- Lykilorð:
- Kaupsamningur
- Riftun
- Skaðabætur
- Skaðabótamál
Ár 2019,
föstudaginn 1. febrúar, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjaness, sem háð er að
Fjarðargötu 9, Hafnarfirði, kveðinn upp í máli nr. E-608/2018:
Sverrir Sverrisson hf.
(Pétur Örn Sverrisson lögmaður)
gegn
Ásbrú fasteignum ef.
(Eva Halldórsdóttir lögmaður)
d ó m u r :
Mál þetta,
sem upphaflega var þingfest 27. júní 2018 og áritað þann 7. ágúst 2018, var
endurupptekið 18. september 2018 og dómtekið 15. janúar sl.
Stefnandi
er Sverrir
Sverrisson hf., kt. 000000-0000, Iðjustíg 1a, 260 Reykjanesbæ. Stefndi er Ásbrú fasteignir ehf., kt. 000000-0000,
Flugvallarbraut 752, 235 Reykjanesbæ.
Stefnandi krefst þess að hið stefnda
félag verði dæmt til að greiða stefnanda 19.000.000 króna auk
vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. júní 2017 til 27. júní
2018 og dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 1. mgr. 6. gr.
laganna, frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr
hendi stefnda að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum
stefnanda. Þá krefst hann þess að kveðið verði á um í úrskurði að réttaráhrif
áritunar á stefnu málsins þann 7. ágúst 2018 falli niður að öllu leyti. Að auki
er krafist málskostnaðar.
Aðalmeðferð málsins fór fram 15.
janúar sl. og var málið dómtekið að málflutningi loknum.
Málsatvik:
Stefnandi
er hlutafélag en tilgangur þess er kaup, sala, rekstur og útleiga fasteigna og
bifreiða, lánastarfsemi og annar skyldur rekstur. Hið stefnda félag er
einkahlutafélag en tilgangur þess er fjárfesting í fasteignum, fasteignaumsýsla
og skyldur rekstur. Meðal fasteigna í eigu stefnda var eignin að Valhallarbraut
738 í Reykjanesbæ, fastanúmer 231-0526. Snemma árs 2017 var stefndi með
tilgreinda fasteign til sölumeðferðar hjá Fasteignasölunni Mikluborg ehf., kt. 000000-0000.
Annaðist Gunnar S. Jónsson, löggiltur fasteignasali hjá viðkomandi
fasteignasölu, milligöngu um sölumeðferð eignarinnar fyrir hönd hins stefnda
félags.
Samkvæmt
gögnum málsins gerði stefnandi þann 31. mars 2017 kauptilboð í viðkomandi
fasteign stefnda að Valhallarbraut 738 í Reykjanesbæ. Sverrir Sverrisson, kt. 000000-0000,
stjórnarmaður og framkvæmdastjóri stefnanda, undirritaði tilboðið fyrir hönd
tilboðsgjafa. Samkvæmt tilboðinu skyldi það gilda til kl. 13:00 þann 10. apríl
2017. Kauptilboðið var gert með þeim fyrirvara að tilboðsgjafi hefði þrjátíu
daga til að ganga frá fjármögnun vegna kaupanna. Samkvæmt orðalagi í
kauptilboðinu var kauptilboðshafa heimilt að rifta kauptilboðinu einhliða án
sérstakrar tilkynningar lægi staðfesting á lánafyrirgreiðslu ekki fyrir innan
þess tíma. Ofangreint kauptilboð var samþykkt innan tilboðsfrests af hálfu
stefnda og undirritaði þáverandi framkvæmdastjóri aðilans, Óli Þór Barðdal, kt.
000000-0000, tilboðið fyrir hönd hins stefnda félags. Var það gert í síðasta
lagi 6. apríl 2017 samkvæmt tölvupósti þar um.
Tilboðsverð
var 147.000.000 króna. Skyldi kaupverðið annars vegar greitt með peningum við
undirritun kaupsamnings gegn skilyrtu veðleyfi að fjárhæð 130.000.000 króna og
hins vegar með peningagreiðslu að fjárhæð 17.000.000 króna tveimur mánuðum eftir
afhendingu eignar samhliða útgáfu afsals. Var tiltekið í hinu samþykkta
kauptilboði að um væri að ræða atvinnuhúsnæðið nr. 738, eign merkt 01.01.01,
fastanúmer 231-0526, við Valhallarbraut í Ásabrú ásamt öllu því sem fylgdi og
bæri að fylgja, að engu undanskildu, þar með talinn lóðarréttur. Samkvæmt hinu
samþykkta kauptilboði skyldi afhending eignarinnar fara fram við
kaupsamningsgerð. Þá var jafnframt eftirfarandi tiltekið í hinu samþykkta
kauptilboði: „Tilboðsmóttakandi samþykkir tilboð þetta og lýsir því yfir að
hann sé fjárráða. Bindandi kaupsamningur er kominn á þegar tilboð hefur verið
undirritað sem samþykkt, enda felist í því gagnkvæm skuldbinding aðila, annars
vegar um greiðslu kaupverðs og hins vegar um afhendingu eignar. Fyrirvari er
gerður um samþykki framangreindra lánastofnana vegna greiðslugetu kaupanda.“
Hinn
11. apríl 2017 sendi Gunnar S. Jónsson fasteignasali tölvubréf til
fyrirsvarsmanns stefnanda þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvort líklegt
væri að stefnandi gæti gengið til kaupsamnings í þeim mánuði. Áður en 30 daga
frestur til að skila inn staðfestingu á lánafyrirgreiðslu samkvæmt hinu
samþykkta kauptilboði var liðinn óskaði tilboðsgjafi eftir því við
fasteignasalann og samkvæmt Garðari Vilhjálmssyni að hann fengi vikufrest til
viðbótar til að ganga frá fjármögnun. Kvaðst vitnið Gunnar og framkvæmdastjóri
stefnda, Óli Barðdal, hafa samþykkt það í símtali við fasteignasalann. Með
tölvubréfi fyrirsvarsmanns stefnanda til Gunnars S. Jónssonar fasteignasala
þann 8. maí 2017, sem bar yfirskriftina „Vallhallarbraut
738“, var tilkynnt um að stefnandi félli frá fyrirvara um lánafyrirgreiðslu
vegna kauptilboðs um viðkomandi fasteign að Valhallarbraut. Var tiltekið í
tölvupóstinum að fjármögnun væri tryggð og að stefnandi væri reiðubúinn til
kaupsamningsgerðar í næstu viku á eftir.
Þann
15. maí 2017 gerðu Vallarvinir ehf., kt. 000000-0000, stefnanda kauptilboð í
fasteignina að Valhallarbraut 738 í Reykjanesbæ að fjárhæð 166.000.000 króna.
Var kauptilboðið samþykkt þann sama dag af hálfu stefnanda. Skyldi kaupverðið
annars vegar greitt með peningum við undirritun kaupsamnings gegn skilyrtu
veðleyfi að fjárhæð 142.000.000 króna og hins vegar með peningagreiðslu að
fjárhæð 24.000.000 króna tveimur mánuðum eftir afhendingu eignar samhliða útgáfu
afsals. Var tekið fram í kauptilboði Vallarvina að þeim væri kunnugt um að
stefnandi, sem væri seljandi, væri ekki kominn með kaupsamning né afsal fyrir
eigninni.
Samkvæmt
smáskilaboðum þann 18. maí 2017 sendi stefnandi fyrirspurn til Óla Barðdal og
segir: „Tökum fund ég þú og Gæi núna“. Svaraði Óli því til að hann væri í
Reykjavík og ætlaði að tala við Garðar. Aftur svaraði stefnandi að hann þyrfti
að heyra í Óla ef það eigi að ná sátt og þá þurfi þeir þrír að eiga fund núna.
Óli svaraði því til að Garðar myndi hringja í stefnanda en sé á fundi núna.
Samkvæmt
smáskilaboðum milli stefnanda og Óla Barðdal þann 19. maí 2017 kvaðst stefnandi
vera tilbúinn í kaupsamning hvenær sem væri. Þann 19. maí s.á. lögðu
Vallarvinir ehf. 142.000.000 króna inn á fjárvörslureikning fasteignasölunnar.
Þann 23. maí sendi stefnandi Óla smáskilaboð og kvaðst vera kominn í Keflavík
upp á að kvitta á samkomulagið og segir jafnframt að það þurfi að vitna til
þess í samkomulaginu að Airport gangi inn í fyrri viðskipti milli þeirra.
Síðdegis þann 23. maí 2017 sendi fasteignasalinn tölvupóst til stefnda og kvað
hjálagðan vera kaupsamninginn um Valhallarbrautina og segir jafnframt að honum
hafi skilist svo að samkomulag hafi náðst við stefnanda um að hann falli frá
kauptilboðinu gegn því að Vallarvinir verði kaupendur og að honum verði
greiddar 3.500.000 krónur.
Þann
24. maí s.á. sendi stefnandi tölvupóst til Óla Barðdal og kvaðst hafa greitt
inn á vörslureikning Mikluborgar sl. föstudag kaupsamningsgreiðsluna og hafi
verið tilbúinn í kaupsamning síðan þá. Óskaði hann eftir því að gengið yrði í
kaupsamning og eignin afhent honum. Þann 29. maí s.á. sendi lögmaður stefnanda
Óla Barðdal tölvupóst og ítrekaði að gengið yrði frá kaupsamningi og í síðasta
lagi fyrir kl. 12.00 þann 30. maí 2017. Aftur þann 1. júní 2017 ítrekaði
lögmaður stefnanda með tölvupósti að gengið yrði frá kaupsamningi og afsali
fyrir fasteignina Valhallarbraut 738.
Með
tölvupósti frá fasteignasalanum til aðila þann 1. júní kl. 14.41 upplýsti
fasteignasalinn að fyrirsvarsmenn stefnanda hafi mætt á fasteignasöluna þann
sama dag og undirritað kaupsamning og afsal ásamt því að greiða kaupverðið
vegna kaupa á Valhallarbraut. Þau geri kröfu um að stefndi undirriti skjölin.
Stuttu seinna svaraði stjórnarmaður stefnda í tölvupósti og spurði hvort
fasteignasalan væri að útbúa afsal og kaupsamning vegna kauptilboðs sem ekki
væri í gildi lengur. Kvaðst fasteignasalinn í svari sínu ekki vita hvort
tilboðið sé fallið úr gildi en hann hafi útbúið kaupsamning á grundvelli
fyrirliggjandi samþykkts tilboðs.
