• Lykilorð:
  • Félagsgjöld
  • Stéttarfélag

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness, miðvikudaginn 12. desember 2018, í máli nr. E-466/2018:

 

Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna

(Guðni Á. Haraldsson lögmaður)

gegn

Brunavörnum Suðurnesja bs

(Lára Valgerður Júlíusdóttir lögmaður)

 

Mál þetta, sem þingfest var 16. maí sl. og dómtekið 19. nóvember sl., var höfðað með stefnu, birtri 3. maí 2018.

            Stefnandi er Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, kt. 000000-0000, Brautarholti 30, Reykjavík. Stefndi er Brunavarnir Suðurnesja byggðasamlag, kt. 000000-0000, Hringbraut 124, Reykjanesbæ.

Stefnandi krefst þess að hið stefnda félag verði dæmt til að greiða stefnanda 403.533 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 af 54.189 krónum frá 15. desember 2017 til 15. janúar 2018 en af 131.615 krónum frá þeim degi til 15. febrúar 2018, en af 222.259 krónum frá þeim degi til 15. mars 2018 en af 312.903 krónum frá þeim degi til 15. apríl 2018 en af 403.533 krónum frá þeim degi til greiðsludags. 

            Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda en til vara að fjárkrafa stefnanda verði lækkuð. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar.

            Aðalmeðferð málsins fór fram þann 19. nóvember sl. og var málið dómtekið að málflutningi loknum. 

Málsatvik.

Stefnandi er Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Sem slíkt gætir það hagsmuna félagsmanna sinna. Stefnandi gerir kjarasamninga við vinnuveitendur félagsmanna sinna. Stefndi er byggðarsamlag sem er stofnað á grundvelli 94. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og stofnendur þess eru sveitarfélögin Reykjanesbær, Garður, Vogar og Sandgerðisbær. Sveitarfélögin framselja stefnda m.a. vald til ákvörðunar og framkvæmdar lögbundinna skyldna slökkviliða í samræmi við ákvæði laga um brunavarnir nr. 75/2000.

Á aðalþingi Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna sem haldið var 27. og 28. apríl 2017 var félagsgjald þeirra sem eru í hlutastarfi hækkað í 2,5% af heildarlaunum en það er sama hlutfall og þeir greiða sem eru í fullu starfi.

Í máli þessu er ágreiningur vegna sex félagsmanna stefnanda sem ákváðu að segja sig úr stefnanda og sækja um í Verkstjóra- og stjórnendafélagi Suðurnesja. Framangreindir aðilar sendu uppsagnarbréf til stefnanda á tímabilinu október til desember 2017. Á þessum tíma var í gildi kjarasamningur Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna sem var undirritaður 16. mars 2016 og gildir frá 1. maí 2015 til 31. mars 2019.

Stefnandi sendi stefnda bréf dagsett 18. desember 2017 þar sem krafist var félagsgjalda vegna fyrrgreindra starfsmanna á grundvelli þess að stefndi væri skuldbundinn samkvæmt kjarasamningnum og lögum til að halda eftir af iðgjaldi af launum framangreindra starfsmanna til stefnanda. Stefndi svaraði ekki bréfi stefnanda og hefur ekki greitt umþrætt iðgjöld. 

 Málsástæður og lagarök stefnanda.

Af hálfu stefnanda er því haldið fram að stefndi sé bundinn af kjarasamningi aðila sem gildir fram til 31. mars 2019. Þau sveitarfélög sem standi að stefnda séu í Sambandi íslenskra sveitarfélaga og hafi gefið því umboð til þess að semja fyrir þeirra hönd. Í þeim samningi sé eftirfarandi ákvæði í gr. 13.2.1: „LSS á rétt til þess að launagreiðandi innheimti fyrir það félagsgjöld. Félagsgjöld skulu innheimt mánaðarlega og skilað til félaganna fyrri 10. sama mánaðar.“

Stefnandi kveður að félagsmennirnir sem sögðu sig úr félaginu séu bundnir af kjarasamningum stefnanda og löglega gerðum samþykktum þar til gildandi kjarasamningur geti fyrst fallið úr gildi fyrir uppsögn, sbr. grunnreglu  2. mgr. 3. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Á því sé byggt að framangreindir starfsmenn vinni enn sömu störf og fjallað sé um í kjarasamningi stefnanda og Launanefndar sveitarfélaga. Stefnandi telur að störf þeirra hafi ekki breyst við það að þeir fóru yfir í annað stéttarfélag.

Þá byggir stefnandi á meginreglu 2. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launþega o.fl.

