• Lykilorð:
  • Líkamstjón
  • Skaðabætur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 16. maí 2018 í máli nr. E-3142/2017:

Miriam Guerra D. Másson

(Grímur Sigurðarson lögmaður)

gegn

Tryggingamiðstöðinni hf.

(Hjörleifur B. Kvaran lögmaður)

 

       Mál þetta, sem var dómtekið 24. apríl 2018, var höfðað 29. september 2017 af Miriam Guerra D. Másson, […], gegn Tryggingamiðstöðinni hf., Síðumúla 24 í Reykjavík.

       Stefnandi krefst þess að viðurkennd verði með dómi bótaskylda stefnda gagnvart henni vegna þess líkamstjóns sem hún varð fyrir 28. október 2015 þegar hún kveður sig og hjólreiðamanninn Daða Ólafsson hafa skollið saman á gangstíg við Borgartún í Reykjavík. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda og að tekið verði tillit til virðisaukaskatts á lögmannsþóknun við ákvörðun hans.

       Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar.

       Dómari gekk á vettvang við aðalmeðferð málsins ásamt stefnanda og lögmönnum aðila.

I

Mál þetta verður rakið til þess að stefnandi slasaðist þegar hún og hjólreiðamaðurinn Daði Ólafsson skullu saman við Borgartún 6 í Reykjavík hinn 28. október 2015. Slysið átti sér stað um klukkan 9:15 að morgni og voru sjúkrabifreið og lögregla kvödd á vettvang. Stefnandi og hjólreiðamaðurinn voru bæði slösuð og voru flutt á bráðamóttöku með sjúkrabifreið. Fram kom í vettvangsskýrslu lögreglu að slysið hefði orðið á stíg á milli Borgartúns 6 og akbrautar. Stígnum væri skipt í hjólreiðastíg og göngustíg, sem væri nær húsinu. Hjólreiðastígurinn væri malbikaður, en göngustígurinn hellulagður. Í lögregluskýrslu var gerð grein fyrir framburði stefnanda, hjólreiðamannsins Daða Ólafssonar og vitnisins Ástu Lilju Steinsdóttur. Stefnandi lýsti slysinu með þeim hætti að hún hefði verið að ganga frá bifreið sinni í átt að stöðumæli sem væri við Borgartún 6 þar sem hún hefði þurft að sinna erindi. Hún kvaðst ekki hafa séð Daða Ólafsson koma hjólandi eftir hjólastígnum og því ekki vitað fyrr en þau skullu saman. Haft var eftir Daða Ólafssyni að hann myndi lítið sem ekkert eftir atvikinu, en hefði verið að hjóla austur Borgartún á leið í vinnuna þegar slysið varð. Hann hafi ekki verið á mikilli ferð og hafi ekki hugmynd um hvað hafi gerst. Þá var haft eftir Ástu Lilju Steinsdóttur, sem varð vitni að atvikinu, að hún hefði verið að hjóla til austurs rétt á eftir Daða Ólafssyni. Hún kvaðst hafa séð stefnanda ganga þvert yfir hjólreiðastíginn í átt að húsinu, en þegar hún hefði verið komin á milli hjólreiðastígsins og göngustígsins hefði Daði verið kominn að henni og beygt til hægri inn á göngustíginn. Þá hafi stefnandi og Daði skollið saman og stefnandi fallið niður á göngustíginn en Daði á hjólreiðastíginn. Hún kvaðst ekki hafa verið á mikilli ferð og hafa verið búin að hægja á ferðinni, en ekki náð að stöðva reiðhjól sitt í tæka tíð og hafi framhjólið á hennar hjóli skollið á höfuðið á Daða.

Stefnandi fór á bráðamóttöku Landspítalans með sjúkrabifreið eftir slysið. Fram kom í bráðamóttökuskrá að stefnandi hefði slasast þegar hjólreiðamaður hjólaði á hana á gangstétt. Hafi hún kastast niður í götuna og fengið hnykk á bakið og högg á vinstra hné. Hún var greind með tognun og ofreynslu á aðra ótilgreinda hluta lendahryggs og mjaðmagrind, sem og tognun og ofreynslu á aðra og ótilgreinda hluta hnés. Hún var útskrifuð af sjúkrahúsi, ráðlagt að taka verkjalyf og að mæta til heimilislæknis í eftirlit. Fyrir liggur að stefnandi leitaði í kjölfarið til heimilislæknis og hefur verið í meðferð hjá sjúkraþjálfara. Líkamstjón stefnanda var metið af Júlíusi Valssyni lækni og samkvæmt matsgerð hans frá 6. mars 2017 var varanlegur miski stefnanda vegna slyssins 12 stig og varanleg örorka 10%. Fyrir liggur að hjólreiðamaðurinn Daði Ólafsson missti meðvitund við slysið og hlaut skurð á höfuð.

