• Lykilorð:
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Skaðabætur
  • Stjórnarskrá
  • Stjórnsýsla
  • Stjórnvaldsúrskurður
  • Viðurkenningardómur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur fimmtudaginn 31. janúar 2013 í máli nr. E-721/2012:

Björk Eiðsdóttir

fyrir hönd ólögráða dóttur,

Blævar Bjarkardóttur Rúnarsdóttur

(Arnar Þór Stefánsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Einar K. Hallvarðsson hrl.)

 

       Þetta mál, sem var dómtekið 21. janúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Björk Eiðdóttur vegna ólögráða dóttur hennar, Blævar Bjarkardóttur Rúnarsdóttur, á hendur íslenska ríkinu, Arnarhvoli, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu 15. febrúar 2012.

       Stefnandi krefst þess að felldur verði úr gildi úrskurður mannanafnanefndar frá 29. júní 1998 í máli nr. 71/1998 og að viðurkennt verði að stefnandi megi bera eiginnafnið Blær.

       Enn fremur krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða stefnanda miskabætur að fjárhæð 500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. júní 1998 til þingfestingardags þessa máls, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

       Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.

       Stefndi krefst sýknu af öllum dómkröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.

       Dómari fékk málinu úthlutað 1. október 2012.

 

       Málavextir

       Stefnandi þessa máls fæddist 4. ágúst 1997 og var 14. ágúst sama ár skírð Blær af séra Hans Markúsi Hafsteinssyni sóknarpresti. Um mánuði eftir skírnina hafði presturinn samband við móður stefnanda og tilkynnti að honum hefðu orðið á mistök þar sem Þjóðskrá Íslands samþykkti ekki nafnið, sbr. bréf Þjóðskrár, dagsett 5. nóvember 1997. Í bréfinu kemur fram að í mannanafnaskrá teljist eiginnafnið Blær vera karlmannsnafn og því hafi prestinum verið óheimilt að gefa nafnið stúlku, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Þá var óskað eftir úrskurði mannanafnanefndar.

       Í úrskurði mannanafnanefndar frá 29. júní 1998 í máli nr. 71/1998 komst nefndin að þeirri niðurstöðu að eiginnafnið Blær hefði verið fært á mannanafnaskrá sem karlmannsnafn. Með vísan til 2. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn, væri óheimilt að gefa stúlku karlmannsnafn. Var beiðni um eiginnafnið Blær fyrir stúlku hafnað.

       Í stefnu greinir svo frá að móðir stefnanda hafi leitast eftir því með bréfum, dagsettum 30. júlí 2001, til forsætisráðherra og dómsmálaráðherra, að fundin yrði lausn á málinu. Forsætisráðuneytið hafi ekki svarað erindi móðurinnar en með bréfi dómsmálaráðuneytisins, dagsettu 28. ágúst 2001, hafi meðal annars verið vísað til þess að óheimilt væri að skjóta úrskurðum mannanafnanefndar til æðra stjórnvalds. Gæti dómsmálaráðuneytið því ekki skorið úr málinu. Móðirin hafi auk þess beint erindi til biskups og hafi biskup sent Hans Markúsi sóknarpresti bréf af þessu tilefni til að fá fram hans hlið á málinu. Hans Markús hafi svarað bréfi biskups, 2. ágúst 2001, og gefið sínar skýringar. Í október 2011 hafi móðirin síðan leitað til hæstaréttalögmanns og falið honum að reka dómsmál á hendur ríkinu til að fá því framgengt að viðurkennt yrði að dóttir hennar mætti bera eiginnafnið Blær. Honum hafi enn fremur á síðari stigum verið falið að gera miskabótakröfu á hendur stefnda af þessu tilefni.

       Með bréfi innanríkisráðuneytisins, dagsettu 24. janúar 2012, fékk stefnandi gjafsókn við rekstur málsins fyrir héraðsdómi.