Með bréfi dagsettu 1. júní 2017 til
stjórnarformanns stefnda upplýsti lögmaðurinn stefnanda að þar sem ekki hafi
verið mætt af hálfu stefnda til samningagerðar hjá fasteignasölunni fyrr um
daginn hafi stefnandi undirritað öll skjöl og greitt kaupverðið að fullu.
Skoraði lögmaðurinn á stefnda að undirrita kaupsamning og afsal fyrir
faseigninni. Áskildi stefnandi sér rétt til að leita réttar síns uppfyllti
stefndi ekki samningsskyldur sínar.
Þann
2. júní 2017 sendi stjórnarmaður stefnda lögmanni stefnanda tölvupóst og kvað
stefnanda hafa farið á fasteignasöluna til að útbúa kaupsamning án samráðs,
fyrirvara eða með samþykki seljanda. Kvað hann boðun í kaupsamningsgerð hafa
komið stefnda á óvart þar sem stefnanda hafi verið fullkunnugt um að
kauptilboðið hafi verið úr gildi fallið. Þann sama dag sendi stjórnarmaður
stefnda fasteignasalanum tölvupóst og kvað m.a., eins og hann hefði sagt í síma
deginum áður, að stefndi liti svo á að kauptilboðinu hafi verið rift fyrir
nokkru síðan.
Í
bréfi lögmanns stefnanda til stefnda þann 29. júní 2017 kemur fram að aðilar
hafi átt í viðræðum um að stefnandi gengi út úr kaupunum að Valhallarbraut gegn
því að kaupa aðrar fasteignir sem stefndi átti. Samkvæmt niðurlagi bréfsins
virðist stefndi ekki hafa svarað stefnanda um lok slíkra samninga. Þann 17.
júlí 2017 sendi stjórnarmaður erindi til Péturs og bað um upplýsingar varðandi
hugsanlegan makaskiptasamning milli aðila. Þann 10. ágúst 2017 sendi lögmaður
stefnanda stefnda tölvupóst og kemur þar fram að aðilar séu að reyna að leita
leiða til að sætta aðila. Þann 12. september 2017 sendi lögmaður stefnanda
stefnda afrit af undirrituðu kauptilboði stefnanda í atvinnuhúsnæði nr. 770-778
við Keilisbraut að Ásbrú. Þá fylgdu drög að samkomulagi milli aðila til að
ljúka ágreiningi vegna Valhallarbrautar með makaskiptum auk eingreiðslu að
fjárhæð 3.500.000 krónur sem bætur vegna tapaðs ávinnings af nefndum
fasteignaviðskiptum. Var boði stefnanda um makaskipti á tilteknum eignum hafnað
af stjórn stefnda þann 14. september 2017.
Með
tölvupósti þann 20. október 2017 staðfesti Gunnar S. Jónsson fasteignasali að
stefnandi hafi óskað eftir viðbótarfresti áður en þrjátíu daga fresturinn var
runninn út og hafi Óli Þór Barðdal, þá framkvæmdastjóri stefnda, veitt þann
frest munnlega.
Þann
30. maí 2018 krafði stefnandi stefnda um greiðslu skaðabóta vegna vanefnda á
samþykktu kauptilboði stefnanda í Valhallarbraut 738 í Reykjanesbæ.
Vegna
samningsrofa stefnda féll niður hið samþykkta kauptilboð á milli stefnanda og
Vallarvina ehf. frá 15. maí 2017 sem áður er lýst.
Málsástæður
og lagarök stefnanda.
Stefnandi
byggir kröfur sínar á því að stefndi hafi valdið sér tjóni með saknæmri og
ólögmætri háttsemi. Eigi stefnandi vegna þessa kröfu til skaðabóta úr hendi
stefnda, hvort heldur sem miðað sé við rétt til skaðabóta innan samninga, sbr.
lög nr. 40/2002 um fasteignakaup, eða rétt til skaðabóta utan samninga, sbr.
almennar meginreglur skaðabótaréttar.
Stefnandi
vísar til þess að hann hafi gert kauptilboð í fasteign stefnda að Valhallarbraut
738 í Reykjanesbæ þann 31. mars 2017 sem hafi verið samþykkt af hálfu stefnda
innan tilboðsfrests. Hafi umsamið kaupverð verið að fjárhæð 147.000.000 króna.
Skyldi kaupverðið annars vegar greitt með peningum við undirritun kaupsamnings
gegn skilyrtu veðleyfi að fjárhæð 130.000.000 króna og hins vegar með
peningagreiðslu að fjárhæð 17.000.000 króna tveimur mánuðum eftir afhendingu
eignar samhliða útgáfu afsals. Í kauptilboðinu hafi verið fyrirvari af hálfu
stefnanda þar sem sagði að hann áskildi sér þrjátíu daga frest til að ljúka
fjármögnun og eftir þann tíma hefði tilboðshafi rétt á að rifta tilboðinu án
sérstakrar tilkynningar. Stefnandi hafi innan 30 daga frestsins fengið
samþykktan viðbótarfrest í viku. Stefnandi hafi fallið frá fyrirvara um fjármögnun
þann 8. maí 2017 og hafi það verið innan tilskilins 30 daga frests samkvæmt
hinu samþykkta kauptilboði eða í öllu falli innan þess viðbótarfrests sem
þáverandi framkvæmdastjóri stefnda veitti í því skyni.
Samkvæmt
þessu byggir stefnandi á því að komist hafi á bindandi kaupsamningur á milli
aðila um fasteignina að Valhallarbraut 738 en samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr.
40/2002 er samningur um kaup á fasteign bindandi þegar skriflegt tilboð hefur
verið samþykkt af móttakanda þess með undirskrift, enda felist í því
skuldbinding um greiðslu tilgreinds kaupverðs og afhendingu fasteignar. Þá
byggir stefnandi á því að enginn grundvöllur hafi verið fyrir einhliða riftun
stefnda á hinu samþykkta kauptilboði enda hafi stefnandi fallið frá
fjármögnunarfyrirvara innan samþykkts frests. Verði því borið við af hálfu
stefnda að hann hafi rift einhliða hinu samþykkta kauptilboði án sérstakrar
tilkynningar sé á það bent að í ljósi ítrekaðra fyrirspurna stefnanda og krafna
um að kauptilboðið yrði efnt réttilega af hálfu stefnda í maí- og júnímánuði
2017 hafi stefnda borið skylda til að upplýsa stefnanda um hina ólögmætu riftun
að þessu leyti. Telur stefnandi að slíkt leiði af trúnaðarskyldu aðila í
gagnkvæmu samningssambandi samkvæmt almennum meginreglum kröfu- og samningaréttar.
Þá byggir stefnandi á því að ekki hafi verið skilyrði fyrir einhliða riftun
hins samþykkta kauptilboðs af hálfu stefnda.
Eftir
að bindandi kaupsamningur hafi komist á milli málsaðila í samræmi við
framangreint hafi Vallarvinir ehf. gert kauptilboð í tilgreinda fasteign sem
stefnandi hafi verið kaupsamningshafi að þann 15. maí 2017. Stefnandi hafi
samþykkt kauptilboðið þann sama dag en umsamið kaupverð hafi verið 166.000.000
króna. Skyldi kaupverðið annars vegar greitt með peningum við undirritun
kaupsamnings gegn skilyrtu veðleyfi að fjárhæð 142.000.000 króna og hins vegar
með peningagreiðslu að fjárhæð 24.000.000 króna tveimur mánuðum eftir
afhendingu eignar samhliða útgáfu afsals.
Eftir
að bindandi kaupsamningur hafi komist á milli málsaðila hafi stefnandi ítrekað
reynt að fá stefnda til að efna hið samþykkta kauptilboð, þ.e. með kröfu um
gerð kaupsamnings, viðtöku kaupsamningsgreiðslna, afhendingu fasteignarinnar og
útgáfu afsals. Vísast um þetta efni til bréfa stefnanda til stefnda í maí- og júnímánuði
2017 og samskipta við fasteignasölu þá sem annaðist milligöngu um
fasteignaviðskiptin. Reyndust allar tilraunir stefnanda til að fá stefnda til
að efna hið samþykkta kauptilboð árangurslausar og það jafnvel þótt stefnda
væri kunnugt um að kaupsamningsgreiðsla að fjárhæð 142.000.000 króna hafi verið
til reiðu fyrir tilstilli stefnanda til handa stefnda á fjárvörslureikningi
viðkomandi fasteignasölu frá 19. maí 2017 og umsamið kaupverð að fullu greitt
þann 1. júní sama ár. Í stað þess að efna samningsskuldbindingar sínar gagnvart
stefnanda samkvæmt hinu samþykkta kauptilboði hafi stefndi kosið að leita til
síðari viðsemjanda stefnanda, Vallarvina ehf., um beina sölu fasteignarinnar að
Valhallarbraut 738 til þess aðila án aðkomu stefnanda. Virðist stefndi þannig
hafa talið að hann hafi selt stefnanda fasteignina á of lágu verði og freistaði
þess að selja hana að nýju til þriðja aðila í fullkominni vanheimild, án
nokkurrar laga- eða samningsstoðar. Hafi stefndi þá verið bundinn gagnvart
stefnanda samkvæmt hinu samþykkta kauptilboði málsaðila.
Í
samræmi við framangreint byggir stefnandi á því að stefndi hafi vanefnt
samningsskuldbindingar sínar gagnvart stefnanda samkvæmt hinu samþykkta
kauptilboði frá 31. mars 2017 og að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni af þeim
sökum. Vanefnd stefnda fólst í neitun á því að efna hið samþykkta kauptilboð
með því að ganga til kaupsamningsgerðar, taka við kaupsamningsgreiðslu, afhenda
hina seldu fasteign og gefa út afsal vegna kaupanna. Fólst í vanefnd stefnda
saknæm og ólögmæt háttsemi aðilans gagnvart stefnanda.
Stefnandi
hafi orðið fyrir tjóni af völdum hinnar saknæmu og ólögmætu háttsemi stefnda.
Þannig liggi fyrir að kauptilboð á milli Vallarvina ehf. og stefnanda, dags.
