• Lykilorð:
  • Ábyrgð
  • Dráttarvextir
  • Skuldamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júní 2013 í máli nr. E-3153/2012:

Drómi hf.

(Bjarki Már Baxter hdl.)

gegn

KANDA ehf.

(Einar Farestveit hdl.)

Kristín Björg Jónsdóttur

(Kristín Ólafsdóttir hdl.)

Jóhann Magnússyni

(Gunnlaugur Úlfsson hdl.)

Mál þetta, sem höfðað var með stefnu birtri 18. og 19. september sl. var dómtekið 28. maí sl. að lokinn aðalmeðferð. Stefnandi er Drómi hf., Lágmúla 6, Reykjavík. Stefndu eru Kanda ehf., Kringlunni 8-12, Reykjavík, Kristín Björg Jónsdóttir, Skógarhæð 7, Garðabæ og Jóhann Magnússon, Löngulínu 13, Garðabæ.

            Endanleg dómkrafa stefnanda gegn stefnda Kanda ehf. er sú að félagið verði dæmt til að greiða stefnanda 319.416.460 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. janúar 2010 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 25. mars 2010 að fjárhæð 3.996.050 krónur, innborgun 5. maí 2010 að fjárhæð 1.500.000 krónur og innborgun 22. júní 2010 að fjárhæð 1.500.000 krónur. Endanleg dómkrafa stefnanda gegn stefndu Kristínu Björgu og Jóhanni er að þau verði hvort um sig dæmd til að greiða sameiginlega með stefnda Kanda ehf. 11.000.000 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. janúar 2010 til greiðsludags. Stefnandi krefst einnig málskostnaðar.

            Stefndu krefjast sýknu af kröfum stefnanda auk málskostnaðar.

            Við fyrirtöku málsins 6. febrúar 2013 lýstu stefndu því yfir að þau féllu frá kröfu um frávísun sem höfð var uppi í greinargerð þeirra. Við fyrirtökuna lagði stefnandi ennfremur fram bókun um lækkun á dómkröfum gegn stefnda Jóhanni og stefndu Kristínu Björgu sem grundvallaðist á því að sjálfskuldarábyrgð þeirra takmarkaðist við virði láns í íslenskum krónum á lántökudegi. Er gerð nánari grein fyrir þessari breytingu kröfugerðar stefnanda við lýsingu á málsástæðum hans og lagarökum.

 

Málsatvik

Hinn 6. júní 2007 gerði Epsílón ehf. „lánssamning í erlendum myntum“ við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis hf. (SPRON), en undir samninginn skrifuðu fyrir hönd félagsins stefndu Jóhann og Kristín Björg sem stjórnarmenn. Jafnframt rituðu þessi stefndu undir samninginn til „staðfestu skiptri sjálfsskuldarábyrgð (pro rata) sbr. gr. 3.2“, en í greininni sagði að til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu lántaka gengjust ákveðnir hluthafar í sjálfskuldarábyrgð fyrir endurgreiðslu á 10% af því láni sem lántaki tæki samkvæmt samningnum. Komu nöfn umræddra stefndu fram í greininni. Í málinu liggja fyrir tveir tryggingarvíxlar, hvor að fjárhæð 11.000.0000 króna, og er ágreiningslaust að þeim var ætlað að standa til tryggingar umræddri sjálfskuldarábyrgð. Í greinargerð stefndu Jóhanns og Kristínar Bjargar kemur fram að viðræður við SPRON um lánið hafi miðast við að lánið ætti að vera 110 milljónir króna. Miðað hefði verið við að nota japönsk jen til að reikna út afborganir og eftirstöðvar lánsins hverju sinni en aldrei hefði verið gert ráð fyrir því að sú mynt yrði greidd út eða að greitt yrði af láninu í þeirri mynt.

Samkvæmt grein 5 lofaði lántaki að taka að láni og sparisjóðurinn lofaði að lána „jafnvirði 110.0000 ISK í eftirtöldum myntum[:] JPY(100%) 213.550.767,-“. Óumdeilt er að síðargreinda fjárhæðin hefur verið færð inn á samninginn með ritvél. Deila aðilar um hvort það hafi verið gert fyrir eða eftir undirritun samningsins.

