• Lykilorð:
  • Játningarmál
  • Umferðarlagabrot
  • Ökuréttarsvipting

D ÓM U R

Héraðsdóms Reykjaness þriðjudaginn 2. apríl 2019 í máli nr. S-24/2019:

 

Ákæruvaldið

(Sigurður Pétur Ólafsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Sigurbirni Einarssyni

(Þórhallur Haukur Þorvaldsson lögmaður)

 

            Mál þetta, sem var tekið til dóms 7. mars 2019, höfðaði lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu með ákæru 15. janúar 2019, á hendur Sigurbirni Einarssyni, kt. 000000-0000, [...];

,,fyrir hegningar- og umferðarlagabrot, með því að hafa mánudaginn 13. febrúar 2017 á Akureyri ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti, óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 60 ng/ml og auk þess fannst metamfetamín, metýlfenídat, kókaín, tetrahýdrókannabínólsýra og kódein í þvagi) og er lögregla hafði afskipti af honum leitast við að koma því til leiðar að saklaus maður yrði sakaður um aksturinn er ákærði skýrði rangt frá nafni sínu og kennitölu og framvísaði ökuskírteini [...], kt. 000000-0000 og gaf ekki upp hver hann raunverulega var fyrr en eftir að lögreglumenn uppgötvuðu að svo var ekki eftir að komið var á lögreglustöð.

Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr. og 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. a., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006 og 3. gr. laga nr. 24/2007 og auk þess við 148. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar, til sviptingar ökuréttar skv. 101. gr. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006.“

Af hálfu ákærða er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá gerir verjandi ákærða kröfu um hæfilega þóknun sér til handa.

 

Við fyrirtöku málsins 7. mars 2019 kom ákærði fyrir dóm og játaði sök. Í ljósi játningar ákærða var farið með málið samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Var málið því tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði máls og ákvörðun viðurlaga.

Ákærði hefur skýlaust játað sök í málinu. Að mati dómsins samrýmist játning hans framkomnum gögnum. Brot ákærða teljast því sönnuð og eru réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Ákærði er fæddur [...] og á samkvæmt framlögðu sakavottorði að baki sakaferil sem nær aftur til 2009. Ákærði gekkst undir sektargerð lögreglustjóra 4. júní 2009 þess efnis að ákærði samþykkti greiðslu 75.000 króna sektar og að sæta sviptingu ökuréttar í þrjá mánuði fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og án þess að hafa ökuskírteini meðferðis. Með viðurlagaákvörðun 2. desember 2009 samþykkti ákærði greiðslu 580.000 króna sektar og að sæta sviptingu ökuréttar í fjögur ár, fyrir akstur sviptur ökurétti og undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Ákærði var dæmdur í þriggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið til þriggja ára, með dómi 14. nóvember 2011 fyrir skjalafals og fíkniefnalagabrot. Með dómnum var 30 daga skilorðsbundin fangelsisrefsing sem ákærði hlaut með dómi 4. júní 2010 fyrir brot gegn valdstjórninni dæmd upp og ákærða gerð refsing í einu lagi. Ákærði var dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi og var sviptur ökurétti ævilangt með dómi 7. desember 2012 fyrir akstur sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis, en með dómnum var áðurnefndur skilorðsdómur frá 14. nóvember 2011 dæmdur upp og ákærða gerð refsing í einu lagi. Með dómi 29. janúar 2013 var ákærði dæmdur í 15 daga fangelsi og ævilöng ökuréttarsvipting hans áréttuð fyrir akstur sviptur ökurétti og undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Ákærði framdi brotin fyrir uppkvaðningu áðurnefnds dóms frá 7. desember 2012, og var því gerður hegningarauki samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með dómi 2. október 2014 var ákærði dæmdur í sex mánaða fangelsi, þar af voru þrír mánuðir skilorðsbundnir til þriggja ára, fyrir akstur sviptur ökurétti og fíkniefnalagabrot. Með dómnum var þriggja mánaða skilorðsbundin fangelsisrefsing sem ákærði hlaut fyrir fíkniefnalagabrot með dómi frá 6. desember 2013 dæmd upp og ákærða gerð refsing í einu lagi. Ákærði var dæmdur í sjö mánaða fangelsi með dómi 20. desember 2016 fyrir akstur sviptur ökurétti, en með dómnum var áðurnefndur skilorðsdómur frá 2. október 2014 auk 67 daga eftirstöðvar reynslulausnar dæmd upp og ákærða gerð refsing í einu lagi.

Samkvæmt því sem að framan greinir um brotaferil ákærða og að brotum hans virtum, sbr. 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þykir refsing ákærða réttilega ákveðin fangelsi í fimm mánuði.

Með vísan til 3. mgr. 101. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 er ævilöng ökuréttarsvipting ákærða áréttuð.

Samkvæmt 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður ákærði dæmdur til greiðslu sakarkostnaðar sem, samkvæmt framlögðu yfirliti sækjanda um slíkan kostnað og með stoð í öðrum framlögðum gögnum, nemur samtals 266.431 krónum. Þá greiði ákærði þóknun skipaðs verjanda síns, Þórhalls Hauks Þorvaldssonar lögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 168.640 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Margrét Halldóra Hallgrímsdóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ:

            Ákærði, Sigurbjörn Einarsson, sæti fangelsi í fimm mánuði.

            Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt.

            Ákærði greiði 435.071 krónur í sakarkostnað, þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns, Þórhalls Hauks Þorvaldssonar lögmanns, 168.640 krónur.

 

Margrét Halldóra Hallgrímsdóttir