárhæð 115.000.000 króna. Hins vegar liggi fyrir að þegar stefnandi hafi fengið lánið greitt út hafi samtals 115.322.980 krónur verið lagðar inn á reikning hans. Kröfugerðinni sé með bókuninni breytt til samræmis við það. Stefnandi byggi varakröfu sína einnig á þeirri forsendu að lánssamningurinn, sem um sé deilt í málinu, sé í íslenskum krónum og sé verðtryggður miðað við gengi tiltekinna erlendra gjaldmiðla. Af þeim sökum fari hann í bága við ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001. Stefnandi byggi á því að við útreikning lánsins beri að miða við upphaflega lánsfjárhæð í íslenskum krónum og að miða beri við óverðtryggða vexti Seðlabanka Íslands, sbr. 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001. Stefnandi byggi enn fremur á því að hver einasta vaxtagreiðsla, sem stefndi hafi veitt viðtöku athuga­semdalaust, hafi falið í sér fullnaðargreiðslu af hálfu stefnanda, sem hann verði ekki endurkrafinn um, sbr. þau sjónarmið sem fram komi í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 600/2011. Stefndi geti því ekki krafið stefnanda um viðbótargreiðslur vegna vaxtagjalddaga aftur í tímann, enda fyrir hendi rangur lagaskilningur milli málsaðila frá upphafi, sem einungis verði leiðréttur til framtíðar. Af þessu leiði að miða beri við upphaflegan höfuðstól lánsins, 115.000.000 króna, að frádreginni greiðslu inn á höfuðstól vegna gjalddagans 16. mars 2012. Útreikningur varakröfu stefnanda sé byggður á því að höfuðstólsafborgunum á gjalddaga 16. mars 2012, samtals 11.489.241 króna, miðað við útsenda greiðsluseðla stefnda vegna gjalddagans, sé ráðstafað inn á upphaflegan höfuðstól lánsins. Þar af leiði að eftir standi 103.510.759 krónur af höfuðstól lánsins, sem sé sú staða sem krafist sé viðurkenningar á í varakröfu. Um breytingu á varakröfu stefnanda, með bókun 21. mars 2013, vísist til þess sem að framan greini. Verði ekki fallist á varakröfu stefnanda byggi hann til þrautavara á því að við endurreikning skuldbindingarinnar beri að fara eftir þeim leiðbeiningum sem fram komi í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 471/2010, sbr. til hliðsjónar þau fyrirmæli sem fram komi í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 1. gr. laga nr. 151/2010. Í nefndu lagaákvæði komi efnislega fram að reikna eigi þau lán, sem falli undir gildissvið ákvæðisins, með þeim hætti að upphaflegur höfuðstóll lánsins, í íslenskum krónum, skuli fara eftir 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001. Það feli í sér að vextir skuli vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveði með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir séu samkvæmt 10. gr. nefndra laga. Samkvæmt 3. mgr. 18. gr. laganna skuli vextir samkvæmt 1. mgr. reiknaðir frá og með stofndegi peningakröfu. Samkvæmt 5. mgr. 18. gr. dragist frá þeirri fjárhæð greiðslur, sem lántaki hafi innt af hendi, það er, afborganir af höfuðstól, vextir, dráttarvextir og vanskilaálögur, vaxtareiknaðar frá greiðsludegi til viðmiðunardags endurútreiknings, miðað við sömu vexti. Þannig útreiknuð fjárhæð myndi eftirstöðvar skuldarinnar, það er, höfuðstól lánsins í íslenskum krónum. Útreikningur þrautavarakröfu stefnanda sé byggður á framangreindum forsendum. Upphaflegur höfuðstóll lánsins, 115.000.000 króna, og áfallnir óverðtryggðir vextir samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, sem nemi 70.522.712 krónum frá stofndegi peningakröfunnar til viðmiðunardags, séu samtals 185.522.712 krónur. Greiðslur stefnanda vegna lánssamningsins hafi numið samtals 32.075.289 krónum og óverðtryggðir vextir á innborganir hafi numið samtals 5.486.908 krónum frá hverjum greiðsludegi til viðmiðunardags, 16. mars 2012. Samtals hafi stefnandi því greitt 37.562.197 krónur. Mismunurinn á þessum fjárhæðum, það er, vaxtareiknaður höfuðstóll að frádregnum vaxtareiknuðum innborgunum, myndi eftirstöðvar skuldarinnar, samtals 147.960.515 krónur. Þetta sé sú fjárhæð sem krafist sé viðurkenningar á í þrautavarakröfu. Um útreikninga að baki kröfunni vísist til framlagðra útreikninga. Um breytingu á þrautavarakröfu stefnanda, með bókun 21. mars 2013, vísist til þess sem að framan greini. Í bókuninni komi einnig fram að hvað þrautavarakröfuna varði hafi smávægileg reikningsskekkja, í vaxtaútreikningi stefnanda fyrir árið 2007, leitt til þess að fjárhæð upphaflegrar dómkröfu hafi verið lægri en hún hafi átt að vera. Með breytingu á fjárhæð þrautavarakröfunnar hafi verið tekið tillit til þessarar skekkju. Stefnandi vísi um kröfur sínar til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. einkum 2., 13., 14., 17. og 18. gr. laganna, sbr. lög nr. 151/2010. Þá vísi stefnandi til almennra reglna kröfu- og samningaréttarins, meðal annars um endurheimtu ofgreidds fjár, gildi fullnaðarkvittana, brostnar forsendur og reglna um ógild samningsákvæði. Um heimild til að hafa uppi viðurkenningarkröfu vísi stefnandi til 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kröfu um málskostnað byggi stefnandi á XXI. kafla laga nr. 91/1991.

