• Lykilorð:

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 8. apríl 204 í máli nr. E-244/2013:

Leifur Breiðfjörð

(Jón Elvar Guðmundsson hdl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Óskar Thorarensen hrl.)

 

 

        Mál þetta, sem dómtekið var 14. febrúar 2014, er höfðað af Leifi Breiðfjörð, Laufásvegi 52, 101 Reykjavík, með stefnu útgefinni 15. janúar 2013 á hendur íslenska ríkinu, Arnarhvoli, Reykjavík.

 

I.

         Stefnandi gerir þær dómkröfur aðallega að úrskurður tollstjóra, dags. 5. maí 2010 (úrskurður nr. 3/2010), verði ógiltur og að stefndi verði dæmdur til þess að endurgreiða stefnanda að fullu greiddan virðisaukaskatt og álag samtals að fjárhæð 7.471.900 krónur og beri dæmd fjárhæð dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 26. janúar 2010 til greiðsludags.

        Til vara krefst stefnandi þess að úrskurður tollstjóra, dags. 5. maí 2010 (úrskurður nr. 3/2010), verði ógiltur og að stefndi verði dæmdur til þess að endurgreiða stefnanda greiddan virðisaukaskatt og álag samtals að fjárhæð 5.692.394 krónur og beri dæmd fjárhæð dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 26. janúar 2010 til greiðsludags.

        Til þrautavara krefst stefnandi þess að úrskurður tollstjóra, dags. 5. maí 2010 (úrskurður nr. 3/2010), verði ógiltur og að stefndi verð dæmdur til þess að endurgreiða stefnanda greiddan virðisaukaskatt samtals að fjárhæð 2.254.272 krónur og beri dæmd fjárhæð dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 26. janúar 2010 til greiðsludags.

        Í öllum tilvikum krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað auk virðisaukaskatts á málskostnað, samkvæmt málskostnaðarreikningi sem lagður verður fram við aðalmeðferð málsins eða samkvæmt mati dómsins, og taki tildæmdur málskostnaður mið af því að stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur.

        Stefndi gerir þá kröfu að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað, að mati réttarins.

 

II.

Málsatvik

        Málsatvik eru þau að fyrir um 25 árum hóf söfnuður Hallgrímskirkju að afla fjár fyrir kaupum á listaverki sem nota átti meðal annars sem hurð í kirkjunni. Leitað var til stefnanda, sem er einn virtasti listamaður þjóðarinnar á sínu sviði, um gerð listaverksins og tók stefnandi að sér verkið. Um er ræða skúlptúr listaverk sem er hluti af heildstæðu 14 metra listaverki stefnanda á vesturhlið Hallgrímskirkju og samanstendur af lágmynd úr bronsi, tveimur hlutum úr bronsi með myndverki á ytri og innri hlið sem mynda hurð og steindum glugga sem gerður var árið 1999 og settur upp það ár. Hurðin með myndverkinu, lágmyndin og steindi glugginn mynda eina heild.

          Þann 22. janúar 2010 flutti stefnandi í eigin nafni til landsins frá Þýskalandi þá hluta verks síns sem samanstendur af lágmynd úr bronsi og tveimur hlutum verksins sem mynda bronshurð kirkjunnar með sendingu nr. E BRU 18 01 0 DE HAM W018. Á tollskýrslu kom fram að um listaverk úr bronsi væri að ræða sem félli undir tollskrárnúmer 9703.0000, frumverk af höggmyndum og myndastyttum, úr hvers konar efni .

        Með tölvupósti, dags. 25. janúar 2010, frá fulltrúa tollstjóra til stefnanda hafnaði tollstjóri því að afgreiða listaverkið undir tollskrárnúmerinu 9703.0000 þar sem embættið teldi listaverkið falla undir tollskrárnúmerið 7419-9904, smíðavörur til bygginga. Þann 26. janúar 2010 var gerð ný tollskýrsla og greiddi stefnandi sama dag virðisaukaskatt með 25% álagi af umræddri sendingu, samtals að fjárhæð kr. 7.471.900, með fyrirvara um endurgreiðslu. Þennan dag var sendingin bráðabirgðatollafgreidd í samræmi við 36. gr. tollalaga nr. 88/2005

        Hinn 18. febrúar 2010 kærði stefnandi til tollstjóra þá ákvörðun hans að fella listaverk stefnanda undir tollskrárnúmerið 7419-9904 og byggði á því að það væri mat stefnanda að umrætt listaverk félli sannanlega undir tollskrárnúmer 9703.0000 og bæri því ekki að leggja virðisaukaskatt og vörugjöld á listaverkið við innflutning. Fram kom í máli stefnanda að með engu móti væri hægt að halda því fram að um væri að ræða venjulega handiðnaðarvöru heldur væri listaverk stefnanda sannanlega höggmynd úr bronsi sem félli undir tollskrárflokk 9703.0000.

        Með tölvupósti, dags. 21. apríl 2010, var tollstjóri inntur eftir því hvort viðbragða væri að vænta vegna kæru stefnanda þar sem langur tími væri liðinn frá því að stefnandi sendi inn kæru til tollstjóra. Svar barst frá tollstjóra þann 5. maí 2010 þar sem fram kom að svars væri að vænta á næstu dögum.

        Með úrskurði tollstjóra nr. 3/2010, dags. 5. maí 2010, staðfesti tollstjóri ákvörðun sína um að fella listaverk stefnanda undir tollskrárnúmer 7419.9904. Tollstjóri byggði á því í úrskurði sínum að tollflokkun vara færi eftir notagildi en ekki fagurfræðilegum forsendum. Bæri embættinu því skylda til að tollflokka vörur í samræmi við texta tollskrár, túlkunarreglur tollskrár og önnur viðurkennd lögskýringargögn.

 

III.

Málsástæður og lagarök stefnanda

         Aðalkrafa stefnanda um að stefndi verði dæmdur til þess að endurgreiða stefnanda að fullu greiddan virðisaukaskatt að fjárhæð 7.471.900 krónur vegna sendingar nr. E BRU 18 01 0 DE HAM W018 byggist á því að tollflokkun tollstjóra sé byggð á rangri túlkun tollstjóra á tollskránni. Þannig sé sannanlega um að ræða listaverk stefnanda sem falli undir tollskrárnúmer 9703.0000 í XXI. kafla tollskrárinnar „frumverk af höggmynd‟ í skilningi 4. töluliðar 1. mgr. 36. gr. laga nr. 50/1988 en ekki „smíðavörur til bygginga“ sem falli undir tollskrárnúmer 7419.9904.

