• Lykilorð:
  • Skaðabætur
  • Uppsögn
  • Vinnulaun

r 2008, fimmtudaginn 18. desember, var í Héraðsdómi Reykjavíkur í málinu nr.

           

            E-6275/2006:            

                        Kjartan Sigtryggsson

                        gegn               

                        íslenzka ríkinu

 

kveðinn upp svohljóðandi                              

 

d ó m u r

I

Mál þetta, sem dómtekið var mánudaginn 24. nóvember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Kjartani Sigtryggssyni, kt. 080444-3899, Ásholti 6, Reykjavík, með stefnu birtri 26. október 2006, á hendur íslenzka ríkinu vegna Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli.

 

      Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda vangreidd laun og skaðabætur að fjárhæð kr. 8.969.033.  Þess er krafizt, að stefnufjárhæðin beri dráttarvexti samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálag, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, þannig: 

Af kr. 1.101.513 frá 01.07. 2003 til 31.07. 2003,

af kr. 1.503.532 frá 01.08. 2003 til 31.08. 2003,

af kr. 1.905.546 frá 01.09. 2003 til 30.09. 2003,

af kr. 2.307.560 frá 01.10. 2003 til 31.10. 2003,

af kr. 2.709.574 frá 01.11. 2003 til 30.11. 2003,

af kr. 3.111.588 frá 01.12. 2003 til 31.12. 2003,

af kr. 4.213.106 frá 01.01. 2004 til 26.01. 2004,

af kr. 4.493.298 frá 26.01. 2004 til 31.01. 2004,

af kr. 4.615.120 frá 01.02. 2004 til 26.02. 2004,

af kr. 4.895.312 frá 26.02. 2004 til 29.02. 2004,

af kr. 5.017.134 frá 01.03. 2004 til 31.03. 2004,

af kr. 5.218.141 frá 01.04. 2004 til 15.04. 2004,

af kr. 5.430.198 frá 16.04 2004 til 30.04. 2004,

af kr. 5.851.313 frá 01.05. 2004 til 31.05. 2004,

af kr. 6.145.514 frá 01.06. 2004 til 26.06. 2004,

af kr. 6.273.428 frá 26.06. 2004 til 30.06. 2004,

af kr. 6.695.965 frá 01.07. 2004 til 31.07. 2004,

af kr. 7.118.502 frá 01.08. 2004 til 31.08. 2004,

af kr. 7.541.039 frá 01.09. 2004 til 30.09. 2004,

af kr. 7.963.576 frá 01.10. 2004 til 31.10. 2004,

af kr. 8.969.033 frá 01.11. 2004 til greiðsludags.

Þá er þess krafizt, að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu að mati dómsins, að teknu tilliti til  skyldu stefnanda til að inna af hendi virðisaukaskatt.

 

      Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, og stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins.  Til vara er þess krafizt, að stefnufjárhæð verði lækkuð verulega og málskostnaður verði felldur niður.

 

II

Málavextir

Stefnandi var starfsmaður Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli í 25 ár, þar af síðasta 21 ár sem Security Manager hjá Navy Exchange.  Gegndi hann þar stjórnunarstarfi og hafði m.a. með að gera öryggismál hjá verzlun Varnarliðsins, rýrnunareftirlit o.fl.  Um miðjan níunda áratug síðustu aldar voru þær breytingar gerðar á m.a. kjörum stjórnunarstarfsmanna, að yfirvinnugreiðslur voru felldar niður en tekið upp svonefnt bónuskerfi, sem byggðist á því, að árlega fór fram sérstakt persónulegt mat á starfsmönnum, og voru bónusgreiðslurnar ákveðnar á grundvelli þess mats.  Gat frammistöðubónus orðið hæstur 7% af föstum launum viðkomandi starfsmanns og starfsaldurbónus 7%.  Miðað var við að matið færi fram í nóvembermánuði og bónusinn greiddur í desember.  Kæmi matið neikvætt út, var hvorki greiddur frammistöðubónus né starfsaldursbónus.

      Stefnandi hafði ávallt fengið samningsbundinn bónus vegna góðrar frammistöðu í starfi, þar til í desember árið 2002, að hann fékk þennan kaupauka ekki greiddan.  Kveður stefnandi uppgefna ástæðu hafa verið þá, að frammistaða hans hefði skyndilega versnað.  Kveður stefnandi sér hafa komið þetta sérstaklega á óvart, þar sem hann hefði skömmu áður, þ.e. 31.10. 2002, fengið tölvupóst frá yfirmanni sínum, Mark Cooke, þar sem honum hafi verið hrósað fyrir góða frammistöðu í starfi.

      Stefnandi mótmælti matinu og framkvæmdinni allri í bréfi dagsettu 16.12. 2002, sem sent var yfirmanni Varnarliðsins, „Commanding Officer“.  Þessu erindi stefnanda var fyrst svarað bréflega hinn 3. júní 2005, eða 2½ ári síðar, þar sem stefnda var synjað um greiðslu kaupaukans.  Lýtur ágreiningur aðila í máli þessu m.a. að greiðslu kaupaukans.

      Hinn 28. janúar 2003 lenti stefnandi í vinnuslysi hjá stefnda, þegar stór sófi rann af flutningabíl á stefnanda og lenti á honum vinstra megin í mjaðmarhæð.  Stefnandi var með gerviliði í báðum mjöðmum og kveðst hann hafa þolað þetta mikla högg illa.  Trúnaðarlæknir stefnda, Hreggviður Hermannsson, vottaði sama dag áverkann og sendi stefnanda til meðferðar hjá öðrum lækni, en stefnandi kveðst vart hafa verið göngufær.  Taldi trúnaðarlæknirinn stefnanda vera óvinnufæran með öllu frá þessum tíma og um óákveðinn tíma.  Stefnandi kveðst ekki hafa getað snúið aftur til starfa sinna hjá stefnda, vegna afleiðinga slyssins, en hann hafi átt við langvarandi veikindi að stríða vegna slyssins.

      Arnór Víkingsson læknir gaf út læknisvottorð þann 02.06. 2003 og staðfesti óvinnufærni stefnanda og taldi óvíst, hve lengi hann yrði óvinnufær.  Samkvæmt vottorði Þórhildar Sigtryggsdóttur læknis var hann enn óvinnufær þann 13.02. 2004, en það vottorð var sent til trúnaðarlæknis stefnda.  Samkvæmt vottorði sama læknis var hann enn óvinnufær þann 08.06. 2004.

      Stefnandi fékk greidd grunnlaun (600 einingar) frá stefnda frá þeim tíma, sem hann lenti í framangreindu slysi, og allt til 31.05. 2003, þegar hann fékk síðasta launaseðilinn.  Til viðbótar þeim grunnlaunum voru honum greiddar 445,70 einingar þann 31.05. 2003.  Fyrir hverja einingu voru greiddar kr. 2.473,93.  Kveður stefnandi engar frekari skýringar hafa fylgt með fyrir hvað þessar einingar væru greiddar.  Kveður stefnandi, að ráða megi af áðurnefndu bréfi stefnda frá 3. júní 2005, að hér sé um greiðslu veikindalauna að ræða.  Í bréfinu komi fram, að stefndi fallist á, að stefnandi eigi rétt til greiðslu veikindalauna í 1950 klst., þar sem hann sé með lengri en 20 ára starfsaldur.  Stefndi telur hinsvegar, að draga beri frá þeim rétti 431,2 klst. vegna veikindafjarvista stefnanda á síðustu 12 mánuðum fyrir upphafsdag veikinda.

      Um þetta er ágreiningur milli aðila.

      Stefnandi kveður enn vanta greiðslu á 482,1 einingu/klst., til þess að stefndi greiði stefnanda þann rétt sem hann þó á að mati stefnda (1950 klst.). Er þá hver eining túlkuð sem klukkustund, sem hann fær með því að leggja saman framangreindar einingar/klst., þ.e. 600+445,70+431,2, sem geri 1476,9 einingar/klst. Sjáist þá jafnframt, að þrátt fyrir framangreindan ágreiningsfrádrátt (431,2 klst.) vanti enn greiðslu á 482,1 einingu/klst.  Kveður stefnandi túlkun stefnda ekki vera í neinu samræmi við gildandi ráðningarsamning stefnanda, sem síðast hafi verið endurnýjaður í september 1996.