 

Málsástæður stefnda og tilvísun til réttarheimilda

 

Krafa stefnda um sýknu byggir á því að lánssamningur nr. 20/2007 feli í sér lögmæta lánsskuldbindingu í erlendum myntum sem stefnanda beri að standa skil á í samræmi við samning aðila. Fari svo að fallist verði á það með stefnanda að lánsskuldbinding samkvæmt lánssamningi aðila sé í íslenskum krónum byggi stefndi á því að réttast sé að reikna  eftirstöðvar lánssamningsins þannig út að sú fjárhæð sem stefnandi hafi móttekið samkvæmt samningnum í íslenskum krónum beri vexti samkvæmt 4. gr. sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá stofndegi kröfu stefnda til viðmiðunardags. Frá þeirri fjárhæð eigi draga þær greiðslur sem stefnandi hafi innt af hendi, vaxtareiknaðar frá greiðsludegi til viðmiðunardags, miðað við sömu vexti. Þau atvik sem leitt hafi til þess, í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 600/2011, að ekki hafi þótt rétt að leiðrétta vaxtagreiðslur lántaka vegna greiddra vaxtagjalddaga, séu ekki fyrir hendi í þessu máli. Stefndi hafi aldrei beint fullnaðarkvittun né ígildi slíkrar kvittunar að stefnanda og stefnandi hafi þekkt forsendur fyrir vaxtaákvæðum lánssamningsins og vitað að þær væru ákvörðunarástæður. Verði stefnda ekki heimilt að endurheimta vangreidda vexti hagnist stefnandi á kostnað annarra sveitarfélaga landsins sökum milligöngu stefnda um að afla honum lánsfjár. Ekki sé unnt að viðurkenna með dómi að eftirstöðvar skuldar nemi fjárhæð, sem sé fundin út með efnislega röngum útreikningum, sem leiði til efnislega rangrar niðurstöðu. Sá sem hafi uppi viðurkenningarkröfu þurfi eðli málsins samkvæmt að setja fram í stefnu staðhæfingu um rétt efni skyldna sinna eða réttinda og krefjast viðurkenningar á því að staðhæfing hans eigi við rök að styðjast. Sé svo ekki gert verði að sýkna af viðurkenningarkröfu. Stefndi byggi í fyrsta lagi á því að lánssamningur aðila nr. 20/2007 feli í sér lögmæta lánsskuldbindingu í erlendum myntum. Af dómum Hæstaréttar Íslands megi ráða að við mat á því hvort lán sé í íslenskum krónum eða erlendum myntum verði helst til þess litið hvernig lánsfjárhæðin sé tilgreind í samningi aðila. Einnig megi hafa hliðsjón af öðrum ákvæðum samnings aðila og því hvernig efndum á aðalskyldum aðila hafi verið háttað. Stefndi telji lánssamning aðila hvorki tiltaka höfuðstól með skýrum hætti í íslenskum krónum né erlendum myntum og telji kvittanir fyrir útgreiðslu lánsins bera það með sér að skuldbindingin hafi verið í erlendum myntum þótt þriðja aðila hafi, að beiðni stefnanda, verið afhentar íslenskar krónur. Stefndi hafi þurft að kaupa íslenskar krónur fyrir erlenda gjaldmiðla til að afhenda Skagafjarðarveitum ehf. Þá bendi endurgreiðsla lánsins einnig til þess að lánið sé í erlendum myntum. Stefnanda hafi verið boðið að greiða hvern gjalddaga vaxta og höfuðstóls, að þeim fyrsta undanskildum, í hinum erlendu myntum, þótt ætíð hafi farið svo að Skagafjarðarveitur ehf. hafi greitt í íslenskum krónum. Þá sé ekki unnt að skilja önnur ákvæði lánssamningsins þannig að hann feli í sér verðtryggingu í formi tengingar höfuðstóls við gengi erlendra gjaldmiðla. Jafnframt hafi stefnandi vitað að lánið væri endurlán og að stefndi hefði tekið lán í erlendum myntum sérstaklega í þeim tilgangi að endurlána þær. Þetta leiði til þess að stefnandi geti ekki með réttu talist hafa tekið lán í íslenskum krónum. Af tilgreiningu lánssamnings aðila á fjárhæð lánsins sé ekki unnt að fullyrða að lánið sé í íslenskum krónum. Auk þess sé tilgreining erlendra mynta ekki til þess fallin að klæða lán í íslenskum krónum í búning láns í erlendum myntum í þeim tilgangi að verðtryggja höfuðstól þess með ólögmætum hætti. Um tilgreiningu fjárhæðar lánsins sé því eðlilegt að líta til kvittana fyrir útborgun lánsins sem beri það bersýnilega með sér að lánsfjárhæðin sé 775.000 evrur og 787.000 Bandaríkjadalir. Stefndi mótmæli því sem komi fram í stefnu um að höfuðstólsfjárhæð lánsins komi fram í íslenskum krónum í lánssamningi aðila. Í lánssamningi aðila komi fram að lánið skuli vera að jafnvirði 115.000.000 króna í evrum og/eða Bandaríkjadölum. Það feli ekki í sér ótvíræða tilgreiningu í íslenskum krónum. Orðalag líkt þessu hafi í dómum Hæstaréttar Íslands ekki verið talið taka af tvímæli um það í hvaða mynt skuldbinding sé. Þá breyti sú fjárhæð í íslenskum krónum, sem nefnd sé í grein 2.1 í lánssamningnum, ekki þeirri staðreynd að á grundvelli lánssamningsins hafi Skagafjarðarveitum ehf. verið afhentar alls 115.322.980 krónur. Hvernig sem á málið sé litið hljóti höfuðstóll lánsins annaðhvort að teljast 