• Lykilorð:
  • Ráðningarsamningur
  • Riftun
  • Sjómenn
  • Vinnulaun

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness þriðjudaginn 9. október 2018  í máli nr. E-70/2018:

Stefán Örn Snæbjörnsson

(Jónas Haraldsson lögmaður)

gegn

Nesfiski ehf.

(Jóhannes Bjarni Björnsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 11. september sl., er höfðað 5. janúar 2018.

Stefnandi er Stefán Örn Snæbjörnsson, […], […].

Stefndi er Nesfiskur ehf., Gerðavegi 32, Garði.

Stefnandi krefst þess að stefndi greiði honum 955.106 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. júlí 2017 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar.

I

Stefnandi var ráðinn sem háseti á frystitogara stefnda, […]. Undirritaði stefnandi tímabundinn ráðningarsamning sem ber heitið „Ráðningar-samningur – ein veiðiferð.“ Fór stefnandi til veiða með skipinu 16. júlí 2017 og lét af störfum 26. júlí 2017 þegar skipið landaði í Hafnarfirði.

Aðila greinir nokkuð á um málsatvik. Óumdeilt er að stefnandi hafði ekki áður unnið til sjós. Segir stefndi að ráðning stefnanda hafi verið til reynslu eins og ævinlega þegar skipverji fari í eina veiðiferð. Illa hafi gengið fyrir stefnanda að tileinka sér öguð vinnubrögð og hafi hann reynst ódugandi til þeirra verka sem honum voru falin. Hafi stefnandi ekki lagt sig fram og ekki leitast við að skila verki sínu eins og til var ætlast af óvönum háseta. Mætti stefnandi ítrekað of seint á vakt og setti af stað brunakerfi skipsins oftar en einu sinni með reykingum.

Einnig er óumdeilt að skip stefnda fór til hafnar á Ísafirði vegna þess að einn skipverja slasaðist um borð. Í framhaldinu var ákveðið að sigla skipinu til Hafnarfjarðar til löndunar. Heldur stefnandi því fram að það hafi verið millilöndum, en stefndi segir að löndunin á þeim tíma hafi komið til út af því að skipið hafi verið komið með góðan afla og of mikinn afla til að fara aftur til veiða. Hafi skipið þá verið á veiðum í 11 daga sem sé nærri lagi að vera meðaltími veiðiferða skipsins, en tími milli landana sé 14 dagar. Í stefnu segir að Hafnarfjörður sé venjubundinn löndunar-staður skipsins, en þangað hafi einnig verið farið til að taka afleysingamann um borð í stað hins slasaða. 

Áður en skipið kom til Hafnarfjarðar kallaði skipstjórinn stefnanda til sín upp í brú og ræddi við hann um starfið og kynnti honum það mat að starfið hentaði honum ekki. Myndi hann því ekki halda áfram störfum á skipinu. Stefnandi segir að fundið hafi verið að starfi hans sem skipstjórinn hafi talið óviðunandi auk þess sem hann hefði tvisvar mætt of seint og sett brunakerfi skipsins af stað með því að reykja rafrettu. Hafi skipstjórinn tilkynnt stefnanda að hann yrði ekki meira um borð vegna þessara atvika og væri ráðningu hans lokið eftir að til Hafnarfjarðar yrði komið. Í greinargerð stefnda er þessari lýsingu á atvikum mótmælt og sagt að því fari fjarri að nokkrum skipverja yrði vikið úr starfi af þessum ástæðum einum. Þá segir að skipstjórinn hafi ekki skilið samtal sitt við stefnanda og viðbrögð hans á annan hátt en að hann hefði engar athugasemdir við að ráðningu hans lyki þegar skipið kæmi til hafnar og hafi hann talið að það væri í fullu samræmi við ráðningu til reynslu.