Fyrrgreint lán skyldi endurgreiðast með tveimur gjalddögum, hinn 2. júlí 2008 og 2. janúar 2009. Um kjör og skilmála lánsins sagði að vextir reiknuðust frá útgáfudegi lánsins og greiddust ásamt höfuðstól lánsins á sömu gjalddögum og afborganir. Þá sagði að SPRON væri heimilt að skuldfæra reikning nr. 1158-26-621206 fyrir greiðslum afborgunar að viðbættum vöxtum. Vextir skyldu miðast við LIBOR-vexti (London Interbank Offered Rate, bid) hverrar myntar að viðbættu 3,5% vaxtaálagi. Samkvæmt grein 5.5 og 9.2 í lánssamningi aðila skyldi útreikningur á þeirri fjárhæð sem greiða átti á gjalddaga í íslenskum krónum miðast við sölugengi Sparisjóðabanka Íslands hf. á gjalddaga lánsins. Í grein 5.6 var fjallað um heimild lántakanda til myntbreytingar samkvæmt ákveðnum skilyrðum. Í grein 5.7 var fjallað um áhættu af gengissveiflum. Sagði þar að lántakandi staðfesti að hann hefði verið upplýstur um og hann hefði fyllilega skilið að áhrif hugsanlegra gengissveiflna gætu orðið þau að heildarskuld í þeim gjaldmiðlum sem lánið samanstendur af hverju sinni gæti orðið hærri en upphafleg lánsfjárhæð. Þá sagði orðrétt: „Skuld lántakanda við sparisjóðinn kann þannig að verða hærri en upphafleg lánsfjárhæð.“ Í grein 5.8 var fjallað um ábyrgð lántakanda vegna gengissveiflna og því lýst að sparisjóðnum bæri engin skylda til að upplýsa hann „um hvers kyns hækkanir er kunna að verða lánsfjárhæðinni vegna óhagstæðra gengissveiflna“. Þá sagði orðrétt: „Það er á ábyrgð lántakanda sjálfs að afla sér upplýsinga um hugsanleg áhrif gengissveiflna á lánið.“

Samkvæmt því sem fram kemur í stefnu var andvirði lánsins lagt inn á framangreindan reikning 8. júní 2007 í samræmi við skilmála lánssamningsins. Ágreiningslaust er að umræddur reikningur er í íslenskum krónum og telur stefnda Kanda ehf. að með þessu hafi það fengið lánið afgreitt í þeim gjaldmiðli. Samkvæmt kaupnótu sem lögð hefur verið fram í málinu var lánið hins vegar greitt út í japönskum jenum áður en það var lagt inn á reikninginn. Samkvæmt grein 2 í samningnum var tilefni lánveitingarinnar fjármögnun Epsílón ehf. til kaupa á stefnda Kanda ehf. Í greinargerð stefnda Kanda ehf. kemur fram að þessi tvö félög hafi síðar verið sameinuð.

Hinn 21. júlí 2008 var lánssamningnum skuldskeytt á þann hátt að stefndi Kanda ehf. tók að sér að vera nýr skuldari. Í skuldskeytingunni var tiltekið að eftirstöðvar lánsins væru 202.873.229 japönsk jen, en fyrirsvarsmenn stefnda Kanda ehf. voru stefndu Jóhann og Kristín Björg. Samkvæmt skuldskeytingunni skuldbatt þessi stefndi sig til að greiða af láninu LIBOR-vexti að viðbættu 3,5% vaxtaálagi. Hvert vaxtatímabil skyldi vera sex mánuðir í senn, hið fyrsta frá 2. júlí 2008 til 2. janúar 2009. Þá kom fram að greiðslur skyldu framvegis skuldfærast af reikningi nr. 1158-26-2616. Að öðru leyti áttu ákvæði skuldabréfsins að haldast óbreytt.

Hinn 11. febrúar 2009 var gerður viðauki við umræddan lánssamning sem kvað á um myntbreytingu á höfuðstól lánsins og framlengingu þess. Er viðaukinn undirritaður af stefndu Jóhanni og Kristínu fyrir hönd stefnda Kanda ehf. Samkvæmt viðaukanum skyldi lánið framvegis vera með einum gjalddaga 2. janúar 2010 og höfuðstóll þess í evrum eða 1.635.136,63 evrur. Vextir skyldu reiknast frá 5. janúar 2009 og vaxtaálag á LIBOR-vexti skv. lánssamningnum hækkað í 5,0% frá þeim degi. Samkvæmt stefnu hefur lánið verið í vanskilum frá 5. janúar 2010 og innheimtuaðgerðir hafa engan árangur borið. Samkvæmt greinargerð stefnda Kanda ehf. hefur félagið ekki viljað greiða skuldina sökum óvissu um rétta fjárhæð hennar. Stefnandi hafi hins vegar verið ófáanlegur til að endurreikna samninginn miðað við að hann sé um lán í íslenskum krónum. Samkvæmt greinargerð stefnda Kanda ehf. nema innborganir félagsins inn á lánið um sjö milljónum íslenskra króna. Er jafnframt lögð á það áhersla að allar greiðslur hafi verið í íslenskum krónum.

