• Lykilorð:
  • Hegningarauki
  • Kynferðisbrot
  • Nauðgun
  • Skilorðsrof

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur mánudaginn 5. mars 2018 í máli nr. S-613/2017:

Ákæruvaldið

(Hrafnhildur M. Gunnarsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Stefán Karl Kristjánsson lögmaður)

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 5. febrúar sl., er höfðað með ákæru héraðssaksóknara, útgefinni 25. október 2017, á hendur X, kennitala [...], [..., ...], fyrir nauðgun, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 6. febrúar 2016, á heimili sínu að [...], haft samræði og önnur kynferðismök við A, gegn hennar vilja með því að beita hana ofbeldi og ólögmætri nauðung, meðal annars með því að káfa á brjóstum hennar og kynfærum, draga hana fram úr rúmi sem hún lá í, þrýsta henni upp að vegg og setja fingur í leggöng hennar, afklæða hana, ýta henni þannig að hún féll í rúmið og hafa þar við hana samfarir, en ákærði lét ekki af háttseminni þrátt fyrir það að A hefði látið hann vita að hún vildi þetta ekki, bæði hann ítrekað um að hætta og reyndi að ýta honum burt.

            Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

            Af hálfu A, kt. [...], er krafist miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 2.500.000 krónur auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 6. febrúar 2016 þar til mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist greiðslu þóknunar réttargæslumanns úr hendi ákærða að mati dómara eða skv. síðar framlagðri tímaskýrslu lögmanns, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

 

            Verjandi ákærða krefst þess aðallega að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins en til vara að honum verði ekki gerð refsing og að því frágengnu að hann verði dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa sem öll verði skilorðsbundin. Jafnframt krefst hann aðallega frávísunar bótakröfu en til vara verulegrar lækkunar. Þá krefst verjandi hæfilegra málsvarnarlauna sem greiðist úr ríkissjóði.

 

 

Málsatvik

            Þann 6. febrúar 2016 kom brotaþoli, A, á lögreglustöðina á [...] til þess að kæra kynferðisbrot af hálfu ákærða. Hún lýsti því að hún hefði farið með vinum sínum frá [...] til [...] til að skemmta sér kvöldið áður. Hún hefði fengið sér drykk á barnum. Vinir hennar hefðu talið að eitthvað hefði verið sett í drykkinn hennar þar sem hún hefði verið orðin of drukkin til að halda sér vakandi, en hún hefði þá bara verið búin að drekka of mikið. Hún hefði drukkið tvo til þrjá bjóra og hálfan lítra af Tópas.

            Vinkona hennar hefði þá athugað hjá vini hennar, ákærða, hvort hún gæti fengið gistingu hjá honum. Brotaþoli hefði kynnst ákærða fyrir nokkrum árum. Þau hefðu „dúllað“ sér saman og verið á byrjunarstigi sem kærustupar, en það hefði ekki virkað þar sem hún hefði búið á [...] á þeim tíma. Þau hefðu hist nokkrum sinnum eftir þetta. Hún þekkti ekki marga í [...] og hann hefði verið sá fyrsti sem henni hefði dottið í hug að gæti reddað henni gistingu. Hún hefði getað fengið gistingu hjá honum og hann hefði komið ásamt vini sínum til að sækja hana. Þeim hefði verið ekið heim til ákærða. Hún hefði komið þangað áður og því þekkt eitthvað til og vitað að svefnherbergin væru öll í röð. Ákærði hefði sagt að foreldrar hans og systir væru sofandi, en hún hefði ekki orðið vör við neinn.

            Hún hefði ætlað að fara að sofa og hann lánað henni náttföt eða stuttbuxur til að sofa í. Hann hefði svo neitað henni um náttfötin þannig að hún hefði þurft að sofa með sængina þétt utan um sig. Hún hefði þá verið í skyrtu og nærfötum. Ákærði hefði ekki viljað leyfa henni að sofna og farið að káfa á brjóstum hennar og kynfærum. Hún hefði sagt nei við því en hann ekki hlustað. Hann hefði svo farið fram og hún þá sent vinkonu sinni smáskilaboð og sagt að hún vildi fara heim þar sem sér liði ekki vel. Hún hefði reynt að bíða þangað til vinkonan svaraði en á meðan hefði hann dregið hana úr rúminu, látið hana standa, ýtt henni upp að vegg og káfað á henni. Hann hefði sett hendurnar inn í kynfæri hennar og klætt hana úr nærfötunum. Hún hefði ekki tekið eftir einhverju sérstöku við líkama hans þar sem hann hefði alltaf látið hana snúa baki í sig. Síðan hefði hann hent henni á rúmið og sett typpið inn í hana. Hún hefði fallið á magann á rúmið. Hann hefði allan tímann verið aftan við hana og það hefði verið eina stellingin. Hún hefði reynt að snúa sér en hann hefði alltaf ýtt henni til baka. Hún hefði sagt nei en hann hefði samt haldið áfram. Hún hefði einnig reynt að ýta honum burt en það hefði ekki gengið. Hann hefði fengið sáðlát á bakið á henni og reynt að þurrka það af með klósettpappír. Þetta hefði í allt tekið fimm til tíu mínútur. Ákærði hefði ekkert sagt við hana á meðan og ekki svarað neinu þegar hún hefði beðið hann að hætta. Hún taldi að á þessum tíma hefði verið byrjað að renna af henni og hún hefði átt auðvelt með gang þegar hún hefði komið heim til ákærða. Hún myndi öll atvik því vel. Ákærði hefði verið ódrukkinn.

            Eftir þetta hefði hún séð skilaboð frá vinkonu sinni um að hún væri að koma að sækja hana. Hún hefði farið í stuttbuxurnar sem ákærði hefði ætlað að lána henni og skyrtuna sína. Þegar vinkona hennar hefði komið hefði ákærði látið eins og ekkert hefði gerst. Tveir vinir hennar hefðu einnig komið og ökumaður. Hún hefði sest inn í bifreiðina og farið að gráta á öxlinni á vinkonu sinni og segja henni hvað hefði gerst. Vinkona hennar hefði reynt að hugga hana og þau hefðu ekið heim til [...]. Hún hefði ekkert getað sofið um nóttina. Hún hefði svo rætt við foreldra sína þennan dag, sem hefðu sagt henni að fara á lögreglustöðina og kæra þetta.