15. maí 2017, um fasteignina að Valhallarbraut 738 féll niður samkvæmt efni
kauptilboðsins þar sem stefndi hafði skirrst við að ganga til kaupsamnings um
eignina gagnvart stefnanda samkvæmt hinu samþykkta tilboði frá 31. mars 2017.
Hafi síðara samþykkta kauptilboðið verið háð þeirri forsendu að kaupsamningur
yrði gerður á milli stefnanda og stefnda vegna fasteignarinnar innan fjögurra
vikna frá 15. maí 2017. Samkvæmt því varð dráttur og neitun stefnda gagnvart
stefnanda á að ganga til kaupsamnings um fasteignina að Valhallarbraut 738 til
þess að hið samþykkta kauptilboð á milli Vallarvina ehf. og stefnanda féll
niður.
Umsamið
kaupverð á milli málsaðila vegna fasteignarinnar að Valhallarbraut 738 var að
fjárhæð 147.000.000 króna. Umsamið kaupverð samkvæmt samþykktu kauptilboði
stefnanda og Vallarvina ehf., sem féll niður vegna vanefnda stefnda gagnvart
stefnanda, var hins vegar að fjárhæð 166.000.000 króna. Samkvæmt því sé tjón
stefnanda, sem rekja megi til missis hagnaðar vegna vanefnda stefnda á að ganga
til kaupsamningsgerðar og efna samþykkt kauptilboð á milli aðila, 19.000.000
króna sem sé stefnufjárhæð þessa máls.
Stefnandi
byggir aðallega á að hann eigi rétt til skaðabóta úr hendi stefnda samkvæmt
lögum nr. 40/2002 um fasteignakaup. Vísar stefnandi einkum til IV. kafla
laganna þar sem kveðið er á um vanefndaúrræði kaupanda og VII. kafla laganna
þar sem er að finna sameiginleg ákvæði um skaðabætur.
Í
1. mgr. 30. gr. laga nr. 40/2002 sé kveðið á um að afhendi seljandi ekki
fasteign eða gefi ekki út afsal á réttum tíma, án þess að því valdi atvik sem
kaupanda er um að kenna eða hann beri ábyrgð á, geti kaupandi krafist efnda
samkvæmt 31. gr., rift samkvæmt 32. gr., krafist skaðabóta samkvæmt 34. gr. eða
haldið eftir af greiðslu kaupverðs samkvæmt 35. gr. laga nr. 40/2002. Samkvæmt
2. mgr. 30. gr. eiga ákvæði kafla laganna um afhendingardrátt við efni seljandi
ekki á réttum tíma aðrar skyldur sínar samkvæmt kaupsamningi. Með vísan til 2.
mgr. 30. gr. laga nr. 40/2002 byggir stefnandi á því að hann geti beitt þeim
vanefndaúrræðum gagnvart stefnda sem kveðið er á um í IV. kafla laganna um
afhendingardrátt. Samkvæmt 1. mgr. 34. gr. laga nr. 40/2002 getur kaupandi
krafist skaðabóta vegna afhendingardráttar fyrir annað tjón en óbeint tjón skv.
59. gr. þótt seljandi hafi ekki sýnt af sér sök. Verði afhendingardráttur eða
tjón vegna saknæmrar háttsemi seljanda getur kaupandi krafist skaðabóta bæði
fyrir beint og óbeint tjón, sbr. 2. mgr. 34. gr. laganna.
Stefnandi
byggir á því að stefndi hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi gagnvart
sér með því að neita að efna hið samþykkta kauptilboð málsaðila og ganga til
kaupsamningsgerðar, taka við kaupsamningsgreiðslu úr hendi stefnanda, afhenda
stefnanda hina seldu fasteign og gefa út afsal vegna kaupanna. Á grundvelli
þess telur stefnandi að tjón hans megi rekja til saknæmrar háttsemi stefnda og
geti stefnandi því, sem kaupandi, krafist skaðabóta bæði fyrir beint og óbeint
tjón úr hendi stefnda, sbr. 2. mgr. 34. gr. laga nr. 40/2002.
Stefnandi
byggir á því að tjón sitt sé sennileg afleiðing af vanefnd stefnda og að orsakatengsl
séu fyrir hendi. Varðandi orsakatengsl og sennilega afleiðingu bendir stefnandi
á að stefndi hafi reynt að semja beint við viðsemjanda stefnanda um sölu
eignarinnar á nýjan leik, án aðkomu stefnanda, þrátt fyrir að fyrir hafi legið
bindandi löggerningur á milli málsaðila. Hafi ásetningur verið að baki saknæmi
stefnda gagnvart stefnanda auk þess sem aðilanum hafi mátt vera ljóst að með
því að efna ekki samningsskuldbindingar sínar gagnvart stefnanda væri hann að
valda stefnanda tjóni enda aðilinn meðvitaður um hið síðara samþykkta
kauptilboð á milli Vallarvina ehf. og stefnanda um fasteignina að
Valhallarbraut.
Varðandi
fjárhæð skaðabóta og óbeint tjón vísar stefnandi að öðru leyti til 59. gr. laga
nr. 40/2002. Í 1. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að geti annar samningsaðila
krafist skaðabóta vegna vanefnda skuli bæturnar svara til þess fjárhagslega
tjóns sem hann hefur orðið fyrir vegna þeirra. Þetta eigi þó aðeins við um tjón
sem sá er ábyrgð ber gat með sanngirni séð fyrir sem sennilegar afleiðingar
vanefnda. Þá vísar stefnandi sérstaklega til c-liðar 2. mgr. 59. gr. laga nr.
40/2002 en þar er kveðið á um að þegar lögin geri greinarmun á beinu og óbeinu
tjóni teljist óbeint tjón vera tjón sem rekja megi til missis hagnaðar þegar
samningur við þriðja mann fellur brott eða verður ekki réttilega efndur.
Til
vara byggir stefnandi kröfu sína á hendur stefnda á hinni almennu
skaðabótareglu, sakarreglunni, en samkvæmt henni ber maður skaðabótaábyrgð á
tjóni, sem hann veldur með saknæmum og ólögmætum hætti, enda sé tjónið sennileg
afleiðing af hegðun hans og raskar hagsmunum sem verndaðir eru með
skaðabótareglum. Byggir stefnandi á öllum sömu málsástæðum og að framan
greinir, þ.e. um að stefndi hafi valdið sér tjóni með saknæmum og ólögmætum
hætti og að tjónið sé sennileg afleiðing af vanefndum stefnda og raski
hagsmunum stefnanda sem séu verndaðir með skaðabótareglum.
Þá
byggir stefnandi í öllum tilvikum jafnframt á almennum meginreglum kröfu- og
samningaréttar um skuldbindingargildi samninga og samningsfrelsi. Er á því
byggt að gildur og bindandi löggerningur hafi komist á milli aðila um kaup á
fasteigninni að Valhallarbraut 738 í Reykjanesbæ. Hafi stefnda borið að efna
þann samning. Stefndi hafi hins vegar kosið að vanefna samning aðila og með því
valdið stefnanda fjártjóni. Eigi stefnandi rétt til skaðabóta úr hendi stefnda
vegna þeirra vanefnda í samræmi við það sem áður er rakið.
Stefnandi
krefst vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu
frá 1. júní 2017 til þingfestingardags en samkvæmt ákvæðinu bera kröfur um
skaðabætur vexti frá og með þeim degi er hið bótaskylda atvik átti sér stað. Á
grundvelli málsatvika byggir stefnandi á því að miða beri hið bótaskylda atvik
við eigi síðara tímamark en 1. júní 2017 enda hafði stefndi þá þegar vanefnt
samningsskuldbindingar sínar gagnvart stefnanda. Þá krefst stefnandi
dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna, frá
þingfestingardegi málsins til greiðsludags. Þá vísar stefnandi til almennra
meginreglna kröfu- og samningaréttar um skuldbindingargildi samninga,
samningsfrelsi og efndir fjárskuldbindinga. Jafnframt vísar stefnandi til
almennra meginreglna skaðabótaréttar, þ. á m. til sakarreglunnar. Þá vísar
stefnandi til laga nr. 40/2002 um fasteignakaup, laga nr. 38/2001 um vexti og
verðtryggingu og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málskostnaðarkröfuna
styður stefnandi við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um
varnarþing vísast til 33. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður
og lagarök stefnda.
Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af
kröfum stefnanda. Stefndi gerir einnig þá kröfu að dómari kveði á um í úrskurði
að réttaráhrif áritunar á stefnu málsins, dags. 7. ágúst 2018, falli niður að
öllu leyti. Þá krefst stefndi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda,
samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins.
Stefndi kveðst vera eigandi fasteignarinnar að
Valhallarbraut 738 á Reykjanesi, fnr. 231-0526. Eignin og sala á henni sé háð
tilteknum kvöðum. Vorið 2017 hafi stefnandi gert skriflegt kauptilboð í
fasteignina sem bundið hafi verið fyrirvara um lánafyrirgreiðslu.
Tilboðið hafi verið samþykkt af stjórn stefnda en
þar sem fyrirvaranum hafi ekki verið fullnægt innan þess tíma sem gefinn var í
kauptilboðinu rifti stefndi því.
Stefndi sé einkahlutafélag, stofnað árið 2016.
Tilgangur þess sé m.a. rekstur og eignarhald á fasteignum. Með kaupsamningi 20.
des. 2016 hafi stefndi eignast fasteignina að Valhallarbraut 738 sem staðsett
sé á Ásbrúarsvæðinu á Reykjanesi. Um hafi verið að ræða hluta af stærri
viðskiptum með fasteignir á svæðinu milli stefnda, móðurfélags þess og
systurfélags, sem kaupenda, og HV2 ehf. og fleiri aðila sem seljenda. Stefndi
sé enn eigandi fasteignarinnar.