      Sakir þess að stefndi svaraði í engu bréfum lögmanns stefnanda, kveðst stefnandi hafa, eftir bið í meira en 3 mánuði, leitað eftir svari til Varnamáladeildar utanríkisráðuneytisins til milligöngu um lausn málsins.  Sú málaleitan bar ekki árangur.

 

III

Málsástæður stefnanda

Stefnandi kveður endanlegar kröfur sínar vera þríþættar.  Í fyrsta lagi snúist málið um starfsmats- og starfsaldursuppbót fyrir árin 2002 og 2003 og hluta ársins 2004.  Í öðru lagi snúist það um greiðslu í veikindum og í þriðja lagi um skaðabætur vegna launa í uppsagnarfresti.

 

1.0. Starfsmats- og starfsaldursuppbót fyrir árið 2002.

Samkvæmt skýrum ákvæðum ráðningarsamnings geti kaupaukagreiðsla mest numið 14,5% af árslaunum og byggist mat á upphæð hennar annars vegar á starfsaldri (7,5%) og hins vegar á frammistöðumati (7,0%). Um framkvæmd frammistöðumats gildi ákveðnar skriflegar reglur, og eiga þær að tryggja hagsmuni starfsmannsins.  Reglurnar kveði skýrt á um, hvernig framkvæma eigi framangreint frammistöðumat, m.a. hvernig markmið séu sett varðandi vinnuafköst fyrir tiltekið tímabil og hvernig fylgzt sé með því yfir árið.  Samkvæmt reglunum beri vinnuveitanda skylda til að láta starfsmann vita tímanlega, séu störf hans talin ófullnægjandi, og gefa honum kost á úrbótum.

      Stefnandi hafi unnið í yfir 20 ár hjá stefnda og undantekningarlaust fengið hæstu einkunn í frammistöðumati, þ.e.a.s. „framúrskarandi“.  Árið 2003 hafi hann hins vegar fengið einkunnina „ófullnægjandi“, án þess að nokkuð hafi áður verið gefið í skyn í þá veru, áður en matið var birt stefnanda, eða honum hafi á árinu verið gefinn kostur á að bæta úr, eins og gera skuli samkvæmt gildandi reglum.  Athugasemdum stefnanda varðandi þetta mál hafi í engu verið svarað, þrátt fyrir skýrar reglur um andmælarétt stefnanda.  Stefnandi telji sig því eiga fullan rétt til 14,5% kaupauka fyrir árið 2002, auk réttar vegna ársins 2003 og hluta ársins 2004.

      Það hafi almennt heyrt til algjörra undantekninga, að kaupaukaréttur þessi væri skertur hjá starfsmönnum stefnda.  Þessi réttindi séu því áunnin, eins og önnur starfsréttindi, og föst venja hafi skapazt um framkvæmd þeirra.  Mjög ríkar ástæður þurfi að liggja að baki slíkri skerðingu, og mjög strangar kröfur verði að gera til stefnda um að virða rétt starfsmannsins í hvívetna og gæta allra reglna við beitingu á framangreindri skerðingu.

      Stefnda hafi hvorki tekizt að sanna, að svipting framangreindra réttinda hafi verið réttmæt af hans hálfu, né að hann hafi uppfyllt þau formskilyrði, sem gert hafi verið ráð fyrir við slíkar refsiaðgerðir.

      Þær skriflegu reglur, sem unnið hafi verið eftir við framkvæmd framangreinds starfsmats, hafi aldrei verið kynntar starfsmönnum stefnda með viðhlítandi hætti.  Í þessu efni sé ljóst, að réttur starfsmannsins hafi verið fyrir borð borinn.

      Eins og að framan sé rakið, telji stefnandi, að stefndi hafi ekki staðið rétt að því að svipta hann áðurnefndum kaupaukarétti og algjörlega virt að vettugi andmælarétt hans samkvæmt ákvæðum ráðningarsamnings.  Af þessum sökum beri honum þessi uppbót, þar sem stefnandi telji, að hann hafi sinnt starfi sínu engu síður en undanfarin ár, þegar framangreindur kaupauki var greiddur stefnanda.

      Vegna ársins 2002 sé krafizt kr. 699.504 í starfsmats- og starfsaldursbætur og kr. 58.292 fyrir hvern mánuð frá 1. janúar 2003 til 30. október 2004, 22 mánuðir, eða samtals kr. 1.282.424.  Samanlagt fyrir árin 2002, 2003 og 2004 nemi þessi kröfuliður því kr. 1.981.928.

 

2.0. Veikindalaun

Stefnandi sé enn óstarfhæfur vegna veikinda sinna.  Í því sambandi megi benda á læknisvottorð, sem liggi fyrir í málinu og staðfesti óvinnufærni stefnanda.  Eins og áður hafi komið fram, eigi hann samkvæmt ráðningarsamningi aukinn veikindarétt, þar eð starfsaldur hans sé yfir 20 ár.  Um sé að ræða rétt til greiðslu veikinda í 1950 klst. í veikindaleyfi frá þeim tíma, sem hann varð óvinnufær, þ.e. frá 28. janúar 2003.  Miðað við framangreindan vinnutímafjölda sé því um að ræða rétt til veikindalauna í um eitt ár frá því að starfsmaður varð óvinnufær.  Stefndi hafi fram að þessu aðeins greitt stefnanda laun fyrir 600 einingar af þeim 1950 klst., sem hann eigi rétt á.

      Veikindaréttur þessi byggist á ákvæði í 12. grein ráðningarsamnings stefnanda við stefnda í grein, sem beri yfirskriftina „Annual Leave- Sick leave“.  Þar segi orðrétt:  „Number of days and administration is the same as that established by the collective agreement of Suðurnes Office Store Workers Union used for office and store employees employed by the Iceland Defense Force. ... Extended sick leave benefits apply for management employees with over 20 years of Defense Force service.“

      Synjun stefnda um greiðslu komi fram í áðurnefndu bréfi frá 3. júní 2005, en þar sé stuðzt við túlkun á ákvæðum í almennum kjarasamningum um veikindarétt og með þeim rökstuðningi talið, að draga eigi 431,2 klst. frá veikindarétti stefnanda vegna veikindaforfalla hans á síðustu 12 mánuðum fyrir vinnuslysið.  Mótmælt sé alfarið, að áðurnefnd túlkun nái til stefnda í þessu máli.  Hér hafi heildarréttur launþega í veikindum verið aukinn gegn því að þrengja fyrri túlkun á kjarasamningsákvæði um veikindarétt.  Þetta hafi m.ö.o verið skiptimynt í heildarkjarasamningum.  Réttur stefnda hafi ekkert aukizt við þessa breytingu, enda byggist réttur hans á ráðningarsamningi, en ekki kjarasamningi.

      Ráðningar- og kjarasamningar séu í eðli sínu ólíkir.  Ráðningarsamningur varði persónuleg kjör hvers og eins og veiti starfsmanni oft réttindi umfram réttindi almennra kjarasamninga.  Það sé almenn regla í vinnurétti, að þau réttindi skuli haldast, sem veitt séu með sérstökum samningum eða leiði af venju í einstökum starfsgreinum, séu þau launþeganum hagstæðari en ákvæði kjarasamninga eða laga.

      Í tilviki stefnanda hafi hann, með samningi við stefnda, samið um persónubundin veikindakjör umfram lög eða kjarasamninga, sem ekki verði skert með breytingum á kjarasamningum, eins og stefndi haldi fram í áðurnefndu bréfi frá 3. júní 2005.

      Þeim sjónarmiðum, sem þar komi fram af hálfu stefnda, sé alfarið hafnað af hálfu stefnanda.  Augljós ágreiningur sé því um túlkun veikindaákvæðis í ráðningarsamningi stefnanda.

