• Lykilorð:
  • Öryggisráðstafanir

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness mánudaginn 27. mars 2006 í máli nr. S-349/2006:

Ákæruvaldið

(Alda Hrönn Jóhannsdóttir ftr.)

gegn

Grétari Má Steindórssyni

(Hilmar Baldursson hdl.)

Mál þetta, var dómtekið 22. mars s.l. á grundvelli heimildar í 125. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Málið höfðaði lögreglustjórinn í Hafnarfirði með ákæru útgefinni 20. febrúar 2006 á hendur Grétari Má Steindórssyni, kt. 000000-0000, Víðihvammi 14, Kópavogi, "fyrir brot á lögum og reglum um öryggi á vinnustöðum, með því að hafa, fimmtudaginn 14. júlí 2005, við nýbyggingu að Strandvegi 5, Garðabæ, sem framkvæmdarstjóri Í.B. verktaka, kt. 000000-0000, eigi haft til staðar fullnægjandi vinnupalla og án fallvarna en í stað þeirra voru notaðar spýtur sem lagðar voru milli gluggakarma í u.þ.b. 6 metra hæð, eigi haft greiða aðgangsleið að byggingunni sem var án þétts og trausts fjalagólfs og án handriða en við aðgengi byggingarinnar var “dokaborð” án fallvarna og handriða komið fyrir og mátti finna óvarin steypustyrktarjárn fyrir neðan brúnna þar sem fallhæð var um 3 metrar, og auk þess haft í vinnu ungmenni, 16 ára að aldri, þar sem slysahætta var fyrir hendi.

 

Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr. 8. gr. reglna nr. 547/1996, sbr. lið 16 og 21 í B-hluta viðauka IV, sbr. 13. gr. reglna nr. 547/1996 og 13., 37., 42. og 99. gr. laga nr. 46/1980, við 8. gr. reglna nr. 547/1996, sbr. lið 20.1 og 20.2 í B-hluta viðauka IV, sbr. 13. gr. reglna nr. 547/1996 og 13., 37., 42. og 99. gr. laga nr. 46/1980, og við d lið 62. gr., sbr. 63. gr. f. laga nr. 46/1980, sbr. 5. gr. laga nr. 52/1997, 14. og 36. gr., sbr. viðauka 3 reglugerðar nr. 426/1999, og 99. gr. laga nr. 46/1980.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar."

 

 

 

 

Á árinu 2001 var gerð við ákærða lögreglustjórasátt og honum gert að greiða sekt, auk þess að hlíta sviptingu ökuréttar í 12 mánuði fyrir brot gegn 1. sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga.  Ekki liggur fyrir að ákærður hafi hlotið refsingu fyrir brot á almennum hegningarlögum.

Við refsimat í málinu verður tekið tillit til þess, að ákærði gekkst undanbragðalaust við broti sínu og óumdeilt er að hann gerði strax þær lagfæringar á vinnuaðstöðunni, sem Vinnueftirlitið hafði gert kröfu um.  Þá liggur fyrir að örugg innganga var í húsið af jarðhæð þess.  Þó að fallast megi á það með verjanda ákærða að viðauki 3 við reglugerð nr. 426/1999, sé of víðtækur og óskýr til að byggja á almennt sem refsiheimild og beiting hans verði að byggja á sérstöku mati hverju sinni, fer ekki á milli mála, að unglingurinn, sem fjallað er um í málinu, var mikil hætta búinn með því að starfa í um 4ra metra hæð frá jörðu á fjölum milli glugga án nokkurra fallvarna, og fellur háttsemi ákærða að því er hann varðar undir 4. gr. reglugerðar nr. 426/1999.

Að þessu virtu þykir hæfileg refsing ákærða vera 90.000 króna sekt og komi 8 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan 4ra vikna.

Dæma ber ákærða til að greiða skipuðum verjanda sínum Hilmari Baldurssyni hdl., málsvarnarlaun, sem ákveðast 62.250 krónur, með virðisaukaskatti, en annan kostnað leiddi ekki af málinu.

Af hálfu ákæruvalds fór með málið Alda Hrönn Jóhannsdóttir fulltrúi sýslumannsins í Hafnarfirði.

DÓMSORÐ

Ákærður, Grétar Már Steindórsson, greiði 90.000 krónur í sekt til ríkissjóðs og komi 8 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan 4ra vikna frá birtingu dóms að telja.

Ákærður greiði skipuðum verjanda sínum Hilmari Baldurssyni, héraðsdóms-lögmanni, 62.250 krónur í málsvarnarlaun með virðisaukaskatti, en ekki er annar sakarkostnaður í málinu.

 

Guðmundur L. Jóhannesson