775.000 evrur og 787.000 Bandaríkjadalir eða 115.322.980 krónur. Engin þessara fjárhæða sé nefnd í lánssamningi aðila. Til þess að unnt sé að nota gengi erlendra gjaldmiðla til verðtryggingar þurfi hlutfall þeirra að koma fram. Að öðrum kosti sé ómögulegt að reikna út áhrif verðtryggingar á höfuðstól, vexti og afborganir. Hlutföll hinna erlendu gjaldmiðla komi ekki fram í lánssamningi aðila og því sé ekki hægt að segja að ákvæði lánssamningsins feli í sér verðtryggingu sem miði við erlenda gjaldmiðla. Í þessu samhengi sé rétt að benda á að í lánssamningnum séu engin ákvæði um það hvaða áhrif hækkun eða lækkun gengis tiltekinna gjaldmiðla geti haft á höfuðstól lánsins. Lánssamningurinn beri því alls ekki með sér að með ákvæðum hans sé verið að klæða lán í íslenskum krónum í búning láns í erlendum myntum í þeim tilgangi að nota hinar erlendu myntir til ólögmætrar verðtryggingar. Til slíks henti ákvæði lánssamningsins alls ekki. Efnd stefnda á aðalskyldu sinni með útgreiðslu lánsfjárhæðarinnar bendi einnig eindregið til þess að lánið sé í erlendum myntum. Lánið hafi verið greitt út í tveimur hlutum með tveggja mánaða millibili. Ekki liggi fyrir í málinu beiðni stefnanda um útborgun hluta lánsins í evrum en sjá megi af tölvuskeyti stefnda til stefnanda, 7. júlí 2007, að stefnandi hafi óskað eftir því að lán í evrum yrði greitt út 6. júlí 2007, 775.000 evrur á genginu 84,28 eða 65.317.000 krónur. Stefndi hafi síðan gert samning við Glitni hf. um gjaldmiðlaviðskipti 6. júlí 2007. Á grundvelli þess samnings hafi stefndi selt 775.000 evrur og keypt fyrir það íslenskar krónur, sömu fjárhæðar og afhentar hafi verið Skagafjarðarveitum ehf. Það geti ekki valdið því að lán í erlendum myntum verði talið lán í íslenskum krónum þótt lánveitandi taki að sér að skipta hinum lánuðu gjaldmiðlum í íslenskar krónur fyrir lántakann með þessum hætti. Til grundvallar síðari útborgun lánsfjárhæðarinnar liggi beiðni stefnanda þess efnis að lán í Bandaríkjadölum verði útborgað í íslenskum krónum að fjárhæð 50.005.980 til Skagafjarðarveitna ehf., 4. september 2007. Svo virðist sem stefndi hafi átt íslenskar krónur til að afhenda Skagafjarðarveitum ehf. á grundvelli þessarar beiðni og að stefndi hafi talið sig geta notað hina erlendu mynt innan skamms. Stefndi hafi því ekki keypt íslenskar krónur á markaði til að verða við þessari ósk stefnanda, heldur hafi stefnandi keypt íslenskar krónur af stefnda. Eins og fram hafi komið hafi Skagafjarðarveitur ehf. fengið afhenta hærri fjárhæð í íslenskum krónum en sem numið hafi hámarksfjárhæð lánsins í íslenskum krónum. Það geti ekki útskýrst af öðru en því að einhver tími hafi liðið á milli þess sem fjárhæðir í evrum og Bandaríkjadölum, sem hafi rúmast innan lánsloforðs, hafi verið ákveðnar þar til myntirnar hafi verið seldar og fyrir þær keyptar íslenskar krónur sem svo hafi verið lagðar inn á bankareikning Skagafjarðarveitna ehf. Þetta bendi eindregið til þess að skuldbindingin sé í erlendum myntum. Skagafjarðarveitur ehf. hafi fengið 115.322.980 krónur afhentar á grundvelli lánssamnings með tilgreindri lánsfjárhæð að andvirði 115.000.000 íslenskra króna í evrum og/eða Bandaríkjadölum. Að mati stefnda staðfesti það að tilgreiningin í lánssamningnum á lánsfjárhæðinni feli ekki í sér að lánsfjárhæðin hafi verið ákveðin í íslenskum krónum, ella hefðu Skagafjarðarveitur ehf. ekki fengið meira en 115.000.000 krónur afhentar. Þá bendi efnd stefnanda á aðalskyldu sinni, með greiðslu vaxta og afborgana af láninu, eindregið til þess að lánið sé í erlendum myntum. Stefnandi hafi alla tíð getað greitt afborganir og vexti í evrum og Bandaríkjadölum. Stefndi hafi litið svo á að aðalskylda stefnanda hafi verið að inna af hendi greiðslur í þeim erlendu myntum sem lánaðar hafi verið en hafi þó boðið stefnanda að mynda greiðsluseðla í íslenskum krónum, ef það hentaði stefnanda. Þannig hafi stefndi ávallt, fyrir hvern gjalddaga, að undanskyldum fyrsta gjalddaga lánsins, beint sérstakri tilkynningu til Skagafjarðarveitna ehf., þar sem því hafi verið lýst hvernig skyldi að því staðið að greiða vexti og afborganir í þeim erlendu myntum sem lánaðar hefðu verið. Stefnandi hafi hins vegar kosið að láta mynda greiðsluseðla í íslenskum krónum og hafi ekki gert við það athugasemdir þótt vextir og afborganir hafi verið reiknaðar í evrum og Bandaríkjadölum. Með því að festa niður fjárhæð greiðsluseðla í íslenskum krónum með þessum hætti hafi stefnanda í raun verið boðið að kaupa þær erlendu myntir sem hann hefði þurfti að inna af hendi á tilteknu gengi. Lánið sé engu að síður í erlendum myntum.

