• Lykilorð:
  • Ríkisstarfsmaður
  • Vinnulaunamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 17. febrúar 2014 í máli nr. E-333/2013:

A

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Soffía Jónsdóttir hrl.)

 

 

Mál þetta sem dómtekið var þann 20. janúar sl. var höfðað 24. janúar 2013 af hálfu A á hendur íslenska ríkinu til greiðslu vangoldinna launa og orlofsgreiðslna auk dráttarvaxta og málskostnaðar.

 

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi greiði stefnanda launakröfu að fjárhæð 11.703.667 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 389.787 kr. frá 1.12.10. til 1.1.11., af 785.275 kr. frá þeim degi til 1.2.11., af 1.180.763 kr. frá þeim degi til 1.3.11., af 1.576.251 kr. frá þeim degi til 1.4.11., af 1.971.739 kr. frá þeim degi til 1.5.11., af 2.367.227 kr. frá þeim degi til 1.6.11., af 2.769.702 kr. frá þeim til 1.7.11, af 3.165.190 kr. frá þeim degi til 1.8.11., af 3.560.678 kr. frá þeim degi til 1.9.11., af 3.956.166 kr. frá þeim degi til 1.10.11., af 4.336.640 kr. frá þeim degi til 1.11.11. af 4.766.034 kr. frá þeim degi til 1.12.11., af 5.227.328 kr. frá þeim degi til 1.1.12., af 5.656.722 kr. frá þeim degi til 1.2.12., af 6.086.116 kr. frá þeim degi til 1.3.12., af 6.515.510 kr. frá þeim degi til 1.4.12., af 6.966.365 kr. frá þeim degi til 1.5.12., af 7.411.852 kr. frá þeim degi til 1.6.12., af 7.966.289 kr. frá þeim degi til 1.8.12., af 8.594.607 kr. frá þeim degi til 1.9.12., af 9.222.925 kr. frá þeim degi til 1.10.12., af 9.851.243 kr. frá þeim degi til 1.11.12., af 10.479.561 kr. frá þeim degi til 1.12.12., af 11.144.587 kr. frá þeim degi til 1.1.13., en af 11.772.903 kr. frá þeim degi til greiðsludags, að frádregnum 69.236 kr. sem stefndi ofgreiddi stefnanda 01.11.10 og 01.07.12. Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum 25,5% virðisaukaskatti.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.

 

Yfirlit málavaxta og ágreiningsefna

Upphaf þessa máls má rekja til þess að stefnandi, sem þá gegndi stöðu varðstjóra hjá embætti lögreglustjórans á [...], var ákærður í september 2010 fyrir brot gegn [...].

Ríkislögreglustjóri veitti stefnanda lausn frá embætti um stundarsakir á hálfum launum 18. október 2010. Málið var sent til nefndar samkvæmt 27. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sem gaf 6. apríl 2011 það álit að ríkislögreglustjóra hefði verið rétt að veita stefnanda lausn frá störfum um stundarsakir.

Með dómi Héraðsdóms Norðurlands vestra uppkveðnum 15. mars 2011, var stefnandi sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins, en sá dómur var ómerktur og málinu vísað aftur heim í hérað með dómi Hæstaréttar uppkveðnum 20. október 2011. Með dómi Héraðsdóms Norðurlands vestra 31. maí 2012 var stefnandi sakfelldur og dæmdur í sex mánaða óskilorðsbundið fangelsi. Í kjölfar dómsins tilkynnti ríkislögreglustjóri stefnanda 6. júní 2012 að fyrirhugað væri að víkja honum úr embætti að fullu.

Að mótteknum andmælum stefnanda veitti ríkislögreglustjóri stefnanda lausn að fullu frá embætti lögreglumanns 15. júní 2012 með vísan til 2. mgr. 29. gr. starfsmannalaga, en samhliða féllu allar launagreiðslur til stefnanda niður. Stefnandi hafði fengið hálf grunnlaun frá 18. október 2010 til 15. júní 2012. Í lausnarbréfi ríkislögreglustjóra var launakröfum sem stefnandi hafði gert hafnað og honum vísað til fjármálaráðuneytis eða lögreglustjórans á [...] um uppgjör orlofs eða annarra áunninna réttinda, en til lífeyrissjóðs um lífeyrismál. Þá kom fram í lausnarbréfinu að ákvörðunin væri endanleg og ekki kæranleg til æðra stjórnvalds og leiðbeint var um ákvæði 32. gr. starfsmannalaga sem fjallar um rétt til að bera mál um frávikningu undir dómstóla og bætur vegna óréttmæts embættismissis.

