• Lykilorð:
  • Aðilaskipti
  • Aðild
  • Vinnulaun
  • Vinnulaunamál

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur fimmtudaginn 20. október 2011 í máli nr. E-354/2011:

Agnieszka Ewa Lubas

(Anna Lilja Sigurðardóttir, hdl.)

gegn

Lífi og heilsu ehf.

(Sævar Þór Jónsson, hdl.)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 22. september sl., er höfðað af Agnieszku Ewu Lubas, kt. 230680-4349, Kapellustíg 13, Reykjavík, með stefnu birtri 10. janúar sl. á hendur Lífi og heilsu ehf., kt. 600904-2210, Engjateigi 5, Reykjavík.

Stefnandi gerir þær kröfur í málinu, að stefnda verði dæmt til að greiða sér skuld að fjárhæð 995.251 króna, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 115.739 krónum frá 1. júlí 2010 til 1. ágúst 2010, af 351.908 krónum frá 1. ágúst 2010 til 1. september 2010, af 588.077 krónum frá 1. september 2010 til 1. október 2010, en af 995.251 krónu frá 1. október 2010 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Af hálfu stefnda er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda auk málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins.

 

I

Helstu málavextir eru þeir, að stefnandi réði sig til starfa á veitingastaðnum McDonald´s í maí 2006, sem rekinn var af Lyst ehf., en nafn veitingastaðarins breyttist í Metro árið 2009, og starfaði stefnandi sem vaktstjóri á veitingastað Lystar ehf. í Kringlunni. Í maí 2010 var stefnanda og öðru starfsfólki þess veitingastaðar tilkynnt að loka ætti staðnum 10. maí. Í kjölfarið starfaði stefnandi á veitingastaðnum Metro í Skeifunni fram í miðjan júní, en fékk þá ekki frekari vinnu þar. Stefnda tók við rekstri veitingastaðarins Metro 2. júní 2010, en Lyst ehf. var úrskurðað gjaldþrota 9. júlí sama ár. Var stefnanda aldrei sagt upp störfum skriflega, hvorki af hálfu Lystar ehf. né Lífs og heilsu ehf.

Áður hafði Lyst ehf. gert tvo samninga um sölu á vörulager og lausafé á starfsstöðvum sínum. Hinn fyrri, frá 30. apríl 2010, er kaupsamningur milli Lystar ehf. og Bryggjuhússins ehf., þar sem Lyst ehf. seldi þar til greind áhöld og tæki samkvæmt tækjalista til veitingarekstrar, sem voru staðsett á starfsstöð Lystar ehf. í Kringlunni. Hinn síðari, frá 4. maí 2010, er kaupsamningur og afsal milli Lystar ehf. og stefnda í máli þessu, þar sem stefnda kaupir allan lager og allan búnað seljanda til reksturs veitingahúsa, þ.e. vörulager, lausafé, vélar, áhöld og tæki. Í samningnum er tekið fram, að kaupandi, stefnda, taki yfir skuldbindingar seljanda vegna starfsmanna hans, sem hefji störf hjá kaupanda við upphaf rekstrar, en uppgjör átti að miða við 5. júní 2010, sem var sá dagur, sem kaupandi tæki við hinu keypta og þeim starfsmönnum seljanda, sem störfuðu á starfsstöðvum seljanda að Suðurlandsbraut í Reykjavík og Smáratorgi í Kópavogi, sem það kysu. Sambærileg ákvæði er ekki að finna í fyrri samningnum, en Bryggjuhúsið ehf. réði þó til sín hluta af þeim starfsmönnum, sem starfað höfðu á starfsstöð Lystar ehf. í Kringlunni. Fyrir liggur í málinu, að stefnda tók við rekstri ofangreindra starfsstöðva samkvæmt kaupsamningi 2. júní 2010.

Stefnandi leitaði til stéttarfélags síns, sem sendi hana með bréf 18. júní 2010 til rekstraraðila Metro, en stílað á Lyst ehf., þar sem skorað var á fyrirtækið að fara að ákvæðum laga og kjarasamninga. Fékk stefnandi engar vaktir úthlutaðar hjá stefnda þrátt fyrir það. Sendi stéttarfélag stefnanda stefnda svo launakröfu 8. júlí 2010, þar sem gerð var krafa um vangreidd laun, laun á uppsagnarfresti, orlof og uppbætur. Var krafan fengin lögmanni til innheimtu, sem sendi stefnda innheimtubréf 6. og 27. október 2010.

Stefnandi og framkvæmdastjóri stefnda, Ásgerður Guðmundsdóttir, gáfu skýrslu fyrir dómi, auk vitnanna Magnúsar Ögmundssonar, Þórðar Bachmann, sem gaf símaskýrslu, og Jóns Garðar Ögmundssonar, sem er fyrrverandi eigandi og framkvæmdastjóri Lystar ehf., en núverandi rekstrarstjóri stefnda.

