• Lykilorð:
  • Líkamsárás
  • Miskabætur
  • Skaðabætur

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness föstudaginn 29. desember 2017 í máli nr. S-136/2017:

Ákæruvaldið

(Arnþrúður Þórarinsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Guðmundur St. Ragnarsson hdl.)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 20. nóvember síðastliðinn, höfðaði héraðssaksóknari með ákæru útgefinni 5. apríl 2017 á hendur ákærða, X, kt. [...], [...], [...], „fyrir stórfellt brot í nánu sambandi með því að hafa á alvarlegan hátt ógnað lífi, heilsu og velferð fyrrverandi sambýliskonu sinnar, Y, með ofbeldi, hótunum og frelsissviptingu, aðfaranótt fimmtudagsins 5. maí 2016 á heimili ákærða að [...] í [...], er ákærði réðst á Y, ýtti henni í gólfið, tók hana ítrekað kverkataki og þrengdi að öndunarvegi hennar, tók fyrir vitin á henni með annarri hendinni, sló hana ítrekað í andlit og líkama, hélt henni niðri í gólfinu með báðum hnjám og sló hana ítrekað með olnbogum í brjóstkassa, ýtti andliti hennar niður í gólfið, beit hana í vinstri handlegginn og reif í hárið á henni. Á meðan á þessu stóð hótaði ákærði Y lífláti og svipti hana frelsi er hann meinaði Y útgöngu úr íbúðinni, en Y bað ákærða ítrekað um að fá að komast út og þegar hún komst að útidyrahurð á meðan á árásinni stóð dró ákærði hana til baka. Þannig svipti ákærði Y frelsi í 1-2 klukkustundir þar til hún komst út úr íbúðinni og var lögregla kölluð á vettvang í framhaldinu. Af þessu hlaut Y miklar bólgur í andliti, einkum vinstra megin og var vinstra auga sokkið og mar á vinstra eyra, brot úr hægri miðframtönn, mar á hálsi, mar á bringu, mar hægra megin á brjóstkassa og samhliða áverka aftan á brjóstkassa rétt neðan við hægra herðablað, blóðnasir, bitfar baklægt á miðjum vinstri framhandlegg, mar á hægri mjöðm og mar á báðum öxlum og handleggjum.“

Í ákæru er háttsemi þessi talin varða við 1., sbr. 2. mgr. 218. gr., b almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 23/2016. Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu Y, kt. [...], er þess krafist að ákærði greiði henni skaðabætur að fjárhæð 175.842 krónur og miskabætur að fjárhæð 2.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. maí 2016 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar en síðan dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags. Jafnframt er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins. 

Kröfur ákærða:

Ákærði krefst vægustu refsingar sem lög leyfa sem verði skilorðsbundin að öllu leyti. Þá krefst ákærði þess að bótakrafa brotaþola verði lækkuð. Loks krefst verjandi ákærða þess að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin þóknun verjanda til handa.

I

A

Upphaf málsins er að rekja til þess að klukkan 06:41 barst tilkynning frá fjarskiptamiðstöð lögreglu um að sjúkralið væri á leið að [...] í [...] vegna líkamsárásar. Var árásarþoli sagður vera hjá sjúkraliði og gerandi enn á vettvangi. Þegar lögregla kom á vettvang var brotaþoli, Y, inni í sjúkrabifreið, mjög bólgin í andliti og ölvuð að sjá. Greindi hún lögreglu frá því að árásaraðilinn, X, fyrrverandi kærasti hennar, væri á heimili sínu á efstu hæð hússins. Þegar þangað var komið kom ákærði mjög ölvaður til dyra með vínflösku í hendi og neitaði að hleypa lögreglu inn til sín, en heimilaði sjúkraflutningamanni sem var með lögreglu að koma inn. Eftir stutt samtal þeirra heimilaði ákærði lögreglu aðgang að íbúðinni.

Í frumskýrslu lögreglu er haft eftir brotaþola að ákærði væri með miklar ranghugmyndir um að hún væri enn kærasta hans og væri hann viss um að hún væri að halda fram hjá honum. Kvaðst brotaþoli upplifa stöðugan ótta og líkamlegt ofbeldi af hendi ákærða síðustu sex mánuði í sambandi þeirra. Hefði ákærði margoft gripið í líkama hennar, hrist hana og slegið. Þau hefðu hist í partýi hjá vinafólki í gærkvöldi þar sem þau drukku áfengi og fóru saman heim til ákærða um klukkan 2-3 um nóttina. Eftir að þau komu heim hafi þau byrjað að deila um framhjáhald hennar með þeim afleiðingum að ákærði hefði orðið mjög reiður og hefði neitað að hleypa brotaþola heim til sín. Hafi hann gripið í handleggi hennar og hrist hana margoft, rifið í hár hennar og gripið með báðum höndum um háls hennar og hert að þar til hún átti mjög erfitt með að anda. Þegar ákærði sleppti takinu hafi brotaþoli fallið í gólfið. Hann hafi þá grátið og hafi brotaþoli reynt að hugga hann. Hann hafi brugðist illa við og gripið með báðum höndum um háls brotaþola og haldið og hert að þar til hún gat ekki andað. Hafi ákærði haldið henni í gólfinu en sleppt kverkatakinu. Hafi ákærði gert þetta nokkrum sinnum í viðbót og þegar hann var að kirkja brotaþola hafi hann ítrekað sagt við hana „Ég drep þig þú ferð aldrei héðan út lifandi.“ Því næst hafi ákærði kýlt brotaþola nokkrum sinnum með krepptum hnefa í andlitið og hægra megin í brjóstkassa. Kvaðst brotaþoli hafa verið mjög hrædd og hafi hún öskrað margoft á hjálp, en enginn hafi heyrt til hennar. Hún hafi haldið að ákærði myndi drepa hana. Eftir mikinn grát hafi ákærði sagt við hana „farðu út ég ætlað að drepa mig.“ Kvaðst brotaþoli hafa flýtt sér út og bankað hjá íbúa á neðri hæð og hringt þaðan eftir aðstoð lögreglu. Brotaþoli var flutt á slysadeild til frekari aðhlynningar. Hún hafi verið bólgin í andliti, með mikinn höfuðverk, blóðug á höfði, aum í brjóstkassa og mjög rauð á hálsinum.

Ákærði var handtekinn klukkan 07:19, grunaður um líkamsárás, heimilisofbeldi og frelsissviptingu. Samkvæmt því sem fram kemur í skýrslu lögreglu lét ákærði þess getið að hann væri mjög ölvaður og hefði hann þurft að svipta brotaþola frelsi og beita hana bæði líkamlegu og andlegu ofbeldi til að fá hana til að viðurkenna að hún hefði haldið framhjá honum. Var ákærði fluttur á lögreglustöðina við [...] og íbúðin innsigluð. Dregið var blóð úr ákærða klukkan 08:12 í þágu rannsóknar málsins. Klukkan 07:39 sýndi SD-2 öndunarprófsmælir, sem ákærði blés í, 2,35‰. Var ákærði vistaður í fangageymslu vegna rannsóknar málsins.

