• Lykilorð:

D Ó M U R

 Héraðsdóms Austurlands fimmtudaginn 23. ágúst 2018 í máli nr. E-4/2017:

 Vopnafjarðarhreppur

 (Jón Jónsson lögmaður)

 gegn

 Fremri-Nýpum ehf.

 (Helgi Jóhannesson lögmaður)

 og

 Ungmennafélaginu Einherja (réttargæsla)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 28. júní sl., höfðaði Vopnafjarðarhreppur, Hamrahlíð 15, Vopnafirði, hinn 2. febrúar 2017, gegn Fremri-Nýpum ehf., Fremri-Nýpum, Vopnafirði, og til réttargæslu Ungmennafélaginu Einerja, Íþróttavelli, Vopnafirði.

            Stefnandi krefst þess aðallega að viðurkennt verði með dómi að réttur stefnanda standi til þess gagnvart stefnda, að stofnuð skuli og skráð í fasteignaskrá eignarlóð í eigu stefnanda sem liggur innan merkja Fremri-Nýpa, landnr. 156-473, sem afmarkast af eftirfarandi hnitum, austur – norður; nr. 1, 687023.898 - 595538.719, nr. 2, 687163.787 - 595441.953, nr. 3, 687102.049 - 595377.947, nr. 4, 687036.204 - 595427.464, nr. 5, 686943.614 - 595363.406, nr. 6, 686925.808 - 595385.131, nr. 7, 686959.977 - 595421.844, nr. 8, 686942.721 - 595441.232, nr. 9, 686961.661 - 595457.250, nr. 10, 687005.558 - 595532.051 og þaðan í hnit nr. 1.

            Jafnframt að viðurkennt verði að lóðinni fylgi eignarréttur að auðlindum í jörðu í landi lóðarinnar.

            Til vara er þess krafist að lóðinni fylgi réttur til hagnýtingar jarðhita innan merkja Fremri-Nýpa, sem nauðsynlegur er fyrir rekstur sundlaugar á lóðinni.

            1. varakrafa varðandi afmörkun lóðar:

            Til vara er þess krafist að afmörkun lóðar samkvæmt skilmálum dómkrafna ráðist af eftirfarandi hnitum, austur – norður; nr. 1B, 687023.898 - 595538.719, nr. 2B, 687075.406 595503.125, nr. 3B, 687035,799 – 595444,428, nr. 4B,  687044.710 - 595432.899, nr. 5B 686943.602 - 595362.924, nr. 6B, 686925,743 – 595385,164, nr. 7B, 686959,994 – 595421,763, nr. 8B, 686942.721 - 595441.232, nr. 9B, 686961.661 - 595457.250, nr. 10B, 687005.558 - 595532.051 og þaðan í hnit nr. 1B, og hnitunum, austur – norður, nr. 11B, 687091.686 - 595491.855, nr. 12B, 687163.744 - 595441.989, nr. 13B, 687102.216 - 595378.493, nr. 14B, 687050.618 - 595415.012, nr. 15B, 687067.024 - 595448.348, nr. 16B, 687055.422 - 595458.685 og þaðan í hnit nr. 11B.

            2. varakrafa varðandi afmörkun lóðar.

            Að afmörkun lóðar samkvæmt skilmálum dómkrafna ráðist af eftirfarandi hnitum, austur – norður; nr. 1C, 687023.898 - 595538.719, nr. 2C, 687075.406 595503.125, nr. 3C, 687035,994 – 595444,601, nr. 4C,  686982,012 – 595400,542, nr. 5C, 686953,221 - 595382,278, nr. 6C, 686943,113 – 595394,129, nr. 7C, 686963,329 – 595417,761, nr. 8C, 686942.721 - 595441.232, nr. 9C, 686961.661 - 595457.250, nr. 10C, 687005.558 - 595532.051 og þaðan í hnit nr. 1C, og hnitunum, austur – norður, nr. 11C, 687091.686 - 595491.855, nr. 12C, 687163.744 - 595441.989, nr. 13C, 687102.216 - 595378.493, nr. 14C, 687050.618 - 595415.012, nr. 15C, 687066.998 - 595448.349, nr. 16C, 687055.422 - 595458.685 og þaðan í hnit nr. 11C.

            3. varakrafa varðandi afmörkun lóðar.

            Til vara er þess krafist að afmörkun lóðar samkvæmt skilmálum dómkrafna ráðist af eftirfarandi hnitum, austur – norður; nr. 1C, 687023.898 - 595538.719, nr. 2C, 687075.406 595503.125, nr. 3C, 687035,994 – 595444,601, nr. 4C,  686982,012 – 595400,542, nr. 7C, 686963,329 – 595417,761, nr. 8C, 686942.721 - 595441.232, nr. 9C, 686961.661 - 595457.250, nr. 10C, 687005.558 - 595532.051 og þaðan í hnit nr. 1C, og hnitunum, austur – norður, 11C, 687091.686 - 595491.855, nr. 12C, 687163.744 - 595441.989, nr. 13C, 687102.216 - 595378.493, nr. 14C, 687050.618 - 595415.012, nr. 15C, 687066.998 - 595448.349, nr. 16C, 687055.422 - 595458.685 og þaðan í hnit nr. 11C.

            Jafnframt að lóðinni fylgi réttur til að nýta kaldavatnslind sem liggur innan hnitanna nr. 4C,  686982,012 – 595400,542, nr. 5C, 686953,221 - 595382,278, nr. 6C, 686943,113 – 595394,129, nr. 7C, 686963,329 – 595417,761 og þaðan í hnit nr. 4C.

            Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

            Dómkröfur stefnda eru að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

Við flutning málsins bar stefndi fram þá varakröfu, að stefnandi eigi rétt til landspildu, næst Selárdalslaug í Vopnafirði, með eftirfarandi hnitum, austur – norður; 1, 687006 – 595517, 2, 687029 – 595502, 3, 687001 – 595455, 4, 686990 – 595445, 5, 686968 – 595459, sbr. hnitsetta loftmynd á  dskj. nr. 31.

            Stefndi krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda.

            Réttargæslustefndi hefur ekki látið málið til sín taka.

 

A.

1.         Helstu málsatvik og ágreiningsatriði.

            Í máli þessu freistar stefnandi þess öðru sinni að fá dóm um viðurkenningarkröfur sínar er varðar landspildu umhverfis sundlaugina við Selá í samnefndum dal í Vopnafjarðarhreppi. Dómkröfum hans í hinu fyrra máli málsaðila var vísað frá dómi vegna réttarfarsannmarka, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands frá 29. nóvember 2016 í máli nr. 760/2016, en stefndi hafði krafist frávísunar málsins.

Við málareksturinn nú krafðist stefndi á ný frávísunar málsins. Með úrskurði héraðsdóms þann 19. apríl 2017 var nefndri kröfu stefnda um frávísun málsins hafnað.

 

2.         Nánar um málsatvik.

Málsaðilar vísa um málsatvik til þess að sundlaug víð Selá í Selárdal í Vopnafirði eigi sér langa sögu og að heimildir um hlaðna laug séu til allt frá byrjun 20. aldar, en einnig um að verulegar skemmdir hafi orðið á því mannvirki vegna vatnavaxta í Selá árið 1941.

Aðilar benda á að samkvæmt heimildum hafi bygging sundlaugar við Selá í núverandi mynd hafist á árinu 1947 í landi jarðarinnar Fremri-Nýpa, sem á þeim tíma tilheyrði stefnanda, Vopnafjarðarhreppi. Byggingaraðili hafi verið réttargæslustefndi, Ungmennafélagið Einherji, B-deild, í norðanverðum Vopnafirði. Vísar stefndi til þess að heita vatnið sem í öndverðu hafi verið nýtt fyrir sundlaugina hafi komið úr sjálfrennandi lind og þá með þeim hætti að vatninu hafi verið veitt í steypta þró rétt fyrir utan sundlaugina.

Stefnandi vísar til þess að samhliða ofangreindum framkvæmdum hafi félagsmenn í Einherja unnið að uppbyggingu íþróttavallar í móunum ofar í landinu, sem að stærstum hluta til hafi verið innan landamerkja nefndrar jarðar, Fremri-Nýpa. Hafi það svæði þannig verið tengt sundlaugarvæðinu. Stefnandi bendir á að í heimildum komi fram, þ. á m. í ársreikningi B-deildar Einherja frá árinu 1948, að íþróttavöllurinn hafi verið talinn á meðal eigna félagsins og að það ár hafi völlurinn jafnframt verið afgirtur. Af gögnum verður ráðið að nefnd mannvirki, sundlaugin og íþróttavöllurinn, hafi bæði verið fullfrágengin á árinu 1949, en sérstök vígsla hafi farið fram af því tilefni árið eftir.

Samkvæmt gögnum var stefnandi, Vopnafjarðarhreppur, á meðal þeirra aðila sem styrktu Ungmennafélagið Einherja við nefndar framkvæmdir. Í ársreikningi nefndrar B-deildar var íþróttavöllurinn enn talinn meðal eigna félagsins árið 1970.

 

Samkvæmt fundargerð hreppsnefndar stefnanda þann 4. júní 1962 var tekin ákvörðun um að selja jörðina Fremri-Nýpur til Jósefs H. Þorgeirssonar. Er m.a. vísað til þess að Jósef hafi ákveðið að byggja jörðina upp, en einnig segir í bókuninni: „Undanskilið (er) lóð fyrir sundlaugina og íþróttasvæði.

Ofangreindu til staðfestu liggur fyrir kaupbréf um jörðina Fremri-Nýpur. Bréfið er ódagsett, en það er undirritað af nefndum Jósef og oddvita Vopnafjarðarhrepps. Afsal er ritað á baksíðu kaupbréfsins, en það er dagsett 27. júní 1963. Samkvæmt áritun var bréfinu þinglýst 29. júlí sama ár. Í kaupbréfinu er kveðið á um kaupverðið o.fl., en einnig er skráð svohljóðandi ákvöð um hið selda:

Undanskilin er þó sundlaug, ásamt nauðsynlegu athafnasvæði sem verður mælt út og verður eign Ungmennafélags Vopnafjarðar og deildum þess.

