• Lykilorð:
  • Fyrning
  • Skuldamál
  • Tómlæti
  • Skuldamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness, mánudaginn 4. júní 2018, í máli nr. E-1208/2017:

Hönnunarhúsið ehf.

(Eiríkur Gunnsteinsson hrl.)

gegn

Keili útgáfufélagi ehf.

(Dóris Ósk Guðjónsdóttir hdl.)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 8. maí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjaness með stefnu birtri 5. desember 2017.

Stefnandi er Hönnunarhúsið ehf., kt. 000000-0000, Bæjarhrauni 2, 220 Hafnarfirði. Stefndi er Keilir útgáfufélag ehf., kt. 000000-0000, Dalshrauni 24-26, 220 Hafnarfirði.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til þess að greiða honum skuld að fjárhæð 10.680.075 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 8. júlí 2016 til greiðsludags. Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti.  

Stefndi gerir þær dómkröfur að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda, en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Þá er þess krafist að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins að teknu tilliti til greiðslu virðisaukaskatts.

I

Málsatvik

Aðilar þessa máls hófu viðskipti sín á milli tengd útgáfu á vikulegu bæjarblaði í upphafi árs 2007, með þeim hætti að stefndi fól stefnanda útgáfu blaðsins, ritstjórn og auglýsingasölu. Ekki var gerður skriflegur samningur en upplýst er að munnlega hafi verið miðað við að stefnandi fengi greitt 30% af sölu auglýsinga. Aðila greinir hins vegar á um nánari viðmið þess samnings, hvort miðað hafi verið við 30% af heildarauglýsingasölu, eins og stefnandi heldur fram, eða hvort miða skyldi við 30% eftir að kostnaður stefnda hefði verið dreginn frá, eins og stefndi ber, og aðila greinir einnig á um hvort samið hafi verið um að stefnandi fengi auk þess 2.500 krónur fyrir hverja blaðsíðu í umbroti og virðisaukaskatt ofan á þá fjárhæð.

Stefnandi sendi stefnda vikulega upplýsingar um heildarsölu hvers blaðs og reikninga þar sem fram kom sundurliðuð fjárhæð, annars vegar um auglýsingasölu og hins vegar um umbrot. Stefndi gerði engar athugasemdir við fjárhæðir þeirra reikninga en greiddi stefnanda í samræmi við það sem hann taldi vera samkomulag um.

Í málinu liggur fyrir reikningsyfirlit um framangreind viðskipti aðila, frá 28. febrúar 2007 til og með 8. júlí 2016. Með ákvörðun dómsins þann 8. mars 2018 var fallist á beiðni stefnanda um að leggja fram afrit þeirra reikninga sem getur um á nefndu reikningsyfirliti.

Fyrir dóminn komu og gáfu skýrslu fyrirsvarsmaður stefnanda, Guðni Gíslason, og fyrirsvarsmaður stefnda, Steingrímur Guðjónsson, og vitnið Gunnar Einarsson, löggiltur endurskoðandi.

II

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir á því að auk 30% af auglýsingatekjum hafi hann átt að fá 2.500 krónur fyrir hverja blaðsíðu í umbroti blaðsins auk virðisaukaskatts. Ekki hafi verið samið sérstaklega um ritstjórn og ekki hafi verið gefnir út reikningar vegna þess þáttar. Byggir stefnandi á því að samið hafi verið munnlega um framangreint.  

Stefnandi upplýsir að viðskipti aðila nái allt til ársins 2007 og fram til ársins 2016 þegar þeim hafi verið hætt vegna skulda stefnda. Um sé að ræða reikninga að fjárhæð 128.888.606 krónur en innborganir á sama tíma hafi verið að fjárhæð 118.208.531 króna og stefnukrafa málsins mismunur þess. Bæði sé um að ræða greiðslu á einstökum reikningum og innborganir inn á kröfu stefnanda og hafi síðasta greiðslan borist þann 8. júlí 2016. Krafa stefnanda sé því ekki fyrnd og sé krafist dráttarvaxta frá áskorun stefnanda til stefnda um greiðslu, þann 8. júlí 2016. Stefndi hafi hafnað því að greiða framangreinda kröfu, og hafi stefnandi því þurft að leita til dómstóla.