        Samkvæmt 36. gr. laga nr. 50/1988 séu ákveðnar vörur undanþegnar virðisaukaskatti við innflutning. Í 4. tölul. 1. mgr. 36. gr. laganna segi að listaverk sem falli undir tollskrárnúmer 9701.1000-9703.0000 og listamaðurinn sjálfur flytur inn skuli vera undanþegin virðisaukaskatti. Þennan skilning leiði af beinu orðalagi 4. tölul. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 50/1988, þ.e. að eftirfarandi skilyrði þurfi að vera uppfyllt til þess að vara sé undanþegin virðisaukaskatti á grundvelli ákvæðisins:

(a)   Um listaverk sé að ræða;

(b)  Að listamaðurinn flytji sjálfur það verk sem um ræðir til landsins í eigin nafni; og

(c)   Að listaverkið falli undir tollskrárnúmer 9701.1000-9703.0000.

 

        Ljóst sé að um „listaverk‟ þurfi að vera að ræða svo ákvæðið eigi við. Samkvæmt orðskýringu íslenskrar orðabókar frá árinu 2002 er orðið „list“ skilgreint sem sú íþrótt að búa til eitthvað fagurt eða eftirtektarvert. Stefnandi sé listamaður að atvinnu og hann hafi menntað sig bæði hérlendis og erlendis sem slíkur. Þá hafi hann kennt við listaskóla bæði hérlendis og erlendis og hlotið viðurkenningar fyrir listaverk sín.

         Stefnandi bendir á að það komi skýrt fram í upphafi niðurstöðukafla úrskurðar tollstjóra að um listaverk sé að ræða sem hannað sé af stefnanda sem listamanni. Þannig liggi ljós fyrir sú afstaða tollstjóra að sá skúlptúr sem hér um ræðir sé sannanlega listaverk stefnanda sjálfs sem listamanns, sbr. orð tollstjóra „þrátt fyrir að vera einnig listaverk‟. Þetta sé í samræmi við flutningsskírteini EUR. 1 sem gefið var út af þýskum tollyfirvöldum þar sem fram komi að um sé að ræða „listaverk úr bronsi – einstakt fyrir Hallgrímskirkju.“

        Stefnandi vísar til þess að í yfirlýsingu safnstjóra Listasafns Reykjavíkur segi m.a. að ekki sé um að ræða hönnun arkitekts, hönnuðar eða smiðs heldur verk myndlistarlærðs manns. Stefnandi sé einn af fremstu myndlistarmönnum íslensku þjóðarinnar sem nú starfi og að bronslistaverk hans fyrir Hallgrímskirkju sé nátengt bæði í form- og efnistökum trúarlegum verkum sem hann hafi unnið í öðrum miðlum. Í yfirlýsingu safnstjóra Listasafns Íslands taki hann fram sem listfræðingur að með engu móti sé hægt að flokka verk stefnanda sem hverja aðra hurð í húsi. Stefnandi sé listamaður og dyrnar hans fyrir Hallgrímskirkju séu listaverk.

        Að öllu þessu virtu telur stefnandi liggja ljóst fyrir að sannanlega sé um listaverk að ræða. Í listaverkið sé m.a. notað brons og rautt glermósaík frá Ítalíu. Rauði liturinn táknar blóð Krists og skúlptúrinn sýni Krist og ímynd mannsins. Inn í listaverkið fléttist svo þyrnikóróna sem leiði inn í handfangið. Milli neðsta hluta listaverksins og steinda gluggans sé síðan brons lágmynd með broti úr Passíusálmum Hallgríms Péturssonar.

         Þá vísar stefndi til þess að í tollskýrslum sem liggi fyrir í málinu komi fram að stefnandi flutti sjálfur inn það listaverk sem um ræðir. Þá hafi stefnandi greitt þau aðflutningsgjöld sem tollstjóri krafði hann um á grundvelli tollskýrslunnar með fyrirvara um réttmæti greiðslunnar og endurgreiðslu vörugjalds og virðisaukaskatts. Framangreint ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 50/1988 geri þá kröfu að listaverkið falli undir tollskrárnúmer 9701.1000-9703.0000 í tollskránni svo ákvæðið eigi við. Tollskráin sé birt í viðauka I við tollalögin nr. 88/2005 og hafi hún því lagagildi, sbr. 5. gr. laga nr. 88/2005. Flokkur XXI og 97. kafli tollskrárinnar beri heitið Listaverk, safnmunir og forngripir. Kaflinn skiptist í sex undirflokka þ.e. frá 9701-9706. Við skoðun á umræddum tollflokkum telur stefnandi augljóst að listaverkið falli í undirflokk 9703.0000 en undir þann undirflokk falli frumverk af höggmyndum og myndastyttum úr hvers konar efni.

        Í tollskránni sé að finna reglur um túlkun tollskrárinnar og túlkunarreglur hennar séu settar að nákvæmri fyrirmynd túlkunarreglna alþjóðlegu tollnafnaskrárinnar. Í athugasemdum í greinargerð með viðauka I í lögum nr. 88/2005 komi fram að tollskráin sé byggð á alþjóðlegu samræmdu vörulýsingar- og vörunúmeraskránni sem kennd sé við Alþjóðatollastofnunina, þ.m.t. almennar túlkunarreglur tollskrárinnar. Í athugasemdunum komi fram að Ísland sé aðili að alþjóðlegum samningum um samræmda vörulýsingar- og vörunúmeraskrá sem liggi til grundvallar tollnafnaskránni, sbr. auglýsingu nr. 25/1987 í C-deild Stjórnartíðinda. Ísland hafi þannig skuldbundið sig til þess að fara eftir alþjóðlegu tollnafnaskránni og almennum reglum um túlkun hennar, sbr. 3. gr. samningsins. Túlkunarreglurnar séu sex talsins og beri að beita fyrstu reglunni fyrst og síðan þeim síðari í réttri númeraröð þegar ekki er unnt að flokka vöru eftir fyrri reglum. Fyrsta túlkunarregla tollskrárinnar sé algjör forgangsregla en hún hljóði svo: „Fyrirsagnir á flokkum, köflum og undirköflum eru einungis til leiðbeiningar. Í lagalegu tilliti skal tollflokkun byggð á orðalagi vöruliða, athugasemda við tilheyrandi flokka eða kafla og brjóti það eigi í bága við orðalag vöruliða eða athugasemda skal fylgt eftirfarandi reglum‟Af framangreindu leiði að við tollflokkun vara beri fyrst og fremst að líta til orðalagsins sem slíks út frá orðanna hljóðan og athugasemda við tilheyrandi flokka eða kafla. Loks sé hægt að líta til annarra túlkunarreglna tollskrárinnar ef slíkt brýtur ekki í bága við orðalag í vöruliðum eða athugasemdum kaflans.

