• Lykilorð:
  • Kjarasamningur
  • Vinnulaun

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness föstudaginn 23. nóvember 2018 í máli nr. E-1203/2017:

Felix Felixson

(Birna Ketilsdóttir lögmaður)

gegn

Baldri Jónssyni ehf.

(Þórður Guðmundsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 26. október sl., er höfðað 28. nóvember 2017.

Stefnandi er Felix Felixson, […], […].

Stefndi er Baldur Jónsson ehf., […], […].

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru að stefndi greiði honum 769.999 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. júní 2016 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda, en til vara að dómkröfur verði lækkaðar. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar.

I

Stefnandi starfaði sem húsasmiður hjá stefnda í 36 ár. Ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur við stefnanda en stefnandi mun frá upphafi ráðningarsambandsins hafa fengið greidd laun samkvæmt kjarasamningi fyrir 40 stunda vinnuviku og fyrir vinnu utan tilskilins daglegs átta stunda vinnutíma væri þörf á því og óskað eftir slíku af stefnda. Vann stefnandi á mismunandi stöðum samkvæmt fyrirmælum stefnda, enda var starfsemi stefnda ekki einskorðuð við tiltekna starfsstöð.

Á árinu 2014 fór stefnandi að finna fyrir verk í vinstri öxl sem háði honum við vinnu. Verkir ágerðust vorið 2016 og varð stefnandi óvinnufær með öllu vegna verkja frá 2. maí 2016. Þann 3. júní 2016 gekkst stefnandi undir axlaraðgerð hjá bæklunarlækni. Var stefnandi óvinnufær vegna aðgerðarinnar allt frá aðgerðardegi fram yfir áramótin 2016/2017.

Stefnandi og þrír aðrir starfsmenn stefnda voru lánaðir í byrjun mars 2016 til byggingarfyrirtækisins V. sem þá vann við frágang og endurgerð fasteignarinnar að […] í Reykjavík. Verkið að […] átti að inna af hendi fljótt og var stefnanda tjáð að fram undan væri mikil vinna.

 

            Stefndi fullyrðir að stefnandi hafi kvartað yfir miklu vinnuálagi við vinnuna að […] og því hafi stefndi tekið ákvörðun í samráði við stefnanda um að færa stefnanda um mánaðamótin apríl/maí í annað verkefni á vegum stefnda en ekki hafi komið til þess vegna óvinnufærni stefnanda.

            Þá segir í greinargerð stefnda að fyrirkomulag við greiðslu launa og skráningu vinnutíma við verkefnið hafi verið þannig að stefndi greiddi sínum starfsmönnum laun fyrir þá vinnu sem þeir inntu af  hendi og V. greiddi stefnda fyrir lánið á starfsmönnunum. Sá starfsmaður stefnda um að taka við vinnuseðlum og skrá niður vinnutíma starfsmanna stefndu á svonefnda kaupskrá sem stefndi greiddi starfsmönnunum launin eftir.

            Samkvæmt launaseðlum fyrir tímabilið 28. mars til 9. apríl 2016 vann stefnandi 39,5 yfirvinnutíma á þeim tíma. Dagana 10. apríl til 23. apríl 2016 vann stefnandi 20 yfirvinnutíma. Samkvæmt tímaskrá sem haldin var yfir unna tíma að […] vann stefnandi sjö yfirvinnutíma í vikunni 25. apríl til og með 30. apríl 2016.

            Stefnandi fékk greidd laun í veikindaforföllum, alls 1.795.196 krónur, sem voru reiknuð samkvæmt dagvinnulaunum í þrjá mánuði. Voru laun fyrir maí 2016 reiknuð miðað við 2.618 krónur á tímann. Fullyrðir stefnandi að honum hafi ekki verið greidd full laun fyrir þann mánuð, þar sem honum hafi ekki verið reiknuð yfirvinnulaun í veikindunum.