Um lagarök er einkum vísað til meginreglna kröfuréttar og samningaréttar. Kröfuna um dráttarvexti styður stefnandi við ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu með síðari breytingum. Krafan um málskostnað byggist á 1. mgr. 130. gr. og 131. gr. laga um meðferð einkamála, og um varnarþing er vísað til 33. gr. sömu laga.

 

III

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir á því að stefnandi eigi ekki lögvarða kröfu þar sem engir reikningar hafi upphaflega verið lagðir fram í málinu, en þeir séu grundvöllur kröfunnar. Viðskiptayfirlit úr bókhaldi stefnanda sé ekki viðskiptabréf og geti aldrei orðið grundvöllur kröfu stefnanda. Þrátt fyrir þá ákvörðun að stefndi mætti leggja reikningana fram síðar, þá séu þeir of seint fram komnir til þess að á þeim verði byggt í málinu.

Stefndi byggir á því að fyrirmæli 1. mgr. 80. gr. og 95. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála miði að því að tryggja að ljóst sé á frumstigi dómsmáls með hvaða röksemdum og í meginatriðum á hvaða gögnum stefnandi hyggist styðja kröfur sínar. Sé skilyrðum 102. gr. laga nr. 91/1991 ekki fullnægt til þess að koma megi síðar að reikningum í málinu, enda hafi verið fullt tilefni og tækifæri til þess að gera það þegar við þingfestingu. Verði að gera þær kröfur að skilríki fyrir meintum skuldbindingum stefnda séu lögð fram þegar við þingfestingu máls og síðari framlagning sé óheimil skv. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 91/1991.

Stefndi telur að með engum hætti sé ljóst af lestri stefnu og fylgigagna á hvaða rökum stefnandi telji sig eiga þau réttindi sem hann krefji stefnda um. Ekkert liggi fyrir um seldar auglýsingar fyrir hvert tölublað fyrir sig og sundurliðun á fjárhæðum. Auk þess telur stefndi að kröfur stefnanda eigi ekki við nokkur rök að styðjast. Allt það sem stefndi hafi greitt til stefnanda hafi í einu og öllu verið það sem samið hafi verið um milli aðila. Hafi stefndi gert munnlegan samning við stefnanda um að hann fengi 30% af auglýsingatekjum, ekki auglýsingasölu heldur 30% af því sem innheimtist hverju sinni að því gefnu að útgáfa blaðsins stæði undir því en kostnaður við útgáfu hvers blaðs fyrir sig hafi verið mismunandi. Enginn skriflegur samningur liggi til grundvallar málatilbúnaði stefnanda um annað en að viðskiptasamband aðila hafi staðið yfir í tæp níu ár samfleytt. Á öllum þeim tíma hafi stefnandi aldrei gert athugasemdir við þær greiðslur sem honum hafi borist og aldrei gert minnstu tilraun til þess að innheimta þær meintu eftirstöðvar. Stefndi telur það ólíklegt svo eigi sé meira sagt að stefnandi hafi aldrei gert athugasemdir við greiðslur ef þær voru í ósamræmi við það sem um hafi verið samið á milli aðila á öllu framangreindu tímabili. Þvert á móti hafi stefnandi haldið áfram að vera í samningssambandi við stefnda í fleiri ár til viðbótar, algjörlega athugasemdalaust. Í þessu felist rík viðurkenning á því að um fullnaðargreiðslur hafi verið að ræða í hvert sinn.

Stefndi bendir á að samkvæmt framlögðu viðskiptayfirliti úr bókhaldi, þá komi fram að stefndi hafi verið í skuld við stefnanda frá upphafi viðskiptasambands þeirra eða frá 28. febrúar 2007 og áfram allan þann tíma sem aðilar hafi verið í viðskiptum. Sem dæmi megi ráða af yfirlitinu að í desember 2013 hafi skuldin verið komin upp í 17.133.981 krónu en stefnandi aldrei gert minnstu tilraun til þess að innheimta meinta kröfu öll þau níu ár sem þeir hafi átt í viðskiptum, eða að stefnandi hafi gert stefnda viðvart um að hann teldi sig eiga slíka kröfu á hendur honum. Stefnandi hafi enga reikninga eða kvittanir sent um það hvernig innborgunum stefnda hafi verið háttað, þ.e.a.s. inn á hvaða reikning greiðslurnar fóru í hvert sinn. Þá hafi stefnandi heldur ekki sent stefnda yfirlit um hver áramót um það hver skuldastaðan væri. Hafi stefndi því litið svo á, allt frá árinu 2007, að um fullnaðargreiðslur væri að ræða.

