• Lykilorð:
  • Líkamstjón
  • Skaðabætur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 16. mars 2018 í máli nr. E-2281/2017:

Svavar Sverrir Svavarsson

(Agnar Þór Guðmundsson lögmaður)

gegn

íslenska ríkinu

(Óskar Thorarensen lögmaður)

 

I

       Mál þetta, sem var dómtekið 21. febrúar 2018, var höfðað 28. júní 2017 af Svavari Sverri Svavarssyni, [...], gegn íslenska ríkinu, [...].

       Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 8.267.474 krónur, ásamt 4,5% ársvöxtum af 1.083.800 krónum frá 25. september 2014 til 25. janúar 2015, en af 8.125.074 krónum frá þeim degi til 7. maí 2017, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 8.267.474 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

       Stefnandi krefst þess til vara að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 7.977.556 krónur, ásamt 4,5% ársvöxtum af 1.083.800 krónum frá 25. september 2014 til 25. janúar 2015, en af 7.835.156 krónum frá þeim degi til 7. maí 2017, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 7.977.556 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

       Þá krefst stefnandi í báðum tilvikum málskostnaðar úr hendi stefnda og að tekið verði tillit til virðisaukaskatts á lögmannsþóknun við ákvörðun hans.

       Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.

       Dómari gekk á vettvang við aðalmeðferð málsins, ásamt stefnanda, lögmönnum aðila og Magnúsi Kristmannssyni, kennara við húsasmíðadeild Fjölbrautaskólans í Breiðholti.

II

       Stefnandi, sem var nemandi í kvöldskóla við húsasmíðadeild Fjölbrautaskólans í Breiðholti, lenti í slysi um klukkan 18:50 hinn 25. september 2014 á meðan á námi hans stóð. Þegar slysið varð var stefnandi ásamt öðrum nemanda, Gylfa Frey Karlssyni, að setja þakpappa á þak byggingar sem er á kennslusvæði skólans við Hraunberg 8 í Breiðholti. Aðrir nemendur voru jafnframt að vinna við þak byggingarinnar. Stefnandi hugðist fara niður af þakinu og steig niður í stiga við mæni hússins, sem hann kveður hafa runnið undan sér, með þeim afleiðingum að hann féll um þrjá metra niður og lenti á bakinu á malbiki. Í kjölfar slyssins var stefnandi fluttur með sjúkrabíl á slysadeild Landspítalans og kemur meðal annars fram í læknabréfi að hann hafi fundið fyrir verkjum um miðjan hrygg. Stefnandi var útskrifaður samdægurs. Hann leitaði síðar til Heilsugæslu Grafarvogs og hefur verið í meðferð hjá sjúkraþjálfara frá 14. nóvember 2014.

       Lögreglan og Vinnueftirlitið voru kvödd á vettvang. Umsjón með kennslu var í höndum Magnúsar Kristmannssonar, en hann varð ekki vitni að slysinu. Gylfi Freyr Karlsson, samnemandi stefnanda, varð vitni að slysinu og var haft eftir honum í lögregluskýrslu að stefnandi hefði verið á leið niður af þakinu og stigið með annan fótinn í stiga þegar hann rann undan honum með þeim afleiðingum að hann féll ofan á stigann og lenti á bakinu. Haft var eftir Magnúsi Kristmannssyni í lögregluskýrslu að stefnandi hefði verið uppi á þaki að undirbúa lagningu þakpappa. Fram kemur í ódagsettri umsögn Vinnueftirlitsins að orsakir slyssins megi rekja til þess að stiginn hafi hvorki verið fastur við þakbrún né aðrar ráðstafanir gerðar til að tryggja stöðugleika hans. Þá hafi ekki verið búið að vinna áhættumat fyrir þennan verkþátt. Hvað varðar aðstæður á slysstað verður ráðið af umsögn Vinnueftirlitsins og lögregluskýrslu að það hafi verið rigning þennan dag.

       Stefnandi óskaði eftir því að stefndi tæki afstöðu til skaðabótaskyldu Fjölbrautaskólans í Breiðholti með bréfi 29. júlí 2015. Var vísað til umsagnar Vinnueftirlitsins um orsök slyssins og tekið fram að skólinn hefði brugðist skyldum sínum samkvæmt lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Í svarbréfi stefnda frá 3. október 2016 var bótaskyldu hafnað á þeim grunni að stefnandi ætti sjálfur alla sök á slysinu. Tekið var fram að nemendur hefðu ekki átt að nota stiga til að fara upp og niður af þakinu heldur vinnupalla sem komið hefði verið upp á báðum hliðum hússins. 

