• Lykilorð:
  • Laun
  • Uppsagnarfrestur
  • Vinnulaunamál

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness föstudaginn 30. nóvember 2018 í máli nr. E-386/2018:

Martin Meyer

(Guðmundur Birgir Ólafsson lögmaður.)

gegn

Skaganum netverslun ehf.

(Úlfar Freyr Jóhannsson lögmaður.)

 

Mál þetta, sem þingfest var 24. apríl sl. og dómtekið 27. nóvember sl., var höfðað með stefnu, birtri 20. apríl 2018.

            Stefnandi er  Martin Mayer, kt. 000000-0000, Hamraborg 26, Kópavogi. Stefndi er Skaginn netverslun ehf., kt. 000000-0000, Flugvallarbraut 752, 235 Reykjanesbæ.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru að hið stefnda félag verði dæmt til að greiða stefnanda laun og orlof að fjárhæð 417.410 krónu ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. janúar 2018 af 3.844 til 1. febrúar 2018 en af 260.688 krónum frá þeim degi til 1. mars 2018 en af 417.410 krónum frá þeim degi til greiðsludags. 

Þess er krafist að dæmt verði að dráttarvextir skuli leggjast við höfuðstól á tólf mánaða fresti, í fyrsta sinn þann 1. janúar 2018 en síðan árlega þann dag.

Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins. Krafist er vaxta af málskostnaði skv. 3. kafla vaxtalaga frá 15. degi eftir uppkvaðningu dóms til greiðsludags. Einnig er krafist virðisaukaskatts af málskostnaði þar sem stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyldur.

            Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar.

            Við aðalmeðferð málsins breytti stefnandi dómkröfum sínum þannig að til frádráttar heildarkröfunni komi greiðsla þann 3. janúar 2017 að fjárhæð 253.000 krónur í staðinn fyrir 204.619 krónur eins og tilgreint er í stefnu. Breytist vaxtakrafa stefnanda til samræmis við þessa breytingu.

Málsatvik.

Stefnandi starfaði sem sölumaður eða verslunarstjóri hjá stefnda frá 1. desember 2017 þar til hann lét af störfum 10. febrúar 2018. Var starfsstöð hans í verslun sem stefnandi var með í Firðinum í Hafnarfirði. Kvaðst stefnandi hafa starfað í 100% starfi og var hans hlutverk að  sjá um gerð heimasíðu fyrir Oshop, síðar Icehop og afla viðskipta og viðskiptavina. Óumdeilt er að stefndi lokaði versluninni um áramótin 2016/2017. Kvaðst stefnandi þá hafa unnið áfram að gerð heimasíðunnar á heimili stefnanda að Vesturgötu 4 í Reykjavík en þar hafi lager netverslunarinnar einnig verið. Stefnandi kvað vinnutíma sinn hafa verið frá klukkan 10.00 til 18.00 alla virka daga en hann hafi ekki haft lykil að verslunarhúsnæðinu og því ekki komist inn fyrr en fyrirsvarsmenn stefndu mættu sem hafi oft verið seint. Vitnið Óskar Axel Óskarsson kvað verslunina hins vegar hafa opnað klukkan 11.00 á morgnanna en mundi ekki hvort stefnandi hafði lykil að húsnæðinu eða ekki. Ekki er ágreiningur á milli aðila um að stefnandi hafi í janúar og byrjun febrúar tekið þátt í því að fara í fyrirtæki og safna styrkjum vegna styrktarsjóðs í minningu Sigurborgar móður Óskars Axels en stefnandi hélt því fram að það hafi verið hluti af starfi hans að beiðni stefnda en stefndi heldur því fram að stefnandi hafi unnið það starf í sjálfboðavinnu. 