Stefndi byggir á því að með framangreindri háttsemi hafi stefnandi viðurkennt að þær greiðslur sem honum hafi borist hafi verið greiddar í samræmi við það sem um hafi verið samið á milli aðila og því beri að sýkna stefnda af kröfum málsins.

Stefndi byggir á því að verði ekki á það fallist að stefnandi eigi ekki lögvarða kröfu á hendur honum, og að hún sé studd fullnægjandi gögnum, telur stefndi eigi að síður að sýkna eigi vegna tómlætis og aðgerðarleysis stefnanda. Tómlætið sé með ólíkindum og telur stefndi að meint krafa sé niður fallin af þeim sökum. Gera verði þá kröfu til þess sem telur sig ekki hafa fengið greitt samkvæmt samningi, að hann geri án tafar athugasemdir við það. Slíku hafi ekki verið fyrir að fara í tilviki stefnanda heldur hafi hann móttekið greiðslur í tæp níu ár án þess að gera nokkurn tímann athugasemdir við það og engar tilraunir gert til innheimtu. Fjölmörg dómafordæmi séu fyrir því að slíkt tómlæti og aðgæsluleysi til margra ára valdi því að meint krafa sé niður fallin. Stefnandi hafi fyrst með áskorunarbréfi, dags. 8. júlí 2016, gert stefnda viðvart og á sama tíma ákveðið að slíta samningssambandi við stefnda, og að stofna sjálfur nýtt fréttablað.

Stefndi byggir á því að verði ekki fallist á aðalkröfu hans um sýknu, þá krefjist hann þess til vara að krafa stefnanda verði lækkuð verulega á grundvelli fyrningar. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda sé almennur fyrningarfrestur fjögur ár. Í 1. mgr. 2. gr. sömu laga komi fram að fyrningarfrestur kröfu reiknist frá þeim degi sem kröfuhafi gat fyrst átt rétt til efnda og í 2. mgr. 2. gr. sömu laga komi fram að fyrningarfrestur kröfu reiknist frá þeim degi sem samningurinn var vanefndur. Sú málsástæða stefnanda að krafan sé ekki fyrnd þar sem fyrningu hafi verið slitið með greiðslu einstakra reikninga sem og innborgana inn á kröfu sé mótmælt. Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga nr. 150/2007 sé fyrningu slitið þegar skuldari hafi gagnvart kröfuhafa beinlínis eða með atferli sínu viðurkennt skylduna, svo sem með loforði um greiðslu eða með því að greiða afborgun höfuðstóls, verðbætur eða vexti. Skilyrði ákvæðisins eigi ekki við í því tilviki þegar um einstaka og sérgreinda reikninga sé að ræða. Greiðslurnar hafi verið inntar af hendi inn á hvert tölublað blaðsins og samþykktar sem slíkar af hálfu stefnanda. Sé því um fullnaðargreiðslur að ræða á viðkomandi reikning í hvert sinn. Stefndi hafi ekki verið að greiða inn á eldri reikninga líkt og haldið sé fram í stefnu. Þar sem stefna málsins hafi verið birt þann 5. desember 2017 séu öll meint vanskil fyrir 5. desember 2013 fyrnd.

Stefndi mótmælir dráttarvaxtakröfu, enda geti stefnandi ekki krafist dráttarvaxta fyrr en einum mánuði eftir að áskorun hafi verið send stefnda, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Nefnd áskorun hafi verið send þann 8. júlí 2016 og geti dráttarvextir ekki fallið á kröfuna fyrr en mánuði síðar.

Um lagarök vísar stefndi til meginreglna kröfu- og samningaréttar og til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, sérstaklega 1. mgr. 80. gr., 95. gr. sem og 102. gr. Þá er vísað til laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007. Um dráttarvexti er vísað til laga nr. 38/2001, einkum 3. mgr. 5. gr., og krafan um málskostnað byggist á 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.

