- Þjóðlenda
- Ógildingarmál
D Ó M U R
Héraðsdóms
Norðurlands vestra 31. desember 2018 í máli nr. E-24/2015:
Blönduósbær
(Stefán Þórarinn Ólafsson lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu
(Edda Björk Andradóttir lögmaður)
I
Mál þetta var höfðað 15. júní 2015 og tekið til dóms 21. desember 2018.
Stefnandi er Blönduósbær, Hnjúkabyggð 33, Blönduósi.
Stefndi er íslenska ríkið, Vegmúla 3, Reykjavík.
Dómkröfur
Stefnandi krefst þess að felldur verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar frá 19. desember 2014 í máli nr. 1/2013, þess efnis að Skrapatunguafrétt sé þjóðlenda, þ.e. eftirfarandi úrskurðarorð:
„Það er því niðurstaða óbyggðanefndar að landsvæði það sem nefnt hefur verið Skrapatunguafrétt, svo sem það er afmarkað hér á eftir, teljist til þjóðlendu í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998.:
Upphafspunktur er í Fífugili og úr því er farið í Mjóadalsá við Gálgagil og upp eftir ánni í Mjóadalsbotn. Þaðan er dregin bein lína í Kirkjuskarðsbotn og úr honum austur í Strimpulækjardrög. Úr Strimpulækjardrögum er háfjallinu fylgt norður og í Miðaftansfjall. Úr Miðaftansfjalli er farið austur í Laxá þar til komið er út á móts við landamerkjagarð þann er liggur upp frá Tröllá að austan. Ræður Laxá til norðurs að Rauðagili. Farið er vestur eftir Rauðagili í Rauðagilsbotna og þaðan til norðurs í upphafspunkt í Fífugili um Fannstóð.
Sama landsvæði er í afréttareign Blönduósbæjar, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga.“
Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði að enga þjóðlendu sé að finna innan framangreindra landamerkja Skrapatunguafréttar og stefnandi krefst þess jafnframt að viðurkenndur verði beinn eignarréttur hans að Skrapatunguafrétt.
Loks krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu í samræmi við málskostnaðarreikning eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans en til vara að málskostnaður verði látinn niður falla.
II
Atvik máls
Samkvæmt 7. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta skal óbyggðanefnd kanna og skera úr um hvaða land telst til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda, skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur og úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna.
Með bréfi til fjármálaráðherra, dagsettu 21. febrúar 2008, tilkynnti óbyggðanefnd þá ákvörðun sína að taka til umfjöllunar tiltekið landsvæði á Norðvesturlandi, sbr. 8., 11. og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998. Landsvæði þetta, hið níunda í röðinni hjá óbyggðanefnd, tók til Sveitarfélagsins Skagafjarðar, Sveitarfélagsins Skagastrandar, Skagabyggðar, Blönduósbæjar, Húnavatnshrepps vestan Blöndu, Húnaþings vestra, Borgarbyggðar (að undanskildum fyrrum Kolbeinsstaðahreppi), Skorradalshrepps, Hvalfjarðarsveitar og Akraneskaupstaðar. Óbyggðanefnd ákvað í október 2008 að breyta fyrirhugaðri röð næstu svæða á þann veg að taka svæði 7 norður til umfjöllunar á undan svæði 8 og einnig að skipta svæði 8 í tvennt. Landsvæðið sem tekið var til umfjöllunar í úrskurði nefndarinnar eftir þessar breytingar nefndist Norðvesturland (8 norður).
Landsvæðið Norðvesturland afmarkast svo:
Að vestan ræður Hrútafjarðará sem fylgt er
að sýslumörkum Húnavatnssýslu og Mýra- og Borgarfjarðarsýslu á Arnarvatnsheiði.
Sýslumörkum er fylgt austur að sýslumörkum Árnessýslu og er þeim einnig fylgt
til austurs í Blöndu. Blöndu er fylgt norður að norðurmörkum fyrrum
Bólstaðarhlíðarhrepps og er þeim fylgt austur að norðurmörkum fyrrum
Seyluhrepps og þeim fylgt austur í Héraðsvötn. Héraðsvötnum er svo fylgt til
ósa. Að norðan afmarkast svæðið af hafi.
Fjármálaráðherra var upphaflega veittur
frestur til 31. júlí 2009 til að lýsa kröfum um þjóðlendur á þessu svæði, væri
um slíkar kröfur að ræða. Vegna ákvæða í lögum nr. 70/2009, um ráðstafanir í
ríkisfjármálum, var fjármálaráðherra tilkynnt að óbyggðanefnd myndi ekki taka til
meðferðar ný svæði né fjármálaráðherra lýsa kröfum ríkis um þjóðlendur fyrr en
í fyrsta lagi 1. janúar 2012. Hafði þetta í för með sér að fyrri ákvörðun
óbyggðanefndar, um að veita íslenska ríkinu kröfulýsingarfrest til 31. júlí
2009, var úr gildi fallin.
Þann 23. júní 2011, var fjármálaráðherra
tilkynnt að óbyggðanefnd tæki Norðvesturland aftur til meðferðar og honum
veittur frestur til 9. janúar 2012 til að lýsa kröfum um þjóðlendur á þessu
svæði, væri um slíkar kröfur að ræða. Sýslumönnum og fyrirsvarsmönnum
viðkomandi sveitarfélaga, þ.e. Húnaþings vestra, Húnavatnshrepps,
Blönduósbæjar, Sveitarfélagsins Skagastrandar, Skagabyggðar og Sveitarfélagsins
Skagafjarðar, var tilkynnt um ákvörðun óbyggðanefndar og gerð grein fyrir
framhaldinu.
Kröfulýsingarfrestur fjármálaráðherra var fyrst
framlengdur til 31. mars 2012 og síðar til 30. júní sama árs.
Kröfulýsingar stefnda um þjóðlendur á Norðvesturlandi bárust óbyggðanefnd 2. júlí 2012. Hinn 5. júlí sama ár birtist tilkynning í Lögbirtingablaðinu um málsmeðferð á svæðinu og útdráttur úr þjóðlendukröfum stefnda ásamt uppdrætti í samræmi við ákvæði 2. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998 og skorað á þá, sem teldu til eignarréttinda á því landsvæði sem féll innan svæðisins, að lýsa kröfum sínum fyrir óbyggðanefnd eigi síðar en 7. janúar 2013 en sá frestur var síðar framlengdur fram í febrúar. Jafnframt kom fram að yfirlýsingu um kröfugerð yrði þinglýst á fasteignir sem skráðar væru í þinglýsingabók og málið varðaði. Kröfur stefnanda voru síðan gerðar aðgengilegar á skrifstofum sýslumanna á Sauðárkróki og Blönduósi, skrifstofum viðkomandi sveitarfélaga, auk heimasíðu og á skrifstofu óbyggðanefndar. Þá var málið kynnt í fjölmiðlum.
Gefið var út yfirlit yfir
allar lýstar kröfur og þær færðar inn á uppdrátt. Lögboðin kynning fór fram með
því að yfirlit og uppdráttur lágu frammi á skrifstofum sýslumanna á Sauðárkróki
og Blönduósi svo og á skrifstofum viðkomandi sveitarfélaga og á heimasíðu og
skrifstofu óbyggðanefndar. Athugasemdafrestur var til 22. maí 2013. Engar
athugasemdir bárust óbyggðanefnd fyrir lok frestsins. Stefndi lagði fram
kröfulýsingar um þjóðlendur á svæðinu í einum hluta en á móti bárust 16
kröfulýsingar ýmissa aðila, sem sumar skörðust eða náðu til fleiri en eins
landsvæðis. Óbyggðanefnd fjallaði um landsvæði það sem hér er til umfjöllunar,
þ.e. Skrapatunguafrétt, í máli nefndarinnar nr. 1/2013.
Ekki er um það deilt að
stefnandi höfðaði mál þetta innan þess frests sem gefinn er skv. 1. mgr. 19.
gr. laga nr. 58/1998.
III
Hér á eftir verður í stórum
dráttum rakin saga Skrapatunguafréttar.
Landsvæði það sem hér er um deilt liggur á
sunnanverðum Skaga sem liggur á milli Húnaflóa að vestan og Skagafjarðar að
austan og er í um 300 til 1000 metra hæð yfir sjávarmáli. Á vesturmörkum
svæðisins liggur Mjóidalur í norður-suður. Austan við hann og samsíða er
Bárðardalur sem opnast að norðan í Ambáttardal. Norðurhluti ranans milli
Mjóadals og Bárðardals nefnist Gulltungur. Austur af Bárðardal liggur Fannstóð
(567 m) og við suðvesturenda þrætusvæðisins rís Tröllakirkja (1000 m). Þá
liggur Miðaftansfjall (784 m) austan framhluta Bárðardals. Laxá í
Skefilsstaðahreppi rennur á austurmörkum svæðisins.
