• Lykilorð:

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 30. september 2011 í máli nr. S-583/2009:

Ákæruvaldið

(Sigurður Freyr Sigurðsson fulltrúi)

gegn

Hauki Hilmarssyni og

Jason Thomas Slade

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

 

            Mál þetta var höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 8. apríl 2009 á hendur Hauki Hilmarssyni, Vesturgötu 12, Reykjavík, og Jason Thomas Slade, Grettisgötu 75, Reykjavík,

            … fyrir húsbrot og almannahættubrot, með því að hafa, að morgni fimmtudagsins 3. júlí 2008, farið í heimildarleysi inn á flugvallarsvæðið við Flugstöð Leifs Eiríkssonar, með því að klifra yfir girðingu, og hlaupið mörg hundruð metra innan svæðisins.  Röskuðu ákærðu með háttsemi sinni öryggi loftfara en á flugvallarsvæðinu voru flugvélar á leið í áætlunarflug og varð að stöðva flugumferð þar til ákærðu voru handsamaðir á flugbrautinni „Charlie“. 

            Telst þetta varða við 231. gr. og 168. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

            Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.  Ennfremur er krafist greiðslu sakarkostnaðar.“

 

            Mál þetta var dæmt í Héraðsdómi Reykjavíkur 15. febrúar 2010.  Málinu var áfrýjað og með dómi Hæstaréttar 27. janúar 2011 var dómurinn ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar að nýju.  Ný aðalmeðferð hófst 16. maí sl., en varð ekki lokið fyrr en 2. september, en málið var þá dómtekið. 

            Flugvallarsvæðið á Keflavíkurflugvelli er umlukið hárri girðingu.  Í skýrslu Stefáns Thordersen, sem var flugvallarstjóri er atvik þessa máls gerðust, kom fram að girðingin væri gerð úr þverböndum og að ofan á væru önnur bönd sem vísuðu út.  Viðvörunarskilti hefðu verið sett á alla girðinguna umhverfis völlinn.  Hann staðfesti að á þeim myndum sem liggja frammi í málinu væru skilti þessi ekki sjáanleg.  Hann sagði að það hafi staðið yfir framkvæmdir við girðinguna á þessum tíma.  Þess vegna hefðu kefli verið við girðinguna.  Hann taldi að ekki hafi skapast hætta fyrir vélina við ferðir ákærðu, það hafi aðallega skapast hætta fyrir þá sjálfa.  Hann minnti að atvikið hefði tafið brottför einhverra véla. 

            Ákærðu lýstu því báðir að þeir hefðu farið yfir girðinguna í þeim tilgangi að mótmæla brottflutningi Paul Ramses.  Þeir hafi farið yfir girðinguna með því að klifra upp á stór kefli sem voru upp við girðinguna og hlaupið í sveig fram fyrir flugvélina. 

            Þeir sögðu að Paul Ramses væri frá Kenía og hefði sótt um hæli hér á landi.  Umsókn hans hefði verið hafnað og hafi átt að flytja hann til Ítalíu þennan dag.  Sögðust þeir vita að vist í flóttamannabúðum á Ítalíu væri óboðleg og að veruleg hætta væri á að hann yrði sendur aftur til Kenía, þar sem honum væri bráð hætta búin.  Þá hefði með þessu átt að aðskilja hann frá eiginkonu og ungu barni.  Þá hefði ákvörðun um brottvísun hans nú verið breytt og að hann byggi hér á landi með fjölskyldu sinni. 

            Pétur Arnarsson var flugstjóri vélarinnar sem ákærðu hlupu fram með.  Hann sagði að þeir hefðu verið að setja hreyfla í gang og þá hafi hann séð að tveir menn hlupu rétt við vinstri væng vélarinnar.  Þeir hafi farið fram fyrir vélina.  Þeir hafi verið kannski 10 til 15 metrum frá hreyflinum þegar þeir fóru næst honum  Hann kvaðst hafa séð að þetta voru ekki starfsmenn flugvallarins.  Hann hafi látið menn í flugturni vita af þeim. 

            Pétur sagði að menn þyrftu sérstaka þjálfun til að geta starfað í kringum flugvélar.  Ef menn kæmu of nálægt hreyfli gætu þeir sogast inn í hann.  Ákærðu hafi hlaupið í boga fram fyrir vélina.  Þetta hafi tafið flugtak.  Hann kvaðst telja að sérstök hætta hafi ekki skapast, en ákærðu hafi verið komnir á grátt svæði.  Hann sagði að fleiri vélar hafi verið á stæði, en þær hafi ekki verið að setja í gang.  Öll umferð hafi verið stöðvuð. 

            Fram kom í málflutningi að ákærðu voru handteknir á akbraut flugvéla, en ekki á flugbraut eins og segir í ákæru.

