• Lykilorð:
  • Riftun

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 29. maí 2012 í máli nr. E-2387/2011:

Þrotabú GH1 hf.

(Grétar Dór Sigurðsson hdl.)

gegn

íslenska ríkinu,

(Soffía Jónsdóttir hrl.)

Ingva Þór Elliðasyni og

(Guðmundur Ágústsson hrl.)

Kristjáni Kristjánssyni

(Guðmundur Ágústsson hrl.)

 

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 12. apríl sl., var þingfest 7. júní 2011.

            Stefnandi er þrotabú GH1 hf., Borgartúni 25, Reykjavík.

            Stefndu eru íslenska ríkið, Ingvi Þór Elliðason, og Kristján Kristjánsson.

 

Dómkröfur

            Dómkröfur stefnanda á hendur aðalstefnda, íslenska ríkinu, eru þessar:

 

1.      Að rift verði með dómi greiðslu GH1 hf. á skuld þess við aðalstefnda, að fjárhæð 15.945.241 króna, vegna staðgreiðslu opinberra gjalda, á gjalddaga þann 1. september 2010, sem fór fram þann 14. september 2010.

 

2.      Að aðalstefndi greiði stefnanda 15.945.241 krónu. ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. september 2010 til 24. desember sama ár, en ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

 

3.      Þá er gerð krafa um greiðslu málskostnaðar úr hendi aðalstefnda að skaðlausu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, að teknu tilliti til skyldu til greiðslu virðisaukaskatts.

 

            Á hendur varastefndu, Ingva Þór Elliðasyni og Kristjáni Kristjánssyni eru   gerðar þær kröfur að:

 

1.      Rift verði með dómi ráðstöfun GH1 hf. sem fór fram þann 14. september 2010, til hagsbóta fyrir varastefndu, með greiðslu á skuld félagsins við íslenska ríkið, að fjárhæð 15.945.241 króna, vegna staðgreiðslu opinberra gjalda, á gjalddaga þann 1. september 2010.

 

2.      Varastefndu greiði stefnanda sameiginlega (in solidum) 15.945.241 krónur. ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. september 2010 til 7. júlí 2011 en ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

 

3.      Þá er gerð krafa um greiðslu málskostnaðar óskipt úr hendi varastefndu að skaðlausu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, að teknu tilliti til skyldu til greiðslu virðisaukaskatts.

       

            Aðalstefndi, íslenska ríkið, krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða aðalstefnda málskostnað að mati réttarins.

            Dómkröfur varastefndu, Ingva Þórs Elliðasonar og Kristjáns Kristjánssonar, 

eru þær að þeir verði alfarið sýknaðir af kröfum stefnanda í málinu og stefnanda verði gert að greiða þeim málskostnað að mati dómsins að viðbættum virðisaukaskatti.

 

Málavextir

            Stefnandi lýsir málavöxtum svo að þrotabú GH1 hf., hafi áður borið nafnið Capacent hf. Félagið hafi rekið starfsemi á sviði ráðgjafar, rannsókna og ráðninga. Umsvif félagsins hafi verið talsverð en ársvelta þess árið 2009 hafi verið yfir einum milljarði króna.

            Mál þetta lúti að atvikum sem áttu sér stað í aðdraganda gjaldþrots GH1 hf. en bú félagsins hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum hinn 4. október 2010.

            Frá efnahagshruni haustið 2008 hafi félagið glímt við umtalsverða rekstrarerfiðleika. Tekjur hafi dregist saman og lausafjárstaða versnað. Að sama skapi hafi skuldir staðið í stað eða hækkað. Veturinn 2008 og fram á vor 2009 hafi Íslandsbanki hf. (hér eftir jöfnum höndum nefndur Íslandsbanki eða bankinn), viðskiptabanki GH1 hf. og stærsti kröfuhafi, unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins. Endurskipulagningin hafi verið unnin í miðju efnahagshruni og óvissa hafi ríkt um framhaldið. Erfitt hafi því verið að spá fyrir um framtíðarrekstur félagsins. Endurskipulagningin hafi m.a. falið það í sér að helstu stjórnendur félagsins eignuðust 40% í félaginu. Ekki hafi verið ráðist í afskriftir lána að svo stöddu, en félagið hafi staðið skil á vaxtagreiðslum og afborgunum í samræmi við gerða samninga. Í byrjun árs 2010 hafi félagið síðan farið þess á leit við bankann að fá að fresta greiðslu afborgana.

            Í apríl 2010 hafi stjórnendur og forsvarsmenn félagsins loks óskað eftir frekari endurskipulagningu á lánum félagsins hjá bankanum. Við þá endurskipulagningu hafi forsvarsmenn þess gert bankanum tilboð. Gerði það m.a. ráð fyrir að skuldir félagsins við bankann, sem voru um 1.600 milljónir króna, yrðu færðar niður í 250 milljónir króna en hlutafé yrði fært niður að fullu. Nýtt hlutafé yrði gefið út og yrði því ráðstafað inn á skuldina þannig að lánið stæði, að endurskipulagningunni lokinni, í 200 milljónum króna.

            Hinn 8. september 2010 hafi tilboðið verið tekið fyrir í lánanefnd Íslandsbanka. Var það niðurstaða nefndarinnar að tilboðið rúmaðist ekki innan vinnureglna bankans. Lánanefndarmenn töldu að eina færa leiðin væri að gefa bú félagsins upp til gjaldþrotaskipta og að eignir þess yrðu seldar í gagnsæju söluferli hjá skiptastjóra. Hafi þar mestu ráðið að skuldir félagsins við bankann voru um 1600 milljónir króna. Þar af leiðandi hefðu afskriftir um og yfir 1300 milljónum króna að öllum líkindum verið tekjufærðar hjá félaginu sem það hefði ekki þolað fjárhagslega.

            Að loknum fundi lánanefndar bankans hafi starfsmaður fyrirtækjalausna bankans tilkynnt varastefnda, Ingva Þór Elliðasyni, þá framkvæmdastjóra GH1 hf. símleiðis um afstöðu bankans til tilboðsins og að eina færa leiðin væri gagnsætt söluferli hjá skiptastjóra. Í símtalinu hafi Ingvi Þór óskað eftir fundi með bankanum sem allra fyrst og hafi verið ákveðið að forsvarsmenn stefnanda kæmu ásamt lögmanni félagsins til fundar við bankann tveimur dögum síðar.