            Með bréfi stéttarfélags stefnanda, Byggiðnar, félags byggingamanna, til stefnda 19. ágúst 2016 var þess krafist að stefndi virti kjarasamninga og greiddi stefnanda yfirvinnulaun fyrsta mánuðinn í veikindum hans. Í bréfinu er vísað til greinar 8.1.1 í kjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins annars vegar og Samiðnar – sambands iðnfélaga, fyrir hönd aðildarfélaga í málmiðnaði, byggingariðnaði og skrúðgarðyrkju hins vegar frá 1. maí 2015.  Bréfinu var ekki svarað og því sendi stéttarfélagið stefnda bréf dagsett 12. október 2016 þar sem krafa stefnanda var ítrekuð. Með bréfinu fylgdi útreikningur félagsins á kröfu stefnanda þar sem tekið var mið af þeirri yfirvinnu sem hafði verið unnin á þeim vinnustað sem stefnandi vann á í maí 2016, það er 144,5 tímum. Krafðist félagið þess fyrir hönd stefnanda að krafan, 681.173 krónur, yrði greidd eigi síðar en 28. október 2016 til að komist yrði hjá frekari innheimtuaðgerðum. Bréfinu var ekki svarað og var krafan send til innheimtu hjá lögmanni með bréfi stéttarfélagsins 25. nóvember 2016.

            Stefnda var sent innheimtubréf, dagsett 30. nóvember 2016. Lögmaður stefnda svaraði innheimtubréfinu og mótmælti kröfunni. Fullyrti stefndi að stefnandi hefði átt að vinnu á öðrum vinnustað frá maí 2016, þar sem aðeins hefði átt að vinna dagvinnu. Upplýsti stefndi ekki hvaða vinnustað væri um að ræða.

            Stefnandi andmælti skýringum stefnda með bréfi 9. janúar 2017. Þar segir að það sem máli skipti væri að stefnandi hefði mánuðina áður en hann varð frá vegna veikinda unnið þá yfirvinnu sem krafist væri. Þá var vakin athygli á því að samstarfsmenn stefnanda, sem hefðu unnið að þessu sama verki að […], hefðu unnið þar áfram út sumarið með sama hætti og áður hefði verið. Aldrei hefði verið rætt við stefnanda um að hann skyldi fara að vinna við önnur verk á öðrum vettvangi, hvorki fyrr né síðar. Stefndi svaraði ekki bréfinu og hvorki bréfi stefnanda 30. júní 2017 né ítrekun 25. ágúst 2017.   

II

Stefnandi kveðst byggja kröfu sína á ráðningarsamningi aðila og rétti stefnanda til endurgjalds fyrir vinnu sína í þágu stefnda. Þá byggi stefnandi einnig á meginreglu samningaréttar um skyldu til efnda á gerðum samningum. Ekki hafi verið gerður skriflegur ráðningarsamningur við stefnanda þrátt fyrir skyldu stefnda þar um samkvæmt grein 1.12 í kjarasamningi um skyldu vinnuveitanda til að skýra launþegum frá samningsskilmálum eða ráðningarfyrirkomulagi. Beri því að virða allan vafa um inntak ráðningarsamnings stefnanda í hag.

Stefnandi sé húsasmíðameistari og um kjör hans fari samkvæmt kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Samiðnar – sambands iðnfélaga f.h. aðildarfélaga í málmiðnaði, byggingariðnaði og skrúðgarðyrkju. Samningar einstakra launamanna um lakari kjör en þar greinir séu að engu hafandi og af þeim samningi sé stefndi bundinn, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980 og 7. gr. laga nr. 80/1938.