 

            Niðurstaða

            Verjandi ákærða vísaði til þess í málflutningi að sækjandi hefði fallið frá því að brot yrði heimfært til 231. gr. almennra hegningarlaga.  Sækjandi mótmælti þessari fullyrðingu.  Það eina sem er bókað í þingbók um þetta atriði er við upphaf aðalmeðferðar þann 16. maí sl., en þá er bókað eftir sækjanda að málið yrði flutt á grundvelli ákæru, þó þannig að heimfærsla til 231. greinar yrði ekki reifuð sérstaklega.  Hins vegar yrði málið reifað með tilliti til þess að brotið kynni að varða við loftferðalög og reglugerð um flugvernd.  Að þessu athuguðu verður ekki fallist á að fallið hafi verið frá tilvísun til 231. gr. 

            Í ákæru er brot ákærðu talið varða við 168. og 231. gr. almennra hegningarlaga en málið hefur einnig verið reifað miðað við að það kunni að eiga undir 70., sbr. 141. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 og við 1. mgr. 19. gr., sbr. 40. gr. reglugerðar um flugvernd nr. 361/2005.  Þessi framkvæmd er heimil samkvæmt 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008. 

            Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. loftferðalaga er flugmálastjórn heimilt að takmarka aðgang að flugvöllum og flugvallarsvæðum og umferð um þau, svo og að banna umgengni eða dvöl á slíkum svæðum ef hún telur það nauðsynlegt vegna öryggis.  Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. áðurgreindrar reglugerðar er einstaklingum, með undantekningum sem ekki skipta máli hér, því aðeins heimil för um flugsvæði flugvallar, þ.m.t. haftasvæði, að þeir hafi tilteknar gildar aðgangsheimildir.  Þessi ákvæði loftferðalaga og reglugerðarinnar eru sérlög gagnvart 231. gr. almennra hegningarlaga og ganga framar.  Verður brot ákærðu ekki talið varða við 231. gr. 

            Ákærðu bera það fyrir sig að þeir hafi farið inn á flugvallarsvæðið í krafti borgaralegs réttar og skyldu, enda hafi þeir með þessu verið að reyna að koma í veg fyrir að lög og mannréttindi væru brotin á Paul Ramses og fjölskyldu hans.  Hvort sem fallist verður á að yfirvöld hafi farið offari er þau ákváðu að senda Paul Ramses til Ítalíu, er ekki sýnt fram á að hann hafi verið í svo bráðri hættu að heimilaði aðgerðir þær sem ákærðu gripu til.  Þá styðjast takmarkanir á aðgangi að flugvallarsvæðinu við málefnaleg sjónarmið og verður að beita þeim, þótt með því verði ferða-, funda- og tjáningarfrelsi takmarkað að nokkru.  Ekki skiptir máli í þessu samhengi þótt ákvörðun um brottvísun hafi síðar verið breytt.  Þá stoðar ekki að bera fyrir sig að ákvörðun um lokun flugvallarsvæðisins hafi ekki verið birt opinberlega með einhverjum hætti. 

            Banni við umferð manna á flugvallarsvæðinu er ætlað að koma í veg fyrir slys á mönnum, skemmdir flugvéla og tækjabúnaðar og tafir á umferð.  Ekki er sýnt fram á að ákærðu hafi skapað sérstaka hættu, þótt grípa hafi þurft til varúðarráðstafana vegna dvalar þeirra á svæðinu.  Verður því ekki fallist á að þeir hafi brotið gegn 1. mgr. 168. gr. almennra hegningarlaga. 

            Ákærðu höfðu ekki heimild til að fara inn á hið afgirta svæði á flugvellinum.  Þeir þurftu að fara yfir háa girðingu til að komast inn á svæðið.  Hlaut þeim að vera ljóst að þeim væri ekki heimill aðgangur.  Þeir höfðu ekki tilefni til að ætla að kefli sem voru við girðinguna hefðu verið sett þar til að auðvelda þeim för.  Með því að fara inn á svæðið brutu ákærðu gegn 1. mgr. 19. gr., sbr. 40. gr. reglugerðar um flugvernd nr. 361/2005, sbr. 1.mgr. 70. gr. og 141. gr. loftferðalaga nr. 60/1998. 

            Refsing hvors ákærðu um sig er ákveðin 125.000 króna sekt, en vararefsing skal vera fangelsi í 7 daga.  Ákveða verður í einu lagi sakarkostnað vegna allrar meðferðar málsins fyrir héraðsdómi, eins og fram kemur í dómi Hæstaréttar.  Málsvarnarlaun eru ákveðin samtals 500.000 krónur, er tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts.  Er hæfilegt að ákærðu greiði óskipt einn fjórða hluta þeirra, en þau greiðast að öðru leyti úr ríkissjóði.  Ekki hefur verið gerð grein fyrir öðrum sakarkostnaði. 

            Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. 

 

D ó m s o r ð

 

            Ákærðu, Haukur Hilmarsson og Jason Thomas Slade, greiði hvor um sig 125.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í sjö daga. 

            Málsvarnarlaun verjanda ákærðu, 500.000 krónur, greiði ákærðu óskipt að einum fjórða hluta, en ríkissjóður að þremur fjórðu hlutum.