            Sama dag, þ.e. 8. september 2010, hafi varastefndi, Ingvi Þór Elliðason, auk annarra forsvarsmanna stefnanda, stofnað einkahlutafélagið CC200 (nú Capacent ehf.). Aðalstarfsemi félagsins var sögð rannsóknir, ráðgjöf og ráðningar, þ.e. sama starfsemi og stefnandi rak. Lögheimili félagsins var að Borgartúni 27, á sama stað og starfsstöð GH1 hf.

            Á fundinum 10. september 2010 hafi niðurstöðu af lánanefndarfundi nánar verið lýst og forsvarsmönnum GH1 hf. gert ljóst að af endurskipulagningu félagsins yrði ekki. Félagið væri ógjaldfært og því kæmi ekki annað til greina en að óska eftir því að bú félagsins yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Forsvarsmenn félagsins hafi aftur á móti lýst því yfir að þeir vildu kaupa eignir og rekstur félagsins. Starfsmenn Íslandsbanka hafi hins vegar ítrekað að rétt leið væri að kaupa eignir og rekstur félagsins af skiptastjóra við þrot félagsins.

            Í trausti þess að fyrirmælunum yrði fylgt hafi forsvarsmenn Íslandsbanka lýst því að bankinn hefði í hyggju að halda rekstrinum áfram í samstarfi við skiptastjóra ef ekki yrði gert tilboð í rekstur félagsins við, eða strax eftir, þrot félagsins. Jafnframt að reikningi stefnanda, nr. 515-26-2335, sem var handveðsettur bankanum samkvæmt tryggingarbréfi dagsettu 1. september 2009, yrði ekki lokað næstu daga þar sem sú aðgerð myndi koma í veg fyrir að hægt væri að halda rekstri félagsins gangandi.          

            Í trausti þess að fyrirmælunum yrði fylgt hafi bankinn jafnframt ákveðið að leysa ekki til sín hlutabréf í félaginu, sem honum hafi þó verið heimilt samkvæmt veðsamningi frá 1. september 2009.

            Í fundargerð stjórnarfundar IMG Holding ehf., þá aðaleiganda GH1 hf., frá 14. september 2010, þ.e. sama dag og hin riftanlega ráðstöfun átti sér stað, sé bókað að slitnað hefði upp úr viðræðum GH1 hf. og bankans um lausn á málefnum félagsins. Á fundinum hafi komið skýrt fram að bankinn hefði óskað eftir því að stjórn félagsins gæfi bú þess upp til gjaldþrotaskipta. Engu að síður hafi verið ákveðið á fundinum að verða ekki við kröfum bankans. Þvert á móti hafi stjórnin ákveðið að framselja nær allar eignir félagsins, þ.m.t. veðsettar eignir, hinu nýstofnaða félagi CC200, án samráðs og í andstöðu við fyrirmæli bankans, stærsta kröfu- og veðhafa GH1 hf.

            Á hluthafafundi í hlutafélagi GH1 sama dag, sem varastefndu sátu, hafi verið tekin formleg ákvörðun þess efnis. Jafnframt hafi nafni GH1 hf. verið breytt úr Capacent í GH1. Varastefndi, Ingvi Þór Elliðason, hafi þá verið einn aðaleigandi CC200.

            Af framangreindri fundargerð stjórnarfundar IMG Holding ehf., sé ljóst að forsvarsmönnum GH1 hf., sem mættu á fund í Íslandsbanka, föstudaginn 10. september 2010, sem og öðrum forsvarsmönnum félagsins, hafi verið ógjaldfærni félagsins að fullu kunn. Jafnframt hafi þeim verið ljóst að staða félagsins væri með þeim hætti að setja bæri félagið í þrot án tafar. Sömu aðilum hafi verið ljóst að bann væri gegn sölu á eignum félagsins auk þess sem þær væru að mestu veðsettar bankanum.

            Hinn 15. september 2010 hafi varastefndi, Ingvi Þór Elliðason, þá framkvæmdastjóri bæði CC200 og GH1 hf., tilkynnt Íslandsbanka að stjórnendur GH1 hf. hefðu keypt rekstur félagsins. Með þremur samningum, sem var öllum gefin yfirskriftin kaupsamningur, dagsettum 15. september 2010, hafi þáverandi stjórn GH1 hf., selt CC200 „allan rekstur félagsins ásamt öllu tilheyrandi lausafé“. Auk þess hafi vörumerki, auk hlutafjár í hlutafélaginu Capacent fjárfestingaráðgjöf hf., verið seld varnaraðila. „Kaupverð“ allra eigna hafi verið samtals 97.915.383 krónur sem hafi skipst þannig að kaupverð reksturs og lausafjár var 85.915.383 krónur, 6.000.000 króna skyldi greiða annars vegar fyrir vörumerki og hins vegar hlutafé í Capacent fjárfestingaráðgjöf hf. Greiða átti fyrir síðarnefndu eignirnar með peningum en fyrir rekstur og lausafé hafi verið greitt með yfirtöku launa- og orlofsskuldbindinga, m.a. annars launa- og orlofsskuldbindinga forsvarsmannanna sjálfra.

            Hafi þá einnig komið í ljós að frá og með 8. september 2010, er forsvarsmönnum GH1 hf. var afstaða bankans kunn, til og með 15. s.m., hafi tugir milljóna króna verið nýttir af tékkareikningi stefnanda, sem hafi verið handveðsettur Íslandsbanka, til að greiða skuldir við alla aðra kröfuhafa en bankann. Meðal annars hafi skuld félagsins að fjárhæð 15.945.241 króna., sem mál þetta fjalli um, verið greidd Tollstjóranum í Reykjavík, sem innheimtumanni ríkissjóðs, aðalstefnda. Skuldin hafi verið vegna staðgreiðslu opinberra gjalda félagsins og hafi greiðsla hennar verið innt af hendi síðdegis hinn 14. september 2010. Hafi aðalstefndi þannig fengið greitt umfram aðra kröfuhafa en varastefndu hafi einnig notið greiðslunnar þar sem þeir hafi borið persónulega ábyrgð á skuldinni sem forsvarsmenn félagsins á þeim tíma. Ingvi Þór sem framkvæmdastjóri en Kristján sem formaður stjórnar.

            Hinn 28. september 2010 hafi stjórn GH1 hf. loks sent beiðni um gjaldþrotaskipti til Héraðsdóms Reykjavíkur. Í beiðninni hafi því verið haldið fram að fenginn hefði verið óháður skoðunarmaður til þess að meta virði eigna félagsins og kaupsamningur hafi byggst á því tilboði. Skoðun skiptastjóra hafi aftur á móti leitt í ljós að ekkert mat hefði farið fram á virði eignanna. Hafi því verið um rangfærslu að ræða.

