• Lykilorð:
  • Fjártjón
  • Miskabætur
  • Skaðabætur
  • Uppsögn
  • Skaðabótamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 29. desember 2017 í máli nr. E-3344/2016:

Hafliði Páll Guðjónsson

(Lúðvík Bergvinsson hdl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Guðrún Sesselja Arnardóttir hrl.)

 

I

          Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 31. október 2016 og dómtekið 7. nóvember 2017. Stefnandi er Hafliði Páll Guðjónsson, Tindaflöt 16, Akranesi en stefndi er íslenska ríkið, Arnarhvoli við Lindargötu, Reykjavík.

          Stefnandi krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða stefnanda 63.201.641 krónu, auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 58.201.641 krónu frá 1. nóvember 2015 til 14. janúar 2016 og dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 63.201.641 krónu frá þeim degi til greiðsludags.

          Endanleg varakrafa stefnanda er sú að stefnda verði með dómi gert að greiða stefnanda 30.154.280 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 798.095 krónum frá 1. desember 2015 til 31. desember 2015, af 1.596.190 krónum frá 1. janúar 2016 til 13. janúar 2016, af 12.569.190 krónum frá 14. janúar 2016 til 31. janúar 2016, af 13.394.285 krónum frá 1. febrúar 2016 til 29. febrúar 2016, af 14.192.380 krónum frá 1. mars 2016 til 31. mars 2016, af 14.990.475 krónum frá 1. apríl 2016 til 30. apríl 2016, af 15.788.570 krónum frá 1. maí 2016 til 31. maí 2016, af 16.586.665 krónum frá 1. júní 2016 til 30. júní 2016, af 17.384.760 krónum frá 1. júlí 2016 til 31. júlí 2016, af 18.182.855 krónum frá 1. ágúst 2016 til 31. ágúst 2016, af 18.980.950 krónum frá 1. september 2016 til 30. september 2016, af 19.779.045 krónum frá 1. október 2016 til 31. október 2016, af 20.577.140 krónum frá 1. nóvember 2016 til 30. nóvember 2016, af 21.375.235 krónum frá 1. desember 2016 til 31. desember 2016, af 22.173.330 krónum frá 1. janúar 2017 til 31. janúar 2017, af 22.971.425 krónum frá 1. febrúar 2017 til 28. febrúar 2017, af 23.769.520 krónum frá 1. mars 2017 til 31. mars 2017, af 24.567.615 krónum frá 1. apríl 2017 til 30. apríl 2017, af 25.365.710 krónum frá 1. maí 2017 til 31. maí 2017, af 26.163.805 krónum frá 1. júní 2017 til 30. júní 2017, af 26.961.900 krónum frá 1. júlí 2017 til 31. júlí 2017, af 27.759.995 krónum frá 1. ágúst 2017 til 31. ágúst 2017, af 28.558.090 krónum frá 1. september 2017 til 30. september 2017, af 29.356.185 krónum frá 1. október 2017 til 31. október 2017 og af 30.154.280 krónum frá 1. nóvember 2017 til greiðsludags.

          Þá krefst stefnandi þess að stefnda verði jafnframt gert skylt að greiða stefnanda laun í samræmi við ráðningarsamning stefnanda við Fjölbrautarskóla Vesturlands, dagsettan 15. júní 2015, mánaðarlega frá 1. desember 2017 til 31. júlí 2020.

          Stefnandi krefst jafnframt í öllum tilvikum málskostnaðar úr hendi stefnda að mati réttarins að teknu tilliti til virðisaukaskatts eða samkvæmt málskostnaðarreikningi.

          Af hálfu stefnda eru gerðar þær dómkröfur að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins. Til vara er þess krafist að dómkröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og að málskostnaður verði felldur niður.

          Við aðalmeðferð málsins lagði stefnandi fram bókun, með samþykki stefnda, þar sem hann óskaði eftir því að bókuð yrði breyting á varakröfu hans um efndir in natura í samræmi við áskilnað svo endanleg kröfugerð í varakröfu yrði uppfærð og tæki mið af gjaldföllnum greiðslum samkvæmt tímabundnum ráðningarsamningi aðila við dómtöku málsins í stað málshöfðunar.

 

II

          Helstu málavextir eru þeir að stefnandi, sem starfað hefur sem við kennslu við Fjölbrautarskóla Vesturlands frá 1998, sótti um starf aðstoðarskólameistara við skólann sem auglýst var á Starfatorgi þann 25. mars 2015. Stefnandi var upphaflega ráðinn til starfa við skólann sem leiðbeinandi tímabundið til eins árs samkvæmt ráðningarsamningi, dagsettum 18. ágúst 1998, frá 1. ágúst 1998 til 31. júlí 1999. Stefnandi var ráðinn framhaldsskólakennari við skólann ótímabundið frá 1. ágúst 2001 með ráðningarsamningi, dagsettum 11. júní 2001. Stefnandi sinnti kennslu við rafiðngreinar við skólann. Sérstök valnefnd var skipuð til að vinna úr umsóknum vegna ráðningar í starf aðstoðarskólameistara en hana skipuðu skólameistari, Ágústa Elín Ingþórsdóttir og Ágústa Hlín Gústafsdóttir, mannauðsráðgjafi. Stefnandi var metinn hæfastur af þeim 14 umsækjendum sem sóttu um stöðuna og var tilkynnt um ráðningu hans í stöðu aðstoðarskólameistara frá 1. ágúst 2015 þann 15. maí sama ár.

          Í kjölfarið var gerður ráðningarsamningur við stefnanda sem dagsettur er 15. júní 2015 en samningurinn kvað á um tímabundna ráðningu stefnanda í starfið frá 1. ágúst 2015 til 31. júlí 2020. Samkvæmt samningnum, sem var á stöðluðu samningsformi, var heiti starfsins samkvæmt kjarasamningi tilgreint „aðstoðarskólameistari“ og um tegund starfs kom fram að í því fælist aðstoð við skólastjórnun. Þá kom fram að um launagreiðslur, launaflokk, starfsaldur til launa og önnur starfskjör, færi eftir því sem í samningnum greindi og samkvæmt kjarasamningi. Varðandi uppsagnarfrest kom fram að uppsagnarfrestur ótímabundins ráðningarsamnings væri þrír mánuðir. Þó skyldi gagnkvæmur uppsagnarfrestur vera einn mánuður á fyrstu þremur mánuðum í starfi. Þá var tilgreint varðandi uppsagnarfrest tímabundins ráðningarsamnings að hann væri þrír mánuðir hjá framhaldsskólakennurum og leiðbeinendum en einn mánuður hjá öðrum. Uppsögn miðaðist við mánaðamót og áttu ákvæði um uppsagnarfrest við nema um annað væri samið í kjarasamningi.

          Fráfarandi aðstoðarskólameistari, Hafdís Fjóla Ásgeirsdóttir, var stefnanda innan handar fyrst um sinn eftir að tilkynnt var um ráðningu hans í starfið og setti hann inn í ákveðin verkefni á starfssviði aðstoðarskólameistara. Óumdeilt er að samstarf stefnanda og skólameistara gekk vel í fyrstu en fljótlega fór að bera á samstarfserfiðleikum þeirra á milli. Þrír fundir voru haldnir í því skyni að ræða störf stefnanda og þann samskiptavanda sem upp kom og fóru fundirnir fram dagana 2., 7. og 28. september 2015. Ekki náðust sættir um ágreining stefnanda og skólameistara og 28. september 2015 var stefnanda afhent uppsagnarbréf, dagsett sama dag. Í bréfinu er stefnanda sagt upp störfum sem aðstoðarskólameistari með eins mánaðar fyrirvara, miðað við næstu mánaðamót, og vísað til þess að það væri gert í samræmi við ákvæði framangreinds ráðningarsamnings og 43. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Starfslok hans voru ákveðin þann 31. október sama ár. Þá var athygli vakin á því að stefnandi gæti óskað eftir skriflegum rökstuðningi fyrir uppsögninni, sbr. 1. málslið 2. mgr. 44. gr. laga nr. 70/1996, og þyrfti slík ósk að berast innan 14 daga frá móttöku bréfsins.

          Þann 8. október 2015 sendi skólameistari stefnanda bréf þar sem stefnanda var tilkynnt að vinnuframlags hans væri ekki lengur óskað frá og með þeim degi, hvorki sem aðstoðarskólameistara né við kennslu í skólanum. Þess var farið á leit við stefnanda að hann skilaði lyklum til skólameistara og gengi frá skrifstofu sinni fyrir kl. 16 sama dag. Til stuðnings þessu var vísað bæði til uppsagnarbréfs, dagsetts 28. september s. á., og jafnframt til atviks, sem átt hefði sér stað á skrifstofu skólameistara daginn áður, þegar stefnandi hefði, ásamt Ingólfi Árnasyni, mætt á skrifstofu skólameistara án þess að gera boð á undan sér, og krafist undirskriftar hennar, neitað að yfirgefa skrifstofuna þegar þess hefði verið óskað og hindrað útgöngu hennar af skrifstofunni.

          Aðila greinir á um málsatvik í aðdraganda þessa, þ.e. frá því að tilkynnt var um ráðningu stefnanda í stöðu aðstoðarskólameistara þann 15. maí 2015 og þar til honum var sagt upp störfum með bréfum þann 28. september og 8. október s. á. Í stefnu lýsir stefnandi atvikum svo að þrátt fyrir að ráðningarsamningurinn hafi mælt fyrir um að hann hæfi störf 1. ágúst 2015, hafi hann í reynd hafið störf sem aðstoðarskólameistari þann 15. maí 2015 um leið og tilkynnt var um ráðninguna, að beiðni skólameistara. Til marks um það kveðst stefnandi frá og með þeim degi hafa fengið nýja borðtölvu, verið veitt aðgengi að upplýsinga- og tölvukerfi stjórnenda skólans og verið falin margvísleg verkefni á sviði stjórnunar hans. Þá hafi verið gengið frá samningi um að stefnandi fengi laun sem aðstoðarskólameistari frá og með 1. júní 2015 í stað 1. ágúst 2015, svo sem ráðningarsamningurinn kvæði á um. Í samræmi við það hefði hann því fengið greidd laun sem aðstoðarskólameistari samkvæmt launaflokki 16-4 þann 1. ágúst 2015. Hins vegar hefði ráðningarsamningurinn ekki verið áritaður sérstaklega um þessa breytingu.

          Samkvæmt samkomulagi stefnanda og skólameistara, dagsettu 24. ágúst 2015, tók stefnandi að sér kennslu í tveimur áföngum samhliða aðstoðarskólameistarastarfinu og átti hann að fá greidda 20 yfirvinnutíma á mánuði frá 1. ágúst 2015 til 31. desember 2015.

          Stefnandi hefur lýst því að þegar frá leið hafi hann áttað sig á því að ætlast væri til meira af honum en hann mætti ætla að fælist í starfslýsingu aðstoðarskólameistara. Hann taldi sig mega ráða af fyrirmælum að skólameistari liti svo á að hlutverk aðstoðarskólameistara væri fyrst og fremst að aðstoða skólameistara í hverju sem hinum síðarnefnda dytti í hug. Í greinargerð stefnanda, dagsettri 6. október 2015, kemur fram að stefnandi hafi smám saman farið að finna fyrir því að ætlast hafi verið til þess að hann væri augu og eyru skólameistara og ætti að upplýsa hana um þær umræður sem fram færu innan veggja skólans og einnig á samfélagsmiðlum, einkum varðandi tilgreinda kennara. Án þess að nákvæmar skýringar væru gefnar á þessu hátterni skólameistara og fyrirmælum, hafi stefnandi talið að þetta stafaði af því að mikillar ólgu hefði orðið vart meðal starfsfólks skólans vegna stjórnunarhátta skólameistara.

          Stefnandi sendi skólameistara tölvupóst 31. júlí 2015. Þar koma fram athugasemdir stefnanda við laun vegna tiltekinna verkefna hans, auk þess sem hann segir frá því að þeir, sem hafi reynt að ráðskast með hann eða valta yfir hann, hefðu aldrei komist upp með það. Hann hætti bara að umgangast slíkt fólk. Stefnandi lýsir einnig þeirri skoðun sinni að honum þyki ekki rétt af skólameistara að ætlast til þess af honum að hann sé „í frontinu“ fyrir hana þessa önnina og að hann hafi ekki áhuga á að stjórna t.a m. kennarafundum, allavega ekki á yfirstandandi önn. Hann sé nýr í starfi og þurfi tíma til að átta sig á hlutunum. Þá fari ákaflega illa í hann, væri hann beðinn aftur og aftur um að hringja í fólk sem gæfi honum bara aftur og aftur sama svarið og skólameistari gæti sjálf haft samband við fólk sem hún vildi tala við. Þá kvað hann „eitthvað aðstoðar“ aldrei hafa hljómað vel í hans eyrum.

          Í kjölfarið voru framangreindir fundir stefnanda með skólameistara og Ágústu Hlín Gústafsdóttur mannauðsráðgjafa haldnir í því skyni að ræða störf stefnanda og finna lausn á þeim samskiptavanda sem upp var kominn. Aðila greinir nokkuð á um hvert efni fundanna var og hvað þar fór fram. Stefnandi lýsir því að á fyrsta fundinum 2. september 2015 hafi verið fundið að framkomu hans gagnvart skólameistara og vísað um það til tölvubréfsins frá 31. júlí 2015. Þá hafi einnig verið gefið í skyn að stefnandi stæði sig ekki nægilega vel í starfi, án þess að tilgreina nánar hvað það væri sem skólameistari fyndi að störfum hans. Stefnandi kveðst í kjölfarið hafa fengið afhenta starfslýsingu á fundinum þann 7. september en hana hefði hann ekki séð fyrir þann tíma, enda hefðu drög að henni hvorki verið kynnt né rædd við hann. Þá kveður stefnandi starfslýsinguna hvorki hafa samræmst ákvæðum gildandi laga né efni ráðningarsamnings hans sem aðstoðarskólameistara.

