• Lykilorð:
  • Börn
  • Líkamsárás

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 4. desember 2018 í máli nr. S-535/2018:

Ákæruvaldið

(Sigrún Inga Guðnadóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

X

(Björgvin Halldór Björnsson lögmaður)

 

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 22. nóvember 2018, var höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags. 28. ágúst 2018 á hendur:

 

            „X, kt. 000000-0000,

            [...], Reykjavík,

 

fyrir líkamsárás og brot gegn barnaverndarlögum, með því að hafa [...] 2017, á gatnamótum [...] í Reykjavík, rifið upp afturhurð á bifreið þar sem A, þá [...] ára gamall, sat og slegið hann í andlitið, með þeim afleiðingum að hann hlaut yfirborðáverka á nefi og nefblæðingu.

 

Telst brot þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981 og 1. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

Einkaréttarkrafa:

Stefán Karl Kristjánsson lögmaður setur fram kröfu um miskabætur, f.h. B f.h. ólögráða sonar hennar, A, að fjárhæð 1.500.000 kr. með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá [...] 2017 til greiðsludags, en að mánuði liðnum frá birtingu bótakröfu er krafist dráttarvaxta skv. 6. gr., sbr. 5. gr., til greiðsludags.

 

 

            Verjandi ákærða krefst aðallega sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins. Til vara krefst hann vægustu refsingar er lög leyfa. Hann krefst aðallega frávísunar einkaréttarkröfu, til vara sýknu af kröfunni en til þrautavara að hún verði lækkuð verulega. Þá krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna.

 

I.

            [...] kl. [...] barst tilkynning frá Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra um æstan mann sem veittist að fólki á [...]. Var honum lýst sem litlum, þybbnum og með skegg. Í frumskýrslu er atvikum lýst svo að lögregla hafi ekið eftir [...] og séð tvo aðila við gatnamót [...] sem virtust vera að rífast. Svipaði öðrum til þess aðila sem áður var lýst. Sjá mátti að hann var mjög æstur og öskraði. Hafi hann sýnt ógnandi tilburði er hann varð var við lögreglubifreiðina og gert sig líklegan til að ráðast á þann lögreglumann sem sat farþegamegin er hann reyndi að komast út úr bifreiðinni. Var hann yfirbugaður af félaga hans og færður í handjárn. Segir í skýrslunni að ekki hafa verið nokkur leið að róa manninn og hafi hann verið færður á lögreglustöðina í kjölfarið. Reyndist hann vera ákærði X og fundust í fórum hans ætluð fíkniefni. Samferðamaður hans, C, var einnig handtekinn og er ástandi hans lýst svo að hann hafi verið sljór í hegðun og tali.

            Þá barst lögreglu tilkynning um að ráðist hefði verið á barn, það kýlt eða slegið í aftursæti bifreiðar. Fór lögregla á staðinn til að ræða við móður þess, en hún hafði verið ökumaður umrætt sinn. Kom þá í ljós að árásaraðilum svipaði mjög til þeirra aðila sem lögreglan hafði áður haft afskipti af en í skýrslunni segir að móðirin hafi ekki verið viss um hvor þeirra hefði ráðist á son sinn, brotaþola í málinu. Haft var eftir henni að bifreið hennar hefði verið kyrrstæð á rauðu ljósi við gatnamót [...] og [...]. Hafi hún orðið vör við tvo aðila sem nálguðust bifreiðina, greinilega í annarlegu ástandi. Hefði bílhurð hennar skyndilega verið rifin upp og hún öskrað á mennina og lokað hurðinni. Þegar mennirnir voru farnir hefði hún tekið eftir að farþegahurð við hlið brotaþola var opin. Hann hefði grátið hástöfum og verið blóðugur í framan. Sagði hann að maðurinn hefði lamið hann í andlitið. Þegar lögregla kom á vettvang hefði brotaþoli enn verið með blóðnasir og sagt að maðurinn hefði lamið hann einu sinni í nefið. Móðirin lýsti mönnunum svo að þeir hefðu verið dökkhærðir, annar með skegg en hinn eyrnatól. Í kjölfar samtals við lögreglu fór hún á slysadeild með son sinn.

