• Lykilorð:
  • Játningarmál
  • Umferðarlagabrot
  • Ökuréttarsvipting

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness þriðjudaginn 22. janúar 2019 í máli nr. S-517/2018:

 

Ákæruvaldið

(Elín Hrafnsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Steinari Andra Hjálmarssyni

 

            Mál þetta, sem var tekið til dóms 9. janúar 2019, höfðaði lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu með ákæru 9. október 2018 á hendur Steinari Andra Hjálmarssyni, kt. 000000-0000[...];

,,fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa laugardaginn 7. október 2017 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist kókaín 40 ng/ml og tetrahýdrókannabínól 19 ng/ml) um Bergstaðastræti í Reykjavík, að Grundarstíg, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.

Telst brot þetta varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar skv. 101. og 102. gr. laga nr. 50/1987, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44/1993, sbr. 18. gr. laga nr. 66/2006.“

 

Ákærði hefur fyrir dómi skýlaust játað að hafa framið þau brot sem honum eru gefin að sök og var farið með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjanda og ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig í stuttu máli um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

Sannað er með skýlausri játningu ákærða, sem er í samræmi við framlögð sakargögn, að hann hafi gerst sekur um þau brot sem honum eru gefin að sök og eru þau réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Ákærði hefur því unnið sér til refsingar.

Ákærði er fæddur [...] og á samkvæmt framlögðu sakavottorði að baki sakaferil sem nær aftur til ársins 2012. Við ákvörðun refsingar ákærða í máli þessu hefur eftirfarandi áhrif: Með dómi 10. janúar 2014 var ákærði dæmdur til greiðslu sektar að fjárhæð 150.000 krónur og var sviptur ökurétti í 12 mánuði fyrir akstur án ökuréttinda og undir áhrifum ávana- og fíkniefna 13. apríl 2013. Ákærði var dæmdur til greiðslu sektar að fjárhæð 440.000 krónur og var sviptur ökurétti í tvö ár með dómi 18. desember 2015 fyrir akstur sviptur ökurétti og undir áhrifum ávana- og fíkniefna 24. febrúar 2015. Ákærði var dæmdur í 30 daga fangelsi og var sviptur ökurétti ævilangt með dómi 8. desember 2016, en í málinu var ákærði annars sakfelldur fyrir akstur sviptur ökurétti og undir áhrifum ávana- og fíkniefna 2. júní 2016. Með dómi 21. september 2017 var ákærði dæmdur í 4 mánaða fangelsi auk þess sem ævilöng ökuréttarsvipting hans var áréttuð fyrir að hafa 27. mars og 4. júní 2017 ekið bifreið sviptur ökurétti og undir áhrifum ávana- og fíkniefna, en ákærði var í sama máli jafnframt sakfelldur fyrir fíkniefnalagabrot.

Að framangreindum sakaferli og að brotum ákærða virtum, sbr. 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 4 mánuði.

Með vísan til 3. mgr. 101. gr. umferðarlaga er ævilöng ökuréttarsvipting ákærða áréttuð.

Samkvæmt 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður ákærði dæmdur til greiðslu sakarkostnaðar sem, samkvæmt framlögðu yfirliti sækjanda um slíkan kostnað og með stoð í öðrum framlögðum gögnum, nemur samtals 134.355 krónum.

Margrét Halldóra Hallgrímsdóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ:

            Ákærði, Steinar Andri Hjálmarsson, sæti fangelsi í 4 mánuði.

            Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt.

            Ákærði greiði 134.355 krónur í sakarkostnað.

 

Margrét Halldóra Hallgrímsdóttir