Stefnandi varð til með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. mars 2009 um að stofnað skyldi sérstakt hlutafélag í eigu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. sem tæki m.a. við kröfuréttindum í eigu sparisjóðsins. Er ekki um það deilt að stefnandi er samkvæmt þessu réttur aðili til sóknar að málinu.

Við aðalmeðferð málsins gaf stefndi Jóhann aðilaskýrslu. Í skýrslu hans kom fram að hann minntist þessi ekki að fjárhæð í japönskum jenum hefði verið færð inn í grein 4 í lánssamningnum þegar hann undirritaði samninginn og færði upphafsstafi sína á sérhverja blaðsíðu hans. Að öðru leyti er ekki ástæða til að rekja skýrslu hans.

 

Málsástæður stefnanda

Stefnandi reisir málatilbúnað sinn gegn stefnda Kanda ehf. á því að um löglegt erlent lán hafi verið að ræða, enda hafi höfuðstóllinn sérstaklega verið tiltekinn í erlendri mynt í lánssamningi, skuldskeytingu og skilmálabreytingu. Í öllum tilvikum hafi stefndu Jóhann Magnússon og Kristín Björg Jónsdóttir undirritað skilmálabreytingarnar sem fyrirsvarsmenn félagsins. Krafa stefnanda er samkvæmt þessu byggð á ákvæðum framangreinds lánssamnings milli aðila og viðaukum og vísar stefnandi til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi loforða og greiðslu skulda.

Stefnandi telur að stefndi Kanda ehf. hafi lofað að greiða af láninu, þ.m.t. vexti og afgreiðslugjald samkvæmt gjaldskrá í íslenskum krónum, með því að hafa nægilegt fé til ráðstöfunar á reikningi sínum. Lánið hafi verið í vanskilum frá 5. janúar 2010 og sundurliðist krafa stefnanda samkvæmt því í höfuðstól að fjárhæð 1.635.136,63 evrur og samningsvexti að fjárhæð 133.601,73 evrur eða samtals 1.768.738,36 evrur. Næsta virka bankadag eftir gjalddaga lánsins, hinn 5. janúar 2009, hafi skráð sölugengi evru verið 180,59 krónur og nemi krafan því samtals 319.416.460 krónum (EUR 1.768.738,36 x 180,59). Greitt hafi verið þrisvar sinnum eftir gjalddaga lánsins; 3.996.050 kr. þann 25. mars 2010, 1.500.000 kr. þann 5. maí 2010, og 1.500.000 kr. þann 22. júní 2010.

Stefnukrafa málsins sé því 319.416.460 krónur og beri hún vexti skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá gjalddaga 5. janúar 2010 til greiðsludags, allt að frádregnum fyrrgreindum innborgunum. Samkvæmt lánssamningnum hafi stefndu Kristín Björg og Jóhann hvort um sig gengið í skipta sjálfskuldarábyrgð fyrir endurgreiðslu á 10% af láninu. Við endanlegar dómkröfur sínar miðar stefnandi þó við að þessi ábyrgð takmarkist við upphaflegt jafnvirði lánsins í íslenskum krónum, þ.e. 110.000 milljónir. Er því ekki á því byggt að umrædd sjálfskuldarábyrgð eigi að taka mið af fjárhæð lánsins í hinni erlendu mynt eða samkvæmt skilmálabreytingunni 11. febrúar 2009. Hins vegar gerir stefnandi kröfu um dráttarvextir skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 5. janúar 2010 til greiðsludags. Þá áréttar hann að dæma beri fyrrgreind stefndu sameiginlega (in solidum) með stefnda, Kanda ehf., að því marki sem sjálfskuldarábyrgð hrekkur til.

Í munnlegum málflutningi lýsti lögmaður stefnanda þeirri skoðun að ef talið yrði að upphaflega hefði verið um lán í íslenskum krónum að ræða, hefði lánið í öllu falli orðið að erlendu láni með skilmálabreytingunni 11. febrúar 2009. Þá taldi lögmaðurinn að við þessar aðstæður væri það Epsílón ehf. sem ætti kröfu gegn SPRON vegna ólögmætrar gengistryggingar. Gagnkrafa á þessum grundvelli hefði hins vegar hvorki verið höfð uppi í málinu né sýnt fram á að stefndi Kanda ehf. væri eigandi hennar. Þá væri skuldajöfnun gagnvart kröfu stefnanda útilokuð með vísan til fyrirmæla 3. töluliðar 118. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 100. gr. sömu laga.