            Strax við skoðun skiptastjóra á framangreindum ráðstöfunum hafi hann talið þær brjóta gegn rétti kröfuhafa til að öðlast fullnægju af eignum GH1 hf., fela í sér grófa mismunun og kunna að fela í sér refsivert athæfi. Jafnframt hafi uppgjör við alla aðra kröfuhafa en Íslandsbanka falið í sér grófa mismunun gagnvart bankanum. Ekki síst í ljósi þess að uppgjörið hafi farið fram gegn betri vitund hlutaðeigandi.

            Hinn 3. nóvember 2010 hafi stefnandi sent forsvarsmönnum CC200 bréf þar sem þrotabúið rifti ráðstöfununum og krafðist afhendingar eigna GH1 hf. Jafnframt hafi verið skorað á CC200 að ganga til uppgjörs við stefnanda. Með bréfi dags. 8. nóvember 2010, frá varastefndu, Ingva Þór og Kristjáni, auk Ölmu Guðmundsdóttur fjármálastjóra, til skiptastjóra stefnanda, hafi þau viðurkennt að „ráðstöfun reiðufjár félagsins með þeim hætti sem gert var um miðjan september 2010 kynni að orka tvímælis“ án þess að þau vildu slá nokkru föstu um það.

            CC200 hafi hins vegar ekki orðið við áskoruninni nema að hluta. Félagið hafi greitt stefnanda fjárhæð sem hafi numið greiðslu skulda sem áttu sér stað þann 15. september 2010, þ.e. sama dag og framsal eignanna fór fram. Hafi greiðslan verið greidd af CC200 f.h. fyrrum forsvarsmanna GH1 hf.. Að öðru leyti var ekki orðið við kröfum stefnanda um greiðslur eða afhendingu eigna.

            Hinn 24. nóvember hafi stefnandi sent Tollstjóra, f.h. aðalstefnda, bréf og rift greiðslu GH1 hf. á skuld við hann, að fjárhæð 15.945.241 króna og krafðist endurgreiðslu. Afrit bréfsins hafi verið sent varastefnda Kristjáni, f.h. fyrrum stjórnar GH1 hf. Hvorki aðal- né varastefndu hafi hins vegar orðið við kröfum stefnanda. Tollstjóri hafi ekki haft áhuga á því að kynna sér staðreyndir og gögn málsins og hafi talið synjun sína stjórnvaldsákvörðun sem mætti kæra. Jafnframt hafi varastefndu, auk Ölmu Guðmundsdóttur fjármálastjóra, mótmælt riftuninni.

            Þar sem ekki hafi verið brugðist við kröfum stefnanda sé málshöfðun þessi nauðsynleg.

            Þess megi að lokum geta að Íslandsbanki hafi lagt fram kæru á hendur fyrrum forsvarsmönnum GH1 hf. og forsvarsmönnum CC200 (nú Capacent) vegna framangreindra ráðstafana, þ. á m. þeirrar ráðstöfunar sem mál þetta fjallar um. Þá hafi skiptastjóri þrotabúsins sent tilkynningu samkvæmt 84. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

            Aðalstefndi kveðst enga hugmynd hafa haft um þá greiðsluerfiðleika sem leiddu til gjaldþrots GH1 hf. í september 2010. Tollstjórinn í Reykjavík hafi til dæmis aldrei haft neinar forsendur til að útbúa aðfararbeiðni á hendur félaginu vegna vanskila og sé heldur ekki unnt að sjá upplýsingar um árangurslaus fjárnám félagsins í opinberum vanskilaskrám. Gjaldþrot félagsins hafi því komið aðalstefnda í opna skjöldu enda höfðu engar vísbendingar komið fram um erfiða stöðu þess gagnvart innheimtumanni ríkissjóðs.

            Varastefndu kveða málavaxtalýsingu stefnanda í stefnu ekki vera rétta og gefi hún ekki rétta mynd af aðdraganda gjaldþrots félagsins. Hið rétta sé að þrátt fyrir bankahrunið hafi GH1 hf. staðið styrkum fótum og hafi afkoma félagsins af reglulegri starfsemi verið vel viðunandi. Ástæða erfiðleika félagsins hafi ekki verið á rekstrarlegum forsendum heldur á grundvelli skulda sem settar höfðu verið á félagið að undirlagi Íslandsbanka hf. og móðurfélagsins, IMG Holding ehf. vegna kaupa á félögum í Danmörku. Um hafi verið að ræða skuldir sem tengdust ekki nema að litlu leyti starfsemi félagsins hér á landi.

            Varastefndu kveða það jafnframt vera rangt að þeir, annar eða báðir, hafi tekið ákvörðun um að greiða aðalstefnda gjaldfallna staðgreiðsluskuld á þeirri forsendu að þeir eða aðrir stjórnarmenn félagsins væru ábyrgir fyrir þeirri greiðslu. Um það hafi einfaldlega verið að ræða að gjaldkeri/fjármálastjóri félagsins hafi innt þessa greiðslu af hendi alls óháð ábyrgð stjórnamanna á skilum á staðgreiðslu og stöðu félagsins að öðru leyti. Hafi gjaldkeri/fjármálastjóri einfaldlega talið sér skylt að inna greiðsluna af hendi enda hafi staðgreiðslan skömmu áður verið dregin af starfsmönnum félagsins í tengslum við launagreiðslur þeirra fyrir ágústmánuð 2010. Með sama hætti hafi gjaldkeri félagsins greitt aðra reikninga félagsins. Þær greiðslur, sem og þessi tiltekna greiðsla til innheimtumanns ríkissjóðs, hafi ekkert haft með það að gera hvort einhver væri í ábyrgð fyrir þeim reikningum. Það sé síðan allt annað mál, og þessu ótengt, að nýja Capacent ehf., hafi ákveðið að endurgreiða þrotabúinu fjárhæð sem svarar til þeirrar fjárhæðar sem félagið greiddi öðrum kröfuhöfum, þ.e.a.s. öðrum en aðalstefnda.

 

Málsástæður stefnanda og lagarök

Hin riftanlega ráðstöfun

            Sú riftanlega ráðstöfun, sem mál þetta fjalli um, sé greiðsla GH1 hf. á skuld sinni við aðalstefnda, íslenska ríkið, vegna staðgreiðslu opinberra gjalda, á gjalddaga þann 1. september 2010, að fjárhæð 15.945.241 króna, sem fór fram hinn 14. september 2010 (hér eftir einnig nefnd ráðstöfunin eða hin riftanlega ráðstöfun).

