• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Brenna
  • Fjársvik
  • Hegningarauki
  • Játningarmál
  • Nytjastuldur
  • Rán
  • Svipting ökuréttar
  • Skaðabætur
  • Umferðarlagabrot
  • Þjófnaður

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur, miðvikudaginn 19. desember 2007, í máli nr. S-608/2007:

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir fulltrúi)

gegn

Guðmundi Frey Magnússyni

(Sigurður Sigurjónsson hrl.)

 

            Ár 2007, miðvikudaginn 19. desember, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Pétri Guðgeirssyni, héraðsdómara,  kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 608/2007:  Ákæruvaldið (Hulda Elsa Björgvinsdóttir) gegn Guðmundi Frey Magnússyni (Sigurður Sigurjónsson hrl.) sem tekið var til dóms hinn 5. desember sl. að lokinni aðalmeðferð.

            Málið er höfðað með tveimur ákærum Ríkissaksóknara, á hendur ákærða, Guðmundi Frey Magnússyni, kt. [...], Vatnsstíg 4, Reykjavík.

Í fyrsta lagi er málið höfðað með ákæru 2. apríl sl., “fyrir eftirtalin hegningar-, umferðar- og fíkniefnalagabrot þriðjudaginn 19. september 2006:

1.  Ránstilraun, með því að hafa farið inn í söluturninn Leifasjoppu, Iðufelli 14, Reykjavík, vopnaður hnífi og með andlit sitt hulið, ógnað Þorleifi Eggertssyni, sem þar var einn við afgreiðslu, með hnífnum og heimtað, án árangurs, að hann afhenti honum peninga úr sjóðsvél.  Þegar Þorleifur neitaði að afhenda honum peninga og hljóp út úr söluturninum bakdyramegin, stökk ákærði yfir afgreiðsluborð og elti hann en hvarf síðan af vettvangi.

Telst þetta varða við 252. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

2. Nytjastuld og umferðarlagabrot, með því að hafa tekið bifreiðina OP-770 í heimildarleysi þar sem hún stóð fyrir utan Smáratún 2, Selfossi, og ekið henni, sviptur ökuréttindum og undir áhrifum fíkniefna, til Reykjavíkur og um götur þar, en lögregla fann bifreiðina á Höfðabakka laust fyrir miðnætti.

Telst þetta varða við 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga og  1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997 og 5. gr. laga nr. 66/2006, sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga.

3.  Fíkniefnalagabrot, með því að hafa haft í vörslum sínum 0,56 g af kannabis sem fannst við leit lögreglu á ákærða er hann var handtekinn á Höfðabakka í Reykjavík.

Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001 og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

Þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt  101. og 102. gr. umferðarlaga, sbr. 18. gr. laga nr. 66/2006. Þá er þess krafist að 0,56 g af kannabis, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna.

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu Þórunnar Brynju Sigurbjörnsdóttur, kt. [...], er krafist skaðabóta að fjárhæð kr. 167.462 auk hæstu lögleyfðra vaxta frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.”

Í öðru lagi er málið höfðað með ákæru dagsettri  4. október sl. “fyrir eftirtalin hegningar- og umferðarlagabrot framin laugardaginn 20. janúar 2007:

1.         Þjófnað, með því að hafa farið inn í parhús við Norðurbyggð 18a, Þorlákshöfn, með því að skríða inn um opinn glugga og stolið þaðan rafmagnsgítar, greiðslukorti, myndbandsupptökuvél, stafrænni myndvél, sjónvarps-flakkara, fartölvu og tölvuminnislykli.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

2.         Brennu, með því að hafa hellt niður bensíni inní ofangreindu parhúsi við Norðurbyggð 18a og  kveikja í og þannig valdið eldsvoða sem hafði í för með sér almannahættu og yfirgripsmikið eignatjón.

Telst þetta varða við 1. mgr. sbr. 2. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga.

3.         Umferðarlagabrot, með því að hafa ekið bifreiðinni LU-722, undir áhrifum ávana- og fíkniefna og sviptur ökuréttindum, frá Stigahlíð í Reykjavík að hjólbarðaverkstæðinu Bílkó, Smiðjuvegi 34, Kópavogi.