        Stefnandi hafi unnið að gerð listaverksins í Þýskalandi hjá listasmiðjunni Strassacker sem sérhæfi sig í veitingu þjónustu vegna brons höggmynda . Í yfirlýsingu frá listasmiðjunni hafi stefnanda verið veitt staðfesting á því að listaverkið væri sannanlega brons höggmynd stefnanda sjálfs sem hann hafi gert hjá þeim og að um sé að ræða listaverk sem stefnandi flutti til Íslands. Í íslenskri orðabók sé höggmynd skilgreind sem mynd úr steini eða öðru hörðu efni, líkan, stytta. Listaverk stefnanda sé sannanlega gert úr bronsi og fyrir  liggi að meginuppistaða verksins er brons.

        Stefnandi vísar til þess að gerðar hafi verið breytingar á viðauka I við þágildandi tollalög nr. 55/1987 þann 12. desember 1995 með auglýsingu nr. 127/1995 sem birt var í A-deild Stjórnartíðinda og tók gildi þann 1. janúar 1996 en þar segir í 85. tölulið, bls. 742: „3. athugasemd við 97. kafla orðist svo: 3. Til nr. 9703 teljast ekki fjöldaframleiddar endurgerðir af listaverkum eða venjulegar handiðnaðarvörur sem hafa einkenni verslunarvöru, jafnvel þótt vörur þessar séu hannaðar eða búnar til af listamönnum.“ Í 4. tölul. athugasemdanna segir síðan orðrétt: „Leiði ekki annað af 1. til 3. athugasemd hér á undan flokkast vörur í þessum kafla í þennan kafla en ekki neinn annan kafla tollskrárinnar. Í því tilviki sem hér um ræðir sé um að ræða einstakt listaverk sem sérstaklega var gert fyrir Hallgrímskirkju. Samkvæmt skýru ákvæði 4. töluliðar athugasemdanna liggi þannig fyrir að listaverk stefnanda heyri aðeins undir tollskrárnúmer 9703.0000 og ekkert annað númer tollskrárinnar.

       Í úrskurði tollstjóra sé byggt á því að umrætt listaverk eigi að flokkast undir tollskrárnúmer 7419.9904, smíðavörur til bygginga á þeim forsendum að um sé að ræða hurð sem hafi  það notagildi og hlutverk að loka af rými þrátt fyrir að vera einnig listaverk. Stefnandi telur hins vegar að með engu móti sé hægt að flokka það listaverk sem um ræðir undir tollskrárnúmer 7419.9904, smíðavörur til bygginga, eins og tollstjóri vill geri og vísar til fyrstu túlkunarreglu tollskrárinnar þar sem skýrt er kveðið á um að líta beri fyrst og fremst til beins orðalags vöruliða og athugasemda hvers og eins kafla við túlkun hennar. Af fyrrgreindum 4. tölulið athugasemda við 97. kafla verði ekki annað ráðið en að þeirri reglu skuli beitt ef listaverk gæti mögulega einnig fallið undir annan flokk, að það skuli aðeins vera fellt undir tollskrárnúmer 9703.0000. Stefnandi hafni því alfarið þeirri túlkun tollstjóra á tollskránni að líta beri til 73. kafla og 76. kafla hennar við túlkun tollskrárinnar þar sem skýrt er kveðið á um í fyrstu túlkunarreglu hennar að einungis beri að líta til beins orðalags tollflokks og athugasemda umrædds kafla.

        Stefnandi hafnar jafnframt alfarið þeirri túlkun tollstjóra að tollflokkun listaverks ráðist af notagildi þess en hvergi í túlkunarreglum tollskrárinnar sé kveðið á um það. Á hinn bóginn sé skýrt tekið fram í fyrstu túlkunarreglu tollskrárinnar að miða skuli tollflokkun vöru við orðalag vöruliða og athugasemda við tilheyrandi flokka eða kafla tollskrárinnar. Samkvæmt orðalagi tollflokksins 9703.0000 sé skýrt kveðið á um það að frumverk höggmynda falli undir tollflokkinn. Listaverk stefnanda falli því undir tollskrárnúmer 9703.0000 tollskrárinnar.

        Þá vísar stefnandi til þess að í 3. tölul. túlkunarreglna tollskrárinnar séu frekari leiðbeiningar um tollflokkun þegar tveir eða fleiri tollflokkar koma til greina og tollflokkur hafi ekki verið ráðinn með hliðsjón af fyrri túlkunarreglum. Í a-lið 3. tölul. komi fram að sá vöruliður sem feli í sér nákvæmasta vörulýsingu skuli tekinn fram yfir vörulið með almennri vörulýsingu. Því sé ljóst að tollflokkur 9703.0000, frumverk af höggmyndum og myndastyttum, feli í sér nákvæmari lýsingu en tollflokkur 7419.9904, smíðavörur til bygginga. Þá segi enn fremur í b-lið sama töluliðar að ef ekki reynist unnt að flokka vöru á grundvelli ofangreinds þá beri að líta til þess hvað helst einkenni viðkomandi vöru. Listaverk það sem hér er til umfjöllunar sé skúlptúr steyptur í brons, sem vegi í heild sinni um þrjú tonn og sé því mjög frábrugðið venjulegri hurð. Umrætt verk sé fyrst og fremst listaverk sem hafi sjálfstætt gildi sem slíkt en ekki venjuleg hurð. Þannig liggi fyrir að með engu móti sé hægt að leggja listaverk stefnanda að jöfnu við venjulega hurð þrátt fyrir að listaverkið sem slíkt sé notað að hluta til sem hurð.     

        Að öllu þessu virtu telur stefnandi liggja ljóst fyrir, sbr. m.a. fyrstu túlkunarreglu tollskrárinnar og 4. tölul. athugasemda 97. kafla tollskrárinnar að listaverk stefnanda falli einungis undir tollskrárnúmer 9703.0000 og ekkert annað tollskrárnúmer tollskrárinnar. Með vísan til þessa sé verkið undanþegið virðisaukaskatti, sbr. 4. tölulið 1. mgr. 36. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, og beri stefnda því að endurgreiða stefnanda oftekinn virðisaukaskatt að fjárhæð 7.471.900 krónur.