Í framhaldi af fyrrnefndu samtali skipstjórans og stefnanda undirritaði stefnandi ráðningarsamning, en aðilum ber ekki saman um tilefni þess. Lýsir stefnandi því svo að stýrimaður á skipinu hafi komið að máli við sig og sagt sér að undirrita ráðningarsamning, sem væri eins og sá fyrri og allir í áhöfninni væru búnir að skrifa undir og samþykkja. Átti samningurinn ekki að breyta neinu frá fyrri ráðningar-samningi. Kveðst stefnandi hafa skrifað undir samninginn í trausti þess og talið að verið væri af hálfu stefnda að ljúka við að fylla ráðningarsamninginn út, enda hafi stefnandi verið búinn að ráða sig frá 16. júlí 2017 í eina veiðiferð, en ekki hluta af einni veiðiferð. Stefndi lýsir þessum atvikum þannig að ekki hafi verið búið að ganga frá ráðningarsamningi við stefnanda, en hann hefði fyrir sitt leyti fyllt út aflagt form af samningi um eina veiðiferð sem ekki hefði verið samþykkt eða undirritað af hálfu skipstjóra. Þegar skipstjóri hefði athugað með ráðningu stefnanda hefði komið í ljós að samningur þar um hefði verið ófrágenginn. Hefði ráðningarsamningur verið gerður sem afmarkaði ráðningu stefnanda eins og um hafði verið samið á milli þeirra með upphafsdegi og lokadegi til staðfestingar á ráðningu stefnanda og ráðningartímanum. Hafnar stefndi því að stefnandi hafi verið þvingaður eða blekktur til að skrifa undir samninginn. 

Með bréfi 13. október 2017 til stefnda krafðist stefnandi greiðslu eftirstöðva launa vegna veiðiferðar á skipi stefnda á tímabilinu frá 16. júlí til 11. ágúst 2017. Taldi stefnandi að um 900.000 krónur vantaði upp á að hann hefði fengið alla veiðiferðina greidda. Í bréfinu er vísað til þess að stefnanda hafi verið vikið úr skipsrúmi áður en ráðningartíma hans hefði verið lokið. Stefnandi ítrekaði kröfuna með bréfi 2. nóvember 2017. Í svarbréfi stefnda 24. nóvember 2017 segir að stefnandi hafi starfað hjá stefnda í einni veiðiferð. Hafi stefnandi skrifað undir tímabundna ráðningu frá 16. júlí til 26. júlí 2017. Ekki hafi verið skrifað undir aðra samninga um ráðningu stefnanda. Einnig er vísað til þess að veiðiferð skipsins númer 11 hafi lokið 26. júlí 2017 og veiðiferð númer 12 hafist í kjölfarið. Ekki hafi verið talið skynsamlegt að bjóða stefnanda vinnu í síðarnefndu veiðiferðinni. 

II

Stefnandi byggir á því að ráðningarsamningi stefnanda hafi verið rift og hafi sú riftun verið ólögmæt, þar sem stefnanda hafi verið vikið úr skiprúminu, áður en ráðningartími hans var liðinn og án þess að hann fengi áður aðvörun um að endurtæki það sig, sem hann hafi verið sakaður um, þá yrði hann rekinn. Vegna þessarar ólögmætu riftunar stefnda á tímabundnum ráðningarsamningi stefnanda sé gerð krafa um greiðslu eftirstöðva launa vegna síðari hluta veiðiferðarinnar á tímabilinu frá 26. júlí til 11. ágúst 2017. Vísar stefnandi í þessu sambandi til lögskráningarvottorðs áhafnarinnar. Stefnandi hafi fengið greitt fyrir tímabilið 16.-26. júlí 2017, en upp á vanti um það bil 900.000 krónur til að hann hafi fengið alla veiðiferðina greidda. 

Stefnandi kveðst þannig krefjast eftirstöðva launa vegna síðari hluta og eftirstöðva veiðiferðarinnar, sem hafi staðið yfir tímabilið 16. júlí til 11. ágúst 2017. Í 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 segi að sé skipverja vikið úr skiprúmi áður en ráðningartími hans sé liðinn eigi hann rétt á kaupi þann tíma sem mælt sé fyrir um í 9. gr., nema um annað hafi sérstaklega verið samið, eins og hafi verið í þessu tilviki, það er tímabundin ráðning í eina veiðiferð skipsins.