 

II

Stefnandi kveðst hafa ráðið sig til starfa á veitingastaðnum McDonald´s í maí 2006, sem rekinn hafi verið af Lyst ehf., en síðar hafi nafni veitingastaðarins verið breytt í Metro. Stefnandi kveðst hafa starfað sem vaktstjóri á veitingastað Lystar ehf. í Kringlunni. Í maí 2010 hafi stefnanda og öðru starfsfólki þess staðar verið tilkynnt að loka ætti staðnum 10. maí. Í kjölfarið hafi stefnandi starfað á veitingastaðnum Metro í Skeifunni fram í miðjan júní, en þá verið tjáð, að engin vinna væri fyrir hana, þótt henni hafi ekki verið sagt upp störfum skriflega.  Stefnandi hafi ítrekað leitað eftir því við stefnda að fá upplýsingar um áframhaldandi störf en án árangurs. Hinn 2. júní 2010 hafi stefnda tekið við rekstri veitingastaðarins Metro. Félagið Lyst ehf. hafi verið úrskurðað gjaldþrota 9. júlí 2010. Þar sem stefnandi hafi verið í algjörri óvissu um áframhaldandi störf hjá stefnda, hafi hún leitað til Eflingar-stéttarfélags í júní 2010. Stéttarfélagið hafi sent stefnanda með bréf til stefnda, sem  reyndar hafi verið stílað á Lyst ehf./Metro, þar sem skorað hafi verið á fyrirtækið að fara að ákvæðum laga og kjarasamninga. Engin viðbrögð hafi fengist við bréfinu og enn hafi stefnandi ekki fengið úthlutaðar vaktir hjá stefnda þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir hennar þar um. Efling-stéttarfélag hafi því sent stefnda launakröfu, dagsetta 8. júlí 2010, þar sem gerð var krafa um vangreidd laun, laun á uppsagnarfresti, orlof og uppbætur. Þar sem engin viðbrögð hafi orðið við kröfunni, hafi hún verið afhent lögmanni stéttarfélagsins til innheimtu. Innheimtubréf hafi verið sent 6. september 2010, sem ítrekað hafi verið 27. október 2010. Þar sem engin viðbrögð hafi orðið af hálfu stefnda við kröfunni, hafi stefnandi ekki átt annarra kosta völ en að stefna málinu fyrir dóm.

Stefnandi gerir kröfu um greiðslu vangreiddra launa í júní og launa á uppsagnarfresti í júlí til september 2010, orlofs og uppbóta og byggir stefnandi kröfu sína á ákvæðum laga og kjarasamningi Eflingar-stéttarfélags og Samtaka atvinnulífsins fyrir hótel og veitingahús, launaseðlum og bankayfirliti stefnanda.

Í málinu gerir stefnda kröfu um greiðslu vangreiddra launa í júní 2010. Byggir krafan á þeirri meginreglu vinnuréttarins, að vinnuveitandi beri skyldu til greiðslu launa til starfsmanns fyrir alla þá vinnu, sem hann innir af hendi. Samkvæmt síðasta launaseðli stefnanda fyrir maímánuð 2010 hafi heildarlaun hennar fyrir árið 2010 numið 1.180.845 krónum að frádregnum skó- og þvottagreiðslum og orlofi. Meðaltalslaun stefnanda séu fundin með því að deila fimm mánuðum í þá fjárhæð, sem geri 236.169 krónur. Frá kröfunni dragist innborgun frá stefnda frá 2. júlí 2010 að fjárhæð 120.430 krónur. Samtals sé því gerð krafa vegna vagngreiddra launa í júní að fjárhæð 115.739 krónur.

Í júníbyrjun hafi orðið aðilaskipti að fyrirtækinu Lyst ehf. og hafi stefnda tekið við rekstri veitingastaða Lystar, Metro. Í kjölfarið hafi orðið einhverjar breytingar á rekstrinum, sem hafi leitt til þess, að stefnandi hafi ekki fengið úthlutaðar vaktir og hafi verið í mikilli óvissu um framtíðarstarf sitt hjá stefnda. Stefnandi hafi ítrekað óskað eftir upplýsingum frá stefnda, en án árangurs. Þar sem stefnandi hafi ekki fengið nein svör frá stefnda, hafi verið litið svo á, að henni hefði verið sagt upp störfum um miðjan júní 2010, þegar hún hafi verið send heim vegna verkefnaskorts. Samkvæmt ákvæði 13.1. í kjarasamningi Eflingar-stéttarfélags og Samtaka atvinnulífsins hafi stefnandi átt þriggja mánuða uppsagnarfrest. Að því er varði starfstíma sinn vísar stefnandi til laga nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laganna hafi öll réttindi og allar skyldur Lystar ehf. samkvæmt ráðningarsamningi fluttst yfir til stefnda við aðilaskiptin að fyrirtækinu. Þannig hafi stefnandi átt þriggja mánuða uppsagnarfrest, enda búin að starfa hjá Lyst ehf. í meira en þrjú ár. Samkvæmt 6. mgr. 1. gr. laga nr. 19/1979 um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla og ákvæði 13.2.1. í framangreindum kjarasamningi, skuli uppsögn vera skrifleg.