Stefnandi hafði starfað hjá stefnda í rúmlega þrjá áratugi þegar hann hafi orðið óvinnufær vegna meiðsla og aðgerðar á vinstri öxl. Samkvæmt ákvæði 8.1.1, sbr. einnig grein 8.1.2, í fyrrnefndum kjarasamningi hafi stefnandi átt rétt til fullra launa í veikindaforföllum í einn mánuð og í tvo mánuði á dagvinnulaunum. Með fullum launum sé í ákvæðinu átt við laun sem starfsmaður hefði sannanlega haft ef hann hefði ekki forfallast frá vinnu vegna sjúkdóms eða slyss (staðgengilslaun), sbr. grein 8.3 í kjarasamningi. Ekkert hafi bent til annars en að stefnandi myndi halda áfram störfum að […] í maí 2016, líkt og aðrir samstarfsmenn hans. Fyrir lá að verklok þar hafi verið áætluð í lok júní og starfsmenn skyldu vinna að því öllum árum að það gengi eftir. Af þeim sökum hafi vinna umfram dagvinnu verið mikil og fyrirsjánleg á þeim tíma. Aldrei hafi verið rætt um það að stefnandi myndi hverfa til annarra starfa hjá stefnda á þeim tíma og fullyrðingum í þá veru sé mótmælt sem röngum og ósönnuðum. Stefnanda hafi aldrei verið greint frá þeirri meintu ákvörðun stefnda að færa stefnanda á annan verkstað. Það hafi fyrst verið þegar stefnandi hafi krafið stefnda um greiðslu fullra launa í veikindaforföllum sem stefndi hafi borið því við. Þá liggi fyrir að samstarfsmenn stefnanda hafi unnið að verkinu að […] allt sumarið 2016, auk þess sem það sé óumdeilt að stefnandi hafði mánuðina áður en hann varð óvinnufær unnið reglulega yfirvinnu. Launaseðlar stefnanda staðfesti það, en fyrir veikindin, eða á tímabilinu frá 18. febrúar 2016 til 23. apríl 2016, hafi stefnandi unnið 74,5 yfirvinnustundir í þágu stefnda.

Stefnandi hafi verið ráðinn í fullt starf hjá stefnda. Tímakaup stefnanda í dagvinnu hafi verið 2.618 krónur og tímakaup í yfirvinnu 4.714 krónur. Vinnutímar stefnanda og samstarfsfélaga hans hafi verið skráðir sérstaklega hverju sinni og hafi sú skráning legið til grundvallar launagreiðslum. Af þessum gögnum verði ráðið að yfirvinna hafi oftar en ekki verið unnin í viku hverri, en hins vegar hafi stefndi látið undir höfuð leggjast að greiða yfirvinnu í veikindum. Þá hafi stefnda einnig láðst að greiða stefnanda laun fyrir unna yfirtíð í síðustu viku aprílmánaðar.

Krafa stefnanda um yfirvinnulaun í veikindum byggist á útreikningi Byggiðnar. Við þessa útreikninga hafi verið stuðst við launaseðla sem stefndi hafi sjálfur gefið út og tímaskráningar nánustu samstarfsmanna stefnanda, þeirra A og B, en sú tímaskrá beri með sér að yfirvinna hafi verið unnin að […] á tímabili því sem um ræði, líkt og áður hafði viðgengist, og mátti stefnandi því ætla að hafa áfram sambærilega yfirvinnu og samstarfsmenn hans. Sé því að mati stefnanda ljóst að skilyrðum kjarasamnings til greiðslu staðgengilslauna sé fullnægt og stefnda skylt að greiða kröfu stefnanda.

Krafist sé greiðslu sem nemi launum fyrir yfirvinnu staðgengils fyrir maí 2016. Samkvæmt tímaskráningu vegna maí 2016 hafi nánasti samstarfsmaður stefnanda, A, unnið samtals 135,5 yfirvinnutíma á tímabilinu 1. maí til og með 27. maí 2017. Vegna veikinda A þrjá síðustu daga þann mánuðinn sé krafa stefnanda vegna yfirvinnu fyrir tímabilið 29. maí til og með 31. maí 2017 byggð á tímaskráningu B, sem hafi unnið níu yfirvinnutíma á því tímabili. Unnar yfirvinnustundir staðgengils stefnanda verið samtals 144,5. Útreikningur á yfirvinnutímum samstarfsmanna stefnanda samkvæmt tímaskrá komi fram í ódagsettri samantekt Byggiðnar, félags byggingarmanna. Laun stefnanda fyrir yfirvinnu nemi 4.714 krónum. Samtals nemi krafa stefnanda um yfirvinnulaun í veikindum 681.173 krónum (144,5 x 4.714 krónur). 