     Með tölvuskeyti lögmanns stefnanda til stefnda 17. mars 2016 var því lýst að stefnandi teldi hjólreiðamanninn Daða Ólafsson, sem væri með ábyrgðartryggingu hjá stefnda, bera skaðabótaábyrgð á slysinu. Með bréfi 20. maí 2016 hafnaði stefndi greiðsluskyldu með vísan til þess að slysið yrði ekki rakið til atvika sem vátryggingartaki bæri ábyrgð á að lögum. Stefnandi skaut þeirri afstöðu til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum 21. maí 2016. Með úrskurði 1. júlí 2016 komst úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að tjón stefnanda væri ekki bótaskylt úr ábyrgðartryggingu vátryggingartaka. Því til stuðnings var einkum vísað til þess að ekki hefði verið sýnt fram á að vátryggingartaki hefði sýnt af sér gáleysi í umrætt sinn.

 

 

 

II

Málsástæður stefnanda

Stefnandi vísar til þess að hjólreiðamaðurinn, sem hún skall saman við, hafi verið með ábyrgðartryggingu hjá stefnda á slysdegi og sé málið höfðað gegn stefnda á grundvelli 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Byggt er á því að hjólreiðamaðurinn beri skaðabótaábyrgð á slysinu á grundvelli sakarreglunnar, meginreglna skaðabótaréttar og umferðarlaga nr. 50/1987. Í lögregluskýrslu hafi verið haft eftir vitninu Ástu Lilju að vátryggingartaki hefði „beygt til hægri inn á gangstíginn en þá skullu Miriam og Daði saman“. Fram komi í 4. mgr. 39. gr. umferðarlaga að heimilt sé að hjóla á gangstíg, enda valdi það ekki gangandi vegfarendum hættu. Jafnframt sé mælt fyrir um að hjólreiðamaður á gangstíg skuli víkja fyrir gangandi vegfarendum. Þar sem vátryggingartaki hafi hjólað á stefnanda á gangstíg sem hafi lögum samkvæmt einkum verið ætlaður gangandi vegfarendum hafi hann bæði brotið gegn umferðarlögum og meginreglum skaðabótaréttar. Hafi þær aðstæður, sem blöstu við vátryggingartaka þegar hann kom hjólandi austur Borgartún, þar sem fjöldi gangandi vegfarenda fari um á gangstígum, krafist þess að hann sýndi sérstaka varkárni. Hafi hann átt að haga ferð sinni á reiðhjólinu þannig að hann gæti numið staðar væri ástæða til, en þar sem hann hafi ekki gert það hafi hann sýnt af sér gáleysi í skilningi skaðabótaréttar. Þá eigi engar hlutrænar eða huglægar ábyrgðarleysisástæður við og sé ekki um óhappatilvik að ræða, enda hefði slysið ekki átt sér stað hefði vátryggingartaki gætt varkárni. Séu þannig bein orsakatengsl á milli háttsemi vátryggingartaka og líkamstjóns stefnanda sem sé jafnframt sennileg afleiðing af háttsemi vátryggingartaka.

 