Elsta heimild um Skrapatungu er frá 17.
maí 1471 en þá vitnaði séra Bersi Svartsson um vottorð tveggja manna, þess
efnis að Skrapatunga ætti allan Mjóvadal fyrir austan fram Mjóvadalsá,
Gulltungur, Bárðardal og Ambáttardal til móts við Þverá í Norðurárdal. Þar
segir m.a.:
„Jordin skrapatvnga er liggr j
hoskolldzstadaþingvm var eignadr allr miouadalr firir avstan fram miofuadalsa.
gulltvngur. bardardal og ambattardal til motz vid þvera j nordrardal. vpp a
fioretigevetra eda lengr. Svo ad einge akærde nie eignade sier nema þeir sem j
tvngv bioggv.“
Þann 4. september 1472 útnefndi Ólafur
biskup á Hólum 12 presta til þess að dæma um eignarrétt í Mjóadal. Málsatvik
voru þau að Ólafur biskup kærði Þorstein Ormsson, bónda að Mánaskál, fyrir að
gera sel og beita Mjóadal tvö sumur en hann taldi dalinn vera eign
Skrapatungu. Prestarnir dæmdu sem svo að landareign í Mjóadal, austan við ána,
væri Skrapatungu til ævinlegrar eignar. Væri dómurinn í samræmi við eiða sem
svarnir höfðu verið um að dalurinn hefði verið talin eign Skrapatungu í yfir
þrjá tugi vetra ásamt Gulltungum, Bárðardal og Ambáttardal. Þá dæmdu þeir
einnig að bóndinn að Mánaskál skyldi greiða fyrir selstöðu sem hann hefði nýtt
tvö sumur á svæðinu. Ólafur biskup á Hólum staðfesti dóminn fimm dögum síðar,
þann 9. september 1472.
Á manntalsþingi, að Vindhæli þann 25. júní 1805, var
ályktað að allir bændur frá Hallárdalsá og inn að Laxá, allt fram að Núpi skuli
reka fé sitt á Skrapatunguafrétt, eins og gert hafði verið að undanförnu, að
viðlagðri sekt. Skrapatunguábúanda var jafnframt tilsagt að hreinsa heiðina
forsvaranlega. Í dómabók Húnavatnssýslu var eftirfarandi fært til bókar af
þessu tilefni:
9. Var talad umm upprekstur fiár á Skrapatungu afrett,
og var þannig þar umm talad og ályktad i Réttinnum, ad bændur aller frá
Hallardalsá og hér innad Laxá, alt framm ad Núpi, skule reka fé sitt á ádur
nefnda afrétt, epter sem giört hefur verid ad undannförnu, eru aller hér med
þar tilskildader, eptir ádur sögdu under Fíremarks múlkt, firer þá sem þetta
forsóma, ad raunarlausu, ad reka géldfé sitt á ádursagda afrétt. Þar hiá
tilsegist Skrapatungu ábúanda ad hreinsa heidina forsvaranlega, so ej þurfi
þarum umm ad klaga med rökum.
Á manntalsþingi, að Vindhæli hinn 8. júní 1830, var
lesin lögfesta fyrir afréttarlandi Skrapatungu en presturinn á Höskuldsstöðum
mótmælti að því leyti sem land á Ambáttardal snerti. Eftirfarandi var fært til
bókar í dómabók Húnavatnssýslu af þessu tilefni:
14. Lesinn Lögfesta fyrir Jardarinnar Skrapatungu
afréttarlandi af tedrar Jardar Eiganda Bonda Gudmundi Olafssyni á Hellulandi
dagsett 3ia apríl þ. á. og protesterud af prestinum síra Joni Péturssyni á
Hoskuldsstodum ad því leiti sem land á Ambattárdal snertir hvörn Dal hann
allann eignar Hoskuldsstada kirkiu.
Á manntalsþingi, sem fram fór að Sauðá hinn 9. júní
1831, lét Guðmundur Ólafsson, bóndi á Hellulandi, lesa lögfestu fyrir
Skrapatunguafréttarlandi. Í dómabókinni kemur eftirfarandi fram:
Sídan var upplesinn logfesta dat. 1831
Rutstödum 1831 fyrir Kalfardal í Saudarheppi. Bondinn Gudmundur Ólafsson á
Hellulandi protesteradi þessa logfestu og let lesa logfestu af D.D. [þ.e. ditto
dags.] fyrir Skrapatungu afrettar landi. [...].
Í kafla um fjöll og heiðar í sóknarlýsingum á
Fagraness- og Sjávarborgarsóknum, sem séra Jón Reykjalín ritaði og er frá árinu
1840, kemur fram varðandi norðvesturmörk Reynistaðarafréttar og
Skrapatunguafréttar að Tröllá skilji norðvesturhorn Reynistaðarafréttar frá
Skarapatunguafrétt. Tröllafoss sé í ánni en Reynistaður hafi frá fornu átt
hálfa laxveiði á móti Skrapatungu.
Á manntalsþingi, höldnu að Vindhæli þann 31. maí 1845,
var lesin lögfesta Guðmundar Davíðssonar bónda, dagsett 10 dögum fyrr, fyrir
Skrapatungu, ásamt hennar afréttarlandi.
Séra Eggert Ó. Briem lýsir afrétti og afréttarnotum í
Höskuldsstaðasókn á árinu 1873. Í lýsingu hans kemur fram að útbæirnir noti
Brunnárdalshnjúka sem og hafi rétt nálægt Skagastrandarkaupstað er nefnist
kaupstaðarrétt. Höskuldsstaðir og einstaka aðrir bæir reki á
Höskuldsstaðaafrétt en flestir reki á Skrapatunguafrétt og fjöldi Langdæla að
auki. Skrapatungurétt sé rétt ofan samnefnds bæjar en hún sé mjög fallin og svo
hafi lengi verið og lengi verið staðið til að flytja hana þaðan. Einstaka menn
í Höskuldsstaðasókn reki á Heiðarafrétt í Gönguskörðum og sæki Króksrétt hjá
Sævarlandi.
Séra Eggerts Ó. Briem lýsir einnig í sóknarlýsingu
sinni Skrapatunguafrétt, sem liggi fram af „Norðrárdal“ og fram kemur hjá honum
að í Jarðatali Johnsens sé henni lýst sem „almenning í Mjóadal, Gulltungum,
Bárðardal og Ambættardal.“ Að fornu hafi hún verið metin 10 hndr., en verður nú
að tiltölu við heimajörðina aðeins 6,33 hndr. Séra Eggert vísar til þess að
eftir uppdrætti Íslands séu sýsluskil á Kirkjuskarði og liggi þau síðan litlu
fyrir sunnan Mjóadalsdrög um Bárðardalsdrög og þaðan fyrir vestan Fannstóð yfir
austanverðan Ambáttardal og fyrir vestan Sandfell og Ranafell norður á
Skagaheiði. Segir hann að séu þessi sýsluskil rétt og á rökum byggð þá eigi
Skrapatunga eftir máldögum og jafnvel Höskuldsstaðir eftir lögfestum land í
Skagafjarðarsýslu eða austan meginsýsluskilanna á uppdrættinum. Skrapatungu er
eignað land úr Mjóadalsdrögum í Bárðardalsdrög og þaðan í Tröllárdrög eða
Tröllárbotna sem venjulega séu nefndir Tröllabotnar. Þá ráði Tröllá, uns hún
rennur í Laxá ytri, þá Ytri-Laxá, uns í hana fellur Ambáttará, þá til vesturs
Ambáttará, miður Ambáttardalur og Ambáttarlækur, uns hann fellur í Bárðardalsá,
og þá Bárðardalsá, uns hún sameinast Mjóadalsá, og þá Mjóadalsá suður á
Kirkjuskarðsþröskuld. Segir séra Eggert að talsvert af þessu landi sé þrætuland
og lýsir því að þann hluta Skrapatunguafréttar, er virðist liggja í
Skagafjarðarsýslu, vilji Skagfirðingar (Staðarsveitungar) eigna sér, einkum
Tröllárbotna og niður til Rauðagils, en Skrapatunga nýtur þess þó að mestu. Svo
er sagt að Vík í Staðarsveit sé í máldagaskjölum eignað „Fannstóð á fjalli“, og
hafi eigandi eða eigendur Víkur á dögum Jóns Espólíns gert tilkall, en
ekki áunnið, og kenna sumir ólögkænsku eða óskörungsskap sýslumanns.
Séra Eggert lýsir einnig mörkum Höskuldsstaðaafréttar
gagnvart Skrapatunguafrétt og segir mörk afréttanna ekki koma heim og saman við
Skrapatungumáldaga því að þeir eigni Höskuldsstöðum Ambáttardal sunnanverðan að
neðanverðu austur að Sjónarhól og suður í garðlag á mýrunum fyrir norðan Ássel,
þaðan í þúfur á Fannstóðsfjallsbrúninni, sem eru sín hvorum megin Fífugils, og
þaðan ofan í Bárðarstein, en það er allt eignað Skrapatungu. Hann segir að nú
eigni elstu máldagar Höskuldsstaðakirkju hálfan Ambáttardal, sem virðist verða
að skilja sem svo að um sé að ræða Ambáttardal vestanverðan, því að ólíklegra
sé að Höskuldsstaðir hafi átt dalinn allan sunnanverðan austur í Laxá. Þó sé
hugsanlegt að einungis vesturhluti Ambáttardals hafi verið nefndur
Ambáttardalur.