 

Krafa á hendur aðalstefnda um riftun á greiðslu skuldar

Um dómkröfu nr. 1 á hendur aðalstefnda

            Stefnandi byggir kröfu sína um riftun ráðstöfunarinnar gangvart aðalstefnda á 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. (hér eftir nefnd gþl.). Reglan kveði á um að rifta megi greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag ef greitt var með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd var fjárhæð sem hefur skert greiðslugetu þrotamannsins verulega, nema greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum.

            Þeim riftunarheimildum sem felist í 134. gr. sé fyrst og fremst ætlað að taka til greiðslna sem eru óvenjulegar í sjálfu sér eða fara fram við óvenjulegar aðstæður eins og hátti til í þessu máli. Regla 134. gr. skýrist einnig af þeim megintilgangi riftunarreglna gþl. að skapa möguleika á að auka jafnræði kröfuhafa við gjaldþrotaskipti og leiðrétta óeðlilegar ráðstafanir.

            Öll skilyrði 134. gr. gþl. séu uppfyllt til riftunar ráðstöfunarinnar gagnvart aðalstefnda. Greiðslan, sem GH1 hf. greiddi aðalstefnda, hafi verið vegna staðgreiðslu af launum starfsfólks stefnanda fyrir ágústmánuð. Krafa aðalstefnda hafi verið á gjalddaga þann 1. september 2010 en eindagi fimmtán dögum síðar, 15. september 2010, sbr. 1. mgr. 112. gr. tekjuskattslaga nr. 90/2003. Hafi því verið um að ræða skuld GH1 hf. við aðalstefnda.

            Greiðsla skuldarinnar hafi farið fram hinn 14. september 2010. Þá hafi verið  24.416.321 króna inni á reikningi félagsins sem hafi verið nær eina handbæra fé stefnanda. Eins og áður sé getið hafi reikningurinn þó verið handveðsettur Íslandsbanka samkvæmt tryggingarbréfi, útgefnu 1. september 2009. Reikningnum hafi verið haldið opnum fyrir útgreiðslur í trausti þess að fyrirmælum bankans, um að gefa bú stefnanda tafarlaust upp til gjaldþrotaskipta, yrði fylgt. Fjárhæð hinnar greiddu skuldar hafi numið um 60 hundraðshlutum af innstæðu á handveðsetta reikningnum þegar hún fór fram. Sú litla greiðslugeta sem GH1 hf. hafi haft hafi því verið skert verulega með greiðslu skuldar við aðalstefnda.

            Þegar greiðsla skuldarinnar fór fram höfðu forsvarsmenn GH1 hf. undirbúið yfirfærslu allra eigna félagsins til hins nýstofnaða einkahlutafélags CC200. Sama dag og greiðslan átti sér stað, 15. september 2010, hafi formleg ákvörðun þess efnis verið tekin. Bæði á hluthafafundi í GH1 hf. og í móðurfélaginu, IMG Holding ehf. Daginn eftir, 15. september 2010, hafi yfirfærsla allra eigna átt sér stað. Greiðsla fyrir eignirnar hafi að mestu leyti farið fram með yfirtöku launaskuldbindinga sem hefðu að miklu leyti notið forgangs samkvæmt 112. gr. gþl. við gjaldþrotaskipti á búi GH1 hf. Þá hafi Íslandsbanki verið með veð í öllum kröfum GH1 hf. en lýstar veðkröfur bankans í bú félagsins nemi tæpum 1,2 milljörðum króna. Krafa vegna hinnar greiddu skuldar, sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. gþl., hefði því ekki fengist greidd að neinu marki við skipti á búi GH1 hf.

            Þá geti greiðsla skuldarinnar ekki talist hafa verið venjuleg eftir atvikum, sbr. niðurlag 1. mgr. 134. gr. en sönnunarbyrðin um það hvíli á aðalstefnda. Stefnandi telji að beita verði hlutlægum aðferðum við mat á því og líta til allra aðstæðna. Sú leiðbeiningarregla, sem sé talin gilda við matið, sé að greiðslur sem hefðu farið fram á sama tíma og með sama hætti, þótt fjárhagsvandræði skuldara hefðu ekki komið til, séu venjulegar eftir atvikum. Á þeim tíma sem skuldin var greidd hafi GH1 hf. hins vegar verið ógjaldfær. Forsvarsmönnum félagsins hafi verið fullkunnugt um það og hafi borið að gefa bú félagsins upp til gjaldþrotaskipta, sbr. 2. mgr. 64. gr. gþl.

            Öllum skilyrðum 134. gr. gþl. er að þessu sögðu fullnægt og beri að taka kröfu stefnanda um riftun á greiðslu skuldarinnar til greina.

 

Um dómkröfu nr. 2 á hendur aðalstefnda.

            Krafa stefnanda um endurgreiðslu styðjist við 142. gr. Samkvæmt reglunni beri þeim sem hafi hag af riftanlegri ráðstöfun, fari riftun fram með stoð í 131.-138. gr., að greiða þrotabúi fé sem svarar til þess sem greiðsla þrotamanns hefur orðið honum að notum. Augljóst sé að greiðsla GH1 hf. hafi komið aðalstefnda að fullum notum þar sem um peningagreiðslu sé að ræða.

            Krafa stefnanda um endurgreiðslu beri vexti samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá og með þeim degi er hin riftanlega ráðstöfun átti sér stað, 14. september 2010, og fram til þess er stefnandi lagði fram kröfu á hendur aðalstefnda, þann 24. nóvember 2010. Með vísan til 3. mgr. 5. gr. beri krafan dráttarvexti frá þeim degi þegar mánuður var liðinn frá því stefnandi krafði aðalstefnda sannanlega um greiðslu, þ.e. 24. desember 2010.

 

Krafa á hendur varastefndu um riftun ráðstöfunar

Um dómkröfu nr. 1 á hendur varastefndu

            Telji dómurinn ekki skilyrði til riftunar á greiðslu skuldarinnar gagnvart aðalstefnda byggir stefnandi á því til vara, að skilyrði riftunar samkvæmt gjaldþrotarétti séu allt að einu til staðar gagnvart varastefndu. Byggi stefnandi á því að ráðstöfuninni skuli þá rift gagnvart varastefndu með vísan til reglu 141. gr. sömu laga. Samkvæmt reglunni, sem nefnd hafi verið almenna riftunarreglan, megi krefjast riftunar ráðstafana sem á ótilhlýðilegan hátt eru kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, leiða til þess að eignir þrotamanns verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiða til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, ef þrotamaður var ógjaldfær eða varð það vegna ráðstöfunarinnar og sá sem hafði hag af henni vissi eða mátti vita um ógjaldfærni þrotamanns og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg.