Telst þetta varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006 og 3. gr.  laga nr. 24/2007 og, sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga.

4.         Tilraun til fjársvika, með því að hafa í viðskiptum við hjólbarðaverkstæðið Bílkó í heimildarleysi gefið upp kortanúmer á greiðslukorti því sem ákærði hafði komist yfir ófrjálsri hendi, sbr. ákærulið 1, til að svíkja út vörur og þjónustu að andvirði samtals krónur 84.156.

Telst þetta varða við 248. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta sviptingu ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga, sbr. lög nr. 44/1993, lög nr. 57/1997, lög nr. 23/1998, lög nr. 132/2003 og lög nr. 66/2006. Þá er þess krafist 1,38 g af amfetamíni, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 233/2001.

Einkaréttarkröfur á hendur ákærða:

Af hálfu Magnúsar Ásgeirssonar, kt. [...], Norðurbyggð 18a, Þorlákshöfn, er krafist skaðabóta að fjárhæð kr. 844.984 auk vaxta og dráttarvaxta skv. lögum nr. 38/2001, frá tjónsdegi til greiðsludags.

Af hálfu Ragnheiðar Bjarneyjar Hannesdóttur, kt. [...], Norðurbyggð 18b, Þorlákshöfn, er krafist skaðabóta að fjárhæð kr. 516.446 auk vaxta og dráttarvaxta skv. lögum nr. 38/2001, frá tjónsdegi til greiðsludags.

Af hálfu Vátryggingafélags Íslands hf., kt. [...], er krafist skaðabóta að fjárhæð kr. 17.078.084 auk vaxta skv. lögum nr. 38/2001 frá tjónsdegi 20. janúar 2007 til 3. nóvember 2007, en síðan dráttarvaxta skv. 9. gr. sömu laga til greiðsludags.

Þá er gerð krafa um greiðslu lögmannskostnaðar að mati dómsins.”

 

Fyrri ákæran.

1.

            Fyrir liggur með játningu ákærða, sem að öllu leyti er studd gögnum málsins og því sem fram hefur komið í aðalmeðferð málsins, að þriðjudagskvöldið 19. september 2006 fór ákærði, sem hafði hulið andlit sitt, inn í söluturninn Leifasjoppu í Iðufelli 14, vopnaður hnífi, og krafði afgreiðslumanninn, Þorleif Eggertsson, um peninga úr búðarkassanum og ógnaði honum jafnframt með hnífinum. Þorleifur synjaði um peningana og forðaði sér á hlaupum út um bakdyr en ákærði stökk yfir afgreiðsluborðið og veitti honum eftirför með hnífinn á lofti.  Af myndbandsupptöku úr búðinni má sjá hvar ákærði hleypur á hæla Þorleifi út úr búðinni með hnífinn brugðinn fyrir framan sig.

            Með þessu athæfi hefur ákærði orðið sekur um tilraun til ráns og brotlegur við 252., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga.

2.