Við frávikningu stefnanda losnaði staða varðstjóra við embætti lögreglustjórans á [...] og var hún auglýst laus til umsóknar þann 10. júlí 2012. Ríkislögreglustjóri skipaði nýjan lögreglumann í stöðu varðstjóra við embætti lögreglustjórans á [...] þann 20. ágúst 2012.

Með dómi Hæstaréttar uppkveðnum 29. nóvember 2012 í máli nr. 492/2012, var stefnandi sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins. Þann 30. nóvember 2012 krafðist framkvæmdastjóri Landssambands lögreglumanna þess, fyrir hönd stefnanda, að hann fengi sitt fyrra starf hjá embætti lögreglustjórans á [...], auk launa samkvæmt 2. mgr. 28. gr. starfsmannalaga fram til þess tíma sem hann hæfi störf að nýju.

Í bréfi embættis ríkislögreglustjóra til stefnanda 4. desember 2012 segir að á grundvelli sýknudóms Hæstaréttar hafi ríkislögreglustjóri ákveðið að bjóða stefnanda að taka aftur við starfi lögreglumanns við embætti lögreglustjórans á [...]. Þar kom fram að kæmi stefnandi aftur til starfa yrðu honum, samkvæmt nánari ákvörðun lögreglustjórans á [...], greidd þau laun sem honum hefði borið frá 18. október 2010 til þess tíma er hann kæmi aftur til starfa, að frádregnum hálfum launum sem hann hafi fengið greidd frá 18. október 2010 til 15. júní 2012. Ofgreitt þrekálag og aðrar tekjur stefnanda ættu auk þess að koma til frádráttar. Með útreikninga vegna þessa og uppgjör launa færi lögreglustjórinn á [...] og skyldi stefnandi gera honum grein fyrir því hvort hann óskaði eftir því að koma aftur til starfa við embættið.

Þann 4. desember 2012, sendi framkvæmdastjóri Landssambands lögreglumanna tölvupóst til sýslumannsins á [...] og til fjársýslu ríkisins, með beiðni um útreikning launa stefnanda. Fjársýsla ríkisins upplýsti starfsmannaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins um málið og óskaði eftir umsögn og leiðbeiningum frá henni um fyrirhugað uppgjör við stefnanda. Í svari starfsmannaskrifstofu til fjársýslunnar og framkvæmdastjóra Landssambands lögreglumanna 5. desember 2012 kom fram, að þar sem stefnanda hefði verið vikið að fullu frá embætti ætti hann ekki rétt til greiðslu launa samkvæmt 2. mgr. 28. gr. starfsmannalaga. Þá ætti stefnandi ekki rétt á að fá að gegna embættinu á nýjan leik þrátt fyrir sýknudóm Hæstaréttar.

Lögmaður stefnanda skoraði á lögreglustjórann á [...] með tölvupósti 10. desember 2012 að gera þegar í stað upp vangoldin laun við stefnanda, en lögreglustjórinn hafði þá hafnað því að stefnandi kæmi til starfa að svo stöddu. Erindi lögmannsins um launauppgjör var ítrekað við lögreglustjórann 11. desember 2012 og með bréfi 20. desember s.á. og loks var mál þetta höfðað 23. janúar 2013.

Lögreglustjórinn á [...] tilkynnti stefnanda 31. janúar 2013 að hann hefði ákveðið að hafna því að stefnandi kæmi aftur til starfa. Vísaði hann til bréfs starfsmannaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins frá 29. janúar s.á., þar sem fram kom að rétt væri að hafna því að stefnandi kæmi aftur til starfa, ákvörðun ríkislögreglustjóra 4. desember 2013 styddist ekki við lagaheimild og væri markleysa. Rétt væri að bíða niðurstöðu dóms í þeim málum sem stefnandi hafði þá höfðað á hendur íslenska ríkinu. Auk máls þessa er þar vísað til máls sem stefnandi hafði höfðað til viðurkenningar á rétti sínum til að taka á ný við embætti lögreglumanns við embætti lögreglustjórans á [...]. Því máli var vísað frá þessum dómi 28. janúar sl., en þá var upplýst að stefnandi var skipaður í stöðu lögreglumanns við embætti lögreglustjórans á [...] 1. nóvember 2013 og hafði því ekki lögvarða hagsmuni af slíkum viðurkenningardómi.

