• Lykilorð:
  • Áminning
  • Kjarasamningur
  • Miskabætur
  • Stjórnsýsla
  • Sveitarstjórn
  • Sönnun

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur, þriðjudaginn 5. júní 2018, í máli nr. E-3132/2017:

Sigurður Páll Óskarsson

(Jón Sigurðsson lögmaður)

gegn

Reykjavíkurborg

(Anton Björn Markússon lögmaður)

 

            Þetta mál, sem var tekið til dóms 10. apríl 2018, höfðar Sigurður Páll Óskars­son, kt. [...], [...], Reykjavík, með stefnu birtri 2. október 2017 á hendur Reykja­víkur­borg, kt. 530269-7609, Tjarnargötu 11, Reykja­vík.

 

            Stefnandi krefst þess að dæmd verði ógild sú áminning sem stefndi veitti stefn­anda með bréfi, dagsettu 14. júní 2017.

            Stefnandi krefst þess jafnframt að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda miska­bætur að fjárhæð 2.000.000 kr., auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 2. október 2017 til greiðsludags.

            Stefnandi krefst að auki málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda að með­töldum virðisauka­skatti á málflutningsþóknun.

 

            Stefndi krefst sýknu af öllum dómkröfum stefnanda svo og málskostnaðar úr hendi hans.

 

 

Málsatvik

            Þetta mál varðar gildi áminningar sem stefndi veitti stefnanda sem starfs­manni sínum með bréfi þess efnis, dagsettu 14. júní 2017. Stefnandi hefur unnið við störf tengd fjármálum í 35 ár og hefur gegnt starfi fjár­mála­stjóra Ráðhúss Reykjavíkur­borgar í rúm tíu ár, en hefur starfað í ríflega 12 ár fyrir stefnda, frá 1. janúar 2006. Í skipu­riti stefnda eru nokkur fagsvið og svo miðlæg stjórnsýsla. Í miðlægri stjórn­sýslu eru átta skrif­stofur, þar á meðal fjármálaskrifstofa, mannréttindaskrifstofa, skrif­stofa borgar­stjórnar og skrifstofa borgarstjóra og borgarritara.

            Í þessu skipuriti heyrir stefn­andi til síðastnefndu skrifstofunnar. Hann kvaðst áður hafa verið staðsettur á fjármálaskrifstofunni en þáverandi borgarritari hafi óskað eftir því að hann yrði staðsettur á þessari skrifstofu og þá hafi hann verið færður. Skrif­stofu­stjóri hennar og um leið næsti yfirmaður stefnanda er kona, sem hefur, eins og stefnandi, starfað hjá Reykjavíkurborg frá árinu 2006 en á þess­ari skrif­stofu frá 1. sept­ember 2012. Skrifstofan heyrir undir borg­ar­ritara, sem heyrir beint undir borgar­stjóra.

 

            Það atriði sem hefur svonefnd réttaráhrif er áminning sem stefnda var veitt á miðju ári 2017 og þau tvö atvik sem þar eru tilgreind sem tilefni áminningarinnar og urðu í febrúar og mars 2017. Af þeim sökum telur dóm­ur­inn að það sé hvorki þörf á né eðlilegt að rekja nákvæmlega nún­ing í sam­skiptum á skrifstofunni eða miðlægri stjórn­sýslu í örfá skipti fram að því.

            Stefndi tekur fram að yfirmaður stefnanda, skrifstofustjórinn, hafi leitað leiða til að bæta sam­skipta­færni stefn­anda á vinnustað. Haustið 2016 hafi stefnandi jafn­framt lýst yfir því við hana að hann teldi sig ekki hafa fengið stuðning frá henni og að hún legði sig í einelti. Hún hefði leið­beint honum um það hvernig hann ætti að bera sig að í málinu. Hann hafi einnig fengið skriflegar leiðbeiningar frá starfsmannastjóra Reykja­víkur­borgar. Hann hafi hins vegar ekki viljað setja fram formlega kvörtun.

            Fyrir dómi bar stefn­andi að samstarfsmaður hans hefði ráðið honum frá því að leggja fram formlega kvörtun. Af því hefði hann slæma reynslu. Ásökun stefnanda varð þó til­efni þess að skrifstofustjórinn ákvað að leita aðstoðar sálfræðings með það fyrir augum að bæta færni í inn­byrðis sam­skiptum þeirra. Hún kvaðst einnig hafa viljað ræða við stefnanda, með aðstoð þriðja manns, hvað það væri í fari hennar sem hann upplifði sem einelti.

            Á tíma­bil­inu frá októ­ber 2016 og fram á sumar 2017 fór fram sátta­með­ferð milli þeirra tveggja. Þau hittu sál­fræð­ing á sátta­fundum, bæði hvort í sínu lagi og saman. Í des­em­ber 2016 var gert hlé á við­tals­tímum og ákveðið að hittast á ný á vor­dögum til eftir­fylgni.

            Stöðumat fór fram 9. maí 2017 á skrifstofu sálfræðingsins. Þar eð stefn­andi var ósáttur við það að skrifstofustjórinn vildi ræða tiltekin atvik við sálfræðinginn á þeim fundi var ákveðið að stefn­andi og skrifstofustjórinn myndu hittast og fara yfir atvikin. Jafn­framt var annar tími bók­aður hjá sálfræðingnum 7. júní.

            Hinn 16. maí 2017 hittust stefnandi og skrifstofustjórinn á fundi sem bar yfir­skrift­ina „Verk­efni fjármálastjóra RHUS“. Á fundinum var rætt um  umbóta-, sam­ræm­ingar- og ráðgjafarhlutverk stefnanda í miðlægri stjórnsýslu og sem stjórnanda við að tryggja samræmda framkvæmd á sviði fjármála og reksturs. Stefnandi lýsti því yfir á fund­inum að hann væri „í virku samtali“ við fjármálaskrifstofu um framkvæmd fjár­mála. Þá gerði skrifstofustjórinn grein fyrir því að hún teldi stefnanda þurfa að vera fús­ari til sam­vinnu í þeim þáttum starfslýsingar sem hljóða svo:

            Sinnir verkefnum á sviði fjármála fyrir skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.

            Önnur þau verkefni sem skrifstofustjóri SBB felur fjármálastjóra.

            Loks nefndi skrif­stofu­stjórinn að hún þyrfti að breyta fundartíma með sál­fræð­ingnum. Í kjölfar fund­ar­ins sendi hún stefn­anda tölvubréf með fundarpunktum. Þar var ekki minnst á áform um áminningu.

            Í svarbréfi stefnanda til skrifstofustjórans næsta dag kom fram að hann hefði verið fús til samvinnu í þeim þáttum sem taldir voru upp í bréfi hennar og myndi vera það áfram eins og undanfarin 11 ár. Þá taldi hann að hlutverk sitt væri að fara eftir verk­ferlum og jafnframt benda öðrum starfsmönnum á þessa verkferla. Taldi stefnandi erf­itt að finna leiðir fram hjá þessum verkferlum sem búið væri að samþykkja og giltu um alla borgina. Loks lagði hann til að skrifstofustjórinn fyndi nýjan tíma hjá sál­fræð­ingnum.

            Skrifstofustjórinn hélt áfram í tölvuskeytum að leita eftir afstöðu hans til til­tek­inna þátta í starfs­lýsingu hans. Þar eð hann svaraði þeim ekki kveðst hún hafa talið full­reynt að hjálpa honum að ná árangri í starfi. Hún hafi litið svo á að þar eð vægari úrræði, svo sem leiðbeiningar, ráð­gjöf og formlegt til­tal, megnuðu ekki að koma honum í skiln­ing um þann vanda sem hann ætti við að glíma í starfi sínu sem fjár­mála­stjóri Ráðhúss, og ekki síður tregi hans til að þiggja þá aðstoð sem honum bauðst, hefði hún ekki átt ann­arra kosta völ en að hefja áminn­ing­ar­ferli.

            Átta dögum síðar, 24. maí 2017, ritaði skrifstofustjórinn stefnanda bréf þar sem áminn­ing var boðuð „í ljósi hátternis þíns undanfarna mánuði“ eins og það var orðað. Samkvæmt bréf­inu var tilefni fyrir­hug­aðrar áminningar að stefnandi hefði ekki sinnt leið­bein­ing­ar­skyldu, að hann hefði ekki farið að fyrirmælum yfirmanns, að hann skorti sam­skipta­færni, að vinnu­brögð væru ekki í samræmi við starfsskyldur og að stefn­andi hefði ekki sinnt til­teknum verkefnum þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar um. Í bréf­inu er sér­stak­lega byggt á því að komið hafi áður til formlegs „tiltals“ yfirmanns með bréfi, dags. 21. sept­ember 2016. Í bréfinu 24. maí 2017 var vísað til þess að sátta­leiðir hefðu ekki leitt til við­un­andi úrbóta og þar nefnd aðstoð sérhæfra aðila. Með bréf­inu fylgdi grein­ar­gerð skrif­stofu­stjórans um atvik máls. Stefnanda var gefið færi á leggja fram and­mæli við fyrir­hug­aða áminningu. Að virtum fyrri samskiptum aðila kom þetta bréf sem þruma úr heið­skíru lofti fyrir hann.

            Stefnandi afhenti skrifstofustjóranum ítarleg andmæli og greinargerð, dags. 2. júní 2017. Þar skoraði hann á stefnda að falla frá áformum um áminningu enda væru hvorki efnis­legar né lögmætar ástæður fyrir áminningu. Boðað var til fundar hjá stefnda 2. júní. Hann sóttu stefnandi, fulltrúi stéttarfélags hans, skrifstofustjórinn og lög­maður stefnda. Á fundinum var stefnanda gefið færi á því að koma á framfæri and­mælum vegna fyrirhugaðrar áminningar.

            Með bréfi, dags. 14. júní 2017, veitti skrifstofustjórinn, yfirmaður stefnanda, honum áminningu í starfi. Hann var áminntur fyrir meint brot í starfi; meint brot á hlýðni­skyldu við lögmæt fyrirmæli yfirmanns, fyrir óvandvirkni í starfi, ófull­nægj­andi árangur í starfi, framkomu sem samræmdist ekki starfi og óhlýðni við lög­legt boð yfir­manns. Stefndi féll frá því að áminna stefnanda fyrir að hafa látið undir höfuð leggj­ast að hafa frumkvæði að umbótarverkefnum, innleiða þau og sinna eftir­fylgd, svo sem ráð­gert hafði verið að áminna fyrir samkvæmt bréfi, dags. 24. maí 2017.

            Lögmaður stefnanda ritaði borgarritara, sem yfirmanni skrifstofustjórans, bréf 27. júní 2017. Í því var áminningunni mót­mælt harð­lega og þess krafist með rökum að stefndi felldi hana þegar úr gildi. Borgar­rit­ara var sent bréfið vegna meints van­hæfis skrifstofustjórans í málinu, sem nánar er rakið í bréf­inu. Borgarritari svaraði með bréfi, dags. 17. júlí 2017, og hafnaði þeirri kröfu að áminn­ingin yrði felld úr gildi.

            Með svarbréfi lögmanns stefnanda til borgarritara, 7. september 2017, var þeim sjónarmiðum sem fram komu í bréfi borgarritara mótmælt og málshöfðun jafn­framt boðuð. Stefnandi unir ekki þeirri áminningu sem honum var veitt í starfi og er honum því nauðsynlegt að höfða dómsmál þetta til þess að fá áminninguna fellda úr gildi.

 

 

Málsástæður og lagarök stefnanda fyrir ógildingarkröfu sinni

            Stefnandi reisir dómkröfur sínar á því að skilyrði hafi skort fyrir því að veita honum þá áminningu sem honum var veitt með bréfi stefnda 14. júní 2017. Hann telur að engar efnislegar eða lögmætar ástæður hafi verið til áminningar. Í það minnsta hafi þær ekki verið nægjanlegar, enda hafi skilyrði þess ákvæðis kjara­samn­ings og sam­komu­lags sem áminningin byggði á ekki verið uppfyllt, sbr. gr. 9.8.1 í kjara­samningi og 9. gr. í samkomulagi milli stefnda og stéttarfélags stefnanda um rétt­indi og skyldur starfs­manna stefnda. Stefnandi byggir á því að hann hafi í störfum sínum í engu farið á svig við ákvæði 9. gr. samkomulags um réttindi og skyldur starfs­manna Reykja­víkur­borgar og gr. 9.8.1 í kjarasamningi milli stéttarfélags stefnanda og Reykja­víkurborgar. Áminn­ingin hafi einnig verið óréttmæt.

            Dómkröfur eru jafnframt byggðar á því að meðferð stefnda á máli stefn­anda sé veru­lega áfátt, enda hafi reglur stjórn­sýslu­laga nr. 37/1993 verið þver­brotnar við með­ferð þess. Bent er á að allan vafa um það hvort skilyrði áminningar séu upp­fyllt verði að skýra stefnanda sem starfs­manni í hag og að sönnunarbyrðin hvíli alfarið á stefnda sem vinnuveitanda um sönnun atvika eða þeirra ávirðinga sem liggi áminn­ingu til grund­vallar. Strangar kröfur verði að gera til þess að sannað sé að starfs­maður hafi gerst sekur um þær ávirðingar sem honum séu gefnar að sök. Stefnandi telur að stefnda hafi ekki tekist að sanna meint brot stefnanda á starfsskyldum. Þegar af þeim ástæðum beri að ógilda áminn­ing­una og fallast á miskabætur til stefn­anda vegna ógildrar áminningar.

 

Efni áminningar

            Stefnandi byggir á því að þær ávirðingar sem stefndi reisir áminninguna á eigi ekki við rök að styðjast, séu rangar og óréttmætar og geti ekki leitt til áminningar. Stefn­andi vekur athygli á því að ekki verði séð að tekið hafi verið tillit til andmæla hans vegna eftir­far­andi ávirð­inga, sbr. andmælabréf 2. júní 2017 við veitingu áminn­ingar sam­kvæmt áminn­ingar­bréfi.

 

Meint brot á hlýðniskyldu við lögmæt fyrirmæli yfirmanns

            Þessi ávirðing varði meint brot stefnanda í tengslum við beiðni um svar við fyrir­spurn um framkvæmd styrkja­reglna. Stefnandi byggi á því að ávirðingin eða öllu heldur ásakanir skrifstofustjórans og stefnda í sinn garð séu annaðhvort byggðar á algjörum misskilningi á því hvernig umræddum málum er hagað hjá stefnda eða að ákveðið hafi verið að líta vísvitandi fram­ hjá þeim staðreyndum. Fráleitt sé að gera megi þessar ávirðingar að áminningar­ástæðu, eins og rakið verði, en auk þess vísar stefn­andi nánar til greinargerðar sinnar með andmælaskjali. Stefnandi mótmælir því alfarið að hafa ekki farið að fyrir­mælum, ekki svarað erindum, ekki veitt stuðning eða ráðgjöf, eða ekki sinnt starfs­skyldum, eins og stefndi haldi fram.