            Í upplýsingaskýrslu rannsóknarlögreglumanns kemur fram að rætt hafi verið frekar við móður brotaþola eftir skoðun á slysadeild. Kvað hún hann hafa fengið blóðnasir og minni háttar áverka en hann væri í áfalli. Lýsti hún atvikum og þeim aðila sem hefði rifið upp afturhurðina á bifreiðinni. Kvað hún brotaþola hafa grátið og sagt að maðurinn hefði slegið sig. Hafi hann verið blóðugur í andliti, með miklar blóðnasir.

            Ákærði var yfirheyrður vegna málsins [...] 2017. Bar hann fyrir sig minnisleysi vegna ástands síns, en hann hefði neytt áfengis og fíkniefna í miklum mæli umrætt sinn.

            Skýrsla var tekin af móður drengsins [...] 2017 og lýsti hún atvikum umrætt sinn. Þá gaf hún lýsingu á þeim aðila sem hefði opnað bílhurðina hjá henni en kvað hinn ekki hafa komið nálægt bifreiðinni.

            Meðal gagna er læknisvottorð D dagsett [...] 2017. Læknisskoðun á A fór fram í kjölfar atviksins [...] 2017. Í vottorðinu er atburðarásin höfð eftir móður drengsins og segir þar að maður hafi gripið í hurðarhún bílsins og opnað bílhurðina fyrir aftan ökumannssætið og reynt að komast inn í bílinn. Hafi móðirin tekið eftir því að drengurinn var í uppnámi, hélt fyrir andlit og það blæddi úr nefi hans. Hafi drengurinn sagt að maðurinn hefði slegið sig í andlitið og klipið fast í nefið á eftir.

 

II.

Verður nú gerð grein fyrir framburði ákærða og vitna við aðalmeðferð málsins, að því marki sem nauðsynlegt þykir til úrlausnar þess.

            Ákærði kvaðst ekkert muna eftir atvikum. Hann kvaðst hafa verið í neyslu á þeim tíma sem um ræðir. Kvaðst hann ekki muna eftir því sem hann sagði í skýrslutöku hjá lögreglu um ferðir sínar þennan dag. Kvað ákærði ólíklegt að hann hefði gert það sem honum væri gefið að sök. Ákærði kvaðst hafa gert tilraunir til þess að taka sig á en þær hefðu misheppnast.

            C kvaðst hafa hitt ákærða á bar en þeir hefðu ekki þekkst fyrir. Hafi þeir drukkið áfengi og ákærði hafi verið mun drukknari en hann. Hafi hlutir farið úr böndunum og ákærði farið út á götu og verið óstöðugur á fótum. Hafi þeir verið kjánalegir að veltast um. Kvaðst vitnið muna eftir því þegar lögreglan handtók þá en ekkert eftir því að ákærði hefði stöðvað bíl eða opnað bílhurð.  

B, móðir brotaþola, kvaðst hafa verið í bifreið sinni á [...] við gatnamót [...]. Þar hafi hún verið kyrrstæð á rauðu ljósi og tekið eftir tveimur mönnum við [...]. Þeir hafi verið í annarlegu ástandi. Annan kannaðist hún við, hann var hávaxinn með heyrnartól. Hinn hafi verið lægri, skeggjaður, þybbinn og dökkhærður. Sá skeggjaði hafi verið að ýta eitthvað í hinn. Síðan hafi hann nánast dottið út á götuna og nálgast bifreiðina. Hafi hann náð að opna bílhurðina bílstjóramegin áður en hún hafi náð að læsa. Henni hafi tekist að ýta honum út. Þá hafi hún heyrt brotaþola, sem var í barnabílstól fyrir aftan ökumannssætið, segja „nei, nei, nei“. Hún hafi séð að skeggjaði maðurinn var kominn inn í bílinn en ekki hvað hann gerði. Hann hafi sagt eitthvað sem hún skildi ekki. Síðan hefði hún ekið áfram og séð í baksýnisspeglinum að brotaþoli var blóðugur og hræddur. Hafi hún stöðvað bílinn og reynt að átta sig á því sem hafði gerst. Hafi brotaþoli sagt „hann lamdi mig“ eða „hann kýldi mig“ og bent á andlitið. Hafi hún fengið aðstoð vegfarenda við að hringja í lögregluna, og hún hafi komið mjög fljótt. Hafi brotaþoli talað við lögreglumenn og sagt þeim hvað hefði gerst. Þá hafi hún gefið þeim lýsingu á mönnunum sem hún sá. Vitnið hafi í kjölfarið farið á slysadeild og þar hafi brotaþoli aftur sagt frá því sem gerðist.