Á manntalsþingum að Engihlíð 28. maí 1878 og Viðvík
29. s.m. var lesið upp bann Árna Jónssonar ,bónda á Þverá (líklega Þverá í
Hallárdal), dagsett 18. maí 1878, þar sem hann fyrirbauð allan ágang af stóði
og fjallafé á land sitt. Einkum kvartar hann yfir ágangi stóðhrossa af
Skrapatunguafrétt og að hrossin séu ekki rekin í miðja afréttina. Kveðst hann
hafa í hyggju, komandi sumar frá því að 11 vikur eru af sumri, að taka þau
stóðhross sem mesta ásókn gjöra í heimaland hans og engi í gæslu og láta
eigendur þeirra leysa þau út og vísar hann í því sambandi til reglugerðar, er
hann tiltekur, svo og ákvæða í Jónsbók.
Enghlíðingar og Vindhælingar áttu í deilum um
skilaréttir á síðasta aldarfjórðungi 19. aldar og var m.a. ritað um þær í
ritinu Héraðsstjórn í Húnaþingi. Þar kemur fram að á árinu 1875 hafi verið
úrskurðað í deilumálum hreppanna um það hvort nýbyggð Landsendarétt eða gömul
og hálfhrunin Skrapatungurétt skyldi vera lögrétt og um gangnatilhögun þeirra.
Skrapatungurétt hafði lengi verið skilarétt en Landsendarétt var ný og stóð hún
undir norðanverðum Spákonufellshöfða. Var ákveðið að byggja Skrapatungurétt upp
og að til hennar ætti að ganga auk Skrapatunguafréttarins allt svæðið norður að
Hallá og þaðan þvert yfir „eins og að undanförnu hefir verið.“ Líka var ákveðið
að Landsendarétt yrði lögrétt fyrst um sinn. Mótmæli bárust við þessari
ákvörðun úr Rípur-, Sauðár- og Staðarhreppum í Skagafirði. Vildu Skagfirðingar
ekki fallast á að hin nýbyggða Landsendarétt yrði skilarétt, nema því aðeins að
töfludregið yrði í Skrapatungu. Lauk deilunni að sinni með því að landshöfðingi
ákvað að tillögu hreppsnefnda Vindhælis- og Engihlíðarhreppa, vorið 1879, að
gangnamörkin á milli réttanna tveggja yrðu sem næst landamerkjum Syðri-Eyjar og
Höskuldsstaða og þaðan upp á há Dýnufjall. Aftur dró til tíðinda árið 1890
þegar sýslunefndin ákvað að Skrapatungurétt skyldi verða aðalskilarétt
Vindhælinga en Landsendarétt aukarétt. Þá hafði réttin á Landsenda verið
aðalrétt Vindhælinga um nokkur ár, enda réttin í Skrapatungu að mestu fallin.
Um ágreining Enghlíðinga við nágranna sína í
Bólstaðarhlíðarhreppi um fjallskil austan Blöndu á síðasta aldarfjórðungi 19.
aldar er einnig fjallað í ritinu Héraðsstjórn í Húnaþingi og þar kemur fram að
Enghlíðingar hafi á þessum árum átt í annarri og ekki síður harðri deilu við
nágranna sína í Bólstaðarhlíðarhreppi um fjallskil á Eyvindarstaðaheiði en
Enghlíðingar vildu heldur eiga upprekstur á Skrapatunguafrétt en Eyvindarstaðarheiði
enda töldu þeir fé af heiðinni „bæði verra að ull og holdum, en af
Höskuldsstaða- og Skrapatunguafrjett, þar eð land er ljelegt og afsett á
Eyvindarstaðaheiði, auk þess sem kostnaðurinn er margfaldur.“
Á manntalsþingi að Engihlíð 21. maí og að Viðvík 22.
maí 1890 var lesið upp skjal, dagsett 10. maí sama mánaðar, um fjallatolla og
upprekstur á Skrapatunguheiði frá Klemenz Sigurðssyni, ábúanda á Skrapatungu.
Skjalið hljóðar svo:
Undirritaður umráðamaður Skrapatunguafrjettar og
ábúandi Skrapatungu lýsir hjermeð yfir því, þeim öllum til eptirbreytni er
Skrapatungnaafrjett nota, eður og hirða fje sitt á haustum í
Skrapatungnaafrjett, að hefi sett og set hjermeð þær reglur um fjallatolla og
rjettartolla, sem hjer segir:
1. Hver sem afrjettina notar eður er skyldur að
nota, greiði mjer eða rjettum umráðamanni afrjettarlandsins í rjettum hvert
haust, 3 – þrjá – aura fyrir hvert fjallalamb eða dilklamb og 4 – fjóra – aura
fyrir hverja veturgamla kind eða eldri, er á afrjett gengur eða skylt er að
gangi.
2. Hver sem stóð rekur á afrjettina, eða er
skyldur að reka, greiði til afrjettarbóndans í rjettum hvert haust 80 – áttatíu
– aura fyrir hvert tryppi veturgamalt eða eldra og 1 – eina – krónu fyrir
hverja folaldsmeri.
3. Þeir sem lönd eiga að afrjettinni og álitið er
að nota megi til upprekstrar víðlend heimalönd, en hirða þó fje sitt við
Skrapatungurjett, hvert haust, greiði ábúanda Skrapatungu í rjettum hvert haust
rjettartoll, er nemi 5 – fimm – fiskum fyrir dilk hvern eða dilksfjelag, og
áskil jeg mjer aðgang að þeim manni í dilksfjelaginu, sem fjárflestur er, sem
aptur gengur að hinum dilkeigendunum eptir tiltölu.
4. Nú vanrækir einhver að greiða áskilda borgun í
rjettum þá greiði hann helmingi meiri borgun en ella, og má búast við lögsókn
til borgunar á áfallinni skuld sinni.
Reglur þessar verða bindandi fyrir alla
hlutaðeigendur, þá er þær hafa verið þinglesnar á Engihlíðar- og
Vindhælishreppa- manntalsþingum.
Á manntalsþingi, höldnu að Engihlíð þann 21. maí 1890,
var lesið skjal, dagsett 10. sama mánaðar, um upprekstur á Skrapatunguheiði en
þeir sem sóttu þingið mótmæltu upphæð upprekstrartolla.
Í frumvarpi til reglugjörðar um notkun afrétta í
Húnavatnssýslu frá árinu 1894 segir um afréttarnot íbúa Vindhælishrepps annars
vegar og íbúa Engihlíðarhrepps hins vegar í Skrapatunguafrétt að
Skrapatungufjall skuli vera lögafréttarland Skrapatungu, Efra- og Neðra-Skúfs,
Neðstabæjar, Njálsstaða, Syðri-Eyjar með Eyjakoti, Ytri-Eyjar, Kambakots,
Kjalarlands og Blálands. Varðandi Engihlíðarhrepp er mælt fyrir um að
Refasveitarbúar, Mýrabændur og Langdælingar fyrir norðan Geitaskarð og Laxdælir
fyrir vestan Laxá skuli eiga upprekstur í Skrapatunguafrétt.
Þann 11. maí árið 1895 seldu Guðmundur Pétursson
Hofdölum og Jón Sigurðsson Skúfstöðum Árna Á. Þorkelssyni á Geitaskarði jörðina
Skrapatungu með þrætulandi, ásamt eyðijörðinni Fannlaugarstöðum fyrir 1.800
krónur. Í afsalinu segir svo:
Við undirskrifaðir Guðmundur Pétursson óðalsbóndi
á Hofdölum og Jón Sigurðsson bóndi á Skúfstöðum gjörum hjermeð kunnugt að við með
þessu brjefi seljum og afsölum til sýslunefndarmanns Árna Á. Þorkelssonar á
Geitaskarði í Húnavatnssýslu fasteignir og lönd þessi:
a. Jörðina Skrapatungu 19 hndr. með þrætulandi
4,2 hndr. alls 23,2 hndr. að dýrleika innan Vindhælishrepps í Húnavatnssýslu.
Afsal
þetta var síðan þinglesið á manntalsþingi að Skefilsstöðum 2. júní 1896.
Í bréfi dags. 29. febrúar 1896 óskaði oddviti
Engihlíðarhrepps eftir samþykki sýslunefndar til að mega kaupa fyrir reikning
sveitarsjóðs jörðina Skrapatungu með afréttarlandi, ásamt eyðijörðinni
Fannlaugarstöðum sem þá var brúkuð fyrir afrétt. Í bréfabók Engihlíðarhrepps
kemur fram varðandi þetta að oddvita hafi verið falið að leita samþykkis
sýslunefndar til þess að kaupa fyrir reikning sveitarsjóðs Engihlíðarhrepps
jörðina Skrapatungu í Vindhælishreppi með fylgjandi afréttarlandi ásamt
eyðijörðinni Fannlaugarstöðum sem brúkuð er fyrir afrétt og liggjandi er í
Skefilstaðahreppi og þrætuland það sem í jarðamatinu frá 1861 er talið milli
nefndrar jarðar Skrapatungu og Skálahnjúks í Sauðárhreppi. Jarðirnar átti að
nota sem afréttarland til uppreksturs fyrir hreppinn og voru ástæður fyrir
kaupunum sagðar vera til þess gerðar að eyða allri réttaróvissu þar að lútandi.