 

            Ávirðingar undir þessum lið varði nánar tiltekið fyrirspurn fjármálaskrifstofu stefnda um framkvæmd styrkjareglna hjá stefnda. Enginn grundvöllur sé yfirhöfuð til þess að gera svör við fyrirspurninni að áminningarástæðu, enda megi sjá af fyrir­spurn­ar­bréfi að því sé alls ekki beint til stefnanda heldur til einstakra skrifstofu­stjóra hjá stefnda og til borgarritara. Skrifstofurnar hafi sjálfar unnið svörin við fyrir­spurninni og sent fjármálaskrifstofu, eins og síðar verði rakið. Stefndi og skrif­stofu­stjórinn líti einnig algjörlega fram ­hjá því að nokkrum vikum áður, 27. febrúar 2017, hafði stefn­andi sent nokkrum skrifstofu­stjórum mið­lægrar stjórnsýslu stefnda, þ.m.t. yfir­manni sínum, tölvu­skeyti og beðið þá að svara erindi fjár­mála­skrifstofu stefnda um fram­kvæmd styrkja­reglna. Stefnandi hafi því sinnt því að óska eftir svörum um fram­kvæmd styrkja­reglna löngu áður en yfirmaður hans hóf að senda honum fyrir­spurnir vegna máls­ins. Því sé sannan­lega rangt með farið að stefn­andi hafi ekki sinnt beiðnum fjár­mála­skrifstofu.

 

            Stefnandi tekur fram, eins og hann gerði í greinargerð með andmælabréfi, að venjan hafi ekki verið sú hjá stefnda að stefnanda, sem fjármálastjóra Ráðhúss, væru sendar slíkar beiðnir, heldur hefðu mannréttindaskrifstofa og skrifstofa borgarstjórnar stefnda árlega sent stöðluð svör við stöðluðum spurningum fjármálaskrifstofu stefnda án þess að stefnandi kæmi þar nálægt. Anna Kristinsdóttir, mann­rétt­indastjóri Reykja­vík­ur­borgar, og einn af skrifstofustjórunum, hafi staðfest þetta í bréfi dags. 7. júní 2017. Hið sama geri Helga Björk Laxdal, skrif­stofu­stjóri skrif­stofu borg­ar­stjórnar, í svari til stefnanda 29. maí 2017. Skrif­stofu­stjórar stefnda hafi viljað svara þessari beiðni fjármálaskrifstofu stefnda sjálfir milliliðalaust og muni fjár­mála­skrif­stofan aldrei hafa gert athuga­semdir við það verklag. Þetta muni vera staðlaðar spurn­ingar um fram­kvæmd reglna hjá hverri og einni skrif­stofu fyrir sig, sem varði ekki beint fjár­mál og þannig ekki verk­efni stefn­anda í starfi fjármálastjóra Ráð­húss. Stefn­andi hafi, sem fjár­mála­stjóri, aldrei tekið við styrkbeiðnum, sam­þykkt styrki eða tekið þátt í veitingu þeirra, eða eftir­fylgd með reglum og fram­kvæmd samn­inga, sem fjár­mála­skrif­stofa stefnda ósk­aði upp­lýsinga um. Þessu hafi hann gert yfirmanni sínum sér­staka grein fyrir þegar hún leitaði til hans vegna þessa máls, sbr. tölvubréf 27. febrúar og 22. mars 2017.

 

            Stefnandi bendir á að það sé rangt í bréfi skrifstofustjórans, dags. 24. maí 2017, um fyrir­hugaða áminningu, að halda því fram að erindi um fram­kvæmd styrk­veit­inga snúi að fjármálastjórnun. Þeim mót­mælum hafi stefnandi haldið á lofti í grein­ar­gerð með and­mæla­bréfi um áminningu en ekki hafi verið tekið tillit til þess við veit­ingu áminn­ingar. Í fram­an­greindu bréfi skrifstofustjórans segi jafnframt að það sé stefn­anda að meta hverju sinni til hverra hann þurfi að leita með aðkomu að svörum. Stefn­andi byggir á því að þetta sé nákvæmlega það sem hann hafi gert. Með þessari yfir­lýs­ingu viður­kenni skrifstofustjórinn því, og stefndi um leið, að stefn­andi hafi haft ákvörð­un­ar­vald og mat um það hvernig bregð­ast bæri við erind­inu. Hann hafi brugðist rétt við og því séu að mati stefnanda engar forsendur til áminningar vegna þessa liðar.

 

            Þá hafnar stefnandi því algjörlega að hafa ekki veitt skrifstofustjóra eða öðrum ráð­gjöf vegna þessa. Stefnandi kveðst hafa veitt þá ráðgjöf meðal annars í tölvu­skeytum til yfirmanns síns, 27. febrúar og 22. mars 2017. Full­yrð­ingum stefnda um að stefn­andi svari ekki erindum, veiti ekki stuðn­ing eða ráð­gjöf, sé því vísað á bug.

 

Meint óvandvirkni í starfi, ófullnægjandi árangur í starfi, framkoma sem sam­ræm­ist ekki starfi og óhlýðni við boð yfirmanns

            Þessi ávirðing varði meint brot stefnanda í tengslum við vinnslu launaáætlunar hjá stefnda og ráðgjöf í því sambandi. Stefnandi mótmæli því alfarið að hafa ekki af þessu tilefni sinnt starfsskyldum sínum, veitt litla eða enga ráðgjöf og stuðning, sýnt van­rækslu í starfi, óvandvirkni í starfi, ekki náð fullnægjandi árangri í starfi, sýnt óhlýðni við löglegt boð yfirmanns og sýnt framkomu sem samræmist ekki starfinu, eins og stefnandi er sakaður um í áminningarbréfi, sem og bréfi um fyrirhugaða áminn­ingu. Stefnandi telji engar forsendur til þess að gera þessar ávirðingar að áminn­ing­ar­ástæðu, eins og hann hafi ítarlega rakið í greinar­gerð sinni með andmælaskjalinu.

 

            Stefnandi sé sakaður um framangreind brot þar eð hann hafi ekki brugðist (rétt) við þeirri beiðni yfirmanns síns, 21. mars 2017, að kenna sam­starfs­fólki á launa­áætlun­ar­kerfið. Stefnandi hafi lítið kunnað á kerfið á þeim tíma og hafi gert yfir­mann­inum viðvart um það í tölvubréfi að hann væri að reyna að kynna sér kerfið með sömu leið­beiningum og aðrir innan skrif­stof­unnar hefðu fengið og því mælti hann frekar með að starfsmaður á fjár­mála­skrif­stofu stefnda, Rebekka Frí­mannsdóttir, sem gjör­þekkti launa­áætlunar­kerfið og var helsti sér­fræð­ingur stefnda í því, yrði fengin til að kenna á það, sbr. tölvuskeyti 22. mars 2017.

            Í þessu sam­bandi byggir stefnandi á því, eins og viður­kennt sé í stjórn­sýslu­rétti, að geti starfs­maður af einhverjum ástæðum ekki liðsinnt þeim sem leitar til hans, beri honum að leið­beina viðkomandi um það hvert hann skuli leita með erindi sitt. Þá leið­beining­ar­skyldu hafi stefnandi upp­fyllt í þessu tilviki. Stefnandi hafi vegna orlofs ekki haft tæki­færi til þess að sækja námskeið fjár­málaskrifstofu um launa­áætl­un­ar­kerfið 17. febrúar 2017, sbr. fundarboð Halldóru Kára­dóttur, meðal annars til skrif­stofu­stjórans. Það athug­ist að skrifstofustjórinn muni ekki hafa sinnt því að sækja þann boð­aða fund þrátt fyrir að hafa tekið við ítrek­uðu fund­ar­boði. Skrifstofustjórinn hafi einnig verið boðuð á önnur nám­skeið hjá fjár­mála­skrif­stofu vegna hins sama á árinu 2016. Stefn­andi hafi hitt Hall­dóru, skrif­stofu­stjóra fjár­mála­skrif­stofu stefnda, 23. mars 2017, til þess að læra á launa­áætl­unar­kerfið. Að því búnu hafi stefn­andi talið sig hafa öðlast nógu mikið sjálfs­traust til þess að geta kennt öðrum á kerfið og hafi hann því boðað til fundar með yfir­manni sínum, og deildarstjórum á sömu skrif­stofu, í því skyni að skoða hvernig fylla ætti út í launa­áætl­un­ina. Sá fundur hafi farið fram 29. sama mán­aðar og telji stefn­andi að hann hafi gengið afar vel fyrir sig. Kennsla hafi því farið fram um leið og unnt var.

            Stefnandi kveðst hafa svarað öllum tölvubréfum yfirmanns síns og annarra skrif­stofa stefnda vegna launaáætlunarinnar eftir bestu getu á hverjum tíma og sótt fundi vegna kerfisins þegar eftir því hafi verið óskað. Stefnandi ber um að hann hafi unnið launa­áætl­unina eins vel og unnt var að teknu tilliti til þeirra vandamála sem upp hafi komið hjá stefnda með keyrslu kerfisins og að hann hafi þjónustað allar skrifstofur miðlægrar stjórn­sýslu o.fl., meðal annars fjármálaskrifstofu, vegna þessa, svo sem honum hafi borið að gera. Að undan­skildum yfirmanni stefnanda hafi enginn annar starfsmaður stefnda kvartað undan stefnanda í tengslum við launaáætlunina. Stefn­andi vísar því á bug að hann hafi van­rækt skyldur sínar þar að lútandi eða óhlýðn­ast. Hann telur að með ávirð­ingum yfir­manns síns og um leið stefnda í sinn garð sé vegið ómaklega og á meið­andi hátt að starfs­heiðri sínum og faglegri vinnu.

            Í áminningarbréfi og bréfi um fyrirhugaða áminningu sé látið að því liggja að stefn­andi hafi vanrækt starfsskyldur sínar með því að hafa ekki unnið launaáætlun. Þessu hafni stefnandi alfarið. Svo hafi háttað til hjá stefnda að hverri og einni skrif­stofu innan miðlægrar stjórnsýslu hafi verið gert að vinna sína launaáætlun sjálf eftir að launa­áætlunarkerfi sem notað var árið 2017 var tekið í notkun (SAP-hug­bún­aður). Á þeirri skrifstofu þar sem stefnandi og yfirmaður hans vinni, þ.e. skrif­stofu borgar­stjóra og borgarritara, hafi það verið skrifstofustjórinn sjálf sem átti að vinna áætlun­ina, svo sem hún sjálf hafi staðfest í tölvubréfi til stefnanda 21. mars 2017. Því sé algjör­lega úr lausu lofti gripið að ásaka stefnanda um að vinna ekki launa­áætlun­ina eða hafa sýnt vanrækslu í þeim efnum. Stefnandi tekur fram að stað­reyndin hafi verið sú að við­kom­andi aðilar sem unnu launaáætlanir innan einstakra skrif­stofa hafi allir átt í mesta basli við að vinna áætlanirnar þar sem illa hafi gengið að læra á þetta kerfi. Þeir starfs­menn muni þó ekki hafa fengið bágt fyrir með veit­ingu áminn­ingar fyrir meint brot á starfs­skyldum vegna þessa, eins og stefnanda hafi verið gert að þola, heldur muni erfiðleikum þess­ara starfsmanna hafa verið mætt af skiln­ingi hjá yfir­mönnum þeirra. Stefnandi bendir enn fremur á að reynslan af notkun umrædds launa­áætl­unar­kerfis hafi verið það slæm hjá stefnda, og gengið það erfiðlega, að sumarið 2017 hafi stefndi hætt notkun þess.

 

Áminnt fyrir atvik frá september 2016 og fyrr

            Í hvoru tveggja áminningarbréfi og boðunarbréfi um áminningu sé tiltekið að áminn­ingin sé byggð á ávirðingum frá því í septembermánuði 2016 og fyrr, sbr. bréf skrif­stofu­stjórans til stefnanda, dags. 21. september 2016. Svo gömul atvik geti ekki orðið grund­völlur áminningar, eins og dómaframkvæmd sýni. Þá geti umræddar ávirð­ingar ekki orðið tilefni áminn­ingar af þeirri ástæðu að stefn­anda hafi aldrei verið afhentar þær meintu kvartanir sem lágu að baki fundi 24. ágúst 2016, sem umrætt bréf 21. sept­em­ber sama ár vísar til. Stefn­andi hafi því aldrei haft undir höndum skriflegar stað­fest­ingar á því að undan honum hefði verið kvartað. Honum hafi ekki heldur gefist nokk­urt færi á því að bregðast við meintum kvört­unum í hans garð með því að skila and­mælum. Því sé fjarstæðukennt að byggja megi áminn­ingu á ávirðingum sem ekkert liggi fyrir um eða andmælt hafi verið. Að auki er á það bent að stefnandi kveðst hafa komið af fjöllum varðandi þær ávirð­ingar sem bornar voru á hann í ágúst 2016, hann kann­ist ekki við þær og mótmæli þeim.

 

Meintir samstarfsörðugleikar og sáttameðferð

            Í bréfi um fyrirhugaða áminningu, sem áminningarbréf vísar til og byggir á, komi fram að áminningin sé byggð á því að sáttamiðlun og fundir aðila hafi ekki skilað til­ætl­uðum árangri og því sé, að mati yfirmanns stefnanda, skrifstofustjórans, fullreynt að ná fram við­unandi úrbótum. Stefnandi mótmælir þessu, enda fari stefndi hvorki rétt með þarna né geti þessi ávirðing orðið að andlagi áminningar.

            Sáttameðferðinni milli stefnanda og skrifstofustjórans, með aðstoð sál­fræð­ings sem þau fund­uðu með, hafi ekki verið lokið þegar áminningin var veitt og hafi því niður­staða ekki verið komin í þá meðferð eða legið fyrir niðurstaða um það hvort hún skilaði árangri. Þegar af þeirri ástæðu fái áminningin ekki staðist. Eins og rakið sé í lýs­ingu mála­vaxta hafi stefnandi og skrifstofustjórinn fundað með sál­fræðingi 9. maí 2017. Þar hafi verið ákveðið að þau funduðu að nýju 7. júní, þannig að sátta­með­ferð­inni hafi ekki verið lokið. Þann 16. maí, um viku fyrir boðunarbréf um áminn­ingu, hafi stefn­andi og skrif­stofu­stjór­inn sent hvort öðru tölvuskeyti þar sem bæði stað­festu að finna yrði nýjan fund­ar­tíma með sál­fræð­ing­num. Skrifstofustjórinn hafi ein­hliða afboðað fyrir­hugaðan fund 7. júní. Í þessum tölvu­skeytum hafi alls ekki verið látið að því liggja að í vændum væri áminn­ing. Stefnandi beri að ekkert nýtt hafi gerst í mál­inu eða í sátta­með­ferð­inni frá 16. maí og fram að því að bréfið um fyrir­hug­aða áminn­ingu var ritað, þ.e. 24. maí 2017. Það bréf hafi því komið eins og þruma úr heiðskíru lofti fyrir stefn­anda. Þótt að sátta­meðferð stæði enn yfir hefði verið ákveðið að beita áminn­ingu og á þeim yfir­lýsta grund­velli að sáttaferli hefði reynst árangurslaust. Því sé áminn­ingin byggð á röngum stað­hæf­ingum að þessu leyti. Áminning sem sé byggð á ávirð­ingu sem sé ósönn og órétt­mæt geti eðli máls samkvæmt ekkert gildi haft.