Ágreiningslaust er að aldrei fór fram formleg útmæling á hinu „nauðsynlega athafnasvæði.“ Þá var heldur ekki af hálfu stefnanda gerð nein ráðstöfun þannig að landsvæðið gengi í samræmi við ákvæði kaupbréfsins til réttargæslustefnda, Ungmennafélagsins Einherja. Á hinn bóginn er staðhæft af hálfu stefnanda að engin breyting hafi orðið á nýtingu svæðisins af hálfu félagsmanna ungmennafélagsins við sölu hreppsfélags stefnanda á jörðinni Fremri-Nýpum, en aftur á móti hafi stefnandi, Vopnafjarðarhreppur, farið að sjá meira um svæðið upp úr 1970. Þannig hafi hreppurinn m.a. staðið fyrir greftri skurðar ofan við íþróttavöllinn, líklega á árabilinu 1970-80, en staðhæft er að hann hafi þjónað nauðsynlegum vörnum vegna ágangs vatns um svæðið.

 

Málsaðilar vísa báðir til þess að veturinn 1979/1980 hafi verið borað eftir heitu vatni í næsta nágrenni við Selárdalslaugina og að það hafi borið þann árangur að meira vatn var nýtanlegt en áður. Er óumdeilt að í kjölfar þess hafi stefnandi ráðist í og kostað endurbætur á sundlauginni og í framhaldi af því í raun tekið við allri starfsemi á svæðinu, s.s. varðandi rekstur sundlaugarinnar, umsjón með íþróttavelli, viðhald girðinga, vegarlagningu o.fl., og að það hafi að mestu haldist óslitið síðan. Þannig hafi verulegar lagfæringar farið fram á svæðinu á árunum 1989-1992., sbr. að því leyti fundargerðir hreppsnefndar stefnanda frá 1. september 1988 og 19. september 1991. Er í þeirri síðari m.a. vikið að nauðsyn þess að girða umhverfis sundlaugina, en í máltilbúnaði aðila er miðað við að það hafi verið gert á árinu 1992. Af hálfu stefnanda er á það bent að á þessu tímabili hafi einnig verið unnið að frágangi akvegar að sundlaugarbyggingunni og gerð bílastæða þar við og þá í það horf sem það er nú.

Stefnandi bendir jafnframt á að lind sem liggur á svæði sem afmarkist af núverandi vegarstæði að sundlauginni hafi verið nýtt með kaldavatnslögn allt frá árinu 1950, og að svæðið um lindina hafi verið afgirt á árinu 2014.

 

Samkvæmt gögnum seldi fyrrnefndur Jósef H. Þorgeirsson jörðina Fremri-Nýpur með kaupsamningi, dagsettum 28. mars 1981, til Guðmundar Wiium Stefánssonar. Samningnum var þinglýst 8. febrúar 1991.

Í nefndum kaupsamningi er m.a. vísað til þess að um sé að ræða 70 hektara af ræktuðu landi, auk annars lands jarðarinnar samkvæmt landamerkjaskrá N-Múlasýslu; „svo og öllum hlunnindum og öðru því fylgifé, sem jörðinni hefur fylgt og fylgja ber og er hið selda selt án allra kvaða eða veðbands. Ástand hins selda hefur kaupandi (Guðmundur) kynnt sér og tekið gilt í einu og öllu.“ Tekið er fram að kaupandanum beri að greiða kaupverðið með nánar tilgreinum peningagreiðslum, en einnig með yfirtöku nánar tiltekinna veðskulda sem þá hvíldu á jörðinni.

Samkvæmt gögnum fékk Guðmundur Wiium afsal fyrir jörðinni 30. desember 1990, en í þeim gerningi segir m.a.: „Á eigninni er kvöð, skv. lögum, um forkaupsrétt Vopnafjarðarhrepps.

Guðmundur Wiium afsalaði jörðinni til stefnda, einkahlutafélagsins Fremri-Nýpa, 22. ágúst 2007. Í afsalinu segir m.a. að einkahlutafélagið hafi verið stofnað um búskap Guðmundar og að hann sé eini eigandi félagsins.

 

Eins og áður er fram komið var aðeins hluti nefnds íþróttavallarsvæðis innan upprunalegra landamerkja Fremri-Nýpa, en óumdeilt er að hluti þess er í landi Ytri-Nýpa. Óumdeilt er hins vegar að Selárdalssundlaugin er nærri bökkum Selár í landi Fremri-Nýpa, en liggur nærri landamerkjunum við Ytri-Nýpur.

Með yfirlýsingu jarðareiganda Nýpajarðanna um landamerkin, sem dagsett er 19. desember 2002, voru landamerki jarðanna hnitsett, en einnig merkt inn á yfirlitsmynd, sbr. dskj. nr. 16.

 

Samkvæmt málavaxtalýsingu stefnda var nefnt íþróttasvæði ofan sundlaugar og núverandi akvegar afgirt þegar Guðmundur Wiium gekk frá kaupum sínum á jörðinni Fremri-Nýpum, en þá náði enn fremur girðingin samkvæmt framansögðu langt inn á eignarland Ytri-Nýpa, eins og landamerki milli jarðanna eru í dag. Við nefnd kaup var sundlaugin hins vegar óafgirt og var svo allt til ársins 1992, en þar um vísar stefndi m.a. til ljósmynda frá árinu 1983.

 

Samkvæmt gögnum er svæðið við Selárdalslaug skilgreint sem þjónustusvæði samkvæmt aðalskipulagi Vopnafjarðarhrepps, sem gildir fyrir árin 2006-2026, sbr. dskj. 25.

 

Stefnandi vísar í málavaxtalýsingu sinni til þess að fyrrnefnd umsjón og umráð hreppsfélagsins á landsvæðinu í og við Selárdalslaugina hafi ætíð verið í góðri sátt við réttargæslustefnda, Ungmennafélagið Einherja. Stefnandi bendir á að skráning sundlaugarinnar, með fastanr. 217-1705, og tækjahús, komi fram í fasteignaskrá ársins 2016. Samkvæmt skráningunni er sundlaugin þar enn þá skráð eign Ungmennafélagsins Einherja.

Stefnandi bendir á að sundlaugin sé hjá Þjóðskrá staðsett á lóð með landnr. 156-543, sem hafi ótilgreinda stærð og ekkert lóðamat, en að ekki sé um þinglýsta heimild að ræða, enda hafi hin umþrætta lóð aldrei verið stofnuð í þinglýsingabókum sem sjálfstæð eign.

Um framangreint vísar stefnandi jafnframt til bréfs formanns Ungmennafélagsins Einherja, dagsetts 8. desember 2015, þar sem segir m.a. frá því að samkvæmt bókum félagsins hafi stefnandi sem sveitarfélag tekið endanlega við eignarráðum svæðisins við Selárdalslaugina, en einnig á athafnasvæðinu við hana, þ. á m. íþróttavellinum, í fullri sátt, og þá í kjölfar uppbyggingar við laugina og minnkandi starfsemi ungmennafélagsins á svæðinu frá árinu 1985.

 

Samkvæmt framlögðum gögnum og málatilbúnaði aðila, þ. á m. við flutning, liggur fyrir að á árunum 2007-2011 var byggt nýtt veiðihús í landi jarðarinnar Fremri-Nýpa, tiltölulega skammt frá Selárdalslauginni. Óumdeilt er að árið 2011 óskaði stjórn veiðifélagsins eftir heimild hjá hreppsnefnd stefnanda til þess að nýta heitt vatn, en ráðið verður að þetta hafi komið til vegna samnings félagsins við stefnda á árinu 2008 og þá um þá spildu sem veiðihúsið síðar reis á, en jafnframt um heimild félagsins til vatnstöku án kostnaðar. Samkvæmt gögnum var nefndu erindi strax vel tekið af hálfu hreppsnefndarinnar, en í framhaldi af því var af hennar hálfu komið fyrir nauðsynlegum dælubúnaði og tengingum við veiðhúsið frá borholum við laugina, sem voru að sögn innan eignarlóðar sundlaugarinnar, en það er í samræmi við vettvangsgöngu dómsins.

Samkvæmt gögnum sendi stefnandi veiðifélaginu reikning í júlí 2015 vegna sölu á heitu vatni og þá miðað við notkun. Af hálfu veiðifélagsins var reikningi þessum andmælt og þá m.a. með vísan til fyrrnefnds samnings við stefnda, og að hann væri rétthafi jarðhitaréttindanna. Við svo búið höfðaði stefnandi dómsmál, en fyrir liggur að því lauk með sátt þann 12. september 2017, sbr. dskj. nr. 30, og þá á þann veg að veiðifélagið gekkst annars vegar undir að greiða stefnanda tiltekna fjárhæð á fimm ára tímabili, 2012-2017, vegna áfallins kostnaðar stefnanda við dælingu á heitu vatni og hins vegar með því að greiða tiltekna greiðslu árlega fyrir dælingu vatns frá borholum við Selárdalslaug, auk kostnaðar. Í sáttinni er sérstaklega tekið fram að engar greiðslur fari fram á milli aðila vegna afhendingar heita vatnsins. 

 

Samkvæmt gögnum og málflutningi fyrir dómi brást stefnandi við ofangreindum málalyktum með því að mæla upp landsvæðið við Selárdalslaugina, en samhliða svæðið ofan hennar, þ.e. hið umþrætta athafnasvæði, og þar með yfir hreppsakbrautina og þar ofan við hið aflagða svæði íþróttavallar Ungmennafélagsins Einherja, þ.e.a.s. þann hluta sem er innan landamerkja Fremri-Nýpa samkvæmt áðurgreindu samkomulagi landeiganda um merkin frá árinu 2002.

Með bréfi, dagsettu 25. nóvember 2015, var lega alls ofangreinds svæðis kynnt stefnda, en meðfylgjandi var hnitsett loftmynd sem sýndi afmörkun þess. Er þetta í samræmi við aðalkröfu stefnanda í máli þessu, sbr. dskj. 22, en með nánari hnitsetningum. Í nefndu bréfi segir m.a. „að eðli máls samkvæmt fylgi eignaréttiumræddri lóð öll landsréttindi sem almennt fylgja beinum eignarétti að landi s.s. jarðhitaréttindi Í lok bréfsins skoraði stefnandi á stefnda að staðfesta nefnd mörk og þá sem eignarlóð stefnanda við „sundlaugina í Selárdal.“ Að öðrum kosti skorar stefnandi á stefnda að koma andstæðum sjónarmiðum sínum á framfæri um legu lóðarinnar, en stefnandi áréttar að hið afmarkaða svæði sé það svæði sem nýtt hafi verið sem athafnasvæði við laugina um áratugaskeið.