Ákærði hefur játað að hafa þetta sama kvöld tekið bílinn OP-770 í heimildarleysi á Selfossi og var bílnum ekið sem leið lá til Reykjavíkur þar til lögreglumenn stöðvuðu för hans á Höfðabakka við Bíldshöfða.  Var vinkona ákærða, Bryndís Baldvinsdóttir, þá undir stýri á bílnum.  Tekið var blóð úr ákærða og sent til rannsóknar í rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði.  Samkvæmt staðfestu vottorði Guðlaugar Þórsdóttur læknis voru 1,6 ng/ml af tetrahýdrókannabínóli í blóðsýninu.  Segir þar jafnframt að hlutaðeigandi hafi verið undir vægum áhrifum kannabis þegar blóðsýnið var tekið.  Ákærði hefur neitað því fyrir dómi að hafa ekið bílnum frá Selfossi til Reykjavíkur og sagt að Bryndís hafi gert það, en í skýrslu hjá lögreglu síðdegis hinn 20. september kvaðst hann hafa ekið bílnum til Reykjavíkur en Bryndís ekið hans eigin bíl þar til sá bíll bilaði við Rauðavatn.  Hefði hann þá borið eigur sínar úr honum yfir í stolna bílinn og þau haldið áfram ferðinni í honum í Breiðholtshverfið.  Nánar aðspurður fyrir dómi hefur ákærði þó sagt að hann muni ekki eftir því hver ók bílnum þessa leið og gæti hann hafa gert það.  Bryndís Baldvinsdóttir hefur komið fyrir dóm og sagt ákærða hafa ekið bílnum frá Selfossi til Reykjavíkur þar til að hann hætti akstrinum í Breiðholtshverfi.  Telja verður sannað með framburði ákærða hjá lögreglu og vætti Bryndísar að ákærði hafi ekið bílnum frá Selfossi til Reykjavíkur.  Þá hefur hann viðurkennt að hafa verið undir áhrifum fíkniefna þegar þetta gerðist og fram er komið hjá honum að hann reyki kannabis daglega.  Fyrir liggur að ákærði var sviptur ökurétti í þetta sinn.  Samkvæmt þessu ber að sakfella ákærða hér fyrir nytjastuld, fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna og vera þá sviptur ökurétti.  Er athæfi ákærða réttilega heimfært til refsiákvæða í ákærunni.

3.

Fyrir liggur að þegar ákærði var handtekinn í umrætt sinn var hann með á sér smámola af kannabis.  Hefur hann enda játað það brot og gerst sekur um brot gegn þeim refsiákvæðum sem tilfærð eru í ákærunni.

 

Síðari ákæran.

1.

Ákærði hefur skýlaust játað að hafa, aðfaranótt laugardagsins 20. janúar sl., smogið inn um glugga á parhúsinu nr. 18A við Norðurbyggð í Þorlákshöfn og stolið þaðan þeim verðmætum sem tilgreind eru í 1. tölulið þessarar ákæru.  Hefur hann orðið sekur um athæfi það sem þar er lýst og réttilega fært til refsiákvæðis.

2.

            Fyrir liggur með játningu ákærða, sem að öllu leyti er studd gögnum málsins og því sem fram hefur komið í aðalmeðferð málsins, að síðar þessa nótt hafi hann sótt sér bensínbrúsa og farið með hann inn í Norðurbyggð 18a, hellt þar úr honum víða um íbúðina og kveikt í.  Hann kveðst hafa gert þetta til þess að eyða fingraförum sem hann kynni að hafa skilið eftir sig við þjófnaðinn.  Hann kveðst ekki hafa gert sér grein fyrir því að um parhús var að ræða.  Kolbrann íbúðin öll að innan og allt sem innan stokks var.  Þá lagði reyk yfir í næstu íbúð, þar sem kona svaf og tvö börn.  Nágranni konunnar vakti fólkið sem forðaði sér út.  Í þessari íbúð urðu skemmdir af reyknum og varð fólkið að flytja þaðan um tíma.

            Í málinu er staðfest álitsgerð Guðmundar Gunnarssonar byggingarverkfræðings.  Segir þar að húsið nr. 18A-18B við Norðurbyggð sé “I-laga parhús á einni hæð. Byggingarefni er steinsteypa en þakið er bárujárnsklætt með risi sem liggur langs eftir húsinu og er borið uppi af kraftsperrum og límtrésbita. Milli íbúðanna er steinsteyptur veggur sem nær upp að borðaklæðningunni undir bárujárninu. Íbúðirnar eru ekki jafnstórar, í suðurenda er íbúðin sem íkveikjan átti sér stað í og er hún minni en íbúðin í norðurendanum sem er skráð númer 18B.

Skipulag íbúðarinnar í suðurenda hússins er með þeim hætti að komið er inn í anddyri fyrir miðri austurhliðinni og er gengið úr því inn í þvottahús til vinstri en beint áfram er hurð inn í íbúðina. Þá er komið inn í skála og er opið inn í eldhúsið til hægri og hefur það glugga á austurhlið hússins við hliðina á anddyrinu. Inn af eldhúsinu gengt útvegg er búr. Beint inn af skálanum er stofan og nær hún frá veggnum á búrinu að útvegg að vestan og eru þar gluggar og svalahurð út í garðinn. Úr skálanum til vinstri er lítinn gangur þaðan sem gengið er inn í barnaherbergi til vinstri en inn í bað beint áfram og hafa þessi rými glugga á suðurhlið hússins (gaflinum). Úr ganginum til hægri er gengið inn í hjónaherbergi sem hefur glugga á vesturhlið við hlið stofuglugganna.