            Stefnandi bendir á það að í bréfi um fyrirhugaða áminningu sé gerð grein fyrir því að á fundi aðila með sálfræðingi 9. maí 2017 hafi borið „nokkuð mikið í milli í sýn aðila á starfsskyldur“ stefnanda samkvæmt fyrirliggjandi starfs­lýs­ingu. Að mati stefn­anda viðurkenni stefndi með þessari yfirlýsingu sinni að ágrein­ing­ur­inn felist í ólíkri sýn á starfsskyldur, þ.e. að um skoðanaágreining sé að ræða fremur en brot gegn starfs­skyldum. Slíkur faglegur skoðanaágreiningur milli starfs­manna geti hins vegar ekki orðið að áminningarástæðu, hvorki samkvæmt lögum né samn­ingum.

            Í bréfi um fyrirhugaða áminningu sé því haldið fram að skrifstofustjórinn hafi leitað skýr­inga hjá stefnanda, eftir fund þeirra 16. maí 2017, á því af hverju meint „sýn þín á efni og niðurstöðu fundarins var ekki í samræmi við fyrrgreinda skráningu“ skrif­stofustjórans á því sem fram fór á fundinum. Stefnandi bendir á að þessi full­yrð­ing sé stað­hæfu­laus, enda liggi fyrir í tölvuskeytum milli aðila sama dag athuga­semdir og skýr­ingar stefnanda á einstökum liðum í einhliða „skráningu“ skrifstofustjórans á því sem fram fór á fundinum. Tölvusamskipti aðila umræddan dag beri ekki vott um annað en í mesta falli skoðanaágreining milli þeirra, en í tölvuskeytunum komi fram ábend­ingar beggja um þann skoðanamun. Í engu sé minnst á þær ávirð­ingar sem rúmri viku síðar séu allt í einu gerðar að áminningartilefni. Í öllu falli verði ekki séð af tölvu­skeytunum að neitt tilefni hafi verið til þess að veita áminn­ingu eða að í það hafi stefnt.

 

 

Sérstakt hæfi ekki fyrir hendi við ákvörðunartöku.

            Stefnandi reisir dómkröfur sínar á því að áminningin sé ógild þar eð þann sem tók stjórn­valds­ákvörðun um áminninguna hafi skort sérstakt hæfi að lögum til þess að fara með málið og taka ákvörðunina. Samkvæmt áminningarbréfi sé það skrif­stofu­stjór­inn, yfirmaður stefnanda, sem veiti áminninguna. Hún virðist óum­deil­an­lega, sam­kvæmt áminningarbréfi, vera eini aðilinn hjá stefnda sem taki ákvörð­unina um áminn­ingu, sbr. orðalag á síðustu blaðsíðu áminningarbréfs, um að það sé „niður­staða undir­ritaðrar að með framangreindri háttsemi hefur þú brotið starfs­skyldur þínar [...]“, en höfundur bréfsins sé skrifstofustjórinn. Vanhæfi til meðferðar máls byggi á 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. sérstaklega 1., 5. og 6. tölulið 1. mgr. 3. gr. Sam­kvæmt 4. gr. sé þeim sem er vanhæfur óheimilt að taka þátt í undirbúningi með­ferð og úrlausn málsins.

            Vanhæfi til meðferðar máls helgist af því að áminningartilefnið sé samskipti stefn­anda við aðra og samskiptafærni, sbr. áminningarbréf. Í bréfinu sé meðal ann­ars vísað til bréfs skrifstofustjórans til stefnanda, dags. 21. september 2016, þar sem fundið hafi verið að þessu sama. Með því bréfi hafi stefnanda verið boðin ráðgjöf fag­aðila. Hann beri um að í kjölfar framangreinds bréfs, dags. 21. september 2016, hafi skrif­stofu­stjórinn lagt afar fast að sér að þau leituðu bæði tvö til ráðgjafa og hittu hann á sam­eiginlegum sátta­fundum í þeim tilgangi að bæta samskipti sín á milli og ná sáttum. Sátta­fundir þeirra tveggja með ráðgjafa hafi staðið frá október til og með des­em­ber 2016, og aftur um vorið 2017. Þessu ferli sé lýst ítarlega í bréfi skrif­stofu­stjór­ans til stefn­anda um fyrirhugaða áminningu, dags. 24. maí 2017. Af þessu bréfi, sem áminn­ingar­bréfið vísi til og byggist á, sé ljóst að áminn­ingin sé meðal ann­ars reist á sam­skiptum eða meintum samskiptaörðugleikum milli stefnanda og skrifstofustjórans. Þetta stað­festi að skrifstofustjórinn sé í raun aðili að því máli og þeim atvikum sem átt hafi sér stað og hún geri síðar að áminningartilefni. Sam­kvæmt þessu sé skrif­stofu­stjór­inn við máls­með­ferð á fyrir­hugaðri áminningu og við ákvörð­unartöku um áminn­ingu að fella dóm og taka ákvörðun um að áminna starfs­mann, meðal annars á þeim grund­velli að hann hafi lent í samskiptaörðugleikum við hana sem yfir­mann og fyrir það einnig að hafa ekki náð sáttum við hana með aðkomu ráðgjafa. Að mati stefn­anda liggi í augum uppi að skrifstofustjórinn sé fullkomlega vanhæf til þess að fara með málið sam­kvæmt tilvísaðri laga­grein. Vegna þessara atvika teljist hún í raun aðili máls, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 3. gr. stjórn­sýslulaga, en einnig eigi hún hagsmuna að gæta. Því séu fyrir hendi aðstæður sem séu fallnar til þess að draga megi óhlutdrægni hennar í efa með réttu, sbr. 5. og 6. tölu­lið 3. gr. laganna.

            Í ljósi atvika hafi skrifstofustjóranum mátt vera fullkomlega ljóst að hana skorti, við máls­með­ferð og töku ákvörðunar, sérstakt hæfi til þess að fara með málið. Í það minnsta hafi henni mátt vera ljóst að draga mætti óhlutdrægni hennar verulega í efa. Með hliðsjón af því hafi henni borið að segja sig frá málinu og vekja athygli yfir­manns síns, borg­ar­ritara, á mál­inu, sbr. 5. gr. stjórnsýslulaga. Þar eð hún kaus að gera það ekki, heldur fara sjálf með málið og taka ákvörðun í því, sem hafi brotið í bága við stjórn­sýslu­lög, sé ákvörðunin um áminningu augljóslega ógild.

            Stefnandi kveðst upplifa atvik málsins þannig að skrifstofustjóranum sé illa við sig, eins og síðar greini. Af þeim sökum hafi hún staðið í ill­vígum deilum við hann, eins og ráða megi af gögnum málsins og atvikum. Stefn­andi byggir á því að vegna þessa hafi hún ekki með neinu móti getað fjallað á hlut­lausan hátt um mál stefnanda. Einnig þetta hafi henni mátt vera full­kom­lega ljóst.

 

Áminning ekki tæk þar eð áminning kemur ekki þegar í kjölfar meints verkn­aðar

            Stefnandi bendir á þá reglu að til þess að áminning sé gild þurfi að áminna starfs­mann strax í kjölfar meints verknaðar en ekki síðar. Í þessu tilviki hafi áminn­ing ekki getað komið til af þeirri ástæðu að hún byggist, samkvæmt áminn­ing­ar­bréf­inu, á atvikum sem höfðu átt sér stað í töluvert langan tíma áður en til áminn­ingar kom, með öðrum orðum hafi áform um áminningu ekki komið þegar í kjölfar meints verkn­aðar. Er þetta staðfest af stefnda sjálfum í fyrstu setningu bréfs skrifstofustjórans um fyrir­hug­aða áminn­ingu, dags. 24. maí 2017, þar sem er staðfest að áminningin eigi við um „hátt­erni und­an­farna mánuði“, en á innihaldi þess bréfs sé byggt í áminn­ing­ar­bréfi.

            Í áminningarbréfinu sé gerð að áminningarástæðu ávirðing á hendur stefnanda frá sept­ember 2016 og fyrr, sbr. bréf sem ritað var stefnanda 21. september 2016 vegna meintra atvika og samskipta sem átt höfðu sér stað sumarið 2016 og fyrir það tíma­mark. Áminning sé ekki boðuð fyrr en með bréfi, dags. 24. maí 2017, um níu mán­uðum eftir að þessi atvik áttu sér stað. Svo gömul atvik geti ekki haft neina þýð­ingu við mat á því, átta mánuðum síðar, hvort tilefni sé til að beita áminningu.

            Einnig er gert að áminningartilefni meint brot á hlýðniskyldu við lögmæt fyrir­mæli yfirmanns. Í bréfi þar sem áminning er boðuð, dags. 24. maí 2017, og fylgiskjali með því, sé þessu meinta broti lýst nánar. Þar staðfesti skrifstofustjórinn að þau atvik sem ávirð­ingarnar taki til, hafi gerst á tímabilinu febrúar og til og með miðs mars 2017. Áminn­ingin sé hins vegar ekki boðuð fyrr en meira en tveimur mánuðum eftir að atvik þessi áttu sér stað, með bréfi dags. 24. maí 2017. Þessi atvik hafi ekki getað leitt til áminn­ingar svo löngu eftir að þau áttu sér stað. Það athugist að sú skýring borg­ar­rit­ara í bréfi til lög­manns stefnanda, dags. 17. júlí 2017, að þessi dráttur skýrist af lög­bundnum frí­dögum á tímabilinu sé fráleit. Á þessu tveggja til þriggja mánaða tíma­bili hafi í mesta lagi verið fimm frídagar. Þeir frídagar geti ekki skýrt þann veru­lega drátt sem varð á máls­meðferðinni og hvers vegna ekki kom til áminningar þegar í kjöl­far meintra atvika.

            Í bréfi um fyrirhugaða áminningu, dags. 24. maí 2017, sé bréf stefnda til stefn­anda, dags. 21. september 2016, nefnt „formlegt tiltal“ og verði því ekki annað ráðið en að stefndi haldi því fram að með því bréfi hafi átt sér stað „tiltal“ sem hafi réttar­þýð­ingu sem undanfari áminningar. Þessu hafnar stefnandi alfarið. Svokallað „tiltal“ hafi enga þýðingu lagalega eða samkvæmt kjarasamningi/starfssamningum. Hvergi í þeim samningsákvæðum, sem áminning byggist á, sé vísað til þess að til­tal geti leitt til áminn­ingar. Þá hafi tiltal alls ekki sömu merkingu eða þýðingu og áminn­ing, hvorki að lögum né samkvæmt miðlægum samningum.

 

Ávirðingar afar almenns eðlis.

            Í áminningarbréfi og bréfi um fyrirhugaða áminningu séu tíndar til hinar og þessar ávirðingar sem í flestum, ef ekki öllum, tilvikum séu mjög almenns eðlis og ein­sýnt að geti ekki leitt til áminningar, hvort sem er í heild eða einar og sér. Í því sam­bandi minnir stefnandi á að áminning verði að byggjast á afmörkuðu atviki eða atvikum en geti ekki byggst á almennri lýsingu á samskiptum, eins og víða gæti í áminn­ing­ar­bréfi. Þessu til viðbótar sé á það bent að þær ávirðingar sem bornar séu á stefn­anda og leitt hafa til áminningar séu ekki í neinu tilviki þess eðlis að almennt séð geti leitt til áminningar, sbr. framangreint.

 

Brotið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og gegn góðum stjórn­sýslu­háttum

            Stefnandi reisir dómkröfur sínar einnig á því að stefndi hafi með málsmeðferð sinni og ákvörðun í málinu brotið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og að máls­meðferðin hafi ekki samræmst góðum stjórnsýsluháttum, sem leiði til þess að ógilda beri áminninguna. Sú ákvörðun stefnda að veita áminningu sé stjórn­valds­ákvörðun. Hana verði að byggja á traustum grunni og sá sem hana taki verði að fara í einu og öllu að ákvæðum kjarasamnings, ákvæðum stjórnsýslulaga og öðrum viður­kenndum meginreglum stjórnsýsluréttar. Við mat á því hvort rétt hefði verið að áminna stefnanda hafi stefnda borið að gæta að því að meginreglum stjórn­sýslu­laga væri fylgt áður en ákvörðun var tekin um jafn íþyngjandi ákvörðun og áminn­ingu. Máls­með­ferð stefnda hafi verið verulega ábótavant að þessu leyti.

 

Brotið gegn lögmætisreglunni og réttmætisreglunni

            Stefnandi áréttar að stjórnvald sé bundið af því að taka ákvarðanir sem sam­ræmist lögum. Þegar íþyngjandi ákvarðanir séu teknar séu enn ríkari kröfur gerðar um lög­mæti. Nátengd lög­mætisreglunni sé önnur meginregla í stjórnsýslurétti, rétt­mætis­reglan. Hún byggi á því að matskenndar stjórn­valds­ákvarð­anir skuli byggðar á mál­efna­legum sjónarmiðum. Stefnandi byggir á því að stjórn­valdsákvörðun stefnda um áminn­ingu hafi ekki samræmst þeim lögum sem stjórn­valdinu bar að fara eftir og hafi ekki byggst á málefnalegum sjónarmiðum. Af þeim sökum beri að ógilda hana. Vísast nánar til rökstuðnings þessu til framan­greindra máls­ástæðna. Þá telur stefn­andi engan vafa leika á því að áminningin sé byggð á persónu­legri óvild yfir­manns síns í sinn garð. Almennt sé viður­kennt í stjórn­sýslu­rétti að ákvarð­anir sem byggist á geðþótta, óvild eða öðrum persónu­legum sjónar­miðum starfs­manna stjórnsýslunnar séu ómál­efna­legar og því ólög­mætar. Eins og áður greinir sé það mat stefnanda að áminningin sam­ræmist ekki ákvæðum laga og þeirra samn­inga sem hún byggist á. Því verði að telja að ákvörðunin um áminninguna feli í sér brot gegn lög­mætis­reglunni. Brot gegn rétt­mætis­regl­unni felist meðal annars í þeim athöfnum stjórn­valds­ins, þ.e. stefnda, að taka upp meint eldri atvik, frá árinu 2016 og fyrr, þegar stjórn­valdinu hafi mátt vera ljóst að áminningu var ekki unnt að byggja á svo gömlum atvikum. Ekki geti verið mál­efna­legar forsendur fyrir því að byggja úrlausn stjórn­sýslu­máls á eldri málum sem var lokið. Það athugist að skil­yrði fyrir endur­upp­töku stjórn­sýslumáls skv. 24. gr. stjórn­sýslu­laga nr. 37/1993 voru ekki fyrir hendi í til­viki umrædds máls frá árinu 2016.

 

Brotið gegn andmælaréttarreglunni

            Stefnandi byggir á því að stefndi hafi við málsmeðferð sína brotið gegn ákvæði 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, um andmælarétt. Eins og að framan greini sé áminn­ingin reist á ávirðingum frá árinu 2016 og fyrr. Bréf sem stefndi ritaði stefnanda, 21. september 2016, vísi til kvartana sem áttu að hafa borist. Stefn­andi hafi aldrei fengið að sjá þær kvartanir né önnur skrifleg gögn og aldrei gefist færi á því að and­mæla þeim, hvað þá skriflega því bréfi sem honum var sent 21. sept­em­ber 2016. Þá byggir stefn­andi á því, svo sem áminningarbréfið sýni einnig, að ekkert til­lit hafi verið tekið til and­mæla hans vegna fyrirhugaðrar áminningar, þ.e. vegna þeirra ávirð­inga sem urðu að áminn­ingu.