Stefnandi telur sig eiga rétt á fullum launum frá því hann var leystur frá störfum um stundarsakir þar til málið var höfðað og krefst í málinu launagreiðslna til samræmis við það. Stefndi telur ráðningarsambandinu hafa lokið 15. júní 2012 og að þann dag hafi fallið niður gagnkvæm réttindi og skyldur aðila og stefnandi eigi því ekki rétt á umkröfðum launagreiðslum. Um þennan ágreining er deilt í málinu.

Stefnandi gaf skýrslu fyrir dóminum við aðalmeðferð málsins.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggi á því að stefndi hafi viðurkennt greiðsluskyldu sína gagnvart stefnanda með bréfi ríkislögreglustjóra til stefnanda og lögreglustjórans á [...] 4. desember 2012. Stefnandi taki undir þau sjónarmið sem fram komi í framangreindu bréfi ríkislögreglustjóra þess efnis að stefnandi eigi kröfu á stefnda um greiðslu vangoldinna launa frá 18. október 2010 til þess dags sem stefnandi komi aftur til starfa sem lögreglumaður við embætti lögreglustjórans á [...], að frádregnum hálfum grunnlaunum sem stefndi hafi greitt stefnanda frá 18. október 2010 til 15. júní 2012. Framangreind afstaða ríkislögreglustjóra byggi á 2. mgr. 28. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins en þar segi:

Nú tekur sá aftur við embætti sínu sem lausn hefur fengið um stundarsakir og skal þá líta svo á að hann hafi gengt starfanum óslitið, þar á meðal skulu honum þá greidd þau laun er hann hefur verið sviptur skv. 1. mgr. 

Krafa stefnanda á hendur stefnda sé því bæði viðurkennd og byggi á skýrum og ótvíræðum áskilnaði laga og því beri að taka dómkröfur stefnanda til greina. Stefnandi vísi jafnframt til stjórnsýslufordæmis í máli nafngreinds lögreglumanns við embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 477/2003, en mál hans sé sambærilegt máli stefnanda að því leyti að hann hafi verið sakfelldur í héraði og þá verið veitt lausn frá embætti. Hann hafi síðan verið sýknaður í Hæstarétti og hafi launauppgjör við hann farið fram á grundvelli 2. mgr. 28. gr. laga nr. 70/1996. Skorað sé á stefnda að leggja fram gögn um það hvernig staðið hafi verið að launauppgjöri við hann.      

Ákvörðun ríkislögreglustjóra 4. desember 2012 þess efnis að stefnandi taki aftur við starfi lögreglumanns á [...]og að vangoldin laun vegna ofangreinds tímabils verði gerð upp við stefnanda sé stjórnvaldsákvörðun sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með ákvörðuninni hafi ríkislögreglustjóri afturkallað fyrri stjórnvaldsákvörðun sína frá 15. júní 2012, þar sem hann hafi vikið stefnanda úr starfi lögreglumanns við embætti lögreglustjórans á [...], en ríkislögreglustjóra hafi verið heimilt að afturkalla þá ákvörðun sína, sbr. 1. mgr. 25. gr. stjórnsýslulaga. Af framansögðu leiði að stefnandi hafi í raun tekið við starfi sínu sem lögreglumaður við embætti lögreglustjórans á [...] á nýjan leik. Bréf lögreglustjórans á [...] til stefnanda 10. desember 2012 sé því markleysa enda sé ríkislögreglustjóri hinn valdbæri aðili og ákvörðunum hans og fyrirmælum beri lögreglustjóranum á [...] að hlíta að viðlagðri refsiábyrgð, sbr. 140. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Stefnandi sé varðstjóri við embætti lögreglustjórans á [...] og hafi þegið laun sem slíkur samkvæmt kjarasamningi Landssambands lögreglumanna og stefnda frá maí 2005, sbr. síðari samninga um framlengingu kjarasamninga og síðari niðurstöðu gerðardóma stefnda og Landssambands lögreglumanna (hér eftir einu nefnt kjarasamningur). Laun stefnanda séu eftirágreidd 1. hvers mánaðar.

