• Lykilorð:
 • Líkamstjón
 • Orsakatengsl
 • Skaðabætur
 • Slysatrygging
 • Sönnun
 • Sönnunarbyrði
 • Vátryggingarsamningur
 • Veikindaforföll
 • Vinnuslys
 • Vitni
 • Örorka
 • Örorkumat

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur þriðjudaginn 17. apríl 2018 í máli nr. E-2288/2017:

Aneta Brodziak

(Karl Ólafur Karlsson lögmaður)

gegn

Vátryggingafélagi Íslands hf.

(Jón Eðvald Malmquist lögmaður)

 

I.

Mál þetta var höfðað 26. júní 2017 og dómtekið 23. mars 2018. Stefnandi er Aneta Brodziak, [...], Hafnarfirði. Stefndi er Vátryggingafélag Íslands hf., Ár­­­­­múla 3, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 1.066.062 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 1.066.062 krónum frá 19. október 2016 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar, hver sem úrslit málsins verða, að teknu tilliti til virðis­auka­skatts samkvæmt málskostnaðarreikningi.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og að honum verði tildæmdur máls­­­kostn­­aður úr hendi stefnanda að mati réttarins.

 

II.

Málsatvik:

Stefnandi var starfsmaður hjá vátryggingartaka, Serrano Íslandi ehf., þegar atvik áttu sér stað, en fyrir­tækið var með slysatryggingu launþega hjá stefnda. Mánu­dag­­­­­­inn 2. desember 2013 var stefnandi að lyfta 25 kg saltpoka upp á kerru í miðlægu eld­­­­húsi þegar hún varð fyrir meiðslum í baki.

Stefnandi leitaði til læknis á Læknavaktinni að kvöldi þriðjudagsins 3. desember 2013 og reyndist hún vera óvinnufær. Í málinu liggja fyrir sex læknis­vottorð, eitt frá Lækna­vaktinni, dagsett 3. desember 2013, og fimm frá Heilsugæslunni Sól­vangi, dag­sett 23. des­­ember 2013, 13. janúar 2014, 7. og 24. febrúar 2014 og 28. mars 2014. Í vott­orðunum frá 3. og 23. desember 2013 og 28. mars 2014 greinir að ástæða óvinnu­­­færni hafi verið sjúk­­­dómur en í hin­­um þremur vottorðunum greinir að óvinnu­­­­færni hafi verið vegna vinnu­slyss.

Að sögn stefnanda lét hún næsta yfirmann sinn, Kristleif Halldórsson, vita að hún væri óvinnu­­fær vegna vinnuslyss 2. desember 2013 og verður ráðið af mála­tilbúnaði hennar að það hafi verið fljótlega eftir að slysið átti sér stað. Stefnanda var sagt upp störf­­­um með bréfi vátryggingartaka 17. janúar 2014 með eins mánaðar upp­sagnar­fresti. Í bréfinu var tekið fram að uppsögnin væri vegna skipulagsbreytinga. Stefn­andi mætti til vinnu 20. janúar 2014 eftir að hafa verið óvinnufær frá 2. desember 2013. Stefn­andi reyndist óvinnufær að nýju frá 7. febrúar 2014, sbr. framangreind læknis­vottorð. Eftir tilkynn­ingu um uppsögn óskaði stefn­­andi eftir fundi með Jóni Ragnari Jóns­­syni, rekstrarstjóra hjá vá­trygg­ingartaka. Á fund­­­inum gerði stefnandi nánari grein fyrir atvik­um 2. desember 2013 og naut hún aðstoðar túlks. Í framhaldi af fundinum sendi Jón Ragnar til­kynn­ingu til Vinnu­­­eftirlits ríkisins 12. febrúar 2014 með stöðluðu eyðu­­blaði þar sem fram kom að vinnuslys hefði átt sér stað 2. desember 2013, klukkan 11:30, á lager í mið­­lægu eld­húsi vátryggingartaka. Í tilkynningunni var atvikum lýst nánar með svofelldum hætti: Starfs­­maður var að lyfta 25 kg salt poka á kerru, þurfti að lyfta frá gólfi og upp á kerru sem er ca. 20 cm há. Þegar hún var að lyfta pokanum og ætlaði að færa hann upp á kerr­una rak hún sig í aðra kerru, skrikaði fótur og fann fyrir hnykk á bakið. Starfs­maður fann ekki fyrir neinum verki fyrst á eftir en þegar leið á daginn fór hún að finna fyrir verkjum í baki.

Stefnandi leitaði til Eflingar-stéttarfélags eftir uppsögnina í tengslum við launa­greiðslur samkvæmt veikinda- og slysarétti. Með bréfi starfsmanns Eflingar-stéttar­félags til vátryggingartaka 1. mars 2014 var vísað til þess að stefnandi hefði orðið fyrir vinnu­slysi 2. desember 2013. Tekið var fram að óheimilt væri að svipta starfsmann launa­greiðslum samkvæmt veik­inda- og slysa­rétti með uppsögn ef um væri að ræða veik­­inda­forföll. Starfs­­­­­maður ætti að halda veikindarétti sínum þar til hann yrði vinnu­fær á ný eða að veikinda­réttur­ yrði tæmdur. Var vísað til ákvæða í kjarasamningi um eins mán­aðar veikindarétt og að við þann rétt bættust þrír mánuðir vegna vinnuslyss. Í tölvu­­­­­skeyti Jóns Ragnars, rekstrar­­stjóra vátryggingartaka, til stéttarfélagsins 5. mars 2014 greinir meðal annars að fyrir­tækinu hafi fyrst orðið kunnugt um meint vinnu­slys þegar stefn­andi hefði ásamt túlki mætt á starfs­stöð fyrirtækisins og óskað eftir því að fá að tilkynna at­vik 2. des­ember 2013 sem vinnu­­slys. Var vísað til læknisvottorða 3. og 23. desember 2013 þar sem fram hefði komið að óvinnufærni stefnanda væri vegna sjúk­dóms. Þá var tekið fram að það hefði fyrst komið fram í læknis­vottorði 13. janúar 2014 að óvinnufærnin væri vegna vinnu­slyss. Samkvæmt tölvuskeyti frá starfs­manni stéttar­félagsins, sem stefnandi lagði fram, gerði vátrygg­ingartaki síðar á árinu upp vinnu­slysarétt stefn­anda út mars 2014 til samræmis við kröfu stéttarfélagsins.