      Stefnandi viti um marga starfsmenn stefnda, sem hafi sömu veikindaréttindi og hann og hafi ekki þurft að þola þá skerðingu á veikindalaunum sem stefndi ætli nú að framfylgja gagnvart stefnanda.  

 

2.1. Uppbótarorlof.

Ákvæði í grein 4.5. í kjarasamningum verzlunarmanna, sem vitnað sé til í framangreindum ráðningarsamningi, kveði á um, að stefnandi eigi rétt á uppbótarorlofi í jafnlangan tíma og veikindi hans hafi sannanlega varað.  Af þeim sökum sé krafizt launa fyrir stefnanda fyrir tímabilið 26. janúar 2004 til 26. febrúar 2004, þar sem hann sé sannanlega veikur í orlofi.

 

2.2. Réttindi vegna vinnuslyss.

Til viðbótar áðurnefndum veikindarétti á stefnandi rétt til greiðslu vegna vinnuslyssins í allt að þrjá mánuði, þ.e. frá 26. febrúar til 26. maí 2004.  Réttindi þessi komi fram í grein 8.1.2 í kjarasamningum verzlunarmanna, en þar segi: „Í hverju vinnuslysa- eða atvinnusjúkdómstilfelli sem orsakast við vinnuna eða af henni, eða flutnings til og frá vinnustað, greiði viðkomandi vinnuveitandi laun fyrir dagvinnu í allt að 3 mánuði skv. þeim taxta sem starfsmaður er á þegar slys eða sjúkdóm ber að.“  Ákvæði þetta sé samhljóða ákvæði í lögum nr. 19/1979 um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla.

      Óskiljanlegt sé með öllu, að stefndi hafi enn ekki fallizt á þessa kröfu stefnanda.

      Samtals eigi stefnandi því rétt til veikindalauna í 1950 klst., að frádregnum veikindalaunum frá 28. janúar 2003 til 31. maí 2003, alls 663,5 klst., sem stefndi hafi greitt stefnanda.  Stefndi eigi því eftir að greiða stefnanda veikindalaun í 1286,5 klst.  Við útreikning kröfunnar sé miðað við grunnlaun, kr. 402.014, frá júní 2003 til 26. janúar 2004.  Enn fremur sé miðað við 165 tíma unna á mánuði og laun pr. dagvinnutíma, kr. 2.473,93. Samtals nemi þessi kröfuliður kr. 3.094.290.

      Viðbótarorlof frá 26. janúar 2004 til 26. febrúar 2004 nemi kr. 402.014 og þriggja mánaða dagvinnulaun vegna vinnuslyssins nemi kr. 1.250.202, en grunnlaun hafi hækkað þann 15.04. 2004 um 5% upp í kr. 422.537.  Um sé að ræða mánuðina 26. febrúar til 26. maí 2004.  Samtals nemi því vangreidd vinnuslysa- og veikindalaun kr. 4.746.506, auk áfallinna dráttarvaxta.

 

3.0. Ólögmæt uppsögn

Því sé mótmælt, sem stefndi haldi fram, að stefnanda hafi verið löglega sagt upp.  Stefndi kveðist hafa sent stefnanda uppsagnarbréf, dagsett þann 29. janúar 2003, þ.e. degi eftir að stefnandi varð frá vinnu vegna áðurnefnds vinnuslyss.  Það hafi aldrei borizt stefnanda í hendur.  Lögformleg uppsögn hafi því aldrei átt sér stað, þrátt fyrir að stefnda hafi gefizt rúmur tími til að tryggja sönnun fyrir því, að stefnanda hafi verið sagt upp.

      Vaknað hafi sá grunur hjá stefnanda, eftir að hann komst að því, að stefndi hefði sent honum uppsagnarbréf daginn eftir vinnuslysið, að með því hefði stefndi verið að reyna að komast hjá því að greiða að fullu þau laun í veikindum, sem honum bæri.

      Þar sem stefnandi hafi verið orðinn 60 ára að aldri þann 26.06. 2004, þegar réttindi hans til launa í veikinda/slysatilvikum voru uppurin, eigi hann, samkvæmt ákvæðum í grein 12.1 í kjarasamningum verzlunarmanna, rétt til 5 mánaða uppsagnarfrests.  Honum hafi ekki verið sagt upp á lögmætan hátt, og geri hann því kröfu til skaðabóta, sem nemi 5 mánaða grunnlaunum frá 1. júlí til 31. október 2004 (5x422.537), en grunnlaun hafi hækkað vegna launaskriðs þann 17.05. 2004 um 0,1%.  Jafnframt sé krafizt kr. 127.914 vegna tímabilsins 26.06. til 30.06. 2004, þar sem uppsögn sé bundin við mánaðarmót samkvæmt ákvæði í áðurnefndri grein 12.1 í kjarasamningi verzlunarmanna.  Samtals nemi skaðabótakrafan því vegna launa í uppsagnarfresti kr. 2.240.599.

 

      Stefnandi byggir kröfur sínar á almennum reglum samninga- og vinnuréttar um efndir og túlkun samninga, enn fremur á ákvæðum l. nr. 19/1979 og ákvæðum í kjarasamningum LÍV og Verzlunarmannafélags Suðurnesja annars vegar og Samtaka atvinnulífsins hins vegar.  Kröfur um vexti byggist á III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 (sic), sbr. lög nr. 67/1989 og 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.  Kröfur um dráttarvexti byggist á 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.  Málskostnaðarkrafan byggist á 3. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Málsástæður stefnda

Stefndi kveðst mótmæla málavaxtalýsingu stefnanda, að því leyti sem hún fari í bága við það, sem stefndi haldi fram í málinu.  Þá mótmæli hann málsástæðum stefnanda.

      Stefnandi segi í stefnu, að hann hafi átt mjög farsælan feril í starfi sínu hjá varnarliðinu og ávallt fengið samningsbundinn kaupauka (bónus) vegna góðrar frammistöðu í starfi og það hafi komið sér í opna skjöldu í byrjun desember 2002, þegar hann fékk ekki greiddan þennan kaupauka, og ástæðan sögð vera sú, að frammistaða hans hefði skyndilega versnað. 

      Stefnandi hafi fengið áminningu þann 13.05. 2002 og liggi áminningarbréfið frammi í málinu á dskj. nr. 30 og vísist til efnis þess.

      Í starfsmati á dskj. nr. 34 hafi heildarniðurstaða vegna stefnanda verið „unsatisfactory“, eða ófullnægjandi.  Í starfsmatinu hafi beinlínis verið vísað til áminningarbréfsins.

      Stefnandi hafi mótmælt niðurstöðu starfsmatsins með bréfi, dags. 16.12. 2002, sbr. dskj. nr. 13.  Yfirmaður flotaflugstöðvarinnar hafi hafnað mótmælum þessum og því hafi engin greiðsla farið fram til stefnanda.  Formleg staðfesting höfnunarinnar hafi ekki fundizt, en hún hafi í síðasta lagi komið fram með bréfi dags. 03.06. 2005, sbr. dskj. nr. 10.  Á því sé byggt, að aðgerðin sjálf, þ.e. neitun á greiðslunni, hafi komið til framkvæmda strax í desember 2002, og hafi afstaða varnarliðsins til mótmæla stefnanda legið fyrir stuttu síðar, og að stefnanda hafi mátt vera kunnugt um hana.  Því hafi, að mati stefnda, ekki verið hægt að misskilja, að mótmælum stefnanda hefði verið hafnað.  Einnig verði að taka tillit til þess, að stefnandi hafi ekki verið á vinnustað eftir 28.01. 2003 og hafi lítið sem ekkert samband haft við vinnustað sinn, yfirmenn eða fulltrúa starfsmannahalds.  Til dæmis hafi stefnandi neitað móttöku ábyrgðarbréfs þess, sem innihélt uppsögn hans, án þess að vera kunnugt um innihald þess.

