• Lykilorð:
  • Afréttur
  • Eignarréttur
  • Fasteign
  • Gjafsókn
  • Þjóðlenda

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands vestra 5. júní 2015 í máli nr. E-50/2012:

Sveitarfélagið Skagafjörður

(Ólafur Björnsson hrl.)

gegn

Ríkissjóði Íslands

(Edda Björk Andradóttir hdl.)

 

Mál þetta var höfðað 9. maí 2012 og tekið til dóms 21. apríl sl.

Stefnandi er Sveitarfélagið Skagafjörður, Skagfirðingabraut 21, Sauðárkróki.

Stefndi er íslenska ríkið, Vegmúla 3, Reykjavík.

Dómkröfur

            Stefnandi krefst þess að felldur verði úr gildi að hluta úrskurður óbyggðanefndar frá 10. október 2011 í málinu nr. 1/2009, þess efnis að Stífuafrétt og Lágheiði, innan þeirra merkja sem úrskurðað var afréttareign jarða í fyrrum Fljótahreppi, sé þjóðlenda. Nánar tiltekið að enga þjóðlendu sé að finna innan eftirfarandi merkja:

            Upphafspunktur er í svonefndri Hlassakverk (1) utan við Súlufjallstind. Þaðan er línan dregin stystu leið upp á fjallsbrún (2). Efstu fjallbrúnum síðan fylgt til suðurs að Hallskletti (3) og línan dregin þaðan í efsta Drykkjarhól (4). Þaðan er línan dregin stystu leið í Fljótá (5) og ánni fylgt til vesturs þar til komið er á móts við miðja Stóruskriðu (6). Þaðan er línan dregin um miðja Stóruskriðu til fjallseggjar (7). Þaðan er háfjalli Móafellshyrnu fylgt til suðurs í Einstakafjall (1032 m) við Móafellsjökul (8). Þaðan er haldið með sýslumörkum Eyjafjarðarsýslu í háfjalli til austurs um Hrafnabjörg og Sandskarð í punkt sunnan til í Hestfjalli (1252 m) (9). Þaðan er miðfjalli Hestfjalls og síðan Hádegisfjalls fylgt þar til komið er að punkti í Hestfjalli rétt ofan við merkjavörðu (10) (punktur 5 á kröfulínu gagnaðila ríkisins). Þaðan er línan dregin beina stefnu í upphafspunkt.

            Þess er jafnframt krafist að felldur verið úr gildi úrskurður óbyggðanefndar frá 10. október 2011 í málinu nr. 2/2009, Skagafjörður ásamt Almenningi norðan Hrauna en án Lágheiðar, þess efnis að Flókadals- og Hrolleifsdalsafréttir séu þjóðlenda, þ.e. eftirtalin úrskurðarorð:

            „Það er því niðurstaða óbyggðanefndar að Flókadalsafrétt og Hrolleifsdalsafrétt, svo sem landsvæðin eru afmörkuð hér á eftir, teljist til þjóðlendu í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998:

Flókadalsafrétt: Upphafspunktur þar sem Nyrðriá fellur í Flókadalsá (1). Þaðan er Nyrðriá fylgt til upptaka (botn Nyrðriárdals) (2) og línan síðan dregin beina stefnu til fjallseggjar á fyrrum hreppamörkum Fljótahrepps og Hofshrepps (3). Þaðan er fyrrum hreppamörkum fylgt til suðausturs norðan til í Grjótárdalshyrnu (964 m) (4). Þaðan er háfjalli austan Seljárdals fylgt til Dagmálaskálar (915 m) (5) og þaðan í norðvesturhorn fjallsins (6). Þaðan er línan dregin til suðvestur í Flókadalsá (7) og henni síðan fylgt í upphafspunkt. [...]

Hrolleifsdalsafrétt: Upphafspunktur er á hornmarki milli fyrrum hreppamarka Fellshrepps, Fljótahrepps og Hofshrepps (1) Þaðan er fyrrum hreppamörkum Fellshrepps og Fljótahrepps fylgt til norðurs í Setafjall (705 m) (2). Þaðan er haldið til suðvesturs í Hrolleifsdalsá þar sem Barnadalsá rennur í hana (3), Þaðan er Barnadalsá fylgt til suðurs að upptökum í háfjalli (allt að fyrrum hreppamörkum Fellshrepps og Hofshrepps) (4). Þaðan er hreppamörkunum fylgt til austurs í upphafspunkt.“

            Stefnandi krefst þess einnig að felldur verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar frá 10. október 2011 í málinu nr. 2/2009, Skagafjörður ásamt Almenningi norðan Hrauna en án Lágheiðar, þess efnis að Unadals- og Deildardalsafréttir séu þjóðlenda, þ.e. eftirtalin úrskurðarorð:

Það er því niðurstaða óbyggðanefndar að Unadals- og Deildardalsafréttir, svo sem landsvæðið er afmarkað hér á eftir, teljist þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a- lið 7. gr. laga nr. 58/1998: Upphafspunktur er á sýlsumörkum í sunnanverðum Hákömbum við Deildardalsjökul (1085 m) (1). Þaðan er fyrrum sveitarfélagamörkum (Hofshrepps og Hólahrepps), fylgt til suðvesturs og síðan vesturs allt þar til komið er á móts við botn Úlfsskálar (2). Þaðan er línan dregin til norðausturs fyrir botn Skuggabjargadals í fjallsegg á Björk (915 m) (3). Þaðan er línan dregin um háfjall Bjarkar til norðurs þar til komið er að skurðpunkti (4) við línu sem dregin er beina stefnu frá Grænalækjardragi í skarð í fjallsegginni og áfram í sömu stefnu til suðurs. Frá nefndum skurðpunkti er línan dregin til norðurs í umrætt skarð í fjallsegginni (5) og þaðan í Grænalækjardrag (6). Frá Grænalækjardragi er línan dregin beina stefnu í átt að vörðu sem stendur við Deildará, skammt frá þeim stað sem bærinn Stafn stóð, og í Deildará (7). Þaðan er Deildará fylgt til austurs að þeim stað þar sem Brunná fellur í hana (8). Síðan er Brunná fylgt til fremstu upptaka í miðfjalli (Ennishnjúkur) (9). Þaðan er haldið til norðvesturs í Hrafnabjargarskál (10). Þaðan er árfarvegi úr skálinni fylgt í Unadalsá austan við Spáná (11). Þaðan er Unadalsá fylgt til austurs að Grjótá (12). Þaðan er Grjótá fylgt til upptaka og þaðan í háfjall á fyrrum hreppamörkum Hofshrepps og Fljótahrepps (13). Þaðan er fylgt fyrrum hreppamörkum (Fljótahrepps og Hofshrepps) og síðar sýslumörkum um Hákamba til suðurs allt að upphafspunkti við Deildardalsjökul.

            Loks krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu í samræmi við málskostnaðarreikning eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

            Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans en til vara að málskostnaður verði látinn niður falla.

II

Atvik máls

Samkvæmt 7. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta skal óbyggðanefnd kanna og skera úr um hvaða land telst til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda, skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur og úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna.

Með bréfi til fjármálaráðherra 29. mars 2007 tilkynnti nefndin að hún hefði ákveðið að taka til meðferðar nýtt landsvæði, það sjöunda í röðinni, en svæðið var nánar afmarkað svo að það væri „Eyjafjarðarsýsla öll, Skagafjarðarsýsla öll og Austur-Húnavatnssýsla austan Blöndu, auk Hofsjökuls.“

Í bréfi nefndarinnar til fjármálaráðherra 28. desember 2007 kom fram að hún hefði samþykkt tilmæli hans þess efnis að taka að svo stöddu einungis til meðferðar syðri hluta áðurgreinds svæðis, en fresta málinu um sinn að því er varðaði norðurhlutann. Var landsvæðinu því skipt í A- og B-hluta og úrskurðir varðandi A-hlutann (syðri hlutann) kveðnir upp 19. júní 2009.

Varðandi nyrðri hluta vestanverðs Norðurlands (svæði 7B), var fjármálaráðherra veittur frestur til að lýsa kröfum um þjóðlendur til 31. janúar 2009 en hann síðar framlengdur til 11. maí sama árs. Sýslumönnum og fyrirsvarsmönnum viðkomandi sveitarfélaga var tilkynnt um ákvörðun nefndarinnar og gerð grein fyrir framhaldinu.

Með bréfi lögmanns stefnda, dagsettu 8. janúar 2009, var þess farið á leit að afmörkun á svæði 7B, þ.e. nyrðri hluta hins upphaflega svæðis 7, yrði breytt til vesturs þannig að svokallaður Skagi félli þar utan við og féllst nefndin á það. Afmarkaðist nyrðri hluti vestanverðs Norðurlands eftir þessa breytingu þannig: Héraðsvötnum er fylgt frá ósum þar til Norðurá rennur í þau. Þá er Norðurá fylgt í Norðurárdal og yfir Öxnadalsheiði í Öxnadal. Síðan er Öxnadalsá fylgt þar til hún fellur í Hörgá og Hörgá til ósa. Að öðru leyti afmarkast svæðið af hafi.

Kröfulýsingar stefnda varðandi vestavert Norðurland, nyrðri hluta, bárust óbyggðanefnd 11. maí 2009. Hinn 22. maí sama ár birtist tilkynning í Lögbirtingablaðinu um málsmeðferð á svæðinu og útdráttur úr þjóðlendukröfum stefnda ásamt uppdrætti í samræmi við ákvæði 2. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998 og skorað á þá, sem teldu til eignarréttinda á því landsvæði sem féll innan svæðisins, að lýsa kröfum sínum fyrir óbyggðanefnd eigi síðar en 25 ágúst 2009. Jafnframt kom fram að yfirlýsingu um kröfugerð yrði þinglýst á fasteignir sem skráðar væru í þinglýsingabók og málið varðaði. Útdráttur úr efni tilkynningarinnar var birtur í Morgunblaðinu 31. maí 2009. Kröfugerð var síðan aðgengileg á skrifstofum sýslumanna á Sauðárkróki, Siglufirði og Akureyri, viðkomandi sveitarfélaga, auk heimasíðu og skrifstofu óbyggðanefndar.

Í september 2009 barst nefndinni erindi stefnda þar sem gerðar voru nokkrar breytingar á áður framkomnum þjóðlendukröfum þannig að þjóðlendukröfusvæði stækkuðu. Tilkynning um þetta birtist í Lögbirtingablaðinu 5. mars 2010 og var skorað á þá sem teldu til eignaréttinda innan kröfusvæðis stefnda og ekki höfðu þegar lýst kröfum sínum að gera það eigi síðar en 7. júní 2010. Útdráttur úr efni tilkynningarinnar var síðan birtur í Morgunblaðinu 14. apríl 2010. Gefið var út yfirlit yfir allar lýstar kröfur og þær færðar inn á uppdrátt. Auk þjóðlendukrafna stefnda í tveimur hlutum bárust nefndinni fjórar kröfulýsingar vegna ríkisjarða og þrettán kröfulýsingar einstaklinga, sveitarfélaga og annarra lögaðila. Í framhaldi af þessu fór fram lögboðin kynning á lýstum kröfum. Á síðari stigum málsmeðferðarinnar fyrir óbyggðanefnd bárust tvær kröfulýsingar frá gagnaðilum stefnda og fimm kröfulýsingar stefnanda og annarra féllu niður.

Þjóðlendukröfusvæði stefnda sem hér skipta máli féllu undir tvö mál hjá óbyggðanefnd sem fengu númerin 1/2009, Eyjafjörður ásamt Lágheiði en án Almennings norðan Hrauna, en þar liggja þrætusvæðin Lágheiði og Stífluafrétt, og 2/2009, Skagafjörður ásamt Almenningi norðan Hrauna en án Lágheiðar, en þar eru önnur þau svæði sem um er deilt í máli þessu.

Ekki er um það deilt að stefnandi höfðaði mál þetta innan þess frests sem gefinn er skv. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 58/1998.

III

Hér á eftir verður saga umþrættra landsvæða rakin.

Stífluafrétt og Lágheiði

Landsvæðið sem tekur til Stífluafréttar og Lágheiðar liggur á norðanverðum Tröllaskaga, inn af Ólafsfirði og Fljótum í Skagafirði. Svæðið er nokkuð hálent, að mestu í yfir 300 metra hæð og rís hæst í u.þ.b. 1200 metra. Að austanverðu er Hestfjall (1034 metrar) og Hádegisfjall (644 metrar) og Hreppsendasúlur (1057 metrar) til norðvesturs. Austur undir Hádegisfjalli og Hreppsendasúlum er Lágheiði og hækkar land skarpt austur og suður af henni. Vestast á þrætulandinu sunnan Lágheiðar er Móafellshyrna (1045) metrar og tveir dalir austan hennar. Undirlendi dalanna er vel gróið og hið sama má segja um Lágheiði.

