• Lykilorð:
  • Galli
  • Riftun
  • Sönnun

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 20. apríl 2015 í máli nr. E-4038/2014:

Sonja Steinarsdóttir

(Úlfar Guðmundsson hdl)

gegn

Tölvuteki ehf.

(Brynjólfur Eyvindsson hdl.)

 

 

Mál þetta sem dómtekið var 10. apríl 2015 var höfðað 17. október 2014 af hálfu Sonju Steinarsdóttur, Skjólbraut 1, Kópavogi á hendur Tölvuteki ehf., Hallarmúla 2 í Reykjavík, til riftunar á kaupum og greiðslu skaðabóta.

Stefnandi krefst þess að staðfest verði með dómi riftun stefnanda á kaupum fartölvu hjá stefnda þann 13. júlí 2012, er stefnandi lýsti yfir þann 2. október 2013 í kæru sinni til kærunefndar lausafjár- og þjónustukaupa.

Þá krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að endurgreiða henni kaupverð fartölvunar, 149.900 krónur, auk vaxta samkvæmt 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 10. september 2013 til 18. mars 2014, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags.

Stefnandi krefst einnig greiðslu skaðabóta að fjárhæð 8.980 krónur, vegna útlagðs kostnaðar, auk dráttarvaxta, mánuði frá því að stefnda var birt stefna málsins til greiðsludags.

Stefnandi krefst málskostnaðar samkvæmt málskostnaðaryfirliti eða að mati dómsins eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Stefndi krefst sýknu af dómkröfum stefnanda.

Þá krefst stefndi þess að stefnandi verði dæmd til að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins.

 

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Málavextir eru þeir að hinn 13. júlí 2012 keypti stefnandi fartölvu af stefnda og var kaupverð hennar 149.900 krónur. Þegar stefnandi hugðist hlaða rafhlöðu í fyrsta skipti tókst það ekki og fór stefnandi með tölvuna í viðgerð til stefnda 23. júlí 2012.

Við skoðun kom í ljós að skemmdir voru á tölvunni og að botnhlíf hennar var skökk. Samkvæmt viðgerðarlýsingu stefnda kom í ljós að straumtengi tölvunnar og hlíf í kringum það var brotin og straumtengið því fallið inn í tölvuna með þeim afleiðingum að ekki var hægt að setja tölvuna í samband til hleðslu.

Á tímabilinu 11. mars til 2. september 2013 tók stefndi fjórum sinnum við tölvu stefnanda til athugunar og viðgerða, vegna þess að stefnandi kvartaði undan því að vinnsla tölvunnar væri afar hæg og tölvan næði ekki nettengingu. Starfsmenn stefnda yfirfóru tölvuna, komu fyrir vírusvörn í henni og settu stýrikerfi hennar upp aftur á þessu tímabili og er í viðgerðarlýsingum getið um dældir og rispur á skjábaki tölvunnar. Tölvan hefur verið í vörslum stefnda frá 2. september 2013.

Með bréfi lögmanns stefnanda til stefnda 10. september 2013, krafðist stefnandi afhendingar á nýrri tölvu vegna galla. Kröfunni var hafnað með tölvupósti frá þjónustustjóra stefnda 26. september 2013 þar sem fram kom að þar sem vandamálin tengdust fyrst og fremst tjónum og/eða hugbúnaðarvandamálum væri ekki hægt að verða við kröfu um afhendingu á nýrri tölvu eða ábyrgðarviðgerð. Í tilfellum þar sem um greinilegt tjón sé að ræða sé mælt með því að haft sé samband við tryggingarfélag til að athuga hvort tryggingar séu fyrir tjóni af þessu tagi.

Stefnandi leitaði til kærunefndar lausafjár- og þjónustukaupa 2. október 2013, og krafðist riftunar á kaupunum, endurgreiðslu kaupverðs og skaðabóta fyrir útlagðan kostnað. Stefnda var gefinn kostur á að koma að athugasemdum sem bárust innan hæfilegs frests. Í áliti nefndarinnar nr. M-86/2013 frá 4. mars 2014 kom fram að fartölvan væri haldin galla í skilningi 16. gr. laga nr. 48/2003 um neytendakaup þar sem hún hentaði ekki í núverandi ástandi í þeim tilgangi sem sambærilegir hlutir væru venjulega notaðir til. Stefndi beri hallann af því að ekki séu fyrir hendi gögn um ástand tölvunnar við afhendingu samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laganna. Stefnandi ætti því rétt á því að rifta kaupum samkvæmt d-lið 1. mgr. 26. gr. laganna, enda verði ekki talið að þeir gallar sem komið hafi fram á tölvunni geti talist óverulegir, sbr. 32. gr. laganna, og stefnda hafi ekki tekist að bæta úr þeim.

