• Lykilorð:
  • Börn
  • Kynferðisbrot
  • Nauðgun
  • Nálgunarbann
  • Fangelsi

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness föstudaginn 18. maí 2018 í máli nr. S-298/2017:

Ákæruvaldið

(Óli Ingi Ólason saksóknari)

gegn

Þorsteini Halldórssyni

(Guðrún Björg Birgisdóttir lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 26. apríl 2018, er höfðað af héraðssaksóknara með ákæru 30. ágúst 2017 á hendur Þorsteini Halldórssyni, kt. 000000-0000, Hamraborg 14, Kópavogi, „fyrir eftirfarandi brot gegn almennum hegningarlögum og barnaverndarlögum er beindust að A, fæddum [...]; 

1.      Fyrir kynferðisbrot, með því að hafa frá fyrri hluta árs 2015 er A var 15 ára gamall og fram til þess dags er drengurinn varð 17 ára gamall í nóvember árið 2016, ítrekað tælt hann með fíkniefnum, lyfjum og gjöfum, gefið honum peninga, tóbak og farsíma og nýtt sér yfirburði sína gagnvart drengnum vegna aldurs- og þroskamunar, til að hafa við sig samræði og önnur kynferðismök á ýmsum stöðum á höfuðborgarsvæðinu.  

Telst þetta varða við 3. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

2.      Fyrir kynferðisbrot, með því að hafa á sama tímabili og greinir í ákærulið 1 ítrekað tekið ljósmyndir af A á kynferðislegan og klámfenginn hátt og hreyfimynd af A er hann veitti ákærða munnmök sem vistað var í læstri möppu á Samsung farsíma ákærða.

Telst þetta varða við 199. gr., en til vara við 209. gr., og 1. mgr. 210. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

 

3.      Fyrir brot gegn nálgunarbanni, með því að hafa á tímabilinu 28. janúar til 13. febrúar 2017 sent A ítrekuð skilaboð í gegnum samskiptaforritið Grinder þrátt fyrir að honum væri bannað að setja sig í samband við hann með ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 25. janúar 2017 og úrskurði Héraðsdóms Reykjaness í máli R-[...]/2017. 

Telst þetta varða við 232. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

4.      Fyrir brot gegn nálgunarbanni, með því að hafa að kvöldi laugardagsins 25. febrúar 2017 verið í símasamskiptum og mælt sér mót við A í [...] og tekið hann þar upp í bifreið, sem ákærði hafði til afnota, þrátt fyrir að honum væri bannað að setja sig í samband við A eða nálgast hann á almannafæri með ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og úrskurði Héraðsdóms Reykjaness sem getið er í ákærulið 3.

Telst þetta varða við 232. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

5.      Fyrir brot gegn nálgunarbanni, með því að hafa miðvikudaginn 12., fimmtudaginn 13. og föstudaginn 14. apríl 2017 verið í símasamskiptum við A eða aðila sem ákærði taldi vera A þrátt fyrir að honum væri bannað að setja sig í samband við hann með ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og úrskurði Héraðsdóms Reykjaness sem getið er í ákærulið 3.

Telst þetta varða við 232. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Jafnframt er þess krafist að farsími af gerðinni Samsung sem notaður var til að taka ljós- og hreyfimyndir af brotaþola á kynferðislegan og klámfenginn hátt verði gerður upptækur samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 69. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu B, kt. 000000-0000 fyrir hönd A, kt. 000000-0000, sem móðir og forráðamaður hans, er þess krafist að ákærða verði gert að greiða honum miskabætur að fjárhæð 3.000.000 króna, auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 1. apríl 2015 en síðan með dráttarvöxtum skv. 9. gr. vaxtalaga, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti.“

 

Þá var sömuleiðis dómtekið 26. apríl 2018 mál sem héraðssaksóknari höfðaði með ákæru 9. mars 2018 á hendur sama ákærða

„fyrir nauðganir, með því að hafa, á tímabilinu 6. til 11. janúar 2018, á dvalarstað ákærða að [...] í Kópavogi og á gistiheimilum við [...] og að [...] í Reykjavík, haft kynferðismök, sem fólust í endaþarmsmökum og munnmökum, við A, kt. 000000-0000, í allt að 6 skipti, gegn vilja hans með því að beita hann ofbeldi og ólögmætri nauðung en ákærði svipti A sjálfræði með því að láta hann taka inn og halda að honum lyfjum og fíkniefnum þrátt fyrir að vita um fíknivanda hans og nýtti sér yfirburði sína gagnvart honum vegna aldurs- og aðstöðumunar auk þess að notfæra sér að hann gat ekki spornað við háttseminni sökum áhrifa lyfja og fíkniefna. Af þessu hlaut A roða á húð í kringum endaþarm og þreyfieymsli á mjöðmum.

Teljast brot ákærða varða við 1. og 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu A, kt. 000000-0000, er gerð krafa um greiðslu miskabóta og málskostnaðar úr hendi ákærða, skv. ákvæðum XXVI. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til meðhöndlunar við meðferð sakamáls á hendur honum. Krafan er sú að ákærða verði gert að greiða brotaþola miskabætur að fjárhæð kr. 6.000.000.-, auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 6. janúar 2018 en síðan dráttarvaxta skv. 9. gr. vaxtalaga, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.“

Fyrra málið var þingfest 4. október 2017 en hið síðara 9. mars 2018. Samkvæmt heimild í 1. mgr. 169. gr. laga nr. 88/2008 ákvað dómari að málin yrðu sameinuð og þau rekin og dæmd sem eitt mál. 

Við upphaf aðalmeðferðar játaði ákærði að hafa vistað ljósmyndir og hreyfimynd af brotaþola, sbr. 2. tölulið fyrri ákærunnar, en neitaði því að hafa sjálfur tekið þær myndir. Þá játaði hann sök samkvæmt 3. og 4. tölulið sömu ákæru. Að öðru leyti neitaði hann sök og krafðist sýknu. Þá krafðist hann þess að bótakröfum yrði vísað frá dómi, en til vara að þær yrðu lækkaðar verulega, og að málsvarnarlaun hans yrðu greidd úr ríkissjóði. 

Málsatvik

Ákæra 30. ágúst 2017

Móðir og stjúpfaðir A, brotaþola í máli þessu, komu á lögreglustöð 30. nóvember 2016 og greindu frá samskiptum hans við ókunnan mann sem þau höfðu séð í eftirlitsmyndavél hússins að [...]. Í fyrstu töldu þau að samskiptin tengdust fíkniefnaviðskiptum, en síðar hefði brotaþoli sagt móður sinni að þau væru einnig kynferðisleg. Óskuðu þau eftir því að lögreglan rannsakaði málið.

Brotaþoli var yfirheyrður af lögreglu 14. desember 2016 og greindi hann frá samskiptum sínum við ákærða. Sagðist hann hafa farið á stefnumótavefinn „einkamál.is“ í ársbyrjun 2015 og komist þar í kynni við ákærða. Kvaðst hann sjálfur hafa átt frumkvæðið að samskiptum þeirra og spurt ákærða hvort hann vildi hitta sig. Hafi ákærði fallist á það og hafi hann þá látið ákærða hafa símanúmer sitt. Síðar hafi samskipti þeirra farið fram í gegnum samskiptavefinn „snapchat“. Í fyrstu hafi þeir aðeins spjallað saman, en nokkru síðar, líklega í mars 2015 að því er brotaþola minnti, kvaðst hann hafa fallist á fyrstu kynmök með ákærða. Hafi þau átt sér stað við Hvaleyrarvatn og hafi ákærði þar haft endaþarmsmök við hann. Eftir það hefðu þeir hist reglulega, fyrst á um tveggja vikna fresti, en síðar mun oftar. Taldi brotaþoli að alls væru skiptin um þrjátíu talsins og hefði ákærði alltaf haft við hann endaþarmsmök og munnmök. Einnig kvaðst brotaþoli hafa veitt ákærða munnmök. Hefðu kynmökin farið fram á ýmsum stöðum og oftast í bíl, en einnig á heimili ákærða, á hótelherbergi og í einhverju húsi í Kópavogi. Í fyrstu tvö skiptin sagðist brotaþoli ekki hafa fengið neitt fyrir kynmökin, en eftir það hafi ákærði gefið honum tóbak, ýmis fíkniefni, lyf, peninga og tvo síma. Að auki hafi ákærði veitt honum aðgang að greiðslukorti sínu. Hafi ákærði stöðugt minnt hann á að hann stæði í skuld við sig vegna gjafanna og vildi að brotaþoli greiddi þá skuld með kynlífi.

Brotaþoli greindi einnig frá því að ákærði hefði tekið af honum ljósmyndir með símanum og væri hann nakinn á þeim myndum. Aðspurður sagðist brotaþoli hafa sagt ákærða í upphafi samskipta þeirra að hann væri 15 ára. Fram kom einnig í máli hans að hann væri gagnkynhneigður og hefði hann ekki stundað kynmök áður.