Um landnám segir í Landnámu um þetta svæði: „Þórðr knappr hét maðr sygnskr, son Bjarnar at Haugi, annarr hét Nafar-Helgi; þeir fóru samskipa til Íslands ok kómu við Haganes. Þóðr nam land upp frá Stíflu til Tunguár ok bjó á Knappsstodum; [...] Nafar-Helgi nam land fyrir austan upp frá Haganesi til Flókadalsár fyrir neðan Barð ok upp til Tunguár ok bjó á Grindli; [...].“

Í ráðsmannsreikningum Hóla í Hjaltadal frá 1387 kemur fram að Hólamenn ráku fé sitt m.a. á Lágheiði og er þar getið um fjölda fjár sem þangað var rekið. Í kaupbréfi frá 1454 um Reyki er lýst landamerkjum milli jarðarinnar og Kallsstaða en þar er Lágheiðar getið. Í bréfinu segir m.a. svo: „eit liækiargil er geingr or fiallinu ofan ath hol þe(i)m er stendur hia heygardinum a reykium ok retsyne ofan med skurdi þeim er geingr i ana savdadalsa. tvngvna alla vt ath armottvm ok halfa lagheide ok saudadal allan ok hiallan allan vt ath læk þeim er fyr var nefndr ok allan ilifsdal.“

Halldór Hjálmarsson, er varð konrektor að Hólum 1773, skrifaði upp kaup-, máldaga- og landamerkjabréf um Tungu í Fljótum frá 1506 en það mun hafa verið skráð 1508 þegar Narfi Ingimundarson seldi Tungu í Fljótum. Aftan við bréfið hafði Guðbrandur biskup Þorláksson skrifað athugasemd sem dagsett er 15. júlí 1608. Halldór skrifaði athugasemd við bréfið en þar segir m.a.:

Um Tungu í Fliótum eftier gömlu Blade og rifnu. með eiginhandar uppáskrift biskups Gudbranda. ä eg þad sialfr. og set þad her inn sem eg fæ lesid. til ad varnan þess undergangi. [...] Jtem sagde Narfe jorden Túnga ætte allan halfan Huarfsdal fyrir vestan fram ad Möagile. þadan og fram j giegn. og være þängat vanaligr lamba Regxtur vr Fliotum. ad Reykiarhóle fyrir austan fram. Enn ad Brecku fyrir vestan fram. Og veniuligr Lambatollur af öllum þeim Bæium er framar standa. lamb edur v alner af tug hvörium. Enn Tungumenn skylldu halda vpp adalRiett fyrir heimann Kleyfar. og äminna Bændur. ad bæta ad sijnum hiaRiettum. edur ábyrgiast alla mysdrætte vid eigendur. Jtem sagde Narffe. ad jorden Tunga ætte allan halfan Galltardal. fram vnder jokul. og land jtolulaust vt j Heliargil. fyrir vtan Þorgauss stade. vtan jordin Gautastader ætte þangat torfskurd arliga. tuenna xij fedminga ad torbvelle. Og jordin Þorgauss stader ætte sláttuteig vikuverck ä ytra Tungunes. garda áá millum. og Regstur j annad mal aa Tungudal. ä sumartijma fyrir malnytu.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1709 er getið um selför jarðarinnar Barðs á Lágheiði. Þar segir að jörðin hafi selför á Lágheiði, sem liggi fram frá Eystri-Fljótum, á stað sem heitir Blákápureitur. Ítakið hafi ekki verið brúkað í manna minni. Í sömu bók segir um jörðina Sléttu í Austur-Fljótum að hún, líkt og aðrar jarðir í Austur-Fljótum,  brúki afrétt þar sem heitir Hvarfsdalur er liggur fram frá Móafelli og Þrasastöðum fyrir lömb sín en ekki sé venja að annað fé sé rekið þangað. Ekki sé greiddur tollur vegna þessara lamba og hafi svo verið um langan aldur. Varðandi afrétt fjölda annarra jarða á svæðinu er síðan vitnað með orðalaginu „ut supra“ eða eins og að framan greinir. Jörðin Tunga í Stíflu og hjáleigur hennar nýttu þó ekki Stífluafrétt á þeim tíma sem Jarðabókin var rituð því að um hana segir að hún brúki ekki afrétt.

Í brauðalýsingu séra Guðmundar Sigurðssonar á Barði í Fljótum frá 1782 er greint frá afrétt á Lágheiði og með fylgir óársett lögfesta kirkjunnar. Í brauðalýsingunni kemur m.a. fram: „AfRettar Reite Tvo er sagt Prestakjalled Eige og Selstódur, annann ï Flökadal afRett enn Annann ä Läguheide, sem bæde eru og hafa vered halldner þess Eign þött þvj sieu til næsta þvj Eingra Nota Annara, enn Frij Gieldfïär og lamba JReksturs og faungu ä sumrum. [...]“ Þá kemur fram í lýsingunni að selstöður séu í Blákápureit á Lágheiði. Í Sýslu og sóknarlýsingum Eyjafjarðarsýslu segir að afrétt frambæjanna sé í almenningum á Lágheiði á Hreppendsárdal, Húngilsdal, Skeggjabrekku-, Ár- og Fossdal. Þetta séu allt heimalönd nema Lágheiði. Í Sýslu- og sóknarlýsingum Skagafjarðarsýslu er getið um selstöður í Stíflu og segir að engir bæir í Stíflu eigi þar selstöður sem á þessum tíma, 1840, séu brúkaðar en gamlar seljatóftir sjáist í afréttinni. Óvitað sé hvenær þær voru aflagðar. Í sömu sýslu- og sóknarlýsingu segir um afréttir í Barðsprestakalli: „Afréttarland (almenningur) er fram af Flókadalnum; þangað er rekið geldfé úr allri Barðssókn og það fé réttað í svonefndri Flókadalsafrétt fyrir sunnan Illugastaðakot. Flestir úr Holtssókn reka geldfé sitt á svonefnda Stífluafrétt, sem lýst verður með Knappstaðasókn; fáeinir líka á áðurnefndan Holtsdal, hvert fé er réttað í Holti: á Almenninga er rekið frá Hraunum og Hrúthúsum og það fé réttað á Hraunum.“ Af jarðamatinu frá 1849 má ráða að Þóroddsstaðahreppur að meðtöldum Ólafsfirði er talinn eiga almenning á Lágheiði en þangað sé rekið frá þeim jörðum sem ekki hafa upprekstrarland í sínu landi.        Landamerkjalýsing var útbúin á milli Ólafsfjarðar og Stífluafréttarlanda 6. september 1885 og hljóðar hún svo:  „Á Láheiði eru fjórar vörður, og ræður lína sú, er þær vísa, merkjum milli fjalls báðu megin. Ennfremur undirgengst hreppsnefnd Fljótahrepps, að láta ganga austur heiðina eins hér eptir og hingað til gjört hefir verið.“ Undir bréfið er ritað af hreppsnefnd Holtahrepps og þá virðist sem bréfið sé samþykkt með undirritun fjögurra manna fyrir hönd Ólafsfirðinga. Landamerki afréttarlandsins Lágheiði á milli Stíflu og Ólafsfjarðar voru þinglesin á manntalsþingi á Þóroddsstöðum 12. júlí 1886 án mótmæla. „Landamerkjaskrá fyrir Stýfluafrjettarlandi“ er dagsett 2. júní 1886 og þinglesin sama dag. Skráin er svohljóðandi: „Milli Stýflu og Ólafsfjarðar afrjettarlanda á Lágheiði eru settar 4 markvörður þvert yfir heiðina og ræður lína sú, sem þær vísa merkjum til fjallseggja báðu megin, einnig undirkastar hreppsnefnd Holtshrepps sig að láta framvegis ganga austur heiðina eins og þeir hafa gjört.“ Þetta var samþykkt af fimm hreppsnefndarmönnum Þóroddsstaðahrepps. Í sama skjali segir enn fremur: „Milli Stýfluafrjettarlands og heimalands á Þrasastöðum eru merki úr efsta Drykkjarhól beina stefnu uppí hall-klett, en Fljótaá ræður merkjum að neðan. Og ennfremur milli sömu afrjettar og Móafells eru merki eptir miðri Stóruskriðu ofaní Fljótaá, áin ræður merkjum að neðan en fjallseggjar að ofan.“ Þessi lýsing er samþykkt af eiganda Þrasastaða, umráðamanni Móafells svo og fjórum hreppsnefndarmönnum í Holtahreppi. Um Lágheiði er ekki fjallað í fasteignamati 1916-1918 en í lýsingu fyrir Hraun segir að jörðin eigi rétt til uppreksturs í Stífluafrétt og hið sama segir um Stóraholt. Um Helgustaði segir að jörðin eigi rétt til upprekstrar á „Holtsdal“. Um Þrasastaði segir í sömu heimild að smalamennska sé erfið því að landið liggi að Stífluafrétt. Varðandi Langhús segir að sú jörð eigi tiltölu til sérstaks upprekstrarlands á Brunnárdal sameiginlega við Barð. Þá segir að jörðin Dæli eigi tiltölu til uppreksturs á Brunnárdal.

Stjórnarráð Íslands sendi öllum sýslumönnum landsins bréf í lok árs 1919 vegna þingsályktunar um rétt ríkisins til vatnsorku í „almenningum“ og óskaði eftir skýrslu um svæði í þeirra sýslum sem teljist vera „almenningar“ og um „afréttarlönd“ sem ekki sannanlega hafi tilheyrt eða tilheyri nú nokkru lögbýli. Sýslumaðurinn í Eyjafjarðarsýslu svaraði bréfi þessu í september 1920. Í bréfi sýslumanns kemur fram að hann sendi með útdrátt úr landamerkjabók varðandi afréttarlönd milli Ólafsfjarðar og Stíflu í Skagafirði en þar var um að ræða landamerkjalýsingu Þóroddsstaðahrepps frá 6. september 1885 sem vikið var að hér að framan.

Við skýrslutökur fyrir óbyggðanefnd kom fram að Lágheiði og Stífluafrétt eru nú nýttar til sumarbeitar fyrir búfé.

Flókadalsafrétt og Hrolleifsdalsafrétt

Svæði þau sem nefndar afréttir taka til eru í tveimur hlutum á norðvestanverðum Tröllaskaga. Flókadalsafrétt liggur inn af samnefndum dal, í yfir 100 m hæð yfir sjávarmáli en Hrolleifsdalsafrétt vestan Flókadalsafréttar inn af dal sem afréttin dregur nafn sitt af og er hún einnig í yfir 100 m hæð yfir sjávarmáli. Hæstu fjöll umhverfis Flókadal, sem liggur í norðvestur-suðaustur, eru Vesturegg og Austuregg en við þau kallast dalurinn Seljárdalur. Tveir dalir liggja suður upp í fjalllendið upp af Seljárdal, Nyrðriárdalur sá vestari og Sigríðarstaðadalur sá austari. Gróið undirlendi er með Seljá en land rís hratt upp frá því og umlykja allbrött fjöll nefnda dali. Frá Hrafnskálarfjalli, sem liggur austur upp af Sigríðarstaðadal, eru um 16,5 km í beinni loftlínu að ósum Hrolleifsdalsár. Hrolleifsdalsafrétt rís hæst syðst í um 800 m hæð. Þrír megindalir liggja inn í fjalllendið. Barnadalur vestan til suðurs með leguna norður-suður. Austan hans er Lambárdalur með sömu legu. Norðvestan við Lambárdal er Almenningsskál sem liggur í suðaustur-norðvestur og upp af henni Reitsfjall 768 m að hæð. Úr nefndum dölum renna ár sem sameinast í botni Hrolleifsdals og nefnist sú á Hrolleifsdalsá.

Merkjum Hrolleifsdalsafréttar er lýst með óljósum hætti í landamerkjabréfi frá 29. ágúst 1889. Í nefndu bréfi kemur fram að jörðin Skálá eigi þar ítak, frían heyskap á svokölluðum Seta milli Stóra-Gils og Almennings Skálár. Einnig engjatak í Giljareit í Klónslandi. Þá hafi jörðin Þverá frían heyskap í afréttinni fyrir framan Sandárskriðu fram að Barnadalsá. Aðilar málsins miða mörk afréttarinnar til vestur og norðvesturs milli punkta 2 og 4 hjá stefnda, miðuð við merki jarðanna Klóns og Þverár sem liggja vestan og norðvestan afréttarinnar. Í landamerkjabréfi Kólns frá árinu 1886 eru merki til austurs miðuð við fjallsegg en bréfið er ekki áritað fyrir hönd afréttarinnar. Landamerkjabréf Þverár er frá sama ári og eru merki til austurs miðuð við að farið sé „frá Fossabrekku út að Brenniskurði í frá ánni milli fjalls og eggjar“. Þetta bréf er heldur ekki áritað vegna afréttarinnar. Til suðurs miða aðilar við fyrrum hreppamörk Fellshrepps og Hofshrepps en sunnan þeirra eru jarðirnar Hraun og Grundarland. Í landamerkjabréfi fyrir Hraun frá 1886 segir að til norðurs séu merki miðuð við „mitt fjall“. Bréf þetta er ekki áritað vegna afréttarinnar. Merkjum Grundarlands til norðurs er lýst í landamerkjabréfi frá sama ári þannig að miðað er við „mitt fjall“ og „Tungufjall“. Þetta bréf er ekki áritað af hálfu afréttarinnar. Merkjalýsingar eru því ekki nákvæmar nema að hluta til varðandi Hrolleifsdalsafrétt en þær fara ekki gegn afmörkun málsaðila á ágreiningssvæðinu og verður við þá afmörkun miðað.

Varðandi Flókadalsafrétt þá er ekki til heildstæð lýsing á merkjum afréttarinnar. Austan við ágreiningssvæðið vegna Hrolleifsdalsafréttar og vestan ágreiningssvæðis Flókadalsafréttar er land Illugastaða. Í landamerkjabréfi þeirrar jarðar frá 1890 er merkjum gagnvart afréttinni lýst þannig að þau miðast við að Nyrðrá skilji land jarðarinnar frá afréttarlandinu eða svonefndu Sjöundarstaðaselslandi. Síðan er farið frá upptökum Nyrðrár beina stefnu til eggjar. Bréfið er áritað vegna Flókadalsafréttar og er lýsing merkjanna í samræmi við afmörkun aðila á ágreiningssvæðunum varðandi þessar tvær afréttir. 

Norðan Flókadalsafréttar eru Krakavellir. Í landamerkjabréfi Krakavalla frá 1888 er merkjum m.a. lýst þannig: Að framan eða við afréttina í Grænhól og úr honum beina línu niður til ár og til fjallsbrúnar, að utan í gamla garð, sem liggur frá ánni til fjallsbrúnar. Bréfið er áritað af hálfu hreppsins og er þessi lýsing í samræmi við afmörkun aðila á þrætusvæðinu. Norðaustan við afréttina liggja jarðirnar Skeið og Stóra- og Minni-Þverá. Í landamerkjabréfi fyrir Skeið frá 1887 eru merki til suðurs miðuð við „fjallseggjar“. Bréfið er ekki áritað vegna afréttarinnar. Merki Stóru- og Minni-Þverár eru miðuð við Skeiðsdalsbotn í landamerkjabréfi frá 1887. Þessar lýsingar eru í samræmi við afmörkun aðila á ágreiningssvæðinu.

Austan Flókadalsafréttar er jörðin Tunga. Í landamerkjabréfi þeirrar jarðar frá 1887 segir að henni fylgi allt óskipt land tiltölulega eftir hundraðatali. Ekki verður séð að merkjum Tungu sé lýst að því er ágreiningssvæðið varðar en miðað er við að heimildir bendi til þess að land jarðarinnar hafi náð yfir Tungudal og því hefur stefndi dregið kröfulínu sína á fjallsbrún vestan dalsins. Nefnt landamerkjabréf er ekki áritað af hálfu afréttarinnar. Miða verður við að ágreiningssvæðið sé réttilega afmarkað til austurs.