Rannsóknarlögreglumaður tók skýrslu af brotaþola á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi 5. maí, klukkan 10:58, að viðstöddum tilnefndum réttargæslumanni. Í skýrslunni segir meðal annars að ákærði og brotaþoli hefðu byrjað samband á árinu 2011 og búið saman frá þeim tíma, en með hléum. Vandamál hefðu komið upp í sambandinu og hefði ákærði haldið framhjá brotaþola og upp frá því vænt hana um það sama. Þau hefðu nokkuð oft slitið sambandinu alveg fram að deginum í dag. Þá kvaðst brotaþoli hafa farið til Noregs í nám og þau þá verið í einhvers konar fjarsambandi og svo tekið upp þráðinn aftur þegar hún hafi komið til Íslands í byrjun árs 2016. Hefði brotaþoli flutt til ákærða, en sambúðin ekki gengið og þá hefði hún flutt til foreldra sinna. Fram kom hjá brotaþola að ákærði hefði sýnt henni ofbeldisfulla hegðun í nokkurn tíma, hann verið uppstökkur og meðal annars hent henni einu sinni út af heimili þeirra. Þau ættu ekki börn. Þá kom fram að brotaþoli og ákærði hefðu verið í samkvæmi þar sem þau drukku nokkuð af áfengi og skemmtu sér vel. Eftir það hefðu þau farið heim til ákærða sem hefði fljótlega eftir komuna þangað farið að beita hana ofbeldi. Hefði hann hent henni niður og sakað hana um framhjáhald og verið nánast heltekinn af því og viljað að hún viðurkenndi slíkt án þess að nokkuð væri til í því. Kvaðst brotaþoli ekki vita hvenær árásin byrjaði en ákærði hefði slegið hana ítrekað í andlit, legið ofan á henni þar sem hún hafi verið á gólfinu, tekið hana kverkataki og hert að þannig að hún hefði átt erfitt með að ná andanum. Þá hefði ákærði haldið með annarri hendi um hálsinn á brotaþola og slegið hana í andlit með hinni. Kvaðst brotaþoli hafa verið næstum því að „detta út“ í eitt skiptið, það er að missa meðvitund, þegar henni tókst að hreyfa sig þannig að það hafi komið smá súrefni inn í öndunarveginn og hún hafi getað svarað ákærða því sem hann vildi að hún segði, það er friðað hann með svari. Ákærði hefði sagt eftirfarandi þegar hann herti að hálsi brotaþola: „Deyðu, deyðu“ og endurtekið það í einhver skipti. Aðspurð kvaðst brotaþoli hafa óttast um líf sitt. Árás ákærða hefði staðið í um tvær klukkustundir og hefði hann komið í veg fyrir að hún færi út úr íbúðinni en það hefði hún reynt í nokkur skipti og beðið um að fá að fara. Ákærði hefði verið búinn að setja öryggiskeðju, sem sé á hurðinni fyrir, og orðið mjög reiður þegar hún reyndi að fjarlægja keðjuna og sagt að hún færi ekki lifandi út úr íbúðinni. Brotaþoli kvaðst þó hafa sloppið út og hringt á aðstoð lögreglu hjá nágranna. Loks segir í skýrslunni að farið hafi verið á vettvang ásamt tæknideild lögreglu. Um sé að ræða íbúð með einu svefnherbergi þar sem stofa og eldhús séu í einu rými. Hafi íbúðin ekki verið ósnyrtileg en greinilegt að átök hefðu átt sér þar stað. Húsgögn hafi verið færð úr stað, motta undir stofuborði úr lagi gengin og áfengi hafi helst niður á borð. Þá hafi dyrasími verið brotinn og símtólið rifið frá. Blóðkám hafi verið á spegli við útidyr og á gólfi við sófa í stofu. Vettvangurinn hafi verið ljósmyndaður og ljósmyndir teknar af brotaþola á bráðamóttöku. Reynt hafi verið að ná sambandi við ákærða, sem hafi sofið í fangaklefa, en það hafi ekki tekist. Hann hafi að sjá verið verulega ölvaður og hefði það verið metið svo að hann væri ekki hæfur til skýrslutöku.

Tekin var skýrsla af ákærða 6. maí 2016. Viðurkenndi ákærði að hafa lagt hendur á brotaþola og greindi frá því að æðiskast hefði runnið á hann í kjölfar þess að brotaþoli hefði sagt honum að hún væri samkynhneigð og hefði ekki elskað hann í mörg ár. Þá kannaðist ákærði við að hafa meinað brotaþola að yfirgefa íbúðina, enda hefði hann viljað ræða málin við brotaþola og vita sannleikann. Þegar ákærði var beðinn um að lýsa því sem hefði gerst sagðist hann örugglega hafa slegið brotaþola og kýlt hana einhvers staðar og brugðið höndum utan um hálsinn á henni og ætlað að drepa hana. Síðan dró ákærði úr því og sagði það ekki hafa verið ætlun sína. Ef hann hefði ætlað sér það hefði hann gert það, svo trylltur hefði hann verið. Hann hefði látið af atlögunni á einhverjum tímapunkti og leyft brotaþola að fara og opnað hurðina fyrir henni.

Brotaþoli gaf á ný skýrslu hjá lögreglu 18. maí 2016. Teknar voru skýrslur af öðrum vitnum dagana 11. og 12. maí og 9. júní 2016.

B

Í skýrslu tæknideildar lögreglu segir meðal annars að vettvangur að [...] hafi borið merki um neyslu áfengis og að átök hefðu átt sér stað í íbúðinni. Blóðbletti hafi verið að finna sem styðji framburð brotaþola um að hún hafi hlotið blæðandi áverka vegna barsmíða í stofunni.

Samkvæmt bréfi Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði 19. maí 2016 mældist alkóhól í blóði ákærða 2,63 ‰ þann 5. maí 2016, klukkan 08:12.

 C

Í læknisvottorði A, sérfræðings á slysa- og bráðadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss, segir að brotaþoli hafi leitað á bráðamóttöku LSH eftir líkamsárás. Hún hafi verið með fyrrverandi kærasta sínum á heimili hans þegar hann hafi skyndilega ráðist á hana, tekið hana hálstaki og hent henni í jörðina. Þá hafi hann látið höggin dynja á höfði hennar og andliti og ítrekað tekið hana hálstaki og hafi brotaþoli næstum liðið út af á tímabili. Þá hafi hann bitið hana baklægt í vinstri framhandlegg. Hafi árásin að sögn brotaþola næstum staðið yfir í um það bil tvær klukkustundir. Skoðun á höfði leiddi í ljós að brotaþoli var með blóð í hársverði, hárið tætingslegt og hún aum viðkomu alls staðar. Blóðið hafi þó komið úr nefi en ekki hársverðinum. Þá segir að brotaþoli hafi verið stokkbólgin í andliti, einkum vinstra megin og var vinstra augað sokkið. Var brotaþoli aum við þreifingu alls staðar yfir andlitsbeinum, einkum vinstra megin. Þá var brotaþoli með mar framanvert og hliðlægt á hálsi beggja vegna og voru eymsli við þreifingu yfir mjúkpörtum á hálsi en ekki yfir hryggjartindum. Voru hálshreyfingar eðlilegar. Við skoðun á brjóstkassa hafi brotaþoli verið með dreifða marbletti yfir bringu og hliðlægt hægra megin á brjóstkassanum. Þá hafi verið dreifir marblettir á handleggjum og höndum og stór marblettur og bitfar baklægt á miðjum vinstri framhandlegg. Kvartaði brotaþoli undan dofatilfinningu frá öxl og niður að þumalfingri vinstri handar.

Framkvæmd var sneiðmyndarannsókn af höfði brotaþola og andlitsbeinum sem sýndi ekki merki um brot eða blæðingu en mikil mjúkvefjabólga hafi verið yfir vinstra auga og gagnauga. Hafi brotaþoli verið útskrifuð að skoðun lokinni með ráðleggingum um verkjalyf og bólgueyðandi lyf eftir þörfum. Brotaþoli hafi komið í endurmat 25. maí 2016. Þá hafi einkennin verið gengin að nokkru leyti til baka, en ekki að öllu leyti. Röntgenmynd af hægri hendi sem tekin var hafi ekki sýnt merki um brot. Loks segir í vottorðinu að áverkamynstur samrýmist því áverkaferli sem lýst hafi verið.

D

Í málsgögnum er að finna álit B réttarmeinafræðings, sem framkvæmdi líkamsskoðun á brotaþola klukkan 14:45 föstudaginn 6. maí 2016. Þar segir að brotaþoli hafi lýst atvikinu aðfaranótt 5. maí 2016, en hún og kærasti hennar höfðu verið að drekka þann dag og var brotaþoli lítillega ölvuð við skoðunina en man hvað gerðist. Í álitinu er að finna ítarlega lýsingu á skoðun brotaþola. Í samantekt niðurstaðna segir eftirfarandi: „Margir margúlar á andliti, við vinstra eyra, á báðum upphandleggjum og framhandleggjum, báðum höndum, við bæði brjóst, hægri mjöðm að mjaðmarblaði, á báðum sköflungum og við mjóbak. Mynsturlegir margúlar báðum megin á enni að hársverði. Mynsturlegir margúlar á aftanverðum brjóstkassa rétt fyrir neðan hægra herðablað. Bitfar á vinstra framhandlegg. Brot úr hægri miðframtönn.“ Þá segir í álitinu að réttarlæknisskoðun á brotaþola hafi leitt í ljós marga höggáverka á ýmsum líkamshlutum og merki um kyrkingu með höndum. Í heild sinni séu niðurstöður skoðunar samsvarandi atvikalýsingu brotaþola.