Um útreikning þessa kröfuliðar miðar stefnandi við meðaltalslaun stefnanda á tímabilinu janúar til maí 2010, eins og að framan greinir, og er því gerð krafa um greiðslu á 708.507 krónum.

Þá gerir stefnandi kröfu um greiðslu áunnins orlofs samkvæmt launaseðli fyrir maímánuð 2010, orlof á vangreidd laun og laun á uppsagnarfresti. Byggir stefnandi kröfuna á 5. kafla kjarasamnings Eflingar-stéttarfélags og Samtaka atvinnulífsins fyrir hótel og veitingahús og ákvæðum laga um orlof nr. 30/1987. Samtals er gerð krafa um greiðslu á 119.452 krónum vegna orlofs. Hvað kröfu um vangreitt orlof fyrir maímánuð varðar, vísar stefnandi til framangreindra reglana um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, en orlofið gjaldfalli eftir þann tíma, er stefnda hafi tekið við rekstri Metro.

Stefnandi gerir kröfu um greiðslu orlofsuppbóta vegna orlofsársins, sem hófst 1. maí 2010, og vísar til þess, að samkvæmt ákvæði 1.5.2. í kjarasamningi Eflingar-stéttarfélags og Samtaka atvinnulífsins fyrir hótel og veitingahús, skuli starfsfólk, sem áunnið hafi sér fullan orlofsrétt með starfi hjá sama vinnuveitanda næstliðið orlofsár og sé í starfi síðustu viku í apríl eða fyrstu viku í maí, fá við upphaf orlofstöku eða eigi síðar en 15. ágúst, greidda sérstaka eingreiðslu, orlofsuppbót að fjárhæð 25.800 krónur, fyrir orlofsárið, sem hafi hafist 1. maí 2010, miðað við fullt starf, en hlutfallslega miðað við starfshlutafall og starfstíma. Fullt starf í þessu sambandi teljist 45 unnar vikur. Áunna orlofsuppbót skuli gera upp samhliða starfslokum, verði þau fyrir gjalddaga uppbótarinnar. Stefnandi hafi áunnið sér rétt til greiðslu uppbótar fyrir 21 vikna starf eða 12.033 krónur.

Þá gerir stefnandi kröfu um greiðslu desemberuppbótar vegna ársins 2010. Byggir stefnandi kröfuna á kafla 1.5. í kjarasamningi Eflingar-stéttarfélags og Samtaka atvinnulífsins fyrir hótel og veitingahús. Uppbótina, sem hafi verið 46.800 krónur vegna ársins 2010, skuli greiða eigi síðar en 15. desember ár hvert, miðað við starfshlutfall og starfstíma, öllum starfsmönnum, sem verið hafi samfellt í starfi hjá atvinnurekanda í 12 vikur á síðustu 12 mánuðum eða séu í starfi fyrstu viku í desember. Uppgjörstímabil sé almanaksárið og teljist fullt starf í þessu sambandi 45 unnar vikur eða meira, fyrir utan orlof. Starfsfólk með skemmri starfstíma skuli fá greitt hlutfallslega miðað við starfstíma sinn. Áunna desemberuppbót skuli gera upp samhliða starfslokum, verði þau fyrir gjalddaga uppbótarinnar. Stefnandi hafi áunnið sér rétt til greiðslu uppbótar fyrir 38 vikna starf eða 39.520 krónur.

Krafa stefnanda sundurliðast þannig:

 

Vangreidd laun í júní 2010

Júní 2010

236.169 kr. – 120.430 kr.                         kr.        115.739,-        

 

Vangreidd laun á uppsagnarfresti

Júlí 2010                                                   kr.        236.169,-

Ágúst 2010                                              kr.        236.169,-

September 2010                                       kr.        236.169,-

Samtals                                                    kr.       708.507,-

 

Vangreitt orlof

Maí 2010

-          Maílaunaseðill 2010                    kr.        23.379,-

Vangreidd laun

-    Júnílaun 236.169 kr. * 10,17%           kr.        24.018,-

Vangreidd laun á uppsagnarfresti

-    708.507 kr. * 10,17%                          kr.        72.055,-

Samtals                                                    kr.         119.452,-

 

Orlofsuppbót

-          25.800 kr. / 45 vikur * 21 vika    kr.        12.033,-

Desemberuppbót

-          46.800 kr. / 45 vikur * 38 vikur  kr.        39.520,-

 

Samtals                                                    kr.       995.251,-

 

Stefnandi kveður skuldina ekki hafa fengist greidda þrátt fyrir innheimtutilraunir og því sé nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar.

