• Lykilorð:
  • Skaðabótamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 8. júní 2018 í máli nr. E-1827/2017:

A

(Haukur Freyr Axelsson lögmaður)

gegn

Tryggingamiðstöðinni hf.

(Hjörleifur B. Kvaran lögmaður)

 

            Mál þetta, sem var dómtekið 15. maí sl., var höfðað 2. júní 2017.

            Stefnandi er A, [...] í Reykjavík.

            Stefndi er Tryggingamiðstöðin hf., Síðumúla 24 í Reykjavík.

            Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða henni 3.566.235 kr. með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 1.043.495 kr. frá 27. júlí 2015 til 27. janúar 2016 og af 3.566.235 kr. frá þeim degi til 14. apríl 2017 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

            Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar.

 

                                                                        I

            Málsatvik eru að mestu leyti óumdeild. Stefnandi greiddi fyrir far með ferjunni Sævari EA þann 27. júlí 2015, en ferjan annast áætlunarferðir milli Hríseyjar og Árskógssands. Þegar leggjast átti að bryggju í Hrísey umræddan dag stóð stefnandi um borð í skipinu ásamt fjölskyldu sinni. Var því þá siglt á bryggjuna í Hrísey með þeim afleiðingum að stefnandi féll á lestarlúgu og í gólfið. Lýsir stefnandi því að þegar hún hafi staðið upp eftir fallið hafi ferjunni aftur verið siglt á bryggjuna með þeim afleiðingum að stefnandi féll aftur og varð fyrir meiðslum. Í sjóbók segir að stefnandi hafi fallið við og lent á lúgu bakborðsmegin. Hún hafi verið aum í hálsi og handlegg og verið beðin um að fara strax á slysadeild við komu í land. Um árekstur skipsins var einnig ritað í sjóbók að þegar leggjast hefði átt að bryggju í Hrísey hefði stefnið rekist „harkalega í pollann“ sem skipið hefði verið fest við. Við áreksturinn hefði stefnið dældast, en ekki gatast. Í skjali sem Haukur Laxdal, fyrrverandi skipstjóri, sagðist fyrir dómi hafa ritað sem viðauka við sjóbókina kom einnig fram að hvorug stjórntækin hefðu virst virka þegar átti að „beygja og leggjast að“.

            Eyfar ehf. var rekstraraðili skipsins og naut á umræddum tíma ábyrgðartryggingar farsala og flutningsaðila hjá stefnda.

            Sama dag og slysið átti sér stað leitaði stefnandi á slysadeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Haukur Laxdal hringdi í hana síðar um kvöldið og aflaði sér upplýsinga um líðan hennar. Hvorki hann né aðrir starfsmenn Eyfars ehf. létu lögreglu eða rannsóknarnefnd samgönguslysa vita af árekstrinum og meiðslum stefnanda. Síðar kom í ljós að afleiðingar slyssins urðu meiri en upphaflega var talið útlit fyrir, sbr. nánari umfjöllun hér á eftir. Með erindi, dags. 28. apríl 2016, óskaði stefnandi eftir því að stefndi tæki afstöðu til bótaskyldu Eyfars ehf. Bótaskyldu var hafnað þann 20. júlí 2016. Leitaði stefnandi í framhaldinu til úrskurðarnefndar vátryggingamála, sem kvað upp úrskurð sinn í málinu þann 17. október 2016. Með úrskurðinum var fallist á kröfu stefnanda um að stefnda bæri að greiða skaðabætur á grundvelli vátryggingar Eyfars ehf. Með bréfi, dags. 27. október 2016, var stefnanda tilkynnt að stefndi hygðist ekki hlíta úrskurði nefndarinnar.

            Að beiðni stefnanda voru Arnbjörn Arnbjörnsson, læknir, og Guðmundur Pétursson, lögmaður, fengnir til að meta afleiðingar slyssins á grundvelli skaðabótalaga nr. 50/1993. Samkvæmt álitsgerð þeirra, dags. 10. febrúar 2017, sem þeir nefna matsgerð, var stöðugleikapunktur 27. janúar 2016, tímabundin óvinnufærni var að fullu frá slysdegi 27. júlí 2015 til 27. janúar 2016. Þjáningatími án rúmlegu var frá 27. júlí 2015 til 27. janúar 2016. Varanlegur miski var metinn til 7 stiga og varanleg örorka 7%. Skaðabótakrafa stefnanda í stefnu er sett fram á grundvelli álitsgerðarinnar.