            Eins og áður segi hafi skuldin, sem GH1 hf. greiddi, verið vegna staðgreiðslu af launum starfsfólks. Varastefndi, Ingvi Þór, hafi, sem framkvæmdastjóri, borið ábyrgð á daglegum rekstri félagsins og stýrt því hvað skyldi greitt frá degi til dags. Varastefndi, Kristján Kristjánsson, hafi, sem formaður stjórnar, hins vegar borið ábyrgð á að málefni félagsins, skipulag og starfsemi, væri jafnan í réttu og góðu horfi. GH1 hf. og varastefndu hafi því, á þeim tíma sem ráðstöfunin átti sér stað, verið nákomnir aðilar, sbr. 5. tl. 3. gr. gþl. Varastefndi Kristján hafi verið mjög meðvitaður um fjárhagsstöðu félagsins. Samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, og í samræmi við réttarframkvæmd, hafi varastefndu þar af leiðandi borið persónulega ábyrgð á staðgreiðslu launa.

            Með ólögmætri greiðslu GH1 hf. á skuldinni hafi varastefndu losnað undan þeirri ábyrgð sem þeir báru á henni samkvæmt stöðu sinni hjá stefnanda. Varastefndu hafi þannig haft hag af hinni riftanlegu ráðstöfun og verið kunnugt um riftanleika hennar.

            Varastefndu hafi verið skilyrtir kröfuhafar GH1 hf. sem ábyrgðaraðilar að hinni greiddu skuld. Hefði skuld GH1 hf. vegna staðgreiðslu launa ekki verið greidd hefði aðalstefndi getað krafið varastefndu um greiðslu hennar samkvæmt áðurnefndri 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Þannig hafi varastefndu komið sér undan ábyrgð á skuldinni á kostnað annarra kröfuhafa, einkum Íslandsbanka.

            Greiddar hafi verið 15.945.241 króna sem hafi leitt til þess að fjárhæðin var ekki Íslandsbanka, sem kröfu- og veðhafa stefnanda, til reiðu. Um hafi verið að ræða fjárhæð sem hafi numið um 60 hundraðshlutum af handbæru fé stefnanda á þeim tíma. Þar að auki hafi það verið handveðsett Íslandsbanka.

            Félagið GH1 hf. hafi verið ógjaldfært þegar ráðstöfunin átti sér stað. Skuldir hafi verið vel yfir einum milljarði króna en handbært fé hafi nær ekkert verið. Félagið hafi því ekki getað staðið í skilum við lánardrottna sína þegar kröfur þeirra féllu í gjalddaga og án verulegra afskrifta hafi ekki verið útlit fyrir að greiðsluörðugleikar þess myndu líða hjá innan skamms tíma. Það litla sem var til reiðu hafi verið veðsett Íslandsbanka. Þegar ráðstöfunin átti sér stað hafði formleg ákvörðun verið tekin um að færa allar eignir GH1 hf. til hins nýstofnaða félags, CC200, sem hafi m.a.verið í eigu varastefnda, Ingva Þórs, einkum gegn yfirtöku launaskuldbindinga. Á þeim tíma sem ráðstöfunin fór fram hafi því legið ljóst fyrir að stefnandi myndi ekki afla frekari tekna til að standa undir skuldbindingum sínum. Ekkert nema gjaldþrot hafi beðið stefnanda.

            Varastefndu hafi verið fullkunnugt um riftanleika ráðstöfunarinnar. Varastefndi, Ingvi Þór, þá framkvæmdastjóri GH1 hf., hafi gjörþekkt fjárhag félagsins. Hann hafi jafnframt fengið tilkynningu bankans 8. september 2010 um að endurskipulagning á fjárhag félagsins kæmi ekki til greina og gefa skyldi bú þess upp til gjaldþrotaskipta. Þá hafi hann samdægurs stofnað nýtt félag, CC200, til undirbúnings á yfirtöku allra eigna stefnanda. Varastefndi, Kristján, hafi setið hluthafafund 14. september 2010 í IMG Holding ehf., móðurfélagi GH1 hf., þar sem ákveðið hafi verið að selja CC200 allar eignir stefnanda. Varastefndu hafi báðir setið hluthafafund í félaginu sama dag þar sem ákveðið hafi verið að selja CC200 allar eignir GH1 hf., sama dag og ráðstöfunin fór fram. Varastefndu hafi því vitað um ógjaldfærni GH1 hf. en hafi samt sem áður látið verða af ráðstöfuninni. Skilyrði 141. gr. gþl. um ótilhlýðileika ráðstöfunarinnar sé þannig uppfyllt.

 

Um dómkröfu nr. 2 á hendur varastefndu

            Fjárkrafa stefnanda á hendur varastefndu styðjist við 3. mgr. 142. gr. gþl. Fari riftun fram með vísan til 141. gr. laganna beri varastefndu að greiða þrotabúinu bætur eftir almennum reglum. Stefnandi byggi á því að varastefndu beri óskipta ábyrgð á kröfunni en fjárhæð hennar sé sú sama og fjárhæð hinnar greiddu skuldar. Það er það tjón sem stefnandi hafi orðið fyrir. Með vísan til framangreindrar umfjöllunar sé sök varastefndu jafnframt sönnuð.

            Krafa stefnanda um bætur beri vexti frá og með þeim degi er hin riftanlega ráðstöfun átti sér stað, 14. september 2010, og fram til þess er mánuður verður liðinn frá höfðun þessa máls, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Beri krafan síðan dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 9. gr.

            Krafa stefnanda um riftun á hendur aðalstefnda byggist á 134. gr. gþl. en á hendur varastefndu á 141. gr. sömu laga. Endurgreiðslukrafa stefnanda á aðalstefnda byggist á 1. mgr. 142. gr. gþl. Fjárkrafa stefnanda á varastefndu byggist á 3. mgr. sömu greinar.

            Um vexti og dráttarvexti er vísað til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

            Krafa stefnanda um málskostnað er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

            Varaaðild í máli þessu styðst við 2. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála en dómkröfur stefnanda á hendur stefndu eiga rætur að rekja til sama atviks, þ.e. hinnar riftanlegu ráðstöfunar. Um varnarþing vísast til 1. mgr. 32. og 3. mgr. 33. gr., sbr. 1. mgr. 42. gr. sömu laga.