Stefnandi byggi á því að hann hafi verið ráðinn tímabundinni ráðningu sem háseti á […] í eina veiðiferð skipsins, sem hafi hafist 16. júlí 2017. Stefnandi hafi starfað á skipinu til 26. júlí 2017, en þá hafi ráðningu hans verið rift, þegar millilöndun hafi átt sér stað, en veiðiferðinni hafi lokið 11. ágúst 2017.

Ljóst sé að ástæða riftunar á ráðningarsamningi stefnanda hafi verið sú að skipstjórnarmönnum skipsins hafi fundist að stefnandi væri ekki standa sig við vinnu. Jafnframt að stefnandi hefði sofið yfir sig í tvígang og sett brunabjöllu í gang vegna reykinga. Þessar ástæður einar og sér með eða án undanfarandi áminningar, sem ekki hafi átt sér stað í þessu tilviki, hefðu þó ekki veitt heimild til lögmætrar riftunar á ráðningarsamningi stefnanda. Riftunin hafi þegar af þessum ástæðum verið ólögmæt og marklaus, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 24. gr. sjómannalaga nr. 35/1985.

Stefnandi hafi gert tímabundinn ráðningarsamning fyrir eina veiðiferð. Skipstjórnarmenn skipsins hafi ranglega og gegn betri vitund fengið stefnanda til að gangast undir nýjan tímabundinn ráðningarsamning, þar sem ráðningartímanum hafi lokið við millilöndun 26. júlí 2017 í stað upphaflegs ráðningarsamnings, sem hafi verið ráðning í eina veiðiferð, sem hafi lokið 11. ágúst 2017. Hafi það verið gert undir röngu yfirskyni, sbr. frásögn skipstjóra skipsins í tölvupósti 14. september 2017, þar sem segir meðal annars að stefnandi hafi verið látinn skrifa undir rangt skjal, aflagt form þar sem bankaupplýsingar og starfslok komi ekki fram. Með þessu móti var stefnandi blekktur til að skrifa undir þennan nýja ráðningarsamning undir því yfirskini að verið væri að fylla út endanlega upphaflegan ráðningarsamning, þar sem stefnandi samþykkir að láta af störfum strax við millilöndunina. Vísar stefnandi til 30., 31., 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga í þessu sambandi og kveðst mótmæla því sem röngu, að hann hafi samþykkt að hætta fyrirvaralaust og launalaust á skipinu í stað þess að fá að starfa út ráðningartíma sinn í vellaunuðu starfi.

Um hafi verið að ræða starfslok án launa, sem sé ólögmætt og standist  ekki, nema skilyrði til brottvikningar hafi verið fyrir hendi, sem ekki hafi verið í tilviki stefnanda. Í ljósi framanritaðs og með tilliti til stöðu stefnanda annars vegar og stefnda hins vegar beri að víkja til hliðar þessum síðari og nýja ráðningarsamningi á grundvelli 36. gr., sbr. 30. og 33. gr., laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, enda hafi legið fyrir fullgildur tímabundinn ráðningarsamningur um eina veiðiferð og þar af leiðandi hafi engin þörf verið til að útbúa nýjan ráðningarsamning til þess eins að stefndi gæti losað sig við stefnanda fyrirvaralaust og án launa í uppsagnarfresti.

Hvað lagarök varðar vísar stefnandi til 9. gr., 24. gr., 25. gr. og 27. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Þá vísar stefnandi til greina 1.10, 1.11 og 1.12 í kjarasamningi S.S.Í. og L.Í.Ú. (S.F.S.). Einnig til almennra reglna vinnuréttar um greiðslu verklauna og launa í uppsagnarfresti. Þá er vísað í III. kafla laga nr. 7/1936, einkum 30. gr., 31. gr., 33. gr. og 36. gr. Um dráttarvexti er vísað til III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Um málskostnað er vísað til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og um virðisaukaskatt til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. 