Brotaþoli var aftur yfirheyrður af lögreglu 26. janúar 2017. Fram kom þá að ákærði hefði um áramótin sett sig í samband við brotaþola í gegnum samskiptaforritið „grinder“. Í kjölfarið hafi hann beðið ákærða um að kaupa fyrir sig fíkniefni og lyfið Tramadol. Eftir það hafi þeir hist í fimm eða sex skipti og hafi ákærði haft við hann endaþarmsmök, a.m.k. í eitt skiptið. Spurður sérstaklega um myndskeið sem tekið hafði verið úr síma ákærða sagði brotaþoli að ákærði hefði tekið það á símann sem staðfestingu á því að hann skuldaði ákærða kynmök. Heyra má að brotaþoli segir þar að í dag sé 14. nóvember og skuldbindi hann sig til að klára öll skiptin fyrir áramót.

Í þágu rannsóknar málsins skoðaði lögreglan síma ákærða og brotaþola. Í síma ákærða var að finna ofangreint myndskeið. Er það hluti af mynddiski sem fylgdi málinu og sýnir einnig brotaþola veita ákærða munnmök. Á sama mynddiski er jafnframt að finna myndskeið þar sem brotaþoli og ákærði kyssast og játa hvor öðrum ást sína. Loks eru þar ljósmyndir af brotaþola, svo og ljósmyndir af rassi, getnaðarlimi og endaþarmi á ungum manni. Í síma brotaþola fundust rituð samskipti þeirra allt frá 30. maí 2016 til ársloka það ár. Tekin voru skjáskot af þeim, um 800 talsins, og fylgja þau gögnum málsins. Þar ræða þeir opinskátt um endaþarmsmök og munnmök. Kemur þar ítrekað fram að ákærði vilji hitta brotaþola og hafa við hann kynmök, langt sé um liðið og hafi brotaþoli svikið hann um kynlíf um lengri eða skemmri tíma. Brotaþoli krefur ákærða á móti um fíkniefni og lyf og lofar honum kynlífi gegn því að ákærði útvegi honum ýmis efni og lyf. Af samskiptunum má sjá að oft gætir óþolinmæði og gremju af hálfu annars aðilans hafi hinn ekki fengið það sem hann óskaði eftir. Þess á milli lýsa þeir heitum tilfinningum í garð hvor annars.

Meðal gagna málsins eru einnig afrit af tölvupóstsamskiptum milli ákærða og brotaþola frá 5. mars 2015 til 22. apríl sama ár, en gögn þessi voru lögð fram af hálfu ákærða í þinghaldi 15. mars 2018. Má af þeim sjá upphaf samskipta ákærða og brotaþola og aðdraganda að fyrstu kynmökum þeirra. Í fyrstu segist brotaþoli þar vera 17 ára gamall, en leiðréttir það þegar á líður og segist þá vera 16 ára gamall.   

Með ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 25. janúar 2017, sem staðfest var með úrskurði héraðsdóms Reykjaness 27. sama mánaðar, var ákærða gert að sæta nálgunarbanni og banni við því að setja sig í samband við brotaþola með öðrum hætti í sex mánuði.

Ákæra 9. mars 2018

Í upplýsingaskýrslu lögreglunnar, sem dagsett er 12. janúar 2018, kemur fram að 9. janúar 2018 hafi lögreglan haft afskipti af ákærða þar sem hann hafði lagt bíl sínum í Stakkholti í Reykjavík. Var brotaþoli með honum í bílnum og virtist lögreglumönnum sem hann væri í annarlegu ástandi. Hafi hann sagt þeim að ákærði og hann væru vinir og væru bara saman á rúntinum. Fram kemur að brotaþoli hafi verið með nýjan síma. Í sömu skýrslu er greint frá því að stjúpfaðir brotaþola hafi hringt í lögregluna að kvöldi 11. janúar og sagt að þau hjónin hafi verið að fá skilaboð frá brotaþola þar sem hann bæði um hjálp og vildi að hann yrði sóttur. Brotaþoli hafi fundist á horni Hrísateigs og Laugalækjar og hafi hann greint frá því að ákærði hafi dælt í sig lyfjum og verkjaði sig í endaþarminn. Samþykkti hann að fara til skoðunar á neyðarmóttöku kynferðisbrota.

Brotaþoli var yfirheyrður á slysadeild LSH að kvöldi 11. janúar 2018. Kvaðst hann hafa farið að heiman 3. janúar 2018 og dvalið fyrstu dagana hjá vini sínum að [...]. Þar hafi ákærði komist í samband við hann, líklega í gegnum „Nova-appið“, og hafi ákærði stungið upp á því að þeir hittust. Hafi ákærði sagt að hann væri með nýjan síma handa brotaþola og lyfin Xanax og Tramadol, og hafi hann fallið fyrir þessu. Ekki mundi hann alveg hvar þeir hittust, en taldi að ákærði hefði sótt hann að [...]. Hafi ákærði strax boðið honum Xanax og sagðist brotaþoli  „náttúrulega hafa tekið allt of margar töflur“. Eftir það sagðist brotaþoli lítið muna, enda væri hann búinn að vera í lyfjamóki síðan, og hefði ákærði verið að dæla þessu í hann stanslaust í fjóra daga. Þó myndi hann eftir því að þeir hefðu haldið til á gististöðum, síðast á gistiheimili við [...]. Þá sagðist hann muna eftir því að ákærði hefði tvisvar eða þrisvar haft við hann samfarir í endaþarm og fyndi hann mikið til í rassinum. Tekið er fram í skýrslu lögreglunnar að skilja hafi mátt brotaþola svo að hann hafi ekki getað spornað við þessu vegna lyfjaáhrifa. Brotaþoli sagðist hafa sent móður sinni skilaboð í gegnum „snapchat“ fyrr um kvöldið og beðið hana um að koma og hjálpa sér að flýja frá ákærða. Ákærði hefði farið út til að kaupa mat og kvaðst brotaþoli þá hafa notað tækifærið og flúið.

Hinn 15. janúar 2018 lagði brotaþoli fram kæru á hendur ákærða. Í kæruskýrslu er haft eftir honum að hann hafi farið að heiman skömmu eftir áramót eftir rifrildi við móður sína og stjúpföður þar sem hann hafði verið að taka inn einhver lyf. Sagðist brotaþoli hafa vitað að hann gæti farið til ákærða þar sem þeir voru í sambandi og hafi ákærði sagt honum að hann gæti komið til sín. Af því hafi þó ekki orðið, en þess í stað hafi brotaþoli farið til vinar síns, C, þar sem hann dvaldi í tvær eða þrjár nætur og hafi hann þar reykt gras og tekið lyfið Xanax eða Alpasam milam sem hann hafði sjálfur keypt. Tók hann fram að honum hafi fundist „geðveikt þægilegt að vera á því“ og hafi það verið besti dagur lífs hans. Þar hafi hann síðan komist í samband við ákærða á „grinder-appinu“, en ekki kvaðst hann muna hvor þeirra átti frumkvæðið að samskiptum þeirra. Tilgangurinn hafi hins vegar verið að fá fíkniefni hjá ákærða og hafi hann beðið ákærða um að hitta sig í Mjóddinni og kaupa fyrir sig Xanax og kannabis. Vinur hans, D, hefði ekið honum þangað. Taldi brotaþoli að þetta hefði verið 6. janúar 2018, en eftir þetta sagðist hann lítið muna, hann hafi verið í lyfjamóki. Kvaðst hann ekki muna eftir neinum kynmökum með ákærða. Hins vegar kvaðst hann muna eftir því er ákærði var að segja honum frá síðustu kynmökum þeirra og hafi brotaþoli þá orðið hræddur og sent móður sinni skilaboð um að ná í sig. Aðspurður sagðist brotaþoli vera viss um að ákærði hafi keypt fíkniefnin og lyfin og hafi hann beðið ákærða um það. Sjálfur kvaðst hann ekki hafa átt það mikla peninga, en verið gæti að hann hafi þó átt eitthvað. Hafi hann verið nýbúinn að fá útborgaðar 86.000 krónur, að hann minnti, en líklega hafi það þó allt verið búið þar sem hann hafi sjálfur keypt eitthvað í byrjun. Kvaðst hann hafa verið í mikilli vímu þegar hann hitti ákærða, enda hafi hann þá verið búinn að reykja. Fram kom hjá brotaþola að ákærði hefði einnig keypt handa honum síma, bol og jakkaföt. Í staðinn hafi ákærði ætlast til kynmaka.

Í gögnum málsins eru upptökur úr eftirlitsmyndavélum við Gistiheimilið [...], , frá 9. til 12. janúar 2018, úr Smáralind 8. og 10. janúar og úr Landsbankanum í Hamraborg 10. janúar 2018. Á fyrstnefndu upptökunni má sjá hvar ákærði afhendir brotaþola vafninga utan við gistiheimilið og kveikir í þeim fyrir hann. Einnig sést hvar ákærði styður brotaþola, sem er mjög reikull í spori, bæði inn í gistiheimilið og frá því. Á síðastnefndu upptökunni sést er brotaþoli gengur eða staulast inn í Landsbankann og er hann mjög óstöðugur og greinilega undir miklum áhrifum. Hann á erfitt með gang og að setjast í stól. Einnig á hann í erfiðleikum með að setja greiðslukort í hraðbankann. Fylgir hann kortinu eftir með andlitinu og talar við hraðbankann í leiðinni.

