• Lykilorð:
  • Matsgerð
  • Meðdómendur
  • Skaðabætur
  • Skaðabótamál, miski/örorka

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 22. janúar 2019 í máli nr. E-3532/2017:

A

(Bjarni Þór Sigurbjörnsson lögmaður)

gegn

Holtavegi 10 ehf.

og

Húsasmiðjunni ehf.

(Smári Hilmarsson lögmaður)

 

 

Mál þetta, sem dómtekið var 12. desember sl., er höfðað 6. nóvember 2017 fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu þingfestri 9. nóvember 2017 af [A], á hendur Holtavegi 10 ehf., Austurstræti 11, 101 Reykjavík, og Húsasmiðjunni ehf., Holtavegi 10, 104 Reykjavík.

 

I.

        Stefnandi krefst þess aðallega að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda sameiginlega skaðabætur að fjárhæð 6.179.255 krónur með 4,5% vöxtum skv. 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 1.452.360 krónum frá 6. október 2010 til 30. nóvember 2012, en þá af 6.179.255 krónum til 15. október 2016, en þá frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 til greiðsludags.       

        Til vara er þess krafist að viðurkennd verði með dómi sameiginleg skaðabótaskylda stefndu vegna líkamstjóns stefnanda, þ.e. vegna atvinnusjúkdóms þess sem stefnandi hlaut af völdum myglusvepps á vinnustað sínum á [---] á árunum 2010 til 2012, þ.e. frá síðsumri 2010 til 30. nóvember 2012.

        Þá er þess í öllum tilfellum krafist að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda sameiginlega málskostnað samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

 

        Stefndu krefjast þess að verða sýknaðir af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.                      

        Til vara krefjast stefndu þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.

        Þá gera stefndu hvor um sig í öllum tilvikum kröfu um málskostnað úr hendi stefnanda sér að skaðlausu. 

 

II.

Málsatvik

         Stefnandi hóf störf á [---] árið 2006, en þá annaðist  stefndi Holtavegur 10 ehf. rekstur undir merkjum [---]. Það var síðan 1. janúar 2012, sem reksturinn færðist yfir til stefnda Húsasmiðjunnar ehf., sem hefur haft reksturinn með höndum síðan þá. [---].

        Af gögnum málsins má ráða að stefnandi átti við vanheilsu að stríða þegar hann hóf störf hjá Holtavegi 10 ehf. árið 2006 á [---], og var hann talsvert fjarverandi frá vinnu á þeim tíma þegar verkstæðið var starfrækt þar.

         Þegar stefnandi hóf störf á [---] í læknabréfi [E] sem liggur fyrir í málinu. Þá kemur fram að hann hafði verið undir reglulegu eftirliti [---].

         Stefnandi gerir grein fyrir því í stefnu að hann hafi fljótlega eftir að [---] var flutt í húsnæðið að [---] farið að finna fyrir ýmsum líkamlegum einkennum, sem hafi dregið úr þreki hans til leiks og starfa. Yfirleitt störfuðu [---] starfsmenn á starfsstöðinni. Eftir að starfsstöð [---] var flutt að [---] hafði komið í ljós við skoðun að leki var í húsnæðinu og fúkkalyktar varð vart, sbr. skýrslu Ráðtaks sf. Eigandi húsnæðisins, [---] hófst þá þegar handa við úrbætur á húsnæðinu í samvinnu við leigutaka, stefnda Holtaveg 10 ehf. Það var síðan í júlí 2011 að Ráðtak sf. framkvæmdi örverumælingu í húsnæðinu við [---]. Niðurstöður mælingarinnar voru þær að hvoru tveggja loftsýni og veggsýni sýndu að myglusvepp væri að finna á nánar tilteknum stöðum í húsinu. Skýrslu Ráðtaks sf. fylgdu ábendingar um viðbrögð sem félagið gæti veitt þjónustu sína við. Samkvæmt skýrslunni átti að vera auðvelt að útrýma myglunni. Starfsmenn kvörtuðu yfir fúkkalykt í húsnæðinu og að frumkvæði stefnda Holtavegar 10 ehf. leituðu starfsmenn til Heilsuverndar til skoðunar.

        Þann 9. september 2011 leitaði stefnandi, eins að aðrir starfsmenn, að frumkvæði stefnda Holtavegar 10 ehf., til [E], vegna slappleika og þreytu, sem hann tjáði [E] að hann hefði glímt við undanfarið ár. Ekki liggur fyrir að stefnandi hafi upplýst yfirmenn sína sérstaklega um það að hann teldi að veikindi hans mætti rekja til myglu eða ástands á starfsstöð hans. [---]. Ekki liggur annað fyrir en að þetta hafi verið í fyrsta skipti sem stefnandi leitaði til læknis vegna þessara meintu kvilla. Fram kemur í stefnu að stefnandi hafi farið í leyfi frá störfum þann [---] vegna veikinda.

        Þegar stefnandi sneri aftur til vinnu hafði starfsstöð [---] verið flutt að [---] þannig að hann sneri ekki aftur til starfa á [---]. Þann 10. október 2011, eftir að starfsstöð stefnanda hafði verið flutt yfir í [---], var gerð önnur rannsókn á húsnæðinu að [---] á vegum eiganda húsnæðisins til að kanna árangurinn af þeim aðgerðum sem gripið var til í kjölfar fyrri rannsóknar. Rannsóknarþjónustan Sýni ehf. tók þá örverusýni úr húsnæðinu. Engin mygla var sjáanleg í húsinu þótt einhver mygla hefði greinst í sýnum sem tekin voru. Ekki var tekin afstaða til þess hvort mygla teldist vera of mikil, en tekið var fram að engin viðmiðunarmörk væru til um það hversu mikil mygla megi vera í húsnæði. Hins vegar var tekið fram að jafnvel gæti þurft að fjarlægja klæðningu í lofti, taka góð alþrif og mála húsnæðið að innan. Skýrsla þessi var unnin á vegum eiganda húsnæðisins þar sem fyrirhugað var að halda áfram leigu á húsnæðinu á vegum eiganda eftir að raftækjaverkstæðið hafði flutt starfsemi sína úr húsnæðinu.

        Þann 1. janúar 2012 var rekstur Húsasmiðjunnar færður frá stefnda Holtavegi 10 ehf. yfir til stefnda Húsasmiðjunnar ehf. þegar danska fyrirtækið BYGMA keypti rekstur Húsasmiðjunnar af Landsbankanum. Stefndi var þá við störf á starfsstöð stefnda [---].

         [---].

          Í bréfi Vinnueftirlitsins, dags. 4. júní 2012, sem var svar við erindi lögmanns stefnanda, kom fram að fyrir lægju skoðanir Vinnueftirlitsins er lytu að [---], og gerðar hefðu verið minni háttar athugasemdir, en þá var engin starfsemi í húsnæðinu. Þann 31. ágúst 2012 gerðu stefndi Húsasmiðjan ehf. og stefnandi samkomulag um starfslok stefnanda, [---]. Ástæða starfsloka stefnanda hjá stefnda mun hafa verið skipulagsbreytingar hjá stefnda Húsasmiðjunni ehf. sem fólu það í sér að starf stefnanda var lagt niður og honum því boðinn starfslokasamningur.

Frá apríl til ágúst árið 2013 aflaði stefnandi sér þriggja læknisvottorða frá [E] heimilislækni, sem afhent voru Vinnueftirlitinu og sjúkrasjóði VR. Samkvæmt þeim vottorðum var stefnandi greindur með viðvarandi slappleika, þreytu og ofnæmisviðbrögð vegna meintrar myglusveppasýkingar auk öndunarfæraerfiðleika þótt þau einkenni hefðu farið minnkandi. Ekki kemur fram að eiginleg rannsókn hafi verið gerð á stefnanda heldur byggja greiningar læknis, samkvæmt því sem fram kemur, á frásögnum stefnanda sjálfs.