Suðaustan og sunnan Flókadalsafréttar er ágreiningssvæði er varðar Unadalsafrétt svo og jarðirnar Bjarnastaðir og Spáná. Í landamerkjabréfi Deildardals- og Unadalsafréttar frá 1890 er sagt að afréttarlandið byrji við Grjótá að neðanverðu þar sem Sprænárland tekur við að utan og sagt að það nái alla leið til sýsluskipta á jökul fram. Þetta bréf er ekki áritað vegna Flókadalsafréttar en samræmist vel afmörkun á afréttinni. Í landamerkjabréfi Bjarnastaða frá 1886 eru merki til norðurs miðuð við „mitt fjall“. Sama kemur fram í landamerkjabréfi Spánár frá sama ári en það er ekki áritað vegna Flókadalsafréttar en samrýmist afmörkun afréttarinnar. Samkvæmt því sem að framan er rakið samrýmist afmörkun þrætusvæðisins varðandi Flókadalsafrétt lýsingum aðliggjandi landsvæða og verður miðað við afmörkun þess eins og hún kemur fram í kröfum aðila.

Flókadalsafrétt

Um landnám í Flókadal segir í Landnámu: „Flóki son Vilgerðar Hroða-Káradóttur fór til Íslands ok nam Flókadal milli Flókadalsár og Reykjarhóls; hann bjó á Mói.“ Þá segir einnig í Landnámu: „Nafar-Helgi nam land fyrir austan upp frá Haganesi til Flókadalsár fyrir neðan barð ok upp til Tunguár ok bjó á Grindli.“ Varðandi landnám í Horlleifsdal segir Landnáma: „Hlolleifr einn mikli og Ljót móðir hans kómu út í Borgarfjörð; þau foru norðr um sveitir ok fengu hvergi ráðstafa, áðr þau kómu í Skagafjorð til Sæmundar. Hrolleifr var son Arnalds, bróður Sæmundar; því vísaði hann þeim norðr á Hofðastrond til Þórðar, en hann fékk honum land í Hrolleifsdal; bjó hann þar.“

Í júní 1483 kom tólf presta dómur saman á Hólum til að dæma í máli er Hrafn Halldórsson hafði höfðað í umboði séra Sigurðar Þorlákssonar, officials Hólakirkju, en fyrir lá kæra á hendur Böðvari Finnssyni fyrir að hafa selt Blákápusel á Lágheiði en það var selland Barðskirkju. Böðvar lagði fram sér til varnar bréf með þremur innsiglum þar sem fram kom m.a.: „[...] steubavekker ig jrajavekker voro selldar itavlavlavsar með avllum dal firir avstan framan [Seljárdal] sem fyr greint sel stod j.“ Í jarðakaupum milli Jóns biskups Arasonar og Brynjólfs Jónssonar frá 1540 fékk Jón tvær jarðir í Svarfaðardal en Brynjólfur Ystamó og Syðstamó í Fljótum í staðinn. Í bréfi vegna þessara viðskipta segir: „[...] ad til skilldre selfór fram aa flokadalnum j illugastada land þar sem at fornu hefer werit.“ Kaupbréf vegna þessara viðskipta er ekki til í frumriti en uppskrift þess, gerð fyrir Árna Magnússon handritasafnara eftir frumriti, hefur varðveist. Árni ritar athugasemd við afskriftina, að „floka“ hafi verið bætt við ofan línu en þó með gamalli hendi og sama bleki. Hins vegar sé „j illugastada land“ skrifað með ungri hendi og öðru bleki út á spássíu. Illugastaðir í Flókadal voru, samkvæmt skrá um eignir Hólakirkju frá 1550, í eigu Hólastóls.

Í máldaga Barðs frá því eftir 1590 kemur fram að selför sé höfð fram á dal og í vísitasíu kirkjunnar frá 1667 er sagt að selstaða sé í Flókadalsafrétt. Í vísitasíu sömu kirkju frá 1686 segir að kirkjan eigi selstöðu í Flókadalsafrétt „[...] J frä Hellugile ad nordann og framm i kverkhola ä Sem almennelega kallast Bardsetur, og þetta effter tildógn Prestsins Sr Sveins Jönssonar ä [...] Jtem Enn þa Selstódu i Klaufa brecknadal Sem heitir bläkäpu reitur og þetta effter gamallra manna Vitnisburdum [...]“ Um selför segir í vísitasíu Barðskrikju frá 17. maí 1693: „Selfór er þar hófd framm ädal einn ei Stendur hun í Mäldaga bökum, og exki fyrer Bard [...]“

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir um afréttarnot jarðarinnar Reykjarhóls að hún brúki afrétt fyrir lömb í Flókadalsafrétt sem kallast Seljárdalur átölulaust og tollfrítt. Heyrst hafi frá eldri mönnum að jörðin hafi átt lambaupprekstur endurgjaldslausan í almenninga milli Úlfdala og Fljóta og þá hafi verið upprekstur af fleiri bæjum í þessari sveit í þann sama almenning. Í sömu bók er þess getið að allar jarðir í Vestur-Fljótum, 25 talsins, hafi átt sömu réttindi og getið er um varðandi Reykjarhól.

Í nefndri Jarðabók kemur fram að nokkrar jarðir í Fljótahreppi eigi selstöðu í Flókadal. Þess er getið að jarðirnar Sjöundastaðir og Steinhóll eigi selstöðu sem sé hálfur Nyrðriárdalur austan fram og hálfur Sigríðarstaðadalur vestan fram. Þessi selstaða hafi verið brúkuð langvarnandi og átölulaust, þó ekki síðustu ár. Ystimór er sagður eiga selstöðu með tilliggjandi landi allan Nyrðriárdal vestan fram sem hún hefur haft og haldið átölulaust um langan aldur. Um selstöðu Reykja á Flókadalsafrétt segir að hún eigi selstöðu sem heitir Reykjareitur sem brúkaður hafi verið áður en nú ekki í nokkur ár. Barð er í sömu heimild sagt hafa brúkað fría selför í Barðshlíð í Flókadalsafrétt átölulaust þó að hún hafi ekki verið notuð í nokkur ár. Einnig er minnst á selstöðu kirkjunnar í vísitasíu Barðs frá 6. maí 1714. Þar segir að kirkjan eigi selstöðu í Flókadalsafrétt sem kallast Barðsreitur. Í Sýslu- og sóknarlýsingum Skagafjarðarsýslu frá 1841 er selstöðu Barðs lýst með sama hætti, þ.e. að Barð eigi selstöðu í Flókadalsafrétt í svonefndri Barðshlíð en hún hafi ekki verið brúkuð í manna minnum. Í vísitasíu Barðs frá 1781 segir að kirkjan eigi selstöðu og reit í Flókadalsafrétt og Blákápureit á Lágheiði. Í brauðalýsingu séra Guðmundar Sigurðssonar á Barði frá 1782 er greint frá reit í Flókadalsafrétt þar sem jörðin eigi selstöðu og einnig frá öðrum reit á Lágheiði. Selstöður þessar séu ekki nýttar sökum þess hve seint gróður verður þar góður og hve langt þær eru frá jörðinni. Í vísitasíu Barðskirkju frá 1826 segir um selstöður: „Sömuleidis á kirkian selstödu í Flókadals Afrétt, i frá Hellugili ad nordan og framm í Qerkhólaá, sem almennil: kallast Bardsreitur [...] Selstodu i Klaufabresknadal, þar sem heitir Blákápureitur [...]“ Í sýslu- og sóknarlýsingum Barðsprestakalls frá 1841 segir að afréttarland (almenningur) sé fram af Flókadalnum og að þangað sé rekið geldfé úr allri Barðssókn. Í jarðamatinu frá 1849 kemur fram varðandi Barð með hjáleigum að jörðin eigi selstöðu í Flókadalsafrétt og aðra á Lágheiði en þær séu ekki notaðar sökum þess hve fjarlægar þær eru.

Hinn 14. febrúar 1920 svaraði sýsluskrifstofan á Sauðárkóki bréfi Stjórnarráðs Íslands og í svarinu kemur fram að samkvæmt upplýsingum sem bréfritari hafði aflað sér séu ekki aðrir almenningar eða afréttarlönd í sýslunni en hin svonefndu Nýjabæjaröræfi, austan undir Hofsjökli. Í svari sýslumannsins í Skagafjarðarsýslu frá 29. nóvember 1985, við fyrirspurn dómsmálaráðuneytisins um afréttarskrá sýslunnar, fylgdi skrá yfir afrétti, eignarheimildir og landamerki í sýslunni. Í þeirri skrá kemur fram að Flókadalsafrétt sé eign Haganeshrepps. Inn úr Flókadal liggi Seljárdalur, Sigríðastaðadalur og Nyrðriárdalur vestast og saman myndi þeir Flókadalsafrétt. Allir bæir í Haganeshreppi eig rétt til upprekstrar á afréttina og að auki eigi Barðstorfan upprekstur á Brunnárdal. Þá kemur fram að laust eftir 1950 hafi landspildur úr tveimur jörðum verið lagðar við Flókadalsafrétt. Við skýrslutökur hjá óbyggðanefnd kom fram að Flókadalsafréttur er nú nýttur til sumarbeitar fyrir búfé af jörðum í Vestur-Fljótum.

Hrolleifsdalsafrétt

Í bréfabók Guðbrands biskups Þorlákssonar er að finna opið bréf frá 1. maí 1587 þar sem fram kemur að Pétur Þorsteinsson seldi Guðbrandi biskupi Bjarnagil í Fljótum og Stafshól á Höfðaströnd. Á mót gaf Guðbrandur biskup Pétri og sonum hans jarðirnar Hraun í Sléttuhlíð og Skálá. Fram kemur að Skálá eigi afrétt í Hrolleifsdal en í því segir m.a. svo: „Hraun j Sliettahlijd og Skaaláá með ollum þeim gognum og giædum sem greindar jardir ega með rettu og eptir þui sem gomul Bref hlioda. sem er al Skaaláá áá Reka fráá forna ose. og til Raufarbergs. og í odrum stad. fráá Skarfasteine til Hladbergs. fiordung j huoru tueggia stad. dæde huals og vidar. og allt þad sem rekamadur áá ad hafa ad logum. Afrett j Hrolleifsdal ollum gielldfienande.“ Frá því er greint í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns að allar jarðir í Sléttuhlíðarhreppi (Fellshreppi) eigi beitarafrétt á Hrolleifsdal fyrir lömb og hafi lengi átt án endurgjalds. Í bókinni kemur fram að landið tilheyri Hólastóli sem samkvæmt jarðabókinni átti allar jarðir í hreppnum nema Fell, Skálá og helminginn af Hrauni. Þá er frá því greint að munnmæli séu um að jörðin eigi selstöðu á Skálárdal norðan fram og sjáist til seltóftaleifa. Ekki sé vitað hvort selstaða þessi hafi verið brúkuð fyrir skyldu eða toll. Um selstöðu Tjarnarkosts segir í jarðabókinni „Landþröng er mikil, og þarf ábúandi að þiggja hagabeit af nágrönnum sínum mót óákveðinni greiðasemi, og fyrir þann skuld hefur selstaða verið áður tilfengin á Hrolleifsdal í stólsins landi, og galst hjer þó ekkert fyrir. Þó meina menn að þetta sje ekki skylduselstaða en vita það þó ekki.“

Í Sýslu og sóknarlýsingu Fells- og Höfðasókna frá 1868 segir að grastekja sé nokkur á Hrolleifsdalsafrétt en því bætt við að hún gangi til þurrðar. Í sömu heimild segir um afrétti: „Afréttarland Höfðasóknarmanna er inni í Unadalsafrétt, og hafa Hofshreppsmenn þar upprekstur; en þar er almenningur. Fellssóknarmenn hafa afrétt fyrir botni Hrolleifsdals; en þar er almenningur, og reka eigi aðrir þangað. Rétt er við þverá [í Hrolleifsdal], er kemur af Þverárdal, [...] Auk Fellshreppsbúa sækja þangað til rétta Höfðstrendingar og Flókdælir.“

Landamerkjabréf Hrolleifsdalsafréttar var útbúið 29. ágúst 1889 og því þinglýst 5. júní 1890. Undir bréfið rita J. Snorrason, Bjarni Hallsson, Guðm. Jónsson og Símon Ólafsson. Hinn 29. ágúst 1889 vottar Halldór Daníelsson, notarius publicus í Reykjavík, að lýsingin sé rétt rituð eftir sér sýndu skjali í skjalasafni Skagafjarðarsýslu. Landamerkjabréfið er svohljóðandi: „Anno 1761 dag 6. maí var sýslumaðurinn í Skagafjarðarsýslu Jón Snorrason til staðar að Skála í Sljettuhlíð ásamt tilkvöddum mönnum og álíta jarðarinnar land til lands og vatns með hennar Herlighetum reka og afrjett sem seld var undan jörðinni, en hún á þar frían upprekstur ásamt öðrum jörðum í Sljettuhlíð út að Syðstahóli og Kambsstöðum að þeim bæjum meðtöldum, en aðrar jarðir í Sljettuhlíð og Fellssókn eiga frían upprekstur í Stafárdal í Heiðarland austan Stafár. Reka á jörðin Skála sem hjer greinir: [...] Item á jörðin Skála heyskap þann frían sem hafa má í svokölluðum Seta milli Stóra-Gils og Almennings Skálár. Ennfremur engjatak í Giljareit í Klónslandi. Jörðin Þverá hefir frí heyskap í Hrolleifsdalsafrjett fyrir framan kallaða Sandárskriðu fram að Barnadalsá.“

Í skrá yfir afrétti, eignarheimildir og landamerki, sem sýslumaðurinn í Skagafjarðarsýslu sendi 29. nóvember 1985 til nefndar er vann að lagafrumvarpi um eignarétt að almenningum og afréttum, segir að Hrolleifsdalsafrétt sé eign Fellshrepps. Hún standi saman af tveimur dölum, Barnadal að vestan, þar næst sé Lambadalur og Almenningsnöf norðast. Að austan séu merki í Setagil, en í Grjótavelli að vestan. Þá kemur fram að hálf jörðin Þverá að vestan í dalnum og hálf jörðin Klón að austan í dalnum hafi verið lagðar undir afréttina. Síðan einnig Geirmundarhólar og Kráksstaðir. Að austan séu afréttarmörk nú við Arnarstaðalandamerki en að vestan við Bræðrárlandamerki. Þá kemur fram að allar jarðir í Fellshreppi eigi upprekstur í Hrolleifsdalsafrétt nema Ysthóll, Heldur, Mýrar, Fjall og Heiði en þær eigi upprekstur í Hvítárbrúnir á austanverðum Stafárdal. Í bréfi Stefáns Gestssonar, oddvita Fellshrepps, frá 20. febrúar 1989 kemur fram að íbúar hreppsins eigi upprekstrarrétt í Hrolleifsdalsafrétt. Mörk afréttarinnar séu Hrolleifsdalur framan Arnarstaða og Bræðrár. Önnu sveitarfélög og íbúar þeirra eigi ekki aðgang að afréttinni. Fram kom við skýrslutökur fyrir óbyggðanefnd að Hrolleifsdalsafréttur sé nú nýttur til sumarbeitar fyrir búfé af jörðum í Sléttuhlíð og Hrolleifsdal.

