• Lykilorð:
  • Brot gegn valdstjórninni
  • Hylming
  • Upptaka
  • Vopnalagabrot

 

D Ó M U R

            Héraðsdóms Reykjaness miðvikudaginn 28. nóvember 2012 í máli nr. S-328/2012:

Ákæruvaldið

(Hulda María Stefánsdóttir saksóknari)

gegn

Einari Hauki Sigurjónssyni

(Guðmundur St. Ragnarsson hdl.)

 

            Mál þetta sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð þann 16. nóvember sl. er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 25. apríl 2012, á hendur Einari Hauki Sigurjónssyni, kennitala 000000-0000, Hringbraut 128n, Reykjanesbæ, fyrir eftirtalin vopnalaga- og hegningarlagabrot framin að kvöldi sunnudagsins 26. febrúar á heimili hans að Hringbraut 128, íbúð n, Reykjanesbæ, á árinu 2012 nema annað sé tekið fram:

 

I.

 

            Brot gegn valdstjórninni, með því að hafa otað hnífi með 11 sm löngu blaði að lögreglumönnunum Jóni Kristni Þórssyni og Einari Júlíussyni, sem voru þar við skyldustörf.

Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

 

II.

 

          Vopnalagabrot, með því að hafa átt og haft í vörslum sínum eftirgreind vopn, skoteldapúður, skotfæri, sprengju og efni til sprengjugerðar án þess að hafa aflað til þess tilskyldra leyfa lögreglustjóra og fyrir að hafa hagað geymslu skammbyssunnar, sprengjunnar, skotfæranna og sprengiefnisins með ófullnægjandi hætti, en lögreglan fann hluti þessa við leit á heimili ákærða:

1. Hlaðna 22 cal. skammbyssu að óþekktri tegund án þess að hafa öðlast skotvopnaleyfi og geymt skotvopnið og fjögur 22 cal. skotfæri óaðskilin og eigi í læstum hirslum.

2. Þrjú bitvopn með blaði lengra en 12 sm.

3. Handjárn úr málmi.

4. Heimagerða rörasprengju, gerða úr járnröri með áföstum járntöppum og kveikiþræði sem stóð upp úr öðrum enda sprengjunnar. Samtals var sprengjan 13 sm að lengd og 3 sm að þvermáli og vó hún samtals 462 gr.

5. Tvo 9 kg propangaskúta er vógu samtals 29,7 kg, með um 11,7 kg af propangasi, flösku fulla af stálkúlum er voru 2, 3 og 4 mm að þvermáli, og voru 7,5 kg, og 90 gr. af skoteldapúðri, sem ákærði hafði aflað með því að taka skotelda í sundur.

 

          Telst brot samkvæmt ákærulið II/1 varða við 1. mgr. 12. gr. og  2. mgr. 23. gr. vopnalaga nr. 16/1998 og 33. gr., sbr. 56. gr., reglugerðar um skotvopn, skotfæri o.fl. nr. 787/1998, brot skv. ákærulið II/2 varða við  a-lið 2. mgr. 30. gr. vopnalaga, brot skv. ákærulið III/3 varða við 4. mgr. 30. gr. vopnalaga, brot skv. ákærulið II/4 og II/5 varða við 2. mgr. 2. gr., 1. mgr. 27. gr. og 1. mgr. 28. gr. og 5. gr., sbr. 36. gr., reglugerðar um skotelda nr. 952/2003, allt sbr. 36. gr. vopnalaga.

 

III.

 

          Hylmingu, með því að hafa haft í vörslum sínum skammbyssu þá er greinir í ákærulið II frá árinu 2006, þrátt fyrir að ákærða hafi mátt vera það ljóst að um þýfi væri að ræða og þannig haldið skammbyssunni ólöglega fyrir eiganda sínum, en byssunni var stolið úr bifreiðinni MT-670 við Brú í Hrútafirði þann 19. júní 2006.

Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

          Jafnframt er þess krafist að ákærða verði gert að sæta upptöku á eftirfarandi munum sem lögregla lagði hald á:

1. Vopnum, skotfærum, sprengju, skoteldapúðri, sprengiefni og handjárnum samkvæmt ákærukafla II, með vísan til 1. mgr. 37. gr. vopnalaga.