        Árið 2016 fékk stefnandi dómkvadda tvo matsmenn, þá [B], og [D], til þess að framkvæma mat á afleiðingum myglu á vinnustað á heilsufar stefnanda. Matsmenn skiluðu matsgerð sinni þann 25. ágúst 2016. Matsmenn staðfestu að stefnandi væri haldinn atvinnusjúkdómi í læknisfræðilegum skilningi og að orsakatengsl væru á milli sjúkdóms stefnanda og starfsumhverfis hans hjá stefndu síðsumarið 2010. Í kjölfarið krafði stefnandi Sjóvá-Almennar tryggingar hf., vátryggingafélag stefndu, um greiðslu þjáningabóta, bóta vegna varanlegs miska og skaðabóta vegna varanlegrar örorku, samtals að fjárhæð 6.179.255 kr. Eftir að krafan var lögð fram áttu lögmenn aðila fund þar sem hún var rædd og var kröfu stefnanda að lokum hafnað með bréfi lögmanns stefndu, dags. 4. apríl 2017. Fram kemur í bréfinu að stefnanda hafi verið boðin ákveðin upphæð til að ljúka málinu án viðurkenningar á bótaskyldu. Sættir náðust ekki milli aðila og var mál þetta síðan höfðað með birtingu stefnu 6. nóvember 2017.

 

 

 

III.

Málsástæður og lagarök stefnanda

        Stefnandi byggi á því að hann hafi orðið fyrir tjóni, sem stefndu beri skaðabótaábyrgð á samkvæmt almennri sakarreglu íslensks skaðabótaréttar og samkvæmt meginreglu skaðabótaréttar um vinnuveitendaábyrgð.

        Stefnandi hefði verið starfsmaður beggja stefndu á þeim tíma þegar hann varð fyrir tjóni. Fyrst hafi hann starfað hjá stefnda Holtavegi 10 ehf. í hinu mengaða húsnæði að [---] frá síðsumri árið 2010 til september 2011. Frá og með 1. janúar 2012 hafi hann verið starfsmaður stefnda Húsasmiðjunnar ehf. og verið látinn starfa áfram við hinn mengaða búnað og tæki allt til 30. nóvember 2012, er hann hafi neyðst til að hætta störfum. Matsgerð dómkvaddra matsmanna staðfesti að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni sínu í starfi hjá báðum stefndu og þeir beri því báðir skaðabótaábyrgð í málinu. Um sé að ræða tjón sem báðir stefndu hafi valdið, og ekki sé hægt að aðgreina eða sanna hvor þeirra hafi valdið afmörkuðum þáttum heildartjónsins. Því sé um óskipta ábyrgð þeirra að ræða. Byggt sé á meginreglunni um óskipta ábyrgð tjónvalda gagnvart tjónþola í slíkum tilvikum og einnig á meginreglunni um að hin óskipta ábyrgð gildi, óháð því hver hlutur hvers tjónvalds sé í bótaskyldu atviki. Samkvæmt því, og með vísan til matsgerðar dómkvaddra matsmanna, eigi kröfur stefnanda á hendur stefndu rætur að rekja til sama atviks og aðstöðu. Um aðild stefndu vísist því til 1. mgr. 19. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

        Stefnandi hafi fært sönnur á tjón sitt með framlögðum gögnum og með matsgerð dómkvaddra matsmanna, en hún staðfesti hvernig atvinnusjúkdómur stefnanda hafi áhrif á allt daglegt líf hans. Varanleg örorka sé metin [---]. Stefnandi búi við skert starfsþrek og sjúkdómurinn hái honum bæði í leik og starfi, hann hafi skert þol og eigi erfitt með alla vinnu.

        Stefnandi byggi kröfur sínar á hendur stefndu á sakarreglunni, sem og reglu skaðabótaréttar um vinnuveitendaábyrgð. Stefnandi telji að stefndu og starfsmenn stefndu beri ábyrgð, eftir atvikum verkstjórar eða yfirmenn, og hafi valdið tjóni stefnanda með saknæmum og ólögmætum hætti með því að láta stefnanda vinna við hættulegar aðstæður frá síðsumri árið 2010 til nóvemberloka 2012. Þeir hafi látið hann vinna í hinu myglusýkta húsi við [---] og síðar á annarri starfsstöð, þar sem myglusýkt tæki, búnaður, vörubretti o.fl. hafi áfram valdið stefnanda heilsutjóni. Stefndu hafi ekki gætt nægilega vel að aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi á vinnustaðnum með því að koma hvorki í veg fyrir né grípa til ráðstafana vegna þeirrar skaðlegu myglu sem olli stefnanda sjúkdómi.

       Með því að hafa af ásetningi, eða a.m.k. af gáleysi, látið stefnanda vinna í þessu skaðlega vinnuumhverfi hafi báðir stefndu sýnt af sér sök. Einnig sé ljóst að yfirmenn, verkstjórar eða eftir atvikum aðrir starfsmenn stefndu, sem stefndu bera skaðabótaábyrgð á skv. reglum um vinnuveitendaábyrgð, hafi með sama hætti sýnt af sér sök með því að láta stefnanda vinna við umræddar aðstæður. Stefnandi byggi í því sambandi einnig á reglum skaðabótaréttar um nafnlaus og uppsöfnuð mistök þar sem ekki sé hægt að benda á einn tiltekinn starfsmann stefnda sem hafi valdið tjóni stefnanda.

        Loks byggi stefnandi á því að gera verði strangar kröfur til stefndu að þessu leyti, enda sé um að ræða fyrirtæki á sviði byggingariðnaðar og sölu á byggingartengdum vörum og vörum sem ætlað sé að koma í veg fyrir skaðlega myglu. Stefndu séu sérfróðir á þessu sviði og því eigi sjónarmið skaðabótaréttar um strangt sakarmat og jafnvel svokallaða sérfræðiábyrgð við í málinu.   

        Varðandi sönnunarbyrði í málinu verði að hafa í huga að stefnandi hafi gert allt sem í hans valdi standi til að sanna tjón sitt, orsakatengsl og afleiðingar, með öflun matsgerðar dómkvaddra matsmanna, sem staðfesti tjón hans, orsakatengsl og varanlegar afleiðingar, og með framlagningu fjölda gagna. Í ljósi aðstöðumunar á stefnanda og stefndu, byggi stefnandi á því að sönnunarbyrði málsins færist á stefndu, sem þurfi að sanna að þeir hafi ekki valdið tjóni stefnanda með saknæmum og ólögmætum hætti. Hvað sönnun í málinu snerti verði einnig að hafa í huga að stefndu hafi vanrækt að tilkynna Vinnueftirliti ríkisins um atvinnusjúkdóm stefnanda, einkenni starfsmanna og hinar hættulegu vinnuaðstæður. Slík tilkynning var ekki send fyrr en 30. ágúst 2013 þegar stefnandi var hættur störfum. Úttekt Vinnueftirlits á aðstæðum á vinnustaðnum meðan stefnandi vann þar frá síðsumri 2010 til nóvember 2012 liggi því ekki fyrir.

        Með matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna séu orsakatengsl staðfest, en í henni segi: „Með vísan til rökstuðnings í kafla 10.1. telja matsmenn að orsakatengsl séu á milli sjúkdóms og einkenna matsbeiðanda og starfsumhverfis hans hjá Húsasmiðjunni frá síðsumri 2010.“

         Síðan segi: „Með vísan til rökstuðnings í kafla 10.1. telja matsmenn að orsök einkenna matsbeiðanda megi rekja til myglusvepps á þáverandi vinnustað matsbeiðanda hjá Húsasmiðjunni.“

        Stefndu, og eftir atvikum verkstjórar og yfirmenn stefndu, hafi mátt vita að mygla sú sem hafði verið umlykjandi á vinnustaðnum gæti valdið starfsmönnum tjóni, ekki síst eftir að bera fór verulega á einkennum hjá starfsmönnum strax árið 2010 og á fyrri hluta árs 2011. Þá hefði stefnandi verið látinn vinna áfram á vinnustaðnum við myglusýkt tæki, búnað o.fl., þó að heilsutjón hans vegna þess væri byrjað að koma fram. Tjón stefnanda sé því sennileg afleiðing af aðgerðaleysi stefndu og því að hann skyldi látinn vinna á hinum sýkta vinnustað.

        Í þessu sambandi athugist einnig að skaðleg áhrif myglu eða svokallaðs myglusvepps hafa lengi verið kunn og hafi mátt vera stefndu kunn á þessum tíma. Umhverfisstofnun hafi lengi varað við skaðlegum áhrifum myglu og veitt almenningi og fyrirtækjum ráðgjöf í þeim efnum. Þá hafi dómstólar staðfest hvernig íbúðarhúsnæði geti verið óíbúðarhæft vegna heilsuspillandi áhrifa myglusvepps, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 744/2015. 