 

Meðalhófsreglan brotin

            Stefnandi byggir dómkröfur sínar einnig á því að stefndi hafi við málsmeðferð vegna kvörtunar á hendur stefnanda og við veitingu áminningar brotið gegn meðal­hófs­reglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt ákvæðinu skuli það tryggt að íþyngjandi ákvörðun sé ekki tekin nema því aðeins að nauðsynlegt sé og að mark­miði sem að er stefnt verði ekki náð með öðru og vægara móti. Athuga verði að áminn­ing, sem sé veitt á grundvelli þess kjarasamningsákvæðis sem við eigi, sé íþyngj­andi stjórn­valdsákvörðun sem geti haft það í för með sér að viðkomandi starfsmaður verði sviptur starfi sínu og lífs­viður­væri. Því verði að túlka þröngt heimild vinnu­veit­anda til að áminna starfsmann, að því gefnu að fyrir hendi séu efnislegar forsendur til áminn­ingar, auk þess sem gera verði strangar kröfur til málsmeðferðar. Telja verði að stefndi hefði getað gripið til væg­ari aðgerða gagnvart stefnanda, sem hefðu gengið skemmra en áminning. Þar eð það var ekki gert hafi stefndi farið gegn ákvæði 12. gr. stjórn­sýslu­laga. Það athug­ist enn fremur að það samrýmist ekki meðalhófi að skrif­stofu­stjór­inn, yfirmaður stefn­anda, skuli hafa boðað áminningu einungis viku eftir fund hennar með stefnanda 16. maí 2017, viku eftir að hún ritaði honum tölvubréf, þar sem hún minntist á að finna yrði nýjan tíma með sálfræðingi, en gat þess ekki að til áminn­ingar gæti komið. Sömu­leiðis verði að líta til þess hér að ekkert sam­hengi sé milli þeirrar meintu hegð­unar sem áminnt er fyrir annars vegar og þeirra veru­lega íþyngj­andi úrræða sem gripið er til hins vegar, þ.e. áminningar.

 

Brotið í bága við rannsóknarregluna

            Stefnandi byggir á því að stefndi hafi við meðferð málsins og við töku ákvörð­unar brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Stefnandi vísar þessu til stuðnings m.a. til þess sem áður er rakið um efni áminn­ingarinnar, en telja verði að sýnt sé þar fram á að málið hafi á engan hátt verið nægj­an­lega upp­lýst áður en ákvörð­un­ar­taka fór fram og einnig hversu miklar brota­lamir hafi verið á rann­sókn þess. Stefnandi bendir á að stefndi hafi enn fremur brotið gegn rann­sóknar­reglu lag­anna með því að hafa boðað fyrirhugaða áminningu án þess að málið væri rann­sakað að fullu. Brot stefnda gagnvart rannsóknarreglu 10. gr. stjórn­sýslu­laga felist í því að hafa tekið afstöðu til málsins áður en að öll gögn þess lágu til grundvallar og það hafði verið rann­sakað. Þá virðist ljóst af áminningarbréfi að and­mæli stefnanda gegn þeim ávirð­ingum sem urðu að áminningarástæðu, sbr. bréf dags. 2. júní 2017, hafi ekki verið tekin til greina eða rannsökuð. Þær skýr­ingar sem stefnandi gaf í and­mæla­bréf­inu hafi hið minnsta gefið stefnda fullt tilefni til þess að rannsaka málið betur, svo og hvort ein­stakar fullyrðingar í andmælabréfi ættu við rök að styðj­ast. Þetta virð­ist ekki hafa verið gert. Enn fremur byggir stefn­andi á því að rann­sókn­ar­reglan hafi verið brotin með því að skrifstofustjórinn hafi sjálf staðið að máls­meðferðinni og að rann­sókn máls, þegar hún var sjálf aðili að ágreiningi og sátta­með­ferð við stefn­anda og skorti hæfi til þess að fara með málið, eins og áður greini.

 

Brot á reglunni um málshraða

            Þá byggir stefnandi enn fremur á því að stefndi hafi við málsmeðferð sína farið á svig við 9. gr. stjórnsýslulaga. Í henni sé stjórnvaldi gert skylt að hraða meðferð stjórn­sýslumáls eins mikið og unnt sé og leita umsagnar við fyrsta hentugleika. Að framan er vikið að því að áminningin var byggð á ávirðingum og atvikum sem voru hið minnsta tveggja til þriggja mánaða gömul þegar áminning var veitt. Með því að áminn­ing hafi ekki verið boðuð fyrr en svona löngu síðar hafi stefndi þverbrotið regl­una um málshraða. Stefndi hafi ekki heldur skýrt stefnanda frá töfum á málsmeðferð eða hvenær ákvörðunar væri að vænta.

 

Brot á reglunni um tilkynningu um að mál sé í gangi

            Til samræmis við það sem fram sé komið byggi stefn­andi á því að stefndi hafi brotið í bága við 14. gr. stjórnsýslulaga með því að hafa aldrei til­kynnt stefnanda það, á tímabilinu febrúar til maí 2017, að stjórnsýslumál væri í gangi sem gæti leitt til áminn­ingar. Eins og að framan greini eigi ávirðingar sem áminn­ing bygg­ist á sér rót í atvikum í febrúar og mars 2017, en áminning hafi þó ekki verið áformuð fyrr en með bréfi 24. maí 2017. Samkvæmt þessu hafi því stjórnsýslu­mál á hendur stefnanda þegar verið í gangi á þessum tíma. Samkvæmt 14. gr. stjórn­sýslu­laga hafi stefnda borið að upp­lýsa stefnanda um það.

 

Brot gegn upplýsingaréttarreglu

            Stefnandi telur einnig að stefndi hafi brotið í bága við ákvæði 15. gr. stjórn­sýslu­laga, með því að hafa ekki veitt stefnanda aðgang að skjölum og öðrum gögnum um málið. Þetta eigi meðal annars við um þær kvartanir og ávirðingar frá árinu 2016 sem leiddu til áminningar. Gögn varðandi þær kvartanir sem stefndi hélt fram að hefðu borist vegna stefnanda og gögn um aðrar ávirðingar sem vísað var til af hálfu stefnda á þeim tíma, hafi aldrei verið afhent stefnanda, hvorki fyrr né síðar, né honum veittur and­mæla­réttur vegna þeirra.

 

Um miskabótakröfu

            Stefnandi krefst einnig miskabóta, að fjárhæð 2.000.000 kr., auk dráttarvaxta. Ólög­mæti áminningarinnar sé augljóst, bæði hvað varði efni hennar og málsmeðferð. Stefn­andi telji áminninguna og máls­meðferðina hafa falið í sér ólögmæta meingerð gegn persónu sinni, enda hafi hann orðið fyrir hneisu, álitshnekki og verulegum óþæg­indum af þessum sökum. Stefn­andi bendir á að hann hafi starfað um árabil hjá stefnda og hafi ætíð verið vel lið­inn á vinnustað og átt í góðum samskiptum við sam­starfs­fólk. Stefn­andi haldi því fram að yfirmanni sínum, skrifstofustjóranum sem hafi veitt honum áminn­inguna, hafi verið í nöp við sig frá því að þau byrjuðu að vinna saman og að sú óvild skrifstofustjórans í sinn garð hafi leitt til áminningarinnar. Með áminn­ing­unni telur stefnandi að skrifstofustjórinn og stefndi hafi vegið verulega að starfsheiðri sínum. Líta verði til þess hversu þung­bærar ásak­anirnar séu. Einnig verði að líta til þess hversu íþyngj­andi áminningin sé fyrir stefn­anda. Í ljósi þessa alls telji hann þá fjár­hæð sem hann krefst í miskabætur hóf­lega. Um laga­rök fyrir kröfunni sé vísað til 26. gr. skaða­bótalaga nr. 50/1993.

            Auk framangreindra lagaraka vísar stefnandi til almennra reglna kröfuréttar, þar með talið skaða­bótaréttar, til samningaréttar, vinnuréttar, stjórnsýsluréttar og sveit­ar­stjórn­ar­réttar. Vísað er til ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sérstaklega þeirra sem að framan er getið um. Einnig er vísað til ákvæða kjarasamnings og samnings milli stefnda og stéttarfélags stefnanda, sem áminningin vísar til. Varðandi miskabótakröfu er vísað til skaðabótalaga nr. 50/1993, ákvæðis 1. mgr. 26. gr. Stefnandi krefst dráttar­vaxta, í samræmi við ákvæði 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 4. mgr. 5. gr. s.l., þ.e. frá stefnubirtingardegi, 2. október 2017, til greiðslu­dags. Krafa hans um málskostnað styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einka­mála, aðallega 129. og 130. gr. Krafa um virðisaukaskatt af málskostnaði byggir á lögum nr. 50/1988, um virðis­auka­skatt, en stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyldur og til að tryggja skaðleysi sitt er honum nauðsynlegt að fá skattinn dæmdan úr hendi stefnda.

 

 

Málsástæður og lagarök stefnda

            Það er meginmálsástæða stefnda að ákvörðun hans um að veita stefnanda áminn­ingu hafi verið fyllilega lögmæt enda í samræmi við lög og kjarasamning. Þar eð hvorki séu efni né ástæður til að fallast á dómkröfur stefnanda beri að sýkna stefnda af þeim öllum.

            Stefndi vísar í fyrsta lagi til þess að sú ákvörðun hans að veita stefnanda áminn­ingu í starfi hafi grundvallast á grein 9.8.1 í kjarasamningi Reykjavíkurborgar og Kjara­félags viðskiptafræðinga og hag­fræð­inga, sbr. 9. gr. samkomulags um réttindi og skyldur starfsmanna Reykja­víkur­borgar, sem hljóði svo:

Ef starfsmaður hefur sýnt í starfi sínu óstundvísi eða aðra vanrækslu, óhlýðni við lög­legt boð eða bann yfirmanns síns, vankunnáttu eða óvand­virkni í starfi, hefur ekki náð fullnægjandi árangri í starfi, hefur verið ölvaður að starfi eða framkoma hans eða athafnir í því þykja að öðru leyti ósæmi­legar, óhæfilegar eða ósamrýmanlegar starfinu skal for­stöðu­maður stofn­unar eða fyrirtæki veita honum skriflega áminningu.

            Stefndi telur hafið yfir allan vafa að stefnandi hafi með framferði sínu ítrekað brotið gegn starfsskyldum sínum í skilningi tilvitnaðs ákvæðis. Tilvikin hafi átt sér stað í febrúar og mars 2017.

            Einsýnt þyki að stefnandi hafi óhlýðnast löglegum fyrirmælum yfirmanns síns, sem sé skrifstofustjóri skrifstofu borgarstjóra og borgarritara. Verkefnið sem um ræddi hafi varðað greinargerð um framkvæmd styrkjareglna á skrifstofum miðlægrar stjórn­sýslu. Erindi þessa efnis hafi borist borgarritara frá fjármálastjóra Reykjavíkurborgar 13. febrúar 2017. Næsta dag hafi stefnandi verið beðinn að setja verkefnið í vinnslu enda hefði hann sinnt því síðastliðin ár. Stefnandi hafi svarað fyrirspurninni 22. sama mán­aðar á þann veg að hann minntist þess ekki. Hinn 27. febrúar hafi stefn­andi óskað eftir því við fjóra skrif­stofustjóra í miðlægri stjórnsýslu, þar á meðal yfirmann sinn, að þeir svör­uðu fyrir­spurn fjármálaskrifstofu. Sama dag hafi skrifstofustjórinn sent stefn­anda tölvu­skeyti þar sem sagði:

Mig langar til að biðja þig um að taka á móti þessum svörum og útbúa eitt heild­stætt svar. Það væri jafnframt gagnlegt að fá frá þér fyrri svör til að sjá hvernig þetta hefur verið gert síðustu ár.

            Á því er byggt að skrifstofustjórinn hafi í umrætt sinn falið stefnanda að sinna ákveðnu verkefni. Réttur hennar til að fela honum verkefnið hafi verið ótvíræður enda hafi það fallið að öllu leyti innan starfslýsingar hans. Nánar er á því byggt að það sé hlut­verk skrif­stofu­stjóra skrif­stofu borgarstjóra og borgarritara að útdeila verkefnum til starfs­fólks. Hún hafi metið það svo, út frá eðli verkefnisins sem og verkefnastöðu á skrif­stof­unni, að vinnslu svars­ins væri best fyrir komið hjá stefnanda. Í stað þess að vinna verkið í sam­ræmi við fyrir­mæli hennar hafi stefnandi sent henni tölvuskeyti þar sem fram kom að skrif­stofu­stjórar hefðu unnið sín svör sjálfir undanfarin ár og afhent fjár­mála­skrif­stofu milliliðalaust. Í bréf­inu hafi enn fremur staðið að unnt væri að finna gögn fyrri ára í skjala­vinnslu­safn­inu GoPro. Í tölvuskeyti til stefnanda 1. mars 2017 hafi skrifstofustjórinn spurt hvort stefn­andi hefði tekið málið til vinnslu. Í sama bréfi hafi hún boðað hann á fund dag­inn eftir, meðal annars til að ræða fyrirkomulag fjár­mála­tengdra fyrir­spurna. Þá hafi hún lýst þeirri skoðun sinni að hún teldi að erindi sem sneru að fjár­mála­stjórnun væri best að senda strax til með­ferðar hjá stefnanda og að hann mæti hverju sinni til hverra hann þyrfti að leita til að fá svör. Á umræddum fundi hafi skrif­stofustjórinn ítrekað við stefn­anda að hún ætlað­ist til þess að hann tæki saman heild­stætt svar og veitti frek­ari ráðgjöf ef eftir því yrði leitað.

            Stefndi leggur áherslu á að á fundinum hafi stefn­andi hvorki mót­mælt verk­lag­inu né gert athuga­semdir við það á neinn hátt. Skrifstofustjórinn hafi því gengið út frá því sem vísu að hann afgreiddi málið eins og fyrir hann hefði verið lagt. Það sem gerð­ist næst var að 21. sama mánaðar hafi skrifstofustjóranum borist erindi frá borg­ar­ritara þar sem spurst var fyrir um afdrif máls­ins, en tilefni fyrirspurnarinnar var ítrek­un­ar­bréf fjár­mála­skrifstofu til borg­ar­ritara. Að vonum hafi erindið komið skrifstofu­stjór­anum í opna skjöldu enda hafi hún staðið í þeirri trú að málið væri til meðferðar hjá stefn­anda í sam­ræmi við fyrir­mæli hennar. Sendi hún stefn­anda þegar í stað fyrir­spurn um hvar málið væri statt ásamt því að fram­senda ítrek­un­ar­bréf fjár­mála­skrif­stofu. Svar stefn­anda, sem barst sama dag, var á þá leið að til­teknar skrifstofur, sem væru ábyrgar og hefðu umsjón með umræddum styrkjum og samn­ingum, svöruðu fjár­mála­skrif­stofu milli­liða­laust.