2. Hnífi (mun 357552) sem ákærði notaði við framningu brots samkvæmt ákærukafla I., með vísan til 1. tl. 1. mgr. 69. gr. a almennra hegningarlaga.

          Ákærði hefur fyrir dóminum og hjá lögreglu neitað sök samkvæmt I. lið ákæru en játaði við aðalmeðferð þær sakir sem á hann eru bornar samkvæmt 1., 3. og 4. tl. II. liðar en varðandi 2. og 5. tl. kannast hann við að hafa haft þá muni sem þar er lýst í vörslum sínum en hefur bent á það að hann telji nefnda tvo hnífa vera skrautmuni en ekki vopn í skilningi vopnalaga. Um 5. tl. hefur ákærði sagt að hann hafi ekki litið á gaskúta þá sem þar eru nefndir sem vopn heldur hafi hann haft í hyggju að selja þá og að stálkúlur þær sem um er getið hafi reyndar verið úr blýi og ekki haft nein tengsl við kútana. Ákærði hefur viðurkennt að hafa aflað sér skoteldapúðurs með því að taka í sundur skotelda eins og segir í 5. tl. ákæru. Þrátt fyrir þá fyrirvara sem hann hefur sett fram varðandi ákærulið II andmælir hann ekki kröfu sem gerð er í ákæru um upptöku á þeim munum sem þar greinir. Varðandi III. lið ákærunnar þá kannast ákærði við að skammbyssa sem þar er getið hafi komist í vörslur hans á leið hans norður í land á árinu 2006 en telur að sök hans sé fyrnd og vísar í því sambandi til þess að meint brot hafi verið framið 19. júní 2006 eða rúmum sex árum fyrir útgáfu ákæru. Telur ákærði að jafnvel þótt hylmingarbrot þætti sannað þá verði hann ekki sakfelldur fyrir það og vitnar til ákvæða 2. tl. 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem mæli fyrir um fimm ára fyrningartíma, þegar ekki liggur þyngri refsing við broti en fjögur ár, eins og mælt er fyrir um í 254. gr. almennra hegningarlaga.

          Verjandi ákærða hefur krafist þess aðallega að ákærði verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvalds en til vara að hann verði sýknaður af I. og III. þætti ákæru og til þrautavara að honum verði gerð sú vægasta refsing sem lög leyfa.

I.

            Samkvæmt skýrslu lögreglu frá 19. mars 2012 var tilkynnt til lögreglu þann 26. febrúar 2012 að ákærði hegðaði sér skringilega á samskiptavefnum Facebook. Hann væri að birta af sér myndir haldandi á riffli og haglabyssu, ber að ofan. Í samskiptum við fyrrverandi kærustu hans, Ástrós, taldi hún að hann væri að ógna henni. Þá hafi hann látið það í ljós að íbúð hans væri tengd sprengju. Einnig voru myndir á Facebook af sprengju og sprengiefni sem og myndir af því er hann hafði sprengt fiskikar. Þá hafi hann látið þess getið að mikið af vopnum væri innandyra á heimili hans. Sökum alvarleika þessara upplýsinga var leitað til Héraðsdóms Reykjaness í þeim tilgangi að fá húsleitarheimild og gekk úrskurður þann 26. febrúar 2012 um að húsleit mætti fara fram á heimili ákærða.

                Sérsveit ríkislögreglustjóra var fengin til að fara inn í íbúð ákærða, sem er þriggja herbergja íbúð á þriðju hæð í fjölbýlishúsi. Sérsveitarmenn fóru inn í íbúðina með því að brjóta upp hurðina með svokallaðri mastersleggju og komu ákærða þannig á óvart. Ákærði var í stofu íbúðarinnar og greip til hnífs sem hann beindi að sérsveitarmönnum. Sagðist ákærði hafa lagt hnífinn frá sér um leið og hann áttaði sig á því að um lögreglumenn væri að ræða. Hann var yfirbugaður og handtekinn. Þar sem grunur lék á að sprengja væri í íbúðinni var sprengjusveit Landhelgisgæslunnar fengin til þess að leita þar að sprengjum.  