Stefndi hafi tekið við íslenskum krónum og keypt fyrir þær þá erlendu gjaldmiðla sem stefnandi hafi tekið að láni enda beri stefnda að endurgreiða það lán sem endurlánað hafi verið af í hinum sömu erlendu gjaldmiðlum. Móttaka stefnda á íslenskum krónum hafi því eingöngu verið til hægðarauka fyrir stefnanda en ekki til merkis um að lánið sé í íslenskum krónum. Stefnandi hafi verið meðvitaður um þessi atvik og ekki með réttu getað talið að það væri skylda hans að greiða annað en þær myntir sem stefndi hafi fengið lánaðar til endurláns. Öll þau gögn, sem hafi orðið til í aðdraganda lántöku stefnanda, beri með sér að lánið sé í erlendum myntum. Stefnandi hafi tekið fram, strax við fyrstu samskipti varðandi lánið, að óskað væri eftir erlendu endurlánsfé, lánstilboð stefnda hljóði upp á lán í erlendum myntum, evrum og Bandaríkjadölum, að jafnvirði tiltekinni fjárhæð í íslenskum krónum og samþykkt byggðarráðs stefnanda, sem hafi verið staðfest af sveitastjórn, fjalli um lán í erlendum myntum. Þessi gögn séu til vitnis um að vilji stefnanda hafi staðið til að taka lán í erlendum myntum. Þá bendi gögnin einnig til þess að stefndi hafi viljað lána stefnanda erlendar myntir enda grundvallaratriði í þessu máli að stefndi hafi aflað endurlánsfjár í erlendum myntum. Allan vafa við túlkun á láns­samningi aðila verði að skýra til samræmis við þennan vilja aðila. Þá sé skýrt tekið fram í lánssamningnum og viðauka við hann að lánið sé endurlán og stefnandi hafi vitað að verið væri að endurlána sveitarfélaginu erlendar myntir. Í grein 2.3 í lánssamningnum komi fram að lánið sé af endurlánafé frá Þróunarbanka Evrópuráðsins og að stefnandi gangist undir sérstakar skuldbindingar af því tilefni sem varði upplýsingagjöf til hins upphaflega lánveitanda og skilyrði hans fyrir útgreiðslu lánsins. Í viðauka II við lánssamninginn sé þessum skyldum og skilyrðum nánar lýst og ítrekað sé að lánveitingin sé fjármögnuð með lántöku frá Þróunarbankanum og stefndi taki að láni hjá honum ákveðna fjárhæð til endurláns til stefnanda. Samskipti aðila fyrir undirritun lánssamningsins beri einnig með sér að um endurlán sé að ræða og að stefnanda hafi allt frá upphafi verið um það kunnugt enda komi fram, þegar í beiðni stefnanda um lánið, að óskað sé eftir erlendu endurlánsfé. Stefndi leggi á það þunga áherslu að lánið hafi verið endurlán og að stefnandi hafi verið meðvitaður um það við lántökuna. Það liggi því fyrir að þeir fjármunir sem stefnandi hafi fengið lánaða hafi verið erlendar myntir sem stefndi hafi fengið að láni frá Þróunarbanka Evrópuráðsins. Skuldbinding stefnda samkvæmt lánssamningi sínum við Þróunarbanka Evrópuráðsins sé óumdeilanlega í erlendum myntum og stefnandi hafi vitað að með lánssamningi nr. 20/2007 hafi hann fengið hlutdeild í því láni. Í stefnu sé því haldið fram að stefnanda sé það óviðkomandi hvernig stefndi hafi fjármagnað sig. Sú fullyrðing sé fjarri sannleikanum. Stefndi sé ekki banki sem bjóði almenningi ýmiss konar lán og fjármögnun. Stefndi hafi verið ríkisstofnun, þegar lánið hafi verið veitt, og hafi haft þann lögbundna megintilgang tryggja sveitarfélögum, stofnunum þeirra og fyrirtækjum lánsfé á hagstæðum kjörum. Stefndi sinni þessu meginhlutverki sínu, að langstærstum hluta, með lánsfé til endurláns og stefnandi hafi vitað að stefndi tæki lán í erlendum gjaldmiðlum til þess að endurlána honum. Stefnanda, sem hafi allt frá stofnun Lánasjóðs sveitarfélaga verið einn af eigendum sjóðsins, hafi verið kunnugt um lánareglur þess efnis að lánsfé skyldi endurlánað á kjörum sem tækju mið af kjörum lánasjóðsins að viðbættu álagi sem standa ætti straum af útlögðum kostnaði og rekstrarkostnaði. Stefnandi hljóti einnig að hafa gert sér grein fyrir því að hann fengi aldrei þau vaxtakjör á almennum markaði sem honum hafi boðist. Þau vaxtakjör sem um hafi verið samið hafi á þessum tíma ekki staðið neinum til boða á almennum markaði og hafi eingöngu helgast af lögbundnu hlutverki stefnda og af kjörum á því láni sem stefndi hafi endurlánað stefnanda af. Stefnandi geti því ekki borið því við að hann hafi einfaldlega tekið lán hjá stefnda og það sé honum óviðkomandi með hvaða hætti það hafi verið fjármagnað. Stefnandi hafi vitað að hann væri að fá hluta af lánsfé sem stefnda hafi staðið til boða í erlendum myntum og hafi því verið ljóst, óháð tilgreiningu lánsfjárhæðar og formlegum efndum aðalskyldna, að hann væri að fá erlent lánsfé í hendur. Stefndi byggi í öðru lagi á því að hvað varði  útreikning að baki aðal- og varakröfu stefnanda þá hafi Hæstiréttur Íslands staðfest með dómum sínum að umsamin vaxtakjör af gengisbundnu láni hafi ekki getað komið til álita nema í tengslum við gengistryggingu þess. Þetta eigi enn frekar við í máli þessu þar sem ákvörðun vaxta hafi byggst á þeim kjörum sem stefndi hafi fengið á láni og hann hafi sérstaklega tekið til að endurlána stefnanda að viðbættu 0,05% álagi, sem samkvæmt lánareglum stefnda, sem stefnandi hafi þekkt, hafi verið ætlað að standa straum af kostnaði stefnda af lánveitingunni. Einungis með þessum hætti og sökum lögbundins hlutverks stefnda hafi verið unnt að bjóða þau vaxtakjör sem um hafi verið samið. Bein og órjúfanleg tengsl séu því milli hinnar meintu gengistryggingar og vaxtaákvæða lánssamnings aðila. Verði hin meintu ákvæði um gengistryggingu í samningi aðila ógild séu allar forsendur fyrir vaxtaákvæðum samningsins brostnar og ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að bera þau fyrir sig. Því sé ekki unnt að styðjast við vaxtaákvæði lánssamningsins óbreytt eftir orðanna hljóðan. Ekki sé heldur unnt að gefa þeim með skýringu annað inntak enda hafi aldrei verið skráðir LIBOR- eða EURIBOR-vextir af lánum í íslenskum krónum á millibankamarkaði í Frankfurt eða London. Stefndi telji því óhjákvæmilegt að ógildi hinnar meintu gengistryggingar myndi leiða til þess að líta yrði með öllu fram hjá ákvæðum samningsins um vaxtahæð. Í samningnum sé hins vegar ákveðið að skuldin beri vexti og beri því, í ljósi alls framangreinds, að miða vexti allt frá upphafi við 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001. Af þessu leiði að stefnandi hafi hingað til greitt minna í vexti af láninu en honum hafi borið. Stefndi byggi á þeirri meginreglu kröfuréttar að kröfuhafi, sem fengið hafi minna greitt en hann hafi átt rétt til í lögskiptum aðila, eigi kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt sé. Stefnandi byggi aðalkröfu sína á þröngri undantekningu frá þessari meginreglu, þess efnis að fullnaðarkvittun kröfuhafa geti að vissum skilyrðum fullnægðum valdið því að hann glati frekari kröfu. Stefnandi hafi þó ekki rökstutt það nema að afar