          Stefnandi kveðst engar frekari skýringar hafa fengið á riftun ráðningarsamnings hans sem skólameistara. Þá hafi ekkert komið fram í uppsagnarbréfinu um það, hvort óskað væri eftir starfsframlagi hans í uppsagnarfresti sem skólameistari hafi skilgreint einhliða sem einn mánuð. Stefnandi hafi talið vænlegast að mæta áfram til starfa við skólann og vinna út uppsagnarfrest í samræmi við ráðningarsamninginn, ella myndi hann ekki fá greidd laun í ætluðum uppsagnarfresti. Þá kveðst stefnandi einnig hafa gert ráð fyrir því að efni riftunarinnar yrði skýrt nánar í framhaldinu og honum boðið að halda áfram störfum sem kennari, enda kvæðu lög á um að á meðan kennari gegndi starfi aðstoðarskólameistara væri hann í reynd í tímabundnu leyfi sem kennari. Hann myndi því taka aftur við kennarastarfinu þegar starfi hans sem aðstoðarskólameistara lyki, nema um annað væri sérstaklega samið.

          Stefnandi lýsti því að hann hefði samið greinargerð sína, dagsetta 6. október 2015, í þeirri von að riftunin yrði dregin tilbaka. Sökum þess hvernig skólameistari hefði komið fram í samskiptum við starfsfólk skólans, hafi hann viljað afhenda skólameistara greinargerðina í votta viðurvist, auk þess sem hann hafi talið óviðeigandi að senda í ábyrgðarpósti. Stefnandi hafi því fengið utanaðkomandi aðila, Ingólf Árnason, mág sinn, til þess að að koma með sér á fund skólameistara í þessu skyni. Ástæðu þess kveður stefnandi einkum hafa verið þá, að ástandið í skólanum hafi á þessum tíma verið afar slæmt vegna stjórnunaraðferða skólameistara.

          Stefnandi lýsir því að skólameistari hafi brugðist illa við því þegar hann hafi afhent henni greinargerðina 7. október og óskað eftir áritun hennar um móttöku. Skólameistari hafi lýst því ítrekað yfir að hún neitaði að taka á móti greinargerðinni og yfirgefið skrifstofuna. Daginn eftir hafi skólameistari afhent stefnanda bréf þar sem þess hafi verið krafist að stefnandi yfirgæfi skólann og skólalóðina fyrir fullt og allt sama dag og að hann hreinsaði út af skrifstofu sinni eigi síðar en kl. 16, enda hefði hann verið rekinn og ekki væri óskað eftir frekara vinnuframlagi hans. Stefnandi kveðst þá fyrst hafa áttað sig á því að honum væri sagt upp öllum störfum við skólann,  bæði sem aðstoðarskólameistara og kennara.

          Stefndi óskaði eftir skriflegum rökstuðningi vegna uppsagnarinnar í áðurnefndri greinargerð, dagsettri 6. október 2015, í samræmi við 1. málslið 2. mgr. 44. gr. laga nr. 70/1996. Rökstuðningur barst með bréfi skólameistara þann 20. október 2015. Í framhaldinu leitaði stefnandi til mennta- og menningarmálaráðuneytisins og kannaði möguleika á samkomulagi um fjárhagslegt uppgjör vegna uppsagnarinnar. Samkvæmt gögnum málsins átti lögmaður stefnanda fund með fulltrúum ráðuneytisins þann 16. nóvember 2015 til að leita lausna á málinu og átti síðan í samskiptum við þá bæði í síma og í tölvupóstssamskiptum. Ekkert samkomulag náðist og því sendi lögmaður stefnanda ráðuneytinu kröfubréf þann 14. desember 2015 þar sem hann setti fram sundurliðaða skaðabótakröfu vegna uppsagnarinnar. Samrit var sent Ríkislögmanni sem og bótakrafa. Í kjölfar þess átti lögmaður stefnanda í samskiptum við embætti Ríkislögmanns um mögulegar sættir. Þar sem sættir tókust ekki höfðaði stefnandi málið sem fyrr segir þann 31. október 2016.

          Stefndi mótmælir fullyrðingu stefnanda um að hann hafi hafið störf sem aðstoðarskólameistari fyrir 1. ágúst 2015. Hins vegar hafi verið samið um að stefnandi sinnti sérverkefnum fyrir skólameistara fram til 1. ágúst 2015 og að hann skyldi fá hálf laun í launaflokki 16, þrepi 4, fyrir vinnu við slík verkefni í júní og júlí 2015. Fyrir mistök hafi stefnandi fengið greidd tvö og hálf mánaðarlaun kennara í júní, en hann hafi átt að fá einföld laun kennara, auk hálfra launa í launaflokki 16-4. Á launaseðli 1. ágúst 2015 fyrir júlí s. á. hefði þetta verið leiðrétt þar sem greidd séu laun fyrir þetta aukastarf, 50% fyrir júlí og 50% fyrir ágúst. Þá kveður stefndi engan samning hafa verið gerðan við stefnanda um að hann tæki við starfi aðstoðarskólameistara fyrir 1. ágúst 2015 og breyti þar engu um hvernig undibúningi með tölvubúnað og aðgengi hans hafi verið hagað.

          Um nánari atvik í aðdraganda uppsagnar stefnanda úr starfi aðstoðarskólameistara vísar stefndi rökstuðnings skólameistara, dagsetts 20. október 2015. Þar kemur fram að með ráðningu stefnanda í starf aðstoðarskólameistara hafi verið brugðist við brýnni þörf til að styrkja stjórn skólans, einkum hvað varðaði skipulag og fjármál. Langvarandi rekstrarhalli hefði gert það að verkum að grípa hefði þurft til allsherjarendurskipulagningar á skólanum og meðal annars við ráðningu stefnanda litið til þekkingar hans á innviðum skólans og menntunar í viðskiptafræði. Stefnanda hafi mátt vera fullkunnugt um þetta er hann tókst á við starfið. Daginn áður en stefnandi hefði formlega hafið störf sem aðstoðarskólameistari, hafi skólameistara borist tölvupóstur, sem í raun hefði slegið tóninn fyrir þá atburðarás sem þá hafi farið í gang. Sú afstaða, sem þar hafi komið fram af hálfu stefnanda, hafi verið lýsandi fyrir samskipti hans og skólameistara allan ágúst- og septembermánuð en stefnandi hafi nánast aldrei rætt við skólameistara að fyrra bragði. Skólameistari hafi ítrekað reynt að koma verkefnum á framfæri við stefnanda og bent honum á að mikið væri að gera í upphafi skólaárs en án árangurs.

          Vegna þessarar framkomu stefnanda, hafi skólameistari fengið Ágústu Hlín Gústafsdóttur mannauðsráðgjafa til að reyna að koma málum í betra horf. Á fundi 2. september 2015 hafi verið farið yfir framangreinda samskiptaerfiðleika og tregðu stefnanda til að verða við tilmælum skólameistara. Þá hafi stefnda verið boðið að fara aftur í fyrra starf en hann hafi engu svarað. Á fundi þann 7. september hafi verið farið yfir skriflega starfslýsingu hans sem honum hefði þó verið gerð grein fyrir í atvinnuviðtölum. Ástandið hefði ekkert batnað en samt sem áður hafi verið ákveðið að hittast aftur á fundi í lok september.

          Þá er næst rakið í rökstuðningsbréfi skólameistara að eftir þetta hafi ástandið versnað. Stefnandi hafi nokkrum sinnum komið inn á skrifstofu skólameistara og gert athugasemdir við fundahöldin með Ágústu Hlín og jafnframt haft í hótunum. Í kjölfarið hafi nánast ekki verið um nein samskipti að ræða milli stefnanda og skólameistara og hafi skólameistari talið að fullreynt væri með sættir. Að hennar mati yrði annað hvort að segja stefnanda upp störfum eða gefa honum kost á að segja upp. Á fundi 28. september 2015, sem skólameistari hafi boðað til með Ágústu Hlín og stefnanda, hafi stefnanda verið sagt upp störfum og þá hefðu stefnandi og Ólafur Hjörtur Sigurjónsson upplýst að leitað yrði ráða hjá lögfræðingi um lögmæti uppsagnarinnar. Daginn eftir hafi stefnandi komið á skrifstofu skólameistara og tilkynnt að hann ætlaði ekki að yfirgefa skrifstofu sína og ætti rétt á því að vera á vinnustaðnum út uppsagnarfrestinn.

          Í greinargerð stefnda er því lýst að stefnandi hafi afhent skólameistara skriflega greinargerð sína 7. október 2015. Í fylgd með stefnanda hafi verið annar maður, sem fyrir liggur að var Ingólfur Árnason, mágur stefnanda. Skólameistara hafi verið uggandi vegna framkomu þeirra og hafi hún því gert lögreglu viðvart. Í kjölfarið hafi vinnuframlags stefnanda ekki verið krafist lengur, hvorki sem aðstoðarskólameistara né við kennslu.

          Stefndi vísar í greinargerð til sex atriða sem rakin eru í áðurnefndum rökstuðningi skólameistara fyrir uppsögn stefnanda. Í fyrsta lagi hafi stefnandi ekki verið reiðubúinn að vera skólameistara til halds og trausts á kennarafundum en við ráðningu hans hafi komið skýrt fram að þetta væri ein af starfsskyldum stefnanda. Í öðru lagi hafi hann ekki talið það vera hluta af skyldum sínum þrátt fyrir beiðni yfirmanns að hafa samband við nemendur, forsvarsmenn þeirra, kennara og starfsfólk, nema að takmörkuðu leyti og talið skólameistara geta séð um það sjálf. Í þriðja lagi sé það eitt aðalstarf aðstoðarskólameistara að reikna út tímafjölda kennslu hjá kennurum en verið var að taka upp nýtt fyrirkomulag á kennsluútreikningi í dagskóla, svokallað vinnumat. Aðstoðarskólameistari hafi, ásamt trúnaðarmanni kennara og áfangastjóra, átt að leiða þessa vinnu en stefnandi hafi aldrei greint skólameistara frá niðurstöðu vinnumats kennara, þrátt fyrir að eftir því hafi verið óskað. Í fjórða lagi sé það hlutverk aðstoðarskólameistara að sjá um útreikning kennslutímafjölda í kvöld- og helgarnámi og hafi stefnandi birt niðurstöður þeirra en neitað að gefa skólameistara forsendur fyrir útreikningi á útreiknuðum tímafjölda. Í fimmta lagi hafi svo verið komið í lok september 2015 að stefnandi hafi ekki lengur getað tjáð sig við skólameistara og ekki unnið þau verkefni sem honum hafi verið falin. Hún hafi því ályktað sem svo að útséð væri um að þau gætu unnið saman. Skólastarfi hafi verið stefnt í voða og því hafi það verið skylda skólameistara að segja stefnanda upp störfum. Í sjötta og síðasta lagi hafi framkoma stefnanda í garð skólameistara hinn 7. október 2015 eftir að honum hafði verið sagt upp störfum og viðbrögð hans við því að yfirgefa húsnæði skólans síðan verið enn ein sönnun þess að skólameistara hafi verið nauðsynlegt að grípa til þeirra ráðstafana sem hún hafi gert.

          Samkvæmt gögnum málsins fékk stefnandi greidd laun í uppsagnarfresti í einn mánuð, sbr. launaseðil, dagsettan 1. nóvember 2015, og var svo atvinnulaus um hríð eftir að honum var sagt upp áðurnefndum störfum við Fjölbrautarskóla Vesturlands. Hann starfaði síðan um tíma sem rafvirki hjá Skaganum hf. og hóf haustið 2016 störf í afleysingum við kennslu í rafiðngreinum við Fjölbrautarskólann í Breiðholti. Stefnandi var síðan ráðinn ótímabundið við skólann 1. febrúar 2017.

 

III

          Stefnandi byggir kröfugerð sína á því að stefnda hafi ekki verið heimilt að rifta tímabundnum ráðningarsambandi aðila um starf aðstoðarskólameistara einhliða. Þá byggir hann á því að samhliða hinum tímabundna samningi um starf aðstoðarskólameistara hafi verið í gildi ótímabundinn ráðningarsamningur um starf hans sem kennara við Fjölbrautarskóla Vesturlands og að réttur hans hafi staðið til þess að taka á ný við starfi kennara samkvæmt þeim ráðningarsamningi þegar hinn tímabundni samningur um starf hans sem aðstoðarskólameistara rynni út. Stefnandi byggir einnig á því að stefndi hafi jafnframt rift þeim ráðningarsamningi með ólögmætum hætti með afhendingu brottvikningarbréfs þann 8. október 2015.

          Stefnandi heldur því fram að samningur aðila um starf aðstoðarskólameistara sé einfaldur ráðningarsamningur. Samkvæmt honum sé stefnanda ætlað að inna af hendi skuldbindingar sínar með því að sinna starfsskyldum sem aðstoðarskólameistari. Samningurinn hafi enn fremur kveðið á um skuldbindingar af hálfu stefnda sem m.a. hafi falist í því að stefndi skyldi greiða stefnanda umsamin laun fyrir þá vinnu.