Þann
31. mars 2017 hafi stefnandi gert kauptilboð í fasteignina. Stefnandi gerði
þann fyrirvara við tilboðið að hann
hefði 30 daga til þess að skila inn staðfestingu á lánafyrirgreiðslu, ella
hefði stefndi heimild til að rifta tilboðinu einhliða og án sérstakrar
tilkynningar. Kauptilboðið hafi verið borið undir stjórn stefnda, enda um að
ræða óvenjulega og mikils háttar ákvörðun með hliðsjón af umfangi stefnda,
efnahagsstöðu hans og atvikum öllum. Var sú framkvæmd enn fremur í samræmi við
verklag við sölu á fasteignum stefnda sem helgast m.a. af innri reglum hans og
skuldbindingum við kröfuhafa og seljendur fasteignanna að Ásbrú. Þannig lá til
að mynda fyrir að stefndi hafði undirgengist skuldbindingar gagnvart seljendum
um samþykki vegna sölu fasteignanna. Stjórn stefnda samþykkti tilboðið
og veitti framkvæmdastjóra sérstakt umboð til þess að skrifa undir það fyrir
sína hönd. Fyrirvari stefnanda um
fjármögnun hafi runnið út 6. maí 2017 án þess að staðfesting bærist um
lánafyrirgreiðslu eða stefnandi félli frá fyrirvaranum. Stjórn stefnda, sem
hafði forræði á sölu fasteignarinnar, ákvað því að rifta tilboðinu. Kauptilboð
stefnanda hafi þess vegna verið fallið úr gildi þegar starfsmanni
fasteignasölunnar Mikluborgar barst tölvupóstur stefnanda 8. maí 2017 um að
hann félli frá títtnefndum fyrirvara.
Þegar kauptilboðinu hafði verið rift var stefnda
í sjálfsvald sett hvernig hann kaus að fara með fasteignina. Að sama skapi var
ekkert sem kom í veg fyrir að stefnandi gerði nýtt kauptilboð í hana eftir að
lánsfjármögnun hefði verið tryggð, svo sem honum hefði verið í lófa lagið að
gera þegar fyrir lá að fyrra tilboð væri ekki lengur í gildi. Stefnandi kaus
þess í stað að gera órökstuddar athugasemdir við að kauptilboðinu hefði verið rift. Átti enda síðar
eftir að koma í ljós að hann hafði boðið þriðja aðila, Vallarvinum ehf., hana
til kaups. Stefndi stóð hins vegar við lögmæta ákvörðun sína um riftun.
Aðilar
komust í kjölfarið að samkomulagi 23. maí 2017 um að stefndi myndi, fyrir
tilstilli stefnanda, ganga til samninga við Vallarvini ehf. um kaup á
fasteigninni. Stefndi myndi greiða stefnanda 3.500.000 krónur í þóknun fyrir að
koma þeim samningaviðræðum á, óháð því hvort þær leiddu til viðskipta um
eignina eða ekki. Að auki samþykkti stefndi að skoða tilboð frá stefnanda í
aðrar fasteignir stefnda með opnum huga. Í takt við þetta samkomulag aðila
barst stefnda tölvupóstur frá Mikluborg 23. maí 2017 þess efnis að Vallarvinir
væru reiðubúnir að skrifa undir kaupsamning um fasteignina þann sama dag.
Tölvupóstinum fylgdu drög að kaupsamningi milli stefnda og Vallarvina. Í
póstinum var einnig að finna umfjöllun og reifun fasteignasalans á téðu
samkomulagi stefnanda og stefnda. Í svari stefnda við póstinum kom fram að ekki
væri hægt að ganga frá kaupsamningi við Vallarvini á svo skömmum tíma.
Stjórn
stefnda hafi fjallað um kaupsamningsdrögin á fundi sínum 31. maí 2017. Ákveðið
hafi verið að samþykkja sölu samkvæmt drögunum og fól stjórn fulltrúum sínum að
ganga til viðræðna við Vallarvini á grundvelli þeirra. Stjórn vakti þó athygli
á því að laga þyrfti kaupsamningsdrögin að þeim kröfum sem stefndi hefði
undirgengist gagnvart lánardrottnum sínum og gagnvart seljendum
fasteignarinnar, auk þess sem útbúa þyrfti frekari fyrirvara um ástand hennar
og afhendingu. Með samþykki stjórnar í farteskinu var óskað eftir fundi með
Vallarvinum um söluna. Vallarvinir svöruðu þeirri málaleitan þannig að tilboð
þeirra samkvæmt kaupsamningsdrögunum stæði óhaggað. Þannig var ljóst að
Vallarvinir litu svo á að stefndi væri eigandi fasteignarinnar, enda hafði
kauptilboði stefnanda verið rift. Sé því rangt sem segi á í stefnu málsins að
fyrirsvarsmenn Vallarvina hafi hafnað málaleitan stefnda um sölu á fasteigninni
á þeim grundvelli að þegar lægju fyrir bindandi löggerningar um sölu
fasteignarinnar.
Í
ljósi alls framangreinds hafi stjórn stefnda því heldur en ekki brugðið í brún
þegar tölvupóstur barst frá Mikluborg daginn eftir stjórnarfundinn, eða 1. júní
2017. Í póstinum hafi verið boðað til kaupsamnings milli stefnanda og stefnda
um fasteignina þann sama dag.
Þetta
fundarboð hafi verið sett fram þrátt fyrir að fyrir lægi a) að kauptilboði
stefnanda hefði verið rift, b) að stefnandi hefði í kjölfar riftunar haft
milligöngu um sölu fasteignarinnar til þriðja aðila, og samið um að fá greidda
fyrir það þóknun, og c) að sama fasteignasala hefði, með hliðsjón af
samkomulagi aðila, boðað til kaupsamnings viku áður milli stefnda og Vallarvina
um kaup á fasteigninni. Við svo búið ítrekaði stefndi, svo sem Mikluborg og
stefnanda var kunnugt, að kauptilboði stefnanda hefði verið rift og að skjöl um
annað væru því markleysa.
Stefndi
gerir í málinu kröfu um að hann verði dæmdur sýkn af kröfum stefnanda og
mótmælir málatilbúnaði hans að öllu leyti. Þá gerir stefndi kröfu um að dómari kveði á um í úrskurði að
réttaráhrif áritunar á stefnu málsins, dags. 7. ágúst 2018, falli niður að öllu
leyti. Enn fremur krefst stefndi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda,
samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins.
Stefndi
byggir á því að hann hafi ekki sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi með
riftun kauptilboðs stefnanda, að stefnandi hafi haft milligöngu um sölu stefnda
á fasteigninni til þriðja aðila og þannig viðurkennt lögmæti riftunar
kauptilboðsins, og að stefnandi hafi raunar gegn betri vitund framselt eignina
til þriðja aðila.
Stefndi
vísar til þess að bótakrafa stefnanda sé reist á ákvæðum 34. gr. laga um
fasteignakaup nr. 40/2002. Þar segir í 4. mgr. að verði afhendingardráttur eða
tjón vegna saknæmrar háttsemi seljanda geti kaupandi krafist skaðabóta bæði
fyrir beint og óbeint tjón. Óbeint tjón sé nánar skilgreint í 2. mgr. 59. gr.
sömu laga, en stefnandi byggir á að bótakrafa sín falli undir c-lið ákvæðisins.
Stefndi byggir á því að hann hafi hvorki brotið gegn lögum né sýnt af sér
saknæma háttsemi svo sem stefnandi byggir á, og að engin vanefnd sé til staðar.
Öllum fullyrðingum um annað, svo sem um ásetning stefnda til að valda stefnanda
tjóni, sé hafnað. Stefndi byggir þannig á því að skilyrðum bótaábyrgðar sé ekki
fullnægt, hvorki samkvæmt 34. gr. laga nr. 40/2002 né sakarreglunni.
Stefndi
vísar til þess að stefnandi hafi sjálfur í kauptilboði sínu sett 30 daga
fyrirvara um lánafyrirgreiðslu og heimild stefnda til einhliða riftunar.
Stefndi beri enga ábyrgð á orðalagi fyrirvarans eða útfærslu að öðru leyti.
Stefndi byggir á því að óumdeilt megi teljast að framangreindur 30 daga frestur
hafi verið liðinn þegar niðurfelling á fyrirvaranum barst fasteignasala 8. maí
2017. Stefndi byggir á því að hann hafi, þegar fresturinn rann út, tekið
ákvörðun um að rifta kauptilboðinu einhliða og án sérstakrar tilkynningar þar
um, svo sem hann hafði heimild til. Sú ákvörðun stefnda hafi því hvorki verið
saknæm né í andstöðu við lög. Kauptilboðið hafi eftir það ekki haft neitt
gildi. Stefndi byggir á því að meint, óræð framlenging á fresti skv.
kauptilboðinu, sem stefnandi vísar til í stefnu sinni að framkvæmdastjóri hafi
veitt, sé ósönnuð auk þess sem hún standist ekki áskilnað laga.
Í
fyrsta lagi sé um að ræða munnleg samskipti. Eftirfarandi breyting á
kauptilboðinu með munnlegum hætti fullnægi ekki formskilyrðum 1. mgr. 7. gr.
laga nr. 40/2002. Af því þurfi stefnandi að bera alla áhættu.
Í
öðru lagi byggir stefndi á því að jafnvel þótt stefnanda tækist sönnun um
munnlega framlengingu hefði slíkt samkomulag ekkert gildi haft, enda hafi
framkvæmdastjóri ekki haft umboð stjórnar til þessa. Eins og áður greinir og
eins og ráða megi af kauptilboðinu hafi framkvæmdastjóri undirritað
kauptilboðið í umboði stjórnar og með sérstöku samþykki hennar. Meint
framlenging hafi hins vegar hvorki verið gerð með skriflegum hætti né í umboði
stjórnar stefnda, líkt og aðstæður kölluðu á. Þetta hafi stefnanda átt að vera
ljóst.
Stefndi
byggir á því að vel kunni að vera að stefnandi hafi verið í samskiptum við
framkvæmdastjóra um að fá lengri tíma til að útvega sér lánsfé og að
framkvæmdastjóri hafi hugsanlega ekki tekið illa í það. Hins vegar feli slík
óformleg samskipti ekki í sér bindandi samkomulag milli aðila um framlengingu á
fyrirvara samkvæmt upphaflegu kauptilboði.
Stefnanda
var hins vegar í lófa lagið að gera nýtt kauptilboð þegar honum varð ljóst að
tilboði hans hafði verið rift og eftir að hann hafði útvegað sér fjármögnun.
Hann kaus hins vegar að gera ekki. Á því getur stefndi ekki borið ábyrgð.
Stefndi
vísar því enn fremur á bug að það hafi komið stefnanda á óvart að búið hafi
verið að rifta kauptilboði aðila. Það hafi legið fyrir frá því snemma í maí
2017 og fullyrðingar stefnanda um annað standist ekki skoðun. Öll samskipti
aðila bera það með sér, til að mynda þau samskipti sem lúta að milligöngu
stefnanda um sölu eignarinnar til þriðja aðila. Að auki liggi fyrir að stefndi
tók aldrei við þeim greiðslum sem lágu á vörslureikningi Mikluborgar samkvæmt
upplýsingum stefnanda.