Unadals- og Deildardalsafréttir

Landsvæði þetta liggur á vestanverðum Tröllaskaga í yfir 100 m hæð yfir sjávarmáli. Þrír dalir skerast inn í svæðið. Unadalur nyrstur en hann liggur í austur-vestur. Markast hann af Grjótárdalshyrnu (824) að norðan og fjallgarði austur frá henni en að sunnan afmarkast dalurinn af fjallbálki austur af Ennishnjúk. Sunnan Unadals er Seljadalur (Austurdalur) með sömu legu. Tungufjall afmarkar hann til suðurs. Sunnan Seljadals er Vesturdalur sem afmarkast að sunnan af Hnjúkum. (Kolbeinsstaðahnjúkar sem getið er í úrskurði óbyggðanefndar eru ekki til.) Ár renna í dölunum þremur og þar er undirlendi gróið. Land rís skarpt upp af dölunum í yfir 1000 m hæð. Austast á svæðinu eru Unadals- og Deildardalsjöklar.

Unadalsafrétt

Höfða-Þórður Bjarnason nam land á Höfðaströnd frá og með Hofsá út að Hrolleifsdalsá og bjó á Höfða. Um hann segir í Landnámu: „Þórðr hét maðr ágætr var son Bjarna byrðusmjörs, Hróaldssonar hryggs, Bjarnasonar járnsíðu, Ragnarssonar loðbrókar. Þórðr fór til Íslands og nam Höfðastrond í Skagafirði milli Unadalsár og Hrolleifsdalsár ok bjó at Hofða.“ Í Landnámu er greint frá landnámsmanninum Sleitu-Birni og segir um landnám hans: „Gróa hét dóttir Herfinns ok Hollu; hana átti Hróarr, þeira son Sleitu-Bjorn, er land nam fyrst á milli Grjótár ok Deildarár, [...] hann bjó á Sleitu-Bjarnarstoðum.“ Á milli landnámssvæða Sleitu-Bjarnar og Höfða-Þórðar er eyða sem tekur yfir hálfan Unadal (suðurhlutann) og hálfan Deildardal (norðurhlutann). Ólafur Lárusson leiddi að því líkur 1940 að á þessu svæði hafi verið sérstakt landnám sem gleymst hafi í upptalningu Landnámu. Getið er um Una nokkurn í Unadal á öðrum stað og í öðru samhengi í Landnámu. Ólafur Lárusson segir að um sé að ræða töluvert landsvæði og þar muni vera (1940) 12 jarða lönd.

Í óársettri lögfestu, líklega frá því um 1590, lögfesta Guðbrandur Þorláksson biskup og líkast til Erlendur Guðmundsson, prestur á Hofi fyrir 1598 en síðar Felli, Unadalsafrétt: „Somuleidiz med þui ad biorn magnusson eignar Jordu sinne Hofe þa afrett sem Hola domkirkiu Jordum til hey rer / a vnadal /: z hefur giort sier þar sel sem lóg banna/: hefur rekstra / bæde vtfra sier z yfer fra / j Holastadar Jord z land / an alls leyfis / af mier til / þar fyrer lógfesti eg j sa-ma vumbodi afurnefndz N/: vegna kirkiunn-ar a Holum / z hennar Jarda allt land a vna-dal / so sem votn draga til / badum meigen ár / fyrer framan almennings hola z fyrerbyd eg óllum mónnum / ad frateknum Holastadar Landset-um /: ad nytia sier þad land [...]“

Í úrskurði óbyggðanefndar eru raktir vitnisburðir fjögurra manna frá 1613 og 1614 en einn er án ártals. Vitnin báru öll að þau hefðu ekki heyrt Pál Grímsson eigna sér, vegna Hofs á Höfðaströnd, Unadalsafrétt hvorki heila né hálfa. Í framburði „Biarne stulla son„ segir að auki m.a.: „[...] og alldrei hef eg heijrt af elldre monnumm / ad hof ætte nockurnn part i þeirre afriett / nema rextar suo sem adrar Jarder / hafde pall heitinn haft j sele ä suina vollum z grundrlande sup z þä Þorbergur heijtinn Bessason hiellt hof fieck hann ad lana Spänä af þeim ä holvum z hafre þar j sela alla tijma [...]“ Í vitnisburðum Jóns Þórðarsonar og Hrólfs Guðvarðssonar kemur fram að þeir hafi ekki vitað til þess að Páll Grímsson hafi eignað sér eða heimtað lambstolla þegar menn ráku í Unadalsafrétt.

Í úttekt Hólastóls frá 10. júlí 1657 um Unadalsafrétt segir: „[...] medtok Herra Gijsle Thorlakzson Valld og Vmsiön Hoola Böm kÿrkiu, og allra hennar eygna J fóstu og lausu. Var honum suofelldur Reykningskapur gíórdur áá frijudum peningum og ofrijdum kÿrkiunnar, Daudum og kuikum, Sem hier Seiger. [...] Jetem Sagt til nauta Stadarenz a Vnudalz afriett, tuævetur og elldre ad tolu 51.“ Í úttek Hólastóls frá 2. ágúst 1628, þegar Þorlákur Skúlason tekur við umsjón eigna stólsins, kemur fram: „Suo mikid afhent i frijdum penijngum Heima ä Hölum Naut sem voru ä Unudals afriett tuæ Vetur og Elldrj ad tólu Lxxi, á Bæum- xxij- J Vmmbodj Sr Gysla ix – J külu Vmmbodum – iv Naut, Brande J Vydernesi feingid Biskupsenz GVegna, af Kolbeinzdalz afriett afhent ij – Summa þessara nauta tuæ Vetre og Elldrj – Llix Jetm Vetur gomul Naut“ Í lögfestu Hofs á Höfðaströnd frá 1696 segir um Unadal: „land framm á Unadal fyrer sunnan Höfsaa allt ä jökul framm ofani gardenn sem geyngur fyrer nedan almennyngsxhoola j huiorum ad standa seltöpter frä Hofe.“ Í lögfestunni kemur fram að hún hafi verið lesin af Vigfúsi Gíslasyni á manntalsþingi að Hofi á Höfðaströnd 13. maí 1696.

Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vísalíns áttu flestar ef ekki allar jarðir í Unadal og á Höfðaströnd frá Enni að Höfða afrétt í Unadal. í Sýslu- og sóknarlýsingum Skagafjarðarsýslu frá 1868 segir að afréttarland Höfðasóknarmanna sé inni í Unadalsafrétt og þar hafi Hofshreppsmenn upprekstur, en þar sé almenningur. Hinn 19. maí 1882 las Gunnar Björnsson, eigandi Hofs á Höfðaströnd, lögfestu fyrir eignarjörð sinni, dagsett 24. apríl 1666. Í lögfestunni segir að Hof eigi land á Unadal „fyrir sunnan Hofsá“. Í marsmánuði 1923 seldi Jón Jónsson, eigandi Hofs og Þönglaskála í Hofshreppi, réttindi í Unadal með vísan í lögfestu Hofs sem áður er getið frá 13. maí 1696. Í kaupsamningnum segir: „Ég Jón Jónsson eigandi jarðanna Hofs og Þönglaskála í Hofshreppi í Skagafirði [...] sel hérmeð „Upprekstrarfélagi Unadalsafréttar“ þann rétt sem ég eða ofanskráðar jarðir Hof og Þönglaskáli kunna að eiga til svonefndra Hofs og Þönglaskálasellanda í Unadal, með þeim landtakmörkum, sem lögfesta eða máldagi Hofs frá 13. maí 1696, og önnur landamerkjabréf téðra jarða kunna að tilgreina.“ Í skrá yfir afrétti, eignarheimildir og landamerki sem sýslumaðurinn í Skagafjarðarsýslu sendi nefnd er vann að lagafrumvarpi um eignarrétt að almenningum og afréttum hinn 29. nóvember 1985 segir um Unadalsafrétt:

Unadalsafrétt er eign Hofshrepps. En hluti afréttarinnar er ekki stór, aðeins botninn á dalnum, að Hrafnabjörgum að vestanverðu og að austan að Spræná. Inní þennan fremsta hluta fréttarinnar, vestan ár voru þrjú sellönd: Yzt er Þönglaskálaselland, þá Ennisselland og Hofsselland. Í gömlu afréttinni framan við Sprænánna eru munnmæli um fjögur býli. Yzt Grjótá, Miðhólar, Klifhólar og Selhólar. Eftirtaldar eyðijarðir hafa verið keyptar og land þeirra lagst við afréttarland Unadalsafréttar: [...] Ennissellandi í Unadal til Upprekstrarfélag Unadalsafréttar [...]Upprekstrarfélag Unadalsafréttar kaupir Spræná [...] Afsal landbúnaðarráðherra til Hofshrepps fyrir jörðinni Bjarnastöðum í Unadal [...] fyrir jörðinni Bjarnastaðagerði í Unadal [...] til Hofssels fyrir jörðinni Grundarlandi [...] Hofshreppur keypti jörðina Hraun í Unadal [...] Jörðin Hrun hefur ekki verið lögð við Unadalsafrétt og núverandi afréttarmörk austan ár eru á landamerkjum Hrauns og Grundarlands. Sneið af landi Svínavallakots hefur verið keypt undir Unadalafrétt og er girðing þar á merkjum vestan ár. Réttur til afréttarinnar fylgir öllum jörðum í utanverðum Hofshreppi að Enni og sú meðtalin. Búfjáreigendur í Hofsósi eiga upprekstur í Unadalsafrétt, en ekki í lönd þeirra jarða, sem Hofshreppur hefur keypt eftir 1968, en rétt til beitar í löndum jarða hreppsins eiga allir bændur í Hofshreppi, samkvæmt ákvörðun hreppsnefndar. [...] Viðauki Eins og að framan er greint var Ennisselland keypt og lagt við Unadalsafrétt. Heimamenn í Hofshreppi halda því fram að Jón Jónsson oddviti á Hofi hafi selt Hofsselland, Upprekstrarfélagi Unadalsafréttar eða Hofshreppi. Að þessu hafa ekki fundist öruggar heimildir um þá sölu. [...] Í Unadal er Þönglaskálaselland og er það heldur ekki fulljóst, hvort það fylgir nú Unadalsafrétt. [...] í landamerkjabók Skag. er landamerkjabréf fyrir Þönglaskála [...]. Þar er skrifað: „Ennfremur á Þönglaskáli selland á Unadal og byrjar það fyrir framan Bjarnastaðagerðisland og takmarkast að framan af Ennissellandi.

Við skýrslutökur fyrir óbyggðanefnd kom fram að Unadalsafréttur sé nú nýttur til sumarbeitar fyrir búfé af jörðum á Unadal og Höfðaströnd.

Deildardalsafrétt

Halldór Arngeirsson keypti hálfa jörðina Marbæli af Þuríði Jónsdóttur með bréfi gerðu 8. maí 1393. Þuríður hafði fengið jörðina í helmingakaup eftir bónda sinn auk þess sem hún hafði leyst til sín sex hundruð í jörðinni sem dætur hennar þrjár höfðu erft. Í kaupbréfi um jörðina segir m.a svo: „Reikandi hun jord eiga gelldfriar Rekstr ollum gelldfenadi j deilldar dals afrétt oc sel lannd fiorþunginn i seliadal. skildi halldor sér alla vidu þa ær jordin atti oc hun vard eigandi at. Eeikandi hun iardar mork ofan ór fialli oc allt ofan j aa bædi firir vtan oc sunnan.“ Þessi sami Halldór keypti fjórðung í Seljadal árið 1395.

Guðríður Finnbogadóttir og Finnbogi Einarsson áttu með sér jarðakaup 10. ágúst 1496. Keypti Finnbogi af Guðríði Fjósatungu í Fnjóskadal með skógarparti í Þórðarstaðajörðu en fékk m.a. í staðinn jörðina Grindur í Hofskirkjusókn en henni fylgdi skógarpartur í Nýlendisjörð; „ [...] ok selfavr aa deilldardal.“

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns kemur fram að fjöldi jarða í Óslandshlíð hafi átt rétt til upprekstrar á Deildardalsafrétt en afrétturinn kallaður „Afréttardalur“ eða „Afréttur“ og eru þar nafngreindar átta jarðir. Þá segir í sömu heimild að tvær jarðir á Höfðaströnd hafi átt rétt til uppreksturs á Deildardalsafrétt. Í landamerkjabréfum Skuggabjarga og Háleggsstaða frá árinu 1886 kemur fram að Tungufjall tilheyri báðum þessum jörðum en Tungufjall skiptir Deildardal í tvennt, annars vegar Seljadal og hins vegar í Vesturdal.

Landamerkjabréf Deildardals- og Unadalsafrétta var útbúið 3. júní 1890 og þinglesið degi síðar. Það er svohljóðandi: „Almenningur Deildardals er frá forntíð álitinn að byrja vestanverðu í svokölluðu Tungufjalli fyrir framan Grynda selllands merki og kallast Stígar. Merkin að norðan eru í garðlag vestan í fjallinu í beinni stefnu frá afrjettar á svo kallaðri til fjallbrúnar sunnan vert við svo nefnda Smjörskál. Að vestanræður afrjettará, að sunnan eru merkin í dalbotinum syðst, og þaðan eptirbrúninni beinni stefnu yfir Tungufjall til botnsins á Seljárdal, þaðan til norðurs austan í Tungufjalli til Grynda sellandsmerkja. Að austan á Seljárdal eru merkin að norðan hin sömu og merki jarðarinnar Marbælis. Að öðru leyti eins og sýslutakmörk ráða.