      Stefnandi hafi slasazt hinn 28.01. 2003 í starfi hjá varnarliðinu.  Vísist til umfjöllunar varnarliðsins um slysið á dskj. nr. 10, en þar komi m.a. fram, að ljóst sé af læknisvottorði frá Þórhildi Sigtryggsdóttur, að stefnandi hafi, í kjölfar slyssins, átt í hinum ýmsu veikindum, en þar komi ekkert fram, sem segi, að hann hafi ekki verið orðinn góður af hnjámeiðslum sínum vegna slyssins. 

      Í málinu liggi fyrir vottorð Hreggviðs Hermannssonar á dskj. nr. 3.  Það hafi verið regla hjá varnarliðinu, að vottorð um óvinnufærni gilti í 1 mánuð, og hafi starfsmenn þá átt að skila inn nýju vottorði um óvinnufærni, væri hún til staðar.  Stefndi telji ósannað, að stefnandi hafi verið óvinnufær vegna slyssins eins, nema í einn mánuð eftir slysið.  Að mati stefnda veiti læknisvottorð, sem gefin séu út eftir þann tíma og liggi fyrir í málinu, ekki sönnun fyrir óvinnufærni stefnanda vegna slyssins eins eftir þann tíma.

      Nokkru áður en stefndi varð fyrir slysinu hinn 28.01. 2003 hafi verið tekin ákvörðun um að segja stefnanda upp störfum.  Uppsögnin hafi ekki staðið í neinum tengslum við slys stefnanda.  Það að uppsögn barst einum degi eftir slys, hafi verið alger tilviljun.  Uppsagnarbréf stefnanda hafi verið dagsett 29.01. 2003.  Það hafi verið póstlagt þann dag, en stefnandi hafi neitað móttöku.  Bréfið hafi verið lagt fram í dómi óopnað.

      Mótmælt sé fullyrðingum stefnanda í stefnu um, að lögformleg uppsögn hafi ekki átt sér stað.

      Stefnandi nefni í stefnu, að hann hafi fengið greidd grunnlaun, 600 einingar, frá stefnda frá þeim tíma sem hann lenti í vinnuslysinu til 31.05. 2003, og að auki hafi hann fengið greiddar 445,70 einingar þann 31.05. 2003.  Engar skýringar hafi fylgt með, fyrir hvað þessar einingar væru greiddar og að af bréfi stefnda á dskj. nr. 10 megi ráða, að hér sé um greiðslu veikindalauna að ræða.  Stefndi bendi á, að framangreind tala, 600 einingar, hjá stefnanda sé ekki rétt, heldur hafi einingarnar verið 663,5.  Að mati stefnda felist skekkja hjá stefnanda í því, að hann reikni hvern mánuð sem 4 vikur og taki ekki með í reikninginn, að greitt hafi verið út á tveggja vikna fresti og hver almanaksmánuður teljist 4,33 vikur.  Einnig virðist stefnandi ekki taka með þá daga, sem líði frá slysinu út janúar 2003.  Þá sé skýring stefnanda í stefnu á þeirri greiðslu, sem hann fékk þann 31.05. 2003, 445,7 einingar, röng.  Stefnandi segi, að af bréfi stefnda á dskj. nr. 10 megi ráða, að hér sé um greiðslu veikindalauna að ræða.  Þetta sé rangt og verði alls ekki ráðið af dskj. nr. 10.  Talan 445,7 sé hvergi nefnd í því bréfi.  Um hafi verið að ræða greiðslu á eldra orlofi, 353,7 einingar, sem stefnandi hafi átt inni, og 17,5 einingar fyrir maí 2003, en að auki hafi stefnandi fengið greiðslu vegna uppsafnaðrar vinnutímastyttingar, 74,5 einingar.  Samtala þessara talna sé 445,7 einingar.

      Eins og fram komi í bréfi varnarliðsins á dskj. nr. 10 hafi stefnandi þurft að nota 431,2 klst. veikindarétt á 12 mánuðum fyrir slysið.

      Því sé mótmælt sem röngu, að túlkun stefnda sé ekki í samræmi við ráðningarsamning stefnanda.

      Því sé harðlega mótmælt, að stefndi hafi sýnt ókurteisi og óbilgirni gagnvart stefnanda í málinu.

      Því sé mótmælt, að stefnandi eigi rétt á starfsmats- og starfsaldursuppbót fyrir það tímabil, sem hann krefjist greiðslu fyrir.  Kröfuliður þessi sé undir liðnum 1.0. á bls. 3 í stefnu.  Stefnandi krefjist hér uppbótar fyrir árið 2002 og að auki fyrir tímabilið frá 01.01. 2003 til 30.10. 2004.  Kröfunni sé mótmælt sem rangri.  Greiðsla þessi sé ívilnandi uppbót á laun og umfram skyldu samkvæmt kjarasamningi.  Greiðsla þessi hvíli öll á þeirri forsendu, að starfsmenn fullnægi þeim skilyrðum, sem sett séu fyrir greiðslunni.  Þær forsendur komi fram í þeim reglum, sem um þetta gildi og liggi fyrir í málinu á dskj. nr. 29.  Stefnandi hafi upphaflega sjálfur sótt um að komast í þetta kerfi.  Stefnandi hafi fengið matið „unsatisfactory“ í árlegu mati vegna tímabilsins frá desember 2001 til nóvember 2002, sbr. dskj. nr. 34.  Því mati hafi ekki verið hnekkt eða breytt.  Með því að fallast á að taka þátt í þessu matskerfi, hafi stefnandi samþykkt reglur þær, sem að þessu snúi.  Í 2. grein reglna varnarliðsins um starfsmats- og starfsaldursuppbót stjórnunarstarfsmanna komi fram, að stjórnunarstarfsmenn, sem fá „ófullnægjandi“ í heildareinkunn, fái engar uppbótargreiðslur, hvorki fyrir árangur né fyrir starfsaldur.  Stefnandi eigi hvorki rétt á starfsmats- eða starfsaldursuppbót.

      Því sé mótmælt, að formi ákvörðunar hafi verið ábótavant.  Þar fyrir utan sé á það bent, að andmælaréttur eigi ekki við í vinnurétti.

      Fram komi hjá stefnanda í stefnu, að það hafi komið honum í opna skjöldu í byrjun desember 2002, þegar hann fékk ekki greiddan þennan kaupauka.  Þetta sé að mati stefnda fráleitt, því stefnandi hafi fengið áminningu 13.05. 2002, en á hana sé minnzt í starfsmati fyrir tímabilið frá desember 2001 til nóvember 2002, sbr. dskj. nr. 34.  Stefndi leggi fram ljósrit áminningarinnar á dskj. nr. 30. 

      Á því sé byggt, að framangreind uppbót sé bundin við eitt ár í einu.  Í kröfugerð stefnanda felist krafa um, að dómari segi fyrir um frammistöðu stefnanda eftir að síðasta frammistöðumat lá fyrir og að hluta til um tímabil, eftir að stefnandi hafði hætt störfum.  Í kröfunni felist því ómöguleiki.  Á því sé byggt, að kröfugerð stefnanda umfram það tímabil, sem starfsmatið á dskj. nr. 34 nái til, falli utan lögsögu dómstóla að fjalla um.

      Stefndi vísi m.a. til bréfs frá General Manager NEX í Keflavík til Commanding Officer, NAS Keflavík á dskj. nr. 35, þar sem fram komi athugasemdir vegna mótmæla stefnanda.  Bréf þetta sé dagsett 14.01. 2003.  Matið hafi ekki verið samningsatriði, og hafi lokaákvörðun verið í höndum yfirmanns flugstöðvarinnar.