takmörkuðu leyti hvers vegna beita eigi þessari þröngu undantekningu í máli þessu. Komi fram rökstuðningur fyrir því, á síðari stigum málsins, hvernig stefnandi telji skilyrðunum fullnægt feli sá rökstuðningur í sér nýjar málsástæður sem stefndi hafi ekki fengið tækifæri til að bregðast við í greinargerð. Við mat á því hvort framangreind undantekning eigi við hafi Hæstiréttur Íslands talið að meta þurfi hvort skuldari hafi við móttöku kvittunar fengið í hendur viljayfirlýsingu kröfuhafa um að greiðslu sé lokið og þar með réttmæta ástæðu til að ætla að hann sé búinn að gera upp að fullu greiðslu sína á viðkomandi gjalddaga og geti treyst því að ekki komi til frekari kröfu síðar. Stefndi hafi hins vegar aldrei krafið stefnanda um greiðslur vegna lánsins og aldrei tekið við vaxtagreiðslum né öðrum greiðslum frá stefnanda. Það hafi alla tíð verið einkahlutafélagið Skagafjarðarveitur sem greitt  hafi afborganir og vexti af láninu. Hafi móttaka þeirra greiðslna, án athugasemda, falið í sér fullnaðarkvittanir hafi þeim einungis verið beint að greiðandanum sem sé sjálfstæður lögaðili. Stefnanda hafi því, hvernig sem á það sé litið, hvorki verið gefnar fullnaðar­kvittanir fyrir greiðslu vaxta og afborgana né ígildi þeirra. Af meginreglunni, um rétt kröfuhafa til greiðslu þess sem vangreitt hafi verið, leiði að einungis við sérstakar aðstæður verði tilkalli kröfuhafa um viðbótargreiðslu hafnað. Engar slíkar sérstakar aðstæður séu fyrir hendi í þessu máli heldur sé þvert á móti sérstök ástæða til að meginreglan gildi. Lánstími samkvæmt lánssamningnum hafi verið 15 ár, sem geti ekki talist lán til langs tíma, sérstaklega ekki fyrir sveitarfélag. Sú fjárhæð sem nemi mismun á þeim vöxtum sem stefnandi hefur greitt og þeim vöxtum sem stefnanda hafi borið að greiða samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, sé alls 8.134.160 krónur. Sú fjárhæð geti vart talist umtalsverð sé litið til upphaflegrar lánsfjárhæðar sem hafi verið 775.000 evrur og 787.000 Bandaríkjadalir, eða samtals 115.322.980 krónur, og sé litið til þess að síðasti gjalddagi lánsins, sem stefnandi hafi greitt, sé svipaðrar fjárhæðar. Þá geti stefnandi ekki talist hafa verið í afsakanlegri lögvillu um að lánið hafi verið í erlendum myntum allt til 16. mars árið 2012. Stefnandi byggi málsókn þessa alfarið á sjónarmiðum sem komi fram í dómum Hæstaréttar Íslands frá 16. júní 2010, í málum nr. 92/2010 og 153/2010, og hafi þá þegar verið í almennri umræðu í samfélaginu um langa tíð. Engin atvik hafi orðið í samskiptum aðila eða annað sem réttlæti það að stefnandi hafi talið, 16. mars 2012, að lánið hafi verið í íslenskum krónum, hafi stefnandi ekki talið svo vera strax 16. júní 2010. Þess beri einnig að gæta að stefndi sé opinbert hlutafélag í eigu allra sveitarfélaga á landinu, þar með talið stefnanda. Stefndi hafi í samræmi við lögbundið hlutverk sitt leitast við að bjóða eigendum sínum lán á eins góðum kjörum og unnt hafi verið og hafi í þeim tilgangi tekið lán erlendis frá til að endurlána. Verði stefndi sviptur sjálfsögðum rétti til að endurheimta það sem vangreitt hafi verið sé niðurstaðan sú að stefndi tapi á því að hafa aðstoðað stefnanda með lánafyrirgreiðslu. Slíkt tap verði einungis tekið af eigin fé stefnda. Það sé því alls ekki svo að það standi stefnda nær en stefnanda að bera þann vaxtamun sem hafi hlotist af hinni meintu ólögmætu gengistryggingu. Verði stefndi látinn bera vaxtamuninn hagnist stefnandi beinlínis á milligöngu stefnda, um að útvega stefnanda lán til nauðsynlegra framkvæmda í sveitarfélaginu, á kostnað annarra sveitarfélaga í landinu. Stefndi sé ekki viðskiptabanki og starfi eingöngu til að sinna lögbundnu hlutverki sínu á grundvelli laga þar um. Stefndi sé ekki fjármálafyrirtæki á almennum lánamarkaði sem hafi boðið viðskiptavinum sínum ýmis lánakjör, þar með talin lán með gengistryggingu, sem svo hafi reynst ólögmæt. Stefndi hafi verið opinber stofnun þegar lánið hafi verið veitt og hafi verið bundinn af takmörkuðu starfsleyfi, lögbundnu hlutverki sínu og samþykktum sem eigendur hafi samþykkt, þar með talið stefnandi. Það sé því ekki augljós aðstöðumunur á lánveitanda og lántaka í umræddum viðskiptum aðila þessa máls. Stefndi fái ekki betur séð en varakrafa stefnanda byggi á öllum sömu málsástæðum og aðalkrafa hans og vísist því um varnir stefnda til umfjöllunar um aðalkröfu. Verði á það fallist að lánssamningur aðila feli í sér skuldbindingu í íslenskum krónum og að ekki sé unnt að endurreikna lánið þannig að vextir miðist frá upphafi við 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, sé á það fallist að reikna eigi eftirstöðvar lánssamningsins með þeim hætti sem lýst sé í varakröfu stefnanda. Verði á það fallist að umræddur lánssamningur feli í sér skuldbindingu í íslenskum krónum telji stefndi óhjákvæmilegt að skuldin beri þá allt frá upphafi vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001. Óháð því hvort stefndi geti krafið stefnanda um greiðslu þeirra vaxta sem stefnandi hafi þá vangreitt megi vera alveg ljóst að vextir séu ekki ofgreiddir og ráðstöfun hluta vaxtagreiðslna inn á höfuðstól lánsins, eins og aðalkrafa stefnanda geri ráð fyrir, sé því óréttlætanleg. Meginregla kröfuréttar um rétt skuldara til endurgreiðslu ofgreidds fjár sé ekki frekar án undantekninga en meginreglan um rétt kröfuhafa til að endurheimta það sem vangreitt hafi verið. Athugasemdalaus greiðsla stefnanda á vöxtum vegna liðinna gjalddaga feli í sér viðurkenningu hans á því að hafa skuldað umkrafðar fjárhæðir í vexti af skuldinni. Sjónarmið um öryggi í viðskiptum leiði til þess að stefnandi geti í ljósi framangreinds ekki gert um það kröfu að fjárhæðum sem hann hafi greitt í vexti, athugasemdalaust, verði ráðstafað til lækkunar höfuðstóls skuldar hans. Það hefði í för með sér mikla röskun á fjárhagslegum hagsmunum stefnda, sem um lengri tíma hafi hagað sér í samræmi við athugasemda­lausar greiðslur stefnanda, yrði kröfuréttarsambandið tekið upp hvað fortíðina varði og honum í framhaldinu gert að lækka kröfu sína umtalsvert vegna liðinnar tíðar, þvert á væntingar um hið gagnstæða. Verði á það fallist að lánssamningur aðila feli í sér skuldbindingu í íslenskum krónum byggir stefndi á því að reikna beri eftirstöðvar lánsins með þeim hætti að upphaflegur höfuðstóll í íslenskum krónum beri vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, frá stofndegi kröfu stefnda til viðmiðunardags. Frá þeirri fjárhæð skuli draga þær greiðslur sem stefnandi hafi innt af hendi, vaxtareiknaðar frá greiðsludegi til viðmiðunardags miðað við sömu vexti. Sé það til samræmis við forsendur endanlegrar þrautavarkröfu stefnanda.