       Stefnandi óskaði eftir því að Skúli Gunnarsson læknir og Guðmundur Pétursson lögmaður legðu mat á afleiðingar slyssins samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1993. Fyrir liggur matsgerð þeirra frá 15. janúar 2017 og var þar meðal annars komist að þeirri niðurstöðu að varanlegur miski stefnanda vegna slyssins væri 10 stig og varanleg örorka 13%.     Með bréfi 7. apríl 2017 krafðist stefnandi bóta á grundvelli matsgerðarinnar og nam skaðabótakrafan 9.111.746 krónum, auk þess sem krafist var greiðslu vegna lögmannsþóknunar og öflunar matsgerðar. Stefndi hafnaði bótakröfunni með bréfi 12. júní sama ár.

III

Málsástæður stefnanda

       Stefnandi byggir á því að stefndi beri skaðabótaábyrgð á tjóni hans vegna slyssins 25. september 2014, enda megi rekja orsök slyssins til saknæmrar háttsemi starfsmanna Fjölbrautaskólans í Breiðholti og ófullnægjandi aðstæðna við húsasmíðadeild skólans sem stefndi beri ábyrgð á.

       Byggt er á því að aðbúnaður og verkstjórn við deildina hafi verið ófullnægjandi og starfsmenn skólans brugðist skyldum sínum samkvæmt lögum nr. 46/1980, sem og reglugerðum settum með stoð í lögunum. Hafi aðstæður á slysstað verið hliðstæðar því sem gerist við húsbyggingar almennt og beri því að hafa ákvæði fyrrgreindra laga og stjórnvaldsfyrirmæla settra á grundvelli þeirra til hliðsjónar sem lágmarksviðmið um kröfur til aðbúnaðar og öryggis á verkstað. Þá verði að gera ríkari kröfur til eftirlits og leiðbeiningarskyldu kennara en verkstjóra.

       Stefnandi vísar til þess að samkvæmt umsögn Vinnueftirlitsins megi rekja orsök slyssins til þess að stiginn hafi ekki verið festur við þakbrún né aðrar ráðstafanir gerðar til að tryggja stöðugleika hans. Hafi starfsmenn skólans brugðist skyldum sínum með því að hafa stigann til afnota fyrir nemendur án þess að grípa til slíkra ráðstafana. Þessu til stuðnings vísar stefnandi til 23., 37. og 42. gr. laga nr. 46/1980. Jafnframt er vísað til þess að samkvæmt II. viðauka reglugerðar nr. 367/2006 um notkun tækja skuli tryggja að stigar séu stöðugir við notkun og að festa skuli efri eða neðri enda færanlegs stiga með búnaði eða með öðrum hætti sem hindri að stiginn renni til, sbr. greinar 4.2.1 og 4.2.2. Hvað varðar frágang lausra stiga og trappa vísar stefnandi jafnframt til greinar 19.1 í B-hluta IV. viðauka reglna nr. 547/1996 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð, sem og 5. og 6. kafla í leiðbeiningum um vinnuvernd nr. 1/1991. Byggt er á því að einfalt hefði verið fyrir starfsmenn skólans að koma í veg fyrir slysið með því að festa stigann við þakbrún. Hafi það verið sérstaklega mikilvægt í ljósi þess að um mjög hátt fall var að ræða, eða um 3,5 til 3,8 metra, auk þess sem malbikið var blautt á þessum tíma.

       Stefnandi telur að hann eigi enga sök á slysinu. Hann hafi verið við nám og sé ábyrgð starfsmanna skólans rík þegar komi að aðbúnaði og verkstjórn við smíðakennslu. Þá hafi hann nýtt þann búnað sem lagður hafi verið til og settur upp af starfsmönnum skólans, en hann reynst ófullnægjandi og ekki í samræmi við lög og reglur. Hafi stefnandi ekki fengið fyrirmæli um að bannað væri að nota stigann eða um að nota bæri vinnupall, líkt og stefndi haldi fram. Stefnandi vísar jafnframt til þeirra sjónarmiða sem búa að baki 23. gr. a. skaðabótalaga nr. 50/1993 varðandi eigin sök og byggir á því að stórkostlegu gáleysi þurfi að vera til að dreifa svo að heimilt sé að skerða bótarétt hans.

       Kröfugerð stefnanda tekur mið af matsgerð Skúla Gunnarssonar læknis og Guðmundar Péturssonar lögmanns og eru einstakir liðir nánar útskýrðir í stefnu.

