• Lykilorð:
  • Ökuréttarsvipting
  • Ölvunarakstur

D Ó M U R

 Héraðsdóms Austurlands miðvikudaginn 12. desember 2018 í máli nr. S-39/2018:

 Ákæruvaldið

 (Helgi Jensson aðstoðarsaksóknari)

 gegn

 Sölva Snæ Sigurðssyni

 

Mál þetta, sem þingfest var og dómtekið 30. nóvember sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Austurlandi, útgefinni 5. nóvember  2018, á hendur Sölva Snæ Sigurðssyni, […], […], […]:

fyrir umferðarlagabrot á Fljótsdalshéraði, með því að hafa sunnudaginn 23. september 2018, undir áhrifum áfengis og sviptur ökurétti, ekið bifreiðinni […] frá Seyðisfirði í átt til Egilsstaða, en lögreglan stöðvaði aksturinn á Seyðisfjarðarvegi í vetanverðri Fjarðarheiði, til móts við Fardagafoss. Vínandamagn í blóði kærða mældis 2, 23 ‰.

            Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. breytingarlög.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. breytingarlög.“

I.

Fyrirkall í máli þessu var gefið út 13. nóvember sl. og var það birt ákærða 19. sama mánaðar. Við þingfestingu málsins sótti ákærði ekki þing og boðaði ekki forföll og var málið þá dómtekið að kröfu fulltrúa ákæruvalds með vísan til 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Þykir mega jafna framangreindri útivist ákærða til játningar hans með vísan til ofangreindrar lagagreinar, enda fer sú niðurstaða ekki í bága við gögn málsins. Telst brot ákærða því nægjanlega sannað og er það réttilega heimfært til lagaákvæða í ákæru.

II.

            Ákærði, sem er 26 ára, á samkvæmt sakavottorði nokkurn sakaferil að baki vegna umferðarlagabrota, en þeim málum hefur öllum verið lokið með sátta- og sektargerðum sýslumanna og lögreglustjóra. Ákærði var þannig tvívegis, þann 2. september 2014, gert að greiða sektir vegna ölvunarakstur og í bæði skiptin var hann auk þess sviptur ökurétti í 24 mánuði. Þá var ákærði þann 10. október 2017 gert að greiða sekt vegna ölvunaraksturs, en einnig fyrir að aka ökutæki án þess að hafa öðlast ökuréttindi, en hann var þá jafnframt sviptur ökurétti í fjögur ár.

            Ákærði hefur með broti því sem hér er til umfjöllunar gerst sekur um að aka ökutæki undir áhrifum áfengis, en einnig fyrir að aka ökutæki sviptur ökurétti. Að þessu virtu og með hliðsjón af lýstum sakaferli og dómvenju þykir refsing ákærða nú eftir atvikum hæfilega ákveðin 30 daga fangelsi. Jafnframt verður ákærða, sbr. ákvæði 4. mgr. 77. gr. laga nr. 19/1940, gert að greiða 60.000 króna sekt til ríkssjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja, en ella sæti hann fjögurra daga fangelsi.

            Með vísan til tilvitnaðra ákvæða umferðarlaga í ákæru og lýsts sakarferlis skal ákærði sviptur ökurétti ævilangt frá birtingu dómsins að telja.

            Að kröfu ákæruvalds og með vísan til 235. gr. laga nr. 88/1008, ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað, en samkvæmt yfirliti lögreglustjóra er hann 32.633 krónur.

            Af hálfu lögreglustjóra fór með málið Helgi Jensson aðstoðarsaksóknari.

            Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

 

Dómsorð:

            Ákærði, Sölvi Snær Sigurðsson, sæti fangelsi í 30 daga.      

            Ákærði greiði 60.000 króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja, en sæti ella fjögurra daga fangelsi.

            Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt frá birtingu dómsins að telja.

            Ákærði greiði 32.633 krónur í sakarkostnað.