 

Forsendur og niðurstaða

 

Ágreiningur aðila lýtur í fyrsta lagi að því hvort lán samkvæmt lánssamningi nr. 20/2007 hafi falið í sér gilt lán í erlendum gjaldmiðlum eða lán í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla, og þar með ólögmæta gengistryggingu samkvæmt 13. gr., sbr. 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar Íslands ber við úrlausn framangreinds ágreiningsefnis fyrst og fremst að líta til forms og meginefnis þess löggernings eða þeirra  löggerninga, sem liggja til grundvallar lánsskuldbindingu. Í því sambandi ber einkum að líta til þess hvernig skuldbinding í lánssamningi er tilgreind, heiti lánsskuldbindingar og tilgreiningar vaxta. Þá ber einnig að líta til þess hvernig skyldur samningsaðila hafa verið efndar.

Á forsíðu samnings aðila er að finna yfirskriftina „Lánssamningur nr. 20/2007 milli Lánasjóðs sveitarfélaga sem lánveitanda og Sveitarfélagsins Skagafjarðar sem lántaka“. Fjárhæð lánsins er í samningnum tilgreind með því einu að hún sé að andvirði 115.000.000 króna í evrum og/eða Bandaríkjadölum. Í samningnum koma fjárhæðir hinna erlendu mynta ekki fyrir eða hlutfall þeirra af fjárhæðinni í íslenskum krónum. Í tilboði Lánasjóðs sveitarfélaga, forvera stefnda, til stefnanda, um lánveitinguna er fjárhæð lánsins einnig tilgreind sem jafnvirði allt að 115.000.000 íslenskra króna í erlendum myntum, evrum og/eða Bandaríkjadölum. Hins vegar kemur fram í tilboðinu að við útborgun lánsins verði jafnvirði 65.000.000 króna greitt út í evrum í júlí 2007 og 50.000.000 króna greitt út í Bandaríkjadölum í september 2007.

Í lánssamningnum er mælt svo fyrir að lánið komi til útborgunar í tveimur lánshlutum eigi síðar en fimm bankadögum eftir að beiðni lántaka um útborgun lánshluta berist lánveitanda samkvæmt fyrirmynd í viðauka I við samninginn. Í viðauka I við samninginn er undirrituð beiðni um útborgun láns, dagsett tæpum tveimur mánuðum eftir undirritun samningsins. Í beiðninni kemur fram að stefnandi óski þess að lánið, samtals að jafnvirði 115.000.000 króna í evrum og/eða Bandaríkjadölum, verði greitt út með eftirfarandi hætti:

 

Lán í USD útborgað í ísl.kr.:             50.005.980

Greiðsludagur:                                  04.09.2007

Viðtakandi greiðslu:                          000000-0000, Skagafjarðarveitur ehf.

Reikningsnúmer                                0310-26-120

Viðtökubanki                                                Kaupþing banki hf.

 

Samningnum fylgir einnig form að útborgunarbeiðni, undirritað af hálfu stefnanda, dagsett 4. júlí 2007, sama dag og lánssamningurinn var undirritaður af hálfu stefnanda. Samkvæmt beiðninni er þess farið á leit að lán að jafnvirði 115.000.000 króna í evrum og/eða Bandaríkjadölum, verði greitt út til Skagafjarðarveitna ehf., 6. júlí 2007, inn á framangreindan tékkareikning nr. 0310-26-120.

Samkvæmt framangreindu er fjárhæð umsamins láns, í heild og hluta, í lánssamningnum og viðauka við hann, sem og í tilboði forvera stefnda um lánveitinguna, eingöngu tilgreind í krónum. Bendir það til þess að samningur­inn taki eingöngu til skuldbindingar í þeim gjaldmiðli. Stefndi hefur ekki gefið viðhlítandi skýringar á því hvers vegna fjárhæð lánsins hafi á þennan hátt verið tilgreind í krónum, ef ætlun aðila hafi verið að lánið væri í evrum og Bandaríkjadölum.

Í ákvæðum lánssamningsins um vexti segir að skuld í evrum beri EURIBOR-vexti að viðbættu 0,14% vaxtaálagi og að skuld í Bandaríkjadölum beri LIBOR-vexti að viðbættu 0,18% vaxtaálagi og virðist þá gert ráð fyrir að skuld stefnanda yrði ákveðin í hinum erlendu gjaldmiðlum. Hins vegar segir í samningnum að standi lántaki ekki skil á greiðlu á gjalddaga beri honum að greiða dráttarvexti af gjaldfallinni fjárhæð frá gjalddaga til greiðsludags samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálag, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001.