Stefnandi kveðst hafa verið félagsmaður í Eflingu-stéttarfélagi á því tímabili, er krafan hafi stofnast, og vísar hún til meginreglu vinnu-, kröfu- og samningaréttar um að laun beri að greiða í samræmi við umsamda launataxta skv. gildandi ráðningar- og/eða  kjarasamningi. Er vísað um réttindi hennar aðallega til 1., 2., 3., 4. og 12. kafla kjarasamnings félagsins og jafnframt til laga 55/1980 um starfskjör launafólks o.fl., aðallega 1. gr., laga 28/1930 um greiðslu verkkaups, laga 30/1987 um orlof, aðallega 1., 7. og 8. gr.,  laga 19/1979 um rétt launafólks til uppsagnarfrests o.fl. og laga nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Byggir stefnandi á því, að stefnda hafi vanefnt bindandi ráðningarsamning við sig með því að greiða ekki umsamin laun og uppfylla aðrar samningsskyldur sínar. Samkvæmt framangreindum réttarheimildum og samningum sé greiðsluskylda stefnda ótvíræð. Um sönnun sé jafnframt vísað til stjórnunarréttar stefnda og bókhaldsskyldu þess að lögum.

Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við reglur III. og V. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, með síðari breytingum. Kröfu um málskostnað styður hann við XXl. kafla laga 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum númer 50/1988, en stefnandi kveðst ekki vera virðisaukaskattskyld og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.

 

III

Í greinargerð stefnda er málavöxtum lýst svo, að stefnandi hafi ráðið sig til starfa á veitingastaðnum McDonald´s árið 2006, sem rekinn hafi verið af Lyst ehf., og hafi starfað sem vaktstjóri í Kringlunni fyrir félagið, þar til stefnanda hafi verið sagt upp 9. maí 2010, þar sem til hafi staðið að loka staðnum strax daginn eftir.

Með samningi, dagsettum 4. maí 2010, hafi stefnda keypt lausafé ásamt vörulager af Lyst ehf. og hafi kaupin verið bundin við vörulager og lausafé, sem tengdist veitingarekstri að Suðurlandsbraut 56, Reykjavík, Eldshöfða 16, Reykjavík, og Smáratorgi 5, Kópavogi. Stefnda hafi hvorki keypt lausafé né vörulager, sem tengst hafi starfsstöð Kringlunnar. Reksturinn í Kringlunni hefði hins vegar verið seldur Bryggjuhúsinu ehf., sem hafi tekið yfir allt lausafé, er tengst hafi Kringlunni, ásamt starfsstöð. Þá hafi starfsfólk þeirrar starfsstöðvar að hluta verið ráðið til Bryggjuhússins.

Lyst ehf. hafi svo verið úrskurðað gjaldþrota 9. júlí 2010 og hefði stefnandi reynt að innheimta ógreidd laun hjá þessum fyrri vinnuveitanda sínum. Stefnandi hafi mætt að eigin frumkvæði á starfsstöð nýs veitingastaðar í Skeifunni undir nafni Metro, sem sé í eigu stefnda, þrátt fyrir að hafa ekki verið beðin um það. Stjórnendur hafi ekki tekið eftir þessu fyrr en stefnandi hefði starfað þar í nokkra daga. Hafi hún þá verið beðin um að hætta og greidd laun fyrir þá daga, sem hún hafi starfað.

Lög nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum hafi samkvæmt athugasemdum með frumvarpi til þeirra laga m.a. verið sett í því skyni að innleiða tilskipun nr. 2001/23/EB um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd launamanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, atvinnurekstri eða hluta fyrirtækja eða atvinnurekstrar, sbr. tilskipun nr. 77/187/EBE og tilskipun nr. 98/50/EB. Jafnframt komi fram í athugasemdunum, að meginmarkmið laganna hafi verið að setja ákvæði til að tryggja réttindi launamanna, þegar nýir vinnuveitendur taki við starfsemi.