        Um hina saknæmu og ólögmætu háttsemi stefndu, og eftir atvikum starfsmanna stefndu, vísar stefnandi enn fremur til laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sem að mati stefnanda voru þverbrotin, sbr. 6. gr., 13. gr. 14. gr. og 17. gr. laganna. Þá vísar stefnandi til 18. gr. laganna varðandi rannsókn á starfsskilyrðum og 21. og 23. gr. varðandi ábyrgð og skyldur verkstjóra.

        Strax árið 2010 og fyrri hluta ársins 2011 hafi verið farið að bera á atvinnusjúkdómseinkennum hjá stefnanda og öðrum starfsmönnum stefndu og verkstjórum stefnda hefði þá mátt vera ljós hættan. Í síðasta lagi hefðu viðvörunarljós átt að kvikna hjá verkstjórunum þegar fyrir lágu rannsóknir fagaðila sem stefnandi telji reyndar að hafi verið aflað allt of seint.

        Þá vísi stefnandi jafnframt til reglugerðar nr. 553/2004 um verndun starfsmanna gegn hættu á heilsutjóni af völdum efna á vinnustöðum og telji stefndu eða starfsmenn hafa brotið gegn mörgum ákvæðum hennar. Ljóst sé að mygla eða svokallaður myglusveppur séu efni í skilningi a-liðar 3. gr. reglugerðarinnar og raunar varasamt efni í skilningi b-liðar 3. gr. Reglugerðin eigi því við í málinu.

       Stefnandi telji stefndu hafa brotið gegn 4. gr. reglugerðarinnar með því að láta ekki fara fram neitt áhættumat í samræmi við hana eða í öllu falli með ófullnægjandi áhættumati. Með fullnægjandi áhættumati í samræmi við reglugerðarákvæðið hefði e.t.v. mátt minnka eða koma í veg fyrir tjón stefnanda. Þá hafi stefnendur brotið gegn ákvæðum 5. gr. reglugerðarinnar um forvarnir. Stefndu hefðu átt að grípa til nauðsynlegra forvarna, loftræsti- og hreinlætisráðstafana í samræmi við ákvæðið til að koma í veg fyrir skaðleg áhrif myglu á vinnustaðnum. Það hafi stefndu ekki gert.

         Þá hafi stefndu brotið gegn 7. gr. reglugerðarinnar með því að grípa ekki til neinna viðhlítandi ráðstafana vegna myglunnar og hættunnar sem heilsu starfsmanna var búin af völdum hennar. Stefndu hafi m.a. átt að gera reglulegar mælingar á skaðlegri myglu í húsnæðinu og í tækjum og búnaði og gera ráðstafanir til að vernda starfsmenn, t.d. með viðunandi loftræstingu og hreinsun. Það hafi stefndu ekki gert. Stefndu hafi einnig brotið gegn 10. gr. og 12. gr. og 2. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar

        Þá hafi stefndu einnig brotið gegn reglum nr. 581/1995 um húsnæði vinnustaða, og það hafi verið til þess fallið að valda stefnanda tjóni og auka það.

        Með vísan til alls framangreinds sé ljóst að stefndu, og eftir atvikum starfsmenn stefndu, hafi með saknæmum hætti brotið gegn ákvæðum framangreindrar reglugerðar og þannig orðið valdir að tjóni stefnanda.

         Þá verði að telja að stefndu hafi brotið gegn reglugerð nr. 540/2011 um tilkynningu og skráningu atvinnusjúkdóma, m.a. með því að halda ekki skrá yfir sjúkdóma sem þeir máttu hafa rökstuddan grun eða vitneskju um að ættu rætur að rekja til aðstæðna á vinnustaðnum, sbr. 6. gr. reglugerðarinnar. Hefðu einkenni starfsmanna frá upphafi verið skráð hefði eftir atvikum mátt grípa til viðeigandi ráðstafana vegna myglunnar og minnka líkur á heilsutjóni. Það hafi ekki verið gert og hafi það verið til þess fallið að valda tjóni stefnanda og auka það. Einnig beri stefndu hallann af þessu þegar komi að sönnun í málinu.

          Þá sé vísað til reglna nr. 764/2001 um verndun starfsmanna gegn hættu á heilsutjóni af völdum líffræðilegra skaðvalda á vinnustöðum, sem telja verði að stefndu hafi brotið, en mygla, eða svokallaður myglusveppur, sé líffræðilegur skaðvaldur í skilningi a-liðar 1. mgr. 3. gr. reglnanna. Þá hafi stefndu brotið gegn 4. gr. reglnanna með því að gera ekkert áhættumat vegna myglunnar sem þeir vissu eða máttu vita að var á vinnustaðnum. Í öllu falli hafi áhættumat stefndu ekki verið fullnægjandi. Þá hafi stefndu brotið gegn 6. gr. reglnanna með því að grípa ekki til neinna viðunandi ráðstafana til að koma í veg fyrir skaðleg áhrif myglu á starfsmenn og gegn 7. gr. þeirra með því að upplýsa Vinnueftirlitið ekki um þá hættu sem hafi verið á vinnustaðnum. Brotið hafi verið gegn 9. gr. reglnanna með því að starfsmenn stefndu fengu enga þjálfun eða upplýsingar um hugsanlegt heilsutjón sem þeir gætu beðið með því að vinna á hinum myglusýkta vinnustað. Einnig hafi stefndu brotið gegn 9. gr. og 3. mgr. 10. gr. með því að upplýsa ekki starfsmenn nægilega fljótt um þá verulegu myglu sem stefndu hafi vitað eða mátt vita af í húsinu og valdið gæti þeim veikindum. Þá hafi stefndu einnig brotið gegn 11. gr. og 13. gr. reglnanna.

        Fjárkrafa stefnanda sundurliðist í nokkra þætti og vísist til meginreglu skaðabótaréttar um að tjónvaldur skuli bæta tjónþola allt tjón sem hann verði fyrir. Einnig sé vísað til 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 um skyldu stefndu til greiðslu skaðabóta til stefnanda, sem og til laganna í heild.

        Samkvæmt matsgerð dómkvaddra matsmanna hafi þjáningatímabil stefnanda verið 313 dagar, það er veikur án þess að vera rúmfastur. Fyrir hvern dag sem stefnandi hafi verið veikur án rúmlegu í skilningi ákvæðisins reiknist 700 kr. Fjárhæðin sé uppreiknuð miðað við lánskjaravísitölu í september 2016 þegar krafan hafi fyrst verið höfð uppi, sbr. 15. gr. Vísitalan hafi verið 8587 stig þegar kröfubréf var sent til stefndu í september 2016. Krafa stefnanda sé því svofelld, sbr. 3., 15. og 29. gr. skaðabótalaga : 313 dagar x 700 x (8587/3282) = 573.252 krónur.

        Krafa stefnanda um miskabætur taki mið af 4. gr. skal. og matsgerð dómkvaddra matsmanna. Stefnandi, sem verið hafi [---] gamall þegar hann varð fyrst óvinnufær af völdum atvinnusjúkdómsins í september árið 2011, sé metinn til 10 miskastiga af dómkvöddum matsmönnum. Fjárhæð bótanna taki mið af grunnfjárhæðinni, 3.360.000 krónum, uppfærðri miðað við lánskjaravísitölu í september 2016, sbr. 15. gr. skal. Krafa stefnanda er því svofelld, sbr. 4., 15. og 29. gr. skal.: 3.360.000 x (8587/3282) x 10 miskastig = 879.108 krónur.       

        Varanleg örorka stefnanda sé 50% samkvæmt matsgerð dómkvaddra matsmanna en þar séu árstekjur hans árin 2007 til 2009 einnig raktar. Stöðugleikatímapunktur samkvæmt matsgerð hafi verið 30. nóvember 2012 og launavísitala þá 437,7 stig. Kröfugerð stefnanda miðist við ofangreint og sé uppreiknuð miðað við launavísitölu á stöðugleikatímapunkti. Krafa stefnanda reiknist því svo, sbr. 5.–7. gr. skal.:

2007: (3.200.977 x 1,08) x (437,7/319,1) = 4.741.940

2008: (3.357.028 x 1,08) x (437,7/345,0) = 4.599.771

2009:( 3.382.909 x 1,08) x (437,7/358,6) = 4.459.440

 (4.741.940 + 4.599.771 + 4.459.440) / 3 = 4.600.384

                                                              4.600.384.x 2,055 x 50% = 4.726.895 krónur.