            Í íbúðinni fannst meðal annars 22 cal. skammbyssa, svokölluð kindabyssa einskota, hlaðin með skoti í hlaupi. Tíu hnífar fundust, eftirlíkingar af skammbyssum (plastbyssur), virk rörasprengja með kveikiþræði og efni til sprengjugerðar auk tveggja gaskúta sem ákærði sagðist hafa íhugað að nota til sprengjugerðar.

Kvaðst ákærði hafa keypt kindabyssuna árið 2005.    Var ákærði úrskurðaður í gæsluvarðhald mánudaginn 27. febrúar 2012 til mánudagsins 5. mars 2012, kl. 16:00. Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar sem staðfesti úrskurð Héraðsdóms Reykjaness.  Þá var hann úrskurðaður á ný í gæsluvarðhald þann 5. mars 2012 til mánudagsins 26. mars 2012. kl. 16:00. Þá var ákærði úrskurðaður af Héraðsdómi Reykjaness til að gangast undir geðrannsókn sem  Nanna Briem, geðlæknir, var fengin til þess að annast.

II.

            Ákærði lýsti fyrir dóminum aðdraganda að meintu valdstjórnarbroti, sem hann er sakaður um í I. kafla ákæru, á þann veg að hann hafi verið búinn að taka lyfin sín um kvöldið og verið sofnaður í sófa inni í stofu. Ástæðuna fyrir því að hann hafði hníf við höndina kvað hann vera að hann væri vanur að skera á sér neglurnar með hnífi í stað þess að klippa. Neitaði ákærði því að hann hafi ætlað að nota hnífinn gegn lögreglumönnunum, hann hafi verið í varnarstöðu en ekki árásarstöðu. Sagði ákærði að hann hafi vaknað við það að húsið nötraði og að allt í einu hafi íbúð hans verið full af fólki sem hafi verið með skildi og lýst framan í hann með skotvopni þannig að hann hafi ekki séð hverjir voru á ferð í myrkrinu inni í íbúðinni. Sagði ákærði að þeir sem þarna voru á ferð hafi ekki sagt, svo hann heyrði, að lögreglan væri á ferð fyrr en hann lagði frá sér hnífinn sem hann hafi ósjálfrátt gripið til. Sagðist ákærði allan tímann hafa haldið hnífnum upp við bringuna og ekki ógnað neinum með honum.

            Sagðist ákærði játa sök samkvæmt 1. tl. í II. kafla ákæru og áréttar að skammbyssan sé kindabyssa. Um 2. tl. í sama kafla telji hann nefnda tvo hnífa vera skrautmuni en ekki vopn í eiginlegum skilningi og að hann hafi átt þá í mörg ár. Játar ákærði að hafa átt handjárn úr málmi sem lýst er í 3. tl. Varðandi 4. tl. sagði ákærði að heimagerðu rörasprengjuna, sem hann viðurkennir að hafa átt og búið til úr flugeldum, hafi hann litið á sem öflugan kínverja sem hann hafi ætlað að sprengja úti í móa. Gaskútana sem nefndir eru í 5. tl. sagði hann ekkert tengjast kúlum þeim sem nefndar eru í þessum lið og hann hafi ætlað að selja kútana sem hafi verið inni hjá honum fyrir tilviljun.

            Ákærði sagði að byssuna sem nefnd er í III. kafla ákærunnar hafi hann keypt en ekki hugsað neitt út í það hvort um væri að ræða þýfi. Sagði ákærði að honum hafi liðið mjög illa á meðan rannsókn málsins, sem var mjög umfangsmikil, stóð yfir. Hann sagðist ganga reglulega til geðlæknis einu sinni í mánuði og auk þess njóti hann stuðnings heimilislæknis á heilsugæslustöð.

            Vitnið Nanna Briem, geðlæknir, staðfesti fyrir dóminum vottorð sitt um geðhagi ákærða sem liggur fyrir í málinu. Sagði hún að þegar ákærði hafi notið góðs stuðnings og aðstoðar þá hafi komist meira jafnvægi á hans líðan.

Vitnið Óttar Guðmundsson, geðlæknir, staðfesti fyrir dóminum vottorð sitt um geðhagi ákærða sem liggur fyrir í málinu. Sagði vitnið að gott væri fyrir ákærða að njóta hjálpar geðlæknis til þess að komast í gegnum sín vandamál. Áréttaði vitnið að á þeim tíma sem hann sinnti sem læknir meðferð ákærða þá hafi hann ekki talið hann hættulegan og að um að gera væri fyrir hann að lifa sem eðlilegustu lífi.