            Aðspurð kvað vitnið hávaxnari manninn ekki hafa komið nálægt bílnum heldur hefði hann verið á rampinum við [...]. Hún hefði aldrei verið í vafa um hvor þeirra hefði komið inn í bílinn.

            Vitnið kvað atvikið hafa haft mikil áhrif á brotaþola. Hann hafi lengi verið mjög reiður og talað um atvikið þegar hann var í nágrenni við vettvang. Hann hefði farið í listmeðferð og gengi betur í dag.

            E lögreglumaður og F höfðu afskipti af ákærða eftir tilkynningu um karlmann í annarlegu ástandi. Lýstu þau ástandi ákærða umrætt sinn, en hann hefði verið stjórnlaus og augljóslega undir miklum áhrifum fíkniefna. Hinn aðilinn hefði ekkert aðhafst og hlýtt fyrirskipunum lögreglu. Lýsing á aðilunum hafi samræmst þeirri sem barst skömmu síðar í tengslum við tilkynningu um atvik máls þessa.

            G lögreglumaður ræddi við móður brotaþola eftir tilkynningu um að hann hefði orðið fyrir árás. Drengurinn hafi verið mjög lítill í sér og sagt að maður hefði lamið sig í andlitið.

            H rannsóknarlögreglumaður lýsti aðkomu sinni að málinu og samtali við móður í síma er hún boðaði hana í formlega skýrslutöku.

            D læknir lýsti aðkomu sinni og skoðun á brotaþola við komu á slysadeild. Hafi drengurinn verið fremur fámáll og móðirin að mestu séð um að gefa lýsingu á atvikum. Hafi drengurinn hlotið milda ytri áverka eftir að slegið og tekið hefði verið í nefið. Hafi verið væg bólga yfir nefinu og áverkarnir getað samrýmst þeirri lýsingu sem gefin var af atvikum.

 

III.

Niðurstaða

            Ákærða er gefin að sök líkamsárás og brot gegn barnaverndarlögum með því að hafa beitt brotaþola ofbeldi með nánar tilgreindum hætti í aftursæti bifreiðar þann [...] 2017. Móðir brotaþola var ökumaður umrætt sinn. Ákærði neitar sök og ber fyrir sig minnisleysi vegna áfengis- og fíkniefnaneyslu. Telur hann sig ekki líklegan til þess að hafa framið verknað sem þann sem honum er gefinn að sök. Reisir ákærði varnir sínar á því að ósannað sé að hann hafi framið þá háttsemi sem honum er gefin að sök. Í fyrsta lagi sé ósannað að hann hafi opnað hurð bifreiðarinnar. Í öðru lagi sé ósannað hvað gerðist í aftursæti bifreiðarinnar, en engin vitni hafi verið að því.

            Móðir brotaþola hefur afdráttarlaust borið hér fyrir dómi að sá maður sem hún þurfti að bægja frá bifreiðinni, og síðar reyndist hafa opnað bílhurð þeim megin sem brotaþoli sat í aftursæti bifreiðarinnar, hafi verið dökkhærður, skeggjaður og þybbinn. Sá hafi verið í annarlegu ástandi og látið ófriðlega. Bar hún á sama veg um þetta atriði í óformlegu samtali við rannsóknarlögreglumann, að hluta til á slysadeild og síðar í skýrslu sinni hjá lögreglu. Þá bar hún um að þetta hefði gerst í nágrenni við þann stað þar sem ákærði var handtekinn. Hann var þá óviðráðanlegur sökum ástands síns og árásargjarn, eins og lögreglumenn báru fyrir dómi. Þá kemur fyrrgreind lýsing móður brotaþola heim og saman við útlit ákærða, en vitnið C, sem hún kannaðist við, er verulega frábrugðinn ákærða í útliti. Hann var auk þess, öfugt við ákærða, viðráðanlegur og ekki í árásarham, eins og skýrt kom fram í vitnisburði lögreglumannanna. Að framangreindu virtu þykir sannað að ákærði hafi verið sá aðili sem um ræðir.        