        Samtals sé því fjárkrafa stefnanda svofelld:

Þjáningabætur            573.252 krónur

Varanlegur miski       879.108 krónur

Varanleg örorka      4.726.895 krónur

Samtals                   6.179.255 krónur 

        Stefnandi geri kröfu um 4,5% vexti skv. 1. mgr. 16. gr. skal. af 1.452.360 krónum, samtölu þjáningabóta og bóta fyrir varanlegan miska, frá 6. október 2010 til 30. nóvember 2012. Miðað sé við fyrrnefnda daginn því þann dag hafi stefnandi fyrst orðið óvinnufær vegna sjúkdómsins. Upphafsdagur metinnar örorku (stöðugleikapunktur) hafi verið síðarnefnda daginn, 30. nóvember 2012. Frá þeim degi sé því krafist 4,5% vaxta af 6.179.255 krónum til 15. október 2016, en þann dag hafi verið liðinn mánuður frá kröfubréfi til stefndu. Frá þeim degi sé þannig krafist dráttarvaxta skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 til greiðsludags.

        Varakrafa stefnanda sé um viðurkenningu bótaskyldu stefndu vegna líkamstjóns stefnanda, þ.e. vegna atvinnusjúkdóms þess sem stefnandi hafi hlotið af völdum myglusvepps á vinnustaðnum í starfi sínu hjá stefndu á árunum 2010 til 2012, þ.e. frá síðsumri 2010 til 30. nóvember 2012.

        Varakrafan gangi skemmra en aðalkrafan að því leyti að ekki sé sett fram sérstök fjárkrafa í henni, heldur aðeins viðurkenningarkrafa. Að öðru leyti byggi varakrafan, eðli máls samkvæmt, á öllum sömu málsástæðum og aðalkrafan. Stefndi hafi sannað tjón sitt með matsgerð og framlögðum gögnum og fært ítarleg rök fyrir bótaskyldu. Hann hafi því augljósa lögvarða hagsmuni af því að fá bótaskyldu stefndu a.m.k. viðurkennda með dómi og sé vísað hér til 2. mgr. 25. gr. einkamálalaga.

        Til viðbótar þeim lagarökum sem þegar séu rakin sé vísað til meginreglna skaðabótaréttar, einkum sakarreglunnar og reglunnar um vinnuveitendaábyrgð, sem og til skaðabótalaga nr. 50/1993. Vísað sé til laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og til þeirra reglugerða og stjórnvaldsfyrirmæla sem sett hafa verið á grundvelli þeirra. Vísað sé í heild til eftirfarandi reglugerða og reglna:

-         Reglugerð nr. 553/2004 um verndun starfsmanna gegn hættu á heilsutjóni af völdum efna á vinnustöðum.

-         Reglur nr. 581/1995 um húsnæði vinnustaða.

-         Reglugerð nr. 540/2011 um tilkynningu og skráningu atvinnusjúkdóma.

-         Reglur nr. 764/2001 um verndun starfsmanna gegn hættu á heilsutjóni af völdum líffræðilegra skaðvalda á vinnustöðum.

        Einnig sé vísað til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og styðjist krafa um málskostnað við 1. mgr. 130. gr. þeirra laga. Kröfur um vexti styðjist bæði við skaðabótalög nr. 50/1993 og lög um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Um virðisaukaskatt sé vísað til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

 

IV.

Málsástæður og lagarök stefndu

        Stefndu vísi til þess að atvikalýsing í stefnu sé að mati stefndu í senn einhliða fram sett og röng í meginatriðum og hafni þeir henni því sem rangri og ósannaðri.

        Stefndu byggi á því að engin skilyrði fyrir skaðabótaskyldu þeirra séu uppfyllt og ósannað sé að starfsmenn stefndu hafi sýnt af sér saknæma háttsemi, sem unnt sé að leiða af það meinta tjón sem stefnandi telji sig hafa orðið fyrir við störf sín hjá stefndu. Þá þegar bresti bótagrundvöllur í málinu og því beri að sýkna stefndu. Þá sé ósannað að starfsstöðvar stefnanda hafi verið sýktar af heilsuspillandi myglusvepp, líkt eins og haldið sé fram í stefnu. Verði komist að þeirri niðurstöðu að stefnandi hafi komist í tæri við heilsuspillandi myglusvepp sé með öllu ósannað að orsakatengsl séu milli meints myglusvepps á starfsstöðvum stefnanda og meints miska- og örorkutjóns stefnanda. Þá verði ekki fallist á málatilbúnað stefnanda að öðru leyti. Beri stefnandi sjálfur ábyrgð á tjóni sínu vegna eigin sakar, að minnsta kosti að hluta til, þar sem hann tilkynnti stefndu ekki um meint veikindi sín fyrr en a.m.k. ári eftir að þau hófust, að hans eigin sögn. Stefndu hafi því ekki verið unnt að koma í veg fyrir tjón stefnanda.

        Stefndu telja að bótagrundvöllur sé ekki til staðar. Í stefnu sé báðum stefndu gert að sök að hafa af ásetningi eða gáleysi látið stefnanda vinna í skaðlegu vinnuumhverfi um árabil. Háttsemi stefndu beri auk þess að skoða með hliðsjón af reglum um strangt sakarmat og jafnvel sérfræðiábyrgð þar sem um sé að ræða fyrirtæki á sviði byggingariðnaðar og sölu á byggingartengdum vörum. Af meginreglum skaðabótaréttar leiði að stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir meintu tjóni sínu, að bótagrundvöllur sé fyrir hendi og orsakatengsl séu milli meints tjóns og háttsemi stefndu. Stefnandi byggi málatilbúnað sinn á hinni almennu sakarreglu skaðabótaréttar og beri því sönnunarbyrði fyrir því að stefndu hafi sýnt af sér saknæma háttsemi. Stefnandi hafi ekki að nokkru leyti staðið undir þeirri sönnunarbyrði og beri þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefndu.

        Þá eigi tilvísun stefnanda til reglna um strangt sakarmat stefndu sér enga stoð í reglum skaðabótaréttar. Engar sérstakar kröfur séu gerðar til stefndu í þeim lögum sem um félögin gildi sem leitt geti til strangara sakarmats í málinu. Þá hafi stefnandi ekki sýnt fram á hvernig sala stefndu á vörum til þrifa á myglu leiði til þess að þeir hafi slíka sérþekkingu á afleiðingum myglu á einstaklinga að slík sjónarmið eigi við. Í því sambandi vísist til þess að meðal sérfræðinga á sviði heilbrigðisvísinda ríki töluverður vafi um skaðleg áhrif hinna fjölmörgu tegunda myglu og óhugsandi sé að gera strangari kröfur til rekstraraðila Húsasmiðjunnar í þeim efnum en raunverulegra sérfræðinga á þessu sviði. Með sama hætti eigi tilvísanir stefnanda til sérfræðiábyrgðar stefndu ekki við í málinu, auk þess sem öðrum hugtaksskilyrðum slíkrar ábyrgðar sé ekki fullnægt. Þá sé vísað til þess að stefndi Holtavegur 10 ehf. hafi ekki verið eigandi fasteignarinnar að [---] heldur tók hann fasteignina á leigu undir starfsemi [---], sem rekin hafi verið á vegum Holtavegar 10 ehf. Stefndu hafi ekki verið kunnugt um annað en að húsnæðið fullnægði almennt þeim kröfum sem gera mætti til atvinnuhúsnæðis og því verið grandlausir um að ástand húsnæðisins gæti á einhvern hátt verið ófullnægjandi, hvað þá að það gæti verið heilsuspillandi. Stefndi Húsasmiðjan ehf. hafi aldrei verið leigutaki [---] og geti því ekki borið ábyrgð á ástandi húsnæðisins.