Í tilviki stefnda eigi lög nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum ekki við, sbr. 3. gr. laganna, enda hafi stefnda ekki keypt rekstur Lystar ehf. Með kaupsamningi, dagsettum 4. maí 2010, hafi stefnda keypt vörulager og lausafé af Lyst ehf. Umrædd kaup hafi eingöngu átt við um vörulager og lausafé, sem tengdist veitingarekstri að Suðurlandsbraut 56, Reykjavík, Eldshöfða 16, Reykjavík, og Smáratorgi 5, Kópavogi. Jafnframt segi í 3. gr. kaupsamnings, að stefnda taki eingöngu við þeim starfsmönnum seljanda, sem starfi á starfsstöðvum seljanda að Suðurlandsbraut 56, Reykjavík og Smáratorgi 5, Kópavogi, sem það kjósi. Stefnda hafi ekki keypt rekstur Lystar ehf. heldur lausafé þess. Stefnda hafi síðan gert leigusamning við eigendur starfsstöðva seljanda að Suðurlandsbraut 56, Reykjavík, Eldshöfða 16, Reykjavík og Smáratorgi 5, Kópavogi. Stefnda hafi svo ráðið til sín hluta af þeim starfsmönnum, sem áður hafi unnið á nefndum starfsstöðvum. Aldrei hafi verið ætlunin að gera ráðningarsamning við stefnanda, enda hafi hún tilheyrt starfsstöð Kringlunnar, sem á þessum tíma hafi verið komin í hendur Bryggjuhússins ehf.

Stefnandi hafi ekki verið ráðin til stefnda, enda hefði hún ekki starfað á þeim starfsstöðvum, sem stefnda hafi leigt af leigusala. Hafi stefnda verið að setja upp nýjan rekstur með nýju fólki og hafi stjórnendur stefnda ekki áttað sig á því, að stefnandi væri að mæta á starfsstöðvar stefnda fyrr en gera hafi átt ráðningarsamninga við starfsfólkið. Hafi þá komið í ljós, að stefnandi hafi ekki verið á þeim lista, sem stefnda hafi haft yfir þá einstaklinga, sem ráðnir hefðu verið til starfa fyrir fyrirtækið. Hafi því verið gert upp við stefnanda fyrir þá daga, sem hún hefði mætt að eigin frumkvæði.

Með vísan til þessa og til laga nr. 72/2002 sé ljóst, að stefnandi beini kröfu sinni ranglega að stefnda. Sé krafa um sýknu á því byggð, að stefnda eigi ekki aðild að málinu.

Málatilbúnaður stefnda er fyrst og fremst byggður á lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991 og laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum nr. 72/2002. Málskostnaðarkrafan byggir á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991, sbr. aðallega 130. gr.

 

IV

Í máli þessu lýtur ágreiningur aðila að því, hvort stefnda beri ábyrgð á umkröfðum greiðslum til stefnanda eða hvort stefnanda hafi borið að beina kröfum sínum að öðrum aðila. Ber stefnda fyrir sig aðildarskorti í málinu, en ekki er ágreiningur uppi um fjárhæðir, útreikning þeirra eða áunnin réttindi stefnanda í starfi.

Stefnandi starfaði hjá Lyst ehf. frá árinu 2006, en ekki virðist hafa verið gerður skriflegur ráðningarsamningur við hana. Starfaði hún sem vaktstjóri á einum veitingastaða Lystar ehf., en Lyst ehf. rak nokkra veitingastaði, fyrst undir heitinu McDonald´s, en síðar undir heitinu Metro. Í áðurgreindum samningi Lystar ehf. og Bryggjuhússins ehf. frá 30. apríl 2010 um sölu á áhöldum og tækjum þess fyrrnefnda, sem staðsett voru í Kringlunni, er þess hvergi getið, að hið síðarnefnda taki yfir rekstur Lystar ehf. í Kringlunni eða taki við starfsmönnum Lystar ehf., sem þar störfuðu. Fær sú niðurstaða m.a. stoð í framburði vitnanna Þórðar Bachmann, eiganda Bryggjuhússins, og Jóns Garðar Ögmundssonar, þáverandi framkvæmdastjóra og eiganda Lystar ehf., fyrir dómi. Áréttar Þórður, að samningurinn hafi aðeins snúið að kaupum á áhöldum og tækjum, en ekki yfirtöku á rekstri. Þó hafi Bryggjuhúsið boðið nokkrum starfsmönnum Lystar ehf. í Kringlunni starf hjá sér, en ekki öllum, og hafi ekki orðið úr ráðningu á stefnanda. Fyrir dómi bar Jón Garðar, að hann hefði selt öll tæki og tól í Kringlunni, en veitt forsvarsmönnum Bryggjuhússins leyfi til að ræða við starfsmenn sína þar til að kynna fyrirætlanir sínar, sem hafi svo ráðið nokkra til starfa í kjölfarið. Verður því ekki talið, að við sölu Lystar ehf. á áhöldum og tækjum til Bryggjuhússins ehf., hafi hið síðarnefnda tekið yfir rekstur starfsstöðvarinnar í Kringlunni og þar með þeim réttindum og skyldum Lystar ehf., sem fylgdu ráðningarsamningum starfsmannanna þar, enda þótt Bryggjuhúsið ehf. hafi síðar tekið á leigu sama rými og Lyst ehf. hafði þar til veitingareksturs.

