• Lykilorð:
  • Dýraveiðar

 

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Austurlands 4. febrúar 2009 í máli nr. S-95/2008:

Ákæruvaldið

(Lárus Bjarnason sýslumaður)

gegn

Jóni Agli Sveinssyni

(Friðbjörn Garðarsson hdl.) og

                                         Gunnari Sigurjónssyni

                                         (Brynjar Níelsson hrl.)

I

            Málið, sem dómtekið var 16. janúar sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Seyðisfirði, útgefinni 26. ágúst 2008 á hendur „Jóni Agli Sveinssyni, Tjarnarlöndum 14, Egilsstöðum, kennitala [...], og Gunnari Sigurjónssyni, Hrauntungu 63, Kópavogi, kennitala [...], fyrir brot á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, á Fljótsdalshéraði, með því að hafa sunnudaginn 26. ágúst 2007, ákærði Jón sem leiðsögumaður en ákærði Gunnar sem veiðileyfishafi,  farið á hreindýraveiðar, akandi á torfærutæki, nánar tiltekið sexhjóli, frá Hjartarstöðum í Eiðaþinghá, þaðan eftir slóð, sem liggur frá vegi að eyðibýlinu Hamragerði, upp á Flatafjall og inn að Hölkná við Kirkjutungur í Hraundal, þaðan yfir Hölkná þvert yfir Kirkjutungurnar til þess að komast, sem næst veiðistað, nánar tiltekið 65 gráður 26,887´ norður og 14 gráður 07,097´ vestur, þar sem ákærði Gunnar skaut síðan eitt hreindýr í fylgd Jóns sem var leiðsögumaður hans við veiðarnar.

Og gegn Jóni Agli Sveinssyni að auki fyrir brot á lögum um náttúruvernd fyrir að hafa ekið hluta leiðarinnar, u.þ.b. 1-1,5 km utan vega og merktra slóða, nánar tiltekið yfir Hölkná í Kirkjutungum og þvert yfir Kirkjutungurnar í átt að veiðistað, en þá var ekið á gróinni, snjólausri og ófrosinni jörð, og valdið með akstrinum hættu á náttúruspjöllum.

Telst þetta varða við 1. mgr. 17. tl. 9. gr., sbr. 21. gr. laga nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, með áorðnum breytingum, sbr. og 3. mgr., 10. gr., 1. og 2. mgr. 12. gr., sbr. 14. gr. reglugerðar um stjórn hreindýraveiða nr. 486/2003,  og auk þess varðar háttsemi Jóns Egils Sveinssonar við 17. gr. sbr. 76. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd, og  4. gr. sbr. 11. gr. reglugerðar nr. 528/2005, um takmarkanir á umferð í náttúru Íslands.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar skv. 21. gr. laga nr. 64/1994 og 14. gr. reglugerðar um stjórn hreindýraveiða nr. 486/2003. Þá er þess krafist að ákærða Jóni Agli verði dæmd refsing skv. 76. gr. Náttúruverndarlaga nr. 44/1999, sbr. og 11. gr. reglugerðar nr. 528/2005 um takmarkanir á umferð í náttúru Íslands . Einnig er þess krafist að báðir ákærðu verði sviptir skotvopnaleyfi og veiðileyfi,  skv. 21. gr.  laga nr. 64/1994.“

Við upphaf aðalmeðferðar féll ákæruvaldið frá ákæru á hendur ákærða Jóni Agli fyrir akstur utan vega og merktra slóða.

 

Ákærðu neita sök og krefjast sýknu.  Þess er krafist að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði. 

 

II

            Málavextir eru þeir að mánudaginn 27. ágúst kærði Eymundur Garðar Hannesson ákærðu til lögreglunnar á Egilsstöðum fyrir að nota sexhjól til að fara á hreindýraveiðar daginn áður.  Kvað Eymundur sig og félaga sína ásamt leiðsögumanni hafa verið stadda undir Botnsdalsfjalli rétt vestan við Hölkná í leit að hreindýrum þegar þrjá menn hafi borið að.  Einn þeirra ók fjórhjóli en hinir tveir, ákærðu Gunnar og Jón Egill, voru á sexhjóli.  Þeir hafi ekið áfram yfir ána, en Eymundur og félagar gengu yfir ána og upp í fjallið.  Er þangað var komið heyrðu þeir skothvell og gengu fram á klettabrún og sáu þá ákærðu og hóp hreindýra er hljóp stutta vegalengd.  Eymundur kvað ákærðu hafa læðst að hópnum og fellt eitt dýr.  Hann kvað þá hafa skilið sexhjólið eftir við ána í innan við kílómetra fjarlægð frá hreindýrunum. 