Ákærði var handtekinn 12. janúar 2018 og færður til skýrslutöku á lögreglustöð. Hann sagði að brotaþoli hefði haft samband sig og óskað eftir aðstoð sinni, þar eð búið væri að úthýsa honum eftir rifrildi við móður hans og stjúpföður. Hafi hann ákveðið að hjálpa brotaþola við að komast á rétt ról og í vinnu, og efna með því loforð sem hann hefði áður gefið um að brotaþoli gæti leitað til sín í slíkum aðstæðum. Brotaþoli hafi verið undir miklum áhrifum fíkniefna þegar þeir hittust og hafi verið vel birgur af alls kyns efnum allan tímann sem þeir voru saman. Þvertók ákærði fyrir að hafa keypt fíkniefni eða lyf fyrir brotaþola og sagði að brotaþoli hafi sjálfur átt næga peninga til að kaupa slíkt. Hafi brotaþoli sýnt sér seðlabúnt sem hann hafði vöðlað saman. Þá sagði hann að þeir hefðu stundað kynlíf í fimm eða sex skipti á þessum sex dögum og hefði brotaþoli alltaf átt frumkvæði að því. Kvaðst ákærði hafa hvatt brotaþola til að sofa mikið og ná úr sér vímunni á þann hátt. Kynmök þeirra hafi átt sér stað þegar brotaþoli var vel vaknaður og með fullri vitund og vilja hans. Ákærði neitaði því að hafa gefið brotaþola nýjan síma, en kvaðst hafa lánað honum síma sem ætlaður var dóttur ákærða sem afmælisgjöf. Fram kom einnig að ákærði hefði hitt brotaþola föstudaginn 5. janúar 2018 við bíó í Egilshöll, en brotaþoli hafi þá sagt að hann væri ekki tilbúinn. Hins vegar hafi brotaþoli beðið hann um að sækja sig daginn eftir og þá í Mjóddina, að hann minnti. Ákærði var einnig yfirheyrður af lögreglu 19. janúar og 15. febrúar 2018. Frá 12. janúar 2018 hefur hann sætt gæsluvarðhaldi.

Í skýrslu læknis, sem annaðist skoðun á brotaþola að kvöldi 11. janúar 2018, segir að brotaþoli sé undir áhrifum, en göngulag nokkuð gott. Hann sé rólegur en muni aðeins glefsur af því sem gerðist. Hafi ákærði dælt í hann töflum og misnotað hann kynferðislega. Kynmökin hafi verið um endaþarm og sé hann aumur í rassinum. Tekur læknirinn fram að ekki séu sjáanlegir áverkar á brotaþola, en hann sé aumur í mjöðmum. Við sama tækifæri voru tekin blóð- og þvagsýni úr brotaþola. Samkvæmt matsgerð Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði við HÍ, sem liggur frammi í málinu, mældist eftirfarandi í blóðsýni brotaþola: Alprazólam 110 ng/ml, MDMA 275 ng/ml, Tetrahýdrókannabínól 1,2ng/ml og Tramadól 135 ng/ml. Í matsgerðinni segir síðan: „Alprazolam er róandi og kvíðastillandi lyf af flokki benzódíazepína. Styrkur þess í blóðinu er hærri en eftir töku lyfsins í ráðlögðum lækningalegum skömmtum og gæti bent til eitrunar. Tramadól er verkjalyf af flokki ópíata. Styrkur þess í blóðinu er eins og eftir töku ráðlagðra skammta við verkjum. Niðurstöður mælinga sýna einnig að hlutaðeigandi hefur neytt MDMA og kannabisefna.“

Framburður fyrir dómi 

Ákærði sagðist hafa kynnst brotaþola þegar brotaþoli svaraði honum á stefnumótasíðunni „einkamál.is“ í byrjun mars 2015. Var brotaþoli þar skráður 19 ára, en skömmu síðar leiðrétti brotaþoli það og sagðist vera 18 ára, og enn síðar 17 ára. Þegar þeir hittust í fyrsta skiptið, undir lok [...] 2015, sagði ákærði að brotaþoli hafi verið búinn að segja honum að hann væri nýlega orðinn 16 ára og taldi ákærði að útlit brotaþola gæti svarað til þess aldurs. Síðar hafi hann komist að því að drengurinn væri 15 ára og sex mánaða. Ákærði kvaðst hafa sótt brotaþola í bíl og ekið á afvikinn stað við Hvaleyrarvatn þar sem þeir höfðu munnmök og endaþarmsmök hvor við annan. Hefði brotaþoli sjálfur lagt það til í samskiptum þeirra. Eftir þetta hafi brotaþoli hvatt til frekari samskipta og sagði ákærði að þeir hefðu hist í sama tilgangi um tveimur dögum síðar. Eftir það var misjafnt hve langur tími leið á milli samfunda þeirra, stundum voru það nokkrir dagar og stundum vikur. Hafi þeim komið vel saman, þeir hafi spjallað um ýmislegt og hafi sér þótt brotaþoli skemmtilegur og fróðleiksfús og hafi sér þótt vænt um hann. Brotaþoli hafi sóst eftir kynlífi og að þeir rúntuðu saman á bílnum. Oftast hafi kynmökin farið fram í bílnum, en einnig á öðrum stöðum. Hafi kynmökin alltaf farið fram með vilja beggja, en að frumkvæði brotaþola. Spurður um kynhneigð kvaðst ákærði vera tvíkynhneigður. 

Aðspurður um gjafir til brotaþola sagðist ákærði stöku sinnum hafa gefið honum að borða. Einnig hafi hann gefið honum inneign á síma hans og lánað honum peninga fyrir tölvuleikjum, með aðgangi að greiðslukorti sínu. Stöku sinnum hafi hann einnig látið hann hafa peninga en taldi það ekki hafa verið mikið. Stundum hafi brotaþoli endurgreitt honum í reiðufé. Hann neitaði því að þessar gjafir hafi verið bundnar því skilyrði að brotaþoli veitti honum kynmök í staðinn. Þá neitaði hann því að hafa útvegað brotaþola fíkniefni eða lyf og kvaðst heldur ekki hafa gefið honum síma. Hins vegar hefði brotaþoli um sumarið 2016 kynnt hann fyrir sölumanni sem seldi gras eða weed og kvaðst hann hafa keypt það fyrir sig í þrjú til fimm skipti, þar eð brotaþoli hefði sagt honum að slíkt væri gott við bakverkjum ákærða. Hafi brotaþoli jafnframt sagt honum að hann hefði sjálfur neytt ýmissa fíkniefna með vinum sínum. Brotaþoli hafi suðað í honum að fá hluta af þessu og hafi hann orðið við því. Sérstaklega spurður um lyfið Oxycodon eða „Oxy“ sagði ákærði að brotaþoli hafi beðið hann um að útvega sér slíkt, en ákærði hafi hafnað því og sagt að hann gæti það ekki. Ekki kvaðst hann heldur hafa útvegað brotaþola lyfið Dexomat, en brotaþoli nefnir það lyf í myndskeiði sem tekið var úr síma ákærða. Sagðist ákærði ekki einu sinni vita hvaða lyf það sé. Þá var borið undir ákærða hvernig bæri að skilja ummæli brotaþola í sama myndskeiði um að í dag sé 14. nóvember og muni hann klára öll 100 skiptin fyrir áramót, og sagði ákærði að þar væri brotaþoli að tala um kynlíf. Taldi hann að brotaþoli hefði verið að grínast og ekki hafi orðið af neinu slíku. Þá sagði ákærði að engin meining hafi heldur búið að baki orðum hans sjálfs þar sem hann ræði um efndir á samningi eða „viðaukadíl“ í samskiptum þeirra á „snapchat“. Það hafi einnig verið grín. Spurður um ferðir ákærða að heimili brotaþola kvaðst ákærði kannast við að hafa farið að heimili hans í febrúar eða mars 2016 og fært honum plastpoka, sem innihélt einhver efni sem brotaþoli hugðist neyta. Hafi hann sótt pokann til kunningja brotaþola, en kvaðst sjálfur ekki hafa vitað um innihald hans. Sagðist hann hafa sagt brotaþola að fara varlega ef þetta væru fíkniefni.

Ákærði neitaði því að hafa notfært sér brotaþola vegna aldurs og þroskamunar þeirra í því skyni að hafa kynmök við hann og ítrekaði að brotaþoli hafi alltaf átt frumkvæði að kynmökum þeirra. Á hinn bóginn kvaðst ákærði stundum hafa óskað eftir kynmökum, en brotaþoli hafi sjálfur ráðið því hvort af þeim yrði eða ekki. Þá sagði hann að brotaþoli hafi sjaldnast verið undir áhrifum áfengis eða fíkniefna þegar þeir höfðu kynmök. Yfirleitt hafi ekkert orðið af slíku þegar brotaþoli var undir áhrifum. Spurður hvort ákærði hafi veitt einhverju sérstöku athygli í fari eða hegðun brotaþola sagðist hann hafa vitað að brotaþoli væri haldinn þráhyggju. 

Ákærði viðurkenndi að hafa átt í miklum samskiptum við brotaþola á samskiptasíðunni „snapchat“ allt frá sumri 2016 og hafi brotaþoli þar gefið honum nafnið „mátti skrt“.