Í samræmi við framangreindar útgreiðslubeiðnir, viðauka við samninginn og samkvæmt framlögðum kvittunum frá stefnda, greiddi forveri stefnda lánið út í krónum inn á framangreindan tékkareikning, 65.317.000 krónur 6. júlí 2007 og 50.005.980 krónur 4. september 2007 eða samtals 115.322.980 krónur. Forveri stefnda efndi því aðalskyldu sína samkvæmt lánssamningnum í raun í íslenskum krónum. Þá er óumdeilt í málinu að stefnandi hafi ávallt greitt vexti og afborganir af láninu í íslenskum krónum, í samræmi við greiðsluseðla stefnda.

Að öllu framangreindu virtu verður að leggja til grundvallar að lánið, sem stefnandi tók samkvæmt lánssamningi nr. 20/2007, hafi verið í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla. Samkvæmt 13. gr. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu er slík verðtrygging ólögmæt og ógild.

Í samræmi við dóma Hæstaréttar Íslands, m.a. í máli nr. 155/2011 og máli nr. 386/2012, hreyfir ekki framangreindri niðurstöðu að tilgreining lánsfjárhæðar, afborgana og vaxta, hafi verið í hinum erlendu gjaldmiðlum á greiðslutilkynningum og greiðsluseðlum útbúnum af stefnda. Framlagðir greiðsluseðlar bera enda með sér að stefnandi hafi ávallt verið krafinn um greiðslu í íslenskum krónum, miðað við gengi hinna erlendu gjaldmiðla á umsömdum gjalddaga. Jafnframt bera greiðslutilkynningar og greiðsluseðlar stefnda það með sér að stefnandi hefði þurft að óska eftir því sérstaklega hefði hann viljað greiða af láninu í erlendum gjaldmiðlum. Þá kemur fram á fyrsta útsenda greiðsluseðli vegna lánsins vegna gjalddaga 17. september 2007 að verðtrygging sé EUR-Evrópumynt og rennir það frekari stoðum undir framangreinda niðurstöðu.

Hvað varðar ákvæði lánssamningsins um að lánið sé af endurlánafé frá Þróunarbanka Evrópuráðsins, hefur stefndi ekki sýnt fram á að hann, eða forveri hans, hafi komið fram sem milligönguaðili um lán frá Þróunarbanka Evrópuráðsins til stefnanda, þótt hann kunni að hafa fjármagnað lán sitt til stefnanda með láni frá bankanum, sbr. orðalag viðauka II við samninginn. Liggur ekkert fyrir í málinu um að stefnandi hafi óskað eftir láni frá Þróunarbanka Evrópuráðsins eða að forveri stefnda hefði milligöngu um að útvega honum slíkt lán. Þvert á móti virðist forveri stefnda, samkvæmt framlögðum gögnum, hafa tekið lán hjá Þróunarbanka Evrópuráðsins í mars 2007, áður en stefnandi leitaði eftir lánveitingunni í apríl sama ár. Því verður ekki talið að um beint endurlán á erlendu lánsfé hafi verið að ræða. Það að stefndi hafi fjármagnað lánveitinguna með erlendu lánsfé fær ekki hnekkt því að lánið var ákveðið í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla.

Ágreiningur aðila lýtur í öðru lagi að því á hvaða forsendum endurreikna skuli  skuldbindingu samkvæmt lánssamningi nr. 20/2007, í ljósi framan­greindr­ar niðurstöðu.

Samkvæmt 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, eins og greininni var breytt með 1. gr. laga nr. 151/2010, skal upphaflegur höfuðstóll skuldar ólögmæts gengisláns vaxtareiknaður þannig að miðað sé við að lán beri vexti samkvæmt 1. málsl. 4. gr. laganna. Fyrirmælin eiga rætur að rekja til dóms Hæstaréttar Íslands, 16. september 2010, í máli nr. 471/2010. Dómurinn kvað á um   að órjúfanleg tengsl væru á milli gengisviðmiðunar og vaxtaákvörðunar við þær aðstæður að lán hefði verið bundið ólögmætri gengistryggingu. Væri því óhjákvæmilegt að ógilding ákvæðis um gengistryggingu leiddi til þess að líta yrði með öllu fram hjá ákvæðum samnings um vaxtahæð. Væru ákvæði um gengistryggingu ógild skyldi miða við að lán hefði borið vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001, í samræmi við fyrirmæli 5. mgr. 18. gr. laganna.

Aðalkrafa stefnanda byggir á þeim forsendum að ákvæði lánssamnings nr. 20/2007 um gengistryggingu sé ógilt en að önnur ákvæði samningsins, meðal annars vaxtaákvæði hans, haldi gildi sínu. Við endurútreikning skuldbind­ing­ar­innar beri því að miða við upphaflegan höfuðstól og áfallna vexti samkvæmt samningnum sjálfum. Með þessum hætti sé mismunur á raungreiðslum stefnanda annars vegar og reiknuðum samningsvöxtum af upphaflegum höfuðstól í íslenskum krónum hins vegar ráðstafað inn á höfuðstól lánsins. Í samræmi við framangreint fær aðalkrafa stefnanda hvorki stoð í fyrirmælum laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu né í fordæmisrétti. Verður stefndi því sýknaður af aðalkröfu stefnanda.

Varakrafa stefnanda byggir á þeim forsendum að við endurútreikning skuldbindingar samkvæmt lánssamningi aðila sé lánið í heild sinni endurreiknað með vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001, í samræmi við ákvæði 5. mgr. 18. gr. laganna. Hins vegar hafi hver og ein vaxtagreiðsla, sem stefndi hafi athugasemdalaust veitt viðtöku, falið í sér fullnaðargreiðslu af hálfu stefnanda. Stefndi geti því ekki krafið stefnanda um viðbótargreiðslur vegna vaxtagjalddaga, aftur í tímann, heldur verði rangur lagaskilningur aðila aðeins leiðréttur til framtíðar. Af þessu leiði að miða beri við upphaflegan höfuðstól lánsins, 115.322.980 krónur, að frádreginni afborgun af höfuðstól, 16. mars 2012, að fjárhæð 11.489.241 krónur. Eftirstöðvar höfuðstóls lánsins hafi því þann dag, að frádreginni framangreindri innborgun, verið 103.833.739 krónur.