            Brotaþoli gaf aftur skýrslu hjá lögreglu 11. maí 2016. Hún lýsti því þá að hún hefði verið heima að drekka með vinum sínum. Henni hefði dottið í hug að setja sig í samband við ákærða enda hefðu þau oft spjallað saman um alls konar hluti. Hún hefði verið í samskiptum við hann á snapchat allt kvöldið. Þau hefðu sent smáskilaboð síðar um nóttina og þau hefðu rætt um gistingu þá. Hún þekkti ekki marga í [...] og besta vinkona hennar hefði ráðlagt henni að leita sér að gistingu því hún væri ekki í ástandi til að reyna að koma sér heim. Þar sem hún hefði verið að spjalla við ákærða allt kvöldið hefði henni dottið hann fyrst í hug. Hún taldi að ölvunarástand sitt hefði verið um átta á kvarðanum einn til tíu. Ákærði hefði ætlað að lána sér stuttbuxur sem hann hefði dregið til hliðar þegar hún hefði ætlað að fara í þær. Hún hefði að lokum fengið stuttbuxurnar og verið í þeim þar til vinkona hennar hefði komið og sótt hana. Hún hefði einnig klætt sig í hlýrabol og skyrtu. Þau hefðu farið í [...] og hann hefði sett þætti eða mynd í sjónvarpið. Hún hefði setið aðeins frá honum og verið í símanum að reyna að ná sambandi við vinkonu sína til þess að fá hana til að sækja sig. Þau hefðu verið þarna í 15–20 mínútur. Hún hefði svo sagt honum að hún væri að fara þar sem hún væri orðin þreytt og vildi sofa í rúminu sínu. Hann hefði farið með henni inn í herbergi þar sem hún hefði klætt sig í fötin sín og svo hefði hann fylgt henni út og talað við strákana fyrir utan. Hún hefði sagt vinkonu sinni frá því sem gerst hefði um leið og hún hefði komið að sækja hana. Hún hefði dregið hana til hliðar og gengið aðeins frá með henni til að ræða við hana. Hún hefði svo sest inn í bifreiðina en ekki kvatt ákærða.

            Spurð hvers vegna hún hefði ekki kallað á hjálp, vitandi af fleira fólki í húsinu, sagðist hún ekki hafa viljað vekja neinn, ekki viljað vera „dónalegur gestur“ og ekki þorað að öskra. Hún kvaðst stundum hafa verið hrædd við ákærða því hún hefði frétt ýmislegt frá vinkonum sínum um hann áður en hún hefði farið til hans. Fram að þessum tíma hefði hann þó alltaf komið vel fram við hana.

            Á leiðinni hefði ákærði sent henni smáskilaboð, hún hefði svarað honum en síðan hefði vinkona hennar tekið við og svarað honum. Hún væri betri í slíku og hefði spurt hvort hún mætti svara honum. Hún hefði leyft henni það. Þegar hún hefði komið heim hefðu hún og vinur hennar farið inn í íbúð en hin farið að sækja kærasta vinkonu hennar.

            Fyrsta mánuðinn eftir atvikið hefði hún átt erfitt með samskipti og svefn og líðan hennar verið upp og ofan. Hún hefði hætt að mæta í skólann, en væri nú komin í vinnu. Hún hefði farið til sálfræðings en ekki mætt í síðasta tímann. Hún hefði ekki átt nein samskipti við ákærða, en vinkona hennar hefði rætt við hann á snapchat.

            Ákærði var handtekinn 6. febrúar 2016. Við yfirheyrslu hjá lögreglu neitaði hann sök en sagðist hafa haft samfarir við brotaþola með hennar samþykki.

            Í skýrslu neyðarmóttöku vegna komu brotaþola 6. febrúar 2016 er greint frá frásögn hennar þannig að hún hafi nóttina áður farið að skemmta sér í [...]. Hún hafi verið orðin nokkuð ölvuð og hafi vantað stað til að gista á. Í gegnum vinkonu hafi hún fengið að gista heima hjá vini sínum sem búi hjá foreldrum sínum. Þar hafi hann boðið henni stuttbuxur að sofa í sem hann hafi svo tekið af henni þegar hún hefði verið búin að afklæðast og káfað á henni og snert á ýmsa vegu sem hún hefði ekki viljað. Hann hefði svo ýtt henni að rúminu og haldið höndum hennar fyrir ofan höfuð svo hún gæti ekki ýtt honum frá sér. Hann hefði svo haft samfarir við hana um leggöng og fengið sáðlát yfir bakið á henni. Hún hefði ekki viljað öskra til að vekja ekki foreldra hans sem hefðu verið heima. Hún hefði þó verið mjög skýr um að hún vildi ekki taka þátt í þessu. Strax á eftir hefði hún hringt í vinkonu sína. Í skýrslunni kemur fram að brotaþoli hafi verið skýr, róleg og yfirveguð og sagt vel frá atburðum. Hún segðist hafa grátið heilmikið og fengið stuðning frá vinkonu sinni. Ekki voru sjáanlegir áverkar á brotaþola.