 

Með bréfi, dagsettu 14. desember 2015, var af hálfu lögmanns stefnda lýstu erindi stefnanda um afmörkun lóðar hafnað, annars vegar á grundvelli þess hvernig krafan var fram sett, þ.e. varðandi legu og stærð „athafnasvæðisins“ og hins vegar vegna þeirra réttinda sem gert var að áskilnaði að ætlaðri lóð fylgdu.

 

Í ljósi þessarar afstöðu stefnda taldi stefnandi nauðsynlegt að höfða mál til staðfestingar á rétti til stofnunar og skráningar sérstakrar lóðar, og þá innan merkja jarðarinnar Fremri-Nýpa, en jafnframt til þess að fá skorið úr um það hvaða réttindi fylgja lóðinni.

 

B.

1.         Málsástæður stefnanda:

Aðalkrafa.

Stefnandi útskýrir körfugerð sína á þá leið að hún feli í sér kröfu um viðurkenningu á rétti hans sem sveitarfélags, gagnvart stefnda, til skráningar eignarlóðar í fasteignaskrá. Stefnandi vísar til þess að skráning lóðar sé háð samþykki landbúnaðarráðuneytisins miðað við núverandi stöðu landsins, sbr. ákvæði jarðalaga nr. 80/2004, einkum 12. og 13. gr. um staðfestingu landskipta. Þá sé skráning lóðar með tiltekin merki jafnframt háð sérstöku samþykki sveitarstjórnar, sbr. 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Stefnandi vísar til þess að breyting á dómkröfum hans taki mið af hinu fyrra dómsmáli aðila um sama ágreiningsefni, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 760/2016.  Stefnandi vísar til þess að dómkröfur og málsástæður byggist á því að réttur hans til stofnunar og skráningar eignarlóðar hvíli á samningaréttar- og eignaréttarlegum forsendum. 

 

Um rétt til stofnunar og skráningar lóðarinnar í fasteignaskrá vísar stefnandi til 10. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna og byggir hann á því að vegna ágreinings aðila liggi ljóst fyrir, að stefndi sé ekki reiðubúinn að veita atbeina sinn að skráningu lóðarinnar með undirritun á umsókn um stofnun fasteignar, sbr. 14. gr. laganna. Af þessum dökum sé málshöfðun hans nauðsynleg.

Stefnandi vísar til þess að þótt skráning eignarinnar í fasteignaskrá hafi ekki farið fram hafi hann farið með umþrætt svæði sem eigin eign í áratugi, en fyrir liggi að svæðið sé innan landamerkja jarðarinnar Fremri-Nýpa.

 

Stefnandi byggir á því að hann sé eigandi þess lands sem dómkröfur hans vísi til og þá á grundvelli þess að landinu hafi aldrei verið ráðstafað frá honum, sbr. ákvæði kaupbréfs um Fremri-Nýpur, sem var þinglýst 29. júlí 1963, þar sem undanskilin sölu jarðarinnar hafi verið sundlaug ásamt nauðsynlegu athafnasvæði. Stefnandi byggir á því að með orðalaginu athafnasvæði hafi verið vísað til alls þess svæðis sem B-deild Ungmennafélagsins Einherja hafði á þeim tíma undir starfsemi sína, þ.e.a.s. íþróttavöllur, sundlaug, umferðarleiðir og umhverfi svæðisins. Vísunin til athafnasvæðis hafi hvílt á því að allt svæðið hafi verið samliggjandi og nægilegt svigrúm til uppbyggingar á því. Það svæði sem nefnd dómkrafa hans vísi til sé hófstillt í ljósi þess að allir hlutar þess hafa með einum og öðrum hætti tengst starfsemi á svæðinu, s.s. íþróttastarfsemi, vegarlagningu, kaldavatnslindum, jarðhitasvæði, nauðsynlegum umferðarleiðum, eðlilegum jaðarsvæðum o.fl. Hnit samkvæmt dómkröfunni komi fram á loftmynd, sem sé unnin af fyrirtækinu LOGG, sbr. dskj. 22.

 

Stefnandi byggir á því að ákvæði hins þinglýsta kaupbréfs, um áskilnað þess að mæla svæðið út, hafi falið í sér að hreppsfélag hans hafi haft einhliða rétt til þess að skilgreina legu svæðisins. Sá réttur hafi hins vegar ekki verið án takmarkana. Þannig hafi verið óheimilt að mæla út svæði sem hefði enga þýðingu fyrir starfsemina á svæðinu.

Stefnandi byggir á því að þótt útmælingin hafi ekki átt sér stað þegar eftir sölu Fremri-Nýpa hafi Vopnafjarðarhreppur notið réttinda samkvæmt kaupbréfinu. Þannig hafi framkvæmdir hans innan merkja Fremri-Nýpa verið athugasemdalausar, allt fram til þessa.

Stefnandi áréttar að afmörkun lóðar samkvæmt aðalkröfu hans sé í samræmi við það svæði sem hreppsfélagið hafi haft umráð yfir sem nauðsynlegt athafnasvæði við Selárdalslaug, þ.e. þegar fyrrnefnd hnitsetning hafi farið fram á árinu 2015. Að þessu leyti vísar stefnandi til réttarreglna um skýringu samninga, reglna um ákvaðir og þýðingu þinglýstra kvaða á eign.

 

Stefnandi byggir á því að í hinu þinglýsta kaupbréfi sé hið umþrætta athafnasvæði ekki sérstaklega bundið við sundlaugina. Skýringar á tilvísun kaupbréfsins verði því að gera með tilliti til þess að árið 1963 hafi íþróttavöllur verið á svæðinu, auk sundlaugarinnar. Sú starfsemi sem þar hafi farið fram hafi verið óslitin og hafi það legið fyrir þegar jörðinni Fremri-Nýpum hafi verið afsalað á síðari árum. Stefnandi byggir á því að auk þess beri að líta til áðurrakinnar bókunar hreppsnefndar við ákvörðun um sölu jarðarinnar Fremri-Nýpa.

 

Stefnandi byggir á því að fyrrnefnd staða hans, og þar með talinn hinn einhliða réttur til þess að afmarka hið umþrætta svæði, leiði til þess að gera megi þá kröfu til stefnda sem landeiganda að hann setji fram tafarlaus mótmæli við nýtingu hreppsfélags hans á svæðinu, s.s. þegar land hafi verið lagt undir veg, vatnsból notað eða afgirt og við aðrar framkvæmdir, sem falið hafi í sér beina nýtingu svæðisins eða sem hafi á annan hátt leitt til takmörkunar á yfirráðum eiganda Fremri-Nýpa á landinu. Stefnandi byggir á því að slík mótmæli hafa ekki komið fram og þar á meðal ekki við hinar síðustu framkvæmdir, þ.e. þegar girðing umhverfis kaldavatnslindina hafi verið reist á árinu 2014, en lindin hafi verið nýtt allt frá árinu 1950.

Stefnandi byggir á því og þá að því marki sem stefndi hefði getað mótmælt afmörkun þess lands sem undanskilið hefði verið við sölu Fremri-Nýpa, að þá hafi hann þegar fyrirgert þeim rétti með tómlæti sínu, en þar undir sé það land sem aðalkrafa hans í máli þessu vísi til. Stefnandi byggir á því að með aðgerðarleysi sínu hafi stefndi viðurkennt í verki afmörkun hinnar umþrætta lóðar.

 

Stefnandi byggir á því að hreppsfélag hans hafi aldrei haft tilefni til að ætla að fyrrnefndar framkvæmdir á þess vegum hafi farið út fyrir það athafnasvæði, sem hreppurinn eigi. Stefnandi áréttar að kröfugerð hans í máli þessu sé hófstillt, enda sé sýnt að hreppurinn hafi ráðist í framkvæmdir á stærra svæði, þ. á m. við skurð ofan íþróttasvæðisins, en einnig við vegagerð utan svæðisins.

 

Stefnandi byggir á því að með áðurröktu bréfi til stefnda, þann 25. nóvember 2015, hafi útmæling eignarinnar farið fram, en jafnframt hafi stefnda þá verið greint frá legu svæðisins. Slík útmæling hafi í öllu falli farið fram með birtingu stefnu í máli þessu.

 

Stefnandi vísar til þess að í nefndu kaupbréfi sé greint frá áformum um að afhenda Ungmennafélaginu Einherja athafnasvæðið til eignar, en um hafi verið að ræða samning, sem félagið hafi ekki verið aðili að. Afhending eignarréttar stefnanda,Vopnafjarðarhrepps, til ungmennafélagsins hafi og aldrei farið fram, en félagið hafi engu að síður haldið starfsemi sinni áfram á svæðinu eftir 1963, en þá í skjóli eignarréttar hreppsfélagsins á landinu. Stefnandi bendir jafnframt á að allt frá árinu 1979 hafi stefnandi, sem hreppsfélag, yfirtekið alla starfsemi á svæðinu, þ.e. rekstur sundlaugarinnar, en einnig með viðhaldi á girðingum við íþróttavöll o.fl., en í ljósi fyrrnefndrar forsögu hafi Ungmennafélaginu Einherja verið stefnt til réttargæslu.

 

Stefnandi byggir á reglum hefðarlaga nr. 46/1905 til stuðnings kröfum sínum. Hann bendir á að skilyrði hefðar á fasteign sé 20 ára óslitið eignarhald, sbr. 1. mgr. 2. gr. hefðarlaganna. Stefnandi byggir á því að hann hafi haft eignarumráð á svæðinu í þeirri trú að þar hafi verið athafnasvæði sundlaugar sem hreppsfélagið hafi átt.