Óumdeilt er að þær fjárhæðir sem stefnandi greiddi í vexti af láninu frá fyrsta gjalddaga, 17. september 2007, til og með gjalddaga, 16. mars 2012, voru tilgreindar á greiðsluseðlum útgefnum af stefnda. Lánssamningurinn sem deilt er um í málinu er milli aðila þessa máls og ljóst af ákvæðum hans að það var stefnandi sem var skuld­bundinn til að greiða vexti og afborganir af láninu en ekki Skagafjarðaveitur ehf. Breytir þar engu um þótt Skagafjarðarveitur ehf. hafi verið nefnt greiðandi á greiðslu­seðlum stefnda eða hafi í raun greitt stefnda vexti og afborganir af láninu. Verður því lagt til grundvallar að greiðsluseðlar stefnda og fyrirvaralaus móttaka á greiðslum frá stefnanda, eða Skagafjarðarveitum ehf. fyrir hans hönd, í samræmi við greiðsluseðlana, jafngildi fullnaðarkvittun vegna greiðslnanna.

Kemur þá til skoðunar hvort fullnaðarkvittanir vegna greiðslnanna leiði til þess, við endurreikning lánsins, að stefndi glati kröfu til viðbótargreiðslu vegna mismunar á umsömdum vöxtum og vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001. Um málsástæður vísar stefnandi til þeirra sjónarmiða sem niðurstaða dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 600/2011 byggir á.

Eins og málið liggur fyrir verður að leggja til grundvallar að stefnandi hafi greitt þá vexti sem tilgreindir voru á greiðsluseðlum stefnda í góðri trú um lögmæti lánsins og að greiðslurnar fælu í sér réttar og fullar efndir af hans hálfu. Stefnandi greiddi fyrst af láninu í september 2007 og síðan á 6 mánaða fresti eftir það. Fyrstu dómar Hæstaréttar Íslands um ólögmæta gengistryggingu féllu árið 2010. Með fleiri dómum Hæstaréttar Íslands, næstu mánuði á eftir, sem fjölluðu um ágreining um ólögmæta gengistryggingu, komst á skýrari mynd um það til hvers konar samninga dómafordæmi réttarins tækju. Stefnandi greiddi síðast af láni samkvæmt lánssamningi aðila, 16. mars 2012, og lýsti þeirri skoðun sinni með bréfi til stefnda 22. mars að hann teldi verðtryggingarákvæði lánssamningsins í andstöðu við IV. kafla laga nr. 38/2001. Misskilningur aðila, byggður á röngum lagaskilningi, verður því talinn stefnanda að öllu leyti afsakanlegur.

Þá skal litið til þess að 16. mars 2012 hafði stefnandi greitt vexti í fjögur og hálft ár, alls 10 vaxtagjalddaga og eina afborgun af höfuðstól. Heildarlánstíminn var samkvæmt lánssamningnum 15 ár og skyldi höfuðstóllinn endurgreiddur með 20 jöfnum afborgunum á sex mánaða fresti, fyrst 16. mars 2012, en fram að því færi aðeins fram greiðsla vaxta. Til og með gjalddaga, 16. mars 2012, hafði stefnandi ávallt verið í skilum með greiðslur. Viðbótargreiðsla vegna mismunar á greiddum vöxtum og vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 vegna framangreinds tímabils myndi nema 48.334.202 krónum, sem er umtalsverð fjárhæð að því virtu að upphafleg lánsfjárhæð var 115.322.980 krónur.

Rétt er að líta til þess að stefndi, sem og forveri hans, starfar sem lánafyrirtæki samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, sbr. 1. gr. laga nr. 150/2006 um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga, áður 1. gr. laga nr. 136/2004 um Lánasjóð sveitarfélaga. Þá er megintilgangur starfsemi stefnda og forvera hans sá sami, að tryggja sveitarfélögum, stofnunum þeirra og fyrirtækjum, lánsfé á hagstæðum kjörum. Forveri stefnda hafi þannig boðið viðskiptavinum sínum ýmis lánakjör, þar með talin lán með gengistryggingu, sem reyndust ólögmæt. Ekkert liggur fyrir um að stefnandi hafi búið yfir slíkri sérþekkingu um fjármálastarfsemi og peningamál á fjölþjóðlegum vettvangi að jafnað verði við þá sem fjármálafyrirtæki búa að öðru jöfnu yfir. Ekki hefur heldur verið sýnt fram á annað en að skilmálar þess láns sem um ræðir í þessu máli hafi verið samkvæmt einhliða ákvörðun stefnda. Aðstöðumunur var því með aðilum í viðskiptum þeirra.

Þegar öll framangreind atriði eru virt heildstætt og með hliðsjón af dómum Hæstaréttar Íslands í málum nr. 600/2011 og nr. 464/2012 þykir það standa stefnda nær en stefnanda að bera þann vaxtamun sem af hinni ólögmætu gengistryggingu hlaust og um er deilt í málinu. Er því fallist á með stefnanda að sá rangi lagaskilningur sem samkvæmt framansögðu lá til grundvallar lögskiptum aðila í upphafi verði í uppgjöri aðila einungis leiðréttur til framtíðar. Af því leiðir að við endurútreikning skuldbindingar samkvæmt lánssamningi nr. 20/2007 verður stefndi ekki talinn eiga viðbótarkröfu á hendur stefnanda vegna þegar greiddra vaxta aftur í tímann. Að því gefnu fellst stefndi á útreikning að baki varakröfu stefnanda. Í ljósi alls sem að framan hefur verið rakið verður því fallist á varakröfu stefnanda um viðurkenningu á því að eftirstöðvar láns­samn­ingsins hafi hinn 16. mars 2012 verið 103.833.739 krónur.

Með hliðsjón af framangreindri niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefndi dæmdur til þess að greiða stefnanda málskostnað og þykir hann hæfilega ákveðinn 1.100.000 krónur.

Dóminn kveður upp Þórður S. Gunnarsson héraðsdómari.

 

D Ó M S O R Ð:

 

Viðurkennt er að eftirstöðvar lánssamnings aðila nr. 20/2007 hafi hinn 16. mars 2012 verið 103.833.739 krónur. Stefndi greiði stefnanda 1.100.000 krónur í málskostnað.

 

Þórður S. Gunnarsson