Ákærða X banaði hundi af nærliggjandi bæ þegar hann hljóp í átt að æðarvarpi í eigu ákærðu. Við það verk notaði hún byssu í eigu ákærða Y, en gildistími skotvopnaleyfa þeirra beggja var þá útrunninn. Vegna þessa voru ákærðu X gefin að sök eignarspjöll og vopnalagabrot og þess krafist að skotvopnið yrði gert upptækt. Talið var sannað að ákærða hefði skotið hundinn í þeim eina tilgangi að verja æðarvarpið gegn yfirvofandi tjóni sem hundurinn hefði getað valdið og að ekki hefði verið kostur á að beita öðrum og vægari úrræðum í því skyni. Jafnframt var talið sannað að eigendur varpsins hefðu áður verið búnir að brýna fyrir eigendum hundsins að gæta hans sérstaklega á varptímanum og að ákærða X hefði reynt að reka hundinn frá varpinu áður en hún greip til þess örþrifaráðs að skjóta hann. Enn fremur var talið sannað að þeir hagsmunir sem ákærðu verndaði með verkinu hefðu verið miklum mun meiri en þeir hagsmunir sem hún fórnaði með því að aflífa hundinn. Því var talið að uppfyllt væru skilyrði neyðarréttar, samkvæmt 13. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og ákærðu voru sýknuð af kröfum ákæruvaldsins.