        Í stefnu sé vísað til fjölda ákvæða laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sem og afleiddra reglugerða og reglna, án þess að færð séu viðhlítandi rök fyrir því með hvaða hætti stefndu eigi að hafa brotið gegn þeim, að skilyrði umræddra ákvæða séu uppfyllt eða að meint háttsemi stefndu hafi valdið stefnanda tjóni. Ýmist sé vísað til ákvæða sem bersýnilega eigi ekki við um þann ágreining sem uppi er í málinu eða að fyrir liggi að stefndu hafi brotið gegn.

        Málatilbúnaður stefnanda sé því vanreifaður að þessu leyti og beri þá þegar að sýkna báða stefndu af öllum kröfum stefnanda hvað þetta varði. Stefndu hafni öllum slíkum ásökunum enda hafi stefndu uppfyllt allar þær skyldur sem tilvitnuð lög og afleiddar reglugerðir lögðu á stefndu. Þá sé því einnig hafnað að meint brot gegn umræddum ákvæðum geti hafa leitt til meints tjóns stefnanda, verði á það fallist að stefndu hafi að einhverju leyti ekki hagað málum sínum eins og þar sé mælt fyrir um. Í stefnu sé því haldið fram að stefndu hafi látið hjá líða að sinna úttektum, gera áætlanir og framkvæma hvað eina sem mælt sé fyrir um í tilvitnuðum lögum og reglum. Almennt sé ekki gerð sú krafa til leigutaka fasteigna eða fyrirtækja að fylgja eða framkvæma allt það sem fram komi í lögum þessum og reglum, enda að mestu um leiðbeiningar að ræða fremur en sérstaka lagaskyldu, sem beri að framfylgja að viðlagðri sérstakri skaðabótaábyrgð. Stefndu hafi ávallt framfylgt almennum sjónarmiðum og reglum varðandi starfsumhverfi og ávallt gætt þess að húsnæði sé ekki heilsuspillandi. Hafi komið upp tilvik sem þurft hafi að bæta úr hafi ávallt verið gripið til aðgerða þegar í stað til úrbóta. Það sama eigi við í því tilviki sem hér um ræði. Brugðist hafi verið við kvörtunum og ráðstafanir gerðar í samvinnu við eiganda fasteignarinnar. Á endanum hafi starfsemi raftækjaverkstæðis verið flutt annað. Ítrekað sé að tilvitnuð ákvæði geti eingöngu átt við Holtaveg 10 ehf., sem hafi verið leigutaki húsnæðisins. Þá sé ítrekað að stefndi Húsasmiðjan ehf. hafi ekki verið vinnuveitandi stefnanda á þeim tíma sem hann hafði starfsstöð að [---] og beri því enga ábyrgð á þeim veikindum sem stefnandi reki til aðstæðna þar.

        Hvað varði þátt stefnda Holtavegar 10 ehf. liggi ekkert fyrir í gögnum málsins sem bendi til þess að stefnda hafi verið eða mátt vera kunnugt um að myglu kynni að vera að finna í umræddu húsnæði fyrr en í fyrsta lagi 1. ágúst 2011, þegar Ráðtak ehf. skilaði skýrslu sinni sem liggur fyrir í málinu. Fyrir þann tíma hafi ekki legið fyrir neinar tilkynningar um meinta myglu eða meint veikindi af völdum myglu. Því sé með öllu ósannað og beinlínis útilokað að stefndi Holtavegur 10 ehf. hafi haft nokkrar forsendur til þess að bregðast við meintu ástandi með sértækum hætti á þessum tíma. Þá liggi enn fremur fyrir að stefnda Holtavegi 10 ehf. hafi ekki getað verið kunnugt um meint veikindi stefnanda sem hugsanlega mætti rekja til aðstæðna á starfsstöð hans fyrr en stefnandi tilkynnti félaginu um það, en stefnandi leitaði fyrst til læknis þann 9. september 2011. Í kjölfarið hafi stefnandi farið í veikindaleyfi og þegar hann hafi komið aftur til starfa hafi hann hafið störf á öðrum vinnustað, [---]. Stefnandi hafi því ekkert unnið á starfsstöðinni að [---] eftir það tímamark þegar stefnda Holtavegi 10 ehf. hefði fyrst getað orðið kunnugt um meint veikindi hans. Af sömu ástæðu geti meint viðbrögð stefnda Holtavegar 10 ehf. og starfsmanna þess við skýrslu Ráðtaks, eða meintur skortur þar á, ekki með nokkrum hætti hafa valdið stefnanda því tjóni, sem haldið sé fram í stefnu, enda hafi hann ekki verið lengur á staðnum. Því síður geti viðbrögð félagsins og starfsmanna þess við síðar til kominni skýrslu Rannsóknarþjónustunnar Sýnis ehf. komið til álita hvað það varði.

        Þótt aðgerðir stefnda og viðbrögð við skýrslunum tveimur hafi samkvæmt framangreindu engin áhrif getað haft á meint veikindi stefnanda sé ítrekað að það sé rangt sem fram komi í stefnu að stefndi Holtavegur 10 ehf. hafi ekki brugðist við ábendingum í skýrslunum í því skyni að koma í veg fyrir tjón starfsmanna. Þegar í kjölfar fyrri skýrslunnar hafi verið hafist handa við úrbætur á húsinu, m.a. til að koma í veg fyrir leka, enda hafi komið fram við seinni skoðun að engin sjáanleg mygla væri í húsinu. Þá liggi fyrir að um leið og stefndi gerði grein fyrir meintum veikindum sínum hafi hann farið í leyfi og þegar hann hafi komið aftur til starfa hafi hann hafið störf á annarri starfsstöð þar sem aldrei hafi orðið vart við myglusvepp. Að lokum hafi stefndu látið gera aðra úttekt á húsnæðinu í því skyni að fá sem bestar upplýsingar um ástand þess. Því sé því hafnað að stefndu hafi látið hjá líða að bregðast við grunsemdum um myglu í húsnæðinu eftir að þær vöknuðu.

        Ekki liggur fyrir hvorn stefndu stefnandi telji bera ábyrgð á meintum flutningi sýktra tækja og tóla frá [---] yfir á hina nýju starfsstöð stefnanda, en stefndi Holtavegur 10 ehf. hafi engan tækjabúnað flutt, hvað þá myglusýktan, yfir á hina nýju starfsstöð. Hið sama eigi við um stefnda Húsasmiðjuna ehf. Öllum fullyrðingum stefnanda um annað sé hafnað sem röngum og ósönnuðum. Í stefnu komi m.a. fram að sýkt vörubretti hafi verið flutt í starfsstöðina að [---]. Þetta sé með öllu ósannað og í raun fjarstæðukennt að halda slíku fram. Ósannað sé að vörubretti, sem voru á starfsstöðinni að [---], hafi endað á [---] frekar en á öðrum starfsstöðvum stefndu um allt land. Þá hafi yfirmaður stefnanda upplýst að stefndi hafi verið gjarn á að hirða muni úr húsnæðinu að [---] sem átti að farga, en það hafi honum verið heimilt að gera. Með vísan til framangreinds sé ljóst að stefndi Holtavegur 10 ehf. hafi athafnað sig með öllu í samræmi við ákvæði laga og reglna, sem og við aðrar skyldur sínar sem vinnuveitandi stefnanda.

        Hvað varði meinta saknæma háttsemi stefnda Húsasmiðjunnar ehf. og starfsmanna félagsins sé vísað til þess að stefndi hafi ekki verið vinnuveitandi stefnanda á þeim tíma þegar hann var við störf á [---]. Því hafi stefnda verið ómögulegt að aðhafast nokkuð á því einu og hálfa ári, sem stefnandi var þar við störf og telji sig hafa verið veikan af völdum myglusvepps. Á starfstíma sínum fyrir stefnda Húsasmiðjuna ehf. hafi stefnandi verið við störf að [---]. Umrætt húsnæði hafi aldrei verið sýkt af myglusvepp. Þá þegar bresti allar forsendur fyrir því að fella bótaábyrgð á stefnda Húsasmiðjuna ehf., sem hafi aldrei haft tilefni til þess að láta fara fram sérstaka rannsókn á umræddu húsnæði, enda aldrei komið kvartanir um meinta myglu í húsnæðinu, hvorki frá stefnanda né öðrum starfsmönnum. Fullyrðingar stefnanda um að tæki og tól á starfsstöðinni að [---] hafi verið haldin myglu séu með öllu ósannaðar. Fullyrðingar stefnanda séu með öllu ósannaðar og þeim mótmælt sem röngum og ósönnuðum. Með sama hætti og varði meinta saknæma háttsemi stefndu hvíli sönnunarbyrði um orsakatengsl milli háttsemi stefndu og meints tjóns stefnanda alfarið á stefnanda sjálfum. Stefnandi hafi í engu sýnt fram á slík orsakatengsl og stefndu hafni málatilbúnaði stefnanda sem röngum og ósönnuðum.