 

Málsástæður stefndu

Stefndi Kanda ehf. hafnar því að um hafi verið að ræða lán í erlendri mynt. Lánið hafi verið veitt í íslenskum krónum, en endurgreiðsla þess verið bundin við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Slík gengistrygging sé ekki heimil að íslenskum lögum, sbr. 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Heiti samningsins á forsíðu hans geti engu breytt um þetta, enda skipti efni samningsins öllu máli. Stefnda Kanda ehf. bendir á að tekið sé fram í lánssamningnum að lánið sé að jafnvirði 110.000.000 króna. Þessum orðum sé með öllu ofaukið ef til stóð að veita lánið í erlendum gjaldmiðli. Hefði þá legið beinast við að tilgreina lánið í hinni erlendu mynt. Í lánssamningnum segi síðan að lánið sé í eftirtöldum myntum og sé þar tekið fram JPY (100%). Svo virðist sem búið sé að vélrita inn á skjalið fjárhæðina 213.550.767,-. Stefndi telur þetta ekki hafa verið hluta lánssamningsins í upphafi, heldur hafi þessari fjárhæð verið bætt við samninginn eftir á án vitundar eða samþykkis stefndu. Um sé að ræða sömu fjárhæð og komi fram á kaupnótu, sem stefnandi útbjó í tengslum við samninginn, en slík kaupnóta hafi ekkert gildi fyrir samning aðila. Hún sé einhliða samið skjal lánveitanda. Skorar stefndi Kanda ehf. á stefnanda að leggja fram gögn um að samningurinn hafi verið með þessum hætti við undirritun hans.

Jafnvel þótt gengið sé út frá því að skjalið hafi verið með framangreindum hætti frá upphafi telur stefndi Kanda ehf. að lánið sé allt að einu í íslenskum krónum. Stefndi Kanda ehf. bendir á að lánið hafi verið afgreitt til stefnda í íslenskum krónum með því að 110 milljónir króna voru greiddar inn á tékkareikning stefnda en ekki gjaldeyrisreikning. Greiðslur stefnda af láninu hafi verið skuldfærðar af reikningi stefnda í íslenskum krónum en þessar greiðslur hafi samtals numið um sjö milljónum íslenskra króna og allar verið í íslenskum krónum. Stefndi bendir einnig á grein 5.7 í samningnum, sem áður greinir, og telur hana sýna að upphafleg lánsfjárhæð hafi verið í íslenskum krónum en jafnframt hafi verið gert ráð fyrir því að fjárhæðin gæti hækkað vegna gengistryggingar. Ef lánið hefði hins vegar verið í japönskum jenum hefði það eðli málsins samkvæmt ekki getað hækkað af þessum ástæðum. Stefndi Kanda ehf. telur fyrrnefnda grein 5.8 í samningnum sama marki brennda. Þannig sé vandséð hvaða hækkanir áttu að geta orðið á lánsfjárhæðinni vegna gengissveiflna, ef lánsfjárhæðin var ákveðin í japönskum jenum.

Stefndi Kanda ehf. ítrekar að stefnandi hafi kosið að krefjast endurgreiðslu lánsins í íslenskum krónum í stað þeirrar erlendu myntar sem hann kveður lánið vera í. Í samningi aðila sé einnig gert ráð fyrir því að ef lánið fellur í gjalddaga sé lánveitanda heimilt að umreikna það allt í íslenskar krónur á gjalddaga. Önnur ákvæði samningsins styðji það einnig að lánið hafi verið í íslenskum krónum, t.d. grein 5.4, um að heimilt sé að greiða inn á lánið fyrir gjalddaga þess, en þá að lágmarki fimm milljónir íslenskra króna.

            Stefndi Kanda ehf. telur það þýðingarlaust þótt gerður hafi verið viðauki við samninginn 11. febrúar 2009 með hliðsjón af því að skilmálar lánsins hafi verið ólögmætir frá upphafi. Höfuðstóll lánsins hafi aldrei verið jafnvirði 1,6 milljóna evra og beri því að miða við upphaflegan höfuðstól sem sé 110 milljónir króna. Því er mótmælt að við gerð viðaukans hafi orðið til nýr höfuðstóll sem heimilt sé að miða við þrátt fyrir að lánið hafi frá upphafi haft að geyma ólögmæta verðtryggingu. Viðaukinn sé ekki nýr samningur, heldur sé hann afleiðing af röngum lagaskilningi aðila sem töldu ranglega að verið væri að myntbreyta gildandi höfuðstól.