Þá sé gerð krafa um greiðslu orlofs af öllum vangoldnum launum stefnanda. Krafa um orlof byggist á 4. kafla kjarasamningsins og ákvæðum orlofslaga nr. 30/1987. Stefnandi hafði unnið lengur en 10 ár samfellt hjá stefnda og hafði því öðlast rétt til orlofsfjár sem nemi 13,04%, sbr. 3. mgr. greinar 4.3.2.1 í kjarasamningi, enda sé það sú orlofsprósenta sem stefndi reiknaði stefnanda endranær eins og launaseðlar hans beri með sér.

Undir rekstri málsins lækkaði stefnandi dómkröfu sína vegna byggingarefnis sem stefnandi hafði fengið að taka út hjá stefnda í stað yfirvinnu sem hafði verið unnin í vikunni 25. – 30. apríl 2016. Lækkaði dómkrafan um 32.998 krónur og einnig um 13,04% orlofs á kröfuna eða um 4.302 krónur. Lækkaði stefnandi dómkröfuna um samtals 37.300 krónur. Endanleg dómkrafa stefnanda í málinu sé því 769.999 krónur auk vaxta og kostnaðar.

Krafa stefnanda sé í öllum atriðum um lágmarkskjör samkvæmt kjarasamningum, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldu-tryggingu lífeyrisréttinda, sbr. 7. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur og 2. mgr. 2. gr. orlofslaga nr. 30/1987.

Hvað lagarök varðar vísar stefnandi til meginreglna samningaréttar um skyldu til efnda samninga og vinnuréttar um réttar efndir ráðningarsamninga. Þá er einnig vísað til laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, laga nr. 30/1987 um orlof, laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur og laga nr. 27/1930 um greiðslu verkkaups. Kröfur um vexti og vaxtavexti styðjast við III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafa um málskostnað styðst við 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt á málflutnings-þóknun styðst við lög nr. 50/1988, en stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyldur og ber því nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum úr hendi stefnda.

III

Stefndi kveðst hafna því að honum beri að greiða stefnanda laun fyrir yfirvinnu fyrir tímabilið 1. til 31. maí 2016 á grundvelli ákvæðis 8.1.1 í kjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins annars vegar og Samiðnar – sambands iðnfélaga f.h. aðildarfélaga í málmiðnaði, byggingariðnaði og skrúðgarðyrkju hins vegar.

Kveðst stefndi byggja á því að stefnandi hafi í byrjun maí 2016 átt að færast yfir í annað og léttara verkefni á vegum stefnda, þar sem eingöngu yrði unnið í dagvinnu og vinnuálag minna að teknu tilliti til veikinda stefnanda. Samkvæmt meginreglu vinnuréttarins skipuleggi og stjórni atvinnurekandi vinnu starfsmanna sinna. Það sé enn fremur meginskylda starfsmanns að vinna þau störf sem hann sé ráðinn til. Á grundvelli verkstjórnarréttar síns hafi stefndi því átt rétt á að gefa fyrirmæli um tilhögun starfa stefnanda, þar með talið hvaða verk hann skyldi vinna og hvar. Ekki sé hægt að gera kröfu um að atvinnurekandi gefi slík fyrirmæli skriflega eða með öðrum sannarlegum hætti á hverju degi enda hafi mörg verkefni verið í gangi á vegum stefnda á því tímabili sem mál þetta taki til. Venjan í störfum sem þessum sé að slík fyrirmæli séu gefin munnlega, sérstaklega þegar fjöldi starfsmanna spanni á annan tug. Staðfesti fyrirliggjandi gögn um unnar stundir stefnanda í apríl 2016 að þörf hafi verið á að minnka vinnuálagið á stefnanda og af þeim sökum hafi stefndi tekið þá ákvörðun að taka stefnanda úr verkefninu fyrir annað byggingarfyrirtæki enda eingöngu lánaður þangað tímabundið. Byggi stefndi á því að það sé stefnanda að sanna það að hann myndi hafa unnið aukavinnu þá daga, sem stefnt sé út af, ef hann hefði ekki verið fjarverandi vegna veikinda.