Málsástæður stefnda

Stefndi vísar til þess að það falli í hlut stefnanda að sýna fram á að tjón hennar verði rakið til saknæmrar og ólögmætrar hegðunar þess hjólreiðamanns sem var með ábyrgðartryggingu hjá stefnda. Hún hafi ekki sýnt fram á slíkt og beri því að sýkna stefnda. Vísað er til þess að samkvæmt 2. gr. umferðarlaga sé reiðhjól skilgreint sem ökutæki sem knúið sé áfram með stíg- eða sveifarbúnaði. Tilvísun stefnanda til 4. mgr. 39. gr. umferðarlaga eigi hins vegar ekki við þar sem vátryggingartaki hafi ekki verið að hjóla á gangstétt eða gangstíg, heldur á þar til gerðum reiðhjólastíg. Sé hvorki ökutækjum né gangandi vegfarendum ætlað að fara um slíkan stíg. Komi fram í fyrirliggjandi lögregluskýrslu að ólíkt yfirborð sé á reiðhjólastígnum annars vegar og gangbrautinni hins vegar. Sé reiðhjólastígurinn malbikaður en göngustígurinn hellulagður. Þá sé umferðarskilti við Borgartún 1 sem sýni aðgreindan gangstíg og hjólreiðastíg. Fram komi í grein C 15.22 í reglugerð nr. 289/1995 um umferðarmerki og notkun þeirra að viðkomandi merki megi nota við aðgreinda stíga sem hvor um sig sé með fullnægjandi breidd, annars vegar fyrir gangandi vegfarendur og hins vegar fyrir hjólreiðamenn sem þeir skulu nota en ekki aðrir. Auk þess sé tekið fram að stígur fyrir gangandi sé til hægri. Hafi stefnandi, sem hafði lagt bíl sínum við Borgartún, þurft að fara þvert yfir reiðhjólastíginn til að komast að greiðsluvél bílastæðagjalda við húsvegg Borgartúns 6. Hafi henni borið að sýna ítrustu aðgát þegar hún gekk þvert yfir reiðhjólastíginn þar sem hún mátti eiga von á að reiðhjól kæmi eftir reiðhjólastígnum á nokkurri ferð. Hafi vátryggingartaki ekki orðið var við stefnanda þar sem bifreiðum hafi verið lagt á vinstri hönd og byrgt sýn, en þegar hann hafi séð stefnanda á reiðhjólastígnum beint fyrir framan sig hafi hann hemlað og beygt til hægri í því skyni að forðast árekstur. Ekki hafi verið unnt að forða árekstri, en viðbrögð hans í alla staði verið eðlileg og rétt. Verði slysið ekki rakið til sakar vátryggingartaka, heldur fyrst og fremst til aðgæsluleysis stefnanda.

Stefndi tekur undir álit úrskurðarnefndar í vátryggingamálum og leggur áherslu á að stefnandi þurfi að sýna fram á að vátryggingartaki hafi sýnt gáleysi við stjórn reiðhjóls í umrætt sinn. Þá er lögð áhersla á að stefnandi hafi ekki gáð sérstaklega að umferð um hjólreiðastíginn áður en hún gekk yfir hann.

III

A.

Aðila greinir á um hvort viðurkenna beri bótaskyldu stefnda vegna líkamstjóns sem stefnandi varð fyrir þegar reiðhjól skall á hana á stíg á milli akbrautar og Borgartúns 6. Hjólreiðamaðurinn var með frjálsa ábyrgðartryggingu hjá stefnda og byggir stefnandi á því að hann hafi sýnt af sér gáleysi sem hafi leitt til líkamstjóns hennar. Mál þetta er höfðað gegn stefnda á grundvelli 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga.

Fyrir liggur að þegar slysið varð hafði stefnandi lagt bifreið sinni fyrir utan Borgartún 6 þar sem hún hugðist fara í sjúkraþjálfun. Hún ætlaði að greiða bílastæðagjöld í greiðsluvél sem er staðsett við vegg hússins og til þess þurfti hún að fara yfir stíg sem er aðgreindur í göngustíg og hjólreiðastíg. Stuttu frá slysstað, eða við Borgartún 1, er að finna umferðarmerki vegna stígsins í samræmi við grein C 15.22 í reglugerð nr. 289/1995 um umferðarmerki og notkun þeirra, sem sett var með stoð í umferðarlögum nr. 50/1987. Fram kemur í reglugerðinni að merkið megi nota „við aðgreinda stíga sem hvor um sig er með fullnægjandi breidd, annars vegar fyrir gangandi vegfarendur og hins vegar fyrir hjólreiðamenn sem þeir skulu nota en ekki aðrir. Stígur fyrir gangandi er til hægri.“