III

Af hálfu stefnda er vísað til þess að veiðiferð stefnanda hafi verið lokið þegar skip stefnda kom til hafnar til löndunar 26. júlí 2017. Rök stefnanda fyrir því að veiðiferðinni hafi ekki verið lokið vísi til ákvæða í kjarasamningi um hafnarfrí og heimild til undantekninga á hafnarfríum áhafnar. Telji stefnandi ástæðu til að leggja áherslu á það að hafnarfrí sé réttur skipverja til þess að fá frí á milli veiðiferða, en fjalli ekki um lengd veiðiferða skipsins sjálfs. Í þessu sambandi sé rétt að leggja áherslu á að skip fara ekki í hafnarfrí heldur skipverjarnir.

Stefnandi hafi komið til hafnar og fengið fullt hafnarfrí að lokinni veiðiferðinni. Öll réttindi sem sé að finna í kjarasamningi um hvíldartíma sjómanna séu einstaklingsbundin og hafi hvorki kjarasamningar né ákvæði sjómannalaga staðið í vegi fyrir því að stefnandi eða aðrir úr áhöfn færu í land 26. júlí 2017. Með sama hætti hafi kjarasamningar ekki staðið í vegi fyrir því að nýir áhafnarmeðlimir kæmu um borð þann dag. Gert hafi verið upp við hvern skipverja fyrir sig miðað við það hvað hvor veiðiferð fyrir sig hafi gefið af sér. Þar sem öllum afla skipsins hafi verið landað 26. júlí 2017 hafi verið fullkomin skil á milli þessara tveggja veiðiferða eða tveggja hluta veiðiferða, eftir því hvort skipverji hafi farið báðar ferðirnar eða aðeins aðra. Í þeim tilvikum sem skipverjar hafi farið aftur út með skipinu eftir löndun eða áður en hafnarfríi hafi verið lokið hafi slíkt verið heimilt samkvæmt ákvæði 5.29.

Stefndi hafni því þeim rökum stefnanda að ákvæði í kjarasamningi um hafnarfrí hafi með einhverjum hætti takmarkað rétt eða heimild stefnanda og skipstjóra stefnda til að ljúka ráðningu hans við heimkomu skipsins þann 26. júlí 2017. Kveðst stefndi telja að það fái ekki staðist að efni eða lögmæti samkomulags stefnanda við skipstjóra skipsins um starfslok eftir reynslutíma eigi að ráðast af því hvenær skipið hafi haldið aftur til veiða eftir löndun. Þá sé ekki rétt að skipstjóri hafi beitt heimild 1. töluliðar 1. mgr. 24. gr. sjómannalaga og vikið stefnanda úr skipsrúmi vegna þess að hann hafi verið óhæfur til starfa. Á það hafi ekki reynt hvort skipstjóri þyrfti að grípa til þessarar heimildar þar sem samkomulag hafi verið um starfslok stefnanda. Stefnandi hafi samið um að fá að koma um borð til reynslu og hann hafi samið um að þeim reynslutíma lyki þegar skipið kæmi inn til löndunar aftur 26. júlí 2017. Tilraun stefnanda til þess að halda því fram síðar að hann sé óbundinn af þeim samningi eða að hann hafi verið blekktur eða þvingaður frá borði telur stefndi vera síðari tíma tilbúning settan fram í því skyni að fá greiðslu fyrir vinnu sem stefnandi sinnti ekki eða var ráðinn til að sinna.

Þá hafni stefndi því einnig að skilyrði séu til að ógilda samning stefnanda um ráðningarlok 26. júlí 2017 á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936. Rök stefnanda fyrir þeirri málsástæðu séu þau að fyrir hendi hafi verið fullgildur ráðningarsamningur um eina veiðiferð og því hafi ekki verið ástæða til að útbúa nýjan ráðningarsamning. Telji stefnandi einnig að nýr ráðningarsamningur hafi verið útbúin í því skyni að losna við stefnanda fyrirvaralaust og án launa í uppsagnarfresti. Varðandi þessi rök stefnanda telji stefndi í fyrsta lagi að ekki hafi verið fyrir hendi fullgildur ráðningarsamningur milli aðila og aðeins liggi einn slíkur fyrir. Mynd stefnanda af ráðningarsamningi sem hann hafi sjálfur fyllt út sé hvorki undirritaður né samþykktur af skipstjóra. Óumdeilt sé að stefnandi hafi verið ráðinn til reynslu í eina veiðiferð, en slík ráðning sé tímabundin ráðning sem veiti ekki rétt til uppsagnarfrests við lok ráðningar eins og stefnandi virðist byggja á. Hinn endanlegi ráðningarsamningur sé um sama efni, það er staðfesting á tímabundinni ráðningu til reynslu í veiðiferð, ráðning sem lauk er skipið hafi komið til hafnar 26. júlí 2017 og báðir aðilar staðfestu með gerð samnings þess efnis.