Stefndi mótmælir þeirri staðhæfingu stefnanda að hann hafi mánuðina áður en hann hafi orðið óvinnufær unnið reglulega yfirvinnu. Frá áramótum til loka apríl 2016 hafi stefnandi unnið samtals 74,5 yfirvinnustundir, sem geri 18 yfirvinnutíma á mánuði eða tæpa hálfa yfirvinnustund á dag. Geta megi þess að stefnandi hafi ekki mætt til vinnu frá 2. janúar til 12. febrúar 2016.

Stefnandi hafi ekki verið með fasta reglubundna yfirvinnu, enda geti hún vart talist föst og reglubundin nema hún hafi verið samfelld allavega síðustu fjóra mánuði, svo sem velflestir gildandi kjarasamningar byggist á. Vinnutími fyrir fulla vinnu hafi verið 40 klukkustundir og vinnan utan tilskilins daglegs átta klukkustunda vinnutíma á dagvinnutímabili skyldi greidd samkvæmt skráningu.

Stefndi geri athugasemdir bæði við aðferðarfræðina að baki útreikningi á dómkröfu stefnanda og þann vinnustundafjölda sem lagður sé til grundvallar. Fjárhæð dómkröfunnar styðjist við yfirvinnu unna af starfsmanni stefnanda, það er A, sem hafi unnið samtals 135,5 yfirvinnutíma á tímabilinu 1. maí til og með 27. maí 2016. Þar sem A hafi verið veikur síðustu þrjá dagana í maí 2016 byggi stefnandi kröfu sína einnig á tímaskráningu annars starfsmanns, B, sem hafi unnið alls níu yfirvinnutíma þá daga sem A hafi verið veikur. Samtals geri þetta 144,5 yfirvinnustundir fyrir einn mánuð sem sé nær tvöfalt þeirri yfirvinnu sem stefnandi hafði unnið fram að þeim mánuði á árinu 2016.

Stefndi árétti að búið hafi verið að taka ákvörðun um að færa stefnanda í annað og léttara verkefni áður en hann hafi orðið óvinnufær. Það að miða við starfsmenn sem þurftu, meðal annars vegna fjarveru stefnanda, að vinna fleiri yfirvinnustundir, sé ótækt að mati stefnda og sé þessum grundvelli kröfugerðar stefnanda mótmælt. Þá sé því mótmælt, ef fallast verði á rétt stefnanda til yfirvinnulauna, að miða við fjölda yfirvinnustunda „nánasta samstarfsmanns stefnanda“. Sé með öllu óljóst að mati stefnda hvað sé átt við með því. Stefndi hafi á þessum tíma haft um 20 starfsmenn í vinnu og hafi fært menn á milli verkefna oft og tíðum og stundum oft á dag. Stefndi telji að engin rök standi til þess að miða við þessa tvo starfsmenn umfram aðra starfsmenn stefnda, hvort sem þeir teljist „nánir“ starfsmenn eða ekki, hvar sem þeirra verkstaður sé hverju sinni. Þannig liggi til dæmis fyrir að þriðji starfsmaðurinn á vegum stefnda sem hafi verið lánaður til verkefnisins, C, hafi einnig unnið yfirvinnu í maímánuði 2016. Ekki sé tekið tillit til fjölda yfirvinnustunda hans við útreikninga á dómkröfu stefnanda. Stefndi mótmælir því þeirri aðferð við útreikning á dómkröfu stefnanda að miða við þessa tvo tilteknu starfsmenn umfram aðra starfsmenn stefnda.

Stefndi kveðst benda á að meginreglan sé sú að starfsmaður eigi að vera eins settur fjárhagslega og ef forföll hefðu ekki borið að höndum. Starfsmaður eigi þannig ekki að hagnast á eigin veikindum, til dæmis vegna þess að veikindin hafi orðið til þess að aðrir starfsmenn hafi sannanlega þurft að vinna yfirvinnu. Fáist það ekki samrýmst þeim tilgangi þeirra að tryggja hagsmuni launþega sem sannarlega hafa orðið fyrir launatapi vegna forfalla frá vinnu af tilgreindum ástæðum. Önnur niðurstaða um þetta feli það í sér að stefnandi muni hafa beinan fjárhagslegan ávinning af óvinnufærni sinni.