Í skýrslu um eignir og skuldir sveitarsjóðs Engihlíðarhrepps, dagsettri 4.
nóvember 1898, kemur m.a. fram að sveitarsjóður eigi eftirfarandi Skrapatungu
með afréttarlandi, Fannlaugarstaði sem sé eyðiland og svo þrætuland, allt metið
á 32,4 (hndr.) eða 1800.00 kr. Í sömu skýrslu kemur fram að hreppurinn hafði 5
gemlinga eða 31,68 krónur í tekjur fyrir afgjald af jörðinni Skrapatungu
fardagaárið 1897 til 1898.
Á manntalsþingi að Engihlíð þann 16. maí 1913 létu
bændurnir á Mánaskál og Balaskarði þinglýsa bannskjali um upprekstur um
Balaskarð til Skrapatunguafréttar. Bannið var tilkomið vegna þess að ekki var
unnt að reka búpening til afréttar á Skrapatunguafrétti nema með því eina móti
að skemmdir yrðu á engjum beggja jarðanna. Jafnframt lögðu bændurnir bann við
því að sauðfé sem réttað væri að vori í Skrapatungurétt yrði sleppt við réttina
svo sem fyrir hafi komið að undanförnu en slíkt leiddi til að féð væri skilið
eftir í heimalöndum þeirra, túnum og engjum.
Í tilefni af þingályktun um rétt ríkisins til
vatnsorku í almenningum frá 27. september 1919 óskaði Stjórnarráðið eftir
skýrslum frá öllum sýslumönnum landsins um svæði í sýslum þeirra sem talin voru
til almenninga og um afréttarlönd sem sannanlega hafa ekki tilheyrt nokkru
lögbýli. Sýslumenn fólu svo viðkomandi hreppstjórum að útbúa skýrslur þessar. Í
svari hreppstjóra Engihlíðarhrepps, dagsettu 5. febrúar 1920 til sýslumannsins
í Húnavatnssýslu, vegna þessa kemur fram um Skrapatunguafrétt:
[...]Þar á móti á Engihlíðarhreppur svonefnda
Skrapatungu afrétt með landi því sem Fannlagastöðum tilheyrði.
Er Skrapatunga í Vindhælishreppi byggð jörð og
mun það afréttar land sem til forna hefir fylgt þeirri jörð því teljast í
Vindhælishreppi. En á meðan Fannlagastaðir voru lögbýli, sem yfir 50 ár er
síðan, þá voru þeir í Skefilstaðahreppi innan Skagafjarðarsýslu.
Land Fannlagastaða á og brúka Engihlíðarhreppsmenn sem
afréttarland.
Í svari hreppstjóra Vindhælishrepps, dagsettu 1. apríl
1920, vegna fyrirspurnar sýslumanns um almenninga og afréttarlönd í
Húnavatnssýslu kemur fram að hreppurinn hafi keypti eyðijörðina Hvammshlíð og
sé hún nú afréttarland þeirra en annað afréttarland eigi hreppurinn ekki.
Sýslumaðurinn í Skagafirði svarar þessari sömu
fyrirspurn þannig að aðrir almenningar eða afréttarlönd séu ekki í sýslunni en
hin svonefndu Nýjabæjaröræfi austan undir Hofsjökli.
Í svarbréfi sýslumannsins í Húnavatnssýslu, dags. 28.
apríl 1920, til Stjórnarráðsins, vegna fyrirspurnarinnar frá 29. desember 1919
um almenninga og afrétti, kemur fram að sýslumaður hafi aflað umsagna hjá
hlutaðeigandi hreppstjórum og telji hann engin landsvæði í umdæmi sínu falla
undir þá skilgreiningu nema hina svonefndu Almenninga í Skagaheiði.
Hinn 24. maí árið 1944 seldi Engihlíðarhreppur Jóni
Stefánssyni á Höskuldsstöðum jörðina Skrapatungu en í afsali var afréttarlandið
Skrapatunguafrétt undanskilið. Þá var í afsalinu mælt fyrir um að á jörðinni
mætti standa skilarétt eins og verið hafði með nauðsynlegum umgangi og
átroðningi í landi jarðarinnar sem af stafaði af störfum við réttina. Hinn 1.
júní 1947 seldi Jón Stefánsson á Höskuldsstöðum síðan Antóníusi Péturssyni í
Skrapatungu jörðina Skrapatungu með sömu skilmálum og þegar hann keypti hana
1944. Tíu árum síðar eða þann 15. ágúst 1957 seldi Antóníus Pétursson svo syni
sínum Sophusi eignarjörð sína Skrapatungu og var þá tekið fram í afsali að sömu
kvaðir hvíldu á jörðinni vegna Skrapatunguréttar og áður. Landamerki eru þá
sögð ágreiningslaus.
Í ritinu Göngur
og réttir II, frá árinu 1949, segir eftirfarandi um smölun
afréttarfénaðar í Skrapatungurétt:
Til Skrapatunguréttar er smalað afréttarfénaði
Engihlíðarhrepps og Vindhælishrepps nýja að mestum hluta, eða því svæði, sem
þangað var gengið áður en deilur komust í algleyming. Þangað hefir komið að
jafnaði grúi fjár, og í seinni rétt mikill fjöldi hrossa. Fénaður Skagfirðinga
hefir löngum sótt yfir sýslumörkin vestur í fjöllin og komið til réttar í
Skrapatungu.
Hinn 20. febrúar 1989 sendi félagsmálaráðuneytið öllum
sveitarstjórnum á Íslandi bréf og spurðist fyrir um upprekstrarrétt og afrétti
sveitarfélaga o.fl. þar að lútandi. Oddviti Vindhælishrepps, Jónas B.
Hafsteinsson, svaraði bréfi ráðuneytisins 28. sama mánaðar. Í svari Jónasar
kemur fram að afréttur sveitarfélagsins séu tvö eyðibýli sem hreppurinn hefur
keypt, annars vegar Hvammshlíð, sem keypt var af Höskuldsstaðakirkju á árinu
1898, og hins vegar Þverá í Hallárdal, sem keypt var af Ólafi Björnssyni á
Árbakka árið 1942. Önnur afréttarlönd séu ekki á vegum sveitarfélagsins.
Mjög ítarlega lýsingu Bjarna Ó. Frímannssonar á
afréttarlöndum Engihlíðarhrepps, Skrapatunguafrétt, sem og á örnefnum þar, má
lesa í Húnaþingi III. Þar segir
m.a. eftirfarandi um Skrapatunguafrétt:
Afréttarland þetta, ásamt heimajörðinni
Skrapatungu, eignaðist Engihlíðarhreppur með afsalsbréfi útgefnu 8. september
1896 af Árna Á. Þorkelssyni bónda að Geitaskarði, sem þá var oddviti
Engihlíðarhrepps. Hafði hann ári áður, þann 11. maí 1895, keypt fasteignir
þessar af tveim Skagfirðingum, Guðmundi Péturssyni, Hofsstöðum og Jóni
Sigurðssyni, Skúfsstöðum. Hefur það strax verið ætlun hans, að
Engihlíðarhreppur fengi fasteignir þessar, þótt vegna ýmissa formsatriða og
undirbúnings yrði að hafa þá aðferð, að hann persónulega keypti þær fyrst.
Auk heimajarðarinnar og afréttarlands, fylgdi
eyðijörðin Fannlaugarstaðir í Skefilstaðarhreppi.
Eftir að Engihlíðarhreppur eignaðist jörðina,
byggði hann heimajörðina, en tók afréttarlandið undan og sameinaði það
Fannlaugarstaðalandi til uppreksturs fyrir Enghlíðinga og hefur svo haldist
síðan.
Landamerkjum
Skrapatunguafréttar lýsir Bjarni Ó. Frímannsson svo í sama riti:
„Skrapatunguafrétt liggur í fjallgarðinum milli Húnavatns- og
Skagafjarðarsýslna, þar sem hann er einna breiðastur og mest hálendi hans. Að
vestan takmarkast hún af Mjóadalsá, sem hefur upptök í Þröskuldi milli
Kirkjuskarðs og Mjóadalsbotns.“
Merkin milli Enghlíðinga og Vindhælinga segir Bjarni
vera með Ambáttarlæk „og í Sjónarhól“ en austur takmörkin um Ytri-Laxá. „Er þá
komið að austur takmörkum afréttarinnar, sem eru Ytri-Laxá.“ Afréttarmörk
„Enghlíðinga að sunnan er Trölláin“ segir hann jafnframt.
Í ritinu Húnaþing
III, lýsir Valgarður Hilmarsson afrétti Enghlíðinga þannig:
AFRÉTTIR Enghlíðinga eru Skrapatunguafrétt og
Laxárdalur. Skrapatunguafrétt eignaðist hreppurinn samkvæmt afsalsbréfi þann 8.
september 1896, útgefnu af Árna Þorkelssyni bónda og oddvita á Geitaskarði.
Hann hafði árið áður keypt jörðina Skrapatungu ásamt afréttinni og eyðibýlinu
Fannlaugarstöðum í Skefilsstaðahreppi. Seldi hann síðan hreppnum alla þá eign.