Stefnandi byggir á og áréttar að fyrir sölu jarðarinnar Fremri-Nýpa árið 1963 hafi Ungmennafélagið Einherji haft með höndum starfsemi á svæðinu og þá í skjóli eignarréttar hreppsfélags hans. Og þegar hreppsfélag stefnanda hafi tekið við öllum eignarráðum svæðisins hafi það hvílt á því að ungmennafélagið hefði haft rétt til svæðisins. Ákvæði 2. og 3. mgr. 2. gr. hefðarlaganna girða því ekki fyrir að hefð hafi unnist á því svæði sem dómkröfur hans vísa til. Stefnandi vísar í þessu sambandi sérstaklega til 6. gr. hefðarlaganna um að fullnuð hefð skapi eignarrétt yfir þeim hlut, sem í eignarhaldi er, og því þurfi hefðandi ekki að styðjast við aðra eignarheimild.

 

Stefnandi hafnar málsástæðum stefnda um að íþróttavöllur á svæðinu geti ekki talist vera hluti athafnasvæðis Selárdalssundlaugarinnar. Byggir hann á því að hefðarhald hans á öllu hinu umþrætta svæði sé skýrt, enda hafi íþróttavöllurinn verið afgirtur frá um árið 1948. Þá hafi hann að minnsta kosti frá árinu 1980 haft öll eignarráð svæðisins, þ. á m. vegna viðhalds á girðingum og með slætti. 

 

Stefnandi vísar um hefðarhald á öðrum hlutum hins umþrætta landsvæðis til þess að fyrir liggi að núverandi vegalagning um svæðið sé frá árinu 1989 og að það verk hafi verið unnið fyrir hans tilstuðlan og þá m.a. vegna nýtingar á sundlauginni. Stefnandi byggir á því að þessar framkvæmdir hafi í raun útilokað nýtingu eiganda Fremri-Nýpa á svæðinu, enda hafi stefnandi lagt umrætt land til undir veginn, en hann teljist nú til sveitarfélagavegar, sbr. 9. gr. vegalaga nr. 80/2007.

Stefnandi byggir á því að akvegurinn á svæðinu afmarki það landsvæði sem hreppsfélag hans hafi haft eignarráð yfir, og þá allt inn að fremsta hluta þess vegsvæðis, sem liggi við hnit nr. 5. Þar í króknum, sem vegsvæðið myndar, liggi fyrrnefnd kaldavatnslind sundlaugarinnar, sem notað hefur verið frá því um árið 1950. Að auki hafi svæðið neðan vegar verið notað sem athafnasvæði sundlaugarinnar, allt niður að því sem ummerki um farveg Selár séu. Stefnandi vísar til og byggir á því að girðing umhverfis sundlaugina við Selá hafi verið reist 1992.

Stefnandi byggir á því að fyrrgreind eignaumráð hreppsfélags hans á öllu svæðinu hafa útilokað nýtingu eiganda Fremri-Nýpa að því sama landsvæði.

 

Stefnandi vísar til þess að það athafnasvæði sem dómkröfur hans vísa til nái ekki að vatnsborði Selár miðað við venjulegt rennsli og þá byggi hann með engum hætti á því að veiðiréttur í Selá fylgi umkrafinni landareign hreppsfélagsins.

 

Stefnandi byggir framangreindar kröfur sínar almennt á meginreglum um traustfang og á eignaumráðum í skjóli þinglýsts réttar hreppsfélags hans um athafnasvæði sundlaugar til stuðnings dómkröfunum.

 

Um kröfu stefnanda um réttindi sem fylgja lóð.

Stefnandi byggir á því að hann eigi grunneignarrétt að því svæði sem dómkröfur hans vísa til. Í því felst að hann eigi allar nýtingarheimildir sem slíkum rétti fylgir, þ.m.t. rétt til nýtingar jarðhita á svæðinu, sbr. 3. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Hann bendir á að slík réttarstaða sé bundin við eignarland og því sé óþarft að dómkröfur hans vísi sérstaklega til réttar eða tæmandi talningar á réttindum sem fylgja eignarlandi. Stefnandi bendir á, og þá til þess að taka af öll tvímæli vegna þess ágreinings sem komið hafi upp um stöðu jarðhitans og hvort að sá ágreiningur teljist hluti sakarefnis málsins, að þó sé í dómkröfu sett fram krafa sem varði eignarhald á auðlindum í jörðu, þ.m.t. jarðhita. Stefnanda byggir á því að slíkt sé honum heimilt og þá til þess að auka skýrleika kröfugerðarinnar og til afmörkunar á sakarefni málsins.

 

Stefnandi bendir á að á árinu 1963 hafi verið í gildi lög nr. 98/1940 um eignar- og notkunarrétt jarðhita. Samkvæmt 6. gr. laganna hafi landeiganda verið óheimilt að undanskilja frá landareign sinni jarðhitaréttindi, nema með leyfi ráðherra. Stefnandi byggir á því að með kaupbréfinu um jörðina Fremri-Nýpur, þinglýstu 1963, hafi jarðhitinn ekki verið skilinn frá landareigninni, heldur hafi þar verið kveðið á um að landspildan yrði undanskilin við söluna. Stefnandi byggir á því að nefndri landareign, sbr. afmörkun í dómkröfum, hafi fylgt jarðhitaréttur. Þannig hafi beinlínis verið um það að ræða að umþrættri lóð hafi verið haldið eftir við sölu á jörðinni vegna jarðhitans á athafnasvæði sundlaugarinnar í Selárdal. Stefnandi byggir á því að andstæð sjónarmið stefnda séu ekki í samræmi við ákvæði laga nr. 98/1940 og því hvíli á honum sönnunarbyrði um að annað gildi, en að eignarlandi fylgi eignarréttur að auðlindum í jörðu, þ.m.t. jarðhiti. Stefnandi vísar til þess að ekki hafi komið fram sérstakur ágreiningur um eignarhald annarra auðlinda í jörðu, en í því sambandi bendir hann á að hann hafi nýtt jarðefni á lóðinni, m.a. í tengslum við frágang mannvirkja. Stefnandi vísar til þess að dómkrafa hans vísi til gildandi löggjafar, sbr. 3. gr. laga nr. 57/1998.

 

Stefnandi byggir enn fremur á hefðarreglum og vísar til fyrri umfjöllunar þar um. Hann byggir á því að hefðarhald á landi feli í sér hefð á öllum þeim réttindum sem fylgi grunneignarrétti lands, en hér sé um að ræða að jarðhiti á umræddri lóð hafi verið nýttur af hans hálfu samfellt frá sölu jarðarinnar Fremri-Nýpa árið 1963. Að auki séu borholur innan lóðarinnar, að grunni til frá tímabilinu 1980-1990, og að nýting hafi farið fram á þeim, eins og þurft hefur.

 

Stefnandi bendir loks á að jarðhitarannsóknir á Laugum í Selárdal hafa verið unnar á vegum sveitarfélags hans, m.a. með það í huga að afla nægjanlegs vatns fyrir hitaveitu fyrir Vopnafjörð. Þessu til stuðnings hafi hann við málareksturinn lagt fram skýrsluna Jarðhitaathuganir í Selárdal í Vopnafirði, sem unnin hafi verið fyrir hreppsnefndina í júní 1991, sbr. dskj. 26.

 

Varakrafa stefnanda varðandi réttindi sem fylgja lóð.

Stefnandi byggir á því að varakrafa hans sé sett fram, verði ekki fallist á að fyrrnefnd jarðhitaréttindi fylgdi ekki hinni umþrættu lóð og almenn eignarráð yfir auðlindum í jörðu samkvæmt gildandi lögum.

Stefnandi bendir á að við sölu Fremri-Nýpa á árinu 1963 hafi verið í gildi vatnalög nr. 15/1923. Í lögunum sé m.a. fjallað um hveri og laugar, og í 10. gr. laganna hafi verið kveðið á um að landeiganda væri skylt að láta af hendi nauðsynlegt vatn, land og efni úr landi til sundlaugar og sundskála til afnota í almenningsþarfir og að bætur fyrir laugavatn, land og landsafnot, átroðning og annað tjón eða óþægindi beri greiða eftir mati, nema samkomulag verði. Stefnandi byggir á því að við jarðarsöluna hafi verið augljóst að rétti til nýtingar jarðhita fyrir sundlaug hafi að lágmarki verið haldið eftir, enda hafi þá þegar verið til staðar sundlaug í landi jarðarinnar og að gert hafi verið ráð fyrir áframhaldandi starfsemi hennar þegar hreppsfélag stefnanda hafi haldið eftir landi við söluna. Varakrafan hvíli þannig á því að slíkur réttur hafi talist hluti af nauðsynlegri aðstöðu sem haldið hafi verið eftir við sölu jarðarinnar Fremri-Nýpa árið 1963.

Þá vísar stefnandi jafnframt til fyrri umfjöllunar um hefð vegna nýtingar jarðhita á svæðinu, og að réttur samkvæmt varakröfunni hafi í öllu falli orðið eign stefnanda fyrir hefð.

 

  1. Varakrafa stefnanda varðandi afmörkun lóðar.

Stefnandi vísar til þess að þessi varakrafa hans hvíli á því að sá hluti vegsvæðis sem ekki sé einungis nýttur vegna vegalagningar að sundlauginni sé felldur undan kröfugerð hans. Þannig sé það vegsvæðið sem einnig nýtist sem almenn umferðarleið að jörðum innan við hið umþrætta svæðis ekki inni í kröfunni, en vegsvæði vegna sérstakrar „heimreiðar“ að sundlaug falli hins vegar innan kröfugerðarinnar. Sé þannig vísað til þess að upphafleg umráð og vegalagning hreppsfélags hans kunni að verða metin ónóg til þess að staðfesta afmörkun athafnasvæðis hreppsins og/eða hefð á hluta vegsvæðisins, þar sem líta hafi mátt á vegaframkvæmdir sem almennar samgöngubætur. Hnit samkvæmt dómkröfu koma fram á loftmynd, unninni af fyrirtækinu LOGG á dskj. 23.