 

IV

Forsendur og niðurstaða

Stefnandi ber að honum hafi borið 30% af auglýsingasölu, og 2.500 krónur fyrir hverja blaðsíðu í umbroti auk virðisaukaskatts, en stefndi ber að stefnandi hafi átt að fá 30% af auglýsingasölu að teknu tilliti til afkomu stefnda, og að ekki hafi átt að greiða sérstaklega fyrir umbrot.

Stefndi byggir á því að stefnandi eigi ekki lögvarða kröfu, enda séu framlagðir reikningar of seint fram komnir til þess að á þeim verði byggt.

Með stefnu málsins fylgdi reikningsyfirlit yfir viðskipti aðila sem fyrir utan ágreining um efni munnlegs samnings virðast hafa gengið með ágætum. Á nefndu yfirliti er getið um útgáfudag og fjárhæð hvers útgefins reiknings svo og innborganir af hálfu stefnda. Stefndi kannaðist við þær innborganir og ekki er ágreiningur um tölulegan þátt yfirlitsins né snýr ágreiningur málsins að einstökum reikningum. Með vísan til þessa er ekki á það fallist að með framlagningu reikninganna hafi stefnandi dregið ný atriði inn í málið sem honum hafi ekki verið heimilt skv. svonefndri útilokunarreglu. Þá er ekki hægt að fallast á þá málsástæðu stefnda að mögulega hafi reikningarnir verið útbúnir eftir á, enda eru reikningar í samræmi við nefnt yfirlit, sem var staðfest rétt af löggiltum endurskoðanda fyrir dómi.

Í máli fyrirsvarsmanns stefnanda fyrir dómi kom fram að hann hafi vikulega sent stefnda upplýsingar um heildarsölu hvers tölublaðs ásamt því að afhenda stefnda reikninga eða að stefndi hafi kallað eftir þeim, og hafi stefndi aldrei gert athugasemdir við efni þeirra. Í máli fyrirsvarsmanns stefnda fyrir dómi kom fram að hann hefði móttekið reikningana og séð efni þeirra. Hann hafi ekki gert athugasemdir við þá en heldur ekki samþykkt, og hafi borgað stefnanda það sem hann hafi talið samkomulag um. Upplýsti hann að eiginlega hafi engir samningar verið til staðar, þetta hafi verið í lausu lofti en átt að fara eftir afkomu blaðsins. Þá bar fyrirsvarsmaður stefnda að stundum hafi reikningarnir „passað“ og ekki verið ósanngjarnir, verið réttir að hans mati. Einnig kom fram hjá fyrirsvarsmanni stefnda að innborganir hans til stefnanda hafi ekki verið eyrnamerktar ákveðnum reikningum og stefnandi hafi engar athugasemdir gert, og stefndi því talið greiðslurnar fullnaðargreiðslur.

Reikningar málsins, rúmlega 400 talsins, eru efnislega allir eins. Við útgáfu fyrsta reiknings þann 28. febrúar 2007 er miðað við 30% af auglýsingasölu og á öllum reikningum kemur fram sundurliðun á milli auglýsingasölu og umbrots þar sem einingaverð umbrots er 2.500 krónur.

Stefndi byggir á því að greiðslur til stefnanda hafi átt að vera háðar rekstrarafkomu hans sjálfs. Virðist sem stefndi hafi einhliða átt að koma að þeim útreikningi eða ákvarða hvað væri sanngjarnt í hvert sinn. Ekkert í gögnum málsins gefur hins vegar til kynna að greiðslur stefnda til stefnanda hafi í raun miðað við þau viðmið, enda greiðir stefndi stundum umkrafða fjárhæð reikninga að meðtalinni 2.500 króna greiðslu fyrir umbrot en í flestum tilfellum eru innborganir greiddar í heilum hundrað- og tugþúsundum króna.

Fyrirsvarsmaður stefnda bar fyrir dómi að hafa séð flesta af framlögðum reikningum og sundurliðun þeirra en hann hafi aldrei gert athugasemd. Með vísan til framangreinds hefur stefndi að mati dómsins ekki gert það sennilegt að munnlegur samningur aðila hafi verið annar en efni útgefinna reikninga gefur til kynna um að stefnanda hafi borið 30% af auglýsingasölu og 2.500 krónur fyrir hverja blaðsíðu í umbroti blaðsins auk virðisaukaskatts.