Stefnandi kveður að ákvæðið hafi verið túlkað af Hæstarétti Íslands með þeim hætti að greiðsluskylda sé hjá vinnuveitanda óháð skyldu eða félagsaðild viðkomandi starfsmanna. Þess vegna byggir stefnandi á því að stefnda beri að greiða félagsgjald þar til kjarasamningur hans við stefnda getur fyrst fallið niður fyrir uppsögn.

 

Þá byggir stefnandi á því að ákvæði laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna eigi við um kjarasamning hans við Samband íslenskra sveitarfélaga og vísar til 1. gr. laganna því til stuðnings. Þannig séu félagsmenn stefnanda starfsmenn sveitarfélaga, sbr. lög um brunavarnir nr. 75/2000. Stefnandi kveður að hann hafi rétt til þess að semja fyrir hönd félagsmanna sinna um gerð kjarasamninga samkvæmt 5. gr. laga nr. 94/1986. Þá kveður stefnandi að stéttarfélag sem félagsmenn stefnda hafi gengið í hafi ekki þann rétt og fullnægi ekki skilyrðum 5. gr. laga 94/1986. Stefnandi heldur því fram að starfsheitin slökkviliðsmaður og sjúkraflutningamaður séu lögvernduð starfsheiti og því falli störfin undir ákvæði laga nr. 94/1986.

Stefnandi byggir á því að samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 94/1986 skuli einungis eitt stéttarfélag hafa rétt til samningsgerðar við sama vinnuveitanda fyrir sömu starfsstétt. Stefnandi heldur því fram að stéttarfélag sem fyrrverandi félagsmenn stefnanda gengu í hafi ekki rétt til að semja um kjör slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.

Um dráttarvexti vísar stefnandi til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 og varðandi kröfu um málskostnað vísar hann til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Dómkrafa stefnanda er útreiknuð á eftirfarandi forsendum:

 

Sigurður Skarphéðinsson nóvember 2017 – mars 2018 5x24.4141                kr. 122.070.

Ómar Ingimarsson janúar – mars 2018 3x13.218                                           kr.   39.640.

Rúnar Már Bjarnason desember 2017 – mars 2018 4x11.389                        kr.   45.556.

Guðjón Herbertsson desember 2017 – mars 2018 4x11.848                          kr.    47.392.

Jóhannes S. Kristbergsson nóvember 2017 – mars 2018 5x11.769                kr.    58.845.

Jón Guðlaugsson nóvember 2017 – mars 2018 5x18.006                               kr.     90.030.

 

Samtals                                                                                                            kr. 403.533.   

Málsástæður og lagarök stefnda.

Af hálfu stefnda er málatilbúnaði stefnanda alfarið hafnað. Stefndi telur að greiðsluskylda verði ekki leidd af lögum né samningum.

Stefndi tekur fram að hvergi í málatilbúnaði stefnanda megi sjá hvernig kröfur hans um greiðslu 2,5% af launum félagsmanna séu til komnar. Stefndi kveður að stefnandi hafi ekki útskýrt hvernig fjárhæðirnar séu fengnar. Stefnandi hafi einvörðungu tiltekið að félagsgjald sl. ár hafi verið 2,5% af grunnlaunum félagsmanna. Hins vegar séu engin gögn lögð fram kröfum stefnanda til staðfestingar. Þá séu upphæðir og hlutföll félagsgjalda ekki tilgreindar í lögum stefnanda. Stefndi hafi því ekki getað gengið úr skugga um hvort krafan styðjist við lögmætar ákvarðanir um upphæð félagsgjalda eða lögmætan grundvöll að öðru leyti.

Stefndi telur að krafa stefnanda um ógreidd félagsgjöld, allt til 31. mars 2019, hvíli á misskilningi stefnanda á 2. mgr. 3. gr. laga nr. 80/1938. Stefndi túlkar málsástæðu stefnanda þannig, að stefnandi telji félagsmenn stéttarfélags áfram skuldbundna til að hlíta öllum félagsskyldum sínum gagnvart stéttarfélögum sem eru aðilar að gildum kjarasamningi, uns kjarasamningurinn getur fallið úr gildi fyrir uppsögn. Þannig séu félagsmenn sem segja sig úr stéttarfélagi ekki einungis bundnir af ákvæðum kjarasamningsins uns honum megi segja upp, heldur séu þeir einnig skuldbundnir gagnvart fyrrverandi stéttarfélagi sínu á grundvelli ákvæðisins eftir úrsögn úr félaginu, til að greiða félagsgjöld áfram til viðkomandi stéttarfélags uns segja megi kjarasamningnum upp.