        Varakrafa stefnanda er á því byggð að skipta verði listaverki hans upp í tvennt og meta skyldu hans til greiðslu virðisaukaskatts út frá því. Þannig sé með engu móti hægt að telja bæði brons lágmynd stefnanda og ytri og innri hluta hurðarvængjanna sem smíðavöru til bygginga heldur einungis búnaðinn vegna hurðarinnar, þ.e. stjórnunarbúnaðinn og mótorinn. Sá stjórnunarbúnaður sem um ræðir sé búnaður sem ekki var gerður af stefnanda sjálfum heldur bætt sérstaklega við listaverkið til þess að opna og loka af það rými sem um ræðir. Á hinn bóginn liggi fyrir að aðrir vöruliðir samkvæmt neðangreindri skiptingu séu sannanlega listaverk sem stefnandi gerði sjálfur en um sé að ræða brons lágmynd, framhlið og bakhlið listaverksins, umgjörð og undirstöðu og sendingarkostnað vegna þess. Um rökstuðning fyrir því að aðrir vöruliðir en stjórnunarbúnaðurinn séu listaverk vísast til rökstuðnings fyrir aðalkröfu.

       Stefnandi óskaði eftir nákvæmri kostnaðarskiptingu hjá þýska fyrirtækinu Strassacker sem hélt utan um kostnaðarliði listaverksins hjá stefnanda. þar sem stefnandi vann að listaverkinu og er skiptingin eftirfarandi:

Stjórnunarbúnaður        37.980 evrur

Framhlið listaverks       16.218 evrur

Umgjörð listaverks         7.110 evrur

Bakhlið listaverks          11.970 evrur

Undirstaða listaverks       17.550 evrur

Samtals                           127.578 evrur

Flutningsgjöld                     2.985 evrur

Uppsetning í Reykjavík    12.800 evrur

Samtals                             143.363 evrur

         Af ofangreindri skiptingu og út frá framangreindum röksemdum leiði að einungis beri að greiða virðisaukaskatt vegna stjórnunarbúnaðarins af fjárhæð 37.980 evrur, en ekki af öðrum vöruliðum vegna innflutningsins. Miðað við tollverðsgengið 183,74 samkvæmt tollskýrslu þann 26. janúar 2010 leiði að einungis beri að greiða virðisaukaskatt af fjárhæð 6.978.445 krónum eða samtals virðisaukaskatt að fjárhæð 1.779.506 krónur.

       Að öllu þessu virtu telur stefnandi að honum beri einungis að greiða    virðisaukaskatt vegna þess stjórnunarbúnaðar sem um ræðir en ekki af öðrum þeim vöruliðum sem um ræðir og beri stefnda því að endurgreiða stefnanda oftekinn virðisaukaskatt að fjárhæð 5.692.394 krónur.

        Þrautavarakrafa stefnanda er á því byggð að ekki sé hægt að flokka brons lágmynd stefnanda með broti úr Passíusálmum Hallgríms Péturssonar sem hurð sem falli undir tollskrárnúmer 7419.9904 þar sem sannanlega sé um listaverk að ræða sem falli undir tollskrárnúmer 9703.0000. Með engu móti verði því haldið fram að sú brons lágmynd sem um ræðir sé hurð til þess að loka af rými þar sem sannanlega er um að ræða platta sem er fyrir ofan það rými sem lokast af, sem gerður er af stefnanda. Sú brons lágmynd sem um ræðir beri því ekki virðisaukaskatt heldur aðeins aðrir þættir listaverksins.

        Að þessu virtu telur stefnandi að einungis beri að greiða virðisaukaskatt af fjárhæð 111.360 evrur. Miðað við tollverðsgengið 183,74 samkvæmt tollskýrslu þann 26. janúar 2010 leiði að einungis ber að greiða virðisaukaskatt af fjárhæð 20.461.286 krónum eða samtals virðisaukaskatt að fjárhæð 5.217.628 krónur. Í samræmi við framangreint telur stefnandi að honum beri einungis að greiða virðisaukaskatt vegna annarra vöruliða en brons lágmyndarinnar. Beri stefnda því að endurgreiða stefnanda oftekinn virðisaukaskatt vegna brons lágmyndarinnar að fjárhæð 2.254.272 krónur.

        Um frekari rökstuðning varðandi brons lágmynd stefnanda er vísað til röksemda í aðalkröfu og varakröfu.

        Dráttarvaxtakrafa stefnanda byggir á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Miðast upphafsdagur dráttarvaxta við 26. janúar 2010, þ.e. þann dag sem stefnandi greiddi hinn oftekna virðisaukaskatt með fyrirvara um endurgreiðslu, en líta verði svo á að í fyrirvara stefnanda hafi falist krafa um endurgreiðslu í skilningi framangreinds ákvæðis.

       Stefnandi byggir á 36. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og tollskrá í viðauka I við tollalög nr. 88/2005. Þá byggir krafa stefnanda um endurgreiðslu á ofteknum virðisaukaskatti á lögum nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda og lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Málskostnaðarkrafa stefnanda styðst við 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

 

Málsástæður og lagarök stefnda

        Stefndi mótmælir málavaxtalýsingu stefnanda að því leyti sem hún er í ósamræmi við það sem stefndi heldur fram í málinu.   

        Ágreiningur í máli þessu snýr að ákvörðun tollstjóra um tollflokkun á hurð sem  einnig hafi listrænt gildi. Stefnandi heldur því fram að tollflokka skuli vöruna í tollskrárnúmer 9703.0000 sem frumverk af höggmyndum og myndastyttum, úr hvers konar efni, en ekki í tollskrárnúmer 7419.9904 sem smíðavörur til bygginga. Telur stefnandi ákvörðun tollstjóra byggjast á rangri túlkun á tollskránni þar sem sannanlega sé um listaverk að ræða. Stefndi mótmælir málsástæðum stefnanda.

       Þann 18. janúar 2010 flutti stefnandi inn hurð sem ætluð var fyrir Hallgrímskirkju með sendingu nr. E BRU 18 01 0 DE HAM W018. Þann 22. janúar 2010 lagði stefnandi inn aðflutningsskýrslu þar sem varan var tollflokkuð í tnr. 9703.0000. Samdægurs, og með tölvupósti dags. 25. janúar 2010, sendi embætti tollstjóra athugasemd til stefnanda þar sem honum var bent á að vöruna ætti að tollflokka í tnr. 7419.9904. Þann 26. janúar 2010 var varan bráðabirgðatollafgreidd í samræmi við 36. gr. tollalaga nr. 88/2005. Þann 19. febrúar 2010 barst embætti tollstjóra kæra málsins, dags. 18. febrúar 2010. 