Stefnandi gaf skýrslu fyrir dómi og lýsti atvikum að baki slysinu með þeim hætti að hún hefði lagt bifreið sinni í bílastæði fyrir utan Borgartún 6 og gengið aftur fyrir bílinn. Hún kveðst hafa horft til hægri og séð vátryggingartaka koma hjólandi og vitnið Ástu Lilju stuttu fyrir aftan hann. Hún taldi vátryggingartaka hafa séð sig við stíginn og að hann hefði verið í um 10–15 metra fjarlægð frá henni. Hún mat það svo að hún hefði nægan tíma til að ganga yfir stíginn að greiðsluvél bílastæðagjalda við húsvegginn. Hún taldi sig hafa verið komna yfir þann hluta stígsins sem var ætlaður fyrir hjólreiðar og á göngustíginn þegar vátryggingartaki skall á hana. Hafi hann beygt til hægri og inn á göngustíginn þar sem hún hafi verið. Stefnandi tók fram að það væri rangt sem fram kæmi í lögregluskýrslu um að hún hefði ekki séð vátryggingartaka koma hjólandi. Hafi hún ekki sagt það við lögreglu og skýrslan ekki verið borin undir hana. 

Vátryggingartaki lýsti atvikum með þeim hætti að hann hefði verið hjólandi á leið til vinnu í Borgartúni 21 frá heimili sínu í Vesturbæ. Stuttu áður en slysið varð hefði hann farið yfir gatnamót við kínverska sendiráðið og tekið fram úr konu á reiðhjóli sem mun hafa verið vitnið Ásta Lilja. Hafi hann hjólað eftir sérmerktum hjólreiðastíg austur Borgartún þegar hann hafi séð stefnanda ganga þvert yfir hjólreiðastíginn. Hann hafi hemlað og reynt að beygja til hægri í því skyni að forða árekstri en það ekki tekist. Þetta hafi gerst á örskotsstundu og hafi honum til að mynda ekki gefist tími til að hringja bjöllu. Hann gat ekki sagt með vissu hvar á stígnum hann og stefnandi hefðu skollið saman og kvað það hafa verið „á hjólreiðastígnum, við jaðarinn eða einhvers staðar rétt fyrir utan“. Þá gat hann ekki sagt til um hversu mikil fjarlægð hefði verið á milli hans og stefnanda þegar hann sá hana á stígnum, en aðspurður kvað hann það hafa getað verið um fimm metrar. Hann gat ekki sagt til um hraða reiðhjólsins en að hann hefði að minnsta kosti verið meiri en gönguhraði.

Vitnið Ásta Lilja, sem hjólaði á eftir vátryggingartaka þegar slysið varð, kom fyrir dóm og mundi atvik óljóst. Hún kvaðst hafa séð stefnanda áður en slysið varð, en minnti að hún hefði verið að koma fótgangandi út úr Rúgbrauðsgerðinni. Hún kvað vátryggingartaka hafa hjólað fram úr sér stuttu fyrir slysið og að hún hefði sjálf verið á þægilegum hjólahraða. Aðspurð um misræmi í framburði sínum fyrir dómi og í lögregluskýrslu, svo sem um það hvaðan stefnandi hefði verið að koma, sagði hún það sem haft var eftir henni í lögregluskýrslu vera áreiðanlegra enda langt um liðið.

B.

Takmarkaðra gagna nýtur um aðdraganda slyssins og eru atvik málsins að ýmsu leyti óljós. Liggur þannig ekki fyrir hvort stefnandi og vátryggingartaki hafi skollið saman á þeim hluta stígsins sem var ætlaður fyrir hjólreiðar eða á þeim hluta sem var ætlaður gangandi vegfarendum. Þá liggur ekki fyrir á hvaða hraða reiðhjól vátryggingartaka var þegar slysið varð eða hversu langt var á milli hans og stefnanda þegar hann varð hennar var. Af hálfu stefnda er byggt á því að stefnandi hafi ekki litið til hægri áður en hún gekk yfir stíginn og er vísað til þess að fram komi í lögregluskýrslu að hún hafi ekki séð vátryggingartaka. Fyrir dómi kvaðst stefnandi ekki hafa greint frá atvikum með þeim hætti þegar hún ræddi við lögreglu. Hafi hún gætt að umferð frá hægri og séð vátryggingartaka og vitnið Ástu Lilju koma hjólandi úr austurátt. Að teknu tilliti til þess að stefnandi staðfesti ekki þann framburð sem greinir í lögregluskýrslu og kveðst fyrst hafa séð skýrsluna þegar hún leitaði sér lögmannsaðstoðar verður endursögnin ekki lögð til grundvallar.

C.