          Að mati stefnanda leiki enginn vafi á því að stefnda hafi verið heimilt að gera fyrrnefndan ráðningarsamning við stefnanda um starf aðstoðarskólameistara og staðgengils með því efni sem fram komi í samningnum. Í því samhengi megi meðal annars vísa til 2. mgr. 8. gr. laga um framhaldsskóla þar sem segi meðal annars: „Skólameistari ræður staðgengil sinn til allt að fimm ára í senn. Kennari, sem ráðinn er staðfengill skólameistara, skal eftir atvikum fá leyfi frá kennarastarfi sínu þann tíma sem hann gegnir staðgöngu.“

          Í málinu sé óumdeilt að stefndi hafi með ólögmætum hætti lýst yfir einhliða riftun á ráðningarsambandi aðila án nokkurra skýringa og á þann hátt leyst stefnanda undan samningsskuldbindingum sínum. Sú ólögmæta riftun leysi stefnda þó ekki undan því að efna samningsskuldbindingar sínar sem hafi gjaldfallið í heild við riftun. Sömu sjónarmið eigi við um einhliða riftun stefnda á ráðningarsamningi stefnanda sem kennara að breyttum breytanda.

          Stefnandi reisir aðalkröfur sínar á meginreglu samningaréttar um að samninga skuli halda. Skólameistari hafi fyrir hönd Fjölbrautarskóla Vesturlands haft allar heimildir að lögum til að gera umræddan samning við stefnanda en hafi síðan einhliða og með ólögmætum hætti rift ráðningarsamningum hans við skólann. Stefnandi byggir á því að hann eigi rétt til efndabóta, sem geri hann eins settan fjárhagslega og hefði samningurinn verið réttilega efndur samkvæmt efni sínu, úr hendi stefnda, enda beri stefndi fébótaábyrgð á Fjölbrautarskóla Vesturlands, sem sé opinber framhaldsskóli og ríkisstofnun sem heyri undir mennta- og menningarmálaráðherra, sbr. 4. gr. laga nr. 92/2008, um framhaldsskóla. Þá telur stefnandi sig einnig eiga rétt til bóta vegna riftunar á ráðningarsamningi hans sem kennara við skólann sem og miskabóta.

          Stefnandi byggir á því að skólameistari Fjölbrautarskóla Vesturlands hafi með hliðsjón af ákvæðum 42.–46. gr. laga nr. 70/1996, sem og 6. gr. laga nr. 92/2008, um framhaldsskóla, verið bær að lögum til þess að gera ráðningarsamkomulag við stefnanda um starf aðstoðarskólameistara á þann hátt sem samningurinn kveði á um, enda fari skólameistari á þessum grundvelli með heimildir til að stofna til ráðningarsamninga við starfsmenn skólans. Þá hafi skólameistara verið heimilt að ráða stefnanda sem aðstoðarskólameistara, staðgengil skólameistara, með tímabundnum ráðningarsamningi til fimm ára, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 92/2008 en í lagaákvæðinu sé að finna sérreglu sem gangi framar almennu reglunni í 41. gr. laganna. Stefnandi bendir á að ráðningarsamningur hans sem kennara hafi verið lögmætur og stefndi hafi verið bundinn af honum.

          Stefnandi byggir á þeirri grunnreglu íslensks réttar að gerða samninga beri að halda og að hvorki hafi verið til staðar efnis- né lagaskilyrði fyrir riftun skólameistara á ráðningarsamningi hans við Fjölbrautarskóla Vesturlands um stöðu aðstoðarskólameistara. Af rökstuðningi skólameistara fyrir ráðningarslitum megi ráða að riftunin hafi byggst á heimild í hinum tímabundna ráðningarsamningi til uppsagnar á reynslutíma. Stefnandi telur ljóst af efni ráðningarsamningsins að ekki hafi verið um neinn reynslutíma að ræða og því hafi ákvörðun skólameistara um riftun ekki byggt á lögmætri uppsagnarheimild.

          Stefnandi telur að skólameistari hafi skuldbundið stefnda með samningnum til þess að greiða stefnanda laun sem aðstoðarskólameistara í fimm ár, gegn vinnuframlagi stefnanda. Samningurinn hafi ekki að geyma neina heimild til uppsagnar á gildistíma hans. Tímabundnir samningar séu almennt óuppsegjanlegir, nema sérstaklega sé um annað samið en í þessu tilviki hafi ekki verið samið um uppsagnarheimild. Þá kveði 2. málsliður 1. mgr. 43. gr. laga nr. 70/1996 á um það að ráðning starfsmanns sem ráðinn sé tímabundið falli úr gildi við lok samningstíma. Að mati stefnanda eigi hann rétt til efndabóta, sem samsvari umsömdum launum og öðrum launatengdum greiðslum og réttindum sem hann hefði notið út gildistíma samningsins, þ.e. framlags atvinnurekanda í lífeyris- og séreignarsjóð, orlofsuppbót og persónuuppbót.

          Stefnandi bendir á að um réttarsamband stefnanda og stefnda gildi lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og lög nr. 92/2008 um framhaldsskóla. Í ráðningarsamningi stefnanda sé sérstaklega vísað til þess að um sé að ræða samning samkvæmt 42. gr. laga nr. 70/1996. Skólameistari hafi alfarið byggt riftun á ráðningarsamningi stefnanda á ákvæðum ráðningarsamningsins sjálfs. Þrátt fyrir það er í rökstuðningi hennar vísað til sjónarmiða sem falli undir 21. gr. laga nr. 70/1996. Samkvæmt 44. gr. laganna sé skylt að veita starfsmanni áminningu eigi uppsögn rót sína að rekja til atriða sem tilgreind séu í 21. gr. þeirra. Slíkt hafi ekki verið gert í tilviki stefnanda, enda verði ekki séð að nokkurt tilefni hafi verið fyrir slíkri áminningu. Stefnanda hafi því aldrei verið veitt áminning í starfi hans sem aðstoðarskólameistari Fjölbrautarskóla Vesturlands. Þar af leiðandi telur stefnandi ljóst að skilyrðum 44. gr. laga nr. 70/1996 sé ekki fullnægt og því hafi verið um ólögmæta riftun á ráðningarsamningi hans að ræða.

          Í 45. gr. laga nr. 70/1996 sé að finna heimild til þess að víkja starfsmanni úr starfi fyrirvaralaust. Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. skuli víkja starfsmanni fyrirvaralaust úr starfi hafi hann verið sviptur með fullnaðardómi rétti til að gegna því starfi. Þá sé kveðið á um það í 2. mgr. ákvæðisins að starfsmanni skuli víkja úr starfi fyrirvaralaust hafi hann játað að hafa gerst sekur um refsiverða háttsemi sem ætla megi að hefði í för með sér sviptingu réttinda samkvæmt 68. gr. almennra hegningarlaga. Stefnandi telur ljóst að skilyrði 45. gr. laga nr. 70/1996 séu ekki uppfyllt í tilviki hans. Stefnandi hafi hvorki orðið uppvís að refsiverðri háttsemi líkt og áskilnaður sé gerður um í 45. gr. né verið sviptur með fullnaðardómi rétti til að gegna starfi sínu. Riftun stefnda á ráðningarsamningi stefnanda hafi því verið ólögmæt.

          Líkt og að framan greini, hafi skólameistari samkvæmt rökstuðningi byggt riftun á ráðningarsamningi stefnanda og Fjölbrautarskóla Vesturlands á meintri heimild í ráðningarsamningi til uppsagnar á reynslutíma. Hvergi í ráðningarsamningi stefnanda við skólann sé kveðið á um reynslutíma. Þá sé ekki gert ráð fyrir því í lögum nr. 92/2008 um framhaldsskóla að staðgengill skólameistara starfi á reynslutíma fyrst um sinn, enda sé gert ráð fyrir því að sá sem veljist til starfans búi alla jafna yfir góðri reynslu af störfum við framhaldsskóla, líkt og stefnandi hafi haft, og því sé reynslutími óþarfur. Jafnframt telur stefnandi ljóst af 41. gr. laga nr. 90/1996 að reynslutími ríkisstarfsmanna eigi aðeins við þegar um ótímabundinn ráðningarsamning sé að ræða. Ákvæði 41. gr. eigi því ekki við í tilviki stefnanda, enda sé ráðningarsamningur hans sem aðstoðarskólameistara við skólann tímabundinn til fimm ára.

          Stefnandi bendir á rétt sé að líta til þess að skólameistari hafi í tvígang ritað sérstakan rökstuðning fyrir ráðningu stefnanda sem aðstoðarskólameistara og sent öðrum umsækjendum áður en til riftunar hafi komið. Þar sé stefnanda hælt í hástert og meðal annars vísað í farsælan 17 ára kennaraferil við Fjölbrautarskóla Vesturlands. Ólíklegt verði að telja að skólameistari hafi viljað ráðast í svo viðamikinn rökstuðning hafi ætlun hennar verið sú að ráða stefnanda tímabundið til reynslu í starfið, líkt og vísað hafi verið til sem eftiráskýringar vegna riftunarinnar. Þá vísar stefnandi til þess að óhætt sé að fullyrða að sú aðferð sem notuð hafi verið við ráðningu aðstoðarskólameistara í tilviki stefnanda, þar sem greiddar hafi verið næstum ein milljón króna til Vaxtar ráðgjafar, vegna aðstoðar Ágústu H. Gústafsdóttur, ráðgjafa við ráðninguna, beri ekki með sér að ætlun skólans hafi verið að ráða í starfið með skilyrðum um reynslutíma eða að tjalda til einnar nætur. Stefnandi telur þannig ljóst að það verði ekki ráðið af tilurð samningsins, efni hans eða öðru, að ætlun aðila hafi verið að stefnandi yrði ráðinn í starfið með skilyrðum um reynslutíma. Því verði riftunin ekki byggð á því að stefnandi hafi verið ráðinn til reynslu og heimilt hafi verið að segja honum upp á einhverjum óskilgreindum reynslutíma.

          Stefnandi byggir á því að þegar stefndi hafi gefið hina ólögmætu yfirlýsingu um riftun á ráðningarsambandi um starf aðstoðarskólameistara þann 28. september 2015 hafi krafa stefnanda um efndir á ráðningarsamningi aðila gjaldfallið í heild í samræmi við dómvenju um ólögmæta riftun á tímabundnum samningi. Krafan beri því dráttarvexti eins og nánar komi fram í aðalkröfu, þ.e. einum mánuði frá þeim degi. Sökum þess að krafa stefnanda hafi gjaldfallið í heild við riftun á ráðningarsamningum um störf hans sem aðstoðarskólameistari og kennari, komi ekki til álita að tekjur, sem stefnandi vinni sér inn frá og með þeim degi sem samningnum hafi verið rift, komi til frádráttar fjárkröfu hans vegna ólögmætrar riftunar.

          Stefnandi krefst jafnframt skaðabóta úr hendi stefnda að fjárhæð 6.000.000 króna, auk dráttarvaxta, vegna ólögmætrar uppsagnar á stöðu hans sem kennara við Fjölbrautarskóla Vesturlands. Stefnandi hafi starfað hjá Fjölbrautarskóla Vesturlands sem kennari frá árinu 1998 átölulaust. Sá ráðningarsamningur hafi ekki verið felldur úr gildi þegar stefnandi var ráðinn aðstoðarskólameistari skólans í maí 2015, heldur hafi ætlunin verið sú að hann yrði „frystur“ tímabundið, allt fram til 31. júlí 2020, er ráðningarsamningur um aðstoðarskólameistarastöðu tæki enda í samræmi við 2. mgr. 8. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla. Þar sé kveðið á um að kennari, sem ráðinn sé staðgengill skólameistara, skuli eftir atvikum fá leyfi frá kennarastarfi sínu þann tíma sem hann gegni staðgöngu. Ekki hafi þó verið gengið frá neinum formlegum samningum um að hann væri í tímabundnu leyfi sem kennari heldur gert ráð fyrir því að stefnandi gæti snúið aftur til starfa sem kennari við skólann haustið 2020, yrði ekki samið um framlengingu á starfi hans sem aðstoðarskólameistara.

          Stefnandi lítur svo á að með afhendingu brottvikningarbréfs þann 8. október 2015, hafi þeim ráðningarsamningi einnig verið rift með ólögmætum hætti og hann eigi rétt til skaðabóta sökum þess. Í erindinu sé sérstaklega tekið fram að vinnuframlags stefnanda væri ekki lengur óskað frá og með þeim degi „hvorki sem aðstoðarskólameistara né við kennslu í skólanum“.

          Kröfu sína um bætur vegna missis kennarastarfs byggir stefnandi á því að hann hafi átt rétt á því að hverfa aftur til kennarastarfsins að loknu fimm ára aðstoðarskólameistaratímabili og starfa sem kennari við Fjölbrautarskóla Vesturlands samkvæmt lögum um framhaldsskóla. Með framangreindu erindi þann 8. október 2015 hafi hann hins vegar verið sviptur þessum rétti sínum. Kröfufjárhæð bóta vegna þessa missis byggir stefnandi á dómvenju og vísi meðal annars til dóma Hæstaréttar í málum nr. 275/2003 og 172/2014 máli sínu til stuðnings en þar hafi einstaklingar fengið dæmdar bætur vegna ólögmætrar uppsagnar á ótímabundnum ráðningarsamningi. Þegar stefnandi hafi látið af störfum var hann 50 ára gamall og hafi starfað átölulaust við skólann samfellt í 17 ár. Stefnandi telur ljóst að hann hafi að öllu óbreyttu mátt búast við því að halda stöðu sinni sem kennari við skólann allt þar til hann næði hámarksaldri starfsmanna ríkisins, sbr. 25. gr. laga nr. 70/1996. Þá telur stefnandi einnig ljóst að með hliðsjón af aldri hans, menntun og starfsreynslu, og í ljósi þess á hve litlu atvinnusvæði hann búi, að erfitt yrði fyrir hann að fá sambærilegt starf og hann hafi gegnt hjá skólanum í nálægð við heimili sitt. Þá beri að líta til þess að uppsögnin og þær ávirðingar sem á stefnanda hafi verið bornar séu alla jafna til þess fallnar að gera honum erfiðara fyrir við leit að nýju starfi á hans starfsvettvangi.