Stefndi
byggir á því að eftir að kauptilboði stefnanda hafi verið rift hafi aðilar
komist að samkomulagi um eftirmála. Stefndi byggir á því að í samkomulagi aðila
hafi falist að stefndi myndi, fyrir tilstilli stefnanda, ganga til samninga við
Vallarvini ehf. um kaup á fasteigninni. Stefndi byggir á því að enginn
áskilnaður hafi verið gerður um að þær samningaviðræður skiluðu sér í að
viðskipti kæmust á milli stefnda og Vallarvina. Að gefnu tilefni sé rétt að
taka fram að um sé að ræða sama félag og stefnandi hafði samþykkt kauptilboð
frá í fasteignina 15. maí 2017, en fjárhæð bótakröfu hans byggist á því
kauptilboði.
Með
hliðsjón af þessu mótmælir stefndi því sem bersýnilega röngu sem fram komi í
stefnu að stefndi hafi leitað til Vallarvina um sölu fasteignarinnar „án aðkomu
stefnanda.“ Þvert á móti hafi verið lagt upp í þær samningaviðræður með vitund
og vilja, og raunar fyrir tilstilli stefnanda. Fyrir þá milligöngu samþykkti
stefndi að greiða stefnanda þóknun að fjárhæð. 3.500.000 krónur. Þessu til
viðbótar samþykkti stefndi svo að skoða tilboð frá stefnanda í aðrar fasteignir
stefnda með opnum huga. Samskipti aðila í gegnum smáskilaboð 23. maí 2017 renna
stoðum undir þetta. Í skilaboðum sem stefnandi sendi þáverandi framkvæmdastjóra
þann dag upplýsti hann að hann væri kominn til Keflavíkur „upp á að kvitta á
samkomulagið.“ Þá tilkynnti hann að það þyrfti „að vitna til í samkomulaginu um
að Airport gangi inn í fyrri viðskipti milli okkar.“ Með þessu vísaði stefnandi
til Vallarvina, sem gangi einnig undir nafninu Airport Associates.
Efni
samkomulagsins hafi enn fremur verið staðfest í pósti fasteignasala til stefnda
23. maí 2017. Þar hafi einnig verið upplýst að Vallarvinir væru reiðubúnir að
skrifa undir kaupsamning um fasteignina þann sama dag, og fylgdu drög að þeim
samningi í tölvupóstinum. Stefndi byggir á því að það sé ekki tilviljun að
tölvupóstur fasteignasalans og drög að kaupsamningi við Vallarvini hafi borist
sama dag og skilaboð hafi gengið milli aðila um undirritun á samkomulag.
Stefndi
byggir á að það sé í engu samræmi við málatilbúnað stefnanda að hann hafi verið
fús til þess að þiggja þóknun fyrir milligöngu um sölu fasteignarinnar til
þriðja manns. Vandséð sé hvers vegna stefnandi hafi gengið til samninga við
stefnda um slíkt fyrirkomulag hafi hann raunverulega staðið í þeirri trú að
kauptilboð sitt væri enn í gildi.
Með
hliðsjón af framangreindu byggir stefndi á að stefnandi hafi því ekki verið í
góðri trú þegar hann óskaði eftir því við sama fasteignasala að hann boðaði til
kaupsamnings- og afsalsgerðar 1. júní 2017. Ljóst sé að með því að hafa
milligöngu um samningaviðræður milli stefnda og Vallarvina um sölu
fasteignarinnar hafi stefnandi viðurkennt að kauptilboð hans væri ekki lengur í
gildi, og enn fremur að kauptilboð milli hans og Vallarvina væri ekki gilt.
Dómkrafa stefnanda standist því ekki skoðun.
Stefndi
byggir á því að meint tjón stefnanda geti ekki talist sennileg afleiðing af
lögmætri riftun stefnda á kauptilboði stefnanda. Eins og áður segi byggir
stefndi á því að stefnanda hafi mátt vera og raunar verið ljóst að kauptilboði
um fasteignina milli stefnanda og stefnda hafi verið rift þegar stefnandi gekk
til samninga við þriðja aðila um kaup á fasteigninni 15. maí 2017. Stefnandi
hafi því augljóslega enga heimild haft til þess að framselja eignina til þriðja
aðila, svo sem hann reisir fjártjón sitt á. Í samkomulagi aðila 23. maí 2017
felist viðurkenning stefnanda á þessu.
Stefndi
byggir enn fremur á því að hvað sem gildi kauptilboðsins líði hafi stefnanda
mátt vera ljóst að takmarkanir voru á heimild til framsals á fasteigninni.
Þannig hafi legið fyrir, með vísan til kaupsamnings milli stefnda og seljenda
fasteignanna að Ásbrú þann 16. des. 2016, að óheimilt var að selja
kaupsamningsrétt samkvæmt fasteigninni nema með samþykki seljanda hennar.
Kaupsamningurinn sé opinbert skjal og verði að ganga út frá því að stefnandi og
fasteignasali hafi kynnt sér efni hans og verið ljóst að ákvörðun um sölu væri
háð slíku samþykki. Þar sem stefndi hafi rift kauptilboði stefnanda hafi hann
ekki séð ástæðu til þess að óska eftir samþykki seljanda. Það lá því ekki fyrir
þegar stefnandi bauð eignina þriðja manni til kaups.
Stefndi
byggir á því að allar forsendur fyrir kauptilboði milli stefnanda og Vallarvina
15. maí 2017 hafi þannig frá upphafi verið brostnar. Bótaréttur stefnanda verði
þess vegna ekki reistur á því samkomulagi.
Stefndi
mótmælir þannig öllum málatilbúnaði stefnanda og öllum kröfum sem hann gerir í
málinu og krefst sýknu.
Stefndi
gerir kröfu um að réttarárhrif áritunar héraðsdóms á stefnu málsins 7. ágúst
sl. verði felld niður að öllu leyti, sbr. 139. gr. laga um meðferð einkamála
nr. 91/1991. Stefndi byggir á því að óheft áhrif áritunarinnar varði
mikilsverða hagsmuni stefnda, enda kunni stefnandi að leita eftir aðför á
grundvelli hennar áður en dómur fellur í málinu að nýju, með tilheyrandi tjóni
og kostnaði. Stefndi byggir á því að málstaður hans sé réttmætur og að líkindi
séu til þess að fyrri úrlausn breytist þegar efnisdómur verður felldur á málið
eftir endurupptöku. Byggir stefndi á því að í þessu samhengi verði að meta vafa
stefnda í hag.
Stefndi
mótmælir upphafsdegi vaxta. Bótakrafan byggist á meintu samkomulagi við þriðja
mann, sbr. c-lið 2. mgr. 59. gr. laga nr. 40/2002. Með hliðsjón af því byggir
stefndi á því að vart verði litið svo á að bótaskylt atvik hafi átt sér stað 1.
júní 2017, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, enda
hafi stefndi takmarkaðar upplýsingar haft um hvernig meintu samningssambandi
var háttað. Stefndi mótmælir upphafsdegi dráttarvaxta. Með hliðsjón af 6. gr.
laga nr. 38/2001 geti skaðabótakrafa ekki borið dráttarvexti fyrr en að liðnum
mánuði frá því að kröfuhafi lagði sannarlega fram upplýsingar sem þörf var á
til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta.
Stefndi
vísar til almennra reglna samninga- og kröfuréttar, ákvæða laga nr. 7/1936 um
samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, einkum II. kafla, ákvæða laga nr.
40/2002 um fasteignakaup og laga um einkahlutafélög nr. 138/1994, einkum 2.
mgr. 44. gr. Um málskostnað vísast til ákvæða XXI. kafla laga nr. 91/1991, sbr.
einkum 129. og 130. gr. laganna.
Kröfu
sína um niðurfellingu réttaráhrifa styður stefndi við ákvæði 2. mgr. 139. gr.
laga nr. 91/1991.
Forsendur
og niðurstaða.
Óumdeilt
er að stefnandi gerði bindandi kauptilboð í fasteign í eigu stefnda að
Valhallarbraut 738, Ásbrú, Reykjanesbæ, þann 31. mars 2017. Undirritaði Sverrir
Sverrisson kauptilboðið fyrir hönd tilboðsgjafa og stefnanda þessa máls. Átti
tilboðið að gilda til 10. apríl s.á. Í síðasta lagi þann 6. apríl s.á.
undirritaði Óli Þór Barðdal, framkvæmdastjóri stefnda, kauptilboðið fyrir hönd
seljanda samkvæmt umboði stjórnar stefnda.
Við gerð kauptilboðsins, sem
hljóðaði upp á 147.000.000 króna, setti tilboðsgjafi þann fyrirvara að hann
hefði 30 daga til að skila inn staðfestingu á lánafyrirgreiðslu. Lægi
staðfesting ekki fyrir innan þess tíma hafði seljandi heimild til að rifta
tilboðinu einhliða án sérstakrar tilkynningar. Samkvæmt þessu byrjaði
tímafrestur tilboðsgjafa að líða við undirritun og samþykki tilboðshafa þann 6.
apríl 2017 og var síðasti dagur 30 daga frestsins því þann 6. maí. Innan þess
tíma hafði stefnandi samband við fasteignasalann og óskað eftir viku
viðbótarfresti til að ganga frá fjármögnun. Samkvæmt framburði vitnisins
Gunnars S. Jónssonar fasteignasala fyrir dómi hafði hann strax samband við framkvæmdastjóra
stefnda, Óla Barðdal, sem kom fram fyrir hönd félagsins vegna sölu
fasteignarinnar, og bar erindi stefnanda upp sem vitnið Óli Þór kvaðst fyrir
dóminum hafa samþykkt. Taldi vitnið Óli sig hafa haft umboð til að samþykkja
slíkan frest sem hafi verið óverulegur í þessum fasteignaviðskiptum. Sá frestur
rann út 13. maí 2017. Með tölvupósti þann 8. maí 2017 til fasteignasalans féll
stefnandi frá fyrirvara sínum í kauptilboðinu og kvaðst vitnið Gunnar hafa
komið þeim upplýsingum strax til Óla Barðdal. Samkvæmt gögnum málsins gerðu
Vallarvinir ehf. tilboð í sömu fasteign að fjárhæð 166.000.000 króna þann 15.
maí 2017. Greiddu þeir hluta kaupverðsins, 142.000.000 króna, inn á
fjárvörslureikning fasteignasölunnar og kom fram fyrir dómi að sú fjárhæð hafi
verið stefnanda til reiðu til að efna kaupsamning sinn við stefnda. Í kjölfarið
gerði stefnandi ráð fyrir að skjalagerð færi í hönd sem byggð væri á samþykktu
kauptilboði milli stefnanda og stefnda.