            Stefndi bendir á að þrátt fyrir skýr fyrirmæli yfirmanns um að vinna ákveðið verk hafi stefnandi engu að síður ákveðið að virða þau að vettugi. Sinnuleysi hans hafi síðan leitt til þess að afgreiðsla málsins dróst óhóflega með tilheyrandi óþæg­indum fyrir alla hlutaðeigandi. Að mati stefnda sé sú skýring stefnanda að það hafi verið ákvörðun hans og mat hans sem fjármálastjóra að fara gegn fyrir­mælum yfir­manns síns og vísa vinnslu svarsins til viðkomandi skrifstofustjóra jafn óskilj­an­leg og hún sé hald­laus. Sem fjármálastjóri Ráðhúss njóti stefnandi vissulega ákveð­ins sjálf­stæðis í starfi. Að sama skapi sé honum eftirlátið að taka sjálfstæðar ákvarð­anir í málum sem lúti forræði hans og grundvallist á þekkingu hans og reynslu á við­kom­andi sviði. Það sé hins vegar mikill misskilningur ef stefnandi heldur, eins og hann gerði í umræddu til­viki, að það sé í hans valdi að ákveða hvernig afgreiðslu ein­stakra mála og verkefna innan skrifstofu borgarstjóra og borgarritara skuli háttað eftir að yfir­maður hans hafi falið honum afgreiðsluna. Í því sambandi vegi stjórnunar­réttur yfir­manns stefnanda þyngra á vogarskálunum en sjálfsákvörðunarréttur hans í starfi. Engu breyti í þeim efnum þótt stefnandi telji að verkefni sem honum hafi verið úthlutað rúm­ist ekki innan starfs­lýsingar eða séu honum ósamboðin á ein­hvern hátt. Stefndi undir­strikar að hvor­ugt hafi átt við í tilviki stefnanda. Svo framarlega sem yfir­maður hans meti hann hæfan til að sinna ákveðnu verkefni og gefi honum fyrir­mæli um afgreiðslu þess í krafti stjórnun­ar­réttar síns sé honum undanbragðalaust skylt að hlíta því. Að fara gegn skýrum fyrir­mælum yfirmanns síns, eins og stefnandi hafi gert í þessu til­viki, sé aug­sýni­lega ekkert annað en brot á hlýðni­skyldu og um leið brot á starfs­skyldum. Stefndi haldi því stað­fast­lega fram að miðað við alvarleika brots­ins og afleið­ing­arnar sem það hafði í för með sér hafi það eitt og sér átt að nægja til áminn­ingar.

 

Stefnandi hafi jafnframt gerst sekur um önnur brot á starfs­skyldum. Vegna mis­skiln­ings sem hafi komið upp við vinnslu launaáætlunar skrifstofu borg­ar­stjóra og borg­ar­ritara fyrir árið 2017 hafi ekki enn verið farið að vinna áætlunina 21. mars 2017, eða um það leyti sem henni átti að vera lokið. Þann dag hafi skrifstofustjórinn sent stefn­anda tölvu­skeyti þar sem hann var beðinn um að leiðbeina stjórnendum skrif­stof­unnar við gerð áætl­un­ar­innar. Erindinu hafi réttilega verið beint til stefnanda en í lýs­ingu á verk­sviði og megin­verkefnum hans segi meðal annars í starfslýsingu:

Yfirumsjón og ábyrgð á gerð fjárhagsáætlunar innan miðlægra stjórnsýslu þar á meðal launaáætlunar í samráði við stjórnendur.

Ráðgjöf og aðstoð við áætlanagerð og bókhaldsmál til stjórnenda innan miðlægrar stjórnsýslu.

            Stefnandi hafi svarað beiðni skrifstofustjórans svo að hann treysti sér ekki til þess þar eð hann kynni lítið í áætluninni. Varðandi aðstoð benti stefnandi skrifstofu­stjór­anum á að leita til til­greinds sérfræðings á fjármálaskrifstofu. Þegar skrifstofu­stjór­inn hafi spurt hvernig stefnandi sæi hlut­verk sitt í þessari vinnu í ljósi þess að hann væri tengiliður skrifstofunnar hafi hann svarað orð­rétt: Óttalega er þetta leiðin­legur póstur frá þér. Getum við ekki sest niður og rætt saman?

            Vegna yfirlýsingar stefnanda um vankunnáttu á launaáætlunarkerfið hafi skrif­stofu­stjórinn boðað hann með sér á fund deildarstjóra áætlunardeildar fjár­mála­skrif­stofu 23. mars 2017 í þeim til­gangi að hann bætti færni sína og þekkingu á kerfinu. Nið­ur­staða fund­ar­ins hafi verið sú að stefn­andi kynni vel á launakerfið, raunar svo vel að hann leið­beindi deild­ar­stjóranum um aðrar leiðir og aðferðir en hún notaði á fund­inum. Stefnandi hafi lýst þekk­ingu sinni á launakerfinu í andmælabréfi sínu svo:

Það kom mér sjálfum síðan á óvart hvað ég kunni í reynd mikið á fund­inum með Hall­dóru Káradóttur þann 23. mars. 2017 (fimmtudagur). Fann að ég var komið með nógu mikið sjálfstraust til að geta kennt öðrum, þannig að á mánudaginn 27.03.2017 boðaði ég fund með skrifstofustjóra SBB og deildarstjórum á SBB 29.03.2017 og var efni fundarins var skoða hvernig fylla ætti út launaáætlun í SAP.

            Stefndi bendir á að í umfjöllun stefnanda vanti það mikilvæga atriði að strax að loknum fundi hafi skrifstofustjórinn óskað eftir því að hann leiðbeindi henni og öðrum stjórn­endum á skrifstofunni við vinnslu áætlunarinnar. Daginn eftir hafi hún ítrek­að erindið og óskað eftir upplýsingum um fyrirkomulag vinnunnar og næstu skref. Sama dag hafi stefnandi svarað á þá leið að hann hefði ekki tíma til að spá í þetta og stefndi á næstu viku. Þegar hér var komið sögu hafi skrifstofustjórinn talið full­reynt að fá stefn­anda til að fara að fyrirmælum varðandi vinnslu áætlunarinnar. Þar eð hún hafi ekki talið verj­andi að bíða lengur með vinnslu hennar hafi hún ákveðið að vinna áætl­un­ina upp á eigin spýtur.

            Það að starfsmaður neiti að sinna ákveðnu verkefni sem yfirmaður hafi falið honum þar sem hann treysti sér ekki til þess, til að mynda sökum vanþekkingar ell­egar reynslu­leysis, geti verið réttlætanlegt í einhverjum tilvikum, einkum og sér í lagi ef verk­efnið fellur ekki innan starfslýsingar. Í þessu tilviki hafi það ekki átt við enda hafi komið í ljós að þekking stefnanda og færni í launaáætlunarkerfinu hafi verið mjög góð. Verkefnið hafi ótvírætt fallið undir starfslýsingu stefnanda og þar með verið hluti af starfs­skyldum hans. Stefndi byggir á því að þegar skrifstofustjórinn hafi sent stefn­anda fyrir­mæli um að veita henni og öðrum stjórn­endum skrifstofunnar leiðbeiningar og frek­ari ráð­gjöf við vinnslu launa­áætl­unar 24. mars 2017 hafi legið fyrir að stefn­andi væri full­fær um að sinna verk­efn­inu. Enn fremur hafi legið fyrir að vinnslan þyrfti að ganga hratt og örugg­lega enda komin vel fram yfir skiladag. Nánar er á því byggt, að einu réttu við­brögðin hjá stefn­anda hafi verið að ganga tafarlaust til starfa í sam­ræmi við fyrir­mæli skrifstofustjórans. Stefnandi hafi hins vegar kosið að koma sér hjá því að hlíta fyrir­mæl­unum með óafsak­an­legum skýringum. Með framferði sínu í umrætt sinn hafi hann brotið gegn starfs­skyldum sínum samkvæmt starfslýsingu.

            Það sé alvarlegt mál að óhlýðnast löglegu boði yfirmanns. Að mati stefnda sé hitt þó sýnu alvarlega, að á sama tíma og stefnandi hunsaði fyrirmæli skrif­stofu­stjór­ans um vinnslu launaáætlunarinnar muni hann hafa tekið að sér vinnslu hennar fyrir aðrar starfs­einingar miðlægrar stjórnsýslu, t.d. innri endurskoðanda og borgar­lög­mann. Stefndi telur framkomu stefnanda í umrætt sinn hafa verið ósæmilega, óhæfi­lega og ósam­rýmanlega starfi hans sem fjármálastjóra Ráðhússins. Að auki hafi stefn­andi sýnt af sér vanrækslu og óvandvirkni í starfi og ekki náð fullnægjandi árangri við að sinna starfs­skyldum sínum.

            Í samræmi við reglu í grein 9.8.2 í kjarasamningi hafi stefnanda verið gefinn kostur á að tjá sig um tilefni áminningarinnar og hann lagt fram andmæli sín á fundi 2. júní 2017. Að lok­inni skoðun á skýringum og andmælum stefnanda hafi það verið niður­staða skrifstofustjórans að ekki væri efni til að hverfa frá áformum um veitingu áminn­ingar. Með bréfi, dags. 14. júní 2017, hafi stefnanda verið veitt formlega áminn­ing í starfi vegna nánar tilgreindra brota á starfsskyldum.

            Auk framangreindra brota hafi verið til skoðunar að veita stefnanda áminningu fyrir að hafa látið undir höfuð leggjast að hafa frumkvæði að umbótaverkefnum, inn­leið­ingu þeirra og eftirfylgni samkvæmt starfslýsingu. Sú staðreynd að stefnandi sem fjár­mála­stjóri Ráðhússins hafi kosið að koma ekki áherslum er varða fjár­mála­stjórnun mið­lægrar stjórnsýslu á framfæri í stefnumótunarvinnu skrif­stofu borgarstjóra og borg­ar­rita hafi að mati skrifstofustjórans verið til marks um að stefn­andi sinnti ekki starfi sínum á fullnægjandi hátt í skilningi greinar 9.8.1 í kjara­samn­ingi. Að virtum and­mælum stefnanda hafi verið ákveðið að falla frá þeirri áminningu. Kom það brot því ekki til skoð­unar í málinu.

            Stefndi bendir á að ákvörðun um að veita starfsmanni áminningu sé í senn erfið og þungbær, jafnt fyrir starfsmanninn og vinnuveitandann. Ákvörðunin sé ekki tekin af léttúð heldur að afar vel athuguðu máli. Þá sé ekki gripið til slíks úrræðis fyrr en önnur og væg­ari úrræði hafi verið fullreynd. Í tilviki stefnanda hafi háttað þannig til að hann hafi haft aðra sýn á starfsskyldur sínar en yfirmaður hans. Þar sem afstöðu­mun­ur­inn hafi komið niður á samskiptum þeirra hafi yfirmaðurinn brugðið á það ráð að leita aðstoðar utan­að­komandi sál­fræð­ings. Viðtalstímarnir hafi gengið út á það að ná sameiginlegri sýn aðila á hlut­verk fjár­mála­stjóra Ráðhúss. Hittust aðilar nokkrum sinnum hjá sál­fræð­ing­num um haustið 2016, fyrst hvort í sínu lagi, en síðan saman. Síðasti viðtalstíminn hafi verið 9. maí 2017. Á fundinum hafi skrifstofustjórinn nefnt þau atvik sem höfðu komið upp í febrúar og mars í þeim tilgangi að komast að sam­eigin­legri sýn á hlutverk stefn­anda í þeim verkefnum. Þótt óhlutdrægur aðili með sér­þekkingu á vinnu­staða­sál­fræði væri reiðubúinn að rýna tilvikin og veita nauð­syn­legar ráðleggingar reynd­ist stefn­andi ekki fáanlegur til að ræða þau til hlítar á fund­inum. Afstaða stefn­anda verði ekki skilin á annan hátt en þann að hann hafi hvorki viljað kryfja vand­ann né leggja til leiðir til úrbóta. Að beiðni stefnanda hafi skrif­stofu­stjór­inn og stefn­andi hist á fundi 16. maí þar sem verkefni fjármálastjóra Ráðhússins voru rædd. Á sama fundi hafi skrifstofustjórinn gert stefn­anda grein fyrir því í hvaða þáttum starfslýsingar hún teldi að hann þyrfti að vera fús­ari til samvinnu. Svör sem stefn­andi sendi daginn eftir hafi verið á þá leið að hann væri fús í samvinnu í þeim þáttum sem um ræddi og myndi vera það áfram eins og und­an­farin 11 ár. Vegna afstöðu stefnanda, ekki síst afneit­unar á eigin vanda, og vilja­leysis til að bæta ráð sitt hafi skrifstofustjórinn talið full­reynt að ná fram sam­eigin­legri sýn á þær breyt­ingar sem nauðsynlegar voru á starfi hans svo hann gæti uppfyllt starfs­skyldur sínar sem fjár­málastjóri Ráðhúss. Þar sem væg­ari úrræði hefðu ekki dugað til hefði skrif­stofu­stjór­inn ekki átt ann­arra kosta völ en að veita honum áminn­ing­una sem um ræðir.

 

            Stefndi bendir á að þess misskilnings gæti hjá stefnanda að áminningin grund­vall­ist á atvikum sem urðu tilefni formlegs tiltals í ágúst 2016. Þetta sé vitaskuld alrangt. Hið rétta sé að ástæða hafi þótt til að upplýsa í andmælabréfi að stefnandi hefði ekkert gert til að bæta ráð sitt þrátt fyrir tiltalið sem hann fékk. Ákvörðun um að veita stefn­anda áminn­ingu byggi alfarið og að öllu leyti á atvikum sem áttu sér stað í febrúar og mars 2017 og voru sér­staklega rakin í greinargerð sem fylgdi and­mæla­bréf­inu.

            Þá verði ekki unnt að fallast á það með stefnanda að áminningin sé ekki tæk þar sem hún hafi ekki komið í kjölfar verknaðar. Stefndi haldi því þvert á móti fram að áminn­ing­ar­ferlið hafi hafist eins fljótt og mögulegt hafi verið í ljósi aðstæðna. Fyrra brotið hafi átt sér stað 22. mars 2017 (styrkjareglur) og hið síðara einungis tveimur dögum síðar eða 24. sama mánaðar (launaáætlun). Þar eð stefnandi og skrif­stofu­stjór­inn hafi átt pant­aðan við­talstíma hjá sálfræðingnum 19. apríl sama ár hafi skrif­stofu­stjór­inn ákveðið að aðhaf­ast ekk­ert frekar heldur bíða niður­stöðu fundarins. Vegna ástæðna sem vörð­uðu sál­fræðinginn hafi fund­ur­inn frest­ast til 9. maí 2017. Sá fundur hafi ekki borið til­ætl­aðan árangur; ekki frekar en fundur þeirra tveggja 16. sama mán­aðar. Við svo búið hafi skrifstofustjórinn talið fullreynt að fá stefn­anda til að bæta ráð sitt og hafi hafið áminn­ing­ar­ferlið átta dögum síðar. Samkvæmt því sé stefnda fyrir­munað að skilja hvernig stefn­andi fái það út að brotið hafi verið gegn máls­hraða­reglu stjórn­sýslu­réttar­ins í aðdrag­anda ákvörðunarinnar.