Ákærði var spurður um myndskeið sem afritað var úr síma hans og sýnir brotaþola veita ákærða munnmök. Sagði hann augljóst að hann hafi sjálfur ekki tekið það upp, það hafi brotaþoli gert. Um aðrar myndir, sem þar fundust og sýna rass og endaþarm á ungum manni, sagðist ákærði telja að þær væru ekki af brotaþola. Líklega hafi hann fengið þær sendar í símann.

Ákærði neitaði því að hafa brotið gegn nálgunarbanni gagnvart brotaþola, eins og hann er ákærður fyrir í 5. tölulið ákærunnar, og sagðist ekki kannast við þau samskipti sem þar eru nefnd.

Ákærði var þessu næst spurður út í atvik að baki síðari ákærunni. Hann viðurkenndi að hann og brotaþoli hafi a.m.k. í tvö, eða hugsanlega þrjú skipti á þessu tímabili, þ.e. frá 6. til 11. janúar 2018, haft gagnkvæm munnmök og endaþarmsmök. Við yfirheyrslu hjá lögreglu hafi hann þó sagt sex skipti, en við frekari umhugsun séu skiptin kannski tvö eða þrjú. Við þá yfirheyrslu hafi hann verið á Tramadól og kvíðalyfjum og kunni það að hafa ruglað hann. Sagði hann að kynmökin hafi alltaf verið að frumkvæði brotaþola og með fullu samþykki hans. Hann sagði að sér hafi stundum virst sem brotaþoli væri á einhverjum lyfjum og þá hafi hann einnig reykt eitthvað. Hins vegar hafi brotaþoli verið með fulla meðvitund þegar þeir höfðu kynmök. Hann neitaði því að hafa útvegað brotaþola eða greitt fyrir fíkniefni eða lyf fyrir hann, en sagði að brotaþoli hafi verið með tvo poka af einhverjum töflum þegar þeir hittust á laugardeginum, og hafi brotaþoli geymt annan þeirra í úlpunni. Brotaþoli hafi einnig í þrígang farið eitthvað út á meðan þeir voru saman og líklega hafi hann þá náð sér í fíkniefni og greitt fyrir þau sjálfur. Hafi hann séð seðlabúnt hjá brotaþola þegar þeir hittust. Spurður um ástand brotaþola miðvikudaginn 10. janúar, þegar brotaþoli fór í Landsbankann, sagði ákærði að ástand hans hafi þá verið slæmt og brotaþoli augljóslega í lyfjamóki. Hinu sama gegndi um ástand brotaþola þegar ákærði studdi hann inn og út af gistiheimilinu. Kvaðst ákærði aldrei fyrr hafa séð brotaþola í jafn slæmu ástandi. Að öðru leyti sagði ákærði ástand brotaþola hafa verið misjafnt og hafi hann ekki getað stjórnað neyslu hans. Hann neitaði því alfarið að hafa dælt lyfjum í brotaþola, eins og brotaþoli haldi sjálfur fram, og ítrekaði að hann hafi ekki keypt þau efni eða lyf sem brotaþoli neytti á þessum tíma.

Brotaþoli kvaðst ekki með vissu geta sagt hvort hann eða ákærði hafi í upphafi átt frumkvæði að samskiptum þeirra á samskiptavefnum „einkamál.is“ í mars 2015, en líklega hafi hann þó byrjað samskiptin og ákærði í kjölfarið sett sig í samband við hann. Hafi þeir rætt saman um að hittast og stunda samfarir og hafi hann sóst eftir því, en hann væri hvatvís. Fyrstu samfarir þeirra hafi átt sér stað við Hvaleyrarvatn í apríl 2015. Nokkru síðar hafi hann farið að biðja ákærða um að gefa sér ýmislegt, svo sem fíkniefni, tóbak, peninga og fleira, og hafi ákærði orðið við því. Einnig hafi ákærði gefið honum Oxycodon, Xanax, kannabis og nánast allt sem hann bað um. Sagðist brotaþoli hafa bent ákærða á vefsíðu þar sem hægt væri að nálgast þessi efni og hafi ákærði greitt fyrir þau og gefið honum. Þá hafi ákærði látið hann hafa þrjá síma. Í staðinn hafi ákærði sagt honum að hann yrði að veita honum kynmök og hafi hann mjög ýtt á brotaþola um endurgreiðslu með kynmökum. Taldi brotaþoli að verðmæti alls þess sem ákærði hafi gefið honum frá upphafi væri í kringum eina milljón króna, að símunum meðtöldum. Brotaþoli var einnig spurður hvort ákærði hafi vitað um innihald þeirra poka sem hann kom með heim til brotaþola og játti hann því. Sagði hann ákærða hafa keypt það eftir ábendingum hans og því hljóti hann að hafa vitað um innihaldið. Sjálfur sagðist brotaþoli ekki hafa keypt nein fíkniefni á þeim tíma er hann og ákærði áttu í samskiptum, hann hafi verið í vinnu hjá [...] og fengið þar um 60.000 krónur í laun á mánuði sem hann hafi eytt í mat og annað. Spurður um fíkniefnaneyslu fyrir kynni hans og ákærða sagðist brotaþoli tvívegis hafa neytt kannabis. 

Brotaþoli hafnaði því að hafa sjálfur tekið upp myndskeið sem er meðal rannsóknargagna og sýnir hann veita ákærða munnmök. Spurður um skýringu á orðum hans í myndskeiði, þar sem hann lofar ákærða 100 skiptum í viðbót í skiptum fyrir Dexomat, sagði hann að lyf þetta væri hóstalyf og hafi ákærði útvegað honum það, en í staðinn hafi brotaþoli lofað honum 100 skiptum af kynlífi. Fram kom í máli brotaþola að ákærði hafi alltaf átt frumkvæði að kynlífi þeirra, hann hafi ýtt á og hann látið til leiðast þar sem honum þótti gaman að láta ákærða gefa sér ýmislegt. Hann hafi líka verið fíkill. Spurður um kynhneigð sína sagðist brotaþoli vera gagnkynhneigður. Brotaþoli þvertók fyrir að ákærði hafi lánað sér símana og staðhæfði að hann hefði gefið sér þá alla.

Um atvik að baki síðari ákærunni sagðist brotaþoli hafa farið að heiman í byrjun árs og gist hjá vini sínum í rúma tvo daga þar sem þeir drukku áfengi. Þar sem hann hafi langað í fíkniefni, svo og vegna þess að hann gat ekki dvalið þar lengur, ákvað hann að hafa samband við ákærða og biðja hann um samastað. Hafi ákærði strax svarað honum og sótt hann í Mjóddina. Hann hafi síðan beðið ákærða um að kaupa fyrir sig Xanax og hafi hann beðið í bílnum á meðan ákærði keypti það. Tók hann fram að það hefði þó engan veginn dugað allan tímann. Eftir þetta kvaðst brotaþoli ekkert muna fyrr en hann vaknaði nokkrum dögum síðar. Hafi ákærði þá verið að segja honum frá síðustu kynmökum þeirra. Við það hafi hann orðið hræddur og sent mömmu sinni skilaboð um að sækja sig. Hafi hann skoðað „Google-maps“ til að átta sig á því hvar hann væri.

Spurður um lyfið Xanax sagði brotaþoli að það væri annað nafn á lyfinu Alprazólam, og kvaðst hann áður hafa prófað það. Áhrifin væru þau að minnið dytti út. Ekki kvaðst hann muna hvort ákærði hafi séð til þess að hann neytti lyfsins eða hvort hann hafi sjálfur séð um það. Hins vegar sagðist hann hafa verið ákveðinn í því í upphafi að komast í vímu. Sagði hann að ákærði hefði geymt pillurnar í jakka sínum. Vegna ástands síns taldi brotaþoli útilokað að hann hafi átt frumkvæði að kynmökum með ákærða og mundi hann ekki einu sinni eftir að þeir hefðu stundað kynmök.

Brotaþoli var spurður að því hvor þeirra, hann eða ákærði, hefði aflað fíkniefna og lyfja og greitt fyrir þau. Sagðist hann sjálfur hafa fundið á vefsíðum hvar hægt væri að nálgast efnin, en ákærði hefði hringt, sótt þau og greitt fyrir. Sjálfur kvaðst hann hafa átt einn 10.000 kall þegar þeir hittust, en man ekki í hvað hann eyddi honum, það hefði þó aldrei nægt fyrir fíkniefnum eða lyfjum. Sagði hann það rangt sem fram kæmi í lögregluskýrslu að hann hafi verið að reykja kannabis og taka Xanax hjá vini sínum áður en hann fór til ákærða. Borinn var þá undir brotaþola framburður hans hjá lögreglu 15. janúar 2018 þar sem hann sagðist hafa verið í mikilli vímu þegar ákærði sótti hann, og kvaðst hann ekki muna eftir þessu. Þá mundi hann ekki eftir að hafa farið í bíó með D, vini sínum. Ekki kvaðst hann heldur muna eftir því að hafa átt 86.000 krónur þegar hann hitti ákærða, né að hafa sjálfur keypt sér eitthvað í byrjun, eins og haft er eftir honum í sömu lögregluskýrslu. Brotaþoli var loks spurður um erindi hans í Landsbankann 10. janúar 2018 og sagðist hann ekkert muna eftir því.