E

Brotaþola var vísað í áfallahjálp hjá Áfallamiðstöð 5. maí 2016. Í vottorði C sálfræðings, dagsettu 13. júní 2016, segir að hún hafi hitt brotaþola þrisvar sinnum á tímabilinu frá 11. maí til 1. júní 2016. Hafi brotaþoli greint frá upplifun ofsaótta, bjargarleysis og lífshættu meðan á meintri líkamsárás hafi staðið og í kjölfarið hafi brotaþoli upplifað áfallastreitueinkenni sem hafi haft áhrif á daglegt líf hennar. Sálræn einkenni hennar í kjölfar áfallsins samsvari einkennum sem þekkt séu hjá fólki sem hafi upplifað alvarleg áföll eins og líkamsárás, nauðgun, stórslys eða hamfarir. Niðurstöður sjálfsmatskvarða hafi samsvarað vel lýsingum brotaþola á líðan hennar í viðtölum og hafi frásögn hennar verið trúverðug. Þá segir að brotaþoli hafi í fyrstu sýnt forðunareinkenni og erfiðleika við að sætta sig við að atburðurinn hefði gerst og þegar meint líkamsárás hafi farið að verða raunverulegri fyrir brotaþola hafi líðan hennar versnað. Brotaþoli hafi brugðist vel við fræðslu um ákjósanleg bjargráð og hafi fljótlega byrjað á því að takast á við forðunarhegðun og vanlíðan sína af miklu hugrekki. Loks segir að ekki sé hægt að segja til með vissu hver áhrif meintrar líkamsárásar verði til lengri tíma litið þar sem bakslag geti átt sér stað í kjölfar farsællar úrvinnslu áfalla og líklegt sé að brotaþoli þurfi reglulega að takast á við minningar um meint brot í daglegu lífi sínu, en ætluð líkamsárás hafi haft víðtæk áhrif á líðan brotaþola. 

II

Skýrslur ákærða og vitna fyrir dómi:

Ákærði endurtók við upphaf aðalmeðferðar þá afstöðu til sakargifta, sem hann hafði uppi á fyrri stigum málsins, að hann játaði líkamsárás á brotaþola en hafnaði því að hún ætti undir 218. gr. almennra hegningarlaga. Þá neitaði ákærði því að hafa svipt brotaþola frelsi sínu og að hafa tekið hana kverkataki og þrengt að öndunarvegi og slegið hana með olnbogum. Þá fullyrti ákærði að brot úr miðframtönn væri eldri áverki og líklega frá árinu 2012.

Ákærði skýrði frá því að hann og brotaþoli hefðu verið í sambandi í um fimm ár. Þau hafi byrjað að hittast vorið 2010 og búið saman hluta af tímanum. Hann hefði keypt íbúð í nóvember 2011 og þau búið saman þar fram á vor 2012. Þau hefðu ekki tekið upp sambúð eftir það, en verið eftir því sem ákærði vissi best í sambandi þegar þau atvik urðu sem ákært væri fyrir. Á ýmsu hefði gengið í sambandinu frá haustinu 2015. Brotaþoli hefði skallað ákærða þrisvar sinnum í andlitið 2011. Þá hefðu þau slitið samvistir, en fyrir utan það tilvik og eitt annað hafi ekki verið um að ræða ofbeldi á milli þeirra, en þeim hefði oft lent saman og kvaðst ákærði alveg eins eiga sök á því.

Ákærði kvaðst hafa verið mjög ölvaður að kvöldi 4. maí. Hann hefði átt von á brotaþola í heimsókn og hefði keypt bæði áfengi og gjafir handa brotaþola. Hún hefði tilkynnt honum að hún væri að fara í stelpu-partý og hefði það ekki verið til að róa taugar ákærða miðað við það sem á undan var gengið, en hann hefði tvisvar komið að brotaþola við framhjáhald. Hann hefði byrjað að drekka áfengi milli klukkan 21:00 og 22:00 til að róa taugarnar, enda hefði honum liðið mjög illa andlega á þessum tíma og hann þjáðst af áfallastreituröskun frá árinu 2009 sem hefði blossað upp öðru hverju. Kvaðst ákærði hafa haft þokkalega stjórn á því þar til haustið 2015 þegar hann hefði fengið 4-5 köst í viku. Hann kvaðst ekki draga í efa að hann hefði þjáðst alvarlega af þunglyndi og kvíða þótt hann hefði ekki verið með neina greiningu þá.

Þá lýsti ákærði því að samband brotaþola og D, vinkonu brotaþola, hefði legið þungt á honum. Þau hafi komið heim umrætt kvöld og allt verið í góðu. Þau hefðu haldið áfram að drekka áfengi og hann afhent henni gjafirnar. Þau hefðu stundað kynlíf. Þegar brotaþoli hefði farið í sturtu kvaðst hann hafa ætlað að nota tækifærið og skoða samskipti hennar og D í síma brotaþola en komist að því að brotaþoli hefði breytt lykilorðinu. Hann hefði þá reiðst og heimtað að fá að sjá samskiptin við stúlkuna því hann hefði vissu fyrir því að brotaþoli hefði átt í kynferðislegu sambandi við hana yfir lengri tíma. Kvaðst ákærði hafa fengið brotaþola til að skrá sig inn á Facebook í tölvunni hans en gert þau mistök að leggja frá sér síma brotaþola og þá hafi hún tekið símann og eytt öllum samskiptum hennar og stúlkunnar. Kvaðst ákærði hafa gjörsamlega brotnað niður við þetta og lagt hendur á hana. Spurður með hvaða hætti hann hefði lagt hendur á brotaþola sagði ákærði að það hefði aðallega verið þannig að hann hefði ógnað brotaþola, rifið í axlirnar á henni og heimtað að hún segði honum sannleikann. Það væri rétt sem hefði komið fram í skýrslu brotaþola að hann hefði verið hágrátandi allan tímann. Þá sagði ákærði að þetta hefði stigmagnast og hann hefði alltaf verið að reyna að hræða brotaþola til að fá hana til að segja honum sannleikann af því að ákærði kvaðst einhvern veginn þurfa að heyra sannleikann frá brotaþola sjálfri. Kvaðst ákærði hafa hrint brotaþola í eitt skiptið og slegið til hennar og verið með ógnun um að beita meira ofbeldi. Þótt það hljómi ótrúlega hefði það ekki verið tilgangurinn að meiða brotaþola líkamlega, enda hafi hann ekki kýlt brotaþola með krepptum hnefa, heldur notað „þykkhöndina“ af því að hann hefði ekki viljað meiða brotaþola of mikið. Þetta hefði verið meira þannig að láta hana halda að hann myndi gera meira svo að hún myndi segja honum sannleikann. Spurður sagðist ákærði hafa slegið brotaþola í líkama og í andlit, hrint henni þannig að hún hefði lent í gólfið og rifið fast í hana. Kvaðst ákærði hafa haldið áfram eftir að brotaþoli datt á gólfið. Brotaþoli hefði sagt við ákærða á meðan á átökunum stóð að hún héldi að hún væri samkynhneigð og hefði hún ekki elskað ákærða síðan árið 2011. Þá hefði ákærði ákveðið að svipta sig lífi, enda búinn að fá nóg af þessu, en hefði fyrst farið og sótt tusku og þurrkað brotaþola í framan af því að hún hafði verið með blóðnasir og grátið. Ekki hefði  verið ætlunin að leyna sönnunargögnum, enda kvaðst ákærði vita að það sem hann gerði var rangt. Eftir þetta kvaðst ákærði hafa sagt við brotaþola að drulla sér út. Spurður kvaðst ákærði halda að brotaþoli hefði verið á heimili hans frá klukkan 03:30 og til 07:00. Atlagan sjálf hefði staðið í 15-20 mínútur. Ekki stæðist að atlagan hefði staðið í eina til tvær klukkustundir. Ákærði sagðist muna atvikin vel þrátt fyrir að hann hefði verið mjög ölvaður. Þá neitaði ákærði því aðspurður að hann hefði hótað brotaþola lífláti á meðan á atlögunni stóð og tekið hana hálstaki. Útilokaði ákærði samt ekki að sést hefði á hálsi brotaþola þegar hann hefði rifið í axlirnar á henni, þá hefði hann einnig gripið í hálsinn á henni í hita leiksins og hrist hana til, en lýsingar brotaþola á því að hann hefði ítrekað tekið hana hálstaki stæðust ekki.