          Stefnandi krefst jafnframt miskabóta úr hendi stefnda að fjárhæð 5.000.000 króna. Miskabótakröfu sinni til stuðnings vísar stefnandi til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Fyrir liggi að framganga skólameistara hafi verið afar niðurlægjandi fyrir hann en í því samhengi megi nefna að riftun ráðningarsamningsins hafi orðið tilefni opinberrar fjölmiðlaumfjöllunar, sem hafi skaðað stefnanda. Þá hafi honum einungis verið gefnar örfáar klukkustundir til að koma sér út af skrifstofu sinni fyrir fullt og fast eftir 17 ára farsælan feril í starfi. Að mati stefnanda sé ljóst að framgangur skólameistara hafi verið verulega niðurlægjandi fyrir stefnanda. Brottvikning hans hafi til að mynda fengið mikla umræðu í nærsamfélaginu á Akranesi og eðlilega skaðað orðstír stefnanda. Öll framganga skólameistara þannig haft mikil áhrif á sálarlíf hans og hann þurft að leita sér aðstoðar sökum þessa. Stefnandi telur því að framkoma og hegðun skólameistara hafi falið í sér ólögmæta meingerð gagnvart honum og valdið honum miska.

          Krafa stefnanda í aðalkröfu samsvari samningsbundnum launagreiðslum sem aðstoðarskólameistari frá 1. nóvember 2015 - 31. júlí 2020 og taki einnig til bóta sem samsvari orlofsuppbót, desemberuppbót, 11,5% framlagi atvinnurekanda í lífeyrissjóð A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og 2% viðbótarframlagi atvinnurekanda í séreignarsjóð, sem og bóta vegna ólögmætrar uppsagnar á kennarastarfi, auk miskabóta. Krafan taki mið af óbreyttum kjarasamningum á tímabilinu sem verði að telja stefnda til hagsbóta. Krafan sundurliðist þannig án dráttarvaxta:

 

 

Fjárhæð á mánuði

Fjárhæð á ári

Tímabil

Mánuðir

Alls

Bætur vegna vangoldinna launa

798.095 kr.

1. nóv. 2015 - 31. júlí 2020

57

45.491.415 kr.

Bætur er samsvara orlofsuppbót

3.708,33 kr.

44.500 kr.

1. nóv. 2015 - 31. júlí 2020

57

211.375 kr.

Bætur er samsvara persónuuppbót

6.500 kr.

78.000 kr.

1. jan. 2015 - 31. júlí 2020

55

357.500 kr.

Bætur er samsvara lífeyrissj.framlagi atvinnurekanda (11,5%)

91.781 kr.

1. nóv. 2015 - 31. júlí 2020

57

5.231.517 kr.

Bætur er samsvara viðbótarframlagi atvinnurekanda í séreignasjóð (2%)

15.962 kr.

1. nóv. 2015 - 31. júlí 2020

57

909.834 kr.

Bætur vegna ólögm. upps. á kennarastarfi

 

 

 

 

6.000.000 kr.

Miskabætur

 

 

 

 

5.000.000 kr.

Samtals

 

 

 

 

63.201.641 kr.

 

          Stefnandi byggir kröfugerð sína í aðalkröfu á umsömdum mánaðarlaunum, en í umræddum ráðningarsamningi hafi verið samið um að stefnandi fengi laun fyrir starf sitt sem aðstoðarskólameistari samkvæmt launaflokki 16-4. Krafan byggir á þeim mánaðarlaunum sem stefnanda hefði borið að fá hefði hann haldið áfram störfum eins og þau hafi staðið samkvæmt kjarasamningi og því sé í kröfugerð ekki gert ráð fyrir hækkunum á mánaðarlaunum, stefnda til hagsbóta. Eftir að stefnanda hafi verið sagt upp störfum hafi hann fengið greidd ein mánaðarlaun sem aðstoðarskólameistari, þ.e. þann 1. nóvember 2015 vegna október 2015. Krafa stefnanda taki mið af því og miðist bótakrafan því við mánaðarlaun á tímabilinu 1. nóvember 2015 – 31. júlí 2020.

          Krafa stefnanda vegna missis launa miðist við mánaðarlaun að fjárhæð 798.095 krónur. Líkt og launaseðlar stefnanda fyrir ágúst, september og október 2015 beri með sér þá hafi stefnandi fengið greidd mánaðarlaun sem aðstoðarskólameistari að fjárhæð 723.992 krónur fyrir þá mánuði. Þann 1. desember 2015 hafi launin hins vegar verið leiðrétt afturvirkt í samræmi við kjarasamninga en líkt og launaseðill dagsettur 1. desember 2015 beri með sér, þá hafi launin þá mánuði átt að vera 798.095 krónur. Kröfugerð stefnanda taki þar af leiðandi mið af leiðréttingunni.

          Stefnandi setur einnig fram kröfu um bætur sem samsvari missi orlofsuppbótar. Samkvæmt gildandi kjarasamningi Kennarasambands Íslands og fjármálaráðherra f. h. ríkissjóðs eigi stefnandi rétt á að fá greidda orlofsuppbót árlega. Samkvæmt honum skuli orlofsuppbót fyrir árið 2016 vera hin sama og almenn uppbót ríkisstarfsmanna árið 2016, þ.e. 44.500 krónur. Stefnandi hafi fengið greidda orlofsuppbót 1. júní 2016 fyrir sex mánaða tímabili vegna tímabilsins 1. maí 2015 – 31. október 2015. Stefnandi geri því kröfu vegna missis orlofsuppbótar sem samsvari 57 mánuðum, þ.e. frá 1. nóvember 2015 fram til 31. júlí 2020, er ráðningarsamningi hans við Fjölbrautaskóla Vesturlands hafi átt að ljúka. Kröfufjárhæðin taki mið af fjárhæð orlofsuppbótar fyrir ríkisstarfsmenn árið 2016, þ.e. 44.500 krónum, stefnda til hagsbóta, enda liggi fyrir að orlofsuppbót ríkisstarfsmanna hafi hækkað með ári hverju undanfarin ár.

          Stefnandi setur einnig fram kröfu um bætur sem samsvari missi persónuuppbótar eða svokallaðrar desemberuppbótar. Samkvæmt framangreindum kjarasamningi eigi stefnandi rétt á að fá greidda persónuuppbót í desember á hverju ári. Samkvæmt kjarasamningnum hafi fjárhæðin fyrir árið 2015 verið hin sama og almenn uppbót ríkisstarfsmanna árið 2015, þ.e. 78.000 krónur. Stefnandi hafi fengið greidda fulla persónuuppbót að fjárhæð 78.000 krónur vegna ársins 2015. Stefnandi gerir þar af leiðandi kröfu vegna missis persónuuppbótar sem samsvari 55 mánuðum, þ.e. fyrir tímabilið 1. janúar 2016 til 31. júlí 2020, er ráðningarsamningi hans við Fjölbrautaskóla Vesturlands hefði átt að ljúka. Kröfufjárhæðin taki mið af fjárhæð persónuuppbótar fyrir ríkisstarfsmenn árið 2016, þ.e. 78.000 krónum stefnda til hagsbóta, enda liggi fyrir að persónuuppbót ríkisstarfsmanna hafi hækkað með ári hverju síðastliðin ár.

          Þá geri stefnandi kröfu um bætur sem samsvari 11,5% framlagi atvinnurekanda í lífeyrissjóð A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins af mánaðarlaunum að fjárhæð 798.095 krónur fyrir tímabilið 1. nóvember 2015 til 31. júlí 2020. Kröfuna byggir stefnandi á 13. gr. laga nr. 1/1997 um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Jafnframt gerir stefnandi kröfu um bætur sem samsvari 2% viðbótarframlagi atvinnurekanda í séreignarsjóð af mánaðarlaunum að fjárhæð 798.095 krónur fyrir tímabilið 1. nóvember 2015 til 31. júlí 2020. Kröfu sína byggir stefnandi á grein 15.1 í gildandi kjarasamningi en í ákvæðinu sé kveðið á um framlag atvinnurekanda í séreignarsjóð sem skuli vera 2% á móti 2% framlagi starfsmanns. Einnig gerir stefnandi kröfu um miskabætur að fjárhæð 5.000.000 króna og bætur vegna ólögmætrar uppsagnar á kennarastarfi að fjárhæð 6.000.000 króna.

          Vaxtakrafa stefnanda byggir á 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Stefnandi byggir á því að hið bótaskylda atvik hafi átt sér stað þegar stefndi hafi fyrst vanefnt ráðningarsamning aðila þann 1. nóvember 2015 og því beri efndabótakrafa hans, sem og bætur vegna ólögmætrar uppsagnar á kennarastarfi, vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna frá þeim tíma. Þá byggir dráttarvaxtakrafa stefnanda á 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga. Stefnandi byggir að lokum á því að bótakrafa hans í heild beri dráttarvexti frá 14. janúar 2016 til greiðsludags en þann 14. janúar 2016 hafi mánuður verið liðinn frá því að stefnandi hafi sannanlega lagt fram kröfu sína um bætur.

          Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnanda gerir stefnandi kröfu um efndir in natura til vara, þ.e. að stefnda verði með dómi gert að efna sínar skuldbindingar samkvæmt ráðningarsamningum aðila og greiða stefnanda gjaldfallin laun, sem og laun sem aðstoðarskólastjóra út ráðningartímann. Með öðrum orðum að stefnda verði gert að greiða stefnanda þá ógreiddu gjalddaga ráðningarsamningsins sem þegar hafi fallið í gjalddaga samkvæmt samningnum og að stefnda verði gert skylt með dómi að greiða stefnanda laun aðstoðarskólameistara mánaðarlega samkvæmt ráðningarsamningnum fyrir tímabilið 1. október 2016 til 31. júlí 2020. Einnig gerir stefnandi kröfu um greiðslu miskabóta og bóta vegna ólögmætrar riftunar á kennarastarfi hans við Fjölbrautarskóla Vesturlands.

          Um varakröfu sína byggir stefnandi á því að stefnda hafi verið óheimilt að rifta ráðningarsamningi aðila og því sé stefndi skuldbundinn til þess að efna sínar skyldur samkvæmt samningnum. Stefnandi byggir enn fremur á því, líkt og í aðalkröfu, að með riftun samningsins hafi stefndi í reynd leyst stefnanda undan samningsskuldbindingum sínum samkvæmt ráðningarsamningnum, án þess þó að geta sjálfur með einhliða yfirlýsingu losnað undan þeim skuldbindingum sem samningurinn leggi stefnda á herðar.

          Stefnandi áréttar að eftir að ráðningarsamningi hans sem aðstoðarskólameistara hafi verið rift, hafi hann fengið greiddan einn mánuð í uppsagnarfrest í því starfi þann 1. nóvember 2015 vegna októbermánaðar 2015. Sú greiðsla hafi síðan verið leiðrétt þann 1. desember 2015 í samræmi við kjarasamninga. Krafist sé ógreiddra gjalddaga samkvæmt ráðningarsamningnum sem þegar hafi fallið í gjalddaga, þ.e. frá 1. desember 2015 til 1. nóvember 2017. Jafnframt krefst stefnandi viðurkenningar á skyldu stefnda til að greiða stefnanda laun í samræmi við ráðningarsamning hans við áðurnefndan skóla, dagsettan 15. júní 2015, mánaðarlega frá 1. nóvember 2016 til 31. júlí 2020, sem og miskabóta og bóta vegna ólögmætrar uppsagnar á kennarastarfi. Kröfugerð stefnanda í varakröfu taki því alls til tímabilsins frá 1. nóvember 2015 til 31. júlí 2020. Fjárkrafan í endanlegri varakröfu nemur samtals 30.154.280 krónum. 

          Krafa stefnanda um dráttarvexti byggist á 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Stefnandi byggir á því að mánaðarlaun samkvæmt ráðningarsamningi vegna hvers mánaðar fyrir sig gjaldfalli þann 1. næsta mánaðar og miðist dráttarvaxtakrafa hans við það. Miskabótakrafa stefnanda og krafa um bætur vegna ólögmætrar riftunar á kennarastarfi hans við skólann beri hins vegar dráttarvexti frá 14. janúar 2016, mánuði eftir að stefnandi hafi sannanlega lagt fram kröfu sína um bætur, sbr. 9. gr. laganna. Að öðru leyti vísast til málsástæðna fyrir aðalkröfu, meðal annars um ólögmæti riftunar, miskabætur og bætur vegna ólögmætrar uppsagnar á kennarastarfi.