Aðspurður sagðist brotaþoli þekkja lyfið Tramadol og hafi hann fyrst kynnst því þegar ákærði gaf honum það er þeir hittust einu sinni í húsbíl. Sjálfur kvaðst hann aldrei hafa keypt það, en fengið það hjá ákærða.  

Vitnið B, móðir brotaþola, var fyrst spurð út í atvik að baki 1. ákærulið í fyrri ákærunni. Hún sagðist strax á árinu 2015 hafa veitt því athygli að sonur hennar hafi verið orðinn eitthvað skrýtinn, erfiður í skapi og mætti illa í skólann. Fyrir tilviljun hafi maður hennar séð í öryggismyndavél hússins að drengurinn átti í einhverjum samskiptum við fullorðinn mann um miðjar nætur. Minnti hana að á þessum tíma hafi drengurinn verið farinn að nota fíkniefni og því hafi hún spurt hann hvort maður þessi væri að selja honum fíkniefni. Hafi hann játað því og síðar einnig að samband hans við manninn væri kynferðislegt. Í kjölfar þessa hafi hún og maður hennar tilkynnt málið til lögreglunnar. Fram kom einnig hjá vitninu að hún hefði síðar fundið debetkort ákærða í veski drengsins og hafi hún þannig séð nafn hans. Einnig hafi hún fundið í herbergi hans fullt af grasi og læknadópi, þ. á m. Oxycodon, og hefði drengurinn um síðir viðurkennt að hafa fengið þetta frá ákærða fyrir kynmök. Taldi vitnið að sonur hennar hafi ekki haft þau fjárráð að hann gæti sjálfur fjármagnað kaup á þessum efnum. Þá hafi hann logið því að henni að hann hafi unnið peninga í tölvuleik og þannig getað keypt sér farsíma.

Að því er varðar síðari ákæruna sagði vitnið að sonur hennar hefði farið til vinar síns, C, skömmu eftir áramótin. Vissi vitnið að þeir hefðu áður verið að reykja gras. Drengurinn hafi dvalið þar í einhvern tíma og verið í samskiptum við vitnið. Síðan kvaðst vitnið lítið hafa heyrt frá honum, en grunaði að hann væri að dópa, þar sem skilaboð hans hefðu stundum verið „út úr kú“. Vitnið kvaðst þá hafa ákveðið að leita að drengnum og fór að heimili C, sem sagði vitninu að brotaþoli væri farinn og hefði hann verið sóttur af einhverjum vini sínum. Eftir það sagði vitnið að hún hefði ekkert heyrt frá syni sínum fyrr en hann sendi henni skilaboð og bað um að hann yrði sóttur, hann væri hræddur og veikur og hefði ákærði verið að dæla í hann einhverjum lyfjum. Kvaðst hann ekki vita hvar hann væri, en hafi sent henni „screenshot“ úr símanum, þar sem sjá mátti hvar hann var. Í kjölfarið hafi stjúpfaðir hans og E lögreglumaður fundið drenginn. Vitnið sagðist hafa séð son sinn síðar um kvöldið og hafi hann þá verið útúrdópaður.

Vitnið F, stjúpfaðir brotaþola, sagðist fyrst hafa orðið var við samskipti stjúpsonar síns og ákærða þegar hann sá þá saman í öryggismyndavél hússins. Skömmu síðar hafi hann einnig séð á símayfirliti drengsins að einhver var að leggja inn á símareikning hans, en drengurinn hafi ekki viljað svara því hver það væri. Vitnið sagði að þau hjónin hefðu fylgst með fjármálum drengsins og hefði hann ekki haft mikla peninga til ráðstöfunar. Aðspurt kvaðst vitnið halda að brotaþoli hafi eitthvað verið farinn að fikta með fíkniefni áður en hann komst í kynni við ákærða.

Vitnið var einnig spurt um aðkomu þess að því máli sem síðari ákæran lýtur að. Kvaðst vitnið hafa frétt hjá lögreglunni að sést hefði til drengsins í bíl með ákærða 9. janúar 2018. Þau hjón hefðu þá orðið áhyggjufull og farið að spyrjast fyrir um ferðir drengsins, en ekkert orðið ágengt. Einnig kvaðst hann hafa hringt í síma ákærða og sent honum skilaboð, án árangurs. Að kvöldi 11. janúar hafi drengurinn sent mömmu sinni skilaboð og beðið hana að sækja sig, og kvaðst vitnið hafa sótt drenginn á Hrísateig. Hafi hann verið hágrátandi og skjálfandi og greinilega undir áhrifum vímuefna.

Vitnið E lögreglumaður sagðist nokkrum sinnum hafa haft afskipti af brotaþola og ákærða frá árinu 2016, þar sem foreldrar brotaþola hafi haft áhyggjur af því að drengurinn hafi um skeið verið að hitta eldri mann. Sagðist hann m.a. hafa tekið um 1.000 skjáskot af síma brotaþola, þar sem lesa mátti samskipti hans og ákærða. Einnig hafi hann tekið afrit af myndskeiði úr síma ákærða þar sem sjá má brotaþola veita ákærða munnmök. Vitnið var að því spurt hvort hann hafi skoðað það myndskeið svo vel að hann gæti kveðið upp úr um hvor þeirra, ákærði eða brotaþoli, hafi tekið það, og sagðist vitnið telja nokkuð ljóst að brotaþoli hafi haldið á símanum og tekið þetta upp. Vitnið kvaðst á hinn bóginn ekki geta sagt með vissu hvort ljósmyndir, sem fundust í síma ákærða og sýna rass, getnaðarlim og endaþarm á ungum manni, hafi verið af brotaþola, en taldi allt eins líklegt að þær hafi verið teknar af „grinder-appinu“, sem sé samskiptaforrit sem samkynhneigðir karlmenn noti.  

Vitnið var einnig spurt út í atvik samkvæmt síðari ákærunni. Sagðist vitnið hafa hitt brotaþola í bíl ákærða 9. janúar 2018. Hafi brotaþoli þá augljóslega verið undir áhrifum vímuefna. Tveimur dögum síðar, 11. janúar, hafi stjúpfaðir brotaþola hringt í hann og beðið um aðstoð við að finna brotaþola, en brotaþoli hafði þá skömmu áður sent móður sinni skilaboð og beðið um hjálp. Fundu þeir brotaþola móts við hús nr. 47 við Hrísateig, reikulan í spori, og tjáði hann þeim að brotið hefði verið á honum og væri honum illt í rassinum. Féllst hann á að fara til skoðunar á neyðarmóttöku kynferðisbrota. Taldi vitnið að brotaþoli hafi þá verið í betra ástandi en þegar hann hitti hann 9. janúar.

Vitnið G sálfræðingur kvaðst hafa verið með brotaþola í samtalsmeðferð allt frá desember 2016 til október 2017. Hafi honum verið vísað til hennar vegna gruns um kynferðisofbeldi. Kvaðst vitnið þá hafa greint hann með kvíðaeinkenni, þunglyndi og áráttu- og þráhyggjueinkenni, auk ADHD, en í því síðasttalda fælist einnig hvatvísi. Þá væri hann áhrifagjarn. Staðfesti vitnið vottorð sín frá 5. janúar og 27. mars 2018.

Vitnið H hjúkrunarfræðingur sagðist hafa tekið á móti brotaþola á neyðarmóttökunni að kvöldi 11. janúar 2018. Hafi skoðun á honum farið fram með venjubundnum hætti. Hann hafi verið þreyttur og undir áhrifum vímuefna, en ekki reikull í spori. Erfitt hafi hins vegar reynst að ná athygli hans, auk þess sem frásögn hans hafi verið nokkuð óskýr.   

Vitnið I lögreglumaður sagðist hafa rætt við brotaþola á neyðarmóttökunni að kvöldi 11. janúar 2018. Hafi brotaþoli lítið munað eftir atvikum, en minnti þó að ákærði hefði tvisvar eða þrisvar haft við hann samfarir. Spurður um ástand brotaþola sagði vitnið að hann hafi virkað sem undir einhverjum áhrifum og verið sljór eða flatur og átt erfitt með að koma fyrir sig orði. Þá hefði hann kvartað undan eymslum í rassinum og átt erfitt með að standa upp.

Vitnið J lögreglumaður var spurð um þau lyf sem fundust í bíl ákærða eftir handtöku, og þá sérstaklega lyfið Alprazólam. Hún sagði að fundist hafi umbúðir af lyfinu í bílskottinu og megi af þeim sjá að pakkinn hafi innihaldið 30 töflur, 10 töflur í þremur spjöldum. Aðeins tvö spjöld hafi þó fundist, eða 20 töflur. Sagði vitnið að ákærði hafi leyst lyfið út um kl. 15.30 11. janúar 2018.

Vitnið K, barnalæknir og barna- og unglingageðlæknir, sagði að brotaþola hafi verið vísað í meðferð til hennar af heimilislækni í mars 2016 og væri hann enn til meðferðar hjá henni. Hefði hún greint brotaþola með áráttu- og þráhyggjuröskun og ADHD.  

Vitnið L læknir kvaðst hafa skoðað brotaþola á Neyðarmóttöku LSH 11. janúar sl. Sagði hún hann hafa verið samvinnuþýðan, en virst undir einhverjum áhrifum, þó ekki í annarlegu ástandi. Hafi hann ekki munað atvik vel, en kvartað undan eymslum í mjöðmum og í kringum endaþarm. 