Vitnið
Garðar Valdimarsson, fyrirsvarsmaður stefnda, kom fyrir dóminn og kvað stefnda
hafa áttað sig á því rétt áður en þrjátíu daga fresturinn rann út að þeir hafi
gert mistök og þeir yrðu að selja fasteignina hærra verði til að fá samþykki
Kadeco, sem var þeirra viðsemjandi, fyrir sölunni. Hafi Garðar fengið það
hlutverk að tilkynna Sverri að tilboðið væri of lágt til að það fengist
samþykkt af Kadeco og að stefndi þyrfti að fá hærra verð fyrir eignina. Mundi
vitnið Garðar ekki hvort Sverrir hafi hringt í sig þennan morgun eða vitnið
hafi hringt í Sverri en Sverrir hafi þá sagst þurfa lengri frest því að
fjármögnun væri á lokametrunum. Garðar hafi hins vegar verið með það erindi til
stefnanda að hækka kaupverðið svo að það fengist samþykkt af Kadeco en
stefnandi þyrfti ekki að greiða mismuninn. Kvaðst Garðar hafa viljað selja
stefnanda eignina á upphaflega tilboðsverðinu og því lagt til að gerður yrði
nýr kaupsamningur þar sem söluverðið yrði hærra en stefnandi þyrfti ekki að
greiða mismuninn. Úr því hafi ekki orðið. Sverrir hafi einnig sagt sér í þessu
símtali að hann væri kominn með kaupanda að fasteigninni á hærra verði frá
Vallarvinum. Garðar hafi haft þá vitneskju þegar ákvörðun var tekin um að rifta
samningnum. Hvað Garðar enga stemmningu hins vegar hafa verið hjá stjórninni
til að framlengja frest til fjármögnunar fyrir stefnanda. Ákvörðun hafi verið
tekin á stjórnarfundi á föstudegi um að rifta tilboðinu. Stefnanda hafi hins
vegar ekki verið tilkynnt það sérstaklega. Vitnið Óli Barðdal bar fyrir dóminum
að hann hafi setið alla stjórnarfundi stefnda en riftunin hafi ekki verið rædd
á slíkum fundi.
Garðar
kvað Óla Barðdal hafa, sem framkvæmdastjóra og prókúruhafa, haft heimildir til
alls sem sneri að daglegum rekstri félagsins en ekki getað selt fasteignir nema
með samþykki stjórnar. Hann hafi haft umboð til að gefa gjaldfrest á
leigugreiðslum og eins hafi hann haft umboð til að veita stutta gjaldfresti á
samningsgreiðslum.
Aðspurður
kvaðst Garðar ekki kannast við það að stefndi hafi haft beint samband við
Vallarvini ehf. án vitundar stefnanda í þeim tilgangi að fá þá sem kaupanda að
fasteigninni. Samkvæmt framburði vitnisins Sigþórs Skúlasonar, fyrirsvarsmanns
Vallarvina ehf., fyrir dóminum hringdi Árni Geir, stjórnarmaður stefnda, beint
í vitnið í þeim tilgangi að fá Vallarvini að kauptilboðinu í stað stefnanda.
Kvaðst Sigþór hafa sagt það koma til greina með samþykki allra aðila, þar með
stefnanda. Frekar hafi hins vegar ekki orðið af þeim samskiptum. Þegar ákvörðun
var tekin um riftun kvaðst Garðar hafa vitað af tilboði Vallarvina í
fasteignina. Kvaðst Garðar hafa heyrt af kaupsamningi milli Vallarvina ehf. og
stefnda sem fasteignasalan útbjó en af honum hafi ekki orðið.
Fyrir
dóminum báru stjórnarmenn stefnda að þeim hafi orðið ljóst að þeir hafi selt
eignina of lágu verði. Framburður þeirra fyrir dóminum var nokkuð misvísandi um
framhald viðræðna við stefnanda. Vitnið Óli Þór kvaðst hafa setið alla
stjórnarfundi en hann hefði aldrei heyrt riftun á kaupsamningi aðila nefnda.
Garðar Vilhjálmsson, stjórnarmaður stefnda, Árni Geir Magnússon stjórnarformaður
og Andri V. Sigurðsson stjórnarmaður, sem allir komu fyrir dóminn, kváðu að
ákvörðun um riftun hafi verið tekin á stjórnarfundi þegar 30 daga fresturinn
hafi verið að renna út. Um það hafi þó ekki verið bókað, alla vega mundu þeir
ekki til þess. Þá kváðust þeir ekki hafa heyrt um að vitnið Óli Þór hafi veitt
stefnanda viðbótarfrest, sem stangast á við framburð Óla Barðdal sem kvaðst
hafa upplýst stjórnarmenn um viðbótarfrestinn og framburð Garðars um að ekki
hafi verið stemmning hjá stjórnarmönnum fyrir því að veita viðbótarfrestinn.
Auk þess kvað Garðar fyrir dóminum að Sverrir hefði hringt í sig áður en 30
daga fresturinn rann út og óskaði eftir viðbótarfresti.
Vitnið
Árni Geir Magnússon kvað ákvörðun um riftun hafa verið tekna af hálfu stjórnar
um mánaðamótin apríl/maí. Minnti vitnið að það hafi verið á föstudegi, 5. maí.
Tilboðið hafi verið of lágt auk þess að þeim hafi gengið betur að fjármagna
sig. Fyrst og fremst hafi tilboðið verið of lágt. Þá hafi verið skilyrði af
hálfu viðsemjenda þeirra, Kadeco, að þeir mættu ekki selja eignir á verði undir
fasteignamati. Vitnið kvaðst ekki hafa vitað um munnlega framlengingu á fresti
til stefnanda. Þá kvaðst vitnið fyrst hafa fengið vitneskju um að stefnandi
hafi selt eignina til Vallarvina í lok maí. Þá kvaðst vitnið hafa hringt í
Sigþór, fyrirsvarsmann Vallarvina, í lok maí og spurt hvort þeir ættu ekki að
hittast á fundi. Af því hafi ekki orðið. Þá kvaðst vitnið muna til þess að
eitthvert samkomulag hafi legið í loftinu og að stefnandi hafi átt að fá
einhverja greiðslu, 3-4 milljónir. Skildist vitninu að greiðsla til stefnanda
hafi átt að vera einhvers konar sölulaun fyrir að koma með Vallarvini sem
kaupanda í stað stefnanda. Vitnið kvaðst ekki vita til þess að önnur viðskipti
milli stefnanda og stefnda hafi verið rædd. Kvaðst vitnið ekki kannast við það
að framlenging á frestinum hafi verið rædd á stjórnarfundi heldur hafi verið
tekin ákvörðun um að semja ekki við stefnanda. Vafðist vitninu tunga um tönn
varðandi framlengingarfrestinn þegar spurt var nánar um efni stjórnarfundarins.
Þá reiknaði vitnið með að einhver hafi upplýst fasteignasöluna um riftunina en
vitnið vissi ekki hver hafi átt að gera það.
Vitnið
Andri V. Sigurðsson, stjórnarmaður í stefnda, kvað fyrir dóminum umþrætta sölu
hafa verið fyrstu sölu félagsins á þeim tíma. Í lok apríl hafi stjórnarmönnum
orðið ljóst að kaupverðið hafi verið of lágt og stjórnin tekið þá ákvörðun í
lok apríl að rifta kauptilboðinu. Mönnum hafi ekki verið alveg ljóst hvað menn
voru með í höndunum en menn hafi talið að salan væri félaginu til hagsbóta.
Þegar hafi liðið á apríl hafi mönnum orðið ljóst að kaupverðið hafi verið of
lágt eða ekki nægjanlega hagstætt miðað við framtíð félagsins. Þörf fyrir
skammtímafjármögnun hafi breyst til batnaðar þegar leið á apríl og því ekki
verið þörf fyrir skammtímafjármagn lengur. Deildar meiningar hafi verið innan
stjórnar um hvort klára ætti þessi viðskipti. Hafi vitninu verið falið að fá
samþykki Kadeco ef klára ætti viðskiptin við stefnanda. Taldi vitnið að ekki
hafi verið útilokað að það samþykki hefði fengist ef á hefði reynt. Þeim hafi
liðið betur með þá ákvörðun að rifta sölunni heldur en að halda sig við
einhverjar framlengingar eða eitthvað slíkt. Þeim hafi orðið ljóst að verðið
væri of lágt miðað við þeirra útreikninga og ákvörðun hafi síðan verið tekin,
og taldi vitnið það hafa verið 4. maí 2017, um að rifta sölunni. Þá kvaðst
vitnið hafa vitað af því að greiða átti stefnanda þóknun fyrir að koma sölu á á
milli Vallarvina og stefnda. Taldi vitnið að Garðar hafi tilkynnt stefnanda um
riftunina í síma. Hafi ekkert réttarsamband verið á milli stefnanda og stefnda
eftir að riftunin átti sér stað. Þrjár og hálfa milljón hafi átt að greiða
stefnanda fyrir að hafa komið sölu á milli Vallarvina og stefnda. Það hafi
verið í lok maí. Kvað vitnið Garðar hafa tilkynnt þeim um að hann hafi tilkynnt
stefnanda um að tilboðinu hafi verið rift.