Stefnandi ber í samræmi við almennar reglur skaðabótaréttar sönnunarbyrðina fyrir því að stefndi beri bótaábyrgð á líkamstjóni hennar. Við mat á því hvort vátryggingartaki hafi sýnt af sér saknæma háttsemi koma til skoðunar aðstæður á slysstað, meginreglur skaðabótaréttar og þær skyldur sem hvíldu á honum samkvæmt umferðarlögum. Jafnframt ber að líta til háttsemi stefnanda og þeirra skyldna sem hvíldu á henni sem gangandi vegfaranda.

Reiðhjól eru skilgreind sem ökutæki samkvæmt 2. gr. umferðarlaga og gilda ákvæði laganna um umferð ökutækja eftir því sem við á um hjólreiðar. Sérreglur fyrir reiðhjól er að finna í 39. og 40. gr. laganna. Fram kemur í 4. mgr. 39. gr. umferðarlaga, sem stefnandi hefur vísað til, að heimilt sé að hjóla á gangstétt og gangstíg, enda valdi það ekki gangandi vegfarendum hættu eða óþægindum. Þá skuli hjólreiðamaður á gangstétt eða gangstíg víkja fyrir gangandi vegfarendum. Ekki er að finna sérstakar reglur í umferðarlögum um umferð á hjólreiðastígum og er hugtakið ekki skilgreint í lögunum. Að teknu tilliti til skilgreininga á „akbraut“ og „vegi“ í 2. gr. umferðarlaga getur hjólreiðastígur fallið þar undir. Gert er ráð fyrir slíkum stígum sem skulu notaðir af hjólreiðamönnum en ekki öðrum í fyrrgreindri grein C 15.22 í reglugerð nr. 289/1995 um umferðarmerki og notkun þeirra. Þá hafa lögin að geyma ákvæði um sérstakar skyldur gagnvart gangandi vegfarendum sem eiga eftir atvikum við um hjólreiðamenn líkt og aðra ökumenn. Hér skiptir máli að mælt er fyrir um að ökumaður sem mætir eða ekur fram hjá gangandi vegfaranda skuli gefa honum tíma til að víkja til hliðar og veita honum nægilegt rými á veginum, sbr. 1. mgr. 26. gr. umferðarlaga. Þá hvílir sú skylda á ökumanni að miða ökuhraða við aðstæður með sérstöku tilliti til öryggis annarra. Kveðið er á um að hraðinn megi aldrei verða meiri en svo að ökumaður hafi fullt vald á ökutækinu og geti stöðvað það á þeim hluta vegar fram undan, sem hann sér yfir og áður en kemur að hindrun, sem gera má ráð fyrir, sbr. 1. mgr. 36. gr. laganna.

Umferðarlög hafa ekki að geyma sérstök ákvæði um umferð gangandi vegfarenda á hjólreiðastígum. Aftur á móti segir í 1. mgr. 11. gr. laganna að gangandi vegfarendur skuli nota gangstétt, gangstíg eða þann hluta vegar sem liggur utan akbrauta en megi þó nota akbraut sé hvorki gangstétt né gangstígur meðfram vegi. Þá segir í 1. mgr. 12. gr. að gangandi vegfarandi, sem ætli yfir akbraut, skuli hafa sérstaka aðgát gagnvart ökutækjum sem nálgist. Líta má til þessara ákvæða við mat á háttsemi stefnanda, og er þá höfð hliðsjón af skilgreiningu á hugtökunum akbraut og vegur í 2. gr. umferðarlaga. Ber jafnframt að líta til þess að stefnanda og vátryggingartaka bar báðum að fara að 1. mgr. 4. gr. umferðarlaga þar sem segir að vegfarandi skuli sýna tillitssemi og varúð svo eigi leiði til hættu eða valdi tjóni eða óþægindum og þannig að eigi trufli eða tefji umferð að óþörfu.

D.