Stefndi byggir á að framangreindur skilningur stefnanda á inntaki 2. mgr. 3. gr. laga nr. 80/1938 sé rangur. Stefndi telur stefnanda horfa framhjá fyrrihluta ákvæðisins sem kveður á um að meðlimur stéttarfélags hætti að vera bundinn af samþykktum félags síns og sambands þess, þegar hann er farinn úr félaginu í samræmi við reglur þess. Í niðurlagi ákvæðisins sé hins vegar kveðið á um að kjarasamningar sem félagsmaður varð bundinn af séu skuldbindandi fyrir hann, allt þar til þeir kjarasamningar gætu fyrst fallið úr gildi samkvæmt uppsögn.

Stefndi kveður að krafa stefnanda eigi rætur sínar að rekja til samþykkta stefnanda og laga félagsins. Stefndi bendir á að samkvæmt 5. gr. laganna er félagsmönnum heimilt að segja sig úr félaginu séu þeir ekki í óbættum sökum við félagið. Stefndi kveður að úrsögn félagsmanna hafi verið tekin til greina enda þótt deilt hafi verið um greiðsluskyldu þeirra. Stefndi byggir á því að uppsögn félagsmanna hafi verið samþykkt á sínum tíma.

Stefndi byggir á því að félagsmenn hafi eftir uppsögn hætt að vera bundnir af samþykktum stefnanda og lögum hans. Af þeim sökum geti stefnandi ekki með nokkru móti byggt rétt til greiðslu félagsgjalda á ákvæðinu, enda sé þar beinlínis kveðið á um að félagsmenn hans beri ekki slíka skyldu eftir úrsögn úr félaginu.

Að mati stefnda kemur sami skilningur fram í athugasemdum með frumvarpi að lögum nr. 80/1938. Þar segir: „Maður, sem segir sig úr félaginu eða fer úr því á annan hátt, heldur áfram að vera bundinn af samningum þeim, sem í gildi voru þegar hann fór úr félaginu, þangað til þeir fyrst gætu fallið úr gildi við uppsögn, þó hann að öðru leyti sé laus við félagsskyldur sínar og missi félagsréttindi sín.

Af ofangreindu orðalagi sé ljóst að þeir aðilar sem segja sig úr stéttarfélagi séu aðeins bundnir af ákvæðum kjarasamninga uns þeir geta fallið úr gildi fyrir uppsögn, en séu ekki bundnir af öðrum félagsskyldum sínum, svo sem til að greiða félagsgjöld. Einsýnt sé því að þeim félagsmönnum sem sögðu sig úr félagi við stefnanda sé óskylt að greiða félagsgjöld til stefnanda með vísan til ofangreinds ákvæðis.

Stefndi byggir á því að málsástæða stefnanda, þess efnis að stefnda beri að halda eftir og innheimta fyrir stefnanda félagsgjöld á grundvelli gr. 13.2.1 í kjarasamningi aðila, sé því sömuleiðis haldlaus, enda engin greiðsluskylda sem hvílir á félagsmönnum stefnanda eftir úrsögn þeirra. Þá sé ljóst að tilvísun stefnanda til ákvæðis 2. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1980 sé að sama skapi haldlaus, enda geti sú skylda ekki hvílt á stefnda að halda eftir iðgjöldum til stefnanda, þar sem greiðsluskylda þeirra félagsmanna sem sögðu sig úr félagi við stefnanda sé ekki fyrir hendi.

Stefndi bendir á að stefnandi byggi kröfur sínar á 5. og 6. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Stefndi bendir á að stefnandi haldi því fram að hann einn hafi rétt til að semja fyrir hönd félagsmanna sinna um gerð kjarasamninga við vinnuveitendur. Af því tilefni vill stefndi aftur vekja máls á því að allir þeir félagsmenn sem sögðu sig úr félagi við stefnanda sóttu á sama tíma um aukaaðild að stefnanda. Er réttur stefnanda til að semja fyrir hönd fyrrnefndra félagsmanna því í engu skertur, þrátt fyrir úrsögn þeirra úr félaginu. Að öðru leyti er framangreindum málsástæðum stefnanda mótmælt, enda gildi lög nr. 94/1986 ekki um kjarasamninginn. Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir þeirri fullyrðingu, en engin gögn hafi verið lögð fram henni til stuðnings.

