• Lykilorð:
  • Brot gegn valdstjórninni
  • Játningarmál
  • Fangelsi
  • Skilorð

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness miðvikudaginn 3. október 2018 í máli nr. S-370/2018:

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari)

gegn

Piotr Listopad

(Ómar R. Valdimarsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 26. september sl., höfðaði héraðssaksóknari með ákæru 9. ágúst 2018 á hendur ákærða, Piotr Listopad, kt. […], […], Kópavogi;

fyrir brot gegn valdstjórninni, með því að hafa föstudaginn 10. nóvember 2017, í lögreglubifreið fyrir utan lögreglustöðina við Hringbraut í Reykjanesbæ, hrækt á lögreglumanninn A, sem var við skyldustörf, en hrákinn lenti í andliti, augum og munni hans. 

Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Kröfur ákærða í málinu eru þær aðallega að honum verði ekki gerð refsing. Til vara krefst ákærði þess að honum verði gerð sú vægasta refsing sem lög leyfa. Þá krefst verjandi ákærða hæfilegrar þóknunar sér til handa vegna verjandastarfans.

Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Málið var tekið til dóms við þingfestingu þess án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði máls og ákvörðun viðurlaga.

Forsendur og niðurstaða:

Ákærði játaði sök í málinu við þingfestingu þess 26. september sl. Að mati dómsins samrýmist játning ákærða framlögðum gögnum og telst brot hans því sannað. Brot ákærða varðar við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, svo sem réttilega er vísað til í ákæru.

Svo sem mál þetta liggur fyrir þykja ekki vera lagaskilyrði til þess að fallast á aðalkröfu ákærða um að honum verði ekki gerð refsing.

Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins er sakaferill ákærða enginn. Þá hefur hann frá upphafi játað sakargiftir í málinu. Að því gættu þykir refsing ákærða að broti hans virtu hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga. Eftir atvikum þykir rétt að fresta fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Með vísan til sakfellingar ákærða, sbr. 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, verður honum gert að greiða þóknun skipaðs verjanda síns, Ómars R. Valdimarssonar lögmanns, vegna vinnu verjanda á rannsóknarstigi málsins og eftir höfðun þess hér fyrir dómi, en þóknunin þykir eftir umfangi málsins hæfilega ákveðin svo sem í dómsorði greinir. Sá kostnaður sem tilgreindur er á framlögðu sakarkostnaðar­yfirliti heyrir ekki til sakarkostnaðar í þessu máli.

Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Piotr Listopad, sæti fangelsi í 30 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Ómars R. Valdimarssonar lögmanns, 126.480 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum.

 

Kristinn Halldórsson