 

 

Málsástæður stefnda

       Stefndi byggir á því að sýkna beri hann þar sem orsakir slyssins verði ekki raktar til saknæmrar háttsemi starfsmanna skólans eða ófullnægjandi aðstæðna við húsasmíðadeild sem stefndi beri ábyrgð á. Byggt er á því að stefnandi beri sjálfur alla sök á slysinu. Þegar slysið varð hafi vinnupallar verið á báðum hliðum hússins sem unnið var við. Hafi nemendur, þar með talið stefnandi, fengið skýr fyrirmæli frá kennaranum Magnúsi Kristmannssyni um að nota pallana ásamt lágum tröppum við hlið þeirra til að fara upp á þak hússins og niður. Hafi sá stigi sem stefnandi féll úr ekki verið notaður í þessu skyni heldur við annan verkþátt í húsinu. Stiginn hafi alls ekki átt að vera við mæni hússins og hann ekki verið settur upp af kennaranum eða öðrum starfsmönnum skólans. Lögð er áhersla á að kennarinn hafi ekki tekið eftir því að stiginn hefði verið reistur við mæni hússins og viti ekki hver gerði það. Sé því fráleitt að starfsmenn skólans hafi getað komið í veg fyrir slysið með því að festa stigann við þakbrún. Hafi allir aðrir nemendur, sem unnu við verkið, notað vinnupallana til að fara upp og niður af þakinu eins og fyrir þá hafi verið lagt og sú leið verið örugg og auðveld.

       Vísað er til þess að kennarinn hafi haft eins mikið eftirlit með nemendum og hægt var, en eðli málsins samkvæmt ekki getað fylgst með öllum á stóru kennslusvæði. Hafi hann treyst því að stefnandi gætti öryggis við verkið og færi að þeim fyrirmælum sem nemendur fengu. Tekið er fram að stefnandi, sem var 35 ára þegar slysið varð, hafi sérstaklega mikla reynslu af vinnu á þökum. Hafi hann unnið við þakviðgerðir áður en hann hóf nám og vitað hvernig umgangast ætti vinnupalla og fara að við vinnu í mikilli hæð. Komi fram í fyrirliggjandi matsgerð að stefnandi hafi unnið við þakdúklagningu frá 2005 og rekið eigið fyrirtæki á því sviði frá 2013 þar sem starfsmenn hafi að jafnaði verið þrír til sex eftir verkefnastöðu. Þá hafi stefnandi verið á fjórðu önn af fimm í námi sínu við skólann og lokið áfanga um framkvæmdir og vinnuvernd þar sem meðal annars hafi verið kenndar fallvarnir og umgengni á vinnusvæði. Hafi stefnandi valið hættulegustu leiðina niður af þakinu, enda þótt vinnupallar hafi verið á báðum hliðum og greið leið niður þar sem nemendur hafi ekki verið í hættu. Því er mótmælt að aðbúnaður og verkstjórn við húsasmíðadeildina hafi verið ófullnægjandi, sem og að slíkt hafi leitt til þess að stefnandi varð fyrir tjóni. Þá falli atvik á skólasvæði utan gildissviðs laga nr. 46/1980 og stjórnvaldsfyrirmæla settra á grundvelli þeirra. Verði talið að viðkomandi reglur eigi við vísar stefndi til skyldna „starfsmanna“, í þessu tilviki nemenda, samkvæmt IV. kafla laganna. Því er jafnframt mótmælt að 23. gr. a skaðabótalaga geti átt við, enda hafi ekki verið um vinnuslys að ræða og stefnandi ekki verið starfsmaður. 

       Byggt er á því að stefnandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi og að eigin sök hans leiði til þess að hann eigi ekki rétt á neinum bótum. Vísast þar til fyrrgreindra sjónarmiða um aðgæsluskyldu stefnanda og til þess að hann hafi verið sérstaklega vanur vinnu á þökum. Þá hafi hann lokið prófi í öryggisfræðum og átt að þekkja allar reglur og leiðbeiningar um vinnu með stiga við hús. Jafnframt vísar stefndi til sjónarmiða skaðabótaréttar um samþykki og áhættutöku.

       Stefndi krefst þess til vara að krafa stefnanda verði lækkuð verulega og eru röksemdir því til stuðnings raktar í greinargerð hans.