            Við yfirheyrslu hjá lögreglu kvaðst ákærði Gunnar hafa farið til hreindýraveiða umræddan dag og var meðákærði leiðsögumaður hans.  Ákærði kvað þá hafa farið á sexhjóli frá Hjartarstöðum og var meðákærði ökumaður.  Með þeim kom maður frá bænum til að leiðbeina þeim og ók hann á fjórhjóli.  Hann hafi vísað þeim veginn eftir slóða upp á heiðina og óku þeir eftir honum þar til þeir hittu hóp af veiðimönnum, en eftir það ók meðákærði stuttan spöl upp í hlíð og kvaðst ákærði á þeim akstri hafa séð hreindýr.  Ákærðu óku því næst á sexhjólinu til baka, fóru af því og gengu í veiðifæri.

            Ákærði Jón Egill kvaðst við yfirheyrslu hjá lögreglu ekki hafa verið á hreindýraveiðum heldur hefði hann verið eftirlitsmaður með veiðum meðákærða.  Hann kvað þá ekki hafa farið til veiða á sexhjóli heldur hefðu þeir tekið hjólið með sér í humátt að veiðistað, eins og hann orðaði það.  Hann kvaðst hafa lagt til hjólið og ekið því umræddan dag. 

 

III

            Ákærði Gunnar bar að hann hefði farið á hreindýraveiðarveiðar 26. ágúst 2007 ásamt meðákærða sem var leiðsögumaður hans.  Þeir lögðu upp frá Hjartarstöðum á sexhjóli sem meðákærði ók en ákærði var farþegi á.  Með þeim í för var maður frá bænum sem ók á fjórhjóli.  Þeir óku eftir vegi inn á heiðina og inn í Hraundal.  Þar urðu þeir varir við dýr og fóru að svipast um.  Þeir tóku eftir öðrum veiðimönnum sem þeir biðu eftir og ræddi meðákærði aðallega við þá.  Niðurstaða viðræðnanna varð sú mennirnir héldu í eina átt en ákærðu í aðra.  Ákærðu fundu nú hreindýrin, lögðu sexhjólinu og læddust að dýrunum.  Hann kvað þá hafa gengið til veiðanna þótt þeir hefðu ekið um á hjólinu nokkra tugi metra eftir að þeir voru komnir á svæðið.  Ákærði hélt því fram að þeir hefðu farið gangandi til veiðanna þótt þeir hefðu notað hjólið eins og að framan greinir.  Ákærði skaut eitt dýr eins og hann hafði leyfi fyrir.  Ákærði kvað sexhjólið vera svipað og fjórhjól nema hvað það er stærra og með palli sem hægt er að flytja á felld dýr til byggða.

            Ákærði Jón Egill bar að hafa farið á hreindýraveiðar umræddan dag frá Hjartarstöðum.  Hann kvaðst hafa ekið á sexhjóli frá bænum og var meðákærði farþegi.  Sexhjól kvað hann vera eins og fjórhjól, nema hvað það væri með þremur öxlum og sex hjólum.  Ákærði kvaðst hafa verið leiðsögumaður meðákærða sem var veiðimaðurinn.  Þeir urðu varir við menn og ræddu lítillega við þá, en svo skildu leiðir og ákærðu héldu til veiða og voru þá á hjólinu.  Þeir skildu það svo eftir skammt frá Hölkná og fóru gangandi það sem eftir var að dýrunum.  Kvað hann þá vegalengd hafa örugglega verið lengri en þúsund metrar.   

            Eymundur Garðar Hannesson var ásamt öðrum veiðimönnum á hreindýraveiðum á sömu slóðum og ákærðu.  Hann bar að þeir hefðu verið þrír saman með leiðsögumanni og gengið upp frá Ánastöðum.  Þegar þeir voru á sléttu ekki langt frá Hölkná urðu þeir varir við fjórhjól og sexhjól og sátu ákærðu á því síðarnefnda.  Eymundur kvað ákærðu og mann sem var á fjórhjólinu hafa stansað hjá þeim og átt orðastað við þá en síðan hefðu ákærðu ekið á sexhjólinu yfir ána og í átt að ásum sem eru þarna og horfið sjónum þeirra.  Maðurinn á fjórhjólinu slóst hins vegar í hóp með Eymundi og félögum hans sem gengu í átt að ásunum.  Þeir heyrðu brátt skothvell og sáu að ákærðu voru að læðast aftur að hópi hreindýra, en greinilega hafði ekki tekist að fella dýr í fyrstu tilraun. 