            Stefndi Kanda ehf. ítrekar einnig að eftir að fyrrgreindur viðauki var gerður hafi stefndi greitt samtals um sjö milljónir af láninu, en í viðaukanum sé jafnframt kveðið á um skuldfærsluheimild á íslenskan tékkareikning stefnda. Ljóst sé af þessu að viðaukanum við hið gengistryggða lán hafi ekki verið ætlað að breyta efni samningsins um að skuldina ætti að greiða í íslenskum krónum.

Verði talið að fyrrgreindur viðauki hafi breytt ólögmætu gengistryggðu láni í erlent lán, bendir stefndi Kanda ehf. á það að með þessu þrefaldist höfuðstóll lánsins. Telur þessi stefndi að viðaukanum beri við þessar aðstæður að víkja til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, a.m.k. hvað varðar ákvæði hans um breytingu á höfuðstól lánsins í evrur. Stefndi leggur áherslu á að efni samningsins hafi þá verið ósanngjarnt, en bendir einnig á atvik sem komu síðar til. Stefndi Kanda ehf. bendir einnig á þann forsendubrest að viðaukinn hefði aldrei verið gerður með þessu efni ef fyrir hefði legið að um ólögmætt gengistryggt lán væri að ræða. Stefndi bendir einnig á að með viðaukanum var vaxtaálag hækkað um 40%, þ.e.a.s. úr 3,5% í 5%, auk þess sem kveðið var á um að ársframlegð stefnda þyrfti að vera minnst 12% til að framlenging væri heimil, en áður hafði verið heimilt að framlengja lánið í 10 ár án skilyrða. Því sé ljóst að efni viðaukans hafi verið mjög íþyngjandi breyting á samningi aðila, en viðaukinn hafi verið gerður að frumkvæði og kröfu stefnanda.

            Stefndi Kanda ehf. telur að krafa stefnanda sé röng og óréttmæt. Þar sem engin lægri krafa hafi verið gerð til vara beri að sýkna stefnda Kanda ehf. af kröfu stefnanda, sbr. m.a. dóm Hæstaréttar í máli nr. 92/2010, frá 16. júní 2010.

            Stefndu Kristín Björg og Jóhann taka undir allar framangreindar málsástæður og lagarök Kanda ehf. að því marki sem þær geta haft þýðingu um sjálfskuldarábyrgð þeirra. Þau telja að í grein 3.2 í lánssamningnum komi skýrt fram að samið hafi verið um að lántakar ábyrgist aldrei meira en að hámarki 10% af lánsfjárhæðinni, eins og hún væri skilgreind í samningnum, þ.e.a.s. 10% af 110 milljónum króna, enda hafi það verið tilgangur aðila við samningsgerðina. Ef til hefði staðið að hvor aðili um sig ábyrgðist 10% lánsfjárhæðarinnar með stefnda Kanda ehf., hefði þurft að taka það fram í samningnum, en það hafi ekki verið gert. Stefnandi hafi samið umræddan samning og beri alla ábyrgð á því ef orðalag hans er óskýrt. Önnur gögn, svo sem tryggingarvíxlar og yfirlýsingar aðila, staðfesti skilning stefndu. Af hálfu stefnda Jóhanns er einkum bent á tölvuskeyti frá starfsmanni SPRON 18. apríl 2007 þar sem fram komi að einungis sé um að ræða ábyrgð á 10% af 110 milljónum eða sjálfskuldarábyrgð sem nemur 11 milljónum. Einnig er bent á að gerð umræddra tryggingarvíxla samræmist því að SPRON hafi viljað geta gengið að allri sjálfskuldarábyrgðarfjárhæð hjá hvorum sjálfskuldarábyrgðarmanni um sig. Hins vegar hafi aldrei staðið til að unnt væri að ganga að báðum og innheimta 22 milljónir króna. Í ljósi þess að krafa stefnanda sé bæði röng og óréttmæt beri að sýkna stefndu af kröfu stefnanda, en stefnandi geri enga varakröfu á hendur stefndu, svo sem um aðra og lægri fjárhæð til vara.

            Stefndu benda á að stefnandi krefjist engra samningsvaxta og verði slíkir vextir því ekki dæmdir. Kröfu hans um dráttarvexti er mótmælt, enda miðist krafan við rangan höfuðstól.