        Stefndi bendir á að umrædd sending hefur enn ekki hlotið endanlega tollafgreiðslu. Stefnandi lagði fram fjártryggingu að fjárhæð 7.471.900 kr. fyrir tollafgreiðslu sendingarinnar en ástæðan fyrir því að fjártrygging var lögð fram var að hluti sendingarinnar hefði innihaldið verkfæri sem flutt voru inn tímabundið og skyldi því endurgreiða þann hluta tryggingarinnar þegar verkfærin færu aftur út. Ljóst sé að of lágrar fjártryggingar hafi verið krafist af hálfu tollstjóra. Heildarkrafa vegna álagðra aðflutningsgjalda sé kr. 12.041.472 og því standa eftir eftirstöðvar að fjárhæð 4.569.572 kr. sem enn eru ógreiddar og af þeim sökum hafi sendingin ekki hlotið endanlega tollafgreiðslu. Stefnandi hefur ekkert fjallað um þetta atriði í stefnu.

        Stefndi telur það óumdeilt að um sé að ræða vöru, fagurlega skreytta hurð sem í daglegu tali myndi teljast vera listaverk, sem hönnuð sé af listamanni og sérhönnuð til að nota sem útihurð í aðalinngangi Hallgrímskirkju. Hins vegar liggi ágreiningurinn í því hvort tollflokka skuli vöruna sem listaverk eða hurð úr kopar. Varan sé nánar tiltekið úr bronsi sem er kopartinblendi og flokkist í 74. kafla með öðrum kopar og vörum úr honum. Við tollflokkun skipti eðli málsins samkvæmt mestu máli hvert sé hið raunverulega notagildi vörunnar. Enginn vafi leiki á að um hurð sé að ræða og sé varan notuð með þeim hætti í dag.

        Tollflokkun byggist á ákveðnum, formbundnum reglum. Lögbundið sé að færa skuli vöru til tollflokks samkvæmt almennum reglum um túlkun tollskrárinnar. Tollskráin sé birt sem viðauki I við tollalög nr. 88/2005 og sé gerð í samræmi við vörunúmeraskrá Alþjóðatollastofnunarinnar. Reglur um túlkun skrárinnar séu birtar fremst í skránni. Stefnandi vísi til 1. túlkunarreglu tollskrárinnar þar sem segi að horfa beri til orðalags vöruliða þegar vara er tollflokkuð. Meginreglan sé sú að tollflokkun skuli byggð á orðalagi vöruliða og athugasemda við viðeigandi kafla og flokka. 

        Af skýringunum megi jafnframt vera ljóst að það sem helst einkennir vöru hafi afgerandi áhrif á hvar flokka skuli vöru. Þannig segi í b-lið 3. töluliðs almennra reglna um túlkun tollskrár að samsettar vörur skuli flokka eftir því sem helst einkennir vörurnar. Þannig sé ekki hægt að halda því fram að listaverk sem á sér hliðstæðu í almennri verslunarvöru og hafi jafnframt sértæk einkenni og notagildi skuli sett í minna lýsandi tollflokk umfram þann sem taki mið af sértækum einkennum vörunnar og notagildi.  

        Einnig skuli flokkun vara í undirliði einstakra vöruliða vera byggð á orðalagi undirliða og sérhverri tilheyrandi athugasemd við undirliði skv. túlkunarreglu 6 fremst í skránni. Koparhurðir séu ekki nefndar sérstaklega í 74. kafla tollskrárinnar en smíðavörur til bygginga séu nefndar í undirliðnum í tnr. 7419.9904. Ef litið sé til 73. kafla, vörur úr járni eða stáli, séu hurðir sérstaklega nefndar þar í vörulið 7308 sem sé meðal annars fyrir hluti til mannvirkja. Sama gildi um 76. gr. tollskrárinnar, vörur úr áli, þar séu hurðir sérstaklega nefndar í vöruliðnum 7610. Ekki séu hurðir nefndar í fleiri málmköflum en járn, stál og ál séu alla jafnan algengustu hráefnin í hurðir fyrir utan tré. Með vísan til þessa hafi verið rétt að tollflokka vöruna í tnr. 7419.9904. 

 

        Stefnandi byggi á því að samkvæmt áðurnefndri túlkunarreglu sé ekki hægt að flokka umrædda vöru sem smíðavörur til bygginga. Á þetta fellst stefndi ekki og mótmælir þessum rökum. Sem dæmi megi taka vörulið 4418 sem séu trésmíðavörur til bygginga. Þar sé í undirlið gert ráð fyrir hurðum og körmum. Eðli máls samkvæmt falli þá hurðir úr kopar undir vörulið 7419 sem smíðavörur til bygginga (úr kopar) enda komi enginn annar vöruliður til greina fyrir slíkar hurðir. Ekki sé til sérstakur undirliður í koparkaflanum fyrir hurðir og karma. Það sé væntanlega vegna lítils umfangs verslunar á slíkum vörum. Ef verslun er ekki veruleg sé ekki talin þörf á að búa til sérskiptingar fyrir þær vörur. Einnig sé skiptingum eytt ef verslun á vöru sem áður var mikil minnkar og ekki er útlit fyrir að hana taki upp aftur. Skiptingar fyrir hurðir og karma sé til staðar í köflum þar sem meiri verslun er svo sem í timbur- eða járnköflunum. En jafnvel þótt undirliðurinn sé ekki til staðar í koparkaflanum sé augljóst af vörulið 4418 að smíðavörur til bygginga innihaldi einnig hurðir.

        Stefnandi vísar einnig til athugasemdar 4 a við kafla 97 sem segir að vörur sem uppfylli kröfur liða 1 – 3 við þann kafla skuli flokka í þennan kafla. Þetta ákvæði kveði á um að ekki skipti máli úr hvaða efni listaverk sé, öll listaverk skuli flokka í þennan kafla. Í þessu tilviki eigi athugasemd 4 við kafla 97 ekki við þar sem það sé álit stefnda að notagildi vörunnar ráði við tollflokkun hennar. Notagildið sé, eins og áður hefur komið fram, hurð og skuli hún því flokkast sem slík í viðeigandi kafla eftir smíðaefni vörunnar en ekki sem listaverk.