Samkvæmt kjarasamningi samanstandi laun stefnanda af grunnlaunum, yfirvinnu, stórhátíðarkaupi, mismunandi flokkum bakvakta og vaktaálags, þrekálagi, sérstakri álagsgreiðslu, orlofi, orlofsuppbót, desemberuppbót, greiðslum vegna kaffitíma og föstum símakostnaði, sbr. framlagða launaútreikninga sem unnir hafi verið af Landssambandi lögreglumanna eftir að stefndi hafi neitað að framkvæma útreikninginn eftir ítrekaðar óskir þess efnis frá Landssambandi lögreglumanna. Við útreikning launaliða sem byggi á unnum vinnustundum hafi verið miðað við meðaltal vinnustunda stefnanda síðustu 12 mánuði áður en til launaskerðingar hafi komið.

Í stefnu er kröfugerð stefnanda sundurliðuð þannig að tilgreint er, fyrir hvern og einn af 27 gjalddögum launa, frá og með 1. nóvember 2010 til og með 1. janúar 2013, fjárhæð reiknaðra launa, greiðslur til stefnanda og fjárhæð mismunar, sem stefnandi telur vangoldin laun í 25 tilvikum, en í tveimur tilvikum er um ofgreiðslu að ræða.

Alls sé launakrafa stefnanda á hendur stefnda þannig 11.772.903 krónur fyrir launatímabilið 1. desember 2010 til 1. janúar 2013, en frá kröfunni dragist 69.236 krónur sem ofgreitt hafi verið við útborgun launa 1. nóvember 2010 og 1. júlí 2012. Stefnukrafa stefnanda á hendur stefnda sé því 11.703.667 krónur.

Laun stefnanda séu eftirágreidd 1. hvers mánaðar. Stefnandi hafi þannig fengið greidd laun fyrir nóvember 2010, 1. desember 2010. Vangoldin laun stefnanda gjaldfalli því 1. hvers mánaðar og því sé krafist dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð sem vangoldin sé um hver mánaðamót á launatímabilinu frá 1. desember 2010 til 1 janúar 2013.

Samhliða dómsmáli þessu sé rekið annað dómsmál á hendur ríkislögreglustjóra, lögreglustjóranum á [...] og íslenska ríkinu þar sem þess sé krafist að réttur stefnanda til þess að fá á nýjan leik starf sitt sem lögreglumaður við embætti lögreglustjórans á [...] verði viðurkenndur. Áskilinn sé réttur til þess að hafa uppi frekari kröfu á hendur stefnda í öðrum dómsmálum s.s. frekari kröfur vegna vangoldinna launa og kröfu um skaðabætur vegna almenns fjártjóns og miska vegna málsmeðferðar stjórnvalda á sakamálunum sem leitt hafi til sýknu stefnanda og meintrar annarrar refsiverðrar háttsemi stefnanda.

 

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefnanda hafi verið vikið úr embætti að fullu þann 15. júní 2012 með vísan til 29. gr. laga nr. 70/1996. Sú staðreynd sé óumdeild. Launauppgjör vegna starfsloka stefnanda hafi farið fram þann 1. júlí 2012 og eigi stefnandi því ekki vangoldin laun hjá stefnda. Því beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

Í 2. gr. stjórnarskrárinnar sé kveðið á um þrískiptingu ríkisvaldsins og setji ákvæðið valdheimildum framkvæmdavaldsins mikilvægar skorður. Undirstöðuregla íslenskrar stjórnskipunar feli það í sér að stjórnvöld séu bundin af lögum. Í lögmætisreglunni felist að ákvarðanir stjórnvalda skuli almennt eiga sér stoð í lögum og þær megi ekki vera í andstöðu við lög. Heimildar- og formregla lögmætisreglunnar leiði til þess að stjórnsýslan geti ekki tekið stjórnvaldsákvarðanir sem séu í andstöðu við sett lög frá Alþingi. Ekki sé að finna heimild í lögum nr. 70/1996 til að bjóða embættismanni aftur embætti sem honum hafi verið vikið úr að fullu samkvæmt 29. gr. laganna. Samkvæmt dómvenju nái réttur embættismanns ekki til þess að fá embætti á ný hafi honum verið vikið úr því embætti að fullu þó svo að ávirðingar, sem honum hefðu verið gefnar að sök, hefðu ekki reynst vera fyrir hendi. Embættismaður geti hins vegar, hafi hann orðið fyrir tjóni, krafist bóta vegna ólögmætrar lausnar úr embætti, sbr. 32. gr. starfsmannalaga. Því beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

Þegar stefnanda hafi verið vikið úr embætti sínu hafi hann hvorki getað haft réttmætar væntingar til að fá starf sitt að nýju, né fá greidd full laun þann tíma sem hann hafði verið frá störfum á grundvelli 2. mgr. 28. gr. laga nr. 70/1996.