          Kröfum sínum til stuðnings vísar stefnandi til almennra reglna skaðabótaréttar sem og til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga, reglna um efndabætur og almennra reglna vinnuréttar. Einnig er vísað til meginreglna samningaréttar, m.a. reglunnar um að tímabundnir samningar séu almennt óuppsegjanlegir, nema sérstaklega sé samið um annað og um skuldbindingargildi loforða og skyldu til að efna samninga en reglur þessar fá m.a. stoð í lögum nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Stefnandi vísar jafnframt til laga nr. 92/2008, um framhaldsskóla, m.a. 4. gr., 6. gr. og 8. gr. laganna. Þá vísar stefnandi til laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og þá helst til 21. gr., 25. gr., 41. gr., 42. gr. og IX. kafla laganna. Stefnandi vísar einnig til gildandi kjarasamnings Kennarasambands Íslands og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs frá 18. mars 2005 og síðari samninga um breytingar og framlengingu kjarasamningsins, ákvæða laga nr. 30/1987, um orlof, laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, og laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Einnig vísar stefnandi til skaðabótalaga nr. 50/1993, m.a. 26. gr. laganna um miskabætur. Kröfur um vexti og dráttarvexti styður stefnandi við ákvæði laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu Krafa um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og um varnarþing er vísað til 3. mgr. 33. gr. sömu laga.

 

IV

          Stefndi mótmælir málatilbúnaði stefnanda og áréttar að stefnanda hafi verið sagt upp störfum sem aðstoðarskólameistari samkvæmt heimild í 43. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, eins og skýrt komi fram í uppsagnarbréfi, dagsettu 28. september 2015. Því sé ekki um það að ræða að ráðningarsamningnum hafi verið rift. Þá mótmælir stefndi því að óumdeilt sé að um ólögmæta riftun sé að ræða, líkt og stefnandi haldi fram. Ákvörðun um starfslok stefnanda með uppsögn hafi verið lögmæt og í samræmi við efni ráðningarsamnings um heimild til uppsagnar. Því hafi engin bótaskylda stofnast.

          Stefndi byggir á því að enginn ágreiningur sé um að heimilt hafi verið að gera ráðningarsamning við stefnanda um starf aðstoðarskólameistara. Í ráðningarsamningi þeim sem gerður hafi verið um starfið komi fram að uppsagnarfrestur sé þrír mánuðir. Einnig hafi sagt að gagnkvæmur uppsagnarfrestur skyldi vera einn mánuður á fyrstu þremur mánuðum í starfi. Stefndi telur að engin rök standi til annars en að reynslutími hafi átt að gilda hvort heldur sé vegna ótímabundins eða tímabundins starfs. Þá skuli tekið fram að í kjarasamningi Kennarasambands Íslands og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs sé fjallað um uppsagnarfrest eftir 10 ára samfellt starf hjá stofnun, en þau ákvæði eigi aðeins við um starfsmenn sem náð hafi 55 ára aldri. Stefnandi hafi því ekki átt rétt á lengri uppsagnarfresti en kveðið hafi verið á um í ráðningarsamningi.

          Stefndi telur að ótvíræð ákvæði ráðningarsamnings um uppsagnarfrest hafi gilt og sé litið til meginreglu samningaréttar um að samninga skuli halda, eins og stefnandi byggir meðal annars á, verði ekki horft framhjá umsömdum uppsagnarfresti. Stefndi bendir á að í stefnu sé byggt á því að tímabundnir ráðningarsamningar séu almennt ekki uppsegjanlegir, nema um annað sé samið. Þetta sé rangt en hvað sem því líði séu bæði í lögum og ráðningarsamningum, eins og í tilviki stefnanda, ákvæði um uppsögn tímabundins samnings. Ráðningarsamningurinn hafi verið undirritaður bæði af skólameistara og stefnanda og hafi innihaldið ákvæði um gagnkvæma uppsögn. Bæði sé ákvæði um eins mánaðar uppsagnarfrest fyrstu þrjá mánuðina og ákvæði um gagnkvæman uppsagnarfrest hjá framhaldsskólakennurum, leiðbeinendum og öðrum. Að mati stefnda hafi ákvæðin átt við um stefnanda í ráðningarsamningi hans. Það sé í samræmi við ákvæði 41. gr. laga nr. 70/1996 að mælt sé fyrir um uppsagnarfrest, hvort sem ráðning sé ótímabundin eða tímabundin, þannig að heimild sé til uppsagnar áður en tímabundin ráðning falli sjálfkrafa úr gildi.

          Stefndi byggir á því að ráðning stefnanda sem aðstoðarskólameistara hafi ekki tekið gildi fyrr en 1. ágúst 2015. Uppsögnin hafi því verið innan þriggja mánaða frá þeim tíma en stefnandi hafi áritað uppsagnarbréf 28. september sama ár um móttöku þann sama dag. Þekkt sé að fyrstu þrír mánuðir í starfi, þegar uppsagnarfrestur sé einn mánuður, teljist reynslutími í skilningi 1. mgr. 41. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Stefndi telur einsýnt að þessi tími hafi leitt í ljós að skólameistari hafi talið ráðningu stefnanda fjarri því að vera í samræmi við þær væntingar sem til hans hafi verið gerðar sem aðstoðarskólameistara. Þá breyti engu þótt reynt hafi verið eftir megni að vanda til ráðningar og að stefnandi yrði fyrir valinu. Það gildi einatt við ráðningu fólks að væntingar standi til þess að viðkomandi gegni starfinu áfram. Þrátt fyrir það sé reynslutími í öllum tilvikum réttmætur. Stefnanda hafi mátt vera það fyllilega ljóst að sú tilhögun að hafa uppsagnarfrest einn mánuð meðan fyrstu þrír mánuðir starfs vari, sé einmitt sá reynslutími sem lög geri ráð fyrir. Ekkert sé því til fyrirstöðu að mælt sé fyrir um uppsagnarfrest í tímabundnum samningum og hafi uppsögnin verið lögmæt og stefnanda greidd laun henni til samræmis. Stefndi byggir einnig á því að mjög stutt hafi verið liðið af ráðningunni og verði að miða við það mat skólameistara að stefnandi hafi vanefnt skyldur sínar. Því hafi verið heimilt að binda endi á ráðninguna eftir almennum reglum.

          Stefndi byggir í þessu efni á dómum Hæstaréttar Íslands þann 16. desember 1999 í máli nr. 296/1999, þann 8. nóvember 2001 í máli nr. 131/2001 og þann 10. mars 2005 í máli nr. 378/2004. Í dómunum sé sambærilegt ákvæði um eins mánaðar uppsagnarfrest á fyrstu þremur mánuðum starfs einmitt túlkað í samræmi við 41. gr. laga nr. 70/1996 sem reynslutími. Sama sé í hinum tveimur síðarnefndu. Í dóminum frá 2005 sé einmitt að finna ástæður þessarar tilhögunar um reynslutíma og að þá gildi ekki 21. gr. laganna, sbr. einnig 1. mgr. 44. gr., þótt ástæður liggi að baki uppsögn sem ella ættu undir 21. gr. Að mati skólameistara hefði komið í ljós á reynslutíma að stefnandi hafi ekki uppfyllt væntingar við rækslu starfans.

          Þá byggir stefndi á því að ákvæði um gagnkvæman uppsagnarfrest, þ. á m. um reynslutíma, hafi einnig átt að gilda um þann tímabundna samning sem gerður hafi verið við stefnanda. Auk þess verði að miða við að ákvæði ráðningarsamningsins hafi verið gild og að heimilt hafi verið að semja um tímabundna ráðningu með uppsagnarfresti. Þess þá heldur hafi uppsagnarfrestur á reynslutíma gilt og verið heimill. Að mati stefnda verði 2. mgr. 8. gr. framhaldsskólalaga ekki skýrð svo að hún rými út eða gangi framar ákvæðum laga nr. 70/1996 og ákvæðum í ráðningarsamningi um uppsagnarfrest, enda hafi verið vísað til þeirra laga í honum.

          Stefndi mótmælir þeirri málsástæðu stefnanda að ráðningarsamningurinn hafi ekki haft að geyma heimild til uppsagnar á gildistíma hans og að tímabundnir samningar séu almennt óuppsegjanlegir nema sérstaklega sé um annað samið. Stefndi telur þessar málsástæður ekki fá staðist, enda hafi verið samið um uppsagnarfrest svo sem komi fram í ráðningarsamningnum. Þar sem heimilt hafi verið að binda enda á ráðninguna með uppsögn eftir skýrum ákvæðum ráðningarsamnings, beri að hafna kröfum stefnanda um bætur vegna brottvikningar úr starfi.

          Stefnandi hafi einnig byggt kröfur sínar á ráðningarsamningi um fyrra starf hans sem kennari. Stefndi mótmælir því að unnt sé að dæma eða fjalla um bótarétt í þessu tilliti samhliða og í tvígang. Ekki liggi fyrir að stefnandi hafi með formlegum hætti fengið leyfi frá fyrra starfi vegna starfs aðstoðarskólameistara en 2. mgr. 8. gr. framhaldsskólalaga virðist þó gera ráð fyrir því.

          Þá mótmælir stefndi einnig með vísan til framangreinds málsástæðu stefnanda um að honum hafi verið vikið með ólögmætum hætti úr starfi kennara við skólann og bótakröfum sem byggðar séu á þeim grundvelli. Stefndi byggir á því að uppsögnin hafi ekki tekið til annars en starfs aðstoðarskólameistara og þeirra áfanga sem hann hafi kennt samhliða því starfi. sbr. 2. mgr. 8. gr. framhaldsskólalaga, þótt lögin geri ráð fyrir því. Fyrir liggi að stefnanda hafi verið boðið að ganga aftur til sinna fyrri starfa sem kennari en í engu skeytt um það boð. Honum hafi einnig verið boðið það af hálfu mennta- og menningarmálaráðuneytis en einnig hafnað því boði. Þannig hafi stefnandi hvorki óskað formlega eftir því að taka aftur við starfinu né þegið boð um það. Því verði að líta svo á að stefnandi hafi sjálfur hafnað því að taka við því starfi og séu þannig engin efni til að fallast á bótakröfur stefnanda af þessum sökum. Að mati stefnda bresti því stoð fyrir kröfum hans að þessu leyti. Að öðru leyti en að framan greinir, byggir stefndi aðal- og varakröfu sína á sömu málsástæðum gegn bótakröfu stefnanda og enn fremur á því að framferði stefnanda gagnvart skólameistara þann 7. október 2015 hafi verið slíkt að réttlætti fyrirvaralausa uppsögn eftir almennum reglum.

          Stefndi tekur fram að fljótlega hafi farið að bera á samstarfsörðugleikum milli stefnanda og skólameistara meðan á reynslutíma ráðningar stefnanda sem aðstoðarskólameistara hafi staðið. Stefnanda hafi sem fyrr segir verið fullljóst um hver starfslýsing hans hafi verið í þeirri stöðu. Ákvörðun um verkefni og hvernig vinnu aðstoðarskólameistara yrði háttað var skólameistara. Þetta leiði af stjórnunarrétti vinnuveitanda og forstöðumanns eftir ákvæðum laga nr. 70/1996 og sé einnig forsenda ákvæða framhaldsskólalaga um starf aðstoðarskólameistara, sbr. ákvæði 2. mgr. 8. gr. þeirra laga. Lög nr. 70/1996 byggi á þessum stjórnunarrétti, sbr. 15. gr. þeirra laga, en starfslýsingar og verkefni geti eðli málsins samkvæmt og sbr. framhaldsskólalög tekið breytingum, allt eftir því hvaða markmiðum stefnt sé að í starfi stofnunar. Þá bendir stefndi á að í auglýsingu um starfið hafi komið fram að aðstoðarskólameistari væri staðgengill skólameistara og ynni með honum við daglega stjórn og rekstur skólans. Stefnanda hafi því mátt vera ljóst hver verkefni hans hafi verið á hverjum tíma. Fljótlega hafi komið í ljós að skólameistari hafi ekki getað talið stefnanda getað unnið að þessum markmiðum eða lotið stjórn skólameistara. Því hafi verið réttmætt og í samræmi við efni ráðningarsamnings að ráðningu yrði slitið á reynslutíma. Við þær aðstæður hafi ekki verið skylt að fylgja ákvæðum 21. gr. laga nr. 70/1996 eða byggja uppsögn og starfslok á þeirri málsmeðferð sem fyrri málsliður 1. mgr. 44. gr. laganna geri ráð fyrir, svo sem fyrrgreind dómafordæmi sýna. Engu að síður verði að telja að stefnandi hafi fengið að tjá sig nægjanlega og að málið hafi verið upplýst og honum gefinn kostur á að bæta ráð sitt.

          Stefndi mótmælir því einnig að brotið hafi verið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga, enda hafi þau ekki átt við þar sem heimilt hafi verið, samkvæmt ráðningarsamningi, að segja honum upp á reynslutíma. Stefndi mótmælir sérstaklega að brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu, en fyrir liggi að stefnanda hafi verið boðið áframhaldandi starf sem kennari.

          Stefndi mótmælir bótakröfum í heild sinni þar sem ekki sé sýnt fram á tjón. Stefnandi hafi ekki upplýst um aðrar tekjur sínar eða ráðningar eftir starfslok hjá Fjölbrautaskóla Vesturlands, en fyrir liggi að hann hafi verið ráðinn sem framhaldsskólakennari að nýju á vegum stefnda. Stefnanda verði því ekki dæmdar skaða- eða efndabætur nema sýnt sé fram á tjón. Þá hafi stefnandi ekki sýnt fram á orsakasamband eða sennilega afleiðingu hafi hann haft, hafi nú eða muni hafa aðrar launatekjur. Skorað sé á stefnanda að leggja fram gögn um allar tekjur og eftir atvikum ráðningarsamninga um önnur störf eða bætur eftir að starfi hans við skólann lauk uns hann hafi verið ráðinn framhaldsskólakennari að nýju og eftir atvikum gögn um aðrar tekjur eftir það.

