Ágreiningur þessa máls varðaði verksamning vegna framkvæmda við vöruhúsa- og skrifstofubyggingu að Korngörðum 3 í Reykjavík. Óumdeilt var að verkið hefði tafist vegna seinkunar á afhendingu hönnunargagna en ágreiningur var um hvort hún skýrði þær tafir sem urðu á verkframkvæmdinni. Aðalstefnandi sem var einn af undirverktökum byggði á því að kostnaður hans hefði aukist verulega vegna stórfelldra vanefnda á afhendingu hönnunargagna, verkstaðar og af völdum annarra verktaka. Gagnstefnandi sem jafnframt var aðalverktaki fasteignarinnar,nbsp; byggði á því að hann ætti rétt á afslætti og bótum vegna afnotamissis og galla á verkframkvæmdinni. Ágreiningurinn laut að mörgum verkþáttum, svo sem framleiðslu á stáli og uppsetningu stálvirkis í eigninni, samlokueiningum vegna utanhússklæðningar, samlokueiningum í frysti, samningi um viðbótarstál og samningi um afhendingu á trapízuplötum í skrifstofuhluta. Þá var deilt um hvort gallar hefðu verið á verkinu, svo sem málningu stálvirkis, herslumælingar, litamismun í klæðningu, leka, þykkt samlokueininga í frysti og frágangi. Ágreiningur var um fullnægjandi upplýsingagjöf, afhendingu vinnusvæðis, starfsmannafjölda, tafabætur, tapaðar leigutekjur, gengismun, afhendingu verkstaðar, verkábyrgð, sönnun, þ.m.t sönnunargildi matsgerða, verkstjórn, vaxtakröfu, gengismun, stöðuúttektir, skuldajöfnuð, dráttarvaxtakröfu og verðbætur. Niðurstaða dómsins var sú að gagnstefnandi bæri ábyrgð á þeim töfum sem urðu á reisningu stálvirksins, ekki aðeins vegna tafa á hönnunargögnum og afhendingu verksvæðis, heldur fyrst og fremst vegna tafa á vinnu uppsteypuverktaka sem gagnstefnandi bar ábyrgð á. Að mati dómsins var það forsenda þess að unnt færi að ljúka stálreisningunni að uppsteypu væri lokið. Að því er varðaði utanhússklæðningu á svokölluðum MW samlokueiningum var talið að sú staðreynd að verkið fluttist yfir á tímabil þar sem veðurfar var miklu óhagstæðara hefði aðalstefnandi átt rétt á framlengingu verktímans. Allt að einu var talið að aðalstefnandi yrði að bera ábyrgð á töfum vegna skorts á efni vegna skemmdra og gallaðra samlokueininga, sem mátti rekja til skemmda í flutningi, geymslu efnis og gallaðra pantana. Þá var jafnframt fallist á tafabætur vegna riftunar á samningi um skrifstofuhluta. Fallist var á að aðalstefnandi hefði upplýst gagnstefnda um tafir og jafnframt að hann ætti kröfu um viðbótarkostnað vegna seinkunar á afhendingu verkstaðarins, aukins kostnaðar við yfirstjórn, viðbótarkostnaðar við uppsetningu á stálvirkinu, en hafnað var greiðslu vegna viðbótarverka og stáli sem ekki nýttist. Þá var fallist á að gagnstefnandi hefði verið heimilt að ganga að verkábyrgð, auk þess sem ekki var talið að aðalstefnandi ætti rétt á vöxtum vegna uppgjörs reikninga, en fallist var á gengismun vegna fjögurra reikninga og fyrirframgreiðslu. Þá var jafnframt fallist á tafabætur ýmsar gallakröfur gagnstefnanda, en krafa um tapaðar leigutekjur var talinn tilhæfulaus enda tafabætur umsamdar. Var gagnstefnanda gert að greiða málskostnað vegna þessa þáttar málsins en að öðru leyti féll málskostnaður niður. Loks var hafnað kröfum um aukinn kostnað vegna eftirlits, viðbótarstáls, verðbóta, þykktar samlokueininga, og tafabóta sem gagnstefnandi greiddi til undirverktaka sem annaðist framleiðslu og uppsetningu á hillukerfi svo á gámaleigu vegna búnaðar þessa undirverktaka.