 

2.   Varakrafa stefnanda varðandi afmörkun lóðar.

Stefnandi vísar til þess að þrautavarakrafa hans hvíli á því að núverandi lega girðinga og vegar afmarki það svæði sem hefð Vopnafjarðarhrepps nái til. Þau svæði, sem séu innan girðingar og girðing lokar af hafi því verið undir eignarráðum hreppsfélags hans og eignarráð eiganda Fremri-Nýpa þar með verið útilokuð í raun. Hnit samkvæmt dómkröfu koma fram á loftmynd, unninni af fyrirtækinu LOGG á dskj. 24.

 

  1. Vararkrafa varðandi afmörkun lóðar.

Stefnandi vísar til þess að þessi krafa hans sé eins og önnur varakrafan, nema að undan sér skilið land sem afmarkist af hnitum nr. 4C-7C, og þá í samanburði við fyrri varakröfu. Sá hluti svæðisins hafi verið afmarkaður af vegi en þar sé vatnsból (vatnslind) sem nýtt hafi verið fyrir Selárdalslaugina frá því um 1950. Nýting svæðisins hafi tekið mið af því en girðing um vatnsbólið við hnit 4C-7C hafi verið reist árið 2014 að kröfu heilbrigðiseftirlitsins. Í ljósi langvarandi nýtingar vatnsbólsins hafi hefð í öllu falli unnist á rétti til nýtingar þess. Stefnandi vísar til þess að fullnaður hefðartími um nýtingu vatnslindarinnar sé 20 ár, en til vara byggir hann á því að nýting vatnslindarinnar, án þess að land umhverfis sé hefðað, falli undir 8. gr. hefðarlaganna um hefð á ósýnilegum ítökum, þar sem hefðartími sé tiltekinn 40 ár.

 

Um lagarök vísar stefnandi til áðurgreindra lagareglna, en einnig til meginreglna eignarréttar um gildi þinglýstra samninga. Þá vísar hann til réttarreglna um ákvöð og kvaðir og laga um hefð nr. 46/1905. Um málskostnað vísar stefnandi til 130. gr. laga nr. 91/1991.

 

 

2.         Málsástæður stefnda.

Stefndi byggir á því, sem skráður rétthafi að þeirri jörð sem stefnandi gerir kröfu um að viðurkennt verði með dómi að útskipting landspildu/landspildna samkvæmt dómkröfum hans byggist á, feli í sér fyrirvaralausa stofnun og skráningu sjálfstæðrar fasteignar sem sé háð ákveðnum lögbundnum skilyrðum og eftir atvikum samþykki nánar tilgreindra stjórnvalda, einkum með vísun til II., III. og IV. kafla jarðalaga nr. 81/2004 og 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Stefndi byggir og á því að slík áform séu eftir atvikum einnig háð lagareglum stjórnsýslu og þar með ákvörðun þar til bærra stjórnvalda, varðandi það sem gæta þarf að við stofnun og skráningu nýrrar fasteignar, sbr. lög nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Stefndi byggir á því að stefnandi hafi ekki gætt lagaskilyrða um aðkomu stjórnvalds eins og áskilið sé í IV. kafla laga nr. 6/2001, varðandi framkvæmd fasteignaskráningar.

Stefndi byggir jafnframt á því að það sé ekki á valdi dómstóla að koma að útskiptingu lands frá upprunajörðinni og þaðan af síður að ákvarða hvaða réttindi skulu fylgja slíku landi, nema að fullnægðum framangreindum lagaskilyrðum.

 

Stefndi byggir einnig á því að líta beri svo á að allar framkvæmdir stefnanda við og í tengslum við Selárdalssundlaugina, ásamt framkvæmdum og mannvirkjagerð öðrum við hana, a.m.k. frá 1978, hafi verið gerðar í trássi við byggingarlög og skipulags- og byggingarlög á hverjum tíma, sem stefnandi sem framkvæmdaaðili hefði þurft að hlíta, og þá af þeirri einföldu ástæðu að engin skráð lóðarréttindi hafi verið til staðar sundlauginni til handa sem hafi verið forsenda fyrir bygginga- og eftir atvikum framkvæmdaleyfi. Þeim annmörkum öllum beri stefnandi ábyrgð á sem framkvæmdaaðili, en ekki stefndi, og stefnandi, sem hafi verið og sé jafnframt stjórnvald á svæðinu, hafi átt og mátt vera kunnugt um þessa annmarka.

Stefndi mótmælir m.a. í ljósi ofangreindra atriða þeim fullyrðingum stefnanda að hann hafi áunnið sér umkrafin réttindi sakir tómlætis hans við að hafa ekki uppi andmæli hverju sinni vegna nefndra framkvæmda. Um þetta vísar stefndi til byggingarlaga nr. 54/1978, sem gilt hafi fram til gildistöku skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, er tekið hafi við af fyrrgreindum lögum og skipulagslögum nr. 19/1964, en einnig vísar stefndi til laga um mannvirki nr. 160/2010 og laga nr. 6/2001 um stofnun og skráningu fasteigna.

Stefndi byggir á því að framkvæmdaaðili verði að geta sýnt fram á að hann hafi skráða eignarheimild að viðkomandi landareign þar sem framkvæmdirnar eiga sér stað eða að samningsbundin réttindi frá skráðum eiganda standi til þeirra. Stefndi byggir á því að ekkert liggi fyrir um að heimilda til mannvirkjagerðar eða annarra nauðsynlegra leyfa hafi verið aflað í gegnum tíðina af hálfu stefnanda og þá frá þar til bærum aðilum varðandi framkvæmdir við og í tengslum við sundlaugina. Stefndi bendir í þessu sambandi á skyldur sveitarstjórnar samkvæmt 2. mgr. 17. gr. og 19. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. 

 

            Stefndi vísar til þess að hann hafi hafnað erindi stefnanda, með áðurröktu bréfi, dagsettu 14. desember 2015, að því er varðaði staðfestingu á afmörkun lóðar eignarlóðar, bæði varðandi stærð hennar og legu, svo og að henni fylgdu þau réttindi sem stefnandi í máli þessu haldi fram. Stefndi byggir á því að Hæstiréttur tilgreini efnislega þessa höfnun hans í dómi sínum nr. 760/2016. Þá vísar stefndi til fyrri andmæla sinna að því er varði þau önnur eignarréttindi sem stefnandi hafi tíundað um að fylgja hafi átt fyrrgreindri afmörkun hans.

 

Stefndi byggir á því að hin einhliða afmörkun stefnanda á landspildu/landspildum, sbr. dómkröfum hans, standist ekki af ofangreindum ástæðum. Stefni byggir á því að margnefnt kaupbréf lýsi samkvæmt efni sínu ekki neinni tilgreindri afmörkun, né einhliða rétti seljanda varðandi hana, heldur aðeins að afmörkun skuli fara fram eftir margnefnd kaup árið 1963. Bréfið samkvæmt efni sínu verði því ekki túlkað með öðrum hætti en að við útmælingu nauðsynlegs athafnasvæðis hefðu báðir aðilar þurft að koma að afmörkun þeirrar landspildu. Þannig sé um hreint samningsákvæði að ræða þar sem kaupandinn hafi verið aðili máls um útmælinguna, og þá jafnt og seljandinn.

 

Stefndi byggir á því að af eðli máls leiði, og af þeirri stöðu sem uppi sé í máli þessu og sökum þess að afmörkun landspildunnar hafi ekki farið fram, að stefnandi hafi eingöngu haft samningsbundinn afnotarétt af ætlaðri landspildu á grundvelli kaupbréfsins frá 1963. Stefndi byggir á því að þessi staða geti ekki leitt af sér framsal á beinum og óbeinum eignarréttindum. Með sömu rökum geti stefnandi ekki byggt á því að hann hafi áunnið sér umkrafin eignarréttindi og afnotaréttindi fyrir hefð. Að þessu leyti vísar stefndi til ákvæðis 3. mgr. 2. gr. laga um hefð nr. 46/1905, og þá með þeim rökum að meðan aðilar hafi ekki útskipt nauðsynlegri spildu umhverfis sundlaug seljanda á grundvelli ákvæðis kaupbréfsins þar um, verði að telja að nefnt lagaákvæði eigi við, ef ekki beint þá með rýmkandi skýringu eða fyrir lögjöfnun.

            Stefndi vísar til þess að stefnandi sem seljandi jarðarinnar hafi hins vegar getað útskipt landinu einhliða meðan hann var eigandi jarðarinnar og þá fyrir sölu hennar á árinu 1963 á grundvelli þeirra laga og stjórnsýslureglna sem þá giltu um útskiptingu landspildu frá jörð, en honum hafi á öllum stigum mátt vera kunnugt um vöntun skráðra lóðarréttinda honum til handa. Stefndi vísar til þess að stefnandi hafi af þessum sökum ekki haft einhliða rétt eftir sölu jarðarinnar varðandi útmælingu og útskiptingu lands frá jörðinni og skráningu í fasteignaskrá og þá gagnvart síðari eigendum jarðarinnar, og ekki gagnvart viðsemjanda sínum skv. kaupbréfinu frá 1963.

 

Stefndi byggir á því að stefnandi verði að fara eftir settum lögum sem gilda um útskiptingu lands frá fasteign, jörð í þessu tilviki. Að þessu leyti áréttar hann þau lagaákvæði sem tiltekin séu í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar nr. 760/2016, sbr. og í dómi réttarins nr. 327/2016, sbr. að því leyti áðurgreind ákvæði í II., III. og VI. kafla jarðalaga nr. 81/2004 og 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Jafnframt vísar stefndi til nefndra lagaákvæða að því er varðar aðkomu stjórnvalds við útskiptingu lands frá upprunalandi og að viðkomandi stjórnvald skuli gæta þessara ákvæða við ákvarðanir sínar.

            Að þessu leyti andmælir stefndi andstæðum sjónarmiðum og málsástæðum stefnanda, og þá varðandi breytingu á málatilbúnaði frá hinu eldra dómsmáli aðila og þar á meðal varðandi rétt hans til stofnunar og skráningar lóðar í fasteignaskrá, sem og því að þessi réttur hans hvíli á samningsréttarlegum og eignarréttarlegum forsendum. Stefndi mótmælir þessum málsástæðum með þeim rökum að stefnandi eigi ekki lögformlegan grunn að meintum eignarréttindum sínum öðrum en þeim sem byggist á samningsákvæði. Þess utan heldur stefndi því fram að málsástæður stefnanda geti með engu móti staðist enda alls óljóst til hvers hin umþrætta skráning eigi að taka, annars vegar varðandi stærð og staðsetningu viðkomandi landspildu og hins vegar hvaða réttindi önnur samkvæmt dómkröfunum eigi að fylgja útmælingum landspildu/landspildna þeirra sem kröfugerð hans sé reist á.