            Af hálfu ákæruvaldsins var ekki farið fram á að formleg skýrsla yrði tekin af brotaþola. Á hinn bóginn liggur fyrir vitnisburður móður brotaþola og lögreglumannsins G, sem höfðu eftir brotaþola að ákærði hefði verið sá aðili sem hefði slegið hann. Bæði ræddu þau við brotaþola í kjölfar atviksins og lýsti móðir hans sterkum viðbrögðum hans. Metur dómari framburð beggja mjög trúverðugan. Þá er meðal gagna málsins ljósmynd af drengnum þar sem sjá má blóðtaum úr hægri nös hans, og læknisvottorð sem staðfestir að blæðing hafi verið í þeirri nös og að brotaþoli hafi sagt að ákærði hefði slegið sig í andlitið.

Með vísan til framangreinds þykir sannað að ákærði hafi gerst sekur um líkamsárás sem er rétt heimfærð til 217. gr. almennra hegningarlaga, svo og 1. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga, en með háttsemi sinni ógnaði ákærði brotaþola og sýndi honum yfirgang og ruddaskap.

 

Refsiákvörðun og einkaréttarkrafa

            Ákærði hefur ekki áður sætt refsingu fyrir ofbeldisbrot eða ofbeldistengd brot. Það að hann hafi verið undir áhrifum fíkniefna leysir hann ekki undan refsiábyrgð samkvæmt 17. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þó slá megi því föstu að vegna mjög svo annarlegs ástands hans hafi ásetningur hans verið þokukenndur. Á móti kemur að brotið var mjög alvarlegt og beindist gegn ungu barni sem átti sér einskis ills von.

            Samkvæmt framansögðu og með vísan til 1. og 6. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin tveggja mánaða fangelsi. Ekki eru efni til þess að binda refsinguna skilorði.

 

B hefur fyrir hönd ólögráða sonar síns, A krafist skaðabóta úr hendi ákærða. Ákærði er bótaskyldur vegna háttsemi sinnar á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Við ákvörðun bóta er litið til þess að háttsemi ákærða var til þess fallin að valda ungu barni miska. Kom fram í skýrslu móður að brotaþoli hefði verið talsverðan tíma að jafna sig eftir atvikið og er það ekki dregið í efa.

Þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 400.000 krónur. Krafa brotaþola vegna útlagðs kostnaðar er studd gögnum og tekin til greina. Krafa um miskabætur ber almenna vexti eins og í dómsorði greinir. Þá eru dráttarvextir á lagðir mánuði eftir birtingu bótakröfunnar.

     Með hliðsjón af málsúrslitum og með vísan til 2. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 ber ákærða að greiða allan sakarkostnað úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Halldórs Björnssonar lögmanns, sem þykja með tilliti til umfangs málsins hæfileg 611.320 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Stefáns Karls Kristjánssonar, 250.000 krónur. Þá ber ákærða að greiða annan sakarkostnað málsins, sem er 39.510 krónur. Kostnaður vegna verjendastarfa fyrir vitnið C, sem hafði réttarstöðu sakbornings á rannsóknarstigi, telst ekki til sakarkostnaðar. Tekið er tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun um þóknun lögmanna.

            Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

                                                            D ó m s o r ð:

            Ákærði, X, sæti fangelsi í tvo mánuði.          

Ákærði greiði A 400.000 krónur með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá [...] 2017 til 21. október 2018, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

            Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Halldórs Björnssonar lögmanns, 611.320 krónur, þóknun Stefáns Karls Kristjánssonar, réttargæslumann brotaþola, 250.000 krónur, og 39.510 krónur í annan sakarkostnað.

 

                                                            Sigríður Hjaltested (sign.)