Vitnið Einar Júlíusson, lögreglumaður, sagðist hafa verið kallaður til ásamt nokkrum öðrum að heimili ákærða í umrætt sinn. Kvaðst vitnið hafa verið annar í röðinni af þeim sem inn fóru en sá sem fyrstur var hafi kallað: „Hnífur“. Þegar vitnið heyrði þetta tók hann upp skammbyssu sem á var ljós til þess að sjá betur, en mikið myrkur var inni í íbúðinni, en þegar vitnið kom inn í stofuna lá ákærði í sófa með hníf sem hann byrjaði að veifa að vitninu og hinum lögreglumanninum sem kominn var inn. Kvaðst vitnið þá hafa sagt ákærða að sleppa hnífnum, sem hann gerði ekki alveg strax. Kvaðst vitnið þá hafa sett niður byssuna og tekið upp kylfu og hótað ákærða að hann myndi slá hann legði hann ekki niður hnífinn. Eftir nokkra stund, sem vitnið kvaðst ekki muna hversu löng var, lagði ákærði frá sér hnífinn. Sagði vitnið að þegar þeir hafi farið inn í íbúðina hafi þeir kallað: „Vopnuð lögregla“. Sagði vitnið að ákærði hefði beint hnífnum að þeim félögum, sem fremstir fóru, til skiptis. Kvaðst vitnið ekki geta metið hvort ákærði hafi verið vakandi þegar sérsveitarmenn lögreglu brutu sé leið inn í íbúðina með tilheyrandi hávaða, en þegar vitnið kom inn í stofuna þá hafi ákærði verið vakandi. Sagði vitnið að sá sem fór inn á undan honum hafi verið með skjöld. Sagðist vitnið hafa beint byssunni með ljósinu að ákærða eftir að ljóst var að hann var með hníf. Kvað vitið að augljóst hafi verið að ákærða hafi verið mjög brugðið við umrædda atburðarás.

Vitnið Sigvaldi Arnar Lárusson, lögreglumaður, sagðist hafa verið á vakt á umræddum tíma þegar stúlka hringdi sem sagðist óttast ákærða vegna einhverra fésbókarfærslna með tilheyrandi myndum.

Vitnið Jón Kristinn Þórsson, lögreglumaður, sagðist hafa verið fyrstur inn þegar lögreglan braut sér leið inn í íbúð ákærða. Kvaðst hann hafa verið með skjöld sér til varnar. Þegar inn var komið var allt í myrkri og því tók hann upp byssu sem var með ljósi sem hann beindi að gólfinu til þess að sjá betur og þá sá hann sjónvarpsglampa úr stofunni. Þegar hann gekk inn í stofuna sá hann ákærða, sem otaði hnífi í átt að vitninu, liggja í sófa í stofunni. Sagði vitnið að ákærði hefði einnig otað hnífi að næsta manni sem kom á vettvang. Sagðist vitnið muna eftir því að hann hafi þá strax sett byssuna aftur í hulstur og tekið upp kylfu. Sagði vitnið að lögreglumennirnir hafi skorað á ákærða, sem virtist vera mjög hræddur, að leggja frá sér hnífinn sem hann hefði gert eftir smástund. Í fyrstu hefði ákærði dregið hnífinn upp að sér og öskrað og virtist vitninu ákærði meira vera hræddur en ógnandi eftir að hafa otað hnífnum að honum og vitninu Einari á víxl. Sagði vitnið að er aðgerðin hófst hafi lögreglumennirnir kallað ítrekað að vopnuð lögregla væri á ferð.

Vitnið Gunnsteinn Örn Hjartarson, lögreglumaður, kvaðst hafa tekið þátt í umræddri aðgerð og séð þegar ákærði beindi frá sér hníf en getur ekki lýst því nánar en að hann hafi beint honum að lögreglumönnunum sem fremstir voru og næstir ákærða. Sagði vitnið að er aðgerðin hófst hafi lögreglumennirnir kallað ítrekað að vopnuð lögregla væri á ferð. Sagði vitnið  að sér hafi virst sem ákærða væri mjög brugðið.