 

Stefndi áréttar andmæli sín við málatilbúnaði stefnanda og þá með fyrrnefndum rökum, að 1. mgr. 48. grein skipulagslaga nr. 123/2010 mæli fyrir um að óheimilt sé að skipta jörðum, löndum eða lóðum, eða breyta landamerkjum og lóðarmörkum nema samþykki sveitarstjórnar komi til.  Hann vísar til þess að ekkert liggi fyrir í málinu um slíkt samþykki. Stefndi vísar jafnframt til 3. mgr. 17. gr. í IV. kafla jarðalaga nr. 81/2004 sem mælir fyrir um að stjórnvald skuli gæta ákvæða III. kafla laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Þau ákvæði gera m.a. ráð fyrir að þinglýstur eigandi lands þurfi að koma að ákvörðuninni við stofnun nýrrar fasteignar frá upprunalandinu á grundvelli þinglýsingalaga, sbr. 1. mgr. 4. tl. og 2. mgr. 10. greinar laganna. Stefndi vísar til þess að ekkert liggi heldur fyrir um að þessara lagaákvæða hafi verið gætt. Að þessu leyti andmælir stefndi og þeirri fullyrðingu stefnanda, að hann hafi aðlagað stefnu sína að gengnum dómi Hæstaréttar  nr. 760/2016.

Stefndi andmælir þeim málatilbúnaði stefnanda að hann sé eigandi hinnar umþrættu landspildu auk annarra réttinda sem dómkröfur hans taka til, með þeim rökum að landsvæðinu hafi aldrei verið ráðstafað til stefnanda. Hann bendir á að óumdeilt sé að útskipting nauðsynlegrar spildu hefði átt að fara fram í framhaldi af kaupbréfi aðila frá 1963, og áréttar hann fyrri andmæli um að stefnandi hafi til þess einhliða rétt, þar sem ákvæðið um útskiptingu spildunnar í þágu réttargæslustefnda byggist á gagnkvæmum samningi samkvæmt efni sínu. 

Stefndi vísar til þess að krafan um staðfestingu á útskiptingu þeirra landspildna sem aðalkrafa og þrjár varakröfur stefnanda samkvæmt einhliða mælingum byggjast á, auk kröfu til eignarréttinda að jarðhita, hafi í upphafi ekki verið bornar undir hann með öðrum hætti en að hann yrði að hlíta þeim, með þeim rökum að einhliða réttur stefnanda stæði til þess. Stefndi byggir á því að með þessu ráðslagi hafi stefnandi brotið gegn meginreglum stjórnsýslulaga, m.a. rannsóknarreglunni, andmælarétti stefnda og þeirri ríku reglu stjórnsýsluréttarins, að aðili máls fái upplýsingar sem eigi að binda hann að lögum áður en mál sé höfðað. Stefndi áréttar að ekkert liggi fyrir í nýjum málatilbúnaði stefnanda um að breyting hafi orðið hér á, m.a. um aðkomu stjórnvalds sem þó sé lagaskilyrði við útskiptingu lands frá upprunalandinu. 

 

Stefndi byggir að lokum í þessum þætti málsins á því að kröfur stefnanda taki til mun stærra lands en undanskilið hafi verið við sölu jarðarinnar Fremri-Nýpa árið 1963. Vísar hann til þess að „nauðsynlegt athafnasvæði“ við sundlaugina hafi langt í frá verið jafn stórt og kröfur stefnanda gera ráð fyrir. Hann byggir á því að í þessu sambandi breyti engu áðurrakin bókun í hreppsnefnd Vopnafjarðarhrepps þegar sala á jörðinni var samþykkt. Stefndi byggir á því að það sem öllu skipti sé fyrrgreint ákvæði í kaupbréfinu með sínu orðalagi, enda hafi því verið þinglýst og því öllum kunnugt sem síðar komu að málinu af hálfu eiganda jarðarinnar og hagsmuna áttu að gæta, en ekkert umfram það. Stefndi byggir á því að stefnandi geti þannig ekki með kröfugerð sinni reynt að fá dóm fyrir mun stærra svæði en „nauðsynlegu athafnasvæði“ fyrir sundlaugina. Dómkröfur stefnanda verði þannig að geta fallið undir slíkt svæði, þ.e. að taka til hins „nauðsynlega athafnasvæðis“ en ekki til stærra svæðis sem sé langt utan marka eðlilegs„athafnasvæðis“. Jafnframt geti stefnandi ekki sett sér sjálfdæmi um þetta atriði í kröfugerð, en stefndi vísar til þess að dómkröfur stefnanda. sbr. lóðablöðin á dskj. 22-24, nái langt út fyrir það sem kallast geti „nauðsynlegt athafnasvæði“ fyrir sundlaugina. Þannig séu allar þessar kröfur í ósamræmi við kaupbréfið frá 1963 og af þeirri ástæðu einni verði ekki hjá því komist að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

 

Stefndi byggir á því hvað varðar aðalkröfu stefnanda að hvergi sé þess getið að jarðhitaréttindi né önnur réttindi hafi verið undanskilin við sölu umræddrar jarðar árið 1963, en slíkan undanskilnað hefði þurft að taka skýrlega fram.

Að því er varðar jarðhitann byggir stefndi á því að þegar á árinu 1963 hafi verið til staðar ákveðnar lögbundnar og ófrávíkjanlegar takmarkanir á því að skilja réttindi frá jörðum. Löggjafinn hafi þannig með sérlögum gegnum tíðina, fyrir gildistöku núgildandi jarðalaga nr. 81/2004, komið í veg fyrir með ákveðnum lögum að tiltekin fasteignaréttindi sem tengjast jörðum, s.s. jarðhiti og veiðiréttindi, séu aðskilin frá jörðum og þá með þeim möguleikum að þau væru nýtt síðan fjárhagslega með sjálfstæðum hætti. Stefndi bendir á að þegar margnefnt kaupbréf var gert milli aðila hafi verið í gildi lög nr. 98/1940 um eignar- og notkunarrétt jarðhita. Í ákvæði 1. mgr. 6. gr. þeirra laga hafi verið kveðið á um að landeiganda væri óheimilt að undanskilja frá landareign sinni jarðhitaréttindi, nema með sérstöku leyfi ráðherra. Stefndi vísar til þess að bannákvæði þetta hafi verið reist á því sjónarmiði að jarðhitaréttindi væru óaðgreinanlegur hluti landareignar. Samsvarandi ákvæði hafi síðar verið sett með orkulögum nr. 58/1967, sem tekið hafi við af fyrrgreindum lögum nr. 98/1940. Stefndi bendir á að í núgildandi lögum um sama efni, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu nr. 57/1998, 12. grein, sé enn samsvarandi bannákvæði að finna. Orðalag ákvæðisins sé nálega alltaf hið sama.

            Stefndi byggir á því að af framangreindu sé ljóst að stefnandi hefði aldrei getað skilið jarðhitaréttindi frá jörðinni Fremri-Nýpum við sölu hennar án þess að sérstakt leyfi frá ráðherra hefði komið til. Fyrir liggi að slíkt leyfi hafi ekki legið fyrir við gerð kaupbréfsins árið 1963, eða síðar. Jafnframt bendir stefndi á að seljandi er sveitarfélag og þar með stjórnvald, en af þeim sökum hefði það enn frekar átt að þekkja til þeirra lögbundnu takmarkana sem í gildu voru.

            Stefnd byggir á og mótmælir með framangreindum rökum og með vísun til 8. gr. jarðalaga nr. 81/2004 dómkröfum stefnanda um að viðurkennt verði með dómi að lóðum þeim sem í kröfugerð hans greinir fylgi eignarréttur að auðlindum í jörðu og þar með jarðhiti.  

 

Stefndi byggir á því, að því er varðar framangreinda varakröfu um rétt til hagnýtingar jarðhita, að þó svo að stefnandi hafi haft aðgengi að nauðsynlegu heitu vatni um árabil til þess að nýta til reksturs sundlaugar hafi sú vatnstaka verið innan þess svæðis sem stefnandi afgirti um sundlaugina um 1992. Stefndi vísar til þess að umrætt svæði sé langt innan þeirra marka sem kröfulínur stefnanda til viðurkenndra lóðarmarka greina. Stefndi byggir á að sá afnotaréttur stefnanda geti einungis byggst á samningi í formi margnefnds kaupbréfs. Afnotaréttur, sem byggður sé á samningi einum og sér, geti og aldrei leitt til framsals á beinum eða óbeinum eignarrétti að réttindum. Stefndi byggir á því að stefnandi geti jafnframt ekki byggt á því að hann hafi eignast réttindin fyrir hefð, með sömu rökum og stefndi greinir um hefðarsjónarmið stefnanda hér að framan, né fyrir tómlæti stefnda.

            Stefndi byggir á því að í nefndu kaupbréfi sé í engu getið um að nokkur gögn eða gæði séu undanskilin við sölu jarðarinnar, utan „nauðsynlegs athafnasvæðis“ um sundlaugina og jörðin lýst kaupanda til fullrar eignar og umráða í afsalsáritun. Stefndi bendir jafnframt á að í kaupsamningi um jörðina frá 28. mars 1981 sé umrædd jörð seld Guðmundi Wiium Stefánssyni „með öllum hlunnindum“ ... „án allra kvaða eða veðbanda“, og án þess að nein réttindi séu undanskilin. Hann byggir á því að af þessu megi ljóst vera að kaupendur í báðum tilvikum hafi mátt vera í góðri trú um að gæði, s.s. jarðhitaréttindi, væru ekki að ganga undan jörðinni, hvorki að eignarrétti né afnotarétti, við bæði framangreind kaup, enda ekki undanskilin við kaupin. Hið sama hafi átt við við kaup stefnda samkvæmt afsali dagsettu 22. ágúst 2007.

