• Lykilorð:
  • Játningarmál
  • Umferðarlagabrot

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness miðvikudaginn 17. október 2018 í máli nr. S-410/2018:

 

Ákæruvaldið

(Vilhjálmur Reyr Þórhallsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Algimantas Cesiulis

(Jón Bjarni Kristjánsson lögmaður)

 

            Mál þetta, sem var tekið til dóms 12. október 2018, höfðaði lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu með ákæru 11. september 2018 á hendur Algimantas Cesiulis, kt. 000000-0000, [...]:

            ,,fyrir umferðarlagabrot með því að hafa, miðvikudaginn 23. maí 2018, ekið bifhjólinu [...] sviptur ökuréttindum ævilangt og án þess að skráningarmerki bifhjólsins væru sjáanleg vestur eftir hjólreiðastíg sem liggur samhliða Sæbraut, Reykjavík, þaðan inn á Skúlagötu þar sem lögregla stöðvaði för hans við hús númer [...].

            Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr. 13. gr., 1. mgr. 48. gr. og 1. mgr. 64. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

            Af hálfu ákærða er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá gerir verjandi ákærða kröfu um hæfilega þóknun sér til handa.

 

            Ákærði hefur fyrir dómi skýlaust játað að hafa framið þau brot sem honum eru gefin að sök og var farið með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig í stuttu máli um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

            Sannað er með skýlausri játningu ákærða, sem er í samræmi við framlögð sakargögn, að hann hafi gerst sekur um þau brot sem honum eru gefin að sök og eru þau réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Ákærði hefur því unnið sér til refsingar.

            Ákærði er fæddur árið 1955 og hefur samkvæmt framlögðu að baki sakaferil sem nær aftur til ársins 2009. Ákærði hefur margsinnis gerst sekur um brot gegn umferðarlögum, en við ákvörðun refsingar í máli þessu hefur eftirfarandi áhrif: Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 5. september 2011 var ákærði dæmdur í þrjátíu daga fangelsi og sviptur ökurétti ævilangt fyrir að aka bifreið sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis, en í dómnum greinir frá því að ákærði sé í málinu sakfelldur fyrir að hafa í þriðja sinn gerst sekur um ölvunarakstur. Ákærði samþykkti greiðslu sektar að fjárhæð 120.000 krónur með sektargerð lögreglustjóra 21. maí 2012 fyrir brot gegn umferðarlögum nr. 50/1987, meðal annars fyrir að aka bifreið sviptur ökurétti fyrr á því ári. Ákærði var dæmdur í þriggja mánaða fangelsi og ævilöng ökuréttarsvipting var áréttuð með dómi Héraðsdóms Reykjaness 8. október 2015 vegna ölvunaraksturs sviptur ökurétti, en brotin framdi ákærði fyrr á því ári. Með dómi Héraðsdóms Suðurlands 22. október 2015 var ákærði dæmdur í sextíu daga fangelsi og var gert að greiða 130.000 króna sekt og ævilöng ökuréttarsvipting hans var áréttuð vegna ölvunaraksturs, aksturs sviptur ökurétti og hraðakstur. Brotin framdi ákærði 1. júní 2015, eða áður en áðurnefndur dómur frá 8. október 2015 gekk. Ákærði var dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi og ævilöng ökuréttarsvipting hans áréttuð með dómi Héraðsdóms Reykjaness 22. september 2016 fyrir að hafa ekið bifreið sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis en brotin framdi ákærði fyrr á því ári. Ákærði var dæmdur í sjö mánaða fangelsi og ævilöng ökuréttarsvipting hans áréttuð með dómi Héraðsdóms Reykjaness 11. maí 2017 fyrir að hafa tvívegis ekið bifreið sviptur ökurétti, og þar af í annað skiptið einnig undir áhrifum áfengis, en brotin framdi ákærði í desember 2016 og mars 2017.

            Að brotum ákærða og sakaferli virtum, sbr. og jafnframt með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þykir refsing ákærða samkvæmt dómvenju hæfilega ákveðin fangelsi í fjóra mánuði.

            Samkvæmt 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður ákærða gert að greiða sakarkostnað málsins, sem er þóknun skipaðs verjanda hans, Jóns Bjarna Kristjánsson lögmanns, sem þykir með hliðsjón af umfangi málsins hæfilega ákveðin 252.960 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

            Margrét Halldóra Hallgrímsdóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

 

 

DÓMSORÐ:

            Ákærði, Algimantas Cesiulis, sæti fangelsi í fjóra mánuði.

            Ákærði greiði 252.960 krónur í sakarkostnað, sem er þóknun skipaðs verjanda hans, Jóns Bjarna Kristjánssonar lögmanns.

 

Margrét Halldóra Hallgrímsdóttir