          Stefnandi hafi einnig uppi kröfu um miskabætur á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefndi mótmælir henni þar sem skilyrði ákvæðisins séu í engu uppfyllt. Framganga skólameistara hafi ekki verið niðurlægjandi fyrir stefnanda og sé ekkert komið fram um að hún eða aðrir starfsmenn stefnda hafi stuðlað að umfjöllun um málið í fjölmiðlum. Fram komi í málsgögnum að framganga stefnanda hafi verið slík að skólameistari hafi óttast og séð ástæðu til að leita til lögreglu. Engin rök séu til að dæma stefnanda miskabætur, hvorki vegna uppsagnar úr starfi aðstoðarskólameistara né vegna fyrra kennarastarfs. Stefndi vísar einnig til málsástæðna sem raktar hafi verið um ætlað fjártjón. Til vara sé miskabótakröfum mótmælt sem of háum.

          Verði ekki fallist á sýknukröfu og komi til bótaskyldu, byggir stefndi á því að líta beri til dómaframkvæmdar um að bætur skuli metnar að álitum. Stefndi áréttar mótmæli gegn dómkröfum stefnanda og rökstuðningi fyrir þeim. Stefnanda hafi verið vikið frá störfum sökum samstarfsörðugleika sem stefnandi hafi átt sök á að mati skólameistara. Stefndi telur því að líta beri til meginreglu og grunnraka 32. gr. laga nr. 70/1996, auk annarra þátta. Starfsmenn geti almennt ekki vænst þess að þeir haldi starfi sínu, enda geti komið til starfsloka af ýmsum ástæðum sem til dæmis lög nr. 70/1996 geri ráð fyrir. Þetta gildi ekki síður sökum þess að verði ekki fallist á að uppsögn hafi orðið á reynslutíma, hafi verið um þriggja mánaða gagnkvæman uppsagnarfrest að ræða en um slíkan uppsagnarfrest hafi verið mælt fyrir um bæði í ráðningarsamningi stefnanda um starf framhaldsskólakennara og aðstoðar-skólameistara.

          Um áratugaskeið og einnig fyrir gildistöku laga nr. 70/1996 hafi bætur, í þeim tilvikum sem stöðumissir sé metinn óréttmætur eða uppsögn talin vera ólögmæt, verið dæmdar að álitum. Stefndi byggir á því að engin rök standi til að hverfa frá þeirri dómvenju hvað sem álitamálum um uppsagnarfrest líði. Þessi dómvenja hafi gilt áður þegar í hlut hafi átt embættismenn eða starfsmenn sem hafi verið skipaðir eða ráðnir ótímabundið án uppsagnarfrests. Til að mynda hafi því verið hafnað að leggja til grundvallar tryggingafræðilega útreikninga um eingreiðsluverðmæti launa til 70 ára aldurs, þótt starfsmenn mættu almennt gera ráð fyrir að halda starfa uns lögmæt starfslok kæmu til. Sama eigi við um bætur til handa þeim sem þolað hafa óréttmætan starfsmissi eftir gildistöku laga nr. 70/1996 og verið ráðnir ótímabundið með gagnkvæmum uppsagnarfresti. Hæstiréttur hafi ítrekað vísað til dómvenju um það hvernig bætur skuli ákveðnar sé uppsögn eða frávikning metin ólögmæt. Skyti það skökku við yrði bótaréttur manna með tímabundna ráðningu til fimm ára, þar sem kveðið sé á um uppsagnarfrest eins og í tilviki stefnanda, til muna hærri, en til handa þeim sem ráðnir væru ótímabundið til loka starfsævi. Í öllum tilvikum séu ýmsir óvissuþættir um starf til framtíðar hvort sem ráðning sé ótímabundin eða tímabundin eins og dómstólar hafi bent á. Því hafi einnig verið hafnað með dómi Hæstaréttar að skilyrði séu til að dæma bætur er samsvari fimm ára skipunartíma, sbr. dóm Hæstaréttar 8. desember 2005 í máli nr. 175/2005, en þar hafi ákvörðun bóta verið miðuð við dómvenju og ákvörðuð að álitum. Engin efni séu í þessu máli til að víkja frá þessari dómvenju um ákvörðun bóta eða að kveða á um efndabætur eins og stefnandi krefjist.

          Stefndi mótmælir bótakröfum stefnanda í heild sinni en byggir á því að komi til bótaskyldu beri að lækka umkrafðar bætur verulega og liggi til þess margar ástæður. Eins og rakið sé að framan hafi skólameistara verið nauðugur kostur að binda enda á ráðningu stefnanda sem aðstoðarskólameistara. Málsbætur stöðuveitanda hafi því verið augljósar. Þá byggir stefndi á að stefnandi hafi augljóslega átt sök á því að ráðningin gat ekki haldið gildi lengur.

          Stefndi byggir einnig á því að líta beri til þess að stefnanda hafi verið skylt að takmarka tjón sitt en hann hafi ítrekað hafnað boði um starf sem kennari. Hin almenna regla um frádrátt ávinnings gildi og skyldu til tjónstakmörkunar jafnt eftir skaðabóta- og kröfurétti, hvort sem litið sé á skaðabætur eða efndabætur, einkum og sér í lagi í vinnurétti. Þá hafi honum borið að leita eftir atvinnuleysisbótum eða öðru starfi sem hann muni hafa gert. Ekkert liggi fyrir í málinu hvort hann hafi fengið annað starf eða leitað eftir því áður en hann hafi að nýju verið ráðinn til stefnda sem framhaldsskólakennari. Þá liggi ekki fyrir hvort hann hafi sótt um eða fengið atvinnuleysisbætur á þessum tíma. Í þessu efni sé ítrekuð fyrrgreind áskorun stefnda en stefnandi hafi í engu sannað tjón sitt þar sem hann hafi ekki upplýst um aðrar tekjur eða tekjumöguleika sína. Að mati stefnda verði að draga frá þeim bótum sem til álita kæmu allar aðrar tekjur. Stefnandi hafi engin gögn lagt fram um að hann hafi átt erfitt með að finna annað starf við hæfi en taka beri fram að atvinnuleysi á Íslandi sé með því lægsta sem þekkst hafi lengi.

          Stefndi mótmælir sérstaklega umkröfðum bótum vegna kennarastarfs að fjárhæð 6 milljónir króna. Engin efni séu til að dæma bætur vegna þess samhliða og til viðbótar öðrum kröfum. Kröfunni sé einnig mótmælt sem órökstuddri en tölulegar forsendur hennar séu ekki skýrðar í stefnu. Þá er bótakröfu af þessum sökum mótmælt sem allt of hárri og með sömu rökum og fyrr greini um frádrátt tekna.

          Um einstaka liði aðra í bótakröfu stefnanda byggir stefndi á því að þeir geti hvorki talist í samræmi við dómaframkvæmd né að tilefni sé til að fallast á þá. Á sama hátt og bætur verði að ákveða að álitum, séu ekki efni til að dæma jafngildi orlofsuppbótar til 31. júlí 2020. Það gildi líka um persónuuppbót en þær greiðslur séu bundnar við að viðkomandi sé við störf. Stefndi mótmælir einnig kröfu um bætur sem samsvari lífeyrissjóðsframlagi eða framlagi í séreignarsjóð en um sé að ræða greiðslur til slíkra sjóða og því óraunhæft að dæma stefnanda framlagið sjálft. Þá hafi stefnandi ekki lagt fram gögn um verðmæti réttindanna sjálfra. Að öðru leyti er kröfunni mótmælt á sama grundvelli og varðandi aðrar launatengdar greiðslur.

          Með vísan til þess sem að framan greinir telur stefndi að lækka beri umkrafðar bætur verulega þar sem þær séu ekki í samræmi við dómaframkvæmd og þá þætti sem taka beri tillit til, auk greiðslna og tekna sem stefnandi hafi notið eftir starfslok við skólann. Þá beri að mati stefnda að horfa til þess hversu stuttan tíma ráðningin hafi varað og þess að stefnandi hafi verið ráðinn að nýju sem framhaldsskólakennari á vegum stefnda frá 1. ágúst 2016 og séu heildarlaun hans hærri og mun hærri en í fyrra starfi sem framhaldsskólakennari við Fjölbrautarskóla Vesturlands.

          Þá mótmælir stefndi varakröfu stefnanda og krefst einnig til vara lækkunar hennar með sömu rökum og að framan greinir. Stefndi bendir á að einn þáttur í varakröfu stefnanda sé sá að stefnda verði gert að greiða stefnanda laun í samræmi við ráðningarsamning, dagsettan 15. júní 2015, mánaðarlega frá 1. nóvember 2016 til 31. júlí 2020. Stefndi mótmælir þessari kröfu sérstaklega en til álita kæmi að vísa henni frá dómi, sbr. 26. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Allt að einu beri að sýkna af kröfunni. Fyrrnefndum samningi hafi verið sagt upp á grundvelli ákvæða hans um uppsagnarfrest og vísist til fyrri málsástæðna þar að lútandi. Sú meginregla hafi gilt að starfsmaður eigi ekki rétt til starfs að nýju þótt stöðumissir sé metinn óréttmætur, heldur til bóta að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Því síður séu efni til að dæma stefnda til að greiða stefnanda laun til 31. júlí 2020 þegar ekkert vinnuframlag komi á móti, enda myndi það stríða gegn meginreglu vinnuréttar um gagnkvæmar skyldur og ákvæðum laga nr. 70/1996, einkum IV. kafla, sbr. 14.-16. gr.

          Að mati stefnda sé þannig engin heimild til að dæma stefnda til að greiða laun á þann hátt sem krafist sé. Jafnframt byggir stefndi á því að þar sem ekkert vinnuframlag liggi að baki þeirri kröfu, sé hún óraunhæf. Þá er byggt á því að stefnandi gegni starfi framhaldsskólakennara á vegum stefnda og fái laun fyrir. Krafan sé því ósamrýmanleg þeim greiðslum frá stefnda þar sem stefnandi njóti þegar launagreiðslna frá honum sem framhaldsskólakennari. Af þeim ástæðum einnig sé krafa stefnanda óraunhæf. Að öðru leyti vísar stefndi til fyrri málsástæðna, meðal annars um að stefnanda hafi verið boðið að þiggja áframhaldandi starf sem kennari, sem hann hafi hafnað og þess að brotthvarf hans hafi einnig verið á grundvelli háttsemi hans sjálfs.

          Þá mótmælir stefndi upphafstíma dráttarvaxtakröfu stefnanda og bendir á að líta verði til 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, um upphafstíma dráttarvaxta af skaðabótakröfu.

          Stefndi hafnar áskorun stefnanda um að leggja fram upplýsingar um greiðslur til Vaxtar ráðgjafar vegna aðstoðar við ráðningingaferli vorið 2015 þar sem hún sé órökstudd og ekki verði séð að upplýsingarnar hafi þýðingu fyrir sakarefnið. Til stuðnings kröfum stefnda um málskostnað er í öllum tilvikum til XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

 

V

          Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslur stefnandi málsins, Ágústa Elín Ingþórsdóttir, skólameistari Fjölbrautarskóla Vesturlands, Ágústa Hlín Gústafsdóttir mannauðsráðgjafi, Ingólfur Árnason, Hafdís Fjóla Ásgeirsdóttir, Hörður Óskar Helgason, Atli Vilhelm Harðarson, Ólafur Hjörtur Sigurjónsson, Kári Haraldsson og Vilhjálmur Birgisson. Verða skýrslur þeirra raktar eins og þurfa þykir.

          Eins og rakið hefur verið að framan var stefnandi ráðinn aðstoðarskólameistari við Fjölbrautarskóla Vesturlands með ráðningarsamningi, dagsettum 15. júní 2015, að loknum störfum valnefndar um ráðningarferlið. Stefnanda var síðan sagt upp störfum um haustið með eins mánaðar fyrirvara og fékk greidd laun í uppsagnarfresti í einn mánuð. Ágreiningur málsins lýtur fyrst og fremst að því hvort uppsögn stefnanda úr starfi aðstoðarskólameistara og í kjölfarið einnig úr starfi kennara við skólann, hafi borið að með lögmætum hætti. Þá greinir aðila einnig á um það, hvenær stefnandi hóf störf sem aðstoðarskólameistari.

          Í málatilbúnaði stefnanda er byggt á því að ráðningarsamningum hans við skólann hafi verið rift á ólögmætan hátt með yfirlýsingum skólameistara um að stefnanda væri vikið frá störfum við skólann. Í gögnum málsins liggja fyrir umrædd bréf skólameistara til stefnanda, annars vegar bréf, dagsett 28. september 2015, þar sem stefnanda var vikið úr starfi aðstoðarskólameistara og hins vegar bréf, dagsett 8. október 2015, þar sem brottvikning hans úr því starfi er áréttuð og ekki óskað eftir frekara vinnuframlagi hans sem kennara við skólann. Í bréfi skólameistara til stefnanda, dagsettu 28. september 2015, segir:

          „Með bréfi þessu er þér sagt upp störfum sem aðstoðarskólameistari, með eins mánaðar fyrirvara miðað við næstu mánaðarmót, í samræmi við ákvæði ráðningarsamnings dags. þann 15. júní 2015 og 43. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Starfslok þín verða því 31. október næstkomandi.