Í tjónstilkynningu stefnanda til stefnda 2. apríl 2014 var atvikum lýst með sama hætti og greinir í tilkynningu til Vinnueftirlits ríkisins 12. febrúar sama ár. Í tjóns­tilkynn­­­­ingu Jóns Ragnars, rekstrarstjóra vátryggingartaka, til stefnda 25. júní 2014 var at­­vik­­­um lýst með svofelldum hætti: Að sögn [stefn­anda] var hún að lyfta 25 kg salt poka þegar henni skrikar fótur og fær hnikk á bakið. Tekið var fram í til­­kynn­­­­­­­ing­unni að atvikið hefði verið tilkynnt til vinnueftirlitsins sem vinnu­­slys 12. febrúar 2014 og til­kynningin hefði verið sam­­­­­­­kvæmt frásögn stefn­anda. Þá var tekið fram í til­­­kynn­­­­­ing­unni að vitni, Paulina Rymon Lipinska, hefði verið að atvikinu sam­kvæmt frá­­sögn stefn­­­anda.

Stefnandi aflaði skriflegrar yfirlýsingar frá Paulinu Rymon Lipinska 30. apríl 2014 þar sem hún staðfesti að hafa verið við störf með stefnanda hjá vá­trygg­­ingar­taka 2. desember 2013 í fyrrgreindu eldhúsi. Þá er í yfirlýsingunni svofelld atvika­lýsing: Við tókum kerru og fórum inn á lager. [Stefnandi] beygði sig niður til að taka upp 25 kg. saltpoka úr plasti til að lyfta upp á kerru, sem er ca 25 cm há. [Stefn­­andi] rekur fótinn í kerru við hliðina á þeirri sem hún [var] að lyfta upp á. Við þetta heyrðist smellur í baki hennar. Kvartaði [stefnandi] í framhaldi um verk í baki.

Í bréfi Jóns Ragnars rekstrarstjóra til Vinnu­eftirlits ríkis­ins 25. júní 2014, sem einnig var sent í afriti til stefnda og Sjúkratrygginga Íslands, var nánar vikið að fyrr­greindri tilkynningu til vinnu­eftir­litsins 12. febrúar sama ár. Var tekið fram að Jón Ragnar hefði átt fund með stefn­anda, að hennar beiðni, þar sem hún hefði greint frá því að hún hefði orðið fyrir vinnu­slysi 2. desember 2013. Jón Ragnar hefði tekið niður lýsingu atvika samkvæmt frá­sögn hennar. Við nánari eftir­grennslan hjá fyrirtækinu hefði hins vegar komið í ljós að yfir­manni stefn­anda hefði ekki verið ljóst, né haft neinar spurnir af því, að stefnandi hefði orðið fyrir slysi á vinnustaðnum. Stefn­andi hefði þó verið frá vinnu í veikindaleyfi frá 3. des­ember 2013 og hún verið sögð óvinnu­­­­­­­­fær vegna sjúkdóms. Sömu skýringar hefðu komið fram í öðrum vott­orð­um síðar uns nýjar skýringar hefðu komið fram í vottorði útgefnu 13. janúar 2014. Í því vott­­­­­orði hefði komið fram að óvinnu­færni stefnanda væri vegna vinnuslyss. Að þessu virtu hefðu stjórn­­­­endur vá­tryggingartaka ekki haft ástæðu til að ætla annað en að stefn­­­­­­­­andi væri frá vinnu vegna veikinda. Ekkert hefði gefið til kynna að vinnu­slys hefði átt sér stað nema frásögn stefnanda þegar hún tilkynnti um það tveimur mán­­­uðum eftir at­­vik. Jón Ragnar hefði skráð frásögn stefnanda í góðri trú og sent til vinnu­­­eftir­lits­ins til sam­ræmis við það sem áskilið væri í vinnu­verndar­­lögum og vinnu­­­­reglum fyrir­tækisins.

Með bréfi stefnda 16. júlí 2014 var stefnanda tilkynnt að bótaskyldu úr slysa­trygg­­­­­­­­­ingu launþega væri synjað þar sem ósannað þætti að verkur í mjóbaki yrði rakinn til atviks 2. desember 2013. Stefnandi skaut synjun stefnda til úrskurðarnefndar í vá­trygg­­­­inga­­­­­málum 9. júlí 2015. Úrskurðarnefndin kvað upp úrskurð 18. ágúst sama ár þess efnis að stefn­anda bæri réttur til bóta úr slysa­tryggingu launþega hjá stefnda vegna meiðsla í baki sem hún hefði hlotið í slysi 2. desember 2013 á vinnustað sínum. Með bréfi stefnda til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum 20. ágúst 2015 var til­kynnt um að stefndi yndi ekki úrskurðinum.

Einnig liggur fyrir tilkynning stefnanda um slys til Sjúkratrygginga Íslands 2. apríl 2014 og var hún í sam­ræmi við fyrrgreinda tilkynningu til Vinnueftirlits ríkisins. Í tilkynningu Jóns Ragnars, rekstrar­stjóra vátryggingartaka, til Sjúkratrygginga Íslands 30. júlí 2014 var atvikum hins vegar lýst með svofelldum hætti: Var [stefn­andi] að lyfta 25 kg salt poka upp á kerru sem er ca. 20cm há. Við lyftuna rak hún sig í aðra kerru [og] skrikaði fótur og fann fyrir hnykk á bakið. Þá var tekið fram að lýs­ingin væri sam­­­­­kvæmt frásögn stefn­anda. Með bréfi Sjúkratrygginga Íslands 22. septem­ber 2014 var stefnanda tilkynnt að at­­vik 2. desember 2013 á vinnustað hennar teldist bóta­skylt sem slys samkvæmt lög­um nr. 100/2007 um almanna­­­tryggingar.