Ráðningarsamband var milli Lystar ehf. og stefnanda. Stefnda heldur því fram, að við tilkynningu til starfsmanna sinna um lokun starfsstöðvar Lystar ehf. í Kringlunni 10. maí 2010, hafi Lyst ehf. sagt öllu starfsfólki á starfsstöð sinni í Kringlunni upp. Hefur stefnandi borið fyrir dómi, að sumum hafi verið sagt upp, en öðrum ekki, og hafi hún verið í hópi þeirra síðarnefndu. Það hafi þó ekki verið fyrr en tveimur vikum eftir lokun veitingastaðarins í Kringlunni. Þá hafi þeim borist uppsagnarbréf, sem sagt hafi verið upp, en hún hafi aldrei fengið slíkt bréf í hendur.

Samkvæmt 6. mgr. 1. gr. laga nr. 19/1979 skal uppsögn vera skrifleg og miðast við mánaðamót. Hefur engin slík uppsögn verið lögð fram í málinu. Fullyrðing stefnda, að stefnanda hafi verið sagt upp á umræddum tíma, nýtur ekki stuðnings í gögnum málsins eða framburði vitna og verður stefnda að bera hallann af því. Sá sönnunarskortur leiðir til þess, að lagt verður hér til grundvallar, að engin slík uppsögn hafi átt sér stað við lokun veitingastaðar Lystar ehf. í Kringlunni í maí 2010. Var ráðningarsamband milli Lystar ehf. og stefnanda því enn í gildi eftir það.

Samkvæmt framburði Jóns Garðars Ögmundssonar, fyrrverandi eiganda og framkvæmdastjóra Lystar ehf., þá voru starfsmenn félagsins sérstaklega ráðnir til ákveðinna starfsstöðva, en voru lítið að flytjast milli þeirra, þótt það hafi komið fyrir. Hafi þetta komið fram í ráðningarsamningi hvers og eins, að hann væri ráðinn á ákveðna starfsstöð. Í málinu hefur ekki verið lagður fram slíkur ráðningarsamningur og ganga aðilar málsins út frá því, að enginn skriflegur ráðningarsamningur hafi verið gerður við stefnanda.

Lyst ehf. rak fjóra veitingastaði undir merkjum Metro, þegar ákvörðun var tekin um lokun veitingastaðarins í Kringlunni. Stefnandi starfaði hjá Lyst ehf., sem gat flutt starfsmenn milli staða og gerði í einhverjum tilvikum. Þegar Lyst ehf. lokaði veitingastað sínum í Kringlunni, þá var stefnanda ekki sagt upp störfum og ráðningarsambandið því enn virkt. Mátti stefnandi þá búast við því, að halda áfram störfum sínum fyrir Lyst ehf. á einhverri annarri starfsstöð en þeirri, sem lokað hafði verið.

Stefnandi heldur því fram, að við lokun veitingastaðarins í Kringlunni hafi henni verið sagt, að hún ætti að „fara að vinna á öðrum stað í sama fyrirtæki, en var sagt að fara heim og bíða eftir símtali.“ Þremur vikum eftir lokun veitingastaðar Lystar ehf. í Kringlunni hafi hún svo verið boðuð til starfa á veitingastaðnum að Suðurlandsbraut og hafi Magnús, einn eigenda, gert það. Hafi hún og önnur pólsk stúlka, sem starfað hafi í Kringlunni, mætt þangað til vinnu, en þar hafi stefnandi unnið sambærileg störf og áður athugasemdalaust. Þar hafi hún starfað í tvær vikur, en þá verið tjáð af Jóni Garðari, að hún fengi ekki áframhaldandi ráðningarsamning, þar sem hún væri of dýr starfskraftur fyrir fyrirtækið. Hann hafi einnig tjáð henni, að hún fengi greidd laun út mánuðinn, en fengi síðan uppsagnarbréf sent heim með þriggja mánuða uppsagnarfresti. Vitnið Jón Garðar Ögmundsson, rekstrarstjóri hjá stefnda, bar fyrir dómi, að stefnandi hefði ekki verið ráðin til starfa á veitingastaðnum á Suðurlandsbraut. Aldrei hefði staðið til, að stefnandi færi þangað til starfa. Hann hafi komist að því, að hún væri þar að störfum, þegar hann hafi rekist á hana þar og látið hana vita, að hún ætti ekki að vera á vöktum.

Er óumdeilt í málinu, að stefnandi hafi starfað á veitingastaðnum Metro á Suðurlandsbraut eftir að stefnda tók yfir rekstur þess veitingastaðar, enda þótt aðilum greinir á um, hvort það hafi verið vegna þess, að stefnandi hafi verið beðinn um að koma til starfa á grundvelli ráðningarsamband síns við Lyst ehf. eða vegna þess, að stefnandi hafi mætt þangað til starfa af sjálfsdáðum, eins og stefnda heldur fram í málinu. Þá eru launagreiðslur stefnda til stefnanda skýrðar svo, að þar hafi stefnda verið að gera upp laun fyrir þá vinnu, sem stefnandi hafi þó unnið í þágu stefnda, en óumbeðin.