IV

       Aðilar deila um hvort fella beri skaðabótaskyldu á stefnda vegna tjóns sem stefnandi varð fyrir á meðan hann var nemandi við húsasmíðadeild Fjölbrautaskólans í Breiðholti. Fyrir liggur að stefnandi var að vinna við þak húss á vinnusvæði skólans ásamt öðrum nemendum og slasaðist þegar hann féll úr stiga sem var við mæni hússins. Það er óumdeilt að við báðar langhliðar hússins voru vinnupallar sem nemendur höfðu reist undir umsjón kennara. Stefndi heldur því fram að nemendum hafi verið gefin fyrirmæli um að nota vinnupallana til að fara upp og niður af þakinu. Hafi eingöngu átt að nota stiga þann sem stefnandi féll úr við tiltekið verkefni innanhúss. Stefnandi byggir aftur á móti á því að nemendur hafi notað umræddan stiga til ferða upp og niður af þakinu og að frágangur hans hafi ekki uppfyllt kröfur laga nr. 46/1980 og reglna sem settar hafa verið með stoð í lögunum. Er þar lögð áhersla á að stiginn hafi ekki verið festur eða gripið til sambærilegra ráðstafana til að tryggja stöðugleika hans.

       Aðstæður á því svæði þar sem verklegt nám nemenda við húsasmíðadeild skólans fer fram eru að mati dómsins um flest hliðstæðar því sem gerist við húsbyggingar. Fallist er á með stefnda að hafa megi ákvæði laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og stjórnvaldsfyrirmæla settra á grundvelli þeirra til hliðsjónar sem lágmarksviðmið um kröfur til aðbúnaðar og öryggis á svæðinu, sbr. dóm Hæstaréttar 23. febrúar 2012 í máli nr. 468/2011. Fram kemur í umsögn Vinnueftirlitsins að orsök slyssins verði rakin til þess að umræddur stigi var hvorki fastur við þakbrún né aðrar ráðstafanir gerðar til að tryggja öryggi hans. Er raunar óumdeilt að ekki hafði verið gripið til ráðstafana til að tryggja stöðugleika stigans þegar stefnandi féll úr honum á leið sinni niður af þakinu. Samkvæmt því var frágangur stigans ófullnægjandi og uppfyllti meðal annars ekki kröfur greina 4.2.1 og 4.2.2 í II. viðauka reglugerðar nr. 367/2006 um notkun tækja sem sett var með stoð í lögum nr. 46/1980.

       Við mat á því hvort saknæmri háttsemi starfsmanna skólans sé til að dreifa verður aftur á móti að líta til þeirrar röksemdar stefnda að ekki hafi átt að nota umræddan stiga til ferða upp og niður af þakinu heldur vinnupalla sem reistir höfðu verið við báðar langhliðar skólans. Fram kom í skýrslu Magnúsar Kristmannssonar, sem hafði umsjón með kennslu, að nemendur hefðu sjálfir reist vinnupallana og þeim verið gefin fyrirmæli um að nota þá til að fara upp og niður af þakinu. Hafi færanleg trappa verið uppi á pöllunum sem nemendur notuðu til að komast upp á þakið. Fram kom í skýrslu Gylfa Freys Karlssonar, sem var samnemandi stefnanda og varð vitni að slysinu, að hann minnti að stefnandi hefði ekki verið sá fyrsti sem fór niður stigann og hefðu aðrir nemendur gert það. Hann mundi ekki hvort hann hefði sjálfur notað stigann við vinnu umræddan dag. Fram kom að unnt hefði verið að nota vinnupallana til að fara upp og niður af þakinu. Nánar aðspurður sagði hann að það hefði ekki verið erfiðleikum háð að nota pallana, en að nota hefði þurft aðra tröppu eða stiga til að komast af vinnupöllum upp á þak. Væri „möguleiki á báðum leiðum“ þegar farið væri upp á þakið og verður ráðið af framburði hans að nemendur hefðu valið þá leið sem tók stystan tíma í hvert sinn. Gylfi Freyr minntist þess ekki að sérstök fyrirmæli hefðu verið gefin um að nota vinnupallana. Frekari skýrslutökur af nemendum, sem voru á verkstað umrætt sinn, fóru ekki fram fyrir dómi. 