Vitnið M, sviðsstjóri á Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði við HÍ, var spurð um niðurstöður matsgerðar sem hún vann vegna rannsóknar á þvag- og blóðsýni brotaþola. Sagði hún að Alprazólam væri kvíðastillandi og róandi lyf, MDMA væri örvandi, ólöglegt ávana- og fíkniefni í flokki amfetamíns, Tetrahýdrókannabínól væri hið virka efni í kannabis og Tramadól væri sterkt verkjalyf af flokki ópíata. Sagði hún að styrkur Alprazólam í blóði brotaþola hefði mælst hár, eða 110 ng/ml, og styrkur MDMA hefði einnig verið nokkuð mikill. Aðspurt sagði vitnið að lyfið Alprazólam gengi undir heitinu Xanax í Bandaríkjunum og væri það lyfseðilsskylt hér á landi, svo og lyfið Tramadól. Lyfið Alprazólam væri mikið misnotað hér á landi. Vitnið kvaðst þekkja lyfið Oxycodon eða „Oxy“, það væri ópíat, sterkt verkjalyf og skylt morfíni. 

Vitnið D kvaðst vera vinur brotaþola og hafi þeir kynnst í meðferð á [...] í [...]. Sagðist hann hafa sótt brotaþola á bíl sínum í janúarmánuði síðastliðnum og hafi brotaþoli þá verið hjá vini sínum í [...]. Hafi þeir ekið um og farið saman í bíó í [...]. Brotaþola hafi leiðst myndin og farið út í hléi, og haft á orði að hann ætlaði að fara með vini sínum. Neitaði vitnið því að hann sjálfur eða brotaþoli hafi neytt fíkniefna á meðan þeir voru saman. Ekki kvaðst vitnið heldur hafa séð á brotaþola að hann væri undir áhrifum þegar vitnið náði í hann, en þó hafi hann grunað brotaþola um að hafa neytt einhverra fíkniefna skömmu áður en þeir hittust. Spurður hvort brotaþoli hafi haft poka með sér eða einhvern farangur, þegar vitnið sótti hann til vinar hans, kvaðst vitnið ekki minnast þess. Þá sagðist vitnið ekki hafa séð að brotaþoli væri með mikla peninga á sér, eða peningabúnt, og taldi víst að brotaþoli hefði þá sýnt sér það og montað sig af því. Hins vegar sagðist vitnið ekki hafa talið brotaþola í neinum peningavandræðum.

Vitnið C sagði að brotaþoli hefði dvalið hjá honum í tvo eða þrjá daga í janúar, en síðan hefði frændi brotaþola sótt hann og hafi hann ekki komið aftur. Hann neitaði því að þeir hafi notað fíkniefni á meðan brotaþoli dvaldi á heimili hans. Ekki kvaðst vitnið muna eftir því að brotaþoli hafi tekið með sér poka eða annað þegar hann yfirgaf heimilið.

Ekki er ástæða til að rekja framburð annarra vitna sem gáfu skýrslu fyrir dómi.

Niðurstaða

I

Ákæra 30. ágúst 2017

Fyrir liggur í máli þessu að brotaþoli átti frumkvæði að samskiptum við ákærða í ársbyrjun 2015 á stefnumótavefnum „einkamál.is“. Í fyrstu spjölluðu þeir aðeins saman, en í mars það ár lagði brotaþoli til að þeir hittust og hafði þá á orði að hann langaði til að prófa munnmök og endaþarmsmök. Fyrir dómi sagðist brotaþoli vera hvatvís og kynni það að skýra frumkvæði hans að samskiptum við ákærða. Fyrstu kynmök þeirra áttu sér stað við Hvaleyrarvatn í Hafnarfirði í apríl 2015, að því er næst verður komist, og mun ákærði þar hafa haft endaþarmsmök við brotaþola. Var brotaþoli þá 15 ára gamall, en hann er fæddur [...]. Í tölvupóstsamskiptum, sem ákærði lagði fram og geymir samskipti hans og brotaþola frá 5. mars til 22. apríl 2015, má sjá að brotaþoli segist í fyrstu vera 17 ára gamall, en leiðréttir það síðar og segist vera 16 ára gamall. Í sömu gögnum er einnig að finna nokkrar ljósmyndir, m.a. af getnaðarlimum beggja og endaþarmi brotaþola. Fyrir dómi sagði ákærði að brotaþoli hafi á stefnumótavefnum verið skráður 19 ára gamall. Síðar hafi hann leiðrétt það og sagst vera 18 ára, enn síðar 17 ára og loks 16 ára. Síðar kvaðst ákærði hafa komist að því að brotaþoli væri 15 ára og sex mánaða. Samkvæmt því vissi ákærði um réttan aldur brotaþola í [...] 2015. Sjálfur var ákærði þá 54 ára gamall og því 39 ára aldursmunur á honum og brotaþola.

Eftir fyrstu kynmök hittust brotaþoli og ákærði reglulega, og var haft eftir brotaþola hjá lögreglu að alls hafi þeir frá upphafi til nóvemberloka árið 2016 hist í um 30 skipti til þess að stunda kynmök. Hefði ákærði haft við hann munnmök og endaþarmsmök, en brotaþoli veitt ákærða munnmök. Munu kynmökin hafa átt sér stað á ýmsum stöðum á höfuðborgarsvæðinu, oft í bíl sem ákærði hafði til umráða. Fyrir dómi sagði ákærði að brotaþoli hefði strax eftir fyrstu kynmök þeirra hvatt til frekari samskipta og hefði sá síðarnefndi sóst eftir kynlífi og alltaf átt að því frumkvæði. Stöku sinnum sagðist ákærði hafa gefið brotaþola að borða, einnig hafi hann gefið honum inneign á síma hans og lánað honum fyrir tölvuleikjum með aðgangi að greiðslukorti sínu. Þá viðurkenndi hann að hafa nokkrum sinnum látið brotaþola hafa peninga, en taldi það ekki mikið. Brotaþoli bar hins vegar fyrir dómi að hann hefði skömmu eftir fyrstu kynmök þeirra farið að biðja ákærða um að gefa sér ýmislegt, svo sem fíkniefni, tóbak, peninga og fleira, og hefði ákærði orðið við því. Hið sama kemur fram í skýrslu brotaþola hjá lögreglu 14. desember 2016. Fyrir dómi sagði brotaþoli að ákærði hefði einnig gefið honum lyfin Oxycodon og Xanax og látið hann hafa þrjá síma. Sagðist brotaþoli hafa bent ákærða á vefsíðu þar sem hægt væri að nálgast þessi efni og hefði hann keypt þau og gefið sér. Ákærði hefur á hinn bóginn staðfastlega neitað því að hafa útvegað brotaþola fíkniefni og lyf eða gefið honum síma. Fyrir dómi viðurkenndi hann þó að brotaþoli hefði komið honum í samband við sölumann sem seldi gras eða weed og hefði hann keypt það til eigin nota í þrjú til fimm skipti. Brotaþoli hefði suðað í honum að fá hluta af því og kvaðst ákærði hafa látið það eftir honum. Þá viðurkenndi ákærði að hafa í febrúar eða mars 2016 komið með plastpoka að heimili brotaþola, en poki þessi innihélt einhver efni að sögn ákærða. Kvaðst hann hafa sótt pokann til kunningja brotaþola að hans beiðni, en neitaði því að hafa vitað um innihald hans. Fyrir dómi sagðist brotaþoli þess fullviss að ákærði hafi vitað um innihald pokans, ákærði hafi keypt efnin eftir ábendingum hans og því hljóti hann að hafa vitað um innihaldið. Fyrir dómi neitaði brotaþoli því að hafa sjálfur keypt fíkniefni eða lyf, enda hefði hann á þessum tíma aðeins haft um 60.000 krónur í laun á mánuði og hafi hann eytt þeim í mat og annað. Fær það stoð í framburði móður og stjúpföður brotaþola, sem báru fyrir dómi að þau hjónin hefðu fylgst með fjármálum brotaþola og hefði hann haft takmörkuð fjárráð.

Meðal gagna málsins eru afrit af „snapchat“ samskiptum brotaþola og ákærða á tímabilinu frá 30. maí 2016 til ársloka það ár, en eins og fram er komið afritaði lögreglan þau úr síma brotaþola. Eru þau mikil að vöxtum og telja um 800 skjáskot. Einnig afritaði lögreglan gögn úr síma ákærða og var þar að finna ljósmyndir af brotaþola, ljósmyndir af getnaðarlimi, rassi og endaþarmi á ungum manni, svo og myndskeið af brotaþola og ákærða þar sem sjá má brotaþola veita ákærða munnmök. Á einu myndskeiðanna má einnig heyra brotaþola lofa ákærða að klára öll 100 skiptin fyrir áramót gegn því að ákærði útvegi honum Dexomat. Síðar segir brotaþoli að í dag sé 14. nóvember og lofi hann ákærða að klára öll skiptin á morgun. Bæði brotaþoli og ákærði viðurkenndu fyrir dómi að með „skiptum“ væri átt við kynmök. Ákærði sagðist hins vegar telja að brotaþoli hafi þar verið að grínast, enda hefði ekki orðið af þeim kynmökum. Við lestur á þessum „snapchat“ samskiptum þykir hafið yfir allan vafa að ákærði átti ekki aðeins mun oftar frumkvæði að kynmökum, heldur tældi hann einnig brotaþola til fylgilags við sig með peningum og ýmsum fíkniefnum, svo sem weed, kannabis og MDMA, auk lyfsins Oxycodon, eða „Oxy“, en ákærði útvegaði þau og greiddi fyrir að ósk brotaþola. Í staðinn ætlaðist hann til og gerði kröfu um kynmök af hálfu brotaþola. Sjá má að hann nauðar nær látlaust í brotaþola um kynmök og minnir á allt sem hann hafi gert fyrir brotaþola og gefið honum undanfarna 14 eða 15 mánuði. Endurtekið segir hann brotaþola ósanngjarnan í sinn garð og að brotaþoli standi ekki við loforð sín um að veita honum kynmök sem hann hafi lofað. Sjá má þar einnig að brotaþoli færist ósjaldan undan þrábeiðni ákærða um kynmök, kveðst ýmist ekki nenna þeim svo oft, vera veikur eða þurfa að sinna öðrum erindum.