Í vottorði Þórðar G. Ólafssonar yfirlæknis við Læknavaktina 5. maí 2014 greinir meðal annars að stefn­­­andi hafi í fyrrgreindu viðtali hjá lækni að kvöldi 3. desember 2013 sagst hafa verið að lyfta saltpoka deg­­­­­inum áður og þá fengið slæman verk hægra megin í mjóbak. Hefði þetta gerst í lok vinnudags. Við læknis­skoðun hefði stefn­­andi verið alveg stíf í mjóbaki, hrygg­­skekkja verið í baki með vinstri sveigju/boga í mjó­baki og hægri sveigju/boga á mót­um brjóst­hryggjar og mjó­hryggjar. Stefn­­­andi hefði í eitt skipti áður verið með bak­verk, einum mán­­uði fyrr, og þá hefði verk­ur­inn verið í tvo daga.

Í vottorði Gunnars Þórs Jónssonar, læknis við Heilsugæsluna á Sólvangi, frá 28. júlí 2016 greinir meðal annars nánar frá fyrrgreindum fimm vottorðum heilsu­­gæslunnar um óvinnufærni stefnanda og hvað hafi legið þeim til grundvallar. Til við­bótar greinir frá læknisskoðunum stefnanda á heilsugæslunni 11. desember 2013, 17. janúar 2014, 2. júní 2014, 25. sept­ember 2014, 11. nóvember 2014, 21. janúar 2015, í febrúar 2015, 24. febrúar 2016 og 18. apríl sama ár vegna bakverkja o.fl. Í megin­niðurstöðu vottorðsins greinir meðal annars að stefnandi hafi tognað illa við vinnu 2. desember 2013 við það að lyfta þungu og það hafi valdið henni verkjum, óþægindum og tak­mörkun á vinnu­getu á rúm­lega tveggja og hálfs árs tímabili.

Með bréfi lögmanns stefnanda 30. ágúst 2016 var Atli Þór Ólason læknir fenginn til að meta tímabundna óvinnufærni og læknisfræðilega örorku stefnanda vegna um­rædds atviks. Í niðurstöðu örorkumatsins frá 30. september 2016 greinir meðal annars að stefnandi hafi hlotið tognun í mjóbaki í tengslum við atvikið 2. desember 2013, tíma­­bundin örorka stefnanda hafi verið 100% frá 3. desember 2013 til 31. mars 2014 og að læknis­fræðileg örorka sé 5%. Stefnandi kynnti stefnda niður­stöðu örorkumatsins 5. októ­­­ber 2016. Svar barst frá stefnda 13. sama mánaðar þar sem fyrri afstaða var ítrekuð og bótaskyldu hafnað.

Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi aðilaskýrslu. Vitnið Paul­­ina Rymon Lipinska gaf skýrslu símleiðis frá Póllandi. Þá gáfu skýrslu vitnis Jón Ragnar Jónsson rekstrarstjóri og Kristleifur Halldórsson fyrr­verandi yfir­­matreiðslu­maður.

 

III.

Helstu málsástæður og lagarök stefnanda:

Stefnandi byggir á því að hún hafi umræddan dag orðið fyrir vinnuslysi í skilningi laga við störf sín hjá vátryggingartaka. Samstarfsmaður stefnanda, Paulina Rymon Lipinska, hafi verið vitni að slysinu. Stefnandi hafi einnig leitað til læknis daginn eftir vegna umrædds slyss. Þá byggir stefnandi á því að hún hafi tilkynnt yfirmanni sínum, Kristleifi Halldórssyni, um óvinnu­­færni af völdum vinnuslyssins. Stefnandi telur að rang­­lega hafi verið merkt við óvinnufærni af völdum sjúkdóms í læknisvottorðum, sem annaðhvort megi rekja til mis­taka læknis eða tungumálaörðugleika, en hvorki stefn­andi né þáverandi eigin­maður hennar, sem hafi fylgt henni til læknis, hafi talað íslensku og enskukunnátta þeirra hafi verið takmörkuð. Stefnandi telur að það liggi fyrir að hún hafi hlotið bakáverka sem nánar greinir í örorkumati Atla Þórs Ólasonar læknis frá 30. september 2016. Tímabundin örorka stefnanda hafi verið metin 100% frá 3. des­­ember 2013 til 31. mars 2014 og varan­leg læknisfræðileg örorka hennar hafi verið metin 5%.

Stefnandi byggir á því að fyrir liggi sönnun um orsakatengsl umkvartana stefn­anda og vinnuslyss sem hafi átt sér stað 2. desember 2013. Um hafi verið að ræða skyndi­­­­­­­legan utanaðkomandi atburð. Öll málsgögn beri að sama brunni, en að mati stefn­­­­­­­­­anda liggi fyrir óræk sönnun um slysatvikið og afleiðingar slyssins. Stefn­­­­­andi vísar í því sambandi meðal annars til tilkynninga um slysið, yfirlýsingar vitnis­­ins Paul­inu Rymon Lipinska, afstöðu Sjúkratrygginga Íslands, afstöðu úrskurðar­nefndar í vá­tryggingamálum, fjöl­­­margra læknisfræðilegra gagna og síðast en ekki síst niður­stöðu óvilhalls sér­fræð­ings sem hafi gert fyrrgreint örorkumat. Stefnandi telur að gögn­­­um þess­um hafi ekki verið hnekkt.