 

       Málsástæður og lagarök stefnanda

       Stefnandi byggir kröfur sínar á því að niðurstaða mannanafnanefndar í úrskurði hennar frá 29. júní 1998 í máli nr. 71/1998 sé röng og ólögmæt enda sé nafnið Blær notað jafnt sem kvenmannsnafn og karlmannsnafn. Það styðji málfræðileg rök og hefðarrök, sbr. þau sjónarmið sem komi fram í framlögðu bréfi Árnastofnunar, dagsettu 21. nóvember 2011, en þar sé tiltekið að nafnsins sé getið sem kvenmannsnafns án fyrirvara í ritinu „Nöfn Íslendinga“ útgefnu 2011; a.m.k. ein kona fædd 1973 beri nafnið nú þegar án athugasemda; nafnið komi fyrir í Brekkukotsannál Halldórs Laxness og fordæmi séu fyrir því, sbr. nafnið Júlí, að nafn geti bæði verið kvenmannsnafn og karlmannsnafn. Auk þess liggi fyrir að sum karlkyns nafnorð hafi verið notuð sem kvenmannsnöfn, sbr. til dæmis nafnið Ilmur, eins og alþekkt sé. Sú röksemd úrskurðarins að nafnið Blær sé einvörðungu karlmannsnafn og ekki hafi mátt gefa stefnanda það af þeim sökum, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996, standist því ekki. Áréttað skuli að ótvírætt sé að kvenmannsnafnið Blær standist áskilnað 1. og 3. mgr. sama lagaákvæðis. Þannig taki það eignarfallsendingu og hafi unnið sér hefð í íslensku máli. Það brjóti ekki í bága við íslenskt málkerfi og sé ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls. Loks sé það ekki nafnbera til ama.

       Til viðbótar þessu koma sjónarmið sem leiði af 71. gr. stjórnarskrár en í því ákvæði felist réttur til að njóta friðhelgi einkalífs, þar á meðal réttur til nafns, og geti löggjafinn ekki skert þann rétt nema til þess standi sérstök lagaheimild og brýna nauðsyn beri til vegna réttinda annarra. Á því sé byggt að slík „brýn nauðsyn“ standi ekki til þess að synja stefnanda um að bera nafnið Blær. Auk þess hafi stjórnarskrárákvæðið þau áhrif að það sé stefnda, íslenska ríkisins, að sanna að Blær sé alls ekki tækt sem kvenmannsnafn en með framlögðum gögnum hafi verið staðfest, eða að minnsta kosti gert mjög líklegt, að sterk hefðar- og málfræðirök standi til þess að nafnið Blær megi heimila sem kvenmannsnafn, jafnt sem karlmannsnafn. Stjórnarskrárákvæðið hafi því áhrif á sönnunarbyrði í þessu sambandi.

       Til viðbótar stjórnarskárákvæðinu njóti stefnandi verndar efnisreglna mannréttindasáttmála Evrópu sem leiddur hafi verið í lög með lögum nr. 62/1994. Sé þar vísað til 8. gr. sáttmálans sem verndi friðhelgi einkalífs, þar á meðal réttinn til nafns en þann rétt megi aðeins skerða með lögum og ef nauðsyn beri til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis, almannaheilla eða efnalegrar farsældar þjóðarinnar, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu manna eða siðgæði eða réttindum og frelsi annarra. Ekkert þessara sjónarmiða ákvæðisins réttlæti þá skerðingu sem stefnandi búi við og leiði af synjun stefnda á því að stefnandi beri eiginnafnið Blær.

       Loks hafi hér þýðingu dómur Mannréttindadómstóls Evrópu 6. september 2007 í máli Johansson gegn Finnlandi (mál nr. 10163/02) þar sem reyndi á sambærilegt sakarefni og taldi dómurinn að synjun finnskra yfirvalda á því að barn bæri tiltekið nafn, nafnið Axl, stæðist ekki ákvæði 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Hafi þar verið litið til ýmissa sjónarmiða, svo sem þess að viðkomandi nafn hefði þegar verið gefið að minnsta kosti þremur einstaklingum í Finnlandi, án athugasemda yfirvalda; nafnið hefði þegar öðlast viðurkenningu í framkvæmd í Finnlandi og ekki fengist séð að nafnið hefði neikvæðar afleiðingar í för með sér fyrir varðveislu menningarlegrar og málfræðilegrar samsemdar í Finnlandi. Þá hafi einnig verið litið til þess að nafnið hefði verið notað innan þeirrar fjölskyldu sem í hlut átti frá fæðingu barnsins án vandkvæða, nafnið viki ekki í verulegum atriðum frá öðrum sambærilegum nöfnum, nafnið væri ekki fáránlegt (e. ridiculous) eða sérviskulegt (e. whimsical), eða til þess fallið að skaða barnið. Enn fremur væri hægt að bera það fram á finnsku. Af þessum ástæðum taldi mannréttindadómstóllinn að brotið hefði verið gegn rétti viðkomandi, sbr. 8. gr. sáttmálans, þegar honum var neitað af finnskum yfirvöldum að bera viðkomandi nafn. Af framangreindum dómi mannréttindadómstólsins megi draga skýrar vísbendingar sem horfa beri til við úrlausn máls þessa.