Vitnið Jón Már Jónsson, lögreglumaður, sagði að rörasprengja sem fannst í íbúð ákærða hafi verið virk og sprungið með miklu afli þegar á það var látið reyna. Taldi vitnið slíkar sprengjur mjög hættulegar og hafa valdið dauða.

Vitnið Arnór Eyþórsson, lögreglumaður, sagði að rörasprengjan sem fannst í íbúð ákærða hefði getað skapað mikla hættu við vissar aðstæður.

            Vitnið Hannes Sigmarsson, heimilislæknir, staðfesti vottorð sem hann hefur gefið og liggur fyrir í málinu. Sagði vitnið að hann hefði um skeið sl. sumar annast ákærða vegna erfiðleika sem hann átti við að stríða og að ákærði hafi sinnt því vel að fá hjálp og stuðning sem vitnið telur hann þurfa á að halda. Taldi vitnið að heppilegt væri fyrir ákærða að fá slíka þjónustu einu sinni í mánuði eða þar um bil og að ákærði hefði sjálfur leitað eftir því.

            Vitnið Loftur Kristjánsson, rannsóknarlögreglumaður nr. 9024, sagði að bit hafi verið í egg hnífanna sem ákærði vill meina að hafi verið skrautmunir og að nefnd kindabyssa hafi ekki veri prófuð við rannsóknina. Kúlur þær sem nefndar eru í ákæru hafi verið alveg sér í geymslu og ekki í neinum tengslum við vopnabúnað sem fannst á heimili ákærða.

            Niðurstaða:

            Ákærði hefur neitað sök sem á hann er borin í I. kafla ákærunnar. Er frásögn hans með þeim hætti að hann hafi verið búinn að taka lyfin sín um kvöldið og verið sofnaður í sófa inni í stofu. Ástæðuna fyrir því að hann hafði hníf við höndina kvað hann vera að hann væri vanur að skera á sér neglurnar með hnífi í stað þess að klippa þær. Neitaði ákærði því að hann hafi ætlað að nota hnífinn gegn lögreglumönnunum, hann hafi verið í varnarstöðu en ekki árásarstöðu. Sagði ákærði að hann hafi vaknað við það að húsið nötraði og að allt í einu hafi íbúð hans verið full af fólki sem hafi verið með skildi og lýst framan í hann með skotvopni þannig að hann hafi ekki séð hverjir voru á ferð í myrkrinu inni í íbúðinni. Sagði ákærði að þeir sem þarna voru á ferð hafi ekki sagt að lögreglan væri á ferð fyrr en hann lagði frá sér hnífinn sem hann hafi ósjálfrátt gripið til. Sagðist ákærði allan tímann hafa haldið hnífnum upp við bringuna og ekki ógnað neinum með honum.

     Vitnið Einar Júlíusson, lögreglumaður, sagðist hafa verið kallaður til ásamt nokkrum öðrum að heimili ákærða í umrætt sinn. Kvaðst vitnið hafa verið annar í röðinni af þeim sem inn fóru en sá sem fyrstur var hafi kallað: „Hnífur“. Þegar vitnið heyrði þetta tók það upp skammbyssu sem á var ljós til þess að sjá betur, en mikið myrkur var inni í íbúðinni, en þegar vitnið kom inn í stofuna lá ákærði í sófa með hníf sem hann byrjaði að veifa að vitninu og hinum lögreglumanninum sem kominn var inn. Kvaðst vitnið þá hafa sagt ákærða að sleppa hnífnum, sem hann gerði ekki alveg strax. Kvaðst vitnið þá hafa sett niður byssuna og tekið upp kylfu og hótað ákærða að hann myndi slá hann legði hann ekki niður hnífinn, sem hann gerði eftir nokkra stund sem vitnið man ekki hversu löng var. Sagði vitnið að þegar þeir hafi farið inn í íbúðina hafi þeir kallað: „Vopnuð lögregla“. Sagði vitnið að ákærði hafi beint hnífnum að þeim félögum til skiptis. Kvað vitnið ekki geta metið hvort ákærði hafi verið vakandi þegar sérsveitarmenn lögreglu brutu sé leið inn í íbúðina með tilheyrandi hávaða en þegar vitnið kom inn í stofuna þá hafi ákærði verið vakandi. Sagði vitnið að sá sem fór inn á undan því hafi verið með skjöld. Sagðist vitnið hafa beint byssunni með ljósinu að ákærða eftir að ljóst var að hann var með hníf. Kvað vitið að augljóst hafi verið að ákærða var mjög brugðið við umrædda atburðarás.