            Framangreind málsatvikalýsing er óumdeild, sem og læknisfræðilegt mat á afleiðingum slyssins fyrir stefnanda. Þá er ekki uppi tölulegur ágreiningur í málinu. Þess í stað greinir aðila á um orsök árekstrarins og hvort bótagrundvöllur sé fyrir hendi.

            Auk stefnanda gaf Haukur Laxdal skýrslu fyrir dómi við aðalmeðferð.

 

                                                                        II

            Stefnandi byggir á því að hún eigi rétt á fullum skaðabótum úr ábyrgðartryggingu Eyfars ehf. vegna þess líkamstjóns sem hún varð fyrir um borð í Hríseyjarferjunni Sævari EA þann 27. júlí 2015. Ástæðan sé einkum saknæm háttsemi starfsmanna Eyfars ehf., sbr. meginregluna um ábyrgð vinnuveitanda á tjóni sem starfsmenn hans valda með saknæmri og ólögmætri háttsemi.

            Siglingalög nr. 34/1985 geri strangar kröfur til skipstjóra og annarra starfsmanna sem annist farþegaflutninga. Skipinu hafi verið siglt of hratt og ógætilega miðað við aðstæður þegar áreksturinn varð. Þannig segi skipsbók að áreksturinn hafi verið harkalegur. Eyfar ehf. hafi með yfirsjónum, vanrækslu og gáleysi brotið gegn þeim skráðu hátternisreglum sem hvílt hafi á fyrirtækinu og hafi það leitt til líkamstjóns stefnanda. Fyrirtækið beri því skaðabótaábyrgð á líkamstjóninu á grundvelli 137. gr. laga nr. 34/1985. Bótaskylda stefnda byggi á vátryggingu Eyfars ehf.

            Andstætt því sem stefndi haldi fram þá sé ósannað að orsök slyssins megi rekja til bilunar í stýrisbúnaði skipsins í stað yfirsjónar af hálfu starfsmanna Eyfars ehf. Stefndi beri sönnunarbyrðina að þessu leyti en hafi ekki axlað hana.

            Allt að einu byggir stefnandi á því að ef ekki telst sannað að slysið hafi orðið vegna gáleysis skipstjóra, þ.e. ef dómurinn leggi þess í stað til grundvallar að áreksturinn hafi orðið vegna bilunar í stýrisbúnaði skipsins, þá hafi engu að síður stofnast til skaðabótaskyldu vegna vanbúnaðar skipsins og vanrækslu farsala á því að hafa skipið haffært og í góðu ástandi, sbr. 1. og 2. mgr. 6. gr. og 124. gr. laga nr. 34/1985, sbr. einnig 9. gr. laga nr. 47/2003 um eftirlit með skipum.

            Ef sannað telst að bilun í stýrisbúnaði hafi valdið slysinu kveði 2. mgr. 140. gr. laga nr. 34/1985 á um að stefndi beri sönnunarbyrðina fyrir því að bilunin hafi ekki orsakast af vanrækslu. Til viðbótar heldur stefnandi því fram að þar sem skipinu hafi verið siglt aftur að Árskógssandi um klukkustund eftir að umrætt slysið átti sér stað, þá bendi slíkt til þess að tjóninu hafi verið valdið af gáleysi fremur en bilun.

            Stefnandi byggir einnig á því að bilun í stýrisbúnaði skipsins eigi ekki að verða til þess að skipinu sé stýrt á bryggju, þar sem farþegaskip eigi að hafa tiltækan varastýrisbúnað sem taki þá við stýringunni. Um þetta vísast til greina 5.1 til 5.14 í 2. kafla í 2. hluta reglna nr. 635/1983 um vél- og rafbúnað vöruflutninga- og farþegaskipa. Einnig vísi stefnandi til reglugerðar um öryggi farþegaskipa í innanlandssiglingum nr. 666/2001 og viðauka við þá reglugerð.