Með vísan til ofanritaðs og fyrirliggjandi rannsóknargagna, svo og að teknu tilliti til trúverðugs framburðar brotaþola, þykir fram komin lögfull sönnun fyrir sekt ákærða samkvæmt 1. tölulið ákærunnar. Er háttsemi hans þar rétt heimfærð til refsiákvæða.

Eins og greint er frá hér að ofan afritaði lögreglan gögn úr síma ákærða og fundust þar ljósmyndir af brotaþola, svo og ljósmyndir af getnaðarlimi, rassi og endaþarmi á ungum manni. Einnig fannst þar myndskeið sem sýnir brotaþola veita ákærða munnmök. Ákærði hefur viðurkennt að hafa vistað bæði ljósmyndirnar og myndskeiðið í síma sínum en neitar því að hafa sjálfur tekið myndirnar. Brotaþoli fullyrti hins vegar fyrir dómi að ákærði hefði tekið upp áðurnefnt myndskeið.

Fyrir dómi sagði E lögreglumaður, en hann annaðist afritun úr síma ákærða, að nokkuð ljóst væri að brotaþoli hafi haldið á símanum og tekið efnið upp. Hins vegar kvaðst hann ekki geta sagt með vissu hvort fyrrnefndar ljósmyndir væru af brotaþola, en taldi líklegra að þær væru teknar af „grinder-appinu“. Að teknu tilliti til þessa hefur ákæruvaldinu ekki tekist að færa sönnur á að ákærði hafi tekið upp umrætt myndskeið, né þær ljósmyndir sem lýst er í þessum ákærulið og sagðar af brotaþola. Verður ákærði því sýknaður af þeirri háttsemi. Á hinn bóginn verður hann sakfelldur fyrir að hafa slíkar myndir í vörslum sínum og varðar sú háttsemi hans við 1. mgr. 210. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Jafnframt verður fallist á kröfu ákæruvaldsins um upptöku á farsíma ákærða af gerðinni Samsung, þar sem umræddar myndir voru vistaðar, sbr. 1. mgr. 69. gr. a. sömu laga.  

Ákærði hefur gengist við brotum gegn nálgunarbanni samkvæmt 3. og 4. tölulið ákærunnar og er ekki ástæða til að draga í efa að játning hans sé sannleikanum samkvæm. Er því sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem þar greinir og er rétt heimfærð til refsiákvæða. Á hinn bóginn neitar ákærði að hafa verið í símasamskiptum við brotaþola eða aðila sem hann taldi vera brotaþola á tímabilinu frá 12. til 14. apríl 2017, sbr. 5. tölulið sömu ákæru, en á þeim tíma sætti ákærði einnig nálgunarbanni gagnvart brotaþola. Fyrir dómi kvaðst hann ekki kannast við þau samskipti.

Meðal rannsóknargagna eru ljósmyndir af símaskilaboðum í síma brotaþola frá 12., 13. og 14. apríl 2017. Við yfirherslu hjá lögreglu sagðist brotaþoli þess fullviss að ákærði hafi sent honum skilaboð 12. apríl, enda hafi hann sjálfur svarað þeim og þekki einnig orðanotkun ákærða. Í síðari skilaboðum, frá 13. og 14. apríl, koma hins vegar fyrir lýsingar sem benda eindregið til þess að ákærði hafi einnig sent þau. Að auki eru þau boð send úr sama síma og notaður var 12. apríl 2017. Í því ljósi telst sannað að ákærði hafi hér verið að verki og með samskiptum þessum brotið á ný gegn nálgunarbanni. Verður hann því einnig sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök samkvæmt 5. tölulið ákærunnar og er þar rétt heimfærð til refsiákvæða.

Ákæra 9. mars 2018

Ákærði hefur bæði hjá lögreglu og fyrir dómi haldið því fram að brotaþoli hafi verið undir miklum áhrifum fíkniefna og vel birgur af alls kyns efnum þegar þeir hittust 6. janúar 2018 og allan tímann sem þeir eyddu saman eftir það. Sagði hann að brotaþoli hefði haft með sér tvo poka af einhverjum töflum þegar þeir hittust fyrst. Neitar hann því að hafa útvegað brotaþola fíkniefni eða lyf og sagði að brotaþoli hefði sjálfur í þrígang farið eitthvað á meðan þeir voru saman, og taldi líklegt að hann hefði þá verið að ná í fíkniefni. Sagði hann að brotaþoli hafi átt næga peninga þegar þeir hittust. Þá neitar ákærði því að hann hafi látið brotaþola taka inn lyf og fíkniefni og haldið þeim að honum meðan á samvistum þeirra stóð. Með vísan til þessa krefst hann sýknu af þeirri háttsemi sem hann er ákærður fyrir samkvæmt þessari ákæru. Hins vegar viðurkennir hann að hafa haft munnmök og endaþarmsmök við brotaþola á þeim tíma og hafi þau verið gagnkvæm, en ætíð að frumkvæði brotaþola.

Eins og áður greinir sagði brotaþoli í kæruskýrslu sinni hjá lögreglu að hann hafi verið í mikilli vímu þegar hann hitti ákærða umrætt sinn, enda hafi hann þá verið búinn að reykja gras hjá C, vini sínum. Einnig kom fram að hann hefði þar tekið lyfið Xanax eða Alpasam milam. Í sömu skýrslu sagðist hann ekki hafa átt mikla peninga þótt hann hafi þá verið nýbúinn að fá útborgaðar um 86.000 krónur, og tók fram að líklega hafi það allt verið búið þar sem hann hafi sjálfur keypt eitthvað í byrjun. Fyrir dómi sagði brotaþoli aftur á móti það rangt að hann hafi verið að reykja gras og taka lyf hjá vini sínum og kvaðst hvorki muna eftir því að hafa verið í mikilli vímu þegar ákærði sótti hann né að hafa keypt sér eitthvað í byrjun. Þá sagðist hann aðeins hafa átt einn 10.000 kall þegar hann og ákærði hittust, en mundi ekki í hvað hann eyddi þeim peningum. Bætti hann við að þeir hefðu þó aldrei nægt fyrir fíkniefnum eða lyfjum.

Þótt framburður brotaþola um ástand sitt eða peningaeign þegar hann hitti ákærða laugardaginn 6. janúar 2018 hafi í nokkrum atriðum verið óljós, breytir það engu um þá staðreynd að hann var undir miklum áhrifum fíkniefna og/eða lyfja allan þann tíma sem hann var samvistum við ákærða, þ.e. frá 6. til 11. janúar 2018. Nægir þar að vísa til nánast algers minnisleysis brotaþola allt frá því hann hitti ákærða og þar til hann vaknaði nokkrum dögum síðar og yfirgaf hann, en einnig til framburðar móður brotaþola, lögreglumanna, sem ræddu við hann í bíl ákærða 9. janúar og síðar á neyðarmóttöku, auk læknis og hjúkrunarfræðings á neyðarmóttöku. Upptökur úr eftirlitsmyndavélum við Gistiheimilið [...] og í Landsbankanum sýna jafnframt afar bágborið ástand hans, en þar má sjá hann skjögra um sem ósjálfbjarga, ráðvillt og útúrdópað ungmenni. Í fyrra myndskeiðinu má einnig sjá ákærða afhenda brotaþola vindling og aðstoða hann við að kveikja í honum og síðar einnig í pípu. Ákærði hefur reyndar viðurkennt að ástand brotaþola hafi á stundum verið slæmt og kvaðst hann aldrei fyrr hafa séð brotaþola í jafn slæmu ástandi og á áðurnefndum myndskeiðum. Í því ljósi sætir furðu að hann hafi ekki gripið til ráðstafana til að koma brotaþola til aðstoðar, svo sem að koma honum undir læknishendur, hafa samband við foreldra hans eða með því að koma í veg fyrir frekari neyslu hans. Sú skýring ákærða að hann hafi ekki getað stjórnað neyslu brotaþola þykir léttvæg þegar þess er gætt að í skýrslu sinni hjá lögreglu eftir handtöku kvaðst ákærði hafa viljað hjálpa brotaþola við að komast á rétt ról og í vinnu, og efna með því loforð sem hann hefði áður gefið um að brotaþoli gæti leitað til sín í erfiðum aðstæðum. Bendir aðgerðarleysi ákærða að þessu leyti til þess að honum hafi fremur hugnast neysla brotaþola og bjargarleysi hans. Ekki þykir heldur trúverðugur framburður ákærða um að hann hafi ekki útvegað eða keypt þau efni og lyf sem brotaþoli neytti á þessum tíma. Er þá ekki aðeins litið til fyrri samskipta brotaþola og ákærða á árunum 2015, 2016 og í ársbyrjun 2017, sbr. hér að framan, heldur einnig til þess að brotaþoli hringdi í ákærða í þeim tilgangi að biðja hann um samastað og að kaupa fyrir sig Xanax og kannabis, þar sem hann langaði til að komast í vímu. Og þótt brotaþoli kunni að hafa átt einhverja peninga þykir dóminum ljóst að þeir hafi dugað skammt fyrir neyslu hans þann tíma sem hann dvaldi hjá ákærða.