Við útreikning á staðgengilslaunum beri að mati stefnda að miða við þau laun sem viðkomandi starfsmaður hefði sjálfur haft í tekjur að óbreyttu, en ekki hvað staðgengill hans hafði eða hefði fengið, eins og málatilbúnaður stefnanda byggist á. Beri að leggja það til grundvallar við úrlausn málsins að það hafi ekki verið ætlun stefnanda að vinna yfirvinnu á því tímabili sem krafa hans um staðgengilslaun taki til. Stefndi hafði þegar gefið stefnanda fyrirmæli um færslu í annað verkefni. Hafi þannig legið fyrir að stefnandi myndi ekki vinna við frágang að […], eins og samstarfsmenn hans, A, B og C, og að sú vinna sem stefnandi hafi átt að inna af hendi í maímánuði 2016 hafi einungis átt að fara fram í dagvinnu.

Krafa stefnda um lækkun byggist meðal annars á þeim málsástæðum sem raktar hafi verið að framan til stuðning sýknukröfu. Byggir stefndi jafnframt á því að ef fallist verði á að stefnandi eigi yfir höfuð að fá greidd yfirvinnulaun fyrir fyrsta mánuð í veikindaforföllum, þá beri að miða við meðaltal yfirvinnustunda fyrir ákveðið tímabil, til dæmis fjölda yfirvinnutíma á tímabilinu janúar til maí 2016, sem hafi samtals verið 18 á mánuði miðað við tekjur stefnanda sjálfs. Stefndi mótmæli ekki kröfu stefnanda um greiðslu orlofs verði fallist á að stefnandi eigi inni hjá stefnda vangoldin yfirvinnulaun fyrir fyrsta mánuð hans í veikindaforföllum.

Um lagarök vísar stefndi til meginreglna íslensks vinnu-, samninga- og kröfuréttar, þar á meðal um verkstjórnarrétt atvinnurekanda og hlýðniskyldu starfsmanna. Þá byggir stefndi á tilvitnuðum kjarasamningi. Krafa um málskostnað styðst við 130. gr., sbr. 129. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV

Stefnandi og D, fyrirsvarsmaður stefnda, gáfu aðilaskýrslu fyrir dómi við aðalmeðferð málsins, svo og vitnið A.

Stefnandi krefst launa fyrir yfirvinnu í veikindum sem byggð er á útreikningum stéttarfélags stefnanda, Byggiðnar, samtals að fjárhæð 769.999 krónur, að meðtöldu orlofi, auk dráttarvaxta. Er á því byggt að stefnandi eigi rétt á að fá greidda yfirvinnu sem nemur 144,5 vinnustundum. Krafa stefnda um sýknu er byggð á því að stefnandi hafi átt að færast í önnur og léttari verkefni á vegum stefnda frá byrjun maí 2016, þar sem eingöngu yrði unnið í dagvinnu og vinnuálag væri minna að teknu tilliti til veikinda stefnanda.

Ekki er um það deilt í málinu að stefnandi hafði starfað sem húsasmíðameistari hjá stefnda í tæpa fjóra áratugi þegar hann varð óvinnufær af völdum veikinda og aðgerðar á vinstri öxl. Í læknisvottorði, útgefnu 12. maí 2016, segir að stefnandi hafi verið óvinnufær með öllu frá 2. maí 2016 í ótilgreindan tíma. Þá er ekki um það deilt að um kjör stefnanda fer samkvæmt kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Samiðnar – sambands iðnfélaga, f.h. aðildarfélaga í málmiðnaði, byggingariðnaði og skrúðgarðyrkju. Fyrir liggur að stefnandi fékk greidd dagvinnulaun í veikindaforföllum í maí, júní og júlí 2016, samtals 1.795.196 krónur. Krefst stefnandi yfirvinnulauna fyrir maí 2016 eða fyrsta mánuðinn sem hann var frá vegna veikinda og krefst sama tímafjölda og nánasti samstarfsmaður hans, vitnið A, sem vann á sama vinnustað og stefnandi vann á þegar hann varð óvinnufær. Í fjarveru A vegna veikinda hans miðar stefnandi við yfirvinnustundir sem annar samstarfsmaður stefnanda, B, vann. Sem fyrr segir hafnar stefndi því að greiða stefnanda yfirvinnu í forföllum vegna veikinda hans.