Eftir að brotaþoli féll á gólfið við sófann hefði hún legið á bakinu og hefði hann verið á hnjánum en ekki beint haldið henni niðri, en tekið með báðum höndum utan um andlitið á henni og sagt henni að segja honum sannleikann. Neitaði ákærði því aðspurður að hafa haldið brotaþola niðri með hnjánum og barið hana með olnbogunum í bringuna. Ákærði viðurkenndi að áverkar á bringu brotaþola væru eftir hann og bitfar á handlegg brotaþola væri því miður eftir hann. Þá kvaðst ákærði ekki muna eftir því að hafa rifið í hárið á brotaþola, en sagðist ekki vera hissa á því að hann hefði gert það, eða haldið í hárið á henni. Ákærði kvaðst muna eftir einu tilviki þar sem hann hefði meinað brotaþola að fara út úr íbúðinni. Það hefði þó verið þannig að hann hefði staðið í vegi fyrir brotaþola þegar hún sagðist vilja komast út. Hann hefði haldið í handlegginn á henni þegar hún hefði ætlað að fara út. Ákærði kvaðst minnast þess að brotaþoli hefði tvisvar eða þrisvar kallað á hjálp. Einnig viðurkenndi ákærði að hann hefði sett sig í samband við brotaþola eftir atvikið og spurt hana af hverju hún hefði verið að ljúga svona, en því hefði ekki verið svarað.

Þá kom fram hjá ákærða að hann hefði lent í árekstri í forgangsakstri 2009 á sjúkrabíl. Eftir tvær vikur þar frá hefði hann fengið einkenni áfallastreitu. Hann hefði farið til læknis vegna þess og tveggja sálfræðinga á þriggja ára tímabili og hefði náð með hjálp að hafa stjórn á þessu. Hann hefði misst stjórn á þessu vegna hegðunar brotaþola. Hún hefði verið sú eina sem hefði vitað það að hann þjáðist af áfallastreituröskun og farið að stunda það að hringja í ákærða þegar hún hefði verið að skemmta sér í Noregi, ýmist að segja að hún hefði farið heim með öðrum strákum eða látið svo líta út að hringingin væri óvart og þá látið hann hlusta á hana útúða honum við vini sína. Einnig lýsti ákærði því að í eitt skipti hefði hann hent brotaþola og vinkonu hennar, D, út úr íbúðinni eftir að hafa komið að þeim inni á baði þar sem þær hafi verið að káfa hvor á annarri og D verið með höndina í klofinu á brotaþola innan klæða og brotaþoli með hendurnar yfir brjóstum D utan klæða.

Spurður kannaðist ákærði ekki við að blætt hefði úr munninum á brotaþola og kvaðst ákærði ekki hafa séð áverka á henni við munninn. Endurtók ákærði að það hefði ekki verið tilgangur hans að meiða brotaþola líkamlega. Loks kom fram hjá ákærða að hann væri til meðferðar hjá sálfræðingi. Hann kvaðst hafa misst vinnuna í kjölfar atviksins sem slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður, en væri nú í mjög góðri vinnu. Líðan hans nú væri betri heldur en í fyrravor, en langt væri í land með að ná heilsu. Sagði ákærði atvikið hafa verið skelfilegt og versta kvöld ævi sinnar. Hann sæi mjög eftir þessu, en þetta hefði verið hrein og klár geðshræring og hann hefði ekki verið á góðum stað í lífinu. Brotaþoli hefði í byrjun sambandsins sagt honum að hún væri tvíkynhneigð, en hann hefði aldrei sett út á það og ekki dæmt hana fyrir það, en hún hefði að því er virtist skammast sín fyrir það.   

Brotaþoli, Y, skýrði frá því að samband hennar og ákærða hefði staðið frá árinu 2011 með hléum. Hluta tímans hefðu þau búið saman á heimili ákærða að [...]. Það hefði verið fljótlega eftir að hann keypti íbúðina. Þau hefðu síðan flutt í sundur vegna framhjáhalds, en flutt saman aftur á ný, en svo aftur flutt í sundur af sama tilefni. Þá hefði hún flutt til Noregs 2014. Brotaþoli lýsti ofbeldi ákærða í hennar garð fyrir atvikið, en kvöld það sem um ræði í maí 2016 hefði brotaþoli verið í partýi með samstarfsfélögum, en hefði ætlað að hitta ákærða eitthvað um kvöldið. Hún hafi síðan boðið ákærða að koma til þeirra og hefði hann gert það. Þau hefðu síðan farið úr partýinu um klukkan tvö eða þrjú og heim til ákærða. Þegar þangað var komið hafi allt verið í lagi í fyrstu, en svo hafi hann fengið afbrýðiskast, rifið í hana og hent henni til og frá, eins og hann hafði gert áður. Ákærði hefði hent henni á gólfið og tekið hana kverkataki. Ákærði hefði látið hana fara inn á Facebook til að hann gæti lesið yfir samtöl til að reyna finna eitthvað. Brotaþoli lýsti því að ákærði hefði haldið henni með annarri hendi og kýlt eða slegið hana með hinni hendinni. Þá hefði hann snúið henni á hlið og sett hnéð á brotaþola og olnbogann í brjóstkassann eða skrokkinn á brotaþola eins og hann væri að brjóta eitthvað. Brotaþoli kvaðst ítrekað hafa beðið um að fá að fara af því að hún hefði verið skíthrædd, en hann hefði ekki leyft það. Kvaðst hún hafa gargað á hjálp og þá hefði ákærði stokkið á hana, haldið fyrir munninn á henni og rifið hana niður til að stöðva hana. Ákærði hefði snúið henni þannig að andlitið hefði snúið niður í gólfið og við það hefðu gleraugu vitnisins brotnað. Kvaðst brotaþoli halda að þá hefði kvarnast upp úr tönn. Ákærði hefði rifið í hárið á brotaþola og sagt: „Við erum hvorugt að fara héðan út lifandi.“ Kvaðst brotaþoli hafa skilið þetta þannig að ákærði hefði ætlað að drepa bæði hana og sjálfan sig. Hún sagði ákærða hafa gert sér grein fyrir því sem hann væri búinn að gera og að hann væri búinn að klúðra öllu sínu, enda biði vinnan hans ekki upp á það að vera á sakaskrá. Ákærði hefði haldið fyrir vit brotaþola og reynt að stoppa það að hún andaði. Bráð hefði af ákærða og þá hefði hún ætlað að flýja og hlaupið að útidyrahurðinni en ákærði hafði sett keðju á hurðina til að læsa henni. Brotaþoli kvaðst hafa reynt að opna hurðina en ekki náð að losa hana þegar ákærði hefði náð henni og dregið hana aftur inn og ekki leyft henni að fara. Ákærði hefði þá bitið brotaþola í höndina og reynt að brjóta putta brotaþola. Þá lýsti brotaþoli því að ákærði hefði tekið hana kverkataki þannig að hún gat ekki andað. Hún hefði samt náð smá lofti og náð að treina þetta og þá hefði ákærði gefist upp og ekki getað meira. Hann hefði verið löðursveittur og búinn á því. Hann hefði þá ekki reynt að halda brotaþola lengur í íbúðinni. Spurt að því hvað langur tími hefði liðið frá því að ofbeldið hefði hafist og þangað til vitnið hefði komist út bar vitnið að það hefði verið um það bil tveir klukkutímar. Vitnið kvaðst ráma í það að þau hefðu stundað kynlíf eftir að þau komu heim og horft á myndbönd. Allt hefði verið í góðu, en svo hefði ákærði fyrirvaralaust tekið tryllingskast. Spurð kvaðst brotaþoli hafa dottið á framtönn 2012 þannig að „rótin hefði brotnað“ en gert hefði verið við tönnina. Við árás ákærða hefði brotnað úr tönninni á öðrum stað, það er höggvist hefði úr neðri hluta hennar, en viðgerðin frá 2012 hefði haldið. Brotaþoli greindi frá ofbeldi ákærða fyrr á árum. Í einu tilvika hefði ákærði snúið upp á höndina á brotaþola og hún þá skallað hann til að verjast ofbeldinu. Brotaþoli kvaðst enn óttast ákærða og vera hrædd um að hann komi. Betur hefði gengið að slaka á ef ekki hefði komið til endurtekið áreiti af hálfu ákærða sem var og er enn að senda skilaboð á vini brotaþola og kunningja með óhróðri um hana. Brotaþoli kvaðst hafa fengið áfallahjálp hjá sálfræðingi, en erfitt væri að vera alltaf minnt á ákærða. Neitaði brotaþoli því aðspurð að hafa átt í kynferðislegu sambandi við D vinkonu sína. Þá svaraði brotaþoli því játandi að hún hefði eytt út samskiptum á Facebook við D og sagði það hafa verið einkasamtöl vegna skilnaðar sem hún stóð í. Brotaþoli kvaðst ekki hafa viljað að ákærði væri að lesa um hennar mál. Ákærði hefði tekið því þannig að hún væri að fela eitthvað. Brotaþoli viðurkenndi að þetta hefði verið klaufalegt hjá henni og til þess fallið að auka afbrýðisemi ákærða.     