       Hvað sem þessu líður er að mati dómsins ljóst að vinnupallar við langhliðar hússins voru meðal annars reistir til að unnt væri að komast upp og niður af þakinu og var þeim gagngert ætlað að tryggja öryggi nemenda. Vinnupallarnir voru vissulega notaðir til annarra verka og liggur fyrir að nemendur stóðu á pöllunum og unnu í neðri hluta þaks hússins. Fram kom í aðilaskýrslu stefnanda að það hefðu verið svo margir á vinnupöllunum að það hefði ekki verið hægt að komast upp og niður þá. Aðspurður um þetta bar kennarinn Magnús Kristmannsson fyrir dómi að það gætu mögulega hafa orðið einhverjar tafir af þessum sökum, en þá hefðu nemendur sem vildu komast niður bara þurft að bíða stuttlega. Að sama skapi bar vitnið Gylfi Freyr, eins og áður greinir, að það hafi ekki verið sérstökum erfiðleikum háð að nota vinnupallana til ferða upp og niður af þakinu enda þótt jafnframt hafi þurft að nota tröppu. Samkvæmt framangreindu telur dómurinn sýnt fram á að unnt hafi verið að komast niður af þakinu með því að fara niður þá vinnupalla, sem reistir höfðu verið að tilhlutan starfsmanna skólans, og að stefnandi hafi þekkt þá leið. Af hálfu stefnanda er ekki byggt á því að umræddir vinnupallar og trappa sem var notuð til að komast á þakið hafi ekki uppfyllt kröfur um aðbúnað og öryggi.

       Að mati dómsins liggur ekkert fyrir sem styður það að starfsmenn skólans hafi reist umræddan stiga eða með einhverjum hætti heimilað nemendum að nota stigann til ferða upp og niður af þakinu. Ekki liggur fyrir hver kom stiganum fyrir eða hvenær það var gert. Kennari stefnanda, Magnús Kristmannsson, neitaði því staðfastlega fyrir dómi að hafa vitað af því að nemendur notuðu stigann til ferða upp og niður af þakinu og lagði áherslu á að stiginn hefði verið til ákveðinna nota innanhúss. Þegar litið er til þess að um stórt vinnusvæði er að ræða og að nemendur, sem voru um fimmtán talsins, voru við mismunandi störf á svæðinu verður það ekki metið kennara stefnanda til sakar að hafa ekki orðið þess var að stiginn hefði verið reistur við mæni hússins og hann notaður til ferða niður af þakinu. Er þar litið til þess að kennarinn mátti treysta því að nemendur sýndu aðgæslu við ferðir upp og niður af þakinu og að vinnupallar voru til staðar. Samkvæmt þessu verður ekki talið að starfsmenn skólans hafi borið ábyrgð á ófullnægjandi aðbúnaði stigans. Þá verður það ekki virt starfsmönnum skólans til saknæmrar vanrækslu að hafa ekki haft frekara eftirlit eða verkstjórn með vinnunni en raun ber vitni. 

       Að mati dómsins er ljóst að það var mun hættuminna að fara niður vinnupallana sem höfðu verið reistir við langhliðar hússins en að fara niður stigann við mæni hússins þar sem fallhæð var hvað mest eða 3,5 til 3,8 metrar samkvæmt stefnu. Breytir það ekki þeirri niðurstöðu þótt jafnframt hafi þurft að nota tröppu sem var á vinnupöllunum, enda fallhæð mun minni. Líta verður til þess að stefnandi, sem var 34 ára þegar slysið varð, hafði lokið fjórum önnum af fimm í námi sínu við húsasmíðadeild skólans, þar með talið áfanga um framkvæmdir og vinnuvernd þar sem fallvarnir munu hafa verið kenndar. Þá er upplýst að stefnandi hafði umtalsverða reynslu af þakvinnu þegar slysið varð. Hann hafði komið að vinnu við þakdúklagningu frá árinu 2005, auk þess sem hann rak sjálfur fyrirtæki sem starfaði á því sviði frá árinu 2013 og hafði þá mannaforráð. Að teknu tilliti til aldurs og verklegrar reynslu stefnanda, sem og kennslu sem hann hafði hlotið, verður að telja að hann hafi mátt gera sér grein fyrir þeirri hættu sem fylgdi þeirri leið sem hann valdi að fara niður af þakinu. Verður því ekki annað séð en að slysið verði að öllu leyti rakið til aðgæsluleysis stefnanda sjálfs. 

       Samkvæmt framangreindu telur dómurinn að stefnandi hafi ekki fært sönnur á að rekja megi líkamstjón hans til saknæmrar háttsemi starfsmanna Fjölbrautaskólans í Breiðholti eða ófullnægjandi aðstæðna sem stefndi beri ábyrgð á. Verður því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

       Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þykir rétt að hvor málsaðila beri sinn kostnað af rekstri málsins.

       Ásgerður Ragnarsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð:

        Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnanda, Svavars Sverris Svavarssonar.

       Málskostnaður fellur niður.

 

                                                                                    Ásgerður Ragnarsdóttir (sign.)