Stefnandi greindi frá því fyrir dómi að hann hefði óskað eftir því við D, fyrirsvarsmann stefnda, að hann yrði fluttur í léttara starf vegna veikinda, en því hefði D neitað. Fram kom hjá D að hann og stefnandi hefðu rætt það að stefnandi sinnti léttari verkum og kvaðst D ekki muna betur en að hann hefði sagt stefnanda að hann myndi athuga það. Þá kom fram hjá D að stefnandi yrði færður í léttara verkefni að K, en ekki kom fram að stefnanda hefði verið tilkynnt um það. Vitnið A kvaðst fyrir dómi hafa heyrt það að stefnandi vildi fá flutning í annað og léttara starf en ekki að það hefði verið samþykkt. Sú fullyrðing stefnda að ákveðið hefði verið að flytja stefnanda í annað starf frá og með maí 2016, þar sem ekki væri unnin yfirvinna, fær hvorki stoð í framburði aðila né vitnisins A og þá ekki í gögnum málsins. Á stefnda hvílir sönnunarbyrði fyrir fyrrgreindri fullyrðinu. Að mati dómsins hefur stefnda ekki tekist sönnun um þetta atriði og verður ekki á því byggt við úrlausn málsins. 

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda skulu laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, vera lágmarkskjör, óháð kyni, þjóðerni eða ráðningartíma fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því er samningurinn tekur til. Þá segir að samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en almennir kjarasamningar kveði á um skuli vera ógildir. Í nefndum kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Samiðnar, grein 8.1.1, segir að starfsmenn skuli á hverju 12 mánaða tímabili halda launum í veikinda- og slysaforföllum þannig að eftir þriggja ára samfellt starf hjá sama atvinnurekanda, séu þeir einn mánuð á fullum launum og tvo á dagvinnulaunum. Samkvæmt sama kjarasamningi, grein 8.3. miðast full laun við „þau laun sem starfsmaður hefði sannanlega haft ef hann hefði ekki forfallast frá vinnu vegna sjúkdóms eða slyss (staðgengilslaun).”

Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið á stefnandi rétt á fullum launum fyrir maímánuð 2016, það er þeim launum sem hann sannanlega hefði haft ef hann hefði ekki forfallast frá vinnu vegna veikinda, svo og dagvinnulaunum í júní og júlí sama ár. Svo sem fram er komið hefur stefnandi fengið greidd dagvinnulaun fyrir mánuðina maí, júní og júlí og því varðar ágreiningur máls þessa einvörðungu hvort og þá hve mikla yfirvinnu stefnda beri að greiða stefnanda í fyrsta veikindamánuði stefnanda, það er í maí 2016. Ekki er um það deilt í málinu að stefndi hafi allan starfstímann hjá stefnda unnið í törnum og þá mikla yfirvinnu. Það telst sannað með framlögðum gögnum um tímaskráningu starfsmanna stefnda, launaseðlum stefnanda og framburði stefnanda og fyrirsvarsmanns stefnda fyrir dómi og vitnisins A. Þá telst nægilega upplýst í málinu að unnin var yfirvinna að […] í maí 2016 og mátti stefnandi því vænta yfirvinnu hefði hann ekki forfallast vegna veikinda. Er skilyrðum kjarasamnings til greiðslu staðgengilslauna því fullnægt.

Stefnandi greindi frá því að vitnið A hefði verið nánasti samstarfsmaður stefnanda, meðal annars við vinnu þeirra að […], en þangað voru þeir og fleiri starfsmenn stefnda sendir til vinnu fyrir V. Í framburði vitnisins A kom fram að það hefði unnið mikið með stefnanda. Í aðilaskýrslu D kom fram að það tíðkaðist að smiðir hans ynnu tveir og tveir saman þótt hann gæti ekki staðfest hver þeirra hafi unnið með stefnanda við verkið að […].