       Með vísan til framangreindra sjónarmiða beri að taka til greina þær kröfur stefnanda um að fella úr gildi úrskurð mannanafnanefndar frá 29. júní 1998 í máli nr. 71/1998 og að viðurkennt verði að stefnandi megi bera eiginnafnið Blær. Ógildingarkrafa stefnanda sæki stoð í 60. gr. stjórnarskrár og réttarframkvæmd, og viðurkenningarkrafan í sama stjórnarskrárákvæði, sem og 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

       Enn fremur beri að dæma stefnda til að greiða stefnanda miskabætur, en fyrir liggi að sú ákvörðun stefnda frá 29. júní 1998 að neita henni um að bera nafnið Blær hafi haft margvíslegar afleiðingar og miska í för með sér fyrir stefnanda enda hafi hún í opinberum skrám og öðrum gögnum gefnum út af hinu opinbera, til dæmis í vegabréfi, bekkjarlistum í skóla o.fl., allan þennan tíma verið tilgreind undir heitinu Stúlka Bjarkardóttir Rúnarsdóttir með tilheyrandi óþægindum sem hún átti ekki að þurfa að sæta. Miskabótakrafa stefnanda styðjist við b-lið 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, og nýlega réttarframkvæmd, einkum dóma Hæstaréttar 14. apríl 2011 í máli nr. 412/2010 og 24. nóvember 2011 í máli nr. 162/2011. Gerð sé krafa um að fjárhæð miskabóta verði 500.000 krónur sem sé í hóf stillt miðað við þau langvarandi rangindi sem stefnandi hafi mátt sæta. allt frá fæðingu, í um 14 ár, með því að hafa ekki mátt, opinberlega, bera það nafn sem hún hafi verið skírð og fyllilega lögum samkvæmt.

       Loks beri að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.

       Stefnandi byggir kröfur sínar á 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn, 60. og 71. gr. stjórnarskrár, og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Viðurkenningarkrafa stefnanda sæki stoð í 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Miskabótakrafa styðst við b-lið 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og réttarframkvæmd. Vaxta- og dráttarvaxtakrafa styðst við ákvæði laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Málskostnaðarkrafa stefnanda styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Um varnarþing í málinu vísast til 3. mgr. 33. gr. sömu laga.

 

       Málsástæður og lagarök stefnda

       Stefndi vísar til þess að samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 45/1996 skuli prestur kanna sjálfstætt hvort nafn sem gefa eigi barni sé á mannanafnaskrá. Sé viðkomandi nafn ekki á mannanafnaskrá skuli prestur hvorki samþykkja né gefa því skírn heldur bera málið undir mannanafnanefnd. Síðan segi í 2. mgr. sömu laga að berist Þjóðskrá Íslands tilkynning um eiginnafn sem ekki sé á mannanafnaskrá skuli það ekki skráð að svo stöddu heldur skuli málinu vísað til mannanafnanefndar. Þessi lögbundni ferill hafi misfarist í tilviki stefnanda. Eiginnafnið Blær hafi ekki verið til á mannanafnaskrá sem stúlkunafn og hafi því orðið, þegar á reyndi, að vísa málinu til mannanafnaskrár eins og kveðið sé á um í lögunum. Mannanafnanefnd hafi hafnað beiðni stefnanda með ofangreindum úrskurði í máli nr. 71/1998 frá 29. júní 1998 með vísan til 2. mgr. 5. gr. mannanafnalaga.

       Úrskurður mannanafnanefndar í málinu sé byggður á því að eiginnafnið Blær hafi verið fært á mannanafnskrá sem karlmannsnafn. Með vísan til 2. mgr. 5. gr. laga um mannanöfn nr. 95/1996 væri óheimilt að gefa stúlku karlmannsnafn. Umrædd 2. mgr. 5. gr. laganna hafi staðið óbreytt frá gildistöku þeirra en í ákvæðinu segi að stúlku skuli gefa kvenmannsnafn og að dreng skuli gefa karlmannsnafn. Af því tilefni veki stefndi athygli á því að í athugasemdum við umrætt ákvæði í frumvarpi því er hafi orðið að lögum um mannanöfn sé sérstaklega tekið fram að ákvæðið hafi í för með sér að ekkert eiginnafn geti talist vera bæði karlmanns- og kvenmannsnafn nema hefð sé fyrir því að gefa það báðum kynjum. Þannig sé „t.d. óheimilt að gefa drengjum nafnið Ilmur og stúlkum nöfnin Sturla og Blær“. Í vafatilvikum sé það lögbundið hlutverk mannanafnanefndar að skera úr um hvort hefð sé fyrir að gefa nafn báðum kynjum.