Stefnandi hafi verið leystur frá embætti að fullu með vísan til 29. gr. starfsmannalaga. Því eigi hann ekki lögvarða kröfu til greiðslu launa á grundvelli 2. mgr. 28. gr. nr. 70/1996, en ákvæðið eigi samkvæmt orðanna hljóðan eingöngu við það tilvik þar sem embættismaður, sem leystur hafi verið frá embætti um stundarsakir, taki aftur við því. Því beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda sem byggðar séu á þessum grundvelli.

Ákvörðun ríkislögreglustjóra, að bjóða stefnanda að taka aftur við starfi lögreglumanns við embætti lögreglustjórans á [...], sé andstæð lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna, stjórnsýsluframkvæmd og dómaframkvæmd. Stefnandi geti því ekki reist kröfu um endurkomu í embætti á þeirri ákvörðun né byggt greiðsluskyldu að lögum á grundvelli hennar. Ráðningasambandi aðila hafi þá löngu verið lokið. Slíkt samband verði ekki endurvakið með afturköllun á grundvelli stjórnsýslulaga.

Lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins séu sérlög, þau séu jafnframt yngri en stjórnsýslulög nr. 37/1993. Á grundvelli almennra lögskýringarsjónarmiða telji stefndi að heimildir stjórnvalds til endurupptöku og afturköllunar samkvæmt 24. og 25. gr. stjórnsýslulaga séu ekki fyrir hendi, þegar um sé að ræða ákvörðun sem feli í sér endanlega lausn embættismanns og sem sé þar að auki komin til framkvæmda. Auk þess verði ekki séð að efnislegar forsendur þessara ákvæða stjórnsýslulaga séu fyrir hendi. Engar forsendur hafi verið fyrir afturköllun samkvæmt 25. gr. stjórnsýslulaga. Að auki sé hvergi í starfsmannalögunum að finna heimild til endurskoðunar þegar embættismanni hafi verið veitt lausn að fullu. Slíka heimild sé aðeins að finna þegar embættismanni hafi verið veitt lausn um stundarsakir á grundvelli 2. mgr. 28. gr. starfsmannalaganna, sem ekki eigi við hér. Af 32. gr. starfsmannalaga verði það ráðið að löggjafinn hafi ekki gert ráð fyrir þeim möguleika að skipun embættismanns yrði endurvakin með þeim hætti sem ríkislögreglustjóri hafi ráðgert þann 4. desember 2012. Launakrafa stefnanda sé leidd af ákvörðun sem skorti lagastoð og njóti því ekki lögverndar.

Samkvæmt 4. mgr. 28. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 skipi ríkislögreglustjóri lögreglumenn. Skipunarvaldi hans séu þau takmörk sett, samkvæmt 27. gr. sömu laga, að fyrir liggi tillaga frá hlutaðeigandi lögreglustjóra um skipun lögreglumanns. Engar stöður lögreglumanna hafi verið lausar hjá embætti lögreglustjórans á [...] þegar ríkislögreglustjóri hafi ákveðið að afturkalla lausn stefnanda og lögreglustjóri ekki gert neina tillögu um að auglýsa nýja stöðu og skipun lögreglumanns í hana. Þá liggi fyrir að búið hafi verið að skipa annan mann í þá stöðu sem stefnanda hafði verið vikið úr.

Laun lögreglumanna sem starfi við embætti lögreglustjórans á [...] séu greidd af fjárlagaheimildum þess embættis, en ekki af fjárheimildum ríkislögreglustjóra. Engin heimild hafi verið að lögum til að ákveða að greiða stefnanda laun, á grundvelli 2. mgr. 28. laga nr. 70/1996, löngu eftir að búið hafi verið að víkja honum endanlega frá embætti, þannig að bindandi sé fyrir embætti lögreglustjórans á [...]. Hlutverk ríkislögreglustjóra sé skilgreint í 5. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Ákvörðun hans um að lögreglustjóranum á [...] beri að greiða stefnanda laun án þess að sú ákvörðun eigi sér lagastoð í lögreglulögum falli því utan lögboðins og skilgreinds hlutverks embættis ríkislögreglustjóra og sé því markleysa. Stefnandi geti ekki reist kröfur sínar á slíkri ákvörðun.

Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. laga nr. 70/1996 beri forstöðumaður ábyrgð á því að rekstarútgjöld og rekstarafkoma stofnunar sé í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt. Fari útgjöld fram úr fjárlagaheimildum, geti það varðað forstöðumann viðurlögum að starfmannalögum. Í 49. gr. laga nr. 88/1997 um fjárreiður ríkisins, segi að forstöðumenn og stjórnir ríkisaðila beri ábyrgð á því að fjárhagsráðstafanir þeirra séu í samræmi við heimildir og brot á ákvæðum laganna varði skyldur opinberra starfsmanna samkvæmt starfsmannalögum.

Það liggi ljóst fyrir að ákvörðun ríkislögreglustjóra frá 4. desember 2012 hefði haft í för með sér stóraukin útgjöld fyrir embætti lögreglustjórans á [...], langt umfram fjárlagaheimild. Athygli lögreglustjóra hafi að auki verið vakin á því að ákvörðun ríkislögreglustjóra væri í andstöðu við starfsmannalög og hafi lögreglustjóri því verið í fullum rétt til að hafna því að taka stefnanda aftur til starfa, eins og hann hafi gert annars vegar með bréfi til stefnanda 10. desember 2012 og hins vegar með tölvupósti 31. janúar 2013.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið fari með fyrirsvar við túlkun og framkvæmd starfsmannalaga samkvæmt lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011, og forsetaúrskurði, nr. 100/2012. Ráðuneytinu beri því að fylgjast með og hafa áhrif á hvernig starfsmannalögin séu framkvæmd og túlkuð. Ráðuneytið hafi valdheimildir til að hafna greiðsluskyldu sem það meti andstæða starfsmannalögum. Starfsmannaskrifstofa ráðuneytisins hafi strax gert athugasemdir við kröfu framkvæmdastjóra Landssambands lögreglumanna sem sett hafi verið fram fyrir hönd stefnanda í tölvupósti til lögreglustjórans á [...] og hafi kröfugerðinni verið hafnað.

Í áðurgreindu svari til umboðsmanns stefnanda hafi stefndi tilkynnt honum að stefnandi ætti hvorki rétt til að fá starf sitt að nýju, né greiðslu launa á grundvelli 2. mgr. 28. gr. laga nr. 70/1996 og hafi sú afstaða stefnda því legið fyrir áður en ákvörðun ríkislögreglustjóra um að bjóða honum starf sitt að nýju hafi verið kynnt stefnanda. Stefnanda hafi þá strax mátt vera ljóst að kröfugerð hans væri umþrætt, þar sem hana skorti lagagrundvöll. Þeirri málsástæðu stefnanda að krafa hans sé bæði viðurkennd og byggi á skýrum lögum sé því mótmælt sem rangri.

Ákvörðun ríkislögreglustjóra, um að stefnandi kæmi aftur til fyrri starfa hjá embætti lögreglustjórans á [...] og að lögreglustjóra bæri að greiða honum laun, hafi ekki verið byggð á réttum lagagrundvelli og sé því bersýnilega ólögmæt, eins og stefnanda hafi mátt vera ljóst. Lögreglustjóranum á [...] hafi því ekki borið skylda til að hlíta ákvörðun ríkislögreglustjóra þar um. Ekki sé því um að ræða refsiábyrgð af hans hálfu samkvæmt 140. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eins og haldið sé fram í stefnu.

Því sé mótmælt sem röngu að við úrlausn á máli nafngreinds lögreglumanns frá árinu 2004 sé fólgið stjórnsýslufordæmi sem gilda eigi í máli stefnanda. Ljóst sé að sú úrlausn sem sá maður hafi fengið á sínum málum sé allt annars eðlis en sú sem hér sé deilt um, enda hafi sá maður verið skipaður að nýju í embætti lögreglumanns. Þá árétti stefndi að hafi sú verið raunin að áðurnefndur maður hafi fengið greidd laun á grundvelli 2. mgr. 28. gr. starfsmannalaga, þrátt fyrir að hafa verið vikið að fullu frá embætti á grundvelli 29. gr., sé ljóst að sú afgreiðsla hafi ekki sótt stoð í starfsmannalög, né önnur lagafyrirmæli, sé því að skipta. Röng stjórnsýsla hafi ekki fordæmisgildi. Hafi ákvörðun í tilteknu máli verið tekin á röngum lagagrundvelli eða án lagastoðar geti aðili að öðru máli ekki krafist sambærilegrar úrlausnar með því að vísa til þeirrar ákvörðunar.