Innveggir í húsinu eru allir spónaplötur á trégrind og í lofti er klætt með 12 mm samfösuðum plötum (líklega af gerðinni Huntonit). Allar þessar klæðningar eru brennanlegar í flokki 2 samkvæmt byggingarreglugerð og eru hefðbundnar í svona húsum.

Tilkynnt er um eldinn til slökkviliðs um kl. 05:42. Ekki kemur fram í skýrslum hvenær það mætti á staðinn en við komu lögreglu kl. 05:58 er slökkviliðið komið á staðinn. Þegar slökkviliðið kom á staðinn logaði út um stofuhurð að vestan og svefnherbergisgluggann og eldur sást í forstofu og í eldhúsi. Hliðstæð lýsing er hjá lögreglumönnunum en þeir segja einnig eld út um forstofuhurðina en slökkviliðið braut gluggann í þeirri hurð og opnaði hana.

Í skýrslu slökkviliðsstjóra dags. 25.01.2007 er svohljóðandi efnisleg lýsing á aðkomunni og slökkvistarfinu:

-Slökkvilið Þorlákshafnar kallað út kl. 05.42 að Norðurbygð 18a og 18b í Þorlákshöfn. Þegar slökkviliðið mætir á staðinn er no. 18a alelda og logar út um stofuhurð að vestan  og svefnherbergi, einnig sést í eld í eldhúsi að austanverðu og forstofu. Reykafarar brutu rúðu í forstofu til að opna útihurð og hefja leit að manni sem var hugsanlega inni í húsinu, en urðu að hörfa út aftur vegna hruns úr loftum, brutu þá rúðu í eldhúsi og hófu slökkvistarf þar í gegn. Ílla gekk að taka rafmagn af húsinu, en þegar það var búið fóru reykafarar  inn og leituðu en þá var svo mikið drasl á gólfum að þeir voru í vandræðum að leita. Um kl. 6.30 komu svo boð að eigandinn væri út á sjó og gátum við því snúið okkur alveg að því að slökkva. Um kl. 7.00 var búið að ná tökum á ástandinu, kl. (8) 7.30 var búið að slökkva nema í stöku glóð slökkvistarfi lokið kl 7.45. Bruni þessi einkenndist af mjög miklum hita í húsinu og til dæmis blossaði upp eldur í millivegg milli stofu og svefnherbergis í tvígang. Slökkvuliðsmenn drukku saman kaffi eftir brunann og töluðu um að eldur og hiti hefði verið allt of mikil, miðað við þann tíma frá því að eigandi fór úr húsinu og þar til við þeir komu á vettvang. Þess ber að geta að beðið var um aðstoð frá slökkviliðinu í Hveragerði vegna sambrunahættu við no. 18b. Komu þaðan 5 manns, en frá S.Þ. 14 manns. Alls 19 menn, 3 dælubifreiðar og 1 tankbíll.-

Samkvæmt þessum lýsingum var orðin yfirtendrun í húsinu (íbúðin alelda) þegar slökkvilið og síðan lögreglan kemur á staðinn. Ekki verður ráðið af lögregluskýrslunum hversu langur tími hefur liðið frá því eldurinn var kveiktur þangað til hann uppgötvast af nágranna og slökkvilið og lögregla koma á staðinn. Af verksummerkjum að dæma og ofangreindum útreikningum hefur yfirtendrun orðið í húsinu ekki seinna en um 15 mín eftir að eldurinn er kominn af stað og ekki fyrr en eftir 2 – 4 mín en líklegt má telja að rauntíminn sé þarna á milli eða um 10 mín. “....