       Stefndi hafnar þeirri fullyrðingu stefnanda að notagildi vöru komi ekki til skoðunar þegar vara er tollflokkuð. Þvert á móti gildi hið gagnstæða. Tollflokkun vara fari ekki eftir fagurfræðilegum forsendum heldur eftir notagildi hlutarins. Hlutverk hurðar sé að loka af rými og hafi umrædd vara það notagildi og hlutverk, þrátt fyrir að vera einnig listaverk. Vara sé ávallt tollflokkuð eins og hún er við innflutning og þá sé fyrst og fremst horft til tilgangs eða notagildis vörunnar. Þessu til skýringar megi taka sem dæmi að ef bifhjól væri flutt inn til landsins sem væri fagurlega útskorið eftir listamann yrði það ávallt flokkað sem bifhjól en ekki listaverk. Jafnvel þótt hjólið væri augljóslega einnig listaverk réði notagildi þess sem bifhjóls ákvörðun um tollflokkun. Sú staðreynd að hjólið væri handunnið og væri ekki fjöldaframleitt myndi ekki breyta tollflokkun þess sem bifhjóls.

 

        Stefndi vísar til þess að túlkunarregla 3 a segi að flokka skuli vöru í þann vörulið þar sem nákvæmustu lýsingu sé að finna. Stefndi hafnar því að þessi regla eigi við í þessu máli þar sem varan gæti flokkast sem tvær algjörlega óskyldar vörur. Túlkunarregla 3 a taki til vöru þar sem fleiri en einn vöruliður komi til greina en ekki þegar  deilt sé um það um hvaða vöru sé að ræða eins og eigi við í þessu máli. Þessu verði gerð betur skil með því að taka dæmi og sé hér nefnd skeggrakvél. Vörunni sé lýst í mjög grófum dráttum í vörulið 8205 sem handverkfæri. Í vörulið 8467 sé henni betur lýst sem handverkfæri sem knúið er með rafmagnsmótor. Í vörulið 8509 sé henni svo enn betur lýst sem rafmagnsheimilistæki. Vörunni sé síðan fullkomlega lýst í vörulið 8510 þar sem rakvélar eru sérstakleg tilteknar í vöruliðnum og myndi varan falla undir þann vörulið, ekki sé deilt um það um hvernig vöru sé að ræða. Ljóst sé að varan sé skeggrakvél en spurningin sé hvar rakvélin sé best tollflokkuð. Í þessu máli sé deilt um það um hvernig vöru sé að ræða, hvort um sé að ræða hurð eða listaverk. Koparhurðum sé jafn ítarlega lýst í vörulið 7419, sem smíðavöru til bygginga, eins og höggmyndum er lýst í vörulið 9703.

        Stefnandi haldi því fram að umrædd vara geti hæglega átt heima á safni, en stefndi telur þessa fullyrðingu stefnanda ekki skipta neinu máli við tollflokkun vörunnar. Þegar vörur séu fluttar inn til landsins séu þær ávallt tollflokkaðar eftir notagildi eða því til hvers megintilgangur þeirra bendi, en ekki eftir því hvernig innflytjandi hyggist nota vöruna.

        Stefndi bendir jafnframt á ákveðinn ómöguleika sem falinn sé í kröfu stefnanda um að vara verði tollflokkuð með svo óhlutlægum hætti sem stefnandi geri kröfu um. Það væri afar miklum annmörkum háð í framkvæmd ef vara, sem hefur notagildi, sértæk einkenni og á sér hliðstæðu í almennri verslunarvöru, gæti talist til listaverka í skilningi tollskrár því þannig væri það háð fagurfræðilegu mati tollstjóra hvort ð vara teldist vera t.d. hurð eða listaverk eða gluggi eða listaverk. Í því sambandi vísar stefndi til úrskurðar ríkistollanefndar nr. 4/2009 um listaverk sem þjónaði þeim tilgangi að vera gluggi í kirkju. Varan sé algerlega sambærileg þeirri vöru sem hér sé deilt um þar sem um smíðavörur til bygginga sé að ræða í báðum tilvikum. Önnur varan þjóni þeim tilgangi að vera gluggi í byggingu meðan hin varan þjóni þeim tilgangi að vera hurð í byggingu. Báðar vörurnar séu taldar listaverk í daglegu tali enda hannaðar af listamönnum. Ríkistollanefnd hafi metið það að notagildi vörunnar réði þegar að tollflokkun kæmi og hafi varan verið flokkuð sem gluggi en ekki listaverk.

 

Þá bendir stefndi á að í dómskjölum sem stefnandi leggur fram sé EUR-skírteini sem stefndi hafi ekki séð á fyrri stigum málsins. Ekkert í stefnu bendi til þess að hann krefjist þess að tekið verði tillit til EUR-skírteinisins við afgreiðslu málsins. Skírteinið hafi ekki verið lagt fram á fyrri stigum málsins þegar það var til afgreiðslu hjá embætti tollstjóra.

        Stefndi bendir á að úrskurður embættis tollstjóra sé dags. 12. maí 2010 þar sem embætti tollstjóra staðfesti ákvörðun tollstjóra og hafi stefnanda verið bent á að heimilt væri að skjóta úrskurðinum til ríkistollanefndar, en það hafi stefnandi ekki gert.

        Stefndi mótmælir sem rangri þeirri málsástæðu sem stefnandi byggi aðallega á í stefnu, að stefndi verði dæmdur til að endurgreiða stefnanda að fullu greiddan virðisaukaskatt að fjárhæð kr. 7.471.900 vegna sendingar nr. E BRU 18 01 0 DE HAM W018 sem grundvallist á því að tollflokkun tollstjóra sé byggð á rangri túlkun tollstjóra á tollskránni. Í 1. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt sé kveðið á um þá meginreglu að greiða skuli í ríkissjóð virðisaukaskatt af viðskiptum innanlands á öllum stigum, svo og af innflutningi vöru og þjónustu, eins og nánar sé ákveðið í lögunum. Í málinu reyni einnig á túlkun 4. tölul. 36. gr. sbr. einnig 2. tölul. 4. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. 