            Stefnandi leggur áherslu á að gera verði ríkar kröfur til starfsmanna Eyfars ehf. sem sé sérhæft í siglingum með farþega og taki gjald fyrir þjónustu sína.

            Þá byggir stefnandi á því að Eyfar ehf. hafi vanrækt að tilkynna um áreksturinn og slys stefnanda til rannsóknarnefndar samgönguslysa, sbr. 16. gr. laga nr. 18/2013 um rannsókn samgönguslysa, en skylt sé að tilkynna nefndinni um sjóslys og sjóatvik, sbr. skilgreiningu þeirra hugtaka í 3. gr. laganna. Eyfar ehf. hafi einnig vanrækt að tilkynna lögreglu um atburðinn, sbr. 221. gr. laga nr. 34/1985. Þá hafi Eyfar ehf. vanrækt að láta fara fram sjópróf, sbr. 220. gr. laga nr. 34/1985. Með slíkum rannsóknum hefði mátt leiða í ljós orsök slyssins, þ.e. hvort slysið hefði orðið vegna gáleysis starfsmanna Eyfars ehf., líkt og stefnandi byggi á, eða bilunar í stýrisbúnaði, líkt og stefndi byggi á. Stefnandi byggir á því að stefndi verði að bera hallann af þeim sönnunarskorti sem stafi af þessari vanrækslu Eyfars ehf., enda beri stefnandi enga ábyrgð á henni.

            Loks er byggt á því að skýr orsakatengsl séu á milli saknæmrar háttsemi starfsmanna Eyfars ehf. og tjóns stefnanda.

 

                                                                        III

            Sýknukröfu sína byggir stefndi á því að umrætt slys verði ekki rakið til yfirsjónar eða vanrækslu vátryggingartaka eða starfsmanna sem hann beri ábyrgð á. Þess í stað verði slysið rakið til bilunar í stýrisbúnaði Sævars EA og það sé af þeirri ástæðu ekki bótaskylt. Nánar tiltekið þá fjalli 137. gr. laga nr. 34/1985 um ábyrgð farsala, en þar sé kveðið á um að farsala sé skylt að bæta tjón sem hljótist af því að farþegi láti lífið eða slasist meðan á ferð standi ef tjónið megi rekja til yfirsjónar eða vanrækslu farsala sjálfs eða einhvers manns sem hann beri ábyrgð á. Tjón það sem hér sé til umfjöllunar verði aftur á móti ekki rakið til yfirsjónar vátryggingartaka eða áhafnar Sævars EA. Tjónið verði eingöngu rakið til bilunar í stýrisbúnaði skipsins þegar verið var að leggjast að bryggju í Hrísey. Þannig komi fram í skipsbók Sævars EA á slysdegi að hvorug stjórntækin hafi virst virka þegar átti að beygja og leggjast að.

            Vélstjóri hafi framkvæmt bráðabirgðaviðgerð á skipinu þannig að sigla mætti því eftir slysið, en næsta dag hafi fagmenn verið fengnir til viðgerðar á skipinu, sbr. reikning frá Rafeyri ehf. á Akureyri. Fram hafi farið bilanaleit á stýrisbúnaði. Öryggi hafi verið farið og skipt hafi verið um stöðuviðnám. Áreksturinn megi því rekja til skyndilegrar bilunar í stýrisbúnaði.

            Stefndi viðurkennir að í 2. málslið 2. mgr. 140. gr. laga nr. 34/1985 sé kveðið á um að stafi tjón af eða sé í tengslum við skipstapa, strand, árekstur, sprengingu, eldsvoða eða galla í skipinu þá beri farsali sönnunarbyrði um að yfirsjónum eða vanrækslu sé ekki um að kenna. Áreksturinn verði aftur á móti alfarið rakinn til bilunar í stýrisbúnaði skipsins, en þá bilun hafi enginn getað séð fyrir. Bilunin hafi ekki verið stórvægileg. Ef áreksturinn hefði átt sér stað án bilunar, og þá fyrir yfirsjón eða gáleysi áhafnarinnar, þá hefði ekki þurft að kalla til viðgerðarmenn frá Akureyri til að framkvæma áðurnefnda viðgerð.