Ekkert vinnuframlag liggi að baki launakröfu stefnanda. Sú staðreynd sé óumdeild. Krafa hans eigi sér því ekki stoð í kjarasamningi, reglum vinnuréttar eða lögum nr. 70/1996. Því beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

Jafnvel þótt ákvörðun ríkislögreglustjóra um að afturkalla lausn stefnanda frá embætti að fullu fengist staðist þá sé því mótmælt að stefnandi eigi rétt til launa allan þann tíma sem hann geri kröfu til, enda hafi honum verið vikið frá starfi af réttmætri ástæðu og engin lagaheimild standi til þess að greiða honum laun að fullu við þessar aðstæður.

Því sé sérstaklega mótmælt sem röngu að stefnandi hafi í raun tekið við starfi sínu sem lögreglumaður við embætti lögreglustjórans á [...] á nýjan leik, enda sé óumdeilt að annar maður hafi verið ráðinn og skipaður til að gegna því starfi sem stefnandi áður gegndi. Þeim hluta launakröfu stefnanda sem hann kveðji tilkomna frá 15. júní 2012 til 1. janúar 2013 sé því mótmælt sérstaklega.

Dráttarvaxtakröfu stefnanda sé mótmælt. Fallist dómur ekki á sýknukröfu stefnda sé upphafsdegi dráttarvaxta mótmælt. Stefndi telji að krafa stefnanda geti ekki borið dráttarvexti fyrr en í fyrsta lagi frá 4. desember 2012, sem sé sá dagur sem ríkislögreglustjóri hafi boðið stefnanda starf sitt að nýju.

Stefndi vísi til áðurgreindra lagaraka er varði sýknukröfu. Krafa um málskostnað styðjist við 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

 

Niðurstaða

Samkvæmt 2. mgr. 28. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, skal greiða þeim, sem veitt hefur verið lausn frá embætti um stundarsakir, þau laun sem hann hefur verið sviptur, taki hann aftur við embætti sínu og skal þá líta svo á að hann hafi gegnt starfanum óslitið. Í málinu er deilt um það hvort þær aðstæður, sem lýst er í kafla um málsatvik hér að framan, séu með þeim hætti að stefnandi hafi í raun tekið aftur við embætti sínu eftir að hafa verið veitt lausn frá því um stundarsakir, með þeim áhrifum að stefnda, íslenska ríkinu, beri að greiða honum laun á grundvelli ákvæðisins.

Af hálfu stefnda er á því byggt að sá sem leystur hefur verið frá embætti að fullu í framhaldi af vikningu um stundarsakir geti ekki átt kröfu til launa á grundvelli ákvæðisins. Stefnandi byggir á því að í bréfi ríkislögreglustjóra til hans 4. desember 2012 hafi falist afturköllun ákvörðunar um lausn frá embætti að fullu og því eigi ákvæðið við.

Ríkislögreglustjóri er bær til að skipa lögreglumenn í embætti og veita þeim lausn. Um málsmeðferð gilda reglur lögreglulaga, nr. 90/1996 og starfsmannalaga, meðal annars um auglýsingu á lausum störfum. Ríkislögreglustjóri hafði, að undangenginni auglýsingu, þegar skipað annan mann í embættið sem stefnanda var veitt lausn frá að fullu þegar hann ritaði stefnanda umrætt bréf um að hann hefði ákveðið að bjóða stefnanda að taka við stöðunni aftur. Síðar, eftir að mál þetta var höfðað, skipaði ríkislögreglustjóri stefnanda í aðra stöðu við sama embætti, að undangenginni auglýsingu. Að þessu virtu og því að í bréfinu var afturköllun ákvörðunar ekki orðuð, verður ekki fallist á það með stefnanda, að bréfið verði að túlka sem afturköllun ákvörðunar um lausn stefnanda að fullu, þannig að hann hafi í raun tekið aftur við því starfi sem honum hafði verið veitt lausn frá.