        Stefnandi haldi því fram að starfsstöð stefnanda að [---] hafi verið sýkt af skaðlegum myglusvepp allt frá árinu 2010, sem hafi valdið stefnanda því meinta tjóni sem hann krefjist bóta fyrir. Þá sé því haldið fram að seinni starfsstöð stefnanda að [---] hafi sýkst af sama myglusvepp við það að óskilgreind tæki og tól hafi verið flutt þangað frá [---] árið 2012, og myglusýkt vörubretti hafi valdið því að meint veikindi stefnanda hafi ágerst.

        Samkvæmt lýsingum stefnanda einkennist meint veikindi hans m.a. af slappleika, þreytu, viðvarandi kverkaskít, höfuðverk, öndunarfærakvillum, ofnæmisviðbrögðum og meltingartruflunum, eins og fram komi í læknabréfi frá 23. apríl 2014. Um rökstuðning fyrir orsakatengslum milli meintrar myglusýkingar og framangreindra einkenna vísi stefnandi einungis til þess sem fram kemur í matsgerð og áðurnefndra læknisvottorða, sem aflað var árin 2012 og 2013. Af lestri framangreindra gagna sé ljóst að engin læknisfræðileg rannsókn hafi verið gerð á stefnanda, hvorki af hálfu matsmanna né [---], heldur byggi greiningar þeirra eingöngu á frásögn stefnanda sjálfs og kenningum hans um það hverju sé um að kenna. Framangreint mat byggi því ekki á neinum læknisfræðilegum gögnum. Af því leiði að hvorki matsgerð né framlögð læknisvottorð geti talist vera fullnægjandi sönnun fyrir orsakatengslum í málinu, sbr. t.d. dóma Hæstaréttar í málum nr. 8/2003 og 453/2004. Sönnunarbyrðin um þetta atriði hvíli á stefnanda og beri hann hallann af þessum sönnunarskorti í málinu.

        Í þessu samhengi sé rétt að taka fram að þrátt fyrir ítarlegar rannsóknir á hugsanlegum orsakatengslum milli rakaskemmda og myglu í húsnæði og heilsutjóns hjá einstaklingum hafi sérfræðingum ekki tekist að sýna fram á slík tengsl. Vísi stefndu hvað það varðar m. a. til umfjöllunar á vef Umhverfisstofnunar, en þar sé að finna leiðbeiningar til almennings um raka og myglu í híbýlum. Með vísan til framangreinds sé beinlínis ótrúverðugt að dómkvaddir matsmenn telji sér unnt að slá slíkum orsakatengslum föstum, þvert á almenna þekkingu á sviði læknisfræði og án þess að gera nokkra rannsókn á stefnanda eða meintum myglusvepp eða færa nokkur rök fyrir niðurstöðu sinni. Matsmenn geri t.d. enga tilraun til að meta það umhverfi sem stefnandi hafi búið við, þ.e. aðstæður á heimili hans, og hvort aðstæður þar eða aðrir þættir hafi haft áhrif á heilsu hans. Þá sé ekki fjallað um fyrri veikindi stefnanda svo nokkru nemi.

        Fullyrðingar í stefnu um orsakatengsl milli meints myglusvepps og meints heilsufarstjóns stefnanda beri einnig að skoða í ljósi fyrri heilsufarssögu stefnanda. Fyrir liggur og fram kemur í gögnum málsins að stefnandi þjáðist af [---]. Vegna þessara sjúkdóma hafi stefndi verið reglulega fjarverandi frá vinnu, eins og fram komi á vinnuyfirliti sem liggi fyrir í málinu.

        Þrátt fyrir langa sjúkdómasögu stefnanda hafi engin gögn verið lögð fram af hálfu hans með stefnunni um heilsufar hans fyrir árið 2011, að frátalinni stuttri tilvísun í læknabréfi. Þá hafi engin slík gögn verið lögð fram fyrir dómkvadda matsmenn, þó að tveir læknar hafi lengi haft reglulegt eftirlit með stefnanda vegna óskyldra heilsufarsvandamála hans. Því sé ljóst að matsmenn hafi ekki haft þau gögn sem nauðsynleg hafi verið til að meta heilsufar stefnanda. Á þessu beri matsbeiðandi ábyrgð og beri hallann af skorti á gögnum.

        Með vísan til framangreinds sé ljóst að stefnandi hafi um langt skeið glímt við ýmiss konar heilsufarsvanda, sem ekkert tengist meintum myglusvepp sem hafi fundist í húsnæðinu að [---]. Allt séu þetta sjúkdómar sem séu til þess fallnir að raungerast í þeirri örorku og miska sem hann krefji stefndu um bætur fyrir. Við mat á orsakatengslum hafi fyrri heilsufarssaga tjónþola umtalsvert gildi og það eigi sérstaklega við þegar tjónþoli eigi sér langa sjúkdómasögu, eins og eigi við um stefnanda. Þrátt fyrir það sé ekkert fjallað um hugsanleg áhrif fyrri veikinda stefnanda á meinta örorku og miska hans í matsgerð. Það bendi eindregið til þess að matsmenn hafi einfaldlega ekki tekið afstöðu til þessa áhrifaþáttar við matið. Þetta veiki sönnunargildi matsgerðarinnar og leiði til þess að hún sé með öllu ómarktæk. Stefndu telji með vísan til þessa að meta beri meint tjón stefnanda með hliðsjón af fyrra heilsufari hans.

        Í því skyni að upplýsa um heilsufarssögu stefnanda og áhrif hennar á meint tjón hans hafi stefndu í greinargerð skorað á stefnanda að leggja fram öll tiltæk læknisvottorð og önnur nauðsynleg læknisfræðileg gögn um þá sjúkdóma, sem hann hafi verið haldinn á þeim tíma sem um ræði í málinu og vísað sé til í læknabréfi.

         Þá vísi stefndu til bréfs Kristins Tómassonar, yfirlæknis Vinnueftirlitsins. Þar komi m.a. fram að eftir skoðun á fasteigninni [---] hafi verið gerðar minni háttar athugasemdir. Þá komi einnig fram í bréfinu, og sé haft eftir [E] þann 30. maí 2012, að einkenni stefnanda hafi lagast þegar flutt hafi verið í nýtt húsnæði. Þá segi í bréfinu að þegar stefnandi hafi verið farinn úr umhverfinu að [---] hafi einkenni gengið til baka og lækninum sé ekki kunnugt um varanleg einkenni vegna þessa. Samkvæmt lýsingu læknisins  sé því mögulegt að stefnandi hafi fengið tímabundin einkenni sem rekja megi til vinnuumhverfis hans.

        Það sé almenn regla í skaðabótarétti að tjónþoli beri tjón sitt sjálfur að hluta til eða að öllu leyti í samræmi við þá ábyrgð sem hann beri á því. Verði fallist á það með stefnanda að hann hafi beðið tjón, sem rekja megi til aðbúnaðar á vinnustað, sé byggt á því að stefnandi beri engu að síður alla ábyrgð á eigin tjóni, en í öllu falli ábyrgð á hluta þess, sbr. 2. mgr. 26. gr. laga nr. 46/1980. Samkvæmt framangreindu ákvæði hafi stefnanda borið að tilkynna stefnda Holtavegi 10 ehf. tafarlaust um hvoru tveggja meint veikindi sín og þær aðstæður á vinnustað sem hann teldi orsaka þau. Stefnandi haldi því fram í stefnu að hann hafi verið veikur allt frá því að hann hóf störf á [---] sumarið 2010 og ekkert liggi fyrir um annað en að stefnandi hafi frá upphafi rakið meint veikindi sín til meintrar myglusveppasýkingar. Þrátt fyrir það hafi hann í rúmt ár hvorki leitað til læknis né tilkynnt stefndu um meint veikindi og meinta orsök þeirra. Með tilliti til þess hversu veikur stefnandi segist hafa verið og um hversu langt tímabil sé að ræða beri að leggja til grundvallar að stefnandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi í skilningi 23. gr. a í skaðabótalögum nr. 50/1993 með því að hafa ekki sinnt tilkynningarskyldu sinni. Þá sé á það bent að stefnandi hafi heimsótti vinnustað sinn til að fara í kaffi meðan hann var í veikindaleyfi og [---].