“Á afstöðumynd af húsinu sem aflað var hjá byggingarfulltrúa og athugun á staðnum sést að húsið stendur eitt sér á lóðinni og bílskúrar sem sýndir eru á teikningum hafa ekki verið byggðir. Hús eru einungis á eina hlið og þar eru 11 m sýndir að lóðarmörkum, í aðrar áttir eru götur eða opin svæði.

Þessar fjarlægðir hússins eru talsvert umfram þær fjarlægðir sem 4. kafli byggingarreglugerðar nr. 441/1998 mælir fyrir um sem minnstu fjarlægðir, sem eru 6 m á milli tveggja svona steinhúsa eða samanlögð hálf hæð þeirra en sú regla gæfi svipaða fjarlægð. Veggur milli tveggja íbúða í parhúsi (hér að Norðurbyggð 18B) á að vera REI90 sem á að tryggja að eldur berist ekki á milli húsanna í 90 mínútur. Þegar húsið var byggt var þessi krafa A60 sem táknaði á sama hátt vegg úr óbrennanlegu efni sem hélt eldi í 60 mín. Með þessum fjarlægðum og milliveggjum á að nást ásættanlegt öryggi gegn því að eldur geti breiðst út milli bygginga.” ....

Varðandi það að meta mögulega útbreiðslu eldsins til aðliggjandi húsa og áhrifa þess á fólk segir verkfræðingurinn að vegna fjarlægðar frá öðrum húsum komi eingöngu til álita hin íbúðin í parhúsinu, þ.e. Norðurbyggð 18B.

“Veggurinn að íbúðinni í norðurendanum var, samkvæmt teikningu Húsnæðisstofnunar, tvöfaldur 15 sm steinsteyptur veggur, sjá mynd 4. Brunaflokkun slíks veggs er EI90 samkvæmt núverandi stöðlum en átti að vera A60 á þeim tíma sem húsið var byggt. Veggurinn sjálfur uppfyllti það skilyrði en vegna breyttra reglna um frágang í þaki náði hann ekki flokkun sem EI90.  Þrátt fyrir þennan frágang barst nokkur reykur yfir í aðliggjandi íbúð (sjá mynd 6) og koma þar til greina eftirfarandi leiðir; gegnum opna glugga á íbúð 18B, gegnum þakkantinn með loftun þaksins og yfir steypta millivegginn. Þegar vettvangsskoðunin fór fram 25. janúar fannst nokkur reykjarlykt inni í íbúðinni og var hún nokkuð megn í geymslunni þar sem mynd nr. 6 er tekin en annarsstaðar var hún lítil. Þessi geymsla er í miðju húsi og án glugga en er loftræst með lofttúðunni sem sést á myndinni. Ekki er hægt að fullyrða um það hvort ástæðu reykjarlyktarinnar í geymslunni er að leita í því að reykur hafi borist um lofttúðuna inn í geymsluna eða að reykjarlyktin hangi lengur í henni vegna lítillar loftunar.”....

“Þegar íkveikjan átti sér stað voru íbúar í íbúð 18B í norðurendanum sofandi í herbergjum sínum. Eins og sést á mynd 1 eru herbergin staðsett í norðurenda hússins fjær milliveggnum að íbúð 18A.. Nágranni sem verður var við eldinn (hann býr í annarri götu frá Norðurbyggð) vekur íbúana og þeir koma sér út. Í lögregluskýrslu kemur fram að konan sem býr þar hafi fundist vera lítill eldur í húsinu. Það að reykurinn hafði borist þessa vegalengd áður en húsið varð alelda og gluggar brotna bendir til þess að svalahurðin á 18A hafi verið opin. Vindáttin stendur á fjölbýlishúsið við Sambyggð 10 – 12 sem er sunnan við Norðurbyggð 18 sem segir að reykinn lagði þannig frá íbúðinni 18B. Almannahætta fyrir íbúa í íbúðinni 18B telst þess vegna lítil og felst einkum í því, að vegna galla í milliveggnum sem skilur íbúðirnar að, berst reykur inn í íbúðina 18A, ekki þó í miklum mæli. Fólk sem er viðkvæmt í lungum hefði fundið meira fyrir þessu og einnig má ekki gleyma sálrænum þætt málsins. Manngengir gluggar eru á öllum herbergjunum. Flóttaleiðir úr íbúðinni eru fullnægjandi þannig íbúarnir geta forðað sér undan reyknum.