Vitnið Jón Kristinn Þórsson, lögreglumaður, sagðist hafa verið fyrstur inn þegar lögreglan braut sér leið inn í íbúð ákærða. Kvaðst hann hafa verið með skjöld sér til varnar. Þegar inn var komið var allt í myrkri og því tók hann upp byssu sem var með ljósi sem hann beindi að gólfinu til þess að sjá betur og þá sá hann sjónvarpsglampa úr stofunni og þegar hann gekk inn í stofuna sá hann ákærða, sem otaði hnífi í átt að vitninu, liggjandi í sófa í stofunni. Sagði vitnið að ákærði hefði einnig otað hnífi að næsta manni sem kom á vettvang. Sagðist vitnið muna eftir því að hafa þá strax sett byssuna aftur í hulstur og tekið upp kylfu. Sagði vitnið  að þeir hafi skorað á ákærða, sem virtist vera mjög hræddur, að leggja frá sér hnífinn, sem hann gerði eftir smástund. Í fyrstu hafi ákærði dregið hnífinn upp að sér og öskrað og virtist vitninu ákærði meira vera hræddur en ógnandi eftir að hafa otað hnífnum að  sér og vitninu Einari á víxl. Sagði vitnið að er aðgerðin hófst hafi lögreglumennirnir kallað ítrekað að vopnuð lögregla væri á ferð.

Vitnið Einar Júlíusson, lögreglumaður, kvaðst hafa verið annar í röðinni af þeim sem inn fóru en sá sem fyrstur var hafi kallað: „Hnífur“. Þegar vitnið heyrði þetta hefði það tekið upp skammbyssu sem á var ljós til þess að sjá betur, en mikið myrkur hefði verið inni í íbúðinni. Þegar vitnið hafi komið inn í stofuna hefði ákærði verið í sófa með hníf í hendi sem hann fór að veifa að vitninu og hinum lögreglumanninum sem kominn var inn. Kvaðst vitnið þá hafa sagt ákærða að sleppa hnífnum, sem hann gerði ekki alveg strax. Sagði vitnið að þegar þeir hafi farið inn í íbúðina hefðu þeir kallað: „Vopnuð lögregla“. Sagði vitnið að ákærði hefði beint hnífnum að þeim félögum til skiptis. Sagði vitnið að sá sem fór inn á undan honum hafi verið með skjöld. Sagðist vitnið hafa beint byssunni með ljósinu að ákærða eftir að ljóst var að hann var með hníf. Kvað vitið að augljóst hafi verið að ákærða var mjög brugðið við umrædda atburðarás.

Framburður lögreglumannanna er með þeim hætti að telja verður hafið yfir allan vafa að ákærði hafi otað hnífi að lögreglumönnum við skyldustörf eins og hann er sakaður um í ákæru.

Við ákvörðun refsingar verður höfð í huga lýsing lögreglumannanna á því að ákærða hafi verið mjög brugðið og að hann hafi fremur verið hræddur en ógnandi. Eins verður ekkert fullyrt um það að  ákærði hafi náð að átta sig á því nægilega fljótt að lögreglumenn voru á ferð fyrr en rétt áður en hann leggur frá sér hnífinn. Að þessu virtu mun dómari líta til ákvæða 75. gr. almennra hegningarlaga, enda eru lýsingar vitnanna á þá lund að brot ákærða hafi verið framið í ákafri geðæsingu eftir að ákærði vaknaði við innrás lögreglumanna, sem voru með lambhúshettur og vopnaðir skammbyssum, í íbúð sína. Þá er einnig til þess að líta að lögreglumennirnir hafa ekki lýst atburðum svo að þeir hafi talið sér stafa teljandi hætta af framferði ákærða, enda voru þeir vopnum búnir. Vitni gátu ekkert sagt um það hvort ákærði hafi verið vakandi þegar sérsveitarmenn lögreglu brutu sé leið inn í íbúðina með tilheyrandi hávaða en þegar vitnin komu inn í stofuna þá hefði ákærði verið vakandi. Að mati dómara þykir mega slá því föstu að viðbrögð ákærða hafi að meginstefnu til verið hræðsluviðbrögð sem horfi mjög til refsilækkunar.