Merki Unadalsafrjettar eru þessi: Austan við Hofsá byrjar afrjettarlandið við Grjótá að neðanverðu þar sem Sprænárland tekur við að utan og nær alla leið til sýsluskipta á jökul fram. Að vestan verðu byrjar almenningsland við Klifhól, þar sem Hofsselsland endar og nær yfir allan Suðrárdal á jökul fram til sýslutakmarka.“

Í svari sýslumannsins í Skagafjarðarsýslu um eignarrétt að almenningum og afréttum, sem áður er vikið að frá 29. nóvember 1985, segir um Deildardalsafrétt:

Deildardalsafrétt er eign Hofshrepps. Afréttin er tveir dalir. Austari dalurinn heitir Seljárdalur. Vestan við hann ár Tungufell og vestar Stígar. Vestast Selland.

Afréttarmörk eru nú eins og girðingar hafa verið lagðar. Að austan er girðingin nálægt eyðibýlinu Stafni eða nánar tiltekið, nálægt bæjarrústum þess og að vestan bein lína á móti.

Þegar núverandi afréttargirðing var sett upp, voru höfð skipti á hluta af landi Stafns og hluta af Miðhúsasellandi.

Eftirtalin sellönd eru innan afréttarlandsins.

Að austari dalnum eru yzt: Óslandsselland, næst Marbælisselland og er til vill Þúfnaselland.

Í Tungufelli er Grindaselland og vestan ár sunnan Bjarkár er Grafarselland, en norðan Bjarkár er Miðhúsaselland. Óvíst er um eignarrétt á nefndum sellöndum, hvort þau fylgja jörðunum, eða eru eign Hofshrepps.

Upprekstur á afréttina eiga Óslandshlíð, Deildardalur, Gröf og Grafargerði.

Í svarbréfi Þóru Kristjánsdóttur, oddvita Hofshrepps, í nóvember 1989 við fyrirspurn félagsmálaráðuneytisins um upprekstrarrétt sveitarfélaga kemur fram að íbúar sveitarfélagsins eigi afrétt, Deildardalsafrétt fyrir innhluta sveitarfélagsins og Unadalsafrétt fyrir ytri hlutann. Í svarbréfinu lýsir oddvitinn legu afréttanna og greinir einnig frá legu afréttargirðinga. Einnig tekur hún fram að framan við afréttargirðingu í Unadal séu eyðijarðirnar Grundarland, Bjarnastaðir og Bjarnastaðagerði og hluti úr Svínavallakoti. Þessar jarðir séu í einkaeigu Hofshrepps.

Við skýrslutökur fyrir óbyggðanefnd kom fram að Deildardalsafrétt sé nú nýtt til sumarbeitar fyrir búfé af jörðum í Deildardal og í Óslandshlíð.

Í títtnefndri Jarðabók kemur fram að jörðin Hof á Höfðaströnd átti selstöðu á Unadal sem hún notaði árlega en grastekjuvon var á sama tíma sögð lítil. Í bókinni er sagt frá því að jörðin Enni hafi átt selstöðu á Unadal „þar sem heitir Ennisreitur.“ Merkjum Hofssels er ekki lýst í landamerkjabréfi Hofs sem dagsett er 22. maí 1920 né í landamerkjabréfi Hofs, Ennis og Ártúns frá 19. júní 1923. Í landamerkjabréfi Ennis frá 29. maí 1890 segir um Ennisselsland: „Ennfremur á Enni Selland að vestanverðu í Unadal frá garði sem er utan við Selhóla, eður sem öðru nafni kallast Almennings hólar, sem nær ofan að Strangalæk hvar Þönglaskála selland tekur við.“ Í Jarðabókinni  segir að jörðin Ljótsstaðir hafi tilkeypt selstöðu (í Unadal) árlega.

Í Sýslu- og sóknarlýsingum Skagafjarðarsýslu frá 1839 segir um selstöðu á Unadal: „Sel. Allar Óslandshlíðarjarðir, Gröf, Enni og Hof [eiga selstöður], þær síðustu tvær í Unadalnum, hinar í Deildardal. Öngvar eru nú notaðar, nema frá Gröf mánaðartíma sumar hvert. Hafa þær aflagzt vegna vegalengdar, margs þar að lútandi örðugleika, og hefur þar til aldrei svarað kostnaði. Menn rífa þar til kola og reka þangað gelfé og ótamin hross, og upprekstrarlandið er ekki annað en sellöndin sjálf. Grindur og Nýlendi eiga ser selstöðu, og eitthvað lítið var hún notuð í þeirra tíð, sem nú lifa, en fljótt hætt aftur. Ef menn hefðu hér nytpening í seljum, þyrfti vegna landleysis að hafa stóð og gelfé heima, og hvað er þá unnið?“

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns kemur fram að Gröf á Höfðaströnd hafi átt selstöðu fram við Deildardalsafrétt. Heimaland Grafar og selland hennar var lögfest 1831. Í jarðamatinu 1849 kemur fram að Gröf eigi selland í Deildardal og að hjáleigan, Grafarhjáleiga, nái ekki inn til sellandsins. Í landamerkjabréfi Grafar, dagsettu 22. maí 1886, segir að selland fylgi jörðinni og það liggi fram á Deildardal vestanverðum, vestan til við Deildardalsafrétt. Þá kemur fram að Gröf hafi átt selför í Deildardalafrétt árið 1918.

Miðhús áttu selstöðu í Deildardal eftir því sem segir í Jarðabókinni og jarðamatinu 1849, landamerkjabréfi fyrir Miðhúsum 1886 og í fasteignamatinu 1916-1918. Í landamerkjabréfi Miðhúsa frá 14. maí 1886 er greint frá því að selland á vestanverðum Deildardal fylgi jörðinni og er merkjum þess lýst.

Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns greinir frá því að Ósland hafi átt selstöðu á Seljadal. Í jarðamati 1849 er greint frá því að Ósland eigi selstöðu í Deildardal og þá er í landamerkjabréfi jarðarinnar frá 1886 tekið fram að jörðinni fylgi selland og það sagt liggja næst landi jarðarinnar Stafns í Deildardal, neðst á svokölluðum Seljadal. Í fasteignamatinu 1916-1918 segir að Ósland eigi selför í Deildardalsafrétt.

Fram kemur í Jarðabókinni að jörðin Marbæli eigi selstöðu á Seljárdal. Í jarðamatinu 1849 greinir að Marbæli eigi tiltölu til sellands í Deildardal. Landamerkjabréf jarðarinnar frá 1886 greinir að selland fylgi jörðinni og að það liggi á austanverðum Seljadal frá Glúmsgilslæk að neðan og fram að Strangalæk.

Í jarðamatinu 1949 segir að jörðin Kross í Óslandshlíð eigi tiltölu til selstöðu á Deildardal. Þá segir í sömu heimild að jarðirnar Grindur, Nýlendi, Miklibær og Þúfur í Hofshreppi hafi átt selstöðu á Deildardalsafrétt eða tiltölu til sellands þar.

Í landamerkjabréfi Þönglaskála, dagsettu 10. júní 1889, er merkjum jarðarinnar lýst auk þess sem fram kemur að Þönglaskáli eigi selland. Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns áttu jarðirnar Gröf, Stafn, Háleggsstaðir, Skuggabjörg, Miðhús, Ósland, Marbæli og Kross í Óslandshlíð upprekstur á Deildardal.

IV

Málsástæður og lagarök

            Stefnandi reisir kröfur sínar aðallega á þeirri meginreglu stjórnskipunarréttar að eignarréttur sé friðhelgur. Landsvæði það sem lýst sé hér að framan sé eign hans og njóti því verndar 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 10. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995 og 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við Mannréttinda-sáttmála Evrópu sem lögfestur var með lögum nr. 62/1994.

            Stefnandi vísar einnig til þess að landsvæðið sem afmarkað er í dómkröfum hans hafi verið numið í öndverðu. Sá eignarréttur hafi ekki fallið niður og nú sé svæðið háð eignarrétti hans. Lýsingar Landnámu hafi oft verið túlkaðar þannig að þær styðji við beinan eignarrétt, sbr. t.d. dóma Hæstaréttar Íslands sem birtust í dómasafni réttarins 1960 bls. 726 og 1994 bls. 2228. Sömu niðurstöðu sé að finna í almennum niðurstöðum óbyggðanefndar í fyrri úrskurðum nefndarinnar.

            Stefnandi byggir eignarrétt sinn einnig á þeirri meginreglu íslensks eignarréttar að jörð með þinglýstum landamerkjum sé eignarland og sá sem haldi öðru fram beri sönnunarbyrði fyrir því en land það sem um er þrætt í máli þessu hafi frá landnámi verið undirorpið beinum eignarrétti. Með vísan til framlagðra gagna er styðja eignartilkall stefnanda telur hann að úrskurður óbyggðanefndar sé rangur og hann brjóti í bága við nefnt eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og nefnt ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu.

            Stefnandi heldur því einnig fram, máli sínu til stuðnings, að við setningu landamerkjalaga nr. 5/1882 og síðan laga nr. 41/1919 hafi það verið ætlun löggjafans að framkvæmdavaldið hefði frumkvæði að því að gengið yrði frá landamerkjum jarðeigna, þau skráð og leyst úr ágreiningi ef ágreiningur væri til staðar. Með vísan í landamerkjalög og tilgang þeirra byggir stefnandi á því að landamerkjabréf fyrir Lágheiði, dagsett 12. júlí 1886, Stífluafrétt, dagsett 2. júní 1886, Hrolleifsdalsafrétt, dagsett 29. ágúst 1889, Unadals- og Deildardalsafrétt, dagsett 3. júní 1890, bendi eindregið til þess að umrædd landsvæði séu háð beinum eignarrétti. Landamerkjabréfin séu byggð á eldri heimildum líkt og rakið er í úrskurðum óbyggðanefndar í málum nr. 1/2009 og 2/2009. Stefnandi segir eldri heimildir ekki fara gegn nefndum landamerkjabréfum. Þá vísar hann máli sínu til frekari stuðnings hvað þetta varðar til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 48/2004 en þar hafi það verið talið skipta máli hvort land taldist innan upphaflegra landnáma og hvort með landið hefði verið farið sem eignarland samkvæmt elstu heimildum, sbr. einnig dóm réttarins í máli nr. 47/2007.  Stefnandi byggir á því að jörð sem lögð er til afréttar sé eignarland, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands 1971 bls. 1137.

            Stefnandi heldur því fram að hann hafi farið með ráðstöfun á öllum þeim heimildum/réttindum sem fylgja umþrættum landsvæðum en vísar um afréttarnot sín til úrskurða óbyggðanefndar í málum nr. 1/2009 og 2/2009. Einnig bendir hann á að skattar og önnur lögboðin gjöld hafi verið greidd af öllu landinu.

            Stefnandi reisir kröfur sínar einnig á því að venjuréttur og hefðarreglur leiði til þeirrar niðurstöðu að umrætt landsvæði sé eign í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. samningsviðauka nr. 1. við Mannréttindasáttmála Evrópu, en fullur hefðartími sé liðinn frá því að stefnandi hóf að nýta landið. Þá heldur stefnandi því fram í þessu sambandi að úr því að hefðarlög heimili hefð lands sem er í opinberri eigu hljóti að vera unnt að hefða land sem ekki sé háð eignarrétti. Um þessa málsástæðu vísar stefnandi til dóma Hæstaréttar Íslands annars vegar í máli 1997:2792 en í því máli hafi verið fallist á eignarhefð, þótt not hefðanda, sem jafnframt studdi rétt sinn við kaupsamning, hefðu verið sambærileg afréttarnotum, þ.e. beit og eftir atvikum önnur þrengri nýting. Hins vegar vísar stefnandi til dóms réttarins 1939:28 en í því máli hafi eignarhefð verið fullnuð, enda þótt eignarheimild væri sögð glötuð og ekki annar grundvöllur fyrir hendi en takmörkuð not.

            Af hálfu stefnanda er því haldið fram að við mat á því hvort umþrætt landsvæði sé eign í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við Mannréttindasáttmála Evrópu verði að hafa í huga þau sjónarmið sem Mannréttindadómstóll Evrópu hafi lagt til grundvallar við úrlausn á ágreiningsefnum sem þessu. En dómstóllinn hafi túlkað hugtakið eign í skilningi 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannréttindasáttmálann á þá leið að það hafi sjálfstæða merkingu.

            Stefnandi styður kröfur sínar einnig við þau sjónarmið sem Mannréttinda-dómstóllinn hafi lagt til grundvallar um lögmætar væntingar. Þannig hafi dómstóllinn byggt á því að væntingar einstaklinga eða lögaðila til að njóta eigna sinna séu verndaðar af 1. gr. samningsviðauka nr. 1. við mannréttindasáttmálann ef þær eru byggðar á sanngjörnu og réttlætanlegu trausti á réttargerningi, sem tengdur er við eignarréttindi og hefur áreiðanlegan lagagrundvöll. Stefnandi heldur því fram að ef ekki verður talið að eignarheimildir þær sem hann hefur fært fram teljist fullnægjandi þá sé verið að gera aðrar kröfur til hans um sönnun en annarra eigenda lands hér á landi. Slík íþyngjandi sönnunarbyrði jafngildi bótalausri sviptingu eignarréttar.

Stefnandi vísar til þess að á umþrættum svæðum þessa máls sé að finna víðtækar heimildir um seljabúskap en ákvæði í Jónsbók hafi mælt fyrir um að óheimilt hafi verið að gera sel í afréttum en jarðir hafi getað átt sel í almenningum. Í gögnum þessa máls sé ekki að finna neinar heimildir í þá veru að almenninga sé að finna á þessum slóðum. Stefnandi andmælir því að hægt sé að ganga út frá því að allur þessi fjöldi selja á svæðinu hefði getað blómstrað þar gegn skýrum fyrirmælum í Jónsbók, þ.e. ef niðurstaða óbyggðanefndar fær staðist um að umrædd svæði séu afréttarlönd. Stefnandi vísar enn fremur til þess að óbyggðanefnd hafi í almennum forsendum fjallað um hefð og þýðingu hefðar við úrlausn þjólendumála. Nefndin hafi komist að þeirri niðurstöðu að hefð sé eitt dæmi um frumstofnun eignarréttar. Við mat á því hvort ekist hafi að fullna eignarhefð yfir landsvæði skipti máli hvort það er innan eða utan landamerkja jarðar og þá skipti gildistaka hefðalaga frá 1905 máli og styrki eignartilkall í slíkum tilvikum. Skilyrði fyrir því að eignarhefð verði unnin á landsvæði utan landamerkja jarðar séu hins vegar þröng en hefð slíkra svæða sé þó ekki útilokuð. Stefnandi fær ekki séð hvers vegna þessi sjónarmið eigi ekki við um þrætusvæði máls þessa.