            Í gögnum málsins liggur fyrir skjal dagsett 3. febrúar 2017 frá Oshop ehf. þar sem stefnanda er sagt upp störfum vegna samdráttar fyrirtækisins og hafi aðilar komið sér saman um að stefnandi ljúki störfum í lok vinnudags 10. febrúar 2017. Þá liggur fyrir vottorð vinnuveitanda til Vinnumálastofnunar undirritað af fyrirsvarsmanni stefnda þann10. febrúar 2017 þar sem kemur fram að stefnandi hafi starfað frá 1. desember 2016 til 10. febrúar 2017 í 100% starfi hjá stefnda. Er kennitala launagreiðanda sögð 000000-0000.

            Með bréfi dagsettu 6. mars 2017 frá Verslunarmannafélagi Reykjavíkur til stefnda er félagið krafið um ógreidd laun stefnanda. Með bréfi lögmanns stefnanda þann 20. mars 2017 var stefnandi krafinn um vangreidd laun ásamt orlofi. Stefna var síðan birt stefnda þann 20. apríl 2018 eins og fyrr segir.

            Samkvæmt tölvupósti sem liggur fyrir í málinu greiddi stefnandi stefnda 253.000 krónur í laun vegna desembermánaðar þann 3. janúar 2017 en gaf ekki út lögbundinn launaseðil heldur dró af launum stefnanda staðgreiðslu skatta og lífeyrissjóðsiðgjöld.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir kröfu sína á því að hann eigi rétt á launum vegna vinnuframlag síns í þágu stefnda þar til hann hætti störfum 10. febrúar 2017 ásamt orlofi frá 1. desember 2016 til 10. febrúar 2017. Byggir stefnandi kröfu sína á grein 1.1. í kjarasamningi VR og SA um lágmarkslaun en þar segir að lágmarkslaun fyrir starfsmann sem orðinn er 22. ára skuli vera 256.844 krónur á mánuði. Stefnandi hafi ekki fengið frekari launagreiðslur en þann 3. janúar að fjárhæð 253.000 krónur. Því eigi hann inni ógreidd laun fyrir vinnuframlag sitt. Stefnandi kvaðst hafa unnið fyrir stefnda eftir að netverslun stefnda lokaði að beiðni stefnda með því að fara í fyrirtæki með myndband sem hann hafi sýnt væntanlegum viðskiptavinum eða styrktaraðilum og boðið til sölu pappír. Hafi Óskar Axel ekið sér og eiginkonu sinni á milli fyrirtækja og beðið eftir þeim á meðan þau kynntu myndbandið. Hafi stefnandi unnið þau störf fyrir stefnda sem stefndi lagði til og hafi þessi sölu og styrksöfnum verið hluti af því.

            Stefnandi byggir á grein 1.9. í kjarasamningi VR og SA sem gildi frá 1. mai 2015 en þar segi að laun eigi að greiðast fyrsta dag eftir að mánuði þeim lýkur sem laun eru greidd fyrir. Að auki skuli vinnuveitandi greiða áunnið orlof til launþega við lok ráðningasambands skv. 8. gr. orlofslaga nr. 30/1987.

            Þá byggir stefnandi á lögum nr. 7/1936 um samningsbrot o.fl. meginreglur kröfuréttar, meginreglur vinnuréttar, kjarasamninga VR og vinnuveitenda og bókanir sem teljast hluti kjarasamnings. Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 og kröfu um málskostnað við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 4. tl. 129. gr. sömu laga.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Af hálfu stefnda er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda. Byggir stefndi aðallega á því að ósannað sé að stefnandi hafi unnið 100% vinnu þar sem hann hafi ekki hafið störf fyrr en kl. 11.00 á morgnanna og hafi ekki uppfyllt lágmarks vinnuskyldu sína til að teljast vera í 100% starfshlutfalli. Þá hafi stefnandi unnið í sjálfboðavinnu í janúar 2018 þar sem hann hafi ætlað að fara til Þýskalands í skóla. Hafi hann ekki verið á launum við að kynna styrktarmyndbandið. Þá hafi stefnandi krafist þess að uppsagnarbréfið hafi verið undirritað og tilkynningin til Vinnumálastofnunar en fyrirsvarsmaður stefnda, Sigríður hafi alls ekki viljað skrifa undir þá tilkynningu en gert það að beiðni vitnisins Óskars.