            Hannes Garðarsson var í hópnum með Eymundi Garðari.  Hann kvað þá hafa verið á hreindýraveiðum og komna að Hölkná þegar þeir urðu varir við tvo menn á sexhjóli og einn á fjórhjóli.  Eftir viðræður óku tveir menn áfram á sexhjólinu yfir ána í þá átt sem talið var að hreindýrin væru.  Mennirnir á sexhjólinu hurfu sjónum en þeir héldu áfram gangandi og heyrðu brátt skothvell.  Skömmu síðar heyrðist annar hvellur og höfðu mennirnir þá fellt dýr.  Sexhjólið var þá í tvö til þrjúhundruð metra fjarlægð og sást ekki frá þeim stað sem mennirnir voru að skjóta á dýrin.  Hann kvað sexhjól vera eins og fjórhjól, nema hvað þau væru með sex hjólum í stað fjögurra.

            Þórarinn Garðarsson var þriðji veiðimaðurinn og bar hann að þeir hefðu verið á hreindýraveiðum og töldu sig vita af hjörð.  Þeir gengu upp frá Ánastöðum og eftir alllanga göngu komu að þeim fjórhjól og sexhjól og ók sexhjólið fram úr þeim og langleiðina að hjörðinni.  Skömmu síðar heyrðist skot og svo annað.  Þegar hvellirnir heyrðust var sexhjólið í nokkurri fjarlægð frá hjörðinni.  Mun á sexhjóli og fjórhjóli kvað Þórarinn vera þann að sexhjólið væri með palli og sex hjólum á þremur öxlum. 

 

IV

            Ákærðu er gefið að sök að hafa farið á hreindýraveiðar akandi á torfærutæki, nánar tiltekið sexhjóli.  Þeir hafa báðir viðurkennt fyrir dómi að hafa farið frá bænum Hjartarstöðum á hjólinu eins og rakið var.  Þeir óku á veiðislóð en lögðu hjólinu og gengu síðasta spölinn að hjörðinni þar sem ákærði Gunnar felldi eitt dýr.  Í 1. mgr. 9. gr. laga nr. 64/1994 segir að við veiðar megi nota vélknúin farartæki á landi, önnur en vélsleða, fjórhjól og önnur torfærutæki, til að flytja veiðimenn til og frá veiðilendum og þá eingöngu á vegum eða merktum vegaslóðum.  Ákærðu óku á sexhjóli sem upplýst er í málinu að sé eins og fjórhjól, nema stærra eins og lýst var og fellur það því undir önnur torfærutæki í ákvæðinu.  Með því að fara akandi á sexhjóli til hreindýraveiða brutu ákærðu gegn nefndu ákvæði.  Breytir engu hér um  þótt þeir hafi gengið einhverja vegalengd áður en ákærði Gunnar felldi hreindýrið.  Ákærði Jón Egill var leiðsögumaður meðákærða og er því jafn brotlegur honum, enda hreindýraveiðar óheimilar nema í fylgd leiðsögumanns, sbr. 3. mgr. 10. gr. reglugerðar 486/2003 um stjórn hreindýraveiða, sbr. 1. og 2. mgr. 12. gr. sömu reglugerðar.  Ákærðu verða því sakfelldir samkvæmt ákærunni eins og henni var breytt við upphaf aðalmeðferðar og er brot þeirra rétt fært til refsiákvæða í henni.

            Refsing ákærðu, hvors um sig, er hæfilega ákveðin 80.000 króna sekt og komi 6 daga fangelsi í stað sektar verði hún ekki greidd innan 4 vikna.  Brot ákærðu tengdist ekki notkun skotvopna og eru því ekki efni til að svipta þá skotvopnaleyfi.  Þeir verða hins vegar sviptir veiðikorti í 1 ár frá birtingu dómsins fyrir þeim.  Í 21. gr. laga  nr. 64/1994 segir að vísu að þeir sem brjóta gegn ákvæðum laganna skuli sviptir veiðileyfi, en hvergi í lögunum eru ákvæði um veiðileyfi, heldur eru í 11. gr. þeirra ákvæði um veiðikort sem allir verða að hafa sem stunda veiðar á villtum dýrum.  Ákærðu skulu greiða málsvarnarlaun verjenda sinna eins og nánar greinir í dómsorði.

 

Hinn reglulegi dómari vék sæti í málinu 4. september 2008 og með bréfi 15. sama mánaðar fól Dómstólaráð Arngrími Ísberg héraðsdómara að fara með málið og kveður hann upp dóminn. 

 

D Ó M S O R Ð

            Ákærðu, Jón Egill Sveinsson og Gunnar Sigurjónsson, greiði hvor um sig 80.000 krónur í sekt til ríkissjóðs og komi 6 daga fangelsi í stað sektar verði hún ekki greidd innan 4 vikna.

            Ákærðu eru sviptir veiðikorti í 1 ár frá birtingu dómsins fyrir þeim.

            Ákærði Jón Egill greiði einn málsvarnarlaun verjanda síns, Friðbjörns Garðarssonar hdl., 181.272 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og ákærði Gunnar greiði einn málsvarnarlaun verjanda síns, Brynjars Níelssonar hrl., 181.272 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

 

Arngrímur Ísberg