A, sem starfaði hjá B, krafði B eftir starfslok um óuppgerð laun, orlof og desemberuppbót. Reisti A kröfur sínar m.a. á því að á ráðningartímanum hjá B hefði hún fengið minna greitt en henni hefði borið að fá samkvæmt kjarasamningi, m.a. vegna þess að B hefði greitt of lágt tímagjald og minnkað vinnuframlag hennar einstaka mánuði. Í dómi héraðsdóms kom fram að ráðningarsamningur aðilanna hefði mælt fyrir um fullt starf og hefði stefnda ekki verið heimilt að greiða stefnanda minna en sem nam fullum launum á grundvelli þess að hann hefði einhliða lækkað vinnustundir hennar einhverja mánuði. Þá var því slegið föstu að stefnda hefði verið óheimilt að lækka starfshlutfall stefnanda í 50% án þess að um þá lækkun giltu fyrirmæli kjarasamnings um uppsögn ráðningarsamnings og uppsagnarfrest. Voru kröfur stefnanda um vangoldin laun því teknar til greina í samræmi við kjarasamning að því frátöldu að talið var að hún hefði fyrirgert rétti til sérstakra greiðslna fyrir neysluhlé, enda væru þær greiðslur miðaðar við að launþegi gæti ekki tekið matar- og kaffihlé með sama hætti og aðrir. Var í því sambandi vísað til þess svigrúms sem B hefði veitt A á ráðningartímanum er henni var leyft að taka barn sitt með í vinnuna, en það hefði óhjákvæmilega haft í för með sér að stefndi þyrfti að taka sér hlé í störfum sínum.