 

Niðurstaða

Í máli þessu liggur fyrir frumrit fyrrgreinds lánssamnings 6. júní 2007. Er samningurinn undirritaður af stefndu Jóhanni og Kristínu Björgu fyrir hönd lántaka auk þess sem upphafsstafi þeirra er að finna á hverri blaðsíðu. Af hálfu stefndu hefur því verið haldið fram að fjárhæð í japönskum jenum á annarri blaðsíðu samningsins hafi verið bætt við samninginn eftir undirritun hans og án vitundar stefndu. Stefndu hafa hins vegar hvorki lagt fram gögn til stuðnings þessari staðhæfingu sinni né gert hana líklega með öðrum hætti, svo sem með vísan til eftirfarandi athugasemda sinna eða annarra atvika við samningsgerðina. Við úrlausn á því hvort téður samningur var í reynd samningur um lán í íslenskum krónum, með ólögmætri gengistryggingu, er því óhjákvæmilegt að leggja til grundvallar að samningurinn hafi frá upphafi kveðið á um lán að fjárhæð 213.550.767 japönsk jen og að „jafnvirði 110.000.000 ISK“. Verður samkvæmt þessu við það miðað að fjárhæð lánsins í erlendri mynt hafi komið skýrt fram í ákvæðum lánssamningsins og séu atvik málsins að þessu leyti sambærileg atvikum í máli nr. 551/2011 sem lauk með dómi Hæstaréttar 23. nóvember 2011.

A

Samkvæmt ítrekuðum fordæmum Hæstaréttar fer skuldbinding í erlendum gjaldmiðli ekki gegn ákvæðum laga nr. 38/2001. Leiðir af þessari dómaframkvæmd að ekkert er heldur því til fyrirstöðu að aðilar samnings semji svo um síðar að gjaldmiðli láns sé breytt enda sé gætt ófrávíkjanlegra reglna um vexti og verðtryggingu viðvíkjandi hlutaðeigandi gjaldmiðli.

Við úrlausn á því hvort lánssamningur feli í reynd í sér skuldbindingu í erlendum gjaldmiðli ber að líta bæði til forms og efnis samnings í samræmi við þau nánari viðmið sem fram koma í fordæmisrétti, sbr. einkum dóm Hæstaréttar Íslands 7. júní 2012 í máli nr. 524/2011. Í samræmi við fyrrgreind viðmið er fyrst á það að líta í máli þessu að téður lánssamningur ber heitið „Lánssamningur í erlendum myntum“. Bendir þetta atriði til þess að hér sé um að ræða skuldbindingu í erlendri mynt, en ekki íslenskum krónum. Þá er lánsfjárhæðin tilgreind í japönskum jenum, svo sem áður greinir, en jafnvirði þeirrar fjárhæðar fært í íslenskum krónum.

Í umræddum lánssamningi er kveðið á um LIBOR-vexti, að viðbættu ákveðnu hundraðshlutfalli, sem samræmist því að um sé að ræða erlent lán. Í samningnum er einnig kveðið á um það að við uppsögn eða gjaldfellingu sé lánveitanda heimilt að umreikna allt lánið í íslenskar krónur miðað við skráð sölugengi sitt. Andstætt því sem haldið er fram af stefnda Kanda ehf. þykir þetta styrkja þá niðurstöðu að lánið hafi verið erlent lán. Að síðustu verður að horfa til þess að við skuldskeytingu lánssamningsins 21. júlí 2008 og skilmálabreytingu samningsins 11. febrúar 2009 var eingöngu vísað til eftirstöðva lánsins í japönskum jenum.

B

Í málinu liggur fyrir að tilefni lánsins var fjármögnun viðskipta stefnda Kanda ehf. hér á landi en SPRON mun einnig hafa verið viðsemjandi stefnda í þeim viðskiptum. Verður að gera ráð fyrir því að fjármagnsþörf stefnda hafi af þessum sökum verið skilgreind í krónum. Hefur því og ekki verið mótmælt af stefnanda að andvirði lánsins, hafi verið greitt inn á reikning stefnda Kanda ehf. hjá SPRON sem færður var í íslenskum krónum. Þá liggur enn fremur fyrir að samkvæmt lánssamningnum var frá upphafi gert ráð fyrir því að krónureikningur lántaka yrði skuldfærður fyrir afborgunum en stefndi Kanda ehf. mun ekki hafa haft gjaldeyrisreikning hjá SPRON.