Stefndi unir ekki niðurstöðu nefndarinnar og hafnaði henni með tölvupósti til neytendastofu og stefnanda 15. mars 2014. Innheimtubréfi lögmanns stefnanda frá 18. mars 2014 hafnaði stefndi 10. apríl 2014.

Stefnandi gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Þá kom eigandi stefnda, Halldór Hrafn Jónsson, fyrir dóm og gaf aðilaskýrslu og þjónustustjóri stefnda bar vitni.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggi á því að fartölvan sem hún hafi keypt hjá stefnda hafi verið verulega gölluð og ekki í samræmi við þær væntingar sem gera hafi mátt til sambærilegrar vöru. Stefnandi eigi því rétt á að neyta vanefndarúrræða samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 48/2003. Stefnandi krefjist riftunar á kaupunum og endurgreiðslu kaupverðs að fjárhæð 149.900 krónur. Söluhluturinn hafi verið afhentur stefnda. Vaxta sé krafist frá 10. september 2013 til 18. mars 2014 er innheimtubréf lögmanns hafi verið sent stefnda. Dráttarvaxta sé krafist frá þeim degi til greiðsludags.

 

Stefnandi byggi kröfu um skaðabætur úr hendi stefnda á útlögðum kostnaði vegna gallanna, þ. á m. sé kostnaður vegna greiðslu flýtigjalds vegna viðgerðar á fartölvunni, 3.990 krónur og vegna kaupa á vírusvarnarforriti, 4.900 krónur, samtals 8.980 krónur. Dráttavaxta sé krafist mánuði frá því að stefnda var birt stefna málsins til greiðsludags.

Stefndi hafi borið því við að gallann megi rekja til hnjasks eftir afhendingu. Stefnandi hafi hafnað því að tölvan hafi orðið fyrir hnjaski eftir afhendingu. Skorað sé á stefnanda að leggja fram gögn um ástand tölvunnar við afhendingu á kaupdegi máli sínu til stuðnings.

Vísað sé til laga um neytendakaup nr. 48/2003, einkum til 15., 16., 18., 24., 26., 32., 33., og 50. gr. laganna og til hliðsjónar til laga um lausafjárkaup nr. 50/2000 sem og til meginreglna kröfuréttar. Kröfu um vexti og dráttarvexti styðji stefnandi við lög um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Krafa um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 19/1991, en krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun við lög nr. 50/1988. Varðandi varnarþing vísist til 33. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi sé ekki sáttur við niðurstöðu kærunefndar og telji álit hennar byggjast á misskilningi. Í niðurstöðu nefndarinnar komi fram að nefndarmenn gefi sér að ástand tölvunnar megi rekja til þess að hún hafi verið haldin göllum í skilningi 16. gr. laga nr. 48/2003 um neytendakaup, sbr. 2. mgr. 15. gr. sömu laga.

Þetta sé grundvallarmisskilningur og verði þess valdandi að nefndin komist að þessari röngu niðurstöðu að mati stefnda. Þegar stefnandi hafi komið með tölvuna í fyrsta sinn til viðgerðar þann 23. júlí 2012 hafi komið í ljós að hún hefði orðið fyrir töluverðu hnjaski, m.a. hafi straumtengi tölvunnar verið brotið. Undir þetta taki þó nefndin í niðurstöðu sinni þar sem segi: „Telur kærunefndin líklegt að léleg og hæg vinnsla tölvunnar á síðari stigum, sem m.a. leiddi til viðgerðartilrauna á tölvunni frá mars og fram í september 2013, megi rekja til þessa hnjasks. Þ.e. að líklegt sé að vélbúnaður tölvunnar hafi verið meira skemmdur en leitt var í ljós þegar seljandi gerði við tölvuna í júlí 2012, sem aftur hafi leitt til hægrar vinnslu og vandræða með notkun á tölvunni eftir þá viðgerð, sem aftur leiddi til frekari viðgerðatilrauna. Virðist sú staðreynd að vinnsla tölvunnar var hæg í september 2013, þrátt fyrir að stýrikerfi hennar hafi verið sett upp að nýju um vorið, benda í sömu átt.“