Stefnandi vísar til þess að hún hafi verið félagsmaður í Eflingu-stéttarfélagi þegar krafa hennar stofnaðist. Um kjör hennar á slysdegi fari því samkvæmt kjarasamningi stéttar­­félagsins og Sam­taka atvinnulífsins vegna vinnu starfsfólks í veitinga- og gisti­húsum og hliðstæðri starfsemi. Sam­kvæmt gr. 9.7 í kjara­­­samningnum sé atvinnu­rekanda skylt að tryggja launafólk, meðal annars fyrir varan­­legri læknis­­­fræðilegri ör­orku og/eða tímabundinni örorku af völdum slyss við vinnu. Grunn­­fjárhæð örorkubóta sé 15.091.083 krónur miðað við vísitölu neyslu­­­­verðs til verð­­tryggingar 1. júní 2011 (374,1 stig) þannig að hvert örorkustig greiðist sem 150.911 krónur. Sé um tíma­bundna örorku að ræða greiðist dagpeningar í hlut­falli við starfsorkumissi fjórum vik­um frá því að slys átti sér stað og þar til starfs­maður verði vinnu­fær eftir slys, eða þar til örorkumat hafi farið fram, þó ekki lengur en í 37 vikur. Stefnandi geri ekki kröfu um dagpeninga vegna tímabundinnar örorku þar sem hún hafi fengið greidd laun til loka tímabils, 31 mars 2014, sem taki til örorku af slík­um toga samkvæmt örorkumati. Vinnu­veitandi stefnanda hafi á grundvelli fyrr­greinds kjara­­samnings verið með slysa­trygg­ingu launþega hjá stefnda og ágrein­ings­laust sé að trygg­ingin hafi verið í gildi þegar slysið átti sér stað.

Stefnandi krefst greiðslu bóta vegna varanlegrar læknisfræðilegrar örorku. Hún hafi samkvæmt örorkumati verið metin til 5% örorku og af þeim ástæðum geri hún kröfu um 880.212 krónur (15.091.083 kr./374,1*436,4*5%) í bætur vegna varan­legrar læknis­­fræðilegrar örorku af völdum vinnuslyssins. Fjárhæð bóta hafi verið uppreiknuð sam­­kvæmt vísitölu neysluverðs til verðtryggingar fram til 5. október 2016, en þann dag hafi stefnda verið kynnt niðurstaða örorkumatsins. Stefnandi krefst einnig greiðslu á nauðsynlegum útlögðum kostnaði, 185.850 krónum, í tengslum við undirbúning og fram­kvæmd ör­orku­­­­­­­­­mats, þar af 34.950 krónum vegna öflunar ­vottorðs frá Gunnari Þór Jóns­­­­­­syni lækni og 150.900 krónum vegna örorkumats frá Atla Þór Óla­syni lækni. Stefn­andi byggir á því að stefnda sé skylt samkvæmt skil­mál­um slysa­­­tryggingar laun­þega að greiða nauðsynlegan kostnað við undirbúning og fram­­­­­kvæmd örorkumats. Þá hafi stefnda á öllum stigum verið veitt færi á að gæta hags­­­­­­­­­muna sinna í því ferli. Að öllu þessu virtu nemi stefnufjárhæð samtals 1.066.062 krónum.

Stefnandi vísar að öðru leyti til ákvæða fyrrgreinds kjarasamnings, þar með talið 9. kafla samningsins. Þá vísar stefnandi til ákvæða laga nr. 30/2004 um vátryggingar­samninga og laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldu­trygg­ingu lífeyris­rétt­inda, einkum 1. gr. þeirra laga. Ennfremur vísar stefnandi til skilmála slysa­trygg­ingar laun­­­­þega hjá stefnda. Um dráttarvexti vísar stefnandi til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 1. mgr. 121. gr. laga nr. 30/2004, en stefnandi krefst dráttarvaxta á dóm­kröfu að liðnum 14 dögum frá því tímamarki þegar stefndi móttók fyrrgreint örorku­mat, eða frá 19. október 2016 að telja. Um málskostnaðarkröfu vísar stefnandi til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129. og 130. gr. þeirra laga. Um kröfu um virðisaukaskatt á lögmannsþóknun vísar stefnandi til laga nr. 50/1988 um virðis­auka­skatt. Um varnarþing vísar stefnandi til 33. gr. laga nr. 91/1991.

 

Helstu málsástæður og lagarök stefnda:

Stefndi reisir sýknukröfu á því að ekki sé sannað að atvik 2. desember 2013 hafi verið slys í skilningi 8. gr. í skilmálum stefnda nr. SÞ20 fyrir slysatryggingu launþega. Atvikið falli ekki undir slysatrygginguna. Stefndi vísar til þess að hugtakið slys sam­kvæmt 8. gr. slysatryggingarinnar miðist við svofellda skilgreiningu: Með hugtakinu slys er átt við skyndilegan utan­aðkomandi atburð sem veldur meiðsl­um á líkama þess sem vátryggður er og gerist án vilja hans. Þá vísar stefndi einnig til samsvarandi skil­grein­ingar á slysahugtaki vátryggingarréttar, auk dóma­framkvæmdar, þar sem talið hafi verið að bakmeiðsli eða önnur meiðsli, sem einungis hafi verið rakin til þess að þung­­­­um hlut hafi verið lyft eða ýtt, hafi ekki verið felld undir slysahugtakið í skilningi vá­­­­tryggingarskilmála og vátrygg­inga­­réttar, sbr. t.d. hæstaréttardóm frá 2. júní 2005, í máli nr. 37/2005.  

Nánar tiltekið byggir stefndi á því að ósannað sé að at­vikið 2. desember 2013 hafi verið með þeim hætti sem stefnandi haldi fram, það er að hún hafi rekið sig í aðra kerru þegar hún var að lyfta saltpokanum, skrikað við það fótur og fengið hnykk á bakið. Stefndi byggir á því að aðeins liggi fyrir að baktognun stefnanda hafi hlotist af því einu að lyfta upp saltpoka með tilheyrandi átaki og álagi á bak stefnanda án þess að nokkuð utan­­aðkomandi ylli tognuninni.