B, réttarmeinafræðingur, staðfesti fyrir dómi að hann hefði unnið vottorð vegna brotaþola. Spurt svaraði vitnið að áverkar við augu eða í kring um augu hafa að öllum líkindum orðið til vegna högga með krepptum hnefa, en bólga og litabreytingar, bæði á augnlokum og fyrir neðan augu, væri mjög ólíklegt af sömu ástæðu og ekki hægt að valda slíkum áverkum með flötum eða opnum lófum. Þá sagði vitnið að brot úr tönn væri á miðsvæði framtanna. Brotið hefði ekki verið nálægt rót. Áverkar á hálsi brotaþola hefðu að öllum líkindum verið eftir kyrkingatak, það sæist á áverkununum, með einni eða tveimur höndum. Ekki væri unnt að gera sér grein fyrir því nákvæmlega í hvaða stöðu hendurnar hefðu verið. Ef kyrkingataki er haldið í tilgreindan tíma þá veldur það blettablæðingum á augnsvæði, það er á augnloki og á svæðinu fyrir neðan augun, en slíkar blettablæðingar kvaðst vitnið ekki hafa séð og miðað við það kvaðst vitnið leyfa sér að álykta að ekki hefði verið um mjög harkalegt grip að ræða. Vitnið kvaðst halda að teknu tilliti til áverkanna að krafturinn eða aflið sem beitt var hafi verið miðlungs og þar fyrir ofan til þess að hægt hefði verið sé að valda slíkum áverkum. Eins og brotaþoli hefði sjálf skýrt frá væri ólíklegt að hún hafi misst meðvitund, en þegar áverkar eru skoðaðir sé alltaf spurning um afl annars vegar og tíma hins vegar. Því lengra tíma sem kyrkingataki er haldið því minna afl þarf til að viðkomandi missi meðvitund og á sama hátt þarf meira afl ef takinu er haldið í skemmri tíma. Spurt um margúl á brjósti og hægri mjöðm vegna þrýstingsáverka sagði vitnið það geta samrýmst því sem brotaþoli hefði sagt um atlögu ákærða að henni og bar vitnið að það gæti vel verið. Vitnið tók fram að einnig hefðu verið gripmerki á brjóstkassa fyrir utan þrýstingsáverka. Dökkbláir húðblettir á vinstra eyra, sem nefndir eru í vottorði, eru tilkomnir vegna þungra högga og skýringanna kann að mega leita í því að viðkomandi hafi verið sleginn með flötum lófa eða að höfuð hafi slegist utan í harðan hlut eins og dyrakarm eða gólf. Spurt kvaðst vitnið hafa verið beðið að koma á lögreglustöðina og skoða brotaþola þann 6. maí. Niðurstöður vitnisins væru eingöngu byggðar á skoðun vitnisins á brotaþola þann dag. Vitnið kvaðst vera læknir á Landspítala, en ekkert óvenjulegt væri þó við að skoðun brotaþola hefði farið fram á lögreglustöð, það væri oft þannig. Fram kom hjá vitninu að auðvelt væri að greina hvort tannbrot sé nýtt eða eldra vegna litabreytinga sem verða á nærliggjandi svæði. Þá sagði vitnið aðspurt að áverkar hefðu verið í munni brotaþola eftir tannbrotið, blæðingar í munni og yfirborðsáverkar af völdum brotsins.    

E lögreglumaður skýrði frá því að hann hefði farið á vettvang í [...] og eftir það hefði vitnið hitt brotaþola á slysadeild. Ljóst hefði verið í upphafi að um alvarlegt mál var að ræða, brotaþoli illa leikin og líðan hennar eftir því. Vettvangurinn bar þess merki að átök hefðu verið í íbúðinni, húsgögn færð úr stað og blóðkám á gólfi og dyrasíma. Þá fundust persónulegir munir frá brotaþola í íbúðinni. Þá sagði vitnið að brotaþoli hefði greint frá því að unnusti hennar til einhvers tíma hefði ráðist á hana eftir að þau komu heim úr partýi. Hefði hann skyndilega reiðst henni fyrir eitthvað sem tengdist afbrýðisemi og talað um að hún fengi ekki að fara út úr íbúðinni og hefði bæði slegið hana og tekið hana kyrkingataki. Hefði þetta staðið í langan tíma og hefði hún óttast um líf sitt þarna inni. Þannig hafi hennar frásögn verið í grófum dráttum. Vitnið kvaðst ekki muna hvað brotaþoli hefði sagt um það hvað hún hefði verið lengi inni í íbúðinni, ef til vill eina klukkustund og alla vega drjúga stund sem brotaþoli hefði upplifað sig frelsissvipta inni í íbúðinni og hefði ekki átt kost á að fara út úr henni. Þá sagði vitnið brotaþola hafa verið með sjáanlega áverka víða um líkamann og varla nokkur blettur líkamans verið út undan. Hefði brotaþoli verið blá og marin og tveimur dögum síðar hefði vitnið fengið réttarmeinafræðing til að leggja mat á áverkana sem þá voru víða. Þá hefði brotaþoli borið um fyrri sögu ofbeldis. Þá staðfesti vitnið skýrslu sem það vann eftir viðtal við brotaþola á slysadeild.

F lögreglumaður greindi frá því að þegar lögregla kom á staðinn í [...] hefði sjúkraliði verið að hlúa að brotaþola og ákærði verið á heimili sínu. Lögregla hefði farið þangað ásamt sjúkraflutningamanni, en vitnið hefði rætt við brotaþola í sjúkrabifreiðinni sem hefði greint frá því hvernig líkamsárásin hefði átt sér stað. Brotaþoli og ákærði, sem hefðu verið fyrrverandi par, hefðu hist í partýi hjá vinafólki um kvöldið og farið saman heim til ákærða um þrjúleytið um nóttina. Þegar þangað var komið hófust deilur á milli þeirra þar sem ákærði sakaði brotaþola um að hafa haldið framhjá sér þegar þau voru í sambandi og upp úr því hefði ákærði beitt brotaþola líkamlegu ofbeldi með því að taka hana ítrekað kverkataki þar til hún átti erfitt með að anda. Þá hefði hann meinað henni að yfirgefa íbúðina, kýlt hana með krepptum hnefa nokkrum sinnum í andlit og bringu. Þegar ákærði hafði grátið í einhvern tíma þá hleypti hann henni út úr íbúðinni og sagst ætla að drepa sig. Þá hefði brotaþoli farið niður og óskað eftir aðstoð lögreglu. Spurt um ástand brotaþola sagði vitnið að hún hefði verið mjög óttaslegin og grátið mikið. Erfiðlega hefði gengið að fá frásögn hennar. Brotaþoli hefði verið rosalega hrædd og virkilega haldið að ákærði ætlaði að drepa hana. Þá kom fram hjá vitninu að brotaþoli hefði greint því frá því að síðustu sex mánuði sambandsins hefði ákærði beitt brotaþola andlegu og líkamlegu ofbeldi.

Vitnið A læknir skýrði frá því aðspurt að áverkar á hálsi brotaþola gætu samrýmst því að brotaþoli hefði verið tekin hálstaki með báðum höndum. Samkvæmt lýsingu brotaþola kvaðst hún hafa nær liðið út af á tímabili eftir að hafa verið tekin hálstaki. Mar var sjáanlegt bæði framanvert og hliðlægt á hálsi sem bendi til þess að tekið hafi verið nokkuð fast og ákveðið á hálsinum þannig að valdið hafi rofi á æðum og húðblæðingum sem bendi til að átakið hafi verið þó nokkuð. Mar á brjóstkassa væri að öllum líkindum frá sama tíma og gætu þeir áverkar samrýmst því að ákærði hefði haldið henni niðri með báðum hnjám og notað olnboga til að lemja hana í brjóstkassa. Þá sagði vitnið erfitt að segja nákvæmlega til um það út frá bólgu í andliti hvort brotaþoli hefði verið slegin með krepptum hnefa eða flötum lófa. Áverkar á brotaþola bentu til þess að töluverðu afli hefði verið beitt til að valda slíkum áverkum. Spurt kvaðst vitnið ekki geta fullyrt að tennur brotaþola hefðu verið skoðaðar sérstaklega. Einnig sagði vitnið að áverkar á brotaþola samrýmdust því að brotaþoli hefði verið beitt ofbeldi. Loks staðfesti vitnið vottorð það sem það vann vegna málsins.