Stefndi vekur athygli á því að í máli þessu krefjist stefnandi aðeins greiðslu félagsgjalda frá stefnda, en fjallað hafi verið um meinta greiðsluskyldu stefnda nú þegar. Stefndi sé ekki réttur aðili til að meta, fjalla um og verja hæfi Verkstjóra- og stjórnendafélags Suðurnesja til að semja um kjarasamninga fyrir hönd félagsmanna sinna og hvort skilyrðum laga sé fullnægt hvað varðar samningsforræði félagsins fyrir hönd þeirra félagsmanna sem sögðu sig úr félagi við stefnanda. Aðeins Verkstjóra- og stjórnendafélag Suðurnesja geti upplýst um það, en félagið sé hins vegar ekki aðili að málinu.

Þá beri stefnda engin skylda til þess að leggja mat á hæfi þeirra stéttarfélaga sem starfsmenn hans kjósa að ganga í, enda sé þeim heimilt að ganga í það stéttarfélag sem þeir kjósa sjálfir. Vilji stefnandi byggja á slíkum málsástæðum fyrir dómi sé nauðsynlegt að stefna Verkstjóra- og stjórnendafélagi Suðurnesja fyrir dóm til þess að leysa úr hæfi þess félags til þess að semja um kjarasamninga fyrir félagsmenn sína. Augljóst sé að fjárkröfur stefnanda gagnvart stefnda verða ekki byggðar á slíkum málsástæðum, í það minnsta ekki án samaðildar fyrrnefnds stéttarfélags að málinu.

Stefndi byggir að lokum sýknukröfu sína á því að þeim félagsmönnum sem sögðu sig úr félagi við stefnanda hafi verið það heimilt með öllu á grundvelli meginreglu íslensks réttar og 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrár Íslands og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um félagafrelsi. Stefndi byggir á því að ekki sé skylduaðild að félagi stefnanda og stefndi verði ekki krafinn um greiðslu á grundvelli aðildar fyrrnefndra félagsmanna eftir úrsögn úr félaginu.

Þá sé ljóst að túlka beri öll lagaákvæði sem skerða frelsi manna til að ganga í og úr félögum, þar með talin stéttarfélögum, með þröngum hætti. Ljóst sé því að ákvæði 2. mgr. 3. gr. laga nr. 80/1938 beri að túlka með rýmkandi hætti hvað varðar frelsi manna til þess að ganga í og úr stéttarfélögum.

Krafa stefnda um málskostnað byggist á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum ákvæði 130. gr. laganna.

Forsendur og niðurstaða.

Stefnandi krefst í máli þessu greiðslu félagsgjalda vegna félagsmanna sem sögðu sig úr félagi stefnanda. Stefnandi krefur stefnda, sem er vinnuveitandi fyrrverandi félagsmanna stefnanda, um að halda eftir félagsgjaldi til stefnanda á grundvelli 2. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1980 og greinar 13.2.1 í  kjarasamningi stefnanda. Stefnandi vísar jafnframt til grunnreglu 2. mgr. 3. gr. laga nr. 80/1938 sem fjallar um úrsögn úr stéttarfélagi. Í ákvæðinu kemur fram að meðlimur stéttarfélags hættir að vera bundinn af samþykktum félagsins og sambands þess, þegar hann samkvæmt reglum þess er farinn úr því en samningar sem hann hefur orðið bundinn af á meðan hann var félagsmaður er skuldbindandi fyrir hann, meðan hann vinnur þau störf sem samningur er um, þar til þeir fyrst gætu fallið úr gildi samkvæmt uppsögn.

Í málinu liggur ekki annað fyrir en að félagsmenn hafi sagt sig úr félaginu með bindandi hætti. Samkvæmt lögum stefnanda er það skilyrði úrsagnar að félagsmaður sé í óbættum sökum við félagið. Ekkert hefur komið fram um það í málinu að félagsmenn séu í óbættum sökum við félagið. Stefndi heldur því fram að þeir félagsmenn sem sögðu sig úr stefnanda hafi gengið í Verkstjóra- og stjórnendafélag Suðurnesja. Hefur það ekki verið véfengt af hálfu stefnanda. Stefndi heldur því einnig fram að Verkstjóra- og stjórnendafélagið hafi samningsrétt fyrir hönd þeirra félaga sem séu í Verkstjóra- og stjórnendafélaginu. Hefur stefnandi ekki hnekkt þeirri fullyrðingu. Stefndi hefur ekki andmælt því að fyrrverandi félagsmenn stefnanda sinni sömu störfum og áður. Af þeim sökum eru kjarasamningar bindandi fyrir framangreinda starfsmenn þar til þeir gætu fyrst fallið úr gildi samkvæmt uppsögn. Hins vegar eru fyrrverandi félagsmenn ekki bundnir af samþykktum félagsins og sambandi þess. Eins og kemur fram í athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum nr. 80/1938 segir að maður, sem segi sig úr félagi eða fari úr því á annan hátt, haldi áfram að vera bundinn af samningum þeim, sem í gildi voru þegar hann fór úr félaginu, þangað til þeir fyrst gætu fallið úr gildi við uppsögn, þótt hann að öðru leyti sé laus við félagsskyldur sínar og missi félagsréttindi sín.