Vitnið A skýrði frá því fyrir dómi að það og stefnandi hefðu hafið vinnu að […] í byrjun mars 2016. Þar hefði verið „botnlaus vinna“ að kröfu verkkaupa sem vildi ljúka verkinu sem fyrst. Staðfesti vitnið að það hefði unnið þá 135,5 yfirvinnutíma í maí 2016 sem skráðir eru í málsgögnum. Um er að ræða tímabilið frá 1. maí til og með 27. maí 2016. Auk þeirra yfirvinnutíma sem vitnið A vann í maí 2016 miðast dómkrafa stefnanda við yfirvinnustundir annars starfsmanns stefnda, B, sem vann níu klukkustundir þá daga í maí 2016 þegar A var veikur.

Svo sem fram er komið þykir ósannað að stefndi hafi ákveðið að færa stefnanda í annað og léttara verkefni en hann var í að […] þegar hann varð óvinnufær. Liggur því ekki annað fyrir í málinu en það að stefnandi hefði haldið áfram störfum á sama vinnustað og unnið þar með A og öðrum starfsmönnum stefnda eins og hann hafði gert fyrir veikindin. Vitnið A neitaði því aðspurður fyrir dómi að veikindi stefnanda og fjarvera hans hefði leitt til þess að aðrir starfsmenn á vegum stefnda á staðnum hefðu þurft að auka yfirvinnu sína. Vísaði hann til þess að V. hefði fært sína starfsmenn til eftir þörfum og því hefði álagið ekki aukist á vitnið eða aðra starfsmenn stefnda. Þrátt fyrir að stefnandi eigi ekki að hagnast á veikindum sínum er að mati dómsins ótæk sú aðferð að miða yfirvinnulaun stefnanda við meðaltalsyfirvinnu eða þá yfirvinnu sem stefnandi vann sjálfur mánuðina fyrir þann tíma sem hann varð óvinnufær. Stefndi mótmælir þeirri aðferð sem stefnandi notar við kröfugerð sína í málinu og bendir meðal annars á að miða eigi staðgengilslaun við meðaltal yfirvinnustunda á ákveðnu tímabili og að teknu tilliti til allra starfsmanna stefnda í stað tveggja.

Í fyrrnefndum kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Samiðnar – sambands iðnfélaga er ekki að finna ákvæði um útreikning staðgengilslauna, en að mati dómsins þykir óvarlegt að miða staðgengilslaun nánast eingöngu við yfirvinnu eins starfsmanns stefnda, þess sem flesta tíma vann, og í fjarveru hans þess starfsmanns sem vann næstflesta yfirvinnutíma. Við mat á fjárhæð staðgengilslauna ber að horfa til þess að fleiri starfsmenn stefnda en A unnu yfirvinnu að […] í maí 2016 og eins og á stendur þykir að mati dómsins ekki óvarlegt að miða útreikning staðgengilslauna stefnanda við meðaltal unninnar yfirvinnu allra samstarfsmanna stefnanda á sama vinnustað og stefnandi vann á þegar hann varð óvinnufær, reiknað á hverju tímabili fyrir sig í maí 2016 samkvæmt svonefndri kaupskrá sem fyllt var út af starfsmanni stefnda og notuð var til greiðslu á dagvinnu og yfirvinnu starfsmanna stefnda. Meðaltalsyfirvinna í þeim mánuði sem um ræðir reiknast 108,66 klukkustundir. Samkvæmt því verður stefnda gert að greiða stefnanda 512.223 krónur (108,66 x 4.714 krónur) að viðbættu 13,04 % orlofi sem reiknast 66.794 krónur. Samtals ber stefnda því að greiða stefnanda 579.017 krónur vegna yfirvinnu í maí 2016.

Fallist er á kröfu stefnanda um upphafstíma dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu eins og í dómsorði greinir.

Eftir úrslitum málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 800.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Baldur Jónsson ehf., greiði stefnanda, Felix Felixsyni, 579.017 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. júní 2016 til greiðsludags og 800.000 krónur í málskostnað.

 

Jón Höskuldsson