Afturköllun stjórnsýsluákvörðunar er ný stjórnsýsluákvörðun og gæta ber að öllum reglum stjórnsýsluréttar um málsmeðferð við töku slíkrar ákvörðunar, þar með talið um andmælarétt og rökstuðning, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 327/2009. Horfa þarf til þess að samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996 er mörkuð sú stefna að forstöðumenn stofnana fara með starfsmannamál svo og fjármál stofnana. Auk lögreglumannsins hefur lögreglustjóri embættis, sem ábyrgð ber á fjárstjórn þess, hagsmuna að gæta í stjórnsýslumáli um það hvort lögreglumaður komi til starfa við embætti hans og fái greidd laun af fjárveitingu embættisins.

Upplýst er að hvorki stefnanda né lögreglustjóranum var veittur kostur á að tjá sig um fyrirhugaða ákvörðun og verður bréf ríkislögreglustjóra til stefnanda 4. desember 2012, þegar af þeirri ástæðu að andmælaréttar var ekki gætt, ekki talið hafa gildi gagnvart þeim, sem stjórnsýsluákvörðun um afturköllun. Að þessu gættu og þegar litið er til orðfæris bréfsins er þó ekki útilokað að líta svo á að í bréfinu gæti falist boðun ákvörðunar, en þá var þeirri boðun ekki fylgt eftir með stjórnsýsluákvörðun sama efnis. Þvert á móti var framkvæmdastjóra Landssambands lögreglumanna, sem gekk erinda stefnanda í málinu, tilkynnt strax daginn eftir dagsetningu bréfsins að ekki yrði um launagreiðslur að ræða á þeim grundvelli sem krafist var og að stefnandi ætti ekki rétt á að taka aftur við starfi sínu. Stefnandi var síðan sjálfur, og lögmaður hans, upplýstur um að boðaðar ákvarðanir ríkislögreglustjóra um þessi efni kæmu ekki til framkvæmda.  

Í starfsmannalögum er ekki gert ráð fyrir að starfsmenn ríkisins geti fengið störf sín aftur þegar þeim hefur verið vikið úr starfi að fullu. Þeim er hins vegar tryggður bótaréttur vegna ólögmætrar brottvikningar úr starfi. Samkvæmt framansögðu verður að líta svo á að ákvörðun um starfslok stefnanda hafi verið endanleg og verður ekki fallist á kröfu stefnanda sem byggir á því að ráðningarsambandið hafi verið endurvakið. Stjórnsýsluákvörðun þarf að byggjast á heimild í lögum. Fallist er á það með stefnda að engin lagaheimild standi til þeirrar ráðstöfunar ríkislögreglustjóra að bjóða stefnanda að taka aftur við starfi sem honum hafði verið veitt lausn frá að fullu. Breytir engu í því efni þótt stefnandi vísi til annars máls, þar sem farið hafi um launauppgjör til lögreglumanns á þeim lagagrundvelli sem stefnandi krefst að beitt verði í máli þessu. Stefnandi skoraði á stefnda að leggja fram nánari upplýsingar um það mál sem hann vísaði til. Stefndi varð ekki við þeirri áskorun, en af hálfu stefnda hefur verið upplýst að mistök kunni að hafa orðið við uppgjör í því máli. Það breytir samkvæmt framansögðu ekki niðurstöðu þessa máls með hvaða hætti gert var upp við annan lögreglumann.

Samkvæmt öllu framansögðu verður fallist á það með stefnda að bréf ríkislögreglustjóra til stefnanda frá 4. desember 2012 sé markleysa að því leyti að það hefur ekki þau réttaráhrif sem stefnandi byggir á að það hafi og getur stefnandi því ekki reist á bréfinu, eða neinu öðru sem fram er komið í málinu, þá launakröfu sína á grundvelli 2. mgr. 28. gr. starfsmannalaga, sem um er deilt í málinu. Það breytir ekki þessari niðurstöðu þótt í bréfinu hafi falist ívilnandi tilkynning til stefnanda, enda var hann ekki grandlaus um að annar maður hafði þegar verið skipaður í stöðuna.

Að framangreindu virtu og málatilbúnaði stefnanda verður stefndi, íslenska ríkið, sýknað af dómkröfum stefnanda í málinu. Stefnanda verður gert að greiða stefnda málskostnað, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, sem þykir hæfilega ákveðinn 450.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.

Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, íslenska ríkið, er sýknað af kröfum stefnanda, A.

Stefnandi greiði stefnda 450.000 krónur í málskostnað.

                                                                        Kristrún Kristinsdóttir