Stefndi byggir á því að sönnunarbyrði um að hugtaksskilyrði slysahugtaksins séu upp­fyllt hvíli á stefnanda, þar með talið að um sé að ræða skyndi­legan utan­að­kom­andi atburð í skilningi 8. gr. skilmálanna og vátryggingaréttar. Allan vafa um það hvort um­­­rætt atvik hafi verið skyndilegur utanaðkomandi atburður og þar með slys eigi að meta stefnanda í óhag þar sem hún hafi ekki upplýst yfirmann sinn eða for­svarsmenn vá­­tryggingartaka um meintan slysatburð fyrr en tveimur og hálfum mán­­uði síðar, en þá hafi verið búið að segja stefnanda upp störfum vegna skipulags­breytinga. For­svars­mönn­um vátryggingartaka hafi því ekki verið kunn­ugt um að vinnu­­­­­­slys hefði átt sér stað en þeir talið í ljósi læknisvottorða frá stefn­anda að hún væri frá vinnu vegna veik­inda. Stefndi telur þannig að stefn­andi hafi orðið þess valdandi að vá­trygg­­ingartaki til­kynnti ekki atvikið strax til Vinnueftirlits ríkisins og það hafi leitt til þess að rann­­­sókn hafi ekki verið gerð á at­vik­inu hjá vinnueftirlitinu. Þá mótmælir stefndi því sem röngu og ósönn­­­uðu að stefn­­­andi hafi tilkynnt óvinnufærni af völdum vinnuslyss til yfir­manns síns.

Stefndi vísar einnig til þess að í vottorði Þórðar G. Ólafssonar, yfirlæknis við Lækna­­­­­vaktina, frá 5. maí 2014 komi ekkert fram um að stefnandi hafi rekið sig í aðra kerru, skrikað fótur eða fengið hnykk á bakið þegar hún var að lyfta saltpokanum. Þar komi aðeins fram að hún hafi verið að lyfta saltpoka deginum áður og fengið við það slæman verk hægra megin í mjóbaki. Hið sama eigi við um vottorð Gunnars Þórs Jóns­­­sonar, læknis við Heilsugæsluna Sólvangi, en þar komi aðeins fram að stefn­­andi hafi fengi slæman verk og heyrt smell í baki við að lyfta upp þungu og að ljóst sé að hún hafi tognað illilega við umrædda lyftu.

Að mati stefnda verði ekki annað ráðið af þessu en að saga stefnanda sé síðar til­búin frásögn um það hvernig umrædd atvik hafi átt sér stað. Stefndi telur að stefn­andi hafi upphaflega sagt læknum á heilsugæslunni að hún hefði fengið bak­verk­inn við það að lyfta saltpokanum, eða í öllu falli ekki minnst á annað við lækn­ana. Stefndi vísar í þessu sambandi til tveggja læknisvottorða um óvinnufærni, annars vegar vott­orðs frá Lækna­­­­­vaktinni 3. desember 2013 og hins vegar vottorðs frá Heilsugæslunni Sól­vangi 23. sama mánaðar, þar sem fram komi að óvinnu­­­færni stefnanda sé vegna sjúk­dóms en ekki slyss. Stefndi telur ósannað að um sé að ræða mistök sem rekja megi til mis­taka læknis eða tungumálaörðugleika. Bendir hann á að stefn­andi hafi flutt til Íslands 1. apríl 2009 og búið hér á landi frá þeim tíma. Þá telur stefndi að engin sam­­tíma­gögn­ renni stoðum undir breytta frásögn stefnanda af umræddu at­viki. 

Stefndi byggir á því að lýsing á atvikum í tilkynningu vátryggingartaka til Vinnu­eftir­­lits ríkisins 12. febrúar 2014 og í tilkynningum stefnanda til stefnda og Sjúkra­trygg­inga Íslands 2. apríl 2014, auk tilkynningar vátryggingartaka til stefnda 25. júní sama ár, hafi ekkert sönnunargildi þar sem í þeim gögnum sé byggt á hinni breyttu frá­sögn stefn­anda af at­vik­um sem ekki hafi stuðning í samtímagögnum, sbr. til hlið­sjónar hæsta­réttardóm frá 8. júní 2006, í máli nr. 47/2006. Þá vísar stefndi einnig til sönnunar­­­reglu einkamálaréttarfars um að framburður málsaðila, sem er honum hag­felldur, hafi ekki sönnunargildi, sbr. 50. gr. laga nr. 91/1991.

Stefndi byggir á því að skrifleg yfirlýsing Paulinu Rymon Lipinska frá 30. apríl 2014 hafi ekkert sönnunargildi. Um sé að ræða vitnisburð í skjali sem hafi verið aflað ein­hliða af stefnanda. Vitnisburðurinn hafi ekki verið gefinn hjá lögreglu, vinnueftirliti eða öðrum hlutlausum rannsóknaraðila. Þá vísar stefndi að auki til þess að atvika­lýsing í skjalinu samrýmist ekki fyrstu atvikalýsingu í læknisvottorðum.

Um lagarök vísar stefndi til meginreglna um sönnun og sönnunarbyrði í vá­trygg­inga­­rétti. Stefndi gerir ekki tölulegar athugasemdir við höfuðstól stefnu­kröfu, 880.212 krónur, en telur að útlagður kostnaður stefnanda, 185.850 krónur, eigi að falla undir máls­­­kostnað. Þá telur stefndi að upphafstíma dráttarvaxta eigi að miða við upp­kvaðn­ingu dóms verði fallist á kröfu stefnanda­.  

 

IV.