            Samkvæmt 1. mgr. 148. gr., sbr. bráðabirgðaákvæði 194. gr., gþl. er mál þetta höfðað innan frests.

 

Málsástæður aðalstefnda, íslenska ríkisins

            Aðalstefndi byggir sýknukröfu sína á því að skilyrði til riftunar hinnar umþrættu greiðslu, á grundvelli 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, séu ekki fyrir hendi. Móttakandi greiðslunnar, innheimtumaður ríkissjóðs, hafi verið grandlaus um greiðsluerfiðleika GH1 hf. og væntanlega beiðni um gjaldþrotaskipti þegar greiðslan var móttekin. Greiðslan hafi farið fram með venjulegum greiðslueyri á réttum tíma, með peningum sem millifærðir hafi verið milli bankareikninga með tilteknum hætti og aðalstefnda gat því ekki virst hún óvenjuleg eftir atvikum enda ekkert í tekjubókhaldskerfi hans eða í skrám Creditinfo sem benti til fjárhagsörðugleika eða ógjaldfærni félagsins. Þá telur aðalstefndi það verða að teljast venjuleg ráðstöfun og samrýmast fyrirmælum 115. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, að greiða afdregna staðgreiðslu launagreiðanda á réttum tíma hjá félagi í atvinnurekstri.

            Málsástæðum stefnanda er lúti að því að aðalstefnda hafi verið greitt með óvenjulegum greiðslueyri og fyrr en eðlilegt var, sé mótmælt sem röngum og órökstuddum, enda liggi fyrir að um peningagreiðslu var að ræða sem hafi farið fram á sama tíma og aðrar greiðslur GH1 hf. á staðgreiðslu launagreiðanda árin 2009 og 2010, þ.e. vanalega daginn fyrir eindaga, eins og tíðkist hjá félögum í eðlilegum atvinnurekstri.

            Stefnandi kveði innstæðu veltureiknings félagsins hafa numið 24.416,321 krónu þegar greiðsla til innheimtumanns ríkissjóðs var innt af hendi. Þeirri málsástæðu stefnanda, að hún hafi skert greiðslugetu félagsins verulega og geti ekki talist venjuleg eftir atvikum, sé mótmælt sem rangri. Af gögnum málsins megi ráða að kröfur viðskiptabankans á hendur félaginu nemi 1600 milljónum króna. Þá komi fram að þann 15. september 2010 hafi framsal eigna GH1 hf., að fjárhæð tæpar 100 milljónir króna, til nýstofnaðs félags átt sér stað. Aðalstefndi telur víst að sá gjörningur hafi skipt sköpum um greiðslugetu félagsins en ekki hin óverulega fjárhæð sem deilt sé um í máli þessu og fái aðalstefndi ekki séð að greiðslan hafi skipt sköpum varðandi greiðslugetu félagsins, né telur hann slíkt geta verið metið honum til tjóns.

            Aðalstefndi hafi verið grandlaus um að innstæða á veltureikningi GH1 hf. væri veðsett viðskiptabanka hans. Honum hafi hvorki verið tilkynnt með neinum hætti um slíka veðsetningu, né hafi venjubundnar greiðslur félagsins borið það með sér að ráðstöfunarheimildir þess væru takmörkunum háðar sökum veðréttinda þriðja manns.

            Fjárkröfum stefnanda byggðum á 142. gr. laga nr. 21/1991, sé mótmælt þar sem aðalstefndi telji skilyrði riftunar ekki vera uppfyllt og sé krafist sýknu af endurkröfu stefnanda.

            Dráttarvaxtakröfu stefnanda er mótmælt og telur aðalstefndi að miða eigi upphafsdag dráttarvaxta við síðara tímamark samkvæmt mati dómsins, ef á annað borð geti komið til nokkurra álita að rifta peningagreiðslu úr hendi aðalstefnda. Telur aðalstefndi að í fyrsta lagi sé unnt að dæma dráttarvexti frá 24. desember 2010, sbr. 9. gr. laga nr. 25/1987, þegar mánuður var liðinn frá bréfi skiptastjóra til Tollstjórans í Reykjavík.

            Stefndi vísar til áðurgreindra lagaraka er varða sýknukröfu. Krafa um málskostnað styðst við 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

 

Málsástæður varastefndu, Ingva Þórs Elliðasonar og Kristjáns Kristjánssonar

            Á því sé byggt að hvorki eigi að taka til greina kröfu stefnanda á hendur aðalstefnda né varastefndu þar sem um skilafé hafi verið að ræða sem stefnandi hafði, á grundvelli fyrirmæla í 20. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, dregið af starfsmönnum GH1 hf. við útborgun launa þeirra fyrir ágústmánuð 2010. Félaginu hafi því borið lagaskylda, alls óháð ábyrgð einstakra aðila innan eða utan félagsins, til að skila þessum greiðslum til innheimtumanns ríkissjóðs. 

            Krafa varastefndu sé á því reist að GH1 hf. hafi verið skylt að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil á afdreginni staðgreiðslu starfsmanna á þeim tíma sem hún var innt af hendi. Mótmæli varastefndu því að skilin hafi verið ótilhlýðileg þegar litið sé til þeirrar lagaskyldu sem á félaginu hvíldi, eðlis greiðslunnar og hvaða aðila hún var greidd. Mótmæli varastefndu því jafnframt að greiðslan hafi falið í sér mismunun á milli kröfuhafa eða að hún hafi verið til þess fallin að rýra eignir búsins enda um að ræða fé sem hafi tilheyrt aðalstefnda og verið skömmu áður dregið af starfsmönnum félagsins.

            Til þess verði að líta að skilin á staðgreiðslu til innheimtumanns ríkissjóðs og launagreiðslur starfsmanna séu samofin og verði ekki svo auðveldlega skilin í sundur. Á grundvelli 20. gr. laga nr. 45/1987 beri atvinnurekanda skylda til að halda eftir hluta af launum starfsfólks og skila því sem af er dregið til innheimtumanns eigi síðar en 15 dögum síðar. Það tíðkist ekki að greiðsla sé sett til hliðar um leið og laun eru greidd og lögð inn á sérstakan vörslureikning. Þess í stað sé staðgreiðslan greidd beint af reikningi félagsins og skil gerð þegar búið hafi verið að ganga frá staðgreiðsluskýrslum. Sá háttur sem viðhafður var hjá GH1 hf. við skil á staðgreiðslu vegna launa ágústmánaðar 2010, sé í fullu samræmi við skil staðgreiðslu hjá fyrirtækinu þau ár sem það var starfrækt. Um eldri staðgreiðslu hafi ekki verið að ræða heldur einungis afdregna staðgreiðslu vegna ágústmánaðar 2010. Þegar metið sé hvort ráðstöfun teljist ótilhlýðileg í skilningi 141. gr. gjaldþrotaskiptalaganna eða eðlileg verði einmitt að hafa í huga hvort ráðstöfunin hafi verið eðlileg eins og á stóð og í samræmi við það sem áður tíðkaðist hjá félaginu eða öðrum félögum.