Stefnandi byggir einnig á því að það sé almenn lagaregla á Íslandi að eignarréttur að fasteign teljist sannaður með framvísum þinglesinnar eignarheimildar og frá þeirri reglu verði ekki vikið nema sá, sem vefengir réttmæti eignarheimildarinnar, sýni fram á betri rétt sinn eða annarra, eða að eignarheimildin sé haldin slíkum göllum að hún verði ekki lögð til grundvallar dómi í máli um réttinn. Þá vísar stefnandi til þess að Hæstiréttur Íslands hafi orðað þá reglu að mannréttindi sem verndar njóti verði ekki skert nema fyrir því sé skýr regla í lögum og reglan samrýmist ákvæðum stjórnarskrár. Slíkt ákvæði sé ekki að finna í þjóðlendulögum enda hafi ekkert komið fram við meðferð frumvarps til þeirra laga á Alþingi sem bendi til þess að stefnt hafi verið að því að svipta landeigendur eignarrétti sínum.

Stefnandi telur allt það sem að framan er rakið leiða til þess að óbyggðanefnd hafi ranglega metið gögn málsins og ekki beitt lögum um réttarágreininginn með réttum hætti og því beri að ógilda úrskurð nefndarinnar. Í þessu sambandi bendir stefnandi á að tilgangur laga nr. 58/1998 hafi fyrst og fremst verið sá að gera stefnda þinglýstan eiganda landsvæða sem enginn hafi skjöl fyrir að hann eigi, en svo hátti til um hluta afrétta og jökla á miðhálendi Íslands. Óbyggðanefnd eigi að finna út hver þessi eigendalausu svæði séu. Þá telur stefnandi að óbyggðanefnd hafi ranglega metið sönnunargögn málsins og lagt óhóflega sönnunarbyrði á stefnanda sem ekki fái staðist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

 

Stefndi byggir sýknukröfu sína einkum á því að landsvæði þau sem deilt er um í málinu séu svæði utan eignarlanda og teljist því þjóðlendur í samræmi við úrskurði óbyggðanefndar. Telur stefndi ljóst af heimildum, að landsvæðin hafi aldrei verið undirorpin beinum eignarrétti og að nýting þeirra hafi aldrei verið með þeim hætti. Stefndi segir stefnanda bera sönnunarbyrði fyrir tilvist beins eignarréttar að svæðunum eða hluta þeirra.

Stefndi vísar til þess að óbyggðanefnd reisi úrskurð sinn á umfangsmikilli gagnaöflun og rannsóknum og niðurstaðan sé fengin eftir kerfisbundna leit að gögnum og þeim skjölum sem aðilar lögðu fyrir nefndina. Niðurstaða nefndarinnar hafi verið sú að við gildistöku laga 58/1998 hefðu landsvæðin talist til afrétta samkvæmt þeirri eignarréttarlegu flokkun lands sem almennt var miðað við fram til þess tíma.

Stefndi segir að af Landnámu verði ekki ráðið hversu langt upp til fjalla landnám náði á þessu svæði og því verði engar afdráttarlausar ályktanir dregnar af þeim frásögnum. Staðhættir og fjarlægðir bendi hins vegar til þess að hluti umþrættra svæða hafi verið numinn. Hins vegar liggi ekkert fyrir um afmörkun þeirra svæða eða yfirfærslu beins eignarréttar sem þar kann að hafa verið stofnað til en engar heimildir séu til um byggð á svæðunum. Því hafi beinn eignarréttur, hafi hann stofnast í öndverðu, fallið niður og svæðið í kjölfarið verið tekið til annarra takmarkaðra nota. Í þessu efni bendir stefndi á að á landsvæðum sem nærri eru sé bæði að finna eignarlönd og þjóðlendur.

Varðandi Stífluafrétt og Lágheiði byggir stefndi á því að þar sé um að ræða svæði utan eignarlanda. Af heimildum verði ráðið að Lágheiðar sé fyrst sérstaklega getið í ráðsmannsreikningum Hóla í Hjaltadal frá árinu 1387. Þar komi fram að Hólamenn hafi rekið fé sitt á Lágheiði. Í brauðalýsingu séra Guðmundar Sigurðssonar á Barði í Fljótum frá árinu 1782 sé greint frá afrétt á Lágheiði. Stífluafréttar sé fyrst sérstaklega getið í Sýslu- og sóknarlýsingum Skagafjarðarsýslu 1839-1873 en þar segi að flestir úr Holtasókn „reki gelfé sitt á svonefnda Stífluafrétt ...“ Í Sýslu- og sóknarlýsingum Eyjafjarðarsýslu 1839-1854 segi að afrétt frambæjanna sé í „almenning á Lágheiði ...“ og í jarðamatinu 1849 segi að sveitin eigi almenning á Lágheiði. Stefndi heldur því fram að af heimildum verði ekki annað ráðið en að um afréttarsvæði hafi verið að ræða og þau ekki tilheyrt sérstökum jörðum.

Stefndi vísar til þess að landamerkjalýsing hafi verið gerð milli Ólafsfjarðar og Stífluafréttarlanda 6. september 1998, þinglesið 12. júlí 1996 en landamerkjabréf afréttarlandsins Lágheiðar á milli Stíflu og Ólafsfjarðar sé ódagsett en þinglesið 2. júní 1886. Landamerkjabréfin séu efnislega samhljóða og þar komi fram að um afréttarsvæði sé að ræða. Engar heimildir séu til um að landsvæðið hafi verið nýtt til annars en sumarbeitar og e.t.v. annarra takmarkaðra nota. Engar heimildir séu til um að byggð hafi verið á svæðinu en það sé að mestum hluta hálent, fjarri byggð og inn á það hafi búfénaður leitað án hindrana enda svæðið ógirt. Búfjáreigendur í Fljótahreppi og Ólafsfirði hafi þannig haft af landsvæðinu hefðbundin afréttarnot, undir umsjón hreppanna, eins og er um samnotaafrétti almennt. Fjallskil hafi verið gerð sameiginlega á svæðinu og fyrirkomulag þeirra hafi verið ágreinings- og athugasemdalaust. Stefndi segir að þótt líkur séu til þess að hluti landsins hafi verið numinn liggi ekkert fyrir um afmörkun eða yfirfærslu þeirra beinu eignarréttinda sem þar kann að hafa verið stofnað til. Landið liggi einnig í töluverðri hæð, standi fjarri byggð og landsvæðum sem hafa verið í landbúnaðarafnotum. Að teknu tilliti til staðhátta, víðáttu, gróðurfars og hæðar svæðisins yfir sjó virðist augljóst að það hafi ekki verið nýtt til annars en beitar. Byggir stefndi á því að ekki hafi verið sýnt fram á að Stífluafrétt og Lágheiði séu eignarlönd, hvorki fyrir nám, löggerninga eða með öðrum hætti.

Varðandi Unadals- og Deildardalsafrétti sérstaklega byggir stefndi á því að þar sé um að ræða svæði utan eignarlanda. Unadalsafrétt hafi frá fornu fari verið afrétt (almenningsafrétt), og réttur til upprekstrar þangað hafi fylgt bæjum á svæðinu og því hafi afréttin ekki tilheyrt sérstakri jörð í þessu tilliti. Stefndi hafnar því að lýsingar á sellöndum hafi falið í sér lýsingu á eignarlöndum enda sellöndin nýtt með takmörkuðum hætti til annars en sumarbeitar fyrir búfé. Þá séu heimildir um búsetu á svæðinu óljósar og takmarkaðar og bendi ekki til þess að svæðið hafi haft stöðu jarðar.

Unadalsafréttar sé fyrst getið í lögfestu frá árinu 1590 þar sem lögfest er allt land kirkjunnar að Hólum á Unadal „fyrer framan almennings hola“. Í sömu lögfestu kemur fram að eigandi Hofs hafi gert sér sel á Unadal „sem lóg banna“ og „an alls leyfis“. Í fjórum vitnisburðum frá árinu 1613 kemur fram að aldrei hafi heyrst að Páll á Hofi hafi eignað sér eða haft Unadalsafrétt. Einnig er minnst á Unadalsafrétt í úttektum Hólastóls frá 2. ágúst 1628 og 10. júlí 1657. Loks kemur fram í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1709 að flestar jarðir í Unadal og á Höfðaströnd hafi átt upprekstur á Unadalsafrétt og svipað komi fram í Sýslu- og sóknarlýsingum Skagafjarðarsýslu frá 1868.

Stefndi vísar til þess að Deildardalsafréttar sé fyrst getið í sölubréfi fyrir jörðina Marbæli frá árinu 1393 en þar komi fram að jörðinni sé reiknaður geldfjárrekstur í Deildardalsafrétt. Í nefndri Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segi að fjöldi jarða í Óslandshlíð hafi átt rétt til upprekstrar á Deildardalsafrétt og sellöndum þar lýst í landamerkjabréfum flestra jarðanna frá árinu 1889. Í landamerkjabréfum Miðhúsa, Óslands, Grafar, Ennis og Marbælis sé að finna lýsingar fyrir sellönd þeirra jarða, ýmist í Deildardal eða Unadal. Í Sýslu- og sóknarlýsingum Skagafjarðarsýslu frá 1839 komi fram að margar jarðir eigi selstöðu í Deildardal og Unadal. Engar heimildir séu hins vegar um að byggð hafi verið á afréttunum eða í sellöndum en landið hafi verið nýtt til beitar. Merkjum Unadals- og Deildardalsafrétta var lýst í landamerkjabréfi fyrir svæðið, dagsettu 3. júní 1890, en bréfinu var þinglýst degi síðar.

Stefndi vísar til þess að þegar þessara svæða er getið í heimildum sé það tengt upprekstri, afréttarnotum og annarri takmarkaðri nýtingu, svo sem selstöðu. Ekkert liggi fyrir um að sérgreind réttindi innan svæðisins hafi áfram tilheyrt einstökum jörðum eftir að seljabúskapur lagðist af. Bendir stefndi á að í almennum niðurstöðum óbyggðanefndar komi fram að nýlegar rannsóknir bendi til þess að selstæði hafi fyrst og fremst verið í heimalöndum en snemma færst yfir á svæði sem öllum var heimilt að nýta. Jónsbók hafi bannað selstöðu í afréttum en jarðir hafi getað átt sel í almenningum. Stefndi byggir á því að engar heimildir séu til um að Deildardals- og Unadalsafréttir hafi verið nýttir til annars en sumarbeitar og hugsanlega einhverra annarra takmarkaðra nota eins og selstöðu. Svæðið sé að mestum hluta hálent og inn á það hafi búfénaður leitað án hindrana. Sellöndin sem þar voru hafi landfræðilega verið aðskilin frá heimalandi jarða sem bendir til þess að um afrétti hafi verið að ræða. Eftir að sellöndin voru lögð til afréttanna virðist nýting þeirra hafi verið með sama hætti og annarra hluta afréttanna, þ.e. í sameiginlegum afréttarnotum jarða fyrrum Hofshrepps.

Stefndi heldur því fram að þótt hluti þessa lands kunni að hafa verið numinn, liggi ekkert fyrir um afmörkun eða yfirfærslu þeirra beinu eignarréttinda sem þar kann að hafa verið stofnað til. Byggir stefndi á því að heimildir bendi til þess að svæðið sé ekki undirorpið beinum eignarrétti og nýting þess hafi ekki verið víðtækari en sumarbeit fyrir búfénað og önnur takmörkuð not. Um afréttarmálefni og fjallskil hafi snemma verið settar opinberar reglur sem sveitarstjórnum hafi borið að annast framkvæmd á. Notkun svæðisins hafi verið þannig háttað að eignarhefð hafi ekki stofnast þar. Því hafi stefnanda ekki tekist að sýna fram á að Unadals- og Deildardalsafréttir séu eignarlönd, hvorki fyrir nám, löggerninga eða með öðrum hætti.

Varðandi Flókadals- og Hrolleifsdalsafrétt sérstaklega heldur stefndi því fram að þar sé um að ræða svæði utan eignarlanda. Bendir stefndi á að við jarðakaup árið 1540 hafi selför í Flókadal fylgt jörðunum Ysta- og Syðstamó. Flókadalsafréttar sé hins vegar fyrst getið í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1709 en þar komi fram að allar jarðir í Vestur-Fljótum hafi haft afrétt fyrir lömb í Seljárdal, en einnig hafi nokkrar jarðir í Fljótahreppi átt selstöðu í Flókadal. Hrolleifsdalsafréttar sé fyrst getið í heimild frá 1578 en þar komi fram að jörðinni Skálá hafi fylgt afrétt í Hrolleifsdal fyrir geldfé. Landamerkjabréf fyrir Hrolleifsdalsafrétt sé dagsett 29. ágúst 1889 og því þinglýst í júnímánuði 1990. Hins vegar séu ekki til heildstæðar merkjalýsingar fyrir Flókadalsafrétt.

Í heimildum sé þessara afrétta getið í tengslum við upprekstur og afréttarnot. Fjölmargar heimildir um jörðina Barð í Fljótum nefni selför jarðarinnar á Flókadalsafrétt eða á Seljárdal, sbr. máldaga Barðs frá 1590 og fjölmargar vísitasíur á árunum 1667 til 1826 auk fleiri heimilda. Í Sýslu- og sóknarlýsingu Barðsprestakalls frá 1841 komi eftirfarandi fram: „Afréttarland (almenningur) er fram af Flokadalnum; þangað er rekið geldfé úr allri Barðssókn“. Í jarðamatinu frá 1849 segi frá selstöðu og frá því greint í landamerkjabréfi Barðs frá 24. maí 1890 að Barði tilheyri Barðshlíð í Flókadalsafrétt. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns komi fram að allar jarðir í Vestur-Fljótum hafi átt afrétt fyrir lömb í Flókadalsafrétt (Seljárdal). Þá sé þar einnig fjallað um selstöðu nokkurra jarða í Fljótahreppi í Flókadal.