Eftir að hreppurinn eignaðist þessar jarðir byggði hann heimajörðina
Skrapatungu en tók undan afréttina og Fannlaugarstaðalandið og nýtti það sem
afrétt fyrir Enghlíðinga. Hefur sú skipan haldist síðan.
Þá keyptu Enghlíðingar landspildu úr landi
Illugastaða í Skefilstaðahreppi af Lúðvík R. Kemp þann 22. október 1921. Var
hún einnig sameinuð afréttinni.
Land þetta hafa bændur nýtt til upprekstrar á
hrossum og sauðfé. Þó hefur þróunin orðið sú að upprekstur hrossa hefur dregist
saman en færst hefur í vöxt að fé sé flutt á þetta land eftir að farið var að
flytja það þangað á bílum. Afréttin liggur að veginum um Þverárfjall og við
hann er lítið sleppihólf.
Sumarhagar eru mjög góðir í Skrapatunguafrétt og
er afrétt þessi ein sú grösugasta hér í sýslunni.
Þegar fénaði er smalað af þessu svæði er safnið
tekið saman í svokölluðum Gulltungum. Rekið þaðan um Hvammshlíðardal að Þverá í
Norðurárdal og síðan um Norðurárdalinn að Skrapatungurétt sem er sameiginleg
skilarétt Enghlíðinga og Vindhælinga. Áður var safnað og rekið til réttarinnar
um Balaskarð og Laxárdal.
Þann 6. október árið 2012, voru landamerki Hvammshlíðar
og Skrapatunguafréttar hnitsett með Trimble EZ 250 mælingatæki af Rafni
Sigurbjörnssyni. Með honum í för voru Bragi Kárason á Þverá og Baldur
Svavarsson á Síðu. Hnitsetningin var gerð í samræmi
við samkomulag sem gert var milli Engihlíðarhrepps og Vindhælishrepps, lesið á
manntalsþingi 6. júlí 1925. Í hnitaskrá Rafns, dags. 25. nóv. s.á., er þess
getið að samkvæmt kaupsamningi lesnum á manntalsþingi 20. maí 1898 séu
landamerkin töluvert sunnar.
IV
Málsástæður og lagarök
Stefnandi heldur því fram að hið umþrætta land,
Skrapatunguafrétt, hafi lengstum fylgt jörðinni Skrapatungu og verið hluti
hennar. Landið sé eignarland í skilningi 1. gr. þjóðlendulaga nr. 58/1998 en í
þeirri grein sé eignarland skilgreint sem landsvæði þar sem eigandi landsins
fari með öll venjuleg eignarráð innan þeirra marka sem lög segja til um á
hverjum tíma. Þjóðlenda sé hins vegar land utan eignarlanda þó svo að
einstaklingar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi. Að mati stefnanda er
niðurstaða óbyggðanefndar varðandi það landsvæði sem hér er deilt um röng.
Stefnandi byggir á því að Skrapatunguafrétt hafi öll
verið innan upphaflegs landnáms og þannig frá öndverðu verið háð beinum
eignarrétti. Heimildir séu um landnám á svæðinu allt í kringum afréttina og þá
sé stutt til sjávar og næstu byggða,
bæði í Skagafirði og Húnaflóa.
Af hálfu stefnda er vísað til og byggt á dómi 12
presta í svokölluðu Mjóadalsmáli og öðrum eignarheimildum, svo sem síðari
afsölum ásamt þinglýstum landamerkjabréfum aðliggjandi jarða. Þá vísar
stefnandi til lögfestu Rannveigar Sigurðardóttur frá 17. júní 1817 en samkvæmt
lögfestunni var Skrapatunguafrétt hluti jarðarinnar Skrapatungu þrátt fyrir að
afréttin lægi ekki að heimajörðinni. Landamerkjabréf var ekki gert fyrir
Skrapatungu fyrr en á árinu 1980 en þá var búið að skilja afréttina frá
jörðinni en það hafi verið gert við sölu jarðarinnar á árinu 1944. Að mati
stefnanda hefur nefnd lögfesta Rannveigar Sigurðardóttur mikla þýðingu í máli
þessu en hún sé nánast eina heimildin um afmörkun þrætulandsins og hún skipti
miklu varðandi inntak eignarréttinda á svæðinu. Í þessu sambandi vísar
stefnandi til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 536/2006. Stefnandi byggir á
meginreglum íslensks eignarréttar og dómvenju þess efnis að afréttarlönd sem
áður tilheyrðu ákveðinni jörð, en síðar eru lögð til afréttar sveitafélags, séu
áfram háð beinum eignarrétti. Bendir stefnandi á að í fyrri úrskurðum
óbyggðanefndar hafi nefndin komist að þeirri niðurstöðu að landsvæði sem talið
hefur verið jörð samkvæmt elstu heimildum sé háð beinum eignarrétti, jafnvel
þótt það hafi verið lagt til afréttar. Ekkert bendi til annars en að
Skrapatunguafrétt hafi verið hluti jarðarinnar Skrapatungu.
Af hálfu stefnanda er einnig á því byggt að fullur
hefðartími sé liðinn frá því að núverandi landeigandi keypti þrætusvæðið sem
eins og áður greinir tilheyrði jörðinni Skrapatungu. Öll afnot og nytjar
landsins séu háð leyfi landeiganda enda enginn notað það á nokkurn hátt nema
eigendur þess. Stefnandi hafi farið með öll hefðbundin afnot landsins, svo sem
beit og veiði og nýtingu auðlinda í jörðu, en stefnandi hafi bannað öðrum not
eignarinnar án hans leyfis. Telur stefnandi að allar heimildir bendi til þess
að hann eigi fullan eignarrétt að þrætusvæðinu með öllum gögnum og gæðum, m.a.
á grundvelli hefðar.
Stefnandi vísar til þess að jörðin Skarpatunga og
samnefnd afrétt hafi athugasemdalaust gengið kaupum og sölum sem sérstök jörð
og því hafi hann réttmætar væntingar til þess að þrætusvæðið sé háð beinum
eignarrétti hans. Slíkum rétti verði hann ekki sviptur án bóta. Tilkall hans
til beins eignarréttar á svæðinu sé því einnig byggt á viðskiptavenju. Vísar
stefnandi í þessu sambandi til þess að í athugasemdum við 5. gr. sem síðar varð
að lögum nr. 58/1998 sé gert ráð fyrir venjurétti sem eignarheimild.
Stefnandi heldur því fram að hann hafi fært fram nægar
heimildir fyrir eignarréttartilkalli sínu og það sé því stefndi sem þurfi að
hrekja þá fullyrðingu stefnanda að þrætulandið sé háð fullkomnum eignarrétti
stefnanda. Stefnandi byggir á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga og
stjórnarskrárinnar varðandi það að sambærileg mál fái sömu niðurstöðu og að
jafnræði ríki milli borgaranna. Því verði ekki gerð ríkari sönnunarkrafa til
eiganda Skrapatunguafréttar en annarra landeigenda í landinu. Eigendur
afréttarinnar hafi í ljósi eignarheimilda sinna og viðurkenningar ríkisvaldsins
á þeim lengi haft réttmætar ástæður til að vænta þess að afréttin sé háð beinum
eignarrétti sem ekki verði af stefnanda tekinn án bóta enda varinn af 72. gr.
stjórnarskrárinnar og ákvæðum 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við
mannréttindasáttmála Evrópu sem hafi lagagildi hér á landi.
Stefnandi heldur því fram og byggir á því að
ríkisvaldið hafi í aldanna rás margsinnis viðurkennt að umþrætt landsvæði sé
háð beinum eignarrétti og raunar aldrei haldið öðru fram. Hafi ríkisvaldið
nokkru sinni getað haft uppi vefengingarkröfu á hendur eigendum
Skrapatunguafréttar þá sé ljóst að slík heimild sé löngu niður fallin vegna
fyrningar og tómlætis. Í þessu sambandi bendir stefnandi á að öllum heimildarskjölum
varðandi afréttina hafi verið þinglýst án athugasemda. Auk þess hafi
Mannréttindadómstóll Evrópu sérstaklega litið til þess í úrlausnum sínum
varðandi eignarrétt hvaða væntingar menn máttu hafa um eignarhald sitt, þegar
litið var til athafna eða athafnaleysis ríkisvaldsins gagnvart réttindunum. Að
mati stefnanda hefur ekkert komið fram sem bendir til annars en að allt land
innan landamerkja Skrapatunguafréttar eins og þeim var lýst í nefndri lögfestu
Rannveigar Sigurðardóttur og landamerkjum aðliggjandi jarða hafi verið nýtt sem
fullkomið eignarland eftir búskaparháttum og aðstæðum á hverjum tíma. Telur
stefnandi það hafa mikla þýðingu í máli þessu að eigendur svæðisins hafi gengið
út frá því um langt skeið að merkjum sé rétt lýst og að eigendur aðliggjandi
jarða hafa viðurkennt merkin.
Stefnandi byggir einnig á 1. gr. samningsviðauka nr. 1
við mannréttindasáttmála Evrópu en sá sáttmáli hafi lagagildi hér á landi.
