• Lykilorð:
  • Brot gegn valdstjórninni
  • Játningarmál
  • Skilorð

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness fimmtudaginn 21. febrúar 2018 í máli nr. S-603/2018:

Ákæruvaldið

(Friðrik Smári Björgvinsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Merði Svavarssyni

(Guðmundur St. Ragnarsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 9. janúar sl., höfðaði héraðssaksóknari með ákæru 8. nóvember 2018 á hendur ákærða, Merði Svavarssyni, kt. […], […], […];

fyrir brot gegn valdstjórninni, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 29. apríl 2018, á […] í Reykjanesbæ, hrækt inn um opinn glugga lögreglubifreiðar og í andlit lögreglumannsins A, sem þar var við skyldustörf.

Telst háttsemi ákærða varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Kröfur ákærða í málinu eru þær að honum verði gerð sú vægasta refsing sem lög leyfa. Þá krefst verjandi ákærða hæfilegrar þóknunar sér til handa vegna verjandastarfans.

Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákærði hefur játað sakargiftir og var málið tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði máls og ákvörðun viðurlaga.

Forsendur og niðurstaða:

Ákærði játaði sök í málinu við fyrirtöku þess 9. janúar sl. Að mati dómsins samrýmist játning ákærða framlögðum gögnum og telst brot hans því sannað. Brot ákærða varðar við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, svo sem réttilega er vísað til í ákæru.

Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins á ákærði nokkurn sakaferil að baki. Síðast hlaut ákærði dóm 28. apríl 2016 fyrir fíkniefnalagabrot. Var honum gert að sæta fangelsi í tvo mánuði en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í tvö ár. Ákærði stóðst það skilorð.

Ákærði hefur skýlaust játað sakargiftir í málinu og horfir það honum til málsbóta. Refsing ákærða þykir að broti hans virtu réttilega ákveðin fangelsi í 30 daga. Eftir atvikum þykir mega fresta fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Með vísan til sakfellingar ákærða, sbr. 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, verður honum gert að greiða þóknun skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar lögmanns, en þóknunin þykir eftir umfangi málsins hæfilega ákveðin svo sem í dómsorði greinir.

Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Mörður Svavarsson, sæti fangelsi í 30 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar lögmanns, 126.480 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum.

 

Kristinn Halldórsson