       Stefndi telur engan vafa leika á því, í ljósi framangreinds, að ósönnuð sé hefð fyrir því að gefa báðum kynjum eiginnafnið Blær. Hljóti því fyrrgreindir úrskurðir mannanafnanefndar að standa óraskaðir. Þá vilji stefndi jafnframt taka fram, í tilefni þess sem segi í stefnu, að ekki verði séð að nafnið Júlí hafi verið fært á mannanafnaskrá sem kvenmannsnafn.

       Í rökstuðningi sínum vísi stefnandi til 71. gr. stjórnarskrár íslenska lýðveldisins nr. 33/1944 og laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, einkum 8. gr. sáttmálans. Byggi stefnandi á því að þau sjónarmið sem fram komi í ákvæðunum réttlæti ekki að stefnanda sé óheimilt að bera nafnið Blær. Þá sé byggt á því að brýn nauðsyn standi ekki til þess að synja stefnanda um að bera umrætt eiginnafn. Þessu sé til að svara að með setningu laga um mannanöfn nr. 45/1996 og setningu sérstakra reglna um hvaða skilyrði íslensk mannanöfn þurfi að uppfylla hafi löggjafinn þegar tekið afstöðu til þessa atriðis. Lög nr. 45/1996 um mannanöfn hafi verið sett á lögformlegan hátt. Þau séu málefnaleg og juku frelsi í nafngiftum frá því sem áður gilti. Jafnframt standi þau vörð um eðlilegar nafngiftir og hefðir í íslensku máli. Löggjöf þessi sé í fullu samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar og laga um mannréttindasáttmála Evrópu.

       Samkvæmt 3. tl. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 45/1996 skuli mannanafnanefnd skera úr ágreiningsmálum sem upp komi um nafngiftir. Samkvæmt þessu ákvæði sé mat nefndarinnar á mannanöfnum lögbundið og niðurstöðu nefndarinnar verði ekki skotið til æðra stjórnvalds, sbr. 2. mgr. 22. gr. laganna. Þessu mati nefndarinnar verði trauðla hnekkt af dómstóli nema mikið hafi farið úrskeiðis. Það eigi ekki við hér enda hafi niðurstaðan verið í fullu samræmi við viðeigandi lagaákvæði og lögskýringargögn. Beri því að sýkna stefnda af dómkröfum stefnanda.

 

       Niðurstaða

       Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn skal gefa stúlku kvenmannsnafn og dreng karlmannsnafn. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laganna segir að fyrrgreint ákvæði hafi það í för með sér að ekkert eiginnafn geti talist vera bæði karlmanns- og kvenmannsnafn nema hefð sé fyrir því að gefa það báðum kynjum. Eru jafnframt gefin dæmi um óheimila nafngift samkvæmt ákvæðinu. Verði þannig drengjum ekki gefið nafnið Ilmur eða stúlkum nöfnin Sturla eða Blær.

       Í máli þessu er óumdeilt að stefnandi hafi, 14. september 1997, verið skírð nafninu Blær. Þar sem nafnið hafi ekki verið á mannanafnaskrá sem kvenmannsnafn hafi borið að bera það áður undir mannanafnanefnd, samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Það hafi farist fyrir og var nafnið fyrst borið undir nefndina eftir skírn stefnanda. Með úrskurði 29. júní 1998 hafnaði nefndin því að stefnandi fengi að heita Blær með vísan til þess að nafnið hefði verið fært á mannanafnaskrá sem karlmannsnafn og samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 væri óheimilt að gefa stúlku karlmannsnafn. Vegna þessa er stefnandi í dag, og hefur ávallt verið, skráð „Stúlka“ í þjóðskrá.

       Stefnandi byggir kröfu sína um ógildingu á úrskurði mannanafnanefndar á því að úrskurður nefndarinnar frá 29. júní 1998 sé ólögmætur þar sem nafnið Blær sé notað jafnt sem kvenmanns- og karlmannsnafn. Stefndi telur hins vegar ekki sannað að hefð sé fyrir því að gefa báðum kynjum eiginnafnið Blær og því skuli úrskurðurinn standa óraskaður.