         Þessi gáleysislega háttsemi stefnanda hafi óhjákvæmilega leitt til þess að Holtavegi 10 ehf. og stefndu báðum hafi ekki gefist neinn kostur á því að bregðast við meintum veikindum stefnanda eða öðrum aðstæðum. Jafnframt verði að ætla að framangreind háttsemi stefnanda sé meginorsök þeirrar örorku og þess miska sem hann telji sig hafa orðið fyrir, ekki síst að teknu tilliti til þess um hversu langt tímabil sé að ræða. Verði þannig óhjákvæmilega að leggja það til grundvallar að meint tjón hafi þegar verið orðið að veruleika þegar stefndi tilkynnti loks um veikindi sín rúmu ári eftir að þau eiga að hafa gert vart við sig.

       Með vísan til framangreinds byggja stefndu á því að samkvæmt frásögn stefnanda sjálfs hafi honum mátt vera það ljóst að vinnuaðstæður hans kynnu að vera valdar að veikindum hans og því hafi honum borið að tilkynna um það. Það hafi hann ekki gert þrátt fyrir skýra lagaskyldu og því beri hann, vegna stórkostlegs gáleysis sín, ábyrgð á eigin tjóni, í það minnsta að meginhluta. Sé um það vísað til fjölda dómafordæma Hæstaréttar, svo sem Hrd. 101/2009, Hrd. 1997, bls. 2663, Hrd. 1996, bls. 4139, og Hrd. 1978, bls. 593.  

         Þá byggi stefndu á því að þeir séu ekki réttir aðilar að málinu. Almennt beri eigandi fasteignar ábyrgð á ástandi hennar en ekki leigutakar. Stefnanda hafi því borið að beina kröfum sínum að eiganda fasteignarinnar en ekki vinnuveitendum. Stefnandi fullyrði að ástand fasteignarinnar hafi verið með þeim hætti að hann hafi veikst. Leigutaka fasteignarinnar, stefnda Holtavegi 10 ehf., hafi ekki verið kunnugt um ástand hennar þegar leigusamningur var gerður, hvað þá að stefndi Húsasmiðjan ehf. hafi mátt vita um ástand fasteignar, sem tekin hafi verið á leigu áður en stefndi Húsasmiðjan ehf. keypti rekstur Holtavegar 10 ehf. Stefnanda hafi því borið að beina kröfum sínum að eiganda fasteignarinnar en ekki að leigutökum.

        Stefndu gera hvor um sig kröfu um að stefnandi greiði sér málskostnað að skaðlausu og vísa um það til XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 129. gr. og 130. gr.

        Stefndu byggja kröfur sínar meðal annars á ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993, almennum reglum skaðabótaréttar og lögum nr. 40/1980, einkum 2. mgr. 26. gr. laganna um eigin sök stefnanda. Þá er vísað til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

 

 

 

V.

Niðurstaða

        Krafa stefnanda um að stefndu beri að bæta honum tjón sitt er byggð á almennri sakarreglu skaðabótaréttar og meginreglu skaðabótaréttar um vinnuveitendaábyrgð. Stefndu hafi valdið honum tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti með því að láta hann vinna við hættulegar aðstæður frá síðsumri árið 2010 til nóvemberloka 2012 í myglusýktu húsi að [---] og síðan á annarri starfsstöð, þar sem myglusýkt tæki og búnaður hafi verið og áfram valdið honum tjóni. Um fjárhæð tjóns og orsök þess byggir stefnandi á matsgerð dómkvaddra matsmanna, dags. 25. ágúst 2016.

        Stefnandi byggir á því að stefnda Holtavegi 10 ehf. hafi verið eða mátt vera kunnugt um myglusvepp í húsinu þegar flutt var í húsnæðið að [---]. Fyrir liggur að eftir að flutt var í húsnæðið kom í ljós við skoðun að leki var í húsnæðinu og fúkkalyktar varð vart. Í samvinnu við leigutaka, stefnda Holtaveg 10 ehf., réðst eigandi húsnæðisins, [---] þegar í úrbætur á húsnæðinu og gerði við leka. Eftir umkvartanir starfsmanna vegna fúkkalyktar lét stefndi Holtavegur 10 ehf. gera örverumælinu á húsnæðinu og fram kom að myglusveppur væri í húsinu. Að mati Ráðtaks sf., sem gerði mælingarnar, væri sveppur sums staðar yfir hættumörkum og hreinsa þyrfti alla veggi. Þá kom fram í skýrslunni að auðvelt væri að útrýma myglunni. Eftir að starfsmenn kvörtuðu yfir slappleika og aðstæðum í húsnæðinu fóru þeir, að frumkvæði stefnda Holtavegar 10 ehf., til Heilsuverndar til skoðunar. Stefnandi fór í skoðun 9. september 2011 hjá Heilsuvernd og í framhaldi af því fór hann í veikindaleyfi þann 20. september 2011. Hann kom síðan ekki aftur til starfa fyrr en í október sama ár, eftir flutning starfsstöðvarinnar í annað húsnæði að [---]. Eigandi [---] lét þann 10. október sama ár Rannsóknarþjónustuna Sýni ehf. taka örverusýni úr húsnæðinu. Engin mygla var sýnileg í húsnæðinu, einhver mygla greindist í sýnum, en ekki var tekin afstaða til þess hvort hún væri of mikil þar sem engin viðmiðunarmörk væru til um magn myglu. 

        Eins og rakið hefur verið leitaði stefnandi til [E] hjá Heilsuvernd, 9. september 201l og kvartaði undan slappleika og þreytu. Ekki liggur fyrir að hann hafi áður leitað til læknis vegna þessara einkenna eða framvísað vottorði um þau til yfirmanna sinna. Hann fór síðan í veikindaleyfi í framhaldi af þessari læknisskoðun.

        Ekki verður annað ráðið af atvikum en að af hálfu starfsmanna stjórnenda Holtavegar 10 ehf. hafi þegar verið brugðist við umkvörtunum starfsmanna og rannsóknir gerðar á aðstæðum á vinnustað. Ekkert liggur fyrir um það í málinu að stefnda Holtavegi 10 ehf. hafi verið eða mátt vera kunnugt um að myglu væri að finna í umræddu húsnæði fyrr en í fyrsta lagi í ágúst 2011, eftir að Ráðtak ehf. skilaði framangreindri skýrslu, en í kjölfarið voru þegar gerðar ráðstafanir um flutning í annað húsnæði. Í bréfi Vinnueftirlitsins, dags. 4. júní 2012, kemur fram að fyrir liggi skoðanir Vinnueftirlitsins á [---] að [---], og þar hafi komið fram minni háttar athugasemdir.

         Húsasmiðjan ehf. var ekki vinnuveitandi stefnanda þegar hann var við störf á [---]. Ósannað er með öllu að húsnæðið að [---] hafi verið eða sé sýkt af myglusvepp eða að þangað hafi verið flutt tæki, tól eða vörubretti sýkt af myglusvepp. Ekkert tilefni var til þess að gerð yrði rannsókn á húsnæðinu að [---] þar sem engar kvartanir höfðu borist frá stefnanda eða öðrum starfsmönnum um að aðstæðum þar væri ábótavant.

       Matsgerð dómkvaddra matsmanna, dags. 25. ágúst 2016, sem liggur til grundvallar skaðabótakröfu stefnda, er að mati dómsins nokkuð ábótavant. Í niðurstöðum matsgerðar er ekki tilfærðar sjúkdómsgreining samkvæmt Alþjóðlegri tölfræðiflokkun sjúkdóma og skyldra heilbrigðisvandamála (ICD-10).

