• Lykilorð:
  • Gjaldþrotaskipti
  • Riftun

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 28. febrúar 2013 í máli nr. E-217/2012:

Þrotabú Splasts ehf.

 (Jóna Björk Helgadóttir hdl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Guðrún M. Árnadóttir hrl.)

 

I

 

Mál þetta, sem var dómtekið 8. febrúar sl., er höfðað af Þrotabúi Splasts ehf. (áður Sigurplast ehf.), Borgartúni 26, Reykjavík, á hendur íslenska ríkinu, til riftunar á ráðstöfun og til endurheimtu verðmæta, með stefnu birtri 8. desember 2011.

Stefnandi gerir þær dómkröfur að rift verði greiðslum Sigurplasts ehf., til stefnda að fjárhæð samtals 12.645.709 kr. sem inntar voru af hendi 21. ágúst 2010 að fjárhæð 4.175.460 kr., 25. ágúst 2010 að fjárhæð 2.868.550 kr., 16. september 2010 að fjárhæð 1.946.319 kr. og 23. september 2010 að fjárhæð 4.204.877 kr. Þá krefst hann þess að stefnda verði gert að greiða honum 12.645.709 kr. með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. maí 2011 til greiðsludags. Auk þess er þess krafist að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað.

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi. Til vara krefst hann lækkunar á dómkröfum og að málskostnaður verði felldur niður.

 

II

Málavextir

Bú Sigurplasts ehf. (nú Splast ehf.) var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 30. september 2010 að kröfu fyrirsvarsmanna félagsins sem barst dóminum 27. sama mánaðar. Við rannsókn sem skiptastjóri lét fara fram á bókhaldi félagsins kom í ljós að í ágúst og september 2010 hafði gjaldfallin skuld stefnanda við ríkissjóð verið gerð upp að fullu. Um var að ræða opinber gjöld sem stofnað hafði verið til í rekstri félagsins á tímabilinu maí til ágúst 2010 og sundurliðast svo eftir gjaldategundum:

Virðisaukaskattur (greiðsla 2 skv. stefnu):

2.868.550 kr. vegna tímabilsins maí-júní 2010 greiddur 25. ágúst 2010.

Staðgreiðsla tryggingagjalds 2010 (hluti greiðslna 1, 3 og 4 skv. stefnu):

530.450 kr. vegna júnítímabils greidd 21. ágúst 2010

595.016 kr. vegna júlítímabils greidd 21. ágúst 2010

560.256 kr. vegna ágústtímabils greidd 16. september 2010

725.333 kr. vegna ágústtímabils greidd 23. september 2010

Staðgreiðsla launagreiðanda vegna launamanna 2010 (hluti greiðslna 1, 3 og 4 skv. stefnu):

1.553.001 kr. vegna júnítímabils greidd 21. ágúst 2010

1.496.993 kr. vegna júlítímabils greidd 21. ágúst 2010

1.386.063 kr. vegna ágústtímabils greidd 16. september 2010

3.479.544 kr. vegna ágústtímabils greidd 23. september 2010.

Með bréfi dagsettu 26. apríl 2011 lýsti skiptastjóri yfir riftun á grundvelli laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991 á framangreindum greiðslum til stefnda og krafðist endurgreiðslu 12.645.709 kr. Stefndi hafnaði riftun með bréfi dagsettu 26. maí 2011.

 

 

III

 

Málsástæður stefnanda

Af hálfu stefnanda er á því byggt að umræddar greiðslur Sigurplasts ehf. til stefnda hafi verið inntar af hendi fyrr en eðlilegt var og hafi skert greiðslugetu félagsins verulega í skilningi 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Félagið hafi á þessum tíma verið byrjað að vanefna gjaldfallnar skuldir sínar enda ógjaldfært. Það hafi m.a. skuldað Arion banka hf. þrjú lán, með gjalddaga fyrstu afborgana 10. ágúst 2008, 10. apríl og 10. júní 2009. Gjalddagar síðari afborgana skyldu síðan vera á þriggja mánaða fresti. Liggi fyrir að félagið hafi greitt einungis lítinn hluta af þessum afborgunum og þannig vanefnt verulegar skuldbindingar sem hafi fallið í gjalddaga talsvert löngu fyrir gjalddaga skuldanna við stefnda. Þrátt fyrir þetta hafi reikningar stefnda verið greiddar að fullu. Telur stefnandi augljóst að Sigurplast ehf. hafi ekki getað staðið við allar skuldbindingar sínar þegar það hafi greitt kröfur stefnda og þannig hafi þær verið meðhöndlaðar með öðrum hætti en meginþorri annarra skuldbindinga félagsins. Hafi greiðslur félagsins verið stefnda til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa. Kröfuhöfum hafi verið mismunað í þeim tilgangi að fyrirsvarsmenn hins gjaldþrota félags þyrftu ekki að svara til saka fyrir vanrækslu á greiðslu opinberra gjalda. Af þeim sökum hafi skuldir Sigurplasts ehf. við stefnda verið greiddar fyrr en eðlilegt var jafnvel þótt gjalddagi þeirra hefði verið kominn. Þá vísar stefnandi til þess að um verulega fjárhæð hafi verið að ræða, í skilningi sama lagaákvæðis, sem innt hafi verið af hendi í reiðufé. Þó að hið gjaldþrota félag hafi löngu verið orðið ógjaldfært í ágúst- og septembermánuði 2010 sé samt sem áður ljóst að greiðslan hafi skerti greiðslugetu hins gjaldþrota félags verulega frá því sem fyrir hafi verið.