Niðurstaða:

Í málinu er ágreiningslaust að stefn­andi hlaut varanlega örorku vegna atviks 2. desember 2013 á vinnu­stað hennar hjá vátryggingartaka sem nánar greinir í fyrir­liggjandi ör­orku­mati. Þá er ágreiningslaust að vinnuveitandi stefnanda var með slysa­tryggingu hjá stefnda og að tryggingin var í gildi á umræddum tíma. Ágreiningur máls þessa tekur hins vegar til þess hvort umrætt atvik 2. desember 2013 hafi verið með þeim hætti að stefnandi hafi lyfta þung­­­­­um poka upp á kerru og hún rekið sig í aðra kerru, og skrik­að við það fótur, eins og stefnandi heldur fram, eða hvort atvikin hafi aðeins verið með þeim hætti að stefn­andi hafi verið að lyfta þungum poka upp á kerru án nokkurs utanað­kom­­­­andi atburðar í skilningi slysa­hugtaksins.

       Meðal málsgagna er til­kynn­ing um vinnuslys til Vinnu­eftir­lits ríkisins, dagsett 12. febrúar 2014 og undir­rituð af Jóni Ragnari rekstrarstjóra. Um er að ræða tilkynningu vinnu­­veitanda samkvæmt 1. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1940 um að­búnað, hollustu og öryggi á vinnu­stöðum, sbr. 37. gr. laga nr. 68/2003. Í til­kynn­­­­ing­unni greinir meðal annars að stefn­­­­andi hafi um­ræddan dag á vinnu­­stað sínum verið að lyfta upp poka, rekið sig utan í aðra kerru, skrik­að fótur og fundið fyrir hnykk á bakið. Þá greinir í niður­­­­­­lagi atvika­­lýsingar að stefnandi hafi ekki fundið fyrir nein­um verk fyrst á eftir en þegar leið á daginn hefði hún farið að finna fyrir verkjum í baki. Sömu upplýsingar um atvik o.fl. koma að mestu fram í tjóns­­tilkynn­­ingu stefn­anda til stefnda 2. apríl 2014 en með þeirri viðbót að hún hafi látið vita af slys­inu. Í til­kynn­ing­unni 2. apríl 2014 er hins vegar ekki greint frá því að stefn­­­andi hafi ekki fundið fyrir nein­­­­um verk fyrst á eftir, eins og fram kom í tilkynningunni til vinnu­eftir­lits­ins. Við skýrslugjöf Jóns Ragnars fyrir dómi kom meðal annars fram að hann hefði fyllt til­kynn­­inguna til vinnu­­­eftir­lits­­ins út samkvæmt frásögn stefn­anda, að viðstöddum túlki. Samrýmist sá fram­­­burður tölvu­­skeyti sem Jón Ragnar sendi til starfsmanns Eflingar-stéttarfélags 5. mars 2014 og einnig því sem fram kom í tjónstilkynningu hans, fyrir hönd vátryggingar­­­taka, til stefnda 25. júní 2014. Þá kemur hið sama fram í bréfi hans til Vinnu­­eftirlits ríkisins o.fl. sama dag, auk tilkynningar hans til Sjúkratrygginga Íslands 30. júlí 2014. Að framan­­greindu virtu þá leggur dóm­­ur­inn til grund­vallar að upp­hafleg tilkynning vá­­trygg­­­ingar­­taka til vinnu­eftir­­lits­ins, þar með talin atvikalýsing, sem síðari tilkynningar stefn­anda til stefnda o.fl. virðast að mestu hafa tekið mið af, hafi verið sam­kvæmt frá­sögn stefn­anda. Þá leggur dómurinn jafnframt til grundvallar að með því að skrá atvika­­­lýs­inguna og senda á eyðublaði til vinnueftirlitsins hafi vá­­­­trygg­­ingar­­­­­­taki í raun ekki verið að taka afstöðu til þess á þeim tíma hvort atvika­­lýs­ingin væri rétt eða röng.

       Meðal málsgagna eru misvísandi læknisvottorð, dagsett 3. og 23. desember 2013, 13. janúar 2014, 7. og 24. febrúar 2014 og 28. mars 2014, um óvinnufærni stefnanda. Við mat á þessum gögnum er til þess að líta að um er að ræða takmörkuð vott­­­­­­orð þar sem meðal annars er gert ráð fyrir staðlaðri merkingu við það hvort óvinnu­færni stafi af slysi eða sjúkdómi. Í ítarlegra vott­orði Þórðar G. Ólafssonar, yfirlæknis við Lækna­vakt­­ina, frá 5. maí 2014 er ekki vikið að því hvort bakverkur stefnanda hafi verið vegna sjúk­­­dóms eða slyss en í vottorðinu greinir að það hafi verið unnið upp úr upp­lýs­ing­um úr sjúkraskrá. Einnig liggur fyrir að það var annar læknir við Lækna­vaktina, Ólafur Stefáns­­son, sem sinnti stefnanda við komu þangað að kvöldi 3. des­ember 2013. Í ítar­legu vottorði Gunnars Þórs Jónssonar, læknis við Heilsu­­­­­­­­­gæsluna Sól­vangi, er ekki vikið að því hvort bakverkur stefnanda hafi verið vegna sjúk­dóms eða slyss eða hvers vegna misræmi hafi verið um þetta atriði í eldri vottorðum frá heilsu­gæslunni um óvinnufærni stefnanda. Fyrir liggur að vottorð Gunnars Þórs var einnig unnið upp úr upplýsingum úr sjúkraskrá og að það var annar læknir við heilsugæsluna, Gísli Baldurs­­­­­son, sem framkvæmdi læknisskoðanir og var í samskiptum við stefnanda, sbr. áðurgreind vottorð um óvinnufærni. Viðkomandi læknar hafa ekki verið leiddir til skýrslu­­­gjafar fyrir dóminum til frekari skýringa á vottorðum og samskiptum við stefn­anda. Hið sama á við um fyrrverandi eiginmann stefnanda sem mun hafa verið við­staddur læknisskoðun að kvöldi 3. desember 2013 á Læknavaktinni. Að mati dóms­ins liggur því ekkert fyrir um það hvort misræmi í skráningu á óvinnu­færni stefnanda, ýmist af völdum slyss eða sjúkdóms, stafar af tungu­mála­örðugleikum í sam­skiptum við læknana eða hvort það er af öðrum ástæð­um. Að framan­greindu virtu er það mat dóms­­­ins að ekki sé unnt að draga einhlíta álykt­un af þessum gögnum um að stefn­andi hafi ekki orðið fyrir meiðslum af völdum slyss við vinnu 2. des­ember 2013 í skilningi vátrygg­ingar­­skilmála.