            Í umræddri ferð Sævars EA frá Árskógssandi til Hríseyjar hafi skipstjóri haft full skipstjórnarréttindi. Skipið hafi verið mannað í samræmi við laga- og reglugerðarákvæði og hafi stefnandi ekki sýnt fram á að skipstjóri eða farsali hafi brugðist lagaskyldum sínum þannig að til bótaskyldu stofnist.

            Sjónarmiðum stefnanda um að gera eigi ríkari kröfur til vátryggingartaka, sem sérhæfi sig í flutningum með farþega og taki gjald fyrir, sé harðlega mótmælt. Í 2. málslið 2. mgr. 140. gr. laga nr. 34/1985 sé, eins og áður segi, kveðið á um að stafi tjón af eða sé í tengslum við meðal annars árekstur, þá beri farsali sönnunarbyrði um að yfirsjónum eða vanrækslu sé ekki um að kenna. Stefndi hafi gert grein fyrir því að áreksturinn megi alfarið rekja til bilunar í stýrisbúnaði. Yfirsjón eða vanræksla hafi engan þátt átt í árekstrinum. 

            Til viðbótar byggir stefndi á því að umrætt atvik hafi ekki verið tilkynningarskylt til rannsóknarnefndar samgönguslysa eða lögreglu. Sú niðurstaða fái stoð í skilgreiningu á hugtökunum „sjóatvik“ og „sjóslys“ í reglugerð nr. 763/2013 um störf rannsóknarnefndar samgönguslysa. Stefnandi hafi verið beðin um að fara strax til skoðunar á slysadeild við komu í land. Þá hafi stefnandi verið beðin um að láta vita eftir skoðun ef eitthvað væri að en ekkert hafi heyrst frá henni. Vátryggingartaki hafi því álitið að um minni háttar atvik væri að ræða sem ekki hefði haft varanlegar afleiðingar í för með sér. Sömu ályktun hafi mátt draga af vottorði Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, dags. 27. júlí 2015.

            Þá feli 220. gr. laga nr. 34/1985 í sér heimild en ekki skyldu til að halda sjópróf. Hvorki stefnandi né vátryggingartaki hafi óskað eftir sjóprófi.

 

                                                                        IV

            Samkvæmt 137. gr. laga nr. 34/1985 er farsala meðal annars skylt að bæta tjón er hlýst af því að farþegi slasast meðan á ferð stendur ef tjónið má rekja til yfirsjónar eða vanrækslu farsala sjálfs eða einhvers manns sem hann ber ábyrgð á. Sérreglu um sönnunarbyrði er að finna í 2. málslið 2. mgr. 140. gr. laganna, en þar segir að stafi tjón af eða sé í tengslum við skipstapa, strand, árekstur, sprengingu, eldsvoða eða galla í skipinu þá beri farsali sönnunarbyrði um að yfirsjónum eða vanrækslu sé ekki um að kenna. Þar sem óumdeilt er að stefnandi varð fyrir líkamstjóni við árekstur ferjunnar Sævars EA ber að beita síðastnefndu ákvæði við úrlausn málsins.

            Málsaðilar deila um það hvort starfsmenn Eyfars ehf. hafi sýnt af sér saknæma háttsemi sem valdið hafi árekstrinum. Stefndi hefur lagt fram reikning vegna viðgerðar sem fram fór á Sævari EA daginn eftir að áreksturinn átti sér stað. Stefnandi byggir aftur á móti á því að slysið megi rekja til gáleysis starfsmanna Eyfars ehf., einkum skipstjóra, þar sem skipinu hafi verið siglt of hratt og ógætilega miðað við aðstæður þegar áreksturinn varð. Í öllu falli hafi það verið saknæm háttsemi farsala að halda ekki skipinu í haffæru ástandi.