            Jafnframt hafi skrifstofustofustjórinn í senn verið hæf og bær til að veita stefn­anda áminninguna. Stefnandi haldi því fram, að því er virðist í fullri alvöru og ætlist til að dómstólar trúi, að áminningin sé til­komin vegna óvildar skrifstofustjórans í hans garð. Raunar gangi stefnandi svo langt í ásök­unum sínum að hann saki skrif­stofu­stjór­ann um að hafa lagt sig í einelti. Þrátt fyrir ásak­an­irnar hafi stefn­andi hvorki stutt þær með lýs­ingum né dæmum. Í 9. gr. reglu­gerðar nr. 1009/2015, um aðgerðir gegn ein­elti, kyn­ferð­is­legri áreitni, kyn­bund­inni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum, sem er sett með heim­ild í ákvæði laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnu­stöðum, sé fjallað um til­kynn­ing­ar­skyldu starfs­manna. Orðrétt segi í ákvæðinu:

Starfsmaður sem telur sig hafa orðið fyrir einelti, kynferðislegri áreitni, kyn­bund­inni áreitni eða ofbeldi á vinnustað eða hafa rökstuddan grun eða vit­neskju um slíka hegðun á vinnustað skal upplýsa atvinnurekanda eða vinnu­vernd­arfulltrúa vinnu­stað­arins um það enda sé ekki gert ráð fyrir að við­kom­andi starfsmaður upplýsi annan aðila um það samkvæmt skriflegri áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað, sbr. II. kafla. Skal starfsmaðurinn jafnframt vera reiðubúinn að skýra mál sitt nánar.

            Samkvæmt ákvæðinu skuli starfsmaður vera reiðubúinn að skýra frá ein­stökum tilvikum ellegar nefna dæmi um þá athöfn eða hegðun sem að hans mati falli undir hugtakið einelti. Á því er byggt að meðan stefnandi hafi hvorki lagt fram kvörtun né upplýst nánar í hverju hið meinta einelti yfirmanns hans fólst séu ekki forsendur til að bregðast sérstaklega við, eftir atvikum með því að virkja eineltis­áætlun. Allir ættu að geta gert sér í hugarlund hve afdrifa­ríkar afleið­ingar það hefði fyrir stjórn­sýsluna, afgreiðslu mála og skilvirkni, ef yfir­maður yrði sjálf­krafa talinn van­hæfur til að fjalla um mál undirmanns í hvert sinn sem stofnaðist til skoðana­ágrein­ings.

            Stefndi mótmælir því alfarið að reglur stjórnsýsluréttar hafi verið brotnar. Eins og ráðið verði af fyrirliggjandi gögnum hafi málið verið rannsakað á fullnægjandi hátt. Þá liggi fyrir að stefnandi hafi notið lögbundins andmælaréttar sem hafi verið bæði full­nægjandi og raunhæfur svo hann gæti komið andmælum á framfæri. Að auki hafi meðalhófs verið gætt jafnt í aðdraganda ákvörðunar sem við ákvörðunar­tök­una sjálfa og allur vafi túlkaður stefn­anda í vil. Þá hafi ákvörðunin byggst á full­nægj­andi og réttum upplýsingum.

            Stefndi mótmælir kröfu stefnanda um miskabætur sérstaklega enda hafi ekki verið sýnt fram á að skilyrði 26. gr. skaðabótalaga séu uppfyllt í málinu. Stefndi haldi því staðfastlega fram að hann hafi ekki sýnt af sér ásetning um að brjóta rétt á stefn­anda eða beitt hann meingerð. Þá mótmælir stefndi sérstaklega fjárhæð miska­bóta­kröf­unnar sem allt of hárri, hún sé með öllu órökstudd og ekki í neinu samræmi við dóma­for­dæmi. Jafnframt mótmælir stefndi kröfu um drátt­ar­vexti á miskabætur. Engin laga­skil­yrði séu fyrir því að verða við slíkri kröfu.

            Með hliðsjón af öllu framangreindu krefst stefndi sýknu af öllum kröfum stefn­anda.

 

            Stefndi vísar til hlýðniskyldu íslensks vinnuréttar og meginreglunnar um boðvald vinnu­veitanda yfir starfsmönnum svo og ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá er vísað til skaðabótalaga, einkum 26. gr. laganna, auk kjarasamnings Reykjavíkur­borgar og Kjara­félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga, einkum 9. kafla. Hann vísar loks til starfs­mannastefnu Reykjavíkurborgar. Krafa um málskostnað styðst við 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

 

 

Niðurstaða

            Þetta mál varðar áminningu sem stefnanda var veitt í starfi 14. júní 2017. Hún er grundvölluð á atvikum sem urðu í febrúar og mars það ár. Atvik frá árinu 2016 eða fyrr um núning í samskiptum stefnanda og annarra starfs­manna stefnda geta ekki komið til skoðunar í þessu máli og hefðu aldrei getað orðið tilefni áminningar í júní 2017. Auk þess var fundur sem stefn­andi var boðaður á af því til­efni haldinn í ágúst 2016, löngu áður en honum var sent bréf með boðun um fyrir­hug­aða áminningu.

 

            Stefnandi byggir á því að áminningin sé bæði haldin formlegum og efnislegum ann­mörkum.

            Atvikin sem áminningin grundvallast á eru tvö. Það fyrra, tengt fyrirspurn fjár­mála­skrifstofu um eftirfylgni með reglum um styrki, varð á tímabilinu frá febrúar til mars 2017 og það síðara, tengt launaáætlunarkerfi borgarinnar, í mars 2017. Til­kynn­ing um fyrir­hug­aða áminningu er rituð 24. maí 2017. Að mati dómsins var ekki lið­inn of langur tími frá þessum atvikum og þar til áminning var boðuð.

            Dómurinn telur ekki annað leitt í ljós en að yfirmaður stefnanda hafi ákveðið eftir fund þeirra 16. maí 2017 að veita honum áminningu og að ekki hafi verið hafinn neinn undirbúningur að stjórnsýslumáli fyrr en þá. Hún sendi honum bréf þess efnis 24. maí að til stæði að áminna hann. Dómurinn telur að með því hafi athygli stefnanda verið vakin innan nógu skamms tíma á því að mál hans væri til meðferðar hjá stefnda.

            Stefnanda var gefinn kostur á að andmæla fyrirhugaðri áminningu. Jafnframt fær dómurinn ekki annað séð en að hann hafi haft aðgang að öllum gögnum sem komu til skoðunar vegna áminningarinnar.

            Að mati dómsins var því hvorki brotið gegn reglunni um málshraða, né rétti til upp­lýs­inga um að mál sé í gangi, né rétti til aðgangs að gögnum, né andmælareglunni.

            Stefnandi byggir einnig á því að formlegri sáttamiðlun hafi ekki verið lokið. Sátta­miðlun hefur yfirleitt litla þýðingu ef annar aðilinn er ekki lengur í henni af heil­indum. Eftir fund með stefnanda 16. maí 2017 taldi yfirmaður hans að frekari fundir þeirra hefðu ekki neina þýðingu. Dómurinn telur því að það geti ekki haft nein rétt­ar­áhrif í þessu máli hvort henni var formlega lokið eða ekki þar eð sjálfhætt er þegar vilji annars aðilans er þorrinn.

            Það hvernig sáttamiðlun lýkur efnislega getur að mati dómsins aldrei orðið grund­völlur áminn­ingar í starfi. Væri það svo væri gengið inn í sáttameðferðina á þeirri forsendu að útkoman úr henni yrði eins og yfirmaðurinn vildi en útkoman væri ekki sameiginleg niðurstaða sem báðir teldu sér til hagsbóta, báðir vildu virða og byggði á gagnkvæmu trausti þeirra. Samtal sem fer fram á þeirri forsendu að annar verði knú­inn til að beygja sig undir vilja hins er ekki sáttamiðlun og skiptir þá engu máli hvort hlutl­aus þriðji maður hefur verið fenginn til að leiða samtalið. Hafi forsenda sátta­miðl­unar milli stefnanda og skrifstofustjórans þ.e. „að ná sameiginlegri sýn aðila á starfs­skyldur stefn­anda“ efnislega verið sú að stefnandi beygði sig alfarið undir vilja skrif­stofu­stjórans þá var það aldrei sáttamiðlun heldur eitthvað allt annað.

            Að mati dómsins getur sáttamiðlunin, hver svo sem forsenda hennar var, eða lyktir hennar ekki haft neina þýðingu fyrir ágreininginn í þessu máli og verður eins og áður segir aldrei grundvöllur áminningar í starfi.

            Skrifstofustjórinn veitti stefnanda svokallað tiltal í ágúst 2016 vegna atvika sem varða nún­ing í samskiptum á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara. Það tiltal getur ekki haft nokkra þýðingu í þessu máli. Atvik sem varð á árinu 2014 í sam­skiptum í mið­lægri stjórnsýslu getur enn síður haft nokkra þýðingu hér.

 

            Stefnandi telur skrifstofustjórann hafa skort sérstakt hæfi til þess að veita honum áminningu í starfi og telur að 1., 5. og 6. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eiga við um hæfi hennar.

            Það er málsástæða stefnanda að áminningin byggist á persónulegri óvild skrif­stofu­stjórans í hans garð og hún hafi af þeim sökum ekki haft sérstakt hæfi til að veita honum áminninguna. Í tengslum við þessa málsástæðu verður ekki hjá því komist að nefna stjórnunaraðferð hennar eins og hún birt­ist dóminum í framlögðum gögnum og fram­burði fyrir dómi.

            Í aðdraganda þess að skrifstofustjórinn leitaði eftir því að stefnandi leiðbeindi henni við gerð launaáætlunarinnar hafði hún komið sér í þá stöðu, að eigin sögn fyrir mis­skilning, að hún hafði ekki hafist handa, en fresturinn sem þá var miðað við til að ljúka áætluninni var að renna út. Þá var hún einnig í þeirri stöðu að hún hafði ekki sótt neitt þeirra nám­skeiða sem fjármálaskrifstofan hafði boðið upp á, fyrst í lok ágúst 2016 og síðan aftur í febrúar 2017.

            Eftir námskeið sem sérfræðingur fjármálaskrifstofu hélt fyrir skrif­stofu­stjór­ann, og fleiri starfs­menn á skrifstofu borgarstjóra og borgarlögmanns, taldi stefnandi sig hafa nægi­lega kunnáttu á launaáætlun­ar­kerfið til þess að geta kennt á það. Mánu­dag­inn 27. mars boðaði hann þá starfsmenn skrifstofunnar sem þurftu að kunna á kerfið á kennslufund mið­vikudaginn 29. mars kl. 13.00. Skrifstofustjórinn sam­þykkti fund­ar­boðið.

            Næsta dag, þriðjudaginn 28. mars, tilkynnti stefnandi kl. 14.00 að frestur til að ljúka launaáætluninni hefði verið framlengdur til 5. apríl.

            Þennan dag, daginn fyrir kennslufundinn, kl. 16.34, skrifar skrifstofustjórinn að hún komist ekki á fundinn því það sé deildarfundur sem hafi dottið út úr dagskránni hennar og hún biður um að fundartíminn verði lagaður að sér.

            Um klukkustund síðar, kl. 17.32, ritaði skrifstofustjórinn stefnanda aftur tölvu­skeyti þar sem segir:

Við nánari umhugsun þá finnst mér ekki vænlegt að færa deildar­fund­inn á morgun, ég hafði hugsað hann í ákveðin mál og vil halda því til streitu. Ég skil vel að þú getir ekki fært fundinn með Guðlaugu [sem átti að vera í beinu fram­haldi af kennslu­fund­inum] en í ljósi þess að ég mun ganga frá launaáætlun skrif­stofunnar sjálf þá finnst mér við ekki í tíma­pressu með fund­inn á morgun. Ég held líka að það verði gagn­legra að hitta deildar­stjór­ana hvern fyrir sig með þeirra áætlun í ca 30 mín og ná þannig betri vinnu. Annað hvort myndir þú þá hitta deildar­stjórana og kenna þeim á kerfið með almennum hætti fyrst og hitta þá svo með mér hvern fyrir sig ef þörf er á eða taka bara 30 mínútna fund­ina. Þú metur hvað þér finnst betra. Afsak­aðu ruglinginn.

            Daginn eftir, miðvikudaginn 29. mars, skrifar hún stefnanda úr síma sínum kl. 12.26: Bid þig vinsamlegast að lata mig vita hvernig þu hyggst nálgast þetta. Eg er buin að renna i gegnum allt deildir og laga flest en a eftir nokkur mal sem eg klara vonandi i dag.

            Stefnandi svaraði að fundurinn yrði kl. 13.00 þennan dag eins og ákveðið hefði verið.

            Fyrir dómi útskýrði skrifstofustjórinn þetta þannig að þegar skilafresturinn hefði verið fram­lengdur hefði hún nefnt við stefnanda að henni fyndist að ekki væri lengur sami asinn og að það væri jafnvel hægt að hitta hvern fyrir sig og kenna hverjum og einum almenni­lega. Hún hefði því beðið stefnanda að aflýsa eða fresta fundi til þess að hún kæmist örugg­lega.

            Þegar hún hafi komið til vinnu daginn eftir hafi hún áttað sig á að kennslu­fund­ur­inn var enn á dagskránni kl. 13.00. Af þeim sökum hafi hún sent honum fyrir­spurn­ina í hádeginu en hann haldið sig við áður ákveðinn fundartíma.

            Af því að hann hafi ekki viljað færa fundartímann hafi hún ekki komist almenni­lega á kennslufundinn. Það hafi henni þótt mjög miður og hafi sent stefnanda póst þess efnis að henni fyndist leitt að hann hefði ekki séð sér fært að breyta fundar­tím­anum. Hún hafi haft þetta launaáætlunarmál í fanginu og hafi verið búin að reyna að fá fund með honum og síðan hafi fundurinn verið haldinn þegar hún komst ekki.

            Sérstaklega að því spurð kvaðst hún hafa, í tölvupóstinum kl. 17.32, 28. mars, lagt fyrir stefnanda tvo kosti að velja úr. Annaðhvort ætti að hann fresta sameiginlega fund­inum, kl. 13.00, 29. mars eða kenna hverjum og einum deildarstjóra á nokkrum 30 mín­útna fundum. Hún hafi hins vegar fastlega gert ráð fyrir því að hann myndi færa fund­ar­tímann.

            Hún bar að í daglegum samskiptum við fólk notaði hún lítið boðvaldsform en talaði á samráðsnótum um verkefni. Hún hafi þó litið svo á að hún væri í tölvu­skeyt­inu sem hún sendi stefnanda 28. mars, kl. 17.32, að setja honum tvo kosti og hann yrði að velja annan hvorn. Hann hafi greini­lega ekki skilið það. Í þessu tilviki hefði hún þurft að segja að hún færi fram á að hann gerði annað hvort af þessu tvennu.

 

            Það er óumdeilt að það var ekki fundur á dagskrá skrifstofustjórans miðviku­dag­inn 29. mars, kl. 13.00, þegar stefnandi boðaði kennslufundinn á þeim tíma og einnig að skrifstofustjórinn samþykkti fundarboðið. Engu að síður kaus hún að boða á nákvæm­lega sama tíma fund sem hafði „dottið út úr“ dagskránni hennar.

            Enginn þeirra sem áttu að koma á kennslufundinn sem stefnandi boðaði átti að koma á þann fund sem hún boðaði. Ekki er komið fram hvað það var sem var svo mikil­vægt að skrifstofustjórinn varð að funda um það atriði einmitt á þessum sama tíma en ekki kl. 14.00 eða 15.00 þennan dag. Fundurinn sem hún boðaði var þó ekki lengri en svo að hún kom seint á kennslu­fund­inn hjá stefnanda og náði um helmingi hans.

            Þótt þetta séu óumdeild atvik sér skrifstofu­stjór­inn þau þannig að stefn­andi hafi valið tíma sem útilokað væri að hún kæmist á. Það hafi verið hann sem setti hana í klemmu en ekki hún sjálf.