Viðaukinn veiti eignarrétti sjálfstæða vernd samhliða stjórnarskránni. Dómar
Mannréttindadómstólsins bendi til þess að réttmætar væntingar aðila til
eignarréttar geti leitt til þess að eignarréttur sé viðurkenndur þegar
ríkisvaldið hefur með athöfnum eða athafnaleysi viðurkennt eignarréttinn, t.d.
með því að þinglýsa eignarskjölum án athugasemda um áratugaskeið. Þá telur
stefnandi að ekki megi gera til hans óhóflegar kröfur um sönnun sem fyrirfram
er vitað að hann sem landeigandi geti ekki risið undir en slíkt fari gegn
eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Í þessu sambandi bendir stefnandi á að í
athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 98/1998 komi skýrt fram að
það hafi ekki verið ætlun löggjafans að svipta landeigendur eignarheimildum
sínum yfir landi sem þeir hafi notað án athugasemda um aldir með því að gera
þeim að sýna fram á órofna sögu eignarréttar allt frá landnámi en láta þá bera
hallann af vafa um þetta efni.
Stefnandi vísar til þess að hafa beri í huga að
hugtakið eign í 1. gr. í nefndum samningsviðauka nr. 1 hafi verið túlkað þannig
að það hafi sjálfstæða merkingu. Með því sé átt við að mat á því hvort að í
máli sé um að ræða eign sem njóti verndar 1. greinarinnar þurfi að kanna hvort
svo sé samkvæmt rétti þess ríkis sem í hlut á. Skortur á vernd að landsrétti
ráði hins vegar ekki alltaf úrslitum við mat á því hvort að um eign sé að ræða
í skilningi 1. gr. Þannig geti verið um að ræða eign í skilningi ákvæðisins
þótt dómstólar viðkomandi aðildarríkis hafi ekki talið að um eign væri að ræða
samkvæmt landsrétti viðkomandi ríkis. Mannréttindadómstóllinn hafi ítrekað
áréttað að við mat á þessu beri að líta til allra atvika máls.
Stefnandi heldur því fram að tilgangurinn með lögum um
þjóðlendur hafi fyrst og fremst verið sá að gera stefnda að þinglýstum eiganda
þeirra landsvæða sem enginn hefur skjöl fyrir að hann eigi en svo hátti einkum
til um hluta afrétta og jökla á miðhálendinu. Það sé í verkahring
óbyggðanefndar að finna þessi eigendalausu svæði. Hins vegar sé land
Skrapatunguafréttar ekki eigendalaust eins og skjöl málsins sýni. Af þessum
sökum telur stefnandi að nefndin hafi ranglega metið sönnunargögn málsins og
lagt óhóflega sönnunarbyrði á stefnanda sem ekki fái staðist jafnræðisreglu
stjórnarskrárinnar og því beri að ógilda úrskurð nefndarinnar.
Hvað lagarök varðar vísar stefnandi til 72. gr.
stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttarins, sbr. 1. gr. 1 samningsviðauka
við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1944 um lögfestingu
sáttmálans. Einnig vísar hann til laga nr. 58/1998 um þjóðlendur,
stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og laga um hefð nr. 14/1905. Þá vísar stefnandi til
meginreglna eignarréttar um venjurétt og óslitin not sem og almennra reglna
samninga- og kröfuréttar, jafnframt til almennra reglna um ítaksrétt og stofnun
ítaka og almennra reglna um hefð. Loks vísar stefnandi til meginreglna um
traustfang, traustnám og tómlæti.
Stefndi byggir einkum á því að þrætusvæðið,
Skrapatunguafrétt, sé utan eignarlanda og teljist því þjóðlenda sbr. 1. og 2.
gr. laga nr. 58/1998. Af heimildum um svæðið verði ráðið að það hafi aldrei
verið undirorpið beinum eignarrétti og þá hafi það aldrei verið nýtt líkt og
eignarland. Telur stefndi að stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því að sýna
fram á beinan eignarrétt hans að svæðinu eða einstökum hlutum þess.
Stefndi vísar til þess að óbyggðanefnd byggi úrskurð
sinn á umfangsmikilli upplýsingaöflun og rannsóknum. Niðurstaða nefndarinnar sé
byggð á kerfisbundinni leit að gögnum og framlögðum skjölum aðila. Þá hafi
nefndin notað skýrslur sem gefnar voru fyrir nefndinni. Nefndin hafi síðan
komist að þeirri niðurstöðu að þrætusvæðið teldist til afrétta samkvæmt þeirri
eignarréttarlegu flokkun lands sem almennt var miðað við fram til þess tíma.
Stefnandi gerir niðurstöður óbyggðanefndar að sínum til stuðning sýknukröfu
sinni auk þeirra málsástæðna sem fram koma í greinargerð stefnda til
héraðsdóms.
Stefndi bendir á að Skrapatunguafréttar sé fyrst getið
í jarðamati frá 1804 en þar sé merkjum hennar ekki lýst og staðsetningar hennar
ekki getið. Ekki sé til landamerkjabréf fyrir afréttina en merkjum hennar sé þó
lýst í heild eða að hluta í landamerkjabréfum aðliggjandi jarða og í lögfestu
Rannveigar Sigurðardóttur, eiganda Skrapatungu, frá 17. júní 1817. Með
lögfestunni hafi Rannveig annars vegar lögfest jörð sína og hins vegar afrétt
jarðarinnar með sérstakri afmörkun. Skrapatunguafrétt sé landfræðilega aðskilin
samnefndri jörð sem að mati stefnda bendir til þess að afréttin hafi ekki
talist og teljist ekki hluti jarðarinnar Skrapatungu.
Stefndi heldur því fram að frá öndverðu hafi borið að
afmarka landsvæði hverrar jarðar með landamerkjum. Það hafi ekki verið gert í
tilviki Skrapatunguafréttar, hvorki í öndverðu né þegar landamerkjalög tóku
gildi 1882. Samkvæmt nefndum lögum hafi eigendum jarða borið að gera skrá um
landamerki jarða sinna. Þetta bendir að mati stefnda til þess að þrætusvæðið sé
þjóðlenda.
Stefndi vísar til þess að í fjölda heimilda sé
Skrapatunguafrétt tilgreind en af heimildum verði ráðið að ágreiningur hafi
verið uppi um rétt til landsvæðisins. Ekkert liggi hins vegar fyrir um það
hvernig eigendur Skrapatungu séu upphaflega komnir að rétti sínum til
afréttarinnar. Ekki sé um það deilt að aldrei hafi verið byggð á svæðinu og
heimildir bendi ekki til annars en að það hafi eingöngu verið nýtt til beitar
og annarra þrengri nota.
Stefndi heldur því fram að dómstólar hafi almennt
litið svo á, þegar svo háttar til sem áður hefur verið rakið, að þá sé ótvírætt
um að ræða landsvæði utan eignarlanda. Telur stefndi að það sem að framan er
rakið um skort á lýsingu á landamerkjum afréttarinnar í jarðamati, hin sérstaka
aðgreining milli heimalands og afréttar í lögfestur Rannveigar Sigurðardóttur
og það að hvorki var gert landamerkjabréf fyrir jörðina Skrapatungu né
Skrapatunguafrétt þegar landamerkjalög tóku gildi bendi ótvírætt til þess að
þrætusvæðið sé utan eignarlanda og því þjóðlenda.
Stefndi bendir á að í Landnámu sé því ekki lýst hversu
langt inn til lands landnám á þessu svæði náði. Frásagnir af landnámi svæðisins
séu takmarkaðar og ekki verði ráðið hversu langt inn til lands og upp til
fjalla numið var. Því sé ómögulegt að draga ályktanir um stofnun eignarréttinda
á Skrapatunguafrétt af heimildum um landnám. Af dómafordæmum Hæstaréttar
Íslands verði ráðin sú regla að þegar deilt sé um upphaflegt nám lands verði
aðeins stuðst við glöggar landfræðilegar heimildir en heimildarskortur leiði
til þess að álitið er ósannað að slík svæði hafi verið numin í öndverðu. Í
þessu sambandi vísar stefndi í dæmaskyni til dóma Hæstaréttar í málum nr.
48/2004 og 350/2011. Stefndi byggir á því að í þessu máli beri stefnandi
sönnunarbyrði fyrir slíkri eignarréttarstofnun en heimildir styðji ekki að
þrætusvæði hafi verið numið til eignar og þar með orðið hluti jarðarinnar
Skrapatungu.
Af hálfu stefnda er vísað til þess að svæðið hafi
eingöngu verið notað með afar takmörkuðum hætti og annað verði ekki ráðið en að
réttur til þrætusvæðisins hafi upphaflega orðið til á þann veg að það hafi
verið tekið til sumarbeitar fyrir búfénað og ef til vill einhverrar annarrar
takmarkaðrar notkunar. Verði talið að svæðið hafi verið numið í öndverðu hafi
það ekki verið numið til eignar heldur eingöngu til takmarkaðra nota. Frá
upphafi byggðar hafi menn ekki eingöngu helgað sér land sem háð var beinum
eignarrétti heldur einnig ítök, afrétti og önnur réttindi sem einhverja þýðingu
gátu haft fyrir afkomu þeirra. Meðan landsvæði gáfu eitthvað af sér lágu
hagsmunir til þess að halda við merkjum réttindanna hver sem þau voru. Í þessu
efni vísar stefndi m.a. til dóma Hæstaréttar í málum nr. 67/2006 og 27/2007.