      Stefnandi byggi kröfu sína á ráðningarsamningi aðila á dskj. nr. 2.  Skjalið sé óundirritað og í ósamræmi við undirritaðan ráðningarsamning, sem stefndi leggur fram með greinargerð sinni á dskj. nr. 28, og sé dskj. nr. 2 mótmælt.  Ekki komi fram í ráðningarsamningnum, hve há kaupaukagreiðsla geti orðið, eða sundurliðun hennar, andstætt því, sem stefnandi haldi fram í stefnu.  Stefndi geti þó staðfest, að kaupaukagreiðsla hafi mest getað numið 14,5% af árslaunum og þar af væru 7,5% vegna starfsaldurs og 7% vegna frammistöðumats.  Málatilbúnaður stefnanda sé nokkuð sérkennilegur, þar sem hann yfirfari, hvert inntak reglna um frammistöðumat sé í einu orði, taki m.a. svo til orða, að þær séu skýrar, en segi svo, að þær hafi aldrei verið kynntar starfsmönnum stefnda með viðhlítandi hætti og skori loks á stefnda að leggja þær fram.  Því sé mótmælt, að reglur þessar hafi ekki verið kynntar fyrir stefnanda.  Á því sé byggt, að reglurnar hafi verið öllum kunnar, sem þar störfuðu, m.a. stefnanda.  Þær hafi verið kynntar rækilega á fundum og ræddar við stjórn félags stjórnunarstarfsmanna, þó að þær hefðu ekki verið afhentar einstökum starfsmönnum.

      Því sé mótmælt, að starfsmats- og starfsaldursuppbót hafi verið áunnin, eins og önnur starfsréttindi, eða að föst venja hafi skapazt um framkvæmd þeirra.  Því sé einnig mótmælt, að stefndi beri sönnunarbyrði í málinu.  Fullyrt sé af hálfu stefnda, að svipting uppbótar hafi verið rétt að formi og efni og lögmæt.  Því sé mótmælt, að um refsiaðgerðir hafi verið að ræða. 

      Umræddar reglur liggi fyrir á dskj. nr. 29, en því sé mótmælt, að réttur stefnanda hafi verið fyrir borð borinn.

      Á því sé byggt af hálfu stefnda, að stefnandi eigi enga kröfu á stefnda samkvæmt þessum lið í stefnu.

 

      Stefndi mótmæli öllum kröfum stefnanda og málsástæðum samkvæmt lið 2.0 og liðum 2.01. og 2.2. í stefnu.

      Í svarbréfi Starfsmannahalds Varnarliðsins til lögmanns stefnanda á dskj. nr. 10 segi:

„Hjálagt með bréfi þínu eru læknisvottorð er rekja sjúkrasögu Kjartans Sigtryggssonar tekið saman af Þórhildi Sigtryggsdóttur lækni á Heilsugæslustöðinni Sólvangi.  Kjartan mun hafa orðið fyrir slysinu 28. janúar 2003.  Í framlögðu læknisvottorði frá Þórhildi segir hún Kjartan fyrst hafa leitað til sín þann 30.10. 2003, þ.e. 10 mánuðum eftir fyrrnefnt slys og í því viðtali er lýst verkjum í stoðkerfi, miklum áhyggjum og kvíða vegna fjárhags, sé með slitgigt.  Þórhildur læknir lýsir síðan sjúkrasögu Kjartans m.a. þunglyndi, kæfisvefni, brjóstsviða, surgi í brjósti, roða í vélinda/vélindabakflæði auk hjartatruflana.  Einnig bendir læknirinn á gerviliði í mjöðmum og segir „hefur sögu um íþróttameiðsl á hæ. hné en hann fékk áverka á hæ. hné 1976, fór í aðgerð, voru fjarlægðir liðþófar.  Fór síðan í 3 aðgerðir á bilinu ´77 - ´80 og mun hnéskelin m.a. hafa verið fjarlægð.“

 

      Ljóst sé af læknisvottorði frá Þórhildi, að Kjartan hafi í kjölfar framangreinds slyss átt í hinum ýmsu veikindum, en það komi ekkert fram, sem segi, að Kjartan sé ekki orðinn góður af hnjámeiðslum sínum vegna slyssins.  Bent sé á, að tilkynningu verkstjóra um slysið og læknisvottorðum, sem gefin hafi verið út strax eftir slysið, beri ekki saman við læknisvottorð frá Þórhildi Sigtryggsdóttur, þ.e. í slysaskýrslu sé tilkynnt um slys á vinstri mjöðm, en í læknisvottorði „meiðsl á hæ. hné.“

      Vísi stefndi til þess, sem þar komi fram.

      Á læknisvottorði Hreggviðs Hermannssonar á dskj. nr. 3 komi fram, að stefnandi hafi í upphafi verið óvinnufær vegna vinnuslyss frá slysdegi í óákveðinn tíma.  Það hafi verið regla hjá varnarliðinu, að ef um ótímabundin vottorð væri að ræða, hafi starfsmenn þurft að skila inn nýju vottorði mánaðarlega.  Ekki sé að sjá, að stefnandi hafi gert það.  Þegar í bréfi Hreggviðs frá 19.03. 2003 á dskj. nr. 36 liggi fyrir, að stefnandi hafi ekki verið fjarverandi vegna slyssins eingöngu, heldur einnig vegna gigtarsjúkdóms.

      Því sé, að mati stefnda, ósannað, að stefnandi hafi verið óstarfhæfur vegna vinnuslyssins eins lengur en í 1 mánuð eftir slysið.

      Önnur læknisvottorð í málinu lýsi margvíslegum veikindum, en ósannað sé, að slysið eitt og sér hafi orsakað slíka óvinnufærni, sem lýst sé í stefnu, og sé því mótmælt.

      Stefnandi hafi sönnunarbyrði fyrir öllu, sem hann haldi fram í málinu.

      Eins og fram komi í bréfi á dskj. nr. 10, hafi hámarks veikinda/slysaréttur skv. grein 8.2.2 í kjarasamningi Verzlunarmannafélags Suðurnesja verið 6 mánuðir. 

      Í 12. gr. ráðningarsamnings á dskj. nr. 28 segi svo:

 

“Extended sick leave benefits apply for management employees with over 20 years of Defense Force service.”

 

      Á dskj. nr. 27 komi fram, að heimilt sé að greiða stjórnunarstarfsmönnum (management employees), sem starfað hafi hjá varnarliðinu í meira en 20 ár vegna veikinda allt að einu ári, enda sé framvísað fullnægjandi læknisvottorðum.  Um heimildarákvæði sé að ræða, en ekki skylduákvæði.

      Stefndi geri ekki athugasemdir við, að lengdur veikindaréttur þeirra stjórnunarstarfsmanna, sem starfað hafa hjá varnarliðinu í meira en 20 ár, sé allt að einu ári, þ.e. 1950 klukkustundir.

      Líta beri til 12 síðustu mánaða frá upphafsdegi veikinda og reikna út hve mikinn veikindarétt starfsmaður hafi áunnið sér, og hve mikinn veikindarétt starfsmaður hafi nýtt sér.  Stefnandi hafi verið búinn að nýta sér 431,2 klst. á 12 mánuðum fyrir slysið, og dragist þeir tímar því frá 1.950 klst., sem sé fullt vinnuár stefnanda.  Stefnandi hafi fengið greiddar 663,5 klst. frá slysdegi út maí 2003, en þá hafi ráðningarsamningi stefnanda lokið samkvæmt uppsögninni.  Stefnandi eigi enga kröfu umfram það á hendur stefnda.

      Stefndi mótmæli því, að til viðbótar veikindarétti geti stefnandi átt rétt til greiðslu vegna vinnuslyss í allt að 3 mánuði þar til viðbótar, en stefnandi byggi kröfu sína á því, að hann eigi veikindarétt í 12 mánuði og síðan 3 mánuði til viðbótar vegna slyssins.  Þessum skilningi sé alfarið mótmælt sem röngum.