Vitnið
Óli Þór Barðdal kom fyrir dóminn og kvaðst hafa starfað sem framkvæmdastjóri
stefnda á árinu 2017. Kvað vitnið stjórnarsamþykkt hafa legið fyrir um sölu á
fasteigninni Valhallarbraut 738 í Ásbrú. Hann hafi ekki verið með skriflegt
umboð þegar hann samþykkti kauptilboð stefnanda á fasteignasölunni. Þá
staðfesti vitnið að stefnandi eða Gunnar hjá Mikluborg hafi hringt í sig og
beðið um viðbótarfrest í viku til að klára fjármögnun og kvaðst vitnið hafa
talið það lítið vandamál og samþykkt það. Taldi vitnið sig sem framkvæmdastjóri
félagsins hafa haft umboð til að veita slíkan frest. Fresturinn hafi ekki verið
ræddur í stjórn félagsins en vitnið hafi upplýst einhverja stjórnarmenn um
frestinn fyrir stjórnarfundinn. Kvað vitnið stjórnina í lokin ekki hafa verið
sátta við vitnið og í framhaldi hafi hann bakkað út úr þessum samningaviðræðum
en vitnið hafi hætt störfum 1. júní 2017. Vitnið man ekki til þess að hafa
svarað tölvupósti á þeim tíma frá stefnanda. Umræður hafi verið í gangi um að
Vallarvinir gengju inn í viðskiptin milli aðila auk þess sem önnur viðskipti
milli stefnanda og stefnda hafi verið skoðuð. Af slíku hafi ekki orðið. Taldi
vitnið að stefndi hafi gengið til samninga við Vallarvini varðandi söluna á
Valhallarbraut og þeir skrifað undir samninga þar um.
Vitnið
Gunnar S. Jónsson, fasteignasali hjá fasteignasölunni Mikluborg, kom fyrir
dóminn. Kvaðst vitnið minna að kauptilboðið í Valhallarbraut hafi verið
undirritað fyrir lok samþykkisfrests. Vitnið kvaðst ekki hafa fengið vitneskju
um riftun stefnda á kauptilboðinu og enga tilkynningu fengið um það á sínum
tíma. Sverrir hafi haft samband við sig og óskað eftir viðbótarfresti sem
vitnið Óli hafi samþykkt við vitnið í símtalinu. Skriflegt umboð hafi ekki
legið fyrir við undirritun kauptilboðsins. Vitnið hafi talið að Óli hafi haft
umboð stjórnar í skjóli stöðu sinnar sem framkvæmdastjóri og prókúruhafi til að
framlengja frest um viku til fjármögnunar fyrir stefnanda. Kvaðst vitnið hafa
verið í sambandi við Óla varðandi öll samskipti við stefnda vegna
fasteignaviðskiptanna enda hafi hann komið fram fyrir hönd stjórnar félagsins
og sem starfandi framkvæmdastjóri. Þegar gögn lágu fyrir hafi aðilar verið
boðaðir til kaupsamningsgerðar. Kvaðst vitnið hafa þekkt til Óla og tekið orð
hans gild varðandi frestinn. Vitnið hafi ekki verið í samskiptum við neina
stjórnarmenn stefnda varðandi þessi viðskipti og ekki fengið neina vitneskju um
að kauptilboðinu hafi verið rift. Vitnið kvað málin oftlega ganga þannig fyrir
sig að kaupendur falli frá fyrirvörum og síðar komi lánaskjöl eða greiðslur
vegna framhaldandi skjalagerðar. Vitnið Jason Ólafsson hafi síðan tekið við
málinu hjá fasteignasölunni.
Vitnið
Jason kvaðst fyrir dóminum hafa tekið við viðskiptum aðila þegar átti að fara
að ganga frá skjalagerð, kaupsamningi og afsali. Vitnið hafi ekki komið að
málinu á fyrri stigum. Minnti vitnið að það hafi fengið vitneskju um nýtt
samkomulag frá Sverri en það gæti einnig hafa verið frá starfsmönnum
Vallarvina. Því hafi nýtt kauptilboð verið útbúið á milli Vallarvina og
Ásbrúar. Vitnið hafi verið í sambandi við stjórnarmenn allra aðila og hafi
vitnið talið að þetta ætti að vera lausn á einhverju öðru samkomulagi. Vitnið
hafi hins vegar engar forsendur eða vitneskju haft um hvað þar lá að baki.
Vitnið staðfesti að 142.000.000 króna og síðar 5.000.000 króna hafi verið
lagðar inn á fjárvörslureikning fasteignasölunnar frá Vallarvinum sem hafi átt
að nota til greiðslu á milli stefnanda og stefnda við gerð kaupsamnings þeirra
í milli. Eftir þá greiðslu hafi líklega orðið eitthvert samkomulag milli aðila
sem vitninu var ekki kunnugt um. Vitnið kvaðst, á þessum tíma, ekki hafa haft
upplýsingar um að stefndu hefðu verið búnir að rifta kaupsamningi aðila. Þá
minntist vitnið þess ekki að hafa fengið upplýsingar um það frá stefnda að þeir
væru að selja eignina á undirverði eða að tilboðið væri fallið niður.
Vitnið
Sigþór Kristinn Skúlason, fyrirsvarsmaður Vallarvina ehf. kom fyrir dóminn og
lýsti því að Vallarvinir hafi gert kauptilboð í Valhallarbraut og hafi seljandi
verið Sverrir Sverrisson hf. Hafi sá fyrirvari verið í tilboðinu að stefnandi
myndi ganga frá kaupsamningi við stefnda innan fjögurra vikna frá undirritun
kauptilboðsins sem var 15. maí 2017. Eftir að þeir hafi verið búnir að
undirrita tilboðið hafi einhver farsi farið í gang milli stefnda og stefnanda
og þann 19. maí 2017 hafi Árni Geir haft samband við sig símleiðis og spurt
hvort í lagi væri að gera samning sem átti að vera á milli stefnanda og
stefnda, beint á milli Vallarvina og Ásbrúar. Kvaðst vitnið ekki gera
athugasemdir við það ef það væri í sátt við alla aðila, m.a. Sverri. Hvað
gerist í framhaldi á milli hinna aðilanna hafi vitnið ekki upplýsingar um nema
að samningar hafi ekki verið kláraðir og því hafi Vallarvinir ekki getað gengið
frá samningi við stefnanda. Taldi vitnið að samskipti stefnanda og vitnisins
hafi hafist einhverjum vikum áður en það gerði tilboð í Valhallarbrautina þann
15. maí 2017.
Stefndu
byggja sýknukröfu sína á því að ekkert umboð hafi legið fyrir til handa Óla Þór
Barðdal til að veita umþrættan viðbótarfrest. Það umboð sem stjórnin veitti
honum til að undirrita kauptilboðið hafi ekki náð til frekari samningsgerðar.
Samkvæmt gögnum málsins gerðu
stefndi og Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ef. kaupsamning þann 20. desember
2016 um fasteignir að heildarfjárhæð rúmlega fimm milljarðar króna. Fyrir
dóminum kváðu stjórnarmenn stefnda að rekstur félagsins fælist í því að kaupa
fasteignir og ýmist endurselja þær með hagnaði eða leigja. Telur dómurinn sölu
einnar fasteignar að fjárhæð 147.000.000 króna vera lítinn hluta þeirrar
fjárfestingar. Tilgangur stofnunar stefnda samkvæmt samþykktum félagsins er
fjárfesting í fasteignum, fasteignaumsýsla og skyldur rekstur.
Í stjórn stefnda sátu fimm
stjórnarmenn og þar af þrír lögmenn auk framkvæmdastjóra sem hafði jafnframt
prókúruumboð. Hafnar dómurinn því að þeir geti borið fyrir sig þekkingarleysi
eða vankunnáttu í ljósi þess að þetta hafi verið fyrsta sala félagsins eins og
reynt var að gera fyrir dómi.
Þá fer frásögn stjórnarmanna stefnda
um að stefnandi hafi átt að fá greiddar 3.500.000 krónur sem umboðslaun fyrir
að koma með annan kaupanda að fasteigninni, þ.e. Vallarvini, í bága við önnur
gögn en eins og fram kom hjá vitninu Sigþór höfðu Vallarvinir gert bindandi
kauptilboð í Valhallarbraut og var seljandi eignarinnar stefnandi þessa máls.
Kvaðst vitnið ekki hafa staðið til að ganga til samninga við stefnda sem nýr
kaupandi að eigninni nema þá að allir aðilar sem tengdust málinu væru sammála
því. Vitnið hafi ekki heyrt í stefnda eftir það símtal og hafi fyrirvari í
tilboði Vallarvina um fjögurra vikna frest til að ganga frá fjármögnun því
runnið út.
Samkvæmt
44.
gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög fer félagsstjórn með
málefni félagsins og skal annast um að skipulag
félags og að starfsemi sé jafnan í réttu
og góðu horfi. Sé framkvæmdastjóri ráðinn fara félagsstjórn og framkvæmdastjóri
með stjórn félagsins, sbr. 2. mgr. 41.
gr. Samkvæmt 2. mgr. annast framkvæmdastjóri
daglegan rekstur félagsins og skal í þeim efnum fara eftir þeirri stefnu og
fyrirmælum sem félagsstjórn hefur gefið. Hinn daglegi rekstur tekur ekki til
ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikils háttar. Slíkar ráðstafanir getur
framkvæmdastjóri aðeins gert samkvæmt sérstakri heimild frá félagsstjórn nema
ekki sé unnt að bíða ákvarðana félagsstjórnar án verulegs óhagræðis fyrir
starfsemi félagsins. Í slíkum tilvikum skal félagsstjórn tafarlaust tilkynnt um
ráðstöfunina.
Í 25. gr. laga nr. 44/1903 um verslunarskrár, firmu og
prókúruumboð segir að ef firmahafi samkvæmt lögum þessum hefir gefið einhverjum
umboð, sem með berum orðum er kallað prókúra, eða hefir á annan hátt lýst því
yfir, þá hefir umboðsmaðurinn vald til fyrir umbjóðanda að annast allt það, er
snertir rekstur atvinnu hans, og rita firmað. Þó má prókúruhafi eigi selja né
veðsetja fasteignir umbjóðanda síns, nema hann hafi til þess beint umboð.
Bæði vitnin Gunnar fasteignasali og Óli Þór Barðdal,
framkvæmdastjóri stefnda og prókúruhafi samkvæmt umboði, staðfestu fyrir
dóminum að Sverrir Sverrisson hafi óskað eftir viku viðbótarfresti til að ljúka
fjármögnun og hafi hann gert það áður en þrjátíu daga fresturinn var liðinn.