          Vakin er athygli á því að þú getur óskað eftir skriflegum rökstuðningi fyrir uppsögninni, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 44. gr. laga nr. 70/1996. Slík ósk þarf að berast innan 14 daga frá móttöku þessa bréfs.“

          Þá kemur eftirfarandi fram í bréfi skólameistara til stefnanda, dagsettu 8. október 2015:

          „Með vísan í uppsagnarbréf þitt sem aðstoðarskólameistara, dags. 28. september 2015, sem þú hefur undirritað og atvik það sem gerðist á skrifstofu minni í gærmorgun þegar þú ásamt Ingólfi Árnasyni mættuð á skrifstofu mína án þess að gera boð á undan ykkur og kröfðust undirskriftar minnar, neituðuð að yfirgefa skrifstofu mína þegar þess var óskað og hindruðu útgöngu mína af skrifstofunni, er þér hér með tilkynnt að þíns vinnuframlags er ekki lengur óskað frá og með deginum í dag hvorki sem aðstoðarskólameistara né við kennslu í skólanum. Þess er farið á leit að þú skilir til mín lyklum og gangir frá skrifstofu þinni fyrir kl. 16.00 í dag.“

          Að mati dómsins þykir ljóst að með framangreindum bréfum hafi stefnanda verið sagt upp störfum við skólann, sbr. 1. málslið 43. gr. laga nr. 70/1996, annars vegar úr starfi aðstoðarskólameistara með bréfi 28. september 2015 og hins vegar úr starfi kennara með bréfi 8. október sama ár. Verður því að líta á brottvikningu stefnanda úr starfi sem uppsögn á ráðningarsamningum stefnanda en ekki riftun þeirra. Sjónarmið stefnanda um einhvers konar „gjaldfellingu“ á kröfum hans vegna ólögmætrar riftunar tímabundins ráðningarsamnings eiga því ekki við í málinu og er þeim hafnað

          Málatilbúnað stefnanda og kröfugerð fyrir dómi ber því að skilja þannig að honum hafi verið sagt upp starfi sem aðstoðarskólameistari og sem kennari við fyrrnefndan skóla með ólögmætum hætti. Aðalkröfu sína byggir stefnandi á meginreglu samningaréttar um að gerða samninga skuli halda og að skólameistari hafi haft allar heimildir að lögum til að gera samning við stefnanda um starf aðstoðarskólameistara. Um það vísar hann til 42.-46. gr. laga nr. 70/1996  og 2. mgr. 8. gr. laga nr. 92/2008, um framhaldsskóla. Þá byggir stefnandi einnig á því að ekki hafi verið fyrir hendi lögmæt uppsagnarheimild í þeim ráðningarsamningi og að tímabundnir samningar séu almennt óuppsegjanlegir, nema sérstaklega sé um annað samið.

          Í samræmi við 42. gr. laga nr. 70/1996 var gerður skriflegur ráðningarsamningur um starf aðstoðarskólameistara, dagsettur 15. júní 2015, þar sem ráðningarkjör voru ákvörðuð. Þar kemur fram að um tímabundna ráðningu var að ræða og að upphafstími hennar hafi verið 1. ágúst 2015 en lokadagur 31. júlí 2020. Í ákvæðum samningsins sem lúta að uppsögn hans og uppsagnarfresti segir:

          „Uppsagnarfrestur ótímabundins ráðningarsamnings er þrír mánuðir. Þó skal gagnkvæmur uppsagnarfrestur vera einn mánuður á fyrstu þremur mánuðum í starfi. Uppsagnarfrestur tímabundins ráðningarsamnings er þrír mánuðir hjá framhaldsskólakennurum og leiðbeinendum en einn mánuður hjá öðrum. Uppsögn miðast við mánaðarmót. Þessi ákvæði um uppsagnarfrest eiga við nema um annað sé samið í kjarasamningi.“

          Í 1. mgr. 41. gr. laga nr. 70/1996 er mælt fyrir um að starfsmenn ríkisins, aðrir en embættismenn, skuli ráðnir til starfa ótímabundið með gagnkvæmum uppsagnarfresti. Sá frestur skuli vera þrír mánuðir að loknum reynslutíma, nema um annað sé samið í kjarasamningi. Í 2. mgr. 41. gr. laganna er síðan kveðið á um að heimilt sé að ráða starfsmann til starfa tímabundið og að unnt sé að taka fram í ráðningarsamningi að segja megi slíkum samningi upp af hálfu annars hvors aðila áður en ráðning fellur sjálfkrafa úr gildi við lok samningstíma. Þá skuli tímabundin ráðning aldrei vara samfellt lengur en í tvö ár. Samkvæmt sérreglu 2. mgr. 8. gr. laga nr. 92/2008, um framhaldsskóla, ræður skólameistari staðgengil sinn hins vegar til allt að fimm ára í senn. Því þykir ljóst að skólameistari hafi haft heimild til að gera áðurnefndan tímabundinn ráðningarsamning við stefnanda um að ráða hann í starf aðstoðarskólameistara til fimm ára, enda er enginn ágreiningur um það í málinu.

          Með ráðningarsamningnum var stefnandi ráðinn tímabundið í starf aðstoðarskólameistara til fimm ára. Svo sem segir í 2. mgr. 41. gr. laga nr. 70/1996 er heimilt að taka fram í ráðningarsamningi við starfsmann, sem ráðinn er til starfa tímabundið, að segja megi slíkum samningi upp af hálfu annars hvors aðila áður en ráðning fellur sjálfkrafa úr gildi við lok samningsins. Skólameistara var því heimilt að segja stefnanda upp störfum.

          Forstöðumaður hefur samkvæmt 43. gr. laga nr. 70/1996 rétt til að segja starfsmanni upp störfum eftir því sem fyrir er mælt í ráðningarsamningi. Af umræddum ráðningarsamningi er ljóst að aðilar sömdu um það, að uppsagnarfrestur ótímabundins ráðningarsamnings væri þrír mánuðir en að þó skyldi uppsagnarfrestur vera einn mánuður á fyrstu þremur mánuðum í starfi. Um uppsagnarfrest tímabundins ráðningarsamnings segir hins vegar að hann sé þrír mánuðir hjá framhaldsskólakennurum og leiðbeinendum en einn mánuður hjá öðrum. Ekki er því í ráðningarsamningnum fjallað sérstaklega um fyrstu þrjá mánuðina í starfi sem reynslutíma þegar um tímabundinn ráðningarsamning er að ræða, svo sem á við í tilviki stefnanda. Reynslutími er hvorki skilgreindur í lögum nr. 70/1996 né lögskýringargögnum. Að þessu gættu og þegar litið er til efnis 1. mgr. 41. gr. laga nr. 70/1996, sem rakið er hér að framan um þriggja mánaða uppsagnarfrest að loknum reynslutíma þegar um er að ræða ótímabundna ráðningarsamninga, er ekki unnt að fallast á það með stefnda að það leiði af ákvæðum laga eða orðalagi ráðningarsamningsins að líta hafi átt á fyrstu þrjá mánuði stefnanda í starfi aðstoðarskólameistara sem reynslutíma. Ráðningarsamningur stefnanda var tímabundinn en þau dómafordæmi, sem stefndi vísar til í greinargerð máli sínu til stuðnings, lutu að ágreiningi vegna uppsagnar á ótímabundnum ráðningarsamningum. Þykir því ekki unnt að leggja þau fordæmi til grundvallar við úrlausn þessa máls. Í ljósi orðalags ráðningarsamningsins verður ekki fallist á það með stefnda, að stefnanda hafi mátt vera ljóst að uppsagnarfrestur væri einn mánuður á fyrstu þremur mánuðum í starfi og að það tímabil væri reynslutími í skilningi laga.

          Samkvæmt hinum tímabundna ráðningarsamningi var uppsagnarfestur hans þrír mánuðir hjá framhaldsskólakennurum og leiðbeinendum en síðan er tekið fram að hann sé einn mánuður hjá öðrum. Aðspurður um það, hvað átt væri við með hugtakinu „aðrir“ í textanum, sagði Atli Vilhelm Harðarson, sem var aðstoðarskólameistari við Fjölbrautaskóla Vesturlands 2011-2014, að það hefði alltaf verið skilningur manna að með því væri fyrst og fremst átt við ófaglært verkafólk. Þá benti hann á að starfsheitið framhaldsskólakennari ætti einnig við um aðstoðarskólameistara þar sem hinn síðarnefndi þyrfti að vera framhaldsskólakennari. Fyrir liggur að stefnandi gegndi stöðu framhaldsskólakennara þegar hann var ráðinn aðstoðarskólameistari og þá verður ráðið af samkomulagi skólameistara og aðstoðarskólameistara, dagsettu 24. ágúst 2015, að stefnandi átti að sinna kennslu í tveimur áföngum á tímabilinu frá 1. ágúst til 31. desember 2015. Að þessu virtu er það mat dómsins að orðalag hins tímabundna ráðningarsamnings stefnanda beri með sér að umsaminn uppsagnarfrestur hans hafi verið þrír mánuðir.

          Stefnandi byggir einnig á því að uppsögn stefnanda úr starfi aðstoðarskólameistara hafi verið ólögmæt þar sem hann hafi ekki hlotið áminningu, sbr. 21. gr. laga nr. 70/1996, og að ekki hafi verið heimilt að víkja honum fyrirvaralaust úr starfi í samræmi við 45. gr. laganna. Í þessu samhengi bendir stefnandi á að í rökstuðningi skólameistara hafi verið vísað til atriða sem falli undir 21. gr. laganna.

          Í 21. gr. laga nr. 70/1996 er kveðið á um að hafi starfsmaður í starfi sínu sýnt óstundvísi eða aðra vanrækslu, óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns síns, vankunnáttu eða óvandvirkni í starfi, ekki náð fullnægjandi árangri í starfi, verið ölvaður að starfi eða framkoma hans eða athafnir í því eða utan þess þykja að öðru leyti ósæmilegar, óhæfilegar eða ósamrýmanlegar starfinu, skuli forstöðumaður veita honum skriflega áminningu. Áður skuli þó gefa starfsmanni kost á að tala máli sínu sé það unnt. Þá er mælt fyrir um það í 1. mgr. 44. gr. laganna að skylt sé að veita starfsmanni áminningu samkvæmt 21. gr. þeirra og gefa honum færi á að bæta ráð sitt eigi uppsögn rætur að rekja til ástæðna sem þar eru greindar. Að lokum kemur fram í 45. gr. laganna að víkja skuli starfsmanni fyrirvaralaust úr starfi hafi hann verið sviptur rétti til að gegna því starfi með fullnaðardómi.

          Í áðurnefndu uppsagnarbréfi, dagsettu 28. september 2015, sem að framan er rakið, kemur ekkert fram um að uppsögn stefnanda úr starfi aðstoðarskólameistara byggist á þeim ástæðum sem raktar eru 21. gr. laga nr. 70/1996. Hins vegar er í rökstuðningi fyrir uppsögn, sem settur var fram í bréfi 20. október 2015, lýst aðdraganda uppsagnarinnar og vísað til efnis tölvupósts stefnanda til skólameistara, dagsetts 31. júlí 2015, og samskiptaerfiðleika þeirra í kjölfarið sem hafi farið versnandi. Þá kemur þar fram að reynt hafi verið að ná sáttum allt þar til uppsagnarbréf var afhent stefnanda.

          Um ástæður uppsagnarinnar eru í rök rakin tilvik sem lúta að því að stefnandi hafi ekki sinnt vinnu sinni með þeim hætti sem honum hafi borið að gera. Síðan segir:

„Þótt uppsögnin hafi byggst á heimild í ráðningarsamningi til uppsagnar á reynslutíma þá má ljóst vera að framkoma Hafliða í garð skólameistara sem síns næsta yfirmanns braut í bága við ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins svo sem kveðið er á um í 21. gr. laganna: [...]“ Að þessu virtu verður að líta svo á að uppsögn stefnanda hafi átt rætur að rekja til ástæðna sem getið er í 21. gr. laga nr. 70/1996. Samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 44. gr. laganna bar skólameistara því að veita stefnanda skriflega áminningu samkvæmt 21. gr. og gefa honum færi á að bæta ráð sitt áður en honum var sagt upp störfum. Ekkert er komið fram í málinu um að slík skrifleg áminning hafi verið veitt. Því er það niðurstaða dómsins að með uppsögn ráðningarsamningsins, án undangenginnar áminningar, hafi verið brotið gegn ákvæðum laganna, svo sem stefnandi byggir á. Að þessu virtu sem og öllu framangreindu er, þegar af þessari ástæðu, fallist á það með stefnanda að uppsögn hans sem skólameistara hafi verið ólögmæt og á stefnandi því rétt á bótum vegna þess.

            Stefnandi byggir aðalkröfu sína jafnframt á því að samhliða ráðningarsamningi hans um starf aðstoðarskólameistara hafi verið í gildi samningur hans um starf kennara við skólann og gerir hann þannig kröfu um bæði skaðabætur vegna ólögmætrar uppsagnar úr því starfi, sem og miskabætur. Stefndi byggir sýknukröfu sína að þessu leyti á því að stefnandi hafi ekki verið sviptur neinum rétti þar sem bæði skólameistari og fulltrúi mennta- og menningarmálaráðuneytisins hafi boðið stefnanda að taka aftur við starfi kennara þegar honum hafi verið sagt upp störfum sem aðstoðarskólameistari.

          Stefnandi bar fyrir dómi að á áðurnefndum fundum sem haldnir voru vegna málsins með skólameistara og Ágústu Hlín í september 2015 hafi honum aldrei verið boðið að fara aftur í starf kennara. Þá hafi honum heldur aldrei verið boðið það af hálfu mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Hvorugur þessara aðila hafi því boðið honum á nokkru stigi málsins, hvorki formlega né óformlega, að hverfa aftur í fyrra starf kennara.