      Stefndi vísi til dskj. nr. 27, fundargerðar varnarmálanefndar.  Þar komi fram, að viðræður hafi verið í gangi um að taka upp stefnu, sem væri svipuð framkvæmd hjá íslenzka ríkinu vegna veikindaleyfis starfsmanna, sem hefðu starfað lengur en 20 ár hjá íslenzka ríkinu.  Vakin sé athygli á því, að ekki hafi verið um ákvörðun kaupskrárnefndar að ræða, heldur samþykki fulltrúa íslenzka ríkisins, að varnarliðið mætti veita þessi viðbótarkjör til takmarkaðs hóps starfsmanna.  Hér hafi verið um að ræða skilyrta lengingu á veikindaleyfi stjórnunarstarfsmanna varnarliðsins, sem yrðu fyrir langvinnum sjúkdómum, og sérstaklega tekið fram í fundargerðinni, að framkvæmdin væri háð fullnægjandi læknisvottorðum (adequate medical documentation).

      Stefnandi hafi, að mati stefnda, ekki fært sönnur á, að hann njóti þess réttar, sem hann haldi fram, en skilningur stefnanda verði hvorki leiddur af ráðningarsamningi hans á dskj. nr. 28, né heldur öðrum gögnum málsins.

      Stefndi bendi hins vegar á, að veikindaréttur starfsmanna ríkisins muni vera reiknaður út á þann hátt, að við upphaf veikinda sé horft til þess, hve marga veikindadaga viðkomandi hafi tekið á síðastliðnu 360 daga tímabili, ef um sé að ræða starfsmann, sem eigi slíkan rétt, og sá dagafjöldi dragist frá í upphafi nýs 360 daga tímabils.  Sé á þann hátt beitt áþekkri eða sömu aðferð og við útreikning veikindadaga stefnanda.  Raunar hafi stefnandi hins vegar ekki bent á nein dæmi þess, að fyrri veikindi skipti ekki máli við útreikning veikindaréttar.

      Stefnandi hafi beint tiltekinni áskorun til stefnda í stefnu.  Því sé fljótsvarað, að aðrir starfsmenn hafi ekki notið rýmri réttar en stefnandi, og að um hann gildi og hafi gilt sömu reglur og um aðra starfsmenn varnarliðsins.  Í stefnu tilfæri stefnandi nokkur nöfn manna, sem hann virðist telja, að hafi notið rýmri réttar en hann sjálfur.  Því  sé til að svara, að stefndi geti ekki fjallað opinberlega um einkamálefni annarra, fyrrverandi starfsmanna varnarliðsins.  Stefndi taki fram, að nöfnin Haraldur Gíslason og Ástþór Jónsson finnist ekki á skrám yfir fyrrverandi starfsmenn varnarliðsins. 

      Stefnanda hafi verið sagt upp á löglegan hátt og sé öðru mótmælt sem röngu.  Varnarliðinu hafi verið heimilt að segja stefnanda upp störfum.  Stefnandi geti ekki átt rétt umfram uppsagnarfrest.

      Á því sé byggt, að stefndi hafi efnt ráðningarsamninginn að fullu, og að stefnandi eigi engar frekari kröfu á hendur stefnda vegna hans.

      Því sé mótmælt, að venja sé grundvöllur fyrir kröfu stefnanda.

      Stefndi mótmæli kröfulið 3.0 í stefnu og málsástæðum þeim, sem að baki honum búi.  Á því sé byggt, að stefnanda hafi verið sagt löglega upp störfum hjá varnarliðinu.  Stefnanda hafi verið sagt upp með bréfi, dags. 29.01. 2003, sem póstlagt hafi verið og borið út til stefnanda sama dag.  Stefnandi hafi hins vegar neitað móttöku þess, og hafi stefndi lagt umslagið fram í málinu, óupptekið, með áritun um, að neitað hafi verið viðtöku.  Skjal þetta sanni, að stefnanda hafi verið sagt upp umræddan dag.

      Stefnandi geti ekki varist uppsögn með því að neita móttöku bréfsins.

      Stefnandi hafi átt fjögurra mánaða uppsagnarfrest, og hafi fyllilega verið staðið við uppsagnarfrestinn af hálfu stefnda.  Byggist sá uppsagnarfrestur á ráðningarsamningi og kjarasamningi.

      Í stefnu viðurkenni stefnandi, að mati stefnda, að honum hafi verið kunnugt um uppsögnina.

      Mótmælt sé fullyrðingum í stefnu sem fráleitum, að stefndi hafi, með uppsagnarbréfinu, verið að reyna að komast hjá því að greiða að fullu þau laun í veikindum, sem stefnanda hafi borið.

      Stefnandi hafi verið 58 ára, þegar uppsagnarbréfið var sent þann 29.01. 2003.  Stefndi hafni alfarið málsástæðum stefnanda um, að hann hafi átt rétt á 5 mánaða uppsagnarfresti.  Viðmiðunum í útreikningum stefnanda fyrir stefnukröfu hans sé mótmælt.  Mótmælt sé, að stefnandi eigi rétt til kr. 127.914 vegna tímabilsins 26.06. til 30.06. 2003.

      Stefndi hafi fyrir löngu síðan greitt stefnanda uppsagnarfrest stefnanda, og eigi hann enga kröfu á hendur stefnda vegna þessa.

      Á því sé byggt af hálfu stefnda, að uppsögnin hafi verið lögmæt að formi og efni til, og sé öðru mótmælt sem röngu.

      Stefndi hafi gert upp allar kröfur við stefnanda, og sé fullyrðingum um annað mótmælt sem röngum, og eigi stefnandi engar kröfur á hendur stefnda.

      Sundurliðun kröfugerðar á sérstöku skjali á dskj. nr. 24 sé mótmælt.  Mótmælt sé öllum fjárhæðum í kröfugerð stefnanda, sem og vaxtakröfum.

      Stefndi telji það galla á stefnu, að ekki sé gerð grein fyrir aðild málsins.

 

Varakröfur.

Vegna varakröfu um, að stefnufjárhæð verði lækkuð verulega, sé vísað til sömu sjónarmiða og málsástæðna og fram hafi komið hér að framan varðandi umfjöllun um aðalkröfu.  Hverjum einstökum kröfulið sé mótmælt sem allt of háum.

      Krafa stefnanda samkvæmt lið 1.0. taki til ársins 2002, til ársins 2003 og út október 2004.  Á því sé byggt, að krafan sé allt of há og nái yfir allt of langt tímabil.  Fyrr sé á það bent, að ákvæði þetta byggist á ákveðnum forsendum.  Forsendur séu metnar árlega í desember ár hvert.  Fyrr sé vikið að ómöguleika varðandi kröfugerðina.

      Bent sé á, að sérstakur háttur sé viðhafður við ákvörðun um uppbót þessa.  Fyrr sé að því vikið, að stefndi telji það falla utan valdsviðs dómstóla að ákvarða þóknun með þeim hætti, sem stefnandi krefjist fyrir árið 2003 og út október 2004.

      Vegna liðar 2.0 og liða 2.1 og 2.2. sé einnig á því byggt, að krafan sé allt of há og taki yfir allt of langt tímabil.  Taka verði tillit til greiðslna, sem stefnandi hafi fengið frá stefnda.  Stefnandi hafi þegar verið búinn að nýta veikindarétt sinn í 431,2 einingar og hafi fengið greiddan uppsagnarfrest, 663,5 einingar, en þessar greiðslur eigi að draga frá kröfu stefnanda.

      Vegna liðar 3.0. í stefnu telji stefndi, að krafan sé allt of há og nái yfir allt of langt tímabil.  Bent sé á, að veikindaréttur allt að 12 mánuðum sé heimildarákvæði en ekki skylduákvæði og gangi lengra en kjarasamningur segi um og sé þess krafizt, að tekið verði tillit til þess.  Fráleitt sé, að stefnandi geti átt 5 mánaða uppsagnarfrest.  Til þess séu engin skilyrði.  Fyrr sé að því vikið, að uppsagnarfrestur hafi verið 4 mánuðir.

      Stefndi mótmæli upphafsdegi dráttarvaxtakröfu stefnanda og telji nægilegt að reikna dráttarvexti frá dómsuppsögu með vísan til niðurlagsákvæðis 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

      Málskostnaðarkrafa sé reist á 130.gr. 1.mgr. laga nr. 91/1991. 