Stefndi segir færri heimildir til um Hrolleifsdalsafrétt. Í bréfabók biskups frá 1587 segi að jörðinni Skálá fylgi afrétt í Hrolleifsdal. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns komi fram að allar jarðir í Sléttuhlíðarhreppi (Fellshreppi) eigi beitarrétt í Hrolleifsdal fyrir lömb og einnig sé þar minnst á selstöðu jarðarinnar Tjarnarkots í Hrolleifsdal. Í Sýslu- og sóknarlýsingu Fells- og Höfðasókna segi að Fellssóknarmenn hafi afrétt fyrir botni Hrolleifsdals en þar sé almenningur.

Stefndi byggir á því að af áðurröktum heimildum, sem vísa til afréttarnota á Flókadals- og Hrolleifsdalsafrétt allt frá fornu fari, megi sjá að svæðið hafi eingöngu verið nýtt til sumarbeitar, selstöðu og annarra takmarkaðra nota. Í almennum niðurstöðum óbyggðanefndar komi fram að nýlegar rannsóknir bendi til þess að selstæði hafi fyrst verið í heimalöndum en snemma færst yfir á svæði sem öllum var heimilt að nýta. Jónsbók hafi bannað sel í afréttum en jarðir hafi getað átt sel í almenningum. Ekkert bendi til þess að á umþrættu svæði hafi nokkru sinni verið byggð. Af þessum sökum telur stefndi landið vera utan eignarlanda jarða. Stefndi reisir kröfur sínar á því að af heimildum sé ljóst að svæðið sé ekki undirorpið beinum eignarrétti og nýting þess hafi ekki verið víðtækari en sumarbeit fyrir búfénað. Svæðið hafi verið notað til upprekstrar, notað sem afréttur og þá hafi þar verið sel. Svæðin séu að mestu hálend og inn á þau hafi búfé leitað hindrunarlaust. Allt þetta bendi til þess að búfjáreigendur á svæðinu hafi haft hefðbundin not af Flókadals- og Hrolleifsdalsafrétt undir umsjón hreppsins á sama hátt og gildir um samnotaafrétti almennt. Þótt hluti þess lands sem um er deilt kunni að hafa verið numinn, liggi ekkert fyrir um afmörkun eða yfirfærslu þeirra beinu eignarréttinda sem þar kann að hafa verið stofnað til. Byggir stefndi á því að ekki hafi verið sýnt fram á að Flókadalsafrétt og Hrolleifsdalsafrétt séu eignarlönd, hvorki fyrir nám, löggerninga eða með öðrum hætti.

Varðandi gildi landamerkjabréfa byggir stefndi á því að þinglýstar landamerkjalýsingar fyrir þau svæði sem um er deilt, að undanskilinni Flókadalsafrétt, takmarkist af því að landamerkjabréf voru ekki einungis gerð fyrir jarðir heldur ákvörðuðu þau einnig oft mörk afréttareignar. Landamerkjabréf hafi fyrst og fremst verið til sönnunar um mörk milli eigna en í þeim felist á engan hátt að allt land innan merkja sé eignarland. Þinglýsing slíkra bréfa takmarkist við að ekki er unnt að þinglýsa meiri rétti en viðkomandi á. Ef landamerkjabréf sækir ekki stoð í eldri heimildir dragi það úr sönnunargildi slíks bréfs, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 48/2004. Eigendalausu landi geti löggjafinn einn ráðstafað.

Stefndi hafnar því að skilyrði eignarhefðar séu til staðar líkt og stefnandi heldur fram og vísar hann til þess sem að framan er ritað um nýtingu landsins, staðhætti og getinna heimilda. Nýting landsins hafi í aldanna rás ekki falist í öðru en sumarbeit fyrir búfénað en hefðbundin afréttarnot geti ekki stofnað til beinna eignarréttinda yfir landi og vísar stefndi í því sambandi í dæmaskyni til dóma Hæstaréttar í málum nr. 47/2004 og 48/2004.

Stefndi mótmælir málsástæðum stefnanda og vísar til rakinna sjónarmiða sinna svo og sjónarmiða sinna sem sett voru fram við meðferð málsins hjá óbyggðanefnd.

VI

Niðurstaða

Að framan er rakið að óbyggðanefnd úrskurðaði um landsvæði þau sem hér eru til umfjöllunar í tveimur úrskurðum. Hin umþrættu landsvæði eru aðskilin og skiptast í Stífluafrétt og Lágheiði, Flókadalsafrétt og Hrolleifsdalsafrétt, Unadals- og Deildardalsafrétt. Afmörkun þeirra er lýst hér að framan og verður leyst úr hverju þeirra fyrir sig. Landsvæðin sem um er deilt eru í dag öll í Sveitarfélaginu Skagafirði, stefnanda máls þessa, sem leiðir rétt sinn frá hreppum þeim sem áður voru í austanverðum Skagafirði en sameinuðust ásamt fleiri hreppum í Skagafirði árið 1998.

Stífluafrétt og Lágheiði

Krafa stefnanda nær til stærsta hluta þess svæðis sem kallast Stífluafrétt og Lágheiði. Krafan nær þó ekki til norðausturhluta svæðisins sem liggur utan marka sveitarfélagsins en það svæði var úrskurðað þjóðlenda af óbyggðanefnd líkt og ágreiningssvæði máls þessa.

Elsta heimildin þar sem getið er um svæðið er ráðsmannsreikningar Hóla í Hjaltadal frá 1387 en þar kemur fram að Hólamenn hafi m.a. rekið búfé á Lágheiði.

Landamerkjabréf voru gerð fyrir svæðið á árunum 1885 og 1886 af hreppsnefndum Holtshrepps og Þóroddsstaðahrepps og bera þau gagnkvæmar áritanir hreppanna. Af bréfum þessum má ráða að á vestanverðri Lágheiði sé afrétt Fljótamanna, nefnd Stífla eða Stífluafrétt, en á austanverðri heiðinni sé afréttarland Ólafsfjarðar. Holtshreppur sameinaðist á sínum tíma Fljótahreppi sem síðar sameinaðist öðrum hreppum í Skagafirði í Sveitarfélagið Skagafjörð. Þóroddsstaðahreppur tilheyrir nú sveitarfélaginu Fjallabyggð. Óumdeilt er að norðan við svæðið eru eignarlönd Atlastaða, Þorsteinsstaða, Sandár, Göngustaða, Göngustaðakots, Klaufabrekkna og Klaufabrekknakots. Til austurs er jörðin Reykir. Í lýsingu Holtshrepps á mörkum Ólafsfjarðar og Stífluafréttarlands kemur fram að á Lágheiði séu fjórar vörður og sú lína er þær vísa ráði merkjum til fjalls beggja vegna. Sambærileg lýsing er í landamerkjabréfi Þóroddsstaðahrepps. Óupplýst er hvar nefndar vörður liggja en þær hafa skipt heiðinni milli hreppanna og voru að auki sýslumörk sem liggja því um þjóðlendukröfu stefnda vegna afréttarlanda á Lágheiði. Í úrskurði óbyggðanefndar er gerð grein fyrir því hvernig merkjum aðliggjandi jarða er lýst gagnvart Lágheiði. Í þeirri lýsingu segir svo: „Svo sem að framan er rakið voru landamerkjabréf Holtshrepps og Þóroddsstaðhrepps um afréttarmörk á Lágheiði gerð í kjölfar þess að landamerkjalög tóku gildi 1882, þinglesin og færð í landamerkjabók. Bréfin lýsa ekki nákvæmlega merkjum gagnvart aðliggjandi landsvæðum. Afmörkun á þjólendukröfusvæði íslenska ríkisins fær þó samrýmst merkjum aðliggjandi jarða og landamerkjabréf fyrir afréttarsvæði á Lágheiði mæla henni ekki í mót. Um afmörkun þess er ekki ágreiningur meðal aðila þess máls sem hér er til úrlausnar en til norðausturhluta svæðisins er ekki gerð krafa af hálfu annarra en íslenska ríkisins.“ Fyrir dóminum komu ekki fram neinar athugasemdir við tilvitnaða lýsingu og er afmörkun svæðisins óumdeild.

Af lýsingu Landnámu verða ekki dregnar öruggar ályktanir um hvort þrætusvæðið í málinu hafi verið numið eða ekki. Gera má þó ráð fyrir, að teknu tilliti til staðhátta og fjarlægða, að einhver hluti þess hafi verið numinn. Hæstiréttur Íslands hefur ítrekað í dómum sínum í málum af þessum toga tekið fram að landamerkjabréf hafi bæði verið gerð fyrir jarðir og annars konar réttindasvæði, svo sem ítök og afrétti. Land utan jarða, þar á meðal afréttarland, hefur að jafnaði verið talið þjóðlenda þótt notkun hugtaksins afrétt í landamerkjabréfi og /eða öðrum heimildum hafi ekki um það úrslitaþýðingu hvort landsvæði teljist þjóðlenda, enda hefur merking þess ekki verið einhlít og geta slík svæði því verið eignarlönd. Hins vegar getur lýsing á svæði sem afréttarlandi í landamerkjabréfi gefið vísbendingu um það hvernig svæðið hefur verið nýtt. Því hefur einnig verið slegið föstu í dómaframkvæmd Hæstaréttar í þjóðlendumálum að það sé ekki á valdi eiganda jarðar að auka með landamerkjabréfi við land sitt eða annan rétt umfram það sem áður hafi verið. Einnig skiptir máli eignarréttarleg staða aðliggjandi svæða og þá er mögulegt að unninn hafi verið réttur á áður eigendalausu landi, svo sem á grundvelli hefðar. Við úrlausn máls þessa verður að hafa framangreint í huga.

Svo sem vikið er að hér að framan varðandi sögu og heimildir um svæðið greina heimildir allt frá 14. öld frá því að á Lágheiði hafi verið afrétt jarða, landfræðilega aðskilin frá þeim flestum. Hið sama má segja um Stífluafrétt frá því snemma á 18. öld. Lágheiðar er fyrst getið í ráðsmannsreikningum Hóla í Hjaltadal frá 1387 og sagt að Hólamenn reki féð sitt m.a. á Lágheiði. Í nefndu sölubréfi fyrir Reyki í Fljótum frá 1454 er hálf Lágheiði seld. Tunga í Fljótum var seld 1508 og þar sagt að hún ætti hálfan Hvarfsdal sem liggur innan kröfusvæðisins vegna Lágheiðar að vestanverðu. Í brauðalýsingu fyrir Barð í Fljótum frá 1782 er afréttar á Lágheiði getið en hann lítt nýttur fyrir annað en geldfjárrekstur. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns kemur fram að jörðin Barð hafi notað selför á Lágheiði á svæði sem kallað er Blákápureitur en það hafi ekki verið nýtt í manna minnum. Þá er frá því greint í sömu heimild að jörðin Slétta í Fljótum noti tollfrjálsan lambaafrétt, sem heitir Hvarfsdalur, líkt og aðrar jarðir í Austur-Fljótum. Í Sýslu- og sóknarlýsingum Skagafjarðarsýslu 1839-1873 kemur fram að Lágheiði að vestanverðu með Klaufabrekknadal og Hvarfdal sé afréttarlönd almennings brúkuð af flestum Stíflu- og Austur-Fljótamönnum. Einnig kemur þar fram að flestir úr Holtssókn reki geldfé sitt á svonefnda Stífluafrétt.

Liggur þannig fyrir að engar heimildir eru um að Lágheiði og Stífluafrétt hafi verið nýtt til annars en sumarbeitar fyrir búfé og hugsanlega einhver önnur takmörkuð not. Að teknu tilliti til þess sem að framan er rakið um þau sjónarmið sem horft hefur verið til við úrlausn þjóðlendumála og þess að svæðið er að mestum hluta hálent og fjarri byggð er það niðurstaða dómsins að svæðið sé afrétt í þeim skilningi að jörðum í Fljótahreppi og Ólafsfirði hafi þar tilheyrt óbein eignarréttindi. Þar sem stefnanda hefur ekki tekist að sanna beinan eignarrétt sinn að svæðinu, hvorki fyrir nám, löggerninga, hefð né með öðrum hætti, ber að sýkna stefnda af kröfum hans hvað þetta svæði varðar.

Flókadalsafrétt og Hrolleifsdalsafrétt

Saga og nýting svæðisins er í aðalatriðum rakin hér að framan. Þar kemur m.a. fram að í jarðakaupum frá árinu 1540 hafi verið greint frá því að jörðunum Ysta- og Syðstamó fylgi selför fram á Flókadal í Illugastaðaland líkt og frá fornu hafi verið. Flókadalsafréttar er getið í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns en þar segir að allar jarðir í Vestur-Fljótum hafi afrétt fyrir lömb sín í Seljárdal. Einnig hafi nokkrar jarðir í Fljótahreppi átt selstöðu á Flókadal. Hrolleifsdalsafréttar er fyrst getið 1587 en þar kemur fram að Skálá fylgi afrétt á Hrolleifsdal fyrir allan geldfénað.

Þegar skorið er úr um eignarréttarlega stöðu Hrolleifsdals- og Flókadalsafrétta verður að horfa til þeirra almennu sjónarmiða sem nefnd voru hér að framan og snéru að eignarréttarlegri stöðu Stífluafréttar og Lágheiðar. Af frásögn Landnámu verður ekki ráðið hversu langt upp til fjalla landnám á því svæði sem hér er deilt um náði og engar afdráttarlausar ályktanir því dregnar af þeirri frásögn. Í skriflegum heimildum varðandi nefndar afréttir er þeirra einkum getið varðandi upprekstur og afnotarétt til beitar. Margar heimildir varðandi kirkjujörðina Barð geta þess að Barð hafi brúkað fría selför í Barðshlíð í Flókadalsafrétt átölulaust, sbr. máldaga frá 1590 og sex vísitasíur frá 1667 til 1826. Þá segir í brauðalýsingu Barðs frá 1782 „AfRettar Reute Tvo er sagt Prestakalled Eige og Sekstódur, annan ï Flökadal afRett“.  Fleiri heimildir geta um þennan rétt jarðarinnar svo sem áður hefur verið rakið. Þá segir í landamerkjabréfi jarðarinnar að henni tilheyri Barðshlíð í Flókadalsafrétt. Í Sýslu- og sóknarlýsingum Barðsprestakalls frá 1841 segir að afréttarland sé fram af Flókadal og þangað sé rekið geldfé úr allri Barðssókn. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1709 kemur fram að allar jarðir í Vestur-Fljótum hafi átt afrétt fyrir lömb í Flókadalsafrétt sem kallast Seljárdalur. Í bókinni er jafnframt greint frá selstöðu nokkurra jarða í Fljótahreppi í Flókadal.