Vitnið G skýrði frá því að brotaþoli og ákærði hefðu verið heima hjá vitninu í afmælisveislu. Þau hefðu farið úr veislunni nálægt klukkan þrjú. Vitnið kvaðst hafa heyrt að brotaþoli og ákærði væru í „on/off“ sambandi en ekki hafa heyrt það frá brotaþola sjálfri.

Vitnið H greindi frá því að brotaþoli og vitnið hefðu verið í mastersverkefni hjá sama fyrirtæki og því nokkuð saman á því tímabili sem um ræði. Vitnið kvaðst hafa verið með brotaþola og ákærða umrætt kvöld í afmæli hjá vitninu G. Ekkert sérstakt í fari þeirra hefði vakið athygli vitnisins. Vitnið hefði farið úr afmælinu á undan brotaþola og ákærða og því gat vitnið ekki borið um það hvenær þau fóru af staðnum. Þá sagði vitnið að brotaþoli hefði einu sinni fyrir atvikið rætt samband hennar og ákærða og sagt að þau væru hætt saman og að ofbeldi hefði verið „í gangi“. Sagði brotaþoli vitninu að hún væri hrædd við ákærða. 

Vitnið I kvaðst búa á fyrstu hæð eða jarðhæð í sama húsi og ákærði. Umrædda nótt hefði brotaþoli komið niður til vitnisins og beðið vitnið að hringja á aðstoð fyrir hana. Séð hefði á brotaþola sem hefði verið hrufluð og mjög hrædd. Nefndi vitnið að brotaþoli hefði læst að sér í íbúðinni eftir að hún kom þangað og þegar vitnið fór að opna fyrir sjúkraflutningamönnum. Hefði vitnið ekki komist aftur inn í íbúðina án þess að gera grein fyrir sér. Vitnið kvaðst strax hafa hringt á lögreglu og afhent brotaþola símann. 

J, rannsóknarlögreglumaður við tæknideild og blóðferlasérfræðingur, kom fyrir dóm og lýsti aðkomu sinni að rannsókn málsins. Óskað hefði verið eftir aðstoð tæknideildar við vettvangsrannsókn í íbúð ákærða í [...]. Merki hefðu verið um áfengisneyslu í íbúðinni og blóð á spegli. Þá hafði gólfteppi í stofu dregist til og húsgögn færst til. Blóðkám var á gólfi sem tekið var sýni úr til að staðfesta að um blóð væri að ræða. Þá kvaðst vitnið hafa tekið myndir af brotaþola á slysadeild. Daginn eftir eða daginn þar á eftir voru áverkar ljósmyndaðir á lögreglustöðinni af vitninu við skoðun vitnisins B réttarmeinafræðings á brotaþola. Kvaðst vitnið geta staðfest ljósmyndir af brotaþola og af vettvangi hefðu verið teknar af vitninu.     

Vitnið C, sálfræðingur, kvaðst hafa hitt brotaþola í þrjú skipti, en henni hefði verið vísað í áfallahjálp hjá áfallamiðstöð Landspítalans eftir að hafa leitað á bráðamóttöku spítalans eftir meinta árás til að takast á við afleiðingar áfallsins. Brotaþoli hefði fengið meiri þjónustu en venjulegt væri vegna alvarleika málsins og aukinna streitueinkenna sem komið hefðu fram síðar. Í upphafi hafi verið um fræðslu að ræða um eðlileg áfallaeinkenni og mat á afleiðingum þessarar árásar. Þegar frá leið hefði verið notast við aðferðir hugrænnar athyglismeðferðar til að hjálpa brotaþola að takast á við afleiðingar og veita henni stuðning vegna aukins áreitis. Vitnið kvaðst enn vera í tengslum við brotaþola sem hefði komið í 12 viðtöl alls og þá kvaðst vitnið hafa átt 10 eftirfylgnisímtöl við brotaþola. Brotaþoli hefði lýst miklum ótta og hjálparleysi þegar hún lýsti áfallinu. Þá hefði hún lýsti upplifun sinni af lífshættu og hafði hún hugsanir um hvort hún myndi deyja í árásinni. Brotaþoli hefði lýst endurupplifun þar sem hún sér fyrir sér að vera stödd í íbúðinni og sérstaklega atvikið þar sem hún var tekin hálstaki, en það hefði verið það atvik sem stóð upp úr í minningunni. Vitnið sagði brotaþola hafa lýst sögu um ofbeldi en engu í líkingu við þetta atvik. 

III

Í máli þessu er ákærða gefið að sök „stórfellt brot í nánu sambandi“ með því að hafa á alvarlegan hátt ógnað lífi, heilsu og velferð brotaþola, fyrrverandi sambýliskonu sinnar, með ofbeldi, hótunum og frelsissviptingu, aðfaranótt 5. maí 2016 á heimili ákærða. Í ákærunni er obeldinu nánar lýst þannig að ákærði hafi ráðist á brotaþola, ýtt henni í gólfið, tekið hana ítrekað kverkataki og þrengt að öndunarvegi, tekið fyrir vitin á brotaþola með annarri hendi, slegið hana ítrekað í andlit og líkama, haldið henni niðri í gólfinu með báðum hnjám og slegið hana ítrekað með olnbogum í brjóstkassa, ýtt andliti hennar niður í gólfið og bitið hana í vinstri handlegg og rifið í hárið á henni. Þá er því lýst í ákærunni að meðan á ofbeldinu stóð hafi ákærði hótað brotaþola lífláti og svipt hana frelsi, en brotaþoli hafi ítrekað beðið ákærða um að fá að komast út. Er frelsissviptingin talin hafa varað í eina til tvær klukkustundir. Loks er afleiðingum árásarinnar lýst í ákæruskjali héraðssaksóknara. Háttsemi ákærða er talin varða við 1., sbr. 2. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. breytingu með 4. gr. laga nr. 23/2016.

Fyrir dómi lýsti ákærði því að samband brotaþola og D vinkonu hennar hefði legið þungt á honum. Þegar brotaþoli hefði eytt samskiptum hennar og D á Facebook hefði hann brotnað niður og lagt hendur á brotaþola. Hefði það aðallega verið þannig að hann hefði ógnað brotaþola, rifið í axlirnar á henni og heimtað að hún segði honum sannleikann. Hann hefði reynt að hræða brotaþola til að fá hana til að segja sannleikann. Viðurkenndi ákærði að hafa hrint brotaþola og slegið til hennar og hótað henni meira ofbeldi. Kvaðst ákærði ekki hafa kýlt brotaþola með krepptum hnefa, heldur notað „þykkhöndina“ af því að hann hefði ekki viljað meiða brotaþola „of mikið.“ Nánar aðspurður kvaðst ákærði hafa slegið brotaþola í andlit og líkama, hrint henni þannig að hún hefði lent í gólfið og rifið fast í hana. Meðan á átökunum stóð hefði brotaþoli sagt honum að hún héldi að hún væri samkynhneigð og að hún hefði ekki elskað hann síðan árið 2011. Þá kom fram hjá ákærða að brotaþoli hefði verið á heimili hans frá klukkan 03:30 til 07:00, en atlagan sjálf hefði staðið í 15 til 20 mínútur. Þá viðurkenndi ákærði að áverkar á bringu brotaþola og bitfar á handlegg væru eftir hann. Einnig að hafa meinað brotaþola að fara út úr íbúðinni. Þá útilokaði ákærði ekki að hann hefði rifið í hár brotaþola. Á hinn bóginn neitaði ákærði því að hafa hótað brotaþola lífláti á meðan á atlögunni stóð og að hafa tekið hana hálstaki. Útilokaði ákærði samt ekki að sést hefði á hálsi brotaþola þegar hann hefði rifið í axlirnar á henni og einnig gripið í hálsinn á henni „í hita leiksins.“ Ákærði kannaðist ekki við að hafa slegið brotaþola eftir að hún datt. Ákærði bar að flestu leyti á svipaðan veg hjá lögreglu og fyrir dómi. Greindi hann lögreglu frá því að hann hefði tryllst eftir að brotaþoli sagði honum að hún væri samkynhneigð og hefði ekki elskað hann í mörg ár. Kvaðst ákærði hafa meinað henni útgöngu úr íbúðinni og lagt á hana hendur, slegið hana og kýlt, brugðið höndum um hálsinn á henni og ætlað að drepa hana. Ætlunin hefði samt aldrei verið að drepa brotaþola, enda hefði hann þá gert það eins trylltur og hann var. Hann hefði svo hætt og sagt henni að fara.