Kröfugerð stefnanda byggist á því að greiðsluskylda sé hjá stefnda óháð félagsaðild viðkomandi starfsmanna. Í dómi Félagsdóms nr. 18/1998 kemur fram að aðilar sögðu sig úr stéttarfélagi og sóttu um aðild í öðru stéttarfélagi. Voru þeir áfram bundnir af kjarasamningi fyrra félagsins og gátu þar af leiðandi ekki krafist launa samkvæmt kjarasamningi hins nýja félags. Hins vegar var ekki hægt að krefja þá um greiðslu félagsgjalda til fyrra stéttarfélagsins. Eins og kemur fram í dómi Félagsdóms í máli nr. 1/2008, kveðnum upp 30. apríl s.á., var stefnanda óheimilt að krefja íslenska ríkið, og önnur stefnd stéttarfélög, um félagsgjöld þar sem viðkomandi starfsmenn voru komnir í annað stéttarfélag. Af þessu leiðir að aðilum er heimilt að segja sig úr stéttarfélagi þrátt fyrir að vera áfram bundnir af kjarasamningum þess félags á meðan hann er í gildi, sinni þeir áfram sömu störfum.

Stefnandi telur stefnda skuldbundinn til að greiða félagsgjald vegna framangreindra aðila á grundvelli kjarasamnings og laga nr. 55/1980. Þessu til stuðnings hefur stefnandi vísað til dóms Hæstaréttar 31. mars 2011 í máli nr. 390/2010. Í þeim dómi var talið að atvinnurekandi væri bundinn af kjarasamningi til að greiða félagsgjald til stéttarfélags án tillits til þess hvort skylda til að greiða félagsgjaldið hvíldi á launþega, sem var sýknaður af greiðslu í málinu. Þá segir í dóminum að skylda launþega til að greiða félagsgjöld til stéttarfélags óháð aðild verði ekki leidd af 6. gr. laga nr. 55/1980. Niðurstaða dómsins var hins vegar reist á 1. mgr. 1.34 í kjarasamningi sem kvað á um að útgerðarmönnum væri skylt að halda eftir af kaupi yfirmanna sem hjá þeim starfa fjárhæð, sem næmi félags- eða vinnuréttindagjaldi til viðkomandi stéttarfélags innan Farmanna- og fiskimannasambandsins, en samkvæmt 3. mgr. sömu greinar bar útgerðarmanni að standa skil á slíkum gjöldum samhliða greiðslum til styrktar-, sjúkra- og orlofsheimilissjóða.

Í þessu máli er ákvæði kjarasamnings svohljóðandi: „LSS á rétt til þess að launagreiðandi innheimti fyrir það félagsgjöld. Félagsgjöld skulu innheimt mánaðarlega og skilað til félaganna fyrir 10. dag sama mánaðar. Innheimtu má þó hafa með öðrum hætti en hér er ákveðið, ef um það er samkomulag [...].“

Grundvöllur innheimtu samkvæmt ákvæðinu er að aðili sé félagsmaður í stefnanda og það leggur ekki sjálfstæða skyldu á stefnda til þess að halda eftir félagsgjaldi óháð því hvort skyldan hvíli á félagsmanni. Ekki er því fallist á að greiðsluskylda félagsgjalda stefnda leiði af kjarasamningum aðila.

Stefnandi byggir jafnframt greiðsluskyldu stefnda á því að stefnandi sé einn bær til að semja fyrir hönd slökkviliðsmanna samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 94/1986. Eins og rakið er að framan heldur stefndi því fram að Verkstjóra- og stjórnendafélagið hafi samningsumboð fyrir félagsmenn sína. Því hefur ekki verið hnekkt af hálfu stefnanda. Verður því að hafna þeirri málsástæðu stefnanda.

Að öllu framangreindu virtu hefur stefnandi ekki sýnt fram á sjálfstæða skyldu stefnda til að greiða félagsgjöld vegna fyrrverandi félagsmanna stefnanda. Stefndi er því sýknaður af kröfu stefnanda. 

Að þessum niðurstöðum fengnum og að virtum málsástæðum aðila þykir rétt að málskostnaður falli niður.

           

            Dóm þennan kveður upp Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari.

 

Dómsorð.

Stefndi, Brunavarnir Suðurnesja bs, er sýkn í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.

 

Ástríður Grímsdóttir