            Stefndi byggir á því að með framangreindum rökum sé varakröfu stefnanda, sem taki til réttar til hagnýtingar jarðhita innan landamerkja jarðarinnar Fremri-Nýpa sem nauðsynlegur er til reksturs sundlaugar „á lóðinni“, mótmælt.

Með sömu rökum sé og kröfu um að lóð samkvæmt þriðju varakröfu stefnanda fylgi réttur til kaldavatnslindar, sem afgirt var árið 2014, mótmælt.

 

Stefndi byggir á því að með vísun til allra framangreindra málsástæðna beri að sýkna hann af öllum kröfum stefnanda og dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu.

 

Að því er varðar áðurgreinda varakröfu stefnda, sem fram kom við flutning málsins, um að viðurkennd verði réttindi stefnanda til landspildu næst Selárdalslauginni, og þá með tilgreindum hnitum, vísar stefndi til þess að með slíkri spildu, sem ætla megi hæfilega, væri og örugglega uppfyllt skilyrðin í margnefndu kaupbréfi frá árinu 1963.

 

Um lagarök vísar stefndi einkum til meginreglna samningaréttar, kröfu- og eignarréttar, auk II., III. og IV. kafla laga nr. 81/2004, 48. gr. laga nr. 123/2010, laga nr. 160/2010 og laga nr. 6/2001. Þá vísar stefndi til laga nr. 46/1940 um eignarrétt og afnotarétt að jarðhita, orkulaga nr. 58/1967 og núgildandi laga þar um nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu. Enn fremur vísar stefndi til 2. gr. stjórnarskrárinnar um þrígreiningu ríkisvaldsins. Um kröfu um málskostnað vísar stefndi til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

                                                            C.

Við aðalmeðferð málsins gaf fyrirsvarsmaður stefnda, Guðmundur Wiium Stefánsson, aðilaskýrslu, en vitnaskýrslur gáfu Ólafur Áki Ragnarsson, fyrrverandi sveitarstjóri stefnanda, Ellert Árnason, fyrrverandi skrifstofustjóri stefnanda, Hilmar Jósepsson, fyrrverandi starfsmaður áhaldahúss stefnanda, og Ólafur Björgvin Valgeirsson, sundlaugarvörður í Selárdalslaug. Loks gaf skýrslu Magnús Már Þorvaldsson, formaður Ungmennafélagsins Einherja og fulltrúi hjá stefnanda.

Dómari, lögmenn og fyrirsvarsmaður stefnda fóru í vettvangsferð við aðalmeðferð málsins.

 

Í máli þessu krefst stefnandi m.a. þess að viðurkenndur verði réttur hans, gagnvart stefnda, til þess að „stofnuð verði og skráð í fasteignaskrá“ eignarlóð í hans eigu. Dómkrafan hvílir á þeirri forsendu að stefnandi teljist eigandi lands með þeirri afmörkun sem kröfur hans lúta að, líkt og fram kemur í málsástæðum í stefnu og við flutning málsins.

Fyrir liggur að stefnandi seldi jörðina Fremri-Nýpur í Vopnafirði með ódagsettu kaupbréfi, sem áritað er um afsal 27. júní 1963 og var þinglýst 29. júlí 1963. Jörðin komst í eigu stefnda á árinu 2007.

Málssókn þessi á rætur að rekja til nefnds kaupbréfs, en þar er að finna eftirfarandi ákvæði sem komið er frá stefnanda: „Undanskilin er þó sundlaug, ásamt nauðsynlegu athafnasvæði sem verður mælt út og verður eign Ungmennafélags Vopnafjarðar og deildum þess.“ Aðila málsins greinir m.a. á um þýðingu þessa ákvæðis, þ. á m. hvaða réttindum til lands stefnandi hafi haldið eftir við sölu jarðarinnar árið 1963.

Fyrir liggur að hinu umþrætta landsvæði, annars vegar í og við Selárdalslaugina og hins vegar fyrrum íþróttavelli, hafi aldrei verið ráðstafað formlega til réttargæslustefnda, Ungmennafélagsins Einherja. Af gögnum og vætti vitna verður ráðið að stefnandi hafi farið athugasemdalaust með umsjón og umráð með þeim byggingum og svæðum sem um ræðir allt frá árunum í kringum 1970, og að hann hafi í raun tekið við þeim upp úr 1980, í góðri sátt við réttargæslustefnda. Fyrir liggur að félagsmenn í Einherja stóðu í öndverðu, um miðja síðustu öld, að byggingu sundlaugarinnar, en einnig liggur fyrir að þeir komu að öðrum framkvæmdum á svæðinu, m.a. gerð íþróttasvæðis/vallar. Að virtum gögnum er það niðurstaða dómsins að gagnvart stefnanda hafi réttargæslustefndi um áratugaskeið litið svo á, að stefnandi hafi farið með eignarráð á hinum umþrættum svæðum og verður við það miðað og þá ekki síst í ljósi þess að þeim var í raun aldrei ráðstafað frá stefnanda, eins og áður sagði.

 

Stefnandi vísar í málatilbúnaði sínum til áðurrakins ákvæðis hins ódagsetta kaupbréfs frá árinu 1963, og að með því hafi verið undanskilin við söluna margnefnd sundlaug ásamt nauðsynlegu athafnasvæði. Skýrir stefnandi ákvæðið svo að með „nauðsynlegu athafnasvæði“ sé vísað til alls þess svæðis sem nefnt ungmennafélag hafi þá haft undir starfsemi sína, þ.e. íþróttavöll, sundlaug, umferðarleiðir og umhverfi svæðisins. Þá hafi vísun til athafnasvæðis hvílt á því að svæðið sé í raun samliggjandi og að nægilegt svigrúm hafi verið til uppbyggingar á því. Hann byggir jafnframt á því að ákvæði kaupbréfsins hafi falið í sér að stefnandi hafi haft einhliða rétt til þess að skilgreina legu svæðisins, en þó ekki án takmarkana. Loks vísar stefnandi til laga nr. 46/1905 um hefð og byggir á því að hann hafi farið óslitið með eignarumráð á svæðinu í fullnaðan hefðartíma.

Stefndi byggir aftur á móti helst á því að stefnandi eigi ekki með réttu þá hagsmuni sem hann krefst dóms um, þ. á m. einhliða rétt honum til handa til að ákvarða með sjálfstæðum hætti útmælingu landspildna og skráningu þeirra í fasteignaskrá, en með því ráðslagi fari hann enn fremur langt umfram stærð þeirra, og þá með hliðsjón af orðalagi kaupbréfsins. Að auki krefjist stefnandi eignarréttar að auðlindum í jörðu og til vara afnotaréttar að jarðhita, en slíkt standist ekki þar sem lög standa því í vegi.

 

Fyrir liggur að útmæling þess landsvæðis sem vísað er til í kaupbréfinu fór ekki fram í samræmi við hið tilvitnaða ákvæði og þá ekki í beinu framhaldi af sölu jarðarinnar. Var það ekki fyrr en á árinu 2015 sem útmæling, er stefnandi lét framkvæma, var kynnt fyrir stefnda. Stefndi hafnaði því með bréfi, dagsettu 14. desember s.á., að „staðfesta mörk eignarlóðar“ stefnanda, „bæði stærð hennar og legu“, svo og að henni fylgdu jarðhitaréttindi, svo sem stefnandi héldi fram.

 

Samkvæmt framangreindu er ljóst að frá öndverðu var efnislegur ágreiningur með aðilum um eignarrétt að þeirri landspildu eða eftir atvikum þeim landspildum sem vísað er til í kaupbréfinu. Kom þessi ágreiningur aðila í veg fyrir að gert yrði stofnskjal, sbr. ákvæði 14. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna og 2. mgr. 20. gr. laga nr. 39/1978 um þinglýsingar með síðari breytingum. Ekki er á hinn bóginn ágreiningur um að sjálf sundlaugarbyggingin tilheyri stefnanda.

 

Af gögnum verður ráðið að sala stefnanda á jörð sinni Fremri-Nýpum á árinu 1963 hafi verið af einkaréttarlegum toga. Jörðin var þannig seld á almennum markaði, en við þá gjörð hélt stefnandi eftir eignarrétti sínum á Selárdalssundlauginni, en einnig á hinum óútmældu landsvæðum. Var því ekki um samningsbundinn afnotarétt að ræða. Að þessu virtu lítur dómurinn svo á að álitaefni um hið tiltekna landsvæði sé einkaréttarlegs eðlis og lúti að því leyti ekki grundvallarreglum stjórnsýsluréttar. Verður málsástæðum stefnda hvað nefnd atriði varðar því hafnað.

 

Dómkröfur stefnanda í máli þessu eru reistar á fyrrgreindum mælingum. Kemur fram í bréfi stefnanda til stefnda, dagsettu 25. nóvember 2015, að tilefni þess að útmælingin var gerð hafi verið ágreiningur hans við Veiðifélag Selár vegna innheimtu á endurgjaldi fyrir heitt vatn úr borholu við sundlaugina í Selárdal. Leiddi þessi ágreiningur til málshöfðunar, sem lyktaði síðar með sátt, sem fól m.a. í sér að veiðifélagið féllst á að greiða stefnanda fyrir dælingu hans á heitu vatni frá borholum við laugina og þá að veiðihúsi félagsins. Að auki er í sáttinni tiltekið að veiðifélagið standi stefnanda skil á greiðslum vegna rafmagnsútgjalda, en einnig vegna eftirlits starfsmanna hans með dælubúnaðinum. Skýrt kom hins vegar fram í sáttinni að engar greiðslur yrðu innheimtar af hálfu stefnanda vegna afhendingar heita vatnsins, og var það ákvæði án fyrirvara.