Brotaþoli lýsti því fyrir dómi að ákærði hefði fengið æðiskast á heimili sínu og rifið í hana, tekið hana kverkataki og hent henni á gólfið. Ákærði hefði látið hana fara inn á Facebook til að hann gæti lesið yfir samtöl hennar. Hefði hann haldið henni með annarri hendi og kýlt eða slegið hana með hinni hendinni, snúið henni á hlið og sett hnéð á hana og olnbogann í brjóstkassann eða skrokkinn á brotaþola. Kvaðst brotaþoli ítrekað hafa beðið um að fá að fara af því að hún hefði verið skíthrædd, en hann hefði ekki leyft það. Kvaðst hún hafa gargað á hjálp og þá hefði ákærði stokkið á hana, haldið fyrir munn hennar og rifið hana niður til að stöðva hana. Ákærði hefði snúið henni þannig að andlitið hefði snúið niður í gólfið og við það hefðu gleraugu hennar brotnað og líkast til kvarnast upp úr tönn. Ákærði hefði rifið í hárið á henni og sagt: „Við erum hvorugt að fara héðan út lifandi.“ Brotaþoli hefði skilið þetta þannig að ákærði hefði ætlað að drepa bæði hana og sjálfan sig. Þá hefði ákærði haldið fyrir vit brotaþola og reynt að stoppa það að hún andaði. Bráð hefði af ákærða og þá hefði hún ætlað að flýja og hlaupið að útidyrahurðinni, en ekki náð að losa keðju til að opna hurðina þegar ákærði hefði náð henni og dregið hana aftur inn og ekki leyft henni að fara. Ákærði hefði þá bitið brotaþola í höndina og reyndi að brjóta putta brotaþola. Þá lýsti brotaþoli því að ákærði hefði tekið hana kverkataki þannig að hún gat ekki andað. Hún hefði samt náð smá lofti og náð að treina þetta og þá hefði ákærði gefist upp og ekki getað meira.

Í læknisvottorði A, sérfræðings á slysa- og bráðadeild Landspítalans, sbr. lið I C að framan, segir að skoðun á höfði brotaþola hafi leitt í ljós að hún var með blóð í hársverði, hárið tætingslegt og hún verið aum viðkomu alls staðar. Þá hafi brotaþoli verið stokkbólgin í andliti, einkum vinstra megin og vinstra augað sokkið. Hafi brotaþoli verið aum við þreifingu alls staðar yfir andlitsbeinum, einkum vinstra megin og með mar framanvert og hliðlægt á hálsi beggja vegna. Þá hafi verið dreifðir marblettir yfir bringu og hliðlægt hægra megin á brjóstkassanum. Einnig hafi verið dreifðir marblettir á handleggjum og höndum og stór marblettur og bitfar á vinstri framhandlegg. Vitnið sagði fyrir dómi að áverkar á hálsi brotaþola gætu samrýmst því að hún hefði verið tekin hálstaki. Þá benti sjáanlegt mar bæði framanvert og hliðlægt á hálsi til þess að tekið hefði verið nokkuð fast á hálsinum þannig að valdið hafi rofi á æðum og húðblæðingum sem bendi til að átakið hafi verið þó nokkuð. Mar á brjóstkassa gæti samrýmst því að ákærði hefði haldið brotaþola niðri með báðum hnjám og notað olnboga til að lemja hana í brjóstkassa. Einnig sagði vitnið erfitt að segja nákvæmlega til um það út frá bólgu í andliti hvort brotaþoli hefði verið slegin með krepptum hnefa eða flötum lófa. Áverkar á brotaþola bentu til þess að töluverðu afli hefði verið beitt til að valda slíkum áverkum. 

Í áliti B réttarmeinafræðings, sbr. lið I D að framan, kemur fram að margir margúlar hafi verið á andliti brotaþola við vinstra eyra, á báðum upphandleggjum og báðum framhandleggjum, við bæði brjóst, hægri mjöðm að mjaðmarblaði, á báðum sköflungum og við mjóbak. Einnig mynsturlaga margúlar báðum megin á enni að hársverði og á aftanverðum brjóstkassa rétt fyrir neðan hægra herðablað. Bitfar á vinstra framhandlegg. Brot úr hægri miðframtönn. Hafi réttarlæknisskoðun á brotaþola leitt í ljós marga höggáverka á ýmsum líkamshlutum og merki um kyrkingu með höndum. Í heild séu niðurstöður skoðunar á brotaþola samsvarandi atvikalýsingu hennar.

Upplýst er í máli þessu og ágreiningslaust að ákærði og brotaþoli voru aðfaranótt 5. maí 2016 í afmæli hjá vinkonu brotaþola í Reykjavík og fóru þaðan á milli klukkan 03:00 og 03:30 á heimili ákærða að [...] í [...] með viðkomu í verslun á leiðinni. Á heimili ákærða héldu þau áfram neyslu áfengis og höfðu samfarir. Allt var þannig í góðu til að byrja með, en þegar brotaþoli fór í sturtu hugðist ákærði nota tækifærið og skoða samskipti brotaþola og nafngreindrar vinkonu hennar á Facebook, en samskipti þeirra lágu þungt á ákærða að hans sögn. Brotaþoli hafði breytt aðgangsorði að síðunni og við það reiddist ákærði og krafðist þess af brotaþola að fá að sjá samskiptin, en brotaþoli eyddi þeim áður en til þess kom. Kvaðst ákærði hafa brotnað niður og í kjölfarið lagði ákærði hendur á brotaþola með þeim afleiðingum sem lýst er í ákærunni. Þá liggur fyrir að ákærði meinaði brotaþola að fara út úr íbúðinni og varnaði því með því að beita afli sínu. Einnig meinaði ákærði brotaþola að kalla á hjálp með því að taka fyrir munn hennar. Á endanum gafst ákærði upp og sagði brotaþola að fara. Hringt var eftir aðstoð fyrir brotaþola klukkan 06.41. Ákærða og brotaþola ber ekki saman um það hve lengi árásin stóð. Heldur ákærði því fram að hún hafi staðið yfir í 15-20 mínútur, en brotaþoli bar um það fyrir dómi að um það bil tvær klukkustundir hefðu liðið frá því ofbeldið hófst og þar til hún hafi komist út. Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið er ekki óvarlegt að álykta sem svo að brotaþoli hafi verið á heimili ákærða umrædda nótt í um 2 og ½ klukkustund og að atlaga ákærða að brotaþola hafi staðið í allt að eina klukkustund og að á þeim tíma hafi brotaþoli ekki verið frjáls ferða sinna. 

Í þinghaldi 7. júní 2017 játaði ákærði líkamsárás á brotaþola, en hafnaði því að hún ætti undir undir 218. gr. almennra hegningarlaga. Þá hafnaði ákærði því að hafa svipt brotaþola frelsi og að hafa tekið hana kverkataki og þrengt að öndunarvegi og slegið hana með olnbogum. Þá lét ákærði þess getið að brot úr hægri miðframtönn væri eldri áverki. Fyrir dómi viðurkenndi ákærði svo sem fram er komið að hafa slegið brotaþola í andlit og líkama, hrint henni þannig að hún hefði lent í gólfið og rifið fast í hana. Einnig kannaðist ákærði við að áverkar á bringu brotaþola og bitfar á handlegg væru eftir hann. Þá kvaðst hann hafa meinað brotaþola að fara út úr íbúðinni og útilokaði ekki að hann hefði rifið í hár hennar og gripið um háls brotaþola í hita leiksins. Hins vegar neitaði ákærði því að hafa hótað brotaþola lífláti meðan á atlögunni stóð. Þá kom fram hjá ákærða að hann hefði einu sinni meinað brotaþola að fara út úr íbúðinni með því að standa í vegi fyrir brotaþola og haldið í höndina á henni.