            Í vottorði B sálfræðings kemur fram að brotaþola hafi verið vísað til hennar af neyðarmóttöku í sálfræðilegt mat og sálræna skyndihjálp. Hún hafi hitt brotaþola tvisvar sinnum, 22. febrúar og 2. mars 2016. Í fyrra viðtalinu hafi brotaþoli borið sig vel í upphafi en brostið í grát þegar farið hefði verið að ræða ætlað kynferðisbrot. Hún hafi lýst því að hafa verið að skemmta sér í [...], hafa vantað stað til að gista á og hafa haft samband við vin sinn til að fá að gista. Hann hefði fljótlega farið að káfa á henni en hún hefði ítrekað sagt nei. Hún hefði þá þegar fundið til ótta. Hann hefði haldið áfram að káfa á henni og kyssa hana og hún hefði reynt að ýta honum burt. Að endingu hefði hann komið fram vilja sínum með því að hafa samfarir við hana um leggöng, gegn vilja hennar. Hún hefði í upphafi fundið fyrir miklum ótta, en síðan hefði hún frosið, slokknað á henni og hún orðið alveg tóm. Eftir atvikið hefði hellst yfir hana mikil vanlíðan, sársauki og löngun til að lifa ekki lengur. Í öðru viðtali hafi brotaþoli greint frá því að líðan hennar batnaði með hverjum deginum. Brotaþoli hafi þrisvar átt bókaðan tíma eftir þetta en ekki mætt. Hún hafi rætt við hana í síma 16. mars 2016 þar sem hún hefði sagt líðan sína sveiflast töluvert. Í símtali 5. apríl 2016 hafi hún sagt líðan sína góða og neitað því að henni fyndist ætlað kynferðisofbeldi enn vera að trufla sig. Hún hafi ekki talið sig þurfa frekari aðstoð. Hún hafi þó þegið lokatíma sem hafi verið áætlaður 19. apríl 2016 en hún hafi ekki mætt.

            Það er álit sálfræðingsins að brotaþoli hafi í upphafi sýnt mikil sálræn einkenni eins og þekkt séu hjá þeim sem hafi upplifað alvarleg áföll. Í síðara viðtali, tíu dögum seinna, hafi hún greint frá mun betri líðan þótt skor á sjálfsmatskvörðum væru enn há. Þar sem enn hafi verið innan við mánuður frá ætluðu kynferðisofbeldi hafi ekki verið tímabært að gera formlega greiningu á áfallastreituröskun. Rannsóknir sýni að ákveðið hlutfall þeirra sem verði fyrir kynferðisofbeldi jafni sig án formlegrar meðferðar. Það eigi hugsanlega við í þessu tilviki þótt ekki sé hægt að segja til um það með vissu. Brotaþoli hafi tekið vel við fræðslu um bjargráð og hegðun í kjölfar áfalla sem hún hafi fengið í fyrsta viðtali. Hugsanlega hafi það hjálpað henni þannig að hún hafi ekki talið sig þurfa frekari aðstoð. en einnig sé mögulegt að um forðunareinkenni sé að ræða. Ekki sé hægt að segja til um þróun einkenna áfallastreituröskunar hjá brotaþola eftir að viðtölum hafi lokið en ljóst sé að ætlað kynferðisbrot hafi haft mikil áhrif á líðan hennar fyrstu vikurnar.

            Meðal gagna málsins eru upplýsingar um símasamskipti og smáskilaboð milli ákærða og brotaþola 6. febrúar 2016. Samskiptin hefjast kl. 03:07 með skilaboðum frá brotaþola til ákærða. Þau ræða um það hvort hún eigi að koma til hans og m.a. kemur fram hjá brotaþola að hún sé „frekar full“. Þau ræða svo um það hvernig brotaþoli komist til ákærða. Kl. 03:47 eru skilaboð til ákærða: „Komiði sem fyrst kv C og eg kem með hana ut“. Ákærði á í framhaldi samskipti við vinkonu ákærðu og býður henni m.a. að gista líka, en hún kveðst vera með far. Kl. 04:16 fær ákærði skilaboð: „Er að koma með hana“. Næstu samskipti eru kl. 06:14, en þá sendir ákærði „Er ekki allt í lagi?“og brotaþoli svarar „Nei það er ekki alltilagi? Hvað heldur þu?“ Í framhaldinu eiga þau samskipti til kl. 8:09 um morguninn. Þá kemur fram að nokkur símtöl hafi átt sér stað á milli ákærða og brotaþola frá kl. 03:40 til 04:06.

            Þá liggja fyrir upplýsingar um símasamskipti brotaþola og vinkonu hennar, C, sama dag. Kl. 04:25 sendir brotaþoli „Miss u already“ og fær svarið „I 2 baby“. Kl. 05:16 sendir brotaþoli „Me wanted to go home with you guys“ og vinkona hennar svarar „Eigum við að sækja þig“ og skömmu síðar „???“. Kl. 05:20 sendir brotaþoli „Er þiðenþa i [...]?“. Kl. 05:25 skrifar brotaþoli „We really need to talk i dont feel so good“. Kl. 07:16 sendir vinkona hennar „Ég er til“. Þá kemur fram að brotaþoli hringdi í vinkonu sína kl. 05:25 og stóð samtal þeirra í 87 sekúndur. Hún reyndi aftur að hringja kl. 05:48, án árangurs, en vinkonan hringdi til baka mínútu síðar og stóð samtal þeirra í um tvær mínútur. Þá hringdi vinkonan aftur kl. 05:59 og 06:05 og vörðu símtölin í 13 og 54 sekúndur.

 