Stefnandi byggir enn fremur á því að greiðslur Sigurplasts ehf. til stefnda hafi verið ótilhýðilegar í skilningi 141. gr. laga nr. 21/1991. Félagið hafi innt greiðslurnar af hendi að því virðist í þeim tilgangi að fyrirsvarsmenn þess þyrftu ekki að þola refsiviðurlög fyrir vanrækslu á greiðslu opinberra gjalda. Þessi ótilhlýðilega ráðstöfun hafi leitt til þess að umrædd fjárhæð hafi ekki verið til fullnustu fyrir aðra kröfuhafa stefnanda en þegar greiðslurnar hafi farið fram hafi eignir félagsins verið minni en skuldir þess auk þess sem fyrirséð hafi verið að það gæti ekki greitt skuldir sínar þegar þær féllu í gjalddaga. Stefnandi telur að stefndi hafi vitað eða mátt vita um ógjaldfærni Sigurplasts ehf. þegar ráðstöfunin hafi verið framkvæmd, enda komi fram í svarbréfi stefnda við riftunarbréfi skiptastjóra að samkvæmt vanskilaskrá Creditinfo hafi félagið verið í vanskilum með a.m.k. eitt skuldabréf frá fjármálastofnun. Um hafi verið að ræða vanskil á skuldabréfi með höfuðstól að fjárhæð 24.744.499 kr. sem hafði verið á skránni síðan 22. apríl 2010, þ.e. í rúma fimm mánuði, þegar stefnandi hafi greitt stefnda síðustu greiðsluna sem krafist sé að rift verði í þessu máli. Rík skylda hafi hvílt á stefnda að kanna fjárhagsstöðu félagsins.

Stefnandi byggir fjárkröfu sína, um greiðslu 12.645.709 kr. auk dráttarvaxta úr hendi stefnda, á 1. og 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991. Auðgun stefnda hafi falist í því að krafa hans á hendur stefnanda hafi fengist greidd en með réttu hefði stefndi átt eiga kröfu í þrotabúið og njóta þannig jafns réttar á við aðra kröfuhafa. Um leið felist tjón stefnanda í rýrnun á eignum búsins vegna hinnar riftanlegu greiðslu Sigurplasts ehf. til stefnda.

         Til stuðnings kröfu sinni um dráttarvexti vísar stefnandi til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001. Málskostnaðarkröfu byggir stefnandi á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991.

 

 

Málsástæður stefnda

         Af hálfu stefnda er því mótmælt að hinar umdeildu greiðslur séu riftanlegar skv. 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Staðhæfingar stefnanda um að þær hafi skert greiðslugetu hins gjaldþrota félags verulega fái ekki staðist og séu engum haldbærum rökum né gögnum studdar. Upphæð greiðslnanna verði jafnframt að teljast léttvæg í samhengi við lýstar kröfur í búið sem nemi rúmlega 1,3 milljörðum króna. Þá vísar stefndi því á bug að greitt hafi verið fyrr en eðlilegt var. Á þeim tíma sem greiðslurnar hafi verið inntar af hendi hafi Tollstjóri verið grandlaus um fjárhagsvandræði félagsins. Ekkert í greiðslusögu þess í tekjubókhaldskerfi ríkisins hafi bent til þess að það ætti við fjárhagsörðugleika að stríða eða væri ógjaldfært. Þótt greiðslur hafi dregist fram yfir gjalddaga í einhverjum tilvikum hafi félagið alltaf gert skil á greiðslum og engar ástæður risið til að útbúa fjárnámsbeiðnir á félagið og þar af leiðandi aldrei komið til fullnustugerða sem hafi bent til greiðsluerfiðleika. Félagið hafi verið í fullum rekstri og greiðslurnar falið í sér regluleg skil á gjaldföllnum sköttum oggjöldum tengdum rekstrinum. Þá hafi tímamark greiðslna vegna gjaldatímabila árið 2010, sem krafist sé riftunar á í máli þessu, ekki skorið sig úr hvað varðaði fyrri skil Sigurplasts ehf. vegna sömu gjaldatímabila á árinu 2009. Fái staðhæfingar stefnanda, um að greitt hafi verið fyrr en eðlilegt sé, ekki staðist. Þá hafi greiðslurnar verið venjulegar eftir atvikum og skilyrði til riftunar því ekki uppfyllt hvernig sem á yrði litið.