            Dómurinn getur ekki varist því að álykta út frá þessum atvikum að skrif­stofu­stjór­inn ætlist til að starfsfólkið, í það minnsta stefnandi, hagi vinnu sinni alfarið á þann hátt sem hentar henni. Af þessum atvikum verður ekki annað ályktað en hún hafi ætlað sér að knýja hann til að láta að vilja hennar og fundist sjálfsagt að hann gerði það, því hún bar fyrir dómi að hún hefði fastlega gert ráð fyrir að hann færði fundar­tím­ann þótt hún hefði ekki beðið um það fyrr en að vinnudegi loknum daginn áður.

            Þessu til viðbótar vildi skrifstofustjórinn, sem bað um kennslufundinn, stýra því hvernig sá sem hún fól að kenna á launaáætlunarkerfið hagaði kennslunni. Stefn­andi hafði ákveðið sam­eigin­legan fund fyrir fimm starfsmenn skrif­stof­unnar á sama hátt og sér­fræðingar fjármálaskrifstofu höfðu gert en hún vildi að hann fund­aði sér­stak­lega með hverjum og einum.

            Um þá skilyrðislausu hlýðni sem skrifstofustjórinn virð­ist ætlast til af stefn­anda verður sagt það eitt að þrátt fyrir stjórnunarrétt annars og hlýðniskyldu hins eru undir­menn ekki dýr í hring­leika­húsi yfirmanna sinna. Að mati dómsins er þessi fram­koma skrif­stofustjórans í það minnsta óvirðing, ef ekki lítils­virð­ing við sam­starfs­mann, sem er auk þess kyn­slóð eldri en hún og ætti, þó ekki væri nema vegna starfs­reynslu sinnar, til­kall til örlítillar virðingar.

            Dómurinn telur þó að þessi hegðun verði ekki skilgreind sem óvild eða fjand­skapur, fremur einhvers konar blindni. Þrátt fyrir þessa framkomu telur dómurinn skrif­stofu­stjórann ekki hafa misst sérstakt hæfi sitt í skilningi 6. tölu­liðar 1. mgr. 3. gr. stjórn­sýslulaga nr. 37/1993. Jafn­framt telur dómurinn samskipti stefnanda og skrif­stofu­stjóra ekki hafa verið þess eðlis að 1. töluliður 1. mgr. 6. gr. eigi við. Þótt dómur­inn telji augljóst að skrif­stofu­stjórinn treysti því ekki að stefnandi komi fram við hana af heilindum telur dóm­ur­inn að áminn­ingin varði hana ekki svo miklu persónulega að það skaði sérstakt hæfi hennar í skilningi 5. töluliðar 1. mgr. 6. gr.

 

            Áminningin grundvallast á tveimur tilgreindum atvikum og telur dómurinn ávirðing­arnar ekki almenns eðlis. Annað varðar fyrirspurn frá fjármálaskrifstofu sem borg­ar­ritari framsendi skrifstofu borgarstjóra og borgarritara til úrlausnar og hitt varðar kennslu á launaáætlunarkerfi Reykjavíkurborgar. Stefnandi telur stefnda ekki hafa sannað að stefnandi hafi brotið gegn starfs­skyldum sínum.

 

Beiðni um greinargerð um framkvæmd styrkjareglna

            Stefnandi var í fyrsta lagi áminntur fyrir brot á hlýðniskyldu við lögmæt fyrir­mæli yfirmanns með því annars vegar að fara ekki að fyrirmælum yfirmanns um að halda utan um svör skrifstofu miðlægrar stjórnsýslu til fjármálaskrifstofu um fram­kvæmd styrkjareglna Reykjavíkurborgar og hins vegar með því að verða ekki við beiðni yfirmanns síns um að veita ráðgjöf og stuðning vegna svarsins í samræmi við starfs­lýsingu sína.

 

            Í byrjun febrúar 2017 sendi fjármálaskrifstofa Reykjavíkurborgar fimm sviðs­stjórum, tveimur skrif­stofu­stjórum skrifstofa í miðlægri stjórnsýslu og borgarritara fyrir­spurn um framkvæmd styrkja­reglna á árinu 2016. Fyrir dómi kom fram að mann­rétt­inda­skrifstofa, sem Anna Krist­ins­dóttir stýrir, og skrifstofa borgarstjórnar, sem Helga Björk Laxdal stýrir, veita árlega styrki og jafnframt gerir borgarritari lang­tíma­samn­inga við tiltekin samtök. Það væru því þessar þrjár skrifstofur innan miðlægrar stjórn­sýslu sem þyrftu að svara fyrirspurninni.

            Spurningarnar eru 13 en innan hverrar þarf að svara mörgum atriðum. Séu styrk­irnir margir getur svarið orðið efnismikið. Meðal annars átti að svara því hvort styrk­þega hefði verið send til­kynn­ing, hvort fram­vinduskýrslu hefði verið skilað, hvort mat hefði verið lagt á árangur af styrk­veit­ing­unni, hvort verkefnið hefði verið kynnt á fag­sviði, hvort stefnu­mörkun borgar­innar hefði verið kynnt styrkþegum, hvort ávinn­ingur væri af styrkja­hand­bók, hvernig ábend­ingum fjár­málaskrifstofu og innri endur­skoð­unar um styrkja­reglur hefði verið fylgt eftir svo og hvort styrkir hefðu verið bók­aðir á rétta bók­halds­lykla.

            Stefnandi bar fyrir dómi að hann hefði aldrei í starfi sínu komið nálægt veit­ingu styrkja eða nokkurri vinnu sem tengdist þeim og þekkti yfirhöfuð ekkert til þessa mála­flokks nema bókhaldsþætti hans og svaraði fyrirspurnum um þá ef þær bærust.

            Fyrir einhvern misskilning var talið, þegar erindið barst skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, að stefnandi hefði svarað þessu erindi síðastliðin ár. Verk­efna­stjóri á skrif­stofunni sendi stefnanda tölvuskeyti um miðjan febrúar og fullyrti að hann hefði svarað þessari fyrirspurn árið áður, hann þekki þetta því best, og bað hann að setja hana í vinnslu. Stefn­andi, sem mun hafa verið í orlofi þegar erindið barst, svaraði viku síðar, 22. febrúar, að hann minntist þess ekki að hafa unnið verkið árið áður. Verk­efna­stjór­inn fram­sendi skrifstofustjóranum það svar og spurði hvernig hún vildi bregðast við þessu svari stefn­anda.

            Fimm dögum eftir það, 27. febrúar, ritaði stefnandi Önnu Kristinsdóttur og Helgu Lax­dal, svo og yfirmanni sínum, skeyti og bað skrifstofustjórana að svara erind­inu og senda fjár­málaskrifstofu eins og undan­farin ár. Í beinu framhaldi skrifaði yfir­maður stefn­anda honum og bað hann að taka á móti svörum skrifstofustjóranna „og útbúa eitt heild­stætt svar“. Jafnframt ósk­aði hún eftir „að fá frá þér fyrri svör til þess að sjá hvernig þetta hefur verið gert síð­ustu ár“. Hann svaraði því þá til að skrif­stofu­stjór­arnir svöruðu þessu hver fyrir sína skrif­stofu og hefðu ætíð sent fjár­mála­skrif­stofu svörin milli­liða­laust. Hann hefði ekki sam­an­tektir á svörunum en þau væru senni­lega í Go-pro þar sem hægt væri að finna skýrslur síð­ast­lið­inna ára. Hún skrifaði þá strax aftur og sagðist ekki hafa fengið slíka beiðni áður og bað um ráðgjöf í þessum efnum.

            Þremur dögum síðar, 1. mars, ritaði yfirmaður stefnanda honum og spurði hvort hann hefði ekki tekið „þennan bolta“. Hún vildi gjarna ræða á fundi daginn eftir „fyrir­komulag við svörun erinda sem okkur berast og snúa að fjármálum, þ.m.t. þessa fyrir­spurn.“ „Mín sýn er að best sé að senda þetta á þig beint til meðferðar og þú metir hverju sinni til hverra sé best að leita með aðkomu að svörum.“

            Þrátt fyrir ítarlegt bókhald um það hvað fólki fer á milli, bæði vegna þess að starfs­menn borgarinnar virðast mestmegnis ræða saman í tölvuskeytum en jafnframt taka niður fundarpunkta, nýtur ekki neinna gagna við um það hvað stefnanda og skrif­stofu­stjór­anum fór á milli á þessum fundi. Hitt liggur þó fyrir, að stefnandi vann ekki svarið fyrir skrifstofu borgarstjóra og borgarritara og sendi fjármálaskrifstofu ekki heldur svör annarra skrif­stofa í mið­lægri stjórnsýslu sem veita styrki.

 

            Fyrirmælin sem stefnanda voru gefin í upphafi voru þau að fullyrt var að hann hefði unnið þetta árið áður og hann beðinn að koma „þessu af stað“. Að mati dómsins felst ekki í þessu að hann eigi að útbúa samræmt svar sem grund­vallist á upplýsingum frá þeim skrifstofum sem veita styrki. Þegar hann réttilega neitaði að hafa unnið verk sem þetta áður breyttust fyrirmælin og hann var beðinn að „útbúa eitt heildstætt svar“.

            Þótt fyrirmælin hafi verið að útbúa heildstætt svar var hann hins vegar áminntur fyrir að „halda [ekki] utan um svör skrifstofu mið­lægrar stjórnsýslu til fjár­mála­skrifstofu“.

 

            Skrifstofustjórinn bar fyrir dómi að á hennar skrifstofu væru nokkrar stoð­þjón­ustu­deildir og því hefði hún ákveðið umboð til þess að fara fram á að vinnubrögð í mið­lægri stjórnsýslu væru með ákveðnum hætti. Hún hefði með því að biðja stefnanda að svara heildstætt haft í huga að létta undir með mannréttindaskrifstofu og skrifstofu borg­ar­stjórnar til framtíðar. Hún kvaðst einnig hafa litið til þess að verkefni fjármála­stjóra ráðhúss séu á skrifstofu hennar. Þau væru mjög upptekin af samræmingar­hlut­verki sínu og gætu bætt sig á því sviði í fjármálatengdum verkefnum. Auk þess væri það gott fyrir ásýnd skrifstofunnar og fjármálastjóra að svörin frá skrif­stof­unni væru heild­stæð. Hún hafi verið að vísa til þessa þegar hún bað stefnanda að tryggja að það væri sam­ræmi í svörunum.

            Hún bar jafnframt að í því að svara heildstætt geti falist að senda fjármála­skrif­stofu bréf og segja: „Hjálögð eru svör skrifstofa á miðlægri stjórnsýslu.“ Að hennar mati hefði það verið nóg. Þetta hefði bara átt að vera einhver heildstæð nálgun. Hún hafi ekki rætt þetta við hina skrifstofu­stjór­ana enda hafi henni ekki fundist þetta vera neitt stórmál. Hún hafi alls ekki litið svo á að hún væri að biðja stefnanda að fara inn á starfs­svið þeirra.

            Á hennar skrifstofu sé einungis einn aðili sem hafi yfirsýn yfir alla kostnaðar­liði miðlægrar stjórnsýslu og það sé stefnandi. Hann einn geti, í gegnum Agresso-kerfið, kallað fram samn­inga. Þaðan hafi komið sú sýn hennar að hann væri best til þess fall­inn að svara erind­inu, heildstætt.

            Hún kvaðst ekki hafa íhugað hvort styrkirnir og skrifstofurnar væru það ólíkar að heildstætt svar væri ekki gerlegt. En væri það svo og það hafi verið afstaða stefn­anda hefði hún mögulega fallið frá fyrirmælum um heildstætt svar hefði hann sest niður með henni og gert henni grein fyrir þessu.

            Hún kvaðst vita það núna að fyrrverandi borgarritari hefði svarað þessu erindi sjálf en hún vissi ekki hvort einhver starfsmaður hefði unnið það með henni.

 

            Vitnið Anna Kristinsdóttir bar að fjármálaskrifstofan hefði sent beiðni sem þessa frá því að styrkjareglum borgarinnar var breytt fyrir allmörgum árum og eftirlit var aukið með útdeil­ingu styrkja. Á hverju ári sé tekin saman grein­ar­gerð um það hversu háir styrkir hafi verið og hvernig eftirfylgni hafi verið háttað. Greinargerðin sé send fjármála­skrif­stofu og sé síðan lögð fyrir borgarráð.

            Að hennar sögn er mannréttindaskrifstofan líkari fagsviði en öðrum skrif­stofum miðlægrar stjórnsýslu vegna þess að á henni sé fagráð sem veiti styrki og mann­réttindaskrifstofan eigi að gera fjármálaskrifstofunni greinargerð um þá. Henni, sem skrifstofustjóra mannréttindaskrifstofu, beri að taka hana saman. Með greinar­gerð­inni sé hún fyrst og fremst að svara borg­ar­ráði því hvaða styrki mann­rétt­inda­ráð hafi veitt og hvort farið hafi verið að reglum um veit­ingu þessara styrkja. Það sé því eðli­legt að hún sjálf geri, fyrst fjármálaskrifstofu og síðan borgarráði, grein fyrir þessu.

            Nýráðinn starfsmaður hennar, safnafræðingur, hefði unnið svörin fyrir skrif­stof­una árið 2017. Þótt fyrirspurnin varði það hvernig reglum um styrki hafi verið fylgt þurfi sá sem svari henni fyrst og fremst að kunna að finna upplýsingarnar í kerfi borg­ar­innar en ekki neina þekkingu á fjármálum. Svörin séu send milliliðalaust til fjár­mála­skrifstofu og hafi aldrei verið gerð athuga­semd við það.

 

            Vitnið Helga Björk Laxdal taldi erindi fjármálaskrifstofu um framfylgd styrkja­reglna ekki varða fjármál. Það væri venjulegt skrifstofustarf að svara þessari fyrir­spurn að öðru leyti en því að væru menn óvissir um hvort einhver útgjöld væru skráð á rétta bókhaldslykla gætu þeir leitað til stefnanda. Á skrifstofu borgarstjórnar hafi stjórnmálafræðingur, verkefnastjóri styrkja, svarað þessu árið 2017 en fram að því hafi venju­legir skrifstofumenn svarað erindinu.

            Vitnið kvaðst fara yfir svörin, undirrita og senda þau sjálf til fjár­mála­skrif­stofu. Svona hefði þetta verið unnið frá því áður en hún varð skrifstofustjóri fyrir sex árum og hefði fjármálaskrifstofa aldrei gert athugasemdir við það hvernig svarið væri unnið. Í því tilviki að fjármálaskrifstofan ákvæði að eitthvað annað ætti að felast í þess­ari greinargerð en það geri núna, til dæmis frekari fjármálaleg vinnsla eða það væri þörf á einhverri samræmingu, kynni stefnandi að þurfa að koma meira að svör­unum. Að öðru leyti hafi stefnandi ekkert með þessi svör að gera og hafi aldrei haft. Ætti að breyta því þyrfti hún að óska eftir því en ekki aðrir.

 

            Dómurinn telur nægjanlega í ljós leitt með framburði vitnanna Önnu Kristins­dóttur og Helgu Lax­dal að ekki hafi þurft neina fjármálaþekkingu til að svara fyrir­spurn­inni heldur hafi svar­and­inn einungis þurft að kunna að kalla svörin fram úr bók­halds­kerfinu. Því hafi við­fangs­efnið ekki varðað fjármál enda hafði það aldrei áður verið hlutverk fjármála­stjóra skrifstofu borgarstjóra og borgarritara að svara þessu erindi fjármálaskrifstofu.