          Bæði Ágústa Elín Ingþórsdóttir og Ágústa Hlín Gústafsdóttir, sem sátu áðurnefnda fundi með stefnanda, báru hins vegar á þann veg að stefnanda hefði verið boðið að fara aftur í sitt fyrra starf. Ágústa Elín sagði að fyrir fundinn 28. september 2015, þegar stefnanda var sagt upp úr starfi aðstoðarskólameistara, hafi hún verið búin að ýja að því þessu við stefnanda, nánar tiltekið hefði hún nefnt það við hann óformlega fyrir fundinn 2. september 2015 að snúa aftur í fyrra starf. Þá bar Ágústa Hlín einnig að rætt hefði verið við stefnanda um að taka aftur við fyrra starfi á fundunum. Hins vegar hefði stefnandi látið í ljós neikvæð viðhorf gagnvart því og ekki virkað sáttur við það. Hafi komið skýrt fram af hálfu stefnanda að hann ætlaði sér ekki að taka boðinu.

          Í gögnum málsins liggja enn fremur fyrir tölvupóstsamskipti lögmanns stefnanda og Ólafs Sigurðssonar, fulltrúa mennta- og menningarmálaráðuneytisins, á tímabilinu 20. nóvember 2015 til 4. desember sama ár. Af þeim samskiptum verður ráðið að lögmaður stefnanda hafi hitt fulltrúa ráðuneytisins á fundi þar sem leitast var við finna lausn á málefnum stefnanda við skólann. Í tölvupósti lögmanns stefnanda, dagsettu 20. nóvember 2015, til áðurnefnds Ólafs segir m.a. eftirfarandi: „Sæll vertu, og takk fyrir síðast. Við skildum með það á fundi á mánudaginn að ríkið (r-neytið/FVA) kæmi með mögulega hugmynd eða tillögu að lausn á málinu á fimmtu- eða föstudag í þessari viku. Ef ekkert kæmi frá ríkinu myndum við setja kröfuna fyrrum aðstoðarskólameistara í formlegan farveg nk. mánudag. Ég heyrði ekkert frá þér í gær, og væri gott að fá að vita hvort við eigum von á einhverri hugmynd að lausn. [...]“. Sama dag barst lögmanni stefnanda eftirfarandi svar frá Ólafi Sigurðssyni: „Sæll. Hef því miður ekki haft tóm til að kafa í málið en eins og ég nefndi við þig á mánudaginn mætti hugsa sér að semja á þeim grundvelli að Hafliða byðist að koma aftur til starfa við kennslu og einhvers konar bætur væru mögulegar. [...]“. Þá kemur fram í framangreindum tölvupóstsamskiptum að lögmaður stefnanda hafi hitt Ólaf Sigurðsson á fundi mánudaginn 23. nóvember 2015 í því skyni að komast að samkomulagi í málinu. Í tölvupósti hins fyrrnefnda til hins síðarnefnda þann dag segir: „Sæll Ólafur og takk fyrir fundinn. Ég mun hafa samband við fv. aðstoðarskólameistara, umbj. minn, nú á eftir og tjá honum að sú hugmynd hafi óformlega verið viðruð okkar í milli að hann kæmi til baka í skólann sem kennari [...]“. Þá segir einnig: „Ég mun taka skýrt fram í samtali við umbj. minn að þessi hugmynd, sem rædd var á fundinum, hafi ekki verið rædd við alla aðila innan r-neytisins og því sé ekki hægt að tala um formlegt tilboð af hálfu ríkisins – heldur hafi verið um að ræða þreifingar í átt að sátt“.

          Þrátt fyrir að skriflegt tilboð til stefnanda um að snúa aftur í starf kennara við skólann liggi ekki fyrir í gögnum málsins, þykir, með vísan til framangreindra tölvupóstsamskipta og framburðar þeirra Ágústu Elínar Ingþórsdóttur og Ágústu Hlínar Gústafsdóttur, nægilega sýnt fram á stefnanda hafi gefist kostur á að snúa aftur í starf kennara við skólann, jafnt í aðdraganda uppsagnar hans úr starfi aðstoðarskólameistara sem og eftir að honum hafði verið sagt upp störfum. Ekki verður séð að stefnandi hafi nýtt það tækifæri til að snúa aftur til starfa sem kennari við skólann, svo sem honum var kleift samkvæmt framangreindu. Af þeim sökum verður hvorki fallist á kröfu hans um skaðabætur né miskabætur vegna uppsagnar hans úr starfi kennara.

          Svo sem fyrr er rakið greinir málsaðila á um það, hvenær stefnandi hafi hafið störf sem aðstoðarskólameistari. Stefnandi heldur því fram að hann hafi í raun tekið við störfum sem aðstoðarskólameistari um leið og tilkynnt var um ráðningu hans í starfið þann 15. maí 2015 en ekki þann 1. ágúst sama ár, eins og ráðningarsamningur kveði á um. Til stuðnings bendir stefnandi á að framlögð tölvupóstsamskipti sem sýni að honum hafi verið falin ýmis verkefni sem féllu undir starfssvið aðstoðarskólameistara strax um vorið, sem til að mynda hafi tengst stofnun afreksíþróttasviðs við skólann, stjórn kennarafunda, ýmis konar fundarhöldum, ráðningarmálum, auk þess sem hann hafi sinnt samskiptum við foreldra og nemendur skólans. Af hálfu stefnda er hins vegar byggt á því að miða beri upphaf starfa stefnanda sem aðstoðarskólameistara við skýr ákvæði ráðningarsamningsins um upphaf ráðningartíma. 

          Stefnandi bar um það í skýrslu sinni fyrir dómi, að skólameistari hefði beðið hann um að byrja að vinna sem aðstoðarskólameistari strax um vorið 2015 og sinna ýsmum verkefnum sem þyrfti að leysa um sumarið. Hann kvaðst hafa tekið vel í það og byrjað að vinna sem sem aðstoðarskólameistari daginn eftir að tilkynnt var um ráðninguna eða þann 16. maí 2015. Þá hefði honum og skólameistara samist um að hann fengi greidd hálf laun fyrir júní og júlí á „aðstoðarskólameistarataxta“ ofan á kennaralaun sín sem hann hefði verið á út sumarið. Ágústa Elín Ingþórsdóttir skólameistari bar hins vegar á þann veg, að um miðjan maí 2015 hefði samist um það milli hennar og stefnanda að stefnandi sinnti ýmsum sérverkefnum á starfssviði aðstoðarskólameistara um sumarið, m.a. til þess að setja stefnanda sem best inn í starfið áður en hann tæki formlega við því 1. ágúst. Meðal þeirra verkefna hafi verið störf sem tengdust áðurnefndu afreksíþróttasviði, stjórn kennarafunda og fleira. Fyrir þessi sérverkefni hafi stefnandi átt að fá greidd hálf laun í launaflokki aðstoðarskólameistara 16-4 frá 1. júní 2015. Vegna mistaka hafi stefnandi fengið greidd tvenn og hálf laun kennara fyrir júní 2015 en það hafi verið leiðrétt á launaseðli 1. ágúst sama ár. Hún taldi að þessi verkefni hefðu aðeins verið brot af þeim verkefnum sem aðstoðarskólameistari sinnti að öllu jöfnu. Enn fremur hafi Hafdís Fjóla Ásgeirsdóttir, fráfarandi aðstoðarskólameistari, sinnt því starfi til 31. júlí 2015 en hafi verið frá vinnu um sumarið vegna náms- og sumarleyfis.

          Í málinu liggja fyrir launaseðlar stefnanda frá 1. febrúar til 1. desember 2015. Varðandi greiðslu vegna áðurnefndra sérverkefna sem stefnandi tók að sér sést að á launaseðli 1. ágúst 2015 fékk stefnandi greiðslu vegna júní og júlí það ár fyrir lið sem nefnist „mánaðarlaun aukastarf fast“ í launaflokki 16-4, sem er sami launaflokkur og laun hans sem aðstoðarskólameistara voru miðuð við. Að þessu virtu sem og öðrum framlögðum gögnum í málinu þykir ljóst að munnlegt samkomulag hafi tekist með stefnanda og skólameistara um að sá fyrrnefndi tæki að sér ákveðin störf sem féllu undir starfssvið aðstoðarskólameistara vorið 2015 um leið og tilkynnt var um ráðningu hans í starfið. Hins vegar verður ekki séð að stefnandi hafi þegar á þeim tíma formlega hafið störf sem aðstoðarskólameistari. Í ráðningarsamningnum frá 15. júní 2015 kemur skýrt fram að upphafsdagur ráðningar stefnanda sé 1. ágúst 2015. Einnig liggur fyrir í gögnum málsins tölvupóstur, dagsettur 15. maí 2015, sem skólameistari sendi öllum starfsmönnum skólans, þar tilkynnt var um ákvörðun um að ráða stefnanda í stöðu aðstoðarskólameistara frá og með 1. ágúst nk. Enn fremur sést á framlagðri auglýsingu um starfið, sem birtist á Starfatorgi þann 25. mars 2015, að til hafi staðið að ráða í starfið frá 1. ágúst 2015. Loks bera framlagðir launaseðlar stefnanda á tímabilinu 1. febrúar til 1. desember 2015 jafnframt með sér að stefnandi hafi fyrst þegið full laun sem aðstoðarskólameistari frá og með 1. ágúst 2015, sbr. launaseðil 1. september sama ár. Með vísan til þessara gagna telur dómurinn ósannað, gegn andmælum stefnda en janframt með hliðsjón af fyrrgreindum framburði Ágústu Elínar Ingþórsdóttur, að stefnandi hafi formlega hafið störf sem aðstoðarskólameistari um leið og tilkynnt var um ráðningu hans í starfið þann 15. maí 2015. Það er jafnframt í samræmi við það, sem skýrlega kemur fram í ráðningarsamningnum, og sem fyrir liggur að stefnandi undirritaði 15. júní 2015. Þykir því engu breyta um þá niðurstöðu, þótt ljóst sé að stefnandi tók að sér að sinna ákveðnum sérverkefnum sem tengdust starfinu og honum voru falin frá þeim tíma.

          Að mati dómsins þykir ljóst að með framangreindum bréfum hafi stefnanda verið sagt upp störfum við skólann, sbr. 1. málslið 43. gr. laga nr. 70/1996, annars vegar úr starfi aðstoðarskólameistara með bréfi 28. september 2015 og hins vegar úr starfi kennara með bréfi 8. október sama ár. Því verður að líta á brottvikningu stefnanda úr starfi sem uppsögn á ráðningarsamningum stefnanda en ekki riftun þeirra sem leitt hafi til einhvers konar gjaldfellingar á kröfum hans samkvæmt ráðningarsamningunum. Við ákvörðun á fjárhæð bótanna er því hafnað þeirri kröfu stefnanda að þær verði ákveðnar sem efndabætur.

          Hér að framan var komist að þeirri niðurstöðu að hvorki yrði fallist á kröfu stefnanda um skaðabætur né miskabætur vegna uppsagnar hans úr starfi kennara. Hins vegar hefur verið fallist á að uppsögn hans sem skólameistara hafi verið ólögmæt og því á stefnandi rétt á bótum vegna þess. Samkvæmt langri dómvenju verða bætur stefnanda ákveðnar að álitum. Við ákvörðun bóta til handa stefnanda vegna fjártjóns verður horft til þess að hann var ráðinn tímabundið til fimm ára í stöðu aðstoðarskólameistara með gagnkvæmum þriggja mánaða uppsagnarfresti og naut launa vegna eins mánaðar af uppsagngarfrestinum. Hins vegar verður jafnframt að líta til þess, sem fram er komið í málinu, að stefnandi starfaði sem afleysingakennari við rafiðnadeild Fjölbrautaskólans í Breiðholti frá hausti 2016 og var ráðinn ótímabundið sem kennari í rafiðngreinum við sama skóla frá 1. febrúar 2017. Þá liggur fyrir að stefnandi naut launa frá Skaganum hf. á árinu 2016 og fékk einnig greiðslur frá Vinnumálastofnun í desember 2015 sem hafa verður hliðsjón af við ákvörðun bótafjárhæðar, auk mánaðarlauna stefnanda ári fyrir uppsögn. Að þessu öllu virtu verða bætur stefnanda vegna fjártjóns metnar að álitum 6.000.000 króna.

          Uppsögn stefnanda úr starfi aðstoðarskólameistara var samkvæmt framangreindu ólögmæt. Að mati dómsins fól uppsögnin því í sér meingerð gegn persónu stefnanda í skilningi b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefnanda verða því dæmdar miskabætur úr hendi stefnda og þykja þær hæfilega ákveðnar 500.000 krónur.

          Fyrir liggur að lögmaður stefnanda sendi mennta- og menningarmálaráðuneytinu 14. desember 2015 kröfu stefnanda vegna ólögmætrar uppsagnar stefnanda. Í ljósi framangreindrar niðurstöðu málsins og með vísan til ákvæða 6. gr., sbr. 9. gr., laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, bera dæmdar bætur til stefnanda dráttarvexti frá því liðinn var mánuður frá þeim degi þegar krafa stefnanda var sett fram, svo sem nánar greinir í dómsorði.

          Eftir niðurstöðu málsins verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 1.200.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

          Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

          Uppkvaðning dómsins hefur dregist vegna embættisanna dómarans.

 

                                                D ó m s o r ð:

          Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Hafliða Páli Guðjónssyni, 6.500.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr., sbr. 9. gr., laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 14. janúar 2016 til greiðsludags.

          Stefndi greiði stefnanda 1.200.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti. 

 

                                                Arnfríður Einarsdóttir (sign.)