Stefndi vísar eindregið á bug kröfum stefnanda um riftun byggðum á 141. gr. laga nr. 21/1991. Lögboðin skil á sköttum og gjöldum hjá fyrirtækjum í rekstri geti almennt ekki talist fela í sér ótilhlýðilega ráðstöfun. Þá hafi þeir staðgreiðsluskattar sem skilað hafi verið vegna launa starfsmanna verið hluti launa þeirra og varði skattskyldu starfsmannanna. Með greiðslum til stefnda hafi skattskyldu þeirra launamanna sem í hlut áttu verið fullnægt að því leyti. Stefnandi hafi því ekki verið í hlutverki gjaldanda þegar hann hafi innt féð af hendi heldur haft milligöngu við að uppfylla skattskyldu sem hafi hvílt á öðrum. Stefndi mótmælir staðhæfingum stefnanda um að stefndi hafi vitað eða mátt vita um ógjaldfærni Sigurplasts ehf. þegar greiðslur hafi átt sér stað. Á þeim tíma er greiðslurnar hafi borist hafi Tollstjóri verið grandlaus um fjárhagsvandræði félagsins, sbr. það sem að framan sé rakið. Innheimtumenn ríkissjóðs kanni almennt ekki fjárhagsstöðu gjaldenda fyrr en komið sé að vanskilum og mál fari í almennt innheimtuferli lögum samkvæmt en svo hafi ekki verið háttað í tilfelli félagsins. Þá fái ekki heldur staðist að það verði metið Tollstjóra til saknæms gáleysis að hafa ekki, á þeim tíma er greiðslur bárust, leitað sérstaklega upplýsinga um vanskil félagsins í skrám CreditInfo. Engar upplýsingar hafi legið fyrir um að árangurslaus fjárnám hefðu verið gerð hjá félaginu á þessum tíma.

Til stuðnings varakröfu sinni um lækkun vísar stefndi til þess að ekki séu uppfyllt skilyrði til að fallast á allar riftunarkröfur stefnanda.

                                                            

IV

Niðurstaða

Bú Sigurplasts ehf. (nú Splast ehf.), var tekið til gjaldþrotaskipta 30. september 2010 að beiðni fyrirsvarsmanna félagsins. Í beiðninni, sem barst héraðsdómi 27. september 2010, kemur fram að stjórn félagsins hafi á fundi sínum 24. sama mánaðar ákveðið að gefa það upp til gjaldþrotaskipta. Félagið geti ekki staðið í skilum við aðalkröfuhafa sinn, Arion banka hf., sem telji sig eiga yfir eins milljarðs króna gjaldfallna kröfu á hendur félaginu en um sé að ræða lán með ólögmætri gengistryggingu sem hafi valdið því að lánið margfaldaðist. Með bréfi 30. ágúst 2010 hafi bankinn skorað á félagið að lýsa því yfir að það gæti greitt skuldina innan þriggja vikna en ella gefa sig upp til gjaldþrotaskipta. Eigi félagið ekki fyrir skuldum miðað við útreikninga bankans eða þá vexti sem nýlegur dómur Hæstaréttar mæli fyrir um að greiða eigi af sambærilegum lánum þrátt fyrir jákvætt tekjustreymi félagsins, ágæta EBITU og góða framtíðarmöguleika.

Af gögnum málsins má ráða að Sigurplast ehf, sem starfaði á sviði plastframleiðslu, hafi verið í atvinnurekstri fram á síðasta dag. Við rannsókn sem skiptastjóra lét fara fram á bókhaldi félagsins kom í ljós að það hafði í ágúst og september 2010 greitt stefnda vegna opinberra gjalda samtals 12.645.709 kr., þ.e. 21. ágúst 4.175.460 kr., 25. ágúst. 2.868.550 kr, 16. september 1.946.319 kr.og 23. september 4.204.877 kr. Kröfur stefnda voru inntar af hendi eftir gjalddaga þeirra en stofnað var til þeirra í atvinnurekstri félagsins á tímabilinu maí til ágúst 2010. Um var að ræða virðisaukaskatt, staðgreiðslu tryggingagjalds og staðgreiðslu launagreiðanda vegna launamanns.. Stefnandi byggir kröfur sínar um riftun framangreindra greiðslna á 1. mgr. 134. gr. laga og 141. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.

Samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 er unnt að krefjast riftunar á greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag ef greitt var með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd var fjárhæð sem hefur skert greiðslugetu þrotamannsins verulega, nema greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum. Ákvæðið er hlutlægt og hefur verið litið svo á að skilyrði riftunar samkvæmt greininni séu sjálfstæð og nægi að einu þeirra sé fullnægt svo riftun nái fram að ganga, að því gefnu að greiðslan réttlætist ekki af því að hún sé, þrátt fyrir allt, venjuleg eftir atvikum. Byggir stefnandi á því að tvö skilyrðanna séu uppfyllt í máli þessu, þ.e. að greitt hafi verið fyrr en eðlilegt var og að greiðslan hafi skert greiðslugetu félagsins. Óumdeilt er að greiðslunar fóru fram innan þess tímamarks sem miðað er við í ákvæðinu en frestdagur við gjaldþrotaskipti í þessu máli miðast við þann dag þegar héraðsdómi barst beiðni um skipti á búi Sigurplasts ehf., sbr. 2. gr. laga nr. 21/1991.

Telja verður að því skilyrði 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991, að greiðsla hafa verið innt af hendi fyrr en eðlilegt var, sé fyrst og fremst ætlað að ná til atvika þegar greiðslur eru inntar af hendi fyrir gjalddaga kröfu eða greiðslumynstur í viðskiptum aðila breytist stuttu fyrir fyrirsjáanlegt gjaldþrot. Greiðslan þarf samkvæmt því að hafa farið fram með svo óvenjulegum hætti að líklegt sé að það helgist af þeirri slæmu fjárhagslegu stöðu sem skuldarinn er kominn í. Hinar umdeildu greiðslur voru vegna skulda á opinberum gjöldum sem til hafði verið stofnað í atvinnurekstri Sigurplasts ehf. síðustu mánuðina fyrir gjaldþrot félagsins, þær voru inntar af hendi eftir gjalddaga og skáru sig ekki úr hvað varðar fyrri skattskil fyrirtækisins. Með hliðsjón af framangreindu verður ekki fallist á að þær hafi verið inntar af hendi fyrr en eðlilegt var og ber að hafna riftun á þeirri forsendu.

Kemur þá til skoðunar hvort fullnægt sé því skilyrði 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 að greidd hafi verið fjárhæð sem skert hafi greiðslugetu þrotamannsins verulega. Um það atriði vísar stefnandi til þess að um verulega fjárhæð hafi verið að ræða sem innt hafi verið af hendi í reiðufé. Þó Sigurplast ehf. hafi verið löngu orðið ógjaldfært sé samt sem áður ljóst að greiðslan  hafi skert greiðslugetu þess verulega frá því sem fyrir var. Í stefnu er ekki fjallað nánar um eigna- og skuldastöðu félagsins á þeim tíma sem greiðslurnar fóru fram eða hvernig farið var með aðrar kröfur á hendur félaginu utan þess að bent er á að félagið hafði um langt skeið verið í vanskilum með lán hjá Arion banka hf. Í því samhengi er þó rétt að geta þess að uppi var ágreiningur um lögmæti gengistryggingar lánanna.

