• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Bifreiðir
  • Gáleysi
  • Ítrekun
  • Líkamsmeiðing af gáleysi
  • Skilorðsbundnir dómar
  • Skilorðsbundið fangelsi og sekt
  • Svipting ökuréttar
  • Skilorð
  • Ökuréttarsvipting
  • Ölvunarakstur

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra fimmtudaginn 7. júní 2018 í máli

nr. S-155/2017:

Ákæruvaldið

(Eyþór Þorbergsson fulltrúi)

gegn

Björgvini Má Árnasyni

(Júlí Ósk Antonsdóttir lögmaður)

 

Mál þetta, sem var dómtekið 13. apríl sl., höfðaði lögreglustjórinn á Norður­landi eystra hér fyrir dómi, fyrst þann 8. ágúst 2017 með ákæru á hendur Björgvin Má Árnasyni, kt. 000000-0000, …, Akureyri;

„fyrir eftirtalin refsilagabrot:

 

I. Umferðarlagabrot og líkamsmeiðingar af gáleysi.

(316-2017-2262 )

A.

Með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 9. apríl 2017, ekið bifreiðinni AB-000, um Laufásgötu á Akureyri og á bifreiðastæði við Útgerðarfélag Akureyringa að Fiski­tanga, með vélarlok/húdd af bifreið í eftirdragi sem á sátu A, kt. 000000-0000, og B, kt. 000000-0000, of hratt miðað við aðstæður og án tilhlýðilegrar aðgætni, með þeim afleiðingum að á nefndu bifreiðastæði rakst vélarlokið utaní kantstein og félagarnir á vélarhúddinu köstuðust af því og B rifbrotnaði og A brotnaði á vinstri upphandlegg.

Telst þetta varða við 2. mgr. 6. gr., 1. mgr. 36. og 2. mgr. 73. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum, og 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum.

 

B.

Með því að hafa ofangreinda nótt þegar hann fór í nefnda ökuferð og olli slysinu sem lýst er hér  að ofan ekið undir áhrifum áfengis (vínandi í blóði reyndist 0,53‰) og undir áhrifum fíkniefna (í blóðsýni úr ákærða mældist tetrahýdrókannabínól 0,9 ng/ml).

Telst þetta varða við 1. mgr. sbr. 2. mgr. 45. gr. og 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a., bæði sbr. 1.mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum.

 

II. Umferðarlagabrot.

(316-2017-2624)

Með því að hafa, laugardaginn 22. apríl 2017, ekið bifreiðinni AB-000, undir áhrifum fíkniefna (í blóðsýni mældist tetrahýdrókannabínól 2,5 ng/ml), norður Hörg­árbraut á Akureyri, þar sem lögreglan stöðvaði akstur hans skammt norðan við Tryggva­braut.

Telst brot þetta varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakar­kostnaðar. Jafnframt er þess krafist að ákærði sæti sviptingu ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga.“

 

Með ákæru útgefinni 16. október 2017;

„fyrir fíkniefnabrot, með því að hafa, sunnudaginn 4. júní 2017, verið með í vörslum sínum 3,61 grömm af amfetamíni, 3,15 grömm af maríhúana og 0,49 grömm af tóbaksblönduðu kannabisefni, en efni þessi var ákærði með á dvalarstað sínum að …,  … á Akureyri.

Telst brot þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga umávana- og fíkniefni nr. 65/1974, með síðari breytingum og 2. gr. sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, með síðari breytingum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta upptöku á efnum þeim, sem lögreglan lagði hald á og tilgreind eru í efnaskrá 35.147, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.“

 

Með ákæru útgefinni 26. október 2017;

„fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa föstudagskvöldið 19. maí 2017, ekið bifreiðinni AB-000, undir áhrifum fíkniefna (í blóðsýni sem tekið var vegna rannsóknar málsins mældist tetrahýdrókannabínól 1,4 ng/ml.) austur Tryggvagötu í Reykjavík þar sem lögreglan stöðvaði akstur hans.

Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakar­kostnaðar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. og 102 gr. nefndra umferðar­laga, með síðari breytingum.“

 

Með ákæru útgefinni 17. nóvember 2017;

„fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa fimmtudagskvöldið 5. júlí 2017, ekið bifreiðinni CD-000, undir áhrifum fíkniefna (í blóðsýni sem tekið var vegna rann­sóknar málsins mældist tetrahýdrókannabínól 1,3 ng/ml.) vestur Þingvallastræti á Akur­eyri, þar sem lögreglan stöðvaði akstur hans.

Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a., sbr. 1. mgr. 100. gr. um­ferðar­laga nr. 50/1987, með síðari breytingum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakar­kostnaðar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. og 102 gr. nefndra umferðar­laga, með síðari breytingum.“

 

Með ákæru útgefinni 25. janúar 2018;

„fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa fimmtudaginn 30. nóvember 2017, ekið bifreiðinni AB-000, undir áhrifum fíkniefna (í blóðsýni sem tekið var vegna rann­sóknar málsins mældist tetrahýdrókannabínól 0,8 ng/ml.) um Akursíðu á Akureyri, þar sem lögreglan stöðvaði akstur hans.

Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðar­laga nr. 50/1987, með síðari breytingum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. og 102 gr. nefndra umferðarlaga, með síðari breytingum.“

 

Málin voru sameinuð.

Ákærði krefst þess að verða sýknaður af sakargiftum samkvæmt A kafla ákæru dags. 8. ágúst 2017, en að öðru leyti dæmdur til að sæta vægustu refsingu sem lög leyfa.

 

I

Aðfaranótt 9. apríl 2017, hálftíma eftir miðnætti, var lögreglu tilkynnt um um­ferðar­óhapp. Eftir skamma leit fannst vettvangur á Fiskitanga við innkeyrslu á bifreiða­stæði við Útgerðarfélag Akureyringa að sunnanverðu. A var fluttur með sjúkrabifreið af vettvangi. Ákærði, B og C voru færðir á lögreglustöð. Lögregla ræddi við D á vett­vangi. Er haft eftir henni að hún hefði verið farþegi í bifreið sem ákærði hefði ekið og dregið vélarhlíf sem B og A hefðu setið á. Kom þetta síðan frekar á daginn við rannsókn lögreglu. Lýsti ákærði því svo að hann og félagar hans hefðu verið í verkstæðisaðstöðu við … og flestir verið að drekka bjór. Hann hefði verið búinn að drekka þrjá bjóra, þegar hann hefði ekið með vélarhlífina bundna aftan í bifreið og félaga sína tvo á henni. Hún hefði rekist í og félagarnir hratað af. Vitni lýstu atvikum fyrir lögreglu efnislega á sama veg.

Tekin voru tvö blóðsýni og eitt þvagsýni úr ákærða. Í þvagsýni mældist tetra­hýdró­kannabínólsýra og alkóhól 0,68‰. Í fyrra blóðsýni mældist tetrahýdró­kanna­bínól 0,9 ng/ml og alkóhól 0,53‰. Í síðara blóðsýni mældist alkóhól 0,38‰. Þá segir í matsgerð Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði:

Niðurstöður mælinga í ofangreindum sýnum sýna að meintur ökumaður hefur verið undir áhrifum áfengis, þegar sýnin voru tekin klukkan 01:22, 01:28 og 02:18. Ef litið er á etanólstyrkinn í blóði ökumanns, sést að hann hefur náð hámarki klukkan 01:22. Það styður niðurstaða úr síðara blóðsýninu og þvagsýninu. Brotthvarfshraði etanóls úr blóði hlutaðeigandi er 0,16‰ á klukkustund (0,53-0,38‰)*60/56. Ef reiknað er til baka með brotthvarfshraðanum, þá hefur etanólstyrkur verið um 0,14‰ hærri, eða 0,65 til 0,7‰ klukkan 00:31, að því gefnu að drykkju hafi að mestu verið lokið um og fyrir miðnætti þessa nótt. Ekki er hægt að reikna út styrk tetrahýdró­kannabínóls í blóði ökumannsins aftur í tíma, þ.e. til klukkan 00:31. Tetrahýdró­kannabínól er samverkandi með alkóhóli og getur aukið ölvunaráhrif þess.