        Þá er fullyrðingin í matsgerð um að vanheilsa matsbeiðanda sé atvinnusjúkdómur án tilvísunar til læknisfræðilegra heimilda. Virðist hún einhliða byggð á frásögn matsbeiðanda um að hann hafi fundið fyrir einkennum eftir að starfsstöð hans var flutt að [---], og samkvæmt matsbeiðanda hafi kona hans fundið af honum fúkkalykt. Enn fremur segir þar að samstarfsmaður hafi fundið fyrir einkennum og að rannsókn hafi leitt í ljós myglu í húsnæðinu að [---]. [E] hafi ráðlagt matsbeiðanda að hætta störfum, sem hann hafi gert, og þá hafi dregið úr einkennum, sem síðan hafi aftur ágerst þegar hann hóf aftur störf í öðru húsnæði eftir að hlutir hafi verið fluttir af [---] í nýja húsnæðið. Einkennin hafi dvínað eftir starfslok, samkvæmt trúnaðarlækni. Í vottorðum, læknabréfum og skýrslu til Vinnueftirlits, frá [E] er ekki vísað til læknisfræðilegra heimilda fyrir því að mygla/rakaskemmdir á vinnustað leiði til einkenna eins og matsbeiðandi greinir frá.

          Fullyrðing í matsgerð um að orsakatengsl séu milli sjúkdóms eða einkenna matsbeiðanda og starfsumhverfis hjá Húsasmiðjunni er einnig, eins og fyrrgreind ályktun um atvinnusjúkdóm,  án tilvísunar til læknisfræðilegra heimilda. Í rökstuðningi í matsgerðinni fyrir því hvort mygla og raki í í atvinnuhúsnæði leiði til vanheilsu sem komi heim við veikindalýsingu stefnanda er engin umræða í ljósi þekktra skilyrða fyrir læknisfræðilegum orsakatengslum. Aðspurður fyrir dómi við aðalmeðferð sagðist [B] matsmaður við aðalmeðferð kannast við umrædd skilyrði, en skýrði ekki af hverju þeim var ekki beitt í þessu tilviki. 

       Í matsgerð er ekki tekin afstaða til vöntunar á rökstuðningi í læknisvottorðum eða skorts á læknisfræðilegum heimildum þegar haldið er fram tengslum ytra umhverfis, starfsstöðvar, myglu, raka í húsnæði eða samspili þessara þátta við einkenni stefnanda.

        Samkvæmt matsgerðinni og framburði matsmanna fyrir dómi var ekki aflað sjúkraskrárgagna um samskipti stefnanda við heilbrigðiskerfið eða lækna [---], heldur byggt á vottorðum og skrifum [E] og [F] á tímabilinu 2010 til 2012, sem stefnandi lagði matsmönnum til og frásögn stefnanda. Samkvæmt stefnanda hafi hann með hléum verið útsettur í húsnæðinu [---] frá síðsumri 2010 til september 2011 og hafi síðan unnið áfram frá október 2011 til nóvember 2012 á [---] að [---]. Fyrir liggur að hann lét af störfum í ágúst 2012. Í matsgerðinni er ekki rætt um eða metið hvaða þýðingu aðrir sjúkdómar stefnanda gætu haft fyrir almenna líðan, hin ýmsu sjúkdómseinkenni og kvartanir sem hann segir frá á matsfundi á fyrrnefndu tímabili. Þegar gögn málsins eru skoðuð, einkum upplýsingar frá heilsugæslu, sérfræðilæknum og Landspítala, kemur í ljós að frásögn stefnanda, sem höfð er eftir honum á matsfundi um heilsufar á árunum 2010 til 2012, er mjög frábrugðin því sem fram kemur í umræddum sjúkraskrárgögnum.Virðist stefnandi hafa gert lítið úr versnandi heilsu sinni og þeim heilsufarsáföllum sem hann gekk í gegnum á umræddu tímabili. Í sjúkraskrám er greint frá langvinnum og virkum sjúkdómum sem stefnandi hafði áður en starfstöð hans var flutt að [---], en þeir versnuðu á umræddu tímabili með fjölbreyttum sjúkdómseinkennum. [---]. Því er erfiðleikum bundið að greina hvað af þeim almennu einkennum sem stefnandi vill kenna um útsetningu fyrir raka og myglu á vinnustað, stafa í raun frá langvinnum sjúkdómum hans sem fóru versnandi. Slíka greiningu gerðu matsmenn ekki, enda höfðu þeir ekki aflað sér nægilegra upplýsinga um heilsufar stefnanda á matsfundi eða við matsgerðina.

        Í ljósi framanritaðs er fyrirliggjandi matsgerð að mati dómsins reist á veikum grundvelli að því er varðar sönnun um orsakatengsl hins metna heilsutjóns og starfsaðstæðna stefnanda hjá stefndu, sbr. dóm Hæstaréttar nr. 8/2003. Fallist er á það með stefndu að gildi matsgerðarinnar sé þar af leiðandi afar takmarkað fyrir úrlausn málsins.

        Við aðalmeðferð gaf skýrslu [G], [---]. Stefnandi hafi lent í löngum veikindum árin 2007 og 2008 og hjá honum hafi verið meiri fjarvera en hjá öðrum starfsmönnum. Ingi kvað strax hafa verið brugðist við þegar kvartanir komu fram vegna fúkkalyktar í húsnæðinu. Ekki hafi verið kvartað vegna veikinda fyrr en eftir að starfsmenn fóru í læknisskoðun að frumkvæði stefnda Holtavegar 10 ehf. Strax hafi verið brugðist við eftir að leki fannst í húsnæðinu að [---] og farið í viðgerðir. Eftir að niðurstöður skoðana á húsnæðinu lágu fyrir hafi starfsemin strax verið flutt í annað húsnæði.

        Einnig gaf skýrslu við aðalmeðferð [H], sem fyrrverandi samstarfsmaður stefnanda. Hann bar á sama veg og Ingi og kvað strax hafa verið brugðist við í framhaldi af kvörtunum starfsmanna. Hann kvaðst hins vegar ekki kannast við leka í umræddu húsnæði, en eftir að flutt hafi verið í húsnæðið að [---] hafi verið gerðar ýmsar lagfæringar á húsnæðinu af hálfu húseiganda eftir athugasemdir frá stefnda Holtavegi 10 ehf.

        Samkvæmt því sem rakið hefur verið hefur stefnandi ekki sýnt fram á að stefndu hafi brugðist skyldum sínum sem vinnuveitendur á grundvelli laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og þeirra reglugerða og stjórnvaldsfyrirmæla sem sett hafa verið á grundvelli þeirra.

        Stefnandi hefur sönnunarbyrði fyrir því að stefndu eða starfsmenn þeirra hafi sýnt af sér saknæma háttsemi sem unnt sé að leiða af það meinta tjón sem stefnandi telur sig hafa orðið fyrir við störf sín hjá stefndu.

         Af þeim  ástæðum sem raktar hafa verið hefur stefnanda hvorki tekist að sýna fram á saknæma háttsemi starfsmanna stefndu sem leitt hafi til þess meinta tjóns, sem stefnandi telur sig hafa orðið fyrir við störf sín hjá stefndu.stefndu beri bótaábyrgð á eða að stefndu hafi með öðrum hætti brugðist skyldum sínum við stefnanda sem vinnuveitendur hans, né tekist að færa fullnægjandi sönnur á orsakatengsl milli vanheilsu stefnanda og starfsstöðva hans hjá stefndu.  Ber því að sýkna stefndu af kröfum stefnanda.

        Að fenginni þessari niðurstöðu ber, með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að dæma stefnanda til að greiða stefndu sameiginlega málskostnað sem þykir að virtum aðstæðum öllum hæfilega ákveðinn eins og nánar er kveðið á um í dómsorði.

        Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Bjarna Þórs Sigurbjörnssonar, eins og nánar er kveðið á um í dómsorði, greiðist úr ríkissjóði.

        Gætt hefur verið ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

        Dóminn kveður upp Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari sem dómsformaður. Meðdómendur voru Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari og Vilhjálmur Rafnsson fyrrverandi prófessor við Háskóla Íslands.

 

Dómsorð:

         Stefndu, Holtavegur 10 ehf. og Húsasmiðjan ehf., eru sýkn af kröfum stefnanda, [A].

          Stefnandi greiði stefndu sameiginlega 500.000 kr. í málskostnað.

          Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Bjarna Þórs Sigurbjörnssonar, 2.500.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

Þórður Clausen Þórðarson

Kristrún Kristinsdóttir

Vilhjálmur Rafnsson