Í ljósi þessara forsendna sem nefndarmenn gefi sér veki niðurstaða nefndarinnar furðu. Samkvæmt 7. gr. laga um neytendakaup teljist söluhlutur afhentur þegar neytandi hafi veitt honum viðtöku og samkvæmt 14. gr. sömu laga flytjist áhætta vegna söluhlutar yfir til neytanda þegar hluturinn hafi verið afhentur í samræmi við 7. gr. laganna.

Í því tilviki sem hér sé til umfjöllunar hafi áhættan af söluhlut færst yfir til stefnanda þann 13. júlí 2012. Þegar afhending hafi farið fram hafi tölvan verið ný, ónotuð og í fullkomnu lagi. Þegar stefnandi hafi aftur á móti komið með hana til viðgerðar tíu dögum síðar hafi verið ljóst að hún hefði orðið fyrir töluverðu hnjaski og hafi aldrei virkað fullkomlega eftir það, þrátt fyrir nokkrar yfirferðir af hálfu starfsmanna stefnda.

Með vísan til þessa, til tilvitnaðra lagaákvæða og tilvitnaðra forsendna nefndarinnar, krefjist stefndi sýknu af dómkröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins.

Til stuðnings kröfum sínum vísi stefndi til laga nr. 48/2002 um neytendakaup, sérstaklega 7. gr. og 14. gr. Varðandi kröfu sína um málskostnað vísi stefnandi til XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

 

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um það hvor aðila skuli bera tjón vegna skemmda á fartölvu sem komu í ljós tíu dögum eftir að stefnandi hafði keypt hana af stefnda. Ágreiningslaust er að ástand tölvunnar sé óviðunandi og að það sé að rekja til tjóns af völdum hnjasks.

Aðila greinir á um það hvort tölvan hafi orðið fyrir hnjaskinu fyrir afhendingu þann 13. júlí 2012 eða eftir þann dag. Hvor aðili um sig telur óhugsandi að hnjaskið hafi orðið á sinni vakt og telur að fartölvan hljóti að hafa orðið fyrir hnjaski í vörslum gagnaðila. Upplýst er að stefnandi tók við fartölvunni í umbúðum eftir að hafa skoðað sýningareintak í verslun stefnda.

Fyrir dóminum bar stefnandi að hún hefði tekið tölvuna úr umbúðunum og tengst netinu þegar hún kom heim með tölvuna. Síðan hafi hún farið í nokkra daga til Akureyrar og skilið tölvuna eftir á borði heima. Hún hafi svo haldið áfram að nota hana þegar heim kom þar til rafhlaðan var að tæmast. Hún hafi þá ekki getað hlaðið hana og hafi farið með hana til stefnda þar sem hnjaskið kom í ljós. Stefnandi byggir því á því að ekkert geti hafa komið fyrir tölvuna í hennar umsjá sem valdið hafi getað þessum skemmdum. Af hálfu stefnda var því lýst fyrir dóminum að starfsmenn stefnda, í fimm til átta manna hópum, fari yfir allar nýjar tölvur áður en þær séu settar í sölu, þeim sé stungið í samband og prófaðar og að því loknu merktar viðeigandi límmiðum, pakkað í umbúðir og komið fyrir á lager. Þaðan séu vélarnar teknar þegar þær eru seldar. Stefndi byggir á því að í þessu ferli hefðu starfsmenn stefnda veitt því athygli ef tölvan hefði ekki verið heil og því hljóti hún að hafa verið heil þegar hún var afhent stefnanda.