Þær sakir sem bornar eru á ákærða í II. kafla ákæru hefur hann í raun játað fyrir dóminum en gert fyrirvara um að hann teldi að í 2. tl. væri um að tefla skrautmuni en ekki hnífa sem óleyfilegir væru samkvæmt vopnalögum. Vitnið Loftur Kristjánsson, rannsóknarlögreglumaður, sagði að bit hafi verið í egg hnífanna sem ákærði vill meina að hafi verið skrautmunir. Þá hefur ákærði ekki andmælt upptökukröfu á þeim hnífum, tækjum og tólum, skoteldapúðri og sprengiefni sem gerð er í ákæru. Að mati dómara hefur ákæruvaldinu tekist lögfull sönnun á sekt ákærða samkvæmt þessum kafla ákærunnar.

          Varðandi III. kafla ákæru þá kannast ákærði við að skammbyssa sem þar er getið hafi komist í vörslur hans á leið hans norður í land á árinu 2006 en telur að sök hans sé fyrnd og vísar í því sambandi til þess að meint brot hafi verið framið 19. júní 2006 eða rúmum sex árum fyrir útgáfu ákæru. Telur ákærði að jafnvel þótt hylmingarbrot þætti sannað þá verði hann ekki sakfelldur fyrir það og vitnar til ákvæða 2. tl. 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga sem mæli fyrir um fimm ára fyrningartíma þegar ekki liggur þyngri refsing við broti en fjögur ár eins og mælt er fyrir um í 254. gr. almennra hegningarlaga. Að mati dómara mátti ákærða vera ljóst að vera kynni að umrædd byssa væri þýfi en samkvæmt traustum gögnum var henni stolið úr bifreið við Brú í Hrútafirði 19. júní 2006.  Hér er um vopn að ræða, sem eykur mjög þá ábyrgð ákærða að fara gætilega í viðskiptum með byssuna og tryggja að kaup séu gerð við réttan og löglegan eiganda. Ákærði hefur sagt að hann hafi fyrir æsku sakir ekki haft vit á því eða hugsað út í það að byssan kynni að vera þýfi. Byssa þessi, sem er kindabyssa, hefur ekkert verið rannsökuð sérstaklega eða verðmæti hennar kannað. Er ákærði talinn sannur að sök samkvæmt þessum kafla ákærunnar. Ekki er fallist á það að sökin sé fyrnd en um fyrningu hylmingarbrots telur dómari að jafnan hafi verið stuðst við þá reglu að fyrningarfrestur hefjist ekki fyrr en brotamaðurinn losar sig við hlutinn og að frá þeim tíma þurfi fimm ár að líða svo sökin fyrnist.

          Ákærði á að baki sakaferil allt frá árinu 2002. Hefur hann þrisvar sinnum verið dæmdur fyrir brot gegn almennum hegningarlögum á árunum 2002 til 2004, þá á hann að baki fjögur umferðarlagabrot á árunum 2002 til 2005 og í ágúst 2006 hlaut ákærði 50.000 króna sekt fyrir brot gegn vopnalögum, en síðan þá hefur hann ekki komist í kast við lögin fyrr en með brotum sínum nú.

            Nanna Briem geðlæknir, sem annaðist geðheilbrigðisrannsókn á ákærða, kemst m.a. að þeirri niðurstöðu að ákærði geti verið hættulegur í framtíðinni en engar vísbendingar séu um að hann geti ekki stjórnað gerðum sínum og að ekkert læknisfræðilegt hafi komið fram sem bendi til þess að refsing geti ekki borið árangur. Taldi Nanna að sjálfsvígshætta gæti aukist við mikið álag og geðræn einkenni magnast.