            Það sé misskilningur hjá stefnanda að fjárhæðin sem var á reikningi félagsins hafi verið veðsett Íslandsbanka hf. á grundvelli handveðsyfirlýsingar og félagið hafi ekki mátt ráðstafa hluta innstæðunnar til innheimtumanns ríkissjóðs. Þá fyrst hafi veðsetningin orðið virk þegar reikningnum var lokað. Fyrir þann tíma hafi reikningshafinn haft fullan rétt á að ráðstafa innstæðunni.

            Stefnandi telji í stefnu að greiðslan hafi verið framkvæmd til hagsbóta fyrir varastefndu. Hann vísi í því sambandi til 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda og telji að það ákvæði feli í sér persónulega ábyrgð forsvarsmanna félags á greiðslu afdreginnar staðgreiðslu. Þessi lagatúlkun sé röng.  Framangreint ákvæði mæli fyrir um refsingu við brotum á ákvæðum laga um staðgreiðslu og viðurlög sem dómstólum sé heimilt að ákvarða þeim sem annaðhvort skilar ekki staðgreiðsluskýrslu, skilar henni seinna en lögin mæla fyrir um eða stendur ekki skil á afdreginni staðgreiðslu til innheimtumanns ríkissjóðs. Á þessu ákvæði geti þriðji aðili ekki byggt skaðabótamál á hendur forsvarsmönnum fyrirtækja. Það sé hins vegar annar handleggur hvort forsvarsmenn félagsins hefðu getað lent í skattrannsókn og verið ákærðir hefðu þeir ekki staðið skil á greiðslunni. Það álitamál sé ekki til umfjöllunar í þessu máli heldur hvort framangreint ákvæði feli í sér ábyrgðarreglu sem stefnandi geti byggt kröfu sína á og varastefndu orðið skilyrtir kröfuhafar og „með greiðslu kröfunnar komið sér undan ábyrgð á skuldinni á kostnað annarra kröfuhafa“. Því sé algjörlega hafnað að túlka megi framangreint refsiákvæði í 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 með þeim hætti að þrotamaður eða forsvarsmenn félags geti á grundvelli þess bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart kröfuhöfum í bú hans eða félags. Framangreint ákvæði hafi verið sett í lög til að taka af öll tvímæli um að afdregin staðgreiðsla sé vörslufé og því beri að skila í samræmi við ákvæði laganna á réttum tíma. 

            Sú ákvörðun að höfða mál þetta á hendur varastefndu á grundvelli þess að þeir beri mesta ábyrgð og að skilin á staðgreiðslunni verið þeim mest til hagsbóta sé algjörlega úr lausu lofti gripin. Ef byggja eigi skaðabótaábyrgð á grundvelli 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, snerti hún ekki einungis stjórnarformann og framkvæmdastjóra fyrirtækis heldur einnig fjármálastjóra og aðra stjórnarmenn. Ástæðan sé sú að ekki einungis framkvæmdastjóri og stjórnarformaður beri refsiábyrgð samkvæmt ákvæðinu heldur allir þeir sem hafi tekið ákvörðun um að skila ekki staðgreiðslunni, þ.m.t. aðrir stjórnarmenn og fjármálastjóri félagsins. Á þeim forsendum höfðu allir þessir aðilar hag af því að staðgreiðslunni yrði skilað til innheimtumanns ríkissjóðs. Ef talið verður að reisa megi skaðabótaábyrgð á grundvelli þessa ákvæðis hefði stefnandi átt að stefna öllum þessum aðilum en ekki velja úr einhverja sem hann telur að beri meiri ábyrgð en aðrir. Um samaðild yrði því að ræða sem leiða eigi til frávísunar málsins. 

            Með vísan til alls framangreinds sé því harðlega mótmælt að skil GH1 hf. á staðgreiðslu til innheimtumanns, hinn 14. september 2010, hafi verið varastefndu til hagsbóta, hún verið ótilhlýðileg eða til þess fallin að rýra eignir félagsins. Áréttað sé að þeir fjármunir sem var skilað hafi verið vörslufé sem nýttist varastefndu á engan hátt til ávinnings. Því sé jafnframt harðlega mótmælt að stefnandi hafi orðið fyrir skaða sem þeim beri að bæta á grundvelli 3. mgr. 142. gr. laga um gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991. 

            Ef á það verður fallist að tékkareikningur GH1 hf. hafi verið veðsettur Íslandsbanka hf., (Glitni hf.) þá sé á því byggt að sýkna beri bæði aðalstefndu og varastefndu á grundvelli aðildarskorts. Íslandsbanki hf., hefði þá átt að vera aðili málsins og reka það á sinn kostnað en ekki á kostnað búsins, enda fari skiptastjóri með hagsmuni kröfuhafa sem heildar en ekki sem einstakra kröfuhafa eða veðhafa. Í stefnunni virðist ekki vera gerður skýr greinarmunur á hagsmunum búsins og hagsmunum Íslandsbanka hf. Það liggi ljóst fyrir að greiðslan var millifærð af reikningi sem var handveðsettur Íslandsbanka og í stefnunni á því byggt að hefði átt að vera til staðar við lokun reikningsins. Ekki sé ljóst hvort stefnandi sé að endurheimta þessa fjármuni í þágu búsins eða veðhafans, Íslandsbanka hf. 

            Dráttarvaxtakröfu stefnanda sé mótmælt. Verði fallist á kröfu stefnanda telji varastefndu að miða eigi upphafsdag dráttarvaxta við uppkvaðningu dómsins í málinu en til vara mánuði eftir birtingu stefnu. Við hið síðara tímamark hafi fyrst legið fyrir að stefnandi myndi gera kröfu á hendur varastefndu.  

            Varastefndu vísa til ákvæða laga 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, máli sínu til stuðnings, einkum, 20. og 3. mgr. 30. gr. Vísa þeir jafnframt til ákvæðis 141. gr. og ákvæðis 3. mgr. 142. gr. gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991.

            Um málskostnað er vísað til 130. gr. laga um meðferð einkamála og um vsk. á málflutningsþóknun til laga um vsk.