Staðfesti Garðar Vilhjálmsson, fyrirsvarsmaður stefnda, það einnig að Sverrir
hafi rætt það við sig í lok þrjátíu daga frestsins. Telur dómurinn því
nægjanlega sýnt fram á að fyrirsvarsmaður stefnanda óskaði eftir viku
viðbótarfresti áður en fyrri frestur rann út. Bæði ofangreind vitni báru einnig
fyrir dóminum að þau hafi verið í góðri trú um að framkvæmdastjóri stefnda hafi
haft umboð til að veita umbeðinn frest þar sem hann hafði þá þegar umboð
stjórnar stefnda til að skrifa undir kauptilboð vegna sölu fasteignarinnar að
Valhallarbraut nr. 738 við Ásbrú í Reykjanesbæ. Þrátt fyrir framburð Garðars um
að ekki hafi verið stemmning í stjórn stefnda fyrir því að veita umræddan
viðbótarfrest, og með það að leiðarljósi að framkvæmdastjóri stefnda hafði
veitt stjórnarmönnum upplýsingar um veittan frest, telur dómurinn ósannað að
frestsamþykkið hafi verið afturkallað þar sem stefndi gerði engar tilraunir til
að draga það samþykki til baka eða tilkynna stefnanda eða fasteignasalanum um
það viðhorf stjórnarmanna. Telur dómurinn ljóst að stjórnarmenn hafi verið upplýstir
um veittan frest til handa stefnanda á þeim fundi sem ákvörðun um meinta riftun
er sögð hafa verið tekin. Ekkert í gögnum málsins bendir til að stefndi hafi
nokkurn tímann fyrir lok maí 2017 upplýst stefnanda eða fasteignasalann sem sá
um söluna um að stefndi hafi afturkallað umboð framkvæmdastjórans eða rift
kauptilboðinu.
Þá telur dómurinn að með því að samþykkja viðbótarfrestinn
hafi framkvæmdastjórinn verið innan þess umboðs sem stjórnin veitti honum til
að undirrita kauptilboð og selja fasteignina með bindandi hætti fyrir stefnda.
Var sá viðbótarfrestur sem framkvæmdastjórinn veitti liður í að láta söluna
ganga upp, sá frestur var ekki óvenjulegur í fasteignaviðskiptum né mikils
háttar ákvörðun. Þá hefur sá frestur sem stefnanda var veittur engin áhrif á
starfsemi stefnda miðað við umfang félagsins sem nýverið hafði keypt fasteignir
af ýmsum toga á yfir fimm milljarða króna, tilgang félagsins og efnahagsstöðu.
Breytir engu þar um þótt stefnda hafi fyrst orðið ljóst þegar þrjátíu daga
fresturinn var að líða undir lok að stefndi hafi hlaupið á sig með því að
samþykkja of lágt kauptilboð stefnanda sem hann gerði 31. mars 2017. Stefnandi
féll frá þeim fyrirvara varðandi fjármögnun innan tilskilins frests og voru
aðilar því bundnir af kauptilboðinu.
Í beinu framhaldi eftir að stefnandi féll frá fyrirvara sínum
fór fasteignasalinn að kanna hvort aðilar væru tilbúnir í kaupsamningsgerð.
Þann 15. maí 2017 voru 142.000.000 króna til reiðu vegna þessara kaupa á
fjárvörslureikningi fasteignasölunnar. Því til viðbótar lagði stefnandi
5.000.000 króna inn á vörslureikning umfram skyldu þann 1. júní s.á. Þann 24.
maí 2017 óskað stefnandi eftir því við
stefnda að ganga frá kaupsamningi vegna Valhallarbrautar. Þann 29. maí s.á.
krafðist stefnandi þess við stefnda að gengið yrði frá kaupsamningi sem fyrst.
Þann 1. júní krafðist lögmaður stefnanda þess við stefnda að ganga til
samningagerðar. Þann 1. júní 2017 krafðist lögmaður stefnanda þess að stefndi
gengi til samninga við stefnanda. Þann 29. júní 2017 rakti lögmaður stefnanda
þær samningaviðræður sem höfðu verið á milli stefnanda og kaupanda til að leysa
málið og með því myndi stefnandi gagna út úr kaupunum á Valhallarbraut en úr
því samkomulagi varð ekki. Þann 17. júlí 2017 svaraði Andri Vilhjálmur
Sigurðsson bréfi lögmanns stefnanda og kvaðst ætla að láta skoða málið. Af
gögnum málsins má ráða að aðilar hafi reynt að finna aðra leið með makaskiptum
og milligreiðslu til stefnanda, samþykkti stefnandi að ganga frá kauptilboði
sínu í Valhallarbraut. Kemur fram í ódagsettu bréfi frá stjórn stefnda til
stefnanda að samkomulag þeirra sem snúist um sölu annarra eigna stefnda til
stefnanda, auk 3.500.000 króna greiðslu sem bætur vegna tapaðs ávinnings vegna
Valhallabrautar, sé hafnað af stefnda.
Í kröfurétti almennt er viðsemjanda heimilt að rifta samningi
verði vanefndir af hálfu gagnaðila að vissum skilyrðum uppfylltum. Almennt er
svo litið á að sá sem riftir samningi verði að tilkynna gagnaðila um riftunina
og felst í henni ákvöð og bindur móttakandann. Í máli þessu hefur verið sýnt
fram á að stefnandi sýndi af sér vilja til að efna sinn hluta samningsins og
greiðsluvilja. Hann var í góðri trú um að hann hefði fengið viðbótarfrest til
að klára fjármögnun og svo var einnig um fasteignasalann og framkvæmdastjóra
stefnda. Í ljósi þessa, þrátt fyrir orðalag í kaupsamningi, að seljanda væri
heimilt að rifta tilboðinu einhliða án sérstakrar tilkynningar, hefði stefndi
átt að tilkynna, hvort sem var fasteignasalanum eða stefnanda, um hina meintu
riftun ef hún hefur átt að hafa réttaráhrif og gilda gagnvart stefnanda. Þá
tilkynnti stefndi stefnanda ekki um að framkvæmdastjórinn hafi ekki haft umboð
til að veita umþrættan vikufrest. Ber stefndi hallan af því.
Telur dómurinn að framkvæmdastjóri stefnda hafi ekki farið út
fyrir umboð sitt, sem hann hafði frá stjórn stefnda, til að undirrita
kauptilboð í fasteignina, þegar hann veitti munnlegt umboð til framlengingar á
fresti til að fjármagna kaupin enda hafi hvorki stefnandi né fasteignasalinn
mátt vera í þeirri trú að um heimildarskort framkvæmdastjórans væri að ræða.
Þegar horft er til framburðar Garðars um að það hafi ekki verið stemmning á
stjórnarfundi fyrir því að framlengja frestinn, sem þegar hafði verið veittur,
bar þeim að tilkynna stefnanda eða fasteignasölunni um þá ákvörðun sína. Svo
var ekki gert og með því tómlæti verður að líta svo á að stefndi hafi þegar af
þeirri ástæðu verið bundinn af viðbótarfrestinum. Rann sá frestur út 12. maí
2017 í síðasta lagi. Þann 8. maí 2017 féll stefnandi sannanlega frá fyrirvara
sínum í kauptilboðinu. Var það innan þess frests sem hann hafði. Telur dómurinn
með vísan til alls þess sem að framan er rakið að stefndi hafi verið bundinn af
samþykktu tilboði stefnanda í fasteignina Valhallarbraut 738 í Ásbrú í
Reykjanesbæ þann 8. maí 2017 er stefnandi féll sannanlega frá fyrirvara sínum
um fjármögnun. Voru báðir aðilar bundnir kauptilboðinu frá þeim tíma.
Óumdeilt er í málinu að ekki varð af kaupsamningi milli
stefnanda og stefnda vegna kauptilboðs stefnanda á Valhallarbraut 738 við
Ásbrú. Þá er óumdeilt að Vallarvinir ehf. gerðu bindandi kauptilboð í
fasteignina og var stefnandi seljandi eignarinnar samkvæmt bindandi kauptilboði
milli stefnanda og stefnda. Telur dómurinn sannað að með því að ganga ekki til
samninga við stefnanda í framhaldi af undirritun kauptilboðs í fasteignina
Valhallarbraut 738, Ásbrú, auk niðurfellingar fyrirvarans um fjármögnun, hafi
stefndi orðið skaðabótaskyldur samkvæmt 34. gr. laga nr. 40/2002 um
fasteignakaup.
Stefnandi
hefur sýnt fram á að tjón hans, vegna vanefnda stefnda, er að upphæð 19.000.000
króna eða stefnufjárhæð. Var hann kominn með bindandi undirritað kauptilboð í
fasteignina frá Vallarvinum ehf. að fjárhæð 166.000.000 króna og höfðu
Vallarvinir greitt inn á vörslureikning hjá fasteignasalanum stærstan hluta
kaupverðsins sem var stefnanda til afnota vegna kaupa hans á fasteigninni af
stefnda. Ekki er ágreiningur í málinu um stefnufjárhæðina. Samkvæmt c-lið 2.
mgr. 59. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup segir að óbeint tjón sé tjón sem
rekja megi til missis hagnaðar þegar samningur við þriðja mann fellur brott eða
verður ekki réttilega efndur. Svo háttar til í máli þessu.
Eru
kröfur stefnanda teknar til greina eins og
segir í dómsorði. Með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefndi dæmdur
til að greiða stefnanda 850.000 krónur í málskostnað.
Krafa stefnda um að réttaráhrif
áritunar á stefnu málsins þann 7. ágúst 2018 falli niður að öllu leyti með
vísan til 1. mgr. 139. gr. laga nr. 91/1991 var ekki tekin til úrskurðar undir
rekstri málsins.
Stefndi mótmælir vaxtakröfu
stefnanda. Samkvæmt gögnum málsins varð stefnandi fyrst fyrir sannanlegu tjóni
þegar fjögurra vikna fyrirvari í kauptilboði Vallarvina ehf. rann út vegna
vanefnda stefnda. Verða vextir því fyrst dæmdir frá og með 15. júní 2017, sbr. 9.
gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu eins og segir í dómsorði.
Ástríður
Grímsdóttir kveður upp dóm þennan.
Dómsorð.
Stefndi, Ásbrú ehf., greiði stefnanda,
Sverri Sverrissyni hf., 19.000.000 króna auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga
nr. 38/2001 frá 15. júní 2017 til 27. júní 2018 og dráttarvexti samkvæmt 1.
mgr. 6. gr. sömu laganna frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 850.000
krónur í málskostnað.