Fram kom í skýrslu fyrir dómi hjá fyrirsvarsmanni stefnda að hann hafi ekki greitt innborganir inn á ákveðna reikninga stefnanda, en á því er byggt af hans hálfu að hann hafi verið að greiða inn á hvert tölublað, einu sinni í viku. Séu reikningar sem útgefnir eru fjórum árum fyrir þingfestingu málsins, eða fyrir 5. desember 2013, því fyrndir skv. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda.

Á framlögðu viðskiptamannayfirliti kemur fram að stefndi greiðir oft vikulega án þess að séð verði að þær greiðslur séu tilgreindar ákveðnum tölublöðum eða ákveðnum reikningum. Samkvæmt meginreglu þar um var stefnanda því heimilt að færa innborganir inn á uppsafnaðan höfuðstól elstu skuldar hvert sinn en ekki verður séð að stefnandi hafi lagt á kostnað eða vexti. Höfuðstóll kröfu stefnanda tók þannig breytingum og var hæstur 17.690.546 krónur í lok árs 2015 en lækkaði þá hratt niður í stefnufjárhæð málsins þegar stefndi greiddi fjölda innborgana óháð útgáfu reikninga eða tölublaða. Eru þær innborganir til enn frekari stuðnings því að stefndi hafi ekki verið að greiða inn á ákveðna reikninga eða tölublöð, heldur inn á eftirstöðvar kröfunnar.

Eftirstöðvar kröfu og stefnufjárhæð málsins, nema samkvæmt framlögðu yfirliti 10.680.075 krónum. Fjárhæð útgefinni reikninga frá 5. desember 2013, nemur tvöfalt hærri fjárhæð en stefnukrafa málsins. Ógreiddir reikningar sem krafa þessa máls tekur til, eru samkvæmt framangreindu allir útgefnir eftir 5. desember 2013, og því ófyrndir skv. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. og 15. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda.

Byggt er á tómlæti af hálfu stefnanda að hafa móttekið innborganir stefnda í tæp níu ár án athugasemda um að stefndi væri ekki að greiða umkrafða fjárhæð reikninga. Stefndi greiðir í einhver skipti umkrafðar fjárhæðir en jafnframt kemur fram í gögnum málsins að stefnandi hafi sent stefnda tölvupóst árið 2013, þar sem hann óskar eftir því að fá sent reikningsyfirlit frá stefnda í því skyni að fá svör um greiðslur, en þar segir: „Ég get ekki haldið áfram að greiða virðisaukaskatt af reikningum sem ég fæ ekki greitt,“ og í tölvupósti hans til stefnda árið 2014 kemur fram: „Þetta gengur ekki svona, þú verður að greiða meira inn á skuldina.“ Tölvupóstur stefnanda frá 2015 og 2016 er svipaðs efnis. Fram kom í skýrslu stefnda fyrir dómi að tölvupósturinn hafi verið sendur á hans netfang en hann hafi kosið að svara honum ekki. Stefndi greiðir verulega inn á kröfu stefnanda fram á mitt ár 2016, og sama dag og síðasta greiðsla barst frá stefnda sendi stefnandi stefnda bréf, þar sem skorað var á hann að greiða eftirstöðvar kröfunnar. Með vísan til þessa og til þess sem að framan greinir um fyrningu er ekki hægt að fallast á að tómlætis hafi gætt af hálfu stefnanda.

 

Með vísan til alls framangreinds verður stefnda gert að greiða stefnanda umkrafða stefnufjárhæð málsins, 10.680.075 krónur, með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, frá 8. ágúst 2016 að telja, eða frá því að mánuður var liðinn frá því að stefnandi sannanlega krafði stefnda um greiðslu, og til greiðsludags.

Eftir þessum úrslitum málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 753.250 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

Stefndi, Keilir útgáfufélag ehf., greiði stefnanda, Hönnunarhúsinu ehf., 10.680.075 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 8. ágúst 2016 til greiðsludags að telja.

Stefndi greiði stefnanda 753.250 krónur í málskostnað.

 

                                                                             Bogi Hjálmtýsson