• Lykilorð:
  • Umferðarlagabrot

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 7. desember 2016  í máli nr. S-836/2016:

Ákæruvaldið

(Auðbjörg Lísa Gústafsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Sigurði Brynjari Guðlaugssyni

(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.)

 

Mál þetta sem dómtekið er í dag var höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þann 8. nóvember sl. "á hendur Sigurði Brynjari Guðlaugssyni, Klapparbergi 19, Reykjavík, fyrir eftirtalin brot:

I.

            Umferðarlagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 15. júlí 2015 ekið bifreiðinni MN-722, sviptur ökurétti, vestur Kleppsveg í Reykjavík, eftir akrein sem eingöngu er ætluð strætisvögnum, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn á gatnamótum Kleppsvegar og Dalbrautar.

(007-2015-40716)

            Telst brot þetta varða við 2. mgr. 13. gr. og  1. mgr. 48. gr., allt  sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum.

 

II.

            Umferðarlagabrot, með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 31. júlí 2015 tekið bifreiðina PH-M10 heimildarlaust við Klapparberg 19 í Reykjavík og ekið henni, sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis (í blóði mældist 0,53 ‰) vestur  Suðurfell í Reykjavík þar sem bifreiðin lenti í árekstri við bifreiðina NG-220 við Völvufell.

(007-2015-44120)

            Telst brot þetta varða við 1. mgr. 48. gr. og 1., sbr. 2. mgr. 45. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum.

 

III.

Umferðarlagabrot, með því að hafa föstudaginn 25. apríl 2016 ekið bifreiðinni AD-893, sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis (í blóði mældist 1,12 ‰) austur Auðarstræti í Reykjavík og inn Bollagötu, þar sem ákærði ók gegn einstefnu, en lögregla hafði afskipti af honum á gatnamótum Bollagötu og Rauðarárstígs.

(007-2016-23085)

            Telst brot þetta varða við 1. mgr. 5. gr., 1. mgr. 48. gr., 1., sbr. 2. mgr. 45. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar skv. 101. og 102. gr. laga nr. 50/1987, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44/1993, sbr. 18. gr. laga nr. 66/2006."

Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar er lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa.

            Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. 

            Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

            Ákærði er fæddur í apríl 1994. Hann á að baki sakaferil. Með hliðsjón af brotum ákærða og sakaferli er refsing ákveðin fangelsi í 7 mánuði.  

Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt.

Ákærði greiði sakarkostnað og málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, sem nánar greinir í dómsorði

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Auðbjörg Lísa Gústafsdóttir aðstoðarsaksóknari.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

                                                              D ó m s o r ð :

            Ákærði, Sigurður Brynjar Guðlaugsson, sæti fangelsi í 7 mánuði.  

            Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt.

            Ákærði greiði 153.031 krónur í sakarkostnað og málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 143.220 krónur.

 

                                                            Símon Sigvaldason.