Framburður ákærða og vitna fyrir dómi

            Ákærði kvaðst hafa kynnst brotaþola nokkrum árum fyrr. Þau hefðu hist í nokkur skipti. Það hefðu ekki verið kynferðisleg samskipti þeirra á milli en þau hefðu kysst tvisvar sinnum. Að kvöldi 5. febrúar 2016 hefði brotaþoli sent honum skilaboð á facebook eða snapchat og beðið hann að koma niður í [...]. Hann hefði ekki viljað það og hún þá beðið hann um far til [...]. Hann hefði þá boðið henni gistingu hjá sér. Hann hefði farið með vini sínum að sækja hana í [...]. Hún hefði verið drukkin, en ekki ofurölvi. Hann hefði opnað gluggann í bílnum og gefið henni vatn að drekka. Ástand hennar hefði verið betra þegar heim var komið. Öll fjölskyldan hefði verið heima. Þau brotaþoli hefðu lokað svefnherbergisdyrunum, en opið hefði verið inn til hinna. Hann hefði boðið henni stuttbuxur til að sofa í. Þau hefðu lagst í rúmið og hún snúið baki í hann. Hann hefði snúið henni við og kysst hana. Þau hefðu síðan kysst og tekið hvort annað úr fötunum. Þau hefðu svo haft samfarir sem hefðu endað með því að hann hefði haft sáðlát yfir bak hennar. Eftir það hefði hann farið fram og náð í þurrku. Hann hefði ekki farið neitt út úr herberginu fyrr en þá og ekki tekið eftir því að brotaþoli hefði notað símann. Hann hefði svo boðið henni inn í [...] að horfa á sjónvarpið og hún hefði þegið það. Þar hefði hún sagt frá því að henni hefði boðist far heim. Hann hefði sagt henni að þiggja farið. Þegar vinir hennar hefðu komið hefði hann farið út með henni og rætt við strákana. Stelpurnar hefðu farið afsíðis og talað saman. Þær hefðu svo sent skilaboð til strákanna. Hann hefði farið inn en fundist eins og eitthvað væri að. Hann hefði ekki séð nein merki þess að henni liði illa fyrr en hún hefði farið afsíðis með vinkonu sinni. Hann hefði því sent henni skilaboð stuttu seinna. Hún hefði svarað með einhverjum pirringi. Hann hefði því sagt það við hana sem hann hefði haldið að hún vildi heyra til að komast hjá rifrildi eða leiðindum. Ákærði lýsti því að hann hefði átt við erfiðleika að stríða vegna kæru brotaþola og hefði þurft að leita sér sálfræðiaðstoðar. Betur gengi hjá honum í dag, en hann væri nú í vinnu og hefði nýlega eignast barn.

            Brotaþoli kvaðst hafa kynnst ákærða árið 2012. Þau hefðu „dúllað sér saman“ og hefðu hist nokkrum sinnum. Vinir hennar hefðu þekkt ákærða og ekki verið sáttir við að þau væru saman. Þau hefðu byrjað að tala saman aftur í janúar 2016 eftir nokkurra mánaða hlé. Kvöldið í febrúar 2016 hefði hún verið að skemmta sér heima hjá sér í [...] og ákveðið að fara á [...]. Hún hefði verið búin að drekka „slatta“ og verið í slæmu ástandi. Hún hefði verið í samskiptum við ákærða allt kvöldið á snapchat og síðan í smáskilaboðum. Þetta hefði byrjað með því að hún hefði sent snapchat til nokkurra aðila um að hún væri að fara í [...]. Hún hefði snemma kvöldsins sagt honum að hún væri að reyna að útvega sér gistingu. Hann hefði svo sagt henni í smáskilaboðum að hún gæti fengið gistingu hjá honum. Hún hefði ekki haft far til baka til [...]. Hún hefði verið það drukkin að vinkona hennar hefði tekið við símanum og átt samskiptin við ákærða fyrir hennar hönd. Hún muni eftir einhverju af því. Hún kvaðst ekki vita hvað hún hefði átt við þegar ákærði hefði spurt hana hvað hún vildi gera þegar hún kæmi til hans og hún hefði svarað að hún væri ekki viss, hún væri alveg frekar full. Ákærði og vinur hans hefðu sótt hana í [...]. Hún hefði þá ekki getað staðið í fæturna. Þegar heim til ákærða hefði verið komið hefðu þau farið inn í herbergið hans. Þá hefði verið byrjað að renna af henni og hún hefði verið farin að átta sig á aðstæðum. Hann hefði ætlað að lána henni stuttbuxur til að sofa í, en hefði tekið þær af henni, sagt að hún þyrfti þær ekki og kastað þeim í gólfið. Hún hefði aldrei farið í stuttbuxurnar. Hann hefði togað hana upp af rúminu þar sem hún hefði setið og ýtt henni upp að vegg. Ekkert hefði gerst fyrir það. Spurð um framburð hennar um það hjá lögreglu kvaðst hún ekki muna nákvæmlega hvernig þetta hefði gerst og þetta rifjaðist ekki allt upp fyrir henni. Hún mundi ekki eftir því að hafa farið undir sæng. Hún hefði þó munað allt þegar hún hefði gefið skýrsluna hjá lögreglu.

            Þar sem hún hefði staðið upp við vegg hefði ákærði reynt að kyssa hana, káfa á henni og sett fingur í leggöng hennar. Hún hefði ítrekað reynt að fá hann til að hætta og sagt að hún vildi þetta ekki, hún væri ekki tilbúin í þetta. Hún hefði verið í þannig ástandi að hún hefði ekki haft stjórn á sér. Hún taldi að hún hefði náð að verja sig ef hún hefði ekki verið svona drukkin. Hún hefði reynt að færa höfuðið undan og hefði a.m.k. tvisvar eða þrisvar reynt að ýta honum burt. Hann hefði svo farið aftur fyrir hana, ýtt henni frá veggnum og hún hefði dottið á rúmið. Á því augnabliki hefði slokknað á öllu og henni fundist hún sjá svart. Þá hefði hún orðið rosalega hrædd. Hún hefði ekki vitað hvernig hún hefði átt að hegða sér og óttast að hún væri ósjálfbjarga. Hún muni lítið eftir þessum hluta atburðarásarinnar. Hún hefði lent á bakinu í rúminu og þá hefði hann tekið hana úr nærbuxunum. Þar sem hún hefði legið á bakinu hefði hann farið ofan á hana og haft samræði við hana. Þetta hefði endað með því að hann hefði fengið sáðlát á bak hennar og reynt að þurrka það með pappír. Hún hlyti að hafa snúist við einhvern tímann en hún myndi ekki eftir því. Spurð um þann framburð hjá lögreglu að hún hefði lent á maganum taldi hún að hún hefði örugglega gleymt að segja frá þessu þar. Henni hefði liðið mjög illa í fyrri skýrslutökunni og ekki verið tilbúin til að tala um það sem gerst hefði. Í seinni skýrslunni hefði hún verið tilbúnari til að ræða um þetta. Hún myndi núna eftir því að hafa legið á bakinu. Hún hefði náð áttum þegar þessu hefði lokið. Hún hefði klætt sig í fötin sín og haft samband við vinkonu sína og spurt hvort hún gæti sótt hana. Hún hefði sagt vinkonu sinni að sér liði illa og hún þyrfti að tala við hana.