       Hér á landi eru þekkt fordæmi fyrir því að karlkyns nafnorð séu notuð sem kvenmannsnöfn, sbr. til dæmis nöfnin Ilmur og Apríl. Þá eru dæmi um að kvenkyns nafnorð hafi verið gefin karlmönnum, sbr. nafnið Sturla. Vitnið, Trausti Fannar Valsson, nefndarmaður í mannanafnanefnd, gaf skýrslu fyrir dóminum en hann sagði það fræðilega mögulegt að nafn gæti verið með þeim hætti að það væri málfræðilega ekki bundið við ákveðið kyn eða að það hefði ekki öðlast hefð sem annað hvort karlmanns- eða kvenmannsnafn í tungumálinu. Taldi Trausti að ef nafn gæti bæði verið karlmanns- og kvenmannsnafn væri ekki útilokað að það mætti gefa það dreng eða stúlku. Það styður framangreindan framburð að samkvæmt skráningu þjóðskrár er nafnið Júlí, sem er karlkynsorð, borið af einni konu og fimm karlmönnum. Þá kemur nafnið Auður fyrir í 21. kafla Landnámabókar sem karlmannsnafn þótt það sé kunnugra sem kvenmannsnafn. Af því sem nú hefur verið rakið er ljóst að í ákveðnum tilvikum getur íslenskt nafn bæði verið karlsmanns- og kvenmannsnafn.

       Meðal gagna málsins er bréf Jóhannesar B. Sigtryggssonar frá stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, dagsett 21. nóvember 2011, þar sem greint er frá því að kvenmannsnafnið Blær virðist vera sama nafn og karlmannsnafnið Blær og að elstu heimildir um það séu frá fyrri hluta 20. aldar en það hafi fyrst eingöngu verið notað um karlmenn. Þá liggur og fyrir að kona, fædd 1973, beri nafnið Blær og að nafnið hafi verið samþykkt á sínum tíma og fengist skráð í þjóðskrá. Af framlögðum gögnum málsins má einnig ráða að fleiri stúlkur hafi, á þeim tíma þegar úrskurðurinn var kveðinn upp, notað nafnið án þess þó að það hafi verið skráð í þjóðskrá.

       Samkvæmt því sem hér að framan hefur verið rakið verður ekki talið að því hafi verið hnekkt af hálfu stefnda að nafnið Blær megi nota sem kvenmannsnafn. Þar með verður að telja að óréttmætt hafi verið af hálfu mannanafnanefndar að synja beiðni stefnanda um að hún fengi að bera eiginnafnið Blær. Að því virtu er ljóst að úrskurður mannanafnanefndar er byggður á ólögmætum forsendum og ber því að fella hann úr gildi eins og stefnandi krefst.

       Stefnandi gerir kröfu um að viðurkennd verði heimild hennar til þess að bera eiginnafnið Blær. Vísar stefnandi til 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, máli sínu til stuðnings.

       Samkvæmt 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 9. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, á sérhver maður rétt til friðhelgi einkalífs síns, fjölskyldu, heimilis og bréfaskipta. Í íslenskum rétti hefur verið talið að réttur manns til nafns falli undir ákvæði 1. mgr. 71. gr. enda séu þar um mikilvæg persónuleg réttindi hvers einstaklings að ræða. Þá hefur Mannréttindadómstóll Evrópu viðurkennt í dómaframkvæmd að rétturinn til nafns falli undir 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu en 1. mgr. þess ákvæðis er efnislega samhljóða 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar. Rétturinn til nafns er ekki ótakmarkaður þar sem honum eru settar nokkrar skorður með lögum nr. 45/1996 um mannanöfn. Í vissum tilvikum geta hagsmunir samfélagsins verið ríkari en réttur einstaklings til að velja sér nafn eða réttur foreldra til þess að fá að ráða nafni barns síns og hefur þá verið talið réttlætanlegt að skerða réttinn til nafngiftar eins og greinir í athugasemdum með frumvarpi til mannanafnalaga. Þó verða þær takmarkanir sem lögin setja við nafngiftir að uppfylla skilyrði 2. eða 3. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar. Hér á sérstaklega við 3. mgr. 71. gr. en af ákvæðinu má ráða að takmarka megi réttinn ef brýn nauðsyn ber til vegna réttinda annarra.