 

IV

Forsendur og niðurstaða

Auk stefnanda gáfu skýrslu fyrir dómi Óskar Guðjónsson, bókasafnsfræðingur og fyrrum formaður félags stjórnunarstarfsmanna á Keflavíkurflugvelli, Guðni Jónsson, fyrrum starfsmannastjóri Varnarliðsins, og Sigurbjörn Sveinsson, fyrrum starfsmaður Varnarliðsins.

      Kröfur stefnanda eru þríþættar.  Verður fjallað um hvern lið fyrir sig.

 

Starfsmats- og starfsaldursuppbót.

Samkvæmt gögnum málsins var kaupauki sá, sem krafið er um samkvæmt þessum lið, hluti af launakjörum starfsmanna, og skyldi hann greiddur einu sinni á ári í desembermánuði, vegna tímabilsins desember til nóvember.  Upphæð kaupaukans fór eftir niðurstöðu starfsmats, sem fór fram í nóvember, þ.e. í lok tímabilsins, sem greitt var fyrir.  Gat kaupaukinn numið allt að 14,5% af launum starfsmanns, en hann samanstóð af tveimur þáttum; annars vegar starfsaldursmati, sem var að hámarki 7,5%, og hins vegar af frammistöðumati, sem var að hámarki 7%.  Kæmi frammistöðumatið illa út, gat hlutfallstala kaupaukans lækkað eða hann fallið alveg niður, og átti það jafnt við um starfsaldurskaupaukann sem og um frammistöðukaupaukann, og er ekki um það ágreiningur í málinu.  Þá er ágreiningslaust, að frammistöðumat hvers árs hafði ekki áhrif á frammistöðumat næsta árs.

      Það liggur fyrir, að stefnandi fékk áminningarbréf frá rekstrarþjónustustjóra NEX á Keflavíkurflugvelli, dags. 13. maí 2002, og liggur það fyrir á dómskjali  nr. 30.  Er stefnanda þar gefið að sök að hafa misfarið með myndavél, sem hann bar ábyrgð á.  Hefur stefnandi viðurkennt að hafa staðið rangt að málum varðandi myndavélina.  Í nóvember sama ár fékk stefnandi starfsmatið ófullnægjandi, sem leiddi til þess, samkvæmt reglum Varnarliðsins, að hann fékk hvorki greiddan frammistöðukaupauka né starfsaldurskaupauka. 

      Byggir stefnandi m.a. á því, að honum hafi ekki verið gefinn kostur á að bæta úr, eins og gera skyldi samkvæmt þeim reglum, sem um matið giltu.

      Liggur ekki annað fyrir en að stefnandi hafi tekið sig á, hvað varðar þær ávirðingar, sem honum eru gefnar að sök í fyrrnefndu áminningarbréfi, en hvergi kemur fram í málinu, að þær ávirðingar hafi endurtekið sig.  Hins vegar byggist matið á ýmsum þáttum í frammistöðu stefnanda, sem ekki eru taldir fullnægjandi, og sem leiða til endanlegs mats.  Stefnandi kærði matið til yfirmanns Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli í gegnum starfsmannastjóra hersins, samkvæmt 1. mgr. 8. gr. í reglum Varnarliðsins um frammistöðu- og aldursgreiðslur á dskj. nr. 29.  Samkvæmt dskj. nr. 35, hafnaði starfsmannastjórinn því að mæla með endurmati í bréfi til yfirmanns Varnarliðsins.  Svar yfirmanns Varnarliðsins barst stefnanda hins vegar aldrei og hefur ekki fundizt í fórum stefnda.  Liggur afstaða Varnarliðsins við kærunni þannig ekki fyrir, en endurmat fór hins vegar aldrei fram.

      Fallast má á með stefnanda, að ranglega hafi verið staðið að afgreiðslu á kæru stefnanda og að formleg niðurstaða hafi aldrei fengizt.  Þá liggur ekki fyrir, að stefnanda hafi mátt vera kunnugt um, að svo almenn óánægja hafi verið með störf hans eða að honum hafi verið gefinn kostur á að bæta frammistöðu sína, eins og reglur um kaupaukann á dskj. nr. 29 og leiðbeiningar um frágang eyðublaðs á dskj. nr. 45, bera með sér, að gert sé ráð fyrir.   

      Með því að kaupaukinn var hluti af samningsbundnum launakjörum starfsmanna, og með hliðsjón af athugasemdum í niðurlagi á dskj. nr. 45, þykir sýnt, að starfsmaður hafi átt rétt á fullum kaupauka, nema því aðeins að frammistöðumat leiddi til annars, þannig að hefði vinnuveitandi látið hjá líða að gera frammistöðumat, hefði starfsmaður átt rétt á fullum kaupauka.  Leiðir þetta til þess þeirrar niðurstöðu, að þar sem kæru stefnanda var aldrei svarað, ber stefnanda fullur kaupauki fyrir kærutímabilið desember 2001 til nóvember 2002, enda lá ekki fyrir endanleg afstaða Varnarliðsins til frammistöðumatsins.

      Stefnandi var einungis að störfum fram til 28. janúar 2003.  Þar sem ekkert frammistöðumat er til yfir störf stefnanda á matstímabilnu, sem hófst 1. desember 2002 og þar til hann lenti í slysinu 28. janúar 2003, sem skert getur kaupauka hans, ber honum jafnframt fullur kaupauki fyrir þetta tímabil, sbr. það sem segir hér að framan.

      Stefnandi gerir einnig kröfu um fullan kaupauka fyrir tímabilið frá því að hann lét af störfum og út árið 2003 og hluta ársins 2004.  Áður en leyst verður úr þeirri kröfu verður fjallað um kröfu hans til launa fyrir það tímabil, en ágreiningur er um það, hversu langt veikinda- og/eða slysaleyfi stefnandi átti, sem og um það, hvort starfsuppsögn stefnda var gild og/eða frá hvaða tíma hún tók gildi.

 

Veikindalaun  

Óumdeilt er, að stefnandi slasaðist við vinnu sína hinn 28. janúar 2003.  Samkvæmt vottorði trúnaðarlæknis Varnarliðsins á dskj. nr. 3, dagsettu á slysdegi, var stefnandi talinn óvinnufær með öllu vegna vinnuslyss.  Samkvæmt læknisvottorði Arnórs Víkingssonar á dskj. nr. 4, dags. 2. júní 2004, kemur fram, að stefnandi hafi verið óvinnufær með öllu, annars vegar vegna sjúkdóms og hins vegar vegna vinnuslyss, frá því í janúar 2003, og segir jafnframt í vottorðinu, að hann verði áfram óvinnufær og óvíst hve lengi. 

      Stefndi byggir á því, að stefnanda hafi borið að skila inn læknisvottorði mánaðarlega, sem hann mun ekki hafa gert.  Það kemur hins vegar fram í framburði Sigurbjörns Sveinssonar fyrir dómi, að þetta hafi ekki verið algilt.  Nefnir hann sem dæmi, að hafi menn fengið hjartaáfall eða legið á sjúkrahúsi, hafi þeir yfirleitt fengið trúnaðarlækni Varnarliðsins til þess að votta það og var þá ekki gerð krafa um skil læknisvottorðs.  Ekki liggur fyrir, að stefnandi hafi verið krafinn um læknisvottorð mánaðarlega.  Guðni Jónsson skýrði svo frá fyrir dómi, að starfsmaður hjá þeim hafi verið í sambandi við trúnaðarlækninn, og kvað Guðni sér hafa verið kunnugt um, að trúnaðarlæknirinn hefði verið í sambandi við stefnanda.  Það hefði verið reglan, að trúnaðarlæknirinn hefði samband við heimilislækni viðkomandi starfsmanns.  Af þessu verður ráðið, að vinnuveitanda stefnanda hafi mátt vera kunnugt um ástand hans, og hafi verið talin ástæða til að vefengja fjarvistir hans úr vinnu vegna slyssins eða veikinda í kjölfar þess, hefðu átt að vera hæg heimatökin að krefja trúnaðarlækni um skýrslu vegna þess.  Fyrirliggjandi læknisvottorð sýna, að stefnandi var enn, í nóvember 2004, óvinnufær af ýmsum ástæðum, en einhverjar þeirra eru raktar til slyssins.