     Vitnið Óttar Guðmundsson, geðlæknir, sagði að gott væri fyrir ákærða að njóta hjálpar geðlæknis til þess að komast í gegnum sín vandamál. Áréttaði vitnið að á þeim tíma sem það sinnti sem læknir meðferð ákærða þá hafi vitnið ekki talið hann hættulegan og að fyrir hann væri um að gera að lifa sem eðlilegustu lífi.

Brynjar Emilsson sem framkvæmdi sálfræðimat á ákærða lýsir því m.a. að ákærði hafi einkenni andfélagslegrar persónuröskunar en hann hafi vilja til þess að breyta lífi sínu og hafi náð nokkrum árangri.

            Hannes Sigmarsson, heimilislæknir, hefur skýrt frá því að hann hefði um skeið sl. sumar annast ákærða vegna erfiðleika sem hann átti við að stríða og að ákærði hafi sinnt því vel að fá hjálp og stuðning sem vitnið taldi hann þurfa á að halda. Taldi vitnið að heppilegt væri fyrir ákærða að fá slíka þjónustu einu sinni í mánuði eða þar um bil og að ákærð hefði sjálfur, að eigin frumkvæði, leitað eftir því.

            Við ákvörðun refsingar verður horft til þeirra sérstöku aðstæðna sem áður er lýst varðandi I. kafla ákærunnar. Þá liggur fyrir að ákærði hefur samkvæmt sakavottorði ekkert brotið af sér síðan 2006 fyrr en nú, sbr. 5. tl. 70 gr. almennra hegningarlaga, og að ekkert ofbeldisbrot er á ferli hans. Þá varð ekkert tjón vegna brotanna, sbr. 2. tl. sömu greinar. Þá er síðast en ekki síst til þess að líta að ákærði stundar nú nám með góðum árangri og hefur gert sér far um að leita sér hjálpar og stuðnings sem er af sérfræðingum talinn honum nauðsyn.

            Að öllu virtu þykir refsing hans nú hæfilega ákveðin fjögurra mánaða fangelsi sem rétt þykir að skilorðsbinda eins og nánar greinir í dómsorði. Dómari hefur hugað að því hvort rétt sé að mæla fyrir um að ákærði sæti umsjón læknis á skilorðstímanum með skipulögðum hætti en í ljósi ummæla lækna og þess að ákærði hefur gert sér far um að sækja sér læknishjálp og stuðning af sjálfsdáðum telur dómari rétt að bregða ekki á það ráð. Komi til fullnustu dómsins skal koma til frádráttar gæsluvarðhald sem ákærði hefur sætt frá 27. febrúar til 27. apríl 2012. Við ákvörðun refsingar hefur dómari haft dómafordæmi til hliðsjónar og bendir í því sambandi m.a. til dóms Hæstaréttar í máli nr. 1/2009.

            Eftir þessum úrslitum ber ákærða að greiða sakarkostnað eins og segir í dómsorði.

            Dómari telur augljóst að virtum rannsóknargögnum að miklu meira hafi verið lagt í rannsókn málsins en háttsemi ákærða gaf tilefni til og þykir því rétt að tveir þriðju hlutar málsvarnarlauna skipaðs verjanda ákærða, Guðmundar St. Ragnarssonar hdl., sem þykja hæfilega ákveðin, 564.750 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Tillit er tekið til greiðsluskyldu virðisaukaskatts af málsvarnarlaunum. Þessu til stuðnings bendir dómari sérstaklega á rannsókn á skrifum og hugarórum ákærða sem ekki hafa nein tengsl við þá háttsemi sem hann er ákærður fyrir.

            Hulda María Stefánsdóttir saksóknari sótti málið af hálfu ríkissaksóknara.

            Dóminn kveður upp Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Ákærði, Einar Haukur Sigurjónsson, sæti fangelsi í 4 mánuði, en fresta ber fullnustu refsingarinnar og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Komi til fullnustu dómsins skal koma til frádráttar gæsluvarðhald sem ákærði hefur sætt frá 27. febrúar til 27. apríl 2012.

Ákærði greiði einn þriðja hluta 564.750 króna málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar héraðsdómslögmanns, eða 188.250 krónur.

Ákærði sæti upptöku á vopnum, skotfærum, sprengju, skoteldapúðri, sprengiefni og handjárnum og hnífi (mun 357552) sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

                                                                        Sveinn Sigurkarlsson