       Við aðalmeðferð málsins var af hálfu stefnda vísað til þess að réttlætanlegt væri að skerða rétt stefnanda til þess að fá að bera nafnið Blær þar sem réttindin vörðuðu fleiri en stefnanda sem og vernd íslenskrar tungu. Þá kvað stefndi ekki mögulegt að fallast á viðurkenningarkröfu stefnanda í málinu þar sem ekki væri ótvírætt hvernig beygja skyldi nafnið Blær í kvenkyni en samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn skal eiginnafn meðal annars geta tekið íslenska eignarfallsendingu. Stefnandi byggir á því að kvenmannsnafnið Blær uppfylli fyrrgreint skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 með því að geta tekið eignarfallsendingu og að ekki leiki vafi á því hvernig nafnið beygist. Þá var af hálfu stefnanda áréttað að ekki væri krafist viðurkenningar á beygingu nafnsins heldur aðeins því að stefnanda væri heimilt að bera eiginnafnið Blær, eins og nafnið stæði í nefnifalli.

       Eins og áður greinir var stefnandi skírð nafninu Blær. Þá hefur einnig komið fram að, þrátt fyrir úrskurð mannanafnanefndar, hafi stefnandi ætíð óátalið notast við nafnið og bar hún fyrir dóminum að ættingjar hennar og vinir þekktu hana aðeins sem Blæ. Þá væri hún nefnd Blær í skólanum. Kvaðst hún aðeins hafa fengið jákvæðar athugasemdir við nafnið og hafi það aldrei orðið sér til ama.

       Það er mat dómsins að réttur stefnanda til að bera nafnið Blær sé ríkari en hagsmunir samfélagsins af því að hafna kröfunni en auk þess hefur stefndi ekki fært fram haldbær rök fyrir því að réttindi annarra verði fyrir borð borin verði krafa stefnanda viðurkennd. Verður því ekki talið að 3. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar réttlæti skerðingu á rétti stefnanda til að bera nafnið Blær. Þá hefur stefnandi leitt fullnægjandi sönnun fyrir því með framlögðum gögnum að kvenkynsnafnið Blær taki eignarfallsbeygingu. Hefur það ekki þýðingu við úrlausn málsins hvernig nafnið er beygt að öðru leyti.

       Af eðli og mikilvægi þeirra réttinda sem um er deilt í þessu máli leiðir að þær heimildir sem mannanafnanefnd hefur til að hafna nafngift skuli skýrðar þröngt.

       Að því virtu og þegar gætt er alls þess er að framan greinir verður fallist á viðurkenningarkröfu stefnanda um að henni verði heimilað að bera eiginnafnið Blær.

       Stefnandi gerir að auki kröfu um að stefnda verði gert að greiða stefnanda miskabætur. Styður stefnandi miskabótakröfu sína við b-lið 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 en samkvæmt ákvæðinu er heimilt að láta þann sem ber ábyrgð á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns greiða miskabætur til þess sem misgert var við. Ljóst er að hegðun þess sem ber ábyrgð á ólögmætri meingerð verður að vera saknæm svo skilyrði áðurgreinds ákvæðis 26. gr. sé uppfyllt. Þrátt fyrir að fallast megi á það með stefnanda að hún hafi orðið fyrir óþægindum vegna þess að opinberar skrár tilgreindu hana sem „Stúlka“ en ekki sem Blær þykir ósannað að stefndi hafi með saknæmum hætti valdið stefnanda ólögmætri meingerð. Þar sem skilyrði b-liðar 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 eru ekki uppfyllt ber að sýkna stefnda af þessari kröfu stefnanda.

       Rétt þykir að málskostnaður milli aðila falli niður.

       Stefnandi nýtur gjafsóknar í þessu máli samkvæmt gjafsóknarleyfi frá 24. janúar 2012. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, sem er þóknun lögmanns hennar, Arnars Þórs Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, og ákveðst 550.000 krónur, án virðisaukaskatts, greiðist úr ríkissjóði.

       Lilja Rún Sigurðardóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan dóm.

 

 

DÓMSORÐ:

            Felldur er úr gildi úrskurður mannanafnanefndar frá 29. júní 1998 í máli stefnanda, Blævar Bjarkardóttur Rúnarsdóttur, nr. 71/1998.

            Viðurkennt er að stefnandi megi bera eiginnafnið Blær.

            Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfu stefnanda um greiðslu miskabóta.   Málskostnaður fellur niður.

            Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 550.000 krónur, sem er málflutningsþóknun lögmanns hennar, greiðist úr ríkissjóði.

                                                                                    Lilja Rún Sigurðardóttir