        Stefndi vísar til þess að í 36. gr. laga nr. 50/1988 séu taldar upp í nokkrum töluliðum vörur sem undanþegnar séu virðisaukaskatti við innflutning. Þeirra á meðal séu listaverk sem falla undir tollskrárnúmer 9701.1000 – 9703.0000 og listamaðurinn sjálfur flytur inn, sbr. 4. tölul. ákvæðisins. Þau listaverk sem falli undir 4. tölul. 36. gr. laga nr. 50/1988 séu þau sömu og falli undir 2. tölul. 4. gr. sömu laga. Í skýringum við einstakar greinar í frumvarpi því er varð að lögum nr. 50/1988 séu litlar skýringar að finna á því hvers konar listaverk falli undir undanþáguna. Þó segi eftirfarandi í skýringum við 4. gr.:  „Undir hugtakið listaverk í þessu samhengi falla ekki endurgerðir listaverka í fjöldaframleiðslu eða handiðnaðarvörur með einkenni verslunarvöru.“

 

Eftirtalin listaverk falli í tollskrárnúmer 9701.1000 – 9703.0000:

 

  1.  Málverk, teikningar og pastelmyndir gerðar í höndum að öllu leyti, þó ekki:

a.       uppdrættir og teikningar til notkunar í húsagerð, verkfræði, iðnaði, viðskiptum, landslagsfræði eða þess háttar handgerð frumverk;

b.     handskrifaður texti;

c.      ljósmyndir á ljósnæmum pappír;

d.     kalkipappírsafrit af framannefndu;

e.      handmálaðir eða handskreyttir framleiddir hlutir;

  1. Klippimyndir og áþekk veggskreytisspjöld.

  2. Frumverk af stungum, þrykki og steinprenti.

  3. Frumverk af höggmyndum og myndastyttum, úr hvers konar efni.

 

        Í skattframkvæmd hefur verið litið svo á að undir ákvæði 2. tölul. 4. gr. laga nr. 50/1988 verði ekki felld sala nytjamuna sem telja verður að eigi sér hliðstæður í almennri verslunarvöru. Ákvæðið feli í sér tæmandi talningu og við mat á því hvaða vörur falla þarna undir ber að líta til þess að um undanþáguákvæði er að ræða sem ekki verður skýrt rýmri skýringu en orðalag þess gefur til kynna. Þessi sjónarmið koma m.a. fram í úrskurði yfirskattanefndar nr. 105/2004.

        Stefndi mótmælir því að hin umrædda vara falli undir 36. gr. laga nr. 50/1988. Vara sú sem stefnandi flutti inn og mál þetta fjallar um hafi ekki verið vara sem undanþegin var virðisaukaskatti við innflutning og sé því mótmælt enda skilyrðum ákvæðisins ekki fullnægt. Þá mótmælir stefndi því að vara sú sem stefnandi flutti inn falli undir tollskrárnúmer 9703.0000 í XXI. kafla tollskrár.

         Stefndi byggir á því að ákvarðanir tollyfirvalda hafi verið réttar og lögmætar og mótmælir öðru sem röngu. Engin skilyrði séu til að ógilda úrskurð tollstjóra og engin skilyrði séu til að greiða stefnanda samkvæmt kröfum hans, en með með úrskurði sínum staðfesti embætti tollstjóra skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, ákvörðun tollstjóra um tollflokkun vöru sem flutt var inn með sendingu nr. E BRU 18 01 0 DE HAM W018.

        Stefndi mótmælir því sem segir í stefnu efst á bls. 5 að verk stefnanda heyri aðeins undir tollskrárnúmer 9703.0000 og ekkert annað númer tollskrárinnar. Þá hafnar stefndi gagnrýni stefnanda á ákvörðun tollstjóra og síðar úrskurð embættis tollstjóra. Stefndi hafnar öllum sjónarmiðum stefnanda um að varan skuli falla undir tollskrárnúmer 9703.0000.  Með vísan til framangreinds hafnar stefndi því að umrædd vara hafi verið ranglega tollflokkuð og telur að hún skuli flokkast í tollskrárnúmer 7419.9904.

         Stefndi tekur undir rökstuðning í úrskurði tollstjóra og vísar til hans og telur úrskurðinn lögmætan að öllu leyti og engar forsendur séu til að ógilda hann.

         Stefndi mótmælir varakröfu og þrautavarakröfu stefnanda, sem báðar lúti að því að varan verði sundurgreind, og þeim málsástæðum og sjónarmiðum stefnanda sem þessar dómkröfur byggjast á. Stefndi bendir á að varan hafi komið ósamsett til landsins. Túlkunarregla 2 a kveði á um að ósamsettar vörur skuli tollflokka eins og um fullsamsetta vöru væri að ræða. Hurðin, karmurinn og lágmyndin mynda því eina heild sem hurð á byggingu. Af þessu leiði að allt skal þetta tollflokkast sem ein heild, eða smíðavara til byggingar í tollskrárnúmer 7419.9904. Með vísan til þessa hafnar stefndi alfarið að hægt verði að sundurgreina einstaka hluti af hurðinni og flokka þá sérstaklega. Stefndi mótmælir því alfarið öllum kröfum stefnanda. Varðandi umfjöllun um varakröfu og þrautavarakröfu stefnanda vísar stefndi til sömu málsástæðna og sjónarmiða og sett hafi verið fram hér að framan varðandi aðalkröfu hans.     

        Stefndi hafnar vaxta- og dráttarvaxtakröfu stefnanda og telur að ef dæma á vexti/dráttarvexti sé það frá þingfestingu stefnu ef á slíkar kröfur verður fallist.  Engin krafa liggi fyrir fyrr en með stefnu og mótmælir stefndi því að litið verði á fyrirvara um endurgreiðslu sem kröfu um endurgreiðslu.

 

IV.

Niðurstaða

         Í máli þessu er deilt um það með hvaða hætti beri að tollflokka listaverk sem jafnframt nýtist sem hurð á Hallgrímskirkju. Stefnandi heldur því fram að tollflokka beri verkið í tnr. 9703.0000, frumverk af höggmyndum og myndastyttum, úr hvers konar efni, í skilningi 4. töluliðar 1. mgr. 36. gr. laga nr. 50/1988, en tollstjóri úrskurðaði að tollflokka bæri verkið sem smíðavörur til bygginga, tnr. 7419.9904.

        Stefndi hafnar öllum sjónarmiðum stefnanda um að varan skuli falla undir tollskrárnúmer 9703.0000 og hafnar stefndi því að umrædd vara hafi verið ranglega tollflokkuð og telur að hún skuli flokkast í einu lagi undir tollskrárnúmer 7419.9904.

                Ekki er um það deilt í máli þessu að um sé að ræða frumgerð listaverks, sbr. 1. málsgrein niðurstöðukafla í úrskurði tollstjóra nr. 3/2010 frá 12. maí 2010. Þetta er í samræmi við flutningsskírteini EUR 1 sem gefið var út af þýskum tollayfirvöldum og liggur fyrir í máli þessu, en þar kemur fram að um sé að ræða listaverk úr bronsi fyrir Hallgrímskirkju.

        Í úrskurði tollstjóra er hins vegar á því byggt að umrætt listaverk hafi verið sérhannað til að nota sem útihurð í aðalinngangi Hallgrímskirkju og tollflokkun fari ekki eftir fagurfræðilegum forsendum heldur eftir notagildi hlutarins.