 

            Dómurinn telur ekki augljóst hvað felist í þeirri áminningu „að halda [ekki] utan um svör skrif­stofu miðlægrar stjórnsýslu til fjármálaskrifstofu“.

            Það voru fyrirmæli skrifstofustjórans í tölvupósti 27. mars 2017 að stefnandi ætti að taka á móti svörum og „útbúa heildstætt svar“. Í ljósi framburðar vitnanna Önnu Kristinsdóttur og Helgu Laxdal telur dómurinn að stefnandi hafi ekki haft heim­ild þeirra til þess að skrifa eitt svar þar sem jafnframt voru veittar upplýsingar sem vörð­uðu styrki sem tilheyrðu þeirra skrifstofum. Að mati dómsins voru fyrirmæli um „heild­stætt svar“ frá öllum skrifstofum því ekki lögmæt og því hafi ekki verið til­efni til áminningar fyrir að fara ekki að þeim.

            Skrifstofustjórinn bar fyrir dómi að það að útbúa heildstætt svar gæti falist í því að senda fjármálaskrifstofu tölvuskeyti, hengja við það greinar­gerðir skrifstofanna þriggja og til­kynna að hjálögð væru svör skrifstofa á miðlægri stjórn­sýslu. Ef stefn­andi er ein­vörð­ungu áminntur fyrir að fara ekki að þessum fyrirmælum fær dómurinn ekki séð hverju það breytir fyrir fjármálaskrifstofuna að fá þrjú tölvuskeyti, hvert frá sinni skrifstofu með greinar­gerð hverrar eða eitt tölvuskeyti frá stefnanda með þremur við­hengjum. Í öllu falli getur það eitt að láta hjá líða að vinna verk sem þetta ekki verið nægj­an­legur grund­völlur áminningar í starfi.

            Þess má jafnframt geta að fjármálaskrifstofan hefur ekki beðið um heildstætt svar frá öllum skrifstofunum sam­eigin­lega og ekki leitt í ljós að það hefði þjónað neinum tilgangi fyrir þá skrifstofu að fá svarið þannig fram sett.

            Dómurinn les áminninguna þannig að stefnandi sé ekki áminntur fyrir að vinna ekki svarið fyrir skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.

 

            Í þessum lið áminningarinnar er stefnandi jafnframt áminntur fyrir brot á hlýðni­skyldu með því að veita yfir­manni sínum ekki ráðgjöf og stuðn­ing vegna þessa svars til fjármálaskrifstofu. Stefn­andi svaraði fyrirspurn hennar í tví­gang á þann hátt að hver skrifstofa hefði umsjón með sínum styrkjum og væri ábyrg fyrir sínu svari og sendi fjármálaskrifstofu svör sín milli­liðalaust. Það er ljóst að umfram þetta vissi stefn­andi ekki hvernig þessu erindi hefði verið svarað áður á skrif­stofu borgar­stjóra og borg­ar­ritara. Hefði hann vitað hver hefði gert það hefði hann greint frá því. Nú hefur verið upplýst að það var þáver­andi borgar­ritari. Svör stefnanda má skilja á þann veg að hann leggi til og veiti þá ráðgjöf að fyrir­komu­lagi næstliðinna ára verði haldið áfram.

            Í vitnisburði skrifstofustjórans kom fram að þetta væru ekki svör. Ef stefnandi hefði stjórnunarheimildirnar væru þetta kannski svör en annars ekki.

            Í ljósi þessara svara stefnanda hefði skrifstofustjórinn að ósekju mátt rannsaka fram­kvæmd fyrri ára betur, t.d. með því að hringja í fjármálaskrifstofuna, í stað þess að gera stefnanda alfarið ábyrgan fyrir þekkingarleysi hennar.

            Stefnandi bar að hann hefði á þessum tíma verið undir miklu vinnuálagi sem eini fjármálastjórinn í miðlægri stjórnsýslu. Á þessum tíma, í febrúar og mars, séu menn að leggja lokahönd á áramótauppgjörið. Það uppgjör þurfi að afhenda fjár­mála­eftir­litinu fyrir ákveðinn tíma, sem og ráðuneytinu. Hann hafi einn þurft að vinna allar milli­færslur, afstemmingar og ann­ars ­konar færslur sem tengist áramótauppgjöri. Á þessum tíma hafi hann einnig verið að ráðleggja skrifstofustjórum um ýmislegt tengt fjár­málum. Á sama tíma sé hafin áætl­un­ar­gerð fyrir næsta ár. Fylla þurfi út ákveðið skema fyrir fjármála­skrif­stof­una um áhættur og tækifæri næsta árs. Engu þessara verk­efna sé hægt að fresta. Þau hafi jafnframt verið að vinna í nýja launaáætlunarlíkaninu sem hafi verið mjög tímafrekt. Stefnandi taldi skrifstofustjórann mega sýna því meiri skiln­ing hvað hann hefði oft mikið að gera.

            Dómurinn telur að í ljósi þessa vinnuálags hafi ekki verið hægt að ætlast til þess að stefnandi svaraði öðru til en hann vissi. Ekki hafi verið hægt að ætlast til þess að hann leitaði sér upplýsinga um fyrri framkvæmd í skjalavistunarkerfinu á sama tíma og hann hafði fjöldamörgum öðrum verkefnum að sinna, sem ekki þoldu bið. Hann hafi því veitt skrifstofustjóranum fullnægjandi ráðgjöf miðað við aðstæður.

            Dómurinn telur að í þessu ljósi verði hann ekki heldur áminntur fyrir að veita yfir­manni sínum ekki ráðgjöf og stuðning vegna svarsins.

 

Innleiðing á launakerfi

            Stefnandi er í öðru lagi áminntur fyrir óvandvirkni í starfi, ófullnægjandi árangur í starfi, framkomu sem samræmist ekki starfi hans og óhlýðni við löglegt boð yfir­manns.

            Eftir að atvik málsins eru rakin í áminningarbréfinu segir enn fremur: „Í þeirri atburða­rás sem rakin er hér að ofan sinntir þú ekki starfsskyldum þínum gagnvart skrif­stofu­stjóra borgarstjóra og borgarritara við vinnslu áætlunarinnar þar sem þú hafn­aðir því að vinna áætlunina og veittir skrifstofustjóra litla eða enga ráðgjöf og stuðn­ing við vinnsluáætlunarinnar þrátt fyrir ítrek­aðar óskir þar um. Þá liggur fyrir að á sama tíma og þú sagðist ekki hafa þekkingu til að veita skrifstofustjóra ráðgjöf og stuðn­ing við vinnslu launaáætlunar, tókstu að þér að vinna launaáætlanir fyrir aðrar starfs­einingar í miðlægri stjórnsýslu. Verður ekki annað ráðið en að umrætt framferði þitt teljist til vanrækslu í starfi, að það feli í sér óvand­virkni í starfi og að þú hafir ekki náð fullnægjandi árangri við að sinna starfs­skyldum þínum auk þess að vera óhlýðni við löglegt boð yfirmanns sem og fram­koma sem samræmist ekki starfi þínu sem fjár­mála­stjóri Ráðhúss.“

            Haustið 2016 var ákveðið að innleiða nýtt launaáætlunarkerfi sem var hluti af SAP-mannauðs- og launakerfi sem borgin hóf að innleiða fyrr á árinu 2016. Marg­vís­leg vandamál komu upp og hlé var gert á innleiðingunni þegar liðið var vel á árið en þráð­ur­inn tekinn upp að nýju á nýju ári. Þá var stjórnendum í miðlægri stjórnsýslu, þar á meðal skrifstofu­stjór­anum, og tengiliðum skrifstofa boðið á upprifjunarnámskeið 17. febrúar. Þá var stefn­andi í orlofi og gat ekki sótt það námskeið en hann komst á annað skemmra nám­skeið viku síðar með öðrum hópi.

            Dómurinn telur að draga verði fram þá staðreynd að frá upphafi var gert ráð fyrir að yfirmenn skrifstofa ynnu launaáætlun, hver fyrir sína einingu. Þeim var boðið á námskeið og afhentar leiðbeiningar.

            Í byrjun var gert ráð fyrir að menn hefðu fyllt launaáætlunina út um miðjan mars. Um það leyti, 19. mars, spurði stefnandi yfirmann sinn hvort skrifstofa borgar­stjóra og borgarritara væri langt komin með launaáætlunina. Að kvöldi þriðjudagsins 21. mars skrifaði skrifstofustjórinn stefnanda og kvaðst hafa staðið í þeirri trú að hún fengi ein­hvers­ konar fræðslu um þessa vinnslu. Sú fræðsla hafi þó mögulega farið fram­hjá henni. Hún lagði til að stefnandi hefði námskeið í þeirri viku fyrir hana og deild­ar­stjóra á skrifstofunni.

            Hann kvaðst þá kunna lítið og vera eins og aðrir á skrifstofunni að berjast í gegnum leiðbeiningarnar. Sérfræðingar fjármálaskrifstofu gætu hins vegar veitt alvöru­kennslu og mælti hann með að leitað yrði til þeirra. Það var gert og námskeið haldið 23. mars. Í kjölfar þess hélt stefnandi, þó ekki á þeim degi sem skrifstofu­stjór­inn hefði helst kosið, námskeið fyrir hana og deildarstjórana.

            Stefnandi hafði, áður en skrifstofustjórinn leitaði til hans um aðstoð, forunnið launa­áætlun fyrir skrifstofu borgarlögmanns, að því er virðist án þess að borgar­lög­maður hefði beðið hann um það. Í þeirri forvinnu hans reyndust síðar vera margar villur en grunn­inn hafði hann lagt. Að hans sögn valdi hann skrifstofu borgarlögmanns til að spreyta sig á þegar hann fór í gegnum leiðbeiningarnar og reyndi að átta sig á kerf­inu því þetta væri einfaldasta launaeiningin. Á þeirri skrifstofu ynnu aðeins tíu, einn ritari og níu lög­fræð­ingar sem allir hefðu sama kjarasamninginn. Sérfræðingar fjár­mála­skrif­stofu báru fyrir dómi að skrifstofa borgarlögmanns væri einfaldasta launa­ein­ingin í borg­ar­kerfinu.

            Dómurinn telur ekkert tilefni til þess að draga í efa þá frásögn stefnanda að hann hafi, 21. mars, þegar skrifstofustjórinn óskaði eftir því að hann kenndi henni og deild­ar­stjórum á skrifstofunni, alls ekki talið sig hafa næga kunnáttu á kerfið til þess að geta kennt öðrum. Hann hafi síðan á fundi með sérfræðingum fjármálaskrifstofu fimmtu­dag­inn 23. mars áttað sig á því að hann væri ekki mikið verr staddur en þeir og þá fengið sjálfstraustið til að kenna sam­starfs­mönnum sínum á skrifstofu borgarstjóra og borg­ar­ritara.

            Að sögn stefnanda kom það fram á námskeiðinu 23. mars að skilafrestur yrði fram­lengdur fram í apríl 2017. Þennan lengri frest, sem þá hafði verið veittur til 5. apríl, áréttaði hann í tölvuskeyti 28. mars eftir að hann hafði verið á stöðu­fundi með fjár­mála­stjórum um vinnslu launaáætlunarinnar þann dag.

            Dómurinn telur óraunhæft að gera ráð fyrir því að stefnandi héldi námskeið föstu­dag­inn 24. mars. Hinsvegar boðaði hann, 27. mars, námskeið sem skyldi fara fram 29. mars 2017, kl. 13.00, eins og áður er frá greint.

 

            Eins og áður er rakið voru það stjórnendur skrifstofa sem áttu hver að vinna launa­áætlun fyrir sína einingu. Dómurinn telur því að stefnandi verði ekki áminntur fyrir að hafna því að vinna áætlunina. Dómurinn fellst ekki á að stefnandi hafi veitt skrif­stofustjóra litla eða enga ráðgjöf. Hún átti kost á námskeiði hjá honum, kl. 13.00, 29. mars 2017 en hún ákvað að nýta hluta af þeim tíma í annað, eins og áður er rakið. Það var ekki heldur þannig að skrifstofustjórinn hefði verið algerlega háð stefnanda um kennslu því hún átti kost á námskeiði sem fjármálaskrifstofa hélt árið 2016 og upp­rifj­unar­nám­skeiði 17. febrúar 2017 og hefði vænt­an­lega getað, eins og stefnandi, kom­ist inn á námskeið sem fjár­mála­skrif­stofan hélt fyrir aðra hópa. Það var því ekki á neinn hátt hans sök að hún hrökk upp við vondan draum að kvöldi 21. mars og hafði hvorki hafist handa við að vinna áætlun­ina né kynna sér hvernig ætti að gera það.

            Vanmetakennd hans kom í veg fyrir að hann gæti liðsinnt henni um leið og hún óskaði þess en þegar hann var kominn yfir van­meta­kenndina boðaði hann til kennslu­fundar með hæfilegum fyrirvara.

            Dómurinn telur ekkert ámælisvert við það að stefnandi hafi reynt að kenna sjálfum sér á launaáætlunarkerfið með því að velja einföldustu launaeininguna sem í boði var til þess að æfa sig á.

            Að mati dómsins hefur stefndi ekki sýnt fram á að í tengslum við innleiðingu á launa­áætlunarkerfi hafi stefnandi verið óvandvirkur í starfi, náð ófullnægjandi árangri, sýnt framkomu sem samræmdist ekki starfi hans eða óhlýðnast löglegu boði yfir­manns.

 

            Dómurinn hefur með þessu hafnað því að uppfyllt séu skilyrði greinar 9.8.1 í kjara­samn­ingi milli Kjarafélags viðskipta- og hagfræðinga og Reykjavíkurborgar og greinar 9 í samkomulagi Reykjavíkurborgar annars vegar og aðildarfélaga BSRB og BHM hins vegar um réttindi og skyldur starfsmanna Reykjavíkurborgar. Af þeim sökum er áminningin sem stefndi veitti stefnanda 14. júní 2017 felld úr gildi.

            Dómurinn felst á það að áminningin hafi verið fallin til þess að skaða æru stefn­anda. Skrifstofustjórinn sem hana veitti hlaut að sjá í hendi sér að hún væri sær­andi fyrir stefnanda. Dómurinn telur skilyrði b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 því uppfyllt. Þegar litið er til þeirra fjárhæða sem eru greiddar vegna marg­falt alvar­legri miska þykir dóminum rétt að miski stefnanda verði bættur með 250.000 krónum. Krafan var sett fram í stefnunni og því þykir rétt að dráttarvextir greiðist frá stefnu­birt­ing­ar­degi.

            Með vísan til þessarar niðurstöðu og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir, að meðtöldum virðis­auka­skatti, hæfilega ákveðinn 1.250.000 kr.

            Ingiríður Lúðvíksdóttir héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

 

DÓMSORÐ:

            Felld er úr gildi skrifleg áminning sem stefndi, Reykjavíkurborg, veitti stefn­anda, Sigurði Páli Óskarssyni, 14. júní 2017.

            Stefndi greiði stefnanda 250.000 krónur, auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 2. október 2017.

            Stefndi greiði stefnanda 1.250.000 krónur í málskostnað og er virðis­auka­skattur þá með­talinn.

 

                                                                        Ingiríður Lúðvíksdóttir