       Við skýrslugjöf stefnanda fyrir dómi var framburður um atvik 2. desember 2013 að mestu í samræmi við atvika­­­lýsingu í fyrrgreindri tilkynningu til Vinnueftirlits ríkis­ins og ­tilkynningar til stefnda o.fl. um það hvernig slysið átti sér stað. Í framburði hennar kom þó ekki fram að henni hefði skrikað fótur við það að reka sig utan í aðra kerru þegar hún var að lyfta pokanum. Það atriði kemur hins vegar fram í umræddum til­kynn­­­­ing­­um. Þá bar stefnandi um að hún hefði síðar um daginn látið næsta yfirmann sinn, Kristleif Halldórs­son, vita um slysið en hann hefði ekkert aðhafst vegna þess að öðru leyti en því að hann hefði sýnt henni væntumþykju og ráðlagt henni að vera ekki að gráta. Meðal máls­­gagna er yfirlýsing frá vitninu Paulinu Rymon Lip­inska, sam­starfs­konu stefnanda, frá 30. apríl 2014, um að hún hafi verið við störf ásamt stefn­­­­anda í um­ræddu eldhúsi hjá vátryggingartaka 2. desember 2013 þegar stefnandi hefði verið að lyfta upp 25 kg salt­­­­­­­­­­­poka á kerru og hefði rekið fót í aðra nálæga kerru, og við það hefði heyrst smellur í baki hennar og hún í framhaldi kvartað undan verk í baki. Í yfirlýsingunni kemur ekki fram að hún hafi séð stefnanda skrika fótur við það að reka sig í aðra kerru. Við skýrslu af vitninu Paulinu Rymon við aðal­meðferð kom hið sama fram og stað­­­festi vitnið yfir­­­lýsinguna. Framburður vitnisins var skýr og greinargóður. Þá var vitnið sér­stak­lega spurt út í það hvort stefnanda hefði skrikað fótur eða hún runnið til og kannaðist vitnið ekki við að svo hefði verið. Stefn­­­­­­­­andi hefði hins vegar rekið sig utan í aðra kerru á meðan hún var með pokann í hönd­­­­­unum. Þá bar Paulina Rymon einnig um það fyrir dómi að stefn­andi hefði síðar um daginn komið að máli við Kristleif á vinnustaðnum og greint honum frá því hvað hefði gerst. Það eina sem Kristleifur hefði gert hefði verið að hugga hana og segja henni að vera ekki að gráta. Við skýrslu af vitninu Kristleifi við aðalmeðferð kom meðal annars fram að hann hefði frétt af meintu vinnu­slysi stefn­­anda í lok febrúar eða mars 2014 þegar hún hefði komið að máli við hann og spurt hvort hann myndi eftir því að slysið hefði átt sér stað og hún viljað fá hann til að skrifa undir skjal varðandi slysið. Kristleifur hefði þá vísað stefn­­anda á Jón Ragnar rekstrar­stjóra. Nánar aðspurður um atvik 2. desember 2013 kvaðst Kristleifur lítið muna eftir atvikum á þeim degi. Kvaðst hann ekki muna eftir því hvort stefn­andi hefði gefið sig á tal við hann þann dag vegna vinnuslyss eða hvort hann hefði huggað hana vegna slíks atviks. Kristleifur sagði að sam­skipti þeirra hefðu verið dagleg þar sem hann hefði verið hennar næsti yfirmaður. Að­spurður sagði Krist­­­­leifur að honum hefði verið kunnugt um þá skyldu vinnuveitanda að tilkynna um vinnu­slys til Vinnu­eftir­lits ríkisins og tók fram að leið­beiningar hefðu verið í möppu á vinnu­staðnum um hvernig bregðast ætti við þegar slík atvik kæmu upp. Hann tók hins vegar fram að engin slík at­vik hefðu komið upp á þeim tíma sem hann hefði starfað hjá fyrirtækinu. Fyrir liggur að vitnið Jón Ragnar rekstrarstjóri var ekki á staðnum umræddan dag og var því ekki vitni að atvik­um.

       Að mati dómsins samrýmist fram­burður vitnisins Paulinu Rymon ekki nægjan­lega fram­burði vitnisins Kristleifs um að stefnandi hafi greint Kristleifi frá umræddu slysi sama dag og atvikið átti sér stað. Þá verður ekki byggt á framburði stefnanda um þetta atriði, sbr. 50. gr. laga nr. 91/1991. Að þessu virtu telur dóm­ur­inn ósannað að stefn­­andi hafi greint Kristleifi frá slysinu fyrr en í fyrsta lagi í febrúar 2014. Að mati dóms­ins eru atvik máls­ins ekki flókin og reyndi ekki á notkun sérstaks tækja- eða varnar­búnaðar. Þá er ekki uppi ágreiningur um að kerrur að tiltekinni hæð voru á vinnu­­­staðnum né heldur að umrædd háttsemi stefnanda hafi verið hluti af starfs­skyldum hennar. Að þessu virtu verður ekki séð að það hafi sér­staka þýðingu fyrir sönnunarmatið í málinu þótt nokkrar tafir hafi orðið á því að stefn­andi tilkynnti vinnu­veitanda sínum um að hún hefði orðið fyrir slysi og að ekki hafi farið fram rannsókn af hálfu vinnueftirlitsins. Að þessu virtu og með vísan til yfir­lýsingar og fram­burðar vitnisins Paulinu Rymon fyrir dómi, þá telur dóm­ur­inn sannað að stefn­­­andi hafi í starfi sínu, þegar hún var að lyfta um­­rædd­um saltpoka upp á kerru, rekið sig óviljandi utan í aðra nálæga kerru og það hafi orðið til þess að hún fékk hnykk á bakið. Dóm­urinn telur hins vegar ósannað, þegar litið er til fram­burðar stefn­anda og fyrr­greindrar yfir­lýsingar og fram­burðar vitnisins Paulinu Rymon fyrir dómi, að stefn­­anda hafi skrik­­að fótur á meðan hún var að lyfta pok­anum við það að reka sig utan í kerruna.