Óumdeilt er að lög nr. 48/2003 um neytendakaup gilda um viðskipti aðila og ágreiningslaust er að umrætt hnjask sé orsök þess að fartölvan er haldin galla í skilningi 16. gr. laganna, sbr. a-lið 2. mgr. 15. gr. sömu laga. Niðurstöðu kærunefndar lausafjár- og þjónustukaupa um þetta atriði mótmælir stefndi ekki en telur niðurstöðu nefndarinnar byggða á misskilningi á því hvenær hnjaskið hafi orðið. Telur stefnandi það hljóta að hafa orðið eftir að fartölvan var afhent stefnanda og þar með eftir að áhættan af söluhlutnum færðist til stefnanda samkvæmt 7. gr. og 14. gr. laganna.

Um ástand tölvunnar við afhendingu liggja ekki fyrir nein gögn, engar sönnur hafa verið færðar að því við meðferð málsins fyrir dóminum og verður ekkert um það fullyrt í hvaða ástandi hún var þá.

Við þær aðstæður ber að beita sönnunarreglu 2. mgr. 18. gr. laga um neytendakaup. Í ákvæðinu segir að ef annað sannist ekki skuli galli, sem upp komi innan sex mánaða frá þeim tíma þegar áhættan af söluhlut fluttist yfir til neytanda, talinn hafa verið til staðar þegar áhættan af söluhlut fluttist yfir til neytanda. Frá þessari sönnunarreglu er þó sú undantekning að þetta gildir ekki þegar telja verði að það geti ekki á nokkurn hátt samrýmst eðli gallans eða vörunnar. Þetta síðast nefnda tilvik á ekki við í málinu, enda samræmist það eðli gallans að hann gat verið fyrir hendi við afhendingu þótt hann hafi ekki komið í ljós fyrr en fyrst reyndi á það hvort unnt væri að hlaða tölvuna. Af því leiðir að beita ber sönnunarreglunni í fyrri málslið ákvæðisins um viðskipti aðila. Telst söluhluturinn, fartölvan, því hafa verið haldinn galla við afhendingu.

Að framangreindu virtu verður fallist á kröfur stefnanda og staðfest að henni var heimilt að neyta úrræða 26. gr. laga um neytendakaup og rifta kaupunum í samræmi við 32. gr. laganna, enda telst gallinn ekki óverulegur. Við riftun er stefnanda, sem þegar hefur afhent stefnda fartölvuna, heimilt að krefjast endurgreiðslu kaupverðsins, 149.900 króna, ásamt vöxtum, svo sem krafist er frá 10. september 2013, þegar lögmaður stefnanda sendi stefnda bréf um að hún myndi bera fyrir sig gallann, sbr. 2. mgr. 50. gr. laga um neytendakaup. Dráttarvextir reiknast þó ekki á kröfuna fyrr en mánuður er liðinn frá því stefnda var sent innheimtubréf þann 18. mars 2014, svo sem greinir í dómsorði, sbr. 3. mgr. 5. gr. vaxtalaga nr. 38/2001.

Stefnandi hefur sýnt fram á það með fullnægjandi hætti að hún hafi lagt út 8.980 krónur vegna tilrauna stefnda til lagfæringa á fartölvunni og verður stefnda gert að bæta henni það fjártjón með vísun til 33. gr. og 1. mgr. 52. gr. laga um neytendakaup, ásamt dráttarvöxtum frá því mánuður var liðinn frá stefnubirtingu, svo sem krafist er og nánar greinir í dómsorði.

Stefnanda var með bréfi innanríkisráðuneytisins 15. ágúst 2014 veitt gjafsókn í málinu og greiðist allur gjafsóknarkostnaður hennar því úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Úlfars Guðmundssonar hdl., sem ákveðin er 434.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Í samræmi við úrslit málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 verður stefnda gert að greiða 350.000 krónur í málskostnað sem renni í ríkissjóð.

Dóminn kveður upp Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð

Staðfest er riftun stefnanda, Sonju Steinarsdóttur, á kaupum hennar á fartölvu hjá stefnda, Tölvuteki ehf., þann 13. júlí 2012.

Stefndi greiði stefnanda 149.900 krónur, auk vaxta samkvæmt 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 10. september 2013 til 18. apríl 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda skaðabætur að fjárhæð 8.980 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 17. nóvember 2014 til greiðsludags.

Stefndi greiði 350.000 krónur í málskostnað, sem renni í ríkissjóð.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Úlfars Guðmundssonar hdl., sem ákveðin er 434.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Kristrún Kristinsdóttir