• Lykilorð:

 

Ú R S K U R Ð U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 2. apríl 2019 í máli nr. E-3891/2018:

Iðnó ehf.

(Anna Linda Bjarnadóttir hdl.)

gegn

Reykjavíkurborg

(Theodór Kjartansson hdl)

 

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 15. mars sl., er höfðað 12. nóvember 2018 af Iðnó ehf., kt. 000000-0000, Tjaldanesi, Mosfellsbæ á hendur Reykjavíkurborg, Tjarnargötu 11, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda vegna tjóns, sem stefnandi hafi orðið fyrir sökum þeirrar ákvörðunar menningar- og ferðamálasviðs stefnda frá 13. mars 2017 að ganga til samninga við Þóri Bergsson og René Boonekamp um rekstur og útleigu á fasteigninni Iðnó. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi, en til vara er krafist sýknu af kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi málskostnaðar.

 

I.

Forsaga málsins er sú að með leigusamningi, dags. 4. mars 1998, gerðu Iðnó ehf., kt. 000000-0000, og Borgarsjóður Reykjavíkur með sér leigusamning um leigu á fasteigninni Iðnó í Reykjavík. Þegar húsaleigusamningur rann út á árinu 2003, gerðu aðilar með sér samkomulag um að mat færi fram á verðmæti búnaðar í Iðnó í samræmi við ákvæði greinar 9.4 í leigusamningnum. Í ákvæðinu var mælt fyrir um að leigusali skuldbindi sig til þess að leysa til sín á matsverði þann búnað sem leigutaki hefur komið fyrir í Iðnó og ekki væri með góðu móti fluttur annað eða nýttur í öðrum húsakynnum. Voru fengnir tveir matsmenn til að meta verðmæti búnaðar, áhalda og tækja í Iðnó og komust þeir að þeirri niðurstöðu að heildarverðmæti hlutanna næmi 7.826.394 krónum. Þar á meðal voru 150 stólar. Í kjölfarið keypti stefndi umrædda hluti af stefnanda á 7.826.394 krónur

Með afsali, dags. 14. mars 2003, keypti Iðnó veitingahús ehf., kt. 000000-0000, sem er félag í eigu fyrirsvarsmanns stefnanda, Margrétar Rósu Einarsdóttur, 50% hlut í Iðnó ehf., kt. 000000-0000, ásamt ýmsum lausafjármunum, ljósabúnaði o.fl. af þrotabúi Leikfélags Íslands ehf.         

Þann 8. júní 2004 gerðu stefnandi og Skrifstofa menningarmála, með sér húsaleigusamning til fimm ára um rekstur í húsnæðinu. Samkvæmt þeim samningi lagði stefndi m.a. til stóla og búnað sem stefndi hafði áður keypt af stefnanda. Á árinu 2012 var leigusamningurinn framlengdur um þrjú ár, og með viðauka, dags. 6. apríl 2016, var leigutíminn framlengdur til 1. september 2017. Hefur rekstur stefnanda byggst á því að leigja fasteignina Iðnó og reka þar menningarstarfsemi, þar með talið veitingasölu, veisluþjónustu og kaffihús.

            Þann 14. janúar 2017 auglýsti menningar- og ferðamálasvið Reykjavíkurborgar í samvinnu við innkaupadeild Reykjavíkur eftir áhugasömum aðilum til að taka Iðnó á leigu „undir menningarstarf og annað sem styrkir rekstur hússins.“ Skyldu umsóknir sendar innkaupadeild Reykjavíkurborgar. Sérstök matsnefnd var skipuð. Þrjár umsóknir bárust, þar á meðal frá stefnanda. Niðurstaðan var sú að gengið var til samninga við Gómsætt ehf. Stefnandi leitaði í kjölfarið til umboðsmanns borgarbúa með erindi, dags. 18. ágúst 2017, þar sem hún kvartaði yfir málsmeðferðinni og þeirri ákvörðun menningar- ferðamálasviðs á meðferð málsins. Komst umboðsmaðurinn m.a. að þeirri niðurstöðu að leggja hefði mátt betri grundvöll að ákvörðuninni. Einnig óskaði stefnandi eftir afstöðu stefnda til skaðabótaskyldu, sem stefndi hafnaði með bréfi, dags. 10. júlí 2018.

 

II.

1. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda um efnishlið málsins

Stefnandi telur sig eiga rétt til skaðabóta úr hendi stefnda vegna missis hagnaðar í fimm ár af rekstri fasteignarinnar Iðnó og vegna útlagðs kostnaðar og fjárfestinga í búnaði. Segir í stefnu að ekki sé gerð krafa um sérstaka fjárhæð að svo stöddu, heldur verði óskað eftir mati dómkvaddra matsmanna til að meta tjón stefnanda ef fallist verður á viðurkenningarkröfuna. Segir í stefnu að hagsmunir stefnanda hafi falist í því að við rekstur hússins hafi stefnandi þurft að leggja út í fjárfestingar, sem aðeins nýttust Iðnó. Megi þar nefna sviðsljósabúnað, myrkvunarbúnað og borðbúnað auk skrautmuna, blómavasa, gluggatjalda og dúka. Stærsta fjárfestingin hafi verið húsgögn sem hafi verið valin sérstaklega fyrir húsið. M.a. hafi verið keyptir 160 armstólar, sem stefndi hafi keypt síðar af stefnanda, en allt viðhald og viðgerðir hafi verið á kostnað stefnanda. Þegar ljóst var að stefnandi hefði ekki orðið fyrir valinu hafi verið ætlast til að öll húsgögn og búnaður yrði fjarlægður.

Stefnandi reisir kröfu sína á eftirfarandi málsástæðum.

Í fyrsta lagi að stefndi hafi brotið gegn meginreglum opinberra innkaupa með því að ganga til samninga við Gómsætt ehf.

Í öðru lagi að það tilboð sem tekið var hafi byggst á forsendum sem hafi verið í andstöðu við útboðsgögn.

Í þriðja lagi hafi stefndi brotið gegn skyldu sinni til að vanda undirbúning að ákvörðun sinni og þeirri skyldu sinni að upplýsa málið.

Í fjórða lagi hafi stefndi brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, m.a. þar sem umsóknir hafi ekki verið bornar saman á hlutlausan hátt.

Í fimmta lagi hafi stefndi ekki lagt fram sérgreindan rökstuðning sem þó hefði mátt ætlast til í ljósi þeirra miklu hagsmuna sem stefnandi hafi haft af því að fá áframhaldandi útleigu og rekstur á Iðnó eftir frumkvöðlastarf í húsinu í 19 ár.

 

2. Helstu málsástæður og lagarök stefnda um efnisþátt málsins

Stefndi hafnar kröfu stefnanda um greiðslu skaðabóta. Ætlað tjón sé með öllu ósannað og stefndi hafi ekki sýnt af sér saknæma háttsemi við málsmeðferðina og ákvörðun um úthlutun leiguréttinda Iðnó. Stefndi hafi auglýst eftir áhugasömum aðilum til að taka Iðnó á leigu. Gætt hafi verið jafnræðis við málsmeðferðina. Tilboð stefnanda hafi numið lægri fjárhæð en það sem tekið var. Er því hafnað að stefnda hafi borið að leggja fram sérgreindan rökstuðning. Einnig er því hafnað að borið hafi að tilgreina innbyrðis jafnvægi einstakra matsþátta. Þá er því hafnað að leigutími hafi verið fastákveðinn í auglýsingu eða að stefndi hafi ekki uppfyllt rannsóknarskyldu sína. Stefnandi geti ekki heldur krafist greiðslu á útlögðum kostnaði vegna fjárfestinga í búnaði. Stefndi hafi keypt allan þann búnað sem stefnandi fjárfesti í á árunum 1998 til 2003 af stefnanda fyrir 7.826.394 krónur. Þrátt fyrir það hafi stefnandi haldið áfram afnotum af honum, án sérstakrar greiðslu til stefnda.

 

3. Málsástæður aðila varðandi formhlið málsins

Stefndi telur kröfu stefnanda verulega vanreifaða. Stefnandi telji sig hafa orðið fyrir tjóni af völdum stefnda, en geri í stefnu ekki grein fyrir því hvað felist í ætluðu tjóni eða hvers eðlis það sé. Stefnandi telji sig eiga rétt á skaðabótum fyrir missi hagnaðar í fimm ár og vegna útlagðs kostnaðar og fjárfestinga í búnaði, en geri ekki kröfu um ákveðna fjárhæð, heldur verði það sannreynt síðar með matsgerð. Þá hafi stefnandi hvorki lagt fram gögn til sönnunar ætluðu tjóni sínu né sýnt fram á nægar líkur á tjóni sínu og tengsl þess við ætlað skaðaverk. Af þessu leiði að vísa beri málinu frá dómi. Þessu til viðbótar fari málatilbúnaður stefnanda í bága við g-lið 1. mgr. 80. gr. og 1. mgr. 95. gr. laga nr. 91/1991. Auk þessa sé krafa stefnanda bæði óskýr og óviss. Kröfugerð lúti að viðurkenningu á tjóni vegna ákvörðunar menningar- og ferðamálasviðs stefnda, en þess sé í engu getið í kröfugerð eða málatilbúnaði stefnanda hvernig sú ákvörðun tengist ætlaðri kröfu stefnanda um bætur vegna útlagðs kostnaðar, fjárfestinga í búnaði eða missis hagnaðar. Auk þess séu þeir munir sem stefnandi telur sig hafa haft kostnað af eða fjárfest í hvorki tilgreindir í stefnu né gögnum málsins.