Stefnda keypti allan lager og allan búnað Lystar ehf. til reksturs veitingahúsa með nefndum samningi frá 4. maí 2010 og er þar í 1. gr. vísað til vörulagers seljanda, lausafés, véla, áhalda og tækja til reksturs veitingahúsa, skrifstofu- og lagerhalds o.fl. Þá segir í samningnum, að kaupandi muni gera leigusamninga við eigendur starfsstöðvar seljanda að Suðurlandsbraut 56 og Eldshöfða 16 í Reykjavík og að Smáratorgi 5, Kópavogi. Í 2. gr. samningsins segir svo, að kaupverðið verði m.a. greitt „með yfirtöku skuldbindinga seljanda vegna orlofs, vetrarorlofs, desemberuppbótar ofl. vegna starfsmanna seljanda, sem hefja störf hjá kaupanda við upphaf rekstar seljanda“ (sic.). Þá segir í 3. gr., að kaupandi taki við hinu keypta eigi síðar en 5. júní og á sama tíma taki kaupandi við þeim starfsmönnum seljanda, sem starfi á starfsstöðvum seljanda að Suðurlandsbraut 56, Reykjavík, og Smáratorgi 5, Kópavogi, en upplýst er í málinu, að engin starfsemi var þá á vegum Lystar ehf. að Eldshöfða 16. Eins og áður segir, er miðað við tímamarkið 2. júní 2010 í þessu tilliti.

Með þessum gerningi yfirtók stefnda allan rekstur Lystar ehf. á þeim starfsstöðvum, sem enn voru í rekstri, og hefur haldið áfram rekstri veitingastaðarins Metro síðan, en Lyst ehf. varð gjaldþrota 9. júlí 2010.

Stefnandi heldur því fram, að með þessum gerningi hafi orðið aðilaskipti í skilningi laga nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum og því sé kröfu stefnanda réttilega beint að stefnda, sem hafi tekið við öllum réttindum og skyldum Lystar ehf. Stefnda heldur því fram, að ákvæði laganna eigi ekki við í þessu tilliti, þar sem stefnda hafi ekki tekið yfir rekstur Lystar ehf. á starfsstöð félagsins í Kringlunni, heldur hafi stefnda tekið yfir vörulager og lausafé Lystar ehf. á öðrum starfsstöðvum. Þannig hafi stefnda ekki tekið yfir reksturinn í heild sinni, heldur aðeins hluta hans, eða rekstur veitingastaðarins Metro, sem þá hafi verið rekinn á tveimur starfsstöðvum. 

Lög nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum voru, samkvæmt athugasemdum með frumvarpi til þeirra laga, m.a. sett í því skyni að innleiða tilskipun nr. 2001/23/EB um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd launamanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, atvinnurekstri eða hluta fyrirtækja eða atvinnurekstrar, sbr. tilskipanir nr. 77/187/EBE og 98/50/EB. Í athugasemdunum kemur fram, að meginmarkmið laganna hafi verið að setja ákvæði til að tryggja réttindi launamanna, þegar nýr vinnuveitandi tekur við starfsemi. Aðilaskipti eru skilgreind svo í 4. tl. 2. gr. laganna, að þau séu aðilaskipti á efnahagslegri einingu, sem haldi einkennum sínum, þ.e. skipulagðri heild verðmæta, sem notuð verði í efnahagslegum tilgangi, hvort sem um er að ræða aðal- eða stoðstarfsemi. Við mat á því, hvort fyrirtæki haldi einkennum sínum getur þurft að líta til margra þátta, s.s. hvort áþreifanleg verðmæti eru framseld, hvert verðgildi óhlutbundinna verðmæta sé, hvort meirihluti starfsmanna flytjist til nýja vinnuveitandans, hvort sami hópur viðskiptavina haldist og hvort reksturinn sé sambærilegur fyrir og eftir aðilaskiptin. Verður ekkert eitt þessara atriða talið veigameira en annað og verður niðurstaðan að byggjast á heildstæðu mati.

Þegar litið er til ákvæða samnings Lystar ehf. og stefnda um yfirtöku á rekstri veitingastaðarins Metro, þykir ótvírætt, að um aðilaskipti sé að ræða í skilningi laga nr. 72/2002, og hefur stefnda haldið rekstrinum áfram og undir sömu merkjum. Verður ekki fallist á, að stefnda hafi með því aðeins tekið yfir hluta af rekstrinum heldur allan veitingarekstur Lystar ehf., sem hélt ekki áfram rekstri eftir þetta og var lýst gjaldþrota 9. júlí 2010.