      Samkvæmt framburði Guðna Jónssonar fyrir dómi má telja óumdeilanlegt, að stefnandi naut 12 mánaða veikindaréttar samkvæmt kjarasamningum, enda þótt um heimildarákvæði væri að ræða í starfskjörum aðila, en Guðni bar, að þegar svona reglu er beitt, þá sé ekki hægt að veita hana einum, en öðrum ekki, og tilgangurinn hafi verið sá, að veita stjórnunarstarfsmönnum þennan rétt.  Óumdeilt er, að stefnandi var í stjórnunarstarfi, og bar honum því þessi réttur. 

      Aðila greinir á um, hver áhrif fyrri veikindi stefnanda á 12 mánaða tímabili fyrir slysið hafi á lengd veikindatímabilsins eftir slysið.

      Samkvæmt kjarasamningum átti stefnandi sem fyrr segir rétt til launa í allt að 12 mánuði vegna veikinda, sem samkvæmt reiknireglum stefnanda og viðsemjanda hans jafngilti 1950 einingum, en hver eining jafngilti einni klukkustund.  Stefnandi kveður stefnda hafa greitt sér af þeim tíma laun í 600 klukkustundir.  Síðar í málsreifun sinni í stefnu, kveður stefnandi þennan tímafjölda vera 663,5 klukkustundir, sem kemur heim og saman við fullyrðingar stefnda.  Er sú tala því lögð til grundvallar.  Eftir stendur því krafa um veikindalaun í 1286,5 klukkustundir.

      Stefndi byggir á því, að draga beri frá kröfu stefnanda 431,2 klukkustundir vegna veikindaforfalla á síðustu 12 mánuðum fyrir slysið.  Stefnandi hefur mótmælt þeim skilningi.

      Samkvæmt þeim gögnum, sem fyrir liggja í málinu og lúta að greiðslu í veikindaleyfi, er fallizt á skilning stefnda hvað þetta varðar.

      Samkvæmt framansögðu standa eftir 855,3 einingar af samningsbundnum veikindarétti stefnanda.

      Dskj. nr. 51 þykir ekki hafa sönnunargildi um það, að vinnuveitandi hafi skuldbundið sig til að greiða stefnanda heilt ár í veikindaleyfi, án tillits til þeirra greiðslna, sem hann hafði þegar fengið eða þeirra veikindadaga, sem hann hafði þegar nýtt sér á tímabilinu.

      Stefndi byggir á því, að stefnanda hafi verið löglega sagt upp störfum með uppsagnarbréfi, dags. 29. janúar 2003, sem sent var sama dag, en sem stefnandi neitaði að taka við.  Hafi uppsögnin því tekið gildi 1. júní 2003 og eigi stefnandi ekki rétt til frekari launa eftir það. 

      Uppsagnarbréfið var lagt fram í réttinum óopnað, og var það opnað í þinghaldi í málinu.  Er efni þess óumdeilt. 

      Stefnandi mótmælir gildi uppsagnarinnar, þar sem hann hafi aldrei tekið við bréfinu eða kynnt sér efni þess. 

      Fallast má á með stefnda, að stefnandi geti ekki komið sér undan lögmætri uppsögn með því að neita viðtöku ábyrgðarbréfs, sem borið er til hans, enda þótt hann þekki ekki innihald þess.  Uppsögnin telst því löglega kynnt stefnanda.  Hins vegar liggur fyrir, að bréfið er sent daginn eftir að stefnandi lenti í vinnuslysi, sem hefur m.a. haft þau áhrif á allt hans heilsufar, sbr. fyrirliggjandi læknisvottorð, að hann hefur verið óvinnufær síðan.  Er ekki fallizt á, að vinnuveitandi stefnanda hafi getað sagt honum upp störfum, þannig að starfi hans lyki á meðan hann nýtti sér samningsbundinn veikindarétt sinn.  Uppsögnin gat því fyrst tekið gildi að loknu veikindaleyfi stefnanda.

     

Kaupauki í veikindaleyfi

Svo sem fyrr er rakið gerir stefnandi kröfu til kaupauka þann tíma, sem hann var í veikindaleyfi.

      Eðli málsins samkvæmt er ekki unnt að fallast á, að stefnandi geti krafizt kaupauka vegna frammistöðu í starfi þann tíma, sem hann var ekki að störfum, enda þótt litið sé svo á, að um hluta af starfskjörum hans hafi verið að ræða, enda byggist sá kaupauki á því, að um starfsframlag hafi verið að ræða af hálfu starfsmanns.  Öðru máli gegnir hins vegar um aldurstengdan kaupauka, enda byggist hann í sjálfu sér ekki á starfsframlagi.  Er því fallizt á 7,5% kaupauka til handa stefnanda í veikindaleyfi, en ágreiningslaust er, að samkvæmt reglum var kaupauki greiddur hlutfallslega, ef starfsmaður hætti störfum fyrir lok matstímabilsins.

 

Uppbótarorlof

Stefnandi gerir enn fremur kröfu um orlofsuppbót í veikindaleyfi og vísar til greinar 4.5 í kjarasamningi verzlunarmanna.  Krefst hann af þeim sökum launa fyrir tímabilið 26. janúar til 26. febrúar 2004, þar sem hann hafi þá sannanlega verið veikur í orlofi. 

      Kröfuliður þessi er ekki alveg skýr, og er ekki ljóst, hvort stefnandi er að krefjast launa eða orlofsuppbótar fyrir umrætt tímabil.  Þá er engin grein gerð fyrir því, hvernig dagafjöldinn er fundinn, eða hvernig þessar dagsetningar eru fundnar.  Þá var störfum stefnanda löngu lokið á þessum tíma, sbr. það sem rakið er hér að ofan, og verður krafa stefnanda um laun á þessu tímabili því ekki tekin til greina. 

 

Vinnuslys

Stefnandi gerir kröfu um greiðslu fyrir fjarvistir vegna tímabilsins 26. febrúar til 26. maí 2004.  Vinnuslysið átti sér stað 28. janúar 2003.  Ekkert liggur fyrir um það í gögnum málsins, að stefnandi hafi enn átt í afleiðingum vinnuslyssins eins á þessum tíma, og bera læknisvottorð með sér að stefnandi hafi þá þegar glímt við fjölmörg önnur heilsufarsleg vandamál, sem drógu úr vinnufærni hans.  Er því þegar af þeim sökum ekki unnt að taka þennan kröfulið til greina.  Þá liggur fyrir, að stefnandi hafði fullnýtt veikindarétt sinn og er ekki fallizt á, að hann hafi átt frekari rétt vegna vinnuslyssins.

 

Samkvæmt framansögðu ber stefnanda að greiða stefnda 14,5% kaupauka vegna starfsmats og starfsaldurs fyrir 13 mánuði og 28 daga kr. 807.202, en þá er miðað við mánaðarlaun þau, sem stefnandi byggir kröfugerð sína á, kr. 402.014, og er það í samræmi við launaseðla, sem liggja fyrir í málinu.  Enn fremur greiði stefndi stefnanda laun í veikindaleyfi í 855,3 klukkustundir, sem gerir samtals kr. 2.115.953.  Þá greiði stefndi stefnanda 7,5% kaupauka í veikindaleyfi í samtals 1529,8 klukkustundir, sem gerir samtals kr. 283.846.  Dráttarvextir reiknast á fjárhæðina frá birtingardegi stefnu, hinn 26. október 2006.  Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn kr. 800.000, þ.m.t. virðisaukaskattur.

      Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn

 

D Ó M S O R Ð

Stefndi, íslenzka ríkið, greiði stefnanda, Kjartani Sigtryggssyni, kr. 3.207.001, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 26. október 2006 til greiðsludags og kr. 800.000 í málskostnað.

 

                                                            Sigríður Ólafsdóttir