• Lykilorð:
  • Börn
  • Heilbrigðismál
  • Fangelsi

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra 26. nóvember 2018 í máli nr. S-165/2018:

Ákæruvaldið

(Eyþór Þorbergsson fulltrúi)

gegn

Móniku Atladóttur

 

Mál þetta, sem var dómtekið 16. nóvember sl., var höfðað með ákæru lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, dagsettri 15. október 2018, á hendur Móniku Atladóttur, [...], Akureyri,

 

„fyrir brot á barnaverndarlögum, lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerð um hollustuhætti, með því að hafa í byrjun desember 2017, húðflúrað án þess að hafa vottorð frá Landlækni, þrjár stúlkur en húðflúrunin fór fram í heimahúsi í íbúð að [...] á Akureyri, en tvær af þessum stúlkum voru undir átján ára aldri, [A] og [B], og ákærða var ekki með skriflegt leyfi forráðamanna stúlknanna til að húðflúra þær, en með þessu stefndi hún heilsu stúlknanna í alvarlega hættu.

Telst þetta varða við 2. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, með síðari breytingum, 1. mgr. 67. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum og 1. mgr., 2. mgr. og 3. mgr. 47. gr., sbr. 75. gr. reglugerðar nr. 941/2002, um hollustuhætti, með síðari breytingum.

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.  Jafnframt er þess krafist að haldlögð húðflúrunartæki og litir til húðflúrunar verði gerðir upptækir, samkvæmt 1. tl., 1. mgr. 69. gr. a, almennra hegningar­laga nr. 19/1940, með síðari breytingum.

 

Ákærða sótti ekki þing, þrátt fyrir að hafa verið birt fyrirkall. Þar var þess getið að málið kynni að verða dæmt að henni fjarstaddri, sbr. 1. mgr. 155. gr. laga nr. 88/2008. Er því heimilt samkvæmt 1. mgr. 161. gr. sömu laga með áorðnum breytingum að leggja dóm á málið að ákærðu fjarverandi, enda varðar brot ekki þyngri viðurlögum en þar er áskilið í a-lið og framlögð gögn verða talin nægjanleg til sakfellingar en ákærða hafði, við skýrslutöku hjá lögreglu, játað verknaðinn. Verður ákærða sakfelld fyrir þá háttsemi sem henni er gefin að sök í ákæru og þar er rétt heimfærð til refsiákvæða.

Ákærða hefur hlotið dóma fyrir þjófnaði, umferðarlagabrot og brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni og var nú síðast dæmd til að sæta fangelsi í þrjá mánuði, þann 10. september 2018. Refsing hennar er ákveðin fangelsi í 30 daga.

Að kröfu ákæruvalds, og með vísan til 1. tl. 1. mgr. 69. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 skal ákærða sæta upptöku á húðflúrunartækjum og litum sem lögregla gerði upptæk 21. desember 2017 og tilgreind eru á munaskrá nr. 128275.

Engan sakarkostnað leiddi af meðferð málsins.

Arnbjörg Sigurðardóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

D Ó M S O R Ð :

Ákærða, Mónika Atladóttir, sæti fangelsi í 30 daga.

Gerð eru upptæk haldlögð húðflúrunartæki og litir til húðflúrunar sem tilgreind eru á munaskrá lögreglustjórans á Norðurlandi eystra nr. 128275.