            Hún kvaðst ekki vita hvort einhver hefði verið heima hjá ákærða. Spurð um framburð hennar hjá lögreglu um að hún hefði vitað af fólki í húsinu taldi hún að það hefði þá örugglega verið þannig. Hún hefði ekki öskrað þar sem hún væri ekki manneskja sem öskraði, nema hún yrði „rosalega pirruð“. Hún hefði verið hrædd við hvað hann myndi gera ef hún öskraði, auk þess sem henni fyndist það dónalegt. Þau ákærði hefðu sest inn í [...] og horft á sjónvarp. Á meðan hefði hún athugað hjá vinkonu sinni hvað væri langt í hana. Þegar hún hefði komið að sækja hana hefði hún gengið aðeins burt með henni og sagt henni hvað hún héldi að hefði verið að gerast. Hún hefði sjálf enn þá verið að reyna að átta sig á hlutunum. Hún hefði sagt henni að það hefðu gerst hlutir sem hún hefði ekki viljað að hefðu gerst og hún vissi ekki hvað hún ætti að gera. Vinkonan hefði spurt hana hvað hún ætti við og hún hefði sagt henni að það hefðu verið samfarir án leyfis. Vinkona hennar hefði fylgt henni í bifreiðina og þau hefðu ekið til [...]. Hún hefði ekki viljað fara á lögreglustöð, heldur bara gleyma þessu og fara heim. Hún hefði grátið allan tímann í bifreiðinni og strákarnir þrír sem hefðu verið með þeim hefðu spurt hana hvað hefði gerst. Hún hefði ekki sagt þeim alla söguna, bara að ákærði hefði ekki virt orðið nei. Hún hefði átt samskipti við ákærða með smáskilaboðum á meðan hún hefði verið í bifreiðinni. Hún hefði svarað sjálf en vinkona hennar hefði hjálpað henni með hvað hún ætti að segja.

            Daginn eftir hefði hún sagt móður sinni frá því að sér hefði verið nauðgað. Móðir hennar hefði rætt við vinkonu hennar og þær hefðu á endanum getað sannfært hana um að fara á lögreglustöð og kæra. Eftir þetta hefði henni fundist hún vera „ónýt“ bæði andlega og líkamlega. Hún hefði áður verið greind með þunglyndi en líðan hennar hefði versnað töluvert eftir þetta. Hún hefði mætt til sálfræðings tvisvar sinnum en átt fleiri tíma. Henni liði betur í dag.

            Vitnið D, móðir brotaþola, kvaðst hafa hringt í hana á Skype kvöldið eftir atvikið. Hún hefði séð að eitthvað væri að en brotaþoli hefði átt erfitt með að segja frá því. Hún hefði talið að hún væri „þunn“ en svo hefði hún sagt að ákærði hefði komið fram vilja sínum. Hún hefði hins vegar ekki lýst því nánar. Hún hefði verið treg til að kæra, en vitnið hefði rætt við vinkonu hennar og þær náð að sannfæra hana. Hún hefði tekið eftir breytingum á brotaþola eftir þetta. Hún hefði flosnað upp úr námi og lokað sig af.

            Vitnið E, móðir ákærða, greindi frá því að umrædda nótt hefði öll fjölskyldan verið sofandi heima. Það hefði verið opið inn til þeirra og mjög hljóðbært væri í húsinu. Ekkert þeirra hefði orðið vart við neitt. Þá lýsti hún áhrifum málsins á fjölskylduna og ákærða og greindi frá því að betur gengi hjá honum í dag.

            Vitnið F kvaðst hafa búið með brotaþola á þessum tíma. Þær væru mjög góðar vinkonur. Þetta kvöld hefði brotaþoli verið mjög drukkin og verið ælandi inni á klósetti. Hún hefði verið í sambandi við vin sinn en verið svo drukkin að hún hefði ekki getað talað við hann. Hún hefði sagst ætla að gista hjá honum og farið heim til hans. Brotaþoli hefði þó alveg haft far til baka. Hún hefði fylgt henni þegar hann hefði sótt hana. Hún hefði verið í þannig ástandi að hún hefði ekki getað gengið óstudd og augljóst að hún væri mjög drukkin. Hún hefði sjálf haldið áfram að skemmta sér en hún hefði ekki verið mjög drukkin og myndi allt vel frá þessu kvöldi. Brotaþoli hefði svo hringt í hana og beðið hana að sækja sig. Þegar hún hefði komið hefði hún strax séð að eitthvað væri að, en brotaþoli hefði ekki verið búin að segja neitt. Þær hefðu gengið saman út götuna og þá hefði brotaþoli sagt að sér hefði verið nauðgað. Hún hefði lýst því að sér hefði verið hent aftur á bak á rúmið en hún hefði ekki lýst þessu í smáatriðum. Hún hefði svo grátið í bifreiðinni alla leiðina til [...]. Strákarnir sem hefðu verið með þeim hefðu orðið mjög reiðir og ökumaðurinn viljað snúa við. Eftir að heim var komið hefði hún setið hjá brotaþola þar til hún sofnaði. Daginn eftir hefði hún dregið hana á lögreglustöð að kæra. Eftir þetta hefði brotaþoli hætt í námi, hætt að fara út og byrjað að skera sig aftur. Vitnið lýsti því að hún hefði sent skilaboð úr síma brotaþola þessa nótt. Hún hefði meðal annars sent skilaboðin „Gefðu mér eina ástæðu til að hata þig ekki“ og „Fyrirgefðu lagar ekki allt“ eftir atvikið. Eftir að heim hefði verið komið hefði brotaþoli setið í sófanum og haldið áfram samskiptum við ákærða og hún hefði verið með henni.