Stefndi heldur því fram að þó svo að vera kunni að landið hafi verið numið að
hluta eða öllu leyti eða það á einhverjum tíma háð beinum eignarrétti séu allar
líkur á því að slíkt eignarhald hafi fallið niður og svæðið tekið til
takmarkaðra nota, svo sem afréttarnota, og vísar stefndi í þessu efni t.d. til
dóms Hæstaréttar í máli nr. 685/2008. Hér liggi ekkert fyrir um það hvernig
beinn eignarréttur að svæðinu stofnaðist og líkur til að slíkur réttur hafi þá
fallið niður enda engar heimildir til um yfirfærslu beins eignarréttar að
Skrapatunguafrétt auk þess sem deilt var um eignarhald að svæðinu í alllangan
tíma. Að mati stefnda bendir þetta til þess að þrætusvæðið sé þjóðlenda.
Stefndi telur það styðja kröfur sínar að engin gögn
séu til sem bendi til að þrætusvæðið hafi nokkru sinni verið nýtt til annars en
hefðbundinna afréttarnota. Svo virðist sem frá fornu fari hafi afréttin verið
aðskilin frá jörðinni Skrapatungu og það hafi alla tíð verið nýtt til
sumarbeitar fyrir búfé. Aðliggjandi jarðir lýsi landamerkjum sínum þannig að
fyrir liggur að þrætusvæðið er sérstakur afmarkaður almenningur auk þess sem
heimildir greini frá svæðinu með sjálfstæðum hætti og það hafi frá fornu fari
verið nýtt sem samnotasvæði til upprekstrar búfjár eða í sambærilegum tilgangi.
Byggir stefnandi á því að réttur Skrapatungu til svæðisins hafi takmarkast við
afréttarnot en það hafi ekki verið háð beinum eignarrétti eigenda jarðarinnar.
Vera kunni að afréttin hafi tilheyrt Skrapatungu en réttindi jarðarinnar hafi
takmarkast við afnotarétt sem kunni að hafa verið fullkomin afréttareign, sbr.
2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. laga nr. 58/1998.
Stefndi bendir á að af heimildum verði ráðið að jörðin
Skrapatunga hafi eingöngu átt takmörkuð réttindi á svæðinu og vísar til
jarðamats frá 1804 í því efni en þar komi fram að jörðin eigi afrétt án þess að
það sé nánar tilgreint hvar hún sé. Þá hafi Rannveig Sigurðardóttir lögfest
Skrapatungu og afréttina í sitt hvoru lagi og lýst merkjum afréttarinnar en
ekki eignarrétti að henni. Þá sé vísað til svæðisins sem almennings í
sóknarlýsingu Höskuldsstaðasóknar frá 1873. Yngri heimildir greini frá svæðinu
í tengslum við upprekstur og afréttarnot, sbr. fasteignamat frá 1916 en þar
komi fram að Skrapatunga eigi upprekstur á afrétt sem sé sveitareign. Sama megi
segja um lýsingu á svæðinu í ritinu Göngur og réttir og í lýsingu Bjarna Ó.
Frímannssonar á afréttarlöndum í ritinu Húnaþing III en þar sé ítarlega fjallað
um Skrapatunguafrétt sem afrétt Enghlíðinga.
Stefndi byggir á því að dóm 12 presta um eignarrétt í
Mjóadal verði að meta með tilliti til þess að í honum er ekki að finna tilvísun
til Skrapatunguafréttar sem sérstaks landsvæðis heldur er þar vísað til nánar
tiltekinna kennileita sem einungis falla að hluta innan þrætusvæðisins.
Dómurinn hafi skorið úr deilu um beitarrétt og selstöðu í Mjóaldal og engin
efni séu til þess að skýra hann á annan veg en þann að kirkjunni hafi verið
dæmdur sá réttur sem deilan stóð um. Eigendur Skrapatungu hafi því ekki haft
ástæðu til að ætla að jörðin ætti annað en óbeinan eignarrétt að afréttinni og
orðalag í dóminum um að svæðið hafi verið ævinleg eign kirkjunnar breyti engu
þar um. Auk þess hafi Skrapatunga á þessum tíma verið eign Hólakirkju og
Hólabiskup hafi sjálfur útnefnt presta í dóminn sem dragi úr vægi dómsins.
Að mati stefnda getur lögfesta Rannveigar
Sigurðardóttur heldur ekki ráðið úrslitum um eignarréttarlega stöðu
þrætusvæðisins enda hafi Rannveig lögfest jörð sína og afréttina í tveimur
aðskildum hlutum. Þá komi ekki fram í lögfestunni hvert inntak eignarréttinda
Rannveigar var nákvæmlega á afréttinni. Stefndi segir að færa megi rök fyrir
því að hið sama gildi um sönnunargildi lögfesta og landamerkjabréfa, þ.e. að
þær geti verið heimild um landamerki jarða en segi ekki til um það hvort svæði
sé háð beinum eignarrétti. Hér skipti og máli að afréttin er landfræðilega aðskilin
heimajörðinni sem bendi frekar til þess að hún sé ekki eignarland. Auk þess
beri að taka tillit til dómaframkvæmdar þegar deilur hafa verið um eignarhald
að landsvæði.
Stefndi heldur því fram að dómstólar hafi almennt
talið lögfestur hafa minna sönnunargildi en landamerkjabréf, þó þannig að þegar
lögfestur eru eina heimildin um landamerki hafi þær verið taldar hafa meira
gildi en ella, einkum ef aðrar heimildir styðji innihald þeirra. Í þessu efni
bendir stefnandi á dóm Hæstaréttar í máli nr. 536/2006. Í því máli hafi
lögfesta aðallega verið heimild um landamerki jarðar en ekki inntak
eignarréttar. Í þessu máli sé ekki öðrum heimildum um landamerki afréttarinnar
til að dreifa og byggt hefur verið á landamerkjum aðliggjandi jarða um afmörkun
þrætusvæðisins. Telur stefndi þetta benda til þess að gildi lögfestunnar sé
ekki svo ýkja mikið. Þá hafi ekki verið gert landamerkjabréf fyrir jörðina
þegar landamerkjalög tóku gildi 1882 en samkvæmt þeim lögum hafi jarðareiganda
borið að gera skrá um landamerki jarðar sinnar. Að þessu virtu telur stefndi að
lögfestan geti ekki ráðið úrslitum um eignarréttarlega stöðu
Skrapatunguafréttar.
Stefndi vísar einnig til þess að miklar deilur hafi
verið um landsvæðið á 18., 19. og 20. öld, sem bendi til þess að ágreiningur hafi
verið um eignarhald þess sem aftur styðji sjónarmið stefnda í þá veru að svæðið
sé ekki undirorpið beinum eignarrétti. Engu skipti þótt ekki hafi verið deilt
um afmörkun Skrapatunguafréttar frá 1895 þegar Árni Þorkelsson kaupir jörðina
og núverandi eigandi hafi fyrir henni þinglýsta eignarheimild. Hvað þetta
varðar byggir stefndi á því að þinglýst eignarheimild nægi ekki til að sanna
eignarrétt að jörð því að mestu skipti hvernig til eignarréttarins var stofnað
í upphafi, þ.e. hvort svæði hafi verið beinum eignarrétti háð frá öndverðu. Auk
þess vísar stefndi til þess að þinglýst heimildarskjal fyrir svæði sanni ekki
beinan eignarrétt að því enda sé ekki unnt með eignatilfærslugjörningi að
öðlast betri rétt en seljandi átti.
Af hálfu stefnda er því hafnað að skilyrði
eignarhefðar séu til staðar í máli þessu og vísar hann til áðurrakinna
sjónarmiða varðandi nýtingu landsins, staðhætti og eldri heimildir. Óumdeilt sé
að ekki hafi verið búið á svæðinu en það hafi í aldanna rás verið nýtt með afar
takmörkuðum hætti, svo sem til sumarbeitar fyrir sauðfé. Hefðbundin
afréttarnot, eða önnur takmörkuð nýting lands, geti ekki stofnað bein
eignarréttindi yfir landi.
Þá hafnar stefndi því að réttmætar væntingar geti
verið grundvöllur beins eignarréttar á svæðinu. Sú regla verður m.a. leidd af
dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 199/1978, að löggjafinn sé einn bær til
þess að ráðstafa réttindum yfir landsvæði utan eignarlanda. Lög þurfi til að
ráðstafa fasteignum ríkisins. Hins vegar geti athafnir eða athafnaleysi starfsmanna
stjórnsýslunnar ekki leitt af sér slík yfirráð án sérstakrar lagaheimildar.
Réttmætar væntingar get því ekki stofnast á þeim grunni sem stefnandi heldur
fram.
Stefndi byggir á því að stefnanda hafi ekki tekist að
sýna fram á eignarrétt sinn að hinu umdeilda svæði. Hins vegar megi fallast á
að svæðið falli undir svæði sem skilgreint er í 1. gr. laga nr. 58/1998 en
engin gögn liggi fyrir um að það hafi haft mismunandi eignarréttarlega stöðu og
því sé það þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr., laga nr.