Samkvæmt 8. gr. vátryggingarskilmála í slysatryggingu launþega, sem málsaðilar vísa til, telst slys vera það þegar skyndilegur utanað­komandi atburður verður sem veldur meiðslum á lík­­ama þess sem vátryggður er og gerist án vilja hans. Sömu megin­­­­sjónarmið liggja til grund­vallar slysahugtakinu í vátryggingarétti, sbr. hæsta­réttar­­­dóm frá 2. júní 2005, í máli nr. 37/2005. Að mati dómsins fellur framangreint atvik, sem dómurinn hefur talið sannað, undir framangreint slysahugtak slysa­tryggingar­­­­­innar en fyrir liggur að stefn­andi rak sig óviljandi utan í kerru þegar hún var við störf við það að lyfta poka upp á aðra kerru og það varð til þess að hún fékk hnykk á bakið svo af hlaust varanleg læknis­fræðileg örorka samkvæmt fyrirliggjandi örorku­mati. Að þessu virtu fellur atvikið undir bótasvið slysatryggingar­innar, sbr. gr. 9.1 og 9.1.1. Þá liggur fyrir að slysa­trygg­­ingin var hluti af kjara­samnings­bundnum rétt­ind­um stefnanda, sbr. gr. 9.7 í kjara­­­­samningi Samtaka atvinnu­lífsins og Eflingar-stéttarfélags o.fl. með gildistíma frá 22. júní 2011 til 31. janúar 2014, og þar með hluti af starfs­kjörum hennar, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980 með síðari breytingum. Að öllu framan­greindu virtu verður lagt til grundvallar að stefndi, sem vá­tryggjandi, beri bóta­skyldu gagn­vart stefnanda vegna varanlegrar læknisfræði­legrar ör­orku hennar. 

Í málinu er ekki tölulegur ágreiningur um höfuðstól stefnukröfu að því er varðar bætur vegna læknisfræðilegrar örorku, 880.212 krónur. Stefndi telur hins vegar að út­lagður kostn­­­aður stefnanda, 185.850 krónur, vegna vott­orðs Gunnars Þórs Jónssonar læknis og vegna örorku­­mats Atla Þórs Óla­sonar læknis, sem ekki er ágreiningur um varðandi fjárhæðir, falli undir málskostnað. Stefnandi hefur mót­­­­­­mælt þessu og byggir á því að útlagður kostn­aður við framangreinda gagna­öflun komi til viðbótar og teljist vera hluti af höfuð­stól stefnukröfu, samtals 1.066.062 krónur. Samkvæmt gr. 9.2 í slysa­­­­tryggingunni fellur undir bóta­­svið kostn­­aður vegna nauð­syn­legra læknis­vottorða í tengslum við vátryggingar­atburð þegar þeirra er aflað að beiðni félagsins. Þá er kveðið á um það í gr. 13.2.7 í. slysatryggingunni að leiði slys til varan­­legrar örorku þá skuli vá­trygg­inga­félagið og vá­tryggður koma sér saman um einn hæfan matslækni til þess að meta afleiðingar slyssins. Stefnandi hefur lagt fram út­prentanir af tölvuskeytum lög­­manns hennar og starfsmanns stefnda í tengsl­um við aðdraganda og niður­stöðu um­­rædds ör­orku­­mats. Að mati dómsins sýna skjöl þessi að stefnda var gef­inn kostur á að koma að og gæta hagsmuna sinna við gerð mats­ins. Þá var honum til­kynnt um niður­­­stöðu matsins, ásamt því að honum var sendur reikningur vegna þess. Einnig ligg­ur fyrir af þessum gögnum að læknisvottorð Gunnars Þórs hafði áður verið sent stefnda ásamt afriti af reikn­ingi. Að mati dóms­ins er um að ræða kostnað vegna gagna sem voru nauð­­synleg til að staðreyna tjón stefn­anda og telst kostnaður­inn, sem stofnað var til fyrir málshöfðun, vera hluti af sjúkra­kostnaði í skilningi 1. mgr. 1. gr. skaða­bóta­­laga nr. 50/1993, sbr. til hlið­sjónar hæsta­­­réttar­dóm frá 16. maí 2013, í máli nr. 748/2012. Að þessu virtu ber að fallast á það með stefnanda að kostnaður vegna framan­­­greindrar gagnaöflunar eigi með réttu að vera hluti af höfuðstól stefnu­fjárhæðar­­­innar sem stefnda beri að greiða.

Fyrir liggur að örorkumat var kynnt fyrir stefnda 5. október 2016. Að því virtu og með vísan til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 1. mgr. 121. gr. laga nr. 30/2004, þá ber að fallast á kröfu stefnanda um að dráttar­vextir skuli miðast við tímabilið frá 19. október 2016 til greiðslu­­dags.

       Að fenginni framangreindri niðurstöðu, og með vísan til 1. mgr. 130. gr., sbr. 1. og 3. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991, ber stefnda að greiða stefnanda máls­­­­­­kostnað sem ræðst af máls­­kostnaðarreikningi, sem stefnandi hefur lagt fram, sam­tals 1.573.187 krónur, þar af 1.519.215 krónur vegna lögmannsþóknunar að með­töld­um virðis­­auka­skatti og 53.972 krónur vegna útlagðs kostnaðar.

       Daði Kristjánsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð:

       Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefnanda, Anetu Brodziak, 1.066.062 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verð­­tryggingu frá 19. október 2016 til greiðsludags.

       Stefndi greiði stefnanda 1.573.187 krónur í málskostnað.

 

                                                                        Daði Kristjánsson