            Vitnið G kvaðst hafa verið vinur brotaþola og hafa farið með henni í [...] þetta kvöld. Hann hefði verið mjög drukkinn og myndi ekki mikið eftir kvöldinu eða ástandi brotaþola. Hann myndi ekki til þess að hafa séð hana drekka. Hún hefði farið frá hópnum og ætlað að gista hjá einhverjum. Hann hefði farið með að sækja hana þangað. Hann hefði setið frammi í bifreiðinni en brotaþoli aftur í ásamt vinkonu þeirra og vini. Stelpurnar hefðu verið mjög þöglar á leiðinni. Þær hefðu ekki sagt neitt fyrr en þau hefðu komið að [...]. Þar hefðu þær farið að hvíslast á. Honum hefði verið sagt daginn eftir að brotaþoli hefði grátið í bifreiðinni en hann myndi ekki til þess. Spurður um framburð hans hjá lögreglu um grát brotaþola kvaðst hann geta hafa verið að ruglast með hvíslið, það gæti hafa verið grátur, en hann myndi þó ekki til þess að brotaþoli hefði grátið. Hann hefði farið heim í íbúð brotaþola og vinkonu hennar eftir þetta en hann hefði fljótlega farið að sofa. Hann hefði ekki orðið var við að brotaþoli væri í uppnámi og myndi ekki eftir ástandi hennar daginn eftir, en taldi þó að hún hefði lokað sig af næstu daga. Hann hefði ekki orðið var við breytingar á henni eftir þetta. Hann hefði ekki verið í samskiptum við hana frá því í mars eða apríl 2016.

            Vitnið H sagði að brotaþoli væri [...] en þau töluðu lítið saman í dag. Hann þekkti ákærða í gegnum sameiginlegan félaga. Þessa helgi hefði hann verið að skemmta sér með brotaþola og fleirum. Hún hefði viljað fara heim til ákærða um kvöldið, en hann hefði ekki vitað af hverju. Hann hefði verið undir áhrifum áfengis og fíkniefna þetta kvöld en brotaþoli hefði ekki virst vera mjög drukkin. Hann hefði sótt brotaþola til ákærða síðar um nóttina. Honum hefði þá sýnst að henni liði illa og hún væri þrútin um augun. Hún hefði ekki minnst á að eitthvað hefði gerst fyrr en þau hefðu verið komin hálfa leið til [...]. Hann kvaðst minna að hún hefði setið frammi í bifreiðinni. Hann myndi ekki vel eftir ferðinni, en brotaþoli hefði virst vera hálfmáttlaus og mjög hugsi. Honum hefði fundist að henni liði illa. Á leiðinni hefði hún opnað sig og talað um eitthvað tengt kynferðisbroti. Hann hefði farið með heim til hennar eftir þetta en hann myndi ekkert hvað hefði gerst þar. Brotaþoli hefði lokað sig inni í herbergi næstu daga og liðið illa. Spurður um skýrslu sína hjá lögreglu kvaðst vitnið ekkert muna hvað hann hefði sagt þar.

            Vitnið I kvaðst ekki þekkja brotaþola en hafa ekið henni og vinum hennar til [...] þessa nótt. Hann hefði séð hana koma út frá ákærða og ekki séð annað en allt væri í lagi. Hún hefði setið fyrir aftan hann í bifreiðinni. Eftir dálitla stund hefði hann tekið eftir því að eitthvað væri að. Hún hefði þá verið að hvíslast á við vinkonu sína. Hann hefði ekki vitað fyrr en eftir á um hvað málið snerist. G hefði sagt honum að brotaþola hefði verið nauðgað. Hann hefði ekki tekið eftir því að hún hefði grátið en sér hefði virst eins og hún væri reið eða pirruð. Brotaþoli hefði litið út fyrir að hafa „fengið sér smá“. Spurður um framburð hjá lögreglu um grát í bifreiðinni taldi hann að hann hefði verið að greina rétt frá en hann myndi þó ekki mikið eftir því.

            Vitnið J kvað brotaþola vera góða vinkonu sína. Hann hefði þessa nótt verið farinn heim á undan henni. Hún hefði virst hress um kvöldið en síðan skyndilega eins og hún væri orðin mjög ölvuð. Vinkona brotaþola, sem hefði verið kærastan hans á þessum tíma, hefði sagt honum að eitthvað hefði komið upp á. Hún hefði sótt hann og þau farið í íbúð stelpnanna. Hann muni ekki hvað hefði gerst þar. Honum leiðist svona mál og hafi forðast að setja sig inn í það. Brotaþola hafi hins vegar liðið illa eftir þetta. Spurður um framburð sinn hjá lögreglu um að hann hefði ekki getað merkt að hún væri mikið ölvuð eða nokkuð amaði að kvaðst hann muna þetta betur núna.

            Vitnið K kvaðst vera vinur ákærða. Hann hefði fengið skilaboð frá ákærða sem hefði beðið hann að sækja vinkonu sína í [...]. Hann hefði farið með honum og sótt hana. Hún hefði verið ölvuð en ekkert yfir sig drukkin. Hún hefði til að mynda svarað spurningum um það hvað hún vildi hlusta á í bifreiðinni. Hún hefði getað gengið og talað.

            Vitnið M, læknir á neyðarmóttöku, staðfesti skýrslu sína vegna komu brotaþola. Hún kvaðst ekki muna eftir henni en þetta virtist hafa verið eðlileg skoðun og hún hefði ekki orðið vör við neitt óeðlilegt. Hún hefði ekki séð neina áverka en það kæmi ekki á óvart miðað við frásögn brotaþola. Hún skráði frásögnina venjulega sjálf. Hún myndi þó ekki eftir að hafa hitt brotaþola þessa máls.

            Vitnið N, hjúkrunarfræðingur á neyðarmóttöku, kvaðst minnast þess að hafa tekið á móti brotaþola þótt hún myndi atvik ekki vel. Hún minntist þess að brotaþoli hefði verið dofin en samræmi hefði verið í því sem hún hefði sagt. Hún hefði tekið niður frásögn hennar ásamt lækni. Brotaþoli hefði setið hokin og svitnað og henni hefði virst sem hún hefði byrjandi einkenni áfallastreitu.