Að mati dómsins geta umrædd tengsl lánssamningsins við viðskipti hér á landi ekki leitt til þess, ein og sér, að téð lán teljist vera í íslenskum krónum. Þar er fyrst til að taka að í málinu liggur fyrir kaupnóta sem sýnir að lánið var greitt út í japönskum jenum en frá lánsfjárhæðinni var dreginn ákveðinn hundraðshluti í jenum í lántökugjald sem og ákveðin fjárhæð í íslenskum krónum fyrir skjalagerð. Samræmist þessi háttur því ekki að um hafi verið að ræða lán í íslenskum krónum. Þá verður að horfa til þess að í lánssamningi var sérstaklega tekið fram að ef greiðslur færu fram í íslenskum krónum skyldi andvirði greiðslu umreiknað samkvæmt ákveðnu sölugengi. Var ekkert því til fyrirstöðu, á þeim tíma sem lánssamningur var undirritaður, að aðilar semdu svo um að greitt væri af erlendu láni með íslenskum krónum miðað við skráð gengi hlutaðeigandi gjaldmiðla. Að síðustu þykir ákvæði lánssamningsins viðvíkjandi gengissveiflum, og ábyrgð lántaka þar að lútandi, sem og heimild hans til myntbreytingar, ekki nauðsynlega leiða til þeirrar niðurstöðu að hér hafi verið um lán í íslenskum krónum að ræða, enda gat taka erlends láns augljóslega falið í sér gengisáhættu fyrir íslenskt fyrirtæki sem hafði tekjur sínar að mestu í krónum. Sama á við um þá staðreynd að tryggingarvíxlar vegna sjálfsskuldarábyrgðar voru útbúnir í íslenskum krónum, sbr. einnig dóm Hæstaréttar 27. september 2012 í máli nr. 50/2012.

Samkvæmt öllu framangreindu telur dómurinn að meginefni lánssamningsins 6. júní 2007 hafi verið greiðsla lánveitanda til skuldara á ákveðinni fjárhæð í erlendum gjaldmiðli, svo og loforð skuldarans um endurgreiðslu á þessari sömu erlendu fjárhæð með nánar tilgreindum vöxtum. Verður því ekki talið að umræddur lánssamningur hafi í reynd falið í sér lán í íslenskum krónum sem bundið hafi verið gengistryggingu í andstöðu við fyrirmæli laga nr. 38/2001. Af sömu ástæðum verður ekki á það fallist að sú skilmála- og myntbreyting sem gerð var 11. febrúar 2009 hafi verið ólögmæt eða sé að vettugi virðandi.

Samkvæmt framangreindu verður fallist á kröfu stefnanda gegn stefnda Kanda ehf., en af hálfu þessa stefnda eru ekki höfð uppi andmæli við tölulegum útreikningi kröfunnar eða sóknaraðild stefnanda. Samkvæmt þeirri skilmálabreytingu sem samþykkt var 11. febrúar 2009 skyldi greiða lánið upp á einum gjalddaga 2. janúar 2010. Verður því dráttarvaxtakrafa stefnanda einnig tekin til greina, svo sem nánar greinir í dómsorði.

                                                                        C

Samkvæmt grein 3.2 í fyrrgreindum samningi gengust stefndu Kristín Björg og Jóhann í sjálfskuldarábyrgð fyrir endurgreiðslu á 10% af láninu. Samkvæmt textaskýringu verður þetta ákvæði ekki túlkað svo rúmt að með því gangist hvor þessara stefndu í ábyrgð fyrir sínum 10% á láninu þannig að samanlögð ábyrgð þeirra nemi 20% af lánsfjárhæð.

Eftir almennum reglum ber stefnandi sönnunarbyrðina fyrir því að stefndu hafi tekist á herðar ríkari ábyrgð en ráðin verður af orðalagi fyrrgreinds ákvæðis. Af hálfu stefnanda hefur í þessu sambandi verið vísað til þess að stefndu hafi ritað undir samninginn til „staðfestu skiptri sjálfsskuldarábyrgð (pro rata)“. Andstætt því sem stefnandi heldur fram telur dómurinn að engin ályktun verði dregin af þessari undirritun á þá leið að stefndu hafi samanlagt tekið á sig sjálfskuldarábyrgð umfram 10% lánsfjárhæðarinnar. Bendir tölvuskeyti, sem sent var stefnda Jóhanni af starfsmanni lánveitanda, 18. apríl 2007, þvert á móti til þess að ætlun samningsaðila hafi verið sú að sjálfskuldarábyrgð yrði í heild takmörkuð við 10% lánsfjárhæðar. Að lokum telur dómurinn að engar ályktanir um umfang sjálfskuldarábyrgðar verði dregnar af því að sinn hvor tryggingarvíxillinn að fjárhæð 11 milljónir króna var útbúinn til tryggingar téðum ábyrgðum.