Skýrslur fyrir dómi.

Stefnandi gaf skýrslu fyrir dóminum. Sigríður Sigurðardóttir fyrirsvarsmaður stefnda óskaði eftir því að gefa ekki skýrslu fyrir dómi. Þá gaf vitnið Óskar Axel Óskarsson skýrslu fyrir dóminum en vitnið er eiginmaður fyrirsvarsmanns stefnda.Verður vitnað til framburða þeirra eftir því sem þörf þykir.

Forsendur og niðurstaða.

Ágreiningslaust er að stefnandi hóf störf hjá stefnda 1. desember 2016. Þá er ekki ágreiningur um að versluninni sem stefndi rak í Firðinum, var lokað um áramótin 2016/2017. Þá er ekki ágreiningur um að stefnandi hafi áfram starfað í þágu stefnda en stefndi kveður stefnanda hafa unnið í sjálfboðavinnu eftir 1. janúar 2018 og eigi því ekki rétt á launum fyrir það tímabil. Ekki er tölulegur ágreiningur í málinu utan að stefndi heldur því fram að stefnandi hafi ekki unnið 100% starfshlutfall.

            Í gögnum málsins liggur fyrir uppsagnarbréf stefnda dagsett 3. febrúar 2017 þar sem samið er um að stefnandi hætti störfum 10. febrúar 2017. Þá liggur einnig fyrir tilkynning frá stefnda til Vinnumálastofnunar þar sem tilkynnt er að stefnandi hafi unnið 100% starf hjá stefnda frá 1. desember 2016 til 10. febrúar 2017. Vitnið Óskar kvað fyrir dóminum og í greinargerð sinni að þau skjöl hafi verið málamyndagjörningar.

Þar sem fyrir liggur að stefnandi starfaði á vegum stefnda eftir 1. janúar 2017 til 10. febrúar 2017, telur dómurinn fjarstæðukennt að stefnandi hafi verið í sjálfboðavinnu fyrir stefnda á umræddu tímabili og ekki átt að bera neitt úr bítum fyrir þá vinnu. Í gögnum málsins liggja fyrir tölvupóstsamskipti milli aðila allt til 31. janúar 2017 þar sem verið er að ræða um gerð heimasíðu fyrir stefnda. Er sú málsástæða stefnda um að stefnandi hafi verið í sjálfboðavinnu haldslaus og að engu hafandi. 

            Þann 3. janúar 2017 fékk stefnandi greidd laun samtals 253.000 krónur fyrir desembermánuð sem eru laun undir lágmarkslaunum samkvæmt kjarasamningi VR og SA. Ber stefna að greiða stefnanda allt að lágmarkslaunum samkvæmt kjarasamningi auk áunnins orlofs eins og gerð er krafa um í stefnu.       

Að öllu framansögðu virtu verða dómkröfur stefnanda teknar til greina eins og segir í dómsorði.

Að þessum niðurstöðum fengnum og með vísan til 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 500.000 krónur í málskostnað. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Ekki eru efni til að dæma að dráttarvextir leggist við höfuðstól á tólf mánaða fresti, eins og krafist er í stefnu, með vísan til 12. gr. laga nr. 38/2001.

Dóm þennan kveður upp Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari.

 

Dómsorð.

Stefndi, Skaginn netverslun ehf., skal greiða stefnanda, Martin Mayer, 417.410 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. janúar 2018 af 3.844 til 1. febrúar 2018 en af 260.688 krónum frá þeim degi til 1. mars 2018 en af 417.410 krónum frá þeim degi til greiðsludags.          

Stefndi greiði stefnanda í málsvarnarlaun 500.000 krónur.