            Vitnið B sálfræðingur greindi frá tveimur viðtölum við brotaþola. Hún hefði lýst ágengum minningum og martröðum og greint frá mikilli forðun. Þannig hefði hún varla farið út úr húsi. Hún hefði verið óttaslegin og haft áhyggjur af því að rekast á ákærða. Hún hefði lýst mikilli breytingu á líðan sinni og talið lífið vera búið. Hún hefði brotnað saman og farið að gráta þegar hún hefði verið spurð um atvik málsins en hefði svo róast og getað lýst þessu. Ástand hennar hefði bent til þess að hún gæti uppfyllt skilyrði áfallastreitu. Hún hefði greint frá því þegar hún hefði komið í annað sinn að sér liði betur. Í símtali í byrjun apríl 2016 hefði hún talið að sér liði mun betur og atvikið væri ekki lengur að trufla hana. Hún hefði fallist á að koma aftur en ekki hefði orðið af því. Hugsanlega væri ástæðan forðun, en einnig gæti verið að henni væri farið að líða svona vel. Ekki hefði farið fram mat á einkennum þunglyndis fyrir atburðinn.

 

Niðurstaða

            Ákærði neitar sök. Hann kveðst hafa haft samræði við brotaþola á heimili sínu með hennar samþykki. Brotaþoli lýsti því hins vegar að ákærði hefði þvingað sig til samræðis þrátt fyrir að hún hefði ítrekað neitað og sagt honum að hætta.

            Ákærða og brotaþola ber saman um að hafa átt samskipti á samskiptamiðlum fyrr um kvöldið, en gögn um þau liggja ekki fyrir í málinu. Samskiptin færðust yfir í smáskilaboð kl. 03:07 um nóttina. Af þeim samskiptum má sjá að ákærði býður brotaþola að gista hjá sér og þau skipuleggja hvernig hún kemst til hans. Þá kemur þar fram að brotaþoli er nokkuð drukkin og vinkona hennar fylgir henni til ákærða.

            Brotaþoli greindi frá því að hún hefði verið mjög ölvuð þetta kvöld. Hún sagðist hafa drukkið mikið en gat ekki tilgreint það nánar. Ákærði taldi að hún hefði verið drukkin en ekki ofurölvi. Framburður vitna um ölvunarástand brotaþola er nokkuð misvísandi en til þess er að líta að þau voru sum hver ekki í góðu ástandi til þess að meta það. Ökumenn bifreiðanna sem óku brotaþola til og frá ákærða töldu að hún hefði verið ölvuð og lýstu því þannig annars vegar að hún hefði ekki verið yfir sig drukkin og hins vegar að hún hefði virst hafa fengið sér smá. Brotaþoli og vinkona hennar greindu frá því að hún hefði kastað upp inni á skemmtistaðnum og vinkonan af þeim sökum aðstoðað hana við samskiptin við ákærða. Verður því að leggja til grundvallar að brotaþoli hafi verið undir talsverðum áfengisáhrifum þetta kvöld.

            Ákærði lýsti því fyrir dóminum að þau hefðu lagst upp í rúmið hans. Brotaþoli hefði snúið baki í hann, en hann hefði tekið í öxl hennar, snúið henni við og kysst hana. Þau hefðu þá farið að kyssast og klæða hvort annað úr fötunum. Brotaþoli lýsti því hins vegar fyrir dóminum að hann hefði togað hana af rúminu sem hún hefði setið á og ýtt henni upp að vegg. Hún lýsti upphafinu með nokkrum öðrum hætti hjá lögreglu þar sem kom fram að hún hefði hjúfrað sig undir sæng í rúminu hans, hann hefði komið þangað og káfað á henni, en síðan farið út úr herberginu og hún þá sent vinkonu sinni skilaboð. Hún lýsti því hins vegar með sama hætti að ákærði hefði ýtt henni upp að vegg þar sem hann hefði káfað á henni og stungið fingri í leggöng hennar. Hún hefði ítrekað reynt að fá hann til að hætta, sagt að hún vildi þetta ekki, reynt að ýta honum burt og færa höfuðið undan. Þá lýsti hún því að ákærði hefði ýtt henni þannig að hún hefði fallið á rúmið hans. Hún taldi fyrir dóminum að hún hefði lent á bakinu og ákærði hefði komið ofan á hana þannig og haft samræði við hana, en hjá lögreglu taldi hún hins vegar að hún hefði lent á maganum og ekki getað snúið sér við. Ákærða og brotaþola ber saman um að þessu hafi lokið með því að hann hafi fengið sáðlát yfir bak hennar.

            Eftir þetta fóru ákærði og brotaþoli saman inn í [...] til þess að horfa á sjónvarpið. Brotaþoli var þá í sambandi við vinkonu sína og óskaði eftir því að hún sækti hana. Hún greindi frá því fyrir dóminum að hafa þá farið í sín eigin föt, en sagði hjá lögreglu að hún hefði farið í stuttbuxur sem ákærði hefði lánað henni.

            Vinkona brotaþola kom til þess að sækja hana, ásamt tveimur félögum þeirra og bílstjóra. Ákærða, brotaþola og vinkonu hennar ber saman um að stúlkurnar hafi farið afsíðis og rætt saman áður en þær fóru í bifreiðina og þær lýsa því að brotaþoli hafi þá greint frá ætluðu kynferðisbroti. Brotaþoli kveðst hafa grátið alla leiðina til [...] og vinkona hennar staðfesti það. Framburður annarra sem voru í bifreiðinni er hins vegar óljós um þetta.

            Skömmu eftir að brotaþoli fór frá ákærða sendi hann henni smáskilaboð og spurði hvort allt væri í lagi. Hann greindi frá því að honum hefði fundist eitthvað vera að þegar brotaþoli tók vinkonu sína afsíðis fyrir utan húsið og fór án þess að kveðja. Hann fékk það svar að það væri ekki í lagi og baðst þá afsökunar. Þá fékk hann svarið „Þu verður að gera þer grein fyrir að fyrirgefðu lagar ekki allt“ og sagði „Eg veit það“ og „Vonandi hataru mig ekki :( “ Brotaþoli sendi þá „Gefðu mér eina ástæðu til að hata þig ekki?“ og svar hans var „I didnt mean for all that to happen“. Svar hennar var „Þa bara að skilja hvað nei þyðir“ og hann sagði „I know im sorry“. Fyrir liggur að vinkona brotaþola skrifaði eitthvað af þessum skilaboðum úr hennar síma en ákærði taldi sig vera í samskiptum við brotaþola. Ákærði hefur skýrt skilaboð sín þannig að hann hafi skrifað það sem hann hafi talið að hún vildi heyra til þess að forðast leiðindi.