Fyrir liggur að slysið varð við Borgartún í Reykjavík sem er fjölfarin gata þar sem gera má ráð fyrir talsverðri umferð ökutækja, reiðhjóla og gangandi vegfarenda. Stefnandi og vátryggingartaki skullu saman á tvískiptum stíg sem er annars vegar ætlaður hjólreiðamönnum og hins vegar gangandi vegfarendum. Stígurinn er aðgreindur með grunnri rennu og er yfirborðið ólíkt þar sem hjólreiðastígurinn er malbikaður en göngustígurinn hellulagður. Eins og rakið hefur verið greinir aðila á um á hvorum hluta stígsins áreksturinn varð. Að teknu tilliti til fyrirliggjandi gagna og skýrslna fyrir dómi er ekki unnt að slá því föstu nákvæmlega hvar stefnandi og vátryggingartaki skullu saman. Er þar litið til þess að um samliggjandi hluta stígsins er að ræða og mjög skammt á milli, auk þess sem framburður vitnisins Ástu Lilju fyrir dómi um þetta atriði var ekki skýr. Samkvæmt þessu er ekki sýnt fram á að vátryggingartaki hafi brotið gegn 4. mgr. 39. gr. umferðarlaga. Hvað sem því líður er ljóst að gangandi vegfarendur sem vilja greiða bílastæðagjöld eða eiga erindi í Borgartún 6, líkt og stefnandi, þurfa að fara yfir þann hluta stígsins sem er ætlaður fyrir hjólreiðamenn. Þeir geta með öðrum orðum ekki haldið sig á þeim hluta stígsins sem er sérstaklega ætlaður fyrir gangandi vegfarendur og var stefnanda nauðsynlegt að fara yfir hjólreiðastíginn. Að teknu tilliti til aðstæðna mátti vátryggingartaki gera ráð fyrir umferð gangandi vegfarenda þegar hann hjólaði austur Borgartúnið, þar með talið að þeir þyrftu að ganga þvert yfir hjólreiðastíginn til að komast að greiðsluvél bílastæðagjalda eða til að fara í og úr þeim byggingum sem liggja meðfram hinum tvískipta stíg í námunda við slysstað. Þessar aðstæður kröfðust þess að vátryggingartaki sýndi sérstaka árvekni og hagaði hraða reiðhjólsins þannig að unnt væri að stöðva það vegna umferðar gangandi vegfaranda, sbr. til hliðsjónar 1. mgr. 4. gr., 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 36. gr. umferðarlaga. Á það sér í lagi við þar sem byggt er á því af hálfu stefnda að bifreiðar á vinstri hönd hafi byrgt vátryggingartaka sýn er hann kom hjólandi austur Borgartún. Samkvæmt þessu telur dómurinn sýnt fram á að vátryggingartaki hafi sýnt af sér gáleysi í umrætt sinn og að það hafi leitt til þess að hann og stefnandi skullu saman. Ekki er ágreiningur um að líkamstjón stefnanda vegna slyssins falli undir ábyrgðartryggingu vátryggingartaka hjá stefnda.

Af hálfu stefnda hefur því verið haldið fram að slysið verði fyrst og fremst rakið til aðgæsluleysis stefnanda sjálfs. Þykir því rétt að taka til skoðunar hvort skerða beri bótaábyrgð stefnda vegna meðábyrgðar stefnanda. Að mati dómsins var stefnanda sem gangandi vegfaranda sem þurfti að fara yfir hjólreiðastíg skylt að sýna sérstaka aðgát. Henni var kunnugt um tvískiptingu stígsins og liggur fyrir að hún hafði oft farið í sjúkraþjálfun í Borgartún 6. Hún kvaðst sjálf fyrir dómi hafa séð vátryggingartaka koma hjólandi og taldi hann hafa verið á umtalsverðum hraða. Hún ákvað að ganga þvert yfir stíginn til að komast að greiðsluvél bílastæðagjalda fremur en að bíða eftir því að hann hjólaði fram hjá. Stefnanda mátti vera ljóst að hætta stafaði af þessu og þykir hún ekki hafa sýnt þá aðgát sem henni bar, sbr. til hliðjónar 1. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 12. gr. umferðarlaga. Að teknu tilliti til þessa þykir stefnandi verða að bera helming tjóns síns sjálf.

Samkvæmt þessu er viðurkennt að stefndi beri skaðabótaskyldu vegna helmings þess líkamstjóns sem stefnandi varð fyrir þegar vátryggingartaki skall á hana.

Eftir þessum úrslitum ber stefnda að greiða stefnanda 800.000 krónur í málskostnað, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Ásgerður Ragnarsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

Viðurkennd er bótaábyrgð stefnda, Tryggingamiðstöðvarinnar hf., á helmingi þess líkamstjóns sem stefnandi, Miriam Guerra D. Másson, hlaut 28. október 2015.

Stefndi greiða stefnanda 800.000 krónur í málskostnað. 

 

                                                                                    Ásgerður Ragnarsdóttir (sign.)