Við mat á því hvort greiðslurnar hafi skert greiðslugetu stefnanda verulega í skilningi ákvæðisins ber að líta til þeirrar fjárhæðar sem stefnandi krefst endurgreiðslu á sem er 12.654.709 kr. Sú fjárhæð verður á hinn bóginn ekki metin án þess að bera hana saman við fjárhagsstöðu Sigurplasts ehf. á umræddum tíma þótt óumdeilt sé að félagið hafi verið ógjaldfært þegar greiðslurnar fóru fram. Hugtakið greiðslugeta verður ekki lagt að jöfnu við hugtakið gjaldfærni í skilningi laga nr. 21/1991. Þarf því að horfa til margra annarra atriða, svo sem fjárhæðar greiðslunnar í samanburði við aðrar kröfur á hendur félaginu, til tekna félagsins, annarra eigna þess, útistandandi krafna, sem og möguleika þess til að bregðast við aðsteðjandi lausafjárskorti. Síðustu ársreikningar félagsins liggja ekki frammi í málinu en stefnandi lagði hins vegar fram skýrslur, unnar af endurskoðunarfyrirtækinu Ernst & Young hf. um félagið. Í skýrslu um rannsókn á bókhaldi Sigurplasts ehf. frá árinu 2007 til úrskurðardags 20. september 2010 kemur m.a. fram að rekstur félagsins hafi verið keyptur í byrjun mars 2007 á 351.900.000 kr. Voru kaupin að mestu fjármögnuð með lánum í erlendri mynt. Vegna gengislækkunar krónunnar jukust skuldir félagsins ört og eiginfé þar með. Yfirdráttarskuld Sigurplasts ehf. á tékkareikningi var um 60 milljónir kr. er félagið var tekið til gjaldþrotaskipta en sú skuld hafði lítið breyst frá því haustið 2008. Taldi endurskoðunarfyrirtækið að Sigurplast ehf. hefði verið orðið ógjaldfært á fyrstu mánuðum ársins 2008 og að yfirdráttur á tékkareikningi væri eina leið félagsins til að fjármagna nauðsynlegar greiðslur. Í skýrslu Ernst & Young hf. frá 14. október 2011 kemur fram að þrátt fyrir endurútreikning gengislánanna, eins og um óverðtryggð lán í íslenskum krónum hafi verið að ræða, hafi Sigurplast ehf. verið ógjaldfært í janúar 2008. Samkvæmt framlagðri skrá yfir lýstar kröfur í þrotabúið, dags. 4. júlí 2011, námu þær 1.331.352.345 kr. Samþykktar kröfur námu þó lægri fjárhæð, einkum vegna framangreinds endurútreiknings lána Arion banka hf. Ekkert liggur fyrir um eignir þrotabúsins eða að hvaða leyti það muni greiða upp í kröfur á hendur því. Þegar framangreind atriði eru virt í heild verður ekki talið að stefnanda hafi tekist að sýna fram á að greiðsla Sigurplasts ehf., að fjárhæð samtals 12.654.709 kr. til stefnda, hafi skert greiðslugetu félagsins verulega í skilningi 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991.

Stefnandi byggir jafnframt riftunarkröfu sína á 141. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt ákvæðinu er unnt að krefjast riftunar ráðstafana sem á ótilhlýðilegan hátt eru kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, leiða til þess að eignir þrotamannsins verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiða til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, ef þrotamaðurinn var ógjaldfær eða varð það vegna ráðstöfunarinnar og sá sem hafði hag af henni vissi eða mátti vita um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg. Til stuðnings þess að ráðstöfunin hafi verið ótilhýðileg er af hálfu stefnda vísað til þess að Sigurplast ehf. hafi greitt umræddar skuldir sínar við stefnda í þeim tilgangi að fyrirsvarsmenn félagsins þyrftu ekki að þola refsiviðurlög fyrir vanrækslu á greiðslu opinberra gjalda. Á sama tíma hafi félagið verið ógjaldfært og í miklum lausafjárvanda. Eins og fram hefur komið var Sigurplast ehf. í atvinnurekstri þar til félagið var tekið til gjaldþrotaskipta og voru kröfur stefnda um greiðslu opinberra gjalda til komnar vegna reksturs þess á síðustu mánuðum fyrir gjaldþrotið. Að mati dómsins getur greiðsla opinberra gjalda við þessar aðstæður ekki talist ótilhýðileg. Hvað sem því líður verður heldur ekki fallist á það með stefnanda að stefndi hafi vitað eða mátt vita um ógjaldfærni félagsins. Er þá litið til þess að innheimtumaður ríkissjóðs hafði aldrei þurft að grípa til innheimtuaðgerða gagnvart félaginu og að ósannað er honum hafi verið kunnugt um vanskil þess á lánum. Bendir framlagt yfirlit Creditinfo í raun til þess að hann hafi ekki flett félaginu upp í vanskilaskrá fyrr en eftir að honum barst yfirlýsing skiptstjóra stefnda um riftun vorið 2011. Nær því riftun ekki fram að ganga á grundvelli 141. gr. laga nr. 19/1991.

Samkvæmt framansögðu er kröfum stefnanda, um riftun á greiðslum Sigurplasts ehf. til stefnda að fjárhæð samtals 12.645.709 krónur, hafnað.

Í samræmi við þessa niðurstöðu, og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 300.000 kr.

Dóminn kvað upp Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari.

 

D Ó M S O R Ð

 

Stefndi, íslenska ríkið, er sýknað af kröfum stefnanda, þrotabús Splasts ehf., í máli þessu.

Stefnandi greiði stefnda 300.000 kr. í málskostnað.

 

                                                              Kolbrún Sævarsdóttir