Vitnið Hjalti Pálsson, höfundur Byggðasögu Skagafjarðar, bar að merki væru um sel í Flókadal, „inn eftir öllu“, eins og vitnið komst að orði. Hins vegar hafi ekki verið athugað hversu gömul þau eru. Samkvæmt ákvæðum Jónsbókar var bannað að reisa sel í afrétt og getur selstaða því gefið vísbendingu um að svæði þar sem sel er að finna hafi verið háð beinum eignarrétti.

Heimildir um Hrolleifsdalsafrétt eru fátækari, en í bréfabók biskups segir í bréfi frá 1587 að jörðinni Skálá tilheyri „Afrjett j Hrolleifsdal ollur gielldfienade“. Í nefndri jarðabók segir að allar jarðir í Sléttuhlíðarhreppi eigi beitarafrétt í Hrolleifsdal fyrir lömb. Þá greinir þar frá selstöðu Tjarnarkots í dalnum. Í Sýslu- og sóknarlýsingu Fells- og Höfðasókna kemur fram að Fellssóknarmenn hafi „afrétt fyrir botni Hrolleifsdals; en þar er almenningur.“

Samkvæmt framanrituðu eru heimildir sem stutt geta beinan eignarrétt stefnanda að umræddum afréttum heldur fátæklegar. Allt bendir til þess að um langan aldur hafi bæir í aðliggjandi sveitum haft upprekstrarrétt á afréttirnar. Ætla verður að einhver hluti svæðanna hafi verið numinn. Hæstiréttur hefur ítrekað getið þess að vera kunni að eignarréttur yfir numdu landi hafi fallið niður sökum þess að ekkert liggi fyrir um yfirfærslu hins beina eignarréttar sem kann að hafa verið stofnað til við landnám. Að teknu tilliti til þessa og áðurnefndra sjónarmiða, sem ítrekað hefur verið vísað til í dómum Hæstaréttar, hæðar stærsta hluta þrætusvæðisins yfir sjárvarmáli, legu þess og þess að landamerkjabréf svæðanna skortir stoð í öðrum gögnum málsins sem bent geta til beins eignarréttar eða eru einfaldlega ekki til, er það niðurstaða dómsins að svæðin séu afrétt í þeim skilningi að jörðum í aðliggjandi hreppum hafi þar tilheyrt óbein eignarréttindi. Þar sem stefnanda hefur ekki tekist að sanna beinan eignarrétt sinn að svæðunum, hvorki fyrir nám, löggerninga, hefð né með öðrum hætti, ber að sýkna stefnda af kröfum hans hvað þessi svæði varðar. Upplýsingar um sel á Flókadal eru ekki nægar til að fá þessari niðurstöðu breytt en upplýsingar um afmörkun sellandanna og yfirfærslu beins eignarréttar sem ætla má að sellöndunum hafi fylgt skortir algerlega.

Unadalsafrétt og Deildardalsafrétt

Saga og nýting þessa svæðis er í aðalatriðum rakin hér að framan. Af Landnámu verða litlar sem engar ályktanir dregnar þar sem í hana vantar algerlega frásögn um landnám á um helmingi þess svæðis sem hér um ræðir. Af öðrum heimildum má helst ætla að Uni í Unadal hafi numið þarna land eða eignast það síðar.

Á milli aðila máls þessa er ekki ágreiningur um afmörkun hins umþrætta svæðis en afmörkun þess er lýst í landamerkjabréfum afréttanna og sellandanna sem að afréttarlandinu liggja. Sú afmörkun fær stoð í afmörkun aðliggjandi landsvæða.

Unadalsafréttar er fyrst sérstaklega getið í heimildum frá 16. öld og þá talin tilheyra Hólastað. Afréttarinnar er einnig getið í fjórum vitnisburðum frá því í byrjun 17. aldar og báru þeir er þá vitnisburði gáfu að þeir hafi ekki heyrt að Páll Grímsson á Hofi hefði eignað sér Unadalsafrétt. Deildardalsafrétt kemur fyrst fyrir í sölubréfi fyrir jörðina Marbæli frá árinu 1393 en þar er jörðinni reiknaður geldfjárrekstur á „deilldar dals afrétt oc sel  lannd fiorþunginn í seliadal.“ Í títtnefndri jarðabók frá 1709 er þess getið að fjöldi jarða í Óslandshlíð hafi átt upprekstrarrétt á Deildardalsafrétt. Hér háttar svo til að á Deildar- og Unadalsafréttum eru allmörg sellönd sem kennd eru við ákveðnar jarðir. Er hér um að ræða Miðhúsasel, Grafarsel, Grindarsel, Óslandssel, Marbælissel, Ennissel og Hofssel og er merkjum flestra seljanna lýst sérstaklega í landamerkjabréfum viðkomandi jarða. Sellöndin liggja innan þrætusvæðisins og töldust, ásamt afréttunum sem draga nöfn sín af dölum tveim, þjóðlenda í úrskurði óbyggðanefndar.

Sömu sjónarmið eiga við hér og áður voru rakin varðandi eignarréttarlega stöðu svæðanna sem áður hefur verið fjallað um. Afréttirnar hafa síðustu aldir einkum verið nýttar til sumarbeitar fyrir búfénað og einhverra annarra takmarkaðra nota eftir því sem efni og aðstæður voru til á hverju tíma. Hér háttar þó svo til að heimildir um eignarréttarlega stöðu þessara afrétta eru meiri en áðurgreindra svæða. Í lögfestu, líklega frá því um  1590, er lögfest allt land kirkjunnar á Hólum sem hún átti á Unadal „[...]so sem votn draga til / badum meigen ár / fyrer framan almennings hola. Fyrirbyd eg óllum mónnum  / ad frateknum Holastadar Landsetum /: ad nytia sier þad land  [...]“. Með þessu er lýst landi í eigu kirkjunnar á Unadal allt til jökuls og jafnframt er öðrum en landsetum Hólastaðar bönnuð not afréttarinnar. Í úttekt Hólastaðar frá 1628 er tekið fram að þá séu 71 nautgripur tvævetra og eldri í afréttinni. Í annarri úttekt frá 1657 er tekið fram að þá eigi kirkjan 51 nautgrip á sama aldri á Unadalsafrétt. Ekki er ósennilegt að vitnisburðir þeir sem áður er getið og lýstu því að Páll á Hofi hafi ekki eignað sér afréttina hafi verið fengnir í þeim tilgangi að renna stoðum undir eignarrétt Hólastaðar að afréttinni. Hins vegar virðist sem Hof hafi eignast Hofsselland án þess þó að fyrir því hafi fundist skráðar heimildir en með lögfestum frá 1666 og 1696 er sellandið, sem sagt er ná fram til jökuls, lýst eign Hofs. Uppskrift af lögfestunni frá 1666 var þinglýst á árinu 1882 og til hennar vísað þegar sellandið var selt 1923.

Áður er þess getið að innan þrætusvæðisins eru áðurnefnd sel sem öll hafa verið landfræðilega afmörkuð. Merkjum Miðhúsasels, Grafarsels, Óslandssels, Marbælissels og Ennissels er lýst í landamerkjabréfum jarða þeirra sem selin draga nöfn sín af og gerð voru í lok 19. aldar. Merki Grindarsels má ráða af landamerkjaskrá fyrir Deildardals- og Unadalsafrétti frá 1890 en þar segir m.a. að merki afréttarinnar byrji fyrir framan „Grynda sellands merki og kallast Stígar. [...] Að sunnan eru merkin í dalbotninum syðst, og þaðan eptir brúninni beinni stefnu yfir í Tungufjall til Grynda sellandsmerkja.“ Merki fyrir Hofsselland er að finna í nefndri landamerkjaskrá fyrir Deildardals- og Unadalsafrétt en þá hefur sellandið minnkað og nær ekki lengur fram til jökuls líkt og því var lýst í lögfestum 1666 og 1696. Af landamerkjaskrá Deildardals- og Unadalsafrétta má sjá að öll sellöndin sem nefnd hafa verið og hafa sérstaka landfræðilega afmörkun eru ekki talin til afréttanna heldur eru merki afréttanna dregin í samræmi við afmörkun þeirra sellanda sem að afréttunum liggja.

Framangreindar heimildir styðja að mati dómsins að um langan aldur hafi verið litið svo á að stór hluti hins umþrætta lands hafi verið háður beinum eignarrétti. Í Jónsbók var lagt bann við því að sel væru reist í afréttum en hafa verður í huga að búskaparhættir taka breytingum í tímans rás og seljabúskapur lagðist víða af fljótlega á 18. öld. Landfræðileg afmörkun seljanna sem áður er getið renna frekari stoðum undir að þau hafi verið eignarlönd. Hér verður auk þess að hafa í huga að Óslandssel, Miðhúsasel og Grindarsel eru öll staðsett mjög nálægt jörðum sem lengi var búið á og teljast til eignarlanda. Þá er Þönglaskálasel, sem liggur að Ennisseli og ekki verður séð að til hafi verið stofnað með öðrum hætti en nefndra sellanda, viðurkennt eignarland. Þessu til viðbótar verður ekki framhjá því horft að búið var í Grafarseli í tæp 40 ár á tímabilinu 1833 til 1875. Að mati dómsins er ekki ástæða til að ætla að munur hafi verið á eignarhaldi sellandanna þó svo að heimildir um afmörkun þeirra séu mismunandi. Einnig verður að horfa til þess að svæðin eru að stórum hluta vel gróin þó að það eigi ekki við um stóran hluta Grafarsellands og Hofssellands. Loks benda þær staðreyndir, að Hofssel var selt upprekstrarfélagi Unadalsafréttar á árinu 1923 og að við sölu á fremsta hluta Stafns var hluti kaupverðsins greiddur með hluta af Miðhúsasellandi sem þá var lagður til Háleggsstaða og leitað var samþykkis eiganda Miðhúsa til að reisa afréttargirðingu í sellandi jarðarinnar, til þess að almennt hafi verið talið að sellöndin væru háð beinum eignarrétti eigenda samnefndra jarða.

Samkvæmt framanrituðu er það niðurstaða dómsins að hin afmörkuðu sellönd í Una- og Deildardal séu háð beinum eignarrétti og þar sé því ekki þjóðlendu að finna og er úrskurður óbyggðanefndar í máli nr. 2/2009 frá 10. október 2011 því felldur úr gildi hvað þetta svæði varðar eins og því er nánar lýst í dómsorði. Við afmörkun svæðisins er að mestu stuðst við loftmyndir af svæðinu sem lagðar hafa verið fram í málinu, unnar af Byggðasafni Skagafjarðar. Á þær eru dregin merki sellandanna milli tölusettra punkta, sem hnitsettir eru á öðru skjali, en ekki er ágreiningur milli aðila um afmörkun sellandanna. Upphafspunktur er þó fenginn úr úrskurði óbyggðanefndar svo og línan sem dregin er norðan Hofssellands að upphafspunkti.

Stefndi er hins vegar sýkn af kröfum stefnanda varðandi önnur þau svæði sem um er þrætt í máli þessu.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Stefnandi nýtur gjafsóknar samkvæmt gjafsóknarleyfi 23. apríl 2012. Þóknun lögmanns stefnanda, Ólafs Björnssonar hæstaréttarlögmanns, sem ákveðst að meðtöldum virðisaukaskatti 4.092.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun þóknunar hefur verið tekið tillit til umfangs málsins og tímaskýrslu lögmanns stefnanda.

Ólafur Björnsson hæstaréttarlögmaður flutti mál þetta af hálfu stefnanda en af hálfu stefnda flutti málið Edda Andradóttir héraðsdómslögmaður.

Halldór Halldórsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan að gættum ákvæðum 115. gr. laga um meðferð einkamála.

 

Dómsorð

Stefndi er sýkn af kröfum stefnanda varðandi landsvæði þau sem kallast Lágheiði, Stífluafrétt, Hrolleifsdalsafrétt og Flókadalsafrétt.

Mörk milli þjóðlendu og eignarlanda á Una- og Deildardal afmarkast svo: Upphafspunktur er á sýslumörkum í sunnanverðum Hákömbum við Deildardalsjökul, punktur 1 hjá óbyggðanefnd. Þaðan er fyrrum sveitarfélagsmörkum Hofshrepps og Hólahrepps fylgt til suðvesturs þar til komið er að merkjum Grafarsels á háfjalli milli Vesturdals og Kolbeinsdals N497864,19 A589979,48 punktur 1 á korti Byggðasafns Skagafjarðar. Þaðan til norðvesturs í Afréttará (Vesturá) þar til komið er að hornmerki Grindarsellands við Vesturdalsá N491458,76 A593383,29, punktur 6. Þaðan í hornpunkt Grindarsellands sunnan við Smjörskál, punktur 7 N491993,46 A593846,67. Þaðan í hornmerki Grindarsellands við Seljadalsá N491993,48 A594486,92, punktur 8. Þaðan í hornmerki Marbælissellands við Óslandsselland við Seljadalsá N492843,83 A594515,72 punktur 12. Þaðan í hornmerki Marbælissellands við Strangalæk og Seljadalsá, punktur 13 N495492,47 A593915,59. Þaðan í hornmerki Marbælissellands við Deildardalsafrétt á háfjalli, punktur 14 N496051,16 A595900,40. Þaðan í punkt 15 N497258,75 A595600,81 á háfjalli milli Unadals og Seljadals. Þaðan í punkt 16 við Klifhól, N497061,25 A598259,80. Eftir það til vesturs í syðsta punkt Spánárlands við Grjótá. Síðan er Grjótá fylgt til upptaka og þaðan í háfjall á fyrrum hreppamörkum Hofshrepps og Fljótahrepps (punktur 13 hjá óbyggðanefnd). Þaðan er fylgt fyrrum hreppamörkum Fljótahrepps og Hofshrepps og síðan sýslumörkum um Hákamba til suðurs allt að upphafspunkti við Deildardalsjökul.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin þóknun lögmanns hans, Ólafs Björnssonar hæstaréttarlögmanns, 4.092.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

 

                                                Halldór Halldórsson