Samkvæmt framangreindu er ekki komin fram lögfull sönnun þess að stefndu Kristín Björg og Jóhann hafi tekið á sig ríkari ábyrgð á greiðslu umrædds láns en ráðin verður af fyrrgreindri textaskýringu lánssamnings. Verður því við það miðað að heildarábyrgð stefndu Kristínar Bjargar og Jóhanns hafi numið 10% af heildarfjárhæð lánsins. Eins og áður greinir miðast endanleg dómkrafa stefnanda við virði lánsins í íslenskum krónum. Er því ekki þörf á að leysa úr málsástæðum stefndu þess efnis að ábyrgð þeirra miðist við það að um sé að ræða íslenskt lán. Af sömu ástæðum gerist þess ekki þörf að taka afstöðu til þess hvort hækkun lánsins vegna óhagstæðrar gengisþróunar hafi strítt gegn 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. 6. gr. laga nr. 11/1986.

Sem fyrr segir er af hálfu stefnanda á því byggt að ábyrgð stefndu hafi verið hlutfallsleg og hefur því ekki verið hreyft að ábyrgðin sé sameiginleg með stefndu Jóhanni og Kristínu Björgu við þær aðstæður að hún verði einungis talin nema 10% af heildafjárhæð lánsins. Hefur stefnandi þannig ráðstafað sakarefninu með þeim hætti að stefndu verða ekki dæmd sameiginlega til greiðslu 10% af heildafjárhæðar lánsins. Eins og kröfugerð stefnanda er háttað verða stefndu Kristín Björg og Jóhann því aðeins dæmd til að greiða stefnanda téða fjárhæð hlutfallslega eða 5.500.000 krónur hvort um sig.

Sem fyrr segir reisir stefnandi málatilbúnað sinn gagnvart stefndu Jóhanni og Kristínu Björgu ekki á því að þau beri ábyrgð á 10% af heildarfjárhæð lánsins, eins og hún er að viðbættum vöxtum og dráttarvöxtum. Í téðum lánssamningi er ekki að finna sjálfstæða heimild til töku vaxta eða dráttarvaxta af kröfu vegna sjálfskuldarábyrgðar. Í samræmi við 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 gat krafa stefnanda gegn stefndu því fyrst borið dráttarvexti mánuði eftir að þau voru sannanlega krafin um greiðslu, þó þannig að stefnanda var heimilt að reikna dráttarvexti frá og með höfðun máls þessa. Í málinu hafa ekki verið færð að því rök að stefnandi hafi krafið umrædd stefndu um greiðslu þannig að fullnægt væri fyrrgreindu ákvæði laga nr. 38/2001. Verða dráttarvextir því miðaðir við höfðun málsins eða 18. og 19. september 2012.

Eftir úrslitum málsins verður stefnda Kanda ehf. dæmt til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 350.000 krónur. Með hliðsjón af því að endanlegum málsástæðum stefnanda viðvíkjandi stefndu Kristínu Björgu og Jóhanni hefur í grundvallaratriðum verið hafnað þykir rétt að stefnandi greiði þeim að fullu málskostnað þeirra sem þykir hæfilega ákveðinn 350.000 krónur fyrir hvort um sig. Hefur í öllum tilvikum verið tekið tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar.

Af hálfu stefnanda flutti málið Bjarki Már Baxter hdl.

Af hálfu stefnda Kanda ehf. flutti málið Einar Farestveit hdl.

Af hálfu stefndu Kristínar Bjargar flutti málið Kristín Ólafsdóttir hdl.

Af hálfu stefnda Jóhanns flutti málið Gunnlaugur Úlfsson hdl.

Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð

Stefnda Kanda ehf. greiði stefnanda, Dróma hf., 319.941.646 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. janúar 2010, allt að frádreginni innborgun 25. mars 2010 að fjárhæð 3.996.050 krónur, innborgun 5. maí 2010 að fjárhæð 1.500.000 krónur og innborgun 22. júní 2010 að fjárhæð 1.500.000 krónur.

            Stefndi Jóhann Magnússon greiði stefnanda 5.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 19. september 2012.

            Stefnda Kristín Björg Jónsdóttir greiði stefnanda 5.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 18. september 2012.

            Stefndi Kanda ehf. greiði stefnanda 350.000 krónur í málskostnað.

            Stefnandi greiði stefndu Jóhanni og Kristínu Björgu hvoru um sig 350.000 krónur í málskostnað.

 

                                                                                    Skúli Magnússon