            Við úrlausn álitaefna um saknæma háttsemi við árekstur á sjó geta rannsóknir, á borð við þær sem rannsóknarnefnd samgönguslysa framkvæmir á grundvelli laga nr. 18/2013, reynst mikilvægar í því skyni að varpa skýrara ljósi á orsakir slysa. Í þessu máli háttar hins vegar svo til að nefndinni var ekki tilkynnt um áreksturinn. Fór því engin rannsókn fram af hálfu nefndarinnar á árekstrinum.

            Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 18/2013 kemur fram að markmið laganna sé að fækka slysum og auka öryggi í samgöngum með því að efla og bæta slysarannsóknir. Í 1. mgr. 16. gr. laganna er mælt fyrir um það að verði sjóslys eða sjóatvik beri sérhverjum sem um það viti að tilkynna það rannsóknarnefnd samgönguslysa án ástæðulauss dráttar eða ganga úr skugga um að nefndin hafi fengið vitneskju um slysið. Í 2. mgr. 16. gr. er áréttað að sérstaka skyldu í þessu tilliti beri meðal annars stjórnendur og eigendur eða útgerðarmenn skipa.

            Hugtakið sjóslys er skilgreint í 16. tölulið 3. gr. laga nr. 18/2013 og var samhljóða skilgreiningu að finna í 13. tölulið 3. gr. laganna þegar umræddur árekstur átti sér stað. Sömu skilgreiningu hugtaksins er einnig að finna í 10. tölulið 3. gr. reglugerðar nr. 763/2013.

            Stefndi telur að Eyfari ehf. hafi ekki borið að tilkynna rannsóknarnefnd samgönguslysa um áreksturinn þar sem ekki hafi verið útlit fyrir að líkamstjón stefnanda væri alvarlegt, enda hafi verið mælt fyrir um það í þágildandi a-lið 13. töluliðar 3. gr. laga nr. 18/2013 að ákvæðið ætti við þegar til dauðsfalls komi eða alvarlegra meiðsla á manni. Enda þótt fallast megi á það með stefnda að a-liður eigi ekki við í málinu þá verður ekki fram hjá því litið að d-liður ákvæðisins kveður á um það að til sjóslyss teljist einnig það þegar skemmdir verða á skipi. Að sama skapi kveður e-liður ákvæðisins á um það að til sjóslyss teljist það þegar skip lendir í árekstri. Í skipsbók kemur fram að Sævar EA hafi umrætt sinn lent í árekstri þegar stefnið rakst „harkalega í pollann sem skipið er fest við“. Skemmdir urðu á skipinu við áreksturinn. Stefndi hefur jafnframt viðurkennt að Sævar EA hafi lent í árekstri umrætt sinn, sbr. orðalag í greinargerð hans og málatilbúnað hans um 2. málslið 2. mgr. 140. gr. laganna sem að framan eru rakin. Því verður að leggja til grundvallar að um sjóslys hafi verið að ræða í skilningi laga nr. 18/2013. Þar af leiðandi bar Eyfari ehf. að tilkynna rannsóknarnefnd samgönguslysa um áreksturinn.

            Þar sem Eyfar ehf. vanrækti þessa tilkynningarskyldu sína fór ekki fram rannsókn á því hvort rekja mætti slys stefnanda til saknæmrar háttsemi starfsmanna Eyfars ehf. eða til bilunar.

            Haukur Laxdal, fyrrverandi skipstjóri Sævars EA, gaf skýrslu fyrir dómi og staðfesti færslu sína í skipsbók um áreksturinn. Sagðist Haukur hafa sinnt afleysingum sem skipstjóri á Sævari EA hluta sumarsins 2015. Einhver rafmagnsvandræði hefðu hrjáð skipið í nokkurn tíma fyrir siglinguna því það hefði „endalaust“ verið að slá út, einkum dælan fyrir spil sem notað hefði verið til að draga skipið að hafnarbakka. Sjálfur hefði hann ekki verið sáttur við það að tækin um borð hefðu ekki „virkað pottþétt“. Við áreksturinn hefðu rafmagnsvandræðin hins vegar í fyrsta sinn teygt sig til vélarinnar. Aðspurður um það hvort varastýrisbúnaður hefði ekki átt að vera fyrir hendi í skipinu sagðist hann ekki telja að svo hefði verið. Aldrei hefði verið rætt við sig um það. Í öllu falli gæti slíkt ekki hjálpað til þegar rafmagnsleysi yrði. Einnig var Haukur spurður um það hvers vegna ekki hefði verið haft samband við rannsóknarnefnd samgönguslysa eða lögreglu. Svaraði hann því til að hann hefði ekki hugmynd um hvernig standa hefði átt að þessu. Rekstraraðilar skipsins hefðu vitað af málinu. Sjálfur hefði hann litið svo á að hinn fastráðni skipstjóri Sævars EA vissi betur en hann hvernig þetta væri.