Við komu brotaþola á Neyðarmóttöku LSH að kvöldi 11. janúar 2018 voru tekin úr honum blóð- og þvagsýni til rannsóknar. Samkvæmt framlagðri matsgerð mældist í blóðsýni hans mikið magn af lyfinu Alprazólam, en auk þess lyfið Tramadól, MDMA og kannabis. Við leit í bifreið ákærða fannst m.a. lyfið Alprazólam, sem ávísað hafði verið á hann, en eins og fram er komið gengur það lyf einnig undir heitinu Xanax. Þá kom fram í skýrslu ákærða fyrir dómi að hann tæki inn lyfið Tramadól. Brotaþoli sagði fyrir dómi að hann þekkti það lyf frá fyrri kynnum hans og ákærða, en sagðist sjálfur aldrei hafa keypt það. Hafi hann fengið það hjá ákærða.

Með vísan til framanritaðs þykir hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði útvegaði og hélt að brotaþola fíkniefnum og lyfjum allan þann tíma sem hér um ræðir og varð þess valdandi að brotaþoli man nánast ekkert, allt frá upphafi til loka samvista þeirra.  

Í lögregluskýrslu, sem tekin var af brotaþola á Neyðarmóttöku LSH að kvöldi 11. janúar 2018, sagðist hann muna eftir því að ákærði hefði tvisvar eða þrisvar haft við hann endaþarmsmök, og fyndi hann til í rassinum. Við yfirheyrslu hjá lögreglu 15. janúar 2018, og síðar hér fyrir dómi, kvaðst brotaþoli hins vegar ekki muna eftir neinum kynmökum með ákærða. Kvaðst hann aðeins muna eftir því er hann vaknaði og hafi ákærði þá verið að segja honum frá síðustu kynmökum þeirra. Við það hafi hann orðið hræddur og ákveðið að fara frá ákærða. Í kjölfarið sendi hann móður sinni skilaboð og bað um að hann yrði sóttur. Ákærði sagði aftur á móti hjá lögreglu 12. janúar 2018 að hann og brotaþoli hefðu stundað kynlíf í fimm eða sex skipti á tímabilinu frá 6. til 11. janúar og hafi það alltaf verið að frumkvæði brotaþola. Fyrir dómi sagði hann hins vegar að skiptin hafi verið tvö eða þrjú og hafi þeir haft gagnkvæm munnmök og endaþarmsmök, en alltaf að frumkvæði brotaþola. Spurður um misræmi í fjölda skipta sem hann greindi frá, annars vegar fyrir dómi og hins vegar hjá lögreglu, sagðist hann hafa verið á Tramadól og kvíðalyfjum þegar hann var yfirheyrður hjá lögreglu, og kynni það að hafa ruglað hann. Þar sem ekki nýtur við frekari upplýsinga um fjölda kynmaka en að ofan greinir verður lagt til grundvallar að ákærði hafi í allt að þrjú skipti haft kynferðismök við brotaþola. Í ljósi ástands brotaþola, eins og því hefur verið lýst hér að ofan, verður að teljast ótrúverðugt að brotaþoli hafi átt frumkvæði að kynmökum. Þvert á móti er það álit dómsins að sannað sé að ákærði hafi notfært sér ástand brotaþola til að hafa við hann kynmök þegar brotaþoli var ófær um að sporna við þeim sökum áhrifa lyfja og fíkniefna. Verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi. Engu breytir um sakarmatið þótt brotaþoli hafi sjálfur lýst því yfir að hann hafi „náttúrulega tekið allt of margar töflur“ þegar ákærði afhenti honum Xanax í upphafi samskipta þeirra. Brot ákærða teljast því réttilega heimfærð til 1. og 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 

II

Ákærði er fæddur í [...] árið 1960 og hefur ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað. Þegar samskipti hans og brotaþola hófust í [...] 2015 var hann 54 ára gamall, en brotaþoli 15 ára og fjögurra mánaða. Á þeim var því 39 ára aldursmunur.

Samkvæmt því sem að framan er rakið hefur ákærði verið fundinn sekur um gróf og langvarandi kynferðisbrot gegn brotaþola, sem þá var barn á viðkvæmu þroska- og mótunarskeiði, auk brota á nálgunarbanni. Nýtti hann sér yfirburði sína vegna aldurs- og þroskamunar og tældi hann til kynferðismaka með peningum og öðrum gjöfum, auk fíkniefna og lyfja. Hann er einnig fundinn sekur um nauðgun, með því að hafa í allt að þrjú skipti haft endaþarmsmök við brotaþola þegar hann gat ekki spornað við þeim sökum áhrifa fíkniefna og lyfja. Á ákærði sér engar málsbætur. Með vísan til alls framanritaðs, og að teknu tilliti til 1., 2., 6. og 7. töluliðar 1. mgr. 70. gr., 77. gr. og c-liðar 195. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, verður refsing hans ákveðin fangelsi í sjö ár. Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald sem hann hefur sætt frá 12. janúar 2018.

Í málinu liggja fyrir tvær einkaréttarkröfur brotaþola, annars vegar að fjárhæð 3.000.000 króna vegna fyrri ákærunnar, en hins vegar að fjárhæð 6.000.000 króna vegna seinni ákærunnar. Fyrri krafan er sett fram af móður brotaþola fyrir hans hönd, vegna ungs aldurs hans. Sú síðari er sett fram af brotaþola sjálfum, en brotaþoli er nú 18 ára gamall og því lögráða. Þar sem málin voru sameinuð verða kröfurnar dæmdar í einu lagi.  

Eins og áður greinir voru brot ákærða alvarleg og til þess fallin að valda brotaþola andlegri vanlíðan. Nýtti ákærði sér yfirburðastöðu sína gangvart brotaþola, bæði að því er aldur og þroska varðar, en brotaþoli var barn að aldri þegar fyrstu kynni hans og ákærða hófust. Á þeim tíma ánetjaðist hann sterkum fíkniefnum sem ákærði lét honum í té fyrir kynmök. Segist brotaþoli í dag vera fíkill af þessum sökum og fær það stoð í framburði móður hans og stjúpföður. Á árinu 2017 var hann vistaður á Stuðlum vegna vanlíðunar og áhættuhegðunar. Samkvæmt vottorðum frá K barnageðlækni og G sálfræðingi er brotaþoli greindur með kvíðaeinkenni, þunglyndi og áráttu- og þráhyggjuröskun, auk ADHD. Þá er hann áhrifagjarn. Allt frá árinu 2016 hefur hann verið í samtalsmeðferð hjá þeim og er enn.

Ljóst þykir af ofanrituðu að ákærði hefur unnið til bótaábyrgðar gagnvart brotaþola. Með vísan til b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 verður hann dæmdur til að greiða brotaþola miskabætur, sem ákveðnar verða að álitum vegna beggja málanna, samtals 3.500.000 krónur. Ber fjárhæðin vexti eins og nánar greinir í dómsorði. 

Með vísan til 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 68. gr. laga nr. 49/2016, verður ákærði dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar. Er þar um að ræða málsvarnarlaun til skipaðs verjanda ákærða, Guðrúnar Bjargar Birgisdóttur lögmanns, 4.448.000 krónur, auk ferðakostnaðar lögmannsins, 66.000 krónur, þóknun til skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Diljár Mistar Einarsdóttur lögmanns, 1.796.000 krónur, auk sakarkostnaðar lögreglu, 665.103 krónur. Við ákvörðun þóknunar til lögmanna hefur verið tekið tillit til greiðslu virðisaukaskatts.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan. Tók hann við meðferð málsins 3. janúar 2018.

 

D ó m s o r ð:

Ákærði, Þorsteinn Halldórsson, sæti fangelsi í sjö ár. Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald sem ákærði hefur sætt frá 12. janúar 2018.

Upptækur skal gerður farsími ákærða af gerðinni Samsung.

Ákærði greiði A 3.500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. maí 2015 til 9. apríl 2018, en dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðrúnar Bjargar Birgisdóttur lögmanns, 4.448.000 krónur, auk ferðakostnaðar lögmannsins, 66.000 krónur, þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Diljár Mistar Einarsdóttur lögmanns, 1.796.000 krónur, og 665.103 krónur í annan sakarkostnað.

 

Ingimundur Einarsson