 

Eins áður er rakið, m.a. í kafla A, er sundlaugin í Selárdal, ásamt búningsklefum og nýlegu dæluhúsi, nærri árbökkum Selár, nánar tiltekið í litlu gildragi eða hvammi og gegnt Langahvammi, sem er norðan árinnar, sbr. landamerkjabréf Ytri- og Fremri-Nýpa frá árinu 2002. Fast sunnan við sundlaugarbygginguna er allmikil brekka, en á brekkubrúninni er vírnetsgirðing sú sem stefnandi lét reisa árið 1992. Girðing þessi girðir sundlaugarsvæðið af og þá með allri brúninni, annars vegar að grindarhliði við bílastæði og hins vegar að fyrrnefndum landamerkjum, en hún endar síðan beggja vegna við árbakka Selár. Um 30-40 metrum sunnan brekkubrúnarinnar og nefndar girðingar, en um 100 metrum suðaustan við sundlaugina, er syðri hluti hins aflagða íþróttavallarsvæðis, en þar í milli er hreppsvegurinn, en einnig aðkeyrslan að sundlaugarsvæðinu.

Samkvæmt framansögðu er hið umþrætta svæði, sem málsaðilar vísa til, í raun tvískipt. Annars vegar er um að ræða svæði um Selárdalssundlaugina með viðbyggingum í nefndum hvammi og næsta umhverfi þar við og hins vegar hið aflagða íþróttasvæði í móunum nokkru ofar í landinu.

 

Af ummerkjum og gögnum liggur fyrir að íþróttasvæðið er að stórum hluta í landi Ytri-Nýpa. Um það svæði hefur í fyrndinni verið reist girðing. Girðingunni hefur ekki verið vel viðhaldið og er hún að nokkru niðurfallin. Samkvæmt því sem fram kom við vitnaleiðslur hefur svæðið ekki verið nýtt um langa hríð, en síðast og þá aðeins um tíma mun það hafa verið nýtt sem tjaldstæði. Er svæðið óðum að falla til fyrra horfs, en mólendisgróður er þar ráðandi og ágangur búsamala þar nær hindrunarlaus ef því er að skipta.

Fyrir liggur að stefnandi vanrækti að mæla út það landsvæði, sem hann undanskildi við sölu eignarjarðar sinnar, FremriNýpa, árið 1963, og vísað er til í hinu umþrætta ákvæði í kaupbréfinu. Fallist er á með stefnda og þá m.a. í ljósi aðstæðna, að stefnandi hafi við svo búið ekki haft einhliða rétt til útmælingar eða til að öðlast eignarhald yfir stærra landi úr eign stefnda, en kveðið var skýrlega á um í nefndu kaupbréfi. Bókun í fundargerðabók hreppsnefndar nægir þar ekki gegn andmælum stefnda. Verður stefndi heldur ekki með þessum hætti sviptur eign sinni, sbr. ákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Með vísan til ofangreinds og röksemda stefnda og þar sem ákvæði kaupbréfsins er óskýrt að því er varðar hið umþrætta íþróttasvæði er að áliti dómsins ekki unnt að fallast á með stefnanda að viðurkenna beri rétt hans til eignarlóðar á þeim hluta lands Fremri-Nýpa, en aðrar eignarheimildir koma þar ekki til álita. Er dómkröfum stefnanda því hafnað að því er varðar hið umþrætta íþróttasvæði, eins og dómkröfum hans er nánar lýst í stefnu. Að þessu virtu ber að sýkna stefnda af þeim hluta dómkrafna stefnanda sem varða landsvæðið ofan áðurnefndrar brekkubrúnar.

 

Því svæði sem næst er Selárdalssundlauginni hefur hér að framan að nokkru verið lýst. Og eins og fyrr sagði er svæðið að öllu leyti afgirt frá brekkubrúninni.     Að áliti dómsins getur lýsingin í nefndu kaupbréfi vel tekið til þessa svæðis. Fyrir liggur að stefnandi hefur um áratugaskeið staðið að verulegum framkvæmdum á svæðinu innan girðingarinnar og þá ekki síst í brekkunni ofan sundlaugarinnar, þ. á m. með gerð vegslóða og með borunum eftir heitu vatni. Þá er til þess að líta að stefnandi hefur haft umráð svæðisins í fullan hefðartíma og jafnframt útilokað aðra frá afnotum af því. Stendur 3. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 því ekki í vegi að hefð geti hafa unnist á svæðinu.

Að öllu ofangreindu virtu verður fallist á dómkröfu stefnanda að viðurkenna beri rétt hans gagnvart stefnda, til þess að stofna og skrá í fasteignaskrá eignarlóð í eigu stefnanda á hinu afgirta svæði.

Í ljósi þess sem hér að framan hefur verið rakið, þ. á m. um staðhætti, er fallist á að mörk svæðisins á hinu afgirta athafnasvæði Selárdalssundlaugar taki mið af 2. varakröfu stefnanda og verði þannig afmörkuð með hnitum, austur – norður; nr. 1C, 687023.898 - 595538.719, nr. 2C, 687075.406 595503.125, nr. 3C, 687035,994 – 595444,601, nr. 4C,  686982,012 – 595400,542, nr. 7C, 686963,329 – 595417,761, nr. 8C, 686942.721 - 595441.232, nr. 9C, 686961.661 - 595457.250, nr. 10C, 687005.558 - 595532.051 og þaðan í hnit nr. 1C. Ætla verður sundlaugarrekstri hæfilegt svæði til óhjákvæmilegrar umferðar og athafna sem tengjast rekstrinum. Liggur því fyrir að stefnandi hefur óheftan aðgang um núverandi heimreið og akveg að hinu hnitsetta svæði.

 

Í máli þessu krefst stefnandi þess jafnframt að viðurkennt verði að lóð hans í landi Fremri-Nýpa fylgi eignarréttur að auðlindum í jörðu, en til vara krefst hann þess að lóðinni fylgi réttur til hagnýtingar jarðhita innan merkja jarðarinnar, sem nauðsynlegur sé fyrir rekstur sundlaugar. Stefndi hafnar þessum kröfum alfarið.

Samkvæmt málatilbúnaði aðila er ágreiningur með þeim hvort stefnanda hafi verið heimilt að undanskilja jarðhitaréttindin frá jörð sinni, Fremri-Nýpum, við sölu hennar árið 1963. Einnig er ágreiningur með þeim um skýringu á áðurgeindu ákvæði kaupbréfsins.

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 98/1940 um eignar- og notkunarrétt jarðhita, sem í gildi voru þegar stefnandi seldi jörð sína, er kveðið á um að landeigandi megi ekki undanskilja jarðhitaréttindi frá landareign sinni, nema með sérstöku leyfi iðnaðarráðherra. Nefnd lög voru felld úr gildi með orkulögum nr. 58/1967, en núgildandi lög um efnið eru nr. 57/ 1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Í síðastnefndum lögum eru samsvarandi ákvæði og í lögum nr. 98/1940.

Af hálfu stefnanda hafa ekki verið lögð fram gögn um að tilgreint leyfi ráðherra hafi legið fyrir við sölu jarðarinnar.

Að mati dómsins er orðalag 1. mgr. 6. gr. laga nr. 98/1940 ótvírætt, að það hafi verið skilyrði þess að undanskilja jarðhitann frá henni að fullgilt leyfi lægi fyrir.

Að þessu virtu og þar sem efni nefnds ákvæðis í kaupbréfinu kveður ekki beinlínis á um greindan rétt stefnanda er það niðurstaða dómsins að hann hafi ekki sýnt fram á að lóð hans við Selárdalslaugina hafi fylgt eignarréttur á auðlindum, líkt og dómkrafan hljóðar um. Er henni því hafnað og stefndi sýknaður af kröfunni.  Á hinn bóginn liggur fyrir að stefnandi hefur um áratugaskeið nýtt takmarkað magn af heitu vatni við rekstur sundlaugarinnar í Selárdal. Fór hann þar í kjölfar forvera síns, réttargæslustefnda, sem einnig hafði nýtt heita vatnið um árabil, eða frá því um miðja síðustu öld. Að þessu virtu, en einnig röksemdum stefnanda, eru efni til þess að viðukenna að þetta hafi skapað honum afnotarétt á nýtingu jarðhita innan merkja Fremri-Nýpa, sbr. ákvæði 7. gr. hefðarlaga nr. 46/1905, og þá í því magni sem nauðsynlegur er til reksturs laugarinnar. Með sömu röksemdum verður fallist á málsástæður stefnanda að því er varðar rétt hans til að nýta kaldavatnslind í næsta nágrenni við áður hnitsett mörk lóðar hans, en óumdeilt er að kaldavatnslögnin hefur legið frá því svæði og að sundlauginni í yfir 50 ár. Er því viðurkenndur réttur stefnanda til þessarar nýtingar og þá með þeim mörkum sem segir í dómsorði.

 

Eftir þessum málsúrslitum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málarekstrinum.

Gætt var ákvæðis 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

Dóminn kveður upp Ólafur Ólafsson héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð :

Viðurkenndur er réttur stefnanda, Vopnafjarðarhrepps, gagnvart stefnda, Fremri-Nýpum ehf., til þess að stofnuð verði og skráð í fasteignaskrá eignarlóð í eigu stefnanda, sem liggur innan merkja Fremri-Nýpa í Vopnafirði, afmörkuð með hnitunum, austur – norður; nr. 1C, 687023.898 - 595538.719, nr. 2C, 687075.406 595503.125, nr. 3C, 687035,994 – 595444,601, nr. 4C,  686982,012 – 595400,542, nr. 7C, 686963,329 – 595417,761, nr. 8C, 686942.721 - 595441.232, nr. 9C, 686961.661 - 595457.250, nr. 10C, 687005.558 - 595532.051 og þaðan í hnit nr. 1C.

Stefndi er sýknaður af viðurkenningarkröfu stefnanda um að nefndri lóð fylgi eignarréttur að auðlindum í jörðu í landi lóðarinnar.

            Viðurkenndur er réttur stefnanda til hagnýtingar jarðhita innan merkja Fremri-Nýpa, sem nauðsynlegur er fyrir rekstur sundlaugar á hinni hnitsettu lóð.

Viðurkenndur er rétttur stefnanda til hagnýtingar kaldavatnslindar innan merkja Fremri-Nýpa, afmörkuð með hnitum; nr. 4C, 686982,012 – 595400,542, nr. 5C, 686953,221 - 595382,278, nr. 6C, 686943,113 – 595394,129, nr. 7C, 686963,329 – 595417,761 og þaðan í hnit nr. 4C.

            Málskostnaður fellur niður.