 

Niðurstaða    

            Félagið GH1 hf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 4. október 2010. Beiðni um gjaldþrotaskiptin var móttekin í Héraðsdómi Reykjavíkur 28. september 2010, sem er frestdagur samkvæmt skilgreiningu í 2. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti.

            Í máli þessu krefst stefnandi riftunar á greiðslu opinberra gjalda sem fram fór 14. september 2010. Óumdeilt er að umdeild greiðsla fór fram innan sex mánaða frá frestdegi.

            Kröfu sína á hendur aðalstefnda, íslenska ríkinu, byggir stefnandi á 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Samkvæmt greininni má krefjast riftunar á greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag ef greitt var með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd var fjárhæð sem hefur skert greiðslugetu þrotamannsins verulega, nema greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum.    Hefur verið litið svo á að skilyrði riftunar samkvæmt greininni séu sjálfstæð og nægi að einu þeirra sé fullnægt svo riftun nái fram að ganga, að því gefnu að greiðslan réttlætist ekki af því að hún sé, þrátt fyrir allt, venjuleg eftir atvikum.

            Samskipti GH1 hf. við Íslandsbanka eru ekki til úrlausnar í máli þessu. Hvað sem líður samkomulagi þessara aðila um handveðsetningu bankareiknings GH1 hf. liggur fyrir að GH1 hf. greiddi umrædda skuld við aðalstefnda af bankareikningi sínum. Greiðslan, sem fram fór 14. september 2010, var til komin vegna staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsfólks GH1 hf. fyrir ágústmánuð 2010. Samkvæmt 111. gr. laga nr. 90/2003 skulu álögð opinber gjöld renna í ríkissjóð og í Reykjavík hefur Tollstjórinn í Reykjavík á hendi innheimtu þeirra. Samkvæmt 20. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda ber launagreiðanda, að viðlagðri refsiábyrgð, að halda eftir af launum starfsfólks síns staðgreiðslu opinberra gjalda og standa Tollstjóra skil á þeim fjármunum.

            Umrædd greiðsla fór fram með millifærslu milli bankareikninga og var það í samræmi við það sem tíðkast hafði. Eins og fram hefur komið var gjalddagi greiðslunnar 1. september og eindagi 15. september. Fyrir liggur, sbr. framlagt yfirlit yfir greiðslur GH1 hf. á staðgreiðslu launagreiðanda vegna áranna 2009 og 2010, að félagið hafði á þessu tímabili staðið í skilum með staðgreiðsluna, greitt mánaðarlega með sama hætti, á svipuðum tíma.

            Samkvæmt framansögðu er því ekki fallist á að umdeild greiðsla hafi farið fram með óvenjulegum greiðslueyri eða verið greidd fyrr en eðlilegt var.

            Stefnandi heldur því fram að umdeild greiðsla hafi skert verulega greiðslugetu stefnanda. Því til stuðnings vísar stefnandi til þess að fjárhæð greiddrar skuldar hafi numið 60 hundraðshlutum af innstæðu á bankareikningi félagsins þegar hún fór fram.

            Þegar litið er til fjárhæða lýstra krafna í bú GH1 hf. og lýsingar stefnanda í stefnu á fjárhagsstöðu félagsins þykir sýnt að félagið hafi verið ógjaldfært þegar umrædd greiðsla fór fram. Hins vegar er ekki fallist á að umrædd greiðsla, ein og sér, hafi skert greiðslugetu félagsins verulega eða ráðið úrslitum um ógjaldfærni félagsins.

            Þegar jafnframt er litið til þess að sú lagaskylda hvíldi á fyrirsvarsmönnum GH1 hf. að standa stefnda skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, sem dregin hafði verið af launum starfsmanna stefnanda, og litið til þess að félagið hafði á árunum 2009 og 2010 að fullu staðið stefnda skil á slíkum greiðslum verður að telja að greiðslan hafi verið venjuleg eftir atvikum og að hún sæti ekki riftun samkvæmt 134. gr. laga nr. 21/1991um gjaldþrotaskipti.

            Samkvæmt framansögðu ber að sýkna aðalstefnda, íslenska ríkið, af kröfum stefnanda í málinu. 

            Til vara er stefnt Ingva Þór Elliðasyni framkvæmdastjóra GH1 hf. og Kristjáni Kristjánssyni formanni stjórnar félagsins. Gerð er sú krafa á hendur þeim að rift verði ráðstöfun GH1 hf. sem fram fór hinn 14. september 2010 til hagsbóta fyrir þá með greiðslu á skuld GH1 hf. við íslenska ríkið vegna staðgreiðslu opinberra gjalda.

            Byggir stefnandi riftunarkröfu þessa á 141. gr. laga nr. 21/1991. Í greininni segir að krefjast megi riftunar ráðstafana sem á ótilhlýðilegan hátt eru kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra.

            Sú ráðstöfun sem vísað er til í varakröfu stefnanda er greiðsla sem fram fór 14. september 2010 og var staðgreiðsla opinberra gjalda sem GH1 hf. hafði haldið eftir af launum starfsfólks félagsins og GH1 hf. bar að standa, íslenska ríkinu, skil á. Stefndi, íslenska ríkið, telst því vera kröfuhafi samkvæmt ákvæðinu. Verður riftunarkröfu á grundvelli 141. gr. laga um gjaldþrotaskipti ekki beint að fyrirsvarsmönnum félagsins sem innti greiðsluna af hendi. Ber því þegar af þeim sökum að sýkna stefndu, Ingva Þór Elliðason og Kristján Kristjánsson, af kröfum stefnanda í málinu.

            Niðurstaða málsins er því sú að sýkna ber aðalstefnda og varastefndu af kröfum stefnanda í málinu.

            Eftir þeirri niðurstöðu ber stefnanda að greiða stefndu málskostnað sem ákveðst þannig að stefnanda ber að greiða stefnda, íslenska ríkinu, 400.000 krónur í málskostnað og stefndu, Ingva Þór Elliðasyni og Kristjáni Kristjánssyni óskipt 400.000 í málskostnað.

            Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

 

                                                D Ó M S O R Ð

            Aðalstefndi, íslenska ríkið, og varastefndu, Ingvi Þór Elliðason og Kristján Kristjánsson, skulu vera sýknir af kröfum stefnanda, þrotabús GH1 hf.

            Stefnandi greiði stefnda, íslenska ríkinu, 400.000 krónur í málskostnað og stefndu, Ingva Þór Elliðasyni og Kristjáni Kristjánssyni, óskipt 400.000 í málskostnað.

 

                                                Kristjana Jónsdóttir