• Lykilorð:
  • Líkamsárás
  • Skilorð

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands vestra 5. mars 2018 í máli nr. S-1/2018:

Ákæruvaldið

(Gunnar Örn Jónsson lögreglustjóri)

gegn

X

 

A

Mál þetta, sem tekið var til dóms 28. febrúar sl. er höfðað af lögreglustjóranum á Norðurlandi vestra 18. janúar sl. á hendur X, fæddum […],

„I. fyrir líkamsárás

með því að hafa að kvöldi þriðjudagsins 28. nóvember 2017, á heimili sínu að B á D, veist að eiginkonu sinni, Y, kt. 000000-000, sest ofan á hana þar sem hún lá í andyri (svo) íbúðarinnar og tekið hana hálstaki.

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

II. fyrir barnaverndarlagabrot

Með því að hafa, er atvik þar er í ákærulið I. að framan greinir átti sér stað, jafnframt misboðið dóttur brotaþola, A, kt. 000000-0000, með því að veitast að móður A, sbr. ákærulið I., að henni ásjáandi.

Telst brot ákærða varða við 98. gr. barnaverndarlaga nr. 80, 2002 en til vara við 1. mgr. 99. gr. sömu laga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

B

Mál þetta var þingfest 12. febrúar sl. og fékk ákærði þá frest til að ráðfæra sig við lögmann og tók hann ekki afstöðu til sakarefnisins. Málinu var frestað til 21. febrúar en það þinghald féll niður vegna ófærðar. Málið var tekið fyrir á ný 28. febrúar sl. Í því þinghaldi játaði ákærði skýlaust háttsemi þá sem honum er í ákæru gefin að sök með þeirri athugasemd þó að hann hafi ekki að fyrra bragði ráðist að eiginkonu sinni. Af hálfu ákæruvalds var ekki gerð athugasemd við þessa lýsingu ákærða. Var þá farið með málið eftir ákvæðum 164. gr. laga um meðferð sakamála.

Með skýlausri játningu ákærða sem er í samræmi við gögn málsins telst sekt hans sönnuð. Brot ákærða samkvæmt ákærulið II telst, að teknu tilliti til atvika máls, varða við 1. mgr. 99. gr. barnavarndarlaga nr. 80/2002.

Ákærði hefur ekki áður sætt refsingu sem máli skiptir við ákvörðun refsingar hans. Játning ákærða er honum til refsilækkunar en annars á hann ekki málsbætur. Að þessu virtu þykir refsing hans hæfilega ákveðin 30 daga fangelsi en efni eru til að fresta fullnustu refsingarinnar og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Sakarkostnaður hefur ekki fallið á mál þetta.

Af hálfu ákæruvalds sótti málið Gunnar Örn Jónsson lögreglustjóri á Norðurlandi vestra.

Halldór Halldórsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

Ákærði X, sæti fangelsi í 30 daga en fullnustu refsingarinnar er frestað og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

 

                                                                 Halldór Halldórsson