58/1998, líkt og óbyggðanefnd hafi komist að í úrskurði sínum.
IV
Niðurstaða
Landsvæði það sem um er deilt í máli þessu er
Skrapatunguafrétt, að undanskildum landsvæðum þeim er falla undir
Fannlaugarstaði og Skálahnjúk eins og þau eru afmörkuð af stefnanda en stefndi
afmarkar þau svæði ekki sérstaklega frá landi Skrapatunguafréttar. Óbyggðanefnd
úrskurðaði sérstaklega um tvö síðastgreindu svæðin. Skrapatunguafréttar er
getið í jarðamatinu frá 1804 án þess að staðsetningu hennar sé lýst en jörðin
Skrapatunga er aðskilin frá afréttinni af öðrum landsvæðum. Sérstakt
landamerkjabréf er ekki til fyrir Skrapatunguafrétt en merkjum hennar er lýst í
heild eða að hluta í ýmsum eldri heimildum. Helst er þar að geta lögfestu
Rannveigar Sigurðardóttur frá 17. júní 1817 sem áður hefur verið vikið að en sú
lýsing tekur einnig til Skálahnjúks og Fannlaugarstaða. Aðilar máls byggja
afmörkun afréttarinnar einkum á landamerkjabréfum aðliggjandi jarða. Fyrir
óbyggðanefnd var misræmi milli aðila varðandi afmörkun svæðisins en þeir náðu
samkomulagi um afmörkun þess og er það nú ágreiningslaust afmarkað eins og því
er lýst í kröfugerð stefnanda.
Af Landnámu verður ekki ráðið hversu langt upp til
fjalla landnám á þessu svæði náði og verða engar afdráttarlausar ályktanir
dregnar af frásögnum sem þar er að finna. Þegar horft er til staðhátta,
fjarlægða frá sjó og aðliggjandi jarða verður þó að telja líklegt að svæðið
hafi a.m.k. að hluta verið numið. Líkt og endranær verður við mat á
eignarréttarlegri stöðu svæðisins að skoða hvernig það birtist í sögulegum
heimildum. Almennt skiptir miklu máli hvort landsvæði sé eða hafi verið jörð
eða hluti af jörð samkvæmt fyrirliggjandi heimildum. Þar skiptir miklu hvort
landamerkjabréf hafi verið gert fyrir svæðið en slík bréf hafa bæði verið gerð
fyrir einstakar jarðir og annars konar réttindasvæði, svo sem ítök og afrétti.
Þá kann að vera að merkjum landsvæða sé lýst í máldögum, vísitasíum og
lögfestum.
Elsta heimildin um jörðina Skrapatungu er vottorð séra
Bersa Svartssonar frá 1471 en þar segir „Jordin skrapatvnga er liggr j
hoskolldzstadaþingvm var eigandr allr miouadalr firir avstan fram miofuadalsa.
gulltvngur. bardardal og ambattardal til motz vid þvara j nordarda ...“ Ári
síðar er dæmt í svokölluðu Mjóvadalsmáli af 12 prestum. Þar var til umfjöllunar
kæra Ólafs biskups á Hólum á hendur ábúanda Mánaskálar fyrir að hafa „geingit
jnn j fasta eign kirkiunnar og giort sel fyrir avstan fram ana j miofadæl beitt
dælen og haft þar selfor vpp æ tvo sumur edur meir ...“ Biskup taldi dalinn
tilheyra Skrapatungu sem þá var eign Hólastóls. Í málinu sóru fjórir prestar
þess fullan bókareið að þeir hugðu það „eina landareign vera er kalladar erv
gulltungur er akallzlaus er halldin eign skrapatungv ok miofadal fyrir austan
ana ...“ Einnig voru lagðir fram vitnisburðir fjögurra votta þar sem m.a. kom
fram „... þa er aller villdv sueria ath fyrskrifadur miofadalr hafdi verit
hafdur og hallden eign skrapatungu med gulltungu. Bardardal og ambattardæl.“
Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að land í Mjóadal fyrir austan ána væri
eign Skrapatungu í Laxárdal. Í dóminum er ekki minnst á afrétt en ljóst er að
svæðið sem dómurinn tekur til er innan Skrapatunguafréttar. Af hálfu stefnanda
er á því byggt að þessi dómur renni styrkum stoðum undir kröfu hans. Þá leggur
stefnandi og áherslu á að nefnd lögfesta Rannveigar Sigurðardóttur sé mikilvægt
gagn sem styðji kröfur hans. Að framan hefur verið vikið að fjölda annarra
heimilda þar sem svæðisins er getið en það er þá oftast í tengslum við beit eða
önnur þrengri not og hafa þær minna vægi.
Í dómi 12 presta frá 1472 sem áður er vikið að var
skorið úr ágreiningi um beitarrétt og selstöðu á svæði sem óumdeilt er að
liggur að hluta innan þrætusvæðisins en þar er Skrapatunguafrétt ekki tiltekin
sem sérstakt landsvæði. Fellst dómurinn á þau sjónarmið sem fram koma í
úrskurði óbyggðanefndar og stefndi vísar til í málatilbúnaði sínum í þá veru að
með dóminum sé ekki dæmt um annað en beitarrétt og bann við selstöðu á svæði
sem liggi eingöngu að hluta innan þrætusvæðisins. Er það því niðurstaða dómsins
að dómur þessi ráði ekki úrslitum um eignarréttarlega stöðu afréttarinnar.
Dómstólar hafa í málum af þessum toga lagt til
grundvallar að lögfestur hafi minna sönnunargildi en landamerkjabréf varðandi
beinan eignarrétt að landsvæðum. Í máli þessu háttar svo til að landamerkjabréf
er ekki til fyrir ágreiningssvæðið sem eina heild og getur lögfesta Rannveigar
Sigurðardóttur frá 1817 því haft meira vægi en ella, einkum ef önnur atriði renna stoðum undir
hana. Skrapatunguafrétt er aðskilin frá jörðinni Skrapatungu af öðrum
fasteignum en það dregur úr gildi lögfestunnar sem heimildar að beinum
eignarrétti. Þá þarf að horfa til staðhátta, gróðurfars, fjarlægðar
afréttarinnar frá byggð og nýtingar hennar á liðnum öldum. Engar heimildir
benda til þess að búið hafi verið á svæðinu. Staðhættir eru þannig að svæðið
hefur vart verið nýtt til annars en beitar í aldanna rás enda hefur
Skrapatunguafréttar einkum verið getið í heimildum í tengslum við upprekstur og
afréttarnot. Það er niðurstaða dómsins að nefnd lögfesta Rannveigar
Sigurðardóttur fái ekki næga stoð í öðrum heimildum til þess að hún geti haft
afgerandi áhrif um eignarréttarlega stöðu þrætusvæðisins. Í þessu sambandi
verður einnig að horfa til þess að ekkert liggur fyrir um hvernig eigendur
Skrapatungu eignuðust svæðið eða hvert inntak þeirra réttinda var en
ágreiningur hefur verið við nágranna um réttindi á hluta svæðisins eins og áður
er rakið. Þá liggur ekkert fyrir um afmörkun eða yfirfærslu þeirra beinu
eignarréttinda sem vera má að stofnast hafi og kann beinn eignarréttur að hafa
fallið niður og svæðið í kjölfarið tekið til takmarkaðra nota.
Stefnandi ber einnig fyrir sig að hann hafi unnið
eignarhefð á landinu sem um er deilt. Ekkert liggur fyrir um að eigendur
afréttarinnar hafi haft önnur not af henni en hefðbundin afréttarnot til
sumarbeitar fyrir búfénað. Af 12 gr. hefðarlaga má ráða að með lögunum var
ætlað að taka til hefðarhalds sem fyrir hendi var við gildistöku laganna. Fyrir
liggur að á þrætusvæðinu hefur aldrei verið byggð og ljóst er að umráð yfir því
og notkun svæðisins hefur ekki verið þannig háttað að þau gætu talist hafa
fullnægt kröfum 2. gr. hefðalaga um óslitið eignarhald á fasteign en hefðbundin
afréttarnot og önnur takmörkuð notkun eru ekki ein og sér nægjanleg til þess að
hefða beinan eignarrétt að afréttum eða öðrum landsvæðum utan landamerkja
jarða. Því hefur beinn eignarréttur stefnanda eða forvera hans að svæðinu ekki
getað stofnast fyrir hefð.
Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður stefndi
sýknaður af kröfum stefnanda í máli þessu.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnda greiðist úr
ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Stefáns Ólafssonar
hæstaréttarlögmanns, sem þykir að teknu tilliti til umfangs málsins og þess að
annað nokkuð samkynja mál var flutt samhliða máli þessu hæfilega ákveðin
1.860.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Af hálfu stefnda flutti mál þetta Edda Andradóttir
lögmaður.
Halldór Halldórsson héraðsdómari kveður upp dóm
þennan.
Dómsorð:
Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnanda,
Blönduósbæjar.
Málskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr
ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Stefáns Ólafssonar
hæstaréttarlögmanns, 1.860.000 krónur.
Halldór
Halldórsson