 

            Stefnandi mótmælir því að málinu verði vísað frá dómi. Heimilt sé að höfða mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu. Stefnandi hafi augljósa hagsmuni af því að fá niðurstöðu í málinu. Stefnanda sé heimilt að fá viðurkenningu fyrst og afla að því búnu matsgerðar. Dómkrafan sé skýr og ljóst af henni hvernig tjónið er tilkomið, þ.e. að gengið var til samninga við annan aðila en stefnanda. Tjón stefnanda sé í beinum tengslum við ákvörðun stefnda. Þá verði að líta til þess að gagnaöflun hafi ekki verið lýst lokið. Frávísunarkrafa stefnda eigi ekki við rök að styðjast og stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins.

 

III.

Af stefnu má ráða að stefnandi sæki mál þetta til viðurkenningar á skaðabótaskyldu vegna ætlaðs tjóns sem stefndi hafi valdið honum í tengslum við auglýsingu menningar- og – ferðamálasviðs stefnda þann 14. janúar 2017 um „Iðnó til leigu, Verk nr. 13838“. Þar var auglýst eftir aðilum til að taka Iðnó á leigu undir „menningarstarf og annað sem styrkir reksturinn“. Er nánari lýsingu á útleigunni að finna í auglýsingunni. Fyrir liggur að stefnandi hafði haft svipaðan rekstur með höndum á grundvelli samninga aðila, allt til þess að þeir samningar runnu út þann 1. september 2017. 

Ljóst er af gögnum málsins að stefnandi gerði tilboð í reksturinn ásamt öðrum aðilum. Ekki var þó gengið til samninga við stefnanda heldur annan aðila. Byggir stefnandi málsókn sína á því að ekki hafi verið löglega staðið að þeim samningi enda hafi lög nr. 120/2016 um opinber innkaup verið brotin við meðferð tilboða.

Í stefnu kemur fram að stefnandi hafi af þessum sökum orðið fyrir tjóni vegna missis hagnaðar í fimm ár af rekstri Iðnó og vegna útlagðs kostnaðar og fjárfestingar í búnaði.

Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er heimilt að höfða mál til að leita viðurkenningardóms á kröfu enda hafi aðili lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist og efni réttinda og réttindasambands. Í 1. mgr. 80. gr. sömu laga er boðið að krafa verði að koma glöggt fram í stefnu auk þess sem lýsing málsatvika verði að vera svo glöggt að ekki fari milli mála hvert sakarefnið er. Samkvæmt þessu verður sakarefnið að vera vel afmarkað og glöggt í stefnu.

Í stefnunni gerir stefnandi grein fyrir nokkrum þeim reglum sem hann telur að stefndi hafi brotið við meðferð fyrrgreindrar útleigu. Þar er hins vegar ekki gerð skýr grein fyrir þeim atvikum í kjölfar umræddrar auglýsingar sem talin eru valda því að stefndi sé bótaskyldur gagnvart stefnanda. Þá er engin grein gerð fyrir hinu ætlaða tjóni vegna missis hagnaðar í fimm ár af rekstri Iðnó, og þá sérstaklega á hvaða sjónarmiðum slík krafa er byggð og hvernig það megi rekja til þeirrar athafnar stefnda að leigja Iðnó til þriðja aðila. Loks er hvorki gerð fullnægjandi grein fyrir tjóni vegna útlagðs kostnaðar eða fjárfestinga í búnaði né því á hvaða grundvelli krafa um bætur fyrir það tjón verði byggð. Sé horft til þessara atriða í heild verður hvorki séð að stefnandi hafi gert fullnægjandi grein fyrir forsendum kröfu sinnar né umfangi. Að þessu virtu verður ekki hjá því komist að vísa máli þessu frá dómi.

            Eftir þessum úrslitum og með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað, eins og nánar greinir í dómsorði.

            Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

 

DÓMSORÐ:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnanda, Iðnó ehf., ber að greiða stefnda, Reykjavíkurborg, 400.000 krónur í málskostnað.

 

Ragnheiður Snorradóttir.