Með því að ganga skýrlega frá samningi um ráðningartíma stefnanda eftir að hann hafi verið ljós og áður en hann fór í land 26. júlí 2017 hafi skipstjóri stefnda verið að ganga frá málum við stefnanda með eins skýrum og einföldum hætti og unnt hafi verið. Verði að telja að það sé til hagsbóta fyrir báða aðila. Hafi verið lögð áhersla á það í dómum Hæstaréttar Íslands að það sé skylda útgerðar að tryggja sönnun fyrir tímabundinni ráðningu, enda liggi fyrir ótal dómafordæmi í þá veru að trassaskapur við að ganga frá samningum um tímabundna ráðningu leiði til þess að ósannað teljist að um tímabundna ráðningu hafi verið að ræða. Hafi af þessari ástæðu verið lögð á það áhersla við skipstjóra á skipum stefnda að þeir gangi frá samningum um allar tímabundnar ráðningar og þeim fengið sérstakt form til þess. Leggi stefndi að auki áherslu á það að réttur stefnanda og stefnda til að semja um starfslok 26. júlí 2017 sé óháður því hvort og að hvaða leyti talið yrði að fyrir hendi hafi verið annar samningur á undan þeim samningi. Var stefnanda frjálst að semja um starfslok sín 26. júlí 2017. Þar sem stefnandi hafi fengið að fullu gert upp fyrir vinnu á ráðningartíma hans hjá stefnda, sbr. 27. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, eigi stefnandi engar kröfur á hendur stefnda.

Verði talið að stefnandi sé óbundinn af þeim tímabundna ráðningarsamningi sem hann gerði og að fyrir hendi hafi verið samningur um að hann myndi fara í þá veiðiferð sem stóð frá 26. júlí 2017 til 11. ágúst 2017, og að honum hafi verið með ólögmætum hætti vikið úr skipsrúmi 26. júlí 2017, kveðst stefndi byggja á því að bótaréttur hans samkvæmt 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 takmarkist við laun í viku, sbr. 9. gr. sjómannalaga. Bætur samkvæmt 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga séu óháðar því hvert tjón viðkomandi skipverja sé af hinum ólögmætu ráðningarslitum og þurfi þeir af þeim sökum hvorki að sanna tjón sitt né að þola frádrátt vegna tekna sem þeir afla annars staðar frá á þeim tíma sem þeir hefðu átt að njóta launa. Í ákvæðinu sé vísað til 9. gr. sjómannalaga um uppsagnarfrest varðandi þann tíma sem bætur eigi að reiknast. Sé óumdeilt að fyrir undirmann sem hafi verið 14 daga á sjó sé þessi viðmiðunartími 7 dagar.

Sérstaklega sé tiltekið í 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga að bætur samkvæmt greininni beri að greiða ef ráðningu er slitið „áður en ráðningartími hans er liðinn“, það er tekið sé berum orðum fram í ákvæðinu að það gildi komi til þess að tímabundinni ráðningu sé slitið áður en ráðningartími sé liðinn. Hæstiréttur hafi einnig skorið úr um það að bætur samkvæmt 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga eigi að taka mið af meðallaunum viðkomandi skipverja áður en komið hafi til hinna ólögmætu ráðningarslita. Því beri ekki að miða við ætluð laun eftir að hin ólögmæta uppsögn á sér stað. 