Samkvæmt áverkavottorðum rifbrotnaði B og A fékk brot á vinstri upphandlegg.

 

II

Ákærði og vitnin B, A, D og C gáfu skýrslur fyrir dómi. Þykir ekki þurfa að rekja skýrslur þeirra í einstökum atriðum. Kom fram í skýrslum allra, bæði ákærða og vitna, að atvik hefðu verið með þeim hætti að ákærði dró fyrst töldu vitnin tvö á vélar­hlífinni, uns hún rakst í kantstein eða hliðstaur og vitnin féllu af og slösuðust.

Virða verður ákærða það til gáleysis að hafa dregið hlífina með mönnunum á með þessum hætti og stýrt förinni svo að hún rakst utan í og þeir féllu af. Var gáleysi hans þeim mun meira fyrir þá sök að hann hafði neytt áfengis áður. Leysir það hann ekki undan sök að mennirnir tóku áhættu með því að láta draga sig á vélarhlífinni, en litið verður til þess við ákvörðun refsingar. Ákærði gerðist með þessum verknaði sekur um brot gegn tilgreindum refsiákvæðum í kafla A í fyrst greindu ákærunni.

Ákærði hefur að öðru leyti játað sök samkvæmt ákærum. Er ekki varhugavert að byggja á játningu hans sem er í samræmi við rannsóknargögn. Verður hann sakfelldur samkvæmt því fyrir brot gegn tilgreindum refsiákvæðum í ákærum.

 

III

Ákærði sættist þann 1. júní 2015 á greiðslu 160.000 króna sektar og sviptingu ökuréttar í 18 mánuði, fyrir brot gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með áorðnum breytingum. Ber nú að ákveða refsingu hans samkvæmt 77. gr. almennra hegningarlaga, en hvað umferðarlagabrotin varðar samkvæmt 8. mgr. 100. gr. umferðarlaga og gæta ákvæða reglugerðar nr. 328/2009.

Að þessu gættu ákveðst refsing ákærða fangelsi í 30 daga, skilorðsbundið eins og greinir í dómsorði og sekt að fjárhæð 850.000 krónur, til greiðslu innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa að telja, að viðlögðu fangelsi í 36 daga. Með vísan til 6. mgr. 102. gr. umferðarlaga verður ákærði sviptur ökurétti í 6 ár frá birtingu dómsins að telja.

Gera ber efni upptæk eins og krafist er.

Loks verður ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað, sem samkvæmt yfirlitum nemur 581.572 krónum og málsvarnarlaun skipaðs verjanda eins og þau eru ákveðin í dómsorði, virðisaukaskattur meðtalinn.

Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson dómstjóri. Gætt var ákvæðis 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008.

 

D Ó M S O R Ð :

Ákærði, Björgvin Már Árnason, sæti fangelsi í 30 daga og greiði 850.000 krónur í sekt til ríkissjóðs.

Fresta ber fullnustu fangelsisrefsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu þessa dóms að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. Fangelsi í 36 daga komi í stað sektarinnar, verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu þessa dóms að telja.

Ákærði er sviptur ökurétti í 6 ár frá birtingu dómsins að telja.

Ákærði greiði 913.582 krónur í sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Júlíar Óskar Antonsdóttur lögmanns, 332.010 krónur.

Gerð eru upptæk 3,61 grömm af amfetamíni, 3,15 grömm af maríhúana og 0,49 grömm af tóbaksblönduðu kannabisefni.