Að mati dómsins er framburður brotaþola trúverðugur um það að ákærði hafi á alvarlegan hátt ógnað lífi, heilsu og velferð brotaþola. Hefur brotaþoli gefið greinargóða lýsingu á því ofbeldi sem ákærði beitti hana í umrætt sinn sem er í öllum meginatriðum í samræmi við frásögn hennar hjá lögreglu og við skoðun brotaþola á slysa- og bráðamóttöku Landspítala-háskólasjúkrahúss og fær enn fremur stoð í áliti réttarmeinafræðings sem skoðaði brotaþola að beiðni lögreglu í kjölfar atburðarins. Í áliti hans er eins og fram er komið sérstaklega tekið fram að skoðun á brotaþola hafi leitt í ljós marga höggáverka á ýmsum líkamshlutum og merki um kyrkingu með höndum. Þá liggur fyrir að ákærði hefur að stærstum hluta játað þá háttsemi sem honum er gefin að sök. Er það niðurstaða dómsins að ekki sé óvarlegt, eins og atvikum málsins er háttað, að leggja til grundvallar framburð brotaþola og þykir sannað að ákærði hafi veist á alvarlegan hátt að brotaþola með þeim afleiðingum sem lýst er, svipt hana frelsi um stund og haldið henni nauðugri á heimili hans og hótað henni lífláti. Lýsti brotaþoli því að ákærði hefði sagt meðan á atlögunni stóð að „þau færu ekki lifandi héðan út“ og hefði hún skilið það þannig að ákærði ætlaði að drepa bæði hana og sjálfan sig. Verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem lýst er í ákæruskjali héraðssaksóknara og er þar réttilega talinn varða við 1., sbr. 2. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga, sbr. breytingu með 4. gr. laga nr. 23/2016. Um það er ekki deilt í málinu að ákærði og brotaþoli bjuggu saman hluta af árunum 2011 og 2012 og voru í nánu sambandi í um fimm  ár, en tilvitnað ákvæði 1. mgr. tekur til þess að hver sem á alvarlegan hátt ógnar lífi, heilsu eða velferð núverandi eða fyrrverandi maka síns eða sambúðaraðila eða annarra sem eru í hans umsjá, með ofbeldi, hótunum, frelsissviptingu, nauðung eða á annan hátt skuli sæta fangelsi allt að sex árum. Stórfellt brot getur varðað fangelsi allt að 16 árum, sbr. 2. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga.

IV

Ákærði er  fæddur í júlí [...]. Samkvæmt sakavottorði frá sakaskrá ríkisins hefur ákærði ekki áður sætt refsingu. Ákærði er sakfelldur fyrir stórfellt brot í nánu sambandi með því að hafa á alvarlegan hátt ógnað lífi, heilsu og velferð brotaþola sem var til þess fallið að valda brotaþola mikilli hræðslu og vanlíðan. Lýsti brotaþoli því að hún hefði óttast um líf sitt. Í vottorði C sálfræðings segir að brotaþoli hafi upplifað ofsaótta, bjargarleysi og lífshættu meðan á líkamsárásinni hafi staðið og upplifði í kjölfarið áfallastreitueinkenni sem haft hafi áhrif á daglegt líf hennar. Samsvari sálræn einkenni í kjölfar áfallsins einkennum þeirra sem upplifi alvarleg áföll á borð við líkamsárás, nauðgun, stórslys eða hamfarir. Þá liggur fyrir að ákærði setti sig í sambandi við brotaþola og aðra henni tengda eftir atvikið. Fyrir dómi bar ákærði að atlaga hans að brotaþola hefði verið framin í mikilli geðshræringu og sæi hann mjög eftir þessu. Samkvæmt framansögðu og með vísan til 1., 2., 7. og 8. töluliða 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga og 3. mgr. 70. gr. sömu laga þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði. Fyrir liggur að ákærði hefur glímt við sálræna erfiðleika og sýndi iðrun vegna atviksins. Þykir fært að ákveða að fresta fullnustu níu mánaða af refsingu ákærða og ákveða að sá hluti hennar falli niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dómsins að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

V

Réttargæslumaður brotaþola hefur krafist skaðabóta að fjárhæð 175.842 krónur úr hendi ákærða og miskabóta að fjárhæð 2.000.000 króna, eða samtals 2.175.842 krónur. Í þinghaldi 31. maí 2017 lagði réttargæslumaður fram upplýsingar um útlagðan lækniskostnað brotaþola, kostnað vegna sjúkrabíls, nýrra gleraugna og vegna lagfæringar á hári, samtals að fjárhæð 175.842 krónur. Að ósk réttargæslumanns var bókuð leiðrétting á bótakröfunni til hækkunar sem nemur fyrrgreindum útlögðum kostnaði. Sætti það ekki mótmælum af háflu ákærða að krafan kæmist að í málinu, sbr. 1. mgr. 173. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Viðurkennir ákærði bótaskyldu, en mótmælir fjárhæð kröfunnar og krefst lækkunar hennar. Fyrir liggur að ákærði veittist að brotaþola á alvarlegan hátt með grófu ofbeldi í umrætt sinn án þess þó að það hafi haft varanlegar líkamlegar afleiðingar fyrir brotaþola. Um það liggur ekkert fyrir í málinu. Svo sem rakið er í kafla IV að framan liggur fyrir vottorð C sálfræðings þar sem fram kemur að brotaþoli hafi upplifað ofsaótta, bjargarleysi og lífshættu á meðan á árás ákærða stóð og upplifði brotaþoli í kjölfarið áfallastreitueinkenni sem hafi áhrif á daglegt líf hennar.

Krafa brotaþola um greiðslu skaðabóta er tekin til greina en krafan er studd gögnum um greiðslu á þeim kostnaði sem krafist er bóta fyrir. Verður ákærða gert að greiða brotaþola 175.842 krónur í skaðbætur. Þá á brotaþoli rétt á miskabótum og er framburður hennar trúverðugur um það að hún hafi óttast um líf sitt á meðan á atlögu ákærða að henni stóð. Með þeirri háttsemi sem ákærði er sakfelldur fyrir hefur hann bakað sér skyldu til að greiða brotaþola miskabætur, sbr. b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Að því er varðar miskabótakröfu brotaþola verður að gæta þess að ekki liggja fyrir nein gögn um afleiðingar brotsins gagnvart henni, önnur en fyrrnefnt vottorð sálfræðings, þar sem segir að meðferð brotaþola sé ekki lokið. Verknaður af því tagi sem um ræðir er ótvírætt til þess fallinn að hafa áhrif á andlega heilsu þess sem fyrir honum verður. Að þessu virtu og atvikum málsins að öðru leyti þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 1.000.000 króna. Verður ákærði því dæmdur til að greiða brotaþola samtals 1.175.842 krónur. Um vexti og dráttarvexti fer svo sem í dómsorði greinir. Bótakrafan var birt ákærða samhliða birtingu fyrirkalls í málinu.

VI

Í samræmi við niðurstöðu málsins og með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað málsins. Ákærði greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 1.075.080 krónur. Einnig þóknun tilnefnds verjanda á rannsóknarstigi, Bjarna Haukssonar hrl., 94.860 krónur. Þá greiði ákærði þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Sigurðar Freys Sigurðssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 737.800 krónur. Þóknanir eru ákveðnar með virðisaukaskatti. Loks greiði ákærði 147.498 krónur í annan sakarkostnað samkvæmt yfirliti ákæruvaldsins.

Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt fyrirmæla 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Arnþrúður Þórarinsdóttir saksóknari.

Mál þetta dæma héraðsdómararnir Jón Höskuldsson, dómsformaður, Kristinn Halldórsson og Ragnheiður Bragadóttir.

D ó m s o r ð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 12 mánuði. Fresta skal fullnustu níu mánaða af refsingu ákærða og falli sá hluti hennar niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði Y 1.175.842 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. maí 2016 til 23. júní 2017, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar hdl., 1.075.080  krónur, þóknun tilnefnds verjanda, Bjarna Haukssonar hrl., 94.860 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Sigurðar Freys Sigurðssonar hdl., 737.800 krónur. Þá greiði ákærði 147.498 krónur í annan sakarkostnað.

 

Jón Höskuldsson

Kristinn Halldórsson

Ragnheiður Bragadóttir