Yrði komist að þeirri niðurstöðu að stefnandi ætti rétt til bóta ættu bætur til hans að taka mið af þeim launum sem hann hafi fengið á þeim 11 dögum sem hann hafi verið til sjós áður en hin ætlaða ólögmæta brottvikning hafi átt sér stað. Bætur rétt reiknaðar væru samtals 397.382 krónur (624.457/11*7).

Stefnandi fari ekki rétt með efni 25. gr. sjómannalaga. Efnislega komi fram í 9. gr. sjómannalaga að uppsagnarfrestur sé með þeim hætti sem tilgreindur sé í greininni nema um annað hafi verið samið. Virðist mega ætla að til þessa texta sé stefnandi að vísa í málsástæðum sínum í stefnu. Samningur sá sem stefnandi heldur fram að hafi verið gerður um tímabundna ráðningu felur ekki í sér samning um uppsagnarfrest eða tiltekna breytingu á uppsagnarfresti, samkvæmt 9. gr. sjómannalaga, enda séu tímabundnir samningar ekki með uppsagnarfresti.

Verði fallist á kröfur stefnanda að einhverju leyti mótmæli stefndi kröfum um dráttarvexti enda sé krafa um dráttarvexti vanreifuð. Krafa stefnanda byggist á þeim grundvelli að hann hafi átt rétt til launa fyrir þá veiðiferð sem hafi lokið 11. ágúst 2017. Stefndi hafi lagt fram afrit af launaseðli vegna þessarar veiðiferðar hjá þeim aðila sem hafi komið í stað stefnanda. Hafi hann fengið laun sín greidd út 31. ágúst 2017. Það sé hins vegar forsenda fyrir kröfu stefnanda að samhliða sé kveðinn upp dómur um að víkja til hliðar gildandi samningi milli aðila. Telji stefndi því að dráttarvextir gætu ekki fallið á kröfuna fyrr en í fyrsta lagi frá dómi um að víkja til hliðar gildandi samningi milli aðila.

IV

Í máli þessu er deilt um það hvort stefnanda beri laun fyrir tímabilið frá 26. júlí til 11. ágúst 2017 vegna veiðiferðar skipsins […] sem er í eigu stefnda. Byggir stefnandi á því að ráðningarsamningi hans við stefnda hafi verið rift með ólögmætum hætti þegar stefnanda hafi verið vikið úr skipsrúmi áður en ráðningartími hans var liðinn. Hann hafi verið ráðinn í eina veiðiferð sem hafi lokið 11. ágúst 2017, en ekki 26. júlí 2017 þegar skipið kom til hafnað til löndunar og stefnandi fór frá borði. Stefndi mótmælir greiðsluskyldu og byggir á því að stefnandi hafi verið ráðinn til reynslu og hafi samið um starfslok við skipstjóra skipsins eftir reynslutíma þegar skipið hafi komið til löndunar 26. júlí 2017. Þá hafnar stefndi því að skipstjóri skipsins hafi beitt heimild 1. töluliðar 1. mgr. 24. gr. sjómannalaga og vikið stefnanda úr skipsrúmi vegna þess að hann hafi verið óhæfur til starfa.

Samkvæmt þessu og eins og fram kemur í kafla I að framan er ágreiningur á milli aðila um aðdraganda að starfslokum stefnanda hjá stefnda. Heldur stefnandi því fram að hann hafi verið ráðinn í eina veiðiferð hjá stefnda frá 16. júlí 2017 og hafi þeirri ferð ekki lokið fyrr en 11. ágúst 2017 en ekki 26. júlí sama ár þegar stefnandi fór frá borði. Ekki er deilt um það að stefnandi fékk greidd laun fyrir þann tíma sem hann var um borð, það er 16. júlí – 26. júlí 2017.