Niðurstaða:

Með vísan til ofanritaðs má telja öruggt að íkveikjan í íbúðinni Norðurbyggð 18A leiddi til almannahættu. Almannahættan við íkveikjuna í íbúðinni felst í því að öruggt er að íkveikja í húsgögnum og veggjum myndi valda yfirtendrun í íbúðinni þ.e. hún yrði alelda hvort heldur sem notaður er hvati til þess (olía eða benzín) eða ekki. Með því myndi allar innréttingar og laus húsbúnaður eyðileggjast og einnig yrðu verulegar skemmdir á sjálfri byggingunni, bæði inni í íbúðinni þar sem léttir inveggir og þak brynni og utan hennar í gluggum og þakköntum.

Vegna aðstæðna umhverfis húsið er ljóst að almannahættan við íkveikjuna utan íbúðarinnar þ.e. Norðurbyggðar 18A er eingöngu bundin við íbúðina Norðurbyggð 18B og felst í reykskemmdum sem verða í gegnum þakkanta og yfir A60 (EI90) brunasamstæðuskilin á milli íbúðanna. Skemmdirnar verða að mestu bundnar við þakrýmið sjálft en einnig að einhverju marki í íbúðinni í gegnum loftventla og eðlilegan óþéttleika í rakasperrum.  Almannahætta fyrir íbúa í íbúðinni 18A er ekki fyrir hendi þar sem hann var ekki heima.

Almannahætta fyrir íbúa í íbúðinni 18B telst lítil þrátt fyrir galla í milliveggnum sem skilur íbúðirnar að sem veldur því að  reykur berst inn í íbúðina, þó ekki sé það í miklum mæli. Mögulegt er að fólk sem er viðkvæmt í lungum hefði fundið fyrir óþægindum og einnig má ekki gleyma sálrænum þætt málsins, einkum hjá börnunum.”

            Verkfræðingurinn hefur komið fyrir dóm í málinu og sagt það sérstaklega aðspurður að steinveggurinn milli íbúðanna hafi átt að vera eldheldur en vegna ágallans sem lýst er í skýrslu hans hafi hann ekki verið eldheldur.  Í því tilviki að ekki hefði verið gert neitt til þess að slökkva eldinn, hefði eldur breiðst yfir í þakið á húsi 18B þótt ekki sé víst að það þak hefði orðið alelda.  Ef vindátt hefði verið önnur en hún var kynni húsið allt að hafa brunnið. 

Ákærði lagði eld í íbúð í parhúsi að næturlagi svo að fyrirsjáanlega hlaust af gríðarmikið eignatjón.  Hlaut ákærða jafnframt að vera ljóst að líklegt væri að fólk væri sofandi í húsinu nr. 18B, sem og reyndist vera, og að hann stefndi því í augljósan lífsháska með íkveikjunni.  Braut hann með þessu athæfi gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga.

3.

Ákærði hefur skýlaust játað að hafa, þennan laugardag ekið bílnum LU-722 undir áhrifum ávana- og fíkniefna og sviptur ökuréttindum eins og rakið er í 3. lið ákærunnar.  Hefur hann orðið sekur um athæfi það sem þar er lýst og réttilega fært til refsiákvæða.

 

4.

Ákærði hefur skýlaust játað að hafa, þennan laugardag, reynt að svíkja út úr verslun Byko vörur að verðmæti 84.156 krónur með greiðslukorti sem hann hafði stolið í Norðurbyggð 18A eins og lýst er 4. tölulið þessarar ákæru.  Hefur hann orðið sekur um athæfi það sem þar er lýst og réttilega fært til refsiákvæða.