         Samkvæmt 36. gr. laga nr. 50/1988 eru ákveðnar vöru undanþegnar virðisaukaskatti við innflutning og í 4. tölulið 1. mgr. 36. gr. laganna segir að listaverk sem falli undir tollskrárnúmer 9701.1000-9703.0000 og listamaðurinn flytur inn sjálfur skuli vera undanþegin virðisaukaskatti. Eins og að framan er rakið er ljóst að um listaverk var að ræða, listamaðurinn flutti verkið inn sjálfur í eigin nafni. Eftir er þá að taka afstöðu til þess hvort listaverkið falli undir tollskrárnúmer 9701.1000-9703.0000.

        Í máli þessu er ágreiningsefnið túlkun á tollskránni, en hún byggist á samræmdri vörulýsingar- og númeraskrá sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig að þjóðarétti til að fara eftir. Tollskráin er lögfest sem viðauki við tollalögin nr. 88/2005 og hefur því lagagildi sem slík, sbr. 5. gr. laga nr. 88/2005. Í fyrstu túlkunarreglu tollskrárinnar segir: „Fyrirsagnir á flokkum, köflum og undirköflum eru einungis til leiðbeiningar. Í lagalegu tilliti skal tollflokkun byggð á orðalagi vöruliða, athugasemda við tilheyrandi flokka eða kafla og brjóti það eigi í bága við orðalag vöruliða eða athugasemda skal fylgt eftirfarandi reglum.“

        Flokkur XXI og 97. kafli tollskrárinnar hefur heitið Listaverk, safnmunir og forngripir. Kaflinn skiptist í sex undirflokka, 9701-9706. Undir flokk 9703.0000 falla frumverk af höggmyndum og myndastyttum, úr hvers konar efni. Í athugsemdum við 97. kafla, 4. tölulið segir: „Leiði ekki annað af 1. til 3. athugasemd hér á undan flokkast vörur í þessum kafla í þennan kafla en ekki neinn annan kafla tollskrárinnar.‟

         Tollstjóri telur í úrskurði sínum að umrætt listaverk skuli flokkast sem tollskrárnúmer 7419.9904, smíðavörur til bygginga og byggir á þeirri forsendu að um hurð sé að ræða sem hafi það notagildi að loka af rými þrátt fyrir að vera einnig listaverk. Samkvæmt skiptingu kostnaðarliða verksins frá þýska fyrirtækinu Strassacker, en þar vann stefnandi að verkinu, er stjórnunarbúnaðurinn aðeins lítill hluti listaverksins, en hann einn og sér gæti væntanlega flokkast undir tollskrárnúmer 7419.9904. Verkið kom ósamsett til landsins og túlkunarregla tollskrár 2a kveður á um að ósamsettar vörur skuli tollflokka sem eina heild. Af þessu leiðir að ekki kemur til álita að stjórnunarbúnaðurinn verði tollflokkaður sér.

 

 

       Í máli þessu er um að ræða skúlptúr listaverk sem er hluti af heildstæðu 14 metra listaverki á vesturhlið Hallgrímskirkju sem stefnandi tók að sér að gera fyrir söfnuð Hallgrímskirkju. Listaverkið samanstendur af lágmynd úr bronsi, tveimur hlutum úr bronsi með myndverki á ytri og innri hlið sem mynda hurð og steindum glugga sem gerður var og settur upp árið 1999. Hurðin með myndverkinu er þannig hluti af þessu listaverki. 

       Undir rekstri málsins skoraði stefnandi á stefnda að upplýsa hvort aðalhurðir Fossvogskirkju og Seðlabanka Íslands hefðu verið tollflokkaðar sem listaverk og kvað ástæðu áskorunar þá að umræddar hurðir, sem báðar séu eftir listamenn, hafi réttilega verið tollflokkaðar sem listaverk. Stefnandi kvaðst ekki geta sannreynt þetta en það væri hægðarleikur fyrir stefnda og yrði stefndi ekki við þessari áskorun byggi stefnandi á því að nefndar hurðir hafi réttilega verið tollflokkaðar sem listaverk. Stefndi hafnaði því að verða við þessari áskorun þar sem ekki hefði verið byggt á þessari málsástæðu í stefnu, en mótmælti því að umræddar hurðir hefðu verið tollflokkaðar með öðrum hætti.  

       Ekki verður fallist á rök tollstjóra fyrir tollflokkun umþrætts listaverks undir  tollskrárnúmer 7419.9904, smíðavörur til bygginga og að notagildi umrædds verks sem hurðar ráði úrslitum um tollflokkun. Með vísan til 4. töluliðs athugasemda við 97. kafla tollskrárinnar verður talið að flokka beri umrætt verk undir flokk 9703.0000, sbr. í þessu sambandi dóma Evrópudómstólsins í málunum C-155/84 (Onnasch) og C-231/89. Samkvæmt þessari niðurstöðu er umrætt verk undanþegið virðisaukaskatti, sbr. 4. tölulið 1. mgr. 36. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, og ber stefnda því að endurgreiða stefnanda oftekinn virðisaukaskatt að fjárhæð 7.471.900 krónur.

        Varðandi dráttarvaxtakröfu stefnanda sem byggð er á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 og 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda ber að miða við að upphafsdagur dráttarvaxta sé 26. janúar 2010, það er sá dagur er stefnandi greiddi hinn oftekna virðisaukaskatt með fyrirvara um endurgreiðslu. Af hálfu stefnda er dráttarvaxtakröfu hafnað og ef á slíka kröfu er fallist sé upphafstími dráttarvaxta við þingfestingu stefnu. Líta verður svo á að með fyrirvara stefnanda hafi falist krafa um endurgreiðslu í skilningi framangreinds ákvæðis. 

        Að öllu framanskráðu athuguðu og virtu verður fallist á aðalkröfu stefnanda með þeim hætti sem kveðið er á um dómsorði. Samkvæmt þessari niðurstöðu ber stefnda, með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að greiða stefnanda málskostnað eins og í dómsorði greinir.

        Vegna embættisanna dómara hefur uppkvaðning dóms dregist umfram frest skv. 1. mgr. 115. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Lögmenn eru sammála dómara um að ekki sé þörf á endurflutningi málsins.

        Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

       Felldur er úr gildi úrskurður tollstjóra nr. 3/2010, dags. 5. maí 2010. Stefndi, íslenska ríkið, endurgreiði stefnanda, Leifi Breiðfjörð, greiddan virðisaukaskatt og álag samtals að fjárhæð 7.471.900 kr. auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 26 janúar 2010 til greiðsludags.

        Stefndi greiði stefnanda  600.000 kr. í málskostnað.

                                                            Þórður Clausen Þórðarson