            Eins og áður segir ber að beita sérreglu 2. málsliðar 2. mgr. 140. gr. laga nr. 34/1985 um sönnunarbyrði í málinu, en það hefur í för með sér að stefndi, sem vátryggingafélag Eyfars ehf., þarf að sýna fram á að yfirsjónum eða vanrækslu Eyfars ehf. sé ekki um að kenna að áreksturinn varð umrætt sinn.

            Þegar litið er til vanrækslu Eyfars ehf. á því að tilkynna rannsóknarnefnd samgönguslysa um áreksturinn sem og ummæla þáverandi skipstjóra Sævars EA fyrir dómi um að hann hefði ekki verið sáttur við sífelld rafmagnsvandræði sem hrjáð hefðu skipið í nokkurn tíma fyrir áreksturinn, verður að draga þá ályktun að stefnda hafi ekki tekist að sanna að yfirsjónum eða vanrækslu starfsmanna Eyfars ehf. hafi ekki verið um að kenna þegar áreksturinn varð. Í þessum efnum skiptir einkum máli hvað varðar hugsanlega yfirsjón starfsmanna Eyfars ehf. að framlagning reiknings vegna viðgerðar útilokar ekki ein og sér að gáleysi starfsmanna hafi einnig verið orsök árekstrarins. Að því er varðar síðara álitaefnið um hugsanlega vanrækslu starfsmanna Eyfars ehf. þá verður að líta til þess að áðurnefnd ummæli þáverandi skipstjóra fyrir dómi gefa ekki fyllilega til kynna að hann hafi álitið viðhald á skipinu fullnægjandi, en brýnt verður að telja að viðhald skipa í reglubundnum farþegaflutningum fari tafarlaust fram þegar tilefni gefst til þess.

            Eins og áður segir er óumdeilt að stefnandi varð fyrir líkamstjóni við áreksturinn og að Eyfar ehf. naut ábyrgðartryggingar hjá stefnda. Ekki er deilt um umfang tjónsins og er enginn tölulegur ágreiningur um stefnufjárhæð. Ber því að fallast á kröfu stefnanda um skaðabætur úr hendi stefnda vegna ábyrgðartryggingar Eyfars ehf.

            Stefnandi fékk gjafsókn með bréfi innanríkisráðherra, dags. 27. desember 2016. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Hauks Freys Axelssonar, sem þykir hæfilega ákveðin 1.100.000 kr., að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

            Með hliðsjón af þessum málsúrslitum, og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 1.100.000 kr. og rennur í ríkissjóð.

            Af hálfu stefnanda flutti málið Haukur Freyr Axelsson lögmaður.

            Af hálfu stefnda flutti málið Hjörleifur B. Kvaran lögmaður.

            Arnaldur Hjartarson héraðsdómari kveður upp þennan dóm. Dómarinn tók við meðferð málsins 19. febrúar sl., en hafði fram til þess engin afskipti haft af meðferð þess.

 

                                                            D Ó M S O R Ð:

            Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., greiði stefnanda, A, 3.566.235 krónur með 4,5% vöxtum af 1.043.495 krónum frá 27. júlí 2015 til 27. janúar 2016 og af 3.566.235 krónum frá þeim degi til 14. apríl 2017, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

            Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Hauks Freys Axelssonar, 1.100.000 krónur.

            Stefndi greiði 1.100.000 krónur í málskostnað til ríkissjóðs.

 

                                                            Arnaldur Hjartarson