 

 Viðurlög, skaðabætur og sakarkostnaður

            Ákærði, sem telst sakhæfur, á að baki nokkurn sakaferil allt frá árinu 1996.  Hefur hann verið dæmdur sjö sinnum til refsivistar, bæði fyrir hegningarlagabrot og sérrefsilagabrot; fíkniefnalaga-, umferðarlaga-, tollalaga-, lyfsölulaga- og skotvopnalagabrot.  Þá hefur hann verið sektaður þrisvar sinnum fyrir fíkniefnalagabrot, einu sinni fyrir skotvopnalagabrot og einu sinni fyrir umferðarlagabrot.  Síðast var hann dæmdur í 16 mánaða fangelsi 27. febrúar sl.  Refsing ákærða nú verður hegningarauki við þennan dóm.  Ránstilraun ákærða og brennubrot voru hættuleg og harðsvíruð.  Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 3 ½  ár og er þá höfð hliðsjón af því að hann hefur játað brot sín greiðlega.  Frá refsingunni ber að draga 47 daga gæsluvarðhald ákærða.

            Dæma ber ákærða til þess að vera áfram sviptur ökurétti ævilangt frá dómsuppsögu að telja.

Samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni ber að dæma ákærða til þess að sæta upptöku á 0,56 g af kannabisefni sem fannst á honum.

Þórunn Brynja Sigurbjörnsdóttir, eigandi bílsins OP-770, hefur krafist þess að ákærði verði dæmdur til þess að greiða henni 167.462 krónur í skaðabætur ásamt hæstu lögleyfðum vöxtum.  Bótakröfunni er mótmælt þar sem hún sé vanreifuð. Verður á það fallist með ákærða  og er kröfunni vísað  frá dómi.

            Ákærði hefur samþykkt bótakröfu Magnúsar Ásgeirssonar og ber að dæma hann til þess að greiða Magnúsi 844.984 krónur ásamt almennum vöxtum samkvæmt 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001, frá 20. janúar 2007 til 22. september 2007, en eftir það með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laganna til greiðsludags. 

            Ákærði hefur einnig samþykkt bótakröfu Ragnheiðar Bjarneyju Hannesdóttur og ber að dæma hann til þess að greiða Ragnheiði Bjarneyju 516.446 krónur ásamt almennum vöxtum frá 20. janúar 2007 til 22. september 2007, en eftir það með dráttarvöxtum til greiðsludags. 

            Af hálfu Vátryggingafélags Íslands er þess krafist að ákærði verði dæmdur til þess að greiða félaginu 17.078.084 krónur auk vaxta og dráttarvaxta samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu.  Ákærði mótmælir bótakröfunni þar sem hún sé vanreifuð.  Krafa þessi er óljós um sumt og ekki hefur verið sótt þing af hálfu félagsins til þess að skýra hana.  Verður fallist á kröfu ákærða og ber að vísa kröfunni frá dómi.

            Dæma ber ákærða til þess að greiða 478.400 krónur í málsvarnarlaun til Sigurðar Sigurjónssonar hrl., og dæmast þau með virðisaukaskatti.  Þá ber að dæma hann til þess að greiða verjandanum 40.120 krónur í ferðakostnað, samtals 518.520 krónur  Loks ber að dæma ákærða til þess að greiða 1.728.593 krónur í annan sakarkostnað.

 

DÓMSORÐ:

Ákærði, Guðmundur Freyr Magnússon, sæti fangelsi í 3 ½  ár.  Frá refsingunni dregst 47 daga gæsluvarðhaldsvist.

            Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt frá dómsuppsögu að telja.

Ákærði sæti upptöku á 0,56 g af kannabisefni.

            Ákærði greiði Magnúsi Ásgeirssyni 844.984 krónur í skaðabætur ásamt almennum vöxtum samkvæmt frá 20. janúar 2007 til 22. september 2007, en eftir það með dráttarvöxtum til greiðsludags. 

            Ákærði greiði Ragnheiði Bjarney Hannesdóttur 516.446 krónur í skaðabætur ásamt almennum vöxtum frá 20. janúar 2007 til 22. september 2007, en eftir það með dráttarvöxtum til greiðsludags. 

Ákærði greiði verjanda sínum, Sigurði Sigurjónssyni hrl., 518.520 krónur.  Ákærði greiði 1.728.593 krónur í annan sakarkostnað.

                                                           

                                                                        Pétur Guðgeirsson