            Brotaþoli fór til lögreglu og í kjölfarið á neyðarmóttöku vegna kynferðisbrota um kvöldmatarleytið daginn eftir atvikið. Samkvæmt skýrslu neyðarmóttöku var brotaþoli skýr, róleg og yfirveguð og sagði vel frá atburðum. Lýsing hennar á atvikum var með svipuðum hætti og hjá lögreglu að öðru leyti en því að þar kom fram að ákærði hefði haldið höndum hennar fyrir ofan höfuð svo hún gæti ekki ýtt honum frá sér. Fyrir dóminum kannaðist hún ekki við að það hefði gerst.

            Ákærði og brotaþoli eru ein til frásagnar um það sem gerðist á heimili hans umrædda nótt. Ákærði hefur verið stöðugur í framburði sínum um framangreind atvik og er framburður hans ekki ótrúverðugur. Nokkurt misræmi er í framburði brotaþola um atvik, eins og greinir hér að framan. Hún hefur þó borið með sama hætti um þau atriði sem ákæran lýtur að, utan þess að hún bar ekki um það fyrir dóminum að hafa verið dregin fram úr rúmi sem hún lá í. Framburður hennar þykir ekki verða ótrúverðugur af þessum sökum, en eins og að framan greinir var hún töluvert ölvuð þessa nótt.

            Samkvæmt gögnum málsins og framburði fyrir dómi ætlaði brotaþoli að gista hjá ákærða þessa nótt, en eitthvað varð til þess að henni snerist hugur. Af skilaboðum hennar til vinkonu hennar sést að henni fór að líða illa og hún vildi láta sækja sig. Vinkona hennar staðfesti að hún hefði greint frá því að brotið hefði verið gegn henni þegar hún var sótt og hún hefði grátið í bifreiðinni. Þótt framburður annarra sem voru í bifreiðinni um ástand brotaþola hafi verið óljós staðfesti bifreiðarstjórinn, sem ekki var undir áhrifum áfengis, að einn farþeginn hefði sagt sér að brotaþola hefði verið nauðgað. Samskipti ákærða og brotaþola með smáskilaboðum skömmu eftir atvikið benda til þess að ákærði hafi farið yfir mörk brotaþola og hann hefur ekki gefið fullnægjandi skýringar á þessum svörum sínum. Þá hafa vitni borið um slæma líðan brotaþola næstu daga eftir atvikið og sálfræðingur greint frá því að hún hafi haft einkenni áfallastreituröskunar.

            Með hliðsjón af framangreindu er sannað, gegn neitun ákærða, að hann hafi beitt ólögmætri nauðung og haft samræði við brotaþola gegn vilja hennar með þeim hætti sem nánar er lýst í ákæru, að því undanskildu að hann dró hana ekki fram úr rúmi sem hún lá í. Ákærði hefur með háttsemi sinn gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

            Ákærði er fæddur í [...]. Samkvæmt sakavottorði hans var hann dæmdur til 18 mánaða skilorðsbundins fangelsis fyrir brot gegn 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga með [...]. Sú refsing var tekin upp með dómi [...] og var ákærði þá dæmdur í 20 mánaða skilorðsbundið fangelsi til tveggja ára fyrir sams konar brot. Brot ákærða nú var framið fyrir uppkvaðningu síðarnefnda dómsins. Samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga verður dómurinn nú tekinn upp og dæmdur með máli þessu og refsing tiltekin eftir 77. og 78. gr. sömu laga. Við ákvörðun refsingar verður meðal annars litið til þess að brot þau sem ákærði framdi samkvæmt fyrrnefndum dómum Hæstaréttar voru framin fyrir 18 ára aldur ákærða. Ákærði var ungur að árum þegar hann framdi brot það sem hann er nú sakfelldur fyrir og nokkuð langt er um liðið frá því. Þá verður litið til þess að tafir hafa orðið á meðferð málsins, en samkvæmt gögnum málsins lauk rannsókn þess í maí 2016 en ákæra var ekki gefin út fyrr en í október 2017. Með hliðsjón af öllu framangreindu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í þrjú ár og sex mánuði.

            Af hálfu brotaþola er krafist miskabóta að fjárhæð 2.500.000 krónur. Með vísan til b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 verður ákærði dæmdur til að greiða brotaþola miskabætur. Brot hans var til þess fallið að valda brotaþola andlegri vanlíðan. Af vottorði og framburði sálfræðings fyrir dóminn, auk framburðar vitna, verður ráðið að brotaþoli glímdi við erfiðleika, einkum fyrst eftir atvikið. Þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 1.500.000 krónur með vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði.

            Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar lögmanns, 1.009.360 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Jóhannesar Alberts Kristbjörnssonar lögmanns, 683.364 krónur. Við ákvörðun þóknunar lögmanna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Þá greiði ákærði 279.875 krónur í annan sakarkostnað.

            Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Hrafnhildur M. Gunnarsdóttir saksóknari.

            Dóm þennan kveða upp héraðsdómararnir Barbara Björnsdóttir, Sigríður Elsa Kjartansdóttir og Símon Sigvaldason.

 

                                                            D Ó M S O R Ð :

            Ákærði, X, sæti fangelsi í þrjú ár og sex mánuði.

            Ákærði greiði A 1.500.000 krónur, með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. febrúar til 26. maí 2016, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.

            Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar lögmanns, 1.009.360 krónur, þóknun réttargæslumanns brotaþola, Jóhannesar Alberts Kristbjörnssonar lögmanns, 683.364 krónur, og 279.875 krónur í annan sakarkostnað.