Í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 72/2002, eins og hún hljóðaði fyrir breytingu, sem gerð var með 2. gr. laga nr. 81/2010 og tók gildi 1. júlí 2010, sagði, að réttindi og skyldur framseljanda samkvæmt ráðningarsamningi eða ráðningarsambandi, sem fyrir hendi sé á þeim degi, sem aðilaskipti eigi sér stað, færist yfir til framsalshafa. Gildandi ákvæði 1. mgr. 3. gr., eftir nefnda breytingu, gerir hins vegar ráð fyrir, að við aðilaskipti færist slíkar vanefndir framseljanda á skyldum sínum yfir til framsalshafa. Verður ákvæðið ekki skilið öðruvísi en svo, að með aðilaskiptunum flytjist öll réttindi og skyldur framseljanda samkvæmt ráðningarsambandi, þ.m.t. þau réttindi, sem starfsmaður hefur áunnið sér í starfi, yfir til hins nýja vinnuveitanda.

Það er veigamikið atriði, að stefnda hafi með samningi við Lyst ehf. tekið yfir skyldur þess síðarnefnda gagnvart starfsmönnum sínum. Í samningnum er þess þó getið, að stefnda taki við þeim starfsmönnum, sem starfi á starfsstöðvunum að Suðurlandsbraut í Reykjavík og Smáratorgi í Kópavogi. Þegar hefur því verið slegið föstu, að sala Lystar ehf. á áhöldum og tækjum á starfsstöð félagsins í Kringlunni hafi ekki falið í sér aðilaskipti að rekstrinum og var stefnandi því enn starfsmaður Lystar ehf., þegar til sjálfra aðilaskiptanna kom milli Lystar ehf. og stefnda á rekstri þess fyrrnefnda. Þá starfaði stefnandi í þágu stefnda í þeirri trú, að um væri að ræða áframhaldandi störf. Samkvæmt áðurgreindri 1. mgr. 3. gr. laga nr. 72/2002 færast réttindi og skyldur framseljanda samkvæmt ráðningarsamningi eða ráðningarsambandi yfir til framsalshafa, þegar aðilaskipti eiga sér stað. Getur framsalshafi því ekki takmarkað skyldur sínar í þeim efnum við ákveðna starfsmenn eða starfsstöðvar og alls ekki, þegar um yfirtöku á öllum rekstri er að ræða. Þá girðir 1. mgr. 4. gr. laganna fyrir uppsögn starfsmanna að nokkru, þegar um aðilaskipti er að ræða.

Breytir það ekki skyldu stefnda samkvæmt ráðningarsambandi Lystar ehf. við stefnanda, sem færðist yfir til félagsins við aðilaskiptin, að aðeins hafi verið ráðnir starfsmenn Lystar ehf. af veitingastöðunum á Suðurlandsbraut og Smáratorgi og gerðir hafi verið skriflegir ráðningarsamningar við alla þá, sem ráðnir voru, eins og fyrirsvarsmaður stefnda, Ásgerður Guðmundsdóttir, bar fyrir dómi.

Að öllu þessu virtu verður talið, að við aðilaskiptin hafi stefnda tekið yfir öll réttindi og skyldur samkvæmt ráðningarsambandi Lystar ehf. við stefnanda. Er kröfu stefnanda því réttilega beint að stefnda í máli þessu og verður ekki fallist á sýknukröfu hans sökum aðildarskorts.

Stefnandi starfaði hjá stefnda um nokkurt skeið í júní 2010, en var þá tilkynnt, að hennar starfskrafta væri ekki óskað lengur. Verður hér því fallist á það með stefnanda, að miða skuli tímamark uppsagnar við þann tíma. Á stefnandi samkvæmt því rétt á launum fyrir júnímánuð, að frádreginni innborgun 2. júlí að fjárhæð 120.430 krónur.

Að öðru leyti er ekki uppi ágreiningur í málinu um fjárhæðir, útreikning stefnanda á kröfum sínum eða önnur atriði í dómkröfum stefnanda. Verður því fallist á dómkröfur stefnanda eins og nánar greinir í dómsorði.

Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnda dæmt til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til reglna um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.

Af hálfu stefnanda flutti málið Anna Lilja Sigurðardóttir, hdl., en af hálfu stefnda flutti málið Sævar Þór Jónsson, hdl.

Dóm þennan kveður upp Hrannar Már S. Hafberg, settur héraðsdómari.

 

 

D Ó M S o r ð :

Stefnda, Líf og heilsa ehf., kt. 600904-2210, greiði Agnieszku Ewu Lubas 995.251 krónu, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 115.739 krónum frá 1. júlí 2010 til 1. ágúst 2010, af 351.908 krónum frá 1. ágúst 2010 til 1. september 2010, af 588.077 krónum frá 1. september 2010 til 1. október 2010, en af 995.251 krónu frá 1. október 2010 til greiðsludags.

Stefnda greiði stefnanda 250.000 krónur í málskostnað.

           

                                                                                    Hrannar Már S. Hafberg.