Stefnandi gaf skýrslu fyrir dómi við aðalmeðferð málsins. Hann greindi frá því að hann hefði undirritað ráðningarsamning fyrir eina veiðiferð fljótlega eftir fyrstu vakt sína um borð. Hefði stýrimaður skipsins komið til hans með hálfútfyllt eyðublað. Kvaðst stefnandi hafa fyllt út heimilisfang, símanúmer, starfsheiti og tengsl við skipverja. Stefnandi kvaðst hafa beðið um afrit af samningnum en ekki fengið og þá tekið þá mynd af eyðublaði því sem er í málsgögnum. Þá kom fram hjá stefnanda að talað hefði verið um það á kaffistofunni að túrinn yrði 28 dagar eins og venjulega og kvaðst stefnandi hafa miðað sínar áætlanir við það. Um síðari samninginn sagði stefnandi að hann hefði verið gerður úti á sjó 25. júlí 2017. Þrýst hefði verið á stefnanda að skrifa undir samninginn. Áður hafði skipstjórinn sagt að hann hefði ekki lengur pláss fyrir stefnanda um borð af því að hann væri áhugalaus. Sagðist stefnandi hafa skilið skipstjórann svo að hann færi í land þegar skipið landaði í Hafnarfirði. Kvaðst stefnandi hafa þakkað skipstjóranum fyrir það tækifæri sem hann fékk og hefði stýrimaðurinn komið með ráðningarsamninginn eftir samtal stefnanda og skipstjórans. Skipstjórinn hefði aldrei nefnt það að hann væri rekinn.

Af gögnum málsins og framburði stefnanda fyrir dómi þykir upplýst að stefnandi hafi verið ráðinn til reynslu hjá stefnda sem háseti á skipinu […]. Var stefnandi á skipinu á tímabilinu frá 16.-26. júlí 2017 og fékk greitt fyrir störf sín á tímabilinu. Þá er upplýst með framburði stefnanda og skriflegri samantekt hans í málsgögnum, að skipstjóri skipsins hafi kallað stefnanda til sín þegar skipið var á leið til löndunar í Hafnarfirði, tilkynnt honum það mat sitt að starfið hentaði stefnanda ekki og því kæmi ekki til þess að hann héldi áfram störfum á skipinu. Þá er fram komið að stefnandi þakkaði skipstjóra stefnda fyrir það tækifæri sem hann hefði fengið og undirritaði í kjölfarið tímabundinn ráðningarsamning fyrir tímabilið frá 16. júlí til 26. júlí 2017. Lauk þar með tímabundinni ráðningu stefnanda hjá stefnda.

Fyrir utan fullyrðingu stefnanda sjálfs er ekkert það fram komið í málinu sem gefur tilefni til að álykta á þann veg að stefnandi hafi verið beittur þvingunum eða blekkingum til að undirrita fyrrnefndan ráðningarsamning 25. júlí 2017. Er það ósannað og er því hafnað sjónarmiðum stefnanda um að samningnum verði vikið til hliðar samkvæmt heimild í 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð umboð og ógilda löggerninga. Þá verður einnig að mati dómsins að hafna þeirri málsástæðu stefnanda að hann hafi verið fenginn til þess með blekkingum að undirrita tímabundinn ráðningarsamning við stefnda, sbr. 30. gr. laga nr. 7/1936.

Af hálfu stefnanda er byggt á því að „ráðningasamningi í eina veiðiferð“ hafi verið rift með heimild í 1. tölulið 1. mgr. 24. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Samkvæmt nefndu ákvæði getur skipstjóri vikið skipverja úr skipsrúmi reynist hann óhæfur til þess starfa sem hann var ráðinn til. Er það með öllu ósannað í málinu. Í fyrrnefndri skriflegri samantekt stefnanda segir að skipstjóri skipsins hafi kvatt stefnanda á sinn fund og greint honum frá því að ekki væri lengur pláss fyrir hann um borð og gefið þær skýringar aðspurður að stefnandi væri áhugalaus. Þá sagði stefnandi aðspurður að skipstjórinn hefði aldrei nefnt að hann væri rekinn. Að mati dómsins verður ekki annað ráðið af framburði stefnanda en að síðari samningurinn hafi að geyma efni samkomulags hans við skipstjóra stefnda og vilja stefnanda til að láta af störfum eftir tiltekinn reynslutíma um borð. Hvað varðar þann „samning“ sem stefnandi vísar til um „eina veiðiferð“ þá liggur fyrir að eyðublað samningsins er óundirritað af skipstjóra skipsins og er því óskuldbindandi fyrir stefnda.

Óumdeilt er að skipið landaði afla í Hafnarfjarðarhöfn 26. júlí 2017 og fór stefnandi frá borði þann dag. Einnig liggur fyrir að skipið hélt á ný til veiða sama dag. Málatilbúnaður stefnanda og kröfur í málinu eru byggðar á því að löndun sú sem fram fór í Hafnarfjarðarhöfn 26. júlí 2017 hafi verið svonefnd millilöndum og hafi veiðiferðinni í raun ekki verið lokið fyrr en 11. ágúst sama ár þegar skipið landað afla næst.

Í grein 5.29 í kjarasamningi Landssambands íslenskra útvegsmanna, Samtaka atvinnulífsins og Sjómannasambands Íslands segir að útivist skips reiknist frá því að skipið leggur af stað úr höfn í veiðiferð til þess tíma sem skip kemur til hafnar og hafnarfrí hefst. Þá segir að hafnarfrí skuli vera ein klukkustund fyrir hverjar 6½ klukkustund af útivistartíma skips en aldrei skemmri tími en 30 klukkustundir að lokinni útivist hverju sinni. Í sömu grein segir að skipverjar skuli eiga rétt á fríi þriðju hverja veiðiferð. Ekki sé þó skylt að veita fleiri en þriðjungi skipverja frí í hverri veiðiferð til þess að tryggja eðlilega vinnslu um borð. Samkvæmt þessu er ekki gert ráð fyrir því í fyrrnefndum kjarasamningi að skipverjar fái hafnarfrí eftir hverja veiðiferð þó að þeim sé tryggð frítaka í þriðju hverri veiðiferð. Í sama ákvæði samningsins segir að tvisvar á ári sé heimilt í hagræðingarskyni að ljúka ekki veiðiferð þó að komið sé til hafnar og hluta af aflanum landað úr skipinu.

Samkvæmt upplýsingum í málsgögnum landaði skipið […] reglubundið tvisvar í mánuði á síðari hluta fiskveiðiársins 2016-2017, það er mánuðina maí, júní, júlí og ágúst 2017, en þrisvar í apríl og einu sinni í mars það ár. Fallist er á skýringar og rök stefnda í þá veru að hafnarfrí sé einstaklingsbundinn réttur skipverja til að fá frí á milli veiðiferða, en fjalli ekki um lengd veiðiferða. Að mati dómsins er ósannað að stefnanda hafi verið greint frá því af skipstjórnarmönnum stefnda að veiðiferð skipsins sem hófst 16. júlí 2017 myndi standa í 28 daga. Er sú fullyrðing stefnanda engum gögnum studd. Samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu um landanir skipsins á fiskveiðiárinu 2016-2017 var lengd veiðiferða skipsins á fiskveiðiárinu á bilinu 12-20 dagar. Ef litið er til þess tíma sem líður á milli þess sem skipið landar afla og þess afla sem skipið landaði 26. júlí og 11. ágúst 2017 fæst ekki annað séð en að um tvær veiðiferðir hafi verið að ræða á tímabilinu frá 16. júlí til 11. ágúst 2017. Hafði skipið verið á veiðum í 11 daga þegar það landaði 26. júlí og 16 daga þegar það landaði 11. ágúst 2017. Er ekki annað fram komið í málinu en að öllum afla hafi verið landað úr skipinu 26. júlí 2017 áður en það hélt aftur til veiða þann sama dag. Ekki var því um svonefnda millilöndun að ræða þann dag.

Að því virtu sem nú er fram komið er við úrlausn málsins miðað við það að stefnandi sé bundinn af tímabundnum ráðningarsamningi sem hann kveðst hafa undirritað 25. júlí 2017 og að veiðiferðinni hafi lokið degi síðar þegar skipið landaði í Hafnarfirði og stefnandi fór frá borði. Samkvæmt því og öðru sem að framan er rakið ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu. Þrátt fyrir þá niðurstöðu þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður.

Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Nesfiskur ehf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Stefáns